4. janúar 2022 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Við erum á þessari stundu í félagsskap álfuráðgjafanna – langflestir þeirra eru staddir í landinu helga, en nokkrir sem ekki gátu ferðast hingað eru í fjarsambandi. Sjötti og síðasti dagur ráðstefnunnar var helgaður komandi níu ára áætlun og honum er nú að ljúka. Margt væri hægt að segja ykkur um anda þessarar ráðstefnu eins og hann birtist í þaulreyndum þátttakendum hennar sem með eigin augum hafa séð hvernig hæfni bahá’í heimsins hefur aukist og eru fullir vongleði og trausts á því sem þið getið afrekað í framtíðinni. Við hefðum ekki getað óskað okkur dýpri og næmari skilnings á því sem kallað er eftir í næstu áætlun en þeim sem kom fram í samráði þessara helguðu sálna. En þetta er vitaskuld aðeins byrjunin. Þegar ráðgjafarnir snúa aftur til heimalanda sinna í fimm heimsálfum munu þeir kynna ykkur, og þeim sem þjóna með ykkur, allt sem þeir hafa séð og heyrt hér á ráðstefnunni. Þeir og aðstoðarmenn þeirra verða ykkur til fulltingis þegar þið búið ykkur undir þetta feiknamikla sameiginlega átak – sérstaklega með þátttöku í ráðstefnum sem brátt verða haldnar um allan heim, þar sem allsherjarboð Bahá’u’lláh um starf að bættum heimi mun stálsetja samankomna velunnara mannkyns.
Sameiginlegar kringumstæður fólks um allan heim og innan trúarinnar hafa gert þessa stund örlagaríka. Hnattrænar áskoranir sem mannkynið stendur nú frammi fyrir eru alvarlegur prófsteinn á vilja þess til að leggja skammtíma eiginhagsmuni til hliðar og sætta sig við þann áþreifanlega andlega og siðferðilega veruleika að til er aðeins ein samofin fjölskylda mannkyns og hún býr í einu dýrmætu heimalandi. Á þessari sömu stund eru fylgjendur Bahá’u’lláh að skoða á nýjan leik þá möguleika sem við þeim blasa til að leysa úr læðingi þjóðfélagsuppbyggjandi kraft trúarinnar. Þessi áætlun mun reyna á þrek þeirra, viljastyrk og ást á þeim sem búa umhverfis þá. Þeir munu alls staðar gera sitt besta til að hlúa að samfélögum sem stefna að sama marki og viðurkenna mátt einingarinnar til að græða og hefjast á hærra svið. Innan þessara samfélaga getur sérhver sál fundið sér griðastað og í margs konar starfi vinanna að tilbeiðslu og lofgjörð, menntun, félagslegri umbreytingu og þróun samfélaga – á öllum þessum sviðum getur sérhver sál fundið rými til að vaxa og þjóna. Við erum djúpt snortnir yfir þessu fyrirheiti ‘Abdu’l‑Bahá: „Hið smáa verður stórt og hinn máttvana fær styrk; þeir sem eru ungir að aldri verða börn ríkisins og þeir sem hafa farið villur vegar verða leiddir til síns himneska heimilis.“
Þegar Bahá’u’lláh sendi frá sér fagnaðarerindi sitt voru þeir átrúendur býsna fáir sem flutt gátu mannkyni boðskap Hans. Í dag, lof sé Guði, er hollusta vinanna óbilandi og þeim hefur fjölgað hröðum skrefum. Megi hjörtu þeirra sækja þrótt í kraft orðs Hans, og megi þau í hverju rými og við hvert tækifæri skína af ljósi himinsins. Þetta verður bænin á vörum okkar og vonin í brjóstum okkar þegar við í dag göngum ásamt ráðgjöfunum inn í helgidóm Hinnar blessuðu fegurðar til að biðja fyrir ykkur.