Bishárát (Gleðifréttirnar)
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Þetta er kall Hins aldýrlega sem kunngert er frá hinum æðsta sjónhring í prísundinni ‘Akká
Hann er útskýrandinn, sá sem allt þekkir, hinn gjörhuguli.
Guð, hinn sanni, vitnar um, og opinberendur nafna Hans og eiginda bera því vitni, að eini tilgangur Vor með því að upphefja þetta kall og kunngera hið æðsta orð Hans, er að eyra allrar sköpunarinnar megi, fyrir lifandi vötn himnesks máls, hreinsast af uppspuna og hneigjast að þessu heilaga, dýrlega og upphafna orði sem framgengið hefur úr hirslu þekkingar Hans sem er mótandi himnanna og skapari nafnanna. Sælir eru þeir sem dæma af réttvísi.
Fyrsta gleðifréttinsem Móðurbókin hefur fært öllum þjóðum jarðarinnar í þessari opinberun er að lagaboðið um heilagt stríð hefur verið afmáð úr bókinni. Dýrlegur er hinn almiskunnsami, Drottinn ríkulegrar náðar, en með Honum hafa dyr himneskrar hylli verið opnaðar á gátt öllum sem eru á himni og jörðu.
Það er leyft, að þjóðir og ættkvíslir jarðarinnar samneyti hver annarri í fögnuði og geislan. Ó fólk! Umgangist fylgjendur allra trúarbragða í anda vináttu og bróðurþels. Þannig hefur dagstjarna helgunar Hans skinið yfir sjónhring ákvörðunar Guðs, Drottins veraldanna.
Þriðja gleðifréttinvarðar nám ýmissa tungumála. Þessi ákvörðun hefur áður streymt frá Penna hins hæsta: Það sæmir þjóðhöfðingjum heimsins – megi Guð styðja þá – eða ráðherrum jarðarinnar að hafa samráð og taka upp eitt þeirra tungumála sem til eru, eða nýtt tungumál sem kenna á börnum í skólum um allan heiminn, og sömuleiðis eitt ritmál. Þannig mun verða litið á alla jörðina sem eitt land. Heill sé þeim sem hlýðir kalli Hans og gætir þess sem honum er boðið af Guði, Drottni hins máttuga hásætis.
Ef einhver konunganna – megi Guð aðstoða þá – rís upp til að vernda og hjálpa þessu kúgaða fólki, verða allir að keppast við að elska og þjóna honum. Þetta málefni er öllum gert að skyldu. Heill sé þeim sem hegða sér í samræmi við það.
Í hverju landi, þar sem meðlimir þessa samfélags búa, ber þeim að breyta gagnvart ríkisstjórn þess lands með hollustu, heiðarleik og sannleiksást. Þetta er það sem opinberað hefur verið að skipan Hans sem er ákvarðandinn, hinn aldni.
Þjóðum jarðarinnar, einni sem öllum, er gert að bindandi skyldu, að veita aðstoð þessum þungvæga málstað sem komið hefur frá himni vilja hins ævarandi Guðs, svo að svo að eldur óvináttunnar, sem logar í hjörtum sumra þjóða jarðarinnar megi verða slökktur með lifandi vötnum himneskrar visku og í krafti himneskra ráða og hvatninga og ljós einingar og samstillingar megi brjótast fram og úthella ljóma sínu yfir veröldina.
Vér ölum í brjósti þá von, að fyrir grandvara viðleitni þeirra sem eru skýrendur valds Guðs – upphafin sé dýrð Hans – megi stríðsvopnum um allan heim verða breytt í tæki í til uppbyggingar og að deilur og ósætti megi hverfa meðal manna.
Sjötta gleðifréttiner grundvöllun hins minni friðar, en nánari atriði hans hafa fyrr verið opinberuð af upphafnasta penna Vorum. Mikil er blessun hans sem veitir honum fulltingi sitt, og gætir alls þess sem ákvarðað hefur verið af Guði, hinum alvitra, hinum alvísa.
Val klæða og skurður og hirðing skeggs er gefin mönnunum á vald. En varist, ó fólk, að verða leiksoppar hinna fáfróðu.
Frómra gerða munka og presta meðal fylgjenda Andans (Jesú) – yfir Honum hvíli friður Guðs – er minnst í návist Hans. Lát þá samt sem áður á þessum degi hafna lífi innilokunar og beina skrefum sínum til hins opna heims og taka sér það fyrir hendur sem gagna mun þeim sjálfum og öðrum. Vér höfum gefið þeim leyfi til að ganga í hjónaband til þess að frá þeim megi koma sá sem nefnir nafn Guðs, Drottins hins sýnilega og ósýnilega, Drottins hins upphafna hásætis.
Er syndarinn finnur sig frjálsan og fráhverfan öllu nema Guði, ætti hann að biðja Hann fyrirgefningar og afláts. Það er eigi leyfilegt að játa syndir sínar og yfirtroðslu frammi fyrir nokkrum manni með því að það hefur aldrei og mun aldrei stuðla að guðlegri fyrirgefningu. Auk þess veldur slík játning frammi fyrir öðrum auðmýkingu og lítillækkun mannsins, og Guð – upphafin sé dýrð Hans – vill ekki auðmýkingu þjóna sinna. Vissulega er Hann hinn vorkunnláti, hinn miskunnsami. Syndarinn ætti, sín í milli og Guðs, að sárbæna um miskunn frá hafi miskunnsemdanna, biðja fyrirgefningar frá himni örlætisins og segja:
Ó Guð, Guð minn! Ég sárbæni Þig við blóð Þinna sönnu elskenda sem voru svo hugfangnir af ljúfum orðum Þínum, að þeir hröðuðu sér til tinda dýrðarinnar, á vettvang hins dýrlegasta píslarvættis, og ég sárbið Þig við þá leyndardóma sem eru fólgnir í þekkingu Þinni, og við perlurnar sem varðveittar eru í hafi hylli Þinnar, að veita mér, föður mínum og móður minni fyrirgefningu Þína. Þú ert í sannleika miskunnsamastur þeirra sem auðsýna miskunn. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn algjöfuli.
Ó Drottinn! Þú lítur þennan kjarna syndsamleikans snúa sér til úthafs hylli Þinnar og þennan smælingja leita ríkis Þíns himneska valds og þennan fátækling hneigjast að sól auðlegðar Þinnar. Við miskunn Þína og náð Þína, vald honum ekki vonbrigðum, ó Drottinn, né hald honum frá opinberunum hylli Þinnar á dögum Þínum, né varpa honum frá dyrum Þínum sem Þú hefur opnað á gátt öllum sem dvelja á himni Þínum og jörðu Þinni.
Því er verr! Því er verr! Syndir mínar hafa hindrað mig frá því að nálgast hirð heilagleika Þíns og misgerðir mínar hafa orðið þess valdandi, að ég hef reikað langt frá tjaldbúð tignar Þinnar. Ég hef framið það sem Þú bannaðir mér og hef lagt það til hliðar sem Þú bauðst mér að varðveita.
Ég bið Þig við Hann sem er yfirbjóðandi Drottinn nafna, að rita niður fyrir mig með penna hylli Þinnar það sem gera mun mér megnugt að nálgast Þig og sem mun hreinsa mig af misgerðum mínum sem komið hafa á milli mín og fyrirgefningar Þinnar og afláts.
Vissulega ert Þú hinn máttugi, hinn örláti. Enginn er Guð nema Þú, hinn máttugi, hinn náðugi.
Sem tákn um náð frá Guði, opinberanda þessa mesta boðskapar, höfum Vér fjarlægt af helgum ritum og töflum lögin sem kveða á um eyðileggingu bóka.
Það er leyfilegt að nema vísindi og listir – þau vísindi sem að gagni koma og stuðla munu að framförum og þróun fólksins. Þessi er ákvörðun Hans sem er ákvarðandinn, hinn alvitri.
Hverjum og einum yðar er gert að skyldu, að stunda einhverskonar atvinnu, svo sem iðnir, verslun og þessháttar. Vér höfum náðarsamlega upphafið störf yðar í slíkri atvinnu á svið tilbeiðslu til Guðs, hins sanna. Íhugið í hjörtum yðar náð og blessun Guðs og færið Honum þakkir að kvöldlagi og í dögun. Sóið eigi tíma yðar í iðjuleysi og ómennsku. Takið yður það fyrir hendur sem færir sjálfum yður og öðrum ábata. Þannig hefur það verið ákvarðað í þessari töflu, en yfir sjónhring hennar skín geislandi dagstjarna visku og máls.
Fyrirlitnastur allra manna fyrir augliti Guðs er sá sem situr iðjulaus og betlar. Haldið fast við taug efnislegra gæða og setjið allt traust yðar á Guð sem sér fyrir öllum gæðum. Þegar einhver tekur sér fyrir hendur iðn eða verslun, er slík atvinna fyrir augliti Guðs metin sem tilbeiðsla; og þetta er eigi annað en tákn um takmarkalausa og altæka hylli Hans.
Mennirnir í Húsi réttvísi Guðs hafa verið settir sem umsjónarmenn málefna fólksins. Þeir eru í sannleika trúnaðarmenn Guðs meðal þjóna Hans og dagselding myndugleika í löndum Hans.
Ó fólk Guðs! Það sem þjálfar veröldina er réttlætið, því að það hvílir á tveim stoðum, umbun og refsingu. Þessar tvær stoðir eru uppspretta lífs fyrir heiminn. Þar sem fyrir hvern dag er nýtt vandamál og fyrir hvert vandamál hagnýt lausn, ætti að skjóta slíkum málum til þeirra sem þjóna í Húsi réttvísinnar svo að þeir megi gera ráðstafanir í samræmi við þarfir og kröfur tímans. Þeir sem sakir Guðs rísa upp til að þjóna málstað Hans, eru viðtakendur himnesks innblásturs frá ríkinu ósýnilega. Öllum ber skylda til að sýna þeim hlýðni. Öllum málefnum ríkisins verður að vísa til Húss réttvísinnar, en því sem lýtur að tilbeiðslu verður að haga í samræmi við það sem Guð hefur opinberað í Bók sinni.
Ó fólk Bahá! Þér eruð dögunarstaðir ástar Guðs og dagsbrúnir ástríkis Hans. Saurgið eigi tungur yðar með því að formæla eða atyrða nokkra sál og verjið augu yðar því sem ekki er sæmandi. Berið það fram sem þér eigið. Sé því veitt viðtaka, er tilgangi yðar náð; ef ekki, þá eru mótmæli haldlaus. Látið þá sálu eina og snúið yður til Drottins, verndarans, hins sjálfumnóga. Valdið ekki sorg, hversu miklu síður ósamlyndi eða deilum. Sú von lifir, að þér megið hljóta sanna uppfræðslu í forsælunni af meiði blíðrar miskunnar Hans og hegða yður í samræmi við það sem Guð þráir. Þér eruð öll lauf af einu tré og dropar í einu hafi.
Það er eigi nauðsynlegt að takast á hendur sérstaka ferð til að heimsækja legstaði hinna látnu. Ef efnað fólk og vel stætt gefur kostnaðinn við slíkar ferðir til Húss réttvísinnar, er það þóknanlegt og þegið í návist Guðs. Sælir eru þeir sem gæta fyrirmæla Hans.
Þótt lýðræðisfyrirkomulag stjórnarhátta gagnist öllum þjóðum heimsins, þá er tign konungsdæmis eitt af táknum Guðs. Vér æskjum þess eigi, að lönd heimsins séu svift henni. Ef hinir vitru sameina þessi tvö form í eitt, mun endurgjald þeirra verða mikið í návist Guðs.
Í fyrri trúarbrögðum hafa fyrirmæli svo sem heilagt stríð, eyðilegging bóka, bann við samneyti og félagsskap við annað fólk eða við lestri sérstakra bóka, verið sett í samræmi við þarfir tímans; en í þessari máttugu opinberun, í þessari einstæðu boðun, hafa margvíslegar gjafir og hylli Guðs yfirskyggt alla menn, og frá sjónhring vilja hins ævarandi Drottins hefur óskeikul ákvörðun Hans kveðið á um það sem Vér höfum sett fram hér að ofan.
Vér færum Guði þakkir – helgaður og dýrlegur sé Hann – fyrir hvaðeina sem Hann hefur náðarsamlega opinberað á þessum blessaða, þessum dýrlega og óviðjafnanlega degi. Að sönnu: þótt allir á jörðu hefðu aragrúa tungna og mundu óaflátanlega lofa Guð og mikla nafn Hans til þeirra endaloka sem engan endi þekkja, mundu þakkir þeirra ekki nægja fyrir aðeins eina af þessum náðargjöfum sem Vér höfum nefnt í þessari töflu. Þessu ber vitni sérhver maður sem hefur til að bera visku og glöggskyggni, skilning og þekkingu.
Vér biðjum Guð þess af einlægni – upphafin sé dýrð Hans – að aðstoða stjórnendurna og þjóðhöfðingjana sem eru skýrendur valds og dagsbrúnir dýrðar, við að framfylgja lögum Hans og fyrirmælum. Hann er í sannleika hinn almáttugi, hinn alvoldugi, sá sem vanur er að svara ákalli mannanna.