Úrval úr ritum Bahá’u’lláh fyrir bahá’í helgidaga
Naw-rúz
Riḍván
Uppstigning Bahá’u’lláh
Píslarvætti Bábsins
Fæðingarhátíð Bábsins
Fæðingarhátíð Bahá’u’lláh
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Lofaður sért Þú, ó Guð minn, fyrir að hafa gert naw-rúz að hátíð fyrir þá sem hafa haldið föstuna vegna ástar á Þér og neitað sér um allt sem Þér er andstyggð. Gef, ó Drottinn minn, að eldur ástar Þinnar og funinn sem glæddist á föstunni sem Þú fyrirskipaðir, megi upptendra þá í málstað Þínum og gera þá upptekna af lofgjörð til Þín og hugsun um Þig.
Þar sem Þú hefur skrýtt þá, ó Drottinn minn, skarti föstunnar sem Þú mæltir fyrir um, skrýð þá einnig skarti viðtöku Þinnar sakir náðar Þinnar og örlátrar hylli. Því að gerðir allra manna eru háðar velþóknun Þinni og skilyrtar af skipan Þinni. Ef Þú litir þann sem hefur rofið föstuna sömu augum og þann sem hefur haldið hana, yrði sá hinn sami talinn til þeirra sem frá eilífð hafa haldið föstuna. Og ef Þú skyldir ákvarða að sá sem hefur haldið föstuna hafi rofið hana, yrði hann talinn til þeirra sem hafa flekkað kyrtil opinberunar Þinnar dusti og verið fjarri kristaltærum vötnum þessa lifandi brunns.
Þú ert sá sem hafið hefur á loft táknið „Lofsverður ert Þú í verkum Þínum“ og breitt úr gunnfánanum „Fyrirmælum Þínum ber að hlýðnast“. Gef þjónum Þínum, ó Guð minn, þekkingu á þessari stöðu svo að þeir vakni til vitundar um að ágæti alls er háð boði Þínu og orði og að dyggð sérhvers verks skilyrðist af leyfi Þínu og velþóknun vilja Þíns og þeir megi skilja að verk mannanna eru í höndum viðtöku Þinnar og boða. Ger þeim þetta ljóst svo að alls ekkert megi útiloka þá frá fegurð Þinni á þessum dögum þegar Kristur hrópar: „Allt veldi sé Þitt, ó Þú getandi andans (Jesús)“; og vinur Þinn (Múhameð) kallar: „Dýrð sé Þér, ó Þú ástkærasti, að Þú hefur afhjúpað fegurð Þína og ritað niður fyrir Þína útvöldu það sem mun láta þá ná til aðseturs opinberunar Þíns mesta nafns. Sakir þess hafa allir menn kveinað nema þeir sem hafa leyst sig frá öllu nema Þér og snúið sér til Hans sem opinberar sjálfan Þig og birtir eigindir Þínar.“
Hann sem er grein Þín og allir félagar Þínir, ó Drottinn minn, hafa rofið föstuna á þessum degi eftir að hafa haldið hana innan mæra hirðar Þinnar og í ákefð sinni að þóknast Þér. Fyrirhuga honum og þeim og öllum sem hafa gengið í návist Þína á þessum dögum allt hið góða sem Þú ákvarðaðir í bók Þinni. Veit þeim því það sem fulltingir þeim, bæði í þessu lífi og því sem kemur.
Þú ert í sannleika sá sem allt þekkir, hinn alvitri.
Í nafni Hans sem varpað hefur ljóma sínum yfir alla sköpunina!
Vorið himneska er komið, ó upphafnasti Penni, því að hátíð Hins almiskunnsama nálgast óðum. Rís til dáða og mikla nafn Guðs frammi fyrir allri sköpuninni og vegsama lof Hans svo að allt sem skapað er megi lifna við og endurnýjast. Tala og ver ekki þögull. Fagnaðarsól rís skínandi yfir sjónhring nafns Vors, hins alsæla, því að nafn Drottins þíns, skapara himnanna, hefur prýtt ríki Guðs djásnum sínum. Rís upp frammi fyrir þjóðum jarðar og vopnast afli Hins mesta nafns og heyr ekki til hinum seinlátu.
Mér virðist sem þú hafir numið staðar á töflu Minni og hreyfist ekki. Gæti birta hinnar guðdómlegu ásýndar hafa gert þig ráðalausan eða fánýtt hjal hinna vegvilltu fyllt þig hryggð og dregið úr þér mátt? Varast að láta nokkuð koma í veg fyrir að þú vegsamir mikilleika þessa dags – daginn þegar hönd tignar og valds hefur rofið innsiglið af víni endurfunda og kallað alla sem eru á himnum og alla sem eru á jörðu. Vilt þú heldur halda kyrru fyrir þegar blærinn sem boðar dag Guðs hefur leikið um þig eða telst þú með þeim sem hyljast Honum líkt og með blæju?
Alls engri blæju hef ég, ó Drottinn allra nafna og skapari himnanna, leyft að byrgja mér sýn á dýrlegan ljóma dags Þíns – þess dags sem er lampi leiðsagnar öllum heimi og tákn Hins aldna öllum sem þar dvelja. Ástæðan fyrir þögn minni eru blæjurnar sem hafa blindað augu skepna Þinna á Þér, og það sem gerir mig orðlausan eru hindranirnar sem aftra lýði Þínum frá því að viðurkenna sannleika Þinn. Þú veist hvað býr í mér, en ég veit ekki hvað býr í Þér. Þú ert sá sem allt þekkir, sá sem allt veist. Ég sver við nafn Þitt sem er öllum nöfnum fremra. Ef hæstráðandi og alltknýjandi skipun Þín bærist mér nokkru sinni, myndi hún gera mér kleift að endurlífga sálir allra manna með upphafnasta orði Þínu, sem ég hef heyrt rödd valds Þíns mæla í ríki dýrðar Þinnar. Hún myndi gera mér megnugt að kunngera opinberun geislandi ásýndar Þinnar. Í krafti hennar hefur allt, sem var hulið augum manna, verið leitt fram í dagsljósið í Þínu nafni, hins augljósa og æðsta verndara, þess sem er sjálfum sér nógur.
Kemur þú auga á nokkuð nema Mig, ó Penni, á þessum degi? Hvað hefur orðið af sköpunarverkinu og öllum birtingum þess? Hvað um nöfnin og ríki þeirra? Hvert hefur allt hið sýnilega og ósýnilega horfið? Hvað um hulda leyndardóma alheimsins og opinberanir hans? Sjá, öll sköpunin hefur liðið undir lok! Ekkert er eftir nema ásjóna Mín, hins eilífa og geislandi, hins aldýrlega.
Þetta er dagurinn þegar ekkert sést nema birtan af ljósi ásýndar Drottins Þíns, hins náðuga og gjöfulasta. Vissulega höfum Vér deytt sérhverja sál með ómótstæðilegu og alltsigrandi drottinvaldi Voru. Vér höfum síðan kallað til tilvistar nýja sköpun sem tákn um miskunn Vora við mennina. Ég er í sannleika hinn algjöfuli, hinn aldni.
Þetta er dagurinn þegar hin ósýnilega veröld hrópar: „Mikil er blessun þín, ó jörð, því þú hefur verið gerð að fótskemli Guðs þíns, útvalin sem aðsetur voldugs hásætis Hans.“ Ríki dýrðarinnar kallar: „Mætti lífi mínu verða fórnað sakir þín, því að Ástvinur Hins almiskunnsama hefur grundvallað á þér herradóm sinn með valdi nafns síns, sem er fyrirheit alls sem skapað er, hvort heldur er í fortíð eða framtíð.“ Þetta er dagurinn þegar allt sem ilmar hefur fengið angan sína frá ilmi klæða Minna – klæða sem hafa borið ilman sína yfir alla sköpunina. Þetta er dagurinn þegar kliðandi vötn eilífs lífs hafa fossað frá vilja Hins almiskunnsama. Hafið hraðann á af hjarta og sál og drekkið fylli yðar, ó herskarar ríkisins á hæðum!
Seg: Hann er opinberandi hins óþekkjanlega, leyndastur allra leynidóma, ef þér aðeins vissuð. Hann hefur afhjúpað fyrir augum yðar hina duldu og dýrmætu gersemi, ef þér leituðuð hennar. Hann er eini ástvinur alls sem er, hvort heldur er í fortíð eða framtíð. Ef aðeins þér festuð vonir yðar og hjörtu við hann!
Vér höfum heyrt bænarrödd þína, ó Penni, og fyrirgefum þögn þína. Hvað hefur valdið þér slíkri hugraun?
Ölvun návistar Þinnar, ó Ástvinur allra veraldanna, hefur náð valdi á mér og hrifið mig.
Rís upp og kunnger allri sköpuninni þau tíðindi að Hinn almiskunnsami hafi beint skrefum sínum til Riḍván og gengið þar inn. Leið síðan mennina til garðs unaðar sem Guð hefur gert að veldisstóli paradísar sinnar. Vér höfum útvalið þig sem máttugasta lúður Vorn og hljómur hans verður til marks um upprisu alls mannkyns.
Seg: Þetta er paradísin þar sem vín málsins hefur ritað í laufskrúð svofelldan vitnisburð: „Hann sem var hulinn augum manna hefur verið opinberaður, gyrtur valdi og yfirráðum!“ Þetta er paradísin þar sem þessi orð þjóta í laufi: „Ó þér sem byggið himnana og jörðina! Það sem augun aldrei fyrr hafa litið hefur nú birst. Hann sem frá eilífu hefur hulið ásýnd sína augum sköpunarinnar er kominn.“ Frá andvaranum sem hvíslar í greinum hennar berst ákallið: „Hinn allsráðandi Drottinn er opinberaður. Ríkið er Guðs.“ Og frá niðandi vötnum hennar heyrist hvíslað: „Öll augu hafa glaðst því Hann sem enginn hefur séð og sem býr yfir leyndardómi sem enginn hefur uppgötvað hefur fellt blæju dýrðar og afhjúpað ásýnd fegurðar.“
Innan þessarar paradísar og frá hæðum hennar hafa meyjar himinsins kallað: „Fagnið þér íbúar ríkjanna á hæðum því að hendur Hans, sem er hinn aldni, hringja í nafni Hins aldýrlega, hinni hæstu klukku, í miðju hjarta himnanna. Hendur veglyndis hafa borið fram bikar eilífs lífs. Komið nær og drekkið fylli yðar. Drekkið með mikilli velþóknun, ó þér sem eruð líkamning löngunar, ó þér holdtekjur heitrar ástríðu!“
Þetta er dagurinn þegar Hann sem er opinberandi nafna Guðs hefur stigið út úr tjaldbúð dýrðar og kunngert öllum sem eru á himnum og öllum sem eru á jörðu: „Leggið frá yður kaleika paradísar og allt lífsvatnið sem þeir innihalda, því sjá, fylgjendur Bahá hafa gengið inn í sælan reit himneskrar nálægðar og bergt á víni endurfunda úr bikar fegurðar Drottins síns, eiganda alls, hins hæsta.“
Gleym heimi sköpunarinnar, ó Penni, og snú þér að ásýnd Drottins þíns, Drottins allra nafna. Skrýð síðan heiminn með djásninu af gjöfum Drottins þíns, konungs eilífðarinnar. Því að Vér finnum ilminn af þeim degi þegar Hann, eftirlöngun allra þjóða, hefur úthellt yfir ríki hins sýnilega og ósýnilega dýrðarljóma ágætustu nafna sinna og upplýst þau ljósi mestu vildargjafa sinna. Enginn getur fest tölu á þeim gjöfum nema Hinn alvaldi verndari allrar sköpunarinnar.
Lít ekki á skepnur Guðs öðrum augum en gæsku og miskunnar, því að ástrík forsjón Vor hefur gagntekið allt sem skapað er og náð Vor umlukið jörðina og himnana. Þetta er dagurinn þegar sannir þjónar Guðs dreypa á lífsvatni endurfunda, dagurinn þegar þeir sem eru nálægir Honum geta drukkið úr lygnu fljóti ódauðleikans og þeir sem trúa á einingu Hans, vín návistar Hans, með því að viðurkenna Hinn hæsta og hinsta, sem kallar með rödd tignar og dýrðar: „Ríkið er Mitt. Ég er sjálfur í Mínum eigin rétti herra þess.“
Laðið að yður hjörtu manna með kalli Hans, ástvinarins eina. Seg: Þetta er rödd Guðs, ef þér aðeins hlýdduð á hana. Þetta er sól opinberunar Guðs, ef aðeins þér vissuð. Þetta er dagsbrún málstaðar Guðs, bæruð þér aðeins kennsl á hana. Þetta er uppspretta boða Guðs, ef aðeins þér dæmduð af sanngirni. Þetta er hinn augljósi og huldi leyndardómur, ef aðeins þér gætuð skynjað það. Ó þjóðir heimsins! Varpið frá yður í Mínu nafni, sem er hverju nafni æðra, því sem þér eigið og sökkvið yður í þetta haf sem geymir í djúpum sér perlur visku og orðræðu, hafið sem ólgar í Mínu nafni, hins almiskunnsama. Þannig uppfræðir yður Hann sem hefur í hendi sér móðurbókina.
Ástvinurinn er kominn. Í hægri hönd Hans er innsiglað vín nafns Hans. Sæll er sá sem hefur snúið sér til Hans, drukkið nægju sína, og hrópað: „Lofaður sért Þú, ó opinberandi tákna Guðs!“ Ég sver við réttlæti Hins almáttuga! Allt sem var hulið hefur verið afhjúpað með valdi sannleikans. Allar gjafir Guðs hafa verið sendar niður sem tákn um náð Hans. Vötn eilífs lífs hafa í gnótt sinni verið boðin mönnunum. Hendur Ástvinarins hafa reitt fram sérhvern bikar. Komið nær og staðnæmist ekki, þótt ekki sé nema eitt andartak.
Sælir eru þeir sem hafa svifið á vængjum aðskilnaðar og náð þeirri tignarstöðu, sem að boði Guðs yfirskyggir alla sköpunina, þeir sem hvorki fánýtum hugarórum hinna lærðu né herskörum jarðarinnar hefur tekist að snúa frá málstað Hans. Hver á meðal yðar, ó þér menn, ætlar að afneita heiminum og nálgast Guð, Drottin allra nafna? Hvar er sá sem með afli nafns Míns, sem er ofar öllu sköpuðu, ætlar að varpa því frá sér sem mennirnir eiga og halda af öllum mætti fast við það sem Guð, þekkjandi hins sýnilega og ósýnilega, hefur beðið hann að hafa í heiðri? Þannig hafa vildargjafir Hans verið sendar niður yfir alla menn, vitnisburður Hans fullkomnaður og staðfesting Hans skinið yfir sjónhring miskunnar. Mikið endurgjald fellur í skaut þeim sem hefur trúað og hrópað: „Lofaður sért Þú, ó ástvinur allra veraldanna! Miklað sé nafn Þitt, ó Þú þrá sérhvers hjarta sem skilur!“
Fagnið með dýrlegri gleði, ó fylgjendur Bahá, þegar þér minnist þess æðsta hamingjudags, þegar rödd Hins aldna hljómaði er Hann gekk frá bústað sínum og hélt á þann stað þar sem Hann fyllti alla sköpunina ljóma nafns síns, hins almiskunnsama. Guð ber Oss vitni. Ef Vér ljóstruðum upp huldum leyndardómum þess dags, mundu allir sem dvelja á himnum og jörðu líða í ómegin og deyja, nema þeir sem eru undir verndarhendi Guðs, hins almáttuga og alvísa, hins alvitra.
Slík eru ölvandi áhrif orða Guðs á Hann, sem er opinberandi órækra sannana hans, að penni Hans getur ekki lengur skrifað. Með þessum orðum lýkur Hann töflu sinni: „Enginn er Guð nema Ég, hinn upphafnasti og voldugasti, hinn ágætasti, sá sem allt þekkir.“
Fegurðin heilaga stafaði ljóma sínum handan blæjunnar. Hve undursamlegt er það, já, hve undursamlegt!
Og sjá, eldur algleymis lét allar sálir falla í ómegin. Hve undursamlegt er þetta, já, hve undursamlegt!
Þær hófust upp og svifu til laufskálans helga undir hásæti hins æðsta tjaldhimins. Hve undursamlegur leyndardómur, já, hve undursamlegur!
Seg: Meyja eilífðarinnar afhjúpaði ásýnd sína – já, megi undursamleg fegurð hennar vera upphafin! –
Er stafaði skínandi geislum sínum frá jörðu til himins. Hve undursamlegt ljós, já, hve undursamlegt!
Hún sendi frá sér glampandi augnaráð, leiftrandi eins og vígahnöttur – hve undursamlegt var augnaráð hennar, já, hve undursamlegt!
Augnaráð sem gereyddi öllum nöfnum og titlum í logum sínum. Hve undursamlegt afrek, já, hve undursamlegt!
Hún beindi sjónum sínum að íbúunum í ríki dustsins. Hve undursamlegt augnatillit, já, hve undursamlegt!
Við það skalf öll sköpunin og leið undir lok. Hve undraverð endalok, já, hve undraverð!
Hrafnsvartan lokk lét hún síðan falla, djásn andans á svartnætti – hve undursamlegur litblær, já, hve undursamlegur! –
Af honum mátti skynja ilmsætan blæ andans. Hve undursamlegur ilmur, já, hve undursamlegur!
Í hægri hendi sinni bar hún vínið rúbínrauða og í þeirri vinstri skerf af hinu ágætasta fæði. Hve undursamleg náð, já, hve undursamleg!
Með höndum rauðmáluðum af blóði ákafra elskenda sinna – hve undursamlegt er þetta, já, hve undursamlegt! –
Í bikurum og kaleikum lét hún lífsins vín ganga. Hve undursamlegur teygur, já, hve undursamlegur!
Á hörpu og lútu spilaði hún og söng í lofgjörð til Ástvinar síns. Hve undursamlegur söngur, já, hve undursamlegur!
Svo hjörtun tærðust upp í eyðandi eldi. Hve undursamleg ást, já, hve undursamleg!
Af endurnærandi fegurð sinni færði hún takmarkalausan skerf – hve undursamlegur skerfur, já, hve undursamlegur!
Og lagði síðan hálsa elskenda sinna sverði yndisþokka. Hve undursamlegt högg, já, hve undursamlegt!
Það leiftraði á perluhvítar tennur hennar um leið og hún brosti. Hve undursamleg perla, já, hve undursamleg!
Svo hjörtu þeirra sem þekkja hrópuðu og kveinuðu. Hve undursamleg guðrækni, já, hve undursamleg!
En þeir sem efast og hreykja sér af eigin sjálfi afneituðu sannleika hennar. Hve undraverð afneitun, já, hve undraverð!
Og er hún heyrði þetta hélt hún hrygg til híbýla sinna. Hve undraverð var sorg hennar, já, hve undraverð!
Hún snéri aftur þaðan sem hún kom: Hve háleit voru skrefin sem hún steig! Hve undraverð ákvörðun, já, hve undraverð!
Hún hóf upp kall angistar sem gerði allt sem skapað er að engu. Hve undraverður var harmur hennar, já, hve undraverður!
Og frá vörum hennar streymdu þessi orð varnaðar og ávítunar – hve undraverður straumur, já, hve undraverður! –
„Hvers vegna andmælið þið mér, ó fólk bókarinnar?“ Hve undravert er þetta, já, hve undravert!
„Haldið þið ykkur þá sem þiggja leiðsögn frá Guði og eru elskaðir af Honum?“ Ég sver við Guð! Hve undraverð lygi, já, hve undraverð!
„Ó, vinir mínir,“ sagði hún, „við munum ekki koma aftur,“ – hve undursamleg endurkoma, já, hve undursamleg! –
„Heldur munum við hylja leyndardóma Guðs í helgiritum Hans og bókum,“ já, eins og ákvarðað hefur verið af Hinum máttuga og veglynda!
„Né heldur munuð þið finna mig uns Hinn fyrirheitni birtist á dómsdegi.“ Við líf mitt! Hve undraverð niðurlæging, já, hve undraverð!
Lof sé Þér ó Guð minn, fyrir að hafa á þessum degi varpað ljóma allra nafna Þinna yfir allt sem skapað er, ó Þú sem ert Drottinn dýrðar, tignar og mikilleika, valds, máttar og blessana! Þetta er dagurinn þegar Hann sem er málsvari Guðs, eigandi alls, hinn ótilkvæmilegi, hinn hæsti, hefur hafið upp raust sína frá ríki eilífðar og sagt: „Ríkið er Guðs, hins almáttka, hins upphafnasta, hins dýrlegasta!“
Vegsamað sé nafn Þitt, ó Þú sem lætur vindana blása og morguninn renna upp, Þú sem opinberar versin og afhjúpar sannanirnar! Allir hlutir lýsa því yfir að Þú ert Guð og að enginn er Guð annar en Þú, yfirbjóðandinn, hinn alvoldugi, hinn upphafnasti, hinn æðsti. Miklað sé nafn Þitt, ó Þú sem mótaðir himnana, skapari allra nafna, Þú sem úthelltir geisladýrð Þinni yfir alla hluti með mætti Þíns mesta nafns. Þetta er vissulega nafnið sem fengið hefur dúfuna dulúðgu til að kurra á greininni himnesku og kunngera: „Öll yfirráð heyra Guði um aldir alda, Drottni okkar, hinum miskunnsamasta!“
Dýrlegur ert Þú, ó konungur eilífðar og stjórnandi þjóðanna, endurlífgari sérhvers molnandi beins! Lof sé Þér, lof sem engin jarðnesk tunga getur nokkru sinni nógsamlega dásamað, lof sem fyrir úthelling náðar Þinnar hefur rignt yfir allt sem skapað er og ljós ásýndar Þinnar skinið á allt sem er á himnum og jörðu. Lof sé Þér, lofsemd sem látið hefur hverja stamandi tungu vegsama Þig, laðað alla þá sem fjarlægir voru til aðseturs Þíns máttuga hásætis, og leitt hvern þann sem þyrstir að lifandi vötnum gjafa Þinna og gæsku sem streymir fram eins og lygn elfur. Lof sé Þér, lof sem látið hefur ilminn af kyrtli náðar Þinnar berast yfir allt sem er á himni og jörðu og dreift ljúfri angan rósa paradísar Þinnar yfir þá sem dvelja í borgum eilífðar og fengið sérhvert nafn til að vegsama nafn Þitt og dýrð. Lof sé Þér, lof sem gætt hefur hjörtu Þinna elskuðu slíkri staðfestu að engin jarðnesk blæja aftrar þeim að festa sjónir á sjónarhring hylli þinnar né heldur getur upphefð kúgaranna tálmað þeim að líta undursamlegt ljós ásýndar Þinnar. Lof sé Þér, lof sem hefur afmáð af hjörtum þjóna Þinna minningu um allt nema Þig og hjálpað þeim að kenna málstað Þinn og kunngera nafn Þitt á sérhverju svæði.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við ágætustu nöfn Þín og upphöfnustu eigindir, og við þá sem hafa svifið í heiði návistar Þinnar og velþóknunar og hafið sig til flugs á vængjum trausts og aðskilnaðar í átt að dagsbrún nafns Þíns, hins almiskunnsama, og við blóðið sem úthellt hefur verið sakir Þín og við andvörpin sem stigu upp vegna ástar á Þér, að veita viðtöku á þessum degi öllum verkum okkar á vegi Þínum.
Þetta er dagurinn þegar Hinn almiskunnsami úthellti dýrðarljóma sínum yfir öll nöfn. Öll dýrð sé því sem Guð hefur gefið okkur!
Þetta er dagurinn þegar Hann sem er hinn huldi og óséði hefur birst augum allrar sköpunarinnar. Öll dýrð sé því sem Guð hefur gefið okkur!
Þetta er dagurinn þegar hjáguðinn mesti var sundurmolaður. Öll dýrð sé því sem Guð hefur gefið okkur!
Þetta er dagurinn þegar Drottinn miskunnar opinberaði sig allri sköpun. Öll dýrð sé því sem Guð hefur gefið okkur!
Þetta er dagurinn þegar Faraó var drekkt og Móse leit Hann sem er fegurð hins aldýrlega Drottins. Öll dýrð sé því sem Guð hefur gefið okkur!
Þetta er dagurinn þegar falsguðum hégómlegra ímyndana var steypt af stalli sakir máttar Drottins okkar, hins almáttka, hins alvísa. Öll dýrð sé því sem Guð hefur gefið okkur!
Þetta er dagurinn þegar ólgandi bylgjur hins mesta hafs voru birtar á sviði yfirskilvitlegrar dýrðar. Öll dýrð sé því sem Guð hefur gefið okkur!
Þetta er dagurinn þegar allt sem skapað er var kvatt til fundar við Drottinn sinn, hinn ótilkvæmilega, hinn hæsta. Öll dýrð sé því sem Guð hefur gefið okkur!
Þetta er dagurinn þegar allir hlutir báru vitni því sem Tunga valds hefur vottað frammi fyrir Hinu guðdómlega lótustré. Öll dýrð sé því sem Guð hefur gefið okkur!
Hann er hinn upphafni, hinn yfirskilvitlegi, hinn alhæsti.
Leysið yður, ó næturgalar Guðs, frá þyrnum og þistlum eymdar og niðurlægingar og takið flugið til rósagarðs ófölnandi ljóma. Ó vinir Mínir sem dveljið í duftinu! Hraðið yður til himneskra híbýla yðar. Kunngerið sjálfum yður fagnaðartíðindin: „Hinn ástfólgnasti er kominn! Hann hefur krýnt sjálfan sig dýrð opinberunar Guðs og hefur opnað fyrir augliti manna dyr fornrar paradísar sinnar.“ Öll augu fagni og sérhvert eyra gleðjist því nú er kominn tími til að horfa á fegurð Hans, nú er rétta stundin til að hlýða á rödd Hans.” Kunngerið sérhverjum löngunarfullum elskhuga: „Sjá, Ástvinur yðar er kominn til manna.“ Og flytjið sendiboðunum frá einvaldi ástarinnar þessi tíðindi: „Sjá, hinn dásamaði hefur birst íklæddur fyllingu dýrðar sinnar!“ Ó þér sem elskið fegurð Hans! Snúið kvöl aðskilnaðar frá Honum í fögnuð ævarandi endurfunda og látið sætleika návistar Hans eyða beiskjunni af fjarlægð yðar frá hirð Hans.
Sjá hvernig margvíslegar miskunnsemdir Guðs, sem falla úr skýjum guðlegrar dýrðar, hafa á þessum degi umlukið heiminn. Því áður fyrr leitaði sérhver elskandi Ástvinar síns og grátbændi Hann, en nú er það Ástvinurinn sjálfur sem kallar á elskhuga sína og býður þeim að koma á fund sinn. Varist að varpa á glæ svo dýrmætri gjöf; varist að gera lítið úr svo mætu tákni náðar Hans. Snúið ekki baki við hinum óforgengilegu gæðum og gerið yður ekki að góðu það sem tortímist. Fellið blæjuna sem byrgir yður sýn og dreifið myrkrinu sem umlykur yður, að þér megið líta andlitsfegurð Ástvinarins afhjúpaða – sjá það sem engin dauðleg augu hafa séð og heyra það sem ekkert eyra hefur heyrt.
Heyrið mig, ó dauðlegu fuglar! Í rósagarði óbrigðuls ljóma er jurt byrjuð að blómstra. Í samanburði við hana eru öll önnur blóm sem þyrnar og í dýrðarbirtu hennar hlýtur innsti veigur fegurðar að fölna upp og visna. Hefjist því handa og reynið af öllum eldmóði hjartna yðar, með allri ákefð sálna yðar, fullum styrk vilja yðar og einbeittum kröftum allrar verundar yðar að komast til paradísar návistar Hans og anda að yður ilminum af því óforgengilega blómi, að finna ljúfa angan heilagleikans og öðlast hlutdeild í þessari ilman himneskrar dýrðar. Hver sem fylgir þessu ráði mun brjóta af sér hlekkina, finna keiminn af endurlausn hugfanginnar ástar, öðlast þrá hjarta síns og gefa upp anda sinn í hendur Ástvinarins. Er hann brýtur sundur búrið, tekur hann flugið eins og fugl andans til síns heilaga og ævarandi hreiðurs.
Nótt hefur fylgt degi og dagur nótt og hraðfleygar stundir lífs yðar hafa komið og farið og samt hefur enginn yðar samþykkt eitt andartak að leysa sig frá því sem tortímist. Hefjist handa svo að þau örstuttu andartök sem þér enn eigið eftir glatist ekki. Með eldingarhraða munu dagar yðar líða og líkamar yðar verða lagðir til hvíldar undir tjaldhimni duftsins. Hverju getið þér þá komið í verk? Hvernig getið þér bætt fyrir mistök yðar?
Hið eilífa kerti skín í nakinni dýrð sinni. Sjá hvernig það hefur brennt upp sérhverja dauðlega blæju. Ó þér sem elskið ljós Hans og dragist að því eins og mölur! Horfist í augu við sérhverja hættu og helgið sálir yðar með eyðandi eldi þess. Ó þér sem þyrstið eftir Honum! Leysið sjálfa yður fullkomlega frá sérhverri jarðneskri ást og flýtið yður að umfaðma Ástvin yðar. Hraðið yður til Hans með afli sem ekkert fær jafnast við. Blómið sem fram til þessa hefur verið hulið sjónum manna hefur nú verið afhjúpað fyrir augum yðar. Hann stendur frammi fyrir yður í allri geisladýrð sinni. Rödd Hans kallar allar hinar heilögu og helguðu verur til að koma og sameinast Honum. Sæll er sá sem beinir þangað för sinni; heill honum sem hefur komist á leiðarenda og horfir á ljós svo undursamlegrar ásýndar.
Þótt ríki dýrðarinnar sé hafið yfir hégóma heimsins höfum Vér úr fjárhirslum tryggðar og undirgefni látið erfingjum Vorum eftir framúrskarandi og ómetanlegan arf. Vér höfum ekki látið eftir Oss jarðneska fjársjóði né aukið á þær áhyggjur sem þeim fylgja. Guð er Oss vitni! Ótti leynist í jarðnesku ríkidæmi og þar dylst háski. Minnist þess og leiðið hugann að því sem Hinn almiskunnsami opinberaði í Kóraninum: „Vei öllum þeim sem fara með róg og lastmæli, þeim sem safna auðæfum og telja sjóði sína sí og æ.” Hverfult er ríkidæmi þessa heims. Allt sem breytist og glatast er ekki og hefur aldrei verið þess virði að því sé gefinn gaumur nema í réttmætum mæli.
Markmið þessa Rangtleikna með því að þola raunir og þrengingar, opinbera heilög orð og færa fram sannanir er ekkert annað en að slökkva eld haturs og óvináttu svo að ljós samlyndis megi upplýsa sjónarhring mannshjartnanna og þau finni sannan frið og rósemi. Sól þessara orða skín geislandi frá dagsbrún hinnar guðlegu töflu og það sæmir öllum að festa sjónir á henni: Vér hvetjum yður, ó þjóðir heims, að gæta þess sem mun upphefja stöðu yðar. Haldið fast við guðsótta og fylgið staðfastlega því sem rétt er. Sannlega segi Ég: Tungan er til þess að geta hins góða, saurgið hana ekki með ósæmilegu tali. Guð hefir fyrirgefið yður hið liðna. Héðan í frá verða allir að mæla það sem er rétt og sæmandi og forðast róg, formælingar og allt sem veldur manninum hryggð. Háleit er staða mannsins! Fyrir skömmu streymdu þessi upphöfnu orð frá fjárhirslum dýrðarpenna Vors: Mikill og blessaður er þessi dagur – dagurinn þegar allt sem dulið var innra með manninum hefur verið og mun verða birt. Háleit er staða mannsins ef hann heldur fast við réttlæti og sannleika og er staðfastur í málstaðnum. Í augum Hins almiskunnsama líkist sannur maður festingu himinsins – sól og máni eru sjón hans og heyrn, og eðliseigindir hans eru bjartar og skínandi stjörnur. Göfugasta staðan er hans og áhrif hans uppfræða veröld tilvistar.
Sérhver móttækileg sál sem á þessum degi hefur fundið ilminn af klæðum Hans og beint sjónum sínum með hreinu hjarta að hinum aldýrlega sjónarhring er talin með fólki Bahá í bókinni fagurrauðu. Takið kaleik ástúðar Minnar og drekkið fylli yðar í Mínu dýrlega og undursamlega nafni.
Ó þér sem á jörðu dveljið! Trú Guðs er sakir ástar og einingar, gerið hana ekki að ástæðu fjandskapar og sundurþykkju. Í augum þeirra sem hafa innsæi og beina sjónum að hinni æðstu sýn hefur Penni dýrðarinnar þegar opinberað allar heillaríkar leiðir til þess að vernda mannanna börn og efla hamingju þeirra og velferð. En hinir fávísu á jörðunni sem ala með sér illar langanir og ástríður skeyta engu um fullkomna visku Hans sem í sannleika er hinn alvitri. Orð þeirra og gerðir spretta af fánýtum hugarburði og hégómlegum ímyndunum.
Ó þér ástvinir og trúnaðarmenn Guðs! Konungar eru handhafar valds og dagsbrúnir máttar og ríkidæmis Guðs. Biðjið fyrir þeim. Hann hefur falið þeim stjórn á jörðunni en útvalið hjörtu mannanna sem sitt eigið ríki.
Deilur og átök eru skilyrðislaust bönnuð í bók Hans. Þetta er ákvörðun Guðs í þessari almestu opinberun. Hann varðveitir hana frá ógildingu og hefur gætt hana dýrð staðfestingar sinnar. Vissulega er Hann hinn alvísi, hinn alvitri.
Öllum ber skylda til að aðstoða þær dagsbrúnir valds og uppsprettur fyrirmæla sem prýddar eru skarti sanngirni og réttlætis. Sælir eru stjórnendurnir og hinir lærðu meðal fylgjenda Bahá. Þeir eru trúnaðarmenn Mínir meðal þjóna Minna og opinberendur boða Minna meðal fólks Míns. Yfir þeim hvíli dýrð Mín, miskunn og náð sem hafa umlukið veröld tilvistar. Í þessu sambandi eru orðin sem opinberuð eru í Kitáb-i-Aqdas slík, að frá sjónarhring þeirra skín tært og geislandi ljós guðlegrar náðar.
Ó þér greinar Mínar! Voldugt afl, fullkomið vald liggur dulið í heimi tilvistar. Festið sjónar á því og sameinandi áhrifum þess en ekki á greinarmuninum sem það birtir.
Vilji Hins guðlega arfleifanda er þessi: Aghṣán, Afnán og ættmennum Mínum, hverjum og einum, er skylt að beina ásjónum sínum að Hinni máttugustu grein. Hugleiðið það sem Vér höfum opinberað í helgustu bók Vorri: „Þegar úthaf návistar Minnar þverr og bók opinberunar Minnar er á enda beinið ásjónum yðar til hans sem Guð hefur áformað, sem runninn er af þessari fornu rót.“ Viðfang þessara helgu orða er ekkert annað en Hin máttugasta grein [‘Abdu’l Bahá]. Þannig höfum Vér náðarsamlega opinberað yður voldugan vilja Vorn og Ég er vissulega hinn náðugi, hinn algjöfuli. Vissulega hefur Guð ákvarðað að staða hinnar meiri greinar [Muḥammad ‘Alí] sé lægri Hinni mestu grein [‘Abdu’l Bahá]. Hann er í sannleika ákvarðandinn, hinn alvitri. Vér höfum valið „hina meiri“ á eftir „hinni mestu“ eins og Hann, hinn alvitri og alvísi, mælir fyrir um.
Öllum ber að sýna Aghṣán ástúð en Guð hefur ekki gefið þeim neinn rétt til eigna annarra.
Ó þér Aghṣán, Afnán og ættingjar Mínir! Vér hvetjum yður til að óttast Guð, vinna lofsverð verk og gera það sem er rétt og sæmandi og upphefur stöðu yðar. Sannlega segi Ég, guðsótti er æðsti stjórnandinn sem getur gert málstað Guðs sigursælan. Herskararnir sem best sæma þessum stjórnanda eru og hafa ávallt verið grandvör breytni, hreinar og göfugar gerðir.
Seg: Ó þjónar! Látið ekki leiðir til reglu og skipulags valda glundroða né heldur tækið til einingar orsaka sundurlyndi. Vér ölum þá von í brjósti að þessi blessuðu orð verði fylgjendum Bahá leiðsögn: „Seg: allt er frá Guði.“ Þessi upphöfnu orð eru líkt og vatn sem slekkur eld haturs og óvináttu sem brennur í hjörtum og brjóstum manna. Þessi orð ein saman munu færa stríðandi þjóðum og ættkvíslum ljós sannrar einingar. Vissulega mælir Hann sannleikann og vísar veginn. Hann er hinn alvoldugi, hinn upphafni, hinn náðugi.
Öllum ber að virða Aghṣán og sýna þeim háttvísi til þess að málstaður Guðs megi gerast dýrlegur og orð Hans upphafið. Þessi fyrirmæli hafa verið ítrekuð og skráð í hina helgu bók. Heill þeim sem gert er kleift að halda það sem ákvarðandinn, Hinn aldni, hefur mælt fyrir um. Yður er einnig boðið að virða meðlimi hins helga heimilis, Afnán og ættingjana. Vér áminnum yður einnig um að þjóna öllum þjóðum og keppa að því sem er heiminum til heilla.
Það sem stuðlar að endurreisn heimsins og hjálpræði þjóða og ættkvísla jarðarinnar hefur verið sent niður frá himni orða Hans sem er þrá heimsins. Ljáið ráðum Penna dýrðarinnar heyrandi eyra. Betra er það fyrir yður en allt sem er á jörðu. Þessu ber vitni dýrleg og undursamleg bók Mín.
Lofgjörðin, sem hefur stigið upp frá Þínu göfugasta sjálfi og dýrðin, sem hefur skinið frá björtustu fegurð Þinni, hvíli yfir Þér, ó Þú sem ert birting tignar, konungur eilífðar og Drottinn allra á himnum og á jörðu! Ég ber því vitni, að fyrir Þig hafa veldi Guðs og ríki Hans, mikilleiki Guðs og tign Hans verið opinberuð, sólir aldinnar geisladýrðar úthellt ljóma sínum á himni óafturkallanlegrar ákvörðunar Þinnar og fegurð hins óséða hefur skinið yfir sjónarhring sköpunar. Ég ber því enn fremur vitni, að einungis með hreyfingu penna Þíns hefur skipun Þinni „Ver“ verið fullnægt og hulinn leyndardómur Guðs afhjúpaður og öllu sem skapað er gefin tilvist og allar opinberanir sendar niður.
Ég ber því einnig vitni, að með fegurð Þinni hefur fegurð Hins tilbeðna verið afhjúpuð og með ásýnd Þinni hefur ásýnd Hins þráða varpað ljóma og með orði Þínu hefur Þú greint á milli alls sem skapað er og af þeim völdum hafa þeir, sem eru Þér trúir, risið upp til hæstu dýrðar og trúleysingjarnir fallið í dýpsta afgrunn.
Ég ber því vitni, að sá sem hefur þekkt Þig hefur þekkt Guð og sá sem hefur komist í návist Þína hefur komist í návist Guðs. Mikil er því blessun hans sem hefur trúað á Þig og á tákn Þín og hefur auðmýkt sig frammi fyrir yfirráðum Þínum, verið heiðraður með að mæta Þér, öðlast velþóknun vilja Þíns, snúist um Þig og staðið frammi fyrir hásæti Þínu. Vei þeim, sem hefur brotið gegn Þér og afneitað Þér, vísað á bug táknum Þínum, mælt gegn yfirráðum Þínum, risið upp gegn Þér, hreykt sér frammi fyrir ásýnd Þinni, véfengt vitnisburði Þína, flúið vald Þitt og yfirráð og talist til trúvillinganna sem fingur skipunar Þinnar hafa skráð með nafni á Þínar helgu töflur.
Bein því til mín, ó Guð minn og minn ástfólgni, frá hægri hendi miskunnar Þinnar og ástríkis, helgum andblæ velþóknunar Þinnar, svo ég megi leysast frá sjálfum mér og umheiminum og laðast að forgarði nálægðar Þinnar og nærveru. Þú ert þess megnugur að gera það sem þóknast Þér. Þú hefur í sannleika verið æðstur yfir öllu sem er.
Minningin um Guð og lofgjörð Hans, dýrð Guðs og ljómi, hvíli yfir Þér, ó Þú sem ert fegurð Hans! Ég ber því vitni, að auga sköpunarinnar hefur aldrei litið neinn jafn rangtleikinn og Þig. Þú varst umlukinn úthafi mótlætis alla daga lífs Þíns. Eitt sinn varst Þú í hlekkjum og fjötrum; annað sinn vofði sverð óvina Þinna yfir Þér. Samt sem áður bauðst Þú öllum mönnum að halda það, sem Þér var falið af Honum sem er hinn alvísi og alvitri.
Megi anda mínum verða fórnað sakir rangindanna sem Þú máttir þola og sál mín verða lausnargjald fyrir raunirnar sem féllu Þér í hlut. Ég sárbæni Guð við Þig og þá, sem hafa uppljómast af geisladýrð ásýndar Þinnar, og þá sem vegna ástar á Þér hafa haldið hvaðeina sem þeim var boðið, að fjarlægja blæjurnar sem hafa komið á milli Þín og skepna Þinna og veita mér af gæðum þessa heims og þess sem kemur. Þú ert í sannleika hinn almáttugi, hinn upphafnasti, hinn aldýrlegi, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn samúðarfyllsti.
Blessa Þú, ó Drottinn Guð minn, Hið guðdómlega lótustré, lauf þess og greinar, kvisti þess, stilka og nýgræðinga, svo lengi sem ágætustu nafnbætur Þínar vara og tignustu eigindir endast. Vernda það einnig gegn misgjörðum árásarmanna og herskörum kúgunar. Þú ert í sannleika hinn almáttugi og voldugasti. Blessa Þú einnig, ó Drottinn Guð minn, þjóna Þína og þjónustumeyjar sem hafa komist til Þín. Þú ert vissulega sá sem allt gefur og náð Þín er takmarkalaus. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn örlátasti.
Ljá því eyra, ó þjónn Minn, sem hefur verið sent niður til þín frá hásæti Drottins þíns, hins ótilkvæmilega og æðsta. Enginn er Guð nema Hann. Hann hefur kallað til verundar skepnur sínar, að þær megi þekkja Hann, sem er hinn samúðarfulli og almiskunnsami. Til allra þjóðlanda og borga hefur Hann sent sendiboða sína og falið þeim að kunngera mönnum tíðindin um paradís velþóknunar sinnar og laða þá nær athvarfi ævarandi öryggis, aðsetri eilífs heilagleika og yfirskilvitlegrar dýrðar.
Ljós Guðs leiðbeindi sumum þeirra, þeir fengu inngöngu í hirð návistar Hans og drukku vatn eilífs lífs úr höndum auðmýktar og töldust til þeirra sem hafa í sannleika viðurkennt og trúað á Hann. Aðrir risu upp í gegn Honum og höfnuðu táknum Guðs, hins almáttuga og voldugasta, hins alvísa.
Aldir liðu uns þær náðu fyllingu sinni á þessum Drottni allra daga, deginum þegar sól Bayánsins birtist yfir sjónarhring miskunnar og fegurð Hins aldýrlega skein í upphafinni persónu ‘Alí-Muḥammads, Bábsins. Ekki hafði Hann fyrr opinberað sig en allir menn risu upp gegn Honum. Sumir fordæmdu Hann fyrir rógburð gegn Guði, hinum aldna og almáttuga. Aðrir töldu Hann sleginn sturlun og þá ásökun heyrði Ég sjálfur af vörum eins hinna skriftlærðu. Enn aðrir höfnuðu tilkalli Hans til að vera málsvari Guðs. Þeir lastmæltu Honum, sögðu Hann hafa stolið orðum Hins almáttuga og gert þau að sínum, brenglað merkingu þeirra og blandað þeim saman við sín eigin. Auga tignarinnar grætur sáran yfir því sem varir þeirra mæltu meðan þeir enn fagna á sessum sínum.
„Guð,“ segir Hann „er Mér til vitnis, ó menn! Ég er kominn til yðar með opinberun frá Drottni, Guði yðar, Drottni forfeðra yðar. Hugið ekki, ó menn, að því sem þér eigið. Hugið heldur að því sem Guð hefur sent niður til yðar. Þetta mun að sönnu stoða yður betur en allt sköpunarverkið, ef aðeins þér gætuð skynjað það. Aðgætið að nýju, ó menn, og gaumgæfið vitnisburð Guðs og staðfestingu sem er í fórum yðar og berið saman við opinberunina sem send er niður til yðar á þessum degi, svo að sannleikurinn, traustur og ótvíræður, megi birtast yður. Fetið ekki, ó menn, í fótspor hins illa, fylgið trú Hins almiskunnsama og tilheyrið þeim sem trúa í sannleika. Hvað stoðar það manninn ef hann lætur undir höfuð leggjast að bera kennsl á opinberun Guðs? Alls ekkert. Þessu ber vitni Mitt eigið sjálf, hins alvalda og alvitra, hins alvísa.“
Því meira sem Hann brýndi þá, þeim mun heiftugri varð fjandskapur þeirra uns þeir að endingu líflétu Hann með smánarlegri grimmd. Bölvun Guðs hvíli yfir kúgurunum!
Fáeinir trúðu á Hann, fáeinir þjónar Vorir eru þakklátir. Hann áminnti þá í öllum töflum sínum – nei, í sérhverri málsgrein í undursamlegum ritum sínum – að gefast ekki upp fyrir neinu á þessum degi hinnar fyrirheitnu opinberunar, hvort sem það kæmi af himnum eða jörðu. „Ó menn!“ sagði Hann. „Ég hef opinberað Mig fyrir birtingu Hans og sent bók Mína, Bayáninn, niður til yðar í þeim tilgangi einum að grundvalla sannleika málstaðar Hans. Óttist Guð og deilið ekki við Hann eins og fylgjendur Kóransins deildu við Mig. Þegar þér heyrið um Hann, hraðið yður á fund Hans og fylgið staðfastlega öllu sem Hann kann að opinbera yður. Ekkert nema Hann getur nokkru sinni stoðað yður, nei, ekki þótt þér legðuð fram vitnisburði allra þeirra sem voru á undan yður.“
Og þegar himinn hins guðlega áforms var klofinn eftir nokkurra ára hlé og fegurð Bábsins birtist í skýjum nafna Guðs, íklædd nýjum búningi, risu þessir sömu menn í meinfýsni gegn Honum, sem umlukti allt sem skapað er ljóma sínum. Þeir rufu sáttmála Hans, höfnuðu sannleika Hans, deildu við Hann, gerðu gys að táknum Hans, litu á vitnisburð Hans sem fals og gengu í hóp trúníðinganna. Loks ákváðu þeir að svipta Hann lífi. Slíkt er ásigkomulag þeirra sem vaða í villu og svíma!
Og þegar þeir sáu að þeir gátu ekki náð markmiði sínu, gerðu þeir samsæri gegn Honum. Sjáið hvernig þeir ala sífellt á nýjum launráðum til að vinna Honum miska svo þeir geti sært og vanheiðrað málstað Guðs. Seg: Vei yður! Ég sver við Guð! Leynimakk yðar hjúpar yður smán. Drottinn yðar, Guð miskunnar, getur vel komist af án skepna sinna. Alls ekkert getur aukið ríkidæmi Hans né dregið úr því. Ef þér trúið, er það yður sjálfum í hag, og ef þér trúið ekki munið þér sjálfir þjást. Hönd trúníðingsins getur aldrei vanhelgað kyrtilfald Hans.
Ó þjónn minn, þú sem trúir á Guð! Ég sver við réttlæti Hins almáttuga! Ef Ég skýrði þér frá því sem Ég hef þurft að þola, gætu sálir og hugir manna ekki borið það. Guð ber Mér sjálfur vitni. Vak yfir sjálfum þér og feta ekki í fótspor þessa fólks. Hugleið gaumgæfilega málstað Drottins þíns. Reyndu að þekkja Hann af Hans eigin sjálfi en ekki annarra. Því að enginn nema Hann getur nokkru sinni komið þér að haldi. Um þetta vitnar allt sem skapað er, ef aðeins þú gætir skynjað það.
Lyft blæjunni og gakk fram með leyfi Drottins þíns, hins aldýrlega og alvolduga, og tak kaleik ódauðleikans frammi fyrir augliti þeirra sem eru á himnum og jörðu í nafni Drottins þíns, hins ótilkvæmilega og hæsta. Drekk fylli þína og ver ekki í hópi hinna seinlátu. Ég sver við Guð! Á því andartaki sem bikarinn snertir varir þínar munu herskarar himinsins hylla þig og segja: „Drekk með mikilli velþóknun, ó þú sem í sannleika hefur trúað á Guð!“ Og íbúarnir í borgum ódauðleikans munu kalla: „Hamingja og fögnuður fylgi þér, ó þú, sem hefur drukkið bikar ástar Hans í botn!“ Og Rödd tignarinnar mun heilsa þér með þessum orðum: „Mikil er sú blessun sem bíður þín, ó þjónn Minn, því þér hefur hlotnast það sem engum hefur hlotnast nema þeim sem hafa leyst sig úr viðjum alls sem er á himnum og alls sem er á jörðu og eru tákn sannrar andlegrar lausnar.“
Ímyndar þú þér, ó ráðherra keisarans í borginni (Konstantínópel) að Ég fái einhverju ráðið um endanlegt hlutskipti málstaðar Guðs? Heldur þú að fangelsun Mín eða smánin sem Ég hef verið látinn þola eða jafnvel dauði Minn og tortíming geti hnikað honum af braut sinni? Fánýtt er það sem þú ímyndar þér í hjarta þínu! Þú ert vissulega í hópi þeirra sem lætur leiðast af hégómlegum ímyndunum hjarta síns. Enginn er Guð nema Hann. Hann hefur vald til að opinbera málstað sinn og upphefja vitnisburð sinn og grundvalla hvaðeina sem Honum þóknast og að hefja það til svo tiginnar stöðu að hvorki þínar eigin hendur né þeirra, sem hafa snúið við Honum baki, geta nokkru sinni snert það né unnið því miska.
Telur þú þig hafa vald til að standa í gegn vilja Hans, aftra Honum frá því að framfylgja úrskurði sínum eða koma í veg fyrir að Hann beiti sínu æðsta valdi? Telur þú þér trú um að eitthvað á himnum eða jörðu geti staðið í gegn trú Hans? Nei, Ég sver við Hann sem er sannleikurinn eilífi! Alls ekkert í allri sköpuninni getur aftrað áformi Hans. Lát því af einskærum hroka þínum því einskær hroki getur aldrei komið í stað sannleikans. Gakk með þeim sem hafa iðrast í sannleika og snúið aftur til Guðs, sem skapaði þig og nærði og gerði þig að ráðherra yfir þeim sem játa trú þína.
Vita skalt þú einnig að Hann hefur að sínu eigin boði skapað allt sem er á himnum og allt sem er á jörðu. Hvernig gætu þeir sem voru skapaðir að boði Hans staðist gegn Honum? Hátt er Guð hafinn yfir það sem þér haldið um Hann, þér illgjarnir! Ef þessi málstaður er af Guði, getur enginn maður sigrast á honum, og sé hann ekki af Guði eru hinir skriftlærðu á meðal yðar og þeir sem ganga eftir spilltum hneigðum sínum og hafa risið gegn Honum, vissulega þess megnugir að bera hann ofurliði.
Hefur þú ekki heyrt það sem átrúandi, maður af fjölskyldu Faraós, mælti fyrr á tímum og sem Guð sagði postula sínum, sem Hann hafði tekið fram yfir alla menn og treyst fyrir boðskap sínum og gert að uppsprettu miskunnar fyrir alla sem dvelja á jörðu? Hann sagði, og vissulega mælir Hann sannleikann: „Ætlið þér að vega mann vegna þess að hann segir: Drottinn minn er Guð, þegar hann hefur fært yður staðfestingu á ætlunarverki sínu? Og sé hann lygari, komi lygi hans yfir hann, en sé hann sannleikans maður kemur að minnsta kosti hluti þess sem hann hótaði yfir yður.“ Þetta er það sem Guð opinberaði Ástvini sínum í óskeikulli bók sinni.
Og samt hafið þér ekki hlýtt á boð Hans. Þér hafið virt lög Hans að vettugi, hafnað ráðum Hans sem eru skráð í bók Hans og tilheyrið þeim sem hafa villst langt frá Honum. Hversu margir hafa ekki verið líflátnir á hverju ári og í hverjum mánuði af yðar völdum! Hversu hrópleg rangindi hafið þér eigi framið. Auga sköpunarinnar hefur aldrei áður séð neitt þvílíkt og enginn annálsritari skráð slíka atburði! Hversu fjölmörg voru ekki ungbörnin og brjóstmylkingarnir sem voru gerðir að munaðarleysingjum og feðurnir sem misstu syni sína vegna grimmdar yðar, ó þér óréttlátu gjörendur! Hversu oft hefur systir ekki veslast upp af sorg eftir bróður sinn og eiginkonan kveinað yfir manni sínum og eina framfæranda!
Ójöfnuður yðar óx stöðugt uns þér drápuð Hann sem hafði aldrei litið af ásjónu Guðs, hins upphafnasta og hæsta. Hefðuð þér aðeins líflátið Hann á sama hátt og þér líflátið hvern annan! Þér vóguð Hann hins vegar undir þess konar kringumstæðum að enginn hefur orðið vitni að slíku fyrr. Himnarnir grétu sáran yfir Honum og sálir þeirra sem eru nálægir Guði kveinuðu vegna þjáninga Hans. Var Hann ekki af gamalli ætt spámanns yðar? Hafði ekki hróður Hans sem afkomandi postulans borist yður til eyrna? Hvers vegna veittuð þér Honum þá þess konar áverka sem enginn í gjörvallri sögunni hefur veitt öðrum? Ég sver við Guð! Augu sköpunarinnar hafa aldrei litið yðar líka! Þér drepið afkomanda spámanns yðar og kætist stórlega meðan þér hvílist á heiðurssessum yðar! Þér formælið þeim sem fóru á undan yður og frömdu sömu ódæði og þér sjálfir og gerið yður enga grein fyrir óhæfuverkum yðar!
Verið sanngjarnir! Breyttu þeir sem þér formælið og bannfærið öðruvísi en þér? Höfðu þeir ekki drepið afkomanda spámanns síns eins og þér hafið drepið afkomanda yðar eigin spámanns? Er framferði þeirra ekki áþekkt yðar? Hvers vegna segist þér þá vera aðrir en þeir, ó þér sáðmenn sundurlyndis meðal manna?
Og þegar þér tókuð Hann af lífi, ákvað einn af fylgjendum Hans að hefna dauða Hans. Enginn þekkti hann né renndi grun í áform hans. Loks framdi hann það sem var forákvarðað. Því sæmir yður ekki að ásaka neinn nema sjálfa yður fyrir það sem þér hafið gert, ef þér aðeins dæmduð af sanngirni. Hver á allri jörðunni hefur framið það sem þér frömduð? Ég sver við Drottin veraldanna, enginn!
Í nafni þess sem fæddist á þessum degi, Hans sem Guð hefur gert að kallara nafns síns, hins almáttuga og allt-elskandi!
Í þessari töflu höfum Vér ávarpað nóttina þegar ljós flæddi um himin og jörð og fyllti allt sköpunarverkið geisladýrð sinni.
Sæl ert þú, ó nótt! Fyrir þig fæddist dagur Guðs, dagurinn sem Vér höfum gert að lampa hjálpræðis öllum sem byggja borgir nafnanna, að sigurkaleik kappanna á leikvangi eilífðar og að dagsbrún gleði og fagnaðar allri sköpuninni.
Ómælanlega upphafinn er Guð, skapari himnanna sem lét þennan dag hefja upp raust sína og mæla það nafn sem svipti sundur blæjum hégómlegs hugarburðar, flæmdi á brott mistur fánýtra ímyndana og lét nafn Hans „hinn sjálfumnógi“ rísa yfir sjónarhring fullvissu. Þín vegna hefur innsiglið verið rofið af úrvals víni eilífs lífs, dyr þekkingar og máls opnaðar þjóðum jarðar og andblær Hins almiskunnsama borist yfir öll landsvæði. Öll dýrð sé þeirri stund þegar Hann birtist, þessi fjársjóður Guðs, hins alvolduga, alvitra og alvísa!
Ó herskarar jarðar og himins! Þetta er fyrsta nóttin sem Guð hefur gert að tákni annarrar nætur þegar Hann fæddist sem engin lofgjörð fær vegsamað svo verðugt sé og engin eigind eða tákn fær lýst. Heill þeim sem hugleiðir þær báðar: Vissulega mun hann komast að raun um að ytri veruleiki þeirra samsvarar innra eðli þeirra og fá innsýn í þá himnesku leyndardóma sem fólgnir eru í þessari opinberun sem skekið hefur undirstöður vantrúar, sundurmolað falsguði hjátrúar og reist gunnfánann sem kunngerir: „Enginn er Guð nema Hann, hinn voldugi, upphafni, óviðjafnanlegi, verndarinn, hinn máttugi, hinn ótilkvæmilegi.“
Á þessari nótt barst angan nálægðar að vitum, hlið endurfunda voru opnuð á gátt við endalok daganna og allt sem skapað er hóf upp raust sína og hrópaði: „Ríkið er Guðs, Drottins allra nafna sem kominn er með heimsumlykjandi yfirráðum!“ Á þessari nótt vegsömuðu herskararnir á hæðum lofstír Drottins síns, hins upphafna, aldýrlega, og veruleiki hinna himnesku nafna lofsöng Hann sem er konungur upphafs og endaloka í þessari opinberun. Með mætti þessarar opinberunar hafa fjöllin hraðað sér á fund Hans sem öllu nægir, hins hæsta, hjörtun snúið sér að ásýnd Hins heittelskaða, laufin bærst fyrir andvara löngunar og trén hafið upp raddir sínar í fagnaðarríku svari við ákalli Hans sem er hinn óhefti, öll jörðin skolfið af þrá eftir endurfundum við Hinn eilífa konung og allir hlutir verið gerðir nýir með því hulda orði sem birtist í því máttuga nafni.
Ó nótt Hins algjöfula! Í þér lítum Vér sannarlega móðurbókina. Er það í sannleika bók eða er það barn í heiminn komið? Nei, svo sannarlega sem Ég lifi! Orð af þessu tagi tilheyra ríkjum nafnanna en Guð hefur helgað þessa bók ofar öllum nöfnum. Fyrir hana hefur hinn huldi leyndardómur og hin varðveittu dulsmál verið opinberuð. Nei, svo sannarlega sem Ég lifi! Allt sem hér hefur verið nefnt tilheyrir ríki eigindanna og móðurbókin er hátt yfir það hafin. Hennar vegna hafa birst opinberendur orðanna „Enginn er Guð nema Guð“. Nei, þótt þetta hafi verið kunngert öllum þjóðum getur að mati Drottins þíns enginn heyrt það nema eyra Hans sjálfs. Sælir eru hinir fullvissuðu!
Að því búnu hrópaði Penni hins hæsta lostinn djúpri furðu: „Ó Þú sem ert öllum nöfnum æðri! Ég heiti á Þig við mátt Þinn sem umlykur himnana og jörðina að leysa mig undan því að nefna Þig því ég hef sjálfur verið kallaður til lífs í krafti skapandi orðs Þíns. Hvernig gæti ég þá sýnt og sagt frá því sem ekkert í allri sköpuninni getur lýst? Og samt sver ég við dýrð Þína að ef ég kunngerði það sem Þú hefur innblásið mér, myndi öll sköpunin líða undir lok í fögnuði og sælu, hversu fullkomlega magndofa stæði hún þá ekki frammi fyrir svellandi hafi máls Þíns á þessum ofurbjarta, upphafnasta og yfirskilvitlega stað! Leystu, ó Drottinn, þennan tvílráða penna frá því að mikla svo tigna stöðu og sýndu mér miskunn, ó eigandi minn og konungur. Horfðu þá fram hjá misgerðum mínum í návist Þinni. Þú ert vissulega Drottinn örlætis, hinn alvoldugi, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn gjafmildasti.“
Hann er hinn helgasti, hinn upphafnasti, hinn mesti.
Fæðingarhátíðin er gengin í garð og Hann sem er fegurð Guðs, hins alvolduga, hins alknýjandi, hins allt-elskandi, er sestur í hásæti sitt. Heill þeim sem á þessum degi hefur komist í návist Hans sem augu Guðs, hjálparans í nauðum, hins sjálfumnóga, hefur beinst að. Seg: Vér höfum haldið þessa hátíð í hinu mesta fangelsi á sama tíma og konungar jarðar hafa risið gegn Oss. Völd kúgarans geta þó aldrei hindrað Oss né herskarar heimsins valdið Oss ótta. Þessu ber Hinn almiskunnsami vitni í þessari tignustu stöðu.
Seg: Ætti innsti kjarni fullvissu að óttast háreysti þjóða heimsins? Nei, ég sver við fegurð Hans, sem úthellir ljóma sínum yfir allt sem verið hefur og mun verða! Sannarlega er þetta tign Drottins sem hefur umlukið alla sköpunina og þetta er yfirskilvitlegur kraftur Hans sem hefur fyllt alla sem sjá og allt sem sést. Takið föstu taki í taug yfirbjóðandi máttar Hans og nefnið Drottinn yðar, hinn óhefta, í þessari dögun sem með birtu sinni hefur afhjúpað sérhvern hulinn leyndardóm. Þannig hefur tunga Hins aldna talað á þessum degi þegar innsigli eðalvínsins hefur verið rofið. Varist að hégómlegar ímyndanir þeirra sem draga Guð í efa valdi yður hugarangri eða fánýtar ímyndanir þeirra tefji yður frá því að ganga þessa beinu braut.
Ó fólk Bahá! Svífið á vængjum sjálfslausnar inn í heiðríkju ástar Drottins yðar, hins almiskunnsama. Rísið síðan upp Honum til sigurs eins og boðið er í hinni varðveittu töflu. Varist að deila við nokkurn af þjónum Mínum. Færið þeim ljúfa angan Guðs og heilög orð Hans, því með þeirra tilstyrk mun öllum mönnum takast að snúa sér til Hans. Þeir sem áfram eru gálausir um Guð á þessum degi eru í sannleika týndir í ölvun ástríðna sinna og skilja það ekki. Heill þeim sem af lítillæti og auðmýkt beinir ásýnd sinni að dagsbrún helgiorða Drottins síns.
Það sæmir yður að rísa upp og kynna fólkinu það sem hefur verið sent niður í bók Drottins þeirra, hins almáttka, hins óhefta. Seg: Óttist Guð og gefið engan gaum að fánýtum ímyndunum þeirra sem ganga vegu efa og óréttlætis. Snúið yður með geislandi hjörtum að hásæti Drottins yðar, eiganda allra nafna. Hann mun vissulega aðstoða yður með krafti sannleikans. Enginn er Guð nema Hann, hinn almáttki, hinn gjafmildasti.
Mynduð þér hraða för yður að smátjörn þegar hið mesta haf breiðir úr sér fyrir framan yður? Beinið þangað för yðar af heilum huga og fetið ekki í fótspor sérhvers vantrúaðs svikahrapps. Þannig syngur fugl eilífðar á greinum Vors guðlega lótusviðar. Ég sver við Guð! Aðeins eitt söngljóða Hans nægir til að heilla herskarana á hæðum, og handan þeirra íbúana í borgum nafna, og handan þeirra þá sem hringsóla um hásæti Hans kvölds og morgna.
Þannig hefur regnið streymt úr skýjum málsins á himni vilja Drottins þíns, hins almiskunnsama. Nálgist það, ó mannanna börn, og hafnið þeim sem deila hégómlega um helgiorðin sem Guð hefur opinberað og sem ekki trúðu á Drottinn sinn þegar Hann kom með sönnunum og vitnisburði.
Hann er hinn helgasti, hinn mesti.
Þetta er mánuðurinn þegar Hann fæddist sem ber Hið mesta nafn. Birting Hans hefur fengið limu mannkynsins til að skjálfa og herskarana á hæðum og þá sem dvelja í borgum nafna til að leita blessunar í dufti fótspora Hans. Við svo búið vegsömuðu þeir Guð og hrópuðu í fögnuði og upphafningu. Svo sannarlega sem Guð lifir! Þetta er mánuðurinn sem upplýst hefur alla aðra mánuði, mánuðurinn þegar Hann sem er hinn huldi leyndardómur og vel varðveitti fjársjóður birtist og kallaði til alls mannkyns. Allt vald og máttur tilheyra þessu nýfædda barni sem fengið hefur alla ásýnd sköpunarinnar til að ljóma af gleði, trén að sveigjast, höfin að ólga, fjöllin að hefjast á loft, paradís að hefja upp rödd sína, klettinn til að kalla upp og alla hluti til að hrópa: „Ó herskari sköpunar! Hraðið yður að dagsbrún ásýndar Drottins yðar, hins miskunnsama, hins samúðarfulla!“
Þetta er mánuðurinn þegar sjálf paradís skrýddist dýrð ásýndar Drottins síns, hins almiskunnsama, og næturgalinn himneski söng ljóð sín í Hinum guðlega lótusvið og hjörtu ástvinanna fylltust sælli leiðslu. En því er ver, flestir eru gálausir. Sæll er sá sem hefur þekkt Hann og skilið fyrirheitin sem gefin voru í bókum Guðs, hins almáttka, hins allofaða. Vei þeim sem hefur snúið frá Hinum eina sem herskararnir á hæðum hafa fest sjónir á, Honum sem gert hefur sérhvern villuráfandi vantrúarmann höggdofa.
Þegar þú eitt sinn hefur fengið þessa töflu, syng hana með ljúfasta lagi og seg: Lof sé Þér, ó miskunnsamasti Drottinn minn fyrir að minnast mín í þessari töflu sem dreift hefur ilminum af klæðum þekkingar Þinnar og fengið haf náðar Þinnar til að ólga. Ég ber því vitni að Þú ert megnugur að gera það sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi, hinn alvitri, hinn alvísi.