Riḍván 2025 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Þegar aðeins eitt ár er eftir af fyrsta áfanga níu ára áætlunarinnar gleður það okkur að segja frá þeim framförum sem orðið hafa og hvernig framtíðarsýn trúarinnar færir sífellt fleiri hjörtum von með skínandi fordæmum göfugra verka.
Vaxtarferlið heldur áfram að þróast. Gagngerar breytingar hafa átt sér stað í ýmsum löndum þar sem áður var ekki um umtalsverða þróun að ræða. Þar hafa nýir og ferskir sprotar sprottið af fræjum trúarinnar, og í ljós kemur hæfni til að starfa með mörgum sálum í senn. Þessar framfarir hafa oft orðið fyrir tilstuðlan fjölmargra trúfastra brautryðjenda sem hröðuðu sér til markmiðssvæða í heimalöndum sínum og erlendis, brennandi af ást til Drottins síns. Í umdæmum þar sem vaxtaráætlun var hafin beindist athyglin á ný að skapandi og hugvitsamlegri hagnýtingu þeirra viðurkenndu aðferða og aðgerðaleiða sem gera vinunum kleift að ná öðrum og þriðja áfanga. Og í umdæmum sem hafa sannað styrk sinn verður ljósið af þjóðfélagsuppbyggjandi mætti trúarinnar sýnilegra þegar stækkandi hópur örvaðra sálna tekur opnum örmum blómlegu og umbreytandi mynstri bahá’í lífshátta.
Á sama tíma hefur þátttaka grasrótarinnar í þjóðfélaginu tekið stórstígum framförum. Staðbundnum samfélagsaðgerðum sem beinast að menntun hefur fjölgað hraðast, en önnur verkefni eru einnig í þróun á sviðum eins og landbúnaði, heilbrigðismálum, umhverfismálum, valdeflingu kvenna og listum. Framfarir af þessu tagi koma skýrast í ljós í öflugustu umdæmunum, þar sem margir bæir eða hverfi – jafnvel ein gata eða fjölbýlishús – eru heimkynni íbúa sem upplifa þá örvun og upplyftingu sem fylgja því að gera meginreglur trúarinnar að áþreifanlegum veruleika. Á ýmsum stöðum leita leiðtogar og einstaklingar, sem bera ábyrgð á menntun barna eða samfélagsþróun, ekki aðeins álits og sjónarmiða bahá’ía heldur einnig samstarfs við þá um hagnýtar lausnir. Það gleður okkur einnig að sjá, að nálgun bahá’í trúarinnar til ákveðinna mikilvægra umræðna vekur vaxandi athygli og aðdáun á lands- og alþjóðavísu.
Níu ára áætlunin byggir á víðtæku, hnattrænu lærdómsferli sem reynist jafn áhrifamikið á hásléttum Bólivíu og í úthverfum Sydney. Þetta lærdómsferli hefur leitt til stefnumarkana og aðgerða sem laga má að öllum aðstæðum. Það er kerfisbundið, lífrænt og alhliða. Það skapar tengsl sem blómstra og verða að kraftmiklum samböndum fjölskyldna, nágranna, ungmenna og allra sem eru reiðubúnir til að verða virkir gerendur í þessu dýrlega ætlunarverki. Það skapar samfélög gríðarmikilla möguleika. Fólki, sem áður var aðskilið vegna landfræðilegra aðstæðna, tungumáls, menningar eða af öðrum ástæðum, verður gert kleift að uppfylla háleit markmið sín og væntingar því að nú hefur það heyrt og brugðist við allsherjarákalli Bahá’u’lláh um að „leitast ávallt við að bæta líf hvert annars“. Og það á allt sitt undir lífgefandi mætti orðs Guðs – þessu „sameinandi afli“ sem „hreyfir sálirnar, tengir þær og kemur reglu á veröld mannsins“ – og því þrotlausa starfi sem það eflir og innrætir.
Hversu skínandi bjart er ekki ljósið sem stafar frá helguðu starfi ykkar undir dimmum stormskýjum himins! Meðan ofviðrið geisar í heiminum er unnið að uppbyggingu griðastaða í löndum, á landsvæðum og í umdæmum, sem veita munu mannkyni skjól. En margt þarf að gera. Hvert þjóðarsamfélag hefur sínar eigin væntingar um þær framfarir sem verða að eiga sér stað á þessum fyrsta áfanga áætlunarinnar. Tíminn líður. Ástkæru vinir, flytjendur guðlegra kenninga og kappar Hinnar blessuðu fegurðar – nú er þörf á kröftum ykkar. Á þeim hraðfleygu stundum sem líða fram að næstu Riḍvánhátíð mun sérhvert spor í framfaraátt gera samfélag Hins mesta nafns betur í stakk búið til að takast á við starfið sem bíður þess á öðrum áfanga áætlunarinnar. Við biðjum alvaldan Drottin um velgengni ykkur til handa, sárbænum um óbrigðula hjálp Hans og biðjum þess af innsta hjarta að Hann sendi útvalda engla sína til aðstoðar hverju og einu ykkar.