Allsherjarhús réttvísinnar
28. nóvember 2023
Til bahá’ía um allan heim
Ástkæru vinir
Mitt á hljóðri og dimmri nótt þann 27. nóvember 2021 var aldarártíðar ‘Abdu’l‑Bahá minnst við hátíðlega athöfn í námunda við helgidóm hans. Þar komu saman nærfellt sex hundruð fulltrúar andlegra þjóðarráða og landshlutaráða, ásamt meðlimum Allsherjarhúss réttvísinnar, Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar auk starfsfólks Bahá’í heimsmiðstöðvarinnar. Með snúningi jarðar alla þá nótt efndu bahá’í samfélög um allan heim til helgistunda í hverfum sínum og þorpum, bæjum og borgum, til að heiðra stórmenni sem á sér enga hliðstæðu í trúarsögunni og hugleiða þau afreksverk heillar aldar sem hann átti upptökin að.
Þetta samfélag – fylgjendur Bahá og ákafir elskendur ‘Abdu’l‑Bahá – telur nú milljónir fylgjenda og nær í dag til um eitt hundrað þúsund byggðarlaga í 235 löndum og sjálfstjórnarsvæðum. Það birtist nánast óþekkt í upphafi en skipar nú sinn sess á heimsvettvangi. Það hefur byggt upp kerfi þúsunda stofnana, allt frá grasrótinni upp á hið alþjóðlega svið og sameinar fólk af fjölbreyttum uppruna sem á sér það sameiginlega markmið að tjá kenningar Bahá’u’lláh um andlega umbreytingu og félagslegar framfarir. Víða hafa fyrirmyndir þess um uppbyggingu lifandi og þróttmikilla svæðissamfélaga náð til þúsunda – og sums staðar tugþúsunda – sálna. Á þessum stöðum eru í mótun nýir lífshættir sem einkennast af tilbeiðslu, skuldbindingu ungmenna við menntun og þjónustu, innihaldsríkum samræðum fjölskyldna, vina og kunningja um mikilvæg andleg og félagsleg málefni og af sameiginlegum aðgerðum sem miða að efnislegum og félagslegum framförum. Heilög rit trúarinnar hafa verið þýdd á meira en átta hundruð tungumál. Bygging þjóðar- og svæðistilbeiðsluhúsa er forboði framtíðarmiðstöðva sem verða helgaðar tilbeiðslu og þjónustu. Aðsetur andlegrar og stjórnarfarslegrar heimsmiðstöðvar trúarinnar hefur verið stofnað í tvíburaborgunum helgu, ‘Akká og Haifa. Og þrátt fyrir núverandi og augljósar takmarkanir samfélagsins þegar þær eru skoðaðar í samhengi við hugsjónir þess og hæstu væntingar – og fjarlægðina sem aðskilur það lokamarkmiði þess, einingu mannkyns – hafa auðlindir þess, stofnanahæfni, getan til að tryggja kerfisbundinn vöxt og þróun, tengslin við stofnanir sem eru sama sinnis, samfélagsþátttaka og uppbyggileg þjóðfélagsáhrif náð fordæmalausum sögulegum árangri.
Trúnni hefur svo sannarlega munað á leið frá því ‘Abdu’l‑Bahá yfirgaf þennan heim fyrir einni öld! Að morgni þess sorgardags barst fregnin af andláti hans um Haifa og hjörtun urðu harmi slegin. Þúsundir komu saman við útför hans: ungir og gamlir, háir og lágir, háttsettir embættismenn og almúgafólk – gyðingar og múslímar, drúsar og kristnir, auk bahá’íanna. Aldrei hafði slíkur mannsöfnuður sést í borginni. Í augum heimsins var ‘Abdu’l‑Bahá baráttumaður fyrir allsherjarfriði og einingu mannkyns. Hann var málsvari réttlætis og verndari hinna kúguðu. Íbúum ‘Akká og Haifa var hann ástríkur faðir og vinur, vitur ráðgjafi og athvarf allra sem bjuggu við neyð og skort. Við útför hans tjáðu þeir djúpa ást sína og hryggð af hjartans innsta sárleik.
En vitaskuld voru það bahá’íarnir sem fundu mest fyrir missi hans. Hann var sú dýrmæta gjöf, sem opinberandi Guðs hafði gefið, þeim til leiðsagnar og verndar, sjálf Miðja og innsti veigur óviðjafnanlegs sáttmála Bahá’u’lláh, fullkomin fyrirmynd kenninga hans, óskeikull túlkandi orðs hans, holdgerving sérhverrar bahá’í hugsjónar. Allt sitt líf hafði ‘Abdu’l‑Bahá verið óþreytandi í þjónustu sinni við Bahá’u’lláh og stóð fullkomlega undir því heilaga trausti sem Faðir hans hafði sýnt honum. Hann verndaði það dýrmæta fræ sem sáð hafði verið og hlúði að því dyggilega. Hann stóð vörð um málstaðinn í frumbernsku hans, stjórnaði útbreiðslu hans á Vesturlöndum og lagði þar grunninn að vöggu stjórnskipulagsins. Hann leiðbeindi átrúendunum þegar þeir tóku sín fyrstu skref í málstaðnum og ól upp sveitir kappa og dýrlinga. Með eigin höndum jarðsetti hann helgar leifar Bábsins í helgidóminum sem hann reisti á Karmelfjalli, hlúði dyggilega að báðum helgidómum trúarinnar og lagði grunninn að heimsmiðstöð hennar. Hann verndaði trúna fyrir yfirlýstum óvinum hennar, innan trúarinnar og utan. Hann opinberaði dýrmæta áætlun um útbreiðslu kenninga Bahá’u’lláh meðal allra þjóða heims, auk sáttmálans sem kallaði fram og hratt af stað ferlum stjórnskipulagsins. Líf hans spannaði allt tímabil hetjualdarinnar sem hófst með yfirlýsingu Bábsins, og uppstigning hans markaði upphaf og undanfara nýrrar aldar sem átrúendurnir vissu ekki hvað bæri í skauti sér og færði átrúendunum áður óþekkta reynslu og áskoranir. Hvað skyldi nú bíða ástvina hans? Án návistar hans og stöðugrar leiðsagnar virtist framtíðin óviss og gleðisnauð.
Shoghi Effendi var niðurbrotinn yfir fréttunum um andlát afa síns, ‘Abdu’l‑Bahá, og hraðaði sér til landsins helga frá Englandi þar sem hann stundaði nám. Þar varð hann öðru sinni fyrir þungu áfalli. ‘Abdu’l‑Bahá hafði útnefnt hann Verndara og leiðtoga trúarinnar og falið honum umsjá bahá’í heimsins. Þrátt fyrir sorg sína og sálarkvöl axlaði Shoghi Effendi þá miklu byrði sem þessi staða lagði honum á herðar. Með óbifandi stuðningi og umhyggju Bahíyyih Khánum, ástkærrar dóttur Bahá’u’lláh, hóf hann að meta aðstæður og horfur hins kornunga samfélags.
Átrúendur um allan heim tóku tilkynningunni um skipun Shoghi Effendi sem Verndara trúarinnar með hugarlétti, þakklæti og hollustuyfirlýsingum. Í erfðaskrá sinni hafði Meistarinn fullvissað þá um að hann myndi ekki skilja þá eftir eina, og það mildaði angistina yfir viðskilnaðinum við hann. Fáeinir svikust þó undan merkjum og risu gegn útvöldum erfingja ‘Abdu’l‑Bahá, knúnir metnaðargirnd og sjálfshyggju. Við svik þeirra á þessu mikilvæga breytingaskeiði bættust ný vélabrögð yfirlýstra andstæðinga Meistarans. En þrátt fyrir þessar raunir og áhyggjur og aðrar ógnvekjandi hindranir sem mættu Shoghi Effendi hóf hann að virkja meðlimi hinna vítt dreifðu bahá’í samfélaga til þess að geta tekist á hendur það volduga verkefni að leggja grunninn að stjórnskipulaginu. Einstaklingar sem áður höfðu heillast af einstæðum persónuleika ‘Abdu’l‑Bahá, fóru smám saman að samræma störf sín til þess að geta tekist á við eitt sameiginlegt og viðamikið verkefni undir þolinmóðri en ákveðinni leiðsögn Verndarans.
Þegar bahá’íarnir byrjuðu að axla nýjar skyldur sínar, brýndi Shoghi Effendi fyrir þeim hversu takmarkaðan skilning þeir enn hefðu á þeirri heilögu opinberun sem þeir höfðu eignast og hversu gríðarmiklar áskoranir blöstu við þeim. „Hversu yfirgripsmikil er ekki opinberun Bahá’u’lláh! Hversu ríkulegum blessunum hefur Hann ekki úthellt yfir mannkynið á þessum degi!“ skrifaði hann. „Og hversu fátæklegar og ófullnægjandi eru samt ekki hugmyndir okkar um þýðingu þeirra og dýrð! Þessi kynslóð stendur of nálægt svo stórkostlegri opinberun til að geta metið til fulls takmarkalausa möguleika trúar Hans, fordæmalaust eðli málstaðar Hans og dularfullar ráðsályktanir forsjónar Hans.“ „Efni og innihald erfðaskrár Meistarans er langt ofar skilningi þessarar kynslóðar“, skrifaði ritari hans fyrir hans hönd. „Starfa þarf af raunverulegu kappi í að minnsta kosti heila öld áður en hægt verður að opinbera þá fjársjóði viskunnar sem hún geymir.“ Til að geta skilið eðli og víddir þeirrar sýnar sem Bahá’u’lláh hafði á nýtt heimsskipulag útskýrði Verndarinn: „Við verðum að treysta því að tíminn og leiðsögn Allsherjarhúss réttvísinnar, sem Guð hefur mælt fyrir um, muni færa okkur fyllri og skýrari skilning á fyrirmælum hennar og vísbendingum.“
Nú þegar unnið hefur verið af „raunverulegu kappi“ í heila öld erum við komin á sjónarhól þaðan sem við getum aflað nýrrar innsýnar. Við viljum því í tilefni þessarar afmælishátíðar staldra við og ígrunda með ykkur viskuna sem felst í ákvæðum erfðaskrárinnar, rekja framvindu trúarinnar, skoða samhengið í lífrænni þróun hennar, greina möguleikana sem felast í ferlunum sem knýja framgang hennar og meta fyrirheitin sem hún gefur um næstu áratugi þegar kraftur hennar til að endurmóta samfélagið verður sífellt ljósari í heiminum með vaxandi áhrifum stórfenglegrar opinberunar Bahá’u’lláh.
Hið ritaða orð gert að veruleika
Tilgangur Bahá’u’lláh er að hefja nýjan áfanga í mannlegri þróun – lífræna og andlega einingu þjóða og kynkvísla heimsins – og gefa þar með til kynna að mannkynið er að fullorðnast; áfangi sem í fyllingu tímans einkennist af hnattrænni siðmenntun og menningu. Það var í þessu skyni sem Hann opinberaði kenningar sínar um innri og ytri umbreytingu mannlífsins. „Sérhvert orð sem þessi Penni hefur opinberað er bjart og skínandi hlið sem opnast að vegsemdum heilags og guðrækilegs lífs, hreinna og flekklausra dáða“, sagði Hann. Og í ótal töflum greindi Hann, græðarinn guðdómlegi, meinin sem hrjá mannkynið og birti læknisdóm sinn sem veldur „upphafningu, framförum, menntun, vernd og endursköpun þjóða jarðarinnar“. Bahá’u’lláh útskýrði: „Hvatningarnar og boðskapurinn sem Vér létum frá Oss fara áttu aldrei að gagnast aðeins einu landi eða einni þjóð.“ Hann ritaði „Sérhverjum manni sem gæddur er innsæi og skilningi ber að leitast við að gera að veruleika það sem ritað er. … Sæll og gifturíkur er sá sem hefst handa um að efla það sem er þjóðum og ættkvíslum jarðar til mestra hagsbóta.“
Starfið að uppbyggingu þroskaðs, friðsæls, réttláts og sameinaðs heims er feiknamikið verkefni sem allir menn og allar þjóðir verða að geta tekið þátt í. Bahá’í samfélagið býður alla velkomna til starfa að þessu verkefni sem virka gerendur í andlegu framtaki sem getur sigrast á þeim upplausnaröflum sem grafa undan gamla þjóðskipulaginu og komið áþreifanlegri mynd á samþættingarferli sem leiðir til þróunar nýs skipulags. Mótunaröldin er það stórmikilvæga tímabil í þróun trúarinnar þar sem vinirnir læra í auknum mæli að meta að verðleikum það ætlunarverk sem Bahá’u’lláh hefur falið þeim, dýpka skilning sinn á merkingu og vísbendingum opinberaðs orðs Hans og rækta kerfisbundið sína eigin hæfni og annarra til að gera kenningar Hans um betri heim að veruleika.
Þegar Shoghi Effendi tók við forystuhlutverki sínu byrjaði hann strax að leiðbeina bahá’íunum í viðleitni þeirra til að öðlast dýpri skilning á ætlunarverki sem myndi skilgreina sjálfsmynd þeirra og tilgang. Hann útskýrði fyrir þeim þýðinguna með komu Bahá’u’lláh, sýn Hans fyrir mannkynið, sögu málstaðarins, ferlin sem endurmóta samfélagið og það hlutverk sem bahá’íar verða að gegna til að geta lagt af mörkum til framþróunar mannkyns. Hann útskýrði eðli þróunarferla bahá’í samfélagsins til þess að vinirnir myndu skilja að það ætti eftir að taka miklum og oft óvæntum breytingum á næstu áratugum og öldum. Hann lýsti einnig tvíhorfsþróun kreppu og sigurs og bjó þá undir þá torsóttu vegferð sem fram undan var. Hann hvatti bahá’íana til að fága skaphöfn sína og eðlisgerð og skerpa hugann til þess að geta tekist á við þær áskoranir sem fylgja því að byggja upp nýjan heim. Hann hvatti þá til að örvænta ekki þótt á vegi þeirra yrðu vandamál kornungs samfélags í örri þróun eða skortur og hnignandi umhverfi ólgusamra tíma, og hann minnti þá á að fyrirheit Bahá’u’lláh myndi rætast til fulls í framtíðinni. Hann útskýrði að bahá’íar ættu að vera sem súrdeig, hafa gagntæk og endurlífgandi áhrif sem gætu gefið öðrum innblástur og fengið þá til að rísa til dáða og sigrast á rótgrónu mynstri klofnings, átaka og baráttu um völd og uppfylla þannig að endingu æðstu væntingar mannkynsins.
Jafnframt því sem Verndarinn styrkti og treysti þessi breiðu svið skilnings og merkingar, leiðbeindi hann átrúendunum hvernig þeir gætu lært skref fyrir skref að leggja grunn að stjórnskipulaginu með skilvirkum hætti og deila kenningum Bahá’u’lláh á kerfisbundinn hátt með öðrum. Hann stýrði starfi þeirra af þolinmæði með því að útskýra smám saman eðliseinkennin, meginreglurnar og verklagið sem auðkenna þessa stjórnskipan og jók um leið hæfni þeirra til að kenna trúna, bæði sem einstaklingar og sameiginlega. Hann markaði stefnuna í sérhverju mikilvægu máli, átrúendurnir tóku síðan ráð saman og kappkostuðu að beita leiðsögn hans, skýra honum frá reynslu sinni og spyrja hann ráða þegar þeir glímdu við flókin vandamál og erfiðleika. Verndarinn tók síðan mið af þessari uppsöfnuðu reynslu, gaf þeim frekari leiðsögn og útfærði þær hugmyndir og meginreglur sem gætu gert vinunum kleift að leiðrétta og koma lagi á aðgerðir sínar eftir þörfum uns viðleitni þeirra bæri árangur og hægt væri að nýta reynslu þeirra á víðari vettvangi. Vinirnir brugðust við leiðsögn hans með því að sýna óbilandi trú á sannleika hins opinberaða orðs, óbifandi traust á sýn hans og óskeikula visku, og óhagganlegan ásetning til að breyta ýmsu í lífi sínu til samræmis við það mynstur sem birtist í kenningunum. Þannig jókst smám saman hæfni samfélagsins til að læra hvernig beita eigi kenningunum. Árangurinn af þessari nálgun kom best í ljós þegar starfið í stjórnartíð Verndarans náði hámarki og bahá’í heimurinn sameinaði krafta sína í einstæðum afrekum tíu ára andlegu herferðarinnar.
Eftir að Shoghi Effendi lést hélt Allsherjarhús réttvísinnar áfram að útfæra það starf sem hann hafði unnið við að beina átrúendunum inn á braut lærdóms og þekkingar. Á lokaárum fyrsta árhundraðs mótunaraldarinnar hafði góður skilningur fengist á mjög mikilvægum þáttum lærdómsferlisins, sem var rétt að hefjast í upphafi þeirrar aldar, og bahá’íar um allan heim höfðu innleitt það með kerfisbundnum hætti á öllum sviðum viðleitni sinnar.
Þeir starfshættir sem auðkenna bahá’í samfélagið eru nám, samráð, aðgerðir og ígrundun. Samfélagið eykur stöðugt hæfni sína til að beita kenningunum í margskonar félagslegu umhverfi og starfar með öðrum í hinu víðara samfélagi sem deila með því löngun til að blása nýju lífi í efnislegar og andlegar undirstöður þjóðskipulagsins. Í deiglu þessa umbreytandi umhverfis verða einstaklingar og samfélög virkir gerendur í sínu eigin þroskaferli, að því marki sem mögulegt er. Að taka einingu mannkyns opnum örmum útilokar fordóma og framandleika, andlega víddin í lífi mannsins er ræktuð með því að fylgja meginreglum fast eftir og styrkja þann anda trúrækni og tilbeiðslu sem einkennir samfélagið. Hæfni til lærdóms er þróuð og henni beint að persónulegri og félagslegri umbreytingu. Viðleitnin til að skilja þýðingu þess sem Bahá’u’lláh hefur opinberað og beita græðandi læknisdómi Hans er nú skýrari og yfirvegaðri og orðin varanlegur þáttur í bahá’í menningu. Meðvituð tök á lærdómsferlinu og útfærslu þess um allan heim, frá grasrótinni til hins alþjóðalega vettvangs, eru meðal ágætustu ávaxta fyrsta árhundraðs mótunaraldarinnar. Þetta ferli mun í auknum mæli upplýsa starf allra stofnana, samfélaga og einstaklinga á komandi árum þegar bahá’í heimurinn tekst á við sífellt stærri áskoranir og leysir úr læðingi samfélagsuppbyggjandi kraft trúarinnar í stöðugt ríkari mæli.
Í viðleitni sinni til að hjálpa vinunum við að skilja þróun málstaðarins og ábyrgð sína á henni, vísaði Shoghi Effendi til „þess þríþætta aflvaka sem skapaðist með opinberun Bahá’u’lláh á Töflu Karmels ásamt Töflum hinnar guðlegu áætlunar og erfðaskránni sem Miðja sáttmála Hans lét eftir sig. Þessar þrjár stofnskrár hafa hrundið af stað þremur auðkenndum þróunarferlum. Hið fyrsta er að verki í þróun stofnana trúarinnar í heimsmiðstöð hennar í landinu helga og hin ferlin tvö eru að verki um allan bahá’í heiminn í útbreiðslu trúarinnar og stofnun stjórnskipulags hennar.“ Ferlin sem tengjast þessum guðlegu stofnskrám eru samtvinnuð og styrkja hvert annað. Stjórnskipulagið er aðaltækið í framkvæmd hinnar guðlegu áætlunar og áætlunin sjálf er öflugasta stjórntækið í þróun stjórnarfyrirkomulags trúarinnar. Viðgangur Heimsmiðstöðvarinnar, sem er hjarta- og taugamiðstöð stjórnskipulagsins, hefur ótvíræð áhrif á allt heimssamfélagið og lífskraftur þess orkar að sínu leyti á framgang hennar. Bahá’í heiminum fleygir stöðugt fram og hann þróast á lífrænan hátt þegar einstaklingar, samfélög og stofnanir leitast við að sýna í verki sannleikann í opinberun Bahá’u’lláh. Nú í lok fyrsta árhundraðs mótunaraldarinnar, fær bahá’í heimurinn betri skilning á þeirri þýðingu sem þessar ódauðlegu stofnskrár hafa fyrir þróun trúarinnar. Og vegna þess að skilningur bahá’ía á ferlinu sem þeir taka þátt í hefur aukist, geta þeir lagt betra mat á sína eigin reynslu á liðinni öld og beitt sér með skilvirkari hætti til að ná fram markmiðum Bahá’u’lláh fyrir mannkynið á þeim áratugum og öldum sem fram undan eru.
Ævarandi varðveisla sáttmálans
Til að varðveita einingu trúarinnar, tryggja heilindi og sveigjanleika kenninga sinna og framfarir alls mannkyns, gerði Bahá’u’lláh sáttmála við fylgjendur sína sem gegnir einstæðu hlutverki í annálum trúarbragðasögunnar í krafti myndugleika síns og skýrra og yfirgripsmikilla eðliseinkenna. Í helgustu bók Hans og í bók sáttmála Hans, sem og öðrum töflum, kvað Bahá’u’lláh svo á, að eftir sinn dag ættu vinirnir að snúa sér til ‘Abdu’l‑Bahá, Miðju þess sáttmála, um leiðsögn varðandi málefni trúarinnar. Í erfðaskrá sinni gerði ‘Abdu’l‑Bahá sáttmálann að ævarandi stofnskrá með ákvæðum um stjórnskipulagið sem Bahá’u’lláh mælir fyrir um í ritum sínum, og tryggði þannig áframhaldandi vald og forystu tvíburastofnana Verndarans og Allsherjarhúss réttvísinnar og jafnframt traust tengsl milli einstaklinga og stofnana innan trúarinnar.
Sagan leiðir skýrt í ljós að trúarbrögðin geta ýmist þjónað sem öflug leið til samstarfs og viðgangs siðmenningar eða sem uppspretta átaka og þess ómælda skaða sem þau hafa í för með sér. Sameiningar- og siðmenntunarmætti trúarbragðanna hnignar þegar fylgjendur þeirra verða ósammála um merkingu og beitingu guðlegra kenninga og samfélag þeirra klofnar að endingu í andstæða sértrúarflokka og söfnuði. Tilgangur opinberunar Bahá’u’lláh er að sameina mannkynið og allar þjóðir þess. Þessum síðasta og hæsta áfanga í þróun samfélagsins verður ekki náð ef bahá’í trúin verður fórnarlamb sértrúarhyggju og útvötnunar hins guðlega boðskapar líkt og gerðist í fortíðinni. Ef bahá’íar „geta ekki sameinast um eina miðju,“ segir ‘Abdu’l‑Bahá, „hvernig eiga þeir að geta sameinað mannkynið?“ Og hann staðfestir: „Máttur sáttmálans er í dag krafturinn í heimi tilverunnar. Honum má líkja við lífæð hins stundlega heims sem verndar einingu bahá’í trúarinnar.“
Sigur sáttmálans er mesta afrek liðinnar aldar. Sáttmálinn verndaði trúna gegn sundrungu og knúði hana til að taka valdeflingu allra manna og þjóða opnum örmum og leggja sitt af mörkum til hennar. Við rætur trúarinnar er þessi knýjandi spurning Bahá’u’lláh: „Hvar ætlar þú að festa akkeri trúar þinnar og treysta bönd þín við hlýðnina?“ Spurningin fær nýja og mikilsverða þýðingu fyrir þá sem viðurkenna Hann sem opinberanda Guðs fyrir okkar tíma. Hún er ákall um staðfestu í sáttmálanum. Viðbrögð bahá’í samfélagsins hafa sýnt óhagganlega hollustu við ákvæði erfðaskrár ‘Abdu’l‑Bahá. Ólíkt því sem gerist í tengslunum við veraldlega valdið þar sem valdhafinn knýr þegnana til hlýðni, stjórna meðvituð þekking og ást tengslunum milli opinberanda Guðs, átrúendanna og myndugleikans sem sáttmálinn og samfélagið kveða á um. Með því að viðurkenna Bahá’u’lláh skuldbindur átrúandinn sig af fúsum og frjálsum vilja til að halda sáttmála Hans, og fylgir ákvæðum hans staðfastlega vegna ástar á Honum. Í lok fyrsta árhundraðs mótunaraldar hefur bahá’í heimurinn fengið fyllri skilning á ákvæðum og viðbrögðum við sáttmála Bahá’u’lláh og sérstök tengsl hafa myndast milli átrúendanna sem sameina krafta þeirra og beina þeim í farveg þess heilaga ætlunarverks sem þeir takast á hendur. Eins og svo margt annað var þetta ávöxturinn af kreppunum sem þeir höfðu sigrast á.
Tilvist sáttmálans þýðir ekki að aldrei verði reynt að kljúfa trúna, skaða hana eða hefta framgang hennar. Hann tryggir þó að allar tilraunir af slíku tagi eru dæmdar til að mistakast. Eftir fráfall Bahá’u’lláh sáðu nokkrir metnaðarfullir einstaklingar, þar á meðal bræður ‘Abdu’l‑Bahá, fræjum efasemda innan samfélagsins og reyndu að sölsa undir sig valdsumboðið sem Bahá’u’lláh hafði veitt ‘Abdu’l‑Bahá, og þannig tókst þeim stundum að villa fyrir þeim sem hikuðu og reyna á þolrifin í þeim. Í stjórnartíð sinni varð Shoghi Effendi ekki aðeins fyrir árásum þeirra, sem höfðu rofið sáttmálann og beitt sér gegn ‘Abdu’l‑Bahá í forystuhlutverki hans, heldur einnig nokkurra innan samfélagsins sem höfnuðu réttmæti stjórnskipulagsins og drógu vald Verndarstofnunarinnar í efa. Eftir fráfall Shoghi Effendi mörgum árum síðar varð sáttmálinn fyrir nýrri atlögu villuráfandi einstaklings sem þjónað hafði í mörg ár sem hönd málstaðar Guðs en gerði samt misheppnaða og tilefnislausa kröfu um að verða skipaður í stöðu Verndara þrátt fyrir skýr ákvæði erfðaskrárinnar. Eftir kosningu Allsherjarhúss réttvísinnar beindu virkir andstæðingar málstaðarins skeytum sínum líka að því. Á undanförnum áratugum hafa nokkrir einstaklingar innan samfélagsins, sem töldu sig búa yfir meiri þekkingu en aðrir, reynt án árangurs að endurtúlka bahá’í kenningar sem lúta að ákvæðum sáttmálans til að draga myndugleika Allsherjarhúss réttvísinnar í efa og krefjast ákveðinna forréttinda í fjarveru lifandi Verndara sem myndu gera þeim kleift að beina málefnum trúarinnar í farvegi sem þeim var best að skapi.
Sáttmálinn sem Bahá’u’lláh stofnaði og ‘Abdu’l‑Bahá setti í gildi um alla framtíð sætti í meira en heila öld ýmsum árásum innri og ytri andstæðinga trúarinnar en þær báru aldrei neinn árangur. Þótt einhverjir hafi verið leiddir á villigötur hverju sinni eða orðið trúnni fráhverfir, náðu árásirnar aldrei að beina málstaðnum af braut sinni, endurskilgreina hann eða mynda varanlegan klofning í samfélaginu. Í öllum slíkum tilvikum var spurningum svarað og vandamál leyst með leiðsögn Miðju málstaðarins á hverjum tíma – ‘Abdu’l‑Bahá, Verndarans eða Allsherjarhúss réttvísinnar. Þegar staðfesta í sáttmálanum og skilningur átrúendanna á honum jókst lærðu þeir að brynja sig fyrir árásum og rangfærslum sem fyrr á tímum ógnuðu tilvist og tilgangi trúarinnar. Heiðri og heilindum málstaðar Bahá’u’lláh verður aldrei stefnt í voða.
Hversu mikið andlegt innsæi sem hver og ein kynslóð bahá’ía hefur til að bera, mun skilningur hennar á þýðingu kenninga Bahá’u’lláh óhjákvæmilega afmarkast af sögulegum aðstæðum hennar og því hvar trúin er stödd í lífrænni þróun sinni. Á hetjuöld trúarinnar, til dæmis, þurftu átrúendurnir að sigla milli skers og báru á tímum sem komu þeim vissulega stundum fyrir sjónir sem yfirþyrmandi og umbyltandi breytingaskeið, allt frá trúarkerfi Bábsins til trúarkerfis Bahá’u’lláh og síðan á tímum ‘Abdu’l‑Bahá. Þegar litið er yfir farinn veg í ljósi leiðsagnar Shoghi Effendi blasir við sú staðreynd að allt voru þetta áfangar í samfelldri guðlegri framvindu. Eftir þrotlaust starf samfélagsins í heila öld, hina fyrstu á mótunaröldinni, getum við áttað okkur betur í dag á þýðingu, tilgangi og óspillanleika sáttmálans – þeim ómetanlega arfi sem Bahá’u’lláh hefur ánafnað komandi kynslóðum fylgjenda sinna. Sá skilningur á eðli sáttmálans sem fengist hefur með ærnu erfiði, og staðfestan sem slík innsýn skapar og viðheldur, mun áfram verða grundvallarregla einingar og framfara í þessu trúarkerfi.
Nú er ljóst og rækilega staðfest að sáttmáli Bahá’u’lláh kveður á um tvær valdmiðjur. Hin fyrri er Bókin, það er að segja opinberun Bahá’u’lláh, ásamt verkum ‘Abdu’l‑Bahá og Shoghi Effendi sem varðveita viðurkennda túlkun og skýringar á hinu skapandi orði. Með fráfalli Shoghi Effendi lauk meira en heillar aldar útfærslu á þessari valdmiðju. Tilvist Bókarinnar tryggir samt sem áður að opinberunin er aðgengileg öllum átrúendum, og raunar öllu mannkyni, óspillt af mannlegum rangtúlkunum eða viðaukum.
Hin valdmiðjan er Allsherjarhús réttvísinnar, sem lýtur umsjá og óskeikulli leiðsögn Bahá’u’lláh og Bábsins, eins og helgiritin staðfesta. „Enginn skyldi ímynda sér að Hús réttvísinnar taki nokkra ákvörðun á grundvelli eigin hugmynda og skoðana,“ útskýrir ‘Abdu’l‑Bahá. „Guð forði því! Æðsta Hús réttvísinnar tekur ákvarðanir og setur lög sem eru staðfest og innblásin af heilögum anda, því að það er undir vernd, og í skjóli og umsjá Hinnar öldnu fegurðar“. „Guð mun sannarlega blása þeim í brjóst því sem Honum þóknast,“ segir Bahá’u’lláh. Shoghi Effendi segir: „Það eru þeir sjálfir en ekki átrúendurnir sem kjósa þá beint eða óbeint, sem eru viðtakendur guðlegrar leiðsagnar sem er í senn lífsblóð og endanleg vernd þessarar opinberunar.“
Völdin og skyldurnar sem Húsi réttvísinnar eru faldar ná til allra þátta sem nauðsynlegir eru til að tryggja að áform Bahá’u’lláh fyrir mannkynið nái fram að ganga. Í meira en hálfa öld hefur bahá’í heimurinn upplifað framkvæmd þeirra og umfang frá fyrstu hendi, þar á meðal útbreiðslu og kynningu á lögum Guðs, varðveislu og miðlun bahá’í helgirita, uppbyggingu stjórnskipulagsins og sköpun nýrra stofnana, hönnun stigbundinna áfanga í framvindu hinnar guðlegu áætlunar, verndun trúarinnar og varðveislu einingar hennar, auk starfs sem miðar að því að tryggja mannlega reisn, framgang heimsins og upplýsingu þjóða hans. Útskýringar Allsherjarhússins leysa úr öllum erfiðum vandamálum, óljósum spurningum, vandkvæðum sem valda ágreiningi og málum sem ekki eru sérstaklega tilgreind í Bókinni. Allsherjarhúsið mun halda áfram að veita leiðsögn allt þetta trúarkerfi í samræmi við kröfur tímanna og tryggja þannig að málstaðurinn geti sem ein lífræn heild lagað sig að þörfum og kröfum þjóðfélags sem er í stöðugri breytingu. Og það tryggir að enginn getur breytt eðli boðskapar Bahá’u’lláh eða grundvallareinkennum málstaðarins.
Í Kitáb-i-Íqán spyr Bahá’u’lláh: „Hvaða „þrenging“ er hörmulegri en sú, að sál sem leitar sannleikans og vill öðlast þekkingu á Guði skuli ekki vita frá hverjum eða hvar hennar skuli leitað?“ Heimur sem að mestu er óvitandi um ljós opinberunar Bahá’u’lláh verður sífellt klofnari og ráðvilltari í málum sem snúa að sannleika, siðferði, sjálfsmynd og tilgangi, og hann stendur ráðþrota gagnvart auknum hraða og tærandi áhrifum upplausnaraflanna. Sáttmálinn er bahá’í samfélaginu hins vegar uppspretta frelsis og styrks, athvarfs og skýrrar hugsunar. Sérhverjum átrúanda er frjálst að kanna úthaf opinberunar Bahá’u’lláh, komast að persónulegri niðurstöðu, deila skilningi sínum og innsýn af auðmýkt með öðrum og leitast við að beita kenningunum á hverjum degi. Sameiginlegt starf er samhæft og markvisst með samráði og leiðsögn stofnananna, og hefur í för með sér breytingu á tengslum milli einstaklinga, innan fjölskyldna og samfélaga og stuðlar að félagslegum framförum.
Þessar tvær valdmiðjur sáttmálans veita einstaklingum, samfélögum og stofnunum nauðsynlega leiðsögn til að þróa trúna og varðveita heiður og heilindi kenninganna í krafti ástar þeirra á Bahá’u’lláh og fullvissu um skýr og skilmerkileg boð Hans. Þannig verndar og varðveitir sáttmálinn framgang skoðanaskipta og lærdóms um þýðingu opinberunarinnar og framkvæmd fyrirmæla hennar fyrir mannkynið meðan þetta trúarkerfi stendur, og forðar því frá skaðlegum áhrifum endalausra deilna um merkingu og framkvæmd. Fyrir vikið er jafnvægið milli einstaklinga, samfélaga og stofnana varðveitt og þróað í sínum rétta farvegi, og jafnframt er öllum gert kleift að öðlast fulla hæfni og nýta krafta sína og réttindi. Þannig getur bahá’í samfélagið sótt fram í sameiningu og uppfyllt í sívaxandi mæli stórmikilvægan tilgang sinn með því að rannsaka veruleikann og afla þekkingar, víkka út viðleitni sína og stuðla að framgangi siðmenningar. Eftir meira en öld verður sannleikurinn í orðum ‘Abdu’l‑Bahá sífellt ljósari: „Ás einingarinnar í heimi mannkynsins er máttur sáttmálans og ekkert annað“.
Framvinda stjórnskipulagsins
Auk þess sem ‘Abdu’l‑Bahá setti sáttmálann í gildi um alla framtíð, var í erfðaskrá hans lagður grunnur að öðru mikilvægasta afreki fyrstu aldar mótunaraldarinnar: tilurð og þróun stjórnskipulagsins, barni sáttmálans. Stjórnskipulagið sem í upphafi lagði áherslu á kjörnar stofnanir óx á einni öld að breidd og margbreytileika og þróaðist um allan heim uns það tengdi saman allar þjóðir, lönd og landsvæði. Rit Bahá’u’lláh og ‘Abdu’l‑Bahá, sem kváðu á um þessar stofnanir, færa þeim einnig sýn og andlegt umboð til þess að aðstoða mannkynið við að byggja upp réttlátan og friðsælan heim.
Með stjórnskipulagi trúar sinnar hefur Bahá’u’lláh tengt einstaklinga, samfélög og stofnanir og gert þær að höfuðgerendum í kerfi sem á sér enga hliðstæðu. Í samræmi við þarfir mannkyns á fullþroskaskeiði, nam Hann úr gildi sögulegar venjur þar sem kirkjunnar menn héldu um stjórntauma trúarlegs valds, leiðbeindu samfélagi hinna trúuðu og stjórnuðu málefnum þeirra. Til að koma í veg fyrir átök innbyrðis stríðandi hugmyndafræða markaði Hann leiðir til samvinnu þar sem leitað er sannleikans og mannlegrar velferðar. Í stað leitar að yfirráðum og valdi yfir öðrum, kynnti Hann skipulag sem ræktar dulda krafta einstaklingsins og beitingu þeirra í þágu almannaheillar. Traustverðleiki, sannleiksást, ráðvendni, umburðarlyndi, ást og eining eru meðal þeirra andlegu eiginleika sem leggja grunn að tengslunum milli þriggja höfuðgerenda þessara nýju lífshátta, og allt starf að félagslegum framförum mótast af sýn Bahá’u’lláh á einingu mannkyns.
Þegar ‘Abdu’l‑Bahá féll frá samanstóðu stofnanir trúarinnar af fáeinum svæðisráðum sem störfuðu á ólíkan hátt. Aðeins örfáar sérstofnanir störfuðu ofar svæðisráðunum og engin andleg þjóðarráð voru til. Bahá’u’lláh hafði skipað fjórar hendur málstaðarins í Íran og ‘Abdu’l‑Bahá stjórnaði starfi þeirra að framgangi og verndun trúarinnar en fjölgaði þeim ekki umfram þær fjórar hendur sem voru útnefndar að þeim látnum. Fram að þeim tíma átti málstaður Bahá’u’lláh, auðugur í anda og fullur af möguleikum, enn eftir að móta það stjórnarfarslega gangverk sem gæti gert honum kleift að kerfisbinda starfsemi sína.
Fyrstu mánuði sína sem Verndari, hugleiddi Shoghi Effendi möguleikana á því að stofna strax Allsherjarhús réttvísinnar. En eftir að hafa farið yfir stöðu trúarinnar um allan heim, komst hann fljótt að þeirri niðurstöðu að skilyrðin fyrir myndun Allsherjarhús réttvísinnar væru ekki enn fyrir hendi. Þess í stað hvatti hann alla bahá’ía til að einbeita sér að stofnun andlegra svæðis- og þjóðarráða. „Þjóðarráðum verður smám saman og staðfastlega komið á fót í hverju landi og verða þau líkt og stoðir á styrkum grunni svæðisráðanna,“ sagði hann. „Á þessum stoðum mun voldug bygging Allsherjarhúss réttvísinnar rísa í sinni göfugu mynd hátt yfir heim tilvistar.“
Þegar Shoghi Effendi hjálpaði vinunum að skilja hvernig leggja ætti grunn að samfélagi þeirra, lagði hann áherslu á að stjórnskipulagið væri ekki markmið í sjálfu sér heldur tæki til að beina anda trúarinnar í farveg. Hann lagði áherslu á lífræn einkenni bahá’í stjórnskipulagsins og útskýrði að það sé „aðeins fyrsta skrefið í átt til þess sem í framtíðinni verður félagslegur grundvöllur og lögmál samfélagslífsins“ og að „átrúendurnir eru aðeins að byrja að átta sig á stjórnskipuninni og vinna að henni á réttan hátt“. Hann útskýrði einnig að stjórnskipulagið væri „kjarni og mynstur“ þess sem að lokum yrði sú nýja skipan í málefnum mannkyns sem Bahá’u’lláh sá fyrir sér. Og þegar vinirnir byrjuðu að byggja upp stjórnskipulagið, varð þeim ljóst að tengslin milli einstaklinga, samfélaga og stofnana sem voru í mótun ættu eftir að þróast og verða æ margbrotnari, og að hæfnin myndi aukast þegar trúin stækkaði og skapa nýtt lífsmynstur sem sífellt fleiri þjóðir aðhylltust.
Með stöðugum bréfaskiptum leiðbeindi Shoghi Effendi vinunum skref fyrir skref hvernig þeir gætu lært að beita kenningum sem snúa að stjórnskipulaginu og dýpkað skilning sinn á tilgangi þess, nauðsyn, aðferðum, formi, lögmálum, sveigjanleika og starfsháttum. Hann gerði þeim jafnframt grein fyrir því að öll þessi málefni væru byggð á traustum grundvelli bahá’í ritanna. Hann hjálpaði þeim að þróa bahá’í kosningaferlið, stofna og hafa umsjón með bahá’í sjóðnum, skipuleggja landsþing, byggja upp tengsl svæðis- og þjóðarráða auk fjölda annarra mála. Hann vísaði á bug efasemdum og hiki þeirra sem áttu erfitt með að átta sig á nauðsynlegu samhengi menningar og venja í lífi bahá’ía á tímum ‘Abdu’l‑Bahá og þeirra skrefa sem hann, Verndari trúarinnar, varð að taka til að leggja grunn að stjórnskipulaginu fyrir næstu áfangana í þróun trúarinnar. Þegar átrúendurnir sinntu stjórnarfarslegum skyldum sínum, svaraði hann þolinmóður spurningum þeirra, leysti úr vandamálum og hlúði að sameiginlegu lífi bahá’í heimssamfélagsins. Smátt og smátt lærðu vinirnir að vinna í sátt og samlyndi, styðja ákvarðanir stofnana sinna, vinna að framgangi þeirra og gera sér ljóst að bæði skilningur og hæfni til aðgerða myndi aukast með tímanum. Svæðisráðin byrjuðu að starfa samkvæmt samræmdum reglum um kosningar, samráð, fjármál og samfélagslíf. Fyrstu þjóðarráðin voru stofnuð á Bretlandseyjum, í Þýskalandi og Austurríki, Indlandi og Búrma, Egyptalandi og Súdan, Kákasus, Túrkistan og í Bandaríkjunum og Kanada. Í samræmi við lífrænt eðli stjórnskipulagsins voru þjóðarráð oft stofnuð fyrst á svæðum sem náðu til fleiri en eins lands, en þegar átrúendum og svæðisráðum fjölgaði reyndist unnt að stofna þjóðarráð fyrir stök lönd og sjálfsstjórnarsvæði. Í kjölfarið var myndaður fjöldi margs konar nefnda, bæði á svæðis- og landsvísu, til að efla sameiginlegt átak á ýmsum sviðum, þar á meðal við kennslu, þýðingar, útgáfu, menntun, brautruðning og til að skipuleggja nítján daga hátíðir og helgidaga.
Þremur áratugum var varið til að byggja upp stjórnskipulagið á svæðis- og landsvísu en á síðustu árum ævi sinnar hóf Shoghi Effendi nýjan áfanga í þróun þess með því að koma á fót fjölþjóðastofnunum bæði í heimsálfum og á alþjóðavísu. Þessi áfangi hófst með stofnun heimsmiðstöðvar trúar Bahá’u’lláh sem var lengi í undirbúningi í landinu helga. Árið 1951 stofnaði hann Bahá’í alþjóðaráðið. Hann útskýrði að þessi nýja stofnun myndi þróast í ýmsum áföngum og breytast síðan og ná hámarki í stofnun Allsherjarhúss réttvísinnar.
Þessari dramatísku þróun var fylgt eftir í lok sama árs þegar Shoghi Effendi útnefndi tólf hendur málstaðar Guðs sem störfuðu í jöfnum hópum í þremur heimsálfum og í landinu helga. Þessi fyrsti liðsafli handa málstaðarins var útnefndur samkvæmt ákvæðum í erfðaskrá ‘Abdu’l‑Bahá og þessir virtu einstaklingar voru skipaðir í því skyni að efla starf að útbreiðslu og vernd trúarinnar. Tilvist stofnunar sem gegnir svo mikilvægu hlutverki við eflingu hagsmuna málstaðarins á sér enga hliðstæðu í trúarbrögðum fyrri tíma. Hún er þáttur í bahá’í stjórnskipulaginu en hefur hvorki löggjafar-, framkvæmda- né dómsvald, á ekkert skylt við klerkadæmi og hefur engan rétt til viðurkenndrar túlkunar. Eftir margra ára starf að kerfisbundinni uppbyggingu kjörinna ráða og tengdra nefnda, byrjaði Shoghi Effendi að móta þessa stofnun og kenna vinunum að skilja einstæð störf hennar, fagna þeim og styðja þau. Árið 1952 var önnur liðssveit handa málstaðarins útnefnd og þær voru nú nítján talsins. Aðstoðarráðin voru sett á laggirnar árið 1954 en meðlimir þeirra störfuðu sem fulltrúar handanna í hverri heimsálfu. Fram til hins síðasta hélt Verndarinn áfram að stækka þessa stofnun og fjölgaði höndum málstaðarins loks í tuttugu og sjö og stofnaði aðstoðarráð fyrir vernd í viðbót við aðstoðarráð fyrir útbreiðslu.
Þegar Shoghi Effendi hugleiddi störf átrúendanna að uppbyggingu þessa háleita stjórnskipulags útskýrði hann fyrir átrúendunum að margt af því sem stofnað hafði verið til undir handleiðslu hans væri tímabundið. Það væri hlutverk Allsherjarhúss réttvísinnar „að leggja með ákveðnari hætti þær breiðu línur sem munu marka framtíðarstarfsemi og stjórnskipulag“ trúarinnar. Við annað tækifæri skrifaði hann að „þegar þessi æðsta stofnun hefur verið stofnuð á réttan hátt, verður hún að endurmeta alla stöðuna og setja þá meginreglu sem mun stjórna málefnum málstaðarins, svo lengi sem hún telur það ráðlegt“.
Eftir óvænt andlát Shoghi Effendi í nóvember 1957 féll ábyrgðin á málefnum málstaðarins um tíma á herðar Handa málstaðar Guðs. Aðeins mánuði áður höfðu þeir verið tilnefndir af Verndaranum sem „helstu tilsjónarmenn heimssamveldis Bahá’u’lláh á fósturstigi, sem óskeikull penni Miðju sáttmálans hefur fengið það tvíþætta hlutverk að vernda og tryggja útbreiðslu trúar Föður hans“. Hendurnar fylgdu dyggilega og án málamiðlana stefnunni sem Verndarinn hafði markað. Undir stjórn þeirra var þjóðarráðum fjölgað úr tuttugu og sex í fimmtíu og sex, og árið 1961 höfðu öll skrefin sem hann hafði rakið vaðandi breytingu Bahá’í alþjóðaráðsins úr útnefndum fulltrúum í kjörna verið tekin og undirbúningnum fyrir kosningu Allsherjarhús réttvísinnar árið 1963 var lokið.
Allsherjarhús réttvísinnar hélt áfram því kerfisbundna starfi að lífrænni þróun stjórnskipulagsins sem Verndarinn hafði hlúð svo vel að. Á þeirri ríflega hálfu öld sem síðan er liðin hafa fjölmörg afrek verið unnin. Meðal þeirra sem stóðu upp úr var stofnskrá Allsherjarhúss réttvísinnar, sem samþykkt var árið 1972 og Verndarinn hafði hyllt sem „veigamestu löggjöfina“. Eftir samráð við hendur málstaðarins var hlutverkið sem stofnun þeirra gegndi fært út til framtíðar með stofnun álfuráðanna árið 1968 og Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar árið 1973. Auk þess var aðstoðarráðgjöfum í fyrsta sinn heimilt að skipa aðstoðarmenn til að víkka svið útbreiðslu og verndar í grasrótinni. Þjóðar- og svæðisráðum fjölgaði mjög og hæfni þeirra til að þjóna bahá’í samfélaginu fór vaxandi ásamt áhrifunum af þátttöku þeirra í hinu víðara samfélagi. Bahá’í landshlutaráð voru sett á laggirnar árið 1997 til að geta betur tekist á við æ margbrotnari viðfangsefni sem andleg þjóðarráð standa frammi fyrir og til að viðhalda jafnvægi milli miðstýringar og valddreifingar í stjórnarfarslegum málefnum samfélagsins. Kerfi kennslunefnda sem sett var á laggirnar í stjórnartíð Verndarans vék smám saman fyrir stjórnareiningum sem gátu borið ábyrgð á skipulagningu og ákvarðanatöku með dreifðari hætti í borgarhverfum og byggðarlögum. Stofnað var til rúmlega þrjú hundruð þjálfunarstofnana, á þriðja hundrað landshlutaráða og gripið var til annarra stjórnarfarsúrræða í meira en fimm þúsund umdæmum. Á Riḍván 1992 tóku lögin um Ḥuqúqu’lláh gildi í öllum bahá’í heiminum og þessi stofnun var síðan treyst með skipun trúnaðarmannaráða og fulltrúa í einstökum landshlutum og á landsvísu. Árið 2005 var alþjóðlegt trúnaðarmannaráð skipað. Eftir að Shoghi Effendi féll frá var byggingu tilbeiðsluhúsa í Úganda, Ástralíu, Þýskalandi og Panama lokið. Önnur tilbeiðsluhús voru að lokum reist á Samóa, Indlandi og í Síle. Árið 2012 var ferlið við stofnun tilbeiðsluhúsa fært út á lands- og svæðisvísu.
Á liðinni öld hafa tengsl einstaklinga, samfélaga og stofnana þróast stig af stigi og tekið á sig sífellt margbrotnari form. Undirstöður stjórnskipulagsins hafa verið færðar út, aðferðir þess stöðugt samræmdar og samstarfsfyrirkomulag skýrt og sífellt betrumbætt. Það sem í upphafi fyrstu aldar mótunaraldarinnar hófst sem samofið net kjörinna stofnana var í lok þeirrar aldar orðið að glæstri samstæðri heild stofnana og sérstofnana sem teygir sig frá grasrótinni upp til hins alþjóðlega vettvangs og sameinar bahá’í heiminn í hugsun og verki innan eins heildarverkefnis þvert á fjölbreytt menningarlegt samhengi og félagslegar aðstæður.
Þótt stjórnskipulagið hafi ekki enn náð fullum þroska, ber kerfið sem Bahá’u’lláh skapaði greinilegt vitni um nýtt mynstur samskipta og sterka gagnvirkni í samskiptum höfuðgerendanna þriggja þegar þeir takast á við það sameiginlega áform að vinna að lífrænni þróun trúarinnar og bættum heimi. Í félagsskap samverkamanna sem stefna að sama markmiði og í ýmiskonar umhverfi lærdóms, ígrundunar og fjölmargra annarra félagslegra samskipta, tjá einstaklingar skoðanir sínar og leita sannleikans í samráði við aðra án þess að halda því fram að þeirra eigin hugmyndir séu þær einu réttu. Saman lesa þeir í veruleikann í umhverfi sínu, kanna visku tiltækrar leiðsagnar, draga viðeigandi lærdóm af kenningunum og uppsafnaðri reynslu, skapa umhverfi sem byggir á samvinnu og andlegri uppörvun, byggja upp hæfni og hafa frumkvæði að aðgerðum sem verða áhrifaríkari og margbrotnari með tímanum. Þeir leitast við að aðgreina þau verkefnasvið þar sem einstaklingurinn á auðveldast með að sýna frumkvæði frá þeim sem heyra alfarið undir stofnanirnar, og fagna af hjarta og sál leiðsögn og stefnumörkun stofnananna. Þvert á þróuð umdæmi, byggðarlög og borgarhverfi sem eru miðstöðvar öflugrar starfsemi, myndast samfélag með tilfinningu fyrir sameiginlegri sjálfsmynd, vilja og tilgangi, og skapar umhverfi sem hlúir að hæfni einstaklinga og sameinar þá í margvíslegri gagnkvæmri og styrkjandi starfsemi sem býður alla velkomna, og leitast við að örva og hvetja alla. Slík samfélög verða sífellt auðkenndari vegna þeirrar einingar sem ríkir innan þeirra, frelsis þeirra frá hverskyns fordómum, trúrækni þeirra, skuldbindingar við jafnrétti kvenna og karla, óeigingjarnrar þjónustu við mannkynið, vegna menntaferla þeirra og ræktunar dyggða, og hæfni þeirra til að læra á kerfisbundinn hátt og leggja af mörkum til efnislegra, félagslegra og andlegra framfara samfélagsins. Þeir meðlimir samfélagsins sem kallaðir eru til starfa í stofnunum leitast af fremsta megni við að víkja persónulegum skoðunum sínum til hliðar, líta aldrei á sig sem helstu prýði málstaðarins eða öðrum æðri, og þeir forðast allar tilraunir til að stjórna hugsunum og gerðum átrúendanna. Þegar stofnanirnar sinna skyldum sínum auðvelda þær skapandi samskipti og samstarf allra þátta samfélagsins og leitast við að byggja upp samstöðu, sigrast á áskorunum, efla andlega heilsu og lífsþrótt og ákvarða í ljósi fenginnar reynslu árangursríkustu leiðirnar til að ná markmiðum samfélagsins. Þær hlúa að andlegum og vitsmunalegum þroska átrúendanna eftir ýmsum leiðum, þar á meðal með því að koma á fót menntastofnunum.
Árangurinn af þessum nýju tengslum og hæfni höfuðgerendanna þriggja er sá að fjölgað hefur í hópi þeirra sem geta hugsað og starfað á skipulegan hátt og einnig er boðið upp á aðstoð, úrlausnir, hvatningu og ástríka leiðsögn þar sem þess gerist þörf. Reynslu og innsýn er miðlað um allan heim, frá grasrótinni upp til hins alþjóðlega vettvangs. Lífsmynstrið sem þetta öfluga starf skapar nær til milljóna sálna úr öllum þjóðfélagsstéttum, sem upptendrast af sýn Bahá’u’lláh á sameinaðan heim. Í hverju landinu á fætur öðru hefur þetta lífsmynstur vakið athygli foreldra, kennara, hefðbundinna leiðtoga, embættismanna og fólks sem er leiðandi í almennri umræðu á þeim krafti sem kerfi Hans býr yfir til að mæta brýnum þörfum heimsins. Eðlilega sýna ekki öll samfélög sömu einkenni og þau sem lengst eru komin – þannig hefur það reyndar alltaf verið í sögu bahá’í trúarinnar. Engu að síður er ný hæfni á einum stað tákn um augljósar framfarir og vísbending þess að aðrir muni örugglega fylgja þeirri braut.
Á þeim öldum og tímaskeiðum sem fram undan eru mun stjórnskipulagið halda áfram að þróast á lífrænan hátt til þess til að bregðast við vexti trúarinnar og kröfum samfélags sem er breytingum háð. Shoghi Effendi sá fram á að þegar „innbyrðis tengdir þættir þess, lífrænar stofnanir þess, byrja að starfa á skilvirkan og kraftmikinn hátt,“ muni stjórnskipulagið „halda fast við tilkall sitt og sýna fram á hæfni sína til þess að geta ekki aðeins orðið innsti kjarni heldur sjálft mynstur nýs heimsskipulags sem ná mun til alls mannkyns í fyllingu tímans.“ Þegar kerfi Bahá’u’lláh kristallast, mun það sýna mannkyninu fram á nýjar og skilvirkari leiðir til að skipuleggja málefni sín. Meðan á þessari lífrænu þróun stendur munu tengsl milli einstaklinga, samfélaga og stofnana óhjákvæmilega þróast í nýjar áttir og taka stundum óvænta stefnu. Samt mun sú óskeikula guðlega vernd sem hvílir yfir Húsi réttvísinnar tryggja, að þegar bahá’í heimurinn siglir fleyi sínu í umróti og boðaföllum hættulegasta tímabilsins í samfélagslegri þróun mannkynsins, mun hann fylgja markvisst þeirri stefnu sem forsjónin hefur sett honum.
Hnattræn útbreiðsla og þróun trúarinnar
Þótt samfélagið sem Bahá’u’lláh kallaði til lífs væri fámennt og landfræðilega afmarkað, var það frá upphafi stálsett háleitum kenningum Hans og hófst strax handa um að miðla þeim örlátlega til allra sem leita persónulegrar og félagslegrar umbreytingar eftir andlegum leiðum. Með tímanum lærðu vinirnir að vinna náið með fólki og samtökum sem stefna að svipuðum markmiðum, vilja örva mannsandann og stuðla að bættu lífi fjölskyldna, samfélaga og þjóðfélagsins í heild. Brugðist var á jákvæðan hátt við boðskap Bahá’u’lláh í sérhverju landi, og með dyggu og fórnfúsu starfi kynslóðanna urðu til bahá’í samfélög um allan heim, fulltrúar fjölbreytileika mannkyns í fjarlægum borgum og byggðum.
Í trúarkerfi Bábsins náði trúin fótfestu í tveimur löndum. Á tímum Bahá’u’lláh náði hún til alls fimmtán landa og um þrjátíu og fimm landa í lok stjórnartíðar ‘Abdu’l‑Bahá. Á umbrotasömum árum fyrri heimsstyrjaldarinnar opinberaði ‘Abdu’l‑Bahá Töflur hinnar guðlegu áætlunar, ómetanlega arfleifð og stórfenglega áætlun um andlega uppljómun heimsins með útbreiðslu kenninga Bahá’u’lláh. Þessi dýrmæta stofnskrá var ákall um sameiginlegt og kerfisbundið starf, en þegar Meistarinn lést hafði hún vart náð að snerta við hugsun og verki samfélagsins, og aðeins fáeinar framúrskarandi hetjur trúarinnar brugðust við henni með Mörtu Root fremsta í flokki.
Eftir að ‘Abdu’l‑Bahá opinberaði hina guðlega áætlun var framkvæmd hennar í biðstöðu í tuttugu ár uns vinunum tókst undir leiðsögn Shoghi Effendi að skapa stjórnarfarslegt gangverk trúarinnar og annast eðlilega starfsemi þess. Þegar upphaflegar máttarstoðir stjórnskipulagsins höfðu verið reistar gat Verndarinn fyrst byrjað að útskýra þá sýn á þróun trúarinnar sem sett er fram í guðlegri áætlun ‘Abdu’l‑Bahá. Rétt eins og stjórnskipulagið þróaðist í skýrum og einlægt margbrotnari áföngum, jókst lífrænt starf að miðlun og beitingu kenninga Bahá’u’lláh og skapaði ný mynstur í samfélagslífinu sem náðu til sífellt fleira fólks, gerðu vinunum kleift að takast á við stærri áskoranir og stuðluðu að aukinni persónulegri og félagslegri umbreytingu.
Til að þetta kerfisbundna starf gæti hafist hvatti Shoghi Effendi samfélögin í Bandaríkjunum og Kanada – sem Töflum hinnar guðlegu áætlunar var sérstaklega beint til og útnefnd voru sem helstu samstarfs- og framkvæmdaaðilar hennar – til að móta „kerfisbundna, vel yfirvegaða og vandlega útfærða áætlun“ sem átti að „framfylgja af krafti og færa stöðuglega út“. Þetta ákall leiddi til þess að fyrstu sjö ára áætluninni var hrundið af stað árið 1937 og breiddi kenningar Bahá’u’lláh út til rómönsku Ameríku. Síðari sjö ára áætlunin hófst árið 1946 og þá var áhersla lögð á þróun trúarinnar í Evrópu. Shoghi Effendi hvatti einnig til kennslustarfs í öðrum þjóðarsamfélögum sem síðan gerðu áætlanir undir vökulum augum hans. Andlegt þjóðarráð Indlands og Búrma gerði sína fyrstu áætlun árið 1938; Bretlandseyjar árið 1944; Persía árið 1946; Ástralía og Nýja Sjáland árið 1947; Írak árið 1947; Kanada, Egyptaland og Súdan, sem og Þýskaland og Austurríki árið 1948; og Mið-Ameríka árið 1952. Allar þessar áætlanir fylgdu sama grunnmynstri: einstaklingskennslu, stofnun svæðisráða, myndun samfélaga og opnun fleiri svæða í heimalandinu eða í öðrum löndum – og síðan skyldi þetta mynstur endurtekið. Þegar traustur grunnur hafði verið lagður í ákveðnu landi eða sjálfsstjórnarsvæði var hægt að mynda nýtt þjóðarráð.
Á þessum árum hvatti Shoghi Effendi vinina stöðugt til að axla ábyrgð sína á að kenna trúna í samræmi við áætlanir sem þjóðarráð þeirra höfðu samþykkt. Með tímanum reyndust aðferðir eins og brautryðjendastarf, ferðakennsla, samkomur í heimahúsum, sumarskólar og þátttaka í starfi félagasamtaka með svipuð markmið, skila árangri á ákveðnum stöðum, og þá hvatti hann vinina í öðrum heimshlutum til að tileinka sér þessar aðferðir. Viðleitni til stækkunar og útbreiðslu fór saman við áherslu á það innra þroskaferli sem nauðsynlegt er til að treysta sjálfsmynd og eðliseinkenni bahá’í trúarinnar sem sérstaks trúarsamfélags. Verndarinn hlúði að þessu umbreytingarferli af kostgæfni. Hann rakti sögu trúarinnar fyrir átrúendunum, auðveldaði notkun bahá’í tímatalsins, lagði áherslu á reglubundna þátttöku þeirra í hátíðum og helgidögum og leiðbeindi þeim af þolinmæði við að sinna skyldum sínum varðandi hlýðni við bahá’í lög, þar á meðal bahá’í hjúskaparlögin. Smám saman tók trúin á sig mynd heimstrúarbragða og haslaði sér völl meðal systurtrúarbragða sinna.
Samhliða grundvöllun alþjóðlegra stofnana færðist sameiginlegt starf trúarinnar á kennslusviðinu inn á vettvang alþjóðlegs samstarfs. Árið 1951 hófu fimm þjóðarsamfélög að vinna saman að framkvæmd hinnar „mjög heillavænlegu“ og „gríðarlega mikilvægu“ Afríkuherferðar sem miðaði að aukinni útbreiðslu trúarinnar í þeirri heimsálfu. Og árið 1953 hófst Tíu ára herferðin sem sameinaði störf allra tólf þáverandi þjóðarráða í eina alþjóðlega áætlun – hina fyrstu sinnar tegundar. Herferðin var hátindur á stjórnartíð Verndarans. Tengslanet þeirra stjórnstofnana sem vinirnir höfðu sett á fót og kennsluaðferðirnar sem þeir þróuðu og höfðu sannað sig – allt var þetta notað í stærsta sameiginlega andlega átakinu sem bahá’í samfélagið hafði tekist á hendur fram að þeim tíma.
Þegar átrúendurnir ferðuðust vítt og breitt til að deila dýrmætri trú sinni með öðrum, komust þeir að raun um að meðal margra og fjölbreyttra þjóða var mikill móttækileiki fyrir meginreglum hennar og kenningum. Íbúar þeirra fundu í opinberun Bahá’u’lláh dýpri merkingu og tilgang með lífi sínu, og ferska innsýn sem myndi gera samfélögum þeirra kleift að sigrast á áskorunum og sækja fram andlega, félagslega og efnislega. Hið guðlega ljós, sem upphaflega dreifðist smátt og smátt manna á milli, byrjaði þannig að berast hratt til alls þorra mannkyns. Fyrirboði hópinngöngu í trúna sem ‘Abdu’l‑Bahá hafði sagt fyrir um kom í ljós þegar hundruð átrúenda voru skráðar í Úganda, Gambíu, Gilbert- og Ellice eyjum og síðar í Indónesíu og Kamerún. Áður en þeirri áætlun lauk var ferlið hafið í mörgum öðrum löndum, þar sem tala einstaklinga sem gengu trúnni á hönd náði tugum þúsunda og jafnvel meira.
Eftir fráfall Shoghi Effendi tryggðu hendur málstaðarins farsælan árangur Tíu ára herferðarinnar með því að fylgja staðfastlega þeirri leið sem hann hafði markað. Með því að beita þeim lærdómi sem fékkst undir leiðsögn Verndarans náðist meiri árangur á kennslusviðinu á einum áratug en á undanfarandi öld. Trúin breiddist út til 131 lands og sjálfstjórnarsvæðis og fjöldi staða þar sem bahá’íar bjuggu fór yfir ellefu þúsund, með alls fimmtíu og sex andlegum þjóðarráðum og meira en 3.500 svæðisráðum. Framtakið náði hámarki þegar meðlimir þessara þjóðarráða kusu Allsherjarhús réttvísinnar samkvæmt fyrirmælum ‘Abdu’l‑Bahá.
Eftir að Hús réttvísinnar var stofnað hélt það áfram kerfisbundinni framkvæmd hinnar guðlegu áætlunar og hóf annað tímaskeið hennar með því að auka smám saman og breikka svið starfseminnar sem Verndarinn hafði þróað, og bæta við eða færa út ýmsa þætti starfsins ásamt því að samræma og samstilla starfsemi allra þjóðarráða. Meðal þeirra nýju sviða sem áhersla var lögð á eða aukin athygli beindist að, var allsherjarþátttaka einstaklinga í þjónustu við málstaðinn og dýpkun skilnings þeirra á lögum og kenningum. Í styrkingarferli stofnananna var auk þess lögð áhersla á samstarf nýstofnaðra álfuráða og þjóðarráða, og eins milli aðstoðarráðgjafa og andlegra svæðisráða. Samfélagslífið efldist með áherslu á barnakennslu, kynningu á starfsemi fyrir ungmenni og konur og reglubundnum fundum ráðanna. Önnur nýbreytni fólst meðal annars í umfangsmiklum kynningarfundum og kynningum í fjölmiðlum, þróun lærdómsmiðstöðva, þar á meðal sumarskóla og kennslustofnana, meiri þátttöku í þjóðfélaginu og stuðningi við bahá’í fræðimennsku.
Árangurinn af öllu þessu starfi var sá að á tíunda áratug síðustu aldar hafði trúin breiðst út til tugþúsunda svæða og fjöldi þjóðarráða meira en þrefaldaðist í um 180. Á þessum tíma fylgdi þróun þjóðarsamfélaga í megindráttum tvennskonar mynstri sem að mestu leyti tók mið af viðbrögðum alls þorra fólks. Í hinu fyrra var um að ræða fremur lítil svæðissamfélög og aðeins í nokkrum þeirra urðu átrúendur fleiri en hundrað talsins. Öflugt treystingarferli einkenndi oft þessi samfélög og gaf færi á fjölbreyttu starfi og sterkri tilfinningu um bahá’í samsemd. Sífellt kom þó betur í ljós að þótt svo lítið samfélag væri sameinað í trúnni, hefði háar hugsjónir, sýndi hæfni í stjórnun eigin mála og sinnti þörfum sínum af kostgæfni, gat það smæðar sinnar vegna aldrei gert sér vonir um að verða fyrirmynd að endurskipulagningu alls þjóðfélagsins, hversu vel sem það dafnaði eða reyndi að þjóna öðrum með mannúðarstarfi sínu.
Hitt mynstrið tók á sig mynd í þeim löndum þar sem hópinnganga hófst og leiddi af sér veldisaukningu í tölu átrúenda, nýrra byggðarlaga og stofnana. Í allnokkrum löndum fjölgaði átrúendum um meira en hundrað þúsund og í Indlandi í um tvær milljónir. Á tveggja ára tímabili seint á níunda áratugnum, gengu reyndar ríflega milljón manns trúnni á hönd um allan heim. En á þessum stöðum hélst treystingarferlið ekki í hendur við fjölgunina, þrátt fyrir skapandi og fórnfúst starf átrúendanna. Margir gerðust bahá’íar en úrræði voru ekki fyrir hendi til þess að dýpka alla þessa nýju átrúendur nægilega í grundvallarsannindum trúarinnar til að hægt væri að þróa sterk og lifandi samfélög. Ekki reyndist mögulegt að koma á nægu námsframboði til að þjóna þörfum barna og ungmenna, sem fór stöðugt fjölgandi. Yfir þrjátíu þúsund svæðisráð voru mynduð en aðeins brot þeirra hóf störf. Þessi reynsla sýndi að stöku þjálfunarnámskeið og óformlegt samfélagsstarf, þótt mikilvægt sé, nægir ekki. Það leiddi aðeins til þess að myndaður var tiltölulega fámennur hópur virkra stuðningsmanna málstaðarins sem gátu ekki sinnt þörfum þúsunda nýrra átrúenda, hversu mikið sem þeir lögðu á sig.
Árið 1996 hafði bahá’í heimurinn náð þeim áfanga að nauðsynlegt var að endurmeta og móta að nýju þau mörgu starfssvið sem um langt árabil höfðu átt sinn þátt í þessum miklu framförum. Einstaklingar, samfélög og stofnanir þurftu ekki aðeins að læra hvernig hrinda skal í verk aðgerðum sem gætu náð til fjölda fólks, heldur einnig hvernig hægt væri að fjölga hratt og vel þeim sem gætu tekið þátt í þjónustuverkefnum til þess að treysting geti haldist í hendur í við hraða fjölgun. Vinna þurfti á markvissari hátt að kynningu trúarinnar á alþjóðavettvangi. Ákallinu í fjögurra ára áætluninni um „verulegan framgang í hópinngönguferlinu“ var ætlað að varpa ljósi á þá staðreynd að kringumstæður trúarinnar og aðstæður mannkyns leyfðu, og reyndar krefðust, stórfelldrar og sjálfbærrar stækkunar bahá’í heimssamfélagsins. Aðeins þá gæti mátturinn sem kenningar Bahá’u’lláh hafa til að umbreyta eðliseinkennum mannkyns orðið sífellt betur að veruleika.
Í upphafi fjögurra ára áætlunarinnar voru vinirnir hvar sem þeir bjuggu hvattir til að tilgreina þær aðferðir og leiðir sem hentuðu sérstökum aðstæðum þeirra og hefja kerfisbundna samfélagsþróun þar sem farið væri yfir árangurinn og erfiðleikana, bæta síðan aðferðir sínar í samræmi við það, draga lærdóm af þessu og halda svo hiklaust áfram. Væri stefnan óljós mætti láta reyna ýmsar leiðir til að takast á við þær sérstöku áskoranir sem áætlunin mætti á hinum ýmsu stöðum, og þegar haldgóð reynsla fengist á tilteknu svæði mætti deila henni með stofnunum á landsvísu eða um allan heim, miðla henni til annarra svæða og flétta hana jafnvel inn í framtíðaráætlanir.
Á einum aldarfjórðungi varð þetta lærdómsferli vaxtarins til þess að tekin voru upp margvísleg hugtök, tæki og nálganir sem bættu stöðugt sístækkandi aðgerðaramma samfélagsins. Einn helsti þátturinn var kerfi þjálfunarstofnana sem bjóða upp á menntabrautir fyrir börn, unglinga, ungmenni og fullorðna í þeim tilgangi að styrkja og efla mikinn fjölda vina og gera þeim fært að auka þjónustuhæfni sína. Annar þáttur var uppbygging umdæma, sem auðvelduðu að kerfisbinda kennslustarfið á viðráðanlegum landssvæðum með því að hrinda af stað vaxtaráætlunum og efla þær stig af stigi. Þetta leiddi til hraðari útbreiðslu og þróunar trúarinnar í hverju landi og um allan heim. Innan slíkra vaxtaráætlana myndaðist nýtt mynstur í samfélagslífinu, sem hófst með fjölgun verkefna í fjórum grunnþáttum sem þjónuðu sem gáttir fyrir inngöngu fjölda fólks. En margskonar önnur starfsemi, svo sem kennsla einstaklinga og hópa, heimsóknir á heimili, samkomuhald, hátíða- og helgidagahald, hvernig annast var um samfélagsmálefni og aukið starf í þágu samfélags- og efnahagsþróunar – allt þetta til samans leiddi til breytinga á andlegum eðliseinkennum samfélagsins og styrkti félagsleg tengsl einstaklinga og fjölskyldna.
Þegar litið er um öxl til aldarlangrar viðleitni til að framfylgja ákvæðum hinnar guðlegu áætlunar, kemur skýrt í ljós að bahá’í heimurinn hefur tekið verulegum framförum hvað varðar samfélagsmenningu. Sífellt fleiri hafa tekið þátt í ferli þar sem þeir læra meðvitað að beita kenningum sem lúta að vexti og þroska innan aðgerðaramma sem þróast með fenginni reynslu vinanna og leiðsögn Húss réttvísinnar. Aukin hæfni til að taka þátt í þessu lærdómsferli kemur skýrt fram í eiginleikum sem verða sífellt augljósari í bahá’í samfélaginu og birtast í auðmjúku lærdómshugarfari, hvort sem árangri er fagnað eða þrautseigja sýnd andspænis hindrunum og bakslögum, styrkingu bahá’í sjálfsmyndar og hjartanlegu viðmóti gagnvart öllu fólki. Þessir eiginleikar birtast í starfsemi á sífellt breiðari sviðum meðan áfram er stefnt að því að nálgast verkefni málstaðarins á kerfisbundinn og samfelldan hátt. Í þúsundum umdæma lítur vaxandi fjöldi fólks á sig sem virka gerendur í að afla og skapa þekkingu, beita henni í sínu eigin þroskaferli og að eigin framförum. Þátttakendur þessara verkefna taka þátt í umræðum fjölskyldna, vina og kunningja um háleit andleg mál og viðfangsefni sem hafa samfélagslega þýðingu, hafa frumkvæði að verkefnum sem móta lífsmynstur sem einkennist af trúrækni og tilbeiðslu, sjá ungu fólki fyrir menntun, auka þjónustuhæfni þess og stuðla að efnislegum og félagslegum framförum samfélaga sinna. Þeim eykst kraftur til að leggja sitt af mörkum til að bæta svæðissamfélög sín og heiminn í heild. Þegar þeir hugsa og haga sér með þessum hætti fá þeir dýpri skilning á tilgangi trúarbragða almennt.
Þátttaka í þjóðlífinu
Enn ein víddin í framvindu guðlegrar áætlunar ‘Abdu’l‑Bahá er ríkari þátttaka bahá’í samfélagsins í þjóðlífinu. Frá upphafi stjórnartíðar sinnar vakti Shoghi Effendi oft á tíðum athygli vinanna á kraftinum sem opinberun Bahá’u’lláh hefur til að valda lífrænni umbreytingu samfélagsins – ferli sem að lokum mun leiða til sköpunar andlegrar siðmenningar. Bahá’íar þurftu því að læra að beita kenningum Bahá’u’lláh, ekki aðeins til þess að breytast sjálfir andlega heldur einnig til að stuðla að efnislegum og samfélagslegum breytingum, fyrst innan sinna eigin samfélaga og síðan skref fyrir skref í hinu víðara samfélagi.
Á tímum ‘Abdu’l‑Bahá höfðu nokkur bahá’í samfélög í Íran ásamt öðrum í nálægum löndum, náð stærð og stöðu sem gerðu þeim kleift að stunda kerfisbundið starf að samfélags- og efnahagslegri þróun. ‘Abdu’l‑Bahá vann óþreytandi með vinunum, leiðbeindi þeim og hlúði að framförum þeirra. Til dæmis hvatti hann átrúendur í Íran til að koma á fót skólum sem voru opnir bæði stúlkum og drengjum úr öllum samfélagsgeirum. Þessir skólar áttu að sinna ræktun góðrar skapgerðar og þjálfun í listum og vísindum. Hann sendi átrúendur frá Vesturlöndum til að leggja þessu þróunarstarfi lið. Hann bauð bahá’íum í nálægu þorpi, ‘Adasíyyih, og fjarlægara þorpi, Daidanaw, leiðsögn varðandi andlegan og efnislegan vöxt og framgang þessara samfélaga. Hann mælti fyrir um sköpun undirstofnana fyrir menntun og aðra félagslega þjónustu við tilbeiðsluhúsið í ‘Ishqábád. Hvatningar hans leiddu til þess að stofnaðir voru skólar í Egyptalandi og Kákasus. Eftir að hann féll frá veitti Shoghi Effendi leiðsögn um hvernig auka mætti þetta starf. Verkefni sem sneru að bættri heilsu, læsi og menntun kvenna og stúlkna náðu til alls íranska samfélagsins. Upphafleg hvatning ‘Abdu’l‑Bahá varð til þess að skólar voru opnaðir í borgum og byggðarlögum víða um land. Þessir skólar blómstruðu um tíma og áttu þátt í nútímavæðingu þjóðarinnar allt fram til 1934 þegar stjórnvöld þvinguðu þá til að leggja niður skólahaldið.
Á öðrum stöðum ráðlagði Shoghi Effendi vinunum þó að beina takmörkuðum mannauði sínum og fjármunum að kennslu og uppbyggingu stjórnskipulagsins. Í bréfi sem skrifað var fyrir hans hönd kom fram að „framlag okkar til trúarinnar er tryggasta leiðin til að aflétta í eitt skipti fyrir öll byrðum hungurs og eymdar af mannkyninu, því það er aðeins með fulltingi guðlegs kerfis Bahá’u’lláh sem heimurinn getur komið undir sig fótunum“. Í bréfinu segir enn fremur að aðrir „geti ekki lagt af mörkum til okkar starfs eða unnið það fyrir okkur og frumskylda okkar er því í rauninni að styðja við okkar eigið kennslustarf því að það mun leiða til græðingar þjóðanna“. Þótt einstaklingar hafi fundið persónulegar leiðir til að leggja sitt af mörkum til efnislegrar og félagslegrar þróunar, beindu bahá’íar yfirleitt þeim auðlindum sem þeir höfðu yfir að ráða að vexti og uppbyggingu samfélags síns. Fyrstu árin eftir kosningu Húss réttvísinnar var þessi leiðsögn áfram í gildi um tíma. Þótt kenningar Bahá’u’lláh varðveiti hugmyndina um samfélags- og efnahagsþróun eins og helgan dóm voru aðstæður trúarinnar í stjórnartíð Verndarans og á þeim árum sem síðan komu með þeim hætti að mestöllum bahá’í heiminum var um megn að takast á hendur þróunarverkefni.
Eftir áratuga linnulaust starf á kennslusviðinu og í kjölfar verulegs vaxtar í mörgum löndum um allan heim, náði samfélag Hins mesta nafns þeim áfanga árið 1983, að mögulegt var – og reyndar nauðsynlegt – að fella starf að samfélags- og efnahagsþróun að reglubundnum stefnumiðum þess. Vinirnir voru hvattir til að kosta kapps um að beita andlegum meginreglum og finna andlega upplyftingu í grandvöru framferði og iðkun samráðslistarinnar og taka þannig ábyrgð á sínum eigin þroska. Skrifstofa samfélags- og efnahagsþróunar var stofnuð við Heimsmiðstöðina til að aðstoða Hús réttvísinnar við að efla og samræma starfsemi vinanna um allan heim á þessum vettvangi. Með tímanum óx henni fiskur um hrygg og greiddi fyrir alþjóðlegu lærdómsferli um þróun. Einstaklingar innan trúarinnar tóku frumkvæði í ýmiskonar starfi sem náði ekki aðeins til bahá’ía heldur einnig hins víðara samfélags.
Á innan við einum áratug voru hundruð þróunarverkefna hafin um allan heim og athyglin beindist að margskonar viðfangsefnum eins og bættri stöðu kvenna, menntun, heilbrigðismálum, fjölmiðlun, landbúnaði, atvinnu- og efnahagsmálum og umhverfismálum. Starfsemin náði til margra misflókinna sviða. Í bæjum og byggðarlögum voru skipulögð tiltölulega einföld skammtímaverkefni til að bregðast við sérstökum vandkvæðum og áskorunum sem blöstu við þessum stöðum. Stofnað var til langtímaverkefna, svo sem skóla og heilsugæslustöðva, til að mæta félagslegum þörfum, oft ásamt stjórnskipulagi sem tryggt gæti lífvænleika þeirra og skilvirkni. Og loks árið 1996 voru nokkur samtök undir sterkum áhrifum bahá’í kenninga og tiltölulega margbrotin hvað varðar viðfangsefni og uppbyggingu, stofnuð af einstaklingum til að afla reynslu af því hvernig vinna mætti kerfisbundið að þróun með íbúum í einu byggðarlagi sem gæti haft veruleg áhrif í landshlutanum öllum. Í öllu þessu starfi reyndu vinirnir að beita andlegum meginreglum við lausn raunhæfra viðfangsefna.
Þegar stofnunum undir áhrifum bahá’í kenninga auk sérstofnana sem lúta stjórn bahá’í stofnana var komið á laggirnar í hverju landinu á fætur öðru, urðu áhrifin af störfum þeirra innan bahá’í samfélagsins og hins víðara samfélags stöðugt augljósari og sýndu fram á öflugt samhengi efnislegra og andlegra vídda lífsins. Framfarir urðu ekki aðeins í verki, heldur einnig á sviði hugsunar og viðhorfa. Vinirnir fóru að skilja samhengi grunnhugtaka: Heiminum er ekki skipt í hópa þróaðra og vanþróaðra þjóða – allir hafa þörf fyrir umbreytingu og umhverfi sem býður upp á þær andlegu, félagslegu og efnislegu aðstæður sem geta tryggt öryggi þeirra og viðgang. Þróun er ekki ferli sem einn tekst á hendur í þágu annars. Öllu fremur verða mennirnir sjálfir, hvar sem þeir búa, að vera virkir gerendur í sínu eigin þroskaferli. Aðgangur að þekkingu og þátttaka í sköpun hennar, beitingu og dreifingu er kjarninn í þessu ferli. Viðleitnin hefst með smáum skrefum og verður margbrotnari með aukinni reynslu. Áætlanir sem hafa sannað virkni sína á einu svæði má innleiða með kerfisbundnum hætti á öðrum svæðum. Þegar þessum meginreglum og hugmyndum er beitt við tilteknar aðstæður eykst geta vinanna til að greina félagslegar kringumstæður sínar. Þeir fá innsýn í helgiritin og ýmis viðkomandi þekkingarsvið og hafa frumvæði að verkefnum sem samræmast fyllilega starfi þeirra að uppbyggingu samfélagsins.
Árið 2018 hafði mikil útbreiðsla og sífellt margbrotnara þróunarstarf bahá’ía um allan heim orðið til þess að ný stofnun var sett á fót í landinu helga – Alþjóðlega bahá’í þróunarstofnunin. Þessi hnattræna stofnun tók við og víkkar út hlutverk og valdsvið sem áður voru á hendi Skrifstofu samfélags- og efnahagsþróunar. Hún styrkir samfélagsaðgerðir einstaklinga, samfélaga, stofnana og sérstofnana um allan heim. Líkt og raunin var um fyrrverandi skrifstofu er megintilgangur hennar sá að auðvelda það hnattræna lærdómsferli sem snýr að þróun sem er að verða í bahá’í heiminum með því að styðja og ýta undir aðgerðir og ígrundun, safna og kerfisbinda reynslu, hugmyndafræði og þjálfun – allt í ljósi kenninga trúarinnar. Í raun leitast hún við að hlúa að aðferðafræði sem auðkennir starf bahá’í samfélagsins að þróun.
Samhliða kerfisbundinni þróun útbreiðslu- og treystingarferla og samfélags- og efnahagsþróunar er annað meiriháttar verkefni í uppsiglingu: aukin þátttaka í ríkjandi samfélagsumræðu. Við sífellt fleiri tækifæri þar sem fólk kemur saman og ræðir mannleg vandamál, leitast bahá’íar við að miðla innsýn sem skiptir máli og sótt er í úthaf opinberunar Bahá’u’lláh. Upphaflega kynnti Bahá’u’lláh sjálfur græðandi læknisdóm sinn fyrir leiðtogum heimsins og hvatti til þess að allt mannkynið fengi aðgang að honum. Þótt konungar og valdhafar létu undir höfuð leggjast að bregðast við guðlegu ákalli Hans, hvatti Hann þá til að beita meginreglum sínum til að koma á heimsfriði: „Nú þegar þér hafið hafnað hinum mesta friði, haldið þá fast við þennan minni frið til þess að þér fáið að einhverju leyti bætt yðar eigin aðstæður og þegna yðar.“ Í töflum ‘Abdu’l‑Bahá til Haag og þó einkum í ræðum sem hann flutti á ferðum sínum á Vesturlöndum boðaði hann stöðugt kenningar Föður síns í áheyrn valdamanna og almennings sem glímdu við þá mýmörgu erfiðleika sem mannkynið stendur frammi fyrir.
Strax í upphafi stjórnartíðar sinnar var Shoghi Effendi meðvitaður um mikilvægi þess að kynna þjóðum og leiðtogum heimsins þá innsýn og visku sem felst í bahá’í kenningunum og hann hlúði að frumkvæði í þeim efnum. Meðal annars var Bahá’í upplýsingaskrifstofa opnuð í Genf árið 1925, hafin var útgáfa á bókaröðinni The Bahá’í World og hann hvatti fróða og upplýsta bahá’ía til að tengja kenningarnar samtímahugmyndum um margvísleg aðkallandi vandamál í heiminum. Eftir stofnun Sameinuðu þjóðanna var Bahá’í alþjóðasamfélagið sett á fót árið 1948 sem frjáls félagasamtök og fulltrúi bahá’í samfélaga um allan heim og tók sífellt meiri þátt í ýmsu starfi innan Sameinuðu þjóðanna. Þetta opnaði nýjan áfanga í áframhaldandi tengslum trúarinnar við stjórnvöld, alþjóðlegar stofnanir og stofnanir borgaralegs samfélags á alþjóðavettvangi. Þótt Verndarinn hafi aldrei leyft þessu starfssviði að skyggja á mikilvægi kennslustarfsins, hvatti hann vinina til að kynna hinu víðara samfélagi þýðingu kenninga Bahá’u’lláh. „Samhliða þessari styrkingu á uppbyggingu stjórnskipulagsins og stækkunar á undirstöðum þess,“ skrifaði hann til eins þjóðarsamfélags, „þarf að gera einbeittar tilraunir“ til þess að stofna til nánari tengsla meðal annars við „fólk sem er leiðandi í almennri umræðu“. Hann lagði áherslu á óformleg tengsl fremur en beina aðild og hvatti átrúendurna til að hafna allri þátttöku í stjórnmálum og starfa þess í stað með skyldum samtökum sem láta sig varða þjóðfélagsmál og kynna þeim markmið og tilgang trúarinnar og eðli kenninga hennar um málefni á borð við stofnun heimsfriðar.
Eftir stofnun Allsherjarhúss réttvísinnar var þessi þátttaka í þjóðfélagsumræðunni aukin enn frekar. Þegar það þótti tímabært skipulagði Hús réttvísinnar sjálft víðtæka kynningu og dreifingu á meginreglum trúarinnar, þar á meðal í boðskap sínum til þjóða heimsins, „Fyrirheit um heimsfrið“. Bahá’í alþjóðasamfélagið styrkti stöðu sína hjá Sameinuðu þjóðunum og tryggði að lokum formlegri tengsl við ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna á áttunda áratugnum. Það birti yfirlýsingar um heimsmál og skapaði einstakt rými fyrir samskipti við ríkisstjórnir og frjáls félagasamtök. Samtök sem tengdust Bahá’í alþjóðasamfélaginu viðurkenndu að það fylgdi ekki neinni eiginhagsmunastefnu heldur ynni að velferð allra þjóða og gegndi uppbyggilegu hlutverki á ýmsum alþjóðlegum málþingum, þar á meðal ráðstefnunni um umhverfi og sjálfbæra þróun í Ríó de Janeiro, heimsráðstefnunni um málefni kvenna í Peking, leiðtogafundi um félagslega þróun í Kaupmannahöfn og Þúsaldarráðstefnunni í New York. Í kjölfar írönsku byltingarinnar og nýrra ofsókna á hendur bahá’íum í Íran voru nokkur bahá’í þjóðarsamfélög knúin til þess að taka upp nánari viðræður við ýmsar innlendar og alþjóðlegar stofnanir og sérstofnanir. Þau stofnuðu þar af leiðandi þjóðarskrifstofur ytri samskipta til að styrkja starf á alþjóðavettvangi að verndun trúarinnar.
Í upphafi tuttugustu og fyrstu aldarinnar hafði lífrænn framgangur málstaðarins skapað skilyrði fyrir kerfisbundnari þátttöku í þjóðfélagsumræðum. Kynning á kenningum trúarinnar á alþjóðlegum og innlendum bahá’í vefsetrum var aukin til muna og þar voru margskonar málefnum gerð skil. Rannsóknarstofnun um hagsæld mannkyns var sett á laggirnar til að stunda rannsóknir á þeirri þýðingu sem kenningar Bahá’u’lláh hafa fyrir brýn samfélagsmál. Með tímanum gekkst hún einnig fyrir röð málþinga til að auka skilning og þróa hæfni meðal bahá’í háskólanema. Starf Bahá’í alþjóðasamfélagsins, sem fór upphaflega fram í New York og Genf, var fært út og náði til heimshlutamiðstöðva í Addis Ababa, Brussel og Jakarta. Á þjóðarskrifstofum ytri samskipta lærðist betur hvernig taka má þátt í tiltekinni þjóðfélagsumræðu á kerfisbundinn hátt fyrir hönd samfélaga sinna. Meðal efnis sem fjallað var ákaft um í ýmsum löndum var framgangur kvenna, hlutverk trúar í samfélaginu, andleg og siðferðileg valdefling ungmenna, aukið réttlæti og styrking félagslegrar samheldni. Í dag liðkar Skrifstofa almennrar þjóðfélagsumræðu við Bahá’í heimsmiðstöðina fyrir lærdómi um reynsluna af framlagi til slíkrar þjóðfélagsumræðu. Og í grasrótinni, í grenndarhverfum og byggðarlögum og í atvinnu sinni og öðrum félagslegum rýmum þar sem vinirnir taka þátt sem einstaklingar, læra þeir að efna til umræðu þar sem boðið er upp á hugtök úr bahá’í ritunum og leggja þannig sitt af mörkum til að þróa hugsun og aðgerðir meðal samlanda sinna, sem er nauðsynlegt til að koma á uppbyggilegum breytingum.
Þátttaka á öllum þessum stigum þjóðfélagsins verður brýnni eftir því sem upplausn gamla heimsskipulagsins magnast, umræðan skautast og verður sífellt grófari, og leiðir til nýrra átaka vegna flokkadrátta og hugmyndafræði sem sundrar mannkyninu. Bahá’íar skilja að umbreytingin sem Bahá’u’lláh sér fyrir sér kallar á þátttöku allra og leitast því við að vinna með þeim fjölmörgu skilningsríku einstaklingum og samtökum sem stefna að sameiginlegum markmiðum. Í slíku samstarfi miðla vinirnir innsýn úr kenningum Bahá’u’lláh og deila með öðrum þeim hagnýta lærdómi sem þeir hafa aflað sér í sínu eigin starfi að samfélagsuppbyggingu og læra um leið af reynslu samstarfsfélaga sinna. Í starfi sínu með einstaklingum, samfélögum og samtökum, bæði borgaralegum og á vegum hins opinbera, gera vinirnir sér fulla grein fyrir því að umræður um margs konar samfélagsmálefni eru líklegar til að valda deilum eða samtvinnast pólitískum metnaði. Við allar aðstæður þar sem bahá’íar tengjast nánar hinu víðara samfélagi, leitast þeir við að hlúa að samstöðu og einingu í hugsun og stuðla að samvinnu og sameiginlegri leit að lausnum á brýnum vandamálum mannkyns. Í þeirra huga eru leiðirnar að markmiðinu jafn mikilvægar og markmiðið sjálft.
Þegar aukin þátttaka í lífi hins víðara samfélags festi rætur í bahá’í samfélögum um allan heim, þróaðist það í fyrstu samhliða kennslustarfinu og stjórnskipulaginu. Á undanförnum áratugum hafa samfélagsaðgerðir og þátttaka í þjóðfélagsumræðunni hins vegar lagað sig verulega að starfi sem tengist útbreiðslu og treystingu og þar hafa vinirnir í vaxandi mæli beitt ákveðnum þáttum í hugmyndafræði aðgerðarammans í hinum hnattrænu áætlunum. Þegar vinirnir vinna hörðum höndum í umdæmum sínum verða þeir óhjákvæmilega hluti af lífi samfélagsins í kringum sig og lærdómsferlið, sem knýr viðleitni til vaxtar og samfélagsuppbyggingar, nær til æ fleiri verkefnasviða. Líf samfélagsins einkennist í síauknum mæli af framlagi þess til efnislegra, félagslegra og andlegra framfara þegar vinirnir rækta hæfni sína til að skilja aðstæður samfélagsins í kringum sig, skapa rými þar sem hægt er að kanna hugtök úr opinberun Bahá’u’lláh og viðkomandi sviðum mannlegrar þekkingar, miðla innsýn í praktísk vandamál og byggja upp hæfni átrúendanna og hins víðara samfélags. Árangurinn af þessu skapandi samhengi á hinum ýmsu starfssviðum var sá að einföldum grasrótarverkefnum að samfélags- og efnahagsþróun fjölgaði úr nokkrum hundruðum árið 1990 í nokkur þúsund árið 2000 og í tugþúsundir árið 2021. Sérlega góð viðbrögð hafa orðið við þátttöku bahá’ía í þjóðfélagsumræðunni við óteljandi aðstæður, allt frá grenndarhverfum til heilla þjóða. Enda ekki að sökum að spyrja þegar öll mannsins ætt stendur ráðþrota og klofin andspænis margvíslegum vandamálum sem upplausnaröflin hafa skapað og vill óðfús leita nýrrar innsýnar. Á öllum samfélagsstigum tengja þeir sem eru leiðandi í almennri þjóðfélagsumræðu bahá’í samfélagið í auknum mæli við nýjar hugmyndir og nálgun sem sífellt klofnari og brotnari heimur þarfnast svo sárlega. Samfélagsuppbyggjandi kraftur trúarinnar, sem var að mestu dulinn í upphafi fyrsta árhundraðs mótunaraldarinnar kemur nú sífellt betur í ljós í hverju landinu á fætur öðru. Birting þessa samfélagsuppbyggjandi krafts, sem á sér rætur í nýrri vitund og nýrri lærdómshæfni einstaklinga, samfélaga og stofnana um allan heim, verður aðalsmerki núverandi og næstu stiga í framvindu hinnar guðlegu áætlunar.
Þróun Bahá’í heimsmiðstöðvarinnar
Samhliða vexti trúarinnar og framvindu stjórnskipulagsins átti sér stað jafn þýðingarmikil þróun í Bahá’í heimsmiðstöðinni á fyrstu öld mótunaraldarinnar. Það var Tafla Karmels, önnur stofnskrá Bahá’u’lláh sem hratt af stað þeirri þróun. Minnst var áður á samspil ferla sem tengjast þessum þremur stofnskrám, þar á meðal tilkomu stofnana og sérstofnana í stjórnarmiðstöð bahá’í heimsins. Við þessa frásögn má nú bæta nokkrum hugleiðingum um þróun andlegrar miðstöðvar þess.
Kaflinn sem hófst þegar Bahá’u’lláh steig fæti á strönd ‘Akká, markaði hástigið í boðunarferli Hans. Drottinn herskaranna hafði birst í landinu helga og þannig gengu orð spámannanna í uppfyllingu þeirra sem sögðu fyrir um komu Hans þúsundum ára áður. Þessir spádómar rættust ekki vegna þess að Hann hefði sjálfur óskað þess heldur vegna ofsókna yfirlýstra óvina Hans sem náðu hámarki í útlegð Hans. „Þegar Vér komum,“ segir Hann í einni töflu, „var Oss fagnað af fánum ljóssins og þá hrópaði Andinn: „Brátt munu allir sem jörðina byggja fylkja sér undir þessa fána.““ Andlegur kraftur þessa lands jókst ómælanlega með návist Hans og greftrun helgra líkamsleifa Hans og skömmu síðar fyrirrennara Hans sem sjálfur var opinberandi Guðs. Það er nú miðpunkturinn sem laðar að sér sérhvert bahá’í hjarta, miðdepill tilbeiðslu þeirra og markmið hvers upprennandi pílagríms. Bahá’í helgistaðir fagna íbúum landsins helga og raunar fólki frá öllum löndum. Þeir eru dýrmæt trúnaðargjöf til alls mannkyns.
Bahá’íar réðu samt litlu í andlegum miðdepli trúar sinnar í lok hetjualdar og mörg ár þar á eftir. ‘Abdu’l‑Bahá mætti oft á tíðum miklum erfiðleikum, jafnvel þegar hann vildi fara með bænir við legstað Föður síns. Hann var í miklum háska, ranglega ákærður fyrir undirróður þegar hann að boði Bahá’u’lláh reisti bygginguna þar sem jarðneskar leifar Bábsins voru lagðar til hinstu hvílu eftir langa ferð frá staðnum þar sem Hann leið píslarvættisdauða. Ekkert lát varð á hættulegu og ótryggu ástandi við Heimsmiðstöðina framan af stjórnartíð Verndarans eins og í ljós kom þegar sáttmálsbrjótar lögðu hald á lyklana að helgidómi Bahá’u’lláh skömmu eftir að hann tók við stöðu sinni sem Verndari trúarinnar. Verndun og varðveisla helgidómanna tveggja ásamt stækkun og fegrun þeirra og annarra helgra staða urðu með fyrstu og mikilvægustu skyldum Shoghi Effendi í allri stjórnartíð hans. Til að ná þessum markmiðum þurfti hann að stýra fleyi trúarinnar á tímum stormasamra breytinga í landinu helga – þar á meðal efnahagskreppu á heimsvísu, styrjöld, endurteknum pólitískum umskiptum og félagslegum óstöðugleika – á sama tíma og hann eins og ‘Abdu’l‑Bahá á undan honum, stóð vörð um þá óbreytilegu bahá’í meginreglu sem kveður á um bróðurþel og vináttu í garð allra manna og virðingu fyrir staðfestu ríkisvaldi. Eitt sinn þurfti hann jafnvel að íhuga flutning á jarðneskum leifum Bahá’u’lláh á viðeigandi stað á Karmelfjalli til að tryggja vernd þeirra. Og hann bjó áfram í Haifa á tímum ólgu og átaka á sama tíma og hann ráðlagði þeim fámenna hópi átrúenda sem þar bjó að flytja til annarra landa. Hann var óþreytandi til æviloka að sinna þessum erfiðu skyldum, þegar borgaraleg yfirvöld viðurkenndu að endingu helgidóm Bahá’u’lláh sem bahá’í helgistað og bahá’í heimurinn fékk loksins frelsi til að varðveita og fegra þennan helgasta stað sinn.
Í starfi sínu að öflun, endurreisn og verndun helgistaðanna, stækkaði Verndarinn eignirnar umtalsvert umhverfis helgidóminn og setrið í Bahjí og hafði frumkvæði að hinum víðáttumiklu og formfögru görðum. Hann lauk um síðir þeirri vinnu við helgidóm Bábsins á fjalli Guðs sem ‘Abdu’l‑Bahá hafði byrjað á, og bætti við þremur herbergjum til viðbótar, mótaði bogagöng þess, reisti gullna hvolfþakið og umlukti helgidóminn gróðri. Hann markaði fyrir „hinum mikla boga þar sem reisa átti byggingar bahá’í stjórnskipulagsins“; og við annan enda hans reisti hann fyrsta mannvirkið, Alþjóðlega minjasafnið og fyrir boganum miðjum kom hann fyrir legstöðum Hins helgasta laufs, bróður hennar og móður þeirra. Starfi Verndarans við þróun heimsmiðstöðvarinnar var haldið áfram undir stjórn Allsherjarhúss réttvísinnar. Viðbótarland og helgir staðir voru keyptir og fegraðir, byggingarnar á boganum reistar og stallarnir gerðir sem teygja sig frá rótum Karmelfjalls upp að tindi þess. Þetta var verkefni sem ‘Abdu’l‑Bahá sá upphaflega fyrir sér og Verndarinn hafði byrjað á. Fyrir lok fyrsta áhundraðs mótunaraldarinnar var landareignin í nágrenni helgidóms Bábsins stækkuð í rúmlega 170.000 fermetra. Eignakaup og skipti á jarðnæði stækkuðu eignina umhverfis helgidóm Bahá’u’lláh úr 4.000 í 450.000 fermetra. Árið 2019 hófust framkvæmdir í ‘Akká, nálægt Riḍván-garðinum, á fögrum og viðeigandi helgidómi sem verður endanlegur legstaður ‘Abdu’l‑Bahá.
Á þessari öld jókst einnig hraði þróunar bahá’í stjórnskipulagsins. Í mörg ár fyrst í stjórnartíð sinni þráði Verndarinn að njóta hjálpar hæfra aðstoðarmanna, en bahá’í heimurinn var þá of lítill til að geta veitt nauðsynlegan stuðning. Þegar samfélagið stækkaði naut Hús réttvísinnar hins vegar í auknum mæli góðs af stöðugum straumi sjálfboðaliða og gat komið á fót þeim deildum og sérstofnunum sem ört vaxandi trú eru nauðsynlegar og þjóna þörfum Heimsmiðstöðvarinnar sem og samfélögunum sem fjölgaði ört um allan heim. Spurningar og góð ráð, innsýn og leiðsögn, gestir og pílagrímar streyma nú látlaust milli allra heimshluta og hjarta bahá’í heimsins. Eftir breytingar og óvissu áratugum saman gerðist það árið 1987 að það þolinmóða starf sem Shoghi Effendi hafði byrjað að vinna miklu fyrr til að stofna til góðra tengsla við borgaraleg yfirvöld í Ísrael náði hámarki með formlegri viðurkenningu á stöðu Bahá’í heimsmiðstöðvarinnar sem andlegrar og stjórnarfarslegrar miðstöðvar bahá’í heimssamfélagsins, sem starfar undir verndarvæng Allsherjarhúss réttvísinnar.
Tengsl einstaklinga, samfélaga og stofnana hafa þróast með tímanum, byggst á fyrri afrekum og vaxið til að takast á við nýjar áskoranir. Hið sama má segja um Bahá’í heimsmiðstöðina og samskipti hennar við bahá’ía um allan heim. Nánum og órofa tengslum hinnar andlegu og stjórnarfarslegu miðstöðvar við þróun bahá’í heimsins voru gerð skil í boðunum sem við sendum 24. maí 2001 til átrúendanna sem komu saman í tilefni þess að framkvæmdum á Karmelfjalli var lokið: „Þær tignarlegu byggingar sem nú standa á þeim boga sem Shoghi Effendi markaði þeim í hlíð fjalls Guðs ásamt stórkostlegum garðstöllum sem umfaðma helgidóm Bábsins eru ytri tjáning þess mikla afls sem knýr fram málstaðinn sem við þjónum. Þær bera þeirri staðreynd eilíft vitni að fylgjendur Bahá’u’lláh hafa giftusamlega lagt grundvöllinn að heimsumlykjandi samfélagi sem er hafið yfir alla þá aðgreiningu sem sundrar mannsins ætt og byggt upp helstu stofnanir einstæðs og ósigrandi stjórnskipulags sem mótar líf þessa samfélags. Í þeirri ummyndun sem hefur átt sér stað á Karmelfjalli birtist bahá’í málstaðurinn sem sýnilegur og knýjandi raunveruleiki á hnattrænum vettvangi, sem brennidepill þeirra krafta sem munu á tilsettum tíma Guðs koma til leiðar enduruppbyggingu samfélagsins og verða leyndardómsfull uppspretta andlegrar endurnýjunar fyrir alla þá sem snúa sér til hans.“
Horfur
Nokkrum vikum áður en hann lést var ‘Abdu’l‑Bahá á heimili sínu með einum af vinunum. „Komdu með mér,“ sagði hann, „svo að við getum dáðst saman að fegurð garðsins.“ Síðan sagði hann: „Sjá hverju andi tilbeiðslunnar getur komið til leiðar! Fyrir nokkrum árum var ekkert nema grjóthrúga á þessum gróðursæla stað en nú vaxa hér blóm og laufskrúðug tré. Þrá mín er sú að allir ástvinirnir rísi upp í þjónustu við málstað Guðs eftir að ég er farinn. Guð gefi að svo verði.“ Og hann gaf þetta loforð: „Áður en langt um líður munu þeir birtast sem færa heiminum líf.“
Ástkæru vinir! Við lok þessa fyrsta árhundraðs mótunaraldarinnar er bahá’í heimurinn búinn hæfni og úrræðum sem vart var hægt að gera sér í hugarlund þegar ‘Abdu’l‑Bahá féll frá. Kynslóð eftir kynslóð hefur starfað af kappi og í dag hefur mikill fjöldi fólks um allan heim gengið trúnni á hönd – helgaðar sálir sem eru í sameiningu að byggja upp stjórnskipulag hennar, víkka umfang samfélagslífsins, efla samskipti þess við þjóðfélagið og þróa andlega og stjórnarfarslega miðstöð hennar.
Þessi stutta upprifjun á atburðum síðustu aldar leiðir í ljós að í starfi sínu að því að hrinda hinum þremur guðlegu stofnskrám í framkvæmd á kerfisbundinn hátt hefur bahá’í samfélagið orðið að nýrri sköpun, eins og ‘Abdu’l‑Bahá sá fyrir. Rétt eins og maðurinn gengur í gegnum ýmis stig líkamlegs og vitsmunalegs vaxtar uns hann nær fullum þroska, þannig þróast bahá’í samfélagið með lífrænum hætti að stærð og formgerð, þroskast að skilningi og sýn, axlar ábyrgð og styrkir tengslin milli einstaklinga, samfélaga og stofnana. Á þessari öld, hefur bahá’í samfélagið tekið margvíslegum framförum, bæði á svæðis- og heimsvísu, sem gera því kleift að stunda markvissar aðgerðir á sífellt víðari starfsvettvangi.
Þegar hetjuöldinni lauk stóð samfélagið frammi fyrir grundvallarspurningum um hvernig það ætti að skipuleggja stjórnarfarsleg málefni sín til að geta brugðist við kröfum hinnar guðlegu áætlunar. Verndarinn leiðbeindi vinunum hvernig þeir gætu tekist á við þessar fyrstu spurningar og starf þeirra náði hámarki í nýju alþjóðlegu fyrirkomulagi sem tekið var upp áður en hann lést. Hæfnin sem byggð var upp á þeim tíma gerði bahá’í heiminum fært að takast á við fjölda nýrra úrlausnarefna undir stjórn Allsherjarhúss réttvísinnar varðandi áframhaldandi starf trúarinnar á breiðara og margbrotnara sviði. Eftir umtalsverðan framgang í nokkra áratugi, og áður en fjögurra ára áætlunin hófst, vöknuðu fleiri spurningar um ennþá stærri tækifæri í framtíðarstefnu málstaðarins. Í þeirri áætlun fólust nýjar áskoranir fyrir frekari þróun sem miðaði að því að auka hópinngöngu til muna í öllum heimshlutum. Þessi vaxandi hæfni til að leysa úr flóknum spurningum og takast síðan á við enn viðameiri spurningar einkennir lærdómsferlið sem knýr framgang trúarinnar. Augljóst er því að með hverju skrefi sem bahá’í heimurinn tekur í lífrænni þróun sinni fær hann nýjan kraft og nýja hæfni sem gerir honum kleift að takast á við stærri áskoranir þegar hann leitast við að uppfylla markmið Bahá’u’lláh fyrir mannkynið. Og svo verður áfram hvernig sem heimurinn breytist og snýst, í gegnum kreppur og sigra með mörgum óvæntum snúningum á óteljandi áföngum mótunar- og gullalda allt til loka trúarkerfis Bahá’u’lláh.
Á síðustu árum fyrsta árhundraðs mótunaraldarinnar hafði myndast sameiginlegur aðgerðarammi sem gegnir veigamiklu hlutverki í starfi samfélagsins og upplýsir og mótar sífellt margbrotnari og árangursríkari starfsemi. Þessi rammi er í stöðugri þróun með uppsafnaðri reynslu og leiðsögn Allsherjarhúss réttvísinnar. Lykilatriði þessa ramma eru andleg sannindi og meginreglur opinberunarinnar. Aðrir þættir sem einnig stuðla að upplýstri hugsun og aðgerðum fela í sér gildi, viðhorf, hugtök og aðferðir. Enn aðrir varða skilning á efnislegum og félagslegum heimi með innsýn í ýmsar greinar þekkingar. Innan þessa ramma, sem er í stöðugri þróun, eru bahá’íar að læra hvernig þeir geta sýnt kenningar Bahá’u’lláh í verki á kerfisbundinn hátt til að gera háleit markmið Hans um bættan heim að veruleika. Mikilvægi þessarar auknu lærdómshæfni og þýðing hennar fyrir framfarir mannkyns á núverandi stigi í félagslegri þróun þess verður ekki ofmetin.
Hversu miklu hefur bahá’í heimurinn ekki áorkað! Hversu margt er samt ógert! Níu ára áætlunin gerir í stórum dráttum grein fyrir þeim verkefnum sem fram undan eru. Meðal þeirra sviða sem áhersla er lögð á eru mikil fjölgun og efling vaxtaráætlana í umdæmum um allan heim og aukið samræmi í starfinu að samfélagsuppbyggingu, samfélagsaðgerðum og þátttöku í ríkjandi þjóðfélagsumræðu með samstilltu átaki þriggja höfuðgerenda áætlunarinnar. Þjálfunarstofnunin verður styrkt enn frekar og heldur áfram að vaxa sem menntastofnun sem þroskar hæfni til þjónustu. Hlúð verður að fræjunum, sem hún sáir í hjörtu komandi kynslóða ungmenna með öðrum tækifærum til menntunar sem valdefla hverja sál til að stuðla að félagslegum framförum og velferð. Við þessa hreyfingu ungmenna bætist um allan heim fordæmalaus framgangur kvenna sem fullgildra samstarfsaðila í málefnum samfélagsins. Hlúð verður að hæfni bahá’í stofnana á öllum stigum og sérstök áhersla lögð á stofnun og þróun svæðisráða og aukin tengsl þeirra við hið víðara samfélag og leiðtoga þess. Vitsmunalegt líf samfélagsins verður ræktað til að efla þá skerpu og skýrleika í hugsun sem þarf til að sanna efagjörnu mannkyni gildi þess græðandi læknisdóms sem er að finna í kenningum Bahá’u’lláh. Og öllu þessu starfi verður haldið áfram í röð áætlana sem fela í sér áskorun til heillar kynslóðar sem bera mun bahá’í heiminn yfir þröskuld þriðju aldar sinnar.
Einörð viðleitni til að öðlast fyllri skilning á kenningum Bahá’u’lláh og að lifa í samræmi við þær á sér stað í stærra samhengi hins tvíþætta ferlis upplausnar og uppbyggingar sem Shoghi Effendi lýsti. Til að ná markmiði núverandi áætlana – sem er að leysa sífellt betur úr læðingi samfélagsuppbyggjandi kraft trúarinnar – þarf hæfni til að lesa í veruleika samfélagsins þegar það bregst við þessu tvenndarferli og mótast af því.
Sægur eyðileggjandi afla og atburða hefur skilið eftir sig ummerki angistar og blóðsúthellinga á spjöldum sögunnar og í lífi milljarða. Meðal þeirra eru hnignun umhverfisins, loftslagsbreytingar, heimsfaraldrar, hnignun trúar og siðferðis, töpuð merking og sjálfsmynd, upplausn hugmynda um sannleika og skynsemi, óbeisluð tækni, versnandi fordómar og hugmyndafræðilegar deilur, víðtæk spilling, pólitískur og efnahagslegur glundroði, stríð og þjóðarmorð. Á sama tíma má einnig greina uppbyggilegar stefnur sem vekja vonir og stuðla að þeirri „allsherjargerjun“ sem Shoghi Effendi segir að muni „hreinsa og endurmóta mannkynið í aðdraganda þess dags þegar órofa heild mannkynsins verður viðurkennd og einingu þess komið á“. Aukinn og víðtækari andi samstöðu í heiminum, ríkari vitund um hnattræna gagnkvæmni, samstarf sem einstaklingar og stofnanir taka opnum örmum og dýpri þrá eftir réttlæti og friði eru að gerbreyta mannlegum samskiptum. Og þannig nálgast heimurinn sýn Bahá’u’lláh í ótal haltrandi skrefum, í einstaka stórum stökkum og með hléum á milli þar sem framþróunin staðnar eða henni jafnvel hrakar meðan mannkynið mótar tengslin sem eru undirstöður sameinaðs og friðsæls heims.
Bahá’í samfélagið fer ekki varhluta af eyðingaröflunum sem herja á heiminn. Reyndar ber saga sérhvers bahá’í þjóðarsamfélags merki þeirra. Afleiðingarnar voru þær að á ýmsum stöðum og á ýmsum tímum tafðist framgangur tiltekins samfélags af völdum félagslegs undirróðurs eða seinkaði um tíma og stöðvaðist jafnvel með öllu af völdum andstöðu. Reglubundnar efnahagskreppur skertu fjárhagsleg úrræði trúarinnar, sem voru takmörkuð fyrir, og urðu þrándur í götu vaxtar og þróunar. Heimsstyrjöldin lamaði um tíma möguleika flestra samfélaga til að koma kerfisbundnum áætlunum í verk. Þær sviptingar sem hafa endurmótað pólitíska heimskortið hafa komið í veg fyrir fulla þátttöku sumra þjóðfélagshópa í starfi málstaðarins. Trúarlegir og menningarlegir fordómar, sem áður var talið að væru á undanhaldi, hafa stungið aftur upp kollinum af nýjum ofsa. Bahá’íar hafa kappkostað að takast á við slíkar áskoranir af þrautseigju og einbeitni. Göfugustu viðbrögðin við fjandsamlegum öflum sem stefnt var gegn framgangi málstaðarins á síðustu öld eru samt þau sem bahá’íarnir í Íran hafa sýnt.
Frá því Verndarinn tók fyrst til starfa hafa ofsóknirnar sem bahá’íar í Íran máttu þola alla hetjuöld trúarinnar haldið áfram. Öldur ofbeldis og undirokunar skullu á þessu samfélagi og jukust til muna með þeim árásum og kerfisbundinni kúgun sem átti sér stað í kjölfar írönsku byltingarinnar. Fram til dagsins í dag hefur ekkert lát orðið á þessari áþján. En þrátt fyrir allt sem þeir hafa mátt þola hafa írönsku bahá’íarnir brugðist við með óbilandi hugrekki og uppbyggilegri þrautseigju. Þeir hafa áunnið sér óforgengilegan heiður með afrekum á borð við myndun „Bahá’í stofnunar um æðri menntun“ til þess að tryggja menntun komandi kynslóða, og með starfi sínu að breyttum viðhorfum réttsýnna samlanda sinna – bæði innanlands og utan – og umfram allt með þolgæði sínu gagnvart hverskyns rangindum, skorti og svívirðingum í því skyni að vernda trúsystkini sín, tryggja heiður og heilindi trúar Bahá’u’lláh í ástkæru heimalandi Hans og standa vörð um málstaðinn í landinu til hagsbóta fyrir borgara þess. Í slíku viðhorfi óbilandi æðruleysis, helgunar, trúmennsku og gagnkvæms stuðnings felst nauðsynlegur lærdómur um hvernig bahá’í heimurinn verður að bregðast við þeim auknu eyðingaröflum sem gera má ráð fyrir á komandi árum.
Áskorunin sem blasir við í samspili uppbyggingar- og upplausnarferlanna er í innsta eðli sínu fastheldni við kenningar Bahá’u’lláh og lýsingu Hans á veruleikanum um leið og spornað er gegn togkrafti umdeildra og skautaðra kappræðna og tælandi forskrifta sem endurspegla vonlausar tilraunir til að skilgreina mannlega sjálfsmynd og félagslegan veruleika með takmörkuðum mannlegum hugmyndum, heimspeki efnishyggjunnar og ástríðufullum deilum. „Græðarinn gjörþekkjandi hefur fingur sinn á slagæð mannkynsins. Hann skilgreinir sjúkdóminn og bendir í óskeikulli visku sinni á lækninguna,“ segir Bahá’u’lláh. „Vér skynjum glöggt hvernig miklar og ómældar hörmungar steðja að öllu mannkyni.“ Samt bætir Hann þessu við: „Þeir sem hafa ölvað sig drambi koma á milli þess og Hins himneska, óskeikula græðara. Sjá hvernig þeir hafa flækt sjálfa sig og alla aðra í net vélráða sinna.“ Ef bahá’íar blanda sér í blekkjandi umræður stríðandi aðila, ef þeir líkja eftir þeim gildum, viðhorfum og venjum sem skilgreina sjálfumglaða og eigingjarna öld, mun krafturinn sem er nauðsynlegur til að frelsa mannkynið úr neyð sinni seint verða leystur úr læðingi. Þeir ættu fremur að íhuga þessi orð Verndarans: „Meistarasmiðir rísandi heimsskipulags Bahá’u’lláh verða að klífa göfugri hæðir hetjudáða þegar mannkynið hrapar í djúp örvæntingar, niðurlægingar, sundurlyndis og neyðar. Þeir eiga að halda á vit framtíðar æðrulausir og fullir vissu um að stund mestu átaka þeirra og bestu tækifæra til að vinna djörfustu þrekvirkin hlýtur að fara saman við þær heimsumlykjandi hamfarir sem marka lægsta stigið í ört dvínandi auðnu mannkynsins.“
Enginn fær séð nákvæmlega hvaða stefnu upplausnaröflin munu taka, hverskonar ofsafengið umrót mun grípa mannkynið á þessum umbrotasömu tímum, hvaða hindranir rísa eða tækifæri gefast uns ferlið nær hámarki sínu í hinum mesta friði, sem verður til marks um að þeim áfanga er náð þegar þjóðirnar viðurkenna einingu sína og órofa heild og „leggja frá sér stríðsvopnin og snúa sér að leiðum til allsherjaruppbyggingar“. Eitt er þó víst: Uppbyggingarferlinu mun einnig fleygja fram og það mun tengja æ betur saman störf þeirra sem læra að gera kenningar Bahá’u’lláh að veruleika og störf annarra í hinu víðara samfélagi sem leita réttlætis og friðar. Í bókinni Guðlegt réttlæti í nánd útskýrði Shoghi Effendi fyrir bahá’íum í Ameríku að í ljósi takmarkaðrar stærðar samfélags þeirra og þeirra knöppu áhrifa sem það hafði á þeim tíma, yrðu þeir að einbeita sér að sínum eigin vexti og þroska á sama tíma og þeir lærðu að beita kenningunum. Hann hét því hins vegar að sá tími kæmi að þeir yrðu kallaðir til að virkja samborgara sína í starfi að græðingu og bata þjóðar sinnar. Sá tími er nú kominn. Hann er ekki aðeins kominn fyrir bahá’ía í Ameríku heldur bahá’ía um allan heim þegar samfélagsuppbyggjandi kraftur trúarinnar leysist sífellt betur úr læðingi.
Að leysa þann kraft úr læðingi hefur þýðingu fyrir komandi áratugi. Allt fólk og allar þjóðir hafa hlutverki að gegna í næsta áfanga í grundvallarendurreisn mannlegs samfélags. Allir geta boðið upp á einstæða innsýn og reynslu við uppbyggingu sameinaðs heims. Og það er á ábyrgð vinanna sem flytja endurreisnarboðskap Bahá’u’lláh, að aðstoða alla menn við að leysa úr læðingi þá duldu möguleika sem í þeim búa og uppfylla þannig æðstu væntingar sínar. Í slíku átaki deila vinirnir þessum dýrmæta boðskap með öðrum, leitast við að sýna fram á virkni guðlegrar græðingar í lífi einstaklinga og samfélaga og starfa með öllum sem hafa sömu gildi og væntingar. Þegar þeir gera þetta mun sýn Bahá’u’lláh á sameinuðum heimi marka skýra og vonglaða leið fyrir þjóðir, sem standa ráðþrota og vanmáttugar andspænis glundroða heimsins, og bjóða til uppbyggilegs samstarfs í leit að lausnum á langvarandi félagslegum meinsemdum. Þegar hjörtun hrífast af anda trúarinnar tendrar hann ást og styrkir sameiginlega sjálfsmynd mannkyns sem einnar þjóðar. Hann vekur tilfinningu fyrir dyggri og einlægri borgaralegri ábyrgð, og í stað þess að sækjast eftir veraldlegu valdi beinist orkan að sjálflausri þjónustu við almannaheill. Þjóðfélagshópar tileinka sér í auknum mæli leiðir samráðs, aðgerða og íhugunar til að koma í veg fyrir endalausa samkeppni og átök. Einstaklingar, samfélög og stofnanir þvert á margvísleg þjóðfélög samræma í æ ríkari mæli störf sín í þeim sameiginlega tilgangi að sigrast á flokkadráttum. Andlegir og siðferðilegir eiginleikar sem eru grundvöllur framfara og velfarnaðar mannkyns festa rætur í mannlegri eðlisgerð og samfélagsháttum.
Heimurinn gengur að sönnu á móts við óumflýjanleg örlög sín. Þegar málstaður Bahá’u’lláh þróast á öðru árhundraði mótunaraldar, ættu allir að sækja innblástur í orð Verndarans ástkæra, sem mótaði liðna öld með leiðsögn sinni. Árið 1938 skrifaði hann eftirfarandi um framkvæmd fyrsta áfangans í hinni guðlegu áætlun: „Möguleikarnir sem alvoldug forsjón hefur gætt hana munu án efa gera forgöngumönnum hennar kleift að ná markmiði sínu. Mikið er hins vegar undir anda og starfsháttum þessa verkefnis komið. Með skýrri og stöðugri sýn og óflekkuðum lífsþrótti trúarinnar, óspillanlegu siðferðisþreki, einarðri staðfestu, óviðjafnanlegum yfirburðum markmiða sinna og framúrskarandi afrekum, geta þeir sem starfa til dýrðar Hinu mesta nafni … best sýnt þjóðfélögum sínum, sem skortir sýn, trú og staðfestu, fram á aflið sem þeir hafa til að veita samborgurum sínum skjól og athvarf á örlagastundu. Þá, og aðeins þá, mun þessi meyri sproti, sem skýtur rótum í frjósömum jarðvegi guðlegs stjórnskipulags og sækir orku sína í öflug ferli stofnana sinna, bera sinn fyrirhugaða og undursamlegasta ávöxt.“
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]