[ÍSLENSKAÐ ÚR LÖGGILTRI ENSKRI ÞÝÐINGU Á PERSNESKA TEXTANUM]
Naw-rúz 181
Til fylgjenda Hins mesta nafns
og aðstoðarmanna Hinnar öldnu fegurðar
í landinu helga, Íran
Kæru systur og bræður, hugsvölun augna okkar
Í dag er naw-rúz dagurinn, upphaf hins sálarvekjandi vors. Með komu Bahá’u’lláh hefur þessi forna og dýrlega hátíð persnesku þjóðarinnar öðlast nýjan ljóma og lífskraft, því að hún hefur orðið tákn fyrir guðlega vorkomu og minnir á þá endurnýjun, endurreisn og umbreytingu sem er í sjónmáli í veröld mannsins eftir upprás Sólar sannleikans. Lof sé Guði lof að á þessu andlega vori eruð þið, kæru vinir, líkt og söngfuglar sem sjálf hönd Ástvinarins hefur lyft til flugs og ljúfur söngur ykkar ómar í garði þjónustu og fagnaðarleiðslu, hjörtu ykkar loga af eldi ástar Guðs og himnesk heilræði Hans upplýsa brjóst ykkar. Vitið með vissu að við hugsum til ykkar hverja stund og berum lof á þrautseigju ykkar andspænis óteljandi þrengingum. Nú í upphafi nýs árs biðjum við sérstaklega við hina helgu fótskör fyrir velferð, ósvikinni hamingju og raunverulegu frelsi þessara ástvina hjartna okkar og sálna.
Við vonum að ykkur hafi nú borist nýlegt bréf okkar til bahá’í heimsins þar sem við lýsum og greinum atburði fyrsta árhundraðs mótunaraldarinnar og íhugum aldarlanga þrotlausa viðleitni samfélags fylgjenda Bahá’u’lláh. Frá þeirri brennandi sorg og sársaukafullu óvissu sem var hlutskipti þessa samfélags strax í kjölfar uppstigningar ástkærs Meistara þess hefur það nú náð starfsáfanga sem er hátt hafinn yfir innri áhyggjuefni og snýst um samfélagsuppbyggingu. Á þeirri öld náði trúin smám saman til þjóða heimsins og samfélag Hins mesta nafns endurspeglaði fegurð mannkynsins og varð tákn um áhrif einingar í fjölbreytileika. Hvar sem fólk komst í kynni við þessa trú gekkst það henni fljótt á hönd og lagði kapp á að hagnýta sér kenningar og andlegan kraft málstaðar Bahá’u’lláh til að geta tekið raunhæfum framförum í lífi sínu sem einstaklingar og samfélög. Íhugun á þessu ferli framfara og umbreytinga leiðir í ljós þann leynda kraft sem trúin býr yfir til að gera einingu mannkyns að veruleika og koma á allsherjarfriði. Á þessari viðburðaríku öld færðu fylgjendur málstaðar Hins almáttka skýrar sönnur á skuldbindingu sína gagnvart lærdómsferlinu þegar þeir lögðu sig fram um að styrkja grundvallarskilning á sáttmálanum, stofna bahá’í samfélög um allan heim og reisa stoðir stjórnskipulagsins. Og fyrir mátt guðlegrar aðstoðar náðu þeir verðskulduðum árangri á þessari braut.
Sárt reyndir og trúfastir samlandar Hinnar blessuðu fegurðar eiga sinn auðkennda hlut í þessu andlega drama. Hvort sem þessir vinir dreifðu guðlegri ilman, komu stofnunum stjórnskipulagsins á fót, brautruddu til byggðarlaga nær og fjær, ólu upp nýjar kynslóðir staðfastra átrúenda, hvöttu trúsystkini sín og félaga á þjónustubrautinni eða færðu hvers kyns fórnir, hafa þeir ávallt verið í fremstu línu og sótt fram í fylkingarbrjósti. Mikil er blessunin sem hvílir yfir ykkur og forfeðrum ykkar, hugdjörfum riddurum, sem frá upphafi trúarinnar og til dagsins í dag hafa hvatt fák viðleitni sinnar á leikvangi þjónustunnar, sigrast á sérhverri hindrun og fyrirstöðu og hlotið æðstu sigurlaun og heiður.
Eitt af því sem einkenndi árið sem var að líða var athyglin sem íranska þjóðin og fólk í fjarlægustu heimshornum beindu að bahá’í konunum tíu sem fyrir fjörutíu árum liðu píslarvættisdauða í borginni helgu Shiraz. Fórn þessara tryggu ástvina Guðs er tákn um fórn allra þeirra rangtleiknu og upplýstu átrúenda sem voru staðfastir í trú sinni og hollustu við guðlegar kenningar og meginreglur um umbreytingu heimsins, liðu jafnvel píslarvætti af fúsum vilja og skrifuðu með bleki ástarinnar á síður sögunnar. Þótt þeir hafi borið þennan harm í hljóði, fjarri almenningssjónum og án vitundar flestra samlanda sinna, er Írönum í dag kunnugt um það sem bahá’í samfélagið hefur mátt þola og þolir enn. Þeir líta á bahá’ía sem verndara sannleika og ráðvendni og vita vel að þeir umbera þessa útbreiddu og allsstaðarnálægu kúgun í krafti háleitra mannlegra hugsjóna og þola hana á braut þjónustu við Íran og heiminn allan.
Eins og áður var nefnt deilir fólk um allan heim, þar á meðal íranska þjóðin, með ykkur, meira en nokkru sinni fyrr, mörgum hugsjónum og þrám í væntingum sínum, markmiðum og von um sameiginlega framtíð. Ýmsar þjóðfélagsstéttir um allan heim þrá af hjarta og sál jafnrétti, réttlæti og samfélag sem byggir á siðferðilegum og göfugum manngildum. Auk sameiginlegra hugsjóna og væntinga leitar fólk heimsins einnig áhrifaríkra og hagnýtra leiða til að bæta þjóðfélagið. Öll pólitísk og efnahagsleg hugmyndafræði stendur hins vegar vanmáttug og úrræðalaus gagnvart umfangi, eðli, margslunginni gerð og innbyrðis tengslum þeirra áskorana sem blasa við og málsvarar þessara fræða vita sjálfir ekki sitt rjúkandi ráð. Burtséð frá þeirri gagnlegu innsýn sem þessar hugmyndastefnur kunna að geyma, eru forsendurnar sem liggja til grundvallar núverandi heimsskipulagi – allt frá eðli og sjálfsmynd mannsins til sjónarmiða sem tengjast valdi og samkeppni – ófullnægjandi fyrir mannkyn sem í dag stendur á þröskuldi sameiginlegs fullþroska. Við heiminum blasir því djúpstæð og víðtæk kreppa sem grefur undan stöðugleika hans og skipulagi. Þótt þessi kreppa sé ekki ný af nálinni og fylgjendur Bahá þekki ástæður hennar, eru eyðileggjandi afleiðingar hennar og glundroðinn sem fylgir henni augljósari nú en nokkru sinni fyrr. Bahá’u’lláh ritar:
Vér skynjum glöggt hvernig miklar og ómældar hörmungar steðja að öllu mannkyni. Vér sjáum það tærast upp á sjúkrabeði sínum, þjakað og vonsvikið. Þeir sem hafa ölvað sig drambi koma á milli þess og Hins himneska, óskeikula græðara. Sjá hvernig þeir hafa flækt sjálfa sig og alla aðra í net vélráða sinna. Þeir geta hvorki greint orsakir sjúkdómsins né hafa nokkra þekkingu á lækningunni. Hið beina telja þeir bogið og vin sinn fjandmann.
Engan ætti því að undra að þessi kreppa valdi ágreiningi og sundurþykkju meðal manna og stríð og átök milli þjóða harðni dag frá degi. Allt þjakar þetta og hryggir sérhverja hreinhjartaða og upplýsta sál. Þótt fjöldi sálna séu umluktar hafi vonleysis og örvæntingar, má einnig finna margt góðviljað fólk sem leitar úrlausna af einlægni og alvöru. Með blessun orða Guðs og hjálp þeirrar sýnar og innsæis sem fæst með óviðjafnanlegum túlkunum ‘Abdu’l‑Bahá og Verndarans þekkja fylgjendur Bahá ástæðurnar fyrir atburðunum sem eru að gerast í heiminum og skilja þýðingu þeirra. Þeim er vel kunnugt um sjúkdómsgreiningu Græðarans óskeikula og læknisdóminn sem Hann hefur ávísað. Þeir vita hvert þroskaferli mannkynsins stefnir þrátt fyrir óumflýjanlegar krókaleiðir þess. Þeir hafa fengið dýrmæta reynslu, bæði í nýju og sögulegu starfi sínu að þróunar- og umbreytingarferlinu, og þeir eru fúsir og reiðubúnir til að deila með öllum mönnum hagnýtum nálgunum og lærdómi sem þeir hafa dregið af þessari reynslu.
Átrúendunum er ljóst að hornsteinn kenninga Bahá’u’lláh er stofnun þess allsherjarfriðar sem fyrirhugaður er á grundvelli einingar allra þjóða og á grunni hins mesta réttlætis. Hugleiðið þessi orð Hinnar blessuðu fegurðar: „Ég hef ekkert annað takmark en endurreisn heimsins og rósemi þjóða hans. Velferð mannkyns, friður þess og öryggi, verður aldrei að veruleika nema og þangað til eining þess er tryggilega staðfest. Þessi eining verður aldrei grundvölluð meðan mennirnir láta heilræðin, sem penni Hins hæsta hefur opinberað, sem vind um eyrun þjóta.“ Hann segir einnig: „Allir menn hafa verið skapaðir til að stuðla að síframsækinni siðmenningu.“ Auk þess ráðleggur Hann þetta: „Einbeitið huga yðar og vilja að uppfræðslu þjóða og ættkvísla jarðarinnar svo að deilurnar sem aðskilja þær megi fyrir vald Hins mesta nafns hverfa af ásýnd hennar og allt mannkynið veita fulltingi einu skipulagi og verða sem íbúar einnar borgar.“ Og áminning Hans er þessi: „Verið ekki uppteknir af eigin málefnum; festið hugann við það sem endurreisa mun giftu mannkynsins og helga hjörtu og sálir manna.“
Í dag er það andleg og siðferðileg skylda sérhverrar samviskusamrar sálar að þjóna málstað friðar og heimseiningar. Allir meðlimir í fjölskyldu mannsins eiga hlut í þessu mikilvæga verkefni. Sérhver einstaklingur hefur hæfni til að bera og hlutverki að gegna, bæði við að hreinsa huga sinn af fordómum og byggja upp félagslegar aðstæður friðar og einingar í samfélaginu. Allar sálir geta stuðlað að menningu friðar og einingar í samskiptum sínum við vini jafnt sem ókunnuga. Og á þessum degi munu slík áform laða að sér staðfestingar Guðs. Fyrir vikið munu sálirnar hvetja hver aðra til dáða, auka þrautseigju sína andspænis erfiðleikum, aðstoða hver aðra við lausn vandamála, byggja upp vináttu og samstöðu og sækja fram á uppbyggilegri braut áleiðis að bjartri framtíð. ‘Abdu’l‑Bahá segir: „… fyrst verður að koma á friði milli einstaklinga uns hann að lokum leiðir til friðar milli þjóðanna. Ó bahá’íar, reynið því af fremsta megni með mætti orða Guðs að skapa ósvikna ást, andlegt samfélag og varanleg bönd milli einstaklinga. Þetta er ykkar verkefni.“
Lof sé Guði að fylgjendur Hins mesta nafns um allan heim þekkja þetta verkefni og hafa ævinlega lagt sig fram um að rækja þessa mikilvægu ábyrgð hvar sem þeir koma, og læra í samvinnu við fólk, sem sýnir hlýhug og er sama sinnis, hvernig hlúa ber að samfélögum sem virða grundvallarreglur friðar og þörfina fyrir vináttu og einingu. Slík samfélög vilja feginshugar sýna í verki meginreglu jafnréttis kvenna og karla; þau helga sig grundvallarreglu réttlætis og sanngirni; þau leitast við að skapa sátt og einingu í fjölbreytileika; þau skipa samráði, sem forðar átökum og stuðlar að samkomulagi, í forsæti þegar einstaklingar og samfélög taka ákvarðanir; þau beita sér fyrir efnahagslegri samstöðu og gagnkvæmum stuðningi fólksins; þau kenna börnum og unglingum að forðast fordóma og hrottaskap og líta svo á að ungmenni séu í fararbroddi samfélagsframfara og umbreytinga; þau líta á andlegar og siðferðilegar meginreglur sem undirstöður að upphafningu mannkyns og hvers kyns framförum. Með þessum hætti efla þau og útbreiða menningu friðar og sátta. Þátttaka í umræðum um fjölmarga þætti friðar og einingar er önnur leið sem fylgjendur Bahá’u’lláh fara til að hjálpa sálum að tileinka sér framtíðarsýn, sem er langt ofar áskorunum og takmörkunum nútíma þjóðfélags, og starfa í sameiningu að betri skilningi á grundvallarforsendum friðsæls samfélags og að gera slíkt samfélag að veruleika. Að útskýra og víkka sjónarhorn bahá’ía á friði í heiminum er langt utan ramma þessa bréfs, en við vonum að þar geti bréf okkar, dagsett 18. janúar 2019 stílað á bahá’ía um allan heim, orðið ykkur til hjálpar.
Enginn vafi er á því að þið, ástvinir ‘Abdu’l‑Bahá, haldið áfram að uppfylla vonir hans á þessu nýja ári og njótið áfram staðfestingar og aðstoðar, fullir vissu og ánægju á þessari braut:
Ég vona að þetta nýja ár færi hamingju og blessun og leiði til guðlegrar aðstoðar og stuðnings svo að þið verðið orsök einingar í heiminum, kunngerið einingu mannkyns, gerið óvini að vinum og hina þurfandi að trúnaðarmönnum leyndardómanna um hinn mesta frið heimsins.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]