Skjal frá Allsherjarhúsi réttvísinnar
INNGANGUR
Meira en þrír áratugir eru liðnir frá stofnun álfuráðanna árið 1968. Á þessum tíma hefur stofnunin safnað ómetanlegri reynslu og áhrif hennar verða sífellt öflugri um allan bahá’í heiminn. Nýtt aðsetur Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar á Karmelfjalli gefur hentugt tilefni til útgáfu skjals sem lýsir starfsemi stofnunar ráðgjafanna. Við höfum því útbúið samantekt á þeirri leiðsögn sem áður hefur verið gefin um þetta efni og vonum að hún muni auka skilning vinanna ekki aðeins á ábyrgð ráðgjafanna og aðstoðarfólks þeirra heldur einnig á starfi stjórnskipulagsins almennt.
Skjalið er í tveimur hlutum. Í fyrri hlutanum gefum við yfirsýn yfir ýmsa aðila stofnunarinnar og skyldur þeirra. Í hinum síðari eru greinar sem fjalla um sérstaka þætti í starfsemi hennar.
Stjórnskipulagið sem Bahá’u’lláh stofnaði nær guðlega áformuðu markmiði sínu með atbeina kerfi stofnana, sem hver um sig hefur sitt skilgreinda athafnasvið. Yfirstjórn þessa stjórnskipulags er í höndum Allsherjarhúss réttvísinnar en erindisbréf þess er opinberað orð Bahá’u’lláh ásamt túlkunum og skýringum ‘Abdu’l‑Bahá og Verndarans. Undir leiðsögn þess er löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald í málefnum bahá’í samfélagsins í höndum andlegra svæðis- og þjóðarráða. Þessum heimildum er einnig beitt af landshlutaráðum, nefndum og öðrum undirstofnunum, sem þessar stofnanir hafa komið á fót, að því marki sem þeim er það falið.
Samfara því valdi sem kjörnum ráðum er falið til að taka ákvarðanir sem eru bindandi fyrir samfélagið koma andlegu, siðferðilegu og vitsmunalegu áhrifin sem stjórnskipunin hefur bæði á líf átrúendanna og störf stofnana trúarinnar. Þessi áhrif taka á sig sérstök einkenni með þjónustu þeirra einstaklinga sem eru skipaðir í háar stöður ráðgjafa og fulltrúa þeirra. Nánar tiltekið er álfuráðgjöfum og meðlimum í aðstoðarráðum og aðstoðarmönnum þeirra falin störf sem lúta að vernd og útbreiðslu trúarinnar. Við framkvæmd starfa sinna fá álfuráðgjafar leiðsögn sína frá Alþjóðlegu kennslumiðstöðinni sem hefur umboð á heimsvísu og starfar í nánum tengslum við Allsherjarhús réttvísinnar.
Tvær stofnanir ráðgjafanna og andlegu ráðanna, sem gegna hvor sínu hlutverki, bera ábyrgð á verndun og útbreiðslu trúarinnar. Samstillt starfsemi þeirra tryggir stöðugan straum leiðsagnar, ástar og hvatningar til átrúendanna og styrkir viðleitni þeirra sem einstaklinga og samfélags til að stuðla að framsókn málstaðarins. Verndarinn leggur áherslu á gildi slíkra samskipta í símskeyti dagsettu 4. júní 1957, þar sem vísað var á þeim tíma til Handa málstaðarins og þjóðarráðanna: „ÖRYGGI DÝRMÆTRAR TRÚAR, VARÐVEISLA ANDLEGRAR HEILSU BAHÁ’Í SAMFÉLAGANNA, LÍFSKRAFTUR OG TRÚ MEÐLIMA HENNAR HVERS OG EINS, RÉTT STARFSEMI STOFNANA HENNAR SEM REISTAR VORU MEÐ ERFIÐISMUNUM, ÁRANGUR AF VERKEFNUM HENNAR UM ALLAN HEIM OG ENDANLEG ÖRLÖG HENNAR, ALLT ER ÞETTA BEINLÍNIS HÁÐ RÉTTRI OG VIÐEIGANDI FRAMKVÆMD ÞUNGVÆGRAR ÁBYRGÐAR SEM NÚ HVÍLIR Á MEÐLIMUM ÞESSARA TVEGGJA STOFNANA…“.
Ráðgjafar og aðstoðarmenn eru leystir undan stjórnunarhlutverkum sem falin eru kjörnum ráðum og geta einbeitt kröftum sínum að því að styrkja hollustu hvers einstaks bahá’ía, bahá’í stofnana og bahá’í samfélaga við meginreglur. Skilningur þeirra á kenningunum, ásamt viskunni sem sprettur af reynslu sem fæst með náinni þátttöku í margvíslegum hliðum bahá’í starfseminnar, gerir þá sérstaklega hæfa til að veita ráðleggingar sem koma að liði í starfi kjörinna aðila. Enn fremur tryggir sú staðreynd að þeir skipa hærri stöðu en andlegu ráðin að þeim sé haldið vel upplýstum og að andlegu ráðin hugi vel að ráðum þeirra og tilmælum. Stjórnferli trúarinnar snúa ekki aðeins að dómsmálum, lögum og reglugerðum og áætlunum sem stjórna aðgerðum, heldur einnig þeim ráðstöfunum sem vekja heilshugar viðbrögð vinanna og beina kröftum þeirra í farveg. Í öllum slíkum stjórnferlum miðla ráðgjafar og aðstoðarmenn þeirra hæfni sinni sem einstaklingar þrautreyndrar hollustu og helgaðs anda. Á sama hátt gegna þeir mikilvægu hlutverki í að hvetja vinina og stuðla að frumkvæði einstaklingsins, fjölbreytileika og athafnafrelsi. Í viðleitni sinni leitast þeir við að feta í fótspor Handa málstaðarins, sem ‘Abdu’l‑Bahá hvatti „til að dreifa hinum guðdómlega ilmi, uppfræða sálir manna, stuðla að lærdómi, bæta eðlisgerð allra manna og vera ævinlega og undir öllum kringumstæðum helgaðar frá öllu sem er af þessum heimi.“
Allsherjarhús réttvísinnar
1. janúar 2001
ALÞJÓÐA- OG ÁLFURÁÐGJAFAR OG AÐSTOÐARRÁÐIN
Sögulegt sjónarhorn
Bahá’u’lláh skapaði stofnun Handa málstaðar Guðs og hún var formlega skilgreind og sett á fót í erfðaskrá ‘Abdu’l‑Bahá. Undir stjórn Verndarans var starf stofnunarinnar skýrt og útfært. Þegar fram liðu stundir setti Shoghi Effendi á stofn aðstoðarráð fyrir vernd og útbreiðslu trúarinnar til að þjóna starfi Handa málstaðarins og til að tryggja að mjög mikilvæg áhrif þeirra næðu til alls bahá’í samfélagsins.
Með fráfalli Shoghi Effendi og þeirri niðurstöðu Allsherjarhúss réttvísinnar að það gæti ekki lögfest skipun fleiri handa málstaðarins varð því nauðsynlegt að finna leiðir til að framlengja mikilvægt starf að verndun og útbreiðslu sem þessum háu embættismönnum trúarinnar var falið. Fyrsta skrefið í þeirri þróun var tekið í nóvember 1964 þegar Allsherjarhús réttvísinnar útskýrði tengsl sín við stofnun Handanna með því að segja að „ábyrgð á ákvörðunum um málefni almennrar stefnu sem snerti stofnun Handa málstaðarins sem var áður á hendi Verndarans elskaða hvílir nú á Allsherjarhúsi réttvísinnar sem æðstu stofnunar trúarinnar og sem allir verða að snúa sér til.“ Á þessum tíma var aðstoðarráðgjöfum einnig fjölgað og hendur málstaðarins í hverri heimsálfu hvattar til að skipa einn eða fleiri meðlimi aðstoðarráða sinna til starfa sem framkvæmdaaðila fyrir þeirra hönd og í þeirra nafni.
Í júní 1968 voru álfuráðin stofnuð. Þessari þýðingarmiklu ákvörðun fylgdi ýmiss konar þróun í starfi Handa málstaðarins. Þjónusta þeirra handa sem áður störfuðu í heimsálfum náði nú til alls heimsins og sérhver hönd starfaði sem einstaklingur í beinu sambandi við Allsherjarhús réttvísinnar. Hendur málstaðarins voru ekki lengur ábyrgar fyrir stjórn aðstoðarráðanna, sem urðu hjálparstofnanir álfuráðanna. Hendur málstaðarins sem búa í landinu helga fengu það hlutverk að starfa sem tengiliðir milli Allsherjarhúss réttvísinnar og álfuráðanna og samstarf Handanna og álfuráðanna voru skýrð. Einnig var vísað til framtíðar stofnunar alþjóðlegrar kennslumiðstöðvar á vegum Allsherjarhúss réttvísinnar með aðstoð handanna í landinu helga. Alþjóðlega kennslumiðstöðin var stofnuð í júní 1973. Sama ár var aðstoðarráðgjöfum heimilað að útnefna aðstoðarmenn.
Tilvist stofnunar Handa málstaðarins og síðar ráðgjafanna, sem eru einstaklingar sem gegna mjög mikilvægu hlutverki við að efla hagsmuni trúarinnar en hafa hvorki löggjafar-, framkvæmda- eða dómsvald, gegna engu klerklegu hlutverki og hafa ekki heimild til að setja fram túlkanir í nafni trúarinnar, er einkenni á bahá’í stjórnskipaninni sem á sér ekkert fordæmi í trúarbrögðum fyrri tíma. Bahá’u’lláh og síðar ‘Abdu’l‑Bahá fengu bæði kjörnum stofnunum trúarinnar og ákveðnum skipuðum einstaklingum hlutverk að verndun og útbreiðslu.
Með vísan til Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar, hefur Allsherjarhús réttvísinnar lýst því yfir að með stofnun hennar hafi starf handa málstaðarins sem búa í landinu helga borið fullan árangur. Kennslumiðstöðinni er falið að samræma, örva og stýra starfsemi álfuráðanna og er tengiliður þeirra og Allsherjarhúss réttvísinnar.
Í stofnskrá Allsherjarhúss réttvísinnar segir:
Allsherjarhús réttvísinnar stofnaði álfuráðin til að annast til frambúðar það sérstaka starf að vernd og útbreiðslu sem falið er Höndum málstaðar Guðs. Meðlimir þessara ráða eru skipaðir af Allsherjarhúsi réttvísinnar.
Í sama skjali eru aðstoðarráðunum tveimur sem Verndarinn elskaði setti fyrst á stofn lýst þannig:
Á hverju svæði skulu vera tvö aðstoðarráð, eitt fyrir vernd og annað fyrir útbreiðslu trúarinnar, en Allsherjarhús réttvísinnar ákveður fjölda meðlima þeirra. Meðlimir þessara aðstoðarráða starfa undir stjórn álfuráðanna sem fulltrúar þeirra, aðstoðarmenn og ráðgjafar.
Alþjóðlega kennslumiðstöðin
Í Alþjóðlegu kennslumiðstöðinni eru níu meðlimir sem Allsherjarhúsið skipar sem alþjóðaráðgjafa úr hópi allra fullorðinna átrúenda í heiminum til fimm ára í senn og hefst hvert kjörtímabil 23. maí strax að loknu Bahá’í heimsþinginu. Hendur málstaðar Guðs hafa verið fastafulltrúar Kennslumiðstöðvarinnar allt frá stofnun hennar.
Kennslumiðstöðin starfar í meginatriðum sem ein heild. Hún þjónar sem upplýsingaveita og greiningaraðili fyrir Allsherjarhús réttvísinnar og veitir álfuráðgjöfunum leiðbeiningar og efnisleg úrræði. Hún á að vera fullkomlega upplýst um stöðu málstaðarins í öllum heimshlutum og vera vakandi fyrir möguleikum á útbreiðslu trúarinnar, treystingu stofnana hennar og þróun bahá’í samfélagsins. Hún á að greina þessa möguleika í tengslum við alþjóðlegar áætlanir, sjá fyrir þarfir um allan heim og tryggja að nauðsynleg úrræði séu þjóðarsamfélögum tiltæk. Í þessu sambandi leggur hún sérstaka áherslu á þróun mannauðs, hjálpar samfélögum að auka hæfni sína til að miðla vaxandi fjölda átrúenda andlegri innsýn, þekkingu á trúnni og þjónustufærni.
Alþjóðlega kennslumiðstöðin hefur umboð til að gæta öryggis og tryggja vernd trúar Guðs. Hún á að rannsaka öll tilvik þar sem sáttmálsbrot eru á byrjunarstigi – og nýta í því sambandi eins og þörf krefur þjónustu álfuráðgjafa og aðstoðarfólks þeirra og leggja mat á skýrslur þeirra – og ákveða hvort hinum brotlega skuli vísað úr málstaðnum og leggja síðan ákvörðunina fyrir Allsherjarhús réttvísinnar til skoðunar. Hún fylgir sömu málsmeðferð þegar ákveða skal hvort iðrandi sáttmálsbrjótur skuli aftur fá inngöngu í málstaðinn. Í stórum dráttum þarf hún að vera vakandi fyrir andlegri heilsu bahá’í samfélagsins og hvetja ráðgjafana og aðstoðarfólk þeirra til að styrkja átrúendurna til að standa gegn áhrifum ytri og innri andstöðu við málstaðinn og aðstoða andleg þjóðar- og svæðisráð við að leysa úr málum sem gætu vakið efasemdir um heiður trúarinnar og kenningar hennar.
Álfuráðin
Sem stendur þjóna fimm álfuráð fimm helstu meginlöndum heims: Afríku, Ameríku, Asíu, Ástralasíu og Evrópu. Kjörtímabil ráðgjafanna og nákvæm mörk landsvæðanna þar sem hvert ráð starfar eru ákveðin af Allsherjarhúsi réttvísinnar og hið sama gildir um fjöldann í hverju ráði. Kjörtímabilið – sem fyrst var ákveðið að hæfist á degi sáttmálans 26. nóvember 1980 – er nú fimm ár.
Ráðgjafar starfa aðeins sem slíkir á því meginlandsvæði ráðsins þar sem þeir eru skipaðir. Ef þeir flytja heimili sín frá þeirri álfu, afsala þeir sér sjálfkrafa aðild að ráðinu. Fyrsta skylda ráðgjafanna er gagnvart starfinu í þeirra eigin ráði. Samt sem áður vinna þeir með meðlimum annarra ráða sem þjóna aðliggjandi svæðum og geta sinnt sérstökum störfum í öðrum heimsálfum að beiðni Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar eða samkvæmt beinum tilmælum Allsherjarhúss réttvísinnar.
Hvert álfuráð heldur marga fundi á þjónustutíma sínum til samráðs um ýmsar hliðar starfsins að útbreiðslu og vernd trúarinnar. Ákveðin mál, svo sem skipun aðstoðarráðgjafa og ráðstöfun fjármuna, lýtur ákvörðun alls ráðsins. Við framkvæmd annarra starfa – til dæmis örvun ýmissa þátta bahá’í samfélagsins á tilteknu svæði í álfunni – koma nokkrir ráðgjafar saman til samráðs og vinna í sameiningu til þess að hæfni þeirra allra nýtist. Sumar skyldur, þar á meðal umsjón og leiðsögn aðstoðarráðgjafa á ákveðnu svæði, eru venjulega á hendi eins ráðgjafa fyrir hönd ráðsins. Almennt ber að hafa í huga að ólíkt öðrum stofnunum stjórnskipunarinnar sem verða að starfa sem ein heild, starfa ráðgjafarnir fyrst og fremst sem einstaklingar. Við meðferð flestra mála standa þeim til boða fjölbreyttir möguleikar í samræmi við þann sveigjanleika sem stofnun þeirra býr yfir.
Grundvallaratriði í starfi ráðgjafanna er skilningur á því að allir meðlimir álfuráðsins bera ábyrgð á allri álfunni og þurfa að kynna sér eins og unnt er stöðu málstaðarins í löndum hennar. Með reglubundnum skýrslum frá einstökum ráðgjöfum fylgist ráðið með þróun mála á öllum svæðum álfunnar og getur veitt leiðsögn til að aðstoða meðlimi sína í störfum þeirra. Þótt enginn ráðgjafi teljist bera ábyrgð á neinu einu landsvæði, kemur sú ítarlega þekking sem þeir afla sér með nánum samskiptum við andlega þjóðarráðið og aðstoðarráðgjafa á tilteknu svæði öllum ráðgjöfum í ráðinu að dýrmætu liði.
Aðstoðarráðin
Álfuráðið skipar meðlimi aðstoðarráðanna úr hópi átrúenda í hverri heimsálfu til fimm ára í senn á degi sáttmálans árið eftir að ráðgjafarnir hafa sjálfir verið skipaðir. Þeir eiga að vera tuttugu og eins árs eða eldri. Allir álfuráðgjafarnir standa að skipun þeirra með samráði sem getur farið fram bréflega ef nauðsyn krefur.
Meðlimir aðstoðarráðsins eru hver um sig ábyrgir gagnvart álfuráðinu sem skipar þá. Sjálfir eru þeir ekki ákvörðunaraðilar. Aðstoðarráðgjafar geta þó haft samráð sín á milli og unnið saman svo framarlega sem þess er gætt að ekki sé vikið frá þessari meginreglu.
Hverjum aðstoðarráðgjafa er úthlutað tilteknu landsvæði og þótt slíkt landsvæði geti í raun fallið saman við tiltekið land eða þjóðarráðssvæði eru engar fastar reglur um að svo skuli vera. Aðstoðarráðin eru álfustofnanir og það þarf ekki að vera nein fylgni milli marka þeirra svæða sem meðlimum þeirra er úthlutað og þjóðarlandamæra. Aðstoðarráðgjafi starfar sem slíkur ekki utan svæðisins sem honum eða henni er úthlutað nema ráðgjafarnir ákveði það sérstaklega. Af augljósum ástæðum er æskilegra að aðstoðarráðgjafar búi á því svæði sem þeir þjóna, en ef engan hæfan aðila er að finna til að gegna þessu starfi, geta ráðgjafarnir ákveðið annað fyrirkomulag.
Þegar svæðum er úthlutað til meðlima aðstoðarráðanna tryggir álfuráðið að allri álfunni sé skipt milli meðlima aðstoðarráðanna tveggja. Það er að segja, bahá’íar á hverju svæði eiga að hafa bæði aðstoðarráðgjafa fyrir vernd og útbreiðslu sem þeir geta leitað til.
Aðstoðarmenn aðstoðarráðgjafa
Hvert álfuráð veitir einstökum aðstoðarráðgjöfum heimild til að skipa aðstoðarmenn. Rétt heiti er „aðstoðarmenn aðstoðarráðgjafanna“ en ekki „aðstoðarmenn aðstoðarráðsins“. Aðstoðarmaður er skipaður af aðstoðarráðgjafa til starfa á tilteknu svæði og starfar aðeins sem aðstoðarmaður í tengslum við það svæði. Aðstoðarmenn starfa sem einstaklingar eins og aðstoðarráðgjafarnir en ekki sem samráðshópur.
Hvert álfuráð ákvarðar þjónustutíma aðstoðarmanna og hann þarf almennt ekki að staðla. Aðstoðarráðgjafar geta útnefnt suma aðstoðarmenn til ákveðins tíma, en aðra ekki. Útnefningin getur verið til takmarkaðs tíma, svo sem eins eða tveggja ára með möguleika á endurútnefningu. Í vissum tilvikum gæti álfuráðið óskað eftir að leyfa aðstoðarráðgjöfum að útnefna aðstoðarmenn fyrir tiltekið verkefni eða starf, stundum til mjög skamms tíma.
Þjónusta á þjóðar-, landshluta- og svæðisstofnunum
Allir fullorðnir bahá’íar, þar með taldir álfuráðgjafar og meðlimir aðstoðarráða geta tekið þátt í fulltrúakosningum og í kosningum til meðlima andlegs svæðisráðs. Staða og sérstakar skyldur ráðgjafanna gera þá vanhæfa til þjónustu í svæðis-, landshluta- og þjóðarstofnunum stjórnkerfisins. Aðstoðarráðgjafar eru kjörgengir til hvaða embættis sem er, en ef þeir eru kosnir í slíkt embætti á þjóðar-, landshluta- eða svæðisvísu verða þeir að ákveða hvort þeir gegni áfram störfum hjá aðstoðarráðinu eða taki við embættinu þar sem þeir geta ekki gegnt báðum störfum í senn.
Hvort sem aðstoðarráðgjafi er kosinn á andlegt ráð eða landshlutaráð, eða sem landsþingsfulltrúi, á hann að fá hæfilegan tíma til að taka ákvörðun og ekki að hafa það á tilfinningunni að hann þurfi að ákveða sig strax eftir að úrslit kosninga liggja fyrir. Aðild að aðstoðarráði væri talin gild ástæða fyrir lausn frá kjörinni stofnun.
Þótt stuðla eigi að sem nánasta sambandi milli meðlima stofnunar ráðgjafanna og andlegra ráða og undirstofnana þeirra, eru aðstoðarráðgjafar ekki skipaðir í nefndir, sem atkvæðisbærir meðlimir eða meðlimir sem ekki greiða atkvæði. Ákveðnar stofnanir eins og samtök um bahá’í fræði, eða nefnd sem ber ábyrgð á einhverjum þætti félags- og efnahagsþróunar sem krefst faglegrar sérþekkingar félagsmanna sinna, falla í annan flokk. Ráðgjafar eða aðstoðarráðgjafar með nauðsynlega faglega hæfni geta þjónað í slíkum stjórnum og nefndum, að því tilskildu að sjálfsögðu að slík þjónusta trufli ekki skyldustörf þeirra. Að sama skapi getur aðstoðarráðgjafi stundað launaða atvinnu fyrir andlegt þjóðarráð, til dæmis sem almannatengslafulltrúi eða sem stjórnandi í stofnun sem heyrir undir ráðið. Ráðgjafi getur einnig verið fulltrúi hagsmuna bahá’í samfélagsins í samskiptum við stjórnvöld af hálfu þjóðarráðsins.
Náin þátttaka í starfsemi þjálfunarstofnana er hluti af síbreytilegu hlutverki aðstoðarráðgjafa og því geta þeir átt sæti í stjórnum eða nefndum sem hafa umsjón með málefnum þjálfunarstofnana. Aðstoðarráðgjafi hefur engin réttindi í samráði eða ákvarðanatöku umfram aðra meðlimi í starfi slíkrar stofnunar. Þátttaka aðstoðarráðgjafa í starfi þjálfunarstofnunar takmarkast að sjálfsögðu ekki við aðild að stjórn. Margir þjóna einnig sem umsjónarmenn og starfa sem kennarar.
Andlegt þjóðarráð, landsnefnd, landshluta- eða svæðisráð getur beðið aðstoðarráðgjafa, líkt og aðra átrúendur, um að taka að sér verkefni á borð við að halda námskeið á sumarskóla eða tala á ráðstefnu. Það er undir ráðsmeðlimi komið að ákveða hvort það valdi truflun á öðrum skuldbindingum að verða við slíkri beiðni.
Átrúendur geta starfað samtímis sem aðstoðarmenn aðstoðarráðgjafa og í svæðis-, landshluta- og þjóðarráðum og nefndum og unnið sem embættismenn þeirra. Þannig krefst útnefning átrúanda sem aðstoðarmanns ráðgjafa hvorki lausnar viðkomandi frá öðrum stjórnstofnunum né er heldur í sjálfu sér ástæða til að samþykkja slíka lausnarbeiðni. Ef einstaklingur telur sig hafa sérstaka ástæðu til að hafna útnefningu sem aðstoðarmaður er honum að sjálfsögðu frjálst að skýra aðstoðarráðgjafanum frá því eða hafa samráð við andlega ráðið.
Skyldur álfuráðgjafa og aðstoðarráðgjafa þeirra
Bæði álfuráð og andleg þjóðarráð gegna sérstökum störfum sem tengjast vernd og útbreiðslu trúarinnar. Skyldur ráðgjafanna felast meðal annars í því að leiðbeina aðstoðarráðgjöfum, hafa samráð við og vinna með andlegum þjóðarráðum og halda Alþjóða kennslumiðstöðinni og þar með Allsherjarhúsinu upplýstum um stöðu málstaðarins á sínum svæðum.
Ráðgjöfum er skylt að örva útbreiðslu og treystingu trúarinnar í hverri heimsálfu og stuðla að andlegum, vitsmunalegum og félagslegum þáttum í lífi bahá’ía. Andleg heilsa samfélagsins og lífskraftur trúar einstaklingsins, styrking grunnstoða fjölskyldulífsins og nám í kenningunum njóta sérstakrar athygli ráðgjafanna og þeirra sem eru þeim til aðstoðar. Þeir beita sér einnig að því að auka hæfni vinanna og stofnana þeirra til að móta kerfisbundnar áætlanir, framkvæma þær af krafti og læra af reynslunni í uppbyggingu þeirrar heimssiðmenningar sem Bahá’u’lláh sá fyrir sér. Í þessu sambandi er efling vaxtarmenningar innan bahá’í samfélagsins grundvallaratriði í starfi ráðgjafanna.
Aðstoðarráðin fyrir vernd og útbreiðslu gegna ólíku hlutverki hvort um sig. Þau eiga þó ákveðin verkefni sameiginleg, sérstaklega á sviði dýpkunar og treystingar. Frá upphafi sá Verndarinn fyrir sér að aðstoðarráðin myndu aðstoða Hendurnar „við að leysa af hendi tvíþætt og heilagt verkefni sitt að standa vörð um trúna og stuðla að kennslustarfi hennar“. Meðal verkefna sem Verndarinn skilgreinir fyrir aðstoðarráðgjafana eru: örvun og efling kennslustarfsins í samvinnu við núverandi stjórnstofnanir; aðstoð við virkjun veikburða kjarna, hópa og andlegra ráða með heimsóknum; aðstoð við skilvirka og skjóta framkvæmd áætlana; að halda sambandi við brautryðjendur, hjálpa þeim að þrauka og benda þeim á heilaga ábyrgð þeirra; hvetja einstaklinga og andleg ráð með bréfaskiptum og heimsóknum; brýna fyrir átrúendunum að grundvöllur allrar bahá’í starfsemi er eining; hvetja vinina til að leggja af örlæti fram til hinna ýmsu sjóða; og vekja athygli þeirra á mikilvægi einstaklingsátaks og frumkvæðis. Enn fremur fól Shoghi Effendi verndarráðgjöfunum þá sérstöku skyldu að vaka yfir öryggi trúarinnar. Aðstoðarráðgjafar fyrir vernd aðstoða einnig, eins og reynslan sýnir, við útbreiðslu trúarinnar, en leggja mikla áherslu á að dýpka þekkingu vinanna á sáttmálanum og efla með þeim anda ástar og einingar. Viðleitni þeirra stuðlar mjög að vexti bahá’í samfélagsins, því að vernd trúarinnar er nátengd útbreiðslu hennar.
Sá sveigjanleiki og lipurð sem ráðgjafar og aðstoðarráðgjafar geta beitt þegar brugðist er við þörf sem gerir vart við sig í samfélaginu – svo sem fyrir hvatningar, útskýringar á áætlunum, dýpkun í kenningunum, vernd sáttmálans – eru athyglisverðir þættir í starfsemi þeirra. Þessi sveigjanleiki gerir þeim kleift að starfa eins og tilefnið gerir ráð fyrir, hvort sem það er með því að gefa ráð á fundi, ráðleggja einstaklingi í einrúmi, hjálpa vinunum að skilja og hlíta úrskurði andlegs ráðs eða fást við málefni sem varða sáttmálann. Við allar slíkar aðstæður geta þeir vakið athygli á viðeigandi helgigreinum, miðlað upplýsingum, kannað aðstæður og kynnt sér ástand með þeim hætti sem andlegt ráð hefur ekki alltaf tök á að gera. Þeir geta þá eins og þurfa þykir deilt með andlegum ráðum hugmyndum, greiningu, skilningi og ráðleggingum sem óhjákvæmilega auka hæfni þessara ráða til að þjóna samfélögum sínum. Þar sem svæðisráð eru ný eða standa veikum fótum, hvetja aðstoðarráðgjafar þau til að skipuleggja störf sín. Í öllum tilvikum þjappa þeir átrúendum á svæðinu saman til stuðnings við aðgerðir og frumkvæði ráðsins.
Hvað hlutverk aðstoðarmanna varðar felst almenn ábyrgð þeirra á því að aðstoða aðstoðarráðgjafa við störf þeirra. Eðli framlags þeirra endurspeglast hins vegar í hinum ýmsu sérstöku verkefnum sem hver aðstoðarráðgjafi felur hverjum þeim aðstoðar hann. Nákvæmt eðli slíkra verkefna ræðst af sýn aðstoðarráðgjafans á þörfum og möguleikum þeirra samfélaga sem hann þjónar og það er að mestu leyti í þessu samhengi sem kynning og leiðsögn aðstoðarmanna hans verður mikilvæg.
Samstarf við andleg þjóðarráð
Samband álfuráðgjafa við andleg þjóðarráð einkennist af ástríku samstarfi tveggja stofnana trúarinnar sem þjóna sömu markmiðum og þrá að sjá sömu guðlegu staðfestingar stíga yfir viðleitni vinanna til að efla málstaðinn og festa hann í sessi. Þetta er samband í þróun sem styrkist þegar þessar tvær stofnanir standa frammi fyrir þeirri áskorun að byggja upp bahá’í samfélög og verða stolt vitni að framsókn trúarinnar.
Þegar álfuráðgjafar og andleg þjóðarráð vinna saman að því að tryggja útbreiðslu og treystingu samfélagsins taka þjóðarráðin allar nauðsynlegar ákvarðanir um framkvæmdir og bera á þeim ábyrgð. Ráðgjafarnir hafa sjónarmið álfunnar til hliðsjónar í starfi sínu og þegar þeir kynna þau ráðinu í formi ráðlegginga, tillagna, ábendinga eða athugasemda, auðgar það skilning ráðsins, kynnir því viðameiri reynslu en það sjálft býr yfir og hvetur það til að viðhalda heimsumlykjandi sýn.
Ráðgjafarnir, skipaðir af Allsherjarhúsi réttvísinnar, aðstoða yfirstjórn trúarinnar við að breikka grunn, efla styrk og tryggja öryggi andlegra þjóðarráða og þeirra stofnana og samfélaga sem eru í lögsögu þeirra. Með atbeina aðstoðarráðanna færa ráðgjafarnir andlegum svæðisráðum og grasrót samfélagsins ávinninginn af störfum sínum.
Ráðgjafarnir rækja ábyrgð sína með því að styðja frumkvæði andlegu þjóðarráðanna, frumkvæði sem oft sprettur af samráði þessara tveggja stofnana. Aðstoðarráðgjafarnir útskýra fyrir vinunum eðli og tilgang þessa frumkvæðis, vekja hjá þeim áhuga um að hefjast handa og svara kalli þjóðarráðsins og hvetja þá til að halda ótrauða áfram í einhuga starfi. Ráðgjafarnir hafa auðvitað mikið svigrúm til að ákvarða með hvaða hætti stofnun þeirra sinnir þessum verkefnum.
Afgerandi þáttur í starfi ráðgjafanna, sem gerir þeim kleift að veita andlegu þjóðarráðunum dýrmæta ráðgjöf, er að þeir hafa ekki afskipti af umstangi stjórnsýslunnar og það gefur þeim frelsi til að einbeita sér að mjög brýnum málefnum trúarinnar. Gæta verður þess þó að slík fáskiptni fari ekki út í öfgar. Ekki ætti að meina ráðgjöfum um að koma skoðunum sínum á framfæri við andleg þjóðarráð um mál sem varða stjórnsýsluna og andlegu þjóðarráðin ættu ekki að telja að þeim séu settar einhverjar skorður þegar þau vilja nota tækifærið til að hafa samráð við ráðgjafana um slík mál.
Ráðgjafarnir hafa ekki aðeins rétt heldur skyldu til að hafa samráð um, ráðleggja og koma með tillögur til andlegu þjóðarráðanna sem varða sérstakt hlutverk þeirra og starfssvið. Þeir vekja athygli þjóðarráðanna á vandamálum eða tilhneigingum í bahá’í samfélaginu sem þeim finnst að gæta þurfi að. Áhyggjur þeirra að þessu leyti ná til sjálfrar starfsemi þjóðarráðanna. Ef ráðgjafarnir taka eftir alvarlegum frávikum frá stjórnsýslureglum eða öðrum meginreglum í starfi þjóðarráðs eða undirstofnana þess, eiga þeir að hafa samráð við ráðið um málið og leggja til úrbætur. Þetta verða þeir að gera án þess að hafa áhyggjur af því að slík skref geti valdið spennu milli stofnananna tveggja.
Viðhorf ráðgjafanna og andlegu þjóðarráðanna gagnvart hvert öðru einkennist ekki af lagaboðum varðandi samskipti þeirra í starfi. Framkvæmd sameiginlegrar ábyrgðar er aðeins möguleg innan ramma andlegra forsendna fyrir öllum farsælum bahá’í samskiptum. Samskipti stofnananna tveggja blómstra í andrúmslofti ástar og samkvæmt boðum um ósvikna virðingu. Áminning Bahá’u’lláh er mjög lærdómsrík hvað þetta varðar. Hann segir: „Niðurlægið ekki stöðu hinna lærðu í Bahá og gerið ekki lítið úr stöðu þeirra stjórnenda sem framfylgja réttlæti yðar á meðal.“
Samskiptaháttur
Samskiptaháttur álfuráðgjafanna og aðstoðarmanna þeirra annars vegar og þjóðarráða og undirstofnana þeirra hins vegar lýtur skipulagi til þess að viðhalda megi öflugri gagnvirkni. Rétt eins og ráðgjafar hafa bein samráðstengsl við andleg þjóðar- og svæðisráð hafa þeir einnig bein samskipti við bahá’í landshlutaráð. Ráðgjafar geta gert aðstoðarráðgjafa út af örkinni til að funda með andlegu þjóðarráði í ákveðnum tilgangi, en slíkt er ekki gert með reglubundnum hætti. Þeir geta einnig heimilað aðstoðarráðgjöfum að funda með landshlutaráðum eins og þeim þykir þurfa. Andleg þjóðar- og svæðisráð geta ekki gefið aðstoðarráðgjöfum fyrirmæli þótt þau séu háð mikilvægri þjónustu þeirra. Ef andlegt þjóðarráð óskar eftir að aðstoðarráðgjafi inni af höndum sérstaka þjónustu sem meðlimur aðstoðarráðs verður það að koma beiðni sinni til álfuráðgjafanna. Að fengnu samþykki ráðgjafanna geta landshlutaráð leitað álits aðstoðarráðgjafa sem þjóna landshluta þeirra varðandi alla þætti í starfi sínu. Að fengnu samþykki andlegs þjóðarráðs kann einnig að vera ráðlegt öðru hvoru að aðstoðarráðgjafi hitti landsnefnd til að hafa samráð um aðstæður á ákveðnu svæði. En þetta ætti heldur ekki að gera reglulega. Ráðgjafar hafa fyrir sitt leyti yfirleitt ekki bein samskipti við landsnefndir.
Þessar fáu takmarkanir á samskiptahætti örvar samstarf stofnunar ráðgjafanna og andlegra þjóðarráða. Þær sjá til þess að orka og tími aðstoðarráðgjafanna fari ekki forgörðum með þátttöku þeirra í stjórnun kennslustarfsins. Þannig er komist hjá þeirri hættu sem stafað getur af tveimur öfgakenndum aðstæðum: annarri þar sem aðstoðarráðgjafinn tekur smám saman í sínar hendur stjórn landsnefndar, og hinni þar sem hann er sendur hingað og þangað á vegum nefndarinnar eða ráðsins sem réttur og sléttur ferðakennari.
Skilvirk framkvæmd á ábyrgðarhlutverki ráðgjafanna og þjóðarráðanna kallar á regluleg og tíð upplýsingaskipti. Andlega þjóðarráðið er í tengslum við alla þætti samfélagsins í gegnum landsnefndir, landshlutaráð, andleg svæðisráð og aðrar undirstofnanir. Aðstoðarráðgjafarnir hafa einnig bein samskipti við andleg svæðisráð, hópa og einstaka átrúendur og halda sér þannig upplýstum um þróunina í samfélaginu. Auðvitað fagna báðar stofnanir öllum upplýsingum sem þær fá reglulega hver frá annarri. Bein upplýsingaskipti þjóðarráða eða nefnda þeirra og aðstoðarráðgjafanna eru mjög æskileg. Skýrslum sem innihalda aðeins fréttir og upplýsingar má fúslega deila innbyrðis. Tilmælum aðstoðarráðgjafa sem krefjast aðgerða þjóðarráðs eða undirstofnana þess þarf þó að vísa til ráðgjafanna sem geta deilt þeim í heild sinni með þjóðarráðinu, breytt þeim eða hafnað.
Í upphafi starfsársins eða þegar nýjar áætlanir eru mótaðar er oft gagnlegt að skipuleggja samráð milli aðstoðarráðgjafa og lands- eða landshlutakennslunefnda eða landshlutaráða áður en þessar áætlanir fá á sig endanlegt mót. Mjög árangursrík venja hefur þróast víða um heim þar sem meðlimir fjölda stofnana og undirstofnana í ákveðnu landi eða svæði þar í landi koma saman á samráðsfundi til að fá sameiginlega sýn á vöxt samfélagsins og ræða aðferðir til aðgerða. Þessir „stofnanafundir“ hjálpa til að fá vinina til þess að hugsa ekki aðeins um hvernig standa skuli að verkefninu í reynd og fylla áform þeirra og aðgerðir anda trúarinnar. Þeir gera mikið til að efla sjálfstraust stofnananna í mótun kennsluáætlana sem best þjóna þörfum viðkomandi landsvæða og til að virkja stuðning svæðisráðanna og átrúendanna.
Regluleg samskipti við andleg svæðisráð á svæðinu sem aðstoðarráðgjafa er úthlutað er ófrávíkjanleg krafa í starfi hans. Á flestum svæðum er stöðugt samráð aðeins mögulegt með aðstoðarmönnum. Eðli þessa samráðs veltur að sjálfsögðu á þeim verkefnum sem aðstoðarmaðurinn sinnir fyrir hönd aðstoðarráðgjafans.
Þátttaka í þjálfunarstofnunum
Þátttöku í starfi þjálfunarstofnunar, bæði af hálfu ráðgjafa og aðstoðarráðgjafa, verður að skoða í sérstöku ljósi. Litið er á þjálfunarstofnanir sem miðstöðvar lærdóms og eðli þeirra veitir aðstoðarráðgjöfum samræmi og svigrúm til að sinna ábyrgð sinni á menntun. Þessar miðstöðvar veita ráðgjöfum og aðstoðarráðgjöfum beinan aðgang að formlegum leiðum til að mennta átrúendurna, auk annarra leiða sem þeim standa til boða, svo sem ráðstefnum, sumarskólum og fundum með vinunum. Ráðgjafarnir og andlegu þjóðarráðin þurfa að hafa samráð um öll atriði í samstarfi sínu hvað varðar fjárhagsáætlanir og starfsemi þjálfunarstofnana og skipuleggja dagskrárefni, þróa námskrár og halda námskeið. Þegar stjórn þjálfunarstofnunar er skipuð, ákveður andlega þjóðarráðið hverjir skuli eiga sæti í henni í samráði við ráðgjafana og með fullum stuðningi þeirra.
Einstaklingurinn og samfélagið
Kjörnum stofnunum er veitt guðlegt vald til að stjórna málefnum trúarinnar á svæðis-, þjóðar- og alþjóðavísu. Afl til framkvæmda býr þó fyrst og fremst í öllum þorra átrúenda. Þetta afl er leyst úr læðingi á stigi einstaklingsframtaks og á sviði sameiginlegs vilja. Ef málstaðurinn á að gera áform Bahá’u’lláh fyrir mannkynið að veruleika, verður öllum stofnunum trúarinnar að vera jafn umhugað um að leysa kraft úr læðingi á báðum þessum sviðum og þeim er um að tryggja skynsamlega stjórnun á málefnum samfélagsins. Stofnun ráðgjafanna ber sérstaka ábyrgð á þessu mikilvæga verkefni og hefur getu til að takast á við það.
Sérstakt einkenni bahá’í lífernis er andi þjónustu við Guð. Til að vinna á vettvangi þjónustunnar styðst einstaklingurinn við ást sína á Bahá’u’lláh, kraft sáttmálans, mátt bænarinnar, innblástur og uppfræðslu sem sprettur af reglulegu námi í heilögum textum og þau umbreytandi öfl sem virka á sál hans þegar hann leitast við að haga sér í samræmi við guðleg lög og meginreglur. Þess vegna kemur allt þetta til umfjöllunar í stöðugu sambandi aðstoðarráðgjafanna og átrúendanna.
Hlutverk einstaklingsins hefur einstakt vægi í starfi málstaðarins. Það er einstaklingurinn sem sýnir lífskraft trúarinnar og sem árangur kennslustarfsins og þróun samfélagsins byggist á. Boð Bahá’u’lláh til sérhvers átrúanda um að kenna trú Hans leggur þeim á herðar óumflýjanlega ábyrgð sem ekki er hægt að flytja til neinnar stofnunar málstaðarins og þær geta ekki tekið á sínar herðar. Það er skylda einstaklingsins að grípa tækifæri, mynda vináttubönd, byggja upp sambönd og fá aðra til að vinna með sér að þjónustu við trúna og þjóðfélagið. Einstaklingurinn verður að gera ákvarðanir samráðsstofnana að veruleika.
Að örva frumkvæði einstaklingsins er ein af höfuðskyldum aðstoðarráðgjafanna og þeirri skyldu geta þeir sinnt með hjálp aðstoðarmanna sem þeir verða að velja vandlega, þjálfa og hlúa að. Hún felur í sér stöðuga hvatningu til vinanna, kalla fram hugprýði trúarhetjanna og vekja athygli þeirra á mikilvægi þess að sýna dýrð kenninganna í lífi sínu. Hún kallar á innilega og áhrifamikla skírskotun til átrúendanna um að þeir verði uppsprettur einingar og samhljóms á öllum tímum, laði móttækilegar sálir að málstaðnum, kenni þeim, næri trú þeirra og leiði þær að ströndum fullvissunnar. Hún krefst þess að byggt sé upp sjálfstraust og að ótta og hiki verði breytt í hugrekki og þrautseigju. Hún fer þess á leit bæði við meðlimi aðstoðarráðsins og þá sem þeir þjóna að þeir gleymi eigin veikleikum og setji traust sitt á kraft guðlegra staðfestinga. Einnig felur hún í sér að vinunum sé fylgt eftir í viðleitni þeirra þegar þeir þróa hæfni til árangursríkrar þjónustu.
Vart er hægt að leggja of mikla áherslu á hlutverk þjálfunarstofnunarinnar í þróun þessarar hæfni. Aðstoðarráðgjafar eiga að nota þetta öfluga tæki til að breyta óvirkri viðurkenningu á trúnni í ástríðu fyrir kennslunni. Þegar þeir vekja eldmóð þurfa þeir að hjálpa til að veita honum í farveg kerfisbundinnar viðleitni. Það er í þessu samhengi kerfisbundinna aðgerða sem efling heilbrigðs frumkvæðis einstaklingsins og einhuga, sameiginlegs átaks verða tvö nátengd markmið sem alltaf eiga athygli aðstoðarráðgjafans.
Ein mesta áskorun allra stofnana trúarinnar á þessari mótunaröld er þróun svæðissamfélaga, samfélaga sem einkennast af umburðarlyndi og ást og hafa að leiðarljósi sterkan skilning á markmiðum og sameiginlegan vilja. Það eru þessi samfélög sem þjóna sem umhverfi þar sem hæfni allra – karla, kvenna, ungmenna og barna – er þróuð og kraftar þeirra margfaldast í einhuga aðgerðum.
Í hjarta samfélagsins verður að starfa sterkt andlegt svæðisráð. Þegar samfélag er blessað með slíkri stofnun skapar einlægt samstarf milli aðstoðarráðgjafanna og svæðisráðsins kraftinn í glöðu og virku lífi sem stuðlar að andlegri umbreytingu og kerfisbundnum vexti. Meðan hver og ein þessara stofnana vinnur innan þess ramma sem henni er ætlað, skapa þær í sameiningu andrúmsloft lærdóms og agaðrar hegðunar sem einkennist af þolinmæði og umburðarlyndi gagnvart mistökum. Þær byggja upp og viðhalda einingu í hugsun og verki í umhverfi án hóflausrar gagnrýni, baktals, átaka og ágreinings, og fagna um leið ábendingum og málaleitunum allra átrúenda. Með skynsamlegri ráðgjöf og ástríkum stuðningi kenna þeir vinunum að hlýða á ákvarðanir ráðsins og laga hegðun sína að nauðsyn samlyndis í lífi samfélagsins.
Nauðsynlegt einkenni þeirrar menningar sem stofnanirnar tvær leitast við að skapa er breytt viðhorf til efnislegra leiða og úrræða. Bahá’í líferni, hvort sem einstaklingur eða samfélag á í hlut, ætti að einkennast af andlegu örlæti. Aðstoðarráðgjafar stuðla að þessum anda þegar þeir fræða meðlimi samfélagsins um sjóði trúarinnar, innræta þeim löngun til að gefa af fórnfýsi og hjálpa þeim að upplifa frelsandi áhrif þess að gefa.
Bæði aðstoðarráðgjafinn fyrir vernd og aðstoðarráðgjafinn fyrir útbreiðslu taka að sér að tryggja að hinum ýmsu þáttum samfélagsins sé eðlilegur gaumur gefinn. Þeir sjá til þess að hindranir í vegi kvenna til fullrar þátttöku í þjóðfélaginu í heild séu fjarlægðar ein af annarri í bahá’í samfélaginu. Þeir hlúa að lærdómsvenjum meðal vinanna og þeim anda umburðarlyndis sem slíkar venjur þurfa til að blómstra. Þeir beina sjónum allra að mikilvægi andlegrar menntunar barna og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hjálpa við stofnun og viðhald reglulegra námskeiða fyrir börnin. Og með fullkomnu trausti á getu ungmenna til að þjóna málstaðnum hetjulega aðstoða þeir ungmennin við að átta sig á öllum möguleikum sínum sem mikilvægir fulltrúar í útbreiðslu trúarinnar og umbreytingu þjóðfélagsins.
Það er ljóst að svo mikil og alvarleg ábyrgð getur ekki með eðlilegu móti hvílt á einum eða tveimur einstaklingum í vaxandi fjölda svæðissamfélaga. Hér kemur í ljós þýðing þess frelsis sem aðstoðarráðgjafar hafa til að útnefna aðstoðarmenn til margvíslegra verkefna, leiðbeina þeim og hafa ástríkt eftirlit með starfsemi þeirra. Oft er starf meðlima aðstoðarráðsins ekki unnið í tengslum við samfélög sem njóta forystu þroskaðs andlegs ráðs. Í samfélagi þar sem svæðisráðið er á frumstigi í þróun sinni er hlutverk aðstoðarmanna enn mikilvægara sem stuðningsaðilar í uppbyggingu námshópa, helgistunda, hópa fyrir andlega uppfræðslu barna og nítjándagahátíðarinnar. Einnig beina aðstoðarráðgjafar athygli sinni að styrkingu andlegu svæðisráðanna, hjálpa þeim að ná tökum á samráðslistinni, öðlast sjálfstraust í ákvarðanatöku, fylgja meginreglum af hugrekki og læra að virkja vinina í einhuga aðgerðum.
Þessi krefjandi hugmynd um störf aðstoðarráðgjafanna kallar á grundvallarfrávik frá þeim takmörkuðu hugmyndum um samfélagsskipan sem móta stjórnsýslu og framkvæmd hennar í heiminum í dag. Því hún stefnir að því að innblása sérhvert verkefni andlegri merkingu, hvort sem það er unnið af einstaklingi eða hóp. Hún gerir hið heilaga að miðpunkti samfélagslífsins og gerir það jafnframt að brennidepli allrar íhugunar um aðgerðir. Mikið er vissulega valdið sem leynist í sérhverju sameinuðu bahá’í samfélagi, sama hversu lítið það kann að vera í upphafi, sama hversu fábreytt efnisleg úrræði þess eru. Frábærar eru líka staðfestingarnar sem stíga niður yfir aðstoðarráðgjafana og aðstoðarmenn þeirra þegar þeir af óeigingirni helga sig því verkefni að leysa þetta afl úr læðingi.
Mótun og framkvæmd áætlana
Þegar fjórða tímaskeið mótunaraldarinnar hófst var tekin upp málsmeðferð þar sem innlendar áætlanir eru mótaðar í samráði andlegra þjóðarráða og álfuráðgjafa. Þessi þróun felur í sér tvo þýðingarmikla kosti:
Það gerir hverri stofnun kleift að byggja á reynslu og innsýn sem hin hefur aflað sér og veitir skipulagsferlinu þannig aðgang að tveimur mismunandi farvegum upplýsinga frá tveimur stigum í bahá’í stjórnskipuninni. Það tryggir einnig ráðgjöfunum nauðsynlega þekkingu á aðdraganda, rökum og innihaldi þjóðaráætlana sem samkvæmt meginreglunni er ætlast til að þeir styðji.
Að móta þjóðaráætlun felur í sér miklu meira en samráð ráðgjafa og þjóðarráðs. Hægt er að ná framúrskarandi árangri til dæmis með því að halda samráðsfundi meðal hinna ýmsu stofnana í landinu og ræða með virkum stuðningsmönnum trúarinnar til hlítar möguleg ákvæði áætlunarinnar og þýðingu þeirra. Þegar helstu þættir þjóðaráætlunarinnar hafa verið greindir er æskilegt að skipulagsferlið fari hratt yfir á landshlutastig og síðan á stig smærri svæða og loks til svæðissamfélagsins. Jafnvægið sem hægt er að ná í þessu ferli milli herferða á landsvísu og viðleitni grasrótarinnar er nauðsynleg forsenda árangurs.
Þjóðaráætlanir, mótaðar í samhengi við heimsáætlanir trúarinnar, þjóna sem rammar og innan þeirra geta vinirnir ráðist í aðgerðir. Með þeim setja þjóðarráðin ekki aðeins markmið sem þau sjálf og stofnanir þeirra eiga að stefna að, heldur miðla þau átrúendunum leiðsögn, skilgreina fyrir þá forgangsröðun og aðgerðir sem ráðast þarf í og vekja hjá þeim heilshugar viðbrögð við fyrirmælum Allsherjarhúss réttvísinnar. Í samræmi við það grípa þeir til ráðstafana til að sjá fyrir úrræðum af ýmsum toga – bókmenntum, brautryðjendum og ferðakennurum, svæðis- og landsviðburðum og fjármunum eftir þörfum – til að styðja frumkvæði vinanna.
Í aðgerðaáætlunum sem landshlutaráð, umdæmiskennslunefndir og andleg svæðisráð setja fram í því ferli sem á eftir kemur er ekki nóg að telja upp markmið heldur eiga þær að fela í sér greiningu á nálgunum og aðgerðalínum sem fylgja skal. Reyndar verður skipulagning og framkvæmd að haldast í hendur á þessu stigi. Ef lærdómur á að vera helsta starfsaðferð samfélagsins, þarf stöðugt að endurskoða sýn, herbrögð, markmið og aðferðir. Þegar verkefnum er lokið, hindranir fjarlægðar, auðlindir og úrræði margfölduð og lærdómur dreginn af reynslunni, verður að breyta markmiðum og nálgunum, en þó þannig að samfella haldist í aðgerðum.
Þátttaka aðstoðarráðgjafa í þessu mótunar- og framkvæmdaferli er margþætt. Þeir stuðla að umræðum þar sem greind eru markmið og árangur trúarinnar á heimsvísu, ástand þjóðfélagsins og þau öfl sem starfa innan þess eru skoðuð og kennsl eru borin á tækifæri og þarfir. Þeir beita þekkingu sinni á trúnni í samráði sem skapar sameiginlega framtíðarsýn og herbrögð til vaxtar. Þekking þeirra á vinunum og hæfni þeirra, sérstaklega þegar þessi hæfni er þróuð með viðleitni þjálfunarstofnunarinnar, gerir þeim kleift að vekja athygli á einkennum aðgerðaáætlana sem eru raunhæfar og átrúendurnir ráða við. Net aðstoðarmanna sem sérhver þeirra getur útnefnt opnar þeim leið til að örva virkni á svæðisstigi og leiða hana til lykta. Ástin og virðingin sem borin er fyrir þeim skapar þeim fyrst og fremst tækifæri til að starfa sem fánaberar og leiða samfélagið í verki.
Sjóðurinn
Stofnun ráðgjafanna er upptekin af eflingu andlegrar og efnislegrar siðmenningar og er því eðlilega umhugað um viðgang og stjórnun efnislegra úrræða. Ráðgjafarnir hafa mikinn áhuga á öllum sjóðum trúarinnar og aðstoðarráðgjafarnir leggja sig fram um að uppfræða átrúendur, nýja og gamla, um andlega þýðingu þess að leggja sitt af mörkum til sjóðsins. Þeir hjálpa einnig til við að þróa getu hinna ýmsu stofnana og nefnda samfélagsins til að nota fjármuni á skynsaman og árangursríkan hátt. Þegar þjóðarráð þarfnast styrks úr Bahá’í alþjóðasjóðnum til að mæta árlegum útgjöldum sínum, biður Allsherjarhús réttvísinnar þann ráðgjafa sem vinnur náið með ráðinu um athugasemdir. Ráðgjafarnir hafa einnig yfir að ráða ýmsum styrktarsjóðum sem gera þeim kleift að veita andlegum þjóðarráðum fjárhagslegan stuðning þegar um er að ræða sérþarfir eða tækifæri sem ekki er hægt að mæta á annan hátt.
Varðandi útgjöld stofnunarinnar sjálfrar hvatti Verndarinn í skilaboðum dagsettum 6. apríl 1954 til stofnunar fimm bahá’í álfusjóða. Þessir sjóðir, sem nú eru vel fjármagnaðir, styðja starfsemi ráðgjafanna og aðstoðarmanna þeirra – ferðir þeirra og stjórnunarkostnað – og er stjórnað af einum meðlimi álfuráðsins sem Allsherjarhús réttvísinnar hefur skipað sem trúnaðarmann álfusjóðsins.
Ein þeirra ómetanlegu gjafa sem felast í að leggja fram til sjóða trúarinnar er tækifærið sem það færir okkur til að svara kalli Bahá’u’lláh um að styðja aðra átrúendur sem geta kennt í okkar stað. Staðgengilssjóðir hafa verið stofnaðir á öllum stigum – á svæðum, innanlands og alþjóðlega – til að skapa tengsl milli þeirra sem vilja styrkja staðgengla og þeirra sem eru fúsir til að rísa upp og starfa á vettvangi kennslunnar. Alþjóða staðgengilssjóðnum er stjórnað af Alþjóðlegu kennslumiðstöðinni, sem fær tilmæli frá álfuráðgjöfunum um úthlutanir úr honum. Í Riḍvánboðunum 1996 sagði Allsherjarhús réttvísinnar að staðgengilsstyrkur til kennara sem þjónar þjálfunarstofnun sé ein leið til að uppfylla slíka ábyrgð og opnaði möguleika á framlögum í álfusjóðinn í því skyni. Aðstoðarráðgjafar og aðstoðarmenn þeirra sem starfa í grasrót samfélagsins eru í kjörinni stöðu til að hvetja átrúendur til að svara kallinu um staðgengla, veita þeim ítarlegar upplýsingar um núverandi þarfir og koma þeim strax á framfæri við vinina í samræmi við aðstæður þeirra.
Vernd málstaðarins
Máttur sáttmálans er öxullinn sem eining mannkyns hverfist um og þessi máttur örvar alla þætti sem einkenna bahá’í líferni. Það er í samhengi við þetta einstæða einkenni opinberunar Bahá’u’lláh sem stofnun ráðgjafanna nálgast heilaga skyldu sína varðandi vernd trúarinnar. Aðstoðarráðgjafar, einkum þeir sem skipaðir eru fyrir vernd, verða alltaf að vera meðvitaðir um brýna þörf fyrir miðpunkt sem allir verða að fylkja sér um: ‘Abdu’l‑Bahá, Miðju sáttmálans, og útnefnda arftaka hans, Verndarann og Allsherjarhús réttvísinnar.
Þegar ráðgjafar og aðstoðarráðgjafar rækja verndarskyldur sínar reyna þeir að næra rætur fullvissunnar, blása eldi að alltumlykjandi ást í hjörtum vinanna, berjast gegn aldagömlum venjum átaka og deilna og styrkja vináttubönd og einingu, stuðla að því að meginreglum og siðareglum bahá’í kenninga sé fylgt og hefja sjón átrúendanna yfir takmarkanir sjálfshyggju til þess að þeir geti helgað krafta sína velferð mannkynsins og styrkt hollustu sína við skipulag Bahá’u’lláh. Að hjálpa átrúendunum að uppfylla háleit siðferðisgildi felur ekki í sér hnýsni í einkalíf þeirra. Eðli þessarar ábyrgðar er í grundvallaratriðum menntunarlegs eðlis. Ástríkar ráðleggingar sem aðstoðarráðgjafar veita svæðisráðum annars vegar og hlý vinátta sem þeir og aðstoðarmenn þeirra rækta með vinunum hins vegar eru leiðir sem þeir geta farið til að efla þetta menntaferli. Uppsöfnuð áhrif þessarar viðleitni ásamt þeim ávinningi sem vinirnir afla sér á formlegum námskeiðum, til dæmis þeim sem þjálfunarstofnunin býður upp á, stuðlar mjög að stofnun heilbrigðra og þróttmikilla svæðissamfélaga. Þetta menntaferli felur í sér viðurlög sem andleg ráð beita þegar þess gerist brýn þörf. Í slíkum tilvikum getur ráðgjöf ráðgjafa og aðstoðarráðgjafa til andlega ráðsins verið sérstaklega mikilvæg.
Þótt mikilvægast sé að dýpka skilning vinanna á sáttmálanum og auka ást þeirra og hollustu við hann lýkur skyldu aðstoðarráðgjafa fyrir vernd ekki þar. Aðstoðarráðgjafarnir verða stöðugt að vera vakandi og fylgjast með gerðum þeirra sem knúnir hvötum sjálfsins leitast við að sá fræjum efasemda í huga vinanna og grafa undan trúnni. Yfirleitt þegar átrúendur verða varir við slík vandamál, ættu þeir strax að hafa samband við þá stofnun sem þeir telja sig knúna að leita til, hvort sem það er ráðgjafi, aðstoðarráðgjafi, andlega þjóðarráðið eða þeirra eigið svæðisráð. Þeirri stofnun ber síðan skylda til að sjá til þess að skýrslan fari í réttan farveg og að allar aðrar stofnanir sem í hlut eiga séu strax upplýstar. Ekki ósjaldan fellur sú ábyrgð á aðstoðarráðgjafa í samvinnu við hlutaðeigandi andlegt ráð að grípa til einhvers konar aðgerða til að bregðast við stöðunni. Þessar aðgerðir fela í sér ráðgjöf við viðkomandi átrúanda, viðvörun, ef nauðsyn krefur, um afleiðingar gerða hans og að athygli ráðgjafanna sé vakin á alvarleika stöðunnar, sem getur kallað á afskipti þeirra. Eðlilega þarf aðstoðarráðgjafi að beita sér af fullum krafti gegn fyrirætlunum og stöðva útbreiðslu áhrifa þeirra fáu sem þrátt fyrir tilraunir til leiðsagnar rjúfa að lokum sáttmálann.
Vinirnir kunna almennt ekki að meta þörfina á að vernda trúna gegn árásum óvina hennar, sérstaklega ekki á stöðum þar sem árásir hafa verið fátíðar. Hins vegar er ljóst að slík andstaða mun aukast, verða samtaka og koma að lokum úr öllum áttum. Bahá’í ritin gera fyllilega ljóst að vélráðum innri óvina muni ekki aðeins fjölga heldur muni fjandskapur og andstaða ytri óvina trúarinnar aukast, hvort sem í hlut eiga trúaðir eða veraldlegir fjandmenn, þegar málstaðurinn sækir fram til endanlegs sigurs. Í ljósi viðvarana Verndarans eiga aðstoðarráðin fyrir vernd því að hafa „stöðugt“ „vakandi auga“ með þeim „sem vitað er að eru óvinir eða hefur verið vísað úr trúnni“, rannsaka í kyrrþey athafnir þeirra, gera vinunum með viturlegum hætti vart við andstöðuna sem óhjákvæmilega er í vændum, útskýra að sérhver kreppa í trú Guðs hefur alltaf reynst vera blessun í dulargervi og undirbúa þá fyrir þá „ógnvænlegu baráttu sem fylkja mun her ljóssins gegn öflum myrkursins“.
Samhæfing og meðferð úrræða og auðlinda
Starf ráðgjafanna og fulltrúa þeirra einkennist af gagnvirkni og samspili tvenns konar hæfni. Annars vegar hafa meðlimir þessarar stofnunar svigrúm sem einstaklingar til að fylgjast með, greina, komast að niðurstöðum, gefa öðrum ráð og gera aðgerðaáætlanir fyrir sjálfa sig. Á hinn bóginn sýna heimsvíð umsvif þessara embættismanna trúarinnar samfellu sem er í samræmi við stöðuga leiðsögn Allsherjarhúss réttvísinnar. Þessari samfellu er náð með áframhaldandi samskiptum álfuráðgjafa og Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar.
Þegar um er að ræða samhæfingu, örvun og stjórnun álfuráðanna lætur Kennslumiðstöðin þeim í té fjölda úrræða. Þau fela í sér þjónustu einstaklinga með sérþekkingu, auk nokkurra sjóða – til styrktar brautryðjendum og ferðakennurum, til að niðurgreiða bókmenntir, til stuðnings kennsluverkefnum og vaxtaráætlunum, til styrktar starfsemi þjálfunarstofnana – sem Kennslumiðstöðin úthlutar annað hvort beint til verkefnis eða í formi eingreiðslna sem álfuráðin verja að vild sinni. Veiting þessara úrræða gerir stofnun ráðgjafanna kleift að hjálpa átrúendunum að bregðast við brýnum þörfum öflugs og stækkandi samfélags.
Eitt úrræði sem Alþjóðlega kennslumiðstöðin hefur veitt ráðgjöfunum og samfélaginu í heild með þeirra atbeina er uppsöfnuð viska sem sprettur af reynslu mjög fjölbreytts samfélags sem helgar sig sköpun nýrrar siðmenningar. Með neti ráðgjafa, aðstoðarráðgjafa og aðstoðarmanna getur Kennslumiðstöðin fylgst með viðleitni og verkefnum einstaklinga og samfélags, greint aðferðir þeirra og leiðir og miðlað ferlum kerfisbundins vaxtar trúarinnar þeim niðurstöðum sem hún kemst að. Þannig höfum við í stofnun ráðgjafanna kerfi þar sem hægt er að deila lærdómi sem fengist hefur á afskekktustu stöðum á jörðinni með öllum átrúendum, lærdómi sem auðgar samráð þeirra, örvar tilraunir og veitir fullvissu um að hið mikla verkefni sem bahá’í heimurinn vinnur beri árangur.
NOKKRIR SÉRSTAKIR ÞÆTTIR Í STARFSEMI STOFNUNARINNAR
Alþjóðlega kennslumiðstöðin
Þegar ákvarðanir eru teknar starfar Alþjóðlega kennslumiðstöðin sem ein heild. Hins vegar krefjast skyldur hennar þess að meðlimir hennar ferðist. Á ferðalögum sínum kynna alþjóðlegu ráðgjafarnir stundum skoðanir Kennslumiðstöðvarinnar og bjóða við önnur tækifæri upp á almennar ráðleggingar og hvatningu.
Alþjóðlega kennslumiðstöðin starfar aðallega með atbeina álfuráðgjafanna til að ná markmiðum sínum. Ráðgjöf hennar til þeirra gerir þeim og aðstoðarfólki þeirra kleift að koma innsýn hennar á framfæri í samskiptum þeirra við vinina. Aðgangur hennar að andlegum ráðum og einstökum bahá’íum, fyrir utan tiltekna alþjóðlega brautryðjendur og ferðakennara, fer þannig fram með óbeinum hætti. Kennslumiðstöðin skrifast ekki á við andleg ráð eða landshlutaráð. Ef hún fær bréf frá þeim eða frá einstaklingum sem ekki eru viðriðnir brautryðjandastarf eða ferðakennslu, vísar hún þeim til Allsherjarhúss réttvísinnar.
Meðal þeirra innviða sem auðvelda viðleitni Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar og álfuráðgjafanna við kynningu á brautryðjendastarfi og ferðakennslu eru álfubrautruðningsnefndir, sem starfa undir stjórn Kennslumiðstöðvarinnar. Starf þeirra styrkir starfsemi andlegu þjóðarráðanna og undirstofnana þeirra.
Bréfaskipti Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar við álfuráðgjafana eru ætluð þeim til leiðsagnar og upplýsinga og sem úrræði þeim til aðstoðar í skylduverkum sínum. Í samráði við andlegt þjóðarráð getur ráðgjafi ákveðið að deila bréfi frá Kennslumiðstöðinni í heild sinni, eða hluta þess, með ráðinu. En hann getur líka kosið að gera það ekki, til dæmis til að forðast að gefa í skyn að ráðið sé hvatt til að veita meiri athygli þeim skoðunum sem settar eru fram.
Ef aðstæður koma í veg fyrir að Allsherjarhús réttvísinnar geti útnefnt [alþjóðaráðgjafa] að nýju í lok fimm ára tímabilsins mun Alþjóðlega kennslumiðstöðin starfa áfram þangað til útnefning getur farið fram.
Álfuráðgjafar
Innan þeirra stefnumarka sem Allsherjarhús réttvísinnar hefur sett hefur hvert álfuráð mikið svigrúm til að ákveða mál eins og skiptingu svæða í álfunni og afmörkun þeirra. Þótt hópfundir ráðgjafa fyrir samráð um aðstæður og þarfir landa á tilteknu svæði hafi mikið gildi, skal þess gætt að óþarfa áhersla á svæðisbundna hópa breyti þeim ekki í stífa innviði.
Hvert álfuráð ákvarðar verklagsreglur um hvernig meðlimir þess stjórna starfi aðstoðarráðanna, ferðast um svæðið í lögsögu ráðsins, tengjast andlegum þjóðarráðum og hafa samskipti við landshlutaráð, andleg svæðisráð og einstaklinga.
Hvert ráð gerir ráðstafanir varðandi meðferð á bréfaskiptum sínum, tilgreinir opinbert heimilisfang og stofnar aðalskrifstofu og ef þörf krefur aukaskrifstofur. Skjöl sem varða kaup eða leigu fasteigna undir skrifstofur og eignarhald á búnaði má varðveita í nafni álfuráðsins, ef það samræmist lögum, og ef ekki, þá í nafni andlegs ráðs eða trausts einstaklings. Að því er varðar lögfræðilega viðurkenningu er eins og stendur fullnægjandi að álfuráðin njóti góðs af viðurkenningum sem veittar eru andlegum þjóðarráðum.
Starf á skrifstofum ráðsins skal fara fram í nafni álfuráðsins en ekki í nafni skrifstofunnar sjálfrar. Bréf ráðsins eru undirrituð af einum ráðgjafanna fyrir hönd ráðsins en ekki með ópersónulegri undirskrift: „Álfuráðið“.
Bæði álfuráðin og einstakir meðlimir þeirra eiga bein samskipti við Bahá’í heimsmiðstöðina um öll mál sem tengjast starfi stofnunarinnar. Undir venjulegum kringumstæðum eru öll slík bréfaskipti send til Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar, sem deilir þeim með Allsherjarhúsi réttvísinnar og stofnunum þess í Heimsmiðstöðinni eftir þörfum. Ráðgjafarnir geta einnig skrifað til Allsherjarhúss réttvísinnar eða einhverra stofnana þess sem einstakir átrúendur. Að auki geta þeir skrifað beint til Skrifstofu félags- og efnahagsþróunar við Heimsmiðstöðina um mál sem tengjast þróun, hvort sem það tengist starfi þeirra sem ráðgjafa eða sem einstakra átrúenda.
Ráðgjafar geta átt bréfaskipti við þjóðarráð utan þeirra eigin heimsálfu eftir því sem þörf er á.
Ráðgjafi getur sent fréttabréf til hóps aðstoðarráðgjafa og aðstoðarmanna þeirra eða beint dreifibréfi til andlegra svæðisráða eða átrúenda á ákveðnu svæði. En ef ráðgjafi skrifar skjal í fréttabréfsformi til reglulegrar dreifingar til átrúenda í samfélaginu, myndi það gera vinina ráðvillta. Fréttabréf sem send eru frá álfuráði, líkt og frá andlegu þjóðarráðunum sjálfum, eru ekki háð endurskoðun og ekki heldur fréttabréf sem eru gefin út og dreift af aðstoðarráðgjöfum til aðstoðarmanna sinna. Engu að síður er æskilegt að halda þjóðarráðinu upplýstu um slíkar útgáfur.
Skjöl og skrár meðlima álfuráðanna og aðstoðarráðanna tilheyra stofnuninni og ekki skal litið á þær sem persónulegar skrár. Álfuráðið þarf að sjá til þess að ráðstafanir séu gerðar varðandi eðlilega uppfærslu á skjölum þess og ráðstöfun efnis sem safnað hefur verið af vinum sem hafa lokið þjónustu sinni í ráðunum.
Sú staðhæfing að ráðgjafarnir séu lausir frá þeim stjórnunarstörfum sem kjörnum aðilum eru falin þýðir ekki að þeir hafi engar stjórnunarskyldur. Ráðgjafarnir sinna fjölmörgum slíkum verkefnum sem tengjast rekstri skrifstofa sinna, fjármunum sem þeir hafa yfir að ráða og störfum aðstoðarráðgjafa. Allsherjarhús réttvísinnar getur einnig falið þeim verkefni sem krefjast þess að þeir taki tímabundið við stjórnunarstörfum sem venjulega eru á verksviði kjörinnar stofnunar.
Ráðgjafa má skipa sem trúnaðarmenn Ḥuqúqu’lláh.
Ef aðild að samfélagi fer niður í níu getur ráðgjafi þjónað tímabundið í andlega svæðisráðinu og sem kjörinn embættismaður þangað til staðgengill finnst.
Ef samskipti við Bahá’í heimsmiðstöðina rofna einhverju sinni og af einhverjum ástæðum, eiga ráðgjafarnir í hverri heimsálfu, sameiginlega og hver fyrir sig, að aðstoða andleg þjóðarráð við að tryggja framhald kennslustarfsins og eðlilega stjórnun trúarinnar án truflana uns samskiptin komast í samt lag.
Ef það reynist Allsherjarhúsi réttvísinnar óframkvæmanlegt í lok fimm ára þjónustutímabils að endurskoða og endurnýja aðild að álfuráðunum, skulu ráðin gegna skyldum sínum áfram, jafnvel þótt einn eða fleiri meðlimir þeirra séu ófærir um að starfa, þangað til hagkvæmar aðstæður gera Húsi réttvísinnar kleift að huga að nýjum útnefningum.
Sem útnefndir embættismenn trúarinnar ættu ráðgjafar og aðstoðarráðgjafar að njóta virðingar vinanna. Ekkert mælir gegn því að nota orðið „ráðgjafi“ til að vísa til tiltekins aðila í álfuráðinu. En ýkt notkun á titlum sem tengjast þessari stöðu er óæskileg. Titillinn ætti ekki að verða óaðskiljanlegur persónunafni ráðgjafa eins og þegar vísað væri til meðlims í álfuráðinu til dæmis sem „Jóns ráðgjafa“. Ekki er heldur ráðlegt að ávarpa þá einfaldlega sem „ráðgjafa“.
Eðlilegt er að stundum þegar einhver er kynntur fyrir fólki sé minnst á þjónustu hans eða hennar sem meðlims í álfuráði. Hins vegar á að vera ljóst að „fyrrverandi ráðgjafi“ er ekki titill sem einstaklingur ber.
Aðstoðarráðgjafar
Ekki er nauðsynlegt fyrir álfuráð að hafa samráð við andleg þjóðarráð um tilteknar útnefningar aðstoðarráðgjafa. Ákvörðun um hvort slíkt skuli gera er alfarið á valdi ráðgjafanna.
Álfuráðið getur gert breytingar á aðild að aðstoðarráði hvenær sem er á fimm ára þjónustutímabilinu, ef það kemst að því að aðstoðarráðgjafinn geti af einhverjum ástæðum ekki sinnt þeim verkefnum sem honum er úthlutað.
Spurningin um til hvors af tveimur ráðum – fyrir útbreiðslu eða vernd – andlegt svæðisráð eða átrúandi ætti að snúa sér til í tilteknu máli styðst ekki við neina reglu heldur skýrist smám saman þegar reynsla fæst á svæðisstigi. Telji aðstoðarráðgjafi að máli hefði betur verið vísað til kollega hans er auðveldlega hægt að koma því í kring.
Líta skal á aðild að aðstoðarráði sem réttmæta ástæðu fyrir lausn frá andlegu þjóðarráði, en ef þjóðarráðið af sérstökum ástæðum telur það skaða hagsmuni trúarinnar að aðstoðarráðgjafi láti af störfum en hann krefst þess, ætti að vísa málinu til Allsherjarhúss réttvísinnar. Á meðan ákvörðun liggur ekki fyrir ætti aðstoðarráðgjafinn að eiga áfram sæti í þjóðarráðinu og skýra stöðuna fyrir álfuráðinu.
Sérstakar kringumstæður innanlands geta valdið því að nauðsynlegt sé að átrúandi þjóni bæði í aðstoðarráði og í nefnd, eða jafnvel í andlegu þjóðarráði eða landshlutaráði, ef hann er kosinn. Í öllum tilvikum er litið á þetta sem tímabundna ráðstöfun sem gerð er samkvæmt fyrirmælum Allsherjarhúss réttvísinnar.
Ýmsar aðstæður geta komið upp tengdar aðstoðarráðgjöfum og kosningaferlinu sem lúta ákvörðun andlega þjóðarráðsins. Þær fela í sér málsmeðferð sem fylgja skal ef aðstoðarráðgjafi neitar að starfa sem fulltrúi, þegar hann er kosinn; hvort leyfilegt sé að biðja aðstoðarráðgjafa um að taka að sér hlutverk teljara; og tímasetning á kjöri embættismanna þegar aðstoðarráðgjafi sem er kosinn í þjóðarráðið biður um frest til að velja aðra hvora þjónustuleiðina. Fulltrúi sem skipaður er aðstoðarráðgjafi getur haldið áfram að starfa sem fulltrúi fram að næsta landsþingi.
Æskilegt er að aðstoðarráðgjafi sé ekki kosinn sem embættismaður á kjördæmisþingi, en ef hann er kosinn getur hann samþykkt það, án þess að þurfa að biðjast lausnar frá aðstoðarráðinu.
Atkvæðaseðil í kosningu til andlegs ráðs eða landshlutaráðs eða í fulltrúakosningu til landsþings ætti ekki að ógilda vegna þess að á honum standi nafn meðlims í aðstoðarráði.
Aðstoðarráðgjafa má skipa sem trúnaðarmenn eða fulltrúa Ḥuqúqu’lláh.
Líkt og gildir um ráðgjafana: Ef aðild að samfélagi fer niður í níu getur aðstoðarráðgjafi þjónað tímabundið á andlega svæðisráðinu og sem kjörinn embættismaður þangað til staðgengill finnst. Aðstoðarráðgjafi þarf ekki að biðja um leyfi til að þjóna á svæðisráði við slíkar aðstæður heldur ætti hann að láta álfuráðið vita af því.
Aðstoðarmenn
Ekkert er því til fyrirstöðu að skipa ungmenni sem aðstoðarmenn aðstoðarráðgjafa. Málið er látið ráðgjöfunum eftir til úrlausnar.
Embættismenn kjörinna ráða má skipa í stöðu aðstoðarmanna aðstoðarráðgjafa. Mikið veltur á aðstæðum á hverjum stað og meðlimir aðstoðarráðanna eiga að sýna visku og lagni þegar þeir skipa í slíkar stöður.
Það er ekki við hæfi að aðstoðarráðgjafar skipi aðstoðarmenn til þess eingöngu að hjálpa þeim við skrifstofustörfin.
Útbreiðslu- eða verndarráðsmeðlimur á tilteknu svæði getur notað þjónustu aðstoðarmanns sem hinn meðlimurinn skipar, að fengnu samþykki hans. Ráðsmeðlimirnir tveir geta komist að samkomulagi sín á milli til þess að ekki þurfi að ræða hvert mál sérstaklega.
Þótt ekki sé skynsamlegt að veita einum aðstoðarmanni reglulegt eftirlitshlutverk með öðrum aðstoðarmönnum, er engin ástæða til að koma í veg fyrir að meðlimur aðstoðarráðsins biðji einn af aðstoðarmönnum sínum, þegar þess gerist þörf, að veita hjálp eða leiðsögn og dýpka þekkingu og skilning annarra aðstoðarmanna.
Aðstoðarmenn sem eru meðlimir andlegs ráðs, landshlutaráðs eða nefndar starfa ekki sem aðstoðarmenn í tengslum við slíka aðild og þeim ber sama skylda til að gæta trúnaðar í samráði og aðrir meðlimir.
Samskipti við stjórnstofnanir á þjóðar-, landshluta- og svæðisstigi
Þótt venjulega hafi ráðgjafar ekki samband við landsnefndir, getur andlegt þjóðarráð heimilað bein tengsl milli þeirra í sérstökum tilgangi og í ákveðinn tíma.
Í samræðum ráðgjafanna – hvers í sínu lagi, í hópum eða sem heilt ráð – og andlega þjóðarráðsins stjórnar formaður þjóðarráðsins venjulega fundi. Aðstæður geta myndast þar sem þjóðarráðið býður einum ráðgjafanna að stýra fundi. Þegar fulltrúar nokkurra andlegra þjóðarráða eru á fundi sem ráðgjafarnir boða til er viðeigandi að einn ráðgjafanna stýri samráðinu.
Eðlilegt er að vinirnir snúi sér til ráðgjafanna til að fá ráðgjöf, ef þörf krefur, jafnvel þó að viðkomandi einstaklingar séu meðlimir andlega þjóðarráðsins. Þetta þýðir auðvitað ekki að ráðgjafarnir hvetji meðlimi þjóðarráðsins til að deila reglulega með þeim málum sem eru beinlínis á könnu þjóðarráðsins.
Það er á valdi andlegs þjóðarráðs að deila fundargerðum sínum, eða hluta þeirra, með ráðgjöfunum. Hins vegar er óviðeigandi að álfuráð deili fundargerðum sínum með andlegum þjóðarráðum. Ef álfuráðið samþykkir getur andlegt þjóðarráð deilt afritum af fundargerðum sínum með aðstoðarráðgjöfum í landinu.
Andlegt ráð eða landshlutaráð getur ákveðið að skrifa í fundargerð sína skýrslu um munnlegar ráðleggingar eða upplýsingar sem ráðgjafi hefur gefið ráðinu eða láta þær fylgja sem viðauka. Ef ráðgjafinn vill fara yfir orðalag slíkrar skýrslu fyrir nákvæmnissakir ætti auðvitað að sýna honum þá kurteisi. Slík sannprófun er augljóslega ekki sami hlutur og að leggja sjálfa fundargerðina fyrir utanaðkomandi stjórnvald til samþykktar.
Þótt andlegt þjóðarráð geti ákveðið að hvetja svæðisráð í lögsögu þess til að deila fundargerðum sínum með aðstoðarráðgjöfum á svæðinu til að þróa náin samskipti er þess ekki krafist af svæðisráðunum. Þetta er undir þeim sjálfum komið.
Ráðgjafarnir fá ekki leiðbeiningar um störf sín frá andlegum þjóðarráðum. En sem stakir átrúendur eru þeir alltaf í lögsögu andlega þjóðarráðsins hvar sem þeir kunna að vera staddir. Ef þjóðarráð kemst á snoðir um tilvik þegar eitthvað sem ráðgjafi segir eða gerir getur verið skaðlegt starfi málstaðarins, ætti það að takast strax á við vandamálið með því að ræða málið ástúðlega en hreinskilnislega við ráðgjafana og nefna ákveðin dæmi.
Ef andlegt þjóðarráð telur að aðgerðir aðstoðarráðgjafa valdi vandamálum ætti það að vísa málinu til ráðgjafanna frekar en að leita beint til aðstoðarráðgjafans. En þar sem aðeins er um persónuleg mál að ræða gæti reynst ákjósanlegra að þjóðarráðið taki það fyrst upp við aðstoðarráðgjafann í von um að hægt sé að leysa vandann í trúnaði, þótt vitanlega eigi hvort sem er að greina ráðgjöfunum frá alvarlegum vandamálum með aðstoðarráðgjafa.
Aðstoðarráðgjafi er háður sömu viðurlögum vegna gerða sinna sem átrúandi og allir aðrir bahá’íar. Áður en þjóðarráðið grípur til slíkra aðgerða í fyrsta sinn þarf þó að ræða málið við ráðgjafana.
Ef meðlimur í aðstoðarráði telur að störf andlegs þjóðarráðs eða einnar undirstofnunar þess valdi einhverju vandamáli sem hyggja þurfi að, ber honum skylda til að upplýsa ráðgjafana um það, og ef þeir eru sama sinnis taka þeir málið upp með viðkomandi þjóðarráði.
Stjórnun og menntun aðstoðarráðgjafa eru skyldur sem ráðgjafar leysa af hendi en þjálfun aðstoðarmanna er verkefni aðstoðarráðgjafanna. Andlegt þjóðarráð getur ekki tekið þessar skyldur á sig. Ef ráðgjafarnir og þjóðarráð komast að þeirri niðurstöðu í samráði sínu að til þess að aðstoðarráðgjafi geti unnið á skilvirkan hátt að tilteknu verkefni sé þörf á sérstakri þjálfun gætu ráðgjafarnir skipulagt það.
Það er ekki nauðsynlegt fyrir aðstoðarráðgjafa að gera aðstoðarmann út af örkinni til að funda með andlegu svæðisráði. Aðstoðarmenn geta fundað með andlegum svæðisráðum þegar þeir vinna að sérstökum verkefnum sem meðlimir aðstoðarráðsins hafa falið þeim. Auðvitað geta komið upp tilvik þar sem aðstoðarráðgjafi biður aðstoðarmann um að funda með andlegu ráði um tiltekið mál.
Aðstoðarmaður getur tekið að sér ákveðið verkefni að beiðni andlegs þjóðar- eða svæðisráðs sem átrúandi en ekki sem aðstoðarmaður.
Það er óviðeigandi að aðstoðarmenn fundi með andlega þjóðarráðinu í starfi sínu sem aðstoðarmenn.
Aðstoðarráðgjafar leiðbeina hvorki andlegum svæðisráðum né einstökum átrúendum varðandi starfsemi þeirra heldur er þeim fullkomlega frjálst að koma með ráð og tillögur sem þeir telja skynsamar og nauðsynlegar. Enn fremur hjálpa þeir svæðisráðum að komast á stig þeirrar andlegu einingar, virkni og þroska sem helgiritin kveða á um. Hlutverk aðstoðarráðgjafanna er að byggja upp hlýlegt og ástríkt samband við andleg svæðisráð og átrúendur til þess að þeir snúi sér sjálfkrafa til aðstoðarráðgjafanna um leiðsögn og aðstoð.
Í tengslum aðstoðarráðgjafa og andlegra svæðisráða er ofuráhersla á sérstöðu ekki aðeins óþörf heldur skaðleg anda ástríkrar samvinnu og hvatningar sem er nauðsynlegur framgangi trúarinnar á hverju svæði. Mismunur á stöðu, störfum eða verklagi starfsaðila og stofnana bahá’í stjórnskipunarinnar er til þess ætlaður að beina starfi málstaðarins í farveg, ekki hindra það. Á alla þessa þætti stjórnskipunarinnar er réttilega litið í samhengi við auðmjúka þjónustu við Hina blessuðu fullkomnun og er háleitasta markmið allra sem hafa fylkt sér undir merki Hins mesta nafns.
Ekki ætti að gera ráð fyrir að samstarf ráðgjafanna og aðstoðarfólks þeirra annars vegar og andlegra ráða og undirstofnana þeirra hins vegar feli það í sér að þau verði að taka virkan þátt í sama verkefni á sama tíma. Eflaust væri slík samtímaþátttaka gagnleg og jafnvel nauðsynleg í mörgum tilvikum, en störf ráðgjafanna, andlega þjóðarráðsins og allra undirstofnana þeirra geta vel farið fram hvert í sínu lagi og á mismunandi tímum, að því tilskildu að þau rekist ekki á og að upplýsingum um verk sem hafa verið unnin og þann árangur sem náðst hefur sé deilt fúslega og til fulls.
Almennt séð er það ekki verkefni aðstoðarráðgjafa heldur andlegra ráða að takast á við persónuleg vandamál einstaklinga og átök þeirra á milli og agavandamál. Aðstoðarráðgjafarnir og aðstoðarmenn þeirra eru hins vegar mjög mikilvægir þættir í bahá’í stjórnskipulagi og starf þeirra felur í sér ráðgjöf til átrúenda. Ef átrúandi ber persónuleg mál undir aðstoðarráðgjafa eða aðstoðarmann er það aðstoðarráðgjafans eða aðstoðarmannsins að ákveða hvort hann gefi ráð eða biðji átrúandann að snúa sér til andlega ráðsins.
Þegar átrúandi tekur ákvörðun sem snýr að brautruðningi er honum frjálst að ráðfæra sig við andlega þjóðarráðið og framkvæmdaaðila þess eða við ráðgjafa eða aðstoðarráðgjafa. Öllum þessum einstaklingum, stofnunum og starfsaðilum, er sömuleiðis frjálst að brydda upp á slíku samráði og leggja fram tillögur og láta síðan viðkomandi átrúanda eftir að taka lokaákvörðun í málinu. Hlutverk ráðgjafa og aðstoðarráðgjafa í tilstuðlan brautruðnings er sérstaklega mikilvægt. Aðstoðarráðgjafar eru í sérlega góðri stöðu til að veita vinunum upplýsingar úr skjölum sem þeir hafa handbær varðandi þarfir trúarinnar. Þegar átrúandi ákveður að fara inn á þennan þjónustuvettvang ætti meðlimur aðstoðarráðsins að vísa honum á viðeigandi farveg, hvort sem það er þjóðarstofnun eða brautryðjendanefnd álfunnar, sem annast mun nánari málsmeðferð.
Ábyrgð á umsjón ferðakennsluverkefna hvílir á þjóðarráðinu og viðeigandi undirstofnunum þess. Þetta útilokar ekki samskipti ferðakennara og ráðgjafa eða aðstoðarráðgjafa. Reyndar getur slíkt samband hjálpað báðum aðilum að því tilskildu að viðurkennt sé að myndugleiki í þessum málum sé í höndum andlegu ráðanna og nefnda þeirra.
Ráðgjafarnir hafa yfirsýn yfir alla álfuna og geta auðveldlega greint tækifæri til samstarfs milli þjóðarsamfélaga í nágrannalöndum, sérstaklega á svæðum nálægt landamærum þeirra, og jafnvel þvert á landamörk álfunnar. Í slíkum tilvikum eru ráðgjafarnir hvattir til að skipuleggja samráð milli viðkomandi andlegra þjóðarráða og hjálpa þeim að skipuleggja árangursrík samvinnuverkefni.
Í einstökum hlutum tiltekinna heimsálfa er dreifing bahá’í bókmennta gríðarleg áskorun, en þá getur álfuráðið mótað verklag og tengt það skrifstofu eins meðlima þess til að miðla upplýsingum um bókmenntir og fylgjast með aðstæðum í viðkomandi löndum. Í þessu starfi væri ráðgjafanum sem í hlut á frjálst að eiga samskipti við útgáfustofnanir eftir þörfum.
Ráðgjafar eru vakandi fyrir þeim tækifærum á svæðum sínum, bæði innan og utan bahá’í samfélagsins, sem bjóðast átrúendum til að taka þátt í starfi að félags- og efnahagsþróun. Þeir einbeita sér bæði að því að hvetja til einstaklingsframtaks á þessu sviði og að skapa hæfni innan viðeigandi samtaka til að móta áætlanir og hrinda þeim í framkvæmd. Starf þeirra felur í sér samráð við andleg þjóðarráð og landshlutaráð um hlutverkið sem félagsleg og efnahagsleg þróunarstörf eiga að gegna í vexti samfélagsins og hvernig þau bæta upp starf að útbreiðslu og treystingu. Náin afskipti ráðgjafanna af þjálfunarstofnunum gera þeim kleift að hjálpa þessum stofnunum við þjálfun á sviði félags- og efnahagsþróunar og jafnvel til að hrinda í framkvæmd verkefnum, þegar þjálfunarstofnanirnar hafa til þess nógu mikla burði.
Kosningar og landsþing
Ráðgjöfum á landsþingi er veitt frelsi til að taka þátt í umræðum. Ráðgjafar eiga einnig þennan rétt á heimsþinginu, en þar sem tíminn er svo naumur og fulltrúarnir svo margir aftra þeir sér að mestu leyti við að nýta þennan rétt.
Ef engir ráðgjafar geta sótt landsþing, geta þeir skipað einn eða tvo aðstoðarráðgjafa sem sérstaka fulltrúa sína. Aðstoðarráðgjafar sem eru viðstaddir landsþing og sem ráðgjafarnir hafa ekki skipað sem fulltrúa hafa ekki rétt til að taka til máls nema landsþingið heimili það.
Ráðgjafarnir og andlegu þjóðarráðin þurfa að taka höndum saman til að tryggja að helgi bahá’í kosninga sé ekki rofin. Að fræða átrúendurna um grundvallaratriði bahá’í kosninga á árinu og kynna fulltrúunum heilagt eðli ábyrgðar þeirra er starf sem framkvæma má innan ramma samstarfs þessara tveggja stofnana. Aðstoðarráðgjafar og aðstoðarmenn þeirra geta tekið þátt í viðleitni til að hjálpa vinunum í kosningum til svæðisráða, landshlutaráða og í fulltrúakosningum. Ein aðferð sem reynst hefur árangursrík er að þjóðarráðið standi fyrir fundi daginn eða kvöldið fyrir landsþingið, þar sem einn eða fleiri ráðgjafar ræða við fulltrúana um andlega merkingu bahá’í kosninga og skyldur fulltrúa.
Ráðgjafarnir ættu að fylgjast gaumgæfilega með vinnubrögðum sem túlka mætti, með réttu eða röngu, sem kosningaáróður. Þegar vart verður slíkra vinnubragða ættu ráðgjafarnir að vekja athygli andlega þjóðarráðsins á viðeigandi hátt. Komi til verulegra frávika frá viðurkenndri bahá’í málsmeðferð við framkvæmd landsþings ættu ráðgjafar eða fulltrúar þeirra sem sækja þingið að gera Bahá’í heimsmiðstöðinni viðvart.
Ráðstefnur
Ráðgjafar hafa mikið svigrúm til að boða til sérstakra samfunda með þátttöku fjölda þjóðarsamfélaga, en Bahá’í heimsmiðstöðin þarf að leggja blessun sína yfir slíkar ráðstefnur áður en þær eru haldnar. Einnig er viðeigandi að ráðgjafarnir leggi til við viðkomandi þjóðarráð að haldnar séu alþjóðlegar ráðstefnur, til dæmis alþjóðlegar ungmennaráðstefnur, og hvetji til aðgerða sem myndu kveikja nauðsynlegan áhuga fyrir slíkum viðburðum.
Ráðgjafarnir geta haldið ráðstefnur fyrir aðstoðarráðgjafa í allri álfunni eða einhverjum hluta hennar. Stundum getur verið æskilegt að bjóða meðlimum þjóðarráða að hitta meðlimi aðstoðarráða á þessum ráðstefnum og veita þeim, ef þörf krefur, aðstoð úr álfusjóðnum.
Innan þjóðarsamfélags er boðað til ráðstefna og málstofa af andlega þjóðarráðinu eða nefndum þess, en ekki af ráðgjöfum eða aðstoðarráðgjöfum. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að hugmynd skapist um tvær samhliða ráðstefnuraðir í sama landi, aðra undir umsjá þjóðarráðsins og hina undir umsjá ráðgjafanna.
Aðstoðarráðgjafi getur boðið meðlimum nokkurra nærliggjandi andlegra svæðisráða á sínu ábyrgðarsviði til ráðstefnu þar sem samráð fer fram um verkefni eða vandamál sem snerta þau. Ljóst er að aðstoðarráðgjafarnir geta einnig boðað fundi fyrir aðstoðarmenn sína að eigin frumkvæði.
Fjárhagsáætlanir, styrktarsjóðir og eignir
Ráðgjöfum er frjálst að eiga samráð við andlegt þjóðarráð um hlutfallslegt umfang úthlutana úr landssjóðnum í ýmsum tilgangi.
Mikilvægur þáttur í samráði ráðgjafa við andlegt þjóðarráð er úthlutun fjárveitinga úr styrktarsjóðum sem ráðgjafarnir hafa til ráðstöfunar. Þótt tilgangur þessara ýmsu sjóða hvers og eins sé vel skilgreindur er mikill sveigjanleiki í notkun þeirra. Sjóði til aðstoðar við kynningu á bókmenntum og hljóð- og myndefni má til dæmis nota til að niðurgreiða að hluta eða öllu leyti kaup, þýðingu og framleiðslu á ýmsu efni, til að þróa áætlanir um námsefni eða til að auka getu útgáfustofnana og starfsaðila til að framleiða og dreifa bókmenntum og hljóð- og myndefni á skilvirkan og fjárhagslega hagkvæman hátt. Styrktarfé til eflingar kennslu má gera aðgengilegt til þess að þjóðarráðinu verði kleift að nýta sér strax óvænt tækifæri, til að styðja við langtímaviðleitni eða jafnvel til að styðja við áætlanir um vöxt trúarinnar á tilteknu svæði. Ráðgjafarnir hafa aðra sjóði til ráðstöfunar fyrir starfsemi þjálfunarstofnana, til að sjá fyrir útgjöldum starfsmanna sinna og til minni háttar útgjalda. Alþjóðlega kennslumiðstöðin ákveður hvernig úthluta skuli úr öllum þessum sjóðum eins og þörf krefur.
Ráðgjafar eða fulltrúar þeirra geta haft samráð við landshlutaráð við mótun árlegra fjárhagsáætlana þeirra, sem síðan eru lagðar fyrir andlega þjóðarráðið til samþykktar. Það er einnig á valdi ráðgjafanna að veita landshlutaráði fjárhagsaðstoð úr styrktarsjóðum sem þeir hafa til umráða.
Umsýsla með öllum bahá’í eignum er mál andlega þjóðarráðsins og venjulega ekki á ábyrgð ráðgjafanna. En ef ráðgjafarnir verða þess einhvern tíma varir að mál sem tengjast tiltekinni eign skaðar hagsmuni trúarinnar er þeim skylt að vekja athygli þjóðarráðsins á því.
Álfusjóðurinn
Hvert álfuráð leggur fram fjárhagsáætlun sína fyrir Alþjóðlegu kennslumiðstöðina í byrjun árs. Ef áætluð framlög til álfusjóðsins standa ekki undir fyrirhuguðum útgjöldum fær ráðið aðstoð frá Bahá’í alþjóðasjóðnum.
Álfuráði er í grundvallaratriðum frjálst að leggja fram úr álfusjóðnum til hvaða bahá’í sjóðs eða verkefnis sem það kýs. Það mun af eðlilegum ástæðum hika við að gera það ef starfsemi ráðsins er styrkt af Bahá’í alþjóðasjóðnum.
Ekkert mælir gegn því að ráðgjafarnir deili, að hluta eða öllu leyti, upplýsingum um álfusjóðinn með andlegum þjóðarráðum eða vinum í álfunni sem þeir þjóna. Þótt ekki sé hvatt til slíks liggur ákvörðunin í slíkum málum alfarið hjá álfuráðinu sjálfu.
Þjóðarsamfélög eru ekki öll á sama þroskastigi og aðstæður eru mjög mismunandi frá einu samfélagi til annars. Þannig geta ráðgjafar og aðstoðarráðgjafar valið að leggja áherslu á svæðissjóði og landssjóði á sumum svæðum þegar þeir fræða vinina um sjóði trúarinnar, en á öðrum svæðum taka þeir álfusjóðinn einnig með í almennri skírskotun til vinanna. Það er leyfilegt og raunar æskilegt fyrir mörg þjóðar- og svæðisráð að kalla eftir framlögum til álfusjóðsins.
Aðstoðarráðgjafar og aðstoðarmenn þeirra ættu venjulega ekki að taka þátt í virkri innheimtu framlaga til álfusjóðsins. Slík framlög er hægt að greiða með atbeina andlegra þjóðar- og svæðisráða, og einnig beint til álfusjóðsins þegar ráðgjafarnir hafa gert til þess ráðstafanir. Samt sem áður getur aðstoðarráðgjafi eða aðstoðarmaður sem vinirnir biðja um slíka fyrirgreiðslu, sérstaklega á afskekktum svæðum, tekið þeim til hægðarauka við framlögum þeirra til álfusjóðsins eða annarra sjóða.
Álfusjóðurinn ætti ef nauðsyn krefur að mæta útgjöldum vegna starfa aðstoðarráðgjafa. Ef þörf krefur getur álfuráð ákveðið að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir aðstoðarráðgjafa til þess að hann geti helgað trúnni alla sína krafta um ákveðinn tíma. Þegar ákvörðun er tekin um það þurfa ráðgjafarnir að hafa í huga langtímaáhrif slíkra skrefa.
Vegna svæðisbundinna starfa aðstoðarmanna geta þeir yfirleitt sinnt skyldum sínum án stuðnings frá álfusjóðnum.
Þótt vinirnir geti beint stuðningi sínum við kennara í þjálfunarstofnun til hvaða sjóðs sem þeim hentar, er veruleg áhersla lögð á álfusjóðinn í þessu sambandi því ráðgjafarnir eru í aðstöðu til að vita hvaða þjálfunarstofnanir þurfa á slíkum stuðningi að halda. Eyrnamerkt framlög í þessu skyni, sem renna í gegnum svæðis- eða þjóðarsjóð, yrðu að lokum afhent viðkomandi álfusjóði til úthlutunar.