Allsherjarhús réttvísinnar
19. mars 2025
Til bahá’ía um allan heim
Ástkæru vinir
Þau blómlegu samfélög sem bahá’í heimurinn leitast við að byggja upp hafa í eðli sínu djúptæka þýðingu fyrir fjölskylduna. Það er innan hennar sem einstaklingurinn fæðist og vex úr grasi og innan hennar læra einstaklingar fyrst að lifa með öðrum. Fjölskyldueiningin er frumeining samfélagsins og um leið alls þjóðskipulagsins. Þjóðfélag sem er mótað til þess að mæta þörfum mannkyns á fullþroskaskeiði þarfnast því bæði fullmótaðrar hugmyndar um fjölskylduna og hæfni til að beita innsýn þessarar hugmyndar á tengslin sem móta þjóðina og heiminn. „Fjölskyldan er þjóð í smækkaðri mynd,“ segir ‘Abdu’l‑Bahá. „Aðstæður fjölskyldunnar eru aðstæður þjóðarinnar.“ Lærdómur um nýtt mynstur fjölskyldulífs er því óhjákvæmilegur þegar afla skal þekkingar á því hvernig leysa má úr læðingi samfélagsuppbyggjandi kraft trúarinnar.
Í sögulegu samhengi hefur fjölskyldan tekið á sig ólíkar myndir til þess að mæta kröfum ólíkra áfanga í samfélagsþroska mannsins. Þegar þjóðfélagið þróaðist kom það að endamörkum þar sem skipulagshættir og skilgreiningar, sem kunna að hafa reynst heilladrjúgar fyrr á tímum, komu ekki lengur að gagni á næsta áfanga mannlegs þroska. Væntingar foreldra sem hæfðu einu tímaskeiði sögunnar gátu tálmað börnum þeirra að þroska með sér hæfni á öðrum tímum. Sterk hollustubönd innan skyldleikahópa sem gerðu þeim kleift að dafna á ákveðnu tímaskeiði gátu orðið hindrun í vegi einingar í víðara þjóðfélagslegu samhengi. Og ákveðin kynjahlutverk sem einkenndu fyrstu stig mannlegs þroska gátu hindrað framgang kvenna og samfélagsins alls á síðari tímum. ‘Abdu’l‑Bahá segir að endurmeta verði hugmyndir og kenningar fyrri tíma. Mannkynið „þarf að innræta sér nýjar dyggðir og krafta, ný siðferðisviðmið, nýja hæfni.“ Því að „gjafir og blessanir æskuáranna, sem voru í fullu gildi á þeim tíma og nægðu á unglingsárum mannkynsins, geta ekki lengur uppfyllt þarfir fullþroska mannkyns.“ Sú áskorun blasir því við bahá’í samfélögum um allan heim að kanna þær siðvenjur sem tíðkast í þjóðfélögum sínum, vega þær og meta í ljósi kenninganna, uppræta allar óæskilegar tilhneigingar og læra að móta nýtt mynstur í lífi fjölskyldunnar sem hæfir þörfum nýrra tíma.
Þar sem við erum tiltölulega skammt á veg komin er auðvitað ekki hægt að lýsa eðli þess fjölskylduskipulags sem hlýtur að endingu að birtast í fyllingu þessa trúarkerfis. Og ýmis samfélög í ýmsum heimshlutum, sem viðurkenna mikilvægi sterkra fjölskyldubanda, standa frammi fyrir margs konar öflum sem grafa undan fjölskyldunni á ýmsan hátt. Engu að síður kemst meiri hraði á lærdómsferlið, sem stuðlar að þróun nýs lífsmynsturs innan fjölskyldna og á milli þeirra, eftir því sem hæfni bahá’í heimsins eykst til að beita ákveðnum skilningi og ómissandi innsýn kenninganna.
Meðal þeirra spurninga sem huga þarf að eru þessar: Hver eru einkenni bahá’í fjölskyldulífs og hvað aðgreinir þau frá ríkjandi skilningi þjóðfélagsins á lífi fjölskyldunnar? Hvert er sérstakt og auðkennandi eðli bahá’í hjónabands og hvernig styrkir það og hlúir að lífi fjölskyldunnar? Hvernig leggja bahá’í fjölskyldur af mörkum til umbreytingarferlisins í byggðum og borgarhverfum og í stærra samhengi? Hvaða gildrur og hindranir blasa við bahá’í fjölskyldum á þessum tímum og aftra þeim frá að ná þessum markmiðum? Hvernig styrkir aðgerðaramminn fjölskyldulífið á núverandi stigi hinnar guðlegu áætlunar, og hvernig skapar hann tækifæri fyrir atorkusamar fjölskyldur til að leggja af mörkum til samfélagsuppbyggingar?
*
Nýr skilningur á fjölskyldunni hefst með nýjum skilningi á hjónabandinu. Bahá’u’lláh segir að hjónabandið sé ekki aðeins „lykillinn að lífi og varðveislu þjóða heims“, heldur „órannsakanlegt afl til uppfyllingar á örlögum þeirra“.
Fyrir bahá’ía er hjónabandið ekki aðeins líkamlegt band heldur einnig andlegt og hefur þýðingu fyrir lífið í þessum heimi og þeim sem kemur. ‘Abdu’l‑Bahá segir að bahá’í hjónaband sé „gagnkvæm skuldbinding beggja maka og gagnkvæm hollusta hugans og hjartans“ til þess að hjónin „geti ávallt bætt andlegt líf hvort annars“ og „unað hvort með öðru í innilegustu vináttu“ og „verið líkt og ein sál“. Í bahá’í hjónabandi læra tvær sálir að hjálpast að til þess að báðar geti náð tvíþættu siðferðislegu markmiði sínu – að þroska þá eðlisbundnu hæfni, sem Guð gefur þeim, og leggja sitt af mörkum til síframsækinnar siðmenningar. Sambandið sem þau stofna til og hefst með hjónavígslu, stuðlar undir öllum kringumstæðum að myndun ótal nýrra tengsla við annað fólk sem geta endurmótað líf og samfélög með uppbyggilegum hætti.
Sýn bahá’í trúarinnar á hjónabandið er hafin yfir þann tvískinnung sem á sér rætur í sjónarmiðum sem eru ríkjandi í samfélaginu og einkennast af hnignun og undanlátsemi. Bahá’í hjónaband sameinar ást, jafnrétti, innilegt samband, tryggð, kynlíf, barneignir og barnauppeldi. Allir þessir þættir miða að einu marki, að styrkja gagnkvæm tengsl sín og verða í heild sinni óvinnandi virki persónulegs og félagslegs velfarnaðar. Lausung í samfélagslegum siðvenjum grefur undan hjónabandinu og fjölskyldunni með því að brjóta niður þessa þætti sem eru nauðsynlegir mannlegri velferð og viðgangi. Hnignandi siðir afbaka aftur á móti eða leggja ofuráherslu á einn eða annan þessara þátta með undirokun fjölskyldumeðlima fyrir augum. Lausn á slíkum vandamálum fæst með því að fylgja kenningum trúarinnar. Á fjölbreyttum menningarsvæðum um allan heim þarf margt að læra um þýðingu allra þeirra þátta bahá’í hjónabands sem er að finna í kenningunum. Grundvallarreglan um jafnræði kvenna og karla er til dæmis höfuðatriði í þróun nýs mynsturs bahá’í hjónabanda. Þegar þessi meginregla er höfð að leiðarljósi í hjónabandinu styrkist og dafnar sambandið og stúlkur og drengir fá í uppeldi sínu nýjan skilning á jafnrétti og hagnýtri tjáningu þess. Þýðing þessarar meginreglu mun þannig smám saman ná til komandi kynslóða og stuðla að framgangi kvenna fram til þess þegar væntingar ‘Abdu’l‑Bahá um að konur muni „taka fullan og jafnan þátt í málefnum heimsins“ verða að veruleika.
Hjónaband leggur grunn að fjölskyldu og þau traustu tengsl sem eiga að ríkja milli meðlima bahá’í fjölskyldu byggjast á réttlæti og gagnkvæmni. Sérhver meðlimur hennar verður að njóta þess réttar sem honum ber; hver og einn verður að uppfylla þær skyldur sem honum eru ætlaðar. ‘Abdu’l‑Bahá segir: „Samkvæmt kenningum Bahá’u’lláh verður fjölskyldan, sem er mannleg eining, að hljóta menntun og uppfræðslu í samræmi við helgar reglur.“ Hann segir einnig: „Stöðugt verður að huga að heill og heilindum fjölskyldutengslanna og ekki má brjóta á rétti einstakra meðlima fjölskyldunnar.“ Þessi traustu tengsl innan fjölskyldunnar krefjast upplýstrar ræktunar.
Í bahá’í fjölskyldu eru hjónin sannir félagar; annar þeirra er ekki undirgefinn hinum. Saman mæta þeir áskorunum lífsins – hvort sem þær eru andlegs, efnislegs eða félagslegs eðlis – með bæn, námi, samráði og íhugun um aðgerðir. Skoðum til dæmis ákvarðanir um menntun barna. Bahá’í ritin staðfesta að móðirin sé fyrsti kennari barnsins og styðja forréttindi hennar í þeim efnum. ‘Abdu’l‑Bahá segir: „Það eru vissulega mæðurnar sem marka stefnuna hvað varðar hamingju, framtíðarheill, kurteislega framkomu, lærdóm, dómgreind, skilning og trú ungra barna sinna.“ En faðirinn ber líka ábyrgð á menntun þeirra og uppeldi og hann getur ekki afsalað sér svo bráðnauðsynlegri skyldu og látið móðurina eina um uppeldið. Og þótt faðirinn styðji móðurina í þessu hlutverki og tryggi að það íþyngi henni ekki, og honum beri einnig skylda til að styðja fjölskylduna fjárhagslega, þýðir það ekki að foreldrahlutverkin séu fastmótuð og ósveigjanleg. Með því að byggja á skilningi sínum á kenningunum velja hjónin bestu leiðina til að stjórna málefnum fjölskyldunnar í samræmi við persónulegar og félagslegar aðstæður sínar. Sérhver áfangi í lífi hjónanna býður upp á samsvarandi áskoranir og tækifæri sem hjónin verða að leitast við að ráða fram úr með virkum hætti og í sameiningu, og tryggja jafnframt andlegar, vitsmunalegar og faglegar framfarir þeirra beggja.
Í styðjandi umhverfi fjölskyldunnar leiðbeina foreldrar börnum sínum af gaumgæfni og kenna þeim að lifa innihalds- og tilgangsríku lífi sem einkennist af trúmennsku, dyggð og þjónustu. Með fordæmi sínu, daglegum háttum, samskiptum og óteljandi samtölum sýna foreldrarnir börnum sínum ástúð og umhyggju og rækta með þeim fjölda eiginleika, viðhorfa, venja og sífellt fjölbreyttari hæfni. Þeir laga aðferðir sínar og nálgun að þroskastigi barnsins, allt frá fæðingu og þangað til það nær fullum þroska. Börnin læra frá unga aldri að snúa sér til Guðs og elska Hann, biðja og lesa orð Hans á hverjum degi. Þau læra að líta á sig sem göfugar sálir sem leitast við að þróa með sér andlega eiginleika, taka þarfir annarra fram yfir sínar eigin þarfir og sýna þessa eiginleika í samböndum sem einkennast af umhyggju og samvinnu. Þegar þau taka framförum læra þau að venjast erfiðleikum, iðka sjálfsaga og ábyrgðarkennd, gleyma sjálfum sér og fá þekkingu á listum og vísindum. Og þegar þau byrja sjálf að taka meiri þátt í lífinu, læra þau að þroska með sér þjónustulund, útbreiða guðlegar kenningar og sýna þær í verki, leysa úr ágreiningsefnum og taka þátt í samráði, vera staðföst í sáttmálanum, vinna að bættum heimi og einbeita sér að því sem leiðir til eilífs heiðurs. Bahá’í ritin bjóða foreldrum upp á þrotlausa uppsprettu innsæis sem gerir þeim kleift að rækta þessa afstöðu og mörg önnur mikilvæg viðhorf, hæfni og hæfileika. Þjálfunarstofnunin veitir fjölskyldunni nauðsynlegan stuðning með því að auka skilning og færni allra meðlima hennar. Önnur úrræði eru einnig í boði sem koma að gagni við efnislega, félagslega og andlega menntun ungs fólks og sem fjölskyldan getur nýtt sér – skólar, samfélagslíf, þjónustuverkefni og svo framvegis. Foreldrarnir bera samt endanlega ábyrgð á því að tryggja að börn þeirra fái rétta og tilhlýðilega menntun.
Með tímanum þróast tengslin milli meðlima fjölskyldunnar og taka á sig ýmsar myndir. Þegar alúð er lögð í að rækta ást og samheldni systkina, verður slíkt samband þeim stuðningur og uppörvun alla ævi og þjónar sem varnarvirki gegn afbrýðisemi og sundurlyndi sem getur skapast í lífi fjölskyldunnar. Ljóst er að réttindi og skyldur barna á fullorðinsaldri eru ekki þau sömu og þegar þau voru yngri. Foreldrar verða að vera næmir á slíkar breytingar þegar þeir búa börnin undir fullorðinsárin og hlúa vel að sjálfstæði og ábyrgðartilfinningu næstu kynslóðar þegar þau vaxa úr grasi. Ungmenni munu halda áfram alla ævi að virða og heiðra foreldra sína, en þegar þau þroskast verða þau að taka stjórn á sínu eigin lífi og valkostum. Með tímanum breytast skyldurnar og þegar foreldrarnir eldast geta kringumstæðurnar gert auknar kröfur til þess að börnin veiti þeim aðstoð.
Sambönd kjarnafjölskyldunnar falla inn í sífellt breiðara tengslamynstur sem hefst með stórfjölskyldunni. Afar og ömmur, frænkur, frændur sýna umhyggju og stuðning sem hjálpa til að uppfylla tilgang og ábyrgð fjölskyldunnar. Auðkenni slíkra fjölskyldutengsla ná einnig til annarra bahá’ía og vina sem geta aðstoðað fjölskylduna á ýmsan hátt. Í því nána félagsneti sem myndast í þróttmiklu samfélagi gefa þeir sem eldri eru góð og viturleg ráð og sýna skýrt fordæmi. Aðrir koma þar við sögu sem andlegar frænkur og frændur með ástúð og umhyggju fyrir framförum unga fólksins og veita stuðning sem styrkir starf og háleitar vonir foreldranna. Ungmenni starfa sem eldri bræður og systur sem aðstoða og hvetja þá sem yngri eru með margvíslegum hætti. Þannig fléttast tilfinningin um einingu, ást, umhyggju, traust og samstöðu, sem í upphafi var ræktuð innan fjölskyldunnar, inn í önnur tengsl í samfélaginu.
Mikilvægur þáttur í samfelldu og blómlegu fjölskyldulífi og þátttöku fjölskyldunnar í gróskumiklu samfélagi er að hugað sé að fjármálum hennar. Samráð eiginkonu, eiginmanns, og barna þar sem það á við, er afgerandi fyrir jafnvægið milli efnislegra þarfa og margra annarra þátta og skyldna fjölskyldulífsins. Viturleg og aðgætin tilsjón með fjármálum fjölskyldunnar tekur mið af mörgum sjónarmiðum, þar á meðal hvernig peninga er aflað, þeim eytt og þeir sparaðir; hvernig tryggja skuli menntun og velfarnað barnanna; hve mikið skuli leggja fram til sjóða trúarinnar eða til styrktar samfélagsmálum og hvernig rækja skuli skylduna við Rétt Guðs. Með því að svara þessum og öðrum áþekkum spurningum fær fjölskyldan svigrúm til að læra í reynd um gjafmildi, ábyrgð, muninn sem er á þörfum og löngunum og stjórn á fjármálum.
*
Bahá’í fjölskyldulíf opnar svið öflugra samskipta við samfélagið. Þessi samskipti blómstra þegar meðlimir fjölskyldunnar leitast við að sýna grundvallarkenningar bahá’í trúarinnar í verki í lífi sínu. Sem dæmi má nefna að beiting meginreglunnar sem áður var nefnd um jafnræði kvenna og karla skapar sérstakt samband milli eiginkonu og eiginmanns, barnanna og fjölskyldunnar í heild. Hún býr meðlimi fjölskyldunnar undir að leggja sitt af mörkum til samskipta við samfélagið sem leysir getu allra úr læðingi. Hlýðni við lífslögmálið um einingu mannkyns krefst þess einnig að börnin fái reynslu sem verndar þau fyrir hvers kyns fordómum, kennir þeim að meta fjölbreytileika og eykur hæfni þeirra til að mynda sambönd sem einkennast af einingu og samstöðu í sundruðum heimi. Auk þess er það valdeflandi fyrir fjölskyldumeðlimi, sem virka gerendur í samfélagsuppbyggjandi ferli, að þroska hæfni sína til að leita sannleikans, læra að meta samræmi vísinda og trúarbragða og vinna úr ágreiningi með samráði og samvinnu í stað deilna og samkeppni. Að rækta eiginleika eins og réttlæti og samúð innan fjölskyldunnar býr börnin undir að mynda traust og yfirvegað samband við aðra í samfélaginu. Viðleitnin til þess að læra að beita kenningunum innan fjölskyldunnar innrætir börnunum á þennan hátt sýn sem er hafin yfir sjálfa fjölskylduna og vekur hjá þeim vitund um aðstæður og þarfir þjóða heimsins.
Að rækta nýtt mynstur í lífi fjölskyldunnar vinnur einnig gegn upplausnaröflunum sem eru óaðskiljanlegur hluti veraldar á breytingaskeiði. Öflin sem herja á samfélagið hafa einkum og sér í lagi áhrif á fjölskylduna, rjúfa tengslin innan hennar og leggjast þungt á meðlimi hennar, sérstaklega börnin. Þessi öfl geta gert fjölskyldumeðlimi berskjaldaða fyrir þeim samfélagslegu meinsemdum sem mest hætta stafar af: skorti á ást og umhyggju, vanrækslu á hinu andlega, afmennskun, fátækt, óöryggi og ofbeldi. Fólk freistast til að gefa sig á vald efnislegri afþreyingu eða persónulegri fullnægingu, verður þannig fórnarlömb hlutgervingar og auðveld bráð þeim sem vilja þröngva áformum sínum upp á þjóðfélagið. Andstæðar hugmyndafræðilegar kenningar og heimsmyndir, sem eru ósamrýmanlegar hugsjónum um einingu mannkyns og friðsælan heim, keppa um hollustu fjöldans og berjast um yfirráð sín á milli. Sumar þessara hreyfinga gróðursetja fræ fordóma og ofstækis sem að leiða lokum til firringar, átaka og deilna milli þjóða heims. Aðrar kunna að virðast sammála einhverjum þáttum kenninganna en aðeins til þess að geta leitt vinina með lævísum hætti frá beinum vegi Bahá’u’lláh. Öflin sem tengjast upplausnarferlinu verka með mismunandi hætti á ólíka hópa. Til þess að geta staðið af sér storma þessara háskalegu tíma þarf fjölskyldan, og samfélagið í heild sinni, að læra að rannsaka ríkjandi aðstæður, átta sig á eðli og áhrifum þessara afla og þróa fyrirbyggjandi úrræði og úrbætur með fullu trausti á guðlega liðveislu.
Náin samskipti fjölskyldumeðlimanna og einlæg löngun þeirra til að þjóna öðrum opnar einstætt félagslegt rými: bahá’í heimilið. Ekkert getur komið í staðinn fyrir þróttmikið bahá’í heimili í ferli samfélagsuppbyggingar í grasrótinni. Í ástríku umhverfi heimilisins styðja meðlimir fjölskyldunnar hver annan og öðlast sjálfstraust til að verða hæfir og virkir gerendur hinnar guðdómlegu áætlunar. Þeir taka vel á móti öðrum og hjálpa þeim að taka þátt í að umbreyta samfélaginu. Á bahá’í heimili fer ástúðleg gestrisni saman við andlega örvun og vitsmunalegar framfarir. Með starfsemi sem sérhver bahá’í fjölskylda getur boðið upp á á heimili sínu getur hún sýnt lifandi fordæmi öllum sem vilja vinna gegn þeim sundrungaröflum sem ala á óánægju, átökum og eiginhagsmunum, og kjósa að bindast böndum trúnaðartrausts, samvinnu og uppbyggilegra aðgerða sem eru undirstöður heilbrigðs samfélags. Reyndar hafa hópar fjölskyldna í ýmsum umdæmum um allan heim nú þegar opnað heimili sín og vinna saman til þess að treysta svæðisbundna starfsemi og stórefla umfang hennar og áhrif.
Hugmyndin um líf í stöðugri þjónustu á jafnt við líf fjölskyldunnar og líf einstaklingsins. Þær fjölþættu kröfur og þau tækifæri sem fjölskyldan stendur frammi fyrir þróast stöðugt með tímanum. Yfirleitt styrkist fjölskyldan þegar hún sækir fram í sameiningu á þjónustubrautinni og það kemur henni að liði þegar hún tekst á við margvíslegar skyldur á öllum áföngum lífsins. Á vissum tímum þegar tækifæri skapast fyrir þjónustustarfsemi sem gerir meiri kröfur – hvort sem um er að ræða einn fjölskyldumeðlim eða alla fjölskylduna – getur gagnkvæmur stuðningur innan dyggrar bahá’í fjölskyldu gert svo fórnfúsa og heilshugar viðleitni að veruleika. Á slíkum stundum er mikilvægt að hafa í huga stórmikilvægt eðli fórnarinnar sem, eins og ‘Abdu’l‑Bahá hefur útskýrt, felst í því að láta áhyggjur af mannlegum aðstæðum víkja fyrir því sem er af Guði. Fórnin gerir mögulegt að veita meiri þjónustu en fjölskyldunni sjálfri á ekki að fórna.
*
Þegar við skoðum framvindu níu ára áætlunarinnar fyllumst við lotningu og djúpu þakklæti fyrir dygga starfsemi vinanna. Við verðum vitni að fórnfúsu starfi í fjölbreyttu umhverfi um allan heim sem sprettur af samvinnu einstaklinga, samfélaga og stofnana, þegar vinirnir bjóða áhugasömum hópum fólks að taka þátt í ferli samfélagsuppbyggingar. Þeir hafa frumkvæði að margvíslegum verkefnum á sviði menntunar og félagslegra umbóta, flytja starf trúarinnar til nýrra svæða og samræma þær fjölmörgu skuldbindingar sem felast í skipulegu þjónustulífi. Og þrátt fyrir hindranir sem stafa af kúgun eða uppnámi í glundroðakenndum heimi halda vinirnir áfram að vinna að háleitum markmiðum sínum. Ótalmargar sálir um allan heim leitast í síauknum mæli við að leysa úr læðingi samfélagsuppbyggjandi kraft trúarinnar innan þeirra marka sem geta þeirra og aðstæður leyfa. Starf bahá’í fjölskyldna að þessu marki verður sífellt brýnna og áhrifaríkara á komandi árum og áratugum. Allir vinirnir hafa mikilvægan skerf fram að færa til styrktar þessum lífsnauðsynlega þætti í lífi bahá’í trúarinnar.
Sagt er að ‘Abdu’l‑Bahá hafi látið þessi orð falla: „Heimili mitt er heimili friðarins. Heimili mitt er heimili gleði og yndis. Heimili mitt er heimili hláturs og fagnaðar. Hver sem kemur inn á þetta heimili verður að fara út glaður í hjarta. Þetta er heimili ljóssins, hver sem hér kemur inn verður að upplýsast.“ Megi fjölskyldur ykkar og heimili, kæru vinir, verða griðastaðir og stoðir alls mannkyns.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]