Leitandinn á vegi Guðs
Úrval úr dulhyggjuritum Bahá’u’lláh
Í þessari bók birtast nokkrar töflur úr ritum Bahá’u’lláh sem fjalla um áfangana í leit mannsins að Guði og andlegum tilgangi lífsins. Allar töflurnar flokkast meðal dulhyggjurita Bahá’u’lláh en hið helsta þeirra og þekktasta er Dalirnir sjö sem birtist í nýrri þýðingu í bókinni The Call of the Divine Beloved (Ákall hins guðdómlega Ástvinar) sem Allsherjarhús réttvísinnar gaf út í byrjun árs 2019.
Dulhyggja í trúarbrögðum fjallar um tengsl mannsins við Guð með íhugun, bæn og trúarreynslu. Shoghi Effendi, Verndari trúarinnar, segir: „Kjarni trúarinnar er sú dulúðga tilfinning sem sameinar manninn Guði.… Bahá’í trúin, eins og öll önnur opinberuð trúarbrögð, er þannig í grundvallaratriðum dulúðug í eðli sínu en meginmarkmið trúarinnar er þroski einstaklingsins og samfélagsins.“
Shoghi Effendi lýsir Dölunum sjö sem veigamesta dulhyggjuriti Bahá’u’lláh og það var einnig meðal fyrstu rita Hans sem þýdd voru á vestræn tungumál. Bahá’u’lláh opinberaði Dalina sjö í kringum 1860 eftir að Hann kom úr tveggja ára dvöl sinni í fjöllunum í Kúrdistan og áður en Hann opinberaði köllun sína í Riḍván garðinum í Bagdað 1863. Ritið er svar við spurningum trúardómarans Shaykh Muhyi’d-Din, en hann lét af embætti eftir lestur þess og gekk í hóp súfista. Súfismi er dulhyggjustefna í íslam sem hefur fylgjendur bæði meðal súnní og shía múslíma. Fylgjendurnir eru nefndir súfar eða dervisar. Þar sem viðtakandi Dalanna sjö var súfi einkennist stíllinn sem Bahá’u’lláh beitti í þessu riti af fjölmörgum tilvísunum í trúarhefðir múslíma, Kóraninn sjálfan og þekkt trúarskáld eins og Rúmí, ‘Aṭṭár og Ibn-i-Fáriḍ.
Bahá’u’lláh lýsti síðar tilurð Dalanna sjö með eftirfarandi orðum:
Þetta rit var opinberað á máli fólksins áður en Vér opinberuðum köllun Vora og ætlunarverk. Ástæðan fyrir opinberun þess var bréf sem beint var til hinnar helgustu hirðar í Írak og barst frá súnní-múslíma sem var fræðimaður og hneigðist til dulhyggju. Ritið var því opinberað í samræmi við guðlega visku á þann hátt sem tíðkaðist meðal fólksins. En vissulega hefur sérhver sál sem á þessum degi hefur beint augliti sínu að hinum æðsta sjónarhring og borið kennsl á hinn eina sanna Guð farið um alla þessa sjö dali og náð þeim sjö stöðum sem þar er minnst á.
Af töflunum fimm sem koma á eftir Dölunum sjö í þessari bók má ráða að sú andlega vegferð sem Bahá’u’lláh lýsir einskorðist ekki við fastmótaða áfanga. Leit elskandans að Ástvini sínum lýtur óræðum lögmálum eins og Bahá’u’lláh gefur til kynna í einni töflunni: „Hjörtu þeirra sem borið hafa kennsl á Hann standa ráðþrota frammi fyrir táknum ævarandi verka Hans og hugir þeirra sem náð hafa til hirðar Hans fyllast ráðleysi gagnvart undursamlegum vitnisburði þeirra sem opinbera einingu Hans.“
Síðustu töflurnar tvær hafa birst áður á íslensku en eiga fullt erindi í þessa samantekt.
Í bók sinni Pistill til sonar úlfsins segir Bahá’u’lláh: „Eitt sinn töluðum Vér mál löggjafans en öðru sinni mál sannleiksleitandans og dulhyggjumannsins.“ Þessi bók flytur lesandanum úrval þeirra taflna Hans sem opinberaðar voru á máli dulhyggjunnar. Vonast er til að þær stuðli að dýpri skilningi á boðskap Bahá’u’lláh og andlegri þýðingu hans fyrir alla þá sem leita sannleikans á vegferð sinni til Ástvinarins.
Þýðandi
Skýring leyndardómanna sem varðveittir eru í áföngum uppstigningar fyrir þá sem vilja beina för sinni til Guðs, hins alvalda, Hans sem ætíð fyrirgefur
Í nafni Guðs, hins milda og miskunnsama!
Lofaður sé Guð sem skapað hefur tilveruna úr engu, greypt á töflu mannsins leyndardóma eilífðar sinnar, kennt honum af gnægtum orða sinna það sem hann eigi vissi, gert hann að opinni bók þeim sem trúðu og létu af hendi sálir sínar, látið hann verða vitni að nýrri sköpun innra með öllu sem er á þessari myrku vargöld og mæla nýjum og undursamlegum rómi mitt frá hjarta eilífðar í Hinu ágætasta musteri. Og í því augnamiði að hver maður megi í sér sjálfum, af sér sjálfum og frammi fyrir aðsetri opinberunar Drottins síns bera því vitni að enginn er Guð nema Hann, og þannig megi hver og einn finna sína leið að tindi veruleikanna þar sem enginn leiðir hugann að neinu nema hann sjái þar Guð. Þetta er sýn hins dýrlega ljóss sem varðveitt er innra með veruleika alls sem er, því að öðru leyti er Hann, upphafin sé dýrð Hans, fullkomlega helgaður frá sjón og vitnisburði: „Enginn fær Hann augum litið, en sjónir Hans spanna allt sem er. Óræðir eru vegir Hans og Hann skynjar allt sem er.“
Og ég lofa og vegsama hið fyrsta haf sem kvíslaðist frá úthafi hins hulda eðliskjarna og fyrsta árbjarmann á sjónarrönd einingar og fyrstu sólina sem reis á himni eilífs ljóma og fyrsta logann sem tendraður var í lampa eilífðar á stað einleikans: Hann sem nefndur er Aḥmad í ríki hinna upphöfnu og Múhameð meðal herskara hinna hylltu og Maḥmúd í ríki hinna einlægu og í hjörtum þeirra sem þekkja, „hvaðeina sem þér ákallið, Hann ber hin fegurstu nöfn.“ Og yfir ætt Hans og félögum hvíli ríkulegur, ævarandi og eilífur friður!
Enn fremur hef ég hlýtt á það sem næturgali þekkingar söng á meiði innstu verundar þinnar og numið það sem dúfa fullvissu kurraði í laufskála hjarta þíns. Mér þykir sem ég hafi fundið ilm hreinleikans af klæðum ástar þinnar og átt fund með þér sjálfum við lestur bréfs þíns. Einnig veitti ég því athygli að þú nefnir dauða þinn í Guði og líf þitt fyrir Hann og ást þína til þeirra sem eru Guði kærir og opinberenda nafna Hans og útskýrenda eiginda Hans. Ég hef því áformað að kynna þér heilög og skínandi tákn frá ríkjum máttar og dýrðar til að þau megi laða þig að forgarði heilagleika, návistar og fegurðar, og hefja þig til þeirrar stöðu þar sem þú lítur ekkert í sköpuninni nema heilaga ásjónu Ástvinar þíns, og lítir allt sköpunarverkið eins og þann dag þegar ekkert var þess virði að nefna.
Um þetta hefur næturgali einingar sungið í garði dulhyggjurits hans og sagt: „Og birtast mun letur á töflu hjarta þíns er segir frá þeim óræðu leynidómum sem felast í orðunum „óttast Guð og Guð mun veita þér þekking“ og fugl anda þíns mun minnast griðastaða aldinnar dýrðar og svífa á vængjum löngunar til himins fyrirmælanna „feta þú troðnar slóðir Drottins þíns“ og neyt af úrvals ávöxtum vinfengis í görðum orðanna „neyt þú einnig af öllum tegundum aldina“.“
Ég sver við líf mitt, ó vinur! Ef þú fengir bragðað á ávöxtunum af gróskumiklum trjám sem vaxa úr jarðvegi sannrar þekkingar og tindrandi ljós innsta eðlis Hans leiftraði í speglum nafna Hans og eiginda, myndi löngun grípa tauma þolgæðis og yfirvegunar úr höndum þér og andi þinn yrði gagntekinn af dýrlegu ljósi Hans. Það myndi hrífa þig frá þessum heimkynnum dustsins upp til þinna sönnu og himnesku híbýla í miðju hjarta dulrænnar þekkingar og hefja þig upp til stöðu þar sem þú svífur um loftin líkt og þú gengir á jörðu og gengur á vatni líkt og þú ferð á landi. Megi það þá gleðja mig og þig sjálfan og hvern þann sem hraðar sér til himins þekkingar og endurnærist í hjarta sínu af andvara fullvissu sem berst frá Saba Hins almiskunnsama og leikur um innri verund hans. Friður sé með þeim sem fetar vegu leiðsagnar!
Og enn fremur: Áfangarnir á leið vegfarandans frá jarðneskum híbýlum þeirra til heimkynna himinsins eru sagðir sjö talsins. Sumir hafa nefnt þá dalina sjö, aðrir borgirnar sjö. Og sagt er að vegfarandinn muni aldrei komast til úthafs nálægðar og sameiningar né drekka af því óviðjafnanlega víni fyrr en hann yfirgefur sitt eigið sjálf og fer um þessa stigu.
Þeirra fyrstur er Dalur leitarinnar. Fararskjóti þessa dals er þolinmæði; án þolinmæði mun vegfarandinn hvergi komast og engu marki ná. Ei heldur skyldi hann hryggjast og þótt hann leiti lags í hundrað þúsund ár og takist ekki að sjá fegurð Vinarins ætti hann ekki að gefast upp. Því þeir sem leita Kaaba orðanna „fyrir Oss“ fagna við tíðindin „Á Vora vegu munum Vér leiða þá.“ Ódeigir í leit sinni hafa þeir gyrt lendar þjónustu og eru hverja stund á leið frá sviði gáleysis til ríkis leitarinnar. Ekkert getur haldið aftur af þeim og engin ráð draga úr þeim kjarkinn.
Þessum þjónum er skylt að hreinsa hjarta sitt, sem er uppspretta guðlegra fjársjóða, af sérhverjum flekk og snúa baki við eftirlíkingu, sem er að feta í fótspor feðranna, og loka dyrum vinsemdar og fjandskapar við alla á jörðu.
Á þessari ferð kemst vegfarandinn á það stig að hann sér allt sem skapað er reika um ráðþrota í leit að Vininum. Hve marga Jakoba mun hann ekki sjá leitandi að sínum Jósef, hve marga elskhuga lítur hann ekki á hraðri ferð til Ástvinarins, og hann verður vitni að veröld tilbiðjenda sem feta braut Hins tilbeðna! Á sérhverju andartaki kemst hann að raun um mikilvægt málefni, á hverri stund verður hann var við nýjan leyndardóm, því hann hefur í hjarta sínu skilist frá báðum veröldunum og lagt af stað til Kaaba Ástvinarins. Við sérhvert skref veitist honum aðstoð frá ríkinu ósýnilega og hitinn í leit hans vex.
Mælikvarðinn á leitina er Majnún ástarinnar. Það er í frásögur fært að dag einn hafi þeir komið að Majnún þar sem hann sáldaði dustið og tárin streymdu niður kinnar hans. Þeir spurðu: „Hvað ert þú að gera?“ Hann svaraði: „Ég er að leita að Laylí.“ Þeir hrópuðu: „Ó þig auman! Laylí er af hreinum anda og þú leitar hennar í dustinu!“ Hann svaraði: „Ég leita hennar hvar sem er, kannski finn ég hana einhvers staðar.“
Já, þótt hinum vitru þyki það smán að leita Drottins allra Drottna í dustinu er þetta til marks um brennandi ákefð leitarinnar. „Hver sem með funa fer af stað og sýnir stöðuglyndi finnur það sem hann leitar að.“
Sannur leitandi sækist ekki eftir neinu nema viðfangi leitar sinnar og elskhuginn hefur enga þrá aðra en að sameinast ástvini sínum. Ekki heldur mun leitandinn ná marki sínu nema hann fórni öllum hlutum. Það er: Allt sem hann hefur séð, heyrt og skilið, verður hann að virða einskis svo hann hljóti inngöngu í ríki andans, sem er borgin „Enginn er Guð nema Guð“. Elju er þörf ef við freistum þess að leita Hans, kapp skal til ef við eigum að dreypa á ódáinsveig endurfundanna við Hann, og ef við fáum bragðað þann drykk vörpum við frá okkur heiminum.
Í þessari ferð áir vegfarandinn á sérhverjum bæ, hversu fábreyttur sem hann er, og dvelur í hverju landi. Í sérhverri ásjónu leitar hann fegurðar Vinarins, í sérhverju héraði leitar hann Ástvinar síns. Hann slæst í sérhvern félagsskap og leitar vinfengis við sérhverja sál, að hann megi í hjarta einhvers greina leyndardóm Ástvinarins eða líta fegurð Hins elskaða í einhverju andliti.
Og ef hann með aðstoð Skaparans finnur á ferð sinni spor eftir hinn sporlausa vin og kennir ilman af hinum löngu týnda Jósef frá boðberanum himneska, mun hann samstundis stíga inn í Dal ástarinnar og fuðra upp í eldi ástarinnar. Í þessari borg er himinn alsælu hafinn upp, heimslýsandi sól þrárinnar skín og eldur ástarinnar logar. Og þegar eldur ástarinnar logar brennir hann til ösku uppskeru skynsemdar.
Nú veit vegfarandinn hvorki af sjálfum sér né neinu öðru. Hann ber hvorki skyn á fáfræði né þekkingu, hvorki vafa né vissu, hann þekkir ekki morgun leiðsagnar frá nótt villu. Hann flýr bæði trú og vantrú og banvænt eitur er hjarta hans læknisdómur. Því sagði ‘Aṭṭár: Trúlausum villa – trúföstum trú; ‘Aṭṭárs hjarta ögn af þinni kvöl.
Fararskjótinn í þessum dal er sársaukinn, og ef enginn er sársaukinn mun ferðinni aldrei ljúka. Á þessu sviði á elskhuginn enga hugsun aðra en sinn Ástfólgna og leitar einskis annars athvarfs en Vinarins. Sérhvert andartak býður hann fram hundrað líf á vegi Hins elskaða, við sérhvert skref varpar hann þúsund höfðum fyrir fætur Hans.
Ó bróðir Minn! Ekki fyrr en þú ferð inn í Egyptaland ástarinnar munt þú líta fegurð Vinarins, Jósefi líkan, og ekki fyrr en þú, eins og Jakob, hverfur frá þinni ytri sýn getur þú opnað innri augu verundar þinnar, og ekki fyrr en þú logar af eldi ástarinnar mun sönn löngun vefja þig örmum.
Elskhugi óttast ekkert, ekkert verður honum að meini: Þú sérð hann kaldan í eldinum og þurran í hafinu. Elskandi er hólpinn í heljarloga, í hafinu er vitringur þurr.
Ást viðurkennir enga tilvist og óskar einkis lífs: Hún sér líf í dauða og leitar dýrðar í niðurlægingu. Til að meta að verðleikum vitfirringu ástarinnar verður maðurinn að vera alheill á geði, til að meta gildi fjötra Vinarins verður hann að vera frjáls í anda. Sæll er hálsinn sem fanginn er í snöru Hans, glatt það höfuð sem fellur í dustið á vegi ástar Hans. Afneita því sjálfum þér, ó vinur, að þú megir finna Hinn óviðjafnanlega, og svíf ofar þessari dauðlegu veröld svo þú getir leitað þér hælis í hreiðri himins. Ver sem ekkert ef þú vilt tendra eld verundar og verða hæfur til að feta veg ástarinnar. Ástin leitar ei lifandi sálar, ljónið ræðst ekki á dauða mús.
Ástin kveikir bál í veröldinni við hvert fótmál og leggur í auðn sérhvert land þar sem hún reisir fána sinn. Verund á sér enga tilvist í konungdæmi hennar, hinir vísu fara ekki með vald innan ríkis hennar. Dreki ástarinnar svelgir rökhyggjumeistarann og vegur drottinn þekkingarinnar. Hann teygar höfin sjö, en þorstinn í hjarta hans er óslökktur og hann spyr: „Er ekki meira að fá?“ Hann forðast sjálfan sig og dregur sig í hlé frá öllu á jörðu. Horfinn er ástinni himinn, jörð og sær, í henni er að finna sturlanir sjötíu og tvær.
Ástin hefur reyrt óteljandi fórnarlömb í fjötra sína, sært aragrúa vitringa með ör sinni. Vit, að sérhver roði í veröldinni stafar af reiði hennar og sérhver fölvi á vöngum manna af eitri hennar. Hún veitir engin úrræði önnur en dauða, er ekki á ferli nema í dal eyðingar en samt er eitur hennar sætara en hunang á vörum elskhugans og í augum leitandans er banvænt skeyti hennar ljúfara en hundrað þúsund líf.
Þess vegna verða blæjur hins djöfullega sjálfs að eyðast í eldi ástarinnar svo að andann megi skíra og fága, og þannig fái hann borið kennsl á stöðu Hans sem veröldin var sköpuð fyrir. Lát ástareldinn bála og brenndu allt, bein svo för til elskhuganna lands.
Og ef elskhuginn með staðfestingu Skaparans sleppur úr klónum á erni ástarinnar heldur hann inn í Ríki þekkingar, hverfur frá vafa til fullvissu og snýr frá myrkri villuráfandi ástríðu að leiðarljósi guðsótta. Innri augu hans opnast og í kyrrþey samneytir hann Ástvini sínum, hann opnar hlið sannleika og bænarákalls og lokar dyrum hégómlegra ímyndana. Í þessu ríki gerir hann sér að góðu tilskipun Guðs og fyrir honum er stríð friður og í dauða finnur hann merkingu eilífs lífs. Fyrir innri og ytri sjónir hans ber leyndardóma upprisu í ríkjum sköpunar og í sálum manna, og hann skilur af hreinu hjarta visku Guðs í þrotlausum opinberunum Hans. Í hafinu finnur hann dropa og í dropanum sér hann leyndardóma hafsins. Atómsins hjarta sundra, og sjá! Sólina muntu finna þá.
Í þessum dal sér vegfarandinn af fullkomnu innsæi hvorki mótsögn né misræmi í sköpun Guðs og á sérhverju andartaki hrópar hann: „Enga misfellu finnur þú í sköpun Guðs miskunnar. Gæt aftur að: Finnur þú einhvern annmarka?“ Hann skynjar réttlæti í rangindum og í réttlæti miskunn. Í fáfræði finnur hann margvíslega þekkingu dulda og í henni ómældan vísdóm. Hann brýst út úr búri holds og ástríðna og samneytir íbúum hins ódauðlega ríkis. Hann klífur stiga innri sanninda og hraðar sér til himins innri merkingar. Hann ferðast í örkinni „Vér munum vissulega sýna þeim teikn Vor á jörðu og innra með þeim sjálfum,“ og siglir á hafi orðanna „uns þeim verður ljóst að það er sannleikurinn.“ Og sé hann beittur rangindum sýni hann þolinmæði og mæti hann reiði auðsýni hann ást.
Eitt sinn var elskhugi sem í mörg ár mæddist af sorg og tærðist í eldi fjarlægðar vegna aðskilnaðar við ástvinu sína. Samkvæmt lögmáli ástarinnar var brjóst hans fullt óþreyju og líkaminn þreyttur á anda hans. Líf án hennar var honum háðung og veröldin dró úr honum allan mátt. Margan dag var hann hvíldarlaus vegna löngunar sinnar, marga nótt varnaði kvölin vegna hennar honum svefns. Líkami hans var orðinn sem andvarp, sár hjartans hafði umbreytt honum í harmakvein. Þúsund líf hefði hann gefið fyrir dropa af bikar návistar hennar en jafnvel það var ekki á hans valdi. Læknarnir kunnu honum enga græðingu og félagarnir forðuðust hann. Já, læknar eiga engin lyf fyrir þann sem er sjúkur af ást, leysi hylli hinnar elskuðu hann ekki úr nauðum.
Að lokum bar tré löngunar hans ávexti örvæntingar og eldur vona hans kulnaði. Kvöld eitt gat hann ekki lifað lengur, yfirgaf hús sitt og hélt til markaðstorgsins. Skyndilega byrjaði varðmaður að veita honum eftirför. Hann tók til fótanna með varðmanninn á hælum sér en síðan bættust fleiri varðmenn í hópinn og lokuðu öllum undankomuleiðum fyrir þeirri örmagna sál. Og hinn vesæli hrópaði úr djúpum hjarta sínu, hann hljóp fram og aftur og stundi: „Vissulega er þessi varðmaður ‘Izrá’il, dauðaengill minn sem fylgir fast á hæla mér, eða hann er heiftrækinn harðstjóri sem vill vinna mér mein.“ Fæturnir báru hann áfram, blæðandi eftir örvaskeyti ástarinnar og hjarta hans kveinaði. Hann kom þá að garðvegg og sárþjáður kleif hann vegginn. Hann var afarhár, samt kastaði hann sér niður í garðinn skeytingarlaus um líf sitt.
Og þar leit hann ástvinu sína með lampa í hendi þar sem hún leitaði að hring sem hún hafði týnt. Þegar hugsjúkur elskhuginn horfði á hrífandi ástmey sína varp hann öndinni djúpt, hóf upp hendur sínar í bæn og hrópaði: „Ó Guð! Veit þú þessum varðmanni heiður, gef honum ríkidæmi og langlífi. Því varðmaðurinn var Gabríel sem leiðbeindi mér aumum, eða hann var Isráfíl sem færði mér vesælum líf.“
Vissulega voru þetta orð að sönnu, því hann hafði skilið að margs konar dulin réttvísi fólst í meintri harðneskju varðmannsins og hann hafði séð hve margvísleg miskunn duldist á bak við blæjuna. Í bræði sinni hafði varðmaðurinn leitt hinn þyrsta í eyðimörk ástarinnar til vatna sinnar elskuðu og lýst upp dimma nótt aðskilnaðar með björtu ljósi endurfunda. Hann hafði rekið hinn fjarlæga inn í garð návistar og leitt veikburða sál til græðara hjartans.
Hefði elskhuginn getað skyggnst fram í tímann hefði hann blessað varðmanninn, beðið fyrir honum strax í upphafi og litið á þessa kúgun sem réttlæti, en þar sem endalokin voru honum hulin fór hann strax að kveina og kvarta. En þeir sem fara um blómleg lönd sannrar þekkingar sjá frið í stríði og sátt í fjandskap, því í upphafinu sjá þeir endinn.
Slíkt er ástand vegfarenda í þessum dal, en þeir sem byggja dalina ofar þessum líta á endi og upphaf sem eitt og hið sama. Nei, þeir sjá hvorki „upphaf“ né „endi“ og verða hvorki vitni að hinu „fyrsta“ eða „síðasta“. Nei, öllu fremur sjá íbúar hinnar ódauðlegu borgar sem dveljast í garði himinsins „hvorki hið fyrsta né síðasta“. Þeir flýja allt sem er fyrst og hafna öllu sem er síðast. Því þeir hafa lagt að baki veraldir nafna og flúið með leifturhraða veraldir eiginda. Því er sagt: „Fullkomin trú á guðlega einingu útilokar allar eigindir Hans.“ Og þeir hafa valið sér dvalarstað í skugga hins guðdómlega eðlis.
Því hefur Khájih ‘Abdu’lláh – megi Guð, hinn hæsti, helga blessaða sál hans – gert djúpvitra athugasemd við þetta málefni og lagt snjallt orð í belg varðandi merkingu þessara orða „Leið þú oss á hina beinu braut“, það er: „Sýn okkur hinn rétta veg, heiðra oss með ást á innsta eðli Þínu, að við megum frelsast frá okkar eigin sjálfi og öllu öðru en Þér og tilheyra Þér fullkomlega, þekkja aðeins Þig, sjá Þig einan og hugsa um ekkert nema Þig.“
Nei, þeir myndu jafnvel hefja sig yfir þessa stöðu, og því er sagt: „Ást er blæja milli elskhugans og elskaða.“ „Meira en þetta er mér ei heimilt að segja.“
Á þessari stundu hefur morgunn sannrar þekkingar runnið upp og lampar göngu og vegferðar eru slokknaðir. Móse var þetta hulið þótt hefði dyggð og mátt. Því skaltu vænglaus maður ei voga þér hátt!
Ef þú ert maður andlegs samneytis og bænar, tak flugið á vængjum sem þér veitast með stuðningi helgra sálna, að þú megir líta leyndardóma Vinarins og komast í ljós Hins elskaða. „Sannlega heyrum við Guði og til Hans hverfum við aftur.“
Er vegfarandinn hefur farið í gegnum Dal þekkingar, sem er síðasta staða takmarkana, nær hann Fyrstu stöðu einingar og drekkur úr bikar eindar og horfir á opinberendur einleikans. Í þessari stöðu sér hann gegnum blæjur margfaldleikans, flýr veraldir holdsins og stígur upp til himins einingar. Hann heyrir með eyra Guðs og með auga Guðs lítur hann leynidóma guðlegrar sköpunar. Hann stígur inn í innri helgidóm Vinarins og dvelur sem innvígður í skála Ástvinarins. Hann réttir fram hönd sannleikans úr ermi Hins fullkomna, hann opinberar leyndarmál guðlegs valds. Í sjálfum sér greinir hann hvorki nafn, frægð né stöðu en í vegsömun Guðs finnur hann sína eigin vegsömun og í nafni Guðs sér hann sitt eigið. Í eyrum hans „berast allir söngvar frá þeim máttuga konungi,“ og sérhvert sönglag frá Honum. Hann situr í hásætinu „Seg: Allt er frá Guði komið“ og hvílist á sessinum „Hvergi er vald eða styrk að finna nema í Guði einum.“ Hann lítur alla hluti augum einingar og sér sólina guðdómlegu úthella geislum sínum jafnt yfir allt sem skapað er frá dagsbrún guðdómlegs eðlis og ljós einingar endurspeglast í öllu sköpunarverkinu.
Þér er ljóst, tigni herra, að öll tilbrigðin sem ber fyrir augu vegfarandans á ferðum hans í ríkjum verundar stafa frá hans eigin sýn. Við skulum nefna glöggt dæmi þessu til skýringar: Huga að hinni sýnilegu sól, hvernig hún úthellir einu og sama ljósi yfir allt sem er og bregður birtu sinni yfir alla sköpunina að boði Drottins opinberunar, en á hverjum stað birtist hún þó og miðlar af gjöfum sínum í samræmi við næmleik og getu þess staðar. Í speglinum birtist til að mynda kringla sólarinnar og því veldur tærleiki spegilsins sjálfs, í kristal lætur hún bjarma af eldi. Aðrir hlutir birta aðeins áhrifin af bliki sólar en ekki alla kringlu hennar. En með þeim áhrifum þjálfar hún samt að boði Skaparans sérhvern hlut samkvæmt hæfni hans, líkt og þú sjálfur sérð.
Á sama hátt birtist litur sérhvers hlutar samkvæmt eðli hans. Þannig verður endurskin sólar gult í gulu glasi, hvítt í því hvíta en í því rauða verða geislarnir rauðir. Breytileikinn er þannig háður hlutnum sjálfum, ekki ljósinu sem á hann skín. Og nái ljósið ekki að skína á einhvern stað vegna þess að veggir eða þak byrgja fyrir birtu, fer sá staður fullkomlega á mis við sólina og geisla hennar.
Þannig hafa vissar veikgeðja sálir byrgt víðar lendur þekkingar innra með veggjum sjálfs og ástríðna og undir skikkju fáfræði og blindu, og þannig hulið sig ljósi hinnar dulúðgu sólar og leyndardómum Ástvinarins eilífa. Þær hafa villst langt frá ginnfagurri visku geislandi trúar Drottins boðberanna, eru útilokaðar frá griðastað Hins alfagra og útlægar gerðar frá Kaaba dýrðar. Slíkir eru verðleikar mannanna á þessari öld!
Og hefji næturgali sig til flugs úr leir sjálfsins, dvelji í rósalundi hjartans og skýri frá launmálum Guðs í arabískum söngvum og ljúfum tónum Persíu – þar sem eitt orð vekur hina dauðu til lífsins og veitir anda heilagleika í sérhvert molnandi bein – munt þú sjá þúsund klær öfundar, aragrúa hatursfugla, fara á hæla Honum og leitast af öllum mætti við að svipta Hann lífi.
Já, sæt angan er bjöllunni andstyggð og stífluð vit meta einskis ljúfan ilm. Því hafa eftirfarandi orð verið látin falla til leiðsagnar hinum fáfróðu: Hreinsa úr höfði þér fláttskap og finn ferskan Guðs anda streyma inn.
Greinarmunur hlutanna hefur nú verið útskýrður til fulls. Því er svo háttað að þegar vegfarandinn rýnir aðeins á ásýnd hlutanna – þ.e. þegar hann horfir á glasið eitt – sér hann gult, rautt og hvítt. Þess vegna hefur ágreiningur risið meðal manna og myrkvandi dust skammsýnna sálna hjúpað heiminn. Sumir líta þó geisladýrð ljóssins og aðrir hafa drukkið af víni eindar og sjá ekkert nema sólina sjálfa.
Þegar vegfarendurnir ferðast á þessum þremur ólíku sviðum verður tilsvarandi munur á skilningi þeirra og orðum og það er af þeim sökum sem tákn sundurlyndis birtast sífellt á jörðu. Sumir dvelja á sviði guðlegrar einingar og mæla af þeim heimi, aðrir dvelja í ríkjum takmarkana og enn aðrir á sviðum sjálfsins en til eru þeir sem er fullkomlega byrgð sýn. Því gerist það á þessum dögum að hinir fávísu, sem engan hlut hafa fengið í ljósi guðlegrar fegurðar, varpa fram vissum fullyrðingum og kalla á hverri öld og í sérhverju trúarskeiði yfir mennina í úthafi guðlegrar einingar það sem þeir sjálfir verðskulda. „Ef Guð refsaði mönnum fyrir illar gerðir þeirra, léti hann ekkert sem hrærist á jörðu undan komast! En Hann veitir þeim frest til eindaga.“
Ó bróðir minn! Hreint hjarta er sem spegill, fæg hann með skírandi veig ástar og aðskilnaðar frá öllu nema Guði, að sólin sanna megi skína á hann og morgunn eilífðar renna upp. Þá munt þú skilja glöggt merkingu orðanna: „Hvorki jörð Mín né himinn rúma Mig; það eina sem fær rúmað Mig er hjarta þess sem á Mig trúir.“ Og þú munt taka líf þitt í hendur þér og varpa því í takmarkalausri þrá fyrir fætur þíns nýfundna Ástvinar.
Hvenær sem ljósið frá opinberun Konungs einingar fellur á hásæti hjarta og sálar verður ljómi Hans sýnilegur í öllum limum líkamans. Þá skín í myrkrinu leyndardómur hinnar alkunnu arfsagnar: „Þjónn laðast að Mér í bæn uns Ég svara honum, og þegar Ég svara honum verð Ég eyrað sem hann heyrir með …“ Þannig hefur húsráðandinn birst á heimili sínu og allar stoðir þess geisla af ljósi Hans. Líkt og áhrif ljóssins koma frá ljósgjafanum, þannig bifast allt og rís fyrir vilja Hans. Þetta er sú uppspretta sem hinir nálægu drekka af, líkt og sagt er: „Lindin sem svalar þeim er nálgast Guð.“
Enginn skyldi þó ætla að þessi orð tákni að veraldir Guðs taki á sig jarðneska mynd og stígi niður á svið skepna Hans, né heldur ættu þau að fá þig, tigni herra, til að draga svo rangar ályktanir. Því Guð er í sínu innsta eðli helgaður frá uppstigningu og niðurstigningu, inngöngu og útgöngu. Hann hefur um alla eilífð verið hafinn yfir eigindir sköpunar sinnar og svo mun ávallt verða. Enginn hefur nokkru sinni þekkt Hann, engin sál hefur nokkru sinni skilið eðli verundar Hans. Sérhver dulsjáandi hefur villst langt af leið í dal þekkingar á Honum, sérhver dýrlingur stendur ráðþrota þegar hann reynir að skilja eðli Hans. Helgaður er Hann ofar skilningi hinna vitru, upphafinn yfir þekkingu hinna lærðu! „Leiðin er lokuð og allri leit er hafnað. Sönnun Hans er tákn Hans, vitnisburður Hans er verund Hans sjálfs.“
Því hafa þeir sem elska ásýnd Ástvinarins sagt: „Ó Þú, sem einn getur í innsta eðli Þínu vísað veginn að eðli Hans og sem ert ofar allri líking við sköpun Þína.“ Hvernig getur algert tilvistarleysi hvatt fák sinn á leikvangi eilífðar eða hverfull skuggi teygt sig til þeirrar ævarandi sólar? Vinurinn sem ávarpaður var þessum orðum: „Væri það ekki fyrir Þig“ hefur sagt „hefðum við ekki þekkt þig“. Og Hinn ástfólgni sem vísað er til með orðunum „eða jafnvel nær“ hefur sagt, „né komist í návist þína.“
Að sönnu eiga tilvísanir til stiga dulspakrar þekkingar við um þekkingu á ljómanum frá þeirri sól sannleikans þegar hún birtist í ýmsum speglum. Og birta þess ljóss er í hjörtunum, samt er hún hulin blæjum eigingjarnra ástríðna og jarðneskra langana líkt og kerti í járnlukt sem aðeins lýsir þegar lokið er fjarlægt.
Þannig mun ljós einingar birtast þegar þú fjarlægir blæjur blekkingar af hjarta þínu.
Þá er ljóst að jafnvel þessir geislar eiga sér hvorki inngöngu né útgöngu, og hversu miklu síður sá Eðliskjarni tilverunnar og langþráði leyndardómur. Ó bróðir minn, íhuga þessi mál í anda leitar en ekki í blindri eftirlíkingu. Sannur vegfarandi lætur ekki deigan síga gagnvart orðum og væningar fá ekki haldið aftur af honum. Hvernig getur forhengi aðskilið elskandann ástvini hans, þegar múrar Alexanders fá ekki skilið þá að?
Mörg eru leyndarmálin og hinir framandi fjölmargir. Heil bindi fá ekki geymt leyndardóm Ástvinarins né verður efnið tæmt á þessum síðum þótt ekki væri nema eitt orð, engu meira en tákn. „Þekking er einn punktur en hinir fávísu hafa margfaldað hann.“
Álykta því af þessu muninn á veröldunum. Þótt veraldir Guðs séu takmarkalausar telja sumir þær vera fjórar: Veröld tíma sem bæði á sér upphaf og endi, veröld varanleika sem á sér upphaf en ekki augljósan endi, veröld frumræns veruleika þar sem upphaf verður ekki greint en vitað er að mun enda, og veröld eilífðar þar sem hvorki má greina upphaf né endi. Þótt ýmsar ólíkar staðhæfingar séu uppi um þessi atriði myndi nánari umfjöllun valda þreytu. Þannig hafa sumir sagt að veröld eilífðar eigi sér hvorki upphaf né endi og leggja að jöfnu veröld eilífðar og hið ósýnilega, ótilkvæmilega og óþekkjanlega eðli Guðs. Aðrir hafa kallað þær veraldir hinnar himnesku hirðar, hins himneska veldis, hins guðdómlega ríkis og hinnar dauðlegu veraldar.
Auk þess eru leiðir ástarinnar taldar fjórar: Frá skepnunum til Hins sanna, frá Hinum sanna til skepnanna, frá skepnunum til skepnanna, frá Hinum sanna til Hins sanna.
Mörg ummæli vitringa og dulspekinga fyrri tíma hef ég ekki nefnt hér því mér falla ekki ítarlegar vísanir til orða fyrri tíma, enda lýsa tilvitnanir í orð annarra aðeins áunninni þekkingu, ekki guðlegri gjöf. Þó eru öll ívitnuð ummæli hér sett fram af virðingu við það sem tíðkast meðal manna og að hætti hinna lærðu. Auk þess eru slík málefni utan efnistaka þessa pistils. Að ég sé ófús að skýra frá orðum þeirra stafar ekki af drambi heldur er til merkis um visku og vitnisburður náðar. Þótt Khiḍr hafi bát sinn brotið á sjó, birtir sú rangsleitni réttlætið þúsundfalt.
Að öðru leyti lítur þessi Þjónn á sig sem týndan og alls ekkert, jafnvel frammi fyrir einum ástvini Guðs, hversu þá miklu fremur í návist Hans heilögu. Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn hæsti! Auk þess er það ásetningur vor að gera grein fyrir áföngunum á ferð vegfarandans en ekki að vitna til ósamhljóða orða hinna dulvitru.
Þótt stuttlega hafi verið skýrt frá upphafi og endi hins afstæða og skilyrta heims skal hér bætt við öðru dæmi svo að öll merkingin megi verða ljós. Íhuga til dæmis, tigni herra, þitt eigið sjálf. Þú ert hinn fyrsti hvað varðar son þinn en hinn síðasti hvað varðar föður þinn. Hið ytra berð þú vitni þeim mætti sem birtist í ríkjum guðlegrar sköpunar, hið innra opinberar þú hulda dóma sem eru sú guðlega trúnaðargjöf sem varðveitt er innra með þér. Og þannig er hið fyrsta og hið síðasta, hið ytra og innra, í þeim skilningi sem vísað er til, allt sannleikur um þig sjálfan til þess að þú megir í þessum fjórum stöðum sem þér eru veittar skilja guðlegu stöðurnar fjórar og til þess að næturgali hjarta þíns sem syngur á öllum blómstrandi greinum lífstrésins, huldum og sýnilegum, megi hrópa: „Hann er hinn fyrsti og hinn síðasti, hinn sýnilegi og hinn huldi!“
Þessi orð eru látin falla á sviði hins afstæða. En þær sálir sem í einu skrefi fóru yfir veröld hins afstæða og skilyrta og dvöldu í forgarði fullvalda ríkis og slógu upp tjöldum sínum í veröldum fullkominna yfirráða og fyrirmæla, þær hafa með einum eldsneista brennt þetta afstæði til ösku og afmáð þessi orð með einum daggardropa. Og þær synda í hafi andans og svífa í heilögu heiði ljóssins. Hvaða tilvist hafa þá orð á slíku sviði, að „fyrsti“ og „síðasti“ eða einhver önnur orð beri fyrir augu eða eyru! Í þessu ríki jafngildir hið fyrsta hinu síðasta og hið síðasta hinu fyrsta. Orð og hugsun alla berðu á bál sem brennur glatt af ást í þinni sál.
Ó vinur Minn, lít á þig sjálfan: Hefðir þú ekki orðið faðir né getið son, hefðir þú ekki heldur skilið þessi orð. Gleym nú þeim öllum svo að þú megir læra af Meistara ástarinnar í skóla guðlegrar einingar, snúa aftur til Guðs, hverfa frá óraunveruleikans landi til þinnar sönnu stöðu og dvelja í forsælunni af meiði þekkingar.
Ó Minn kæri! Ger þig snauðan svo að þú fáir aðgang að háleitum forgarði ríkidæmis, auðmýk líkama þinn að þú megir drekka af lindarvatni dýrðar og öðlast fullan skilning á þeim ljóðum sem þú hefur spurt um.
Því er ljóst orðið að þessir áfangar ráðast af sýn vegfarandans. Í hverri borg lítur hann veröld, í hverjum dal kemur hann að uppsprettu, á hverju engi heyrir hann söng. En fálki hins dulúðuga himins geymir marga undursamlega gleðisöngva andans í brjósti sínu og fuglinn persneski varðveitir í sál sinni margan ljúfan arabískan söng, samt er þetta dulið og svo verður framvegis. Ef ég mæli, margur huginn tvístrast, og margur penni brotnar ef ég skrifa.
Friður sé með þeim sem lokið hefur þessari upphöfnu ferð og fylgir vegi sannleikans í ljósi leiðsagnar.
Og þegar vegfarandinn hefur lokið för um háleit svið þessarar himnesku vegferðar kemur hann í Borg gleðinnar. Í þessum dal finnur hann andvara himneskrar gleði berast frá sviði andans. Hann gereyðir blæjum skorts og vöntunar og með innri og ytri augum skynjar hann hið innra og ytra með öllu sem er að upp rennur dagurinn: „Guð mun endurgjalda hverjum og einum af allsnægtum sínum.“ Sorg hans víkur fyrir sælu, angist fyrir gleði. Unaður og fagnaðarleiðsla koma í stað hryggðar og mæðu.
Þótt hið ytra virðist sem vegfarendur í þessum dal dvelji í duftinu, eru þeir hið innra í upphæðum dularmála. Þeir eta af eilífum nægtum himinsins og dreypa á ljúffengum vínum andans.
Tungunni tekst ekki að lýsa þessum þremur dölum, öll orð verða gagnslaus. Penninn fær ekki inngöngu á þetta svæði, blekið skilur aðeins eftir sig blett. Á þessum sviðum syngur næturgali hjartans aðra söngva og segir frá öðrum leyndarmálum sem fá hjartað til að slá örar og sálina til að hrópa, en þessum dulardómi innri merkingar verður aðeins hvíslað frá einu hjarta til annars, í trúnaði eins brjósts við annað. Aðeins hjarta eins fær öðru tjáð frá unaði í dulviturra sál þeirri sælu segjast kann ei frá og sendiboði enginn fært í mál. Hve margt er það sem megna ég ekki að segja mig brestur orð, öll tilraun hrekkur skammt.
Ó vinur, aldrei munt þú bera að vörum þér eilíft vín þessa dals fyrr en þú gengur inn í garð þessara innri merkinga. Og smakkir þú það, myndir þú loka augum þínum fyrir öllu öðru og drekka af bikar gleðinnar. Þú munt leysast frá öllu sem er, fjötrast Honum, fórna lífi þínu á vegi Hans og varpa frá þér sálu þinni sakir Hans. Þó þarft þú ekki að gleyma neinu öðru á þessu sviði: „Guð var einn og ekkert var nema Hann.“ Því á þessu sviði greinir vegfarandinn fegurð Ástvinarins í öllu sem er. Jafnvel í eldinum sér hann ásýnd Hins elskaða. Í blekkingunni lítur hann leyndardóm veruleikans og úr eigindunum les hann ráðgátu hins innsta eðlis. Því hann hefur gereytt blæjunum með andvörpum sínum og svipt umbúðunum frá með einu augnatilliti. Skarpri sýn hans birtist ný sköpun, skýru hjarta hans verða ljós óræð sannindi. Þessu bera eftirfarandi orð nægt vitni: „Og Vér höfum gefið þér skarpa sjón á þessum degi.“
Eftir að hafa ferðast yfir sléttur hreinnar gleði kemur vegfarandinn í Dal furðu og lotningar og velkist á útsævi tignar og með hverju andartaki vex undrun hans. Nú sér hann einskæra fátækt í ríkidæmi, hreinan vanmátt í kjarna sjálfstæðis. Nú stendur hann orðvana andspænis fegurð Hins aldýrlega, enn er hann uppgefinn á sínu eigin lífi. Hversu mörg dulhyggjutré hefur þessu hvirfilbylur ráðleysis ekki rifið upp með rótum, hversu margar sálir hafa ekki örmagnast. Því að í þessum dal stendur ferðalangurinn ráðþrota, þótt í augum hans sem nær þessu stigi séu slík tákn mikilsvirt og í hávegum höfð. Á hverju andartaki lítur hann undursamlega veröld og nýja sköpun, eitt undrunarefnið tekur við af öðru og hann er gagntekinn lotningu frammi fyrir verkum yfirbjóðandi Drottins alls sem er.
Ó bróðir, ef við íhugum sérhvert skapað fyrirbæri finnum við þar að sönnu margvísleg fullkomin hyggindi og uppgötvum ógrynni nýrra og undursamlegra sanninda. Eitt þessara sköpuðu fyrirbrigða er draumurinn. Sjá hve marga hulda dóma hann geymir, hve margvíslegri visku hann býr yfir, hve margar veraldir eru þar duldar. Leið hugann að þessu: Þú liggur sofandi í vistarveru fyrir luktum dyrum, skyndilega ert þú staddur í fjarlægri borg og gengur inn í hana án þess að hreyfa fætur eða þreyta líkamann. Þú sérð án þess að reyna á augun, heyrir án eyrna, talar án tungu. Og að tíu árum liðnum verður þú í þessum stundlega heimi máske vitni að einmitt því sama og þig dreymdi í nótt.
Margslungin er sú viska sem hugleiða má í draumnum en enginn fær skilið þann veruleika nema fólkið í þessum dal. Í fyrsta lagi, hver er þessi heimur þar sem maðurinn getur séð, heyrt og talað án þess að nota skynfærin? Í öðru lagi, hvernig getur þú í dag greint í þessum ytri heimi áhrif þess sem þér birtust í veröld svefnsins fyrir tíu árum? Íhuga muninn á þessum tveimur veröldum og leyndardómana sem þeir geyma til þess að þú getir með staðfestingu Guðs gert himneskar uppgötvanir og gengið inn í ríki heilagleikans.
Guð, hinn hæsti, hefur lagt þessi tákn í brjóst manna til þess að hugir hjúpaðir blæjum geti ekki vísað á bug leyndardómum lífsins fyrir handan né lítilsvirt það sem þeim hefur verið heitið. Því að sumir halda fast við skynsemina og afneita öllu sem skynsemin ekki skilur en samt fá veikburða hugir aldrei skilið veruleika þeirra áfanga sem við höfum sagt frá. Aðeins allsherjarviska Guðs fær skilið þá. Fær könguló í vef sinn Fönix fangað og fálmkennd mannleg hugsun Kóran sjálfan?
Öll þessi stig má líta í Dal furðu og lotningar og á hverju andartaki leitar vegfarandinn lengra og ekki þreytist hann. Þannig hefur Drottinn hins fyrsta og síðasta sagt er Hann í forundran gerði grein fyrir áföngum íhugunar: „Ó Drottinn, auk undrun mína og furðu á Þér!“
Íhuga einnig fullkomna sköpun mannsins og hvernig öll þessi svið og áfangar eru vafðir saman og duldir innra með honum. Ætlar þú þig agnarsmáa veru með æðri heim í brjósti samanvafinn?
Við verðum því að vinna bug á dýrseðlinu uns merking hins mennska kemur í ljós.
Þannig tók Luqmán, sem hafði drukkið af lind visku og bergt á vötnum miskunnar, einnig drauminn sem dæmi þegar hann sannaði Nathan syni sínum svið upprisu og dauða. Við skýrum frá því hér til þess að þannig megi þessi hverfuli þjónn varðveita minninguna um þennan æskumann í skóla guðlegrar einingar, þennan tigna öldung í ríkjum uppfræðslu og andlegrar lausnar. Hann tók svo til orða: „Ó sonur, ef þú getur komist af án þess að sofa, getur þú komist af án þess að deyja. Og ef þú getur sofið án þess að vakna, munt þú geta dáið án þess að rísa upp eftir dauðann.“
Ó vinur, hjartað er heimkynni eilífra leyndardóma, ger það ekki að samastað svipuls hégóma. Sóa ekki fjársjóði þíns dýrmæta lífs í annir við þennan hraðfleyga heim. Þú kemur frá veröld heilagleika, festu ekki hjarta þitt við jörðina. Þú dvelur í forgarði endurfunda, ger þér ekki bólstað í dustinu.
Í stuttu máli taka lýsingar á þessum áföngum engan endi, en vegna þeirra ranginda sem fólk þessara tíma fremur er þessi þjónn því frábitinn að halda áfram: Ei er sögu lokið, innt er fæstu frá, fyrirgefðu mér, nú sígur þreytan á.
Penninn stynur, blekið fellir tár og blóðugt bylgjast hjartans fljót. „Ekkert getur fallið oss í skaut nema það sem Guð hefur ákvarðað oss.“ Friður sé með þeim sem fetar braut leiðsagnar!
Eftir að hafa klifið háa tinda furðu og lotningar kemur vegfarandinn í Dal sannrar fátæktar og algjörrar eiveru. Þetta er sú staða að deyja sjálfinu og lifa í Guði, verða snauður af sjálfi og ríkur í Hinum þráða. Fátæktin sem hér er vísað til merkir að vera snauður af öllu sem er af heimi sköpunar en ríkur af því sem heyrir veröldum Guðs. Því þegar hinn sanni elskhugi og einlægi vinur kemur í návist Ástvinarins, verður skínandi fegurð Hans og eldurinn í hjarta elskandans að báli sem brennir allar blæjur og umbúðir. Já, allt sem hann á, frá merg að hörundi, fuðrar upp og ekkert stendur eftir nema Vinurinn. Þegar eigindir Hins aldna konungs birtust, allt sem hverfult var í heimi Móse brenndi.
Sá sem hlotið hefur þessa stöðu er helgaður frá öllu sem heyrir þessum heimi. Því skiptir engu þótt þeir sem hafa náð til úthafs návistar Hans eigi ekkert af því sem heyrir þessum fallvalta heimi, hvort heldur það er ytri auður eða veraldlegar skoðanir. Því allt sem heyrir skepnum Hans er háð þeirra eigin takmörkunum en allt sem er með Guði er helgað frá því. Þessi orð ber að íhuga gaumgæfilega til þess að inntak þeirra verði ljóst. „Vissulega munu hinir réttlátu drekka af bikar sem er tempraður við kamfórubrunninn.“ Ef sönn merking „kamfórunnar“ verður ljós, verður sannur ásetningur okkar skýr.
Þessi staða er sú fátækt sem sagt er um: „Fátæktin er dýrð Mín.“ Og mörg eru stig innri og ytri fátæktar og margvísleg sú merking sem mér hefur ekki þótt við hæfi að fjalla um hér, því læt ég það bíða annars tíma sem ræðst af því sem Guð kann að vilja og örlögin innsigla.
Þetta er staðan þar sem margfeldni allra hluta líður undir lok í vegfarandanum, og yfir sjónarhring eilífðar rís úr myrkrinu ásýndin himneska, og merking þessara orða birtist: „Allt á jörðu mun líða undir lok nema ásýnd Drottins þíns.“
Ó vinur Minn! Hlusta með hjarta þínu og sál á söngva andans og varðveit þá eins og þín eigin sjón. Því að himnesk viska mun ekki alltaf fella regn sitt eins og ský á vori yfir hjörtu manna, og þótt miskunn Hins algjöfula sé þrotlaus og taki engan endi er sérhverjum tíma og sérhverri öld ætlaður ákveðinn skerfur og sérstök hylli, og það í tilteknum mæli. „Og ekkert er til að gnægð þess sé ekki með Oss, og Vér sendum það ekki niður nema í ákveðnum mæli.“ Úr skýjum miskunnar Hins ástfólgna rignir aðeins á garð andans og þessi hylli veitist aðeins þegar vorið fer í hönd. Aðrar árstíðir eiga enga hlutdeild í þessari himnesku náð og ófrjó lönd fá engan hlut í þessari hylli.
Ó bróðir Minn! Ekki er perlur að finna í öllum höfum, ekki blómgast sérhver grein né heldur mun næturgalinn syngja á henni. Sýndu því viðleitni áður en næturgali hinnar dulrænu paradísar snýr aftur í garð himinsins og morgungeislar innri merkingar snúa aftur til sólar sannleikans til þess að þú megir í þessari öskustó dauðlega heimsins kenna ilman frá hinum eilífa rósalundi og lifa í skugga þeirra sem byggja þessa eilífu borg. Og þegar þú hefur náð þessu efsta sviði og upphafnasta stigi munt þú horfa á Ástvininn og gleyma öllu öðru. Blæjulaus Hann birtist nú og skín um byrgðar dyr, ó þér sem hafið sýn.
Þú hefur skilið að baki dropa lífsins og nálgast úthaf Hins ástfólgna. Þetta er markið sem þú leitaðir, Guð gefi að þú náir því.
Í þessari borg rifna og hverfa jafnvel blæjur ljóssins. „Engin blæja hylur fegurð Hans nema ljósið, ekkert hjúpar ásýnd Hans nema opinberun.“ Hvílíkum undrum sætir ekki að þótt Ástvinurinn sé jafn sýnilegur og sólin, sækjast hinir gálausu enn eftir glingri og auvirðilegum málmi. Já, feiknlegur kraftur opinberunar Hans hefur hjúpað Hann og fylling ljómans sem frá Honum stafar hulið Hann sjónum. Hinn sanni varpar sínum geislum niður sem sól á himni á blindra rann, því miður!
Í þessum dal leggur vegfarandinn að baki áfangana „eining tilvistar“ og „eining ásýndar“ og nær þeirri einingu sem er helguð ofar báðum þessum stöðum. Aðeins algleymi fær tjáð þetta stef en hvorki orð né röksemdir, og hver sá sem náð hefur þessum áfanga ferðarinnar eða fundið andblæinn frá þessum garði veit um hvað við tölum.
Á öllum þessum ferðum má vegfarandinn ekki víkja hársbreidd frá lögmálinu því það er að sönnu leyndardómur vegarins og ávöxturinn á tré sannleikans. Og á öllum þessum áföngum verður hann að halda fast í kyrtilfald hlýðni við allt sem mælt er fyrir um og taka föstu taki um haldreipið sem er fráhvarf frá öllu forboðnu, svo að hann megi drekka af bikar lögmálsins og verða upplýstur um leyndardóma sannleikans.
Ef einhver ummæli þessa þjóns eru torskilin eða valda ráðleysi verður að spyrja aftur til þess að enginn vafi megi leika á þeim og merkingin verða jafn ljós og ásýnd Hins elskaða sem skín frá „dýrlegri stöðu“ Hans.
Enginn sýnilegur endir er á þessum ferðum í þessum stundlega heimi, en vegfarandinn, aðskilinn öllu sem er, getur – ef ósýnilegar staðfestingar stíga yfir hann og Verndari málstaðarins aðstoðar hann – farið þessa sjö áfanga í sjö skrefum, nei öllu fremur á sjö andartökum, nei jafnvel á einu andartaki sé það vilji Guðs. Og þetta er „tákn um náð Hans sem veitist hverjum sem Honum þóknast.“
Þeir sem svífa á himni guðlegrar einingar og kafa djúpin í úthafi aðskilnaðar telja þessa borg – sem er staða lífs í Guði – æðstu stöðu hinna dulvitru og hinstu heimkynni hinna trúföstu elskenda. En fyrir þessum hverfula þjóni í hafi dulúðar er þessi staða fyrsta hliðið að borgvirki hjartans, það er að segja fyrsta innganga mannsins í borg hjartans, og á leið hjartans eru fjórir áfangar sem segja mætti frá ef finna mætti skylda sál. Er blekið vildi birta þetta stig brotnaði penni, síðan fór í tvennt.
Ó vinur Minn! Margur hundurinn fer á hæla þessarar gasellu í eyðimörk einingar, margur örninn eltir þennan næturgala í garði eilífðar. Hatursfuglar bíða færis á þessum fugli frá himni Guðs og veiðimaður afbrýði læðist að þessu dádýri á sléttu ástarinnar.
Ó Shaykh! Ger úr viðleitni þinni ljóshjálm sem geti skýlt þessum loga fyrir misvindi, þótt þetta ljós þrái að loga í lampa Drottins og skína í gróp andans. Því höfuð sem reist er upp í ást Guðs mun vissulega falla fyrir sverði, og lífi sem brennur af þrá verður vissulega eytt og hjarta sem heldur fast við minningu Hins elskaða verður vissulega kramið. Hversu vel var ekki að orði komist: Losna úr helsi ástar, hennar friður er harmur einn og angist hverja stund. Upphafið er einskær kvöl og mæða, endir sorg og kall á dauðans fund. Friður sé með þeim sem fylgir vegi leiðsagnar!
Þær nýstárlegu hugmyndir sem þú hefur látið í ljós varðandi táknin í orðinu „spör“ voru hugleiddar. Þú virðist vera vel heima í dulrænum sannindum. En í hverju ríki er sérhverjum bókstaf ákvörðuð merking sem lýtur að því ríki. Að sönnu finnur vegfarandinn hulinn dóm í hverju nafni og dularmál í hverjum bókstaf.
Í einum skilningi vísa þessir bókstafir til stiga heilagleikans. Hinn fyrsti þýðir „Frelsa þig frá freistingum sjálfsins og nálgast svo Drottinn þinn.“ Næsti þýðir „Hreinsa þig af öllu nema Honum, að þú megir fórna lífi þínu fyrir Hann.“ Hinn þriðji merkir „Hverf frá fótskör hins eina sanna Guðs ef þú enn ert andsetinn jarðneskum eigindum.“ Sá fjórði merkir „Færðu Drottni þínum þakkir á jörðu Hans að Hann megi blessa þig á himni sínum, þótt í ríki einingar Hans sé himinn Hans og jörð eitt og hið sama.“ Sá fimmti merkir „Fjarlæg hulur takmarkana af augum þínum, að þú megir fræðast um það sem þú ekki vissir um stöður heilagleikans.“
Ef þú hlýddir á söngva þessa dauðlega fugls myndir þú leita þess eilífa og ódeyjandi kaleiks og hafna sérhverjum hverfulum og forgengilegum bikar. Friður sé með þeim sem fylgir vegi leiðsagnar!
Í nafni Drottins vors, hins upphafnasta, hins hæsta!
Ó vinur! Langt er um liðið og enn hefur ljúfur ilmur trúfesti þinnar ekki borist Oss. Hefur þú gleymt þeim Eina sem hvorki gleymir þér, yfirgefur né vanrækir samtímis og þú gleymir, yfirgefur og vanrækir Hann?
Vér höfum heyrt að þessa daga hafi sorgir steðjað að þér á alla vegu. Harmur þinn hefur fyllt Oss hryggð og það sem fallið hefur þér í skaut valdið Oss sárri kvöl og angist. En á þessari stundu, ó vinur, flytur Kallari eilífðar þér fagnaðartíðindi sín með kyrtli trúfesti og færir þér þessa smaragðsgrænu töflu. Legg því af stað frá híbýlum þínum, tak sjö skref á jörðunni og ljúk einum áfanga ferðarinnar í hverju skrefi.
Í hinu fyrsta gakk inn í úthaf leitarinnar og leita Guðs, Drottins þíns, af innsta hjarta þínu og sál.
Í hinu næsta gakk inn í úthaf ástarinnar og nefndu Guð, Drottin þinn, í sælli leiðslu löngunar þinnar og algleymi hrifningar.
Í hinu þriðja feta stigu andlegrar lausnar, það er að segja leys þig frá hégómlegum hugarburði og gakk vegu Drottins þíns.
Í hinu fjórða kafa ómælisdjúp einingar og ólgandi höf eilífðar. Hyl andlit þitt dusti frammi fyrir Drottni drottna og helga sjálf þitt og anda þinn frá allri brottför og afturkomu, að innsta hjarta þitt megi frelsast frá öllu sem er í ríki sköpunar.
Í hinu fimmta stíg upp til himins furðu og lotningar að þú megir bragða á úrvals ávöxtum þess blessaða ríkis, fyllast ráðaleysi frammi fyrir valdi Hins elskaða og yfirráðum skapara þíns og lýsa því yfir sem Konungur tilverunnar og markmið allrar löngunar hefur kunngert: „Auk undrun mína og furðu á Þér, ó Guð!“
Í hinu sjötta svíf á vængjum undirgefni og gleði til borga Hins óséða, að þú megir komast inn í víðerni fullkominnar eiveru þar sem þú deyrð sjálfum þér og lifir Honum sem hefur skapað þig.
Í hinu sjöunda drekk þér í djúpum eilífðar, að dauðinn komi ekki yfir þig og þú megir að eilífu dvelja í skugga ævarandi ásjónu Guðs. Þá mun ilmur Hins aldýrlega berast frá ríki Hins almiskunnsama og hjarta þitt ekki lengur trega breytingar þessa hverfula lífs og umskipti fallvaltrar gæfu.
Þegar þú loks hefur með leynd lokið þessum ferðum legg þennan kyrtil á blind augu þín svo að auga innsta hjarta þíns megi opnast. Ég sver við Guð, ó vinur Minn! Ef þér hlotnaðist þessi staða myndir þú uppgötva undursamlegar veraldir, finna himneska laufskála, dýrlega garða og yfirskilvitleg ríki, og afhjúpa leyndarmálin í þróun mannssálarinnar í gegnum andrúmsloft eilífs heilagleika og á himnum ótortímanlegrar dýrðar. Þú myndir fagna svo hið innra með sál þinni að tákn gleði og hamingju birtust um alla jörð. Síðan myndi sorgin aldrei ná tökum á þér aftur né harmur hremma þig í klær sínar því þú dveldir á himni heilagleika meðal herskara hinna sælu.
Vita skalt þú einnig að fyrir augliti Guðs er staða þín háleit og upphafin. Yfirgef ekki félagsskap þjóna Hans, heldur safna þeim saman í málstað Guðs og áminn þá á dögum Hans. Treyst þú Guði í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur. Hann mun vissulega nægja þér í hvívetna, vernda þig frá fylgjendum hins illa og verða þess valdandi að þú hlýtur inngöngu í paradís eilífðar þar sem þú fyllir flokk hinna blessuðu. Fær því kveðjur Vorar þeim sem fylgja þér í málstað Drottins þíns og boða þá á hina réttu braut.
Í nafni hins óviðjafnanlega og síelskandi Guðs!
Ó Shams! Hlýð af öllu hjarta þínu á unaðslegan söng Hins elskaða, að þér megi takast að hverfa frá híbýlum sjálfs og ástríðu og stíga inn í staðlaust ríki eilífrar dýrðar, yfirgefa þitt eigið líf og samneyta Honum sem er líf þíns eigin lífs. Ef þú færir um takmarkalaus víðerni andans myndir þú vissulega rífa af þér klæði þolinmæði og biðlundar, hafa hraðann á og fórna sál þinni, afneita sora þessa hverfula heims og finna hvíld í hásæti aldinnar dýrðar.
Sérhver hlutur hlýtur af nauðsyn að hafa áhrif og hvert tákn að opinbera leyndardóm. Ekki fyrr en sólin heimslýsandi hefur risið er hægt að aðgreina austrið frá vestrinu og greina á milli blómstrandi garðs og ófrjórrar auðnar. Himneska hljóma er ekki hægt að bera saman við jarðneska háreysti og með engu móti er hægt að villast á gargi hrafnsins og söng næturgalans. Því að hið síðara ber vitni landi Hins elskaða og færir meira líf, en hið fyrra vitnar aðeins um borg hins blinda og fær trúna til að visna.
Maðurinn verður að stíga fram og hefja á loft fána einlægrar viðleitni. Ég sver við Guð! Ef þú hlýddir á himnesk orð þessa svipula þjóns sem borin eru fram í þessari dulrænu töflu myndir þú vissulega halda út í eyðimörk sjálfsuppgjafar, snúa baki við þinni eigin sál og hjarta og varpa höfði þínu fyrir fætur Vinarins. Hve hátt flýgur ekki Fönix ástarinnar og hversu lítill er ekki nauðsynlegur mælir löngunar okkar! Reyn að einhverju litlu leyti að taka flugið með náð Hans sem er Konungurinn eilífi, að þú megir stíga upp frá öskustó fullkomins tilvistarleysis til háleitustu hæða aldinnar dýrðar. Ljá himneskum anda þínum vængi og fær dulúðugri sál þinni styrk, að hún megi taka flugið á himni guðlegrar nálægðar og ná hinu endanlega og ósýnilega markmiði.
Þessi gagnslausi heimur gefur ekkert af sér nema banvænt eitur, og skammvinnar dreggjar hans geta aldrei fært hinn eilífa bikar. Ef Jesús andans ljáði eyra kalli heilagleikans frá fálkanum í ríkinu hið efra myndi Hann án vafa hrópa frá innstu verund sinni og verða gripinn ákafri löngun líkt og sál elskandans. Það er slíkt hróp sem gerði Móse eilífðar agndofa; það er í krafti þess sem Abraham trúfestinnar braut hjáguð dauðlegs líkama. Brjót því einnig þennan hjáguð að þú megir eignast heimkynni í landi Hins elskaða, og hafna allri ástríðu að þú megir taka flugið til Egyptalands óforgengilegrar dýrðar. Helga borg hjarta þíns, að þú megir líta fegurð Hins guðdómlega eðlis og hljóta nýtt líf fyrir miskunn heilags anda.
Enginn söngur er eftir sem ekki var sunginn á þessari grein, ekkert sönglag eftir sem þessi næturgali hefur ekki sungið. Þúsund arabísk eyru fá ekki skilið þetta persneska kvein – nei, ekkert nema holdgerving himneskra dyggða fær skilið þennan margslungna leyndardóm. Heill sé því þeim sem kemst til þessa útsævar og teygar þar drykk lífsins!
Ó ljúfa sál með ljónsins þor lát röddu þína hljóma, svo heyrast megi hátt og snjallt á himni dýrðar óma!
Lof sé Honum sem í eðli sínu er ómælanlega upphafinn yfir tilraunir mannshjartans, hversu flekklausar sem þær eru, til að svífa inn í andrúm návistar við Hann sem í verund sinni er fullkomlega helgaður ofar viðleitni mannshugans, hversu háleit sem hún er, til að stíga upp til himins nálægðar Hans. Frá ómunatíð hefur Hann verið upphafinn yfir orð og lýsingu alls nema sjálfs sín og Hann mun að eilífu vera helgaður ofar lofgjörð alls sem skapað er. Hjörtu þeirra sem borið hafa kennsl á Hann standa ráðþrota frammi fyrir táknum ævarandi verka Hans og hugir þeirra sem náð hafa til hirðar Hans fyllast ráðleysi gagnvart undursamlegum vitnisburði þeirra sem opinbera einingu Hans. Hann er að sönnu eigandi alls, hinn alvaldi, hinn dýrlegasti, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
Ó vinur! Pistill þinn barst Oss. Í honum er ekkert að finna nema eldinn sem tendraður hefur verið í tré mannlegs veruleika, og hann ber engan boðskap annan en þann sem veitir upplýstum hjörtum nýtt líf. Heill sé þeim sem hefur upptendrast af eldi ástar þinnar og drukkið vatn lífsins úr bikar ástúðar þinnar. „Hinir réttlátu munu drekka af bikar sem er tempraður við kamfórubrunninn.“
Enn fremur: Bréf þitt, sem geymir perlur himneskrar þekkingar, var fært þessum Útlaga. Lof sé Guði, það vafði saman bókfell aðskilnaðar og fjarlægðar og opnaði þess í stað ríki nálægðar og endurfunda. Mér þykir sem eldi aðskilnaðar hafi verið umbreytt í „svölun og öryggi“ með vatni löngunar þinnar. Með bréfi þínu áttum Vér í sannleika fullkominn fund með þér, og með orðum þínum um stöður guðlegrar einingar og tákn hreins afstæðis og einleika svipti það blæjum takmarkana af veröldinni. Og það gerðist þrátt fyrir að vegfarandinn beri lof á takmarkanir þessa heims, því hann sér alla hluti í spegli ritningarorðsins „Enga misfellu sérð þú í sköpun Guðs miskunnar“, og á hverju andartaki heyrir hann með innra eyra sínu heilagan anda mæla orðin „Finnur þú einhvern annmarka?“ Í ótryggð sér hann leyndardóm tryggðar og banvænt eitur bragðast honum sem sætasta hunang. Jafnvel hefndinni er veitt viðtaka í þessu ástandi, nei, öllu heldur fagnar sannur elskandi svikráðum hins elskaða. Ótryggð þína elska eg meir en allt sem lífið ber mér. Kvöl af þinni hefndarhönd – hollari en lífið er mér.
Vegfarendur á eyðisöndum einveru og leitar upplifa þannig atburði og aðstæður sem heilsudrykk hið innra þótt þær virðist banvænt eitur hið ytra. Og þótt þær kunni að sýnast skammlíf hilling reynast þær tær og endurnærandi vötn. Mér er um megn að lýsa þessari stöðu til fulls og áheyrandinn fengi ekki heldur skilið hana. Og hver sem aðgætir með augum áskapaðrar þekkingar mun viðurkenna, opinskátt og á laun, þessi ótvíræðu sannindi.
Hvað allan sýndarmun varðar á hann rót sína að rekja til þeirra ýmsu áfanga sem þeir hafa náð, sem feta vegu leitar og dulrænnar þekkingar. Eitt sinn sér vegfarandinn elskandann hraða sér yfir auðn og vegleysur í leit að ástvini sínum, og í annað sinn sér hann ástvininn þrá sinn elskaða í órafjarlægð löngunar og hollustu, eða reika ráðvilltan og stefnulausan yfir eyðisanda ástarinnar í leit sinni. „Fengi ég aðeins dropa að drekka!“ dauðþyrst sálin veinar. „Ó, að hún vildi úr mér teyga!“ uppsprettan sáran kveinar.
Frá enn öðru sjónarhorni sér hann að elskandinn og ástvinurinn eru eitt og hið sama og að leitandinn er sjálfur markmið þess sem hann leitar. „Hvernig getur elskandi nokkru sinni yfirgefið ástvin sinn?“ Þess vegna ber svo við að stundum þeyta elskendur Hinnar himnesku fegurðar lúðurinn „Seg: Allt er frá Guði“, en öðru sinni hrópa þeir „Það er frá þér sjálfum.“
Sumir hafa tengt fyrrnefnda áfanga innri og ytri ferðum sálarinnar, sem er staða „þekkingar á fullvissunni“, meðan aðrir sem drukkið hafa vín endurfunda líta svo á að sérhver áfangi tengist þeirri þekkingu og telja stöðurnar tvær, „auga fullvissu“ og „sannleika fullvissu“, vera helgaðar og hafnar yfir þessi ríki og allt sem þeim tilheyrir líkt og sá dulvitri þekkjandi hefur staðfest skýrum orðum. Því á öllum þessum áföngum ferðarinnar kann hjarta vegfarandans að endurspegla dimmar ástríður, villuráfandi hugsanir og veraldlegar langanir. Sagt hefur því verið að á þessum áföngum beri herskarar skynseminnar stundum sigur, en stundum nái liðssveitir ástarinnar yfirhöndinni. Eitt sinn hylja ský þrenginga og sorga himin gleði og fagnaðar og öðru sinni slokar eilífur dreki ástarinnar á einu andartaki í sig alla hryggð, angist, sorg og depurð og morgunn guðlegrar leiðsagnar rennur upp með fagnaðartíðindin „örvæntið eigi um miskunn Guðs“, og mildur andvari forsjónar Hans flæmir á brott sérhvern vott sinnuleysis og firringar. Þessi tíðindi eru þó ekki stöðug og óbreytanleg á þessum áföngum og vegfarandinn fjötrast á milli hægri handar trúar og vissu og vinstri handar afneitunar og örvæntingar.
Sumir vegfarendur munu um allan aldur hyljast blæjum á þessum áföngum. Aðrir fá aðstoð frá ósýnilegri Uppsprettu óskeikullar náðar þegar herskarar ríkisins á hæðum reisa tjaldbúð guðlegs máttar og boðið „vissulega munu herskarar Vorir sigra“ verður kunngert og þurrkar út tákn og ummerki allra veraldlegra langana og takmarkana, eins og sumir sem ná þessari stöðu hafa gefið til kynna. Á slíkum stundum umvefur máttur nafna og eiginda Guðs sálina að því marki að hún getur hvorki flúið né verið kyrr. Þessi staða hefur hins vegar sínar eigin hulur og hindranir, því að þeir sem eru á leið til lands guðlegrar einingar og aðskilnaðar eru enn hjúpaðir takmörkunum nafna og eiginda og hafa yndi af görðum sínum og laufskálum. Því er það að sumir þeirra sem skýra frá þessum stigum vísa til „einingar tilvistar“ og „einingar ásýndar.“ Með þessu er átt við að leitandinn muni loka augum sínum fyrir öllu nema Ástvini sínum og opna þau engu nema fegurð Hans. Hann mun hefja sig yfir þennan dauðlega heim og nálgast ríki eilífðarinnar. Hann mun enga fegurð sjá nema fegurð Ástvinarins og ekkert heyra nema vegsömun Hans, það er að segja hann beinir augum sínum frá öllu nema fegurð Hans og neitar að hlusta á nokkurn söng nema ljúfa rödd Hans. Engu að síður rata sumir í villur jafnvel á þessu stigi, því ekki fyrr hafa þeir andað að sér ilmi endurfunda og hlýtt á dúfur himneskrar náðar kurra en þeir ímynda sér að þeir hafi náð fullkomnun og fara því villur vegar í eyðimörk ofdrambs og svipta sig lygnum straumi guðlegrar forsjónar og heilögum bikar himnesks unaðar.
Fyrir náð Vinarins eilífa eyða samt aðrir þessum blæjum í eldi ástar Hans og ganga inn í gróskumikil lönd aldinnar dýrðar. Það er að segja með því að leggja að baki eyðimörk „einingar tilverunnar“ ná þeir hinstu híbýlum þeirrar „sönnu ásýndar himneskrar einingar“. Á þessu stigi verður vitnisburðurinn um alltumlykjandi miskunn Guðs svo skýr að þeir munu sjá Hann, sem kenndur hefur verið við heilaga úthellingu, í öllu sem skapað er, bæði hér í heimi og í sálum mannanna. Þeir loka ekki lengur augum sínum fyrir neinni fegurð né daufheyrast við nokkurri röddu. Því á þessu stigi er ekkert bann og engin útilokun, því þeir sjá með ytri og innri augum sínum í öllu sem skapað er opinberun tákna Hans sem er konungur allra nafna og eiginda og í sérhverri öreind finna þeir dyr að garði guðdómlegrar einingar og borg hreins afstæðis. „Hvert sem ég lít, þar sé ég Þig.“ Svo fullkomlega hrífur þráin eftir algleymi þessarar stöðu hjörtu vegfarendanna að þeir munu ekki skynja neinn áfanga annan en þennan, dvelja sjálfir í forgarði Hins elskaða, hringsóla um athvarf Hans og líta á það sem endanleg heimkynni leitendanna og hinstu stöðu þeirra sem komnir eru á leiðarenda.
Fjöldi nafna og eiginda hafa verið eignuð þessum stigum og stöðum en Ég er því frábitinn að nefna þær hér. Í sannleika er það aðeins vegna löngunar þinnar og hollustu sem Ég hef fjallað um svo hverful og afmörkuð málefni. Og það þrátt fyrir að mælt mál er besti vitnisburður mælandans og leiðir til viðurkenningar á uppsprettu leiðsagnar, því engin fullkomnari og varanlegri sönnun hefur verið eða mun verða veitt manninum frá æðsta himni eilífrar dýrðar en orð og mál. Þetta eru að sönnu augljós sannindi, því hrín asnans er aldrei hægt að bera saman við kurr dúfunnar. Aldrei munt þú heyra söng næturgalans frá hrafninum né anda að þér ilmi eilífðar frá auvirðilegri bjöllu.
5
Tafla hins sanna leitanda
Ó bróðir Minn! Þegar sannur leitandi ákveður að stíga skref leitarinnar á veginum sem liggur til þekkingar á Hinum aldna, verður hann fyrst af öllu að skíra hjarta sitt sem er aðsetur opinberunar hinna innri leyndardóma Guðs, frá myrkvandi dusti allrar aðfenginnar þekkingar og launskrafi þeirra sem eru holdtekjur djöfullegra ímyndana. Hann verður að hreinsa brjóst sitt, sem er griðastaður varanlegrar elsku Hins ástfólgna, af allri saurgun og helga sál sína frá því sem er af vatni og leir, frá öllum dökkum og skammlífum löngunum. Hann verður að skíra hjarta sitt að því marki, að engar leifar af ást eða hatri dvelji þar lengur, svo að ástin knýi hann ekki í blindni til villu og hatrið hrindi honum ekki frá sannleikanum. Því eins og þú sjálfur ert vitni að hafa flestir farið varhluta af hinni ódauðlegu ásýnd sakir slíkrar ástar eða haturs, villst langt frá holdtekjum guðdómlegra leyndardóma og reika hirðislausir á auðnum gleymsku og villu. Þessum leitanda ber ætíð að setja traust sitt á Guð, hafna þjóðum jarðarinnar, skiljast frá veröld duftsins og halda fast við Hann sem er Drottinn drottna. Hann má aldrei leitast við að upphefja sig yfir nokkurn mann og verður að afmá af töflu hjarta síns sérhvern vott af drambi og hégómadýrð, halda fast við þolgæði og undirgefni, gæta þagnar og forðast fánýtt hjal. Því tungan er sem eldsglóð og ónytjumælgi er banvænt eitur. Efnislegur eldur eyðir líkamanum, en eldur tungunnar eyðir bæði hjarta og sál. Afl hins fyrrnefnda er skammætt, en áhrif hins síðarnefnda vara í heila öld.
Þessi leitandi ætti einnig að líta á baktal sem hörmulega villu og halda sig fjarri ríki þess, því að baktal slekkur ljós hjartans og kæfir líf sálarinnar. Hann ætti að gera sér lítið að góðu og vera laus við alla óhóflega ástríðu. Hann ætti að meta sem fjársjóð félagsskap þeirra sem hafa hafnað heiminum og líta á fjarveru frá hrokafullu og veraldlegu fólki sem verðmæt gæði. Í dögun hvern dag ætti hann að samneyta Guði og þreyja af allri sálu sinni í leitinni að Ástvini sínum. Hann ætti að eyða sérhverri villuráfandi hugsun með eldi ástúðlegrar minningar Hans og með eldingarhraða sneiða hjá öllu nema Honum. Hann ætti að rétta hinum smáða hjálparhönd og aldrei meina hinum allslausa um gjafir sínar. Hann ætti að sýna dýrunum gæsku og hversu þá miklu fremur náunga sínum, þeim sem gæddur er valdi málsins. Hann ætti ekki að hika við að fórna lífinu fyrir Ástvin sinn og ekki leyfa hnjóðsyrðum mannanna að snúa sér frá sannleikanum. Hann ætti ekki að óska öðrum þess sem hann ekki óskar sjálfum sér, né heita því sem hann ekki efnir. Hann ætti af öllu hjarta sínu að forðast félagsskap hinna óguðlegu og biðja um aflát synda þeirra. Hann ætti að fyrirgefa hinum syndugu og fyrirlíta aldrei lága stöðu þeirra, því að enginn þekkir sín eigin endalok. Hversu oft hefur ekki syndarinn á dauðastundinni náð taki á kjarna trúarinnar og drukkið af hinum ódauðlega drykk og tekið flugið til herskaranna á hæðum. Og hversu oft hefur ekki dyggur átrúandi á stundu uppstigningar sálar sinnar ummyndast svo að hann hefur fallið niður í hinn neðsta eld. Áform Vort með því að opinbera þessi þungvægu orð er að brýna fyrir leitandanum að hann ætti að líta á allt nema Guð sem hjóm eitt og skoða allt nema Hann sem er tilefni allrar lofgerðar sem alls ekkert.
Þetta eru nokkrar af eigindum hinna upphöfnu og einkenni hinna andlega sinnuðu. Þeirra hefur þegar verið getið í sambandi við þarfir vegfarendanna sem feta stigu jákvæðrar þekkingar. Þegar hinn andlega frjálsi vegfarandi og einlægi leitandi hefur uppfyllt þessi frumskilyrði, þá og aðeins þá er hægt að kalla hann sannan leitanda. Ætíð þegar hann hefur uppfyllt skilyrðin sem gefin eru til kynna í versinu: ,,Hver sá sem sýnir viðleitni fyrir Oss“, verður hann aðnjótandi þeirrar blessunar sem veitt er í orðunum: ,,Á Vora vegu munum Vér sannlega leiða hann.“
Aðeins þegar lampi leitar, einlægrar viðleitni, ástríðufullrar þrár, heitrar löngunar, brennandi ástar, hrifningar og algleymis er glæddur í hjarta leitandans og andblær ástríkis Guðs berst yfir sál hans, dreifist myrkur villunnar, mistur kvíða og efasemda hverfur og ljós þekkingar og fullvissu umlykur verund hans. Á þeirri stundu mun Hinn dulúðugi kallari sem ber fagnaðartíðindi andans skína frá borg Guðs, ljómandi eins og morgunninn og vekja hjartað, sálina og andann af svefni vanrækslu með lúðurhljómi þekkingar. Þá munu margvíslegar náðargjafir og ríkuleg miskunn hins heilaga og eilífa anda gæða leitandann nýju lífi að því marki, að hann uppgötvar að hann hefur fengið nýja sýn, nýja heyrn, nýtt hjarta og nýjan huga. Hann mun íhuga ótvíræð tákn alheimsins og afhjúpa hulda leyndardóma sálarinnar. Er hann skyggnist um með auga Guðs mun hann í sérhverri öreind sjá dyr sem leiða hann til stöðu algjörrar fullvissu. Hann mun uppgötva í öllum hlutum leyndardóma guðdómlegrar opinberunar og vitnisburði eilífrar birtingar.
Ég sver við Guð! Ef sá sem fetar stigu leiðsagnar og leitast við að klífa hæðir réttlætis, næði þessari dýrlegu og æðstu stöðu, myndi hann anda að sér ilmi Guðs úr mörg þúsund mílna fjarlægð og sjá skínandi morgun guðdómlegrar handleiðslu rísa yfir dagsbrún allra hluta. Sérhver hlutur, hversu lítill sem hann er, yrði honum opinberun sem leiddi hann til Hins elskaða, takmarks leitar hans. Svo mikil yrði skarpskyggni þessa leitanda að hann gæti greint á milli sannleika og lygi jafn auðveldlega og hann aðgreindi sól frá skugga. Yrði ilmi Guðs dreift á ystu mörkum austursins mundi hann vissulega þekkja og anda að sér þessum ilmi þótt hann dveldi á ystu mörkum vestursins. Hann mundi einnig gera skýran greinarmun á öllum táknum Guðs – undursamlegum orðum Hans, voldugum verkum og máttugum gerðum – og orðum, gerðum og aðferðum manna, líkt og gimsteinasalinn þekkir gimstein frá grjótmola og maðurinn vor frá hausti og hita frá kulda. Þegar farvegur mannssálarinnar hreinsast af allri veraldlegri og tálmandi aðloðun skynjar hann undantekningarlaust anda Hins elskaða yfir ómælanlegar vegalengdir og kemst með fulltingi þess ilms til borgar fullvissunnar og gengur inn í hana. Þar mun hann skynja undur fornrar visku og nema allar huldar kenningar af skrjáfinu í laufi trésins sem blómgast í þeirri borg. Með ytri og innri heyrn sinni heyrir hann söngva dýrðar og vegsömunar stíga úr dufti hennar til Drottins drottna og með innri auga sínu uppgötvar hann leyndardóma ,,endurkomu“ og ,,endurlífgunar“. Hve óumræðilega dýrleg eru ekki táknin, ummerkin, opinberanirnar og dásemdirnar sem Hann sem er konungur nafna og eiginda, hefur ákvarðað þeirri borg! Innganga í þá borg slekkur þorsta án vatns og tendrar ást Guðs án elds. Hið innra með sérhverju grasstrái felast leyndardómar órannsakanlegrar visku og á hverjum rósarunna syngur aragrúi næturgala í sælum unaði. Undursamlegir túlípanar hennar afhjúpa leyndardóm hins brennandi þyrnirunna og sæt angan heilagleika hennar ber ilm hins messíanska anda. Hún miðlar auði án gulls og veitir ódauðleika án dauða. Í hverju laufi eru varðveittar ósegjanlegar unaðssemdir og í hverri vistarveru er fólginn aragrúi leyndardóma.
Þeir sem sýna þrautseigju í leitinni að Guði munu þegar þeir eitt sinn hafa hafnað öllu nema Honum, verða svo nátengdir og trúir þeirri borg, að þeir gætu ekki hugsað sér andartaks aðskilnað frá henni. Þeir munu hlýða á óskeikular sannanir frá hýasintu þess samfundar og fá órækustu vitnisburði frá fegurð rósar hans og söngvum næturgala hans. Einu sinni á um það bil 1000 ára fresti verður þessi borg endurnýjuð og prýdd að nýju.
Ó útlægi og trúfasti vinur! Slökk þorsta gáleysisins með helguðum vötnum náðar Minnar og dreif döprum sorta fjarlægðarinnar með árbirtu guðdómlegrar nærveru Minnar. Leyf eigi að híbýlin, þar sem dvelur ódeyjandi ást Mín á þér, tortímist sakir harðstjórnar ásælinna girnda og hyl eigi fegurð Hins himneska æskumanns dusti sjálfs og ástríðu. Íklæð þig kjarna réttlætisins og lát hjarta þitt óttast ekkert nema Guð. Byrg eigi bjarta lind sálar þinnar með þyrnum og illgresi hégómlegra og hóflausra langana og tálma eigi rennsli hins lifandi vatns, sem streymir frá uppsprettu hjarta þíns. Set alla von þína á Guð og hald fast við óbrigðula miskunn Hans. Hver annar en Hann getur auðgað hinn snauða og frelsað hinn fallna frá lægingu sinni?
Ó þjónar Mínir! Ef þér uppgötvuðuð hin huldu, strandlausu úthöf óspillanlegra auðæfa Minna, munduð þér vissulega meta einskis allan heiminn, nei, alla sköpunina. Látið loga leitarinnar brenna svo ákaft í hjörtum yðar, að yður megi auðnast að ná æðsta og háleitasta takmarki yðar – þeirri stöðu, þaðan sem þér getið nálgast Ástvin yðar og sameinast Honum…
Ó þjónar Mínir! Látið eigi hégómlegar vonir yðar og fánýtar ímyndanir veikja grundvöll trúar yðar á hinn aldýrlega Guð, því að slíkar ímyndanir hafa aldrei stoðað mennina neitt og mistekist að leiða þá á hinn beina veg. Haldið þér, ó þjónar Mínir, að hönd alltumlykjandi, yfirskyggjandi og yfirskilvitlegs herradóms Míns sé hlekkjuð, að framstreymi aldinnar, óþrotlegrar og alltgagntakandi náðar sé stöðvuð, eða að úr skýjum æðstrar og óviðjafnanlegrar mildi Minnar hafi gjöfum Mínum hætt að rigna yfir mennina? Getið þér gert yður í hugarlund að þau undursamlegu verk sem hafa kunngert guðdómlegt og ómótstæðilegt vald Mitt séu á enda eða að getu vilja Míns og áforms hafi verið aftrað að ráða örlögum mannkyns? Ef svo er ekki, hvers vegna hafið þér þá reynt að koma í veg fyrir að ódauðleg fegurð heilagrar og náðarríkrar ásýndar Minnar sé afhjúpuð augum mannanna? Hvers vegna hafið þér streist við að hindra að birting Hinnar almáttku og aldýrlegu verundar úthellti ljóma opinberunar sinnar yfir jörðina? Væruð þér sanngjarnir í dómum yðar veittist yður auðvelt að skilja hvernig veruleiki allra skapaðra hluta hefur ölvað sig fögnuði þessarar nýju og undursamlegu opinberunar, hvernig allar frumeindir jarðarinnar hafa uppljómast af birtu dýrðar hennar. Fánýtt og lítilmótlegt er það sem þér hafið ímyndað yður og enn ímyndið yður.
Snúið til baka, ó þjónar Mínir, og hneigið hjörtu yðar að Honum, sem er uppspretta sköpunar yðar. Frelsið yður frá illum og spilltum hneigðum yðar, hafið hraðann á og umfaðmið ljós hins ódeyjandi elds sem tindrar á Sínaí þessarar leyndardómsfullu og yfirskilvitlegu opinberunar. Spillið ekki helgu, alltumfaðmandi og frumrænu orði Guðs og leitist ekki við að saurga heilagleika þess eða niðurlægja heilagt eðli þess.
Ó þér gálausir! Þótt undur miskunnar Minnar hafi umlukið allt sem skapað er, sýnilegt og ósýnilegt, og þótt opinberanir náðar Minnar og mildi hafi gegnsýrt sérhverja frumeind í alheiminum, þá er fleinninn sárbeittur sem Ég hirti með illgerðarmennina og heift reiði Minnar í gegn þeim ægileg. Hlýðið með eyrum sem helguð eru frá hégómafíkn og veraldlegum ástríðum á þau hollræði sem Ég í náðarríkri gæsku Minni hef opinberað yður, og gaumgæfið með innri og ytri heyrn yðar vitnisburð dásamlegrar opinberunar Minnar…
Ó þjónar Mínir! Sviptið eigi sjálfa yður því skæra og ófölnandi ljósi sem skín í lampa guðlegrar dýrðar. Látið loga Guðs ástar brenna glatt í geislandi hjörtum yðar. Fæðið hann með olíu himneskrar leiðsagnar og verjið hann í skjóli staðfestu yðar. Verndið hann í ljóshjálmi trausts og aðskilnaðar frá öllu nema Guði, svo að illt hvískur hinna óguðlegu megi ekki kæfa birtu hans. Ó þjónar Mínir! Heilagri, guðlega áformaðri opinberun Minni má líkja við úthaf sem geymir í djúpum sér ótölulegan fjölda af dýrmætum og tindrandi skærum perlum. Það er skylda sérhvers leitanda að hefjast handa og komast til stranda þessa hafs svo að hann megi, að svo miklu leyti sem ákefð leitar hans og viðleitni segir til um, eignast hlutdeild í þeim gæðum sem forákvörðuð hafa verið í óafturkallanlegum og huldum töflum Guðs. Vilji enginn beina skrefum sínum til þessara stranda, láti allir undir höfuð leggjast að rísa upp og finna Hann, er þá hægt að segja að slík vanræksla hafi rænt hafið valdi þess eða dregið í einhverjum mæli úr auðlegð þess? Hversu fáfengilegar, hversu fyrirlitlegar eru þær ímyndanir, sem komið hafa upp í hjörtum yðar og enn koma þar upp! Hinn eini sanni Guð ber Mér vitni! Þetta voldugasta, þetta ómælisvíða og svellandi úthaf er nálægt yður, svo furðulega nálægt! Sjá, það er nær yður en sjálf lífæð yðar! Skjótar en augabragð getið þér, ef þér aðeins óskið, höndlað það og fengið hlutdeild í þessari ótortímanlegu mildi, þessari náð frá Guði, þessari máttugustu og óumræðilega dýrlegu hylli.
Ó þjónar Mínir! Gætuð þér skilið fyrir hvílíkum furðum hylli Minnar og veglyndis Mér hefur þóknast að treysta sálum yðar, munduð þér í sannleika snúa baki við öllu sem skapað er og öðlast sanna þekkingu á yðar eigin sjálfi, þekkingu sem jafngildir skilningi á Minni eigin verund. Þér munduð verða óháðir öllum nema Mér og munduð skynja með ytri og innri sjónum yðar, jafn glöggt og opinberun skínandi nafns Míns, þau höf ástúðar Minnar og örlætis sem ólga innra með yður. Látið eigi fánýtar blekkingar yðar, illar ástríður, óhreinlyndi yðar og hjartablindu myrkva ljóma eða flekka heilagleika svo háleitrar stöðu. Yður er farið líkt og fuglinum, sem svífur með fullum styrk máttugra vængja sinna gegnum ómælisdjúp himnanna í fullkominni og fagnaðarríkri vongleði uns hann snýr aftur, knúinn af þörf til að seðja hungur sitt, til vatnsins og leirsins á jörðunni. Og er hann hefur fest sig í möskvum ástríðu sinnar, finnur hann sig vanmegnugan til að taka flugið á ný til ríkjanna þaðan sem hann kom. Þennan fugl sem áður var íbúi himnanna þrýtur afl til að hrista af sér byrðina sem íþyngir flekkuðum vængjum hans, og neyðist til að leita sér dvalarstaðar í dustinu. Saurgið því ekki, ó þjónar Mínir, vængi yðar með leir vegvillu og fánýtra ástríðna og leyfið þeim ekki að flekkast af dusti öfundar og haturs, svo að yður megi ekki verða aftrað að svífa í himinsölum guðdómlegrar þekkingar Minnar.
Ó þjónar Mínir! Fyrir mátt Guðs og vald Hans hef Ég úr fjárhirslum þekkingar Hans og visku opinberað og fært fram fyrir yður perlurnar sem lágu fólgnar í djúpum hins eilífa úthafs Hans. Ég hef kallað fram meyjar himinsins undan hinni hyljandi blæju og íklætt þær þessum orðum Mínum – orðum fullkomins máttar og visku. Ég hefi auk þess með hönd guðdómslegs valds rofið innsiglið af úrvals víni opinberunar Minnar og dreift heilögum, huldum og moskusþrungnum ilmi hennar yfir alla hluti skapaða. Við hverja er að sakast aðra en yður ef þér kjósið að fara á mis við svo mikla úthellingu yfirskilvitlegrar og alltumlykjandi náðar Guðs, svo bjarta opinberun skínandi miskunnar Hans.
Ó þjónar Mínir! Í hjarta Mínu skín ekkert nema ófölnandi árbjarmi guðdómlegrar leiðsagnar og af munni Mínum framgengur ekkert nema kjarni sannleikans sem Drottinn Guð yðar hefur opinberað. Fylgið því ekki jarðneskum ástríðum yðar og brjótið ekki sáttmála Guðs né rjúfið við Hann heit yðar. Með algjörri einbeitni, af allri elsku hjartna yðar og fullum krafti orða yðar, snúið til Hans og gangið ekki vegu hinna fávísu. Veröldin er leiksýning ein, fánýt og tóm, og ber aðeins svip af veruleika. Setjið eigi vonir yðar á hana. Slítið ekki böndin, sem binda yður við Skapara yðar og heyrið eigi til þeim, sem ratað hafa í villur og reikað af vegum Hans. Sannlega segi Ég: Áþekk er veröldin hillingu í eyðimörkinni sem hinn þyrsti hyggur vatn en uppgötvar, þegar hann kemur nær, að var einskær tálsýn. Henni má einnig líkja við líflausa ímynd ástvinarins sem elskandinn hefur leitað og loks komist að raun um eftir langa mæðu og sér til sárustu eftirsjár að hvorki gat „satt hann né svalað hungri hans“.
Ó þjónar Mínir! Hryggist eigi ef á þessum dögum og á þessu jarðneska sviði hafi hlutir sem ganga í gegn óskum yðar verið ákvarðaðir og birtir af Guði, því að dagar sæluríks fagnaðar, himnesks unaðar, bíða yðar vissulega. Veraldir sem eru heilagar og andlega dýrlegar munu verða birtar augum yðar. Yður er fyrirhugað af Honum í þessum heimi og þeim sem kemur að öðlast hlutdeild í gæðum þeirra, taka þátt í fögnuði þeirra og fá skerf af endurnærandi náð þeirra. Til allra þeirra munuð þér án efa komast.
Leitandinn á vegi Guðs
Þýtt úr Directives from the Guardian, bls. 86.
Þýtt úr enskri þýðingu á áður óþýddri töflu.
Þýtt úr Epistle to the Son of the Wolf (trans. Shoghi Effendi, Wilmette, IL: Bahá’í Publishing Trust, 1988), p. 15.
Aḥmad, Múhameð og Maḥmúd eru nöfn og titlar spámannsins, dregin af sögninni „að vegsama“, „að upphefja“.
Bókstaflega „í Ghawthíyyih garðinum“. Risáliy-i-Ghawthíyyih er dulhyggjurit eftir ‘Abdu’l-Qádir-i-Gílání (um 1077–1166). Næsta setning er tilvitnun í þetta rit.
‘Aṭṭár (um 1119–1230) fjallar í riti sínu Manṭiqu’ṭ-Ṭayr (Ráðstefna fuglanna) um dalina sjö sem fuglarnir fara um í leit að konungi sínum. Bahá’u’lláh vísar til skemans sem ‘Aṭṭár dró upp af dölunum. Rúmí (1207– 1273) nefnir „sjö borgir ástarinnar“ sem ‘Aṭṭár fór um.
Majnún þýðir „vitfirringur“. Í fornum þjóðfræðum Persa og Araba er þetta nafn á frægum elskhuga sem leitaði ástvinu sinnar, Laylí. Þessi táknsaga um sanna mannlega ást á mörkum hins guðlega hefur verið efniviður margra rómantískra persneskra ljóða. Hið frægasta þeirra er eftir Niẓámí og er frá 1188.
Tilvísun í trúarjátningu múslíma: „Enginn er Guð nema Guð og Múhameð er sendiboði Guðs.“
Tilvísun í hadíðu þar sem Guð er sagður hafa ávarpað Múhameð þessum orðum: „Ef ekki væri Þín vegna, hefði Ég ekki skapað svið himnanna.“
Úr ljóði eftir Bahá’u’lláh.
Hátif-i-Iṣfahání (d. 1783).
Shaykh Abú Ismá‘íl ‘Abdu’lláh Anṣárí frá Hirát (1006–1089), súfí meistari, skáld og fræðimaður.
„Væri það ekki fyrir Þig“ vísar til hadíðunnar sem vitnað er til í skýringu 22. „Hefðum við ekki þekkt Þig“ er tilvitnun í bæn sem eignuð er Múhameð en þar segir „Við höfum ekki þekkt Þig, ó Guð, eins og Þig ber að þekkja.“ „Eða jafnvel nær“ er tilvísun í súru 53:9 í Kóraninum.
Sa‘dí (um 1213–1292), höfundur Gulistán og annarra skáldverka.
Rúmí, vísun í Kóraninn 18:71.
Hér er vísað til Bahá’u’lláh sjálfs sem þá hafði ekki opinberað ætlunarverk sitt.
Tilvitnun í tvö súfísk hugtök. Kenningin um einingu tilvistar er venjulega eignuð Ibnu’l-Arabí (1165–1240), en kenningin um einingu ytri ásýndar er eignuð Aḥmad Sirhindí (1564–1624). Sjá ‘Abdu’l‑Bahá, Nokkrum spurningum svarað, kafli 82.
Kóraninn 17:79. Vísað er til stöðu opinberanda Guðs.
„Orðið Verndari í Dölunum sjö hefur engin tengsl við bahá’í Verndarstofnunina.“ (Úr bréfi, dags. 8. janúar 1949, ritað fyrir hönd Shoghi Effendi).
Í næstu málsgrein túlkar Bahá’u’lláh merkingu hvers bókstafs í persneska orðinu „gunjishk“ sem þýðir spör.
Tilvísun í þrjú stig fullvissunnar í íslamskri dulhyggjuhefð.
„Tafla hins sanna leitanda“ er brot úr Bók fullvissunnar, 2. hluta.
Helgigreinar þessar eru brot úr töflu sem opinberuð var á persnesku og ber heitið Tafla Aḥmads. Þær má finna í Úrvali úr ritum Bahá’u’lláh, kafla CLIII. Töflunni var gefið heitið „Tafla til fólksins“ (e. Tablet to the People) í samantektinni Bahá’í World Faith, en það var hugsanlega gert til þess að henni yrði ekki ruglað saman við þá Töflu Aḥmads sem var opinberuð á arabísku og má finna í bókinni Bahá’í bænir.