3. janúar 2022 – Til aðstoðarráðgjafa um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Efnisgrein 6
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Til aðstoðarráðgjafa um allan heim
Á þessum degi sem við höfðum beðið með mikilli eftirvæntingu til að geta boðið ykkur öll velkomin á sameiginlega ráðstefnu með álfuráðgjöfunum í landinu helga, viljum við skrifa ykkur og lýsa hryggð yfir því að vegna heimsástandsins getur þessi langþráði fundur ekki farið fram. Þær tilfinningar sem við höfðum vonast til að tjá ykkur persónulega verðum við nú að miðla ykkur úr fjarska. En fjarlægðin dregur ekki úr þeirri miklu ást sem við berum til ykkar allra.
Hundrað ár eru liðin frá því erfðaskrá ‘Abdu’l‑Bahá var fyrst lesin opinberlega. Í því dýrmæta skjali fjallaði hann um skyldur Handa málstaðar Guðs, en aðstoðarráðin fyrir útbreiðslu og vernd voru upphaflega stofnuð þeim til styrktar og stuðnings. ‘Abdu’l‑Bahá hvatti Hendur málstaðarins „til að dreifa hinum guðdómlega ilmi, uppfræða sálir manna, stuðla að lærdómi, bæta eðlisgerð allra manna og vera ævinlega og undir öllum kringumstæðum helgaðar frá öllu sem er af þessum heimi“. Lestur þessara orða kallar nú fram í hugann þjónustuna sem sérhvert ykkar innir af hendi um allan bahá’í heiminn. Raunar stendur bahá’í heimssamfélagið í þakkarskuld við alla Stofnun ráðgjafanna, þar á meðal alla þá sem hafa þjónað sem álfuráðgjafar, aðstoðarráðgjafar og aðstoðarmenn á liðnum árum. Án svo dyggrar þjónustu svo fjölmargra, hefðu þær stórkostlegu framfarir sem orðið hafa á undanförnum áratugum og blasa við í heiminum í dag, ekki átt sér stað. Ómissandi í þessari framþróun var leiðsögn og hvatning Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar, þeirrar snarráðu, glöggskyggnu og algjörlega óþreytandi stofnunar.
Nú hafið þið fengið tækifæri til að kynnast ákvæðum níu ára áætlunarinnar og velta fyrir ykkur þýðingu hennar. Eins og í ljós mun koma hafa þau verksvið víkkað þar sem átrúendurnir eru beðnir um að þjóna innan umdæma sinna til að leysa úr læðingi þjóðfélagsuppbyggjandi kraft trúarinnar í sífellt meiri mæli. Að sama skapi hafa þau málefnasvið einnig stækkað sem þið verðið að leggja mikla áherslu á. Atfylgi ykkar er ómissandi í starfi þar sem þróa verður hæfni til að leggja af mörkum til ýmissa sviða í starfi bahá’í samfélagsins, og viðleitni ykkar er jafn ómissandi þegar aðstoða skal vinina að sýna í verki þá hæfni sem þeir hafa öðlast. Með því að sinna báðum þessum þörfum og almennt þegar þið rækið skyldur ykkar varðandi menntun og endurbætur á skaphöfn, treystið þið auðvitað mjög á skilvirkni þjálfunarferlisins. Þjálfunarstofnunin hefur allt frá upphafi verið ómissandi tæki í starfi ykkar og jafnframt hefur ötull stuðningur ykkar haft mikla þýðingu fyrir þróun hennar. Það gleður okkur því mjög að sjá einlægan og augljósan samstarfsanda sem einkennir samband ykkar við alla sem bera ábyrgð á að samræma störf stofnunarinnar.
Þið hafið án efa lesið útskýringar okkar í skilaboðunum til ráðgjafanna fyrir nokkrum dögum um hvernig þið verðið að hjálpa vinunum að bregðast með réttum hætti við öllum þeim fjölmörgu áskorunum sem verða á vegi þeirra þegar áætluninni vindur fram. Við erum að þessu leyti sannfærðir um að þið gerið ykkur fulla grein fyrir að hversu gagnleg áhrif sem ráðleggingar ykkar munu hafa, verða áhrifin af fordæmi ykkar enn þá meiri. Sá athyglisverði styrkleiki einkennir stöðu ykkar að hún tengir átrúendurna við ýmis stig bahá’í stjórnskipunar og styrkir samvinnuandann þeirra á milli. Þið sinnið þeirri mikilvægu skyldu að hjálpa til við að auka vitund um tilgang bahá’í stjórnskipunar og aðstoða við stofnun og eðlilega starfsemi nýrra andlegra svæðisráða. Þið tengið vinina áætlunum og verkefnum bahá’í stofnana sem starfa á svæðis-, landshluta- og landsvísu. Að endingu styrkið þið tengslin milli vinanna og Allsherjarhúss réttvísinnar með því að hvetja til og hafa frumkvæði um lestur og íhugun á skilaboðum þegar þau birtast. Átrúendurnir leita til ykkar til að fá glöggan skilning á áætluninni og djarfhuga fordæmi um hvernig koma megi ákvæðum hennar í framkvæmd, sérstaklega þeim sem snerta kennslu trúarinnar. Góð þekking ykkar á raunverulegum aðstæðum í ýmsum umdæmum, ásamt glöggum skilningi á því sem málstaðurinn þarf á að halda til að eflast setur ykkur í kjörna aðstöðu til að leggja af mörkum í samráði um hvernig leysa skuli úr læðingi þjóðfélagsuppbyggjandi kraft trúarinnar hvar sem er á gjörhugulan, skapandi og tímabæran hátt.
Til viðbótar við ofangreint viljum við vekja athygli á sérstöku hlutverki ykkar hvað varðar hvatningu ungmenna. Mörg þeirra ungmenna sem nú eru að vinna sigra fyrir málstaðinn voru innblásin af aðstoðarráðgjafa eða aðstoðarmanni sem með einlægum stuðningi og hollustuanda kenndi þeim að treysta á kraft guðlegra staðfestinga og ganga djörf og hugrökk inn á vettvang þjónustunnar. Í ábyrgð ykkar felst einnig að efla menntun barna og unglinga, örva unga fólkið og styrkja fjölskyldumynstur sem ala mun af sér kynslóð eftir kynslóð helgaðra sálna, dyggra fylgjenda Bahá’u’lláh sem hafa kosið að vinna að umbótum á heiminum fremur en sínum persónulegu hagsmunum. Unga fólkið sem á síðasta ári níu ára áætlunarinnar mun inna af höndum þjónustu til að tryggja endanlegan árangur hennar eru í mörgum tilvikum börnin sem í dag þarf að efla í ást sinni á Hinni blessuðu fegurð og skilningi sínum á ætlunarverki Hans.
Kæru vinir, verið þess fullvissir að á tilbeiðslustundum ykkar fylgja okkar eigin bænir í hinum helgu grafhýsum öllum bænum ykkar til Bahá’u’lláh. Megi hreyfing ykkar og kyrrð njóta handleiðslu mildrar miskunnar Hans og vilja, og megi Hann veita ykkur þá ævarandi gjöf að geta þjónað Honum í samræmi við óskir Hans.