Hann er dýrð dýrða
Þetta er það sem steig niður frá ríki dýrðarinnar, framgekk af munni máttar og valds og opinberaðist spámönnunum til forna. Vér höfum tekið hinn innri veig þess og fært hann í búning kjarnyrðis sem vott um miskunn til handa hinum réttlátu, svo að þeir megi vera tryggir sáttmála Guðs, halda trúnaðinn við Hann í lífi sínu og eignast djásn himneskrar dyggðar í ríki andans.
1.
Ó, sonur andans!
Fyrsta ráð Mitt er þetta: Eig þú hreint, gæskuríkt og geislandi hjarta, svo að þitt megi verða ríkið, fornt, eilíft og óforgengilegt.
2.
Ó, sonur andans!
Kærast alls fyrir augliti Mínu er réttlætið. Hverf ekki frá því ef þú þráir Mig og vanræk það eigi til þess að Ég megi gera þig að trúnaðarmanni Mínum. Með fulltingi þess munt þú sjá með þínum eigin augum, en ekki augum annarra, og þekkja af þinni eigin þekkingu, en ekki þekkingu náunga þíns. Hugleið í hjarta þínu hvernig þér sæmir að vera. Vissulega er réttlætið gjöf Mín til þín og tákn ástúðar Minnar. Leið þér það fyrir sjónir.
3.
Ó, mannssonur!
Hjúpaður ómunaverund Minni og í aldinni eilífð kjarna Míns, þekkti Ég ást Mína á þér, því skóp Ég þig, greypti á þig ímynd Mína og birti þér fegurð Mína.
4.
Ó, mannssonur!
Ég unni sköpun þinni, því skóp Ég þig. Elska mig, svo að Ég megi nefna nafn þitt og fylla sál þína anda lífsins.
5.
Ó, verundarsonur!
Elska Mig, svo að Ég megi elska þig. Ef þú elskar Mig ekki, getur ást Mín á engan hátt náð til þín. Vit þetta, ó þjónn.
6.
Ó, verundarsonur!
Paradís þín er ást Mín, endurfundirnir við Mig himneskt heimili þitt. Gakk þar inn og tef eigi. Þetta er það sem þér er fyrirbúið í konungsríki Voru á hæðum og upphöfnu ríki Voru.
7.
Ó, mannssonur!
Ef þú elskar Mig, snú baki við sjálfum þér, og ef þú sækist eftir velþóknun Minni, hugsa ekki um þína eigin, svo að þú megir deyja í Mér og Ég megi að eilífu lifa í þér.
8.
Ó, sonur andans!
Enginn friður er þér búinn nema þú afneitir sjálfum þér og snúir til Mín, því það sæmir þér að miklast af Mínu nafni, en ekki þínu eigin, að setja traust þitt á Mig, en ekki sjálfan þig, því Ég vil að þú elskir Mig einan og ofar öllu sem er.
9.
Ó, verundarsonur!
Ást Mín er vígi Mitt, sá sem inn í það gengur er hólpinn og óhultur, en sá sem snýr á brott mun vissulega rata í villur og tortímast.
10.
Ó, sonur málsins!
Þú ert virki Mitt, gakk þar inn, svo að þú megir finna öryggi. Ást Mín býr í þér, vit það svo að þú megir skynja nálægð Mína.
11.
Ó, verundarsonur!
Þú ert lampi Minn og ljós Mitt býr í þér. Lát það upplýsa þig og leita einskis annars en Mín. Því að Ég hefi skapað þig ríkan og hefi af örlæti úthellt yfir þig hylli Minni.
12.
Ó, verundarsonur!
Voldugum höndum gerði Ég þig og styrkum fingrum skóp Ég þig og í brjóst þér hefi Ég lagt kjarna ljóss Míns. Ger þér þetta að góðu og leita einskis annars, því að verk Mitt er fullkomið og boð Mín bindandi. Treyst því og drag það ekki í efa.
13.
Ó, sonur andans!
Auðugan skóp Ég þig, því auðmýkir þú sjálfan þig í allsleysi? Göfugan gerði Ég þig, því sækist þú eftir lægingu? Úr kjarna þekkingar gaf Ég þér líf, því leitar þú fræðslu hjá öðrum en Mér? Úr leir kærleikans mótaði Ég þig, því gerir þú þér títt um aðra? Bein sjónum þínum að sjálfum þér svo að þú megir finna Mig standa hið innra með þér, máttugan, voldugan og sjálfumnógan.
14.
Ó, mannssonur!
Þú ert ríki Mitt og ríki Mitt gengur ekki á grunn, því óttast þú tortímingu? Þú ert ljós Mitt og ljós Mitt slokknar aldrei, því óttast þú útslokknun? Þú ert dýrð Mín og dýrð Mín fölnar ekki, þú ert kyrtill Minn og kyrtill Minn mun aldrei slitna. Þrey því í ást þinni á Mér svo að þú megir finna Mig í dýrðarheimum.
15.
Ó, sonur málsins!
Bein augliti þínu að Mér og afneita öllu nema Mér, því að veldi Mitt varir og ríki Mitt líður ekki undir lok. Ef þú leitar annars en Mín, já, þótt þú leitaðir um gjörvallan alheiminn að eilífu myndi leit þín engan ávöxt bera.
16.
Ó, sonur ljóssins!
Gleym öllu nema Mér og samneyt anda Mínum. Þetta er kjarni boðorða Minna, því skalt þú gæta hans vel.
17.
Ó, mannssonur!
Ger Mig þér að góðu og leita ekki annars hjálpara. Því að enginn nema Ég getur nokkru sinni nægt þér.
18.
Ó, sonur andans!
Bið Mig þess ekki sem Vér ekki æskjum þér til handa. Lát þér nægja það sem Vér höfum ákvarðað þér, því aðeins það stoðar þig ef þú gerir þér það að góðu.
19.
Ó, sonur hinnar undursamlegu vitrunar!
Ég hefi blásið í þig anda Míns eigin anda, svo þú megir verða ástvinur Minn. Hvers vegna hefur þú yfirgefið Mig og leitað annars ástvinar?
20.
Ó, sonur andans!
Krafa Mín á hendur þér er mikil, hún getur ekki gleymst. Miskunn Mín við þig er ríkuleg, hún verður ekki dulin. Ást Mín hefur tekið sér bólfestu í þér, hún verður ekki falin. Ljós Mitt er þér opinberað, það verður ekki myrkvað.
21.
Ó, mannssonur!
Á meiði skínandi dýrðar hefi Ég fyrirbúið þér úrvals ávöxtu, hvers vegna hefur þú snúið burt og gert þér það að góðu sem verra er? Snú aftur til þess sem sæmir þér betur í ríkinu hið efra.
22.
Ó, sonur andans!
Göfugan skóp Ég þig, samt hefur þú niðurlægt sjálfan þig. Rís upp til þess sem þú varst skapaður fyrir.
23.
Ó, sonur hins æðsta!
Ég kalla þig til hins eilífa, samt leitar þú þess sem tortímist. Hvað hefur leitt þig til að snúa baki við vilja Vorum og leita þíns eigin vilja?
24.
Ó, mannssonur!
Far ekki yfir þau mörk sem þér eru sett og ger ekki tilkall til þess sem er þér ósæmandi. Krjúp frammi fyrir augliti Guðs þíns, Drottins máttar og valds.
25.
Ó, sonur andans!
Hreyk þér ekki yfir hinn snauða, því að Ég leiði hann á vegi hans og lít þig í illu hlutskipti þínu og baka þér eilífa fordæming.
26.
Ó, verundarsonur!
Hvernig gast þú gleymt þínum eigin ávirðingum og gert þér tíðrætt um ávirðingar annarra? Sá sem þetta gerir kallar yfir sig bölvun Mína.
27.
Ó, mannssonur!
Þeg yfir syndum annarra meðan þú sjálfur syndgar. Brjótir þú boð þetta munt þú bölvaður verða, því ber Ég sjálfur vitni.
28.
Ó, sonur andans!
Vit með vissu: Sá sem býður mönnunum að ástunda réttlæti en fremur sjálfur órétt er ekki af Mér, jafnvel þótt hann beri nafn Mitt.
29.
Ó, verundarsonur!
Ætla engri sálu það sem þú vildir ekki að þér væri ætlað og seg ekki það sem þú ekki gerir. Þetta er boð Mitt til þín, breyt samkvæmt því.
30.
Ó, mannssonur!
Neita ekki þjóni Mínum um það sem hann biður þig, því að ásýnd hans er ásýnd Mín, blygðast þín því frammi fyrir Mér.
31.
Ó, verundarsonur!
Statt sjálfum þér reikningsskap á hverjum degi áður en þú verður krafinn skilagreinar, því að fyrirvaralaust mun dauðinn koma til þín og þú verða kallaður til að standa reikningsskil gerða þinna.
32.
Ó, sonur hins æðsta!
Ég hefi gert dauðann að sendiboða fagnaðar til þín. Því ert þú dapur? Ég hefi úthellt yfir þig dýrð ljóssins. Því hylur þú ásjónu þína?
33.
Ó, sonur andans!
Ég heilsa þér með gleðifrétt ljóssins: Fagna! Ég kalla þig til hirðar heilagleikans, hald þar kyrru fyrir svo að þú megir lifa í friði að eilífu.
34.
Ó, sonur andans!
Andi heilagleikans flytur þér gleðitíðindin um endurfundi, hví hryggist þú? Andi valdsins staðfestir þig í málstað sínum, hvers vegna hylur þú augu þín? Ljós ásýndar Hans lýsir þér veginn, hvernig getur þú villst af leið?
35.
Ó, mannssonur!
Ver ekki dapur nema vegna þess að þú ert Oss fjarri. Fagna eigi nema vegna þess að þú nálgast Oss og snýrð aftur til Vor.
36.
Ó, mannssonur!
Fagna yfir gleði hjarta þíns svo að þú megir verða þess verðugur að finna Mig og endurspegla fegurð Mína.
37.
Ó, mannssonur!
Legg eigi frá þér unaðsfagran kyrtil Minn og svala þorsta þínum í undursamlegri lind Minni, því ella mun þig þyrsta að eilífu.
38.
Ó, verundarsonur!
Gæt boða Minna sakir ástar á Mér og neita þér um það sem þú þráir, ef þú sækist eftir velþóknun Minni.
39.
Ó, mannssonur!
Ver ekki hirðulaus um boðorð Mín ef þú elskar fegurð Mína og gleym eigi ráðum Mínum ef þú vilt ávinna þér velþóknun Mína.
40.
Ó, mannssonur!
Þótt þú færir um ómælisdjúp geimsins og ferðaðist um alla víðáttu himinsins myndir þú hvergi finna neina hvíld nema í auðsveipni við boðorð Vor og auðmýkt frammi fyrir ásýnd Vorri.
41.
Ó, mannssonur!
Mikla málstað Minn svo Ég megi birta þér hulda dóma tignar Minnar og uppljóma þig ljósi eilífðarinnar.
42.
Ó, mannssonur!
Auðmýk þig frammi fyrir Mér svo Ég megi náðarsamlega vitja þín. Rís upp til sigurs málstað Mínum svo þú megir vinna sigur meðan þú enn ert á jörðu.
43.
Ó, verundarsonur!
Minnstu Mín á jörðu Minni svo Ég megi muna þig á himni Mínum. Þannig munu Mín augu og þín fá huggun.
44.
Ó, sonur hásætisins!
Heyrn þín er heyrn Mín, heyr með henni. Sjón þín er sjón Mín, sjá með henni svo að þú megir í innsta kjarna sálar þinnar bera vitni upphöfnum heilagleik Mínum og Ég megi í sjálfum Mér bera vitni háleitri stöðu þinni.
45.
Ó, verundarsonur!
Leita píslarvættisdauða á vegi Mínum, ánægður með velþóknun Mína og þakklátur fyrir það sem Ég ákvarða, svo að þú megir dvelja með Mér undir tjaldhimni tignar, handan musteris dýrðarinnar.
46.
Ó, mannssonur!
Íhuga og yfirvega þetta. Er það ósk þín að deyja á beði þínum eða úthella lífsblóði þínu á rykið sem píslarvottur á Mínum vegi og verða þannig birting ráðsályktunar Minnar og opinberandi ljóss Míns í hinni hæstu paradís? Kveð upp réttlátan dóm, ó þjónn.
47.
Ó, mannssonur!
Að lokkar þínir litist blóði er meira virði fyrir augliti Mínu en sköpun alheimsins og ljós heimanna beggja. Kepp eftir því, ó þjónn.
48.
Ó, mannssonur!
Fyrir öllu er tákn. Tákn ástarinnar er hugprýði í ákvörðun Minni og þolgæði í prófraunum Mínum.
49.
Ó, mannssonur!
Sannur elskhugi þráir þrengingu eins og uppreisnarmaðurinn fyrirgefningu og syndarinn miskunn.
50.
Ó, mannssonur!
Ef þú verður ekki fyrir mótlæti á Mínum vegum, hvernig getur þú þá gengið með þeim sem gera sér að góðu velþóknun Mína? Ef þú mætir ekki þrengingu í þránni eftir að finna Mig, hvernig getur þú þá öðlast ljósið í ást þinni á fegurð Minni?
51.
Ó, mannssonur!
Ógæfa frá Mér er forsjón Mín, hið ytra er hún eldur og hefnd, en hið innra ljós og miskunn. Hraða þér á hennar fund, að þú megir verða eilíft ljós og ódauðlegur andi. Þetta er boð Mitt til þín, breyt samkvæmt því.
52.
Ó, mannssonur!
Ef auðlegð fellur þér í skaut, fagna eigi og ef þú kynnist niðurlægingu, ver eigi hryggur, því að hvort tveggja mun líða undir lok og vera eigi framar.
53.
Ó, verundarsonur!
Ef fátækt verður förunautur þinn, ver eigi dapur, því um síðir mun allsnægtanna Drottinn vitja þín. Óttast eigi niðurlægingu, því að lokum mun dýrð hvíla yfir þér.
54.
Ó, verundarsonur!
Ef hjarta þitt þráir þetta eilífa ótortímanlega ríki og þetta aldna og ævarandi líf, yfirgef þá þetta dauðlega og hverfula ríki.
55.
Ó, verundarsonur!
Ger þér eigi títt um þessa veröld, því að með eldi reynum Vér gullið og með gulli reynum Vér þjóna Vora.
56.
Ó, mannssonur!
Þú vilt gull, en Ég vil frelsa þig frá því. Þú heldur að það færi þér ríkidæmi, en Ég veit að auðlegð þín er fólgin í helgun þinni frá því. Sem Ég lifi! Þetta er þekking Mín, en hitt er blekking þín. Hvernig geta Mínir vegir farið saman við þína?
57.
Ó, mannssonur!
Gef þurfamönnum Mínum auðæfi Mín svo að þú megir á himni ausa af gnótt ófölnandi ljóma og fjárhirslum ótortímanlegrar dýrðar. En við líf Mitt! Að fórna sál þinni er enn þá dýrlegra, gætir þú aðeins séð með Mínum augum.
58.
Ó, mannssonur!
Musteri verundarinnar er hásæti Mitt, hreinsa það af öllu sem er svo að Ég megi eignast þar bólfestu og dvalarstað.
59.
Ó, verundarsonur!
Hjarta þitt er heimili Mitt, helga það fyrir niðurstigningu Mína. Andi þinn er staður opinberunar Minnar, hreinsa hann fyrir birtingu Mína.
60.
Ó, mannssonur!
Legg hönd þína á hjartastað Minn svo að Ég megi rísa yfir þig, geislandi og dýrlegur.
61.
Ó, mannssonur!
Stíg upp til himins Míns svo að þú megir eignast fögnuð endurfundanna og drekka vínið óviðjafnanlega úr kaleik ófölnandi dýrðar.
62.
Ó, mannssonur!
Margur dagurinn hefur runnið úr greipum þér, meðan þú varst upptekinn af þínum eigin ímyndunum og fánýtum hugarórum. Hve lengi ætlar þú að móka á beði þínum? Sólin er í hádegisstað, hrist af þér drungann svo hún megi uppljóma þig ljósi fegurðarinnar.
63.
Ó, mannssonur!
Ljósið hefur skinið á þig frá sjóndeildarhring fjallsins helga og andi upplýsingar hefur bærst á Sínaí hjarta þíns. Slít sundur blæjur fánýts hugarburðar og gakk inn til hirðar Minnar svo að þú megir verða hæfur til eilífs lífs og verðugur að ganga á fund Minn. Þá mun dauðinn eigi yfir þig koma, hvorki þreyta né erfiðleikar.
64.
Ó, mannssonur!
Eilífð Mín er handaverk Mitt – Ég hefi skapað hana fyrir þig. Ger hana að klæðum musteris þíns. Eining Mín er sköpun Mín – Ég hefi gert hana fyrir þig. Íklæð þig henni svo þú megir að eilífu verða opinberun ævarandi verundar Minnar.
65.
Ó, mannssonur!
Tign Mín er gjöf Mín til þín og mikilleiki Minn er tákn um miskunn Mína við þig. Enginn mun skilja það sem sæmir Mér og enginn getur sagt frá því. Sannlega hefi Ég varðveitt það í huldum hirslum Mínum og í fjárhirslum boða Minna sem tákn um ástúð Mína gagnvart þjónum Mínum og um miskunn Mína með þeim sem Mér tilheyra.
66.
Ó, börn hins guðlega og ósýnilega kjarna!
Þér munuð verða hindruð í að elska Mig og sálir munu verða ráðvilltar er þær minnast Mín. Því hugir fá ekki skilið Mig né hjörtun rúmað Mig.
67.
Ó, sonur fegurðarinnar!
Við anda Minn og hylli Mína! Við náð Mína og fegurð Mína! Allt það sem Ég hefi opinberað þér með tungu valds og skrifað niður fyrir þig með penna máttar, hefur verið í samræmi við hæfni þína og skilning, ekki stöðu Mína eða hljómfegurð raddar Minnar.
68.
Ó, mannanna börn!
Vitið þér eigi hvers vegna Vér sköpuðum yður öll af sama dufti? Til þess að enginn skyldi upphefja sig yfir annan. Íhugið ávallt í hjörtum yðar hvernig þér voruð sköpuð. Þar sem Vér höfum skapað yður öll úr einu efni ber yður skylda til að vera sem ein sál, ganga með sömu fótum, eta með sama munni og dvelja í sama landi, svo að frá innsta grunni verundar yðar, með verkum yðar og gerðum, megi tákn einingarinnar og kjarni andlegrar lausnar verða opinberuð. Þetta er ráð Mitt til yðar, ó herskari ljóssins. Gætið þessa ráðs svo að þér megið uppskera ávöxt heilagleikans af tré undursamlegrar dýrðar.
69.
Ó, þér synir andans!
Þér eruð fjárhirsla Mín, því að í yður hefi Ég varðveitt perlur leyndardóma Minna og djásn þekkingar Minnar. Gætið þeirra fyrir hinum framandi meðal þjóna Minna og hinum óguðlegu meðal fólks Míns.
70.
Ó, sonur Hans sem stóð við sína eigin eind í ríki sjálfs síns!
Vit þú að Ég hefi dreift yfir þig öllum ilmi heilagleikans, opinberað þér að fullu orð Mitt, fullkomnað í þér hylli Mína og þráð fyrir þig það sem Ég þráði fyrir sjálfan Mig. Ger þér velþóknun Mína því að góðu og ver Mér þakklátur.
71.
Ó, mannssonur!
Rita allt sem Vér höfum opinberað þér með bleki ljóssins á töflu anda þíns. Sé þetta ekki í þínu valdi, ger blek þitt þá úr kjarna hjarta þíns. Ef þú getur það eigi, skrifa þá með blekinu fagurrauða sem úthellt hefur verið á vegi Mínum. Ljúfara er Mér það að sönnu en allt annað, að ljós þess megi vara að eilífu.
Í nafni Orðsins herra, hins máttuga.
1.
Ó, þér sem hafið hugi til að skilja og eyru til að heyra!
Fyrsta hvatning Ástvinarins er þessi: Ó, leyndardómsfulli næturgali. Haf hvergi viðdvöl nema í rósalundi andans. Ó, sendiboði frá Salómon ástarinnar. Leita hvergi athvarfs nema í Saba hins heittelskaða. Ó, ódauðlegi Fönix. Dvel hvergi nema á fjalli trúfestinnar. Þar eru heimkynni þín, ef þú svifir á vængjum sálar þinnar til ríkis óendanleikans og leitaðir takmarks þíns.
2.
Ó, sonur andans!
Fuglinn leitar hreiðurs síns, næturgalinn töfra rósarinnar. En þessir fuglar – hjörtu mannanna – hafa látið sér nægja hverfult duftið og villst langt frá eilífu hreiðri sínu. Þeir hafa fest augu sín á kviksyndi gáleysisins og svipt sig dýrð himneskrar návistar. Því er ver. Hve kynlegt það er og aumkunarvert – fyrir eina bikarfylli hafa þeir snúið frá ólgandi úthafi Hins hæsta og haldið sig fjarri hinum geislandi sjónhring.
3.
Ó, vinur!
Gróðurset ekkert nema rós ástarinnar í garði hjarta þíns og losa ekki takið á næturgala ástúðar og þrár. Met sem fjársjóð félagsskap hinna réttlátu og forðast allt samneyti við óguðlega.
4.
Ó, sonur réttlætisins!
Hvert getur elskhuginn haldið nema til lands sinnar elskuðu? Og hvaða leitandi fær hvílst fjarri þrá hjarta síns? Sönnum elskanda eru endurfundir líf og aðskilnaður dauði. Brjóst hans er fullt af óþreyju og hjarta hans friðlaust. Aragrúa lífa myndi hann gefa til að geta hraðað sér til híbýla ástvinar síns.
5.
Ó, sonur duftsins!
Sannlega segi Ég þér: Gálausastur allra manna er sá sem þrætir fáfengilega og reynir að upphefja sig yfir bróður sinn. Seg, ó bræður: Látið gerðir en ekki orð vera prýði yðar.
6.
Ó, sonur jarðarinnar!
Vit með vissu að það hjarta sem enn elur með sér minnsta öfundarvott mun aldrei öðlast eilífan herradóm Minn né anda að sér sætum ilmi heilagleikans sem berst frá helguðu konungsríki Mínu.
7.
Ó, sonur ástarinnar!
Þú ert aðeins eitt fótmál frá dýrlegum hæðum Mínum hið efra og himnesku tré ástarinnar. Tak eitt skref og stíg í því næsta inn í ríki ódauðleikans og gakk inn í höll eilífðarinnar. Hneig eyra þitt að því sem Penni dýrðarinnar hefur opinberað.
8.
Ó, sonur dýrðarinnar!
Ver frár á vegi heilagleikans og gakk inn í himin samneytis við Mig. Skír hjarta þitt með hreinsandi mætti andans og hraða þér til hirðar Hins hæsta.
9.
Ó, hverfuli skuggi!
Rís yfir óæðri stig efans og stíg upp til upphafinna hæða vissunnar. Opna auga sannleikans, að þú megir líta Fegurðina blæjulausa og hrópa: Heilagur sé Drottinn, ágætastur allra skapara.
10.
Ó, sonur ástríðunnar!
Ljá eyra þessum orðum: Dauðlegt auga mun aldrei bera kennsl á Fegurðina eilífu né líflaust hjarta hafa unun af nokkru öðru en visnuðu blómi. Því að líkur sækir líkan heim og unir sér í félagsskap hans.
11.
Ó, sonur duftsins!
Blinda augu þín, til þess að þú megir sjá fegurð Mína. Loka hlustum þínum, svo þú megir hlýða á ljúfan hljóm raddar Minnar. Tæm sjálfan þig af allri þekkingu, svo að þú megir fá hlutdeild í þekkingu Minni og helga þig frá ríkidæmi, til þess að þú getir eignast varanlegan skerf úr hafi eilífra auðæfa Minna. Það er: Blinda augu þín fyrir öllu nema fegurð Minni, loka hlustum þínum fyrir öllu nema orði Mínu, tæm sjálfan þig af öllum lærdómi nema þekkingu á Mér, svo að þú megir með skýrri sýn, hreinu hjarta og eftirtektarsömu eyra ganga inn til hirðar heilagleika Míns.
12.
Ó, maður tveggja sýna!
Loka öðru auga þínu og opna hitt. Loka öðru fyrir heiminum og öllu sem í honum er og opna hitt fyrir heilagri fegurð Ástvinarins.
13.
Ó, börnin Mín!
Ég óttast að ef þér verðið svipt söng hinnar himnesku dúfu, munuð þér aftur hverfa í myrkur algjörs missis og verða aftur að vatni og leir, án þess að hafa nokkru sinni litið fegurð rósarinnar.
14.
Ó, vinir!
Snúið ekki baki við fegurðinni eilífu fyrir þá fegurð sem hlýtur að deyja og takið ekki ástfóstri við þennan dauðlega heim duftsins.
15.
Ó, sonur andans!
Sá tími kemur að næturgali heilagleikans mun ekki lengur svipta hulunni af hinum innri leyndardómum og þér verðið allir sviptir hinu himneska sönglagi og röddinni af hæðum.
16.
Ó, kjarni vanrækslunnar!
Aragrúi dulrænna tungna finnur mál í einni ræðu og fjöldi hulinna leyndardóma opinberast í einu söngljóði, en því er ver, að ekkert eyra heyrir og ekkert hjarta skilur.
17.
Ó, félagar!
Hliðin sem opnast að Hinum staðlausa standa opin á gátt og heimkynni ástvinarins skarta blóði elskendanna, samt fara allir að fáeinum undanskildum á mis við þessa borg. Og af þessum fáeinu hefur aðeins örlítill hluti hreint hjarta og helgaðan anda.
18.
Ó, þér sem dveljið í hinni hæstu paradís!
Kunngerið börnum fullvissunnar að innan ríkis heilagleikans, í nánd við hina himnesku paradís, hafi nýr garður komið í ljós og umhverfis hann ganga þegnar ríkisins á hæðum og ódauðlegir íbúar hinnar upphöfnu paradísar. Keppið því eftir þessari stöðu, að þér megið lesa leyndardóma ástarinnar af animónum hans og fá innsýn í hulda dóma himneskrar og fullkominnar visku af eilífum ávöxtum hans. Fró bíður augna þeirra sem inn í hann ganga og dveljast þar um kyrrt.
19.
Ó, vinir Mínir!
Hafið þér gleymt þeim sanna og geislandi morgni í þessu helgaða og blessaða umhverfi, þegar þér komuð saman í návist Minni í skugga lífstrésins sem gróðursett er í hinni aldýrlegu paradís? Fullir lotningar hlýdduð þér á er Ég mælti þessi þrjú sannhelgu orð: Ó, vinir. Takið ekki vilja yðar fram yfir vilja Minn, þráið ekki það sem Ég hefi ekki þráð fyrir yður og nálgist Mig ekki með líflausum hjörtum, saurgaðir veraldlegum ástríðum og kröfum. Ef aðeins þér helguðuð sálir yðar, mynduð þér á þessari stundu minnast þess staðar og þess umhverfis og sannleikur orða Minna yrði yður öllum augljós.
Í hinni áttundu af hinum helgustu línum, í fimmtu töflu paradísar, segir Hann:
20.
Ó, þér sem liggið líkt og andvana á beði gáleysisins!
Aldir hafa liðið og dýrmætt líf yðar er senn á enda, samt hefur ekki einn andblær hreinleikans borist frá yður til hirðar heilagleika Vors. Þótt þér séuð sokknir í haf vantrúar, játið þér með vörunum hina einu sönnu trú Guðs. Hann sem Mér er andstyggð er yður hugfólginn og fjandmann Minn hafið þér gert að vini yðar. Þrátt fyrir þetta gangið þér fullir sjálfumgleði á jörðu Minni og skeytið því engu þótt jörð Mín sé þreytt á yður og allt sem í henni býr forðist yður. Ef þér aðeins opnuðuð augu yðar, mynduð þér í sannleika kjósa sorg á sorg ofan í stað þessarar gleði og taka dauðann fram yfir þetta líf.
21.
Ó, þú hvikula form duftsins!
Ég þrái samneyti við þig, en þú vilt eigi setja traust þitt á Mig. Sverð uppreisnar hefur höggvið upp tré vonar þinnar. Ég er ævinlega nálægur þér, en þú ert ætíð fjarri Mér. Ég hefi útvalið þér ótortímanlega dýrð, en þú hefur kosið þér takmarkalausa smán. Snú við meðan enn er tími og lát eigi tækifærið sleppa þér úr greipum.
22.
Ó, sonur ástríðunnar!
Hinir lærðu og vitru hafa lengi reynt að komast í návist Hins aldýrlega, en mistekist það; þeir eyddu lífi sínu í leit að Honum, samt litu þeir aldrei fegurð ásýndar Hans. Án minnstu fyrirhafnar náðir þú takmarki þínu og án leitar höndlaðir þú það sem þú sóttist eftir. Samt varstu svo hjúpaður blæjum sjálfsins, að augu þín litu ekki fegurð Ástvinarins og hendur þínar snertu ekki kyrtilfald Hans. Þér sem hafið augu, sjáið og undrist.
23.
Ó, þér sem dveljið í borg ástarinnar!
Harðar hviður hafa skollið á hinum eilífa kyndli og fegurð Hins guðdómlega æskumanns er hulin dimmu dusti. Sá sem drottnar yfir einvöldum ástarinnar hefur verið rangindum beittur af kúgurunum og dúfa heilagleikans er fangin í hvössum klóm uglanna. Þeir sem dvelja í höll dýrðar og hinn himneski herskari kveina og bera sig illa meðan þér njótið hvíldar í ríki vanrækslunnar og ímyndið yður, að þér heyrið til hinum sönnu vinum. Hversu fáfengilegar eru ímyndanir yðar.
24.
Ó, þér sem eruð fávísir en kallaðir eru vitrir!
Hví gangið þér um í gervi fjárhirða, þegar þér hið innra eruð orðnir úlfar sem bíða færis á hjörð Minni? Þér eruð eins og stjarnan sem rís fyrir dögun og þótt hún sýnist björt og skínandi, leiðir hún vegfarendurna í borg Minni á vegu glötunar.
25.
Ó, þér sem sýnist fagrir en eruð fláir hið innra!
Þér eruð eins og skært en beiskt vatn, sem hið ytra virðist kristaltært, en þegar dómarinn himneski prófar það, er ekki einn dropi þess tekinn gildur. Já, sólargeislinn fellur á duftið jafnt sem á spegilinn, samt er endurspeglun þeirra jafn ólík og stjarnan er jörðunni, nei, ómælanlegur er munurinn.
26.
Ó, vinur Minn í orði!
Hugleið um stund. Hefur þú nokkru sinni heyrt þess getið, að vinur og fjandmaður gætu dvalið saman í einu hjarta? Varpa út hinum ókunna svo að Vinurinn megi ganga inn til híbýla sinna.
27.
Ó, sonur duftsins!
Allt sem er á himnum og á jörðu hefi Ég fyrirbúið þér nema mannshjartað sem Ég hefi gert að samastað fegurðar Minnar og dýrðar. Samt gafst þú öðrum heimili Mitt og hvenær sem birtandi heilagleika Míns leitaði sinna eigin heimkynna, fann Hann þar framandi gest og heimilislaus hraðaði Hann sér til griðastaðar Ástvinarins. Þrátt fyrir þetta hélt Ég leyndarmáli þínu leyndu og óskaði þér ekki smánar.
28.
Ó, kjarni ástríðunnar!
Margoft í dögun hefi Ég snúið frá ríkjum Hins staðlausa til heimkynna þinna og fundið þig á beði makinda upptekinn af öðrum en sjálfum Mér. Þá sneri Ég eins og leiftur andans til ríkja himneskrar dýrðar og yfir varir Mínar leið ekki eitt orð um þetta í návist herskara heilagleikans í athvarfi Mínu hið efra.
29.
Ó, sonur hyllinnar!
Frá auðnum eiverunnar, af leir skipunar Minnar, kallaði Ég þig til verundar og hefi fyrirbúið þér til þjálfunar sérhverja öreind tilverunnar og kjarna allra skapaðra hluta. Þannig ákvarðaði Ég þér, áður en þú komst úr móðurkviði, tvo brunna glóandi mjólkur, augu til að vaka yfir þér og hjörtu til að elska þig. Af ástríki Mínu, í forsælu miskunnar Minnar, nærði Ég þig og verndaði með kjarna náðar Minnar og hylli. Og áform Mitt með öllu þessu var, að þú mættir öðlast eilíft ríki Mitt og verða verðugur ósýnilegra gjafa Minna. Og samt lést þú ekki af gáleysi þínu og þegar þú náðir fullum þroska vanræktir þú alla hylli Mína og gerðir þér títt um þínar eigin fánýtu hégiljur, allt fram til þess að þú gleymdir Mér að fullu, snerir frá hliðum Vinarins og dvaldir innan mæra óvinar Míns.
30.
Ó, bandingi heimsins!
Oft í dögun hefur andi ástar Minnar liðið yfir þig og fundið þig í fasta svefni á beði gáleysisins. Harmþrunginn yfir hlutskipti þínu sneri hann aftur til þeirra staða þaðan sem hann kom.
31.
Ó, sonur jarðar!
Viljir þú eignast Mig, leita einskis nema Mín og viljir þú líta fegurð Mína, loka augum þínum fyrir heiminum og öllu sem í honum er, því að Minn vilji og vilji annars en Mín geta ekki, fremur en eldur og vatn, dvalið saman í einu hjarta.
32.
Ó, þú framandi sem nýtur vináttu!
Ljós hjarta þíns er kveikt af höndum valds Míns, slökk það eigi með misvindi sjálfs og ástríðna. Græðari allra meina þinna er minningin um Mig, gleym henni ekki. Ger ást Mína að fjársjóði þínum og gæt hans vel eins og þú mundir gæta þinnar eigin sjónar og lífs.
33.
Ó, bróðir Minn!
Ljá eyra ljúfum orðum hunangstungu Minnar og drekk af flaumi dulrænnar helgi af sykursætum vörum Mínum. Sá sæði himneskrar visku Minnar í hreinan jarðveg hjarta þíns og vökva það með vatni fullvissunnar svo að jasintur þekkingar Minnar og visku megi spretta ferskar og grænar í heilagri borg hjarta þíns.
34.
Ó, íbúar paradísar Minnar!
Með höndum ástúðar Minnar hef Ég gróðursett ungt tré ástar yðar og vináttu í heilögum garði paradísar og hef vökvað það ljúfum regnskúrum mildrar miskunnar Minnar. Nú þegar uppskerutíminn fer í hönd, kostið kapps um að vernda það svo að það eyðist ekki í eldi ástríðu og langana.
35.
Ó, vinir Mínir!
Slökkvið á lampa villunnar og tendrið í hjörtum yðar eilífan kyndil himneskrar leiðsagnar. Því áður en langt um líður munu dómarar mannkynsins ekki taka neitt gilt í heilagri návist Hins heittelskaða nema skírustu dyggð og gerðir sem einkennast af flekklausum heilagleika.
36.
Ó, sonur duftsins!
Vitrir eru þeir sem mæla ekki fyrr en þeir hafa fengið áheyrn, líkt og bikarsveinninn býður ekki fram bikarinn fyrr en hann hefur fundið leitanda og elskandinn gefur ekki af djúpum hjarta síns fyrr en hann lítur fegurð hins elskaða. Sáið því sæði visku og þekkingar í hreinan jarðveg hjartans og hyljið það, uns munablóm himneskrar visku spretta úr hjartanu, en ekki úr sora og leir.
Í fyrstu línu töflunnar stendur þetta ritað og skráð, og innan griðastaðar tjaldbúðar Guðs er það dulið:
37.
Ó, þjónn Minn!
Snú ekki baki við eilífu veldi fyrir það sem tortímist og kasta himneskum yfirráðum eigi á glæ fyrir veraldlega ástríðu. Þetta er elfur eilífs lífs sem streymt hefur frá uppsprettu penna hins miskunnsama. Heill þeim sem af henni drekka!
38.
Ó, sonur andans!
Brjót sundur búr þitt og tak flugið líkt og Fönix ástarinnar til himins heilagleikans. Afneita sjálfum þér og þrey fullur anda náðarinnar í ríki himneskrar helgi.
39.
Ó, afsprengi duftsins!
Lát þér ekki nægja þægindi líðandi dags og svipt eigi sjálfan þig eilífri hvíld. Skiptu ekki á garði eilífs unaðar og öskustó þessa dauðlega heims. Stíg upp frá prísund þinni til svæðanna dýrlegu hið efra og tak flugið frá dauðlegu búri þínu til paradísar Hins staðlausa.
40.
Ó, þjónn Minn!
Leys sjálfan þig úr viðjum þessa heims og frelsa sál þína úr prísund sjálfsins. Gríp tækifærið, því það mun ekki gefast þér aftur.
41.
Ó, sonur þjónustumeyjar Minnar!
Ef þú litir augum ódauðleg yfirráð, myndir þú þrá að skiljast frá þessari hverfulu veröld. En að dylja þér eitt og birta þér annað er leyndardómur sem enginn fær skilið nema hinir hjartahreinu.
42.
Ó, þjónn Minn!
Hreinsa hjarta þitt af meinfýsi og gakk öfundarlaus inn til himneskrar hirðar heilagleikans.
43.
Ó, vinir Mínir!
Gangið vegu velþóknunar Vinarins og vitið að velþóknun Hans er að finna í velþóknun skepna Hans. Það er: Enginn maður ætti að ganga inn í hús vinar síns nema að þóknun vinarins, né ásælast fjármuni hans eða taka sinn eigin vilja fram yfir vilja vinar síns og á engan hátt sýna honum ofríki. Hugleiðið þetta, ó þér sem hafið innsæi.
44.
Ó, félagi hásætis Míns!
Heyr ekki illt og sjá ekki illt. Niðurlægðu ekki sjálfan þig, grát hvorki né andvarpa. Mæl ekki illt til að þannig verði ekki mælt til þín og mikla ekki ávirðingar annarra til þess að þínar eigin ávirðingar sýnist ekki miklar. Óska engum lægingar til þess að þín eigin læging verði ekki afhjúpuð. Lifðu síðan ævidaga þína sem eru skemmri en hvikult andartak, með flekklausan huga, hjartað ósaurgað, hugsanir þínar hreinar og eðli þitt helgað, svo að þú megir skiljast við þessa dauðlegu umgjörð frjáls og glaður og hverfa til hinnar dulrænu paradísar og dveljast í ríkinu óforgengilega að eilífu.
45.
Því er ver! Því er ver! Ó, þér sem elskið veraldlega ástríðu!
Skjótir sem elding hafið þér farið fram hjá Hinum elskaða og fest hjörtu yðar við djöfullegar ímyndanir. Þér knékrjúpið frammi fyrir hégómlegum hugarburði yðar og kallið hann sannleika. Þér beinið augum yðar að þyrninum og kallið hann blóm. Hreinn andi hefur ekki borist frá vitum yðar né heldur hefur andblær sjálfslausnar borist frá haglendi hjartna yðar. Þér hafið varpað í vindinn ástúðlegum heilræðum Hins elskaða og afmáð þau gjörsamlega af töflum hjartna yðar og eins og dýr merkurinnar hrærist þér og lifið á engjum ástríðu og langana.
46.
Ó, bræður á veginum!
Hví hafið þér vanrækt minningu Hins elskaða og haldið yður fjarri heilagri návist Hans? Kjarni fegurðarinnar er hið innra í hinni óviðjafnanlegu höll, sitjandi á hásæti dýrðarinnar, meðan þér eruð uppteknir af fánýtum deilum yðar. Ljúf angan heilagleikans líður yfir og andblær hyllinnar leikur um yður, samt farið þér á mis við allt þetta og þjáist sárlega. Því er ver yðar vegna og vegna þeirra sem ganga á yðar vegum og fylgja í fótspor yðar.
47.
Ó, börn ástríðunnar!
Leggið frá yður klæði hégómafíknar og afklæðist möttli hrokans.
Í þriðju hinna helgustu lína sem skráð er og rituð í töfluna fagurrauðu með penna hins ósýnilega er þetta opinberað:
48.
Ó, bræður!
Sýnið hver öðrum umburðarlyndi og festið eigi hugi yðar við auvirðilega hluti. Hreykið yður ekki af dýrð yðar og blygðist yðar ekki fyrir niðurlægingu. Við fegurð Mína! Ég hefi skapað alla hluti af dufti og að dufti mun Ég aftur gera þá.
49.
Ó, börn duftsins!
Segið hinum ríku frá lágnættisandvörpum hinna snauðu til þess að gáleysið leiði þá ekki inn á stigu tortímingar eða svipti þá tré auðlegðarinnar. Gjafmildi og örlæti eru eigindir Mínar. Heill þeim sem skrýðir sig dyggðum Mínum.
50.
Ó, innsti kjarni ástríðunnar!
Vísa á bug allri ágirnd og ver ánægður með kjör þín, því að hinn ágjarni hefur ætíð verið afskiptur, en hinn ánægði ætíð elskaður og hylltur.
51.
Ó, sonur þjónustumeyjar Minnar!
Ver ekki áhyggjufullur í fátækt né fullviss í ríkidæmi, því að fátækt fylgir ríkidæmi og ríkidæmi fátækt. Samt er það að vera fátækur af öllu nema Guði undursamleg gjöf. Ger eigi lítið úr gildi hennar, því að hún mun að lokum gera þig ríkan í Guði og þannig munt þú skilja merkingu orðanna, „Í sannleika eruð þér allir snauðir“. Og þessi heilögu orð, „Guð er eigandi alls“, munu líkt og hinn sanni morgunn brjótast fram dýrleg og geislandi yfir sjóndeildarhring hjarta elskandans og dvelja óhult í hásæti auðlegðar.
52.
Ó, börn vanrækslu og ástríðu!
Þér hafið leyft óvini Mínum að ganga inn í hús Mitt og vísað á dyr vini Mínum, því þér hafið geymt ást í hjörtum yðar til annars en Mín. Ljáið eyra orðum Vinarins og snúið til paradísar Hans. Veraldlegir vinir sem leita eigin hagnaðar virðast elska hverjir aðra, en Hinn sanni vinur hefur elskað og elskar yður enn vegna yðar sjálfra. Að sönnu hefur Hann þolað ótölulegar þrengingar sakir þess, að Hann leiðbeindi yður. Verið ekki vantrú slíkum Vini, nei, hraðið yður frekar til Hans. Slíkur er sólarljóminn frá orði sannleika og tryggðar sem risið hefur yfir sjóndeildarhring penna Drottins allra nafna. Opnið eyru yðar, að þér megið hlýða á orð Guðs, hjálparans í nauðum, hins sjálfumnóga.
53.
Ó, þér sem hreykið yður af dauðlegum auði!
Vitið í sannleika, að ríkidæmi er alvarleg hindrun milli leitandans og þess sem hann þráir, elskandans og þess sem hann elskar. Að fáeinum undanskildum munu hinir ríku ekki komast til hirðar návistar Hans, né ganga inn í borg gleði og undirgefni. Heill sé því þeim sem þótt auðugur sé, lætur auðæfi sín ekki loka sér leiðina til ríkisins eilífa, né svipta sig ótortímanlegum yfirráðum. Við Hið mesta nafn! Birta slíks manns mun upplýsa þá sem á himni dvelja eins og sólin upplýsir fólk jarðarinnar.
54.
Ó, þér hinir ríku á jörðunni!
Hinir fátæku mitt á meðal yðar eru heitfé Mitt, varðveitið það og sækist ekki aðeins eftir eigin velmegun.
55.
Ó, sonur ástríðunnar!
Hreinsa sjálfan þig af saurgun auðsins og gakk í fullkomnum friði inn til ríkis fátæktarinnar, svo að þú megir drekka vín ódauðlegs lífs úr uppsprettu andlegrar lausnar.
56.
Ó, sonur Minn!
Samneyti við óguðlega eykur sorgir, en vinfengi við réttláta hreinsar ryðið af hjartanu. Látið þann sem óskar að samneyta Guði, leita félagsskapar Hans elskuðu og þann sem vill hlusta á orð Guðs, ljá eyra orðum Hans útvöldu.
57.
Ó, sonur duftsins!
Haf aðgát! Gakk ekki með óguðlegum og leita ekki félagsskapar þeirra, því að slíkur félagsskapur breytir ljósi hjartans í vítiseld.
58.
Ó, sonur þjónustumeyjar Minnar!
Ef þú leitar náðar heilags anda, gakk þá á vit réttláts manns, því að hann hefur drukkið af bikar eilífs lífs úr höndum Hins ódauðlega bikarsveins og eins og hinn sanni morgunn endurlífgar hann og upplýsir hjörtu hinna dauðu.
59.
Ó, þér gálausu!
Haldið ekki að leyndardómar hjartnanna séu huldir, nei, vitið með vissu að þeir eru meitlaðir skýrum og augljósum bókstöfum í hinni heilögu návist.
60.
Ó, vinir!
Sannlega segi Ég, allt sem þér hafið dulið í hjörtum yðar er Oss jafn augljóst og dagurinn. Að það skuli vera hulið er vegna náðar Vorrar og hylli, ekki vegna þess að þér eigið það skilið.
61.
Ó, mannssonur!
Ég hefi úthellt örsmáum dropa úr ómælishafi náðar Minnar yfir þjóðir heimsins, samt snéri enginn sér að honum, því að allir hafa hafnað himnesku víni einingarinnar fyrir fúlar dreggjar óhreinleikans, gert sér að góðu dauðlegan bikar og vikið frá sér bikar ódauðlegrar fegurðar. Andstyggilegt er það sem þeir gera sér að góðu.
62.
Ó, sonur duftsins!
Snú ekki augum þínum frá óviðjafnanlegu víni Ástvinarins ódauðlega og opna þau ekki fyrir illum og dauðlegum dreggjum. Þigg kaleik ódauðlegs lífs úr höndum Hins himneska bikarsveins svo að öll viska megi verða þín og þú megir hlýða á hina dulúðugu rödd kalla frá ríki hins ósýnilega. Kveinið hástöfum, ó þér lítilþægu! Hvers vegna hafið þér vísað frá yður heilögu og ódauðlegu víni Mínu fyrir hverfult vatnið?
63.
Ó, þér þjóðir heimsins!
Vitið í sannleika, að ófyrirsjáanleg ógæfa fer á hæla yður og hörmulegt endurgjald bíður yðar. Haldið ekki að þær gerðir sem þér hafið drýgt séu afmáðar fyrir augliti Mínu. Við fegurð Mína! Allar gerðir yðar hefur penni Minn greypt djúpu letri á krýsólíttöflur.
64.
Ó, kúgarar jarðarinnar!
Bindið enda á kúgun, því að Ég hefi heitið sjálfum Mér því að fyrirgefa ekki ranglæti nokkurs manns. Þetta er sáttmáli Minn sem skráður er óafturkallanlega á hina varðveittu töflu og hún innsigluð með innsigli dýrðar Minnar.
65.
Ó, þér uppreisnargjörnu!
Langlundargeð Mitt hefur gert yður djarfa og þolinmæði Mín hefur gert yður skeytingarlausa svo að þér hafið hvatt villtan fák ástríðunnar inn á háskalega stigu sem leiða til glötunar. Tölduð þér Mig gálausan eða hélduð þér að Ég yrði þess ekki var?
66.
Ó, útflytjendur!
Tunguna skóp Ég til að nefna Mig, saurgið hana ekki með illu tali. Ef eldur sjálfsins heltekur yður, minnist þá yðar eigin ávirðinga en ekki ávirðinga skepna Minna, því að sérhver yðar þekkir sitt eigið sjálf betur en hann þekkir sjálf annarra.
67.
Ó, börn blekkingar!
Vitið í sannleika, að þegar geislandi dögunin brýst fram yfir sjónarhring eilífs heilagleika, munu hin djöfullegu leyndarmál og gerðir sem voru unnar í skjóli næturinnar verða afhjúpuð og gerð heyrinkunn þjóðum jarðarinnar.
68.
Ó, illgresi sem sprettur úr rykinu!
Hví hafa flekkaðar hendur þínar ekki snert fyrst þín eigin klæði og hví sækist þú eftir að samneyta Mér og ganga inn í heilagt ríki Mitt með hjarta þitt saurgað ástríðu og löngunum? Fjarri, órafjarri ert þú því sem þú þráir.
69.
Ó, börn Adams!
Heilög orð og hreinar og góðar gerðir stíga upp til himins guðdómlegrar dýrðar. Kostið kapps um, að gerðir yðar megi hreinsast af dusti sjálfs og yfirdrepsskapar og finna náð frammi fyrir hirð dýrðarinnar, því að áður en langt um líður munu dómarar mannkynsins ekki taka neitt gilt í heilagri návist Hins heittelskaða nema fullkomna dyggð og hreinar og flekklausar gerðir. Þetta er sól viskunnar og guðlegra leyndardóma sem skinið hefur yfir sjónhring hins guðdómlega vilja. Sælir eru þeir sem snúa sér þangað.
70.
Ó, sonur veraldarhyggju!
Ljúft er ríki verundarinnar, ef þú höndlaðir það. Dýrlegt er veldi eilífðarinnar, ef þú yfirstigir veröld dauðleikans. Sæl er hin heilaga leiðsla, ef þú drykkir af kaleik dularinnar úr höndum Hins guðdómlega æskumanns. Ef þér hlotnaðist þessi staða, myndir þú frelsast frá tortímingu og dauða, frá erfiði og synd.
71.
Ó, vinir Mínir!
Minnist sáttmálans sem þér gerðuð við Mig á Paranfjalli, innan helgra mæra Zaman. Ég hefi tekið Mér herskarana á hæðum sem vitni og þá sem dvelja í borginni eilífu, samt finn Ég engan núna sem er trúr sáttmálanum. Víst er að dramb og uppreisn hafa afmáð hann úr hjörtunum svo að hans sjást engin merki framar. En þótt Mér væri kunnugt um þetta, beið Ég átekta og ljóstraði því eigi upp.
72.
Ó, þjónn Minn!
Þú ert sem vel hvesst sverð, falið í myrkri slíðursins og verðmæti þess er dulið smiðnum. Kom út úr slíðri ástríðu og sjálfs svo að verðmæti þitt megi verða deginum ljósara og sýnt öllum heimi.
73.
Ó, vinur Minn!
Þú ert sól á himni heilagleika Míns. Lát eigi saurgun heimsins myrkva ljóma þinn. Slít sundur blæjur gáleysisins svo að handan skýjanna megir þú birtast skínandi og klæða alla hluti klæðum lífsins.
74.
Ó, börn hégómafíknar!
Fyrir fallvaltan herradóm hafið þér snúið baki við ótortímanlegu veldi Mínu og skrýtt sjálf yður skrúða heimsins og hrósað yður af því. Við fegurð Mína! Öllum mun Ég safna undir einlita ábreiðu duftsins og afmá alla þessa margbreytilegu liti, nema þá sem velja Minn eigin og það er að hreinsast af sérhverjum lit.
75.
Ó, börn vanrækslunnar!
Setjið ekki ástríður yðar á dauðleg yfirráð og gleðjist ekki yfir þeim. Yður er farið eins og fuglinum sem uggir eigi að sér og syngur vonglaður á greininni uns hann skyndilega liggur í duftinu fyrir fótum fuglarans, dauðans, og horfinn er söngurinn, formið, liturinn og enginn vottur er eftir af því. Sýnið því aðgát, ó bandingjar ástríðunnar.
76.
Ó, sonur þjónustumeyjar Minnar!
Leiðsögn hefur ætíð verið veitt í orðum, en nú er hún veitt í gerðum. Sérhver maður verður að inna af hendi gerðir sem eru hreinar og heilagar, því að orð eru sameign allra manna, þar sem aftur á móti slíkar gerðir tilheyra aðeins ástvinum Vorum. Reynið því af hjarta og sál að auðkenna yður með gerðum yðar. Slík eru heilræði Vor yður til handa í þessari helgu og skínandi töflu.
77.
Ó, sonur réttvísinnar!
Á næturþeli hafði fegurð Hins ódauðlega horfið frá smaragðshæðum trúfestinnar til Sadratu’l-Muntahá og grátið svo sáran, að herskararnir á hæðum og þeir sem dvelja í ríkjunum hið efra, kveinuðu er þeir heyrðu það. Þá var spurt: Hvers vegna grátur og kveinstafir? Hann svaraði: Eins og Mér var boðið beið Ég fullur eftirvæntingar á hæð tryggðarinnar, samt barst Mér ekki að vitum angan trúfestinnar frá þeim sem dvelja á jörðu. Er Mér var skipað að snúa við sá Ég og sjá, tilteknar dúfur heilagleikans voru sárt leiknar í klóm jarðneskra hunda. Þá hraðaði hin himneska mær sér fram blæjulaus og skínandi frá híbýlum dular sinnar og spurði um nöfn þeirra og var skýrt frá þeim öllum, nema einu. Og þegar gengið var eftir því var fyrsti bókstafur þess sagður og þá þustu allir íbúar hinna himnesku vistarvera út úr híbýlum dýrðar sinnar. Og er hinn annar bókstafur var sagður féllu þeir allir sem einn í duftið. Á þeirri stund heyrðist rödd frá hinum innsta helgidómi: „Hingað og eigi lengra.“ Vissulega berum Vér því vitni sem þeir hafa gert og eru nú að gera.
78.
Ó, sonur þjónustumeyjar Minnar!
Drekk straum himneskrar dulúðar af vörum hins miskunnsama og lít alskíran sólarljóma viskunnar frá dögunarstað himneskra orða. Sá sæði guðlegrar visku í hreinan jarðveg hjartans og vökva það með vatni fullvissunnar svo að jasintur þekkingar og vísdóms megi vaxa, ferskar og grænar, úr heilagri borg hjartans.
79.
Ó, sonur ástríðunnar!
Hve lengi ætlar þú að svífa í ríkjum ástríðunnar? Vængi hefi Ég gefið þér svo að þú megir taka flugið til ríkis dulúðugs heilagleika, en ekki til svæða djöfullegra blekkinga. Kambinn hefi Ég einnig gefið þér, að þú megir greiða hrafnsvarta lokka Mína en ekki sundurnísta háls Minn.
80.
Ó, þjónar Mínir!
Þér eruð trén í garði Mínum; þér verðið að bera góða og undursamlega ávöxtu, svo að þér sjálfir og aðrir megi hagnast af því. Þess vegna er yður gert að skyldu að iðka iðnir og atvinnugreinar, því að í þeim er fólginn leyndardómur auðsins, ó þér sem hafið skilning! Því árangurinn er háður meðalinu og náð Guðs mun nægja yður. Tré sem ekki bera ávöxt hafa verið og munu ætíð vera eldsmatur.
81.
Ó, þjónn Minn!
Auvirðilegastir manna eru þeir sem engan ávöxt bera á jörðunni. Slíkir menn eru vissulega taldir til hinna dauðu, nei, hinir dauðu eru betri fyrir augliti Guðs en þessar iðjulausu og einskisnýtu sálir.
82.
Ó, þjónn Minn!
Bestir manna eru þeir sem vinna fyrir sér með köllun sinni og verja ávöxtum erfiðis síns á sjálfa sig og ættingja sína sakir ástar á Guði, Drottni allra veraldanna.
Hin dulúðuga og undursamlega brúður sem fram til þessa var hulin blæju málsins hefur nú fyrir náð Guðs og himneska hylli Hans verið opinberuð líkt og hið skínandi ljós sem geislar af fegurð Hins elskaða. Ég ber því vitni, ó vinir, að hyllin er fullkomnuð, röksemdafærslan fullger, sönnunin opinberuð og vitnisburðurinn staðfestur. Sýnið nú hvað viðleitni yðar á vegi sjálfslausnar mun til vegar koma. Þannig hefur yður og þeim sem eru á himni og á jörðu verið veitt til fulls hin himneska hylli. Allt lof sé Guði, Drottni allra veraldanna.