Riḍván 2022 – Til bahá’ía um heim allan
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Efnisgrein 6
Efnisgrein 7
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Ári undirbúnings og íhugunar, samhliða kappsömu starfi, er lokið. Það einkenndist af viðleitni vinanna um allan heim til að minnast aldarártíðar ‘Abdu’l‑Bahá, meðal annars með því að senda fulltrúa til að taka þátt í sérstökum viðburði honum til heiðurs í landinu helga. Þessi viðleitni varð til þess að innblásturinn sem ‘Abdu’l‑Bahá veitti með lífi sínu hefur snortið ótölulegan fjölda sálna og ekki aðeins bahá’ía. Umhyggja hans fyrir sérhverjum meðlimi í fjölskyldu mannsins, kennslustarf hans, tilstuðlan hans að viðfangsefnum í þágu menntunar og félagslegrar velferðar, yfirgripsmikið framlag hans til umræðu bæði í austri og vestri, hjartanleg hvatning hans og stuðningur við byggingu tilbeiðsluhúsa, starfið sem hann vann að mótun fyrstu stiga bahá’í stjórnskipunar, starf hans að ræktun margvíslegra þátta samfélagslífsins – allar þessar víxlverkandi hliðar í lífi hans endurspegluðu stöðuga og fullkomna helgun hans í þjónustunni við Guð og mannkynið allt. Auk þess sem ‘Abdu’l‑Bahá var svipmikil og tignarleg persóna í krafti siðferðilegs valds og framúrskarandi andlegs innsæis, var hann hreinn farvegur þeirra krafta sem opinberun Bahá’u’lláh leysti úr læðingi og orkuðu á heiminn fyrir atbeina hans. Til að skilja þann þjóðfélagsuppbyggjandi kraft sem trúin býr yfir, þarf ekki að skyggnast lengra en til þeirra afreka sem ‘Abdu’l‑Bahá vann með þjónustu sinni og til umbreytandi áhrifa leiðsagnarinnar sem streymdi án afláts úr penna hans. Svo margar þeirra stórkostlegu framfara sem bahá’í samfélagið hefur tekið á okkar tímum – og lýst var í síðustu Riḍvánboðum okkar – má rekja til aðgerða, ákvarðana og leiðsagnar ‘Abdu’l‑Bahá.
Því er vel við hæfi að sá heiður og sú hollusta sem allt bahá’í samfélagið hefur vottað fullkominni Fyrirmynd sinni skuli vera undanfari voldugs verkefnis sem miðar að því að leysa úr læðingi þjóðfélagsuppbyggjandi kraft trúarinnar í sífellt ríkari mæli. Verkefnasviðin sem falla undir níu ára áætlunina, og núverandi röð áætlana, beinast að því að uppfylla þetta yfirmarkmið, og það er líka í brennidepli á meira en 10.000 ráðstefnum sem haldnar eru um allan heim til að marka upphaf þessa mikla andlega framtaks. Búast má við að fordæmalaus fjöldi þátttakenda sæki þessar ráðstefnur og þá ekki aðeins bahá’íar heldur margir aðrir velunnarar mannkyns sem eiga með þeim sameiginlega löngun til að styrkja einingu og bæta heiminn. Einbeitni þeirra og sterk tilgangsvitund endurspeglast í andanum sem skapaðist á samfundunum sem þegar hafa verið haldnir, þar sem þátttakendur hafa verið jafn stálsettir af kraftmikla samráðinu sem þeir tóku þátt í og þeirri sameiginlegu sýn sem skoðuð var ofan í kjölinn á þessum fagnaðarríku viðburðum. Við bíðum þess með mikilli eftirvæntingu hvað næstu mánuðir og ár muni bera í skauti sér.
Frá því að við sendum skilaboð okkar til ráðstefnu ráðgjafanna þann 30. desember 2021 hafa andleg þjóðarráð og bahá’í landshlutaráð verið að meta af alvöru möguleikana á að efla vaxtarferlið í lögsagnarumdæmum sínum í níu ára áætluninni. Við teljum að þegar mat er lagt á þær framfarir sem orðið hafa með tímanum sé gagnlegt að líta á framvindu áætlunarinnar í tveimur fjögurra og fimm ára áföngum. Þjóðarráðum var boðið að íhuga þá framþróun sem þau búast við að eigi sér stað í samfélögum sínum á Riḍván 2026 og síðan aftur á Riḍván 2031. Þetta verk fól einnig í sér endurmat á mörkum umdæma og niðurstaðan er sú að umdæmum í heiminum hefur í heild fjölgað um fjórðung og þau eru nú rúmlega 22.000 talsins. Miðað við þær spár sem bárust má gera ráð fyrir að í lok áætlunarinnar verði vaxtaráætlun á einhverju þróunarstigi fyrir hendi í um 14.000 þessara umdæma. Af þeim er ráðgert að vaxtaráætlunum sem geta talist öflugar fjölgi í 11.000 á sama tímabili. Og af þeim má búast við að umdæmum sem náð hafa þriðja áfanga muni fjölga í ríflega 5.000 árið 2031. Slíkur viðgangur felur án efa í sér gríðarlegt átak á öllum stigum áætlunarinnar. Við teljum engu að síður að þetta séu verðugar væntingar sem keppa skuli að, því þær fela í sér metnaðarfullt en vel íhugað mat á því sem er innan seilingar.
Þetta er þýðingarmikið. Slík markmið gætu ekki talist raunhæf ef stjórnstofnanir og starfsaðilar hefðu ekki þróast til mikilla muna og öðlast stóraukna getu til að stjórna málefnum samfélags sem tekst á við hraðfjölgandi verkefni og sem tekur opnum örmum miklum og vaxandi fjölda skyldra sálna. Ógerlegt væri að stefna að slíkum vexti ef löngun til þess að læra – að framkvæma, íhuga, öðlast innsýn og tileinka sér innsýn sem sprettur upp annars staðar – hefði ekki verið ræktuð á öllum stigum, allt niður í grasrót samfélagsins. Og verkefnið sem slíkar fyrirætlanir fela í sér væri vart framkvæmanlegt ef kerfisbundin nálgun við kennslustarfið og þróun mannauðs hefði ekki orðið æ sýnilegri innan bahá’í heimsins. Allt þetta hefur leitt til viðgangs hvað varðar sjálfsvitund og stefnu bahá’í samfélagsins. Sú ákvörðun að horfa út á við í ferli samfélagsuppbyggingar var strax orðin fastur þáttur í menningu á fjölmörgum stöðum og hefur nú í vaxandi fjölda samfélaga þróast í vitund um raunverulega ábyrgð á andlegum og efnislegum framförum sífellt stærri þjóðfélagshópa langt umfram aðild að bahá’í samfélaginu sjálfu. Viðleitni vinanna til að byggja upp samfélög, taka þátt í samfélagsaðgerðum og leggja sitt af mörkum til ríkjandi þjóðfélagsumræðna hefur runnið saman í eitt hnattrænt verkefni innan sameiginlegs aðgerðaramma og beinist að því að hjálpa mannkyni að móta málefni sín á grundvelli andlegra meginreglna. Ekki er hægt að horfa fram hjá þýðingu þeirrar þróunar sem við höfum lýst og komin er á þetta stig hundrað árum eftir að stjórnskipulagið var sett á stofn. Í þeirri ótrúlegu aukningu á hæfni sem orðið hefur á síðustu tveimur áratugum – og gert hefur bahá’í heiminum kleift að líta á starfsemi sína sem viðleitni til að leysa úr læðingi þjóðfélagsuppbyggjandi kraft trúarinnar – sjáum við óvéfengjanlega sönnun þess að málstaður Guðs er kominn á sjötta tímaskeið mótunaraldar sinnar. Við tilkynntum á Riḍván í fyrra að víðtæk þátttaka í bahá’í starfsemi af hálfu mikils fjölda sem öðlast hefur sterka trú og tileinkað sér færni og hæfileika til að þjóna samfélögum sínum tákni að þriðja tímaskeið guðlegrar áætlunar Meistarans sé hafið. Þannig hefur eins árs áætlunin frá því hún hófst og nú þegar henni lýkur markað sögulegar framfarir í samfélagi hinna trúföstu. Og þessi sameinaða fylking átrúenda stendur nú á þröskuldi nýs og voldugs verkefnis reiðubúin að nýta þau tækifæri sem við henni blasa á alla vegu.
Áberandi einkenni þess tímaskeiðs sem nú lýkur var bygging síðustu tilbeiðsluhúsanna sem þjóna heimsálfum og að vinna hófst við að koma á fót tilbeiðsluhúsum fyrir lönd eða svæðissamfélög. Bahá’íum um allan heim hefur lærst mikið um hugmyndafræðina að baki Mashriqu’l-Adhkár og þann samruna tilbeiðslu og þjónustu sem sú stofnun stendur fyrir. Á sjötta tímaskeiði mótunaraldarinnar mun eiga sér stað mun meiri lærdómur um vegferðina frá þróun samfélaga þar sem helgihald dafnar – og þjónustuna sem það elur af sér – þar til Mashriqu’l-Adhkár verður til. Samráð er að hefjast við ýmis andleg þjóðarráð og eftir því sem þeim samræðum vindur fram, munum við stig af stigi tilkynna um þá staði þar sem bahá’í tilbeiðsluhús verða stofnsett á næstu árum.
Við gleðjumst við að sjá samfélag Hins mesta nafns þróa með sér styrk á styrk ofan en á gleðina ber skugga þeirrar djúpu hryggðar sem það veldur að sjá viðvarandi ástand og átök í heiminum sem valda hörmungum og vitstola þjáningu – alveg sérstaklega að horfa æ ofan í æ upp á niðurrifsöfl sem hafa komið alþjóðamálum í upplausn og skapað almenningi hryllilegar aðstæður. Við þekkjum vel og það er okkur hughreysting, eins og bahá’í samfélög hafa margsinnis sýnt við ólíkar aðstæður, að fylgjendur Bahá’u’lláh eru einarðir í því að styðja og aðstoða fólk í kringum sig, hversu erfiðar sem þeirra eigin aðstæður kunna að vera. En þar til mannkynið í heild ræðst í að formfesta málefni sín á undirstöðum réttlætis og sannleika, munu örlög þess því miður verða þau að ramba frá einni kreppu til annarrar. Við biðjum þess, að ef nýtilkomið stríð í Evrópu á að skila einhverjum lærdómi til framtíðar, verði það knýjandi áminning um þá leið sem heimurinn verður að fara, eigi hann að ná raunverulegum og varanlegum friði. Þau meginlögmál sem Bahá’u’lláh setti fram með skýrum hætti við einvalda og forseta síns tíma, og þær þungvægu skyldur sem Hann lagði á stjórnendur þá og nú, eiga að líkindum enn frekar við núna en þegar þau voru fyrst skráð af penna Hans. Ófrávíkjanleg þróun hinnar meiri áætlunar Guðs, sem færir með sér eldraunir og umbrot en knýr mannkynið þó að lokum í átt að réttlæti, friði og einingu, er fyrir bahá’íum stóra samhengið þar sem hinni minni áætlun Guðs vindur fram en þar eru megin viðfangsefni átrúendanna. Óstarfshæft ástand nútímasamfélags gerir þörfina á að leysa úr læðingi þjóðfélagsuppbyggjandi kraft trúarinnar augljósa og knýjandi. Um sinn getum við ekki reiknað með öðru en að hamfarir og óeirðir haldi áfram að þjaka heiminn. Vafalaust munuð þið því skilja hvers vegna sérhverju einlægu bænarákalli okkar um að létta megi fári og nístandi erfiðleikum af börnum Guðs, fylgi jafn innileg bæn fyrir árangri þeirrar áríðandi þjónustu sem þið innið af hendi fyrir málstað Friðarhöfðingjans.
Í hverju umdæmi þar sem skriðþungi eykst í starfi áætlunarinnar, sjáum við þróun samfélaga með þeim göfugu einkennum sem við lýstum í skilaboðunum 30. desember 2021. Þegar þjóðfélög verða fyrir álagi af ólíkum toga, verða fylgjendur Abhá fegurðarinnar að skera sig æ meira úr fyrir seiglu og dómgreind, fyrir gott framferði og að fylgja lífsreglum – og fyrir samúð, hleypidómaleysi og umburðarlyndi við að ná fram einingu. Trekk í trekk hafa auðkennandi eiginleikar og viðhorf sem átrúendur hafa sýnt á tímum bráðavanda valdið því að fólk leitar til bahá’ía um skýringar, ráð og stuðning, ekki síst þegar líf þjóðfélagsins hefur farið úr skorðum í óvæntu ógnar- og upplausnarástandi. Er við deilum þessu sem við höfum orðið áskynja, höfum við hugfast að bahá’í samfélagið finnur einnig sjálft fyrir áhrifum sundrunaraflanna sem eru að verki í heiminum. Enn fremur gerum við okkur grein fyrir, að því meir sem vinirnir leggja á sig við að vinna orði Guðs brautargengi, þeim mun sterkari andstöðuöflum munu þeir mæta, fyrr eða síðar, úr ýmsum áttum. Þeir verða að styrkja hug sinn og anda gegn þeim prófraunum sem örugglega verða, svo að heilindi verka þeirra beri ekki skaða af. En átrúendurnir vita vel að hver sem stórviðrin verða fram undan er örk málstaðarins hverjum vanda vaxin. Á siglingu sinni hefur hún á hverjum áfanganum á fætur öðrum staðið af sér náttúruöflin og riðið öldufaldi. Nú stefnir hún á nýja sjónarrönd. Staðfestingar Hins almáttuga eru vindhviður sem fylla segl hennar og knýja hana í átt að ákvörðunarstaðnum. Og sáttmálinn er leiðarstjarnan sem heldur hinu helga fleyi á sinni öruggu og vissu stefnu. Megi herskarar himnanna veita blessanir sínar öllum um borð í þeirri siglingu.