Lawḥ-i-Ra’ís
Pistill til valdhafans
Bahá’u’lláh
Lawḥ-i-Ra’ís
(Pistill til valdhafans)
Hann er í sínum eigin rétti æðstur valdhafa!
Penni hins hæsta segir: Ó þú sem heldur þig öllum æðri og telur þennan guðdómlega Æskumann, sem gleður augu herskaranna á hæðum, allra manna lítilsverðastan. Þessi Æskumaður hefur einskis farið á leit við þig og þína líka, því ætíð þegar opinberendur Hins almiskunnsama og tákn ófölnandi dýrðar Hans stigu út úr ríkinu eilífa inn í þennan dauðlega heim til að reisa hina dauðu, hafa menn eins og þú talið þessar helgu sálir, musteri guðlegrar einingar sem eiga að endurreisa allar þjóðir jarðar, til illvirkja og misindismanna. Sannlega eru þeir allir horfnir í duftið. Brátt verður það einnig samastaður þín sjálfs og hörmulegt tjón bíður þín.
Jafnvel þótt þessi lífgjafi og heimsumbótamaður [Bahá’u’lláh] sé að þínu mati sekur um deilur og undirróður, hvaða glæp höfðu konur, börn og mæður með börn á brjósti framið að þú refsir þeim svo grimmilega í heift þinni? Engin trúarbrögð hafa nokkru sinni kallað börn til ábyrgðar. Penni guðdómlegrar skipunar hefur undanþegið þau en eldar kúgunar þinnar og harðneskju brenna á alla vegu. Játir þú einhverja trú ættir þú að vita að samkvæmt öllum himneskum bókum og opinberuðum ritningum Guðs skulu börn ekki dregin til ábyrgðar. Þess utan hafa ekki einu sinni hinir vantrúuðu framið slíka óhæfu. Allir hlutir hafa ákveðin áhrif og því geta aðeins hinir skynlausu afneitað. Því er fullvíst að andvörp þessara barna og kvein hinna rangtleiknu mun hafa sínar ákveðnu afleiðingar.
Þið hafið með rangsleitni rúið inn að skinni fólk sem aldrei hefur sýnt neina andstöðu í ríkjum ykkar né heldur óhlýðnast valdstjórninni. Það hefur sinnt sínum eigin málum og haft hugann við það eitt að minnast Guðs nótt sem dag. Síðar, þegar fyrirskipun var gefin um að senda þennan Æskumann í útlegð, urðu allir felmtri slegnir. Embættismennirnir sem áttu að uppfylla útlegðardóminn yfir Mér sögðu þó: „Aðrir hafa ekki verið sakaðir um nein afbrot og stjórnin hefur ekki gert þá útlæga. Vilji þeir fylgja þér mun enginn reyna að stöðva þá.“ Þessar ólánsömu sálir greiddu því sinn eigin kostnað, yfirgáfu allt sem þær áttu, létu sér nægja návist Vora og slógust enn einu sinni í för með Oss í heilshugar trausti á Guði, uns virkið í Akká varð fangelsi Bahá.
Er Vér komum þangað umkringdu verðir Oss og lokuðu alla, menn og konur, unga og aldna, saman inni í herskálunum. Fyrstu nóttina fékk enginn mat eða drykk því að hermenn stóðu vörð við herskálahliðið og hleyptu engum út. Enginn leiddi hugann að hlutskipti þessa rangtleikna fólks. Jafnvel beiðni þess um vatn var synjað.
Tíminn hefur liðið og við höfum verið í haldi í þessum skálum þótt allir íbúar Adríanópel, lærðir og leikir, ríkir og fátækir, hafi þau fimm ár sem við dvöldum þar borið vitni hreinleika og heilagleika þessara þjóna. Þegar þessi Æskumaður var á förum frá Adríanópel reyndi einn af ástvinum Guðs að svifta sig lífi því hann fékk ekki afborið að sjá þennan Rangtleikna í höndum kúgara sinna. Meðan á ferðinni stóð vorum við þrisvar neydd til að skipta um skip og augljóst er hve börnin þjáðust af þeim sökum. Þegar við stigum á land voru fjórir átrúendur skildir frá hópnum og meinað að fylgja okkur. Þegar þessi Æskumaður var á förum kastaði einn fjórmenninganna, ‘Abdu’l-Ghaffár að nafni, sér í sjóinn og enginn veit hvernig honum reiddi af.
Allt er þetta þó aðeins dropi í haf þeirra ranginda sem við höfum verið beitt og enn hafið þið ekki fengið nóg! Á hverjum degi gefa embættismennirnir út nýja tilskipun og ekkert lát er á harðneskju þeirra. Á hverjum degi brugga þeir ný ráð. Þeir hafa úthlutað hverjum fanga dagsskammti úr birgðaskemmu stjórnarinnar, þrjá brauðhleifa sem enginn getur lagt sér til munns. Frá upphafi veraldar allt til þessa dags hefur enginn séð eða heyrt um slíka grimmd.
Ég sver við réttlæti Hans sem hefur látið Bahá hefja upp rödd sína frammi fyrir öllum á himni og jörðu! Þér hafið hvorki nafn né stöðu meðal þeirra sem hafa fórnað sálum sínum, líkama og eigum sakir ástar Guðs, hins almáttuga, alknýjandi, alvolduga. Handfylli af leir er meiri í augsýn Guðs en öll ríki yðar og yfirráð, allur máttur yðar og auðæfi. Væri það vilji Hans myndi Hann tvístra yður í duftið. Brátt mun Hann handsama yður í heiftarreiði sinni, uppreisn verður mitt í ríki yðar og það mun sundrast. Þér munuð þá kveina og harma en enginn hjálpa yður.
Það er ekki ætlun Vor, er Vér minnumst á þessi mál, að vekja yður af móki yðar því brennandi reiði Guðs steðjar að yður á alla vegu og þér munuð ekki varast. Ekki er það heldur ætlun Vor að skýra frá ranglætinu sem þessar hreinu og blessuðu sálir hafa verið beittar því þær eru svo ölvaðar af víni Hins almiskunnsama og frá sér numdar af áhrifunum af lifandi vatni ástríkrar forsjónar Hans að jafnvel þótt þær þyrftu að þola alla heimsins grimmd sakir Hans mundu þær sætta sig við það og færa Honum þakkir. Þessar sálir hafa aldrei og munu aldrei ala á neinni beiskju. Nei, blóð þeirra sárbænir Drottin veraldanna stöðugt um að fá að lita rykið á vegi Hans og höfuð þeirra þrá að vera borin á lofti á spjótsoddum vegna Hans sem hjörtun og sálirnar elska.
Nokkrum sinnum hafa hörmungar dunið yfir yður en samt eruð þér fullkomlega gálausir. Ein þeirra var eldurinn sem eyddi mestallri borginni í logum réttlætis og mörg ljóð voru ort í því tilefni þar sem fullyrt var að slíkan eld hefði enginn séð fyrr. Samt urðuð þér sífellt gálausari. Sömuleiðis braust út plága og enn skeyttuð þér engu! Sýnið þó aðgát því reiði Guðs vofir yfir yður. Áður en langt um líður munuð þér sjá með eigin augum það sem penni skipunar minnar hefur sent niður.
Lifið þér í þeirri sælu trú að dýrð yðar sé varanleg og veldi yðar standi að eilífu? Nei, Ég sver við nafn Hins almiskunnsama! Hvorki mun dýrð yðar endast né niðurlæging Mín vara. Slík niðurlæging er að mati hins sanna manns höfuðdjásn hverrar dýrðar.
Þegar Ég var barn að aldri og enn ekki kominn til þroska efndi faðir minn til brúðkaups í Teheran fyrir einn af eldri bræðrum Mínum. Eins og siður var í borginni stóð fagnaðurinn í sjö daga og sjö nætur. Á síðasta degi var tilkynnt að setja ætti á svið leikritið „Sháh Sultán Salím“. Mikill fjöldi prinsa, tignarmanna og fyrirfólks í borginni kom saman af því tilefni. Ég sat í einni af efri vistarverum byggingarinnar og horfði á það sem gerðist. Brátt var slegið upp tjaldi í forgarðinum og áður en langt um leið stigu litlar verur í mannslíki, sérhver þeirra vart stærri en mannshönd, út úr tjaldinu og hrópuðu: „Hans hátign er að koma! Setjið strax fram sætin!“ Þá komu út aðrar verur, sumar fóru að sópa, aðrar að úða vatni. Loks kom ein sem kynnt var sem aðalkallari borgarinnar. Hann hóf upp raust sína og skipaði öllum að safnast saman því konungurinn ætlaði að veita áheyrn. Því næst gengu fram nokkrir hópar og tóku sér stöðu, í einum voru menn með hatta og axlaborða að persneskum sið, í öðrum hermenn með stríðsaxir og í hinum þriðja fjöldi þjóna og böðla með píska. Loks birtist konungleg vera með kórónu og í tignarskrúða, afar drembilát í fasi og stórmannleg, gekk ýmist áfram eða nam staðar og hélt þannig með miklum alvöruþunga, stillingu og virðuleik að hásæti sínu og settist þar.
Á þeirri stund var skotið úr mörgum byssum samtímis, lúðrar voru þeyttir og konungurinn og tjaldið hurfu í reykskýi. Þegar reykurinn settist sást konungurinn í hásæti sínu umkringdur ráðherrum, prinsum og tignarmönnum ríkisins, sem höfðu tekið sér stöðu í návist hans. Þá var þjófur í fjötrum færður fyrir konung sem gaf skipun um að hann skyldi hálshöggvinn. Yfirböðullinn brá fljótt við og hjó höfuðið af þjófnum og spratt þá fram vökvi blóðlitaður. Að því búnu veitti konungur hirðinni áheyrn og meðan á henni stóð bárust fregnir um að uppreisn hefði brotist út á vissum vígstöðvum. Konungur kannaði þá herlið sitt og sendi nokkrar herdeildir af stað með stuðningi stórskotaliðs til að bæla niður uppreisnina. Nokkrum andartökum síðar var skotið úr fallbyssum á bak við tjaldið og tilkynnt að bardagi væri hafinn.
Þessi Æskumaður horfði á þetta með mikilli undrun. Þegar hinni konunglegu áheyrn var lokið og tjaldið hafði verið dregið fyrir liðu um tuttugu mínútur og þá birtist maður að baki tjaldsins með kassa undir hendinni.
„Hvað er í þessum kassa,“ spurði ég, „og hvers eðlis var þessi sýning?“
„Öll þessi íburðarmikla sýning og þessi margbrotnu tæki,“ svaraði hann, „konungurinn, prinsarnir og ráðherrarnir, skart þeirra og dýrð, máttur og vald, allt sem þú sást er í þessum kassa.“
Ég sver við Drottin minn sem með einu orði frá vörum sínum hefur skapað allt sem er! Frá þeim degi hefur allt skart heimsins borið svip af þessari leiksýningu í augum þessa Æskumanns. Það hefur ekki verið og verður aldrei neins virði, jafnvel ekki eins mustarðskorns. Hversu mjög undraðist Ég að menn skyldu hreykja sér af slíkum hégóma. Á hinn bóginn skynja þeir sem hafa innsæi hverfulleika mannlegrar dýrðar áður en þeir sjá um hana nokkurn vitnisburð. „Aldrei hefur neitt borið fyrir augu Mín að Ég hafi ekki séð eyðingu fara á undan því og sannlega nægir Guð sem vitni!“
Það sæmir hverjum og einum að lifa sína skömmu ævi í einlægni og sanngirni. Takist einhverjum ekki að bera kennsl á þann sem er sannleikurinn eilífi, ætti hann að minnsta kosti að hegða sér af skynsemi og réttlæti. Áður en langt um líður mun þetta ytra skraut, þessir sýnilegu fjársjóðir og jarðneski hégómi, þessar herfylkingar og skartklæði, þessar hnakkakerrtu og drambsömu sálir, hverfa í þrönga gröf líkt og í kassann forðum. Í augum þeirra sem hafa innsæi er allur þessi ágreiningur, rígur og hégómadýrð áþekkur stundargamni barna, og svo verður ævinlega. Varist að tilheyra þeim sem sjá og afneita samt.
Vér beinum ekki þessu ákalli til þín vegna þessa Æskumanns og ástvina Guðs því þeir eru nú þegar sárt leiknir í prísundinni og vænta sér einskis af mönnum eins og þér. Tilgangur Vor er sá að þú megir lyfta höfði frá svæfli gáleysis, hrista af þér vanrækslumókið og láta af ranglátri andstöðu við þjóna Guðs. Reyndu að lina þjáningar hinna kúguðu meðan þú enn hefur vald og upphefð. Ef þú dæmdir af sanngirni og hefðir skilning á eftirsókn og ágreiningsefnum þessa heims myndir þú fúslega viðurkenna að þau eru eins og sjónarspilið sem Vér lýstum hér á undan.
Hlýddu á orð hins eina sanna Guðs og hreyktu þér ekki af því sem þessum heimi tilheyrir. Hvað hefur orðið af þeim sem líkt og þú gerðu ranglega tilkall til yfirráða á jörðinni, sem reyndu að kæfa ljós Guðs í landi Hans og eyða grundvelli máttugs skipulags Guðs í borgum Hans? Hvar eru þeir núna? Ver sanngjarn í dómum þínum og snúðu aftur til Guðs til þess að Hann megi slá striki yfir afbrotin sem þú hefur framið í þínu fánýta lífi. En því er verr, Vér vitum að þér mun aldrei takast það því grimmd þín er slík að eldur vítis hefur logað og andinn kveinað og stoðir hásætisins nötrað og hjörtu hinna trúföstu bifast.
Ó þjóðir jarðar! Hneigið innri eyru yðar að kalli Hins rangtleikna og staldrið við til að íhuga söguna sem Vér höfum sagt yður. Að þér megið ekki tortímast í eldi sjálfs og ástríðna né leyfa að fánýtir og einskisverðir hlutir þessa lægri heims haldi yður frá Honum sem er sannleikurinn eilífi. Dýrð og niðurlæging, ríkidæmi og fátækt, friðsæld og erfiðleikar, allt mun líða undir lok og áður en langt um líður verða allir á jörðu lagðir til hvílu í gröfum sínum. Það sæmir því hverjum manni innsæis að festa sjónir á takmarki eilífðarinnar, að hann megi fyrir náð Hins aldna konungs komast til hins ódauðlega ríkis og dvelja í forsælunni af meiði opinberunar Hans.
Þótt þessi heimur sé fullur af falsi og svikráðum varar hann samt stöðugt alla menn við yfirvofandi útslokknun. Dauði föðurins er syninum áminning um að hans bíði sömu örlög. Ef aðeins íbúar heimsins sem hafa safnað ríkidæmi fyrir sjálfa sig og villst langt frá Hinum sanna vissu hver mun að endingu eignast fjársjóði þeirra – en Ég sver við líf Bahá, enginn veit það nema Guð, upphafin sé dýrð Hans.
Skáldið Saná’í, megi náð Guðs hvíla yfir honum, sagði: „Sýnið aðgát ó þér sem hafið sortnað í framan vegna ósæmilegs framferðis! Hafið varann á, ó þér sem hafið gránað í vöngum vegna aldurs!“ En því er verr, flestir eru í fastasvefni. Þeim er farið eins og manninum sem í ölæði varð hugfanginn af hundi, tók hann í fang sér og lét vel að honum. En þegar bjarmaði af morgni skilnings og sólin skein yfir sjónhringinn, sá hann að það sem hann unni hugástum var aðeins hundur. Fullur skammar og iðrunar sneri hann aftur til híbýla sinna.
Þú skalt ekki halda að þú hafir auðmýkt þennan Æskumann eða unnið sigur yfir Honum. Hið minnsta af öllu sem skapað er ríkir yfir þér og þú skilur það eigi. Hið aumasta og auvirðilegasta alls heldur þér föngnum og það er ekkert annað en þitt eigið sjálf og ástríða sem ætíð hefur verið ámælisverð. Væri það eigi fyrir fullkomna visku Guðs mundir þú sjálfur hafa skynjað þinn eigin vanmátt og allra sem dvelja á jörðu. Niðurlæging Vor gerir málstað Hans að sönnu dýrlegan, gætuð þér aðeins skilið.
Þessi Æskumaður hefur ætíð verið því frábitinn að mæla það sem er andstætt hæversku því hæverska er kyrtill Vor sem Vér skrýðum með musteri elskaðra þjóna Vorra. Að öðrum kosti hefði í þessari töflu verið flett ofan af sumum þeim gerðum sem þér teljið duldar.
Ó talsmaður máttar og valds! Þessi litlu börn og hinir fátæku í Guði þurftu ekki á fylgd hermanna og embættismanna að halda. Þegar Vér komum til Gallipoli kom höfuðsmaður, ‘Umar að nafni, í návist Vora. Guð veit í sannleika það sem hann sagði. Eftir nokkrar orðræður þar sem minnst var á sakleysi hans og sekt þína, sögðum Vér: „Strax í upphafi hefði átt að kveðja lærða menn þessarar aldar til fundar við þennan Æskumann til að ganga úr skugga um hvað þessir þjónar hefðu brotið af sér. En nú er slíkt ekki lengur hægt og samkvæmt því sem þú segir hefur þér verið falið að fangelsa Oss í þessari eyðilegustu allra borga. Ég bið þig, ef þú sérð þess kost, að mælast til þess við hans hátign soldáninn að þessi Æskumaður fái að ræða við hann í tíu mínútur svo að hann geti krafist þeirra sönnunargagna sem hann telur nægja til vitnis um að Hann, sem er sannleikurinn, mælir sannleika. Leyfi Guð honum að reiða þau fram, leysið þá þetta rangtleikna fólk úr haldi og látið það fara í friði.“
Hann hét því að flytja þessi boð og færa Oss svar. Vér fengum þó engar fréttir frá honum. Þótt það sæmi ekki Honum sem er sannleikurinn að ganga fram fyrir nokkurn mann, þar sem allir hafa verið skapaðir til að hlýða Honum, sýndum Vér undirgefni í þessu máli vegna ástands barnanna og fjölda þeirra kvenna sem eru fjarri vinum sínum og ættlandi. Þrátt fyrir það hefur ekkert gerst. ‘Umar er sjálfur á lífi og tiltækur. Spyrjið hann, að þér megið ganga úr skugga um sannleikann.
Flestir félaga okkar hafa nú veikst í fangelsi og enginn veit hvað hefur fallið Oss í skaut nema Guð, hinn alvitri og alvísi. Tveimur dögum eftir að Vér komum hurfu tveir þjónar til ríkisins hið efra. Heilan dag kröfðust verðirnir þess að fá greiðslu fyrir líkklæði og útför þótt enginn hefði beðið þá um aðstoð, að öðrum kosti yrðu þessir blessuðu líkamar ekki fluttir á brott. Á þeim tíma vorum Vér févana á jarðneska vísu og báðum þá að láta Oss annast málið og leyfa viðstöddum að fara með líkin, en þeir neituðu. Loks var farið með teppi á markaðstorgið og andvirði þess var afhent vörðunum. Seinna fréttist að þeir hefðu einungis tekið grunna gröf og lagt báða þessa blessuðu líkama í hana þótt þeir hefðu tekið tvöfalda þá upphæð sem nægt hefði fyrir líkklæðum og greftrun.
Penninn getur ekki lýst og tungan ekki tjáð þær þrengingar sem Vér höfum þolað. Þó er Mér beiskja slíkra þrenginga sætari en hunang. Mætti öll þjáning heimsins á vegi Guðs og sakir ástar Hans falla sérhvert andartak í hlut þessarar svipulu sálar sem sökkt hefur verið í djúp guðdómlegrar þekkingar!
Vér biðjum Guð um þolinmæði og umburðarlyndi því að þú ert aðeins veikburða sál og rúinn skilningi. Ef þú vaknaðir og andaðir að þér ilminum sem andvarinn ber frá athvarfi eilífðar mundir þú fúslega snúa baki við öllu sem þú átt og gleðst yfir og kjósa þér dvöl í þessum niðurníddu vistarverum hins mesta fangelsis. Bið Guð að gefa þér þann skilningsþroska að þú getir greint lofsverð verk frá ámælisverðum. Friður sé með þeim sem fylgir vegi leiðsagnar!
Lawḥ-i-Ra’ís
Í þessari töflu ávarpar Bahá’u’lláh tyrkneska stórvesírinn ‘Alí Páshá í annað skipti. Taflan var opinberuð á pesnesku skömmu eftir komu Bahá’u’lláh til ‘Akká.
Nánar er sagt frá þessu atviki í God Passes By, kafla X.
Sennilega tilvísun til Hocapaşa-brunans, sem eyddi stórum hluta Konstanínópels 1865.