24. maí 2022 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Allt frá kröftugu ákalli ‘Abdu’l‑Bahá í Töflum Hinnar guðlegu áætlunar um að átrúendurnir rísi upp og ferðist vítt og breitt til að sá „hreinu sæði“ guðlegra kenninga og „koma því til leiðar að heimur mannkyns upplýsist“, hafa hópar ástvina hans hvað eftir annað svarað kallinu af eldmóði og stigið inn á vettvang brautruðnings. Hin guðlega áætlun – nú á þriðja tímaskeiði þróunar sinnar – og heimsáætlanir bahá’í samfélagsins sem mynda samfellda áfanga hennar, halda áfram að hvetja vinina, veita viðleitni þeirra í farveg og styrkja tilgangsvitund þeirra og skuldbindingu um að stuðla að efnislega og andlega farsælum heimi. Reyndar er það vegna þessarar helguðu viðleitni sem trúin hefur fest rætur í fjarlægustu heimshornum og blómgast við margvíslegar aðstæður, og á þeim stöðum þar sem jarðvegur mannshjartans hefur verið sérlega frjór eru áhrif þjóðfélagsuppbyggjandi krafts hennar æ auðsærri. Vegna krafna síðustu tveggja áætlana var ríkari áhersla lögð á innanlands brautruðning sem leiddi til þess að meira en 7.000 vinir stigu inn á þann þjónustuvettvang, en um 700 svöruðu kallinu um brautruðning á alþjóðavettvangi. Þessi árangur er sannarlega eftirtektarverður sé litið til þeirra ferðatakmarkana sem voru við lýði stóran hluta þessa tímabils. Enn undraverðari er sú staðreynd að þessir brautryðjendur komu frá 169 löndum, sem er vitnisburður um andlega hæfni, helgun og staðfestu fylgjenda Bahá’u’lláh.
Eins og fram kom í skilaboðum okkar frá 30. desember 2021, sem send voru ráðstefnu álfuráðanna, geta lönd eða landshlutar þar sem trúin er á fyrstu þróunarstigum notið mikils gagns af því sem bahá’í samfélög um allan heim eru að læra um hraðari útbreiðslu og treystingu. Það sem hefur komið í ljós í þessu sambandi er kosturinn við að hafa umdæmi sem hefur náð þriðja áfanga. Með hliðsjón af þessu er eitt af meginmarkmiðum níu ára áætlunarinnar að hafa að minnsta kosti eitt slíkt umdæmi í hverju landi og landshluta. Um 160 staðir eiga enn eftir að ná þessu markmiði og brátt verður þörf á nokkur hundruð brautryðjendum, aðallega á alþjóðavettvangi, til að tryggja að þetta markmið náist í lok áætlunarinnar. Hvað þetta snertir er þess vænst að bahá’í samfélög í löndum þar sem staða vaxtarferla er traust, muni senda flesta slíka brautryðjendur. Gert er ráð fyrir að þessir vinir komi frá sterkari umdæmum, setjist að í starfsmiðstöðvum sem ekki eru eins langt á veg komnar í viðtökulöndum eða -landshlutum, og verði fljótt hluti af uppvaxandi kjarna einstaklinga sem helga sig ræktun þróttmikils samfélagsmynsturs. Andlegu kraftarnir sem slík hreyfing leysir úr læðingi og sú reynsla sem brautryðjandi getur miðlað samfélaginu eru öflugur hvati til framfara. Andlegu þjóðarráðin og bahá’í landshlutaráð í þeim löndum, þaðan sem búist er við að brautryðjendur komi, bera sérstaka ábyrgð á að auðvelda þessa hreyfingu og veita stuðning við markmiðsumdæmin, svo sem með því að auðvelda heimsóknir ferðakennara og reynslugjafa þjálfunarstofnana eða tengja virka þátttakendur í hinu nýja samfélagi brautryðjandans við lærdómsferlið sem er í gangi í þróuðum umdæmum í landi þeirra.
Eins og lýst var í Riḍvánboðum okkar til bahá’í heimsins er ráðgert að í núverandi áætlun verði vaxtaráætlunum komið á fót í þúsundum nýrra umdæma, að fjöldi umdæma með öfluga vaxtaráætlun muni ríflega tvöfaldast og verða 11.000, og að yfir 5.000 þeirra verði lengra komin. Að ná þessum feiknamiklu alþjóðlegu markmiðum, sem byggjast á forspám þjóðarráðanna sjálfra, kallar á brýnan og skjótan framgang á mörgum vígstöðvum, þar á meðal að komið verði á stöðugu flæði innanlands brautryðjenda sem geta brett upp ermar og flutt í hverfi eða umdæmi þar sem hjálpar er þörf. Í því sambandi er auðveldara að ná árangri þegar þessir brautryðjendur flytja frá umdæmi með rótgróna vaxtaráætlun til nálægs byggðarlags eða byggðar innan sama héraðs og hafi þannig hag af svipaðri menningu og tungumáli, og byggi á þeim félags- og fjölskyldutengslum sem kunna að vera fyrir hendi. Þjónustumynstur sem þróaðist í síðustu tveimur áætlunum og færði okkur mikla gleði varðar flutninga ungs fólks sem nýtti sér að vera tiltölulega frjálst og dvaldi í nokkra mánuði í samfélagi sem var í mótun og lagði dýrmætan skerf af mörkum til þróunar þess. Þetta mynstur lofar góðu fyrir níu ára áætlunina.
Auk þess sem lýst er hér að ofan geta átrúendur, sem finna hjá sér hvöt til að bjóða fram þjónustu sem brautryðjendur um tíma, auðvitað komið hvaðan sem er og sest að hvar sem er í heiminum þar sem þeir telja sig geta lagt af mörkum til þróunar trúarinnar. Þekking á skilyrðum alþjóðaáætlana, og reynsla af kennslu málstaðarins og starfi að samfélagsuppbyggingu í þeirra eigin umdæmi getur komið mjög að gagni á þessum þjónustuvettvangi.
Í þeirri fullvissu að samfélagið kunni að meta mikilvægi þessara sögulegu tímamóta og getu sína til að bregðast við kröfum stundarinnar, hvetjum við vinina nú til að íhuga hvernig þeir geti lagt sitt af mörkum til aðkallandi þarfa níu ára áætlunarinnar fyrir brautruðning – bæði á heimaslóðum og á alþjóðavettvangi. Þegar þeir búa sig undir að fara inn á þennan gríðar mikilvæga vettvang komast þeir að raun um að ráðleggingar stofnananna eru ómissandi. Þegar þeir hefjast handa um að dreifa guðlegri ilman æ víðar, munu orð Verndarans til fylgjenda Hinnar blessuðu fegurðar við upphaf heimskrossferðarinnar fyrir um sjö áratugum án efa hljóma í eyrum þeirra: „Léttfærir sem andinn, hreinir og tærir sem andblærinn, logandi sem eldurinn, óheftir sem vindurinn – með þessum orðum áminnir Bahá’u’lláh sjálfur ástvini sína í töflum sem beinast ekki að fáeinum útvöldum heldur til alls samfélags hinna trúföstu – þannig ættu þeir að dreifa sér víða vegu, kunngera dýrð opinberunar Guðs á þessum degi, endurlífga sálir manna og kveikja í hjörtum þeirra ást á Honum sem einn er almáttugur og guðlega tilnefndur lausnari þeirra.“