Lawḥ-i-Karmil (Tafla Karmels)
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Öll dýrð sé þessum degi, þeim degi er ilmi miskunnar hefur verið dreift yfir allt sem er; þeim degi er hefur orðið slíkrar blessunar aðnjótandi að liðnar aldir og árþúsundir geta aldrei komist í samjöfnuð við hann; þeim degi er auglit Hins aldna hefur beinst að heilögum veldisstól Hans. Þá hóf allt sem skapað hefur verið upp raust sína og auk þess herskarar himnanna: „Haf hraðann á, ó Karmel, því sjá, ljósi ásýndar Guðs, stjórnanda í ríki nafnanna og skapara himnanna, hefur verið úthellt yfir þig.“
Í fagnaðarleiðslu hóf hún upp rödd sína og hrópaði: „Megi lífi mínu verða fórnað sakir Þín, því Þú hefur fest sjónir á mér, veitt mér af veglyndi Þínu og nálgast mig. Aðskilnaður við Þig, ó Þú uppspretta eilífs lífs, hefur því sem næst eytt mér og fjarlægð frá Þér hefur tært upp sál mína. Allt lof sé Þér fyrir að hafa leyft mér að hlýða kalli Þínu, heiðrað mig með fótsporum Þínum og endurnært sál mína með lífgandi ilmi dags Þíns og gjallandi raust penna Þíns; raust sem Þú hefur gert að lúðraþyt Þínum meðal þjóðar Þinnar. Er sú stund rann upp að ómótstæðileg trú Þín birtist, blést Þú anda Þínum í penna Þinn og sjá: Undirstöður gjörvallrar sköpunarinnar bifuðust og ljóstruðu upp í augsýn mannkyns þeim leyndardómum, sem voru faldir í fjárhirslum Hans sem er eigandi alls.“
Ekki fyrr hafði rödd hennar náð til þessa upphafnasta staðar en Vér svöruðum og sögðum: „Fær Drottni þínum þakkir, ó Karmel. Eldur aðskilnaðar frá Mér hafði því sem næst eytt þér en þá ólgaði haf návistar Minnar frammi fyrir þér og gladdi augu þín og allrar sköpunarinnar og fyllti allt hið sýnilega og ósýnilega fögnuði. Fagna, því Guð hefur á þessum degi reist hásæti sitt á þér, gert þig að dagsbrún tákna sinna og sól vitnisburðar um opinberun sína. Heill þeim sem hringsólar um þig, kunngerir opinberun dýrðar þinnar og skýrir frá því sem örlæti Drottins, Guðs þíns, hefur úthellt yfir þig. Tak kaleik ódauðleikans í nafni Drottins þíns, hins aldýrlega, og fær Honum þakkir því að Hann hefur sem tákn um miskunn sína með þér breytt sorg þinni í gleði og snúið harmi þínum í fagnaðarríka sælu. Vissulega ann Hann þeim stað, sem hefur verið gerður að aðsetri hásætis Hans, staðnum sem geymir fótspor Hans, sem hefur verið heiðraður með návist Hans, þaðan sem Hann hóf upp raust sína og þar sem Hann felldi tár sín.“
„Kalla til Síon, ó Karmel, og kunnger fagnaðartíðindin: Hann sem var hulinn augum dauðlegra manna er kominn! Sigursæl yfirráð Hans eru opinberuð; alltumlykjandi dýrð Hans hefur birst. Varast að hika eða nema staðar. Hraða þér og gakk kringum borg Guðs, sem hefur stigið niður af himnum, hina himnesku Kaaba. Umhverfis hana hafa þeir sem njóta hylli Guðs, hinir hjartahreinu og fylkingar upphöfnustu engla, gengið í lotningarfullri aðdáun. Ó hve Ég þrái að boða sérhverjum stað á yfirborði jarðar og færa sérhverri borg gleðifregnir þessarar opinberunar, sem hefur laðað að sér hjarta Sínaí og fengið hinn brennandi runna til að hrópa í sínu nafni: „Guði, Drottni drottna, tilheyra ríki jarðar og himins.“ Vissulega er þetta dagurinn þegar bæði láð og lögur fagna þessari boðun, dagurinn þegar Guð hefur með örlæti, langt ofar skilningi dauðlegs hugar og hjarta, safnað því saman sem hann áformaði að opinbera. Áður en langt um líður mun Guð sigla á þér örk sinni og birta fylgjendur Bahá, sem skráðir hafa verið í bók nafnanna.“
Helgaður sé Drottinn alls mannkyns. Þegar nafn Hans er nefnt titra allar öreindir jarðar og Rödd tignarinnar ljóstrar því upp sem var sveipað þekkingu Hans, falið í hirslu valds Hans. Hann stýrir vissulega öllu sem er á himnum og öllu sem er á jörðu í krafti nafns síns, hins máttuga og alvolduga, hins hæsta.