Lawḥ-i-Haft Pursish (Sjöspurningataflan)
Inngangur
Sjöspurningataflan
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Árið 2006 gaf Allsherjarhús réttvísinnar út bókina „Tjaldbúð einingar“ sem inniheldur nokkrar töflur Bahá’u’lláh. Meginuppistaða bókarinnar eru þrjár töflur sem eru svör við nokkrum spurningum tveggja saraþústrasinna. Annar þeirra var persneski diplómatinn Mánikchí Ṣáḥib, sem var einn af þekktustu leiðtogum saraþústrasinna í Persíu á nítjándu öld. Ṣáḥib stofnaði ráð saraþústrasinna í héraðinu Yazd. Í ráðinu voru um tíma nítján ráðgjafar og gerðust sex þeirra bahá’íar, þar á meðal Ustád Javán-Mard, sem var annar þeirra sem Bahá’u’lláh svarar í þessum töflum sínum. Taflan hér á eftir er svar við nokkrum spurningum hans. Bahá’u’lláh nefnir hann Shír-Mard, sem þýðir „hinn ljónhugaði“. Adíb Taherzadeh segir í bók sinni „Opinberun Bahá’u’lláh“ (3. bindi) að hann hafi verið fyrsti bahá’íinn úr röðum saraþústrasinna í Persíu sem var jarðsettur í stað þess að verða fluttur í einn af „þagnarturnum“ saraþústramanna þar jarðneskar leifar þeirra urðu veðri og ránfuglum að bráð eins og tíðkast hafði í þúsundir ára þeirra á meðal.
Í fyrstu töflunni í Tjaldbúð einingar leggur Bahá’u’lláh áherslu á nokkur grundvallaratriði trúarinnar sem svar við spurningum Mánikchí Ṣáḥib. Þau eru þessi:
„Sinnið til fulls þörfum þeirrar aldar sem þér lifið á og beinið athygli yðar að nauðþurftum hennar og kröfum.“
„Beinið augum yðar frá myrkri firringar að geislandi ljósinu sem skín frá sól einingar.“
„Þér eruð ávextir á einu tré og lauf einnar greinar.“
„Hvaðeina sem dregur úr fráfræði og eykur þekkingu hefur verið og mun alltaf verða þóknanlegt fyrir augliti Drottins sköpunarinnar.“
Bahá’u’lláh svarar einnig spurningum um kenningar annarra trúarbragða, bæði semískra og austurlenskra, þ.á.m. um eðli sköpunarinnar, tengsl trúar og skynsemi, muninn á lagafyrirmælum trúarbragða og hvernig þau boða trú sína og bregðast við nýjum fylgjendum. Í svörum sínum leggur Bahá’u’lláh áherslu á það sem er rétt og satt í hinum ýmsu kenningum og átrúnaði í stað þess að hafna þeim eða draga úr gildi þeirra.
Ṣáḥib virtist ekki alveg sáttur við svör Bahá’u’lláh og endurtekur nokkrar spurningar sínar í öðru bréfi til hans. Bahá’u’lláh svarar honum aftur og útskýrir þar af mikilli ástúð og mildi að svörin við öllum spurningum Ṣáḥibs sé að finna í þessum grundvallaratriðum og þá fyrst og fremst í þessum orðum: „Sinnið til fulls þörfum þeirrar aldar sem þér lifið á og beinið athygli yðar að nauðþurftum hennar og kröfum.“ Bahá’u’lláh segir að þegar Ṣáḥib hafi skilið innihald þessara orða muni hann finna þar svörin við öllum öðrum spurningum sínum og þurfi þá einskis að spyrja framar.
Í töflunni hér á eftir minnist fyrirspyrjandinn á nokkur atriði sem höfðu meginþýðingu í augum saraþústasinna. Hið fyrsta varðar endurkomu Sháh Bahráms, endurlausnara heimsins sem Saraþústra hafði boðað að myndi koma og stofna ríkis réttlætis á jörðunni og vinna sigur á öflum myrkursins. Þessarar endurkomu var beðið með jafn mikilli eftirvæntingu og endurkomu Mahdis meðal sjíta í íslam og Jesú Krists í evangelískum kristindómi. Bahá’u’lláh ávarpar æðstu presta saraþústratrúar og segir þeim að allt sem ritningarnar hafi sagt sé komið fram og táknin séu auðsæ þeim sem hafi skýra sjón.
Í Avesta-ritningum Saraþústratrúar er sett fram ákveðin sýn á lífið eftir dauðann, einkum upphaf þeirrar vegferðar sem bíður einstaklingsins eftir dauðann. Gerðir hans eru vegnar á vog og hann kemur að mikilli brú, sem nefnd er Chinvat í Avesta-ritunum (Ṣiráṭ í Kóraninum). Við brúna bíður hans vera sem kveðst eiga að fylgja honum yfir til næsta lífs. Hafi hinn látni iðkað réttlæti í lífinu, látið sér annt um hina fátæku, fórnað í réttum anda og gengið með Guði á jörðinni, er veran skínandi björt, óviðjafnanlega fögur og heillandi. Hafi hinn látni vanrækt þessar dyggðir er hún þeim mun óásjálegri. Í báðum tilvikum kemst hinn látni að raun um að þessi vera er ekkert annað en hans eigin sál. Bahá’u’lláh svarar spurningu um Ṣiráṭ á þann veg að sá sem hafi borið kennsl á opinberanda Guðs hafi þegar gengið yfir brúna.
Í þessari töflu er einnig að finna bæn Bahá’u’lláh um lausn frá þjáningu en þessi bæn hefur ekki birst áður í viðurkenndri þýðingu. Íslenska þýðingin hér á eftir er óendurskoðuð.
Í nafni Drottins málsins, hins alvitra!
Lof sé helgum Drottni sem hefur upplýst veröldina með ljómanum frá sól náðar sinnar. Með bókstafnum „B“ hefur Hann birt hið mesta úthaf og með bókstafnum „H“ hefur Hann opinberað innsta kjarna sinn. Hann er hinn almáttugi, sá sem mannlegur máttur getur aldrei aftrað frá að ná takmarki sínu og herskarar konunga ekki varnað máls.
Bréf þitt barst, Vér lásum það og heyrðum kall þitt. Í því voru fólgnar dýrmætar perlur ástar og leyndir dómar ástúðar. Vér biðjum óviðjafnanlegan Drottinn að gera þér kleift að aðstoða málstað Hans og leiða hina sárþyrstu í eyðimörk fáfræðinnar að vatni lífsins. Valdi Hans er ekkert um megn. Spurningum sem þú lagðir fyrir úthaf þekkingar og sól innsæis hefur Hann svarað.
Fyrsta spurningin: „Á hvaða tungumáli ber að mæla og hvert ber okkur að snúa þegar við tilbiðjum einan sannan Guð?“
Upphaf alls máls er vegsömun Guðs og hún kemur næst viðurkenningu á Honum. Augað verður að helgast ef það á að viðurkenna Hann í sannleika og tungan sömuleiðis ef hún á að færa Honum lof við Hans hæfi. Á þessum degi beinast auglit hinna vitru og þeirra sem hafa innsýn í átt til Hans – nei, að Honum beinast allar áttir. Ó þú hinn ljónhugaði! Vér biðjum Guð þess að þú megir verða hetja á þessum vettvangi, rísa upp með himnesku afli segja: „Ó æðstu prestar! Eyru hafa ykkur verið gefin til að hlýða á leyndardóma Hans sem er hinn sjálfumnógi og augu til að sjá Hann. Hvers vegna flýið þér? Hinn óviðjafnanlegi vinur hefur opinberast, hjálpræðið er í orðum Hans. Ef þér, ó æðstu prestar, fynduð ilminn frá rósagarði skilnings leituðu þér ekki neins annars en Hans og þekktuð hinn alvitra og óviðjafnanlega í nýjum búningi: Þér munduð beina augum yðar frá veröldinni og öllum sem hennar leita og rísa upp Honum til hjálpar.“
Önnur spurningin varðar trú og trúarbrögð. Trú Guðs hefur á þessum degi verið opinberuð. Hann sem er Drottinn heimsins er kominn og hefur varðað leiðina. Trú Hans er trú góðvildar réttlæti og trúarbrögð Hans eru trúarbrögð umburðarlyndis. Þessi trú færir eilíft líf og þessi trúarbrögð gera mönnunum kleift að komast af án alls annars. Hún felur að sönnu í sér alla trú og öll trúarbrögð. Haldið fast við hana og varðveitið vel.
Þriðja spurningin: „Hvernig eigum við á að fara að mönnum á þessari öld sem hefur valið að fylgja mismunandi trúarbrögðum og líta hver og einn á sína trú sem öllum öðrum æðri og meiri svo að við getum varist árásum þeirra í orði og verki?“
Ó þú ljón meðal manna! Lít á þjáningu á vegi Guðs sem hreina hugsvölun. Öll þjáning sem þoluð er vegna Hans er máttug græðing, sérhver beiskja sætleiki einn og sérhver niðurlæging upphafning. Ef menn skildu og viðurkenndu þennan sannleika fórnuðu þeir fúslega lífi sínu fyrir slíka þjáningu. Því hún er lykill að ómetanlegum fjársjóðum. Hversu skelfileg sem hún er hið ytra er hún og verður ævinlega mikils metin hið innra. Vér viðurkennum og staðfestum það sem þú segir því mannfólkið er að sönnu svipt sólarljósi réttlætisins og lítur á það sem óvin.
Ef þú vilt losna við þjáningu les þessi orð sem penni Hins almiskunnsama hefur opinberað: „Ó Guð, Guð minn! Ég ber vitni einingu Þinni og einleika. Ég bið Þig, ó Þú eigandi nafna og smiður himnanna, við gagntakandi áhrif Þíns upphafna orðs og getu Þíns æðsta penna, að aðstoða mig með táknum valds Þíns og máttar og vernda mig gegn meingerðum óvina Þinna sem hafa rofið sáttmála Þinn og erfðaskrá. Þú ert í sannleika hinn almáttugi, hinn voldugasti.“ Þetta ákall er óvinnandi vígi og ósigrandi her. Það veitir vernd og færir lausn.
Fjórða spurningin: „Bækur okkar hafa kunngert komu Sháh Bahráms með margvíslegum táknum mönnunum til réttrar leiðsagnar.…“
Ó vinur! Allt sem í bókunum stóð hefur verið opinberað og útskýrt. Táknin hafa birst úr öllum áttum. Hinn alvaldi kallar á þessum degi og tilkynnir birtingu hins hæsta himins. Veröldin er uppljómuð af ljósi opinberunar Hans, en hve fá eru ekki augun sem geta séð hana! Bið óviðjafnanlegan Guð að miðla þjónum sínum skarpri innsýn, því að innsýn leiðir til sannrar þekkingar og stuðlar að hjálpræði. Að sönnu er ávinningurinn af skilningi mannsins háður skýrri sjón hans. Ef mannanna börn sæju með augum skilnings mundu þau á þessum degi líta veröldina uppljómaða nýju ljósi. Seg: sól þekkingar er risin og ljósgjafi innsæis hefur birst. Sæll er sá sem hefur öðlast, orðið vitni og borið kennsl.
Fimmta spurningin varða brúna Ṣiráṭ, paradís og hel. Sannlega hafa spámenn Guðs komið og mælt sannleikann. Hvaðeina sem boðberi Guðs hefur kunngert hefur verið og mun verða birt augum manna. Veröldin er grundvölluð á umbun og refsingu. Þekking og skilningur hafa ætíð staðfest og munu áfram staðfesta raunveruleika himins og heljar því umbun og refsing byggist á tilvist þeirra. Paradís táknar fyrst og fremst velþóknun Guðs. Sá sem öðlast velþóknun Hans er talinn til og skráður meðal íbúa upphöfnustu paradísar og þegar sál Hans stígur upp öðlast Hann það sem penni og blek megna ekki að lýsa. Fyrir þeim sem gæddir eru innsæi og festa sjónir á hinni æðstu sýn er brúin, mælivogin, paradís, hel og allt sem skráð er og nefnt í helgiritunum skýrt og augljóst. Á þeirri stundu er geislarnir frá sól sannleikans opinberast hafa allir sömu stöðu. Guð kunngerir síðan það sem Honum þóknast og sá sem heyrir kall Hans og viðurkennir sannleika þess telst til íbúa paradísar. Slík sál hefur gengið yfir brúna, mælivogina og allt sem ritað hefur verið varðandi upprisudaginn og náð áfangastað sínum. Dagur opinberunar Guðs er hinn æðsti upprisudagur. Vér vonum að þegar þú bergir á úrvals víni himnesks innblásturs og tæru vatni guðlegrar náðar megir þú ná stöðu uppgötvunar og vitnisburðar og líta augum allt sem þú hefur minnst á, bæði hið ytra og innra.
Sjötta spurningin: „Eftir að sálin hefur skilist við líkamann og yfirgefið hann hraðar hún sér til híbýlanna sem taka við.…“
Hvað þetta mál varðar birtist fyrir nokkru frá Penna guðlegrar þekkingar það sem nægir mönnum innsæis og veitir hinum skilningsríku mestan fögnuð. Sannlega segjum Vér: sálin gleðst af góðum gerðum og hlýtur ávinning af framlögum sem gerðar voru á vegi Guðs.
Sjöunda spurningin varðar nafn og ætterni hins heilaga. Abu’l-Faḍl-i-Gulpáygání, með honum sé dýrð Mín, hefur með tilvísun í helgiritin ritað um þessi efni það sem veitir þekkingu og eykur skilning.
Trú Guðs er gædd gagntakandi valdi og mætti. Áður en langt um líður mun það sem hefur framgengið af munni Vorum koma fram. Vér biðjum Guð að gefa þér afl til að aðstoða Hann. Hann er vissulega sá sem allt þekkir. Ef þú færð í hendur og lest Súriy-i-Ra’ís og Súriy-i-Mulúk kæmist þú að raun um að þú þarft ekki að spyrja þessara spurninga og risir upp í þjónustu við málstað Guð með þeim hætti að hvorki kúgun heimsins né árásir þjóða hans gætu aftrað þér að veita Honum aðstoð sem er hinn aldni og yfirbjóðandi Drottinn alls.
Vér biðjum Guð að staðfesta þig í því sem mun upphefja nafn þitt og gera það ódauðlegt. Reyndu að komast yfir fyrrgreindar töflur og sækja úr þeim skerf af perlum visku og máls sem komið hafa úr fjárhirslu penna Hins almiskunnsama. Dýrð sé með þér og sérhverju stöðugu og óhaggandi hjarta og með sérhveri staðfastri og tryggri sál.