Bahá’í bænir
Úrval bæna opinberaðar af Bahá’u’lláh, Bábinum og ‘Abdu’l‑Bahá
Sæll er staðurinn og húsið og svæðið og borgin og hjartað og fjallið og athvarfið og hellirinn og dalurinn og landið og hafið og eyjan og sléttan þar sem Guðs hefur verið minnst og lofgjörð Hans vegsömuð
—Bahá’u’lláh
Syng, ó þjónn Minn, vers Guðs sem þér hafa borist, eins og þeir syngja þau sem hafa nálgast Hann, svo að sætleiki söngs þíns megi tendra eld í þinni eigin sál og laða að sér hjörtu allra manna. Hver sem í einrúmi vistarveru sinnar les versin sem Guð hefur opinberað – dreifandi englar Hins almáttuga munu dreifa víða vegu angan orðanna sem munnur hans mælir og valda því að hjarta hvers réttláts manns slær hraðar. Þótt hann í fyrstu kunni að vera sér óvitandi um áhrif þeirra, mun náðin sem veitist honum fyrr eða síðar hafa áhrif sín á sál hans. Þannig hafa leyndardómar Guðs verið ákvarðaðir í krafti vilja Hans sem er uppspretta valds og visku.
—Bahá’u’lláh
„Daglegu skyldubænirnar eru þrjár talsins . . . Átrúandanum er frjálst að velja hverja sem er af þessum þremur bænum en honum er skylt að fara með eina þeirra í samræmi við þau sérstöku fyrirmæli sem fylgja henni.“
—Úr bréfi rituðu fyrir hönd Shoghi Effendi
Áður en farið er með skyldubæn skal lauga hendur og andlit samkvæmt fyrirmælum Kitáb-i-Aqdas. Átrúandinn snúi sér síðan til Qiblih (þ.e. í bænarátt, til Bahjí, ‘Akká).
„Þegar talað er um morgun, hádegi og kvöld í tengslum við skyldubænirnar er átt við tímann milli sólarupprásar og hádegis, hádegis og sólseturs og frá sólsetri þangað til tveimur tímum eftir að sólin sest.“
—Yfirlit og skráning laganna í Kitáb-i-Aqdas, bls. 36
Stutta skyldubænin
Fara á með þessa bæn einu sinni á sólarhring, á hádegi
Ég ber því vitni, ó Guð minn, að Þú hefur skapað mig til að þekkja Þig og tilbiðja Þig. Ég staðfesti á þessu andartaki vanmátt minn og mátt Þinn, fátækt mína og auðlegð Þína.
Enginn er Guð nema Þú, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
—Bahá’u’lláh
Lengri skyldubænin
Fara á með þessa bæn að morgni, á hádegi og að kvöldi
Hver sá sem vill biðjast fyrir laugi hendur sínar og á meðan segi hann:
Styrk hönd mína, ó Guð minn, að hún nái svo stöðugu taki á bók Þinni að herskarar heimsins hafi ekkert vald yfir henni. Vernda hana einnig gegn afskiptum af öllu sem ekki er hennar. Þú ert vissulega hinn almáttugi og voldugasti.
Og meðan hann laugar andlit sitt segi hann:
Ég hef beint augliti mínu að Þér, ó Drottinn minn! Uppljóma það birtu ásýndar Þinnar. Vernda það síðan gegn því að beinast að nokkru nema Þér.
Síðan standi hann og snúi sér til Qiblih (þ.e. í bænarátt, til Bahjí, ‘Akká) og segi:
Guð ber því vitni að enginn er Guð nema Hann. Hans eru ríki opinberunar og sköpunar. Hann hefur í sannleika birt þann sem er dögun opinberunar, sem talaði á Sínaí og lýsti upp hæsta sjónarhringinn, þann sem Lótustréð á leiðarenda léði mál og flutt hefur öllum á himni og jörðu ákallið: „Sjá eigandi alls er kominn. Himinn og jörð, dýrð og yfirráð eru Guðs, Drottins allra manna og eiganda hásætisins hið efra og á jörðu!“
Síðan beygi hann sig niður, hvíli hendur á hnjám sér og segi:
Þú ert upphafinn yfir lofgjörð mína og lofgjörð allra annarra, lýsingu mína og lýsingu allra á himni og jörðu!
Síðan standi hann með opnar hendur, snúi lófum að andliti sínu og segi:
Bregst Þú ekki, ó Guð minn, vonum þess sem hefur tekið biðjandi fingrum í klæðisfald miskunnar Þinnar og náðar, ó Þú miskunnsamastur þeirra sem sýna miskunn!
Síðan setjist hann og segi:
Ég ber vitni um einingu Þína og einstakleika, að Þú ert Guð og að enginn er Guð nema Þú. Þú hefur vissulega opinberað málstað Þinn, uppfyllt sáttmála Þinn og opnað dyr náðar Þinnar á gátt í augsýn allra sem dvelja á himni og á jörðu. Blessun og friður, heill og dýrð hvíli yfir Þínum elskuðu, sem hverfulleiki þessa heims hefur ekki hindrað frá því að leita til Þín og gefið hafa allt sitt í von um að eignast það sem er af Þér. Þú ert í sannleika sá sem ætíð fyrirgefur, hinn örlátasti.
(Óski einhver í stað hins langa vers að mæla þessi orð: „Guð ber því vitni að enginn er Guð nema Hann, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi,“ nægir það. Sömuleiðis myndi það nægja ef hann hefði yfir þessi orð meðan hann situr: „Ég ber vitni um einingu Þína og einstakleika, að Þú ert Guð og að enginn er Guð nema Þú.“)
—Bahá’u’lláh
Lengsta skyldubænin
Fara á með þessa bæn einu sinni á sólarhring
Sá sem óskar að fara með þessa bæn, standi og snúi sér til Guðs, og þar sem hann stendur líti hann til hægri og vinstri, eins og hann vænti miskunnar Drottins síns, hins miskunnsamasta og vorkunnláta. Síðan segi hann:
Ó Þú sem ert Drottinn allra nafna og smiður himnanna! Ég sárbæni Þig við þá sem eru uppsprettur Þíns ósýnilega kjarna, hins háleitasta og aldýrlega, að gera úr bæn minni bál, sem brenni hulurnar sem hafa byrgt mér sýn á fegurð Þína og ljós sem leiði mig til úthafs návistar Þinnar.
Síðan lyfti hann höndum í bæn til Guðs – blessaður og upphafinn sé Hann – og segi:
Ó Þú þrá heimsins og ástvinur þjóðanna! Þú sérð mig leita til Þín, fráhverfan öllu nema Þér og halda í líftaug Þína sem vakið hefur alla sköpunina með hreyfingum sínum. Ég er þjónn Þinn, ó Drottinn minn, og sonur þjóns Þíns. Lít mig reiðubúinn að gera vilja Þinn og löngun og æskja einskis nema velþóknunar Þinnar. Ég sárbæni Þig við úthaf miskunnar Þinnar og sól náðar Þinnar, að gera við þjón Þinn það sem Þú vilt og Þér líst. Við mátt Þinn sem er langt ofar allri tjáningu og lofgjörð! Allt sem hefur komið frá Þér er þrá hjarta míns og elska sálar minnar. Ó Guð, Guð minn! Lít ekki á vonir mínar og gerðir, nei, lít heldur á vilja Þinn sem umlykur himna og jörð. Við Þitt mesta nafn, ó Þú Drottinn allra þjóða! Ég hef þráð aðeins það sem Þú þráðir og elska einungis það sem Þú elskar.
Síðan krjúpi hann, beygi enni sitt að jörðu og segi:
Upphafinn ert Þú yfir lýsingu alls nema Þín sjálfs og skilning alls nema Þín.
Síðan standi hann upp og segi:
Ger úr bæn minni, ó Drottinn minn, lind lifandi vatna svo ég megi lifa meðan veldi Þitt varir og nefna Þig í sérhverri veröld veralda Þinna.
Síðan lyfti hann höndum á ný í bæn og segi:
Ó Guð! Hjörtu og sálir tærast upp í aðskilnaði frá Þér og eldur ástar Þinnar hefur kveikt bál í allri veröldinni! Ég sárbæni Þig við nafn Þitt sem hefur lagt undir Þig allt sköpunarverkið, að meina mér ekki um það sem er af Þér, ó Þú sem ríkir yfir öllum mönnum! Þú sérð, ó Drottinn minn, þennan ókunna hraða sér til síns æðsta heimilis undir tjaldhimni tignar Þinnar og innan vébanda miskunnar Þinnar, þennan misgerðarmann leita úthafs fyrirgefningar Þinnar, þennan lítilsverða leita til forgarðs dýrðar Þinnar og þessa vesælu veru leita ljómans af auðæfum Þínum. Þitt er valdið að skipa fyrir um hvaðeina sem Þú vilt. Ég ber því vitni að verk Þín á að vegsama, fyrirmælum Þínum ber að hlýða og Þú ert óheftur í boðum Þínum.
Síðan lyfti hann höndum og endurtaki þrívegis Hið mesta nafn. Því næst beygi hann sig niður, hvíli hendur á hnjám sér frammi fyrir Drottni – blessaður og upphafinn sé Hann – og segi:
Þú sérð, ó Guð minn, hvernig andi minn hefur vaknað í limum mínum og líkama í löngun sinni að tilbiðja Þig og þrá sinni að muna Þig og lofa. Hvernig hann ber því vitni sem tunga boðorða Þinna hefur vitnað um í ríki tjáningar Þinnar og á himni þekkingar Þinnar. Mér er það ljúft í þessu ásigkomulagi, ó Drottinn minn, að biðja Þig alls sem er af Þér, svo ég megi sýna fátækt mína og mikla örlæti Þitt og ríkidæmi, lýsa yfir vanmætti mínum og birta mátt Þinn og vald.
Síðan standi hann, lyfti höndum tvívegis í bæn og segi:
Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi, hinn örlátasti. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ákvarðar bæði í upphafinu og við endalokin. Ó Guð, Guð minn! Fyrirgefning Þín hefur gert mig djarfan, miskunn Þín hefur styrkt mig, kall Þitt hefur vakið mig og náð Þín reist mig upp og leitt mig til Þín. Hvernig dirfðist ég annars að standa við borgarhlið návistar Þinnar eða beina augum mínum að ljósunum sem skína frá himni vilja Þíns? Þú sérð, ó Drottinn minn, þessa aumu veru knýja á dyr náðar Þinnar og þessa svipulu sál leita að móðu eilífs lífs úr höndum örlætis Þíns. Þitt er valdið um alla tíð, ó Þú sem ert Drottinn allra nafna, og mín er undirgefnin og fús hlýðni við vilja Þinn, ó skapari himnanna!
Síðan lyfti hann höndum þrívegis og segi:
Meiri er Guð öllum sem máttugir eru!
Síðan krjúpi hann, beygi enni sitt að jörðu og segi:
Þú ert hærri en svo að lofgjörð þeirra sem nálægir eru Þér geti stigið upp til himins návistar Þinnar eða fuglar hjartna þeirra sem eru helgaðir Þér nái til hliðs Þíns. Ég ber því vitni að Þú ert helgaður ofar öllum eigindum og heilagur ofar öllum nöfnum. Enginn Guð er nema Þú, hinn æðsti og aldýrlegi.
Síðan setjist hann og segi:
Ég ber því vitni, sem allt sem skapað er hefur vitnað um ásamt herskörunum á hæðum og íbúum hinnar alhæstu paradísar og ofar þeim Tunga tignarinnar sjálf frá hinum aldýrlega sjónarhring, að Þú ert Guð, að enginn Guð er nema Þú og að Hann sem hefur verið birtur er hin hulda dul, hið varðveitta tákn sem tengdi og sameinaði bókstafina V, E og R (ver). Ég ber því vitni að það er Hans nafn sem skráð var af penna Hins hæsta og nefnt í bókum Guðs, Drottins hásætisins hið efra og á jörðu.
Síðan standi hann uppréttur og segi:
Ó Drottinn allrar verundar og eigandi alls, sýnilegs og ósýnilegs! Þú skynjar tár mín og andvörp og heyrir harmatölur mínar, grátstafi og kvein hjarta míns. Við mátt Þinn! Misgerðir mínar hafa varnað mér að nálgast Þig og syndir mínar hafa haldið mér langt frá forgarði heilagleika Þíns. Ást Þín, ó Drottinn minn, hefur auðgað mig og aðskilnaður við Þig eyðilagt mig og fjarlægð frá Þér eytt mér upp. Ég sárbæni Þig við fótspor Þín hér í auðninni og með orðunum „Hér er ég, hér er ég“ sem Þínir útvöldu hafa mælt í þessari ómælisvíðáttu og við andblæ opinberunar Þinnar og þýðvinda dögunar birtingar Þinnar, að bjóða að ég megi líta fegurð Þína og gæta alls sem er í bók Þinni.
Síðan endurtaki hann þrisvar Hið mesta nafn, beygi sig niður með hendur á hnjám sér og segi:
Lof sé Þér, Ó Guð minn, að Þú hefur hjálpað mér að muna Þig og lofa og kynnt mér Hann sem er dagsbrún tákna Þinna, látið mig lúta drottnun Þinni, auðmýkja mig frammi fyrir guðdómi Þínum og viðurkenna það sem tunga tignar Þinnar hefur mælt.
Síðan rísi hann á fætur og segi:
Ó Guð, Guð minn! Bak mitt er beygt af byrðum synda minna og gáleysi mitt hefur eyðilagt mig. Hvenær sem ég íhuga illar gerðir mínar og góðvild Þína, tærist hjartað í brjósti mér og blóðið ólgar í æðum mér. Við fegurð Þína, ó Þú þrá heimsins! Ég blygðast mín er ég lít upp til Þín og löngunarfullar hendur mínar fyrirverða sig fyrir að teygja sig til himnaríkis örlætis Þíns. Þú sérð, Ó Guð minn, hvernig tár mín aftra mér að muna Þig og vegsama dyggðir Þínar, ó Þú Drottinn hásætisins hið efra og á jörðu! Ég sárbæni Þig við tákn ríkis Þíns og dul yfirráða Þinna að gera við Þína elskuðu sem hæfir örlæti Þínu, ó Drottinn allrar verundar, og sæmir náð Þinni, ó konungur hins séða og óséða.
Síðan endurtaki hann þrisvar Hið mesta nafn, krjúpi með enni að jörðu og segi:
Lof sé Þér, ó Guð okkar, að Þú hefur sent það niður til okkar sem færir okkur nær Þér og birgir okkur upp af öllu því góða sem sent er niður í bókum Þínum og helgiritum. Vernda okkur, þess biðjum við Þig ó Drottinn minn, gegn sæg hégómlegra duttlunga og fánýtra ímyndana. Þú ert að sönnu hinn máttugi, sá sem allt þekkir.
Síðan rétti hann sig upp, setjist og segi:
Ég ber því vitni, Ó Guð minn, sem Þínir útvöldu hafa vitnað um og viðurkenni það sem íbúar alhæstu paradísar og þeir sem umkringja Þinn volduga veldisstól hafa viðurkennt. Ríki jarðar og himins eru Þín, ó Drottinn veraldanna!
—Bahá’u’lláh
Aðstoð
Ásýnd Þín, ó Guð minn, er mér tilbeiðsluefni, fegurð Þín er athvarf mitt, bústaður Þinn takmark mitt, lof um Þig von mín, forsjón Þín félagi minn, ást Þín uppspretta tilveru minnar, að nefna Þig er mér hugsvölun, návist Þín er þrá mín og nærvera Þín heitasta ósk mín og æðsta von. Ég sárbæni Þig að meina mér ekki um það sem Þú hefur fyrirhugað hinum útvöldu meðal þjóna Þinna. Gef mér því af gæðum þessa heims og hins næsta.
Þú ert í sannleika konungur allra manna. Enginn er Guð nema Þú, sá er ætíð fyrirgefur, hinn gjafmildasti.
—Bahá’u’lláh
Guð minn, Þú sem ég tilbið, konungur minn, þrá mín! Hvaða tunga fær tjáð Þér þakkir mínar? Ég var gálaus, Þú vaktir mig. Ég hafði snúið við Þér baki, Þú hjálpaðir mér af náð Þinni að leita aftur til Þín. Ég var andvana, Þú vaktir mig með vatni lífsins. Ég var visnaður, Þú endurlífgaðir mig með himneskum straumi orðs Þíns sem flæddi úr penna Hins almiskunnsama.
Ó guðdómlega forsjón! Öll tilveran er getin af gjafmildi Þinni. Svipt hana ekki vötnum örlætis Þíns og synja henni ekki um úthaf miskunnar Þinnar. Ég sárbæni Þig að styðja mig og styrkja, ætíð og hvernig sem á stendur og leita til himins náðar Þinnar að aldinni hylli Þinni. Þú ert í sannleika Drottinn örlætis og einvaldur í ríki eilífðarinnar.
—Bahá’u’lláh
Farið 19 sinnum með þessa bæn þegar taka þarf ákvörðun um brýnt málefni. Íhugið það síðan og gerið það sem upp í hugann kemur: Ó Guð minn. Þú sérð mig aðskilinn öllu nema Þér og halda fast við Þig. Leiðbein mér því í gerðum mínum í þeim hlutum sem gagna mér sakir dýrðar málstaðar Þíns og upphafinnar stöðu þjóna Þinna.
—Bahá’u’lláh
Lofað sé nafn Þitt, ó Drottinn Guð okkar! Þú þekkir í sannleika hið óséða. Ákvarða okkur þau gæði, sem alltumlykjandi þekking Þín getur úthlutað. Þú ert yfirbjóðandi Drottinn, hinn almáttugi og ástkærasti.
Allt lof sé Þér, ó Drottinn! Við leitum náðar Þinnar á hinum tiltekna degi og setjum allt okkar traust á Þig sem ert Drottinn okkar. Dýrlegur ert Þú, ó Guð! Gef okkur það sem gott er og sæmandi, svo að við megum hafna öllu nema Þér. Vissulega ert Þú Drottinn allra veraldanna.
Ó Guð! Umbuna þeim sem þolugir þreyja á dögum Þínum og styrk hjörtu þeirra til að feta öruggum skrefum stigu sannleikans. Gef því, ó Guð, þær góðu gjafir sem gera þeim fært að ganga inn í unaðssæla paradís Þína. Upphafinn ert Þú, ó Drottinn Guð. Lát himneska blessun Þína stíga niður yfir heimili þeirra, sem hafa trúað á Þig. Vissulega stendur enginn Þér framar í útdeilingu himneskra blessana. Send frá Þér, ó Guð, þá herskara, sem gera munu trúfasta þjóna Þína sigursæla. Þú mótar sköpunina með mætti ákvörðunar Þinnar að vild Þinni. Þú ert í sannleika yfirbjóðandinn, skaparinn, hinn alvitri.
Seg: Guð er að sönnu skapari allra hluta. Hann gefur ríkulega næringu þeim, sem Hann vill. Hann er skaparinn, uppspretta allrar verundar, mótandinn, hinn almáttugi, smiðurinn, hinn alvitri. Hann ber hin ágætustu nöfn í öllum himnunum og á jörðunni og hvarvetna þar á milli. Allir hlýða boðum Hans, allir íbúar jarðar og himins vegsama Hann og lofa og til Hans munu allir hverfa aftur.
—Bábinn
Ó Guð minn, Drottinn minn og meistari! Ég hef leyst mig frá skylduliði mínu og leitast með Þínu fulltingi við að verða óháður öllu sem er á jörðu, ætíð reiðubúinn að taka á móti því sem er lofsvert fyrir augliti Þínu. Gef mér því þau gæði sem gera mig óháðan öllum nema Þér og veit mér ríflegri skerf af takmarkalausri hylli Þinni. Sannlega ert Þú Drottinn ríkulegrar náðar.
—Bábinn
Drottinn! Aumkunarverð erum við, veit okkur hylli Þína; fátæk, gef okkur hlutdeild í úthafi auðæfa Þinna; þurfandi, uppfyll þarfir okkar; niðurlægð, veit okkur dýrð Þína. Fuglar himinsins og dýr merkurinnar fá fæðu sína dag hvern frá Þér og allar verur njóta umhyggju Þinnar og ástúðar.
Svipt eigi þennan smælingja undursamlegri náð Þinni og veit sakir máttar Þíns þessari hjálparvana sál hylli Þína.
Gef okkur daglegt brauð og aukið lífsviðurværi, svo að við megum vera óháð öllum nema Þér, getum samneytt Þér einum, gengið Þína vegu og kunngert leyndardóma Þína. Þú ert hinn almáttugi og ástríki og forsjá alls mannkyns.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Þú góði Drottinn! Við erum þjónar fótskarar Þinnar, sem leitum hælis við Þínar heilögu dyr. Við leitum einskis athvarfs nema þessarar sterku stoðar, biðjum um engan griðastað nema varðveislu Þína. Vernda okkur og blessa, styð okkur, gef að við elskum aðeins velþóknun Þína, mælum aðeins lof um Þig, fylgjum aðeins vegi sannleikans, að við megum verða nógu rík til að komast af án alls nema Þín og þiggja gjafir okkar úr úthafi gæsku Þinnar, leitumst ætíð við að upphefja málstað Þinn og dreifa ljúfum ilmi Þínum víða vegu, gleymum sjálfum okkur og festum hugann eingöngu við Þig, afneitum öllu öðru og séum gagntekin af Þér.
Ó Þú framfærandi, ó Þú fyrirgefandi! Gef okkur náð Þína og ástúð, gjafir Þínar og veitingar og sjá fyrir okkur svo við megum ná markmiði okkar. Þú ert hinn voldugi, hinn máttugi, þekkjandinn, sjáandinn og sannlega ert Þú hinn örláti og sannlega ert Þú hinn almiskunnsami og sannlega ert Þú sá sem ætíð fyrirgefur, sá sem iðrun skal færa, sá sem fyrirgefur jafnvel hörmulegustu syndir.
—‘Abdu’l‑Bahá
Tak ekki frá okkur, ó Drottinn, veisluföngin, sem reidd hafa verið fram í Þínu nafni og slökk eigi hinn brennandi loga, sem kveiktur hefur verið með óslökkvandi eldi Þínum. Hald eigi aftur af straumi lifandi vatna Þinna, sem kliða af söngvum dýrðar Þinnar og minningar og svipt þjóna Þína ekki eiminum af sætri angan Þinni, sem dreifir ilmi ástar Þinnar.
Drottinn! Snú Þú þjakandi áhyggjum Þinna heilögu í rósemi, erfiðleikum þeirra í þægindi, niðurlægingu þeirra í dýrð, sorg þeirra í sæluríkan fögnuð, ó Þú, sem hefur í greip Þinni stjórnvöl alls mannkyns.
Þú ert sannlega hinn eini og einstæði, hinn máttugi og alvísi, hinn alvitri.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Drottinn! Við erum veikburða; styrk okkur. Ó Guð! Við erum fávís; ger okkur vitur. Ó Drottinn! Við erum fátæk; auðga okkur. Ó Guð! Við erum líflaus; fjörga okkur. Ó Drottinn! Við erum einskær auðmýking; veit okkur heiður í ríki Þínu. Aðstoðir Þú okkur, ó Drottinn, verðum við sem tindrandi stjörnur. Ef Þú aðstoðar okkur ekki verðum við lægra sett en jörðin. Ó Drottinn! Styrk okkur. Ó Guð! Fær okkur sigur. Ó Guð! Ger okkur fært að sigra eigið sjálf og yfirstíga ástríðu. Ó Drottinn! Leys okkur úr ánauð efnisheimsins. Ó Drottinn! Endurlífga okkur með andblæ heilags anda svo við getum risið upp til að þjóna Þér, vegsamað Þig og lagt okkur fram af ítrustu einlægni í ríki Þínu. Ó Drottinn, Þú ert voldugur! Ó Guð, Þú fyrirgefur! Ó Drottinn, Þú ert samúðarríkur!
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Guð! Ó Guð! Gef mér að drekka af bikar gjafa Þinna. Upplýs andlit mitt ljósi leiðsagnar. Ger mig tryggan, stöðugan og staðfastan í Þínum forna sáttmála. Leyf mér að verða einn Þinna einlægu þjóna. Opna fyrir mér dyr velmegunar. Veit mér tækifæri til að afla lífsviðurværis. Gef mér mitt daglega brauð með ráðum sem ekki eru á mínu valdi, úr Þínum himnesku fjárhirslum. Styrk mig til að beina augliti mínu að miskunnsamri ásýnd Þinni og vera trúr málstað Þínum, ó Þú mildi og vorkunnláti! Vissulega ert Þú náðugur þeim sem eru stöðugir og staðfastir í Þínum sterka og ósigrandi sáttmála. Lof sé Guði, Drottni veraldanna!
—‘Abdu’l‑Bahá
Andleg lausn
Leyf mér, ó Guð minn, að nálgast Þig og dvelja í forgarði hásætis Þíns, því fjarlægðin frá Þér hefur nærfellt eytt mér upp. Lát mig hvílast í skugganum af vængjum náðar Þinnar, því logi aðskilnaðar við Þig hefur tært hjartað í brjósti mér. Drag mig nær fljótinu sem er lífið sjálft, því sál mín brennur af þorsta í þrotlausri leit að Þér. Andvörp mín, ó Guð minn, lýsa beiskju angistar minnar og tárin sem ég felli vitna um ást mína til Þín.
Í auðmýkt bið ég Þig við lofið sem Þú færir sjálfum Þér og dýrðina sem Þú vegsamar með kjarna Þinn, að gefa að við teljumst til þeirra sem hafa þekkt Þig og viðurkennt herradóm Þinn á dögum Þínum. Hjálpa okkur einnig, ó Guð minn, að drekka úr höndum miskunnar lifandi vatn ástúðar Þinnar, svo við gleymum algjörlega öllu nema Þér, og gætum að engu nema sjálfi Þínu. Þú hefur vald til að gera vilja Þinn. Enginn er Guð nema Þú, hinn máttugi, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
Vegsamað sé nafn Þitt, ó Þú sem ert konungur allra konunga.
—Bahá’u’lláh
Vegsamaður ert Þú, ó Guð minn! Ég flyt Þér þakkir fyrir að hafa kynnt mér Hann sem er dögun miskunnar Þinnar og dagsbrún náðar Þinnar og varðveitir málstað Þinn. Ég bið til Þín við nafn Þitt, sem lýsir upp andlit þeirra sem Þér eru nálægir, og fær hjörtu þeirra sem eru helgaðir Þér til að þreyta flugið til Þín, að gefa að ég megi ætíð og hvernig sem ástatt er halda í líftaug Þína og laðist að engum nema Þér, svo að augu mín megi stöðugt hvíla á sjónarhring opinberunar Þinnar, og ég framfylgi því sem Þú hefur ráðið mér í töflum Þínum.
Skrýð Þú, ó Drottinn minn, bæði innri og ytri verund mína búningi hylli Þinnar og ástúðar. Varðveit mig einnig frá hverju því sem Þér kann að vera andstyggð, og aðstoða mig og ættingja mína af náð Þinni að hlýðnast Þér og forðast hvaðeina sem vakið getur með mér illar eða spilltar langanir.
Þú ert að sönnu Drottinn alls mannkyns, eigandi þessa heims og hins næsta. Enginn er Guð nema Þú, sá er allt þekkir, hinn alvitri.
—Bahá’u’lláh
Lofað sé nafn Þitt, ó Guð minn! Ég sárbæni Þig við ilminn af klæðum náðar Þinnar, sem að boði Þínu og samkvæmt ósk Þinni var veitt yfir gjörvallt sköpunarverkið, og við sól vilja Þíns sem skinið hefur sakir valds máttar Þíns og yfirráða, ofar sjónarhring miskunnar Þinnar, að afmá úr hjarta mínu alla hégómlega duttlunga og fánýtar ímyndanir, svo ég megi af allri ást minni leita til Þín, ó Þú Drottinn alls mannkyns!
Ég er þjónn Þinn og sonur þjóns Þíns, ó Guð minn. Ég hef tekið í handfestu náðar Þinnar og haldið í líftaug mildrar miskunnar Þinnar. Ákvarða mér hið góða sem er af Þér, og nær mig af matborðinu sem Þú sendir niður úr skýjum örlætis Þíns og himni hylli Þinnar.
Þú ert í sannleika Drottinn veraldanna og Guð allra á himnum og jörðu.
—Bahá’u’lláh
Mörg eru þau köldu hjörtu, ó Guð minn, sem hafa upptendrast af eldi málstaðar Þíns og margur sofandinn hefur risið upp við sætleika raddar Þinnar. Hve margir eru ekki þeir ókunnu sem leituðu skjóls í forsælunni af tré einleika Þíns og hve fjölmargir þeir sem brunnu af þorsta eftir lind lifandi vatns Þíns á dögum Þínum!
Sæll er sá sem hefur leitað til Þín og hraðað sér að árdagsljóma ásýndar Þinnar. Sæll er sá sem af allri ást sinni hefur leitað til dagsbrúnar opinberunar Þinnar og uppsprettu innblásturs Þíns. Sæll er sá sem lét það af hendi rakna á vegi Þínum sem Þú gafst honum af örlæti Þínu og velvild. Sæll er sá sem í sárri þrá eftir Þér hefur varpað frá sér öllu nema Þér. Sæll er sá sem hefur notið náinna samvista við Þig og leyst sig úr viðjum alls nema Þín.
Ég sárbæni Þig, ó Drottinn minn, við Hann sem er nafn Þitt og sem í krafti valds Þíns og yfirráða hefur risið yfir sjónarhring prísundar sinnar, að ákvarða það öllum til handa sem Þér er verðugt og sæmir upphafningu Þinni.
Máttur Þinn er að sönnu jafnoki alls sem er.
—Bahá’u’lláh
Ég veit ekki, ó Guð minn, hver sá eldur er sem Þú kveiktir í landi Þínu. Jörðin fær aldrei myrkvað ljóma hans né vatnið slökkt loga hans. Öllum þjóðum heims er um megn að standa í gegn krafti hans. Mikil er blessun þess sem hefur laðast að honum og heyrt gný hans.
Sumum gerðir Þú kleift, ó Guð minn, með styrkjandi náð Þinni að nálgast hann, en öðrum aftraðir Þú vegna þess sem hendur þeirra hafa gert á dögum Þínum. Hver sá er hefur hraðað sér áleiðis og náð til hans, hefur í löngun sinni að líta fegurð Þína lagt líf sitt í sölurnar á vegi Þínum, og stigið upp til Þín í fullkominni lausn frá öllu nema Þér sjálfum.
Ég bið til Þín, ó Drottinn minn við þennan eld, sem bálar og funar í heimi sköpunarinnar, að svipta burt hulunum sem hindra mig frá því að stíga fram fyrir hásæti tignar Þinnar og standa við inngang Þinn. Ákvarða mér, ó Drottinn minn, allt hið góða sem Þú sendir niður í bók Þinni, og lát mig ekki vera fjarri skjóli miskunnar Þinnar.
Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér líst. Þú ert sannlega hinn alvoldugi og veglyndasti.
—Bahá’u’lláh
Lof sé Þér, ó Guð minn! Ég er einn þjóna Þinna sem hafa trúað á Þig og tákn Þín. Þú sérð hvernig ég hef leitað dyra náðar Þinnar og beint ásjónu minni að ástríki Þínu. Ég sárbæni Þig við ágætustu nafnbætur Þínar og upphöfnustu eigindir að opna fyrir mér hlið gjafa Þinna. Aðstoða mig síðan við að gera það sem gott er, ó Þú sem ert eigandi allra nafna og eiginda.
Ég er fátækur, ó Drottinn minn, og Þú ert hinn ríki. Ég hef beint augliti mínu að Þér og skilist frá öllu nema Þér. Ég bið Þig að svipta mig ekki andvara mildrar miskunnar Þinnar og halda því ekki frá mér sem Þú hefur ákvarðað hinum útvöldu meðal þjóna Þinna.
Tak huluna frá augum mínum, ó Drottinn minn, til þess að ég megi skilja það sem Þú hefur óskað skepnum Þínum til handa og uppgötva í öllum birtingum handaverks Þíns opinberanir Þíns allsráðandi valds. Heilla sál mína, ó Drottinn minn, með máttugustu táknum Þínum og drag mig upp úr djúpi illra og spilltra ástríðna minna. Rita því niður fyrir mig hið góða í þessum heimi og þeim sem kemur. Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hinn aldýrlegi sem allir leita ásjár hjá.
Ég færi Þér þakkir, ó Drottinn minn, fyrir að Þú hefur vakið mig af svefni mínum og reist mig upp og skapað í mér löngun til að skilja það sem flestum þjónum Þínum hefur mistekist að skynja. Ger mig þess umkominn, ó Drottinn minn, að skynja vegna ástar á Þér og sakir velþóknunar Þinnar, allt sem Þú hefur óskað. Allt sem skapað er vitnar um mátt Þinn og yfirráð.
Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og blessunarríki.
—Bahá’u’lláh
Miklað sé nafn Þitt, ó Drottinn Guð minn. Af þess völdum hafa trén í garði opinberunar Þinnar klæðst grænum skrúða og borið ávexti heilagleikans á þessu vori þegar sæt angan hylli Þinnar og blessana hefur borist yfir allt sem skapað er og leitt í ljós allt sem því var fyrirhugað í ríki Þinnar óafturkallanlegu ákvörðunar og á himni Þíns óhagganlega tilgangs. Ég bið Þig við þetta nafn, að láta mig ekki vera fjarri aðsetri heilagleika Þíns og meina mér ekki um aðgang að upphöfnum helgidómi einingar Þinnar og einstæðis.
Tendra einnig í brjósti mér, ó Guð minn, eld ástar Þinnar, svo logar hans eyði öllu öðru en minningunni um Þig og sérhver vottur spilltrar ástríðu hverfi að fullu og öllu innra með mér og ekkert verði eftir nema vegsömun Þinnar yfirskilvitlegu og aldýrlegu verundar. Þetta er heitasta ósk mín og æðsta þrá, ó Þú sem öllu ræður og hefur í hendi Þér ríki gervallrar sköpunarinnar. Sannlega gerir Þú það sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og aldýrlegi, sá er ætíð fyrirgefur.
—Bahá’u’lláh
Í nafni Drottins þíns, skaparans, hins æðsta valdhafa, þess sem öllum nægir, hins upphafnasta, þess sem allir leita ásjár hjá.
Seg: Ó Guð minn! Ó Þú sem ert skapari himins og jarðar, ó Drottinn ríkisins! Þú þekkir vel leyndarmál hjarta míns en verund Þín er órannsakanleg öllum nema sjálfum Þér. Þú sérð allt sem er af mér og engum er það fært nema Þér. Veit mér af náð Þinni það sem gerir mér kleift að komast af án alls nema Þín og ákvarða mér það sem gerir mig óháðan öllum nema Þér. Gef að ég megi uppskera ávinning lífs míns í þessum heimi og þeim sem kemur. Opna fyrir augliti mínu hlið náðar Þinnar og veit mér náðarsamlega mikla miskunn Þína og gjafir.
Ó Þú Drottinn ríkulegrar náðar! Lát himneska hjálp Þína umvefja alla þá sem elska Þig og gef okkur þær gjafir og hylli sem eru í eigu Þinni. Ver okkur nægur umfram allt annað, fyrirgef syndir okkar og miskunna Þig yfir okkur. Þú ert Drottinn okkar og Drottinn alls sem skapað er. Engan áköllum við nema Þig og einskis leitum við nema vildar Þinnar. Þú ert Drottinn veglyndis og náðar, ósigrandi í valdi Þínu og fremstur allra í áformum Þínum. Enginn er Guð nema Þú, eigandi alls, hinn upphafnasti.
Veit blessanir Þínar, ó Drottinn minn, sendiboðum Þínum, hinum heilögu og réttlátu. Sannlega ert Þú Guð, hinn óviðjafnanlegi og alknýjandi.
—Bábinn
Ó Drottinn! Hjá Þér leita ég athvarfs og sný hjarta mínu í átt til allra tákna Þinna.
Ó Drottinn! Hvort sem ég er á ferðalagi eða heima við, í starfi mínu og atvinnu, set ég allt traust mitt á Þig.
Veit mér hjálp Þína, sem ein nægir mér, svo að ég verði óháður öllu sem er, ó Þú sem ert óviðjafnanlegur í miskunnsemi Þinni!
Úthluta mér mínum skerfi, ó Drottinn, að vild Þinni, og gef að ég geri mér hvaðeina að góðu, sem Þú hefur ákvarðað mér.
Óskorað er vald Þitt að skipa.
—Bábinn
Seg: Guð nægir öllu framar öllu, og ekkert á himnum né jörðu nægir nema Guð. Sannlega er Hann í sjálfum sér, sá er þekkir, forsjá lífsins, hinn alvaldi.
—Bábinn
Ó Guð, Guð minn! Þú ert von mín og ástvinur, æðsta þrá mín og takmark! Af mikilli auðmýkt og algjörri helgun bið ég til Þín að gera mig að bænaturni ástar Þinnar í landi Þínu, lampa þekkingar Þinnar meðal skepna Þinna og fána guðlegs örlætis í ríki Þínu.
Tel mig með þeim þjónum Þínum sem hafa skilist frá öllu nema Þér, helgað sig frá hverfulleika þessa heims og frelsað sig frá hvískri þeirra sem ala á fánýtum hugarburði.
Fyll hjarta mitt fögnuði með anda staðfestingar frá ríki Þínu og lát birta fyrir sjónum með stöðugri úthellingu guðlegrar liðveislu frá ríki allsráðandi dýrðar Þinnar.
Þú ert að sönnu hinn almáttugi og aldýrlegi, hinn alvoldugi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Guð, Guð minn! Gef mér bikar fullan lausnar frá öllu sem er og gleð mig með víni ástar á Þér á þingi gjafa Þinna og ljósa. Frelsa mig frá atlögum ástríðu og löngunar, leys mig úr hlekkjum þessa lægri heims, laða mig í fagnaðarleiðslu til Þíns guðdómlega ríkis og endurnær mig meðal þjónustumeyja Þinna með andvara heilagleika Þíns.
Ó Drottinn, ger ásjónu mína bjarta af ljósum gjafa Þinna, fær augum mínum ljóma með táknum Þíns allsráðandi máttar; veit hjarta mínu unað með dýrð þekkingar Þinnar sem umvefur allt sem er, gleð sál mína með endurlífgandi tíðindum mikils fagnaðar, ó Þú konungur þessa heims og ríkisins á hæðum, ó Þú Drottinn yfirráða og máttar, svo ég megi kunngera tákn Þín og ummerki allt um kring, kynna málstað Þinn og útbreiða kenningar Þínar, þjóna lögmáli Þínu og upphefja orð Þitt.
Þú ert vissulega hinn voldugi, sá sem ætíð gefur, hinn megnugi, hinn alvaldi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Andlegur þroski
Gef mér að drekka af ilmsætum straumi eilífðar Þinnar, ó Guð minn. Og ger mér fært að bragða á ávöxtunum á tré verundar Þinnar, ó von mín. Leyf mér að teyga af kristaltærum lindum ástar Þinnar, ó dýrð mín. Og leyf mér að hvílast í forsælunni af eilífri umhyggju Þinni, ó ljós mitt. Leyf mér að reika á völlum návista við Þig frammi fyrir augliti Þínu, ó minn ástfólgni. Og set mig til hægri handar hásætis miskunnar Þinnar, ó þrá mín. Lát leika um mig blæ af ilmsætum andvara fagnaðar Þíns, ó takmark mitt. Og veit mér inngöngu á hæðir paradísar veruleika Þíns, ó minn dáði. Leyf mér að hlýða á söngvana, sem dúfa einingar Þinnar kurrar, ó Þú hinn skínandi. Og lífga mig með anda valds Þíns og máttar, ó forsjón mín. Ger mig staðfastan í anda ástar Þinnar, ó hjálp mín. Og ger mig stöðugan á vegi velþóknunar Þinnar, ó skapari minn. Lát mig dvelja að eilífu í garði ódauðleika Þíns frammi fyrir ásýnd Þinni, ó Þú sem ert mér miskunnsamur. Og staðfest mig í dýrðarsessi Þínum, ó Þú sem ert eigandi minn. Lyft mér upp til himins ástúðar Þinnar, ó lífgjafi minn. Og leið mig til sólar handleiðslu Þinnar, ó Þú sem heillar mig. Kveð Þú mig fram fyrir opinberun Þíns ósýnilega anda, Þú sem ert upphaf mitt og æðsta ósk. Og lát mig leita aftur til ilmkjarna fegurðar Þinnar, sem Þú munt birta, ó Þú sem ert Guð minn.
Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér þóknast. Þú ert vissulega hinn háleitasti, hinn aldýrlegi, hinn alhæsti.
—Bahá’u’lláh
Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð minn, og endurnýja kyrrláta samvisku í mér, ó von mín. Staðfest mig með anda máttarins í málstað Þínum, ó minn ástfólgni, og lýs mér veg Þinn með ljósi dýrðar Þinnar, ó takmark þrár minnar. Lyft mér upp til himins heilagleika Þíns með afli yfirskilvitlegs máttar Þíns, ó uppspretta verundar minnar, og gleð mig með andblæ eilífðar Þinnar, ó Þú sem ert Guð minn. Lát eilíf söngljóð Þín færa mér ró, ó félagi minn, lát ríkidæmi aldinnar ásýndar Þinnar leysa mig frá öllu nema Þér, ó meistari minn, og lát tíðindin um opinberun Þíns ólýtanlega kjarna færa mér fögnuð, ó Þú, sem ert raunverulegastur alls hins raunverulega og huldastur alls hins hulda.
—Bahá’u’lláh
Hann er hinn náðugi og veglyndi.
Ó Guð, Guð minn! Kall Þitt hefur heillað mig og rödd dýrðar penna Þíns vakið mig. Straumur heilagra orða Þinna hefur hrifið mig og vín innblásturs Þíns gert mig hugfanginn. Þú sérð mig, ó Drottinn, fráhverfan öllu nema Þér, halda í líftaug hylli Þinnar og þrá undur náðar Þinnar. Ég bið Þig við eilífar öldur ástúðar Þinnar og skínandi ljós blíðrar umhyggju Þinnar og hylli að veita það sem laðar mig nær Þér og auðgar mig af ríkidæmi Þínu. Tunga mín, penni, öll verund mín ber vitni valdi Þínu, mætti, náð og hylli, að Þú ert Guð og enginn er Guð nema Þú, hinn voldugi og máttugi.
Ég ber vitni á þessu andartaki, ó Guð minn, hjálparleysi mínu og yfirráðum Þínum, valdi Þínu og vanmætti mínum. Ég veit ekki hvað skaðar mig né kemur mér að gagni; Þú ert sannlega hinn alvitri og alvísi. Ákvarða mér það, ó Drottinn Guð minn og meistari minn, sem sættir mig við eilífa ákvörðun Þína og lætur mig dafna í öllum veröldum Þínum. Þú ert í sannleika hinn náðugi og gjafmildi.
Drottinn! Snú mér ekki burt frá úthafi auðæfa Þinna og himni náðar Þinnar og ákvarða mér hið góða í þessum heimi og þeim sem kemur. Sannlega ert Þú Drottinn náðarsætisins, konungur í upphæðum; enginn er Guð nema Þú, hinn eini, sá sem allt þekkir, hinn alvísi.
—Bahá’u’lláh
Ó Drottinn minn! Lát fegurð Þína vera fæðu mína, nærveru Þína drykk minn, velþóknun Þína von mína, lofgjörð um Þig athöfn mína, minningu um Þig félaga minn, mátt alveldis Þíns hjálp mína, híbýli Þín heimili mitt og dvalarstað minn það sæti, sem Þú hefur helgað frá þeim takmörkunum, sem lagðar eru á þá sem eru útilokaðir frá Þér eins og með blæju.
Þú ert sannlega hinn alvaldi, hinn aldýrlegi og máttugasti.
—Bahá’u’lláh
Lofað sé nafn Þitt, ó Drottinn Guð minn! Ég er þjónn Þinn sem hef tekið í líftaug Þinnar mildu miskunnar og haldið í klæðisfald örlætis Þíns. Ég sárbæni Þig við nafn Þitt, sem hefur lagt undir Þig allt sem skapað er bæði sýnilegt og ósýnilegt, og dreift andanum sem er lífið sjálft yfir gervalla sköpunina, að styrkja mig með mætti Þínum sem umlykur himna og jörð, og verja mig öllum sjúkleika og raunum. Ég ber því vitni að Þú ert Drottinn allra nafna og ákvarðar allt sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi, sá er allt þekkir, hinn alvísi.
Ákvarða mér, ó Drottinn minn, það sem er mér hagfellt í sérhverri veröld veralda Þinna. Sjá mér einnig fyrir því sem Þú hefur ritað niður fyrir hina útvöldu meðal skepna Þinna, þá sem hvorki lastmæli lastarans, háreysti hins trúlausa né firring þeirra sem hafa fjarlægst Þig hefur tekist að snúa frá Þér.
Þú ert að sönnu hjálpin í nauðum í krafti yfirráða Þinna. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og voldugasti.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð minn, Guð örlætis og miskunnsemi. Þú ert konungurinn, sem skipaði fyrir um sköpun alheimsins, og Þú ert hinn örláti, sem aldrei hefur látið verk þjóna sinna aftra sér frá að sýna náð sína né látið þá spilla opinberun örlætis síns.
Ég sárbæni Þig að leyfa þjóni Þínum að öðlast það, sem frelsar hann í öllum heimum veraldar Þinnar. Þú ert vissulega hinn almáttugi og öflugasti, hinn alvitri og alvísi.
—Bahá’u’lláh
Hann er Guð, sá sem heyrir bænir og svarar þeim.
Við dýrð Þína, ó ástvinur, Þú sem gefur heiminum ljós. Eldur aðskilnaðar hefur eytt mér og afglöp mín tæra hjarta mitt. Ég bið Þig við Þitt mesta nafn, ó Þú þrá heimsins og ástvinur mannkynsins, að gefa að andvari innblásturs megi styrkja sál mína, undursamleg rödd Þín ná eyrum mínum, augu mín líta tákn Þín og ljós eins og það opinberast í birtingum nafna Þinna og eiginda, ó Þú sem hefur í hendi Þinni allt sem er.
Þú sérð, ó Drottinn Guð minn, tár þeirra sem Þér eru kærir og sem falla vegna aðskilnaðar við Þig og ótta þeirra sem eru helgaðir Þér vegna fjarlægðar frá heilögum forgarði Þínum. Við mátt Þinn, sem hreyfir allt sem er, sýnilegt og ósýnilegt. Það sæmir ástvinum Þínum að gráta blóðugum tárum yfir hlutskipti hinna trúföstu í höndum illvirkja og kúgara jarðarinnar. Þú sérð, ó Guð minn, hvernig hinir óguðlegu hafa umkringt borgir Þínar og ríki! Ég bið Þig við sendiboða Þína og Þína útvöldu og þann sem hóf gunnfána himneskrar einingar Þinnar á loft meðal þjóna Þinna, að skýla þeim af veglyndi Þínu. Þú ert sannlega hinn náðugi, sá sem allt gefur.
Og enn bið ég Þig við ljúfar regnskúrir náðar Þinnar og öldurnar á hafi hylli Þinnar að ákvarða Þínum heilögu það sem færir augum þeirra fró og hjörtum þeirra hugsvölun. Drottinn! Þú sérð þann sem krýpur fullan löngunar til að rísa upp til að þjóna Þér, hinn dauða hrópa á eilíft líf frá úthafi hylli Þinnar og þrá að svífa til himins auðæfa Þinna, hinn ókunna sárþarfnast heimkynna dýrðar undir tjaldhimni náðar Þinnar, leitandann hraða för sinni vegna náðar Þinnar til hliðs örlætis Þíns, hinn synduga leita til úthafs fyrirgefningar og afláts.
Við yfirráð Þín, ó Þú sem ert vegsamaður í hjörtum manna! Ég hef leitað til Þín, yfirgefið minn eigin vilja og löngun svo að Þinn heilagi vilji og velþóknun megi ríkja í mér og leiða mig í samræmi við það sem penni eilífrar ákvörðunar Þinnar hefur fyrirhugað mér. Þessi þjónn, ó Drottinn, er hjálparvana en snýr sér til himinhnattar valds Þíns, niðurlægður en hraðar sér til dagsbrúnar dýrðar Þinnar, þurfandi en þráir úthaf náðar Þinnar. Ég bið Þig við hylli Þína og örlæti að varpa honum ekki frá Þér.
Þú ert vissulega hinn almáttugi, fyrirgefandinn, hinn vorkunnláti.
—Bahá’u’lláh
Dýrlegur ert Þú, ó Drottinn Guð minn! Ég flyt Þér þökk fyrir að hafa vakið mig til lífs á dögum Þínum og gætt mig ást Þinni og þekkingu. Ég bið Þig við nafn Þitt sem úr fjárhirslum hjartna þeirra, er þjóna í návist Þinni, hefur laðað fram töfrandi perlur visku Þinnar og látið sól nafns Þíns, hins vorkunnláta, úthella geislum sínum yfir alla sem eru á himni Þínum og jörðu Þinni, að veita mér af náð Þinni og mildi huldar gjafir Þínar og dásemdir.
Þetta eru fyrstu dagar lífs míns, ó Drottinn minn, sem Þú hefur tengt Þínum eigin dögum. Er Þú nú hefur sæmt mig slíkri vegsemd hald þá eigi frá mér því sem Þú hefur fyrirbúið Þínum útvöldu.
Ég er, ó Guð, frækorn sem Þú hefur sáð í akur ástar Þinnar og látið vaxa með gjöfulli hendi. Sáðkorn þetta þyrstir því í djúpum verundar sinnar eftir regni miskunnar Þinnar og lifandi uppsprettu náðar Þinnar. Send því niður til þess frá himni elsku Þinnar það sem gerir því kleift að blómgast í forsælu Þinni, innan mæra hirðar Þinnar. Þú ert sá sem vökvar hjörtu allra þeirra er borið hafa kennsl á Þig af nægtabrunni Þínum og lind lifandi vatna.
Lof sé Guði, Drottni allra veraldanna.
—Bahá’u’lláh
Seg: ó Guð, Guð minn! Krýn höfuð mitt kórónu réttlætisins og musteri mitt djásni sanngirninnar. Sannlega ert Þú eigandi allra gjafa og gæsku.
—Bahá’u’lláh
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við yfirskilvitlega dýrð nafns Þíns, að íklæða ástvini Þína kyrtli réttlætisins og upplýsa verund þeirra ljósi traustverðleikans. Þú ert sá sem hefur vald til að gera það sem Þér þóknast og heldur í greip Þinni stjórntaumum alls sem er, sýnilegs og ósýnilegs.
—Bahá’u’lláh
Lof sé Þér, ó Drottinn Guð minn. Ég sárbæni Þig við tákn Þín sem hafa umlukið allt sköpunarverkið, við ljós ásjónu Þinnar sem hefur uppljómað alla á himnum og jörðu, við miskunn Þína sem er hafin yfir allt sem skapað er, og við náð Þína sem hefur umvafið alheiminn, að svipta burt hulunum sem skilja mig frá Þér svo að ég megi hraða för minni að uppsprettu Þíns máttuga innblásturs og til dagsbrúnar opinberunar Þinnar og ríkulegra gjafa og sökkva í úthaf návistar Þinnar og velþóknunar.
Lát mig ekki, ó Drottinn minn, fara á mis við að þekkja Þig á dögum Þínum og afklæð mig ekki kyrtli leiðsagnar Þinnar. Gef mér að drekka af fljótinu sem er lífið sjálft og streymir frá paradísinni (Riḍván), þar sem hásæti nafns Þíns, hins almiskunnsama, var grundvallað; svo að augu mín megi opnast, andlit mitt uppljómast, hjarta mitt fullvissast, sál mín upplýsast og skref mín verða stöðug.
Þú ert sá sem frá upphafi varst öllu æðri sakir máttar Þíns og gast með fulltingi vilja Þíns ákvarðað allt. Alls ekkert á himni Þínum eða jörðu getur komið í veg fyrir ákvörðun Þína. Haf því miskunn með mér, ó Drottinn minn af náðugri forsjá Þinni og örlæti og hneig eyra mitt að ljúfum söngvum fuglanna sem syngja Þér lof í greinunum á tré einstæðis Þíns.
Þú ert gjafarinn mikli, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn vorkunnlátasti.
—Bahá’u’lláh
Gef mér, ó Guð minn, fullan mæli ástar Þinnar og velþóknunar og ger hjörtu okkar bergnumin er þau laðast að skínandi ljósi Þínu, ó Þú, sem ert hinn æðsti vitnisburður, hinn aldýrlegi. Send niður yfir mig, sem tákn um miskunn Þína, endurlífgandi andblæ Þinn á degi og að næturþeli, ó örláti Drottinn.
Enga dáð hef ég drýgt, ó Guð minn, að ég verðskuldi að líta ásýnd Þína og ég veit með vissu, að þótt ég lifði jafn lengi og veraldirnar vara, mundi mér ekki takast að drýgja neina þá dáð, sem verðskuldaði slíka hylli, því að staða þjóns Þíns verður ávallt óverðug heilögum híbýlum Þínum, nema örlæti Þitt nái til mín og ljúf miskunn Þín gagntaki mig og ástúð Þín umlyki mig.
Allt lof sé Þér, ó Þú, sem engan átt Þinn líka. Ger mér af náð Þinni kleift að stíga upp til Þín og hljóta þá vegsemd að dvelja í návist Þinni og hafa samneyti við Þig einan. Enginn er Guð nema Þú.
Í sannleika, ef Þú óskaðir að veita þjóni Þínum blessun, myndir Þú afmá úr hjarta hans alla minningu og hneigð nema minninguna um sjálfan Þig, og ef Þú áformaðir þjóni Þínum illt hlutskipti sakir þess sem hendur hans hafa ranglega unnið fyrir augliti Þínu, myndir Þú reyna hann með gæðum þessa heims og hins næsta, til þess að þau tækju hug hans allan og hann gleymdi að minnast Þín.
—Bábinn
Ó Guð minn! Ó Guð minn! Dýrð sé Þér fyrir að hafa gefið mér staðfestu til að viðurkenna einingu Þína, laðað mig að orði einstakleika Þíns, upptendrað mig með eldi ástar Þinnar og látið mig festa hugann við minningu Þína og þjónustu við vini Þína og þjónustumeyjar.
Ó Drottinn, hjálpa mér að vera auðmjúkur og undirgefinn, gef mér styrk til að skiljast frá öllu sem er og ná traustu taki á klæðisfaldi dýrðar Þinnar svo hjarta mitt megi fyllast ást Þinni og ekkert rúm verði eftir fyrir ást á heiminum og eftirsókn eftir eigindum hans.
Ó Guð! Helga mig frá öllu nema Þér, hreinsa mig af sora, synd og yfirtroðslu og gef að ég eignist andlegt hjarta og samvisku.
Sannlega ert Þú miskunnsamur og sannlega ert Þú hinn örlátasti, sá sem allir leita ásjár hjá.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Drottinn minn! Ó Drottinn minn! Þetta er lampi sem lýsir af eldi ástar Þinnar og skín af loganum sem er glæddur í tré náðar Þinnar. Ó Drottinn minn! Glæð funa hans, hita og eld með bálinu sem brennur á Sínaí opinberunar Þinnar. Sannlega ert Þú sá sem staðfestir, hjálparinn, hinn voldugi og örláti, hinn ástríki.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Guð minn! Ó Guð minn! Þessi þjónn Þinn hefur nálgast Þig, reikar löngunarfullur í eyðimörk kærleika Þíns, gengur vegu þjónustu Þinnar, væntir hylli Þinnar, vonast eftir örlæti Þínu, treystir á ríki Þitt og ölvast af víni gjafar Þinnar. Ó Guð minn! Auk ástarhita hans til Þín, staðfestu lofs hans og hita elsku hans á Þér.
Sannlega ert Þú hinn örlátasti, Drottinn ríkulegrar náðar. Enginn er Guð nema Þú, fyrirgefandinn, hinn miskunnsami.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Guð, Guð minn! Þetta er geislandi þjónn Þinn og andlegur bandingi sem hefur laðast að Þér og nálgast návist Þína. Hann hefur beint andliti sínu að Þér, viðurkennt einingu Þína, játað einstæði Þitt og hann hefur kallað í Þínu nafni meðal þjóðanna og leitt mennina að streymandi vatni miskunnar Þinnar, ó Þú örlátasti Drottinn! Þá sem þess fóru á leit gaf hann að drekka af bikar leiðsagnar sem flóir yfir af víni takmarkalausrar náðar Þinnar.
Ó Drottinn, aðstoða hann undir öllum kringumstæðum, gef honum þekkingu á vel varðveittum leyndardómum Þínum og lát rigna yfir hann huldum perlum Þínum. Ger hann að gunnfána sem blaktir frá kastalahæðum í vindi himneskrar aðstoðar Þinnar og ger hann að uppsprettu kristaltærs vatns.
Ó fyrirgefandi Drottinn minn! Upplýs hjörtun með geislum þess lampa sem gefur frá sér ljós á alla vegu og afhjúpar þeim af lýði Þínum, sem Þú hefur sýnt ríkulegt örlæti, raunveruleika alls sem er.
Sannlega ert Þú hinn máttugi og voldugi, verndarinn, hinn sterki og gæskuríki. Sannlega ert Þú Drottinn allra miskunnsemda.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Guð, Guð minn! Þetta eru veikburða þjónar Þínir, trúfastir bandingjar Þínir og þjónustumeyjar, sem hafa beygt sig fyrir upphöfnum orðum Þínum og auðmýkt sig við fótskör ljóss Þíns og borið vitni einingu Þinni sem hefur látið sólina skína í hádegisljóma. Þeir hafa hlýtt á hvatningarorðin sem Þú mæltir frá huldu ríki Þínu og svarað kalli Þínu með hjörtum sem titruðu af ást og hrifningu.
Ó Drottinn, úthell yfir þá allri náð Þinni, lát rigna yfir þá vatni miskunnar Þinnar. Lát þá vaxa sem fagrar jurtir í garði himinsins og lát þennan garð blómgast með regni úr barmafullum og yfirflóandi skýjum gjafa Þinna og djúpum hyljum ríkulegrar náðar. Ger hann ætíð grænan og skrúðmikinn, ávallt ferskan, tindrandi og bjartan.
Þú ert sannlega hinn máttugi og upphafni, hinn voldugi, sá eini á himnum og jörðu sem ekki breytist. Enginn er Guð nema Þú, Drottinn augljósra tákna og ummerkja.
—‘Abdu’l‑Bahá
Hann er Guð!
Ó Guð, Guð minn! Þetta eru þjónar Þínir sem á Þínum eigin dögum hafa laðast að ilmi heilagleika Þíns, upptendrast af loganum sem brennur í Þínu heilaga tré, svara rödd Þinni og flytja lof um Þig. Þeir hafa vaknað við andvara Þinn, eru snortnir af ljúfri angan Þinni, líta tákn Þín, skilja vers Þín, hyggja að orðum Þínum, trúa opinberun Þinni og eru fullvissir um ástúð Þína. Augu þeirra, ó Drottinn, líta ljómandi dýrðarríki Þitt og ásjónur þeirra beinast að veldi Þínu á hæðum, hjörtu þeirra slá af ást á geislandi og dýrlegri fegurð Þinni, sálir þeirra eru alteknar af eldi ástar Þinnar, ó Drottinn þessa heims og þess sem kemur. Líf þeirra ólgar af heitri þrá eftir Þér og tár þeirra streyma sakir Þín.
Skýl þeim í virki verndar Þinnar og öryggis, og varðveit þá í vökulli umsjá Þinni. Lít til þeirra með miskunn og handleiðslu, ger þá að þeim táknum guðlegrar einingar Þinnar sem eru auðsæ á öllum sviðum, gunnfána máttar Þíns sem blakta yfir tignarsetrum Þínum, skínandi lampa sem loga af olíu visku Þinnar í ljóshjálmum leiðsagnar Þinnar, fugla í garði þekkingar Þinnar sem syngja á hæstu greinum í Þinni skjólsælu paradís, og levjatana í úthafi örlætis Þíns sem steypa sér í ómælisdjúp af einstæðri miskunn Þinni.
Ó Drottinn, Guð minn! Þessir þjónar Þínir eru lítils megnugir, upphef þá í ríki Þínu hið efra; veikburða, styrk þá af Þínum æðsta mætti; niðurlægðir, veit þeim dýrð Þína á alhæsta sviði Þínu; fátækir, auðga þá í voldugu ríki Þínu. Ákvarða þeim einnig allt hið góða sem Þú hefur fyrirbúið í veröldum Þínum, sýnilegum og ósýnilegum, veit þeim hagsæld hins jarðneska heims og gleð hjörtu þeirra með innblæstri Þínum, ó Drottinn allra! Uppljóma hjörtu þeirra með fagnaðarerindum Þínum sem dreift er frá aldýrlegri stöðu Þinni, ger skref þeirra stöðug í Þínum æðsta sáttmála og styrk lendar þeirra í Þinni óhagganlegu erfðaskrá, af veglyndi Þínu og náð, sem Þú hefur heitið þeim, ó Þú hinn náðugi og miskunnsami! Þú ert vissulega hinn náðugi, sá sem allt gefur.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Þú framfærandi! Þú hefur andað ljúfum ilmi heilags anda yfir vinina á Vesturlöndum og lýst upp vesturhimininn með ljósi leiðsagnar. Þú hefur laðað þá til Þín sem eitt sinn voru fjarlægir, Þú hefur gert hina ókunnu að ástríkum vinum, Þú hefur vakið þá sem sváfu, Þú hefur gert hina gálausu aðgætna.
Ó Þú framfærandi! Aðstoða þessa göfugu vini við að ávinna sér velþóknun Þína og ger þá að velunnurum jafnt vina sem ókunnugra. Leið þá inn í veröld sem varir að eilífu, veit þeim hlutdeild í himneskri náð, lát þá verða sanna bahá’ía, einlæga í Guði, frelsa þá frá ytri eftirlíkingum og grundvalla þá staðfastlega í sannleikanum. Ger þá að táknum og ummerkjum ríkisins, skínandi stjörnur yfir sjónarhring þessa lægra lífs. Ger þá að huggun og hugsvölun mannkyns, þjóna heimsfriðarins. Ölva þá víni heilræða Þinna og gef að þeir megi allir feta stigu boða Þinna.
Ó Þú framfærandi! Heitasta ósk þessa þjóns fótskarar Þinnar er að sjá vinina í austri og vestri í nánu samneyti; að sjá alla menn koma saman í ást á einu miklu mannþingi líkt og staka vatnsdropa sameinaða í voldugu hafi, að sjá þá alla sem fugla í einum rósagarði, sem perlur eins hafs, lauf sama trés, geisla einnar sólar.
Þú ert hinn máttugi og voldugi og Þú ert Guð styrks, hinn almáttugi og alsjáandi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Börn
Ó Guð! Uppfræð þessi börn. Þau eru jurtir í garði Þínum, blóm á völlum Þínum, rósir í reit Þínum. Lát regn Þitt falla yfir þau, lát veruleikans sól skína á þau vegna ástar Þinnar. Lát andvara Þinn endurnæra þau til þess að þau megi agast, vaxa og dafna og birtast í mestri fegurð. Þú ert gjafarinn. Þú ert hinn vorkunnláti.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Þú góði Drottinn! Fingur máttar Þíns mótuðu þessi yndislegu börn og þau eru undursamleg tákn mikilleika Þíns. Ó Guð! Vernda þessi börn, hjálpa þeim af náð Þinni að uppfræðast og ger þeim fært að þjóna mannheimi. Ó Guð! Þessi börn eru perlur. Lát þau vaxa í skel ástúðar Þinnar.
Þú ert hinn gjafmildi, sá sem allt elskar.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Drottinn! Ger þessi börn að fögrum blómum. Lát þau vaxa og dafna í garði sáttmála Þíns og veit ferskleika og fegurð með úthellingu úr skýjum Þíns dýrðarríkis.
Ó Þú góði Drottinn! Ég er lítið barn, veit mér þann heiður að fá inngöngu í ríki Þitt. Ég er af jörðu, ger mig himneskt. Ég er af þessum lægri heimi, leyf mér að tilheyra ríkinu á hæðum. Ég er af myrkri, ger mig geislandi. Ég er efnislegt, ger mig andlegt og gef að ég megi birta takmarkalaust veglyndi Þitt.
Þú ert hinn voldugi, sá sem allt elskar.
—‘Abdu’l‑Bahá
Hann er Guð! Ó Guð, Guð minn! Gef mér hjarta hreint sem perlu.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Guð, leið mig, gæt mín, ger mig að skínandi lampa og tindrandi stjörnu. Þú ert hinn máttugi og hinn voldugi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Drottinn minn! Ó Drottinn minn! Ég er barn á viðkvæmu skeiði. Nær mig úr brjósti miskunnar Þinnar, aga mig í faðmi ástar Þinnar, uppfræð mig í skóla leiðsagnar Þinnar og þroska mig í forsælu örlætis Þíns. Leys mig frá myrkri, ger mig að skæru ljósi. Frelsa mig frá óhamingju, ger mig að blómi rósagarðsins. Gef að ég verði þjónn fótskarar Þinnar og veit mér lunderni og skaphöfn hins réttláta. Ger mig uppsprettu velgjörða fyrir heim mannsins og krýn höfuð mitt djásni eilífs lífs. Vissulega ert Þú hinn voldugi og máttugi, sjáandinn og heyrandinn.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó óviðjafnanlegi Drottinn! Ver athvarf þessu vesalings barni og vorkunnlátur meistari þessari villuráfandi og óhamingjusömu sál. Ó Drottinn! Þótt við séum aðeins einskisnýtar jurtir tilheyrum við samt rósagarði Þínum. Þótt við séum berir kvistir tilheyrum við urtagarði Þínum. Nær því þessa jurt með regni úr skýjum mildrar miskunnar Þinnar og fjörga og endurnær þennan kvist með lifandi andvara Þíns andlega vors. Ger hann aðgætinn, skilningsríkan og göfugan, gef að hann eignist ævarandi líf og dvelji í ríki Þínu að eilífu.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó, Þú Drottinn undursamlegrar náðar!
Veit okkur nýja blessun. Gef okkur ferskleik vorsins. Við erum frjóangar, sem fingur örlætis Þíns hafa gróðursett og höfum verið mótuð úr vatni og leir mildrar ástúðar Þinnar. Okkur þyrstir eftir lifandi vötnum hylli Þinnar og eigum allt undir úthellingu úr skýjum örlætis Þíns. Lát ekki þennan trjálund ræktarlausan, þar sem vonir okkar vaxa og neita honum ekki um regn ástríkis Þíns. Gef að úr skýjum miskunnar Þinnar megi falla gnægð regns til þess að meiður lífs okkar megi bera ávöxt og við fáum kærustu óskir hjartna okkar uppfylltar.
—‘Abdu’l‑Bahá
Hann er hinn dýrlegasti!
Ó miskunnsami Drottinn minn! Þetta er jasinta, sem vaxið hefur í garði velþóknunar Þinnar, og grein, sem hefur sprottið í lundi sannrar þekkingar. Gef, ó Drottinn örlætisins, að hún megi stöðugt og ævinlega endurnærast af lífgandi andblæ Þínum og ger hana gróskumikla, ferska og blómstrandi með úthellingu úr skýjum örlætis Þíns, ó Þú góði Drottinn!
Vissulega ert Þú hinn aldýrlegi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ungbörn
Lof sé Þér, ó Drottinn Guð minn! Gef náðarsamlega að þessi hvítvoðungur megi drekka af brjósti mildrar miskunnar Þinnar og ástríkrar forsjár og nærast af ávöxtunum sem vaxa á Þínum himnesku trjám. Fel hann ekki forsjá neins nema Þín, því Þú skapaðir hann sjálfur og gafst honum líf með mætti allsráðandi valds Þíns og vilja. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og alvitri.
Lofaður sért Þú, ó ástvinur minn. Lát berast yfir hann ljúfan ilm Þinnar yfirskilvitlegu hylli og angan heilagra gjafa Þinna. Ger honum því kleift að leita skjóls í forsælu Þíns upphafnasta nafns, ó Þú sem hefur í hendi Þér ríki nafna og eiginda. Sannlega ert Þú þess megnugur að gera það sem Þér líst og Þú ert að sönnu hinn máttugi og upphafni, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn náðugi og örláti, hinn miskunnsami.
—Bahá’u’lláh
Ó Þú óviðjafnanlegi Guð! Lát þennan brjóstmylking nærast af brjóstum ástúðar Þinnar, vernda hann í vöggu öryggis og verndar Þinnar og gef að hann megi alast upp í faðmi blíðrar ástúðar Þinnar.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Guð! Fóstra þetta ungbarn í faðmi ástar Þinnar og gef því mjólk úr brjósti forsjár Þinnar. Rækta þennan ferska sprota í rósagarði ástar Þinnar og hjálpa honum að vaxa með skúrum örlætis Þíns. Ger það að barni ríkisins og leið það inn í Þinn guðlega heim. Þú ert voldugur og góður, Þú ert veitandinn, hinn göfugi, Drottinn óviðjafnanlegs örlætis.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Drottinn! Vernda Þú börnin, sem fæðast á þessum degi, sem nærast við brjóst ástar Þinnar og uppvaxa í skauti náðar Þinnar.
Ó Drottinn! Þau eru vissulega ungar greinar, sem dafna í görðum þekkingar Þinnar; þau eru brumandi lim í trjálundi náðar Þinnar. Gef þeim skerf af gnótt gjafa Þinna, lát þau dafna og blómgast í regninu, sem fellur úr skýjum gjafa Þinna.
Þú ert vissulega hinn örláti, hinn mildi, hinn samúðarfulli.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Þú flekklausi Guð! Ég er lítið barn, gef að brjóst ástúðar Þinnar verði brjóstið sem mér er kært, leyf mér að nærast af mjólk og hunangi ástar Þinnar, fóstra mig í skauti þekkingar Þinnar og veit mér visku og göfuglyndi meðan ég enn er á barnsaldri.
Ó Þú sjálfumnógi Guð! Ger mig að trúnaðarvini í ríkinu ósýnilega. Vissulega ert Þú hinn máttugi, hinn voldugi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Eining
Ó Guð minn! Ó Guð minn! Sameina hjörtu þjóna Þinna og birt þeim Þitt mikla áform. Megi þeir fylgja boðum Þínum og halda lög Þín. Hjálpa þeim, ó Guð, í viðleitni þeirra og gef þeim styrk til að þjóna Þér. Ó Guð! Lát þá ekki eina, en lýs þeim hvert fótmál þeirra með ljósi þekkingar Þinnar og gleð hjörtu þeirra með ást Þinni. Vissulega ert Þú hjálp þeirra og Drottinn þeirra.
—Bahá’u’lláh
Ó Þú sem ert Drottinn Drottna! Ég ber því vitni að Þú ert Drottinn allrar sköpunarinnar og uppfræðari allra vera, sýnilegra og ósýnilegra. Ég ber því vitni að vald Þitt hefur umlukið allan alheiminn og að herskarar jarðarinnar geta aldrei skelft Þig né heldur getur máttur allra manna og þjóða aftrað Þér frá því að framkvæma áform Þitt. Ég staðfesti að fyrir Þér vakir ekkert nema endursköpun alls heimsins, eining þjóða hans og endurlausn allra sem í honum búa.
—Bahá’u’lláh
Guð gefi að ljós einingarinnar megi umlykja alla jörðina og innsiglinu „Ríkið er Guðs“ megi verða þrýst á enni allra þjóða hennar.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð minn! Ó Guð minn! Sannlega ákalla ég Þig og sárbæni við fótskör Þína, biðjandi þess að allar miskunnsemdir Þínar megi stíga niður yfir þessar sálir. Útvel þær fyrir hylli Þína og sannleika.
Ó Drottinn! Sameina og knýt saman hjörtun, teng saman í samstillingu allar sálir og ger andana fagnandi með táknum heilagleika Þíns og einleika. Ó Drottinn! Ger þessi andlit geislandi með ljósi einleika Þíns. Styrk lendar þjóna Þinna í þjónustu við ríki Þitt.
Ó Drottinn, Þú sem ert eigandi takmarkalausrar náðar! Ó Drottinn fyrirgefningar og afláts! Fyrirgef syndir okkar, umber vankanta okkar og lát okkur leita til ríkis mildi Þinnar, ákallandi ríki máttar og valds, auðmjúka við helgidóm Þinn og undirgefna frammi fyrir dýrð vitnisburða Þinna.
Ó Drottinn Guð! Ger okkur sem öldur hafsins, sem blóm í garði, sameinuð og samstillt með hylli ástar Þinnar. Ó Drottinn, gleð brjóstin með táknum einleika Þíns og ger allt mannkynið sem stjörnur er skína úr sömu dýrðarhæðum, fullþroska ávexti á lífsmeiði Þínum.
Sannlega ert Þú hinn almáttugi og sjálfumnógi, gjafarinn, fyrirgefandinn, sá sem veitir aflausn, hinn alvísi, skaparinn eini.
—‘Abdu’l‑Bahá
Erfiðleikar og mótlæti
Prófraunir Þínar, Ó Guð minn, eru læknislyf þeim sem eru Þér nálægir, sverð Þitt dýpsta þrá allra sem elska Þig, spjót Þitt æðsta ósk hjartnanna sem þrá Þig, ákvörðun Þín eina von þeirra sem borið hafa kennsl á sannleik Þinn! Ég sárbæni Þig við himneskan sætleika Þinn og ljómann af dýrð ásjónu Þinnar, að senda niður til okkar frá athvarfi Þínu á hæðum, það sem mun gera okkur fært að nálgast Þig. Ger skref okkar stöðug, ó Guð, í málstað Þínum, upplýs hjörtu okkar með ljósi þekkingar Þinnar og uppljóma brjóst okkar með birtu nafna Þinna.
—Bahá’u’lláh
Dýrð sé Þér, ó Guð minn! Ef ekki væri fyrir þjáningarnar sem þolaðar eru á vegi Þínum, hvernig mætti þekkja Þína sönnu elskendur? Og væri það ekki vegna mótlætisins sem borið er vegna ástar á Þér, hvernig mætti opinbera stöðu þeirra er þrá Þig? Vald Þitt ber mér vitni! Förunautar allra sem tilbiðja Þig eru tárin sem þeir fella, huggarar þeirra sem leita Þín eru andvörp þeirra og næring þeirra sem hraða sér á Þinn fund er agnirnar úr sundruðum hjörtum þeirra.
Hve sæt er mér ekki beiskja þess bana sem beðinn er á vegi Þínum og hve dýrmæt þykja mér ekki skeyti óvina Þinna, ef þeim er mætt til að upphefja orð Þitt! Lát það koma yfir mig í málstað Þínum, ó Guð minn, sem Þú óskar og sendu mér í elsku Þinni allt sem Þú hefur ákvarðað. Við dýrð Þína! Ég óska aðeins þess er Þú óskar og það eitt er mér kært sem Þér er kært. Á Þig hef ég ætíð sett allan trúnað minn og traust.
Reis Þú upp, þess bið ég Þig ó Guð minn, til aðstoðar þessari opinberun þá sem geta talist verðskulda nafn Þitt og yfirráð, svo að þeir megi minnast mín meðal skepna Þinna og hefja upp fána sigurs í landi Þínu.
Þú ert þess megnugur að gera sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
—Bahá’u’lláh
Dýrlegur ert Þú, ó Drottinn Guð minn! Sérhver maður sem gæddur er innsæi viðurkennir yfirráð Þín og vald og sérhvert skilningsríkt auga skynjar mikilleika tignar Þinnar og knýjandi vald máttar Þíns. Vindar prófrauna geta ekki aftrað þeim sem njóta návista við Þig að beina augum að sjónarhring dýrðar Þinnar og stormar mótlætis hnika þeim ekki úr stað, sem eru fullkomlega helgaðir vilja Þínum né varna þeim að nálgast forgarð Þinn.
Mér þykir sem lampi ástar Þinnar skíni í hjörtum þeirra og ljós blíðu Þinnar logi í brjóstum þeirra. Andstreymi getur ekki gert þá fráhverfa málstað Þínum og hverful forlög aldrei fengið þá til að víkja af vegi velþóknunar Þinnar
Ég sárbið Þig, ó Guð minn, við þá og andvörpin sem stíga frá hjörtum þeirra í aðskilnaði frá Þér að vernda þá gegn misgerðum andstæðinga Þinna og næra sálir þeirra með því sem Þú hefur ákvarðað þeim af Þínum elskuðu, sem ekki verða slegnir ótta og enginn fær bakað hryggð.
—Bahá’u’lláh
Tak frá mér sorg mína af veglyndi Þínu og örlæti, ó Guð, Guð minn, og nem á brott angist mína með mætti Þínum og yfirráðum. Þú sérð mig, ó Guð minn, beina augliti mínu til Þín á þeirri stund er sorgir hafa umkringt mig á alla vegu. Ég sárbæni Þig, ó Þú Drottinn allrar verundar sem yfirskyggir allt sýnilegt og ósýnilegt, við nafn Þitt sem hefur sigrað hjörtu og sálir manna, og við öldurnar á úthafi náðar Þinnar og ljómann af sól hylli Þinnar að telja mig til þeirra sem alls ekkert hefur aftrað frá að leita til Þín, ó Þú Drottinn allra nafna og smiður himnanna.
Þú sérð, ó Drottinn minn, hlutskipti mitt á dögum Þínum. Ég sárbið Þig við Hann sem er dagrenning nafna Þinna og dagsbrún eiginda Þinna, að ákvarða mér það sem gerir mér kleift að rísa upp til að þjóna Þér og vegsama dyggðir Þínar. Þú ert sannlega hinn almáttugi og voldugasti, sem ert vanur að svara bænum allra manna.
Og loks bið ég Þig við ljós ásýndar Þinnar, að blessa málefni mín, greiða úr skuldum mínum og fullnægja þörfum mínum. Sérhver tunga hefur borið valdi Þínu og yfirráðum vitni og sérhvert skilningsríkt hjarta viðurkennt tign Þína og herradóm. Enginn er Guð nema Þú, sá sem heyrir og er reiðubúinn að svara.
—Bahá’u’lláh
Lofaður og dýrlegur ert Þú, ó Guð minn!
Ég bið Þig við andvörp ástvina Þinna og tár þeirra sem þrá að sjá Þig, að svipta mig ekki mildri miskunn Þinni á Þínum dögum né meina mér að hlýða á söngva dúfunnar, sem vegsamar einingu Þína frammi fyrir ljósinu sem skín frá ásýnd Þinni. Ég er þjáður, ó Guð! Lít mig halda fast við nafn Þitt, eigandi alls. Tortíming er mér vís, lít mig halda fast við nafn Þitt, hinn ótortímanlegi. Ég bið Þig við sjálfan Þig, hinn upphafna, hinn hæsta, að gefa mig ekki á vald mínu eigin sjálfi og ástríðum spilltrar hneigðar. Tak í hönd mína með hendi valds Þíns, frelsa mig úr afgrunni ímyndana og fánýts hugarburðar og hreinsa mig af öllu sem Þér er andstyggð.
Lát mig síðan leita heilshugar til Þín, setja allt traust mitt á Þig, leita á náðir Þínar og flýja til ásýndar Þinnar. Þú ert að sönnu sá sem gerir það sem Þér líst í krafti máttar Þíns og fyrirskipar með afli vilja Þíns hvaðeina sem Þú kýst. Enginn fær staðið í gegn framkvæmd ákvörðunar Þinnar, enginn breytir stefnunni sem Þú hefur markað. Þú ert í sannleika hinn almáttugi og aldýrlegi, hinn örlátasti.
—Bahá’u’lláh
Er nokkur sá er firrir erfiðleikum nema Guð? Seg: Lof sé Guði, Hann er Guð! Allir eru þjónar Hans og allir lúta boðum Hans.
—Bábinn
Þú veist vel, ó Guð minn, að þrengingar hafa steðjað að mér úr öllum áttum og enginn getur eytt þeim eða umbreytt nema Þú. Ég veit með fullri vissu vegna ástar minnar á Þér, að Þú munt aldrei láta þrengingu verða á vegi neinnar sálar nema Þú viljir upphefja stöðu hennar í himneskri paradís Þinni og styrkja hjarta hennar í þessu jarðneska lífi með virkismúrum Þíns allsráðandi valds til þess að það hneigist ekki að hégóma þessa heims. Þú veist að sönnu fullvel að hvernig sem á stendur myndi ég miklu fremur varðveita minningu Þína en eignast allt sem er á himnum og jörðu.
Styrk hjarta mitt, ó Guð minn, í ást Þinni og í hlýðni við Þig og gef að ég megi leysast frá allri hersingu andstæðinga Þinna. Sannlega sver ég við dýrð Þína, að ég þrái ekkert nema Þig, óska einskis nema miskunnar Þinnar og óttast ekkert nema réttlæti Þitt. Ég bið Þig að fyrirgefa mér og þeim sem Þú elskar með hverjum þeim hætti sem Þér þóknast. Vissulega ert Þú hinn almáttugi og örláti.
Ómælanlega upphafinn ert Þú, ó Drottinn himnanna og jarðarinnar, yfir lofgjörð manna og friður sé með trúföstum þjónum Þínum og dýrð sé Guði, Drottni allra veraldanna.
—Bábinn
Ég heiti á Þig við mátt Þinn, ó Guð minn!
Lát ekkert verða mér að meini á tímum prófrauna og á gáleysisstundum leiðbein Þú fótsporum mínum með innblæstri Þínum. Þú ert Guð, megnugur ert Þú að gera það sem Þér þóknast. Enginn fær staðið gegn vilja Þínum eða haldið aftur af ákvörðun Þinni.
—Bábinn
Ó Drottinn! Þú ert sá, sem fjarlægir alla angist og flæmir á braut sérhverja þrengingu. Þú ert sá, sem gerir útlæga hverja sorg og leysir sérhvern bandingja, endurlausnari allra sálna. Ó Drottinn! Veit Þú lausn Þína sakir miskunnar Þinnar og tel mig með þeim þjónum Þínum, sem hlotnast hefur frelsun.
—Bábinn
Fjölskyldur
Dýrð sé Þér, ó Drottinn Guð minn! Ég bið Þig að fyrirgefa mér og þeim sem styðja trú Þína. Vissulega ert Þú allsráðandi Drottinn, fyrirgefandinn, hinn örlátasti. Ó Guð minn! Gef að þeir þjónar Þínir sem eru sviptir þekkingu á Þér fái inngöngu í málstað Þinn, því þegar þeir eitt sinn hafa heyrt um Þig bera þeir vitni sannleika dómsdags og andmæla ekki opinberunum örlætis Þíns. Sendu niður yfir þá tákn náðar Þinnar og gef þeim, hvar sem þeir búa, ríkulegan skerf af því sem Þú hefur ákvarðað hinum guðræknu meðal þjóna Þinna. Þú ert í sannleika hinn æðsti stjórnandi, hinn gæskuríkasti, sá sem allt gefur.
Ó Guð minn! Lát hylli Þína og blessanir streyma yfir heimili þeirra sem tekið hafa trú Þína sem tákn um náð Þína og til merkis um ástúð frá návist Þinni. Vissulega ert Þú fremstur þeirra sem fyrirgefa. Veitist einhverjum ekki náð Þín, hvernig gæti hann talist meðal fylgjenda trúar Þinnar á degi Þínum?
Blessaðu mig, ó Guð minn, og þá sem trúa á tákn Þín á hinum tilskipaða degi og þá sem ala ást mína í brjósti sínu – ástina sem Þú gefur þeim. Vissulega ert Þú Drottinn réttlætis, hinn upphafnasti.
—Bábinn
Foreldrar
Þú sérð, ó Drottinn, biðjandi hendur okkar teygja sig fram til himins gjafa Þinna og veglyndis. Gef að þær megi fyllast fjársjóðum rausnar Þinnar og örlátrar hylli. Fyrirgef okkur, feðrum okkar og mæðrum, og uppfyll allar óskir okkar úr hafi náðar Þinnar og guðdómlegs örlætis. Veit viðtöku, ó Ástvinur hjartna okkar, öllum verkum okkar á vegi Þínum. Þú ert vissulega hinn voldugasti og upphafnasti, hinn eini og óviðjafnanlegi, fyrirgefandinn, hinn náðugi.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð, Guð minn! Ég sárbæni Þig við blóð Þinna sönnu elskenda sem voru svo hugfangnir af ljúfum orðum Þínum, að þeir hröðuðu sér til tinda dýrðarinnar, á vettvang hins dýrlegasta píslarvættis, og ég sárbið Þig við þá leyndardóma sem eru fólgnir í þekkingu Þinni, og við perlurnar sem varðveittar eru í hafi hylli Þinnar, að veita mér, föður mínum og móður minni fyrirgefningu Þína. Þú ert í sannleika miskunnsamastur þeirra sem auðsýna miskunn. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn algjöfuli.
—Bahá’u’lláh
Ég bið Þig fyrirgefningar, ó Guð minn, og sárbæni um aflausn með þeim hætti sem Þú vilt að þjónar Þínir viðhafi er þeir snúa sér til Þín. Ég bið Þig um að hreinsa okkur af syndum okkar eins og sæmir yfirráðum Þínum og fyrirgefa mér, foreldrum mínum og þeim sem að Þínu mati hafa gengið inn í híbýli ástar Þinnar eins og hæfir yfirskilvitlegum yfirráðum Þínum og sæmir dýrð Þíns himneska valds.
Ó Guð minn! Þú hefur innblásið sál minni að færa Þér bæn sína og væri það ekki fyrir Þitt tilstilli myndi ég ekki ákalla Þig. Vegsamaður og dýrlegur sért Þú. Ég færi Þér lof því að Þú opinberaðist mér, og ég bið Þig að fyrirgefa mér því ég hef vanrækt þá skyldu mína að þekkja Þig og látið undir höfuð leggjast að ganga vegu ástar Þinnar.
—Bábinn
Ó Drottinn! Í þessu almesta trúarkerfi leyfir Þú að börn hafi milligöngu fyrir foreldra sína. Þetta er ein hinna sérstæðu takmarkalausu gjafa þessa trúarkerfis. Svara því, ó Þú góði Drottinn, beiðni þessa þjóns Þíns við fótskör einstæðis Þíns og sökk föður hans í haf náðar Þinnar vegna þess að þessi sonur hefur hafist handa um að þjóna Þér og sýnir stöðuga viðleitni á vegi ástar Þinnar. Vissulega ert Þú gjafarinn, fyrirgefandinn og hinn gæskuríki.
—‘Abdu’l‑Bahá
Eiginmenn
Ó Guð, Guð minn! Þessi þjónustumey Þín ákallar Þig, treystir á Þig, snýr ásjónu sinni að Þér, sárbænir Þig að úthella yfir sig himneskum gjöfum Þínum, afhjúpa sér andlega leyndardóma Þína og varpa á sig ljósi guðdóms Þíns.
Ó Drottinn minn! Gef augum eiginmanns míns sjón. Gleð hjarta hans með ljósi þekkingar á Þér, laða huga hans að geislandi fegurð Þinni, ger hann fagnandi með því að opinbera honum augljósa dýrð Þína.
Ó Drottinn minn! Tak huluna frá augum hans. Lát ríkulegri hylli Þinni rigna yfir hann, ölva hann með víni ástar á Þér, ger hann einn af englum Þínum sem ganga á jörðunni meðan sálir þeirra svífa í hæstu himnum. Lát hann verða geislandi lampa, sem skín af ljósi visku Þinnar meðal manna.
Vissulega ert Þú hinn dýrmæti, sá sem ætíð gefur, hinn örláti.
—‘Abdu’l‑Bahá
Fyrirgefning
Dýrlegur ert Þú, ó Drottinn Guð minn. Ég bið Þig við Þína útvöldu, þá sem varðveita trúnað Þinn og þann sem Þú hefur gert að innsigli spámanna Þinna, að gera minningu Þína að félaga mínum, ást Þína að markmiði mínu, ásýnd Þína takmark mitt, nafn Þitt lampa minn, ósk Þína að þrá minni og velþóknun Þína unað minn.
Ég er syndari, ó Drottinn minn, og Þú ert sá sem ætíð fyrirgefur. Jafnskjótt og ég bar kennsl á Þig, hraðaði ég mér til upphafins forgarðs ástúðar Þinnar. Fyrirgef mér, ó Drottinn minn, syndir mínar sem hafa aftrað mér að ganga vegu velþóknunar Þinnar og ná til sjávarstranda einleika Þíns.
Það er enginn, ó Drottinn minn, sem getur sýnt mér veglyndi að ég geti beint augliti mínu til hans og enginn sem séð getur aumur á mér að ég megi leita sárbiðjandi á náðir hans. Varpa mér ekki, ég grátbæni Þig, frá návist náðar Þinnar og meina mér ekki um úthellingu örlætis Þíns og hylli. Ákvarða mér, ó Drottinn minn, það sem Þú hefur ákvarðað þeim sem elska Þig og rita niður fyrir mig það sem Þú hefur ritað niður fyrir Þína útvöldu. Auglit mitt hefur ætíð beinst að sjónarhring náðarsamlegrar forsjónar Þinnar og augu mín að forgarði mildrar miskunnar Þinnar. Ger við mig sem Þér sæmir. Enginn er Guð nema Þú, Guð valds, Guð dýrðar, sá sem allir sárbæna um hjálp.
—Bahá’u’lláh
Ég er sá, ó Drottinn minn, sem hef beint augliti mínu að Þér og fest vonir mínar á undrum náðar Þinnar og opinberunum hylli Þinnar. Ég bið Þig að láta mig ekki hverfa vonsvikinn frá dyrum náðar Þinnar né gefa mig á vald þeim af skepnum Þínum sem hafa afneitað málstað Þínum.
Ég er, ó Guð minn, þjónn Þinn og sonur þjóns Þíns. Ég hef borið kennsl á sannleika Þinn á dögum Þínum og beint skrefum mínum til stranda einleika Þíns, játað einstæði Þitt, viðurkennt einingu Þína og vonast eftir fyrirgefningu Þinni og aflausn. Þú hefur vald til að gera það sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hinn aldýrlegi, sá sem ætíð fyrirgefur.
—Bahá’u’lláh
Þú sérð mig, ó Drottinn minn, beina augliti mínu að himnaríki örlætis Þíns og úthafi hylli Þinnar, fráhverfan öllu nema Þér. Ég bið Þig við ljómann af sól birtingar Þinnar á Sínaí og geisladýrðina af ljóshnetti náðar Þinnar sem skín frá sjónbaug nafns Þíns, þess er ætíð fyrirgefur, að mér hlotnist miskunn Þín og fyrirgefning. Rita einnig niður fyrir mig með dýrðarpenna Þínum, það sem með nafni Þínu mun upphefja mig í heimi sköpunarinnar. Hjálpa mér, ó Drottinn minn, að leita til Þín og hlýða á rödd Þinna elskuðu, sem öflum jarðarinnar hefur ekki tekist að veikja og veldi þjóðanna ekki megnað að halda frá Þér og sem sagt hafa á leið sinni til Þín: „Guð er Drottinn okkar og Drottinn allra á himnum og jörðu!“
—Bahá’u’lláh
Dýrlegur ert Þú, ó Drottinn Guð minn! Í hvert sinn sem ég dirfist að nefna Þig aftra mér stórfelldar syndir mínar og hörmuleg yfirtroðsla gagnvart Þér og mér finnst ég gjörsamlega sviptur náð Þinni og fullkomlega vanmegna að vegsama Þig. Mikið traust mitt á örlæti Þínu vekur þó að nýju von um Þig og fullvissa mín um veglyndi Þitt gefur mér kjark til að lofa Þig og biðja um það sem er í eigu Þinni.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við náð Þína sem er æðri öllu sem skapað er og sem allir, sem umluktir eru hafdjúpum nafna Þinna bera vitni, að gefa mig ekki á vald mínu eigin sjálfi, því hjarta mitt hneigist til ills. Vernda mig því í virki Þínu og athvarfi umhyggju Þinnar. Ég er sá, ó Guð minn, sem óska þess eins sem Þú hefur ákvarðað í krafti máttar Þíns. Allt sem ég hef kosið sjálfum mér er að njóta hjálpar náðarsamlegra tilskipana Þinna og ákvörðunar vilja Þíns og fá fulltingi táknanna um ákvörðun Þína og dóm.
Ég bið Þig innilega, ó Þú ástvinur hjartnanna sem þrá Þig, við opinberendur málstaðar Þíns og dagsbrúnir innblásturs Þíns, boðbera tignar Þinnar og fjárhirslur þekkingar Þinnar að láta mig ekki fara á mis við Þín heilögu híbýli, musteri Þitt og tjaldbúð. Hjálpa mér, ó Drottinn, að komast til heilags forgarðs Hans, hringsóla um persónu Hans og standa auðmjúkur við dyr Hans.
Þú ert sá sem valdið hefur frá eilífð til eilífðar. Ekkert er dulið þekkingu Þinni. Þú ert sannlega Guð valds, Guð dýrðar og visku.
Lofaður sé Guð, Drottinn veraldanna!
—Bahá’u’lláh
Lofað sé nafn Þitt, ó Guð minn og Guð alls sem er, dýrð mín og dýrð alls sem er, þrá mín og þrá alls sem er, styrkur minn og styrkur alls sem er, konungur minn og konungur alls sem er, eigandi minn og eigandi alls sem er, markmið mitt og markmið alls sem er, sá sem hreyfir við mér og hreyfir við öllu sem er. Ég sárbæni Þig um að halda mér ekki frá úthafi Þinnar mildu miskunnar né láta mig dveljast fjarri ströndum nálægðar við Þig.
Alls ekkert nema Þú, ó Drottinn minn, kemur mér að liði og aðgangur að öðrum en Þér sjálfum stoðar mig ekkert. Ég bið Þig við allsnægtir Þínar, sem Þú úthlutar öllum nema sjálfum Þér, að telja mig með þeim sem hafa beint augum til Þín og risið upp til að þjóna Þér.
Fyrirgef því, ó Drottinn minn, þjónum Þínum og þjónustumeyjum. Þú ert að sönnu sá er ætíð fyrirgefur, hinn samúðarfyllsti.
—Bahá’u’lláh
Er syndarinn finnur sig frjálsan og fráhverfan öllu nema Guði, ætti hann að biðja Hann fyrirgefningar og afláts. Það er eigi leyfilegt að játa syndir sínar og yfirtroðslu frammi fyrir nokkrum manni með því að það hefur aldrei og mun aldrei stuðla að guðlegri fyrirgefningu. Auk þess veldur slík játning frammi fyrir öðrum auðmýkingu og lítillækkun mannsins, og Guð – upphafin sé dýrð Hans – vill ekki auðmýkingu þjóna sinna. Vissulega er Hann hinn vorkunnláti, hinn miskunnsami. Syndarinn ætti, sín í milli og Guðs, að sárbæna um miskunn frá hafi miskunnsemdanna, biðja fyrirgefningar frá himni örlætisins og segja:
Ó Guð, Guð minn! Ég sárbæni Þig við blóð Þinna sönnu elskenda sem voru svo hugfangnir af ljúfum orðum Þínum, að þeir hröðuðu sér til tinda dýrðarinnar, á vettvang hins dýrlegasta píslarvættis, og ég sárbið Þig við þá leyndardóma sem eru fólgnir í þekkingu Þinni, og við perlurnar sem varðveittar eru í hafi hylli Þinnar, að veita mér, föður mínum og móður minni fyrirgefningu Þína. Þú ert í sannleika miskunnsamastur þeirra sem auðsýna miskunn. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn algjöfuli.
Ó Drottinn! Þú lítur þennan kjarna syndsamleikans snúa sér til úthafs hylli Þinnar og þennan smælingja leita ríkis Þíns himneska valds og þennan fátækling hneigjast að sól auðlegðar Þinnar. Við miskunn Þína og náð Þína, vald honum ekki vonbrigðum, ó Drottinn, né hald honum frá opinberunum hylli Þinnar á dögum Þínum, né varpa honum frá dyrum Þínum sem Þú hefur opnað á gátt öllum sem dvelja á himni Þínum og jörðu Þinni.
Því er ver! Því er ver! Syndir mínar hafa hindrað mig frá því að nálgast hirð heilagleika Þíns og misgerðir mínar hafa orðið þess valdandi, að ég hef reikað langt frá tjaldbúð tignar Þinnar. Ég hef framið það sem Þú bannaðir mér og hef lagt það til hliðar sem Þú bauðst mér að varðveita.
Ég bið Þig við Hann sem er yfirbjóðandi Drottinn nafna, að rita niður fyrir mig með penna hylli Þinnar það sem gera mun mér megnugt að nálgast Þig og sem mun hreinsa mig af misgerðum mínum sem komið hafa á milli mín og fyrirgefningar Þinnar og afláts.
Vissulega ert Þú hinn máttugi, hinn örláti. Enginn er Guð nema Þú, hinn máttugi, hinn náðugi.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð, Guð minn. Náð Þín hefur fyllt mig hugrekki og réttlæti Þitt vakið mér ótta. Sæll er sá sem Þú hefur auðsýnt náð Þína og vei þeim er hlýtur dóm Þinn.
Drottinn. Ég hef flúið undan réttvísi Þinni og leitað náðar Þinnar, snúið undan reiði Þinni og sárbeðið fyrirgefningar. Ég bið til Þín við vald Þitt, yfirráð, dýrð og hylli, að uppljóma svo mannkynið með ljósi þekkingar Þinnar að alls staðar megi sjá handaverk Þín, hvarvetna birtist leyndardómar valds Þíns og allt opinberi ljós þekkingar Þinnar.
Þú ert sá sem grundvallaðir sköpunina og hefur lýst henni með ljósi umhyggju Þinnar og forsjár.
Þú ert sá sem allt gefur, hinn náðugi.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð, Drottinn okkar! Vernda okkur sakir náðar Þinnar gegn öllu, sem kann að vekja andúð Þína, og veit okkur það, sem sæmir Þér vel. Gef okkur enn ríflegar af örlæti Þínu og blessa okkur. Fyrirgef okkur það sem við höfum gert, hreinsa okkur af syndum okkar og veit okkur aflausn með mildri fyrirgefningu Þinni. Sannlega ert Þú hinn háleitasti, hinn sjálfumnógi.
Ástúðleg forsjón Þín hefur umlukið allt sem skapað er á himnum og jörðu og fyrirgefning Þín hefur yfirstigið alla sköpunina. Þitt er fullveldið og í höndum Þínum eru ríki sköpunar og opinberunar. Í hægri hendi Þinni heldur Þú öllu sem skapað er og í greip Þinni eru deildir verðir fyrirgefningar. Þú fyrirgefur þeim af þjónum Þínum, sem Þér þóknast. Sannlega ert Þú sá, sem ætíð fyrirgefur, sá sem allt elskar. Alls ekkert getur umflúið þekkingu Þína og ekkert er Þér dulið.
Ó Guð, Drottinn okkar! Vernda okkur með mætti afls Þíns, ger okkur kleift að ganga inn í undursamlegt, svellandi úthaf Þitt og veit okkur það, sem sæmir Þér vel.
Þú ert æðsti stjórnandinn, gerandinn máttugi, hinn upphafni, sá sem allt elskar.
—Bábinn
Lof sé Þér, ó Drottinn. Fyrirgef syndir okkar, auðsýn okkur miskunn og ger okkur fært að snúa aftur til Þín. Lát okkur ekki treysta á neitt nema Þig og miðla okkur af örlæti Þínu því sem Þú elskar og þráir og sæmir Þér vel. Ger háleita stöðu þeirra, sem hafa trúað í sannleika og fyrirgef þeim af náðarríkri fyrirgefningu Þinni. Sannlega ert Þú hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
—Bábinn
Ég bið Þig að fyrirgefa mér, ó Drottinn minn, alla minningu nema minninguna um Þig, alla lofgjörð nema lofgjörð til Þín, allan unað nema unaðinn af návist Þinni, alla ánægju nema ánægjuna af samneyti við Þig, allan fögnuð nema fögnuð ástar Þinnar og velþóknunar, og allt sem mér tilheyrir en ekki tilheyrir Þér, ó Þú sem ert Drottinn drottna, sá sem opnar dyrnar og gerir leiðirnar greiðfærar.
—Bábinn
Dýrð sé Þér, ó Guð. Hvernig get ég nefnt Þig þegar Þú ert helgaður yfir lofgjörð alls mannkyns. Miklað sé nafn Þitt, ó Guð, Þú ert konungurinn, sannleikurinn eilífi. Þú veist hvað er á himnum og jörðu og til Þín verða allir að hverfa aftur. Þú hefur sent niður guðlega ákvarðaða opinberun Þína í samræmi við skýran mælikvarða. Lofaður sért Þú, ó Drottinn! Að boði Þínu gerir Þú hvern sem Þér þóknast sigursælan með herskörum himins og jarðar og alls sem þar er á milli. Þú ert yfirbjóðandinn, sannleikurinn eilífi, Drottinn ósigrandi valds.
Dýrð sé Þér, ó Drottinn, Þú fyrirgefur ævinlega syndir þeirra sem biðja Þig um aflausn. Hreinsa mig af syndum mínum og þá sem leita fyrirgefningar Þinnar í dögun, sem biðja til Þín að degi til og að næturþeli, sem þrá ekkert nema Guð og fórna öllu sem Guð hefur náðarsamlega gefið þeim, sem færa Þér lof kvölds og morgna og vanrækja ekki skyldur sínar.
—Bábinn
Ég veit, ó Drottinn, að yfirsjónir mínar hafa hulið ásjónu mína smán í návist Þinni og hafa íþyngt mér frammi fyrir Þér, komið á milli mín og fagurrar ásýndar Þinnar, umkringt mig á alla vegu og aftrað mér frá að öðlast hlutdeild í opinberunum Þíns himneska valds.
Ó Drottinn, ef Þú fyrirgefur mér ekki, hver á þá að veita aflausn, og ef Þú auðsýnir mér ekki miskunn, hver er það þá, sem séð getur aumur á mér? Dýrð sé Þér; Þú skapaðir mig þegar ég var ekki og Þú nærðir mig þegar ég var án skilnings. Lof sé Þér; sérhver örlætisvottur framgengur frá Þér og sérhvert tákn náðar kemur úr fjárhirslum ákvörðunar Þinnar.
—Bábinn
Ó Þú vorkunnláti Drottinn! Þú ert athvarf öllum þessum þjónum Þínum. Þú þekkir leyndarmálin og ekkert fer fram hjá Þér. Öll erum við hjálparvana og Þú ert hinn máttugi og alvoldugi. Öll erum við syndug og Þú ert sá sem fyrirgefur syndir, hinn miskunnsami og samúðarríki. Ó Drottinn! Lít ekki á vankanta okkar. Ger við okkur samkvæmt náð Þinni og veglyndi. Vankantar okkar eru margir en úthaf fyrirgefningar Þinnar takmarkalaust. Veikleiki okkar er hörmulegur, en tákn hjálpar Þinnar og aðstoðar auðsæ. Veit okkur því styrk og staðfestu. Ger okkur kleift að inna það af höndum sem er verðugt heilagri fótskör Þinni. Uppljóma hjörtu okkar. Gef okkur skýra sjón og næma heyrn. Endurlífga dauða og lækna sjúka. Auðga snauða og veit óttaslegnum öryggi og frið. Veit okkur viðtöku í ríki Þínu og uppljóma okkur með ljósi leiðsagnar. Þú ert hinn voldugi og alvaldi. Þú ert hinn göfugi og mildi. Þú ert hinn gæskuríki.
—‘Abdu’l‑Bahá
Græðing
Ó Guð, Guð minn! Ég bið Þig við úthaf lækningar Þinnar, ljómann frá sól náðar Þinnar, nafn Þitt, sem Þú hefur sigrað með þjóna Þína, gagntakandi afl Þíns æðsta orðs, mátt Þíns tignasta penna og miskunn Þína sem er æðri sköpun alls sem er á himnum og jörðu, að hreinsa mig með vatni örlætis Þíns af hvers konar þraut og óreglu, öllum veikleika og þróttleysi.
Þú sérð, ó Drottinn minn, bónarmann Þinn bíða við dyr örlætis Þíns og þann sem bundið hefur vonir sínar við Þig, halda sér í líftaug veglyndis Þíns. Ég bið Þig að synja honum ekki um það sem hann leitar úr úthafi náðar Þinnar og frá sól ástúðar Þinnar.
Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, sá er ætíð fyrirgefur, hinn örlátasti.
—Bahá’u’lláh
Nafn Þitt er lækning mín, ó Guð minn, og minningin um Þig er mér heilsulind. Nálægðin við Þig er von mín og kærleikurinn til Þín er félagi minn. Miskunn Þín við mig er lækning mín og hjálp bæði í þessum heimi og þeim, sem mun koma. Þú ert vissulega hinn örláti og alvitri, hinn alvísi.
—Bahá’u’lláh
Dýrð sé Þér, ó Drottinn Guð minn! Ég sárbæni Þig við nafn Þitt sem Þú lést hefja upp gunnfána leiðsagnar Þinnar, úthella ljósi ástúðar Þinnar og opinbera yfirráð drottnunar Þinnar, nafnið sem Þú birtir með lampa nafna Þinna í umhverfi eiginda Þinna og lét Hann sem er tjaldbúð einingar Þinnar og birting andlegrar lausnar ganga fram geislandi, kunngera vegu leiðsagnar Þinnar og marka stigu velþóknunar Þinnar, hnika grundvelli ranginda og nema úr gildi tákn illskunnar. Með þessu nafni lést Þú lindir viskunnar vella og sendir niður hið himneska matarborð. Með því lést Þú varðveita þjóna Þína og veita græðingu Þína, sýna milda miskunn Þína þjónum Þínum og opinbera fyrirgefningu Þína meðal skepna Þinna. Ég sárbæni Þig við þetta nafn að varðveita þann sem hefur snúið aftur til Þín og haldið fast við Þig og miskunn Þína og tekið í klæðisfald ástríkrar forsjónar Þinnar. Send því niður yfir hann líkn Þína og græð hann, gef honum staðfestu sem er af Þér og hugarró sem gefin er af hátign Þinni.
Þú ert vissulega græðarinn, sá sem varðveitir, hjálparinn, hinn almáttugi, hinn voldugi og aldýrlegi, sá sem allt þekkir.
—Bahá’u’lláh
Vegsamaður sért Þú, ó Drottinn Guð minn! Ég sárbæni Þig við Þitt mesta nafn, sem Þú vaktir með þjóna Þína og byggðir upp borgir Þínar, og við ágætustu nafnbætur Þínar og tignustu eigindir, að aðstoða fólk Þitt við að snúa sér í átt til margfaldra gjafa Þinna og beina ásjónum sínum að tjaldbúð visku Þinnar. Græð Þú sjúkdómana, sem steðjað hafa að sálunum á alla vegu og aftrað þeim frá því að beina augum að paradísinni, sem liggur í skjóli Þíns yfirskyggjandi nafns, sem Þú ákvaðst að vera skyldi konungur allra nafna öllum á himni og jörðu. Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér þóknast. Í Þínum höndum er veldi allra nafna. Enginn er Guð nema Þú, hinn máttugi og vitri.
Ég er aðeins vesöl vera, ó Drottinn minn; ég hef tekið föstu taki í klæðisfald auðlegðar Þinnar. Ég er sársjúkur og hef haldið fast um líftaug græðingar Þinnar. Frelsa mig frá veikindunum sem hafa umkringt mig og lauga mig kostgæfilega í vatni náðar Þinnar og miskunnar, og skrýð mig klæðum heilbrigðis með fyrirgefningu Þinni og örlæti. Fest síðan augu mín á Þér og losa mig úr viðjum alls nema Þín. Hjálpa mér að gera það sem Þú þráir og uppfylla það sem Þér þóknast.
Þú ert sannarlega Drottinn þessa lífs og hins næsta. Þú ert í sannleika sá sem ætíð fyrirgefur, hinn miskunnsamasti.
—Bahá’u’lláh
Ó góði Guð. Þú ert mér betri en ég sjálfur og kærleikur Þinn meiri og eldri. Hvenær sem ég er minntur á gjafir Þínar fyllist ég gleði og von. Hafi sál mín verið í uppnámi hlýt ég frið í sálu og hjarta. Hafi veikindi þjáð mig fæ ég eilíft heilbrigði. Hafi ég verið ótrúr verð ég trúr. Hafi ég verið vonlaus fyllist ég von.
Ó Þú Drottinn konungsríkisins. Gleð Þú hjarta mitt, efl Þú veiklyndan huga minn og styrk Þú örþreyttar taugar. Lát birta fyrir augum, leyf eyrum mínum að heyra svo ég megi hlýða á tónlist konungsríkis Þíns og öðlast ævarandi fögnuð og hamingju. Sannarlega ert Þú hinn örláti, sá sem gefur, hinn mildi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Fyrir konum
Dýrð sé Þér, ó Drottinn Guð minn! Ég bið til Þín við nafn Þitt sem setti fegurð Þína í hásæti málstaðar Þíns, sem Þú umbreytir öllu með, safnar öllu saman, kallar allt til reikningsskila, umbunar öllu, varðveitir allt og sérð fyrir öllu. Ég bið Þig að gæta þessarar þjónustumeyjar sem flúið hefur á náðir Þínar og leitað hælis hjá Honum sem Þú sjálfur birtist í. Á Þig hefur hún sett allan sinn trúnað og traust.
Hún er sjúk, ó Guð minn, og hefur gengið inn í forsæluna af tré lækningar Þinnar, þjökuð og hefur flúið til borgar verndar Þinnar, vanheil og hefur leitað uppsprettu hylli Þinnar, sármædd og hefur hraðað sér að lind rósemi Þinnar, þrúguð af syndum og hefur beint augliti sínu að aðsetri fyrirgefningar Þinnar.
Íklæð hana, Ó Guð minn, minn elskaði, græðingu Þinni og lækningu með yfirráðum Þínum og ástúð og lát hana teyga af bikar miskunnar Þinnar og hylli. Vernda hana enn fremur gegn öllum raunum og kvillum, kvöl og sjúkleika, og öllu sem Þér kann að vera andstyggð.
Þú ert að sönnu ómælanlega hafinn yfir allt annað en Þig sjálfan. Þú ert vissulega græðarinn, sá sem öllu nægir, verndarinn, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn miskunnsamasti.
—Bahá’u’lláh
Fyrir ungbörnum
Nöfn Þín, ó Guð minn, eru líkn sjúkum og læknisdómur þjáðum, svaladrykkur þyrstum og fró kvöldum, leiðsögn villtum og upphafning smáðum, ríkidæmi snauðum og upplýsing fáfróðum, uppljómun döprum og huggun sorgmæddum, ylur köldum og uppreisn niðurlægðum. Með nafni Þínu, ó Guð minn, voru allir hlutir lífgaðir og himnarnir þandir út og jörðin grundvölluð og skýin hafin upp og látin senda regn sitt yfir jörðina. Sannlega eru þetta tákn miskunnar Þinnar öllum skepnum Þínum.
Því sárbæni ég Þig við nafn Þitt, sem opinberaði guðdóm Þinn og hóf málstað Þinn ofar allri sköpuninni, og við sérhverja af ágætustu nafnbótum Þínum og tignustu eigindum og við allar þær dyggðir, sem vegsama yfirskilvitlega og háleitasta verund Þína að senda úr skýjum miskunnar Þinnar á þessari nóttu líknandi regn yfir þennan brjóstmylking sem Þú hefur samþýtt aldýrlegu sjálfi Þínu í ríki sköpunar Þinnar. Klæð hann því, ó Guð minn, af miskunn Þinni kyrtli vellíðunar og heilbrigðis og varðveit hann, ó ástvinur minn, fyrir sérhverri þrenging og glundroða og fyrir öllu sem Þér er andstyggð. Sannlega er máttur Þinn jafnoki alls sem er. Þú ert í sannleika hinn voldugasti og sjálfumnógi. Lát enn fremur rigna yfir hann, ó Guð minn, gæðum þessa heims og hins næsta og gæðum fyrri kynslóða og hinna síðari. Sannlega eru máttur Þinn og viska megnug þessa.
—Bahá’u’lláh
Langa lækningabænin
Hann er græðarinn, nægjandinn, hjálparinn, sá sem allt fyrirgefur, hinn almiskunnsami.
Ég ákalla Þig, ó upphafni, ó trúfasti, ó dýrlegi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó konungur, ó Þú sem upp reisir, ó dómari! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó óviðjafnanlegi, ó eilífi, ó einstæði! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó vegsamaðasti, ó heilagi, ó líknandi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó alvísi, ó vitrasti, ó hæsti! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó mildi, ó tigni, ó ákvarðandi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó elskaði, ó hjartfólgni, ó alsæli! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó máttugasti, ó viðhaldandi, ó voldugi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó stjórnandi, ó sjálfumnógi, ó alvitri! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó andi, ó ljós, ó sýnilegasti! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó Þú sem allir leita til, ó Þú sem allir þekkja, ó Þú sem ert öllum hulinn! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó huldi, ó sigursæli, ó veitandi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó almáttki, ó hjálpari, ó hyljandi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó mótandi, ó fullnægjandi, ó upprætandi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó rísandi, ó samsafnandi, ó upphefjandi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó fullkomnandi, ó frjálsi, ó gjöfuli! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó góðsami, ó Þú sem dylur, ó skapandi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó háleitasti, ó alfagri, ó gjafmildi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó réttláti, ó náðugi, ó örláti! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó allt-knýjandi, ó varanlegi, ó vitrasti! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó mikilfenglegi, ó aldni, ó veglyndi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó vel-varðveitti, ó Drottinn gleðinnar, ó þráði! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó Þú sem ert öllum góður, öllum vorkunnlátur, ó gæskuríkasti! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó allra athvarf, ó allra hæli, ó Þú sem allt varðveitir! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó líknari alls, ó Þú sem allir ákalla, ó endurlífgari! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó afhjúpandi, ó eyðandi, ó mildasti! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó Þú sál mín, ó Þú ástvinur minn, ó Þú trú mín! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó Þú sem slekkur þorstann, ó Þú yfirskilvitlegi Drottinn, ó dýrmætasti! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó mesta minning, ó göfugasta nafn, ó elsti vegur! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó tignaðasti, ó heilagasti, ó helgaði! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó frelsandi, ó ráðgjafi, ó endurleysandi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó vinur, ó læknir, ó heillandi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó dýrð, ó fegurð, ó gjafmildi! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó traustsverðasti, ó besti ástvinur, ó Drottinn dögunarinnar! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó glæðari, ó upplýsandi, ó Þú sem færir unað! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó Drottinn örlætisins, ó vorkunnlátasti, ó miskunnsamasti! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó stöðugi, ó lífgefandi, ó uppspretta allrar verundar! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó Þú sem gagntekur allt, ó alsjáandi, ó Drottinn orðsins! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó sýnilegi en samt huldi, ó Þú sem enginn sér en öllum ert kunnur, ó áhorfandi sem allir leita! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ég ákalla Þig, ó Þú sem vegur ástvinina, ó Drottinn sem líknar meingjörðamönnunum! Þú sem nægir, Þú sem græðir, Þú sem varir, ó Þú ævarandi!
Ó nægjandi, ég ákalla Þig, ó nægjandi!
Ó græðari, ég ákalla Þig, ó græðari!
Ó varandi, ég ákalla Þig, ó varandi!
Þú sem varir að eilífu, ó Þú ævarandi!
Helgaður ert Þú, ó Guð minn! Ég grátbæni Þig vegna örlætis Þíns, sem Þú opnaðir með á gátt hlið hylli Þinnar og náðar og grundvallaðir musteri heilagleika Þíns á veldisstóli eilífðarinnar, og vegna miskunnar Þinnar, sem Þú bauðst með öllu sem skapað er að borði gjafa Þinna og hylli, og sakir náðar Þinnar, er Þú svaraðir með í Þínu eigin sjálfi með orði Þínu „Já!“ af hálfu allra á himnum og jörðu á þeirri stundu, er yfirráð Þín og tign voru birt, í dagrenningu þegar máttur veldis Þíns var opinberaður. Og aftur grátbæni ég Þig við þessi fegurstu nöfn Þín, við þessar göfugustu og æðstu eigindir og við upphöfnustu minningu Þína og við hreina og flekklausa fegurð Þína og við hulið ljós Þitt í huldustu höll Þinni og við nafn Þitt, íklætt þjáningu á hverjum morgni og hverju kvöldi, að vernda þann sem ber þessa blessuðu töflu, og þann sem les hana, og þann sem á hana rekst, og þann sem fer hjá húsinu sem geymir hana. Græð fyrir hennar orð alla sjúka, lasburða og fátæka, af allri þrenging og harmi, af öllum illum raunum og sorg, og leiðbein Þú fyrir orð hennar hverjum þeim sem óskar að ganga stigu leiðsagnar Þinnar og vegu fyrirgefningar Þinnar og náðar.
Þú ert vissulega hinn voldugi, sá sem öllum nægir, græðandinn, verndarinn, gjafarinn, hinn vorkunnláti og gjafmildasti, hinn almiskunnsami.
—Bahá’u’lláh
Hjónaband
„Bahá’í hjónaband er eining og hjartanleg ástúð beggja aðila. Þau verða þó að sýna ítrustu gætni og kynnast lunderni hvort annars. Þetta eilífa band ætti að tryggja með stöðugum sáttmála og tilgangurinn á að vera að rækta samstillingu, vináttu og einingu og öðlast eilíft líf.“
—‘Abdu’l‑Bahá
Hjónabandsheitið, helgiorðin sem brúður og brúðgumi hafa yfir hvort í sínu lagi að viðstöddum að minnsta kosti tveimur vitnum sem andlega ráðið hefur samþykkt, er svohljóðandi samkvæmt Kitáb-i-Aqdas (Hinni helgustu bók):
Brúðgumi: „Vissulega munum við allir lúta vilja Guðs.“ Brúður: „Vissulega munum við allar lúta vilja Guðs.“
Hann er gjafarinn, hinn veglyndi!
Lof sé Guði, hinum aldna og ævarandi, óumbreytilega og eilífa! Hann sem í sinni eigin verund hefur borið því vitni að Hann er sannlega hinn eini og einstæði, hinn óhefti og upphafni. Við berum því vitni að enginn er Guð nema Hann, viðurkennum einleika Hans og játum einstæði Hans. Hann hefur ætíð dvalið í ótilkvæmilegum hæðum, á tindum upphafningar sinnar, helgaður frá minningu alls nema sjálfs sín, óháður lýsingu alls nema sín.
Og er Hann vildi opinbera góðvild og miskunn meðal manna og koma reglu á heiminn opinberaði Hann fyrirmæli og grundvallaði lög; meðal þeirra setti Hann hjúskaparlögin, gerði þau að virki velfarnaðar og frelsunar og bauð okkur að halda þau í því sem var sent niður frá himni heilagleikans í helgustu bók Hans. Hann segir, mikil er dýrð Hans: „Gangið í hjónaband, ó fólk, til þess að af yður megi birtast sá sem minnist Mín meðal þjóna Minna; þetta er eitt boða Minna fyrir yður, hlýðnist því yður sjálfum til fulltingis.“
—Bahá’u’lláh
Hann er Guð!
Ó óviðjafnanlegi Drottinn! Í almáttugri visku Þinni hefur Þú boðið mönnunum að giftast til þess að ein kynslóð megi taka við af annarri í þessum efnisheimi, og til þess að þær geti eilíflega, svo lengi sem veröldin varir, unað við fótskör einingar Þinnar í þjónustu og tilbeiðslu, með hyllingu, vegsömun og lofgerð. „Ég skapaði eigi menn og anda til annars en að tilbiðja Mig.“ Sameina því á himni náðar Þinnar þessa tvo fugla í hreiðri ástar Þinnar og veit þeim eilífa miskunn, svo af sameiningu þessara tveggja úthafa ástarinnar megi rísa alda blíðunnar og varpa á strendur lífsins hreinum og skærum perlum. „Hann hefur leyst höfin tvö til þess að þau megi mætast: milli þeirra er tálmi, sem þeim tekst ekki að yfirstíga. Hvorri af gjöfum Guðs munið Þér hafna? Frá hvoru um sig laðar Hann fram stærri og minni perlur.“
Ó, góði Guð. Lát þetta hjónaband laða fram perlur og kóralla. Þú ert vissulega hinn almáttugi, hinn hæsti, sá er ætíð fyrirgefur.
—‘Abdu’l‑Bahá
Dýrð sé Þér, ó Guð Drottinn minn! Vissulega hafa þessi þjónn Þinn og þjónustumær komið saman í skugga miskunnar Þinnar og sameinast í krafti hylli Þinnar og örlætis. Ó Drottinn, hjálpa þeim í þessari veröld og í ríki Þínu og ákvarða þeim allt sem gott er með fulltingi hylli Þinnar og miskunnar. Ó Drottinn, staðfest þau í undirgefni við Þig og aðstoða þau í þjónustu við Þig. Lát þau verða tákn nafns Þíns í heimi Þínum og vernda þau með gjöfum Þínum, sem eru óþrotlegar í þessari veröld og þeirri sem kemur. Ó Drottinn, þau biðja til ríkis náðar Þinnar og ákalla ríki einstæðis Þíns. Vissulega eru þau gefin saman í hlýðni við boð Þín. Lát þau verða tákn samlyndis og einingar allt til loka. Vissulega ert Þú hinn alvaldi, hinn alls staðar nálægi og almáttugi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Drottinn minn, ó Drottinn minn! Þessir tveir björtu hnettir eru gefnir saman í ást Þinni, samtengdir í þjónustu við heilaga fótskör Þína, sameinaðir í umhyggju fyrir málstað Þínum. Lát þetta hjónaband verða sem flæðandi ljós mikillar náðar Þinnar, ó Drottinn minn, hinn almiskunnsami, og skínandi geisla gjafa Þinna, ó Þú hinn góðviljaði og sígjöfuli, svo að á þessu mikla tré megi spretta greinar sem vaxa grænar og gróskumiklar vegna gjafanna sem rignir úr skýjum náðar Þinnar.
Vissulega ert Þú hinn örláti. Vissulega ert Þú hinn almáttugi. Vissulega ert Þú hinn vorkunnláti og almiskunnsami.
—‘Abdu’l‑Bahá
Kennsla
Almennar bænir fyrir kennslu
Miklað sé nafn Þitt, ó Guð minn, að Þú hefur birt daginn sem er konungur daga, daginn sem Þú boðaðir Þínum útvöldu og spámönnum Þínum í Þínum ágætustu töflum, þann dag er Þú lést dýrðarljóma allra nafna Þinna lýsa yfir allt sem skapað er. Mikil er blessunin sem hlotnast þeim er hefur leitað til Þín, komist í návist Þína og heyrt óminn af rödd Þinni.
Ég bið Þig auðmjúklega, ó Drottinn minn, við nafn Hans sem ríki nafna Þinna snýst um í aðdáun, að Þú munir af náð Þinni hjálpa þeim sem Þér eru kærir að upphefja orð Þitt meðal þjóna Þinna og útbreiða lof um Þig meðal skepna Þinna, svo algleymi opinberunar Þinnar megi fylla sálir allra sem dvelja á jörðu Þinni.
Þar sem Þú hefur leitt þá, ó Drottinn minn, að lifandi lindum náðar Þinnar, gef af örlæti Þínu að þeim verði ekki vísað frá Þér, og fyrst Þú stefndir þeim til forgarðs hásætis Þíns, bæg þeim ekki frá návist Þinni sakir ástúðar Þinnar. Send það niður yfir þá sem leysir þá algerlega frá öllu nema Þér og ger þeim fært að svífa í heiði nálægðar Þinnar til slíkra hæða að hvorki yfirráð kúgarans né dylgjur þeirra, sem vantrúaðir eru á Þitt æðsta og máttugasta sjálf, megni að halda þeim frá Þér.
—Bahá’u’lláh
Lof sé Þér, ó Drottinn Guð minn! Ég sárbæni Þig við nafn Þitt sem enginn hefur virt að verðleikum, og merkingu þess engin sála skilið til fulls. Ég bið Þig auðmjúklega við Hann sem er uppspretta opinberunar Þinnar og dagsbrún tákna Þinna, að hjarta mitt fái að varðveita ást Þína og minningu. Lát það tengjast hinu mesta hafi, svo að frá því streymi lifandi fljót visku Þinnar og kristalstær straumur lofgerðar Þinnar og vegsömunar.
Limir líkama míns vitna um einingu Þína og hárið á höfði mér kunngerir vald yfirráða Þinna og máttar. Ég hef staðið við dyr náðar Þinnar í algjöru sjálfsleysi og afneitun, hjúfrað mig að klæðisfaldi örlætis Þíns og beint augum mínum að sjónarhring gjafa Þinna.
Fyrirhuga mér það sem hæfir mikilleika tignar Þinnar ó Guð minn, og aðstoða mig af Þinni styrkjandi náð að kenna svo málstað Þinn að hinir dauðu hraði sér úr gröfum sínum og haldi til Þín, í fullu trausti á Þér, beinandi sjónum að morgunljóma málstaðar Þíns og dagsbrún birtingar Þinnar.
Þú ert vissulega hinn voldugasti og hæsti, sá er allt þekkir, hinn alvísi.
—Bahá’u’lláh
Dýrð sé Þér, ó Drottinn heimsins og þrá þjóðanna, ó Þú sem hefur birst í Hinu mesta nafni, sem hefur látið perlur visku og tjáningar birtast í skeljunum í reginhafi þekkingar Þinnar og skrýtt himna guðlegrar opinberunar með ljósinu frá sól ásýndar Þinnar.
Ég bið Þig við orðið sem fullnaði sönnun Þína meðal skepna Þinna og uppfyllti lögmál Þitt meðal þjóna Þinna, að styrkja fylgjendur Þína svo að ásýnd málstaðarins ljómi í ríki Þínu, merki valds Þíns verði reist meðal þjóna Þinna og fánar leiðsagnar Þinnar dregnir að hún um gervöll ríki Þín.
Ó Drottinn minn. Þú sérð þá taka í líftaug náðar Þinnar og halda sér í kyrtilfald góðvildar Þinnar. Ákvarða þeim það sem færir þá nær Þér og lát þá ekki hneigjast að neinu öðru en Þér.
Ég bið Þig, ó Þú konungur tilverunnar og verndari hins séða og óséða, að gera hvern þann sem rís upp til að þjóna málstað Þínum að úthafi sem hreyfist að vild Þinni. Lát hann loga af eldi Þíns heilaga trés, sem lýsir frá sjónarhring himnaríkis vilja Þíns. Vissulega ert Þú hinn máttugi, sem hvorki öfl alls heimsins né styrkur þjóðanna fær veikt. Enginn er Guð nema Þú, hinn eini og óviðjafnanlegi, verndarinn, hinn sjálfumnógi.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð, sem ert höfundur allrar birtingar, uppspretta allrar uppsprettu, brunnur allrar opinberunar og lind allra ljósa. Ég ber því vitni að vegna nafns Þíns var himinn skilnings prýddur skarti, úthaf orðsins brimaði og trúarkerfi forsjónar Þinnar voru kunngerð meðal fylgjenda allra trúarbragða.
Ég sárbæni Þig að auðga mig svo að ég komist af án alls nema Þín og verði engum háður nema Þér. Lát því rigna yfir mig úr skýjum örlætis Þíns sem kemur mér að liði í öllum veröldum Þínum. Hjálpa mér því af styrkjandi náð Þinni að þjóna svo málstað Þínum meðal þjóna Þinna að ég megi sýna það sem heldur minningu minni á lofti jafn lengi og ríki Þitt endist og veldi Þitt varir.
Þetta er þjónn Þinn, ó Drottinn minn, sem af allri verund sinni hefur leitað til sjónarhrings örlætis Þíns og úthafs náðar Þinnar og himins gjafa Þinna. Ger við mig það sem sæmir tign Þinni og dýrð, örlæti og náð.
Þú ert í sannleika Drottinn styrks og valds, sem lætur sér sæma að svara þeim sem biðja til Þín. Enginn er Guð nema Þú, hinn alvitri og alvísi.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð minn, hjálpa Þú þjóni Þínum að upphefja orð Þitt og vísa á bug því sem er rangt og hégómlegt, að dreifa víða vegu hinum helgu orðum, opinbera ljómann og láta ljós morgunsins renna upp í hjörtum hinna réttlátu.
Þú ert vissulega hinn örláti, fyrirgefandinn.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Guð, Guð minn! Hjálpa Þú traustum þjónum Þínum að hafa ástrík og blíð hjörtu. Hjálpa þeim að miðla öllum þjóðum jarðar ljósi leiðsagnar sem kemur frá herskörunum á hæðum. Sannlega ert Þú hinn sterki og voldugi, hinn máttugi, sá sem allt sigrar og allt gefur. Sannlega ert Þú hinn örláti og mildi, hinn blíði og gjafmildasti.
—‘Abdu’l‑Bahá
Þú sérð mig, ó Guð minn, lúta í undirgefni, auðmýkja mig frammi fyrir boðum Þínum, gefa mig á vald herradómi Þínum, skjálfandi andspænis mætti veldis Þíns, flýja reiði Þína, sárbiðja um náð Þína, treysta á fyrirgefningu Þína, nötra af lotningu gagnvart heiftarreiði Þinni. Ég bið Þig með bifandi hjarta, tárfellandi og með löngunarfullri sál, fullkomlega aðskilinn öllu sem er, að gera ástvini Þína að geislum sem lýsa yfir ríki Þín og hjálpa Þínum útvöldu þjónum að upphefja orð Þitt, svo að andlit þeirra megi verða fögur og geislandi, hjörtu þeirra fyllast leyndardómum og sérhver sál varpa af sér syndabyrðinni. Vernda þá síðan gegn árásarmanninum, þeim sem hefur orðið blygðunarlaus og guðlastandi misgerðarmaður.
Sannlega þyrstir ástvini Þína, ó Drottinn minn, leið þá að lind hylli Þinnar og náðar. Sannlega eru þeir hungraðir, send niður til þeirra himneskt matarborð Þitt. Sannlega eru þeir naktir, sveipa þá klæðum þekkingar og lærdóms.
Þeir eru hetjur, ó Drottinn minn, leið þá til orrustu. Þeir eru leiðbeinendur, lát þá mæla rök Þín og sannanir. Þeir eru umhyggjusamir þjónar, lát þá rétta fram bikarinn sem flóir yfir af víni fullvissunnar. Ó Guð minn, ger þá söngmenn sem hefja upp raddir sínar í björtum görðum, ger þá að ljónum sem liggja í hnipri í skógarþykknum, hvali sem stinga sér í regindjúpin.
Sannlega ert Þú sá sem sýnir ríkulega náð. Enginn er Guð nema Þú, hinn máttugi og voldugi, sá sem ætíð gefur.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Guð minn! Ó Guð minn!
Ég er þjónn sem laðast að Þér. Af auðmýkt nálgast ég dyr eindar Þinnar og bið til ríkis miskunnar Þinnar.
Ó Guð minn, leyf mér að tilheyra Þér af heilum huga, að hugsa aðeins um Þig, logandi af eldi ástar Þinnar, aðskilinn frá öllu nema Þér, svo ég fái unnið að málstað Þínum, útbreitt visku Þína, flutt þekkingu Þína og miðlað gleðinni af að þekkja Þig.
Ó Guð minn, ég er logi sem hendur valds Þíns hafa kveikt. Lát ekki þennan loga slokkna í mótvindum prófrauna. Efl ást mína til Þín og aðdáun á fegurð eindar Þinnar. Kynd Þú bálið sem brennur innra með mér á Sínaí einstæðis Þíns, og vek eilífa lífið sem í mér blundar, með örlæti Þínu og náð.
Þú ert vörnin, verndarinn, hinn samúðarríki og miskunnsami.
—‘Abdu’l‑Bahá
Bænir fyrir kennslu úr Töflum hinnar guðlegu áætlunar
Opinberuð fyrir bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada
Ó Þú óviðjafnanlegi Guð! Ó Þú Drottinn ríkisins! Þessar sálir eru Þinn himneski her. Hjálpa þeim og ger þær sigursælar með sveitum hinna hæstu herskara, svo sérhver þeirra megi verða sem hersveit og sigra þessi lönd með kærleika Guðs og uppljómun guðdómlegra kenninga.
Ó Guð! Ver stoð þeirra, hjálp og trúnaðarvinur í óbyggðum, til fjalla, inn til dala, í skógum, á sléttum og til sjós, svo þær fái hrópað af krafti ríkisins og innblæstri heilags anda.
Vissulega ert Þú hinn voldugi og máttugi, hinn alvaldi, og Þú ert hinn vísi, heyrandinn og sjáandinn.
—‘Abdu’l‑Bahá
Opinberuð fyrir bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada
Hver sá sem fer í kennsluferð til einhvers staðar fari með þessa bæn dag og nótt meðan á ferðum hans stendur í framandi löndum:
Ó Guð, Guð minn! Þú sérð mig laðast að dýrðarríki Þínu, upptendraðan af eldi ástar Þinnar til mannkyns, kallara ríkis Þíns í þessum stóru og víðáttumiklu löndum, lausan frá öllu nema Þér, reiða mig á Þig, hverfa frá hvíld og þægindum fjarri heimalandi mínu, förumann hér um slóðir, aðkomumann fallinn í duftið, auðmjúkan frammi fyrir upphafinni fótskör Þinni, undirgefinn himnaríki Þinnar allsráðandi dýrðar, biðjandi til Þín um miðja nótt og snemma að morgni, sárbænandi og ákallandi Þig árla dags og að kvöldi, að hjálpa mér af náð Þinni að þjóna málstað Þínum, útbreiða kenningar Þínar og upphefja orð Þitt hvarvetna í austri og í vestri.
Ó Drottinn! Styrk Þú bak mitt, ger mér fært að þjóna Þér af fremsta megni og lát mig ekki einan, umkomulausan eða hjálparvana á þessum slóðum.
Ó Drottinn! Veit mér samneyti við Þig í einsemd minni og ver Þú félagi minn í þessum framandi löndum.
Vissulega staðfestir Þú hvern þann er Þú vilt í hverju sem Þér líst, og vissulega ert Þú hinn alvoldugi og almáttugi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Opinberuð fyrir bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada
Látið hvern þann sem ferðast til hinna ýmsu staða til að kenna lesa á fjöllum, í eyðimörkum, á landi og sjó þessa bæn:
Ó Guð! Ó Guð! Þú sérð veikleika minn, smæð og auðmýkt frammi fyrir skepnum Þínum, samt hef ég reitt mig á Þig og hafist handa um að efla kenningar Þínar meðal staðfastra þjóna Þinna í trausti á vald Þitt og mátt!
Ó Drottinn! Ég er vængbrotinn fugl og þrái að svífa í Þínum takmarkalausa geimi. Hvernig er mér það fært nema með handleiðslu Þinni og náð, staðfestingu og aðstoð?
Ó Drottinn! Haf vorkunn með veikleika mínum og styrk mig með valdi Þínu. Ó Drottinn! Aumka Þig yfir getuleysi mitt og hjálpa mér af mætti Þínum og mikilleika.
Ó Drottinn! Ef andblær heilags anda staðfesti hina veikustu af skepnum Þínum, myndi hún öðlast allt sem hún sæktist eftir og eignast allt sem hún þráir. Vissulega hefur Þú aðstoðað þjóna Þína í fortíðinni. Og þótt þeir væru aumastir alls sem Þú hefur skapað, lægstir meðal þjóna Þinna og lítilsverðastir allra á jörðinni, sköruðu þeir vegna blessunar Þinnar og máttar fram úr hinum dýrlegustu og göfugustu meðal mannkyns. Þeir voru áður sem mölur en urðu konunglegir fálkar, áður eins og lækjarsytrur en urðu hafsjóir vegna veitinga Þinna og miskunnar. Með Þinni æðstu hylli urðu þeir stjörnur tindrandi við sjónarrönd leiðsagnar, fuglar sem sungu í rósagarði ódauðleikans, ljón öskrandi í skógum þekkingar og visku og stórhveli er syntu í úthöfum lífsins.
Vissulega ert Þú hinn mildi, hinn voldugi og máttugi, og miskunnsamastur þeirra sem sýna miskunn.
—‘Abdu’l‑Bahá
Opinberuð fyrir bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada
Ó Guð, Guð minn! Þú sérð hvernig öll svæði hjúpast svartamyrkri, hvernig öll lönd brenna í báli sundurlyndis og eldur stríðs og blóðsúthellinga logar í austri og vestri. Blóðið rennur, líkin þekja jörðina og afhöggvin höfuð falla í dust vígvallarins.
Ó Drottinn! Sýn meðaumkun þessum fáfróðu og lít þá augum fyrirgefningar og afláts. Slökk þennan loga svo að þessi dimmu ský sem myrkva sjónarhringinn hverfi, sól raunveruleikans stafi geislum sátta og samlyndis, þetta niðamyrkur dreifist og geislandi ljós friðar úthelli ljóma sínum yfir öll lönd.
Ó Drottinn! Drag fólkið upp úr afgrunni haturs og óvináttu og frelsa það frá þessu svartamyrkri. Sameina hjörtu þeirra, lát birta fyrir augum þeirra með ljósi friðar og sátta. Frelsa það úr djúpi stríðs og blóðsúthellinga og frelsa það frá myrkri villunnar. Tak huluna frá augum þeirra og lýs upp hjörtu þeirra með ljósi leiðsagnar. Sýn þeim milda miskunn Þína og samúð og ger ekki við þá samkvæmt réttlæti Þínu og reiði sem fær limi hinna voldugu til að skjálfa.
Ó Drottinn! Styrjaldir hafa staðið lengi. Böl og áhyggjur hafa ágerst og sérhvert blómlegt hérað er lagt í auðn.
Ó Drottinn! Hjörtun daprast og sálir eru angistarfullar. Haf miskunn með þessum vesalings sálum og gef þær ekki á vald öfgum sinna eigin ástríðna.
Ó Drottinn! Birt Þú í löndum Þínum auðmjúkar og undirgefnar sálir, andlit þeirra upplýst af geislum leiðsagnar, aðskildar þessum heimi, sálir sem vegsama nafn Þitt, færa Þér lof og dreifa angan heilagleika Þíns meðal mannkyns.
Ó Drottinn! Styrk bak þeirra, gyrð lendar þeirra og heilla hjörtun með máttugustu táknum ástar Þinnar.
Ó Drottinn! Vissulega eru þær veikar og Þú ert hinn máttugi og voldugi; þær eru getulausar og Þú ert hjálparinn, hinn miskunnsami.
Ó Drottinn! Haf uppreisnar ólgar og þessa storma lægir ekki nema fyrir takmarkalausa náð Þína sem hefur umvafið öll svæði.
Ó Drottinn! Vissulega eru mennirnir staddir í afgrunni ástríðna og ekkert getur bjargað þeim nema takmarkalaus hylli Þín og gjafir.
Ó Drottinn! Dreif sorta þessara spilltu ástríðna og upplýs hjörtun með lampa ástar Þinnar sem áður en langt um líður mun upplýsa öll lönd. Staðfest enn fremur ástvini Þína, þá sem hafa yfirgefið heimalönd sín, fjölskyldur og börn vegna ástar á fegurð Þinni, ferðast til framandi landa til að dreifa angan Þinni og útbreiða kenningar Þínar. Ver félagi þeirra í einsemd þeirra, hjálpari þeirra í framandi landi, dreif sorgum þeirra og hugga þá í ógæfu. Ver endurnærandi svaladrykkur hinum þyrstu, græðilyf meinsemda þeirra og smyrsl á brennandi ákefð hjartnanna.
Vissulega ert Þú hinn örlátasti, Drottinn mikillar náðar og vissulega ert Þú hinn samúðarfulli og miskunnsami.
—‘Abdu’l‑Bahá
Opinberuð fyrir bahá’ía í norðausturríkjunum
Kennararnir og vinirnir eiga að fara með þessa bæn daglega:
Ó Þú góði Drottinn! Lof sé Þér að Þú hefur sýnt okkur þjóðbraut leiðsagnar, opnað dyr ríkisins og birt Þig í sól veruleikans. Blindum hefur Þú gefið sjón og daufum heyrn, Þú hefur vakið dauða og auðgað snauða. Villtum hefur Þú sagt til vegar. Þú hefur leitt þá sem höfðu skrælnaðar varir að lind leiðsagnar. Þú hefur leyft hinum þyrsta fiski að ná til úthafs veruleikans og boðið förufuglunum til rósagarðs náðarinnar.
Ó Þú almáttugi! Við erum þjónar Þínir og Þínir vesölu, við erum fjarlæg og þráum návist Þína, okkur sárþyrstir í vatn uppsprettu Þinnar, við erum sjúk og þráum lækningu Þína. Við göngum á vegi Þínum og eigum ekkert markmið og enga von nema þá að dreifa ilmi Þínum, svo að allar sálir hrópi: „Ó Guð, leið okkur á hinn beina veg!“ Megi augu þeirra opnast og líta ljósið og megi þeim verða forðað frá myrkri vanþekkingar. Megi þær safnast kringum lampa leiðsagnar Þinnar. Megi hver sá sem óskammtað er fá sinn skerf. Megi hinir afskiptu verða trúnaðarmenn leynidóma Þinna.
Ó almáttugur! Lít til okkar af miskunn. Veit okkur himneska staðfestingu. Gef okkur andblæ heilags anda svo okkur megi verða hjálpað við að þjóna Þér og við getum stafað ljósi leiðsagnar yfir þessi lönd eins og skærar stjörnur.
Vissulega ert Þú hinn voldugi og máttugi, hinn vísi og sjáandi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Opinberuð fyrir bahá’ía í suðurríkjunum
Sérhver sál sem ferðast um þessar borgir, bæi og þorp í þessum ríkjum og er upptekin við að dreifa ilmi Guðs ætti að fara með þessa bæn á hverjum morgni:
Ó Guð minn! Ó Guð minn! Þú sérð mig í vesöld og veikleika festa hugann við hið mesta verkefni, staðráðinn í að upphefja orð Þitt meðal fjöldans og útbreiða kenningar Þínar meðal þjóða Þinna. Hvernig getur mér tekist það nema Þú hjálpir mér með andblæ heilags anda, leiðir mig til sigurs með herskörum dýrðarríkis Þíns og ausir yfir mig staðfestingum Þínum, sem einar fá gert mýflugu að erni, vatnsdropa að ám og úthöfum og frumeind að ljósi og sólum? Ó Drottinn minn! Aðstoða mig með Þínum sigursæla og áhrifamikla mætti, svo ég megi segja frá vegsemd Þinni og eigindum meðal allra manna, og sál mín yfirfyllist af víni ástar Þinnar og þekkingar.
Þú ert hinn alvaldi og þess megnugur að gera allt sem Þér þóknast.
—‘Abdu’l‑Bahá
Opinberuð fyrir bahá’ía í miðríkjunum
Látið þá sem útbreiða ilman Guðs fara með þessa bæn á hverjum morgni:
Ó Drottinn, Guð minn! Lof og þökk sé Þér að Þú hefur leitt mig að þjóðbraut ríkisins, leyft mér að ganga þennan langa og beina veg, upplýst auga mitt með birtunni af ljósi Þínu, seitt eyra mitt með söngljóðum fugla heilagleika úr dularheimum og fangað hjarta mitt með ást Þinni meðal hinna réttlátu.
Ó Drottinn! Staðfest mig af heilögum anda svo ég geti hrópað í Þínu nafni meðal þjóðanna og flutt fagnaðarerindið um birtingu ríkis Þíns meðal manna.
Ó Drottinn! Ég er veikburða, styrk mig með afli Þínu og getu. Mér er varnað máls, leyf mér að tjá minningu Þína og lof. Ég er lítilsverður, heiðra mig með inngöngu í ríki Þitt. Ég er fjarlægur, gef að ég nálgist fótskör miskunnsemi Þinnar. Ó Drottinn! Ger mig skæran lampa, skínandi stjörnu og blessað tré, sem prýðist ávöxtum og skýlir öllum þessum sviðum í forsælu greina sinna. Vissulega ert Þú hinn máttugi og voldugi, hinn óháði.
—‘Abdu’l‑Bahá
Opinberuð fyrir bahá’ía í vesturríkjunum
Eftirfarandi bæn eiga þeir að lesa á hverjum degi:
Ó Guð! Ó Guð! Þetta er vængbrotinn fugl og flugi hans miðar lítt. Aðstoða hann svo hann geti flogið upp á hátind velmegunar og frelsunar, þreytt flug sitt í fögnuði og sælu um allan hinn endalausa geim, hafið upp söng sinn í Þínu æðsta nafni í hverju héraði, glatt eyrun með þessu kalli og uppljómað augun með táknum leiðsagnar!
Ó Drottinn! Ég er einsamall, einstæðingur og umkomulaus. Hvergi á ég mér stuðning vísan nema hjá Þér, enga hjálp nema Þig, enginn sér mér farborða nema Þú. Staðfest mig í þjónustu Þinni, aðstoða mig með sveitum engla Þinna, ger mig sigursælan við að útbreiða orð Þitt og lát mig tjá visku Þína frammi fyrir skepnum Þínum. Vissulega ert Þú hjálp lítilmagnans og vörn smælingjans og vissulega ert Þú hinn voldugi og máttugi, hinn óhefti!
—‘Abdu’l‑Bahá
Opinberuð fyrir bahá’ía í Kanada og á Grænlandi
Lof sé Þér, ó Guð minn! Þetta eru þjónar Þínir sem laðast að ilmi miskunnar Þinnar, upptendrast af eldinum sem logar í tré einstæðis Þíns. Þeim birtir fyrir augum er þeir líta ljómann af ljósinu sem skín á Sínaí einingar Þinnar.
Ó Drottinn! Leys tungur þeirra til að þeir minnist Þín meðal fólks Þíns, leyf þeim að færa Þér lofgjörð af náð Þinni og ástríki, aðstoða þá með skörum engla Þinna, styrk lendar þeirra í þjónustu við Þig og ger þá að táknum leiðsagnar Þinnar meðal skepna Þinna.
Vissulega ert Þú hinn alvoldugi, hinn upphafnasti, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn almiskunnsami.
—‘Abdu’l‑Bahá
Opinberuð fyrir bahá’ía í Kanada og á Grænlandi
Þeir sem dreifa ilmi Guðs ættu að fara með þessa bæn á hverjum morgni:
Ó Guð, Guð minn! Þú sérð mig veikburða sárbiðja um himneskan styrk, fátækan þurfa himneska fjársjóði Þína, þyrstan þrá uppsprettu eilífs lífs, þjáðan þrá fyrirheitna græðingu Þína sem Þú hefur af takmarkalausri náð Þinni ákvarðað útvöldum þjónum Þínum í ríki Þínu á hæðum.
Ó Drottinn! Ég hef engan hjálpara nema Þig, ekkert athvarf nema Þig, enga hjálparhellu nema Þig. Aðstoða mig með englum Þínum að dreifa heilögum ilmi Þínum og útbreiða kenningar Þínar meðal hinna fremstu af fólki Þínu.
Ó Drottinn minn! Leyf mér að skiljast frá öllu nema Þér, að halda fast við kyrtil veglyndis Þíns, að helga mig algjörlega trú Þinni, að vera stöðugur og staðfastur í ást Þinni og gæta þess sem Þú hefur fyrirskipað í bók Þinni.
Vissulega ert Þú hinn voldugi, hinn máttugi, hinn alvaldi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Konur
Miklað sé nafn Þitt, ó Þú sem hefur í greip Þér stjórntauma sálna allra þeirra sem borið hafa kennsl á Þig. Í hægri hendi Þinni eru örlög allra á himnum og jörðu. Í krafti máttar Þíns breytir Þú að vild Þinni og ákvarðar í krafti vilja Þíns það sem Þér þóknast. Vilji einbeittustu manna verður að engu sé hann borinn saman við knýjandi sannindamerki um vilja Þinn, og staðfesta hinna ósveigjanlegustu meðal skepna Þinna er sem hjóm andspænis margföldum opinberunum áforms Þíns.
Þú ert sá sem með orði frá vörum Þér hefur hrifið svo hjörtu Þinna útvöldu, að þeir hafa í ást sinni á Þér slitið sig frá öllu nema Þér, lagt líf sitt í sölurnar, fórnað sálu sinni á vegi Þínum, og þolað Þín vegna það sem engin skepna fær afborið.
Ég er ein þjónustumeyja Þinna, ó Drottinn minn! Ég hef beint augum mínum að híbýlum miskunnar Þinnar og leitað undra margfaldra velgjörða Þinna, því allir limir líkama míns lýsa takmarkalausu örlæti Þínu og óendanlegri náð.
Ó Guð. Ásýnd Þín er mér tilbeiðsluefni, fegurð Þín er mér helgidómur, forgarður Þinn takmark mitt, að minnast Þín er ósk mín, umhyggja Þín er mér hugsvölun, kærleikur Þinn hefur getið mig, lof um Þig er félagi minn, nálægð Þín er von mín og nærvera Þín er heitasta þrá mín og æðsta eftirlangan. Vald mér ekki vonbrigðum, þess bið ég Þig, með því að meina mér það sem Þú ákvarðaðir hinum útvöldu meðal þjónustumeyja Þinna, og sjá mér fyrir gæðum þessa heims og hins næsta.
Þú ert að sönnu Drottinn sköpunarinnar. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn örlátasti.
—Bahá’u’lláh
Ó Drottinn minn, minn ástfólgni, þrá mín! Vertu vinur minn í einsemd minni og dvel hjá mér í útlegð minni. Tak burt sorg mína. Lát mig laðast að fegurð Þinni. Fjarlæg mig öllu nema Þér. Heilla mig með ilmi helgi Þinnar. Leyf mér að una samvistum við þá í ríki Þínu sem eru fráhverfir öllu nema Þér, þrá að þjóna við heilaga fótskör Þína og vinna að málstað Þínum. Gef að ég verði ein af þjónustumeyjum Þínum sem hafa öðlast velþóknun Þína. Vissulega ert Þú hinn náðugi og göfuglyndi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Verðandi mæður
Drottinn minn! Drottinn minn! Ég vegsama Þig og þakka Þér fyrir það, sem Þú hefur af örlæti Þínu gefið auðmjúkri þernu Þinni og ambátt, sem biður til Þín og sárbænir Þig sakir þess að Þú hefur sannlega leitt hana til Þíns augljósa konungsríkis og leyft henni að hneigja eyru sín að upphöfnu kalli Þínu í hinni jarðnesku veröld og líta táknin, sem sanna birtingu Þíns sigursæla herradóms yfir öllu sem skapað er.
Drottinn minn! Ég helga Þér það, sem er í kviði mínum. Lát það því verða lofsvert barn í ríki Þínu og ger það gæfusamt með atbeina hylli Þinnar og örlætis; lát það þroskast og dafna undir handarjaðri uppfræðslu Þinnar. Vissulega ert Þú hinn náðugi. Vissulega ert Þú Drottinn mikillar mildi!
—‘Abdu’l‑Bahá
Kvöld
Ó Guð minn, meistari minn, takmark þrár minnar! Þessi þjónn Þinn óskar þess að sofa í skjóli miskunnar Þinnar og hvílast undir tjaldhimni náðar Þinnar. Hann biður um umönnun Þína og vernd.
Ég bið Þig, ó Drottinn minn, við auga Þitt, sem ekki sefur, að verja augu mín því að líta nokkuð nema Þig. Styrk sjón þeirra svo að þau geti greint tákn Þín og líti sjónhring opinberunar Þinnar. Þú ert Guð og frammi fyrir opinberun almættis Þíns hefur sjálfur kjarni máttarins skolfið.
Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og alknýjandi, hinn óskilyrti.
—Bahá’u’lláh
Hvernig get ég óskað mér svefns, ó Guð, Guð minn, meðan augu þeirra sem þrá Þig eru svefnvana vegna aðskilnaðar frá Þér, og hvernig get ég lagst til hvíldar þegar sálir elskenda Þinna eru sármæddar vegna fjarlægðar frá návist Þinni?
Ég hef, ó Drottinn minn, lagt anda minn og alla veru í hægri hönd máttar Þíns og verndar, legg höfuð mitt á koddann vegna máttar Þíns, og reisi það upp á ný samkvæmt vilja Þínum og velþóknun. Þú ert að sönnu sá er varðveitir og viðheldur, hinn almáttugi og voldugasti.
Við mátt Þinn! Ég óska ekki, hvort heldur í svefni eða vöku, annars en þess sem Þú óskar. Ég er þjónn Þinn og í Þínum höndum. Aðstoða mig af náð Þinni, að gera það sem dreifir ilmi velþóknunar Þinnar. Þetta er sannarlega von mín og von þeirra sem njóta samvista við Þig. Lofaður sért Þú, ó Drottinn veraldanna!
—Bahá’u’lláh
Miðnætti
Ó leitandi sannleikans! Ef þú vilt að Guð opni augu þín, verður þú að ákalla Guð, biðja til Hans og samneyta Honum á miðnætti með svofelldum orðum:
Ó Drottinn, ég hef beint andliti mínu að konungsríki eindar Þinnar og er sokkinn í haf miskunnar Þinnar. Ó Drottinn, upplýs sjón mína með því að ég líti ljós Þitt á þessari dimmu nóttu og ger mig hamingjusaman með víni ástar Þinnar á þessum dásamlega tíma. Ó Drottinn! Lát mig heyra kall Þitt og ljúk upp fyrir augum mínum dyrum himins Þíns, svo að ég líti ljós dýrðar Þinnar og laðist að fegurð Þinni.
Sannarlega ert Þú gjafarinn, hinn örláti og miskunnsami, fyrirgefandinn.
—‘Abdu’l‑Bahá
Hinir látnu
Útfararbænin
(Bænin fyrir látna er eina bahá’í skyldubænin sem lesa á í hóp. Einn átrúandi annast lesturinn en viðstaddir rísi á fætur og standi á meðan lesið er. Bahá’u’lláh hefur gert ljóst að bænina þarf aðeins að lesa þegar hinn látni er eldri en fimmtán ára, að hana eigi að lesa á undan jarðsetningu og að ekki sé skylda að snúa til Qiblih [í bænarátt, til Bahjí] meðan bænin er lesin. Kveðjan „Alláh-u-Abhá“ er lesin einu sinni og síðan er hið fyrsta af hinum sex helgiorðum endurtekið nítján sinnum. Þar á eftir er farið með „Alláh-u-Abhá“ einu sinni og svo er næsta helgiorð endurtekið nítján sinnum, og svo framvegis.)
Ó Guð minn! Þetta er þjónn Þinn og sonur þjóns Þíns sem hefur trúað á Þig og tákn Þín og beint til Þín augliti sínu, fullkomlega fráhverfur öllu nema Þér. Þú ert í sannleika miskunnsamastur þeirra sem sýna miskunn.
Ger við hann, ó Þú sem fyrirgefur syndir mannanna og hylur misgerðir þeirra, eins og sæmir himni hylli Þinnar og úthafi náðar Þinnar. Leyf honum að ganga inn til sviða yfirskilvitlegrar náðar Þinnar sem var fyrir sköpun himins og jarðar. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn veglyndasti.
Síðan endurtaki hann sex sinnum kveðjuna „Alláh-u-Abhá“ og hafi síðan nítján sinnum yfir sérhvert eftirfarandi helgiorða:
Sannlega tilbiðjum við öll Guð.
Sannlega lútum við öll Guði.
Sannlega erum við öll helguð Guði.
Sannlega vegsömum við öll Guð.
Sannlega færum við öll Guði þakkir.
Sannlega erum við öll þolinmóð í Guði.
(Ef hinn látni er kona, segi sá sem les: „Þetta er þjónustumey Þín og dóttir þjónustumeyjar Þinnar,“ o.s.frv.)
—Bahá’u’lláh
Almennar bænir fyrir hinum látnu
Dýrð sé Þér, ó Drottinn Guð minn! Niðurlæg ekki þann sem Þú hefur upphafið með valdi eilífra yfirráða Þinna og lát þann ekki vera fjarlægan Þér sem Þú hefur látið ganga inn í tjaldbúð eilífðar Þinnar. Munt Þú varpa frá Þér, ó Guð minn, þeim sem Þú hefur yfirskyggt með drottnun Þinni og munt Þú snúa þeim frá Þér, ó þrá mín, sem Þú hefur verið athvarf? Getur Þú lítillækkað þann sem Þú hefur upphafið eða gleymt þeim sem Þú gerðir kleift að muna Þig?
Dýrlegur, ómælanlega dýrlegur ert Þú! Þú er sá sem frá eilífu hefur verið konungur allrar sköpunar og frumkraftur hennar og Þú munt að eilífu vera Drottinn allra sem skapaðir eru og yfirbjóðandi þeirra. Dýrlegur ert Þú, ó Guð minn! Ef Þú hættir að sýna þjónum Þínum miskunn, hver á þá að sýna þeim miskunn? Og ef Þú neitar að hjálpa Þínum elskuðu, hver getur þá hjálpað þeim?
Dýrlegur, ómælanlega dýrlegur ert Þú! Þú ert vegsamaður í sannleika Þínum og sannlega erum við öll tilbiðjendur Þínir; og Þú hefur birst í réttlæti Þínu og Þér berum við í sannleika öll vitni. Þú ert að sönnu elskaður í náð Þinni. Enginn er Guð nema Þú, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
—Bahá’u’lláh
Hann er Guð, upphafinn er Hann, Drottinn ástúðar og örlætis!
Dýrð sé Þér, ó Þú Guð minn, Drottinn alvaldur. Ég ber vitni almætti Þínu, yfirráðum og ástúð, náð Þinni og valdi, eind verundar Þinnar og einingu kjarna Þíns, heilagleik Þínum og upphafningu yfir þessa tilveru og allt sem þar er að finna.
Ó, Guð minn! Þú lítur mig fráhverfan öllu nema Þér, halda fast við Þig og leita til úthafs gjafmildi Þinnar, himins hylli Þinnar og sólar náðar Þinnar.
Drottinn! Ég ber því vitni, að í þjón Þinn hefur Þú lagt vörslufé Þitt, og það er sá andi, sem Þú hefur lífgað með veröldina.
Ég bið Þig við dýrðarljómann frá sól opinberunar Þinnar að veita náðarsamlega viðtöku því sem hann hefur til leiðar komið á dögum Þínum. Gef því, að honum veitist dýrð velþóknunar Þinnar og skrýðist viðtöku Þinni.
Ó, Drottinn minn! Ég sjálfur og allt sem skapað er ber vitni mætti Þínum, og ég bið Þig að snúa ekki frá Þér þessum anda, sem stigið hefur upp til Þín, til Þíns himneska dvalarstaðar, Þinnar háleitu paradísar og athvarfs návistar Þinnar, ó Þú sem ert Drottinn allra manna!
Gef því, ó Guð minn, að þjónn Þinn megi samneyta Þínum útvöldu, dýrlingum Þínum og sendiboðum á himneskum stöðum, sem penninn getur eigi lýst né tungan sagt frá.
Ó, Drottinn minn, hinn fátæki hefur sannlega hraðað för sinni til ríkis auðlegðar Þinnar, hinn ókunni til heimilis síns innan mæra Þinna, hinn þyrsti til guðdómlegs fljóts örlætis Þíns. Svipt hann eigi, ó Drottinn, skerfi sínum af nægtaborði náðar Þinnar og hylli örlætis Þíns. Þú ert í sannleika hinn almáttugi og miskunnsami, sá sem allt gefur.
Ó, Guð minn! Vörslufé Þínu hefur verið skilað aftur til Þín. Það sæmir miskunn Þinni og örlæti sem hefur umlukið ríki Þín á himni og jörðu að veita þessum aufúsugesti Þínum gjafir Þínar og nægtir og ávextina af tré náðar Þinnar! Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hinn náðugi og örlátasti, hinn vorkunnláti, gjafarinn, fyrirgefandinn, hinn dýrmæti og alvitri.
Ég ber því vitni, ó Drottinn minn, að Þú hefur boðið mönnunum að heiðra gesti sína, og hann sem hefur stigið upp til Þín hefur vissulega náð til Þín og komist í návist Þína. Ger því við hann það sem sæmir náð Þinni og hylli! Við dýrð Þína, ég veit með vissu, að Þú munt ekki sjálfur ganga í gegn því sem Þú hefur boðið þjónum Þínum né heldur láta þann afskiptan, sem heldur föstu taki í taug örlætis Þíns og hefur stigið upp til dagsbrúnar auðæfa Þinna.
Enginn er Guð nema Þú, hinn eini og einstæði, hinn voldugi og alvitri, hinn gjafmildi.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð minn. Ó Þú, sem fyrirgefur syndir okkar, gefur okkur gjafir, eyðir sorgum okkar.
Sannlega bið ég Þig að fyrirgefa syndir þeirra, sem hafa yfirgefið jarðneska líkama sína og haldið til æðri heims.
Ó Drottinn minn, hreinsa þá af misgjörðum, dreif sorg þeirra og snú myrkri þeirra í ljós. Lát þá ganga í garð hamingjunnar, lauga þá með tærasta vatni og gef að þeir megi líta dýrð Þína á hinu hæsta fjalli.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Guð minn! Ó Guð minn! Vissulega hefur þjónn Þinn, auðmjúkur frammi fyrir tign Þíns himneska fullveldis og undirgefinn við dyr einleika Þíns, trúað á Þig og helgirit Þín, borið orði Þínu vitni, upptendrast af eldi ástar Þinnar, sokkið í hafdjúp þekkingar Þinnar, laðast að andvara Þínum, treyst á Þig, beint til Þín augliti sínu, beðið til Þín og fengið fullvissu um fyrirgefningu Þína og aflausn. Hann hefur yfirgefið þetta dauðlega líf, flogið til ríkis ódauðleikans og þráð þá hylli að komast á fund Þinn.
Ó Drottinn! Ger stöðu hans dýrlega, skýl honum undir tjaldhimni æðstrar miskunnar Þinnar, lát hann ganga inn í dýrlega paradís Þína og gef honum eilíft líf í upphöfnum rósagarði Þínum, svo hann megi sökkvast í úthaf ljóssins í heimi leyndardóma.
Vissulega ert Þú hinn örláti og voldugi, fyrirgefandinn og veitandinn.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Þú vorkunnláti Drottinn!
Þótt sumar sálir hafi eytt ævi sinni í fáfræði og orðið firringu og mótþróa að bráð, verða allir sem fallnir voru í synd frelsaðir með einni öldu á úthafi fyrirgefningar Þinnar. Hvern sem Þú vilt gerir Þú að trúnaðarvini og sá sem ekki verður fyrir vali Þínu telst misgerðarmaður. Ef Þú gerðir við okkur samkvæmt réttlæti Þínu værum við öll ekkert nema syndarar og verðskulduðum höfnun Þína. En ef Þú sýndir miskunn yrði sérhver syndari gerður flekklaus og sérhver framandi maður að vini. Veit því fyrirgefningu Þína og aflausn og sýn öllum miskunn Þína.
Þú ert fyrirgefandinn, ljósgjafinn, hinn alvaldi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Lofgjörð og þökk
Allt lof sé Þér, ó Guð minn, sem ert uppspretta allrar dýrðar og tignar, mikilleika og heiðurs, alræðis og yfirráða, göfgi og náðar, lotningar og valds. Hvern sem Þú vilt lætur Þú laðast að hinu mesta hafi og hverjum sem Þú kýst veitir Þú þann heiður að þekkja Þitt elsta nafn. Enginn á himnum eða jörðu fær staðið gegn Þínum allsráðandi vilja. Um eilífð hefur Þú stjórnað gervallri sköpuninni, og Þú munt að eilífu ríkja yfir öllu sem skapað er. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og háleitasti, hinn alvoldugi og alvísi.
Uppljóma, ó Drottinn, andlit þjóna Þinna að þeir fái litið Þig augum, og skír hjörtu þeirra svo þeir leiti til forgarðs Þinnar himnesku hylli og viðurkenni Hann sem er opinberandi sjálfs Þín og dagsbrún kjarna Þíns. Vissulega ert Þú Drottinn allra veraldanna. Þú einn ert Guð, hinn óhefti, sá er öllu ræður.
—Bahá’u’lláh
Í nafni Guðs, hins hæsta!
Vegsamaður og dýrlegur sért Þú, Drottinn, Guð alvaldur. Andspænis visku Þinni fallast hinum vitru hendur, frammi fyrir þekkingu Þinni játa hinir lærðu fáfræði sína, gagnvart mætti Þínum verða hinir sterku vanmegna, gegnt auðlegð Þinni bera hinir ríku vitni fátækt sinni, frammi fyrir ljósi Þínu týnast hinir upplýstu í myrkri, í átt til helgireits þekkingar Þinnar snýr kjarni alls skilnings og um griðastað návistar Þinnar hringsóla sálir alls mannkyns.
Hvernig get ég þá sungið og sagt frá kjarna Þínum sem viska hinna vitru og lærdómur hinna lærðu geta eigi skilið, því að enginn maður getur vegsamað það sem hann eigi skilur né skýrt frá því sem hann eigi fær höndlað, en Þú hefur aftur á móti verið hinn ótilkvæmilegi, hinn órannsakanlegi. Þótt mig skorti mátt til að rísa til himins dýrðar Þinnar og svífa í ríkjum þekkingar Þinnar, get ég ekki annað en sagt frá táknum Þínum sem eru talandi vottur um dýrlegt handarverk Þitt.
Við dýrð Þína! Ó ástvinur allra hjartna, Þú sem einn getur linað sársauka þrárinnar eftir Þér! Þótt allir íbúar himins og jarðar sameinuðust til að gera dýrlegt hið minnsta af táknum Þínum, þar sem Þú opinberar sjálfan Þig, myndi þeim samt ekki takast það, hversu miklu síður lofa Þitt heilaga orð, skapara allra tákna Þinna.
Allt lof og dýrð sé Þér, ó Þú sem allt sem skapað er vitnar um að ert einn, að enginn er Guð nema Þú, upphafinn frá eilífu yfir allan samanburð eða líkingu og verður það áfram að eilífu. Allir konungar eru aðeins þjónar Þínir og allar verur, sýnilegar og ósýnilegar, eru sem hjóm frammi fyrir Þér. Enginn er Guð nema Þú, hinn náðugi og voldugi, hinn hæsti.
—Bahá’u’lláh
Vegsamað sé nafn Þitt, ó Drottinn Guð minn! Þú ert sá sem tilbeðinn er af öllu, en ekki tilbiður neitt, Drottinn alls en ekki þjónn neins, þekkir allt en ert öllu dulinn. Þú vildir kunngera Þig mönnunum. Því gafst Þú sköpuninni líf með orði af vörum Þér og mótaðir alheiminn. Enginn er Guð nema Þú, völundurinn, skaparinn, hinn almáttugi og voldugasti.
Ég sárbið Þig við það sama orð sem ljómað hefur yfir sjónarhring vilja Þíns, að gera mér kleift að teyga af því lifandi vatni sem Þú lífgaðir með hjörtu Þinna útvöldu og fjörgaðir sálir þeirra sem elska Þig, svo ég megi ætíð og hvernig sem á stendur snúa ásjónu minni að Þér einum.
Þú ert Guð valds, dýrðar og örlætis. Enginn er Guð nema Þú, hinn æðsti stjórnandi og aldýrlegi, hinn alvitri.
—Bahá’u’lláh
Dýrlegur ert Þú, ó Drottinn Guð minn! Ég færi Þér þakkir fyrir að hafa gert mér kleift að viðurkenna birtingu sjálfs Þín og fyrir að hafa aðskilið mig óvinum Þínum og opnað augu mín fyrir misgerðum þeirra og illverkum á Þínum dögum, fyrir að hafa leyst mig frá þeim og látið mig leita algjörlega til náðar Þinnar og ríkulegra gjafa. Ég þakka Þér einnig fyrir að hafa sent niður yfir mig úr skýjum vilja Þíns það sem hefur helgað mig svo frá dylgjum og getsökum hinna vantrúuðu að ég hef beint hjarta mínu staðfastlega að Þér og flúið þá sem hafna ljósinu frá ásýnd Þinni. Enn þakka ég Þér að Þú hefur gert mér kleift að vera staðfastur í ást Þinni, mæla lof um Þig, vegsama dyggðir Þínar og gefið mér að drekka af bikar náðar Þinnar sem er æðri öllu sýnilegu og ósýnilegu.
Þú ert hinn almáttugi og upphafnasti, hinn aldýrlegi, sá sem allt elskar.
—Bahá’u’lláh
Lofaður sért Þú, ó Drottinn, Guð minn! Í hvert sinn sem ég reyni að nefna Þig, er mér varnað máls vegna upphafningar stöðu Þinnar og yfirþyrmandi mikilleika máttar Þíns. Þótt ég lofaði Þig um alla víðáttu ríkis Þíns jafn lengi og yfirráð Þín vara, kæmist ég að raun um að lofgjörð mín til Þín hæfði aðeins þeim sem líkjast mér, eru sjálfir skepnur Þínar sem hafa orðið til fyrir vald ákvörðunar Þinnar og verið mótaðir af mætti vilja Þíns. Og hvenær sem penni minn eignar einhverju nafna Þinna dýrð, er mér sem ég heyri rödd þess harmþrungna vegna fjarlægðar frá Þér og skynja að það grætur vegna aðskilnaðar frá sjálfi Þínu. Ég ber því vitni að allt nema Þú er sköpun Þín og fólgið í greip Þinni. Að Þú takir við nokkurri gjörð eða lofi frá skepnum Þínum er ekki annað en sönnun fyrir undrum náðar Þinnar og örlátrar hylli og opinberun veglyndis Þíns og forsjár.
Ég sárbæni Þig, ó Drottinn minn, við Þitt æðsta nafn, sem Þú greindir með ljós frá eldi og sannleika frá afneitun, að senda yfir mig og þá af mínum elskuðu sem eru í félagsskap mínum gæði þessa heims og þess sem kemur. Veit okkur því af undursamlegum gjöfum Þínum sem eru huldar sjónum manna. Vissulega ert Þú skapari alls sem er. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og aldýrlegi, hinn hæsti.
—Bahá’u’lláh
Ó Þú Drottinn hins sýnilega og ósýnilega og sá, sem uppfræðir alla sköpunina. Ég sárbæni Þig við yfirráð Þín, sem hulin eru sjónum manna, að opinbera á alla vegu tákn Þinna margföldu blessana og ummerki ástúðar Þinnar, svo að ég megi rísa upp fagnandi og frá mér numinn og lofa undursamlegar dyggðir Þínar, ó Þú hinn miskunnsamasti, og hreyfa með nafni Þínu við öllu sem skapað er og glæða svo eld lofgjörðar Þinnar meðal skepna Þinna, að gjörvallur alheimurinn megi fyllast birtunni frá ljósi dýrðar Þinnar og öll veröldin upptendrist af eldi málstaðar Þíns.
Vef því eigi saman, ó Drottinn minn, sem breitt hefur verið út í Þínu nafni og slökk eigi lampann, sem Þinn eigin eldur hefur tendrað. Meina ekki vatninu, sem er lífið sjálft, ó Drottinn minn, að streyma niður, en í klið þess má heyra hljómana undursamlegu, sem lofa Þig og vegsama. Neita eigi heldur þjónum Þínum um sætan ilminn af andblænum, sem bærst hefur vegna ástar Þinnar.
Þú sérð, ó Þú sem ert aldýrlegur ástvinur minn, eirðarlausar öldurnar sem rísa á hafi hjarta míns í ást minni og þrá eftir Þér. Ég bið Þig við tákn hátignar Þinnar og vitnisburð yfirráða Þinna, að yfirbuga þjóna Þína með þessu nafni, sem Þú hefur gert að konungi allra nafna í ríki sköpunar Þinnar. Þú ert þess megnugur að ríkja að vild Þinni. Enginn er Guð nema Þú, hinn aldýrlegi, hinn gjafmildasti.
Fyrirhuga Þú enn fremur hverjum þeim, sem hefur leitað til Þín, það sem gera mun hann svo staðfastan í málstað Þínum, að hvorki fánýtir hugarórar hinna trúlausu meðal skepna Þinna né ónytjumælgi hinna vegvilltu meðal þjóna Þinna megni að útiloka hann frá Þér. Þú ert í sannleika hjálpin í nauðum, hinn almáttugi og voldugasti.
—Bahá’u’lláh
Guð vitnar um einingu guðdóms síns og einstæði eigin verundar. Frá hásæti eilífðar og úr ótilkvæmilegum hæðum stöðu Hans, lýsir rödd Hans því yfir, að enginn sé Guð nema Hann. Hann sjálfur, óháður öllu öðru, hefur ætíð vitnað um eigið einstæði, birt eigið eðli og vegsamað kjarna sinn. Hann er vissulega hinn alvoldugi og almáttugi, hinn alfagri.
Hann er æðri þjónum sínum og ofar skepnum sínum. Í hendi sér hefur Hann uppsprettu valds og sannleika. Hann lífgar menn með táknum sínum og vegur þá með reiði sinni. Hann verður ekki spurður um gerðir sínar, máttur Hans er jafnoki alls sem er. Hann er hinn voldugi, sá er öllu ræður. Hann heldur í greip sinni veldi alls sem er og ríki opinberunar Hans er grundvallað Honum til hægri handar. Vald Hans umlykur í sannleika allt sköpunarverkið. Sigur og herradómur eru Hans, allur máttur og yfirráð eru Hans, öll dýrð og mikilleiki eru Hans. Hann er að sönnu hinn aldýrlegi og voldugasti, hinn óskilyrti.
—Bahá’u’lláh
Lofað sé nafn Þitt, ó Guð minn! Ég ber því vitni að engin hugsun um Þig, hversu háleit sem hún er, fær nokkru sinni náð upp til himinhæða þekkingar Þinnar, og engin lofgjörð um Þig, hversu vegsamleg sem hún er getur risið upp til sviða visku Þinnar. Um eilífð hefur Þú verið fjarlægur, langt ofar skilningi og handan seilingar þjóna Þinna, óendanlega upphafinn yfir tilraunir Þinna ánauðugu til að tjá dul Þína. Hvaða vald getur skuggamynd sköpunar eignað sér andspænis Honum sem er hinn óskapaði?
Ég ber því vitni að æðstu hugsanir allra sem tilbiðja einingu Þína og dýpsta íhugun allra þeirra sem borið hafa kennsl á Þig, eru aðeins afurð þess sem var skapað með penna skipunar Þinnar og getið af vilja Þínum. Ég sver við dýrð Þína, ó Þú sem ert sálu minni ástfólginn og uppspretta lífs míns! Ég veit með vissu að mig brestur getu til að lýsa Þér og lofsyngja svo sæmi mikilleika dýrðar Þinnar og ágæti tignar Þinnar. Þar sem mér er þetta kunnugt, bið ég Þig í auðmýkt við miskunn Þína sem er æðri öllu sem skapað er og náð Þína sem umvefur gjörvalla sköpunina, að veita því viðtöku frá þjónum Þínum sem þeir geta lagt af mörkum á vegi Þínum. Hjálpa þeim einnig með styrkjandi náð Þinni að upphefja orð Þitt og útbreiða lof um Þig.
Vald hefur Þú til að gera það sem Þér þóknast. Þú ert að sönnu hinn aldýrlegi og alvísi.
—Bahá’u’lláh
Guð minn, Þú sem ég tilbið og dái, hinn voldugasti! Ég ber því vitni að ekkert sem skapað er getur nokkru sinni tjáð Þig og engin lofgjörð lýst Þér. Enginn í alheimi getur með skilningi sínum eða vitsmunum fengið inngöngu í heilagan forgarð Þinn né afhjúpað dul Þína svo Þér hæfi. Hvaða synd hefur haldið íbúum borgar nafna Þinna svo fjarri Þínum aldýrlega sjóndeildarhring og svipt þá aðgangi að Þínu æðsta hafi? Einn stafur í bók Þinni er móðir allrar tjáningar og eitt orð þeirrar bókar fæðir af sér alla sköpun. Hvaða vanþakklæti hafa þjónar Þínir sýnt að Þú haldir þeim, öllum sem einum, frá þekkingu á Þér? Dropi úr úthafi miskunnar Þinnar nægir til að slökkva loga vítis og neisti af eldi ástar Þinnar getur kveikt í heilli veröld.
Ó Þú sem ert hinn alvitri! Vegvillt sem við erum, höldum við þó fast við gjafmildi Þína, og þótt við séum fáfróð beinum við augum okkar að úthafi visku Þinnar. Þú ert hinn örlátasti, sem ekki lætur aragrúa synda aftra Þér frá að auðsýna örlæti Þitt, og afneitun þjóða jarðar getur ekki stöðvað flóð gjafa Þinna. Um eilífð hafa dyr náðar Þinnar staðið upp á gátt. Daggardropi úr úthafi miskunnar Þinnar getur prýtt allt sem er djásni heilagleika og úði úr vötnum örlætis Þíns getur fært allri sköpun sönn auðæfi.
Lyft ekki hulunni, ó Þú sem ert hyljandinn! Um eilífð hafa sannindamerki örlætis Þíns umlukið alheiminn og ljómi Þíns æðsta nafns hefur skinið á allt sem skapað er. Synja Þú ekki þjónum Þínum um undur náðar Þinnar. Lát þá verða Þín vara svo að þeir beri einingu Þinni vitni, og ger þeim kleift að þekkja Þig svo þeir megi hraða sér til Þín. Miskunn Þín hefur umvafið alla sköpun og náð Þín gagntekur allt. Af holskeflunum á úthafi örlætis Þíns birtust höf eldmóðs og ákefðar. Þú ert það sem Þú ert. Ekkert nema Þú verðskuldar að þess sé minnst nema það komist í skugga Þinn og fái inngöngu í forgarð Þinn.
Hvert sem hlutskipti okkar verður leitum við Þinnar ævafornu fyrirgefningar, og biðjum um Þína gagntakandi náð. Von okkar er sú, að Þú munir ekki neita neinum okkar um náð Þína né svipta nokkra sál djásnum sanngirni og réttlætis. Þú ert konungur alls örlætis og Drottinn allrar hylli, æðri öllum á himnum og jörðu.
—Bahá’u’lláh
Við dýrð Þína! Í hvert sinn sem ég horfi til himins minnist ég hátignar Þinnar og göfgi, óviðjafnanlegrar dýrðar og mikilleika. Og í hvert sinn sem ég beini augum að jörðu Þinni birtast mér vitnisburðir um vald Þitt og tákn um gjafir Þínar. Og þegar ég horfi á hafið, talar það til mín um tign Þína og afl máttar Þíns, um drottinvald Þitt og mikilleika. Og ætíð þegar ég virði fyrir mér fjöllin, sé ég þar fána sigurs og alveldis.
Ég sver við mátt Þinn, ó Þú sem hefur í hendi Þér forlög alls mannkyns og örlög þjóðanna! Svo hugfanginn er ég af ást til Þín og svo ölvaður af víni einingar Þinnar að ég heyri vindinn hvísla Þér lof og vegsömun. Í kliði vatnsins heyri ég röddina sem segir frá dyggðum Þínum og eigindum og skrjáf laufsins skýrir mér frá leyndardómunum sem þú hefur óafturkallanlega ákvarðað í ríki Þínu.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð. Minning Þín er unaður sálna allra þeirra er þrá Þig. Nafn Þitt vekur fögnuð í hjörtum þeirra sem eru heilshugar helgaðir vilja Þínum. Lof til Þín er hjartfólgið þeim sem hafa laðast að aðsetri Þínu. Ásýnd Þína þrá þeir heitt og innilega, sem hafa borið kennsl á sannleik Þinn. Prófraunir Þínar græða meinsemdir þeirra sem hafa viðurkennt málstað Þinn. Þrengingar Þínar þrá þeir heitast sem engum vilja fylgja nema Þér!
Upphafinn, ómælanlega upphafinn ert Þú! Í Þínum höndum er vald alls á himnum og á jörðu. Fyrir aðeins eitt orð af vörum Þér sundraðist allt og leið allt undir lok, og fyrir annað orð var allt sem var aðskilið sameinað á ný! Miklað veri nafn Þitt, ó Þú sem hefur vald yfir öllu sem er á himnum og öllu sem er á jörðu. Yfirráð Þín ná til alls í himnaríki opinberunar Þinnar og ríki sköpunar Þinnar. Enginn fær jafnast á við Þig í Þínum skapaða heimi. Enginn getur borið sig saman við Þig í þeim alheimi sem Þú hefur mótað. Enginn hugur hefur skilið Þig og engin sál náð til Þín með vonir sínar. Ég sver við mátt Þinn! Enginn maður getur farið yfir þau mörk sem hin skapaða tilvist hefur sett honum, jafnvel þótt hann gæti svifið á hverjum þeim vængjum sem hann fengi um alla ómælisvíðáttu þekkingar Þinnar um alla eilífð verundar Þinnar. Hvernig gæti þá slíkur maður gert sér vonir um að fá svifið inn í andrúm Þinnar tignustu nærveru?
Sá er að sönnu gæddur skilningi sem viðurkennir vanmátt sinn og játar syndsemi sína, því ef nokkur sköpuð vera gerði kröfu til tilvistar andspænis óendanlegum undrum opinberunar Þinnar, þá væri slíkt guðlastandi tilkall svívirðilegra en nokkur annar glæpur í öllum ríkjum uppfinninga Þinna og sköpunar. Hver er sá, ó Drottinn minn, sem hefur vald til að gera tilkall til verundar þegar Þú birtir fyrstu geislana af táknum Þinna yfirskilvitlegu yfirráða og máttar? Tilveran sjálf er sem hjóm andspænis miklum og margföldum undrum Þíns óviðjafnanlega sjálfs.
Hátt, óendanlega hátt, ert Þú hafinn yfir allt, ó Þú sem ert konungur konunga! Ég sárbæni Þig við Þitt eigið sjálf og við opinberendur málstaðar Þíns og dagsbrúnir yfirráða Þinna, að rita niður fyrir okkur það sem Þú ritaðir niður fyrir Þína útvöldu. Synja okkur ekki um það sem Þú ákvarðaðir Þínum útvöldu, sem hröðuðu sér til Þín jafnskjótt og þeim barst kall Þitt og vörpuðu sér niður í tilbeiðslu frammi fyrir augliti Þínu þegar ljóminn af birtu ásjónu Þinnar skein á þá.
Við erum þjónar Þínir, ó Drottinn minn, og í höndum valds Þíns. Ef Þú hirtir okkur á sama hátt og fyrri og síðari kynslóðir, væri dómur Þinn vissulega réttlátur og gerð Þín lofsverð. Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér líst. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi, hinn aldýrlegi, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
—Bahá’u’lláh
Lofaður og vegsamaður sért Þú, ó Drottinn Guð minn! Hvernig get ég nefnt Þig, þegar ég veit með vissu að enginn, hversu djúp sem viska hans er, getur miklað nafn Þitt svo Þér sæmi né heldur getur fugl mannshjartans, hversu heit sem þrá hans er, nokkru sinni vænst þess að stíga upp til himins tignar Þinnar og þekkingar.
Ef ég nefni Þig, ó Guð minn, þann sem allt skynjar, er ég knúinn til þess að viðurkenna að þeir sem eru hæstu holdtekjur skynjunar hafa verið skapaðir að skipan Þinni. Og ef ég vegsama Þig sem hinn alvitra, verð ég einnig að játa að sjálfar uppsprettur viskunnar hafa verið skapaðar með fulltingi vilja Þíns. Og ef ég lýsi Þér sem hinum óviðjafnanlega, uppgötva ég brátt að þeir sem eru innsti veigur einingar hafa verið sendir niður af Þér og eru einungis vitnisburður verka Þinna. Og hylli ég Þig sem þann er allt þekkir, hlýt ég að játa að þeir sem eru eðliskjarni þekkingar eru aðeins sköpun og verkfæri áforms Þíns.
Upphafinn, ómælanlega upphafinn ert Þú yfir tilraunir dauðlegra manna til að ljóstra upp leyndardómi Þínum, lýsa dýrð Þinni eða jafnvel gefa minnstu vísbendingu um eðlisgerð Þína. Því hvað sem af slíkri viðleitni kann að leiða, getur hún aldrei sigrast á þeim takmörkunum sem eru settar skepnum Þínum, því að þessi viðleitni sprettur af ákvörðun Þinni og er Þín uppfinning. Háleitustu tilfinningar sem helgastir allra dýrlinga láta í ljósi er þeir vegsama Þig og dýpsta viska sem mestir allra lærdómsmanna tjá í viðleitni sinni til að skilja eðli Þitt – allt snýst þetta um þá miðju sem lýtur fullkomlega yfirráðum Þínum, dásamar fegurð Þína og er getin af hreyfingu penna Þíns.
Nei, forða mér, ó Guð minn, að mæla þess konar orð sem túlka mætti svo, að til séu einhver bein tengsl milli penna opinberunar Þinnar og kjarna alls sem skapað er. Hátt, hátt eru þeir sem standa Þér nær, hafnir yfir hugmyndir um slík tengsl! Allur samanburður og líkingar hrökkva skammt andspænis meiði opinberunar Þinnar og sérhver leið til skilnings á birtingu sjálfs Þín og sól fegurðar Þinnar er lokuð.
Fjarri, órafjarri sé dýrð Þinni lof og vegsömun dauðlegs manns og fjarri henni það sem hann eignar Þér og segir um Þig! Hver sú kvöð, sem Þú hefur lagt á þjóna Þína að vegsama af hugheilum innileik tign Þína og dýrð, er aðeins tákn um miskunn Þína með þeim, að þeir megi rísa til þeirrar stöðu sem veitt er innstu verund þeirra, stöðu þekkingar á sjálfum sér.
Enginn annar en Þú hefur nokkru sinni skilið leyndardóm Þinn eða vegsamað tign Þína að verðleikum. Þú verður um alla eilífð órannsakanlegur og hátt hafinn yfir lofgjörð manna. Enginn er Guð nema Þú, hinn ótilkvæmilegi og alvaldi, hinn alvitri og allra heilagasti.
—Bahá’u’lláh
Þér sé öll tign og dýrð, ó Guð minn, allt veldi og ljós, mikilleiki og dýrðarljómi. Þú veitir yfirráð hverjum sem Þú vilt og meinar þau hverjum sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, eigandi alls, hinn upphafnasti. Þú ert sá sem skapaðir alheiminn og allt sem í honum er úr alls engu. Ekkert er Þér verðugt nema Þú sjálfur og allir nema Þú eru sem úrhrök í heilagri návist Þinni og sem alls ekkert í samanburði við dýrð Þinnar eigin verundar.
Fjarri sé það mér að vegsama dyggðir Þínar nema með því sem Þú vegsamaðir sjálfan Þig í þungvægri bók Þinni, þar sem Þú segir: „Engin sýn skynjar Hann, en Hann sér alla sýn. Hann er hinn fíngjörvi, sá sem allt skynjar.“ Dýrð sé Þér, ó Guð minn. Að sönnu getur enginn hugur eða auga, hversu skarpt og glöggskyggnt sem það er, nokkru sinni skilið eðli hins minnsta af táknum Þínum. Sannlega ert Þú Guð, enginn er Guð nema Þú. Ég ber því vitni að Þú ert sjálfur eina tjáning eiginda Þinna, að engin vegsömun getur nokkru sinni náð til Þíns heilaga forgarðs nema Þín eigin vegsömun og enginn nema Þú sjálfur getur nokkru sinni skilið eigindir Þínar.
Dýrð sé Þér, Þú ert upphafinn yfir lýsingu allra nema sjálfs Þín því það er ofar huga mannsins að mikla með viðeigandi hætti dyggðir Þínar eða skilja innsta veruleika kjarna Þíns. Fjarri sé það dýrð Þinni, að skepnur Þínar geti lýst Þér eða nokkur annar en Þú sjálfur geti nokkru sinni þekkt Þig. Ég hef þekkt Þig, ó Guð minn, vegna þess að Þú veittir mér þekkingu á Þér og hefðir Þú ekki opinberast mér, hefði ég ekki þekkt Þig. Ég tilbið Þig vegna þess að Þú kallaðir mig til Þín og hefðir Þú ekki kallað mig hefði ég ekki tilbeðið Þig.
—Bábinn
Mannkynið
Guð minn sem ég tilbið og dái! Ég ber vitni einingu Þinni og einstæði og viðurkenni gjafir Þínar bæði fyrr og nú. Örlæti Þitt er takmarkalaust. Miskunn Þín hefur fallið sem regn yfir háa sem lága og ljós náðar Þinnar skinið á hlýðna sem uppreisnargjarna.
Ó Guð miskunnar! Fyrir dyrum Þínum hefur kjarni miskunnar lotið og mesti andi ástríkis hefur hringsólað um helgidóm málstaðar Þíns. Við áköllum Þína fornu náð og leitum Þinnar nærtæku hylli og biðjum Þig að miskunna öllum sem opinbera þennan tilvistarheim og synja þeim ekki um útdeilingu náðar Þinnar á dögum Þínum.
Allir eru snauðir og þurfandi, og Þú ert vissulega eigandi alls, sá er öllu ræður, hinn alvoldugi.
—Bahá’u’lláh
Dýrð sé Þér, ó Guð, fyrir að opinbera mannkyni ást Þína! Ó Þú sem ert líf okkar og ljós, leiðbein Þú þjónum Þínum á vegi Þínum, ger okkur auðug í Þér og frelsa okkur frá öllu nema Þér.
Ó Guð, kenn okkur einstæði Þitt og gef okkur skilning á einingu Þinni, svo að við sjáum engan nema Þig. Þú ert hinn miskunnsami og gjafarinn örláti.
Ó Guð, skapa í hjörtum Þinna elskuðu eld ástar Þinnar, svo hann gereyði hverri hugsun um annað en Þig. Birt okkur, ó Guð, Þína tignu eilífð, að Þú hefur alltaf verið og munt ætíð vera, og að enginn er Guð nema Þú. Í Þér munum við vissulega finna huggun og styrk.
—Bahá’u’lláh
Ó vorkunnláti Drottinn! Þú sem ert örlátur og alls megnugur. Við erum þjónar Þínir í skjóli forsjár Þinnar. Lít til okkar náðaraugum Þínum. Gef augum okkar ljós, eyrum okkar heyrn og skilning og kærleika hjörtum okkar. Fyll sálir okkar fögnuði og hamingju með gleðiboðskap Þínum. Ó Drottinn, vísa okkur leið konungsríkis Þíns og lát okkur endurfæðast fyrir tilhlutan heilags anda. Gef okkur eilíft líf og ævarandi heiður. Sameina mannkynið og lýs veröld þess. Mættum við öll fylgja Þínum vegi, þrá velþóknun Þína og leita leyndardóma konungsríkis Þíns. Ó Guð! Sameina okkur og teng Þú hjörtu okkar með Þínu órjúfanlega bandi. Sannarlega ert Þú gjafarinn, hinn mildi og almáttugi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Þú góði Drottinn! Ó Þú sem ert örlátur og miskunnsamur! Við erum þjónar fótskarar Þinnar, samankomnir í forsælu Þinnar guðlegu einingar. Sól miskunnar Þinnar skín á alla og úr skýjum örlætis Þíns rignir yfir alla. Gjafir Þínar umvefja alla, ástrík forsjón Þín sér fyrir öllum, vernd Þín yfirskyggir alla og augu hylli Þinnar hvíla á öllum. Ó Drottinn! Gef takmarkalausar gjafir Þínar og lát ljós leiðsagnar Þinnar skína. Lát birta fyrir sjónum, gleð hjörtun með varanlegum fögnuði. Innblás alla menn nýjum anda og veit þeim eilíft líf. Ljúk upp hliðum sanns skilnings og lát ljós trúar skína geislandi. Safna öllum í forsælu örlætis Þíns og lát þá sameinast í eindrægni, svo þeir verði sem geislar sömu sólar, bylgjur eins hafs og ávextir eins trés. Megi þeir drekka af sömu lind, örvast af sama andblæ og uppljómast af einu og sama ljósi. Þú ert gjafarinn, hinn miskunnsami og alvaldi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Þú góði Drottinn! Þú hefur skapað allt mannkynið af sama stofni. Þú hefur ákvarðað, að allir tilheyri sömu fjölskyldu. Í heilagri návist Þinni eru þeir allir þjónar Þínir og allt mannkynið á sér athvarf í tjaldbúð Þinni. Allir hafa safnast saman við nægtaborð Þitt, allir eru upplýstir af ljósi forsjónar Þinnar.
Ó, Guð! Þú ert öllum góður, Þú hefur séð fyrir öllum, skýlir öllum, veitir öllum líf, Þú hefur gætt alla gáfum og hæfileikum og öllum hefur Þú sökkt í úthaf miskunnar Þinnar.
Ó, Þú góði Drottinn! Sameina alla. Gef að trúarbrögðin samræmist og ger þjóðirnar að einni þjóð, svo að þær líti hver á aðra sem eina fjölskyldu og alla jörðina sem eitt heimili. Megi þær allar lifa saman í fullkomnu samræmi.
Ó, Guð! Drag að húni fána heimseiningar.
Ó, Guð! Stofna hinn mesta frið.
Bind hjörtun traustum böndum, ó Guð.
Ó, Þú góði faðir, ó Guð! Gleð hjörtu okkar með ilmi ástar Þinnar. Ger augu okkar skærari með ljósi handleiðslu Þinnar. Veit eyrum okkar unað með hljómfegurð orðs Þíns og skýl okkur öllum í virki forsjónar Þinnar.
Þú ert hinn mikli og máttugi. Þú ert sá, sem fyrirgefur, og Þú ert sá, sem umber ófullkomleika alls mannkyns.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Guð, ó Þú sem hefur varpað ljóma Þínum á geislandi veruleika mannanna, úthellt yfir þá skínandi ljósi þekkingar og leiðsagnar og útvalið þá úr allri sköpun fyrir þessa guðdómlegu náð og látið þá bera skyn á alla hluti skapaða, skilja innsta kjarna þeirra, afhjúpa leyndardóma þeirra og leitt þá út úr myrkrinu inn í sýnilega heiminn. „Hann sýnir vissulega sérstaka náð sína hverjum sem Honum þóknast.“
Ó Drottinn, hjálpa Þú ástvinum Þínum að tileinka sér þekkingu, vísindi og listir og afhjúpa leyndardómana sem eru varðveittir í innsta veruleika alls sem skapað er. Lát þá heyra þá huldu leyndardóma, sem eru ritaðir og greyptir í hjarta alls sem er. Ger þá að gunnfánum leiðsagnar meðal allra skepna og skörpum geislum hugans sem gefa ljós sitt í þessu „fyrsta lífi“. Ger þá að leiðtogum sem leiða mennina til Þín, leiðsögumönnum sem vísa veginn til Þín, hlaupurum sem eggja menn til að leita ríkis Þíns.
Þú ert vissulega hinn voldugi, verndarinn, hinn öflugi, verjandinn, hinn máttugi og örlátasti.
—‘Abdu’l‑Bahá
Morgunn
Ó Drottinn minn og meistari minn! Ég er þjónn Þinn og sonur þjóns Þíns. Ég hef risið úr rekkju í þessari dögun, þegar sól einingar Þinnar hefir skinið frá dagsbrún vilja Þíns og úthellt ljóma sínum yfir alla veröldina, í samræmi við skipanir í bókum ákvörðunar Þinnar.
Lof sé Þér, ó Guð minn, að við höfum vaknað til ljómans frá ljósi þekkingar Þinnar. Send því niður yfir okkur, ó Drottinn minn, það sem gera mun okkur kleift að skiljast frá öllu nema Þér og leys okkur frá eftirsókn eftir öllu nema Þér. Rita einnig niður fyrir mig og þá, sem mér eru kærir, og ættingja mína, bæði konur og karlmenn, hið góða í þessum heimi og þeim sem kemur. Varðveit okkur því næst með óbrigðulli vernd Þinni, ó Þú ástvinur gervallrar sköpunarinnar og þrá alls alheimsins, gegn þeim sem Þú hefur gert að opinberendum hins illa hvíslara sem hvíslar í brjóstum mannanna. Þú ert þess umkominn að gera það sem Þér líst. Þú ert vissulega hinn almáttugi, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
Blessa Þú, ó Drottinn Guð minn, Hann sem Þú hefur sett yfir ágætustu nafnbætur Þínar og látið skilja á milli hinna illu og hinna góðu og náðarsamlegast hjálpa okkur að gera það sem Þú þráir og er þóknanlegt vilja Þínum. Blessa Þú einnig, ó Guð minn, þá sem eru orð Þín og bókstafir og þá sem beint hafa ásjónum sínum til Þín, leitað til auglits Þíns og hlýtt kalli Þínu.
Þú ert sannarlega Drottinn og konungur allra manna og hefur vald yfir öllu sem er.
—Bahá’u’lláh
Ég hef vaknað í skjóli Þínu, ó Guð minn, og það sæmir þeim sem leitar þess skjóls að dveljast í griðareit verndar Þinnar og virkisborg varnar Þinnar. Upplýs innri verund mína, ó Drottinn minn, með dýrðarljómanum frá dagsbrún opinberunar Þinnar, eins og Þú upplýstir ytri verund mína með morgunbirtu hylli Þinnar.
—Bahá’u’lláh
Ég hef risið á fætur þennan morgun sakir náðar Þinnar, ó Guð minn, yfirgefið heimili mitt í heilshugar trausti á Þér og falið Þér forsjá mína. Send því niður yfir mig frá himni miskunnar Þinnar blessun frá Þér og ger mér kleift að snúa óhultur heim aftur, eins og Þú gerðir mér kleift að hefja ferð mína í varðveislu Þinni með hugsun mína einskorðaða við Þig.
Enginn er Guð nema Þú, hinn eini og óviðjafnanlegi, sá sem allt þekkir, hinn alvitri.
—Bahá’u’lláh
Ég vegsama Þig, ó Guð minn, fyrir að vekja mig af svefni mínum og leiða mig fram eftir að ég var horfinn og reisa mig upp af móki mínu. Ég hef vaknað þennan morgun og beint ásjónu minni að dýrð sólar opinberunar Þinnar sem lýst hefur upp himna valds Þíns og tignar, viðurkennt tákn Þín, trúað á bók Þína og haldið fast í líftaug Þína.
Ég bið Þig við mátt vilja Þíns og knýjandi afl áforms Þíns að gera úr því sem Þú opinberaðir mér í svefni mínum tryggasta grundvöllinn fyrir híbýli ástar Þinnar sem er í hjörtum Þinna elskuðu og fremsta verkfærið til að opinbera náð Þína og ástúð.
Fyrirhuga mér með upphafnasta penna Þínum, ó Drottinn minn, gæði þessa heims og þess sem kemur. Ég ber því vitni að Þú heldur í greip Þinni stjórntaumum alls sem er. Þú breytir þeim eins og Þér líst. Enginn er Guð nema Þú, hinn sterki og trúfasti.
Þú ert sá sem breytir að boði sínu niðurlægingu í dýrð, veikleika í styrk, getuleysi í mátt, ótta í rósemi og efa í fullvissu. Enginn er Guð nema Þú, hinn máttugi og góðviljaði.
Þú veldur engum vonbrigðum sem hefur leitað Þín og vísar ekki frá Þér neinum sem hefur þráð Þig. Fyrirhuga mér það sem sæmir himni örlætis Þíns og úthafi hylli Þinnar. Þú ert vissulega hinn almáttugi og voldugasti.
—Bahá’u’lláh
Nálægð við Guð
Lof sé Þér, ó Drottinn Guð minn, meistari minn! Þú heyrir andvörp þeirra sem eru aðskildir Þér og víðsfjarri aðsetri Þínu þótt þeir þrái að líta ásýnd Þína. Þú ert vitni að harmatölum þeirra sem þekkja Þig vegna útlegðar frá Þér og brennandi löngunar að finna Þig. Ég sárbæni Þig við þessi hjörtu, sem geyma ekkert annað en fjársjóð minningar Þinnar og lofgerðar, og lýsa aðeins vitnisburði mikilleika Þíns og táknum máttar Þíns, að veita þjónum Þínum sem þrá Þig styrk til að nálgast sæti opinberunar ljómans af dýrð Þinni, og aðstoða þá sem setja von sína á Þig að ganga inn í helgidóm yfirskilvitlegrar hylli Þinnar og náðar.
Nakinn er ég, ó Guð minn! Klæð mig kyrtli mildrar miskunnar Þinnar. Ég er sárþyrstur, gef mér að drekka úr úthöfum örlátrar hylli Þinnar. Ég er ókunnugur, laða mig nær uppsprettu gjafa Þinna. Sjúkur er ég, lauga mig í heilsulind náðar Þinnar. Ég er fanginn, leys mig úr fjötrum með afli máttar Þíns og krafti vilja Þíns, svo ég fái svifið á vængjum lausnar í hæstu hæðum sköpunar Þinnar. Sannarlega gerir Þú sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hjálpin í nauðum, hinn aldýrlegi og óhefti.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð, Guð minn, ástvinur minn, hjartans þrá mín.
—Bábinn
Ó Drottinn, Guð minn og athvarf mitt í nauðum mínum! Skjöldur minn og skjól í ógæfu minni! Hæli mitt og höfn í þrengingum og félagi í einmanaleik mínum. Í kvíða huggun mín og ástríkur vinur í einveru. Þú eyðir sársauka sorgar minnar og fyrirgefur syndir mínar.
Til Þín eins leita ég og grátbæni Þig með hjarta, huga og tungu að vernda mig gegn öllu, sem er andstætt vilja Þínum í þessum heimi Þinnar guðdómlegu einingar og hreinsa mig af allri saurgun, sem gæti aftrað mér frá að leita, flekklaus og hreinn, forsælunnar undir tré náðar Þinnar.
Miskunna, ó Drottinn, hinum lasburða, lækna hina sjúku og slökk hinn brennandi þorsta.
Gleð Þú hjartað, þar sem eldur kærleika Þíns brennur og tendra þar loga Þíns himneska kærleika og anda.
Skrýð Þú tjaldbúð guðdómlegrar einingar klæðum heilagleikans og set á höfuð mér kórónu hylli Þinnar.
Lýs Þú andlit mitt sólargeislum örlætis Þíns og aðstoða mig af náð Þinni að þjóna við Þína heilögu fótskör.
Lát hjarta mitt fyllast kærleika til allra sem Þú hefur skapað og gef að ég megi verða tákn miskunnsemi Þinnar og merki um náð Þína. Gef að ég megi efla samlyndi Þinna heittelskuðu, verða trúr Þér, minnast Þín í orðum mínum, gleyma sjálfum mér en ætíð vera minnugur þess sem er Þitt.
Ó Guð, Guð minn. Bein ekki frá mér hlýjum andvara fyrirgefningar Þinnar og náðar og tak ekki frá mér uppsprettu hjálpar Þinnar og hylli.
Lof mér að hverfa í skjól verndarvængja Þinna og lít á mig augum Þínum, sem allt vernda.
Leys tungu mína svo hún geti lofað nafn Þitt meðal fólks Þíns, að ég megi hefja rödd mína á miklum samkomum og frá vörum mínum megi streyma elfur hróðurs um Þig.
Þú ert í sannleika hinn náðugi og vegsamaði, hinn máttugi og alvaldi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Hann er hinn samúðarríki, sá sem allt gefur! Ó Guð, Guð minn! Þú sérð mig og þekkir mig, Þú ert hæli mitt og athvarf. Einskis hef ég leitað og einskis mun ég leita nema Þín. Enga leið hef ég farið og enga mun ég fara nema leið ástar Þinnar. Á dimmri nóttu örvæntingar lítur auga mitt í eftirvæntingu og fullt vonar til morgunroða ótæmandi hylli Þinnar, og í dagrenningu hressist og styrkist döpur sál mín við minninguna um fegurð Þína og fullkomnun. Sá sem náð Þín og miskunn hjálpa verður að ómælishafi þótt hann sé ei nema dropi, og minnsta frumeind sem úthelling ástúðar Þinnar aðstoðar mun ljóma sem skínandi stjarna.
Skýl undir verndarvæng Þínum, ó Þú andi hreinleika, Þú sem ert framfærandi sem öllum nægir, þessum gagntekna upptendraða þjóni Þínum. Hjálpa honum í þessum tilveruheimi að vera staðfastur og einarður í ást Þinni, og gef að þessi vængbrotni fugl fái hæli og skjól í Þínu guðlega hreiðri í hinu himneska tré.
—‘Abdu’l‑Bahá
Samfundir
Vegsamaður ert Þú, ó Drottinn Guð minn! Ég sárbæni Þig við stríða vinda náðar Þinnar og þá sem eru geislarnir af morgni áforms Þíns og uppsprettur innblásturs Þíns, að senda yfir mig og alla sem leitað hafa ásjónu Þinnar, það sem sæmir veglyndi Þínu og örlátri náð og hæfir gjöfum Þínum og hylli. Ég er fátækur og vansæll, ó Drottinn minn! Sökk Þú mér í úthaf auðæfa Þinna. Mig þyrstir. Lát mig drekka af lifandi lindum ástúðar Þinnar.
Ég bið Þig í auðmýkt við Þitt eigið sjálf og þann sem Þú hefur útnefnt til að birta öllum á himnum og jörðu Þína eigin veru og Þitt sundurgreinandi orð, að safna saman þjónum Þínum í forsælunni af tré Þinnar náðarríku forsjár. Hjálpa þeim einnig að neyta af ávöxtum þess að hlýða á þytinn í laufi þess og hljómfegurð Fuglsins sem syngur í greinum þess. Þú ert vissulega hjálpin í nauðum, hinn ótilkvæmilegi og almáttugi, hinn örlátasti.
—Bahá’u’lláh
Ó Þú miskunnsami Guð! Ó Þú sem ert máttugur og voldugur! Ó Þú gæskuríkasti Faðir! Þessir þjónar Þínir hafa komið saman og leitað til Þín, biðja til fótskarar Þinnar, óska eftir takmarkalausri hylli Þinni frá Þinni voldugu fullvissu. Þeir hafa ekkert áform annað en velþóknun Þína, ætla sér ekkert nema að þjóna mannheimi.
Ó Guð! Ger þennan fund geislandi. Ger hjörtun miskunnsöm. Veit hylli heilags anda. Miðla þeim krafti frá himnum. Blessa þá með himnesku hugarfari. Auk einlægni þeirra svo þeir megi, fullir auðmýktar og iðrunar, leita til ríkis Þíns og festa hugann við þjónustu við mannheim. Megi hver og einn verða skínandi kerti. Megi hver og einn verða tindrandi stjarna. Megi hver og einn verða fagurleitur og veita ljúfum ilmi í ríki Guðs.
Ó góði Faðir! Veit blessanir Þínar. Lít ekki á vankanta okkar. Skýl okkur með vernd Þinni. Skeyt ekki um syndir okkar. Líkna okkur af miskunn Þinni. Við erum veikburða, Þú ert máttugur. Við erum fátæk, Þú ert ríkur. Við erum sjúk, Þú ert græðarinn. Við erum þurfandi, Þú ert hinn veglyndasti.
Ó Guð! Styrk okkur með forsjón Þinni. Þú ert hinn voldugi. Þú ert gjafarinn. Þú ert hinn gæskuríki.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Þú góði Drottinn! Þetta eru þjónar Þínir, samankomnir á þessum fundi. Þeir hafa leitað til ríkis Þíns og þarfnast veitinga Þinna og blessana. Ó Þú Guð! Birt og ger auðsæ tákn eindar Þinnar sem búa í öllum veruleika lífsins. Opinbera og afhjúpa þær dyggðir sem Þú hefur fólgið í þessum mannlega veruleika.
Ó Guð! Við erum sem gróður og gjafir Þínar sem regn. Lífga þennan gróður og lát hann vaxa með veitingum Þínum. Við erum þjónar Þínir, losa okkur úr fjötrum efnislegrar tilveru. Við erum fávís, ger okkur vitur. Við erum andvana, endurlífga okkur. Við erum efnisleg, miðla okkur anda. Við erum afskipt, treyst okkur fyrir leyndardómum Þínum. Við erum þurfandi, auðga okkur og blessa með Þínum takmarkalausa fjársjóði. Ó Guð! Endurvek okkur, gef okkur sjón, fær okkur heyrn, lát okkur kynnast leynidómum lífsins, svo að leyndarmál ríkis Þíns megi birtast okkur í þessari tilvist og við getum viðurkennt eind Þína. Sérhver gjöf kemur frá Þér, sérhver blessun er Þín.
Þú ert máttugur. Þú ert voldugur. Þú ert gjafarinn, hinn veglyndi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Guð minn! Ó Guð minn! Vissulega leita þessir þjónar Þínir til Þín og biðja til ríkis miskunnar Þinnar. Sannlega laðast þeir að heilagleika Þínum og eru upptendraðir af eldi ástar Þinnar. Þeir leita staðfestingar frá undursamlegu ríki Þínu og vonast eftir inngöngu í Þinn himneska heim. Vissulega þrá þeir gjafir Þínar og óska sér uppljómunar frá sól veruleikans. Ó Drottinn! Ger þá skínandi lampa, líknandi tákn, frjósöm tré og tindrandi stjörnur. Megi þeir ganga fram í þjónustu Þinni, tengjast Þér böndum kærleika Þíns og þrá birtu örlætis Þíns. Ó Drottinn! Ger þá að táknum handleiðslu Þinnar, gunnfána ódauðlegs ríkis Þíns, bylgjur á hafi miskunnar Þinnar og lát þá endurspegla birtu tignar Þinnar.
Vissulega ert Þú hinn veglyndi. Vissulega ert Þú hinn miskunnsami. Vissulega ert Þú hinn hjartfólgni og elskaði.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Þú Guð sem fyrirgefur! Þessir þjónar Þínir leita til ríkis Þíns og leita örlætis og náðar Þinnar. Ó Guð! Ger hjörtu þeirra góð og hrein svo þeir verðskuldi ást Þína. Hreinsa og helga anda þeirra svo að sól raunveruleikans skíni á þá. Hreinsa og helga augun svo þau greini ljós Þitt. Hreinsa og helga eyrun svo þau heyri kall ríkis Þíns.
Ó Drottinn, vissulega erum við veikburða en Þú ert máttugur. Vissulega erum við fátæk en Þú ert ríkur. Við erum leitendur en Þú ert sá sem leitað er. Ó Drottinn! Haf samúð með okkur og fyrirgef okkur. Gef okkur slíka getu og næmni að við megum teljast verðug hylli Þinnar og löðumst að ríki Þínu, að við getum teygað af vatni lífsins, upptendrast af eldi ástar Þinnar og endurlífgast af andblæ heilags anda á þessari geislandi öld.
Ó Guð, Guð minn! Lít þessa samkomu augum ástúðar Þinnar. Varðveit hvern og einn óhultan í umsjá Þinni og vernd. Send yfir þessar sálir himneskar blessanir Þínar. Sökk þeim í úthaf miskunnar Þinnar og fjörga þær með andvara heilags anda.
Ó Drottinn! Veit þessari réttlátu ríkisstjórn náðuga hjálp Þína og staðfestingu. Land þetta er í forsælu verndar Þinnar og þjóðin í Þinni þjónustu. Ó Drottinn! Veit henni himneskar gjafir Þínar og úhell yfir hana mikilli náð Þinni og hylli. Gef að þessi ágæta þjóð njóti sæmdar og hjálpa henni að hljóta inngöngu í ríki Þitt.
Þú ert hinn voldugi, hinn alvaldi og miskunnsami og Þú ert hinn örláti, hinn gæskuríki, Drottinn ríkulegrar náðar.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó himneska forsjón! Á þessari samkomu eru vinir Þínir sem laðast að fegurð Þinni og brenna af eldi ástar Þinnar. Ger þessar sálir að himneskum englum, endurlífga þær með andblæ heilags anda, gef þeim mælska tungu og einörð hjörtu. Veit þeim himneskt afl og miskunnsamar kenndir, lát þær útbreiða einingu mannkyns og verða uppsprettu ástar og samstillingar í mannheimi svo að skaðlegt myrkur fáfræði og fordóma megi hverfa fyrir ljósinu frá sól sannleikans, þessi dapri heimur upplýsast, þetta efnislega ríki drekka í sig geislana frá heimi andans, þessir ýmsu litir verða eitt og söngur lofgerðar rísa til ríkis heilagleika Þíns.
Sannlega ert Þú hinn almáttugi og alvaldi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Sigur málstaðarins
Lofað sé nafn Þitt, ó Drottinn Guð minn! Myrkur grúfir yfir hverju landi og óvildaröfl hafa umkringt allar þjóðir. Handan þeirra skynja ég þó ljóma visku Þinnar og sé bjarma af ljósi forsjár Þinnar.
Þeir sem eru útilokaðir frá Þér eins og með blæju hafa ímyndað sér að það sé á þeirra valdi að slökkva ljós Þitt, kæfa eld Þinn og kyrra vinda náðar Þinnar. Nei, og því ber mér vitni máttur Þinn! Hefði ekki sérhver þrenging verið gerð að boðbera visku Þinnar og hver raun að fararskjóta forsjónar Þinnar hefði enginn dirfst að standa í gegn oss þótt öfl himins og jarðar hefðu fylkt liði gegn oss. Ef ég afhjúpaði leyndardóma undursamlegrar visku Þinnar sem mér eru sýndir yrðu óvinir Þínir sviptir völdum.
Dýrlegur sért Þú því, ó Guð minn. Ég bið Þig við Þitt mesta nafn að safna þeim saman sem elska Þig umhverfis lögin sem streyma frá velþóknun vilja Þíns og senda það niður til þeirra sem færir hjörtum þeirra fullvissu.
Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér líst. Þú ert sannlega hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
—Bahá’u’lláh
Dýrð sé Þér, ó Drottinn, sem kallað hefur til verundar allt sem skapað er í krafti skipunar Þinnar.
Ó Drottinn! Aðstoða þá sem hafnað hafa öllu nema Þér og fær þeim frækilegan sigur. Send niður yfir þá, ó Drottinn, herskara englanna á himni og jörðu og alls sem þar er á milli, til þess að leggja lið þjónum Þínum, styðja þá og styrkja, gera þeim kleift að uppskera árangur, viðhalda þeim, miðla þeim dýrð, sæma þá heiðri og upphafningu, auðga þá og gera þá sigursæla með undursamlegu sigurhrósi.
Þú ert Drottinn þeirra, Drottinn himnanna og jarðarinnar, Drottinn allra veraldanna. Efl þessa trú, ó Drottinn, með afli þessara þjóna og lát þá vinna sigur yfir öllum þjóðum heims, því að þeir eru í sannleika þjónar Þínir sem skilið hafa að baki allt nema Þig, og Þú ert vissulega verndari þeirra sem trúa í sannleika.
Gef, ó Drottinn, að sakir hollustunnar við þessa ólýtanlegu trú Þína megi hjörtu þeirra verða sterkari en allt annað á himni og jörðu og allt sem þar er á milli, og styrk, ó Drottinn, hendur þeirra með táknum Þíns undursamlega valds, svo að þeir megi birta vald Þitt í augsýn alls mannkyns.
—Bábinn
Ó Drottinn! Lát tré Þinnar himnesku einingar vaxa hratt. Vökva það því, ó Drottinn, með streymandi vatni velþóknunar Þinnar og lát það bera þess konar ávexti frammi fyrir opinberunum Þinnar himnesku fullvissu sem Þú þráir Þér til dýrðar og vegsemdar, lofs og þakkargjörðar, til að mikla nafn Þitt, lofa einleika kjarna Þíns og dásama Þig, því allt er í Þínum höndum og einskis annars.
Mikil er blessun þess sem Þú útvaldir til að vökva tré staðfestingar Þinnar með blóði sínu og upphefja með þeim hætti heilagt og óumbreytanlegt orð Þitt.
—Bábinn
Ó Drottinn! Ger þoluga þjóna Þína sigursæla á þessum dögum Þínum því þeir hafa leitað píslarvættis á Þínum vegi. Send það niður yfir þá sem veitir þeim hugsvölun, gleður innri verund þeirra, færir hjörtum þeirra fullvissu og líkömum þeirra rósemi og gerir þeim kleift að stíga upp til návistar Guðs, hins upphafnasta, og ganga inn í hina æðstu paradís og þau athvörf dýrðar sem Þú hefur áformað þeim sem hafa til að bera þekkingu og dyggð. Sannlega þekkir Þú allt sem er en við erum aðeins þjónar Þínir og bandingjar, ánauðugir og þurfandi. Engan Guð áköllum við nema Þig, ó Guð Drottinn okkar, og við biðjum ekki um blessun og náð frá neinum nema Þér, ó Þú sem ert Guð miskunnar í þessum heimi og þeim sem kemur. Við erum einungis holdtekjur fátæktar, tortímingar, vanmáttar og tilvistarleysis en öll verund Þín er ímynd ríkidæmis, sjálfstæðis, dýrðar, tignar og takmarkalausrar náðar.
Umbuna okkur, ó Drottinn, eins og sæmir Þér með gæðum þessa heims og hins næsta og margvíslegum blessunum sem ná frá hæðum ofan og niður til jarðar.
Sannlega ert Þú Drottinn okkar og Drottinn alls sem er. Við felum okkur í Þínar hendur og þráum það sem Þér tilheyrir.
—Bábinn
Ó Drottinn! Ger öllum þjóðum jarðarinnar kleift að fá aðgang að paradís trúar Þinnar, svo að engin sköpuð vera megi dvelja utan marka velþóknunar Þinnar.
Frá ómunatíð hefur Þú verið þess megnugur að gera það sem Þér þóknast, upphafinn yfir allt sem Þú þráir.
—Bábinn
Ó Guð, Guð minn! Lof sé Þér fyrir að glæða eld himneskrar ástar í Hinum helga meið á tindi hins hæsta fjalls, sem „hvorki er af austri eða vestri“, eldinn sem funar uns logar hans ná til herskaranna á hæðum, og frá honum fengu þessir veruleikar ljós leiðsagnar og hrópuðu: „Sannlega höfum við séð eldinn í hlíðum Sínaí!“
Ó Guð, Guð minn! Glæð þennan eld með hverjum degi sem líður uns bál hans hreyfir við öllu á jörðu. Ó Þú Drottinn minn! Glæð ljós ástar Þinnar í hverju hjarta, blás í sálir mannanna anda þekkingar Þinnar, gleð brjóst þeirra með helgiorðum einleika Þíns. Vek þá til lífsins sem liggja í gröfum sínum, aðvara hina drambsömu, lát hamingju fylla jörðina, send niður kristaltært vatn Þitt og lát ganga bikar ástarinnar sem er „tempraður við kamfórubrunninn“ í söfnuði augljósrar dýrðar.
Sannlega ert Þú gjafarinn, fyrirgefandinn, sá sem allt gefur. Sannlega ert Þú hinn miskunnsami og vorkunnláti.
—‘Abdu’l‑Bahá
Hann er Guð!
Ó Drottinn, Guð minn, ástvinur minn! Þessir eru þjónar Þínir sem heyrt hafa rödd Þína, ljáð eyra orði Þínu og hlýtt kalli Þínu. Þeir hafa trúað á Þig, orðið vitni að undrum Þínum og viðurkennt sönnun Þína. Þeir hafa gengið Þína vegu, tekið tilsögn Þinni, uppgötvað leyndardóma Þína, skilið leyndarmál bókar Þinnar, versin í helgiritum Þínum og tíðindi pistla Þinna og taflna. Þeir hafa hjúfrað sig að klæðisfaldi Þínum og náð haldi á ljóma Þínum og tign. Skref þeirra hafa styrkst í sáttmála Þínum og hjörtu þeirra orðið staðföst í erfðaskrá Þinni. Drottinn! Kveik í hjörtum þeirra loga guðlegs aðdráttarafls Þíns og gef að fugl ástar og skilnings megi syngja í hjörtum þeirra. Gef að þeir verði sem voldug tákn, skínandi fordæmi og fullkomnir eins og orð Þitt. Upphef með þeim málstað Þinn, lát fána Þína blakta og kunnger undur Þín víða vegu. Ger orð Þitt sigursælt fyrir þeirra sakir og styrk lendar Þinna elskuðu. Leys tungur þeirra til að vegsama nafn Þitt og blás þeim í brjóst löngun til að gera heilagan vilja Þinn og velþóknun. Uppljóma ásjónur þeirra í heilögu ríki Þínu og fullkomna gleði þeirra með því að hjálpa þeim að rísa upp til sigurs fyrir málstað Þinn.
Drottinn! Við erum veikburða, styrk okkur til að dreifa ilmi heilagleika Þíns; fátæk, auðga okkur af fjársjóði guðlegrar einingar Þinnar; nakin, klæð okkur kyrtli örlætis Þíns; syndug, fyrirgef syndir okkar af náð Þinni og hylli og veit okkur aflausn. Þú ert vissulega sá sem hjálpar og liðsinnir, hinn náðugi og máttugi, hinn voldugi.
Dýrð dýrða hvíli yfir þeim sem eru tryggir og staðfastir.
—‘Abdu’l‑Bahá
Sjóðurinn
Allir vinir Guðs . . . ættu að leggja af mörkum það sem þeir geta, hversu fábrotin sem sú fórn kann að vera. Guð leggur ekki meiri byrðar á sálina en hún getur borið. Slík framlög verða að koma frá öllum miðstöðvum og öllum átrúendum . . . Ó vinir Guðs! Verið þess fullvissir, að vegna þessara framlaga hlýtur jarðyrkja yðar, iðnaður og verslun margfalda blessun með liðveislu og góðum gjöfum. Sá sem vinnur eitt gott verk hlýtur tífalda umbun. Enginn vafi er á því, að hinn lifandi Drottinn mun ríkulega staðfesta þá sem gefa auð sinn á vegi Hans.
Ó Guð, Guð minn! Upplýs brá sannra elskenda Þinna og styrk þá með himneskum herskörum öruggs sigurs. Ger fætur þeirra stöðuga á Þínum beina vegi og opna þeim hlið gjafa Þinna með aldinni hylli Þinni, því þeir eyða á Þínum stigum því sem Þú hefur gefið þeim, standa vörð um trú Þína, setja traust sitt á minningu sína um Þig, fórna hjörtum sínum sakir ástar á Þér og halda eigi aftur af því sem þeir eiga vegna aðdáunar á fegurð Þinni og í leit sinni að leiðum til að þóknast Þér.
Ó Drottinn minn! Fyrirhuga þeim ríflegan skerf, áformað endurgjald og örugga umbun.
Vissulega ert Þú sá sem viðheldur, hjálparinn, hinn örláti og gjafmildi, síveitandinn.
—‘Abdu’l‑Bahá
Staðfesta
Vegsamað sé nafn Þitt, ó Drottinn Guð minn! Ég bið Þig í auðmýkt við vald Þitt sem nær til alls sem skapað er, við veldi Þitt sem er hafið yfir gervalla sköpunina og við orð Þitt sem fólst í visku Þinni og sem Þú skapaðir með himin Þinn og jörð, að gera okkur staðföst í ást til Þín og hlýðni við þóknun Þína, láta okkur festa augun á ásjónu Þinni og lofa dýrð Þína. Veit okkur getu, ó Guð minn, til að breiða út tákn Þín meðal skepna Þinna og verja trú Þína í ríki Þínu. Tilvist Þín hefur ætíð verið óháð orðum allra skepna Þinna og svo verður áfram um alla eilífð.
Þér hef ég veitt allan trúnað minn, til Þín snúið ásjónu minni, ég hef tekið í líftaug ástríkrar forsjár Þinnar og hraðað mér í forsælu miskunnar Þinnar. Varpa mér ekki vonsviknum á dyr, ó Guð minn, og synja mér ekki um náð Þína því Þín eins leita ég. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn örlátasti.
Lof sé Þér, ó Þú sem ert ástfólginn þeim sem hafa þekkt Þig!
—Bahá’u’lláh
Ó Guð, nálægð Þín er ósk mín, návist Þín er von mín, minning Þín er þrá mín, forgarður dýrðar Þinnar er takmark mitt, aðsetur Þitt er áfangastaður minn, nafn Þitt lækning mín, ást Þín geislan hjarta míns, þjónusta við Þig mín æðsta eftirlangan! Ég grátbið Þig við nafn Þitt sem gerði þeim sem borið hafa kennsl á Þig fært að svífa til hæstu hæða þekkingar á Þér og veitti þeim sem tilbiðja Þig af einlægni styrk til að komast í forgarð heilagrar hylli Þinnar, – hjálpa mér að beina sjónum að ásýnd Þinni, að festa augu mín á Þér og tala um dýrð Þína.
Ég er sá, ó Guð minn sem hefur gleymt öllu öðru en Þér og leitað til dagsbrúnar náðar Þinnar og yfirgefið allt nema Þig sjálfan í von um að nálgast forgarð Þinn. Lít því til mín þegar ég beini augum mínum að aðsetrinu sem ljómar af birtu ásjónu Þinnar. Send niður yfir mig, ó minn elskaði, það sem gerir mig staðfastan í málstað Þínum, svo að efasemdir hinna trúlausu geti ekki hindrað mig í að leita til Þín.
Þú ert sannlega Guð valdsins, hjálpin í nauðum, hinn aldýrlegi og almáttugi.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð, Guð minn! Ég hef leitað í iðran til Þín og sannlega ert Þú fyrirgefandinn, hinn vorkunnláti.
Ó Guð, Guð minn! Ég hef snúið aftur til Þín og sannlega ert Þú sá sem ætíð fyrirgefur, hinn náðugi.
Ó Guð, Guð minn! Ég hef haldið traustu taki í líftaug örlætis Þíns og hjá Þér er varðveitt allt á himnum og jörðu.
Ó Guð, Guð minn! Ég hef hraðað för minni til Þín og sannlega ert Þú fyrirgefandinn, Drottinn ríkulegrar náðar.
Ó Guð, Guð minn! Mig þyrstir eftir himnesku víni náðar Þinnar og sannlega ert Þú gjafarinn, hinn veglyndi og náðugi, hinn almáttugi.
Ó Guð, Guð minn! Ég ber því vitni að Þú hefur opinberað málstað Þinn, uppfyllt loforð Þitt og sent það niður frá himni náðar sem hefur laðað til Þín hjörtu þeirra sem eru Þér kærir. Heill þeim sem heldur fast í trausta taug Þína og tekur í geislandi klæðisfald Þinn.
Ég bið Þig, ó Drottinn allrar verundar og konungur hins séða og óséða, við vald Þitt, tign Þína og yfirráð að gefa að dýrðarpenni Þinn megi skrá nafn mitt meðal helgaðra fylgjenda Þinna, þeirra sem bókfell hinna syndugu hindraði ekki frá að leita til ljóss ásýndar Þinnar, ó Guð, Þú sem heyrir bænir og svarar þeim.
—Bahá’u’lláh
Dýrlegur ert Þú, ó Drottinn Guð minn! Í auðmýkt bið ég Þig við þann sem er Þitt mesta nafn, þann sem var sárt leikinn af þeim skepnum Þínum, sem afneituðu sannleika Þínum, og umsetinn raunum sem engin tunga fær lýst, að gefa að ég megi minnast Þín og færa Þér lof á þessum dögum þegar allir hafa snúið frá fegurð Þinni, deilt við Þig og snúið með lítilsvirðingu baki við Honum sem birtir málstað Þinn. Enginn getur hjálpað Þér, ó Drottinn minn, nema Þitt eigið sjálf, og ekkert vald komið Þér að liði nema Þitt eigið vald.
Ég sárbæni Þig að gera mér kleift að halda staðfastlega við ást Þína og minningu. Það er sannlega á mínu valdi og Þú ert sá sem þekkir allt sem í mér býr. Þú ert í sannleika þekkjandinn, sá sem er alls vís. Svipt mig ekki, ó Drottinn minn, bjarmanum af ljósi ásýndar Þinnar sem hefur lýst upp alla veröldina. Enginn er Guð nema Þú, hinn voldugasti og aldýrlegi, sá sem ætíð fyrirgefur.
—Bahá’u’lláh
Við biðjum Guð að hjálpa þeim af náð sinni sem fara villir vegar að vera sannir og réttsýnir og upplýsa þá um það sem þeir gáfu ekki gaum. Hann er að sönnu hinn örlátasti og veglyndasti. Hald ekki þjónum Þínum, ó Drottinn minn, frá dyrum náðar Þinnar og rek þá ekki á brott frá aðsetri návistar Þinnar. Hjálpa þeim að eyða mistri hégómlegs hugarburðar, og rífa sundur hulur fánýtra ímyndana og væntinga. Þú ert vissulega eigandi alls, hinn hæsti. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og náðugi.
—Bahá’u’lláh
Lof sé Þér, ó Drottinn, besti ástvinur minn! Ger mig staðfastan í málstað Þínum og gef að ég megi teljast til þeirra sem ekki hafa rofið sáttmála Þinn né fylgt hjáguðum sinna eigin fánýtu ímyndana. Ger mér því kleift að taka sæti sannleikans í návist Þinni, gef mér tákn um miskunn Þína og lát mig ganga í flokk þeirra þjóna Þinna sem ekki verða slegnir ótta og enginn fær bakað hryggð. Gef mig ekki á vald sjálfs mín, ó Drottinn minn, og meina mér ekki um þekkingu á Honum sem opinberar Þitt eigið sjálf og tel mig ekki til þeirra sem hafa snúið frá heilagri návist Þinni. Tel mig, ó Guð minn, með þeim sem njóta þeirra forréttinda að festa sjónir á fegurð Þinni og hafa af því slíkt yndi að þeir myndu ekki skipta á einu andartaki þess unaðar fyrir ríki himins og jarðar né gjörvallt sköpunarverkið. Sjá aumur á mér, ó Drottinn, á þessum dögum þegar þjóðir jarðar Þinnar hafa ratað í hörmulega villu. Veit mér því, ó Guð minn, það sem er gott og sæmandi að Þínu mati. Þú ert vissulega hinn alvoldugi og náðugi, hinn örláti, sá sem ætíð fyrirgefur.
Gef, ó Drottinn minn, að ég megi ekki teljast til þeirra sem sviptir eru sjón, heyrn og máli og hafa skynlaus hjörtu. Frelsa mig, ó Drottinn, frá eldi fáfræði og eigingjarnrar ástríðu, leyf mér að ganga inn til sviða Þinnar yfirskilvitlegu náðar og send það niður yfir mig sem Þú hefur ákvarðað Þínum útvöldu. Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér líst. Vissulega ert Þú hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
—Bábinn
Vegsamaður og dýrlegur sért Þú, ó Guð!
Gef að sá dagur nálgist óðfluga, er við göngum í heilaga návist Þína. Gleð hjörtu okkar með mætti ástar Þinnar og velþóknunar og ger okkur staðföst, svo að við gefum okkur fúslega undir Þinn vilja og Þína ákvörðun. Vissulega umlykur þekking Þín allt, sem Þú hefur skapað og munt skapa, og himneskur máttur Þinn er ofar öllu sem Þú hefur kallað og munt kalla til lífs. Engan ber að tigna nema Þig, engan ber að þrá nema Þig, engan ber að tilbiðja nema Þig og ekkert ber að elska nema velþóknun Þína.
Vissulega ert Þú hinn æðsti stjórnandi, hinn fullvalda sannleikur, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
—Bábinn
Ó Drottinn, Guð minn! Hjálpa Þínum elskuðu að vera stöðugir í trú Þinni, ganga vegu Þína og vera staðfastir í málstað Þínum. Veit þeim náð til að standast atlögur sjálfs og ástríðna, að fylgja ljósi himneskrar leiðsagnar. Þú ert hinn voldugi, hinn náðugi, hinn sjálfumnógi, gjafarinn, hinn vorkunnláti og almáttugi, sá sem allt gefur.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Þú Guð minn, sem leiðir leitandann á hinn rétta veg, frelsar hina týndu og blindu sál frá auðnum tortímingar, Þú sem veitir hinum einlægu miklar gjafir og hylli, skýlir hinum óttaslegnu í óvinnandi virki Þínu og svarar frá alhæsta sjónarhring Þínum hrópi þeirra sem hrópa á Þig. Lofaður sért Þú, ó Drottinn minn! Þú hefur leitt hina villuráfandi frá dauða vantrúar, fært þá á leiðarenda sem hafa nálgast Þig, glatt hina fullvissuðu meðal þjóna Þinna með því að uppfylla dýrmætustu óskir þeirra, opnað frá ríki fegurðar Þinnar hlið endurfunda í ásýnd þeirra sem þrá Þig og bjargað þeim frá eldi skorts og missis svo þeir hröðuðu sér til Þín, gengu í návist Þína, komu að opnum dyrum og fengu ríkulegan skerf gjafa.
Ó Drottinn minn, þá þyrsti og Þú barst að skrælnuðum vörum þeirra bikar endurfunda. Ó mildi gjafari, Þú linaðir sársauka þeirra með smyrsli veglyndis og náðar og græddir meinsemdir þeirra með æðsta læknisdómi samúðar Þinnar. Ó Drottinn, ger fætur þeirra stöðuga á hinum beina vegi, víkka fyrir þeim nálaraugað og lát þá ganga í dýrð Þinni um alla eilífð, íklædda konunglegum skrúða.
Vissulega ert Þú hinn örláti, sá sem ætíð gefur, hinn dýrmæti og gjafmildasti. Enginn er Guð nema Þú, hinn máttugi og voldugi, hinn upphafni og sigursæli.
—‘Abdu’l‑Bahá
Staðfesta í sáttmálanum
Dýrð sé Þér, ó konungur eilífðar, skapari þjóðanna og sá sem mótar hvert fúnandi bein! Ég bið Þig við nafn Þitt, sem Þú lést kalla allt mannkyn til sjónarhrings tignar Þinnar og hylli og leiðbeina þjónum Þínum að telja mig með þeim sem hafa varpað frá sér öllu nema Þér og haldið til Þín, og ekki látið þær þrengingar sem Þú hefur ákvarðað aftra sér frá að leita gjafa Þinna.
Ég hef, ó Drottinn minn, tekið í handfestu hylli Þinnar og haldið staðfastlega í kyrtilfald veglyndis Þíns. Send því niður yfir mig úr skýjum örlætis Þíns það sem hreinsar mig af minningu um allt nema Þig og ger mér kleift að leita til Hans sem allt mannkynið tilbiður og sem undirróðursmennirnir hafa fylkt sér gegn, þeir sem rufu sáttmála Þinn og höfnuðu trú á Þig og tákn Þín.
Neita mér ekki, ó Drottinn minn, um ilminn af klæðum Þínum á Þínum eigin dögum og svipt mig ekki andblæ opinberunar Þinnar þegar ljóminn af ljósi ásýndar Þinnar birtist. Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér líst. Enginn getur staðið í gegn vilja Þínum né komið í veg fyrir það sem Þú hefur ákvarðað með valdi Þínu.
Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og alvísi.
—Bahá’u’lláh
Hann er hinn máttugi, fyrirgefandinn, hinn vorkunnláti!
Ó Guð, Guð minn! Þú lítur þjóna Þína í afgrunni villu og tortímingar, hvar er ljós himneskrar leiðsagnar Þinnar, ó Þú þrá heimsins? Þú þekkir hjálparleysi þeirra og vanmátt, hvar er vald Þitt, ó Þú sem hefur í greip Þinni öfl himins og jarðar?
Ég bið Þig, ó Drottinn Guð minn, við ljómann af ljósi ástúðar Þinnar og öldurnar á hafi þekkingar Þinnar og visku, og við orð Þitt sem Þú hefur látið hreyfa við þjóðum ríkis Þíns, að gefa að ég megi teljast til þeirra sem hafa haldið boð Þitt í bók Þinni og ákvarða mér það til handa sem Þú hefur áformað trúnaðarmönnum Þínum, þeim sem drukku vín guðlegs innblásturs úr kaleik hylli Þinnar og hröðuðu sér að framfylgja velþóknun Þinni og fylgdu sáttmála Þínum og erfðaskrá. Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér líst. Enginn er Guð nema Þú, hinn alvitri og alvísi.
Ákvarða mér af hylli Þinni, ó Drottinn, það sem stoðar mig í þessum heimi og þeim sem kemur og laðar mig nær Þér, ó Þú sem ert Drottinn allra manna. Enginn er Guð nema Þú, hinn eini og máttugi, hinn vegsamaði.
—Bahá’u’lláh
Ger skref okkar stöðug, ó Drottinn, á vegi Þínum og styrk hjörtu okkar í hlýðni við Þig. Bein ásjónum okkar að fegurð eindar Þinnar og gleð brjóst okkar með táknum Þinnar guðlegu einingar. Skrýð líkami okkar kyrtli örlætis Þíns, tak hulu syndar frá augum okkar og fær okkur bikar náðar Þinnar, svo að kjarni allra vera fái sungið Þér lof frammi fyrir sýn tignar Þinnar. Birt því sjálfan Þig, ó Drottinn, í Þinni miskunnsömu tjáningu og dulúð Þinnar guðdómlegu veru, svo heilög leiðsla bænar megi fylla sálir okkar – bænar sem rísi yfir orð og bókstafi og hefjist yfir klið samstöfu og hljóðtákna – svo að allt hverfi andspænis birtingu dýrðar Þinnar.
Drottinn! Þetta eru þjónar sem haldið hafa af festu og einurð við sáttmála Þinn og erfðaskrá. Þeir hafa tekið í handfestu tryggðar við málstað Þinn og haldið traustu taki í kyrtilfald tignar Þinnar. Aðstoða þá, ó Drottinn, af náð Þinni, staðfest þá af valdi Þínu, og styrk lendar þeirra í hlýðni við Þig.
Þú ert fyrirgefandinn, hinn náðugi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó vorkunnláti Guð! Þökk sé Þér að Þú hefur vakið mig og fært mér meðvitund. Þú hefur gefið mér sjáandi auga og heiðrað mig með heyrandi eyra, leitt mig til ríkis Þíns og leiðbeint mér að vegi Þínum. Þú hefur sýnt mér hina réttu leið og látið mig ganga um borð í örk lausnarinnar. Ó Guð! Ger mig staðfastan, einarðan og dyggan. Vernda mig gegn þungbærum prófraunum og veit mér skjól og athvarf í rammgerðu virki sáttmála Þíns og erfðaskrár. Þú ert hinn voldugi. Þú ert sjáandinn. Þú ert heyrandinn.
Ó Þú vorkunnláti Guð. Gef mér hjarta sem upplýsist eins og gler af ljósi ástar Þinnar, og blás mér í brjóst hugsanir sem geta breytt þessum heimi í rósagarð með úthellingu himneskrar náðar.
Þú ert hinn vorkunnláti og miskunnsami. Þú ert hinn mikli gjafmildi Guð.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Drottinn minn og von mín! Hjálpa Þú ástvinum Þínum að vera stöðugir í máttugum sáttmála Þínum, trúir opinberuðum málstað Þínum og fylgja boðunum sem Þú gafst þeim í bók dýrðarljóma Þíns svo þeir megi verða fánar leiðsagnar og lampar herskaranna á hæðum, brunnar takmarkalausrar visku Þinnar og stjörnur sem lýsa veginn, tindrandi á guðdómlegri festingu.
Sannlega ert Þú hinn ósigrandi og almáttugi, hinn alvoldugi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ungmenni
Ó Þú góði Drottinn! Frá sjónarhring andlegrar lausnar hefur Þú birt sálir sem eins og skínandi máni varpa ljósi yfir ríki hjarta og sálar, losa sig við veraldlega eiginleika og hraða sér til ríkis ódauðleikans. Með dropa úr hafi ástríkis Þíns döggvaðir Þú oftsinnis garða hjartna þeirra uns þeir báru af öðrum í fegurð og ferskleika. Heilagur ilmur guðdómlegrar einingar Þinnar barst víða vegu, gaf frá sér ljúfa angan um alla veröld og veitti ilman yfir öll héruð jarðar.
Reis því upp, ó Andi hreinleika, sálir sem líkt og þessar helguðu verur verða frjálsar og hreinar, færa þennan heim í nýjan búning og klæða hann undurfagurri skikkju, leita einskis annars en Þín, feta enga stigu nema stigu velþóknunar Þinnar og ræða ekki annað en leyndardóma málstaðar Þíns.
Ó Þú góði Drottinn! Gef að þessi unglingur megi öðlast það sem er æðsta von og þrá hinna heilögu. Ljá honum vængi styrkjandi náðar Þinnar – vængi andlegrar lausnar og guðlegrar aðstoðar – til þess að hann megi svífa á þeim inn í andrúm mildrar miskunnar Þinnar, fái sinn skerf af himneskum gjöfum Þínum, verði tákn guðlegrar leiðsagnar og merki herskaranna á hæðum. Þú ert hinn máttugi, hinn voldugi, sjáandinn og heyrandinn.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Þú góði Drottinn! Náðarsamlega ljá þessum ungum himneska vængi og veit þeim andlegan styrk svo þeir megi hefja sig til flugs í þessari takmarkalausu víðáttu og svífa til ríkis Hins hæsta.
Ó Drottinn! Styrk þessa veikburða teinunga til þess að sérhver þeirra megi verða tré sem ber ríkulegan ávöxt, blómlegt og gróskumikið. Ger þessar sálir sigursælar með afli Þinna himnesku herskara til þess að þær geti gersigrað öfl fávisku og vanþekkingar og hafið á loft fána vináttu og leiðsagnar meðal manna, að þær megi eins og endurlífgandi andvari vorsins örva og endurnæra meiði mannlegra sálna, og líkt og regnskúrir á vori gera jörðina græna og gróðursæla.
Þú ert hinn máttugi og voldugi. Þú ert gjafarinn og sá sem allt elskar.
‘Abdu’l‑Bahá
Ó Þú góði Drottinn! Veit þessari dóttur ríkisins himneska staðfestingu og aðstoða hana af náð Þinni til að verða stöðug og staðföst í málstað Þínum, svo hún megi syngja söngva Þína fegurstu rödd líkt og næturgali í rósalundi leyndardóma Þinna í Abhá ríkinu og færa þannig öllum hamingju. Ger hana upphafna meðal dætra ríkisins og ger henni kleift að eignast eilíft líf.
Þú ert gefandinn, sá sem allt elskar.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Drottinn! Ger þennan ungling geislandi og veit þessari vesalings veru hylli Þína. Gef honum þekkingu, fær honum aukinn styrk í byrjun hvers dags og gæt hans í skjóli verndar Þinnar svo hann megi frelsast frá villu, helga sig þjónustu við málstað Þinn, leiða hina vegvilltu, leiðbeina hinum gæfusnauðu, frelsa bandingjana og vekja hina gálausu til þess að öllum megi hlotnast blessun með minningu Þinni og lofgjörð. Þú ert hinn máttugi og voldugi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Vernd
Lof sé Þér, ó Drottinn Guð minn! Þú sérð og veist að ég hef hvatt þjóna Þína til að snúa sér ekki að neinu nema gjöfum Þínum og boðið þeim að gæta aðeins þess sem Þú hefur ákvarðað í skýrri bók Þinni, bókinni sem var send niður í samræmi við órannsakanlega ákvörðun Þína og óafturkallanlegt áform.
Ég fæ ekki mælt orð frá munni, ó Guð minn, nema Þú leyfir það og ég get hvergi farið nema með Þinni heimild. Þú ert sá, ó Guð minn, sem hefur gefið mér líf með valdi máttar Þíns og leyft mér af náð Þinni að birta málstað Þinn. Sakir þess hefur slíkt mótlæti fallið mér í skaut að tungu minni hefur verið varnað að vegsama Þig og mikla dýrð Þína.
Allt lof sé Þér, ó Guð minn, fyrir það sem Þú hefur ákvarðað mér með ráðsályktun Þinni og í krafti yfirráða Þinna. Ég sárbæni Þig um að styrkja mig og þá sem elska mig í ást okkar á Þér og gera okkur stöðuga í málstað Þínum. Ég sver við mátt Þinn! Ó Guð minn! Smán þjóns Þíns er að vera útilokaður frá Þér eins og með blæju og dýrð hans er fólgin í því að þekkja Þig. Með vald nafns Þíns að vopni getur ekkert nokkru sinni sært mig og með ást Þína í hjarta mínu getur öll heimsins þrenging aldrei vakið mér ógn.
Send því niður, ó Drottinn minn, yfir mig og ástvini mína það sem ver okkur gegn vélabrögðum þeirra sem hafa hafnað sannleika Þínum og afneitað táknum Þínum.
Þú ert vissulega hinn aldýrlegi og gjafmildasti.
—Bahá’u’lláh
Lofaður sért Þú, ó Drottinn Guð minn! Þetta er þjónn Þinn sem teygað hefur úr höndum náðar Þinnar vín Þinnar ljúfu líknar og fundið keim ástar Þinnar á dögum Þínum. Ég bið Þig innilega við holdtekju nafna Þinna, sem engin sorg getur aftrað frá að fagna í ást Þinni eða einblína á ásjónu Þína, og sem allar hersveitir hinna gálausu megna ekki að snúa af vegi velþóknunar Þinnar: Veit honum þau gæði sem eru með Þér og lyft honum til slíkra hæða að hann líti á veröldina sem skugga sem hverfur á örskotsstund.
Vernda hann einnig, ó Guð minn, með afli ómælistignar Þinnar gegn öllu sem Þér er andstyggð. Sannarlega ert Þú Drottinn hans og Drottinn allra veraldanna.
—Bahá’u’lláh
Lofað sé nafn Þitt, ó Drottinn Guð minn! Ég sárbæni Þig við nafn Þitt sem lét stundina koma, upprisudaginn renna upp og ótta og bifan grípa alla sem eru á himnum og jörðu, að láta það streyma frá himni náðar Þinnar og úr skýjum mildrar vorkunnsemi Þinnar sem gleður hjörtu þjóna Þinna, er hafa snúið sér til Þín og hjálpað málstað Þínum.
Vernda þjóna Þína og þjónustumeyjar, ó Drottinn minn, frá skeytum fánýts hugarburðar og hégómlegra ímyndana og gef þeim að drekka úr höndum náðar Þinnar af lygnum vötnum þekkingar Þinnar.
Þú ert sannlega hinn almáttugi og upphafnasti, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn örlátasti.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð, Guð minn! Ég hef lagt af stað frá heimili mínu, haldið fast í taug ástar Þinnar og falið mig fullkomlega vernd Þinni og forsjá. Ég sárbæni Þig við vald Þitt sem Þú hefur verndað með ástvini Þína gegn hinum vegvilltu og öfugsnúnu og gegn sérhverjum mótþróafullum kúgara og illgerðarmanni sem hefur villst langt frá Þér, að láta ekkert verða mér að meini sakir náðar Þinnar og veglyndis. Ger mér því kleift að snúa aftur til heimilis míns fyrir mátt Þinn og vald. Þú ert sannlega hinn almáttugi, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
—Bahá’u’lláh
Í nafni Hans, hins upphafna, hæsta og háleitasta!
Dýrlegur ert Þú, ó Drottinn Guð minn! Ó Þú sem ert Guð minn og meistari, Drottinn minn og hjálparhella, von mín, athvarf og ljós. Ég bið Þig við Þitt hulda og dýrmæta nafn sem enginn þekkir nema Þitt eigið sjálf, að vernda þann sem ber þessa töflu frá sérhverri ógæfu og plágu, gegn sérhverjum vondum manni og konu, frá illsku illvirkjanna og ráðabruggi hinna vantrúuðu. Vernda hann einnig, ó Guð minn, gegn öllum sársauka og skapraun, ó Þú sem hefur í hendi Þér ríki allra hluta. Þú hefur sannarlega vald yfir öllu sem er. Þú gerir það sem Þér líst og ákvarðar það sem Þér þóknast.
Ó Þú konungur konunga! Ó Þú góði Drottinn! Ó Þú uppspretta aldinnar hylli, náðar, örlætis og gjafa! Ó Þú sem græðir meinsemdir! Ó Þú sem svarar hinum þurfandi! Ó Þú ljóssins ljós! Ó Þú ljós ofar öllu ljósi! Ó Þú sem birtir sérhverja opinberun! Ó Þú samúðarfulli! Ó Þú miskunnsami! Haf miskunn með þeim sem ber þessa töflu af almestri miskunn Þinni og ríkulegri náð, ó Þú hinn náðugi og gjafmildi. Vernda hann einnig með hlífiskildi Þínum gegn öllu sem er hjarta hans og huga viðurstyggð. Þú ert voldugastur allra valdhafa. Dýrð Guðs hvíli yfir Þér, ó Þú rísandi sól! Ber því vitni sem Guð hefur sjálfur vitnað um, að enginn er Guð nema Hann, hinn almáttugi og ástkærasti.
—Bahá’u’lláh
Vegsamaður ert Þú, ó Drottinn Guð minn! Ég sárbæni Þig að láta því rigna úr nægtaskýjum náðar Þinnar sem hreinsar hjörtu þjóna Þinna af öllu sem kemur í veg fyrir að þeir líti ásýnd Þína eða leiti til Þín, svo þeir geti allir borið kennsl á völund sinn og skapara. Hjálpa þeim einnig, ó Guð, með allsráðandi mætti Þínum, að öðlast slíka stöðu að þeir greini hiklaust sérhvern ódaun frá ilminum af klæðum Hans sem ber Þitt háleitasta og upphafnasta nafn, svo þeir geti leitað heilshugar til Þín og njóti svo náins samneytis við Þig að þótt þeim væri gefið allt á himnum og jörðu myndu þeir ekki virða það viðlits, og neituðu að láta af að minnast Þín og vegsama dyggðir Þínar.
Ég bið Þig, ó minn ástfólgni, þrá hjarta míns; vernda Þú þjón Þinn sem leitað hefur ásjónu Þinnar gegn skeytum þeirra sem hafa afneitað Þér og atlögum þeirra sem hafa hafnað sannleika Þínum. Ger hann heilshugar helgaðan Þér, lát hann nefna nafn Þitt og festa sjónir á helgidómi opinberunar Þinnar. Þú hefur að sönnu aldrei vísað frá dyrum miskunnar Þinnar þeim sem hafa sett vonir sínar á Þig né varnað þeim sem hafa leitað Þín inngöngu í forgarð náðar Þinnar. Enginn er Guð nema Þú, hinn voldugasti og alhæsti, hjálpin í nauðum, hinn aldýrlegi og knýjandi, hinn óskilyrti.
—Bahá’u’lláh
Ákvarða mér, ó Drottinn minn, og þeim sem á Þig trúa það sem er okkur fyrir bestu að Þínu mati, eins og mælt er fyrir um í móðurbókinni, því í hendi Þinni hefur Þú ákvarðaðan mæli alls sem er.
Góðar gjafir Þínar streyma án afláts yfir þá sem elska Þig og þeir sem bera kennsl á guðdómlega einingu Þína fá ríkulegan skerf af undursamlegum táknum himneskrar hylli Þinnar. Við felum í Þína forsjá allt sem Þú hefur ákvarðað okkur og biðjum Þig að gefa okkur allt hið góða sem þekking Þín umlykur.
Vernda mig, ó Drottinn minn, gegn öllu illu sem alviska Þín skynjar, því vald og styrkur er aðeins hjá Þér, sigur kemur aðeins frá návist Þinni og valdboð getur Þú einn gefið. Allt sem Guð hefur viljað hefur orðið, og það sem Hann hefur ekki viljað verður ekki.
Vald og styrkur er aðeins hjá Guði, hinum upphafnasta og máttugasta.
—Bábinn
Dýrð sé Þér, ó Guð! Þú ert sá Guð sem varst fyrir upphafið, sá sem verður eftir endalokin og sá sem varir handan alls sem er. Þú ert sá Guð sem allt þekkir, æðri öllu sem er. Þú ert sá Guð sem sýnir miskunn öllu sem er, dæmir milli alls sem er og sérð allt sem er. Þú ert Guð Drottinn minn, Þú þekkir aðstæður mínar, Þú ert vitni að innri og ytri verund minni.
Veit mér og þeim átrúendum sem hafa svarað kalli Þínu fyrirgefningu Þína. Ver mér sá hjálpari sem nægir mér gegn misgerðum hvers og eins sem vill valda mér sorg eða óskar mér ills. Sannlega ert Þú Drottinn alls sem er. Þú nægir öllum og enginn getur orðið sjálfum sér nógur án Þín.
—Bábinn
Í nafni Guðs, Drottins yfirþyrmandi tignar, hins alknýjandi.
Helgaður sé Drottinn sem hefur í hendi sér uppsprettu yfirráða. Hann skapar hvaðeina sem Honum þóknast með boði sínu „Ver“, og það er. Hans hefur allt vald verið fram til þessa og Hans verður það héðan í frá. Hann gerir hvern sem Honum þóknast sigursælan með valdi skipunar sinnar. Hann er í sannleika hinn voldugi, hinn almáttugi. Honum tilheyrir öll dýrð og tign í ríkjum opinberunar og sköpunar og hvarvetna þar á milli. Hann er sannlega hinn máttugi og aldýrlegi. Að eilífu hefur Hann verið uppspretta ósigrandi styrks og svo mun verða um eilífð. Hann er að sönnu Drottinn máttar og valds. Öll ríki himins og jarðar og allt þar á milli tilheyrir Guði og vald Hans er öllu æðra. Honum tilheyra allir fjársjóðir himins og jarðar og alls þar á milli og vernd Hans yfirskyggir allt sem er. Hann er skapari himnanna og jarðarinnar og alls sem þar er á milli og sannlega er Hann vitni að öllu sem er. Hann er Drottinn reikningsskilanna öllum sem dvelja á himnum og jörðu og hvarvetna þar á milli og sannlega er Guð fljótur til reikningsskila. Hann setur mælikvarðann sem ákveðinn er öllum á himnum og jörðu og öllu sem er þar á milli. Vissulega er Hann hinn æðsti verndari. Í hendi sér hefur Hann lykla himins og jarðar og alls þar á milli. Hann úthlutar gjöfum sínum að eigin vild með valdi skipunar sinnar. Náð Hans umlykur í sannleika allt sem er, og Hann er sá sem allt þekkir.
Seg: Guð nægir mér. Hann er sá sem hefur í hendi sér ríki alls sem er. Hann verndar hvern þann þjón sinn sem Honum þóknast með valdi himneskra og jarðneskra herskara sinna og með öllu sem er þar á milli. Guð vakir að sönnu yfir öllu sem er.
Ómælanlega upphafinn ert Þú, ó Drottinn! Vernda okkur gegn því sem er fyrir framan okkur og aftan, yfir höfðum okkar, til hægri og vinstri handar, undir fótum okkar og gegn öllu öðru sem að okkur beinist. Vissulega er vernd Þín óskeikul öllu sem er.
—Bábinn
Ó Guð, Guð minn! Vernda trúfasta þjóna Þína gegn böli sjálfs og ástríðna, vernda þá með vökulu auga ástúðar Þinnar gegn allri óvild, hatri og öfund, varðveit þá í óvinnandi virki umsjár Þinnar og ger þá birtendur Þinna dýrlegu tákna, óhulta fyrir örvaskotum efasemda. Lýs upp ásjónur þeirra með geisladýrðinni af dagrenningu Þinnar guðlegu einingar, gleð hjörtu þeirra með söngvunum sem berast frá Þínu heilaga ríki og styrk lendar þeirra af Þínu allsráðandi afli frá dýrðarríki Þínu. Þú ert hinn örlátasti, verndarinn, hinn almáttugi og náðugi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ó Drottinn minn! Þú veist að fólkið er umkringt þjáningum og ógæfu, býr við þrengingar og mæðu. Sérhver raun herjar á manninn og hvers kyns ógn ræðst að honum eins og naðra. Hvergi á hann sér skjól né hæli, nema undir væng verndar Þinnar og varðveislu, gæslu og forsjár.
Ó Þú miskunnsami! Ó Drottinn minn! Ger Þú vernd Þína að hertygjum mínum, varðveislu Þína að skildi mínum, auðmýkt frammi fyrir dyrum eindar Þinnar gæslu mína, og forsjá Þína og vörn að aðsetri mínu og virki. Varðveit mig gegn atlögum sjálfs og ástríðna, og vernda mig gegn hvers kyns sjúkleika, raunum, erfiðleikum og eldskírn.
Vissulega ert Þú vörðurinn, sá er verndar og varðveitir, nægjandinn, og vissulega ert Þú miskunnsamastur þeirra sem sýna miskunn.
—‘Abdu’l‑Bahá
Þjónusta
Ó Guð, Guð allra nafna og skapari himnanna! Ég bið til Þín við nafn Þitt, sem opinberaði þann sem er dögun máttar Þíns og dagsbrún valds Þíns, bræddi allt sem stirnað var, lífgaði dauða og staðfesti sérhvern snortinn anda. Ég sárbæni Þig að hjálpa mér að leysast frá öllu nema Þér og þjóna málstað Þínum, óska þess sem Þú hefur óskað í krafti yfirráða Þinna og framfylgja þóknun Þinni.
Ég bið Þig einnig, ó Guð minn, að ákvarða mér það sem auðgar mig svo að ég þarfnist einskis nema Þín. Þú sérð mig, ó Guð minn, beina að Þér augliti mínu og halda í líftaug náðar Þinnar. Send yfir mig miskunn Þína og rita niður fyrir mig það sem Þú hefur ritað niður fyrir Þína útvöldu. Vald hefur Þú til að gera sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, sá er ætíð fyrirgefur, hinn örlátasti.
—Bahá’u’lláh
Vegsamaður ert Þú, ó Drottinn Guð minn. Ég bið til Þín við Hann sem er dagsbrún tákna Þinna, birting nafna Þinna, fjárhirsla innblásturs Þíns og forðabúr visku Þinnar, að senda það yfir Þína elskuðu sem gerir þeim megnugt að fylgja málstað Þínum af staðfestu, viðurkenna einingu Þína og einstæði og bera guðdómi Þínum vitni. Reis þá upp, ó Guð minn, til slíkra hæða að þeir sjái í öllu tákn um vald Hans sem opinberar Þitt æðsta og aldýrlega sjálf.
Þú ert sá, ó Drottinn minn, sem gerir það sem Þér líst og ákvarðar það sem Þér þóknast. Sérhver valdhafi örvæntir frammi fyrir birtingu máttar Þíns og sérhver uppspretta heiðurs verður auvirðileg andspænis margföldum táknum mikillar dýrðar Þinnar.
Ég bið Þig auðmjúklega við Þig sjálfan og allt sem er af Þér, að gefa að ég megi leggja málstað Þínum lið, tala um vegsemd Þína, beina hjarta mínu að helgidómi dýrðar Þinnar og leysast frá öllu sem ekki er af Þér. Enginn er Guð nema Þú, Guð valds, Guð dýrðar og visku.
—Bahá’u’lláh
Ó Guð minn! Ég bið Þig við Þitt dýrlegasta nafn að aðstoða mig við það sem eflir velferð þjóna Þinna, og lætur borgir Þínar blómstra. Sannarlega hefur Þú vald yfir öllu sem er.
—Bahá’u’lláh
Dýrð sé Þér sem fengið hefur alla heilaga til að játa vanmátt sinn frammi fyrir margföldum opinberunum máttar Þíns og hvern spámann til að viðurkenna eiveru sína andspænis ljómanum af ævarandi dýrð Þinni. Ég bið Þig í auðmýkt við nafn Þitt sem opnað hefur hlið himnaríkis og fyllt herskarana á hæðum fagnaðarleiðslu, að gera mér kleift að þjóna Þér á þessum degi, og styrkja mig til að halda það sem Þú mælir fyrir um í bók Þinni. Þú veist, ó Drottinn minn hvað í mér býr, en ekki veit ég hvað býr í Þér. Þú ert sá er allt þekkir, hinn alvitri.
—Bahá’u’lláh
Lofaður sért Þú, ó Drottinn Guð minn! Ég ber því vitni að um eilífð hefur Þú verið upphafinn í yfirskilvitlegri tign Þinni og mikilleika, og Þú munt vara að eilífu í ofurvaldi Þínu og dýrð. Enginn í ríkjum jarðar né himna getur komið í veg fyrir áform Þín. Í gjörvallri opinberun Þinni og sköpun getur enginn drottnað gegn Þér. Þú gerir að boði Þínu það sem Þér líst og Þú ríkir í krafti yfirráða Þinna eins og Þér þóknast.
Ég sárbæni Þig, ó Þú sem lætur daginn renna, við ljósgjafann sem Þú kveiktir með eld ástar Þinnar í augsýn allra á himnum og jörðu og nærir loga hans með ljósmeti visku Þinnar í ríki sköpunar Þinnar, að ég verði meðal þeirra sem hafa svifið í heiði Þínu og beygt vilja sinn undir ákvörðun Þína.
Ég er einskær eymd, ó Drottinn minn, og Þú ert hinn voldugasti, hinn almáttugi. Sjá aumur á mér með náð Þinni og örlátri hylli og hjálpa mér náðarsamlega að þjóna Þér og þeim sem Þér eru kærir. Þú gerir það sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, Guð valds, dýrðar og visku.
—Bahá’u’lláh
Andleg ráð
Í hvert sinn, sem þér gangið inn í ráðstefnuherbergið, hafið yfir þessa bæn með hjarta, sem slær af ást til Guðs, og tungu, sem er hrein af öllu nema minningu Hans, til þess að Hinn almáttugi megi náðarsamlega aðstoða yður við að vinna æðstan sigur:
Ó Guð, Guð minn! Við erum þjónar Þínir, sem höfum leitað í tilbeiðslu til heilagrar ásjónu Þinnar og höfum sagt skilið við allt nema Þig á þessum dýrlega degi. Við erum samankomin í þessu andlega ráði, sameinuð í hugsunum og skoðunum, með samstillt markmið að upphefja orð Þitt meðal mannkynsins. Ó Drottinn, Guð okkar! Ger okkur að táknum guðdómlegrar handleiðslu Þinnar, gunnfána upphafinnar trúar Þinnar meðal manna, þjóna Þíns máttuga sáttmála. Ó Þú, æðstur Drottinn okkar! Ger okkur að opinberun guðdómlegrar einingar Þinnar í ríki dýrðar Þinnar og blikandi stjörnur, sem skína víða vegu. Drottinn! Hjálpa okkur að verða höf, ólgandi af bylgjum Þinnar undursamlegu náðar, fljót sem streyma frá aldýrlegum hæðum Þínum, ágæta ávexti á tré Þíns himneska málstaðar, tré, sem bærast í andvara örlætis Þíns í himneskum víngarði Þínum. Ó Guð! Ger sálir okkar háðar helgiorðum guðlegrar einingar Þinnar, hjörtu okkar fagnandi með úthellingu náðar Þinnar, til þess að við getum sameinast líkt og öldur eins sjávar og runnið saman eins og geislar glampandi ljóss Þíns; að hugsanir okkar, skoðanir og tilfinningar megi verða sem einn veruleiki, sem birtir anda sameiningar um víða veröld. Þú ert hinn miskunnsami og gjafmildi, veitandinn, hinn almáttugi og náðugi, hinn vorkunnláti.
—‘Abdu’l‑Bahá
Komið saman í flekklausri gleði og farið með þessa bæn í byrjun fundarins:
Ó Þú Drottinn ríkisins! Þótt líkamar okkar séu hér samankomnir, eru hugfangin hjörtu okkar samt bergnumin af ást Þinni og við heillumst af geislum skínandi ásýndar Þinnar. Þótt við séum veikburða, bíðum við opinberunar máttar Þíns og valds. Þótt við séum snauð, févana og án tækifæra, fáum við auð úr fjárhirslum ríkis Þíns. Þótt við séum dropar, komum við úr hafdjúpum Þínum. Þótt við séum sem mölflugur, ljómum við í dýrð geislandi sólar Þinnar.
Ó Þú forsjá okkar! Send niður aðstoð Þína, svo að sérhver sem hér er staddur megi verða sem lýsandi kerti, allir miðdeplar aðlöðunar, hver og einn kallari Þinna himnesku ríkja uns við að lokum gerum þessa lægri veröld að spegilmynd paradísar Þinnar.
—‘Abdu’l‑Bahá
Haft yfir í lok fundar andlega ráðsins:
Ó Guð! Ó Guð! Lít okkur frá ósýnilegu ríki eindar Þinnar samankomin á þessum andlega fundi í trú á Þig, fullviss um tákn Þín, staðföst í sáttmála Þínum og erfðaskrá, löðumst að Þér, upptendrumst af eldi ástar Þinnar og einlæg í málstað Þínum. Við erum þjónar í víngarði Þínum, útbreiðendur trúar Þinnar, helgaðir tilbiðjendur ásýndar Þinnar, auðmjúkir gagnvart Þínum elskuðu, undirgefnir frammi fyrir dyrum Þínum, sárbænum Þig um að staðfesta okkur í að þjóna Þínum útvöldu, styðja okkur með Þínum ósýnilegu herskörum, styrkja lendar okkar í þjónustu við Þig og gera okkur undirgefna og tilbiðjandi þegna, sem samneyta Þér.
Ó Drottinn okkar! Við erum veikburða, og Þú ert hinn máttugi og voldugi. Við erum líflaus og Þú ert hinn mikli, lífgefandi andi. Við erum þurfandi, og Þú ert sá sem viðheldur, hinn voldugi.
Ó Drottinn okkar! Bein augum okkar að miskunnsamri ásýnd Þinni, gef okkur fæðu af himnesku matborði Þínu af ríkulegri náð Þinni, aðstoða okkur með herskörum Þinna æðstu engla og staðfest okkur með fulltingi hinna heilögu í ríki dýrðarinnar.
Sannlega ert Þú hinn örláti og miskunnsami. Þú ert eigandi mikillar hylli og Þú ert sannlega hinn mildi og náðugi.
—‘Abdu’l‑Bahá
Ayyám-i-Há: Aukadagarnir
(Aukadagarnir eru fjórir til fimm síðustu dagarnir fyrir bahá’í föstuna. Þá á að nota til undirbúnings fyrir föstuna. Þeir eru dagar gestrisni, gjafa og kærleiksverka.)
Guð minn, eldur minn og ljós! Dagarnir sem Þú hefur nefnt Ayyám-i-Há í bók Þinni eru hafnir, ó Þú sem ert konungur nafna og fastan sem upphafnasti penni Þinn hefur skyldað alla í ríki sköpunar Þinnar til að halda nálgast. Ég bið Þig, ó Drottinn minn, við þessa daga og alla þá sem hafa á þeim tíma haldið í taug boða Þinna og tekið í handfestu fyrirmæla Þinna, að gefa að sérhverri sál verði ætlaður staður innan mæra hirðar Þinnar og sæti við opinberun ljómans af ljósi ásýndar Þinnar.
Þessir, ó Drottinn minn, eru þjónar Þínir sem engin spillt hneigð hefur aftrað frá því að framkvæma það sem Þú sendir niður í bók Þinni. Þeir hafa beygt sig frammi fyrir málstað Þínum og tekið um bók Þína með einbeitni sem er fædd af Þér og haldið það sem Þú bauðst þeim og kosið að fylgja því sem Þú hefur sent niður.
Þú sérð, ó Drottinn minn, hvernig þeir hafa játað og viðurkennt allt sem Þú hefur opinberað í helgiritum Þínum. Gef þeim að drekka, ó Drottinn minn, úr höndum náðar Þinnar vatn eilífðar Þinnar. Rita því niður fyrir þá endurgjaldið sem er ákvarðað honum sem hefur sökkt sér í úthaf návistar Þinnar og höndlað úrvals vín fundar við Þig.
Ég bið Þig, ó Þú konungur konunga og sá sem sér aumur á hinum fótumtroðnu, að ákvarða þeim hið góða í þessum heimi og þeim sem kemur. Rita auk þess niður fyrir þá það sem engin af skepnum Þínum hefur uppgötvað og tel þá með þeim sem hafa hringsólað um Þig og sem hreyfast umhverfis hásæti Þitt í öllum veröldum veralda Þinna.
Þú ert sannarlega hinn almáttugi, sá sem allt þekkir, upplýstur um allt.
—Bahá’u’lláh
Fastan
Í Kitáb-i-Aqdas segir: „Vér höfum boðið yður að biðja og fasta frá upphafi fullþroska (15 ára aldri); þetta er ákvarðað af Guði, Drottni yðar og Drottni feðra yðar. . . . Ferðalangurinn, hinn sjúki, konur sem eru barnshafandi eða hafa barn á brjósti, þurfa ekki að fasta. . . . Neytið hvorki matar né drykkjar frá sólarupprás til sólseturs, og varist að láta ástríðu svipta yður þeirri náð, sem áformuð er í þessari bók.“
Fastan stendur í 19 daga og henni lýkur á bahá’í nýári.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við Þitt volduga tákn og við opinberun náðar Þinnar meðal manna að varpa mér ekki frá borgarhliði návistar Þinnar og bregðast ekki þeim vonum sem ég hef sett á birtingu náðar Þinnar á meðal skepna Þinna. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við ljúfustu rödd Þína og upphafnasta orð Þitt að laða mig nær fordyri Þínu og láta mig ekki vera fjarri forsælu náðar Þinnar og tjaldhimni hylli Þinnar. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við ljósið frá geislandi brún Þinni og birtuna frá ásýnd Þinni, sem skín frá hinum æðsta sjónarhring, að laða mig með ilmi klæða Þinna og láta mig drekka af úrvals víni orða Þinna. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við hár Þitt sem liðast yfir ásýnd Þína er upphafnasti penni Þinn hreyfist yfir síður taflna Þinna og úthellir moskusilmi dulinna merkinga yfir ríki sköpunar Þinnar, að gera mig svo hæfan til þjónustu við málstað Þinn að ég muni hvergi hopa né láta svigurmæli þeirra sem hafa deilt á tákn Þín og snúið frá ásýnd Þinni aftra mér. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við nafn Þitt sem Þú hefur krýnt konung nafna og sem heillað hefur alla á himnum og jörðu, að gera mér kleift að líta sól fegurðar Þinnar og veita mér af víni orða Þinna. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við tjaldbúð tignar Þinnar á efstu tindum og tjaldhimin opinberunar Þinnar á hæstu hæðum, að hjálpa mér náðarsamlega að gera það sem vilji Þinn hefur þráð og áform Þitt opinberað. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við fegurð Þína sem skín yfir sjónarhring eilífðarinnar, fegurðina sem allt ríki fegurðar laut í tilbeiðslu um leið og hún opinberaðist, vegsamandi hana skærum ómi, að gefa að ég megi deyja öllu sem ég á og lifa öllu sem tilheyrir Þér. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við birtingu nafns Þíns, ástvinarins, sem lét hjörtu ástvina Þinna gjöreyðast og sálir allra á jörðu taka flugið, að hjálpa mér að minnast Þín meðal skepna Þinna og vegsama Þig í áheyrn fólks Þíns. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við skrjáfið í Hinu himneska lótustré og ómþýðan andvara orða Þinna í ríki nafna Þinna, að fjarlægja mig öllu sem er vilja Þínum andstyggð, og laða mig nær stöðunni þar sem Hann sem er sól tákna Þinna hefur ljómað. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við bókstafinn sem jafnskjótt og hann framgekk af munni vilja Þíns lét höfin ólga, vindana blása, ávextina koma í ljós, trén spretta, öll ummerki hins gamla hverfa, allar slæður slitna og þá sem eru helgaðir Þér hraða sér til ljóss ásýndar Drottins síns, hins óhefta, að færa mér vitneskju um það sem duldist í fjárhirslum þekkingar Þinnar og fólst í hirslum visku Þinnar. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við eld ástar Þinnar sem rak svefninn burt af brám Þinna útvöldu og ástvina Þinna og við lofgjörð þeirra og hugsun um Þig á morgunstund, að telja mig með þeim sem hafa höndlað það sem Þú sendir niður í bók Þinni og birtir fyrir vilja Þinn. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við ljós ásýndar Þinnar sem knýr þá sem eru nálægir Þér til að mæta skeytum ákvörðunar Þinnar og þá sem eru helgaðir Þér að mæta sverði óvina Þinna á vegi Þínum, að rita niður fyrir mig með upphafnasta penna Þínum það sem Þú hefur ritað niður fyrir trúnaðarvini Þína og Þína útvöldu. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við nafn Þitt sem Þú hefur látið hlýða á kall ástvina Þinna og andvörp þeirra sem þrá Þig og hróp þeirra sem njóta návista við Þig og kveinstafi þeirra sem eru helgaðir Þér og sem Þú hefur látið uppfylla óskir þeirra sem hafa sett vonir sínar á Þig og gefið þeim það sem þeir báðu um vegna náðar Þinnar og hylli og við nafn Þitt sem hefur látið úthaf fyrirgefningar brima frammi fyrir ásýnd Þinni og rigna úr skýjum örlætis Þíns yfir þjóna Þína, að rita niður fyrir hvern þann sem hefur snúið sér til Þín og haldið föstuna sem Þú fyrirskipaðir, endurgjaldið sem ákvarðað er þeim sem ekki mæla nema þeir hafi fengið leyfi Þitt og sem yfirgáfu allt sem þeir áttu á vegi Þínum og vegna ástar á Þér.
Ég sárbæni Þig, ó Drottinn minn, við sjálfan Þig og tákn Þín og skýr ummerki og skínandi ljós sólar fegurðar Þinnar og greinar Þínar, að ógilda misgerðir þeirra sem hafa haldið fast við lög Þín og gætt þess sem Þú hefur boðið þeim í bók Þinni. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn Þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.
—Bahá’u’lláh
Lof sé Þér, ó Drottinn Guð minn! Ég bið Þig við þessa opinberun, sem hefur snúið myrkri í ljós, reist hið fjölsótta musteri, opinberað hina skráðu töflu og afhjúpað hið opna bókfell, að senda það niður yfir mig og þá, sem eru í félagsskap mínum, sem gerir okkur fært að stíga upp til himna yfirskilvitlegrar náðar Þinnar og hreinsar okkur af saurgun þeirra efasemda, sem aftrað hafa hinum tortryggnu frá því að stíga inn í tjaldbúð einingar Þinnar.
Ég er sá, ó Drottinn minn, sem haldið hef fast í taug ástríkis Þíns og tekið föstum höndum um klæðisfald miskunnar Þinnar og hylli. Ákvarða mér og ástvinum mínum gæði þessa heims og þess sem kemur. Gef þeim því hina huldu gjöf, sem Þú áformaðir hinum útvöldu meðal skepna Þinna.
Þetta eru þeir dagar, ó Drottinn minn, er Þú hefur boðið þjónum Þínum að halda föstuna. Sæll er sá, sem heldur föstuna einungis vegna Þín, fullkomlega fráhverfur öllu nema Þér. Hjálpa mér og hjálpa þeim, ó Drottinn minn, að hlýðnast Þér og halda boð Þín. Þú hefur vissulega vald til að gera það, sem Þér líst.
Enginn er Guð nema Þú, hinn alvitri, hinn alvísi. Allt lof sé Guði, Drottni allra veraldanna.
—Bahá’u’lláh
Þessir eru þeir dagar, ó Guð minn, er Þú hefur boðið þjónum Þínum að halda föstuna. Með henni prýddir Þú inngang lagabókar Þinnar sem Þú opinberaðir skepnum Þínum og reiddir fram úr hirslum boða Þinna í augsýn allra á himni Þínum og jörðu. Þú hefur gætt hverja klukkustund þessara daga sérstakri dyggð, sem er órannsakanleg öllum nema sjálfum Þér. Þekking Þín umlykur allt sem er. Þú hefur einnig úthlutað sérhverri sál ákveðnum skerfi þessarar dyggðar í samræmi við töflu ákvörðunar Þinnar og helgirit Þíns óafturkallanlega dóms. Sérhverju blaði þessara bóka og helgirita hefur Þú einnig úthlutað sérhverri þjóð og kynkvísl jarðar.
Einlægum ástvinum Þínum hefur Þú samkvæmt ákvörðun Þinni áskilið í dögun hverri bikar minningar Þinnar, ó Þú sem ert leiðtogi leiðtoga! Þetta eru þeir sem eru svo ölvaðir af víni margfaldrar visku Þinnar að þeir yfirgefa beði sína í löngun til að færa Þér lof og vegsama dyggðir Þínar og flýja svefninn í innilegri þrá sinni að nálgast Þig og hljóta skerf af hylli Þinni. Augu þeirra hafa ætíð beinst að dagsbrún ástúðar Þinnar og andlit þeirra að brunni innblásturs Þíns. Lát þess vegna rigna yfir þá, og yfir okkur, úr skýjum náðar Þinnar því sem sæmir himni örlætis Þíns og náðar.
Lofað sé nafn Þitt, ó Guð minn! Þetta er stundin er Þú hefur lokið upp dyrum vildar Þinnar í ásýnd skepna Þinna og opnað á gátt hlið mildrar miskunnar Þinnar öllum sem dvelja á jörðu Þinni. Ég sárbið Þig við þá sem úthelltu blóði sínu á vegi Þínum, sem í þrá sinni eftir Þér sneru baki við öllum skepnum Þínum og voru svo hugfangnir af sætum ilmi innblásturs Þíns að sérhver limur líkama þeirra söng Þér lof og ómaði af minningu Þinni, að svipta okkur ekki því sem Þú hefur óafturkallanlega ákvarðað í þessari opinberun, sem er svo voldug að sérhvert tré hefur hrópað það sem brennandi þyrnirunninn kunngerði Móse fyrr á tímum, Honum sem ræddi við Þig, – opinberun sem gerir hverri steinvölu kleift að enduróma af lofi Þínu líkt og steinarnir vegsömuðu Þig á dögum Múhameðs, vinar Þíns.
Þetta eru þeir, ó Guð minn, sem Þú hefur náðarsamlega gert kleift að vera í félagsskap Þínum og samneyta Honum sem opinberar Þitt eigið sjálf. Vindar vilja Þíns hafa dreift þeim víða vegu uns Þú safnaðir þeim saman í skugga Þínum og lést þá ganga inn til sviða aðseturs Þíns. Nú þegar Þú hefur leyft þeim að dvelja í forsælunni af tjaldhimni náðar Þinnar, aðstoða þá við að öðlast það sem sæmir svo tiginni stöðu. Lát þá ekki, ó Drottinn minn, teljast til þeirra sem nutu samvista við Þig en var meinað að bera kennsl á ásýnd Þína og eru sviptir návist Þinni þótt þeir gangi á fund Þinn.
Þetta eru þjónar Þínir, ó Drottinn minn, sem hafa gengið með Þér inn í þessa mestu prísund og haldið föstuna innan veggja hennar í samræmi við það sem Þú fyrirskipaðir þeim í töflum ákvörðunar Þinnar og bókum fyrirmæla Þinna. Send því niður yfir þá það sem hreinsar þá algjörlega af öllu sem Þér er andstyggð svo þeir megi verða fullkomlega helgaðir Þér og skiljast til fulls frá öllu nema Þér.
Lát því rigna yfir okkur, ó Guð minn, sem sæmir náð Þinni og er verðugt hylli Þinnar. Ger okkur því kleift, ó Guð minn, að lifa í minningu um Þig og deyja í ást á Þér og veit okkur gjöf návistar Þinnar í þeim veröldum Þínum sem koma – veröldum sem eru órannsakanlegar öllum nema Þér. Þú ert Drottinn okkar og Drottinn allra veraldanna og Guð allra á himni og jörðu.
Þú sérð, ó Guð minn, hvað fallið hefur ástvinum Þínum í hlut á dögum Þínum. Dýrð Þín ber mér vitni! Kveinstafir Þinna útvöldu hafa hljómað um allt ríki Þitt. Sumir voru leiddir í gildru af trúvillingunum í landi Þínu og þeim meinað um náið samneyti við Þig og aðgang að forgarði dýrðar Þinnar. Aðrir gátu nálgast Þig en var varnað að líta ásýnd Þína. Enn öðrum var í löngun sinni að líta Þig veittur aðgangur að forgarði Þínum en þeir leyfðu blæjum ímyndana skepna Þinna og rangindunum sem kúgararnir meðal fólks Þíns beittu að koma á milli sín og Þín.
Þetta er stundin, ó Drottinn minn, sem Þú hefur gert ágætari öllum öðrum stundum og tengt hinum fremstu meðal skepna Þinna. Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við sjálf Þitt og við þá, að fyrirskipa það á þessu ári sem upphefur ástvini Þína. Ákvarða einnig á þessu ári það sem lætur sól valds Þíns skína glatt yfir sjónarhring dýrðar Þinnar og upplýsa allan heiminn með allsráðandi mætti Þínum.
Ger málstað Þinn sigursælan, ó Drottinn minn, og niðurlæg óvini Þína. Skrifa síðan niður fyrir okkur hið góða í þessu lífi og því sem kemur. Þú ert sannleikurinn sem þekkir hið leynda. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, sá sem allt gefur.
—Bahá’u’lláh
Dýrð sé Þér, ó Drottinn Guð minn! Þetta eru þeir dagar er Þú hefur boðið öllum mönnum að halda föstuna svo þeir megi með henni hreinsa sálir sínar og leysast úr viðjum alls nema Þín og úr hjörtum þeirra megi það stíga upp sem er verðugt forgarði tignar Þinnar og sæmir aðsetri opinberunar einleika Þíns. Gef, ó Drottinn minn, að þessi fasta megi verða elfur lífgefandi vatns og gefi af sér dyggðina sem Þú hefur gætt hana. Hreinsa Þú með fulltingi hennar hjörtu þjóna Þinna, sem meinsemdir þessa heims hafa ekki megnað að snúa frá aldýrlegu nafni Þínu og ekki hafa látið truflast af háreysti og uppnámi þeirra sem höfnuðu dýrlegustu táknum Þínum, er fylgdu komu opinberanda Þíns, Honum sem Þú fékkst í hendur yfirráð Þín, vald, tign og dýrð. Þetta eru þeir þjónar sem flýttu sér í átt til náðar Þinnar jafnskjótt og kall Þitt barst þeim til eyrna og létu ekki hverfulleika heimsins né nokkrar mannlegar takmarkanir koma á milli sín og Þín.
Ég er sá, ó Guð minn, sem ber vitni einingu Þinni, viðurkenni einstakleika Þinn, beygi mig í auðmýkt frammi fyrir opinberun tignar Þinnar og viðurkenni niðurlútur ljómann af ljósi yfirskilvitlegrar dýrðar Þinnar. Ég hef trúað á Þig eftir að Þú gerðir mér kleift að þekkja Þitt eigið sjálf, sem Þú opinberaðir augum manna í krafti yfirráða Þinna og máttar. Til Hans hef ég leitað fullkomlega fráhverfur öllu sem er og haldið fast í líftaug gjafa Þinna og hylli. Ég hef játast sannleika Hans og sannleika allra þeirra undursamlegu laga og fyrirmæla sem send hafa verið niður til Hans. Ég hef fastað vegna ástar á Þér og í samræmi við boð Þín og hef rofið föstuna með lof Þitt á vörum mér og í samræmi við velþóknun Þína. Lát mig ekki, ó Drottinn minn, teljast til þeirra sem hafa fastað að degi til, varpað sér flötum frammi fyrir ásýnd Þinni að næturþeli og sem hafa hafnað sannleika Þínum, afneitað trú á tákn Þín, andmælt vitnisburði Þínum og afbakað orð Þín.
Opna Þú, ó Drottinn minn, augu mín og augu allra sem hafa leitað Þín, að við megum þekkja Þig með Þínum eigin augum. Þetta er boð Þitt sem okkur er gefið í bókinni sem Þú sendir niður til Hans sem Þú hefur útvalið samkvæmt skipun Þinni, sem Þú kaust að sýna hylli Þína einum allra skepna Þinna, sem Þér þóknaðist að fá í hendur yfirráð Þín, veita sérstaka hylli og treysta fyrir boðskap Þínum til þjóða Þinna. Lof sé Þér því, ó Guð minn, að Þú hefur náðarsamlega gert okkur kleift að þekkja Hann og viðurkenna allt sem Honum hefur verið sent og veitt okkur þann heiður að komast í návist Hans sem Þú gafst fyrirheit um í bók Þinni og töflum.
Þú sérð mig því, ó Guð minn, beina augliti mínu til Þín, taka í líftaug náðarsamlegrar forsjónar Þinnar og örlætis og halda fast í klæðisfald mildrar miskunnar Þinnar og örlátrar hylli. Ég bið Þig að bregðast ekki vonum mínum um að eignast það sem Þú ákvarðaðir þjónum Þínum sem sneru sér til forgarðs návistar Þinnar og héldu föstuna vegna ástar á Þér. Ég játa, ó Guð minn, að allt sem kemur frá mér er fullkomlega óverðugt yfirráðum Þínum og hæfir ekki tign Þinni. Og samt bið ég Þig við þetta nafn sem hefur látið Þitt eigið sjálf opinberast í dýrð ágætustu titla Þinna öllum sköpuðum verum í þessari opinberun þar sem Þú birtir fegurð Þína í dýrlegasta nafni Þínu, að gefa mér að drekka af víni náðar Þinnar og hreinum miði hylli Þinnar sem hefur streymt frá hægri hönd vilja Þíns, svo að ég megi festa sjónir á Þér og verða svo fráhverfur öllu nema Þér að veröldin og allt sem í henni var skapað verði fyrir mér sem svipull dagur sem Þér hefur ekki þótt við hæfi að skapa.
Auk þess sárbið ég Þig, ó Guð minn, að láta því rigna frá himni vilja Þíns og úr skýjum miskunnar Þinnar sem hreinsar okkur af viðurstyggð misgerða okkar, ó Þú sem hefur kallað sjálfan Þig Guð miskunnsemi! Þú ert vissulega hinn voldugasti og aldýrlegi, hinn gæskuríki.
Varpa ekki frá Þér, ó Drottinn minn, þeim sem hefur leitað til Þín og lát ekki þann sem hefur nálgast Þig vera fjarri forgarði Þínum. Bregst ekki vonum biðjandans sem réttir út löngunarfullar hendur sínar og leitar náðar Þinnar og hylli og svipt ekki einlæga þjóna Þína undrum mildrar miskunnar Þinnar og ástúðar. Þú ert fyrirgefandinn, hinn örlátasti, ó Drottinn minn! Þú hefur vald til að gera það sem Þér þóknast. Allt annað en Þú er máttvana andspænis opinberunum máttar Þíns, týnt og glatað andspænis vitnisburðum auðæfa Þinna, alls ekkert í samanburði við birtingar yfirskilvitlegra yfirráða Þinna og magnþrota andspænis táknum og ummerkjum valds Þíns. Hvaða athvarf er að finna annað en Þig, ó Drottinn minn, sem ég gæti leitað og hvar er það skjól sem ég gæti flúið til? Nei, vald máttar Þíns ber mér vitni! Engan verndara er að finna annan en Þig, hvergi er hægt að flýja nema til Þín, einskis athvarfs að leita nema hjá Þér. Lát mig því smakka ó Drottinn minn, himneskan sætleika minningar Þinnar og lofs. Ég sver við mátt Þinn! Hver sem smakkar sætleika hennar mun snúa baki við heiminum og öllu sem í honum er og beina sjónum að Þér, hreinsaður af minningu um nokkurn nema Þig.
Innblás því sál mína, ó Guð minn, með undursamlegri minningu Þinni svo ég megi gera nafn Þitt dýrlegt. Tel mig ekki með þeim sem lesa orð Þín án þess að finna hulda gjöf Þína sem fólgin er í þeim samkvæmt ákvörðun Þinni og sem fjörgar sálir skepna Þinna og hjörtu þjóna Þinna. Lát mig, ó Drottinn minn, teljast til þeirra sem hafa hrifist svo mjög af þeim ljúfa ilmi sem borist hefur á dögum Þínum, að þeir hafa fórnað lífi sínu fyrir Þig og flýtt sér á vettvang dauða síns í löngun sinni að líta fegurð Þína og þrá sinni að komast í návist Þína. Og ef einhver segði við þá á vegferð þeirra: „Hvert er förinni heitið?“ myndu þeir svara: „Til Guðs, eiganda alls sem er, þess sem hjálpar í nauðum, hins sjálfumnóga!“
Misgerðir þeirra sem hafa snúið frá Þér og borið sig drambsamlega gagnvart Þér hafa ekki aftrað þeim frá að elska Þig og beina sjónum að Þér og snúa sér til náðar Þinnar. Þetta eru þeir sem njóta blessunar herskaranna á hæðum, hljóta vegsömun íbúanna í eilífum borgum Þínum, auk þeirra sem bera á enni sér áletrun Hins upphafnasta penna: „Þessir! Fylgjendur Bahá! Fyrir þá hefur ljósi leiðsagnar verið úthellt.“ Þannig hefur það verið ákveðið að Þínu boði og með vilja Þínum í töflum óafturkallanlegrar ákvörðunar Þinnar.
Kunnger því, ó Guð minn, mikilleika þeirra sem í lífi sínu eða eftir dauða sinn hafa hringsólað um þá. Veit þeim það sem Þú hefur ákvarðað hinum réttlátu meðal skepna Þinna. Þú hefur vald til að gera það sem Þér líst. Enginn er Guð nema Þú, hinn alvoldugi, hjálpin í nauðum, hinn almáttugi og veglyndasti.
Bind ekki endi á föstur okkar með þessari föstu, ó Drottinn minn, né á sáttmálana sem Þú hefur gert með þessum sáttmála. Veit viðtöku öllu sem við höfum gert vegna ástar á Þér og sakir velþóknunar Þinnar og öllu sem við höfum látið ógert sakir undirgefni okkar við illar og spilltar ástríður. Ger okkur því megnugt að halda fast við ást Þína og velþóknun og gæt okkar gegn illvild þeirra sem hafa afneitað Þér og hafnað dýrlegustu táknum Þínum. Þú ert í sannleika Drottinn þessa heims og hins næsta. Enginn er Guð nema Þú, hinn upphafni og hæsti.
Mikla Þú, ó Drottinn Guð minn, þann sem er Frumpunkturinn, hinn himneski leyndardómur, óséði kjarni, dagsbrún guðdómsins og opinberun herradóms Þíns. Fyrir tilstuðlan Hans var öll þekking fortíðar og framtíðar gerð augljós, perlur hulinnar visku Þinnar, afhjúpaðar ásamt leyndardómum Þíns dýrmæta nafns. Þú útnefndir Hann kallara þess opinberanda, sem tengdi saman bókstafina V, E og R með nafni sínu. Sakir Hans voru tign Þín, yfirráð og máttur kunngerður, orð Þín send niður, skýr lög Þín sett, tákn Þín birt og orð Þitt grundvallað. Sakir Hans var hulunni svipt af hjörtum Þinna útvöldu og öllum á himni og jörðu safnað saman. Hann er sá sem Þú hefur nefnt Alí Múhameð í ríki nafna Þinna og anda andanna í töflum óafturkallanlegrar ákvörðunar Þinnar og Honum hefur Þú gefið Þinn eigin titil. Til nafns Hans hafa öll önnur nöfn að boði Þínu og með valdi máttar Þíns verið látin snúa og í Honum hefur Þú látið allar eigindir Þínar og titla ná endanlegri fyllingu sinni. Honum tilheyra einnig þau nöfn sem voru falin innan flekklausra tjaldbúða Þinna í ósýnilegri veröld Þinni og helguðum borgum.
Mikla Þú einnig þá sem hafa trúað á Hann og tákn Hans og leitað til Hans, þá sem hafa viðurkennt einingu Þína í seinni opinberun Hans – opinberun sem Hann tilgreindi í töflum sínum, bókum og helgiritum og öllum þeim undursamlegu versum og djásnumlíku orðum sem stigið hafa niður til Hans. Þú bauðst Honum að stofna sáttmála þessarar sömu opinberunar áður en Hann stofnaði sinn eigin sáttmála. Það er Hann sem er vegsamaður í Bayáninum. Þar er lof borið á ágæti Hans og sannleikur Hans grundvallaður, yfirráð Hans kunngerð og málstaður Hans fullkomnaður. Sæll er sá sem hefur leitað til Hans og uppfyllt það sem Hann hefur fyrirskipað, ó Þú sem ert Drottinn veraldanna og þrá allra sem hafa þekkt Þig!
Lofaður sért Þú, ó Guð minn, því að Þú hefur hjálpað okkur til að þekkja Hann og elska. Því bið ég við Hann og við þá sem eru dagsbrúnir guðdóms Þíns og birtingar herradóms Þíns, fjárhirslur opinberunar Þinnar og forðabúr innblásturs Þíns, að Þú gerir okkur kleift að þjóna Honum og hlýða, styrkir okkur til að hjálpa málstað Hans og dreifa andstæðingum Hans. Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og aldýrlegi, sá sem allir leita ásjár hjá!
—Bahá’u’lláh
Þú sérð, ó náðugi Guð sem gagntekur allt sem skapað er með valdi Þínu, þessa þjóna, þræla Þína, sem í samræmi við velþóknun vilja Þíns halda föstuna sem Þú fyrirskipaðir, sem rísa upp snemma í dögun til að minnast nafns Þíns og vegsama lofgjörð Þína í þeirri von að fá sinn skerf af þeim gæðum sem eru varðveitt í fjárhirslum náðar Þinnar og veglyndis. Ég bið Þig, ó Þú sem heldur í greip Þinni stjórntaumum allrar sköpunarinnar, og hefur í hendi Þinni allt ríki nafna Þinna og eiginda, að svipta ekki þjóna Þína regninu sem fellur úr skýjum miskunnar Þinnar á degi Þínum né meina þeim um sinn hlut úr hafi velþóknunar Þinnar.
Ó Drottinn minn, allar öreindir jarðarinnar bera vitni um mikilleika valds Þíns og herradóms, og öll tákn alheimsins staðfesta dýrð tignar Þinnar og máttar. Haf því miskunn, ó Þú allsráðandi Drottinn, konungur eilífðarinnar og stjórnandi allra þjóða, með þessum þjónum Þínum, sem hafa tekið föstu taki um taug boða Þinna og lotið höfði fyrir opinberunum laga Þinna sem voru send niður frá himni vilja Þíns.
Sjá, ó Drottinn, hvernig augu þeirra beinast að dagsbrún ástríkis Þíns, hvernig þeir hafa snúið hjörtum sínum að hafdjúpi veglyndis Þíns, hve raddir þeirra lækka er þeir heyra ljúfustu rödd Þína, sem kallar frá hinni æðstu stöðu í Þínu nafni, hins aldýrlega. Hjálpa Þú ástvinum Þínum, ó Drottinn minn, þeim sem hafa yfirgefið allt sitt og eru umkringdir raunum og þrengingum vegna þess að þeir afneituðu veröldinni og beindu ást sinni að ríki dýrðar Þinnar, svo að þeir megi öðlast það sem er í Þinni eigu. Vernda þá, ég bið Þig, ó Drottinn minn, fyrir atlögum illra ástríðna sinna og langana og hjálpa þeim að öðlast það sem stoðar þeim í þessum heimi og hinum næsta.
Ég bið Þig, ó Drottinn minn, við Þitt dulda og ástkæra nafn sem kallar í ríki sköpunar og kveður allar þjóðir til Trésins á leiðarenda, aðseturs yfirskilvitlegrar dýrðar, að senda yfir oss og þjóna Þína steypiflóð náðar Þinnar svo að það megi hreinsa okkur frá minningu um allt nema Þig og færa oss nær úthafi miskunnar Þinnar. Fyrirskipa, ó Drottinn, með upphafnasta penna Þínum það sem gerir sálir okkar ódauðlegar í ríki dýrðarinnar og nöfn okkar eilíf í ríki Þínu og vernda líf okkar í skjóli verndar Þinnar og líkama okkar í skjóli Þíns óforgengilega vígis. Vald hefur Þú yfir öllu sem er, hvort heldur er í fortíð eða framtíð. Enginn er Guð nema Þú, hinn alvaldi verndari, hinn sjálfumnógi.
Þú sérð, ó Drottinn, biðjandi hendur okkar teygja sig fram til himins gjafa Þinna og veglyndis. Gef að þær megi fyllast fjársjóðum rausnar Þinnar og örlátrar hylli. Fyrirgef okkur, feðrum okkar og mæðrum, og uppfyll allar óskir okkar úr hafi náðar Þinnar og guðdómlegs örlætis. Veit viðtöku, ó Ástvinur hjartna okkar, öllum verkum okkar á vegi Þínum. Þú ert vissulega hinn voldugasti og upphafnasti, hinn eini og óviðjafnanlegi, fyrirgefandinn, hinn náðugi.
—Bahá’u’lláh
Ḥuqúqu’lláh: Réttur Guðs
Réttur Guðs er að sönnu mikið lögmál. Öllum ber skylda til að leggja hann fram því hann er uppspretta náðar og nægta og alls góðs. Hann er náðargjöf sem fylgir hverri sál í öllum veröldum veralda Guðs, eiganda alls, hins örláta.
—Bahá’u’lláh
Dýrlegur ert Þú, ó vorkunnláti Drottinn minn. Ég bið Þig við ólgandi úthaf heilagra orða Þinna og margvísleg tákn Þinnar æðstu tignar og knýjandi vitnisburði guðdóms Þíns og leyndardómana sem þekking Þín varðveitir, að leyfa af náð Þinni að ég megi þjóna Þér og Þínum útvöldu og gera mér kleift að inna samviskusamlega af hendi Rétt Guðs sem Þú hefur ákvarðað í bók Þinni.
Ég er sá, ó Guð minn, sem hefur beint ást sinni að ríki dýrðar Þinnar og haldið fast í klæðisfald gjafmildi Þinnar. Ég bið Þig, ó Þú sem ert Drottinn allrar verundar og einvaldur í konungsríki nafna, að neita mér ekki um það sem er í eigu Þinni og meina mér ekki um það sem Þú hefur ákvarðað Þínum útvöldu.
Ég bið Þig, ó Drottinn allra nafna og skapari himnanna, að hjálpa mér að vera staðfastur í málstað Þínum með styrkjandi náð Þinni svo að hégómi heimsins útiloki mig ekki líkt og blæja og engin hindrun verði í vegi mínum vegna umrótsins af völdum illvirkjanna sem hafa risið upp til að afvegaleiða fólk Þitt á dögum Þínum. Fyrirhuga mér því, ó þrá hjarta míns, hið góða í þessum heimi og þeim sem kemur. Sannlega ert Þú megnugur að gera það sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn örlátasti.
—Bahá’u’lláh
Naw-rúz
(Naw-rúz, fyrsti dagur bahá’í nýársins, hefst sama dag og jafndægur á vori verða í Teheran, fæðingarborg Bahá’u’lláh.)
Lofaður sért Þú, ó Guð minn, fyrir að hafa gert naw-rúz að hátíð fyrir þá sem hafa haldið föstuna vegna ástar á Þér og neitað sér um allt sem Þér er andstyggð. Gef, ó Drottinn minn, að eldur ástar Þinnar og funinn sem glæddist á föstunni sem Þú fyrirskipaðir, megi upptendra þá í málstað Þínum og gera þá upptekna af lofgjörð til Þín og hugsun um Þig.
Þar sem Þú hefur skrýtt þá, ó Drottinn minn, skarti föstunnar sem Þú mæltir fyrir um, skrýð þá einnig skarti viðtöku Þinnar sakir náðar Þinnar og örlátrar hylli. Því að gerðir allra manna eru háðar velþóknun Þinni og skilyrtar af skipan Þinni. Ef Þú litir þann sem hefur rofið föstuna sömu augum og þann sem hefur haldið hana, yrði sá hinn sami talinn til þeirra sem frá eilífð hafa haldið föstuna. Og ef Þú skyldir ákvarða að sá sem hefur haldið föstuna hafi rofið hana, yrði hann talinn til þeirra sem hafa flekkað kyrtil opinberunar Þinnar dusti og verið fjarri kristaltærum vötnum þessa lifandi brunns.
Þú ert sá sem hafið hefur á loft táknið „Lofsverður ert Þú í verkum Þínum“ og breitt úr gunnfánanum „Fyrirmælum Þínum ber að hlýðnast“. Gef þjónum Þínum, ó Guð minn, þekkingu á þessari stöðu svo að þeir vakni til vitundar um að ágæti alls er háð boði Þínu og orði og að dyggð sérhvers verks skilyrðist af leyfi Þínu og velþóknun vilja Þíns og þeir megi skilja að verk mannanna eru í höndum viðtöku Þinnar og boða. Ger þeim þetta ljóst svo að alls ekkert megi útiloka þá frá fegurð Þinni á þessum dögum þegar Kristur hrópar: „Allt veldi sé Þitt, ó Þú getandi andans (Jesús)“; og vinur Þinn (Múhameð) kallar: „Dýrð sé Þér, ó Þú ástkærasti, að Þú hefur afhjúpað fegurð Þína og ritað niður fyrir Þína útvöldu það sem mun láta þá ná til aðseturs opinberunar Þíns mesta nafns. Sakir þess hafa allir menn kveinað nema þeir sem hafa leyst sig frá öllu nema Þér og snúið sér til Hans sem opinberar sjálfan Þig og birtir eigindir Þínar.“
Hann sem er grein Þín og allir félagar Þínir, ó Drottinn minn, hafa rofið föstuna á þessum degi eftir að hafa haldið hana innan mæra hirðar Þinnar og í ákefð sinni að þóknast Þér. Fyrirhuga honum og þeim og öllum sem hafa gengið í návist Þína á þessum dögum allt hið góða sem Þú ákvarðaðir í bók Þinni. Veit þeim því það sem fulltingir þeim, bæði í þessu lífi og því sem kemur.
Þú ert í sannleika sá sem allt þekkir, hinn alvitri.
—Bahá’u’lláh
Tafla Aḥmads
„Þessar daglegu skyldubænir, ásamt nokkrum öðrum bænum, svo sem Lækningabæninni og Töflu Aḥmads, hefur Bahá’u’lláh gætt sérstökum mætti og merkingu, og því skyldu þær viðurkenndar sem slíkar og átrúendurnir ættu að lesa þær með efunarlausri trú og fullvissu, svo að þeir megi með tilstuðlan þeirra komast í miklu nánara samneyti við Guð og geti samkennt sig í enn ríkari mæli lögum Hans og fyrirmælum.“
—Úr bréfi rituðu fyrir hönd Shoghi Effendi
Hann er konungurinn, sá sem allt þekkir, hinn vitri!
Sjá, Næturgali paradísar syngur á hríslum eilífðartrésins heilagan, hugljúfan óð, kunngerir hinum hreinlyndu fagnaðartíðindin um nálægð Guðs, kallar þá sem trúa á guðlega einingu, til forgarðs návistar hins örláta, upplýsir hina afskiptu um boðskapinn sem opinberaður hefur verið af Guði, konunginum, hinum dýrlega, hinum óviðjafnanlega, leiðir elskendurna til sætis heilagleikans og til þessarar geislandi Fegurðar.
Vissulega er þetta Hin mesta fegurð sem sögð var fyrir í bókum boðberanna en með þeirra fulltingi mun sannleikurinn verða greindur frá villu og viska sérhverrar skipunar metin. Sannlega er Hann lífstréð sem ber ávexti Guðs, hins upphafna og máttuga, hins mikla.
Ó Aḥmad! Ber því vitni, að sannlega er Hann Guð og að enginn er Guð nema Hann, konungurinn, verndarinn, hinn óviðjafnanlegi, hinn almáttugi. Og að sá sem Hann sendi, ‘Alí að nafni, var hinn sanni frá Guði og öll lútum við boðum Hans.
Seg: ó fólk, hlýðnist fyrirmælum Guðs sem yður hafa verið sett í Bayáninum af hinum dýrlega, hinum vitra. Vissulega er Hann konungur boðberanna og bók Hans er móðurbókin, ef aðeins þér vissuð það.
Þannig kallar Næturgalinn til yðar frá þessari prísund. Hans er aðeins að flytja þennan skýra boðskap. Látið þann sem það kýs snúa baki við ráðgjöf Hans, og þann sem það kýs, látið hann velja leiðina til Drottins síns.
Ó, fólk, ef þér hafnið þessum versum, hvað er þá til sannindamerkis um trú yðar á Guð? Sýnið það, ó samsafn fláráðra!
Nei, við Hann sem hefur í hendi sér sál mína, þeir geta það eigi og munu aldrei geta það jafnvel þótt þeir taki sig saman og hjálpi hver öðrum.
Ó Aḥmad! Gleym eigi örlæti Mínu meðan Ég er fjarverandi. Minnst þú daga Minna um daga þína og hryggðar Minnar og útlegðar í þessu fjarlæga fangelsi. Og ver svo staðfastur í ást Minni, að hjarta þitt glúpni eigi jafnvel þótt sverðalögum óvinanna rigni yfir þig og himnarnir allir og jörðin rísi gegn þér.
Ver sem eldslogi óvinum Mínum og elfur eilífs lífs ástvinum Mínum og heyr eigi þeim til sem efast.
Og ef þrenging yfirþyrmir þig á vegi Mínum eða niðurlæging mætir þér sakir Mín, lát ekki hugfallast.
Set traust þitt á Guð, Guð þinn og Drottin feðra þinna. Því að fólkið reikar á blekkingarstigum, svipt skilningi til að sjá Guð með sínum eigin augum eða heyra söngljóð Hans með sínum eigin eyrum. Þannig hefur það birst Oss eins og einnig þú berð vitni.
Þannig hefur hjátrú þeirra orðið að blæjum milli þeirra sjálfra og hjartna þeirra og haldið þeim frá vegi Guðs, hins upphafna, hins mikla.
Ver þess fullviss með sjálfum þér, að vissulega hefur sá sem snýr sér frá þessari Fegurð einnig snúið sér frá boðberum fortíðarinnar og sýnir dramb gagnvart Guði frá eilífð til eilífðar.
Lær vel þessa töflu, ó Aḥmad. Syng hana um daga þína og meina eigi sjálfum þér um það. Því að sannlega hefur Guð áformað þeim sem hana syngur endurgjald hundrað píslarvotta og þjónustu í heimunum báðum. Þessa hylli höfum Vér veitt þér sem vott um örlæti frá Vorri hendi og miskunn frá návist Vorri, svo að þú megir heyra til hinum þakklátu.
Sem Guð lifir! Ef einhver sem ratað hefur í þjáningu eða sorg les þessa töflu af fullkominni einlægni, mun Guð eyða hryggð hans, leysa úr erfiðleikum hans og taka frá honum mæðu hans.
Vissulega er Hann hinn miskunnsami og samúðarfulli. Lof sé Guði, Drottni allra veraldanna.
—Bahá’u’lláh
Eldtaflan
Í nafni Guðs, hins aldna, hins æðsta.
Sannlega brenna hjörtu hinna hreinlunduðu í eldi aðskilnaðar: Hvar er glampinn af ljósi ásýndar Þinnar, ó ástvinur veraldanna?
Þeir sem eru nálægir Þér eru yfirgefnir í myrkri auðnarinnar: Hvar bjarmar af morgni endurfundanna við Þig, ó þrá veraldanna?
Líkamar Þinna útvöldu liggja skjálfandi á fjörrum söndum: Hvar er haf návistar Þinnar, ó Þú sem heillar veraldirnar?
Löngunarfullar hendur teygja sig til himins miskunnar Þinnar og örlætis: Hvar er regn gjafa Þinna, ó Þú sem bænheyrir veraldirnar?
Hinir trúlausu rísa í harðýðgi á alla vegu: Hvar er knýjandi afl yfirbjóðandi penna Þíns, ó sigurvegari veraldanna?
Hundgáin glymur allt í kring: Hvar er ljónið í skógi máttar Þíns, ó Þú sem hirtir veraldirnar?
Kuldinn hefur læst sig um mannkynið: Hvar er hiti ástar Þinnar, ó bál veraldanna?
Ógæfan er í algleymingi: Hvar eru tákn fulltingis Þíns, ó lausn veraldanna?
Myrkrið hefur umlukið flestar þjóðir: Hvar er bjarminn af dýrð Þinni, ó ljómi veraldanna?
Hálsar mannanna eru framteygðir í meinsemi: Hvar eru sverð hefndar Þinnar, ó eyðandi veraldanna?
Lægingin hefur náð sínum neðstu mörkum: Hvar eru jartein dýrðar Þinnar, ó dýrð veraldanna?
Sorgir hrjá opinberanda nafns Þíns, hins almiskunnsama: Hvar er fögnuður dagseldingar opinberunar Þinnar, ó unaður veraldanna?
Angist hefur gripið allar þjóðir jarðarinnar: Hvar eru teikn gleði Þinnar, ó fögnuður veraldanna?
Þú lítur dagsbrún tákna Þinna hjúpaða illum getsökum: Hvar eru fingur máttar Þíns, ó vald veraldanna?
Sár þorsti sækir alla menn: Hvar er elfur örlætis Þíns, ó miskunn veraldanna?
Ágirndin hefur fjötrað allt mannkynið: Hvar eru holdtekjur andlegrar lausnar, ó Drottinn veraldanna?
Þú lítur þennan rangtleikna einmana í útlegð: Hvar eru hersveitirnar frá himni skipunar Þinnar, ó höfðingi veraldanna?
Ég er yfirgefinn í ókunnu landi: Hvar eru tákn trúfesti Þinnar, ó trúnaður veraldanna?
Kvöl dauðans heldur í greip sinni öllum mönnum: Hvar er ólgandi haf Þíns eilífa lífs, ó líf veraldanna?
Launskrafi Satans hefur verið andað í eyra sérhverrar skepnu: Hvar er vígahnöttur elds Þíns, ó ljós veraldanna?
Ölvun ástríðunnar hefur afmyndað flesta menn: Hvar eru dagsbrúnir hreinleika Þíns, ó þrá veraldanna?
Þú lítur þennan rangtleikna hjúpaðan áþján meðal Sýrlendinga: Hvar er ljómi dagseldingar Þinnar, ó ljós veraldanna?
Þú sérð mér varnað máls: Hvaðan munu þá berast söngvar Þínir, ó næturgali veraldanna?
Flestir menn eru huldir blæjum hégóma og fánýtra ímyndana. Hvar eru málsvarar vissu Þinnar, ó fullvissa veraldanna?
Bahá er að drukknun kominn í hafi þrenginganna: Hvar er lausnarörk Þín, ó lausnari veraldanna?
Þú sérð dagselding orða Þinna í svartnætti sköpunarinnar: Hvar er sólin á himni náðar Þinnar, ó Þú sem upplýsir veraldirnar?
Lampar sannleika og hreinleika, heiðurs og hollustu, hafa verið slökktir: Hvar eru jartein hefnandi reiði Þinnar, ó Þú sem hrærir veraldirnar?
Sérð Þú nokkurn sem lagt hefur sjálfi Þínu lið eða hugleiðir hlutskipti hans á vegi ástar Þinnar? Nú stöðvast penni minn, ó ástvinur veraldanna.
Greinar Hins himneska lótusviðar liggja brotnar fyrir forlagabyljum: Hvar eru fánar fulltingis Þíns, ó kappi veraldanna?
Þessi ásjóna er hulin dusti illmælginnar: Hvar er andblær meðaumkvunar Þinnar, ó miskunn veraldanna?
Hinir svikulu hafa saurgað kyrtil helgunarinnar: Hvar er skrúði heilagleika Þíns, ó Þú sem skrýðir veraldirnar?
Miskunnsemdanna haf hefur hljóðnað sakir þess sem hendur mannanna hafa gert: Hvar eru öldur örlætis Þíns, ó þrá veraldanna?
Kúgun óvina Þinna hefur læst dyrunum að hinni guðdómlegu návist: Hvar er lykill gjafa Þinna, ó Þú sem opnar veraldirnar?
Laufin hafa sölnað fyrir eitruðum gjósti undirróðurs: Hvar er úrhellið úr skýjum gjafmildi Þinnar, ó gjafari veraldanna?
Alheimurinn hefur myrkvast af dusti syndarinnar: Hvar er andvari fyrirgefningar Þinnar, ó fyrirgefandi veraldanna?
Þessi æskumaður er einmana í auðnarlandi: Hvar er regn himneskrar náðar Þinnar, ó veitandi veraldanna?
Ó æðsti penni, frá ríkinu eilífa höfum Vér heyrt ljúfast ákall þitt: Ljá eyra því sem Tunga tignarinnar mælir, ó rangtleikni veraldanna!
Ef eigi væri kuldinn hvernig fengi hiti orða þinna sigrað, ó skýrandi veraldanna?
Ef eigi væri ógæfan, hvernig gæti sól þrautseigju þinnar skinið, ó ljós veraldanna?
Kveina eigi vegna hinna syndugu, þú varst skapaður til að þola og standast, ó þolgæði veraldanna.
Hve ljúf var dögun þín á sjónarrönd sáttmálans mitt á meðal undirróðursmannanna og þrá þín eftir Guði, ó ást veraldanna.
Vegna þín var merki sjálfstæðisins reist á hæstu tindum og haf örlætisins brimaði, ó sæla veraldanna.
Sakir einsemdar þinnar skein sól einleikans og sakir útlegðar þinnar skrýddist land einingarinnar. Ver þolinmóður, ó þú útlagi í veröldunum.
Vér höfum gert læginguna að dýrðarklæðum og þjáninguna að skarti musteris þíns, ó stolt veraldanna.
Þú lítur hjörtun full af hatri og þitt er að umbera, ó þú, sem hylur syndir veraldanna.
Þegar sverðin glampa, gakk áfram! Þegar spjótin fljúga, sæk fram! Ó þú fórn veraldanna.
Kveinar þú, eða á Ég að kveina? Fremur skyldi Ég gráta fæð kappa þinna, ó þú sem veraldirnar kveina yfir.
Vissulega hef ég heyrt kall Þitt, ó aldýrlegi ástvinur, og nú brennur ásjóna Bahá af hita þjáninganna og eldi skínandi orðs Þíns og hann hefur risið upp í trúfesti á fórnarstaðnum og leitar velþóknunar Þinnar, ó yfirbjóðandi veraldanna.
Ó ‘Alí-Akbar, þakka þú Drottni þínum fyrir þessa töflu, sem ber þér ilm auðmýktar Minnar, og vit hvað fallið hefur Oss í skaut á vegi Guðs, hins dásamaða allra veraldanna.
Ef allir þjónarnir lesa og hugleiða þetta, verður glæddur eldur í æðum þeirra, sem tendra mun bál í veröldunum.
—Bahá’u’lláh
Tafla hins heilaga sæfara
„Lesið Töflu hins heilaga sæfara til þess að þér megið ganga úr skugga um sannleikann og íhugið að Hin aldna fegurð hefur til fulls sagt fyrir um atburði framtíðar. Látum hina skilningsríku draga af því lærdóm!“
—‘Abdu’l‑Bahá
Hann er hinn náðugi og ástfólgni!
Ó heilagi sæfari!
Bjóð örk eilífðar þinnar að birtast frammi fyrir hinum himnesku herskörum.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Hleyp henni af stokkum á hafið forna í Hans nafni, hins undursamlegasta.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Og lát engilhreinu andana stíga inn í nafni Guðs, hins hæsta.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Leys síðan landfestar til þess að hún megi sigla á hafi dýrðar,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
og þeir sem í henni eru megi komast í athvarf návistar í ríkinu eilífa.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Er hún kemur að strandlengjunni helgu, strönd hinna fagurrauðu sæva,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
bjóð þeim að stíga út úr henni og eignast þessa himnesku ósýnilegu stöðu,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
stöðuna þar sem Drottinn birtist í ódeyjandi trénu í loga fegurðar sinnar,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
þar sem holdtekjur málstaðar Hans hreinsuðu sig af sjálfi og ástríðu,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
sem dýrð Móse hringsólar um ásamt herskörunum eilífu,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
þar sem Drottinn tók hönd sína út úr barmi mikilleika síns,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
þar sem örk málstaðar Hans stendur kyrr jafnvel þótt þeir sem í henni eru heyri allar himneskar eigindir kunngerðar.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Ó sæfari! Kenn þeim sem eru í örkinni það sem Vér höfum kennt þér á bak við dularblæjuna.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Að þeir tefji ekki á þeim heilaga mjallhvíta stað,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
en hefji sig á vængjum andans til þeirrar stöðu sem Drottinn hefur upphafið yfir allt tungutak lægri heimanna,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
svífi um geiminn eins og fuglarnir sem njóta vildar í ríki eilífra endurfunda,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
og kynnist leyndardómunum sem dyljast í úthöfum ljóssins.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Þeir lögðu að baki svið veraldlegra takmarkana og komust á svið guðdómlegrar einingar, miðju himneskrar handleiðslu.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Þeir þráðu að hefjast upp til stöðunnar sem Drottinn hafði sett ofar þeirra eigin.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Við svo búið varpaði logandi vígahnöttur þeim frá íbúunum í ríki návistar Hans,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
og þeir heyrðu Rödd tignarinnar hljóma að baki hins ósýnilega tjaldskála á upphæðum dýrðar:
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
„Ó verndarenglar! Flytjið þá aftur til híbýla sinna í lægri heiminum,“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
„því þeir vildu rísa til sviðs sem vængir hinnar himnesku dúfu hafa aldrei snert.“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
„Við svo búið stendur skip hugarburðar kyrrt og hugir hinna glöggu fá ekki skilið það.“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Því næst leit meyja himinsins út frá upphöfnum salarkynnum sínum,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
og gaf herskörunum heilögu merki með enni sínu.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Birtan af ásýnd hennar flæddi um himna og jörð.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Og þegar ljómanum af fegurð hennar stafaði yfir lýð duftsins,
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
bifuðust allar verur í dauðlegum gröfum sínum.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Hún hóf síðan upp kall sem ekkert eyra hefur heyrt um alla eilífð
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
og kunngerði: „Ég sver við Drottin! Sá sem ekki geymir í hjarta sínu ilm kærleiks til arabíska Æskumannsins upphafna og dýrlega,“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
„getur aldrei stigið upp til dýrðar hæsta himins.“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Síðan kallaði hún til sín meyju úr flokki þjónustumeyja sinna
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
og gaf henni skipun: „Stíg niður í geiminn frá setrum eilífðar,“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
„og rannsaka það sem þeir dylja innst í hjarta sínu.“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
„Ef þú finnur ilminn af klæðum Æskumannsins sem er falinn í tjaldbúð ljóssins vegna misgerða illvirkjanna,“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
„hrópa innra með þér svo að allir íbúar í sölum paradísar, holdtekjur eilífs ríkidæmis, megi heyra og skilja,“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
„svo þeir geti allir stigið niður frá eilífum vistarverum sínum og skolfið.“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
„Og kysstu hendur þeirra og fætur fyrir að hafa svifið til upphæða tryggðar,“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
„svo að þeir megi finna ilminn af klæðum Ástvinarins.“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Að því búnu geislaði ásýnd stúlkunnar hylltu yfir hásali himnanna eins og ljósið sem skín frá andliti Æskumannsins yfir dauðlegu musteri Hans.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Hún steig síðan niður í slíkum skrúða að himnarnir og allt sem þeir varðveita uppljómuðust.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Hún bærði á sér og dreifði ilmi yfir allt sem er að finna í löndum heilagleika og tignar.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Þegar hún kom á þann stað rétti hún sig upp í miðju hjarta sköpunarverksins.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Og reyndi að anda að sér ilmi þeirra á stundu sem ekkert upphaf þekkir og engin endalok.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Þess sem hún þráði varð hún ekki áskynja í þeim, og sannlega er þetta einungis ein undursamlegra frásagna Hans.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Hún kallaði síðan upp, kveinaði og hvarf aftur til sinnar eigin stöðu í háleitasta setri sínu.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Og mælti síðan eitt dularorð sem hunangstunga hennar hvíslaði á laun.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Og hrópaði upp meðal hinna himnesku herskara og ódauðlegra meyja himinsins:
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
„Ég sver við Drottin! Andblær trúfesti barst mér ekki frá þessum fánýtu krefjendum.“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
„Ég sver við Drottin! Æskumaðurinn er einn og yfirgefinn í landi útlegðar í höndum hinna óguðlegu.“
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Hún gaf síðan innra með sér upp slíkt hróp að hersingin himneska kveinaði og skalf.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Og hún féll í rykið og gaf upp öndina. Svo virtist sem hún væri kölluð og hlýddi á Hann sem kvaddi hana til ríkisins á hæðum.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Dýrlegur sé Hann sem skapaði hana af kjarna ástar í miðju hjarta sinnar upphöfnu paradísar.
Dýrlegur sé Drottinn minn, hinn aldýrlegi!
Síðan þustu meyjar himinsins út úr vistarverum sínum. Enginn íbúi hinnar hæstu paradísar hafði nokkru sinni litið ásýndir þeirra.
Dýrlegur sé Drottinn okkar, hinn hæsti!
Þær söfnuðust um hana og sjá! Þær fundu líkama hennar í duftinu.
Dýrlegur sé Drottinn okkar, hinn hæsti!
Og þegar þær sáu hvernig hún var á sig komin og skildu orð af frásögn Æskumannsins beruðu þær höfuð sín, rifu klæði, slógu sér á höfuð, gleymdu gleði sinni, úthelltu tárum og börðu sér á vanga með höndunum, og þetta er að sönnu ein hinna dulhelgu og sáru þjáninga –
Dýrlegur sé Drottinn okkar, hinn hæsti!
—Bahá’u’lláh
Vitjunartöflur
(Þessi tafla er lesin við heilög grafhýsi Bahá’u’lláh og Bábsins. Hún er einnig iðulega notuð við minningarhátíðir þeirra.)
Lofgjörðin, sem hefur stigið upp frá Þínu göfugasta sjálfi og dýrðin, sem hefur skinið frá björtustu fegurð Þinni, hvíli yfir Þér, ó Þú sem ert birting tignar, konungur eilífðar og Drottinn allra á himnum og á jörðu! Ég ber því vitni, að fyrir Þig hafa veldi Guðs og ríki Hans, mikilleiki Guðs og tign Hans verið opinberuð, sólir aldinnar geisladýrðar úthellt ljóma sínum á himni óafturkallanlegrar ákvörðunar Þinnar og fegurð hins óséða hefur skinið yfir sjónarhring sköpunar. Ég ber því enn fremur vitni, að einungis með hreyfingu penna Þíns hefur skipun Þinni „Ver“ verið fullnægt og hulinn leyndardómur Guðs afhjúpaður og öllu sem skapað er gefin tilvist og allar opinberanir sendar niður.
Ég ber því einnig vitni, að með fegurð Þinni hefur fegurð Hins tilbeðna verið afhjúpuð og með ásýnd Þinni hefur ásýnd Hins þráða varpað ljóma og með orði Þínu hefur Þú greint á milli alls sem skapað er og af þeim völdum hafa þeir, sem eru Þér trúir, risið upp til hæstu dýrðar og trúleysingjarnir fallið í dýpsta afgrunn.
Ég ber því vitni, að sá sem hefur þekkt Þig hefur þekkt Guð og sá sem hefur komist í návist Þína hefur komist í návist Guðs. Mikil er því blessun hans sem hefur trúað á Þig og á tákn Þín og hefur auðmýkt sig frammi fyrir yfirráðum Þínum, verið heiðraður með að mæta Þér, öðlast velþóknun vilja Þíns, snúist um Þig og staðið frammi fyrir hásæti Þínu. Vei þeim, sem hefur brotið gegn Þér og afneitað Þér, vísað á bug táknum Þínum, mælt gegn yfirráðum Þínum, risið upp gegn Þér, hreykt sér frammi fyrir ásýnd Þinni, véfengt vitnisburði Þína, flúið vald Þitt og yfirráð og talist til trúvillinganna sem fingur skipunar Þinnar hafa skráð með nafni á Þínar helgu töflur.
Bein því til mín, ó Guð minn og minn ástfólgni, frá hægri hendi miskunnar Þinnar og ástríkis, helgum andblæ velþóknunar Þinnar, svo ég megi leysast frá sjálfum mér og umheiminum og laðast að forgarði nálægðar Þinnar og nærveru. Þú ert þess megnugur að gera það sem þóknast Þér. Þú hefur í sannleika verið æðstur yfir öllu sem er.
Minningin um Guð og lofgjörð Hans, dýrð Guðs og ljómi, hvíli yfir Þér, ó Þú sem ert fegurð Hans! Ég ber því vitni, að auga sköpunarinnar hefur aldrei litið neinn jafn rangtleikinn og Þig. Þú varst umlukinn úthafi mótlætis alla daga lífs Þíns. Eitt sinn varst Þú í hlekkjum og fjötrum; annað sinn vofði sverð óvina Þinna yfir Þér. Samt sem áður bauðst Þú öllum mönnum að halda það, sem Þér var falið af Honum sem er hinn alvísi og alvitri.
Megi anda mínum verða fórnað sakir rangindanna sem Þú máttir þola og sál mín verða lausnargjald fyrir raunirnar sem féllu Þér í hlut. Ég sárbæni Guð við Þig og þá, sem hafa uppljómast af geisladýrð ásýndar Þinnar, og þá sem vegna ástar á Þér hafa haldið hvaðeina sem þeim var boðið, að fjarlægja blæjurnar sem hafa komið á milli Þín og skepna Þinna og veita mér af gæðum þessa heims og þess sem kemur. Þú ert í sannleika hinn almáttugi, hinn upphafnasti, hinn aldýrlegi, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn samúðarfyllsti.
Blessa Þú, ó Drottinn Guð minn, Hið guðdómlega lótustré, lauf þess og greinar, kvisti þess, stilka og nýgræðinga, svo lengi sem ágætustu nafnbætur Þínar vara og tignustu eigindir endast. Vernda það einnig gegn misgjörðum árásarmanna og herskörum kúgunar. Þú ert í sannleika hinn almáttugi og voldugasti. Blessa Þú einnig, ó Drottinn Guð minn, þjóna Þína og þjónustumeyjar sem hafa komist til Þín. Þú ert vissulega sá sem allt gefur og náð Þín er takmarkalaus. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn örlátasti.
—Bahá’u’lláh
(Þessi bæn, sem opinberuð er af ‘Abdu’l‑Bahá, er lesin í grafhýsi hans. Hún er einnig notuð í einrúmi.)
Sá sem fer með þessa bæn í auðmýkt og andakt mun færa hjarta þessa þjóns fögnuð og gleði; það er líkt og að hitta hann augliti til auglitis.
Hann er hinn aldýrlegi!
Ó Guð, Guð minn! Auðmjúkur og tárfellandi teygi ég biðjandi hendur mínar til Þín og hyl andlit mitt í dusti þeirrar fótskarar Þinnar sem hafin er yfir þekkingu hinna lærðu og lofstír allra sem vegsama Þig. Náðarsamlega lít þjón Þinn, bljúgan og auðmjúkan við dyr Þínar, augum miskunnar Þinnar og sökk honum í úthaf Þinnar eilífu náðar.
Drottinn! Hann er snauður og auðmjúkur þjónn Þinn, undirgefinn og sárbiður Þig, fanginn í höndum Þínum, biður heitt til Þín, treystir á Þig, tárvotur frammi fyrir ásjónu Þinni, kallar til Þín og sárbænir Þig svofelldum orðum:
Ó Drottinn, Guð minn! Veit mér náð Þína til að þjóna ástvinum Þínum, styrk mig í þjónustunni við Þig, upplýs brá mína með ljósi vegsömunar innan forgarðs heilagleika Þíns og í bæn til ríkis tignar Þinnar. Hjálpa mér að vera sjálflaus við himneskan inngang hliðs Þíns og aðstoða mig við að skiljast frá öllum hlutum innan heilagra mæra Þinna. Drottinn! Gef mér að drekka af bikar sjálfleysis, íklæð mig kyrtli þess og sökk mér í úthaf þess. Ger mig sem dustið á vegi ástvina Þinna og gef að ég megi fórna sálu minni fyrir jörðina sem göfgast hefur af skrefum Þinna útvöldu á vegi Þínum, ó Drottinn dýrðar í hæstu hæðum.
Þjónn Þinn ákallar Þig með þessari bæn í dögun og á næturþeli. Uppfyll ósk hjarta hans, ó Drottinn! Uppljóma hjarta hans, gleð brjóst hans, tendra ljós hans, svo að hann megi þjóna málstað Þínum og þjónum Þínum.
Þú ert gjafarinn, hinn vorkunnláti og gjafmildasti, hinn náðugi og miskunnsami, hinn samúðarfulli!
—‘Abdu’l‑Bahá
Skyldubænir
Almennar bænir
Upprunalegt handrit þessarar bænar fyrir vernd er skrifað með eigin hönd Bábsins í formi fimmhyrndrar stjörnu.
Bænir við ýmis tækifæri
Sérstakar töflur