Allsherjarhús réttvísinnar
30. desember 2021
Til ráðstefnu álfuráðanna
Ástkæru vinir
Á Riḍván á þessu ári lýstum við því hvernig bahá’í heimurinn breyttist á einum aldarfjórðungi. Engan hefði órað fyrir þeirri hæfni sem hann hafði öðlast til að læra, vaxa og þjóna mannkyni. En hversu glæst sem afrek þessa tímabils voru hljóta þau að blikna í samanburði við það sem koma skal. Við lok nýrrar áætlanaraðar sem hófst fyrir skömmu verður bahá’í samfélagið að hafa öðlast hæfni sem nú er tæpast hægt að greina. Í samráði ykkar á næstunni verðið þið önnum kafin við að kanna hvað gera þurfi til að skapa samfélag sem hefur vaxið svo mjög að styrk.
Bahá’u’lláh segir að „tilgangurinn með því að dauðlegir menn hafi stigið inn á svið tilveru úr fullkominni eiveru sé sá að þeir geti unnið að bættum heimi og lifað saman í sátt og samlyndi“. Hann hefur opinberað kenningar sem gera þetta mögulegt. Að byggja upp samfélag sem meðvitað keppir að þessu sameiginlega markmiði er ekki aðeins verk þessarar kynslóðar heldur margra ókominna kynslóða og fylgjendur Bahá’u’lláh fagna öllum sem vilja starfa við hlið þeirra að þessu verkefni. Þetta felur í sér lærdóm um uppeldi þróttmikilla samfélaga sem skyggnast í kringum sig; það felur í sér samfélög sem læra að stuðla að andlegum og efnislegum framförum; það merkir öflun þekkingar á því hvernig leggja skuli af mörkum til umræðna sem hafa áhrif á stefnu þessarar þróunar. Þessi starfssvið eru auðvitað kunnugleg. Frá einu sjónarhorni eru þau aðgreind, hvert með sín séreinkenni og brýnu málefni. Samt vísa þau öll á leiðir til að vekja orkuna sem dylst í mannssálinni og beina henni að þjóðfélagsumbótum. Í sameiningu eru þau leið til að leysa úr læðingi það sem Verndarinn nefndi „þjóðfélagsuppbyggjandi kraft“ trúarinnar. Þessi kraftur sem málstað Bahá’u’lláh er áskapaður kemur í ljós jafnvel í viðvaningslegri viðleitni bahá’í samfélags sem lærir að þjóna mannkyni og vinna orði Guðs brautargengi. Og þótt heimssamfélagið sem birtist í opinberun Hans sé auðvitað mjög langt undan, eru fjölmörg samfélög að læra af einlægni að heimfæra kenningar Hans á félagslegan veruleika sinn. Hversu mikil er ekki blessun þeirra sálna sem eru vakandi fyrir mikilleika þessara tíma og mikilvægi gerða sinna og leitast við að skapa þjóðfélag sem mótast af guðlegum kenningum.
Sú röð heimsáætlana sem hófst á Riḍván mun vara í heil tuttugu og fimm ár. Hún flytur örk málstaðarins inn í þriðju öld bahá’í tímabilsins og henni mun ljúka á Riḍván 2046. Á þessu tímabili einbeitir bahá’í heimurinn sér að einu markmiði: að leysa úr læðingi þjóðfélagsuppbyggjandi öfl trúarinnar í sífellt ríkari mæli. Sóknin að þessu heildarmarkmiði mun krefjast aukinnar hæfni einstakra átrúenda, svæðissamfélagsins og stofnana trúarinnar. Þessar þrjár höfuðpersónur áætlunarinnar hafa hver um sig hlutverki að gegna. Hver og ein býr yfir hæfni og eiginleikum sem þarf að þroska. Einar og óstuddar geta þær þó ekki birt alla möguleikana sem í þeim búa. Með því að styrkja öflugt og gagnkvæmt samband þeirra á milli sameinast og margfaldast kraftar þeirra. ‘Abdu’l‑Bahá útskýrir að því betur sem eiginleikar samvinnu og gagnkvæmrar aðstoðar koma í ljós hjá mönnunum „þeim mun lengra nái mannlegt samfélag á braut framfara og farsældar“. Í trúnni skilgreinir og mótar þessi meginregla samskipti einstaklinga, stofnana og samfélaga, og hún ljær líkama málstaðarins siðferðisþrótt og andlega heilsu.
Þær upptendruðu sálir sem stíga fram og hefjast handa í ferlum áætlunarinnar leitast við að öðlast sífellt dýpri skilning á kenningum Bahá’u’lláh – „æðsta læknisdóminum við sérhverjum sjúkdómi“ – og beita þeim að þörfum þjóðfélagsins. Þær helga sig hagsæld allra og viðurkenna að farsæld einstaklingsins hvílir á farsæld þjóðfélagsins alls. Þær eru tryggir borgarar sem forðast flokkadrætti og keppni um veraldlegt vald. Þess í stað vilja þær hefja sig yfir aðgreiningu, samræma sjónarmið og stuðla að samráði við ákvarðanatöku. Þær leggja áherslu á eiginleika og viðhorf – eins og traustverðleika, samvinnu og umburðarlyndi – sem eru byggingareiningar stöðugs og farsæls þjóðskipulags. Þær verja málstað skynsemi og vísinda sem er nauðsynlegur mannlegum framförum. Þær eru talsmenn umburðarlyndis og skilnings, og með eðlislæga einingu mannkyns efst í huga líta þær á alla sem hugsanlega samstarfsaðila og leitast við að efla samkennd, jafnvel meðal hópa sem hafa verið fjandsamlegir hver öðrum í gegnum söguna. Þær eru meðvitaðar um að öfl efnishyggjunnar eru að verki allt um kring og augu þeirra eru opin fyrir margvíslegu og viðvarandi óréttlæti í heiminum, en þær bera samt fullt skyn á sköpunarmátt einingar og fórnargetu mannkyns. Þær sjá þann kraft sem sönn trúarbrögð búa yfir til að breyta hjartalagi og sigrast á vantrausti, og þess vegna vinna þær að því með trausti á framtíðina að efla og hlúa að aðstæðum þar sem framfarir geta átt sér stað. Þær deila trú sinni fúslega með öðrum, bera ávallt virðingu fyrir samviskufrelsi sérhverrar sálar og þröngva aldrei eigin sjónarmiðum upp á aðra. Og þótt þær láti ekki sem þær hafi svör við öllum spurningum er þeim ljóst hvað þær hafa lært og hvað þær eiga ólært. Viðleitni þeirra þróast í víxltakti aðgerða og ígrundunar og þær láta bakslög ekki slá sig út af laginu. Á stöðum þar sem vaxandi fjöldi aðstoðar við uppbyggingu samfélaga af þessu tagi kemur kraftur málstaðarins til að umbreyta félagslegri tilvist fólks og innra lífi þess sífellt betur í ljós. Við erum þess fullvissir að einlæg sókn að meginmarkmiði áætlunarinnar verði til þess að skapa mikinn fjölda slíkra samfélaga.
Framfarir umdæma
Aukinn þjóðfélagsuppbyggjandi kraftur trúarinnar krefst þess umfram allt að hópinngönguferlið eflist í öllum heimshlutum. Árangurinn af því andlega verki að dreifa ljósi opinberunar Bahá’u’lláh sífellt víðar og fá trú Hans stöðugt traustari rætur í jarðvegi þjóðfélagsins er mælanlegur í þeim fjölda umdæma þar sem vaxtaráætlun er hafin og út frá því styrkleikastigi sem hver og ein hefur náð. Leiðir opnast nú til skjótra framfara í tengslum við hvort tveggja. Markmiðið sem samfélag Hins mesta nafns verður að leitast við að ná í núverandi röð heimsáætlana er að koma á öflugum vaxtaráætlunum í öllum umdæmum í heiminum. Þetta feiknmikla markmið felur í sér að breikka og stórefla starfsemina í áður óþekktum mæli. Skjótum árangri í þessa átt verður að ná meðan á níu ára áætluninni stendur.
Í fyrstu biðjum við ykkur um að aðstoða andleg þjóðarráð og bahá’í landshlutaráð að ganga úr skugga um hvort áætlanir þeirra um að skipta landsvæðum sínum í umdæmi myndu njóta góðs af einhverjum breytingum. Eins og þið vitið er umdæmi skilgreint sem svæði þar sem hægt er að örva starfsemi áætlunarinnar á viðráðanlegan og sjálfbæran hátt. Á síðustu tuttugu og einu ári hefur mikil reynsla fengist varðandi stærð umdæma sem eru „viðráðanleg“ í ýmsu samhengi og í ýmsum heimshlutum. Í sumum löndum er þegar farið að huga að breytingum vegna þeirra áhrifa sem vöxtur hefur haft. Í mörgum tilvikum leiðir þetta endurmat ekki til neinna breytinga, en sums staðar leiðir það til þess að umdæmi verður skipt eða það minnkað og einstaka sinnum gæti umdæmi stækkað. Svæði sem eru strjálbýl af náttúrunnar völdum gætu útilokast frá umdæmiskerfinu. Auðvitað myndu allir átrúendur á slíkum stöðum tileinka sér eins marga þætti í aðgerðarammanum og aðstæður þeirra leyfa.
Framfarir umdæma á þróunarbraut verða áfram grunnmyndin í útbreiðslu og treystingu samfélagsins. Einkenni þeirrar þróunarbrautar sem fara ætti, sérstaklega í fyrsta, öðrum og þriðja áfanga sem marka framfarir á brautinni, þekkja vinirnir vel úr fyrri skilaboðum okkar og af eigin reynslu, og við teljum ekki þörf á að ítreka það sem áður hefur verið sagt. Við lok eins árs áætlunarinnar gerum við ráð fyrir að vaxtaráætlanir verði í gangi í yfir 6.000 umdæmum, að í nær 5.000 þeirra verði öðrum áfanga náð og í 1.300 þeirra muni átrúendurnir hafa náð lengra. Þessar tölur verða að hækka töluvert á næstu níu árum. Þegar ákvarðanir hafa verið teknar um einhverjar breytingar á umdæmiskerfinu í hverju landi biðjum við ykkur að vinna með þjóðarráðum og landshlutaráðum að því að segja fyrir um fjölda umdæma þar sem framfarir gætu orðið á fyrsta, öðrum og þriðja áfanga meðan á áætluninni stendur. Hafa ber í huga að hér er aðeins átt við skynsamlegt mat sem hægt er að betrumbæta síðar eftir þörfum og ekki er nauðsynlegt að verja í þetta miklum tíma. Við óskum eftir því að niðurstöðurnar af þessu mati verði sendar Bahá’í heimsmiðstöðinni á naw-rúz. Á Riḍván munum við síðan setja fram heildaráætlanir bahá’í heimsins í níu ára áætluninni.
Við gerum okkur grein fyrir að til eru svæði og lönd þar sem trúin er enn á frumstigi í þróun sinni. Brýnt er að tryggja að það sem bahá’í heimurinn hefur lært um hröðun vaxtarferlisins gagnist líka þessum stöðum. Í ljós hefur komið sá mikilvægi lærdómur að umdæmi þar sem þriðja áfanga hefur verið náð fær gríðarmikið gildi fyrir landshluta. Þegar vinir í tilteknu umdæmi hafa þróað þá getu og færni sem slík þróun felur í sér og leiðir til að miðla innsýn og deila reynslu um viðleitni til samfélagsuppbyggingar, verður mögulegt að hraða útbreiðslu og treystingu í nærliggjandi umdæmum. Með þetta í huga er brýnt að í níu ára áætluninni nái vaxtarferlið þessu styrkleikastigi í að minnsta kosti einu umdæmi í hverju landi og hverjum landshluta. Þetta er eitt af meginmarkmiðum áætlunarinnar og kallar á einbeitt átak margra helgaðra sálna. Alþjóðlega kennslumiðstöðin er tilbúin að vinna með ykkur að útfærslu nokkurra úrræða til að koma þessu til vegar. Fremst meðal þeirra verður að senda út teymi brautryðjenda á alþjóðavettvangi og innanlands sem þekkja aðgerðarammann og eru reiðubúnir að verja umtalsverðum tíma og orku til að þjóna málstaðnum í þó nokkur ár. Þið verðið að brýna fyrir andlegum þjóðarráðum og bahá’í landshlutaráðum mikilvægi þess að hvetja átrúendurna sem feta í fótspor svo margra hetjusálna fortíðar að rísa upp til að tryggja að ljós trúarinnar skíni skært á hverju svæði. Við horfum sérstaklega til landa, landshluta og umdæma sem búa að uppsöfnuðum styrk og reynslu til að geta veitt straumi brautryðjenda til staða sem þurfa á hjálp að halda og veita jafnframt stuðning með öðrum hætti. Þessi stöðugi stuðningur er enn ein leiðin til að birta með kerfisbundnum hætti anda samvinnu og gagnkvæmrar aðstoðar, sem er svo mikilvægur fyrir viðgang og framfarir.
Árangur í fyrri áætlanaröð – sérstaklega í síðustu fimm ára áætluninni – hefði ekki náðst án gríðarlegs framgangs í kennslustarfinu. Mikilvægur þáttur í þessu starfi er hæfnin til að taka þátt í samræðum um andleg málefni. Fjallað var ítarlega um þessa hæfni í skilaboðum okkar til ráðstefnu ykkar árið 2015 þar sem við útskýrðum hvernig hún þróast með þátttöku í þjálfunarnámskeiðum og með hagnýtri reynslu. Það er augljóst að starfsmynstrið sem þróast í grasrótinni opnar margvísleg tækifæri þar sem móttækilegar sálir – stundum heilar fjölskyldur eða jafningjahópar – geta tekið þátt í innihaldsríkum samtölum sem vekja áhuga á sýn trúarinnar og persónu Bahá’u’lláh. Með tímanum fara margar slíkar sálir að samsama sig bahá’í samfélaginu, sérstaklega þegar þær öðlast sjálfstraust til að taka þátt í samfélagslífinu með þjónustu. Auðvitað fagnar samfélagið hvers kyns tengslum, stórum og smáum, sem einstaklingur vill eiga við það. Samt er það einstök stund í andlegum þroska einstaklings þegar hann viðurkennir Bahá’u’lláh sem opinberanda Guðs og samþykkir þau forréttindi og skyldur sem á einstæðan hátt tengjast aðild að bahá’í samfélaginu, og sú viðurkenning er með öllu frábrugðin reglulegri þátttöku í bahá’í starfsemi eða stuðningsyfirlýsingu við bahá’í meginreglur. Reynslan hefur sýnt að umhverfið sem skapast þegar unnið er að samfélagsuppbyggingu í byggðarlagi gerir öllum sem vilja stíga þetta skref kleift að gera það á tiltölulega auðveldan hátt. Alls staðar þar sem slík starfsemi er í gangi er mikilvægt að vinirnir hafi í huga að dyr trúarinnar standa opnar á gátt og að þeir hvetji þá og örvi sem komnir eru á þröskuldinn. Og á svæðum þar sem slík viðleitni er vel á veg komin í einhvern tíma, uppgötva margir átrúendur að þróttmikið og vaxandi starfsmynstur getur með eðlilegum hætti leitt til þess að fjölskyldur, vinahópar og jafnvel mörg heimili séu tilbúin til að játast trúnni. Því að í rýmum þar sem hægt er að ræða möguleikann á inngöngu í samfélagið á opinn og einlægan hátt meðal þeirra sem finna til samstöðu, geta sálir átt auðveldara með að herða upp hugann og taka skrefið saman. Bahá’í stofnanir, sérstaklega andleg svæðisráð, verða að tileinka sér viðhorf sem gerir ráð fyrir slíkri þróun og tryggja að allar hindranir séu fjarlægðar.
Við biðjum ykkur og aðstoðarfólk ykkar að hjálpa átrúendum hvar sem þeir eru staddir, að íhuga reglulega árangursríkar leiðir til að kenna trúna í umhverfi sínu og vekja í hjörtum þeirra ástríðu fyrir kennslunni sem mun laða að sér staðfestingar Guðsríkis. Sálir sem hafa hlotið blessun trúarinnar vilja af eðlilegum ástæðum miðla þessari gjöf í samræðum við ættingja, vini, bekkjarfélaga, vinnufélaga og aðra sem þeir hafa ekki áður hitt, og leita á hverjum stað og hverri stundu að heyrandi eyra. Mismunandi umhverfi og aðstæður kalla á mismunandi nálganir og vinirnir ættu stöðugt að vera uppteknir í lærdómsferli um hvað er áhrifaríkast á þeim stað sem þeir eru staddir.
Að læra af þeim umdæmum sem eru lengst komin
Fyrir sex árum lýstum við fyrir ykkur einkennum umdæma þar sem vinirnir hafa náð þriðja áfanganum á vaxtarbrautinni. Að hafa náð svo langt bendir til öflugrar starfsemi sem fer fram í tilteknum hverfum eða byggðarlögum, og um leið samstillts átaks alls þorra átrúendanna í umdæminu – með öðrum orðum vaxandi anda allsherjarþátttöku í starfi að samfélagsuppbyggingu. Í reynd merkir þetta að umtalsverður fjöldi bahá’ía tekur skynsamlega og á skapandi hátt þátt í að beita aðgerðaramma áætlunarinnar að sínum eigin raunverulegu aðstæðum hvar sem þeir búa í umdæminu. Hann felur í sér samvinnu fjölskyldna og einstakra átrúenda sem taka meðvitaða ákvörðun um að líta á sig sem hluta af stækkandi kjarna. Slíkir vinahópar hófu að fjölga þátttakendum í starfseminni með samskiptum við tengslanetin sem þeir tilheyra – með tengslum sem skapast á vinnustað eða í námi, í skólanum á staðnum eða samfélagsmiðstöðvum af öðru tagi – og með samfylgd við þá sem rísa upp til að þjóna. Kostir slíkrar viðleitni eru gríðarmiklir. Jafnvel í umdæmi þar sem margar öflugar starfsmiðstöðvar blómstra, gætu verkefni sem verið er að vinna annars staðar í því umdæmi verið stór þáttur í allri starfsemi sem þar fer fram. Í þessu sambandi staðfestum við líka skrefin sem verið er að stíga í sumum umdæmum til að ná með skipulögðum hætti til ákveðins hóps sem hefur sýnt trúnni áhuga en er dreifður um umdæmið. Líta má á þetta sem sérstakt form samfélagsuppbyggingar sem heldur áfram að lofa góðu. Þegar þátttaka í starfi áætlunarinnar í hvers kyns myndum eykst, skapast mörg tækifæri fyrir vinina til að læra af reynslu og tendra gleðina af kennslunni hver hjá öðrum.
Að sjálfsögðu hefur starfið í móttækilegum hverfum og byggðarlögum verið sérstaklega í brennidepli á undanförnum árum. Þar sem mikill fjöldi íbúa á þessum stöðum fer að taka þátt í bahá’í starfsemi þarf að huga betur að samræmi til að takast á við margbreytileikann sem þessu fylgir. Í sérhverri öflugri starfsmiðstöð mótast fyrirkomulag í samstarfi fjölskylduhópa sem sín á milli skipuleggja verkefni til samfélagsuppbyggingar með það fyrir augum að færa slíkt starf út til margra nágrannaheimila – óformlegt net vina veitir hvatningu og stuðning við störfin sem verið er að vinna. Einkenni daglega lífsins á slíkum stöðum lagar sig að viðgangi menningar þar sem tilbeiðsla og þjónusta eru kærkomin viðfangsefni sem snerta marga í senn. Upplífgandi og vel undirbúnum samfélagssamkomum fjölgar – sem geta í sumum tilfellum náð til samkomubúða og hátíðarhalda – og tónlist og söngur setja mark sitt á slíkar samkomur. Reyndar eru listir í heild sinni óaðskiljanlegur hluti af þróun samfélags frá upphafi og sérlega mikilvægar við þessar aðstæður til að skapa gleði, styrkja einingarböndin, miðla þekkingu og treysta skilning, og jafnframt til að kynna fólki í öllu þjóðfélaginu meginreglur málstaðarins. Og vitaskuld er mikil áhersla lögð á að skyggnast í kringum sig og finna sífellt leiðir til að miðla ávöxtunum af blómlegu starfsmynstri með sálum sem ekki hafa enn kynnst trúnni að ráði.
Mitt í öllu þessu höfum við tekið eftir sérstöku og upplífgandi fyrirbæri og fyrstu merkjum þess lýstum við í skilaboðum okkar til ráðstefnu ykkar árið 2015 sem forboða nýrrar framlínu lærdóms. Þótt það sé einkenni allra umdæma sem náð hafa þriðja áfanga að þau eru að læra að taka á móti miklum fjölda, byrjar sjónarsvið vinanna eðlilega að víkka þegar þau þáttaskil fara í hönd að stór hluti íbúa á tilteknu svæði byrjar að taka þátt í samfélagsuppbyggjandi starfi. Þetta gæti aðeins átt við um ákveðið íbúðarhverfi í umdæmi eða nokkur slík hverfi, eða eina byggð; aðrir hlutar umdæmisins hafa ekki enn upplifað sama veruleika. En á slíkum stöðum eru vinirnir sem starfa í grasrótinni í auknum mæli uppteknir af framgangi og velferð allra sem búa í nágrenninu. Bahá’í stofnanir finna til meiri ábyrgðar á andlegri menntun heillar kynslóðar barna og unglinga, sem flest eða jafnvel öll gætu þegar verið þátttakendur í samfélagsstarfinu. Andleg svæðisráð styrkja tengsl sín við yfirvöld og leiðtoga á svæðinu, taka jafnvel upp formlegt samstarf við þau og vaxandi athygli beinist að fjölgun verkefna í samfélagsaðgerðum sem eiga rætur að rekja til hópa unglinga, ungmenna, kvenna, fjölskyldna eða annarra sem bregðast við þörfum og aðstæðum sem koma upp í umhverfinu. Allur fjölbreytileiki starfseminnar kallar á að aðstoðarráðgjafar skipi marga aðstoðarmenn til að þjóna einu byggðarlagi eða hverfi. Hver aðstoðarmaður gæti fylgt einni eða fleiri aðgerðaleiðum, boðið upp á ráðgjöf og stuðning eftir þörfum og veitt skriðþunga þeim ferlum sem komin eru af stað.
Á stöðum þar sem starfsemi áætlunarinnar er orðin svo útbreidd hafa íbúarnir öðlast aukna hæfni til að taka sjálfir stjórn á eigin þróun og stofnanir og undirstofnanir trúarinnar fá þar gleggri sýn á ábyrgð sinni. Auðvitað felur þessi ábyrgð enn þá í sér nauðsyn á öflugum kerfum til að byggja upp stöðugt meiri hæfni og styðja þá sem taka frumkvæði. En framþróun samfélagsins er í meiri mæli en áður háð því að stofnanir og undirstofnanir á svæðinu séu meðvitaðar um félagslegu öflin sem eru að verki í umhverfinu og vinni að því að varðveita heilindin í margvíslegri viðleitni samfélagsins. Um leið taka tengsl bahá’í samfélagsins við þjóðfélagið miklum stakkaskiptum. Eins og formleg stjórnskipan bahá’í samfélagsins og óformlegt samstarfsfyrirkomulag þess gefur til kynna er það af eigin verðleikum orðið sýnileg og áberandi aðalpersóna í þjóðfélaginu, tilbúið til að axla mikilvæga ábyrgð og stórefla breitt, sameiginlegt lærdómsferli um andlegar og efnislegar framfarir. Um leið og þjóðfélagið í heild tekur upp margar hliðar bahá’í samfélagslífs og drekkur í sig sameiningaranda þess, gera öflin sem þannig skapast fjölbreyttum hópum kleift að sameinast í einni hreyfingu sem er innblásin af sýn Bahá’u’lláh á einingu mannkyns. Fram til þessa eru þeir staðir fáir þar sem mynstur bahá’í samfélagslífs hefur náð slíkri fótfestu, en þeim fer fjölgandi. Hér verðum við vitni að þjóðfélagsuppbyggjandi krafti trúarinnar sem sker sig úr öllu sem áður hefur sést.
Eðlilega er umfang bahá’í aðgerða af þessari stærð ekki alls staðar í vændum. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir þeim mun sem er á aðstæðum í umdæmum eða í hluta umdæmis og séreinkennum fólksins – það er að segja veruleika kringumstæðnanna. Af þessu leiðir að birtingarmyndir þjóðfélagsuppbyggjandi krafts trúarinnar við ýmsar aðstæður eru breytilegar. En burtséð frá því í hve miklum mæli bahá’í samfélagslífið nær til þeirra sem búa á tilteknu svæði – og jafnvel frá því hversu kappsöm vaxtaráætlunin er í umdæmi eða starfsemin í hverfi eða byggðarlagi – er áskorunin sem blasir við vinunum sem þjóna í grasrótinni í meginatriðum sú sama á hverjum stað. Þeir verða að geta lesið í sinn eigin veruleika og spurt: Að hvaða markmiðum er rétt og viðeigandi að stefna í komandi vaxtarbylgju eða röð vaxtarbylgja í ljósi þeirra möguleika og krafna sem eru fyrir hendi? Þið og aðstoðarfólk ykkar eruð vel í stakk búin til að spyrja þessarar spurningar og tryggja að kennsl séu borin á rétt og viðeigandi úrræði og aðferðir. Margt má læra af reynslu vinanna í svipuðum umdæmum, því samfélag sem er skrefi lengra komið á sömu braut getur veitt dýrmæta innsýn um markmiðið sem stefna skal að næst. Þegar vinirnir hyggja að því sem fram undan er munu þeir sjá að sérhvert samfélag á sér markmið sem hægt er að ná og til er leið að hverju markmiði. Þegar við horfum fram á veginn, getum við ekki séð Bahá’u’lláh sjálfan fyrir okkur með stjórntauma á málefnum mannkyns í annarri hendi og gefa okkur bendingu með hinni að hafa hraðann á?
Að stuðla að félagslegum umbreytingum
Opinberun Bahá’u’lláh snýst um umbreytingu á innra lífi og félagslegu umhverfi mannkyns. Bréf sem skrifað var fyrir hönd Shoghi Effendi lýsir því hvernig félagslegt umhverfi skapar „andrúmsloft“ þar sem sálir geta „vaxið andlega og endurspeglað til fulls ljós Guðs“ sem skín í gegnum opinberunina. Skýr merki þess að þjóðfélagsuppbyggjandi kraftur málstaðarins sé að verki í umdæmi er að stækkandi hópur meðal íbúa þess, innblásinn kenningum trúarinnar, sýnir viðleitni til að bæta andleg einkenni og félagslegar aðstæður í samfélagi sínu. Framlag bahá’íanna einkennist af þeirri áherslu sem þeir leggja á að efla þjónustuhæfni. Þetta er nálgun sem byggir á trú á getu íbúanna til að gerast aðalpersónur í sínum eigin þroska.
Eftir því sem styrkur eykst í starfi að samfélagsuppbyggingu í umdæmi verða vinirnir þar óhjákvæmilega meðvitaðri um félagslegar, efnahagslegar eða menningarlegar hindranir sem eru í vegi andlegra og efnislegra framfara fólksins. Skortur á stuðningi við börn og unglinga í menntun þeirra og uppfræðslu, þrýstingur á stúlkur vegna hefðbundinna siða tengdum hjúskap á unglingsaldri, aðstoð við fjölskyldur sem þurfa aðstoð við að átta sig á heilsugæslukerfi sem þeim er framandi, byggðarlag sem glímir við skort á einhverjum grunnnauðsynjum eða langvarandi fordómar vegna rótgróins fjandskapar milli ólíkra hópa – þegar bahá’í samfélag í starfi sínu að útbreiðslu og treystingu kemst í snertingu við þessar aðstæður og ýmsar aðrar af sama toga, leitast það við að bregðast við þeim veruleika eins og kringumstæður þess leyfa. Þegar það ígrundar aðstæður af þessu tagi verður augljóst að innan umdæma eru útbreiðsla og treysting, samfélagsaðgerðir og framlag til ríkjandi umræðu, víddir á einni víðsýnni og samræmdri viðleitni sem mótar aðgerðir í grasrót samfélagsins. Öll þessi viðleitni fer fram í samræmi við sameiginlegan aðgerðaramma og skapar umfram allt samfellu í heildarmynstri starfseminnar.
Upphaflegar hreyfingar í átt að samfélagsaðgerðum í grasrótinni birtast í umdæmi þegar framboð á mannauði eykst og geta til að takast á hendur fjölbreyttari verkefni þróast. Lítil byggðarlög hafa reynst sérstaklega frjór jarðvegur þar sem tekið er frumkvæði að samfélagsaðgerðum og þeim viðhaldið, en vinum sem búa í þéttbýli hefur einnig tekist að vinna að verkefnum sem henta félagslega umhverfinu, stundum með því að vinna með skólum á staðnum, stofnunum borgaralegs samfélags og jafnvel ríkisstofnunum. Ráðist er í samfélagsaðgerðir á ýmsum mikilvægum sviðum, þar á meðal í umhverfismálum, landbúnaði, heilbrigðismálum, listum og þó sérstaklega í menntun og fræðslustarfsemi. Á meðan á níu ára áætluninni stendur, og sérstaklega þegar þátttaka í sérstökum námskeiðum þjálfunarstofnunar örvar til meiri virkni á þessu sviði, gerum við ráð fyrir að sjá verulega aukningu á formlegu og óformlegu starfi til að stuðla að samfélags- og efnahagsþróun íbúanna. Sum þessara samfélagstengdu verkefna verða að styðjast við undirstöðuþætti stjórnskipulags til að þau nái fram að ganga og verði stöðug og varanleg. Þar sem aðstæður eru hagstæðar þarf að hvetja andleg svæðisráð til að læra hvernig best má rækta nýtt frumkvæði og efla starf sem gefur fyrirheit. Í sumum tilvikum réttlæta kröfur sem tengjast ákveðnu starfssviði að sett séu á fót samtök sem eru undir áhrifum af bahá’í kenningum og við gerum ráð fyrir að fleiri slík samtök sjái dagsins ljós í komandi áætlun. Andleg þjóðarráð verða fyrir sitt leyti að finna leiðir til að afla glöggra upplýsinga um það sem grasrótin í samfélögum þeirra er að læra og greina reynsluna sem þannig fæst. Á sumum stöðum mun þetta kalla á stofnun nefndar eða starfshóps sem fylgist með samfélagsaðgerðum. Þegar við lítum yfir bahá’í heiminn gleður það okkur að sjá þann mikla skriðþunga sem nú þegar hefur skapast á þessum vettvangi með hvatningu og stuðningi Alþjóðlegu bahá’í þróunarstofnunarinnar.
Nátengd hæfninni til að taka þátt í samfélagsaðgerðum er hæfnin til að leggja af mörkum til þjóðfélagsumræðna. Í sjálfu sér er hér einfaldlega um að ræða hæfni til að taka þátt í samræðu um mál sem hefur áhrif á líf fólks og leggja til þeirrar samræðu sjónarmið sem byggja á bahá’í meginreglum og bahá’í reynslu. Skoðað frá þessu sjónarhorni er hér um hæfni að ræða sem margir bahá’íar hafa tækifæri til að æfa nánast daglega, til dæmis í námi eða starfi, og sem ræktuð er með þátttöku í námskeiðum þjálfunarstofnunarinnar. Í formlegri mynd sinni er þessi hæfni miðlæg í starfi Alþjóðlega bahá’í samfélagsins og þjóðarskrifstofa ytri málefna. Í tengslum við beitingu þjóðfélagsuppbyggjandi krafts trúarinnar í grasrótinni er þetta þó hæfni sem meiri þörf verður á þegar nánari tengsl við íbúahóp, sem myndast í starfi að útbreiðslu og treystingu, leiða til aukinnar vitundar um ríkjandi félagsleg vandamál á svæðinu og í tilraunum íbúanna til að sigrast á þeim. Þegar sífellt fleiri taka þátt í starfinu að samfélagsuppbyggingu, eykst þörfin á því að bahá’í samfélagið í heild sinni meti á yfirvegaðan hátt hindranir í vegi félagslegra framfara og málefni sem hvíla þungt á huga og anda þeirra sem það er í samskiptum við. Þetta hefur sérstaka þýðingu fyrir andleg svæðisráð. Á stöðum þar sem starfið í áætluninni er komið nokkuð á veg er farið að líta á svæðisráðið sem uppsprettu siðferðislegrar innsýnar. Með tímanum verður viðleitnin til að leggja af mörkum til þjóðfélagsumræðna kerfisbundnari og bahá’íar verða leiknir í að aðstoða fólkið í kringum sig til að taka þátt í samræðum á uppbyggilegan hátt og komast að samhljóða niðurstöðu. Leitað er tækifæra til að miðla leiðtogum og valdhöfum í samfélaginu sýn og sjónarmiðum trúarinnar og skapa rými þar sem hægt er að aðstoða fulltrúa ýmissa hópa og hagsmuna við að komast að sameiginlegu áliti með samráði. Við erum ánægðir með þau skref sem þegar hafa verið stigin til að læra hvernig hægt er að koma á framfæri innsýn frá opinberun Bahá’u’lláh og reynslu bahá’í samfélagsins í brýnum samfélagsmálum á svæðisstigi en án efa bíður þess miklu meiri lærdómur hvað þetta snertir í níu ára áætluninni.
Við viljum leggja áherslu á að nú og í sögulegu samhengi hafa samfélagsaðgerðir og viðleitni til að taka þátt í ríkjandi þjóðfélagsumræðum ekki aðeins sprottið í tengslum við vöxt, heldur einnig vegna þess að einstakir bahá’íar leitast við að leggja sitt af mörkum til framfara þjóðfélagsins með leiðum sem þeim standa til boða. Átrúendur hafa kosið með ýmsum persónulegum hætti að svara boðum Bahá’u’lláh um að vinna að bættum heimi með því að tileinka sér ákveðið ætlunarverk og leitað tækifæra til að styðja við starfsemi hópa og samtaka sem eru sama sinnis. Verkefnum, bæði stórum og smáum, hefur verið hrundið af stað til að bregðast við margs konar þjóðfélagsmálum. Fjölmörg samtök sem eru undir áhrifum af bahá’í kenningum hafa verið stofnuð af hópum einstaklinga til að vinna að fjölbreyttum markmiðum og sérfræðihópar hafa verið settir á fót til að bregðast við ákveðinni umræðu. Öll þessi viðleitni hefur, hvert sem umfang hennar er, notið góðs af því að geta beitt þeim meginreglum og því innsæi sem stýrir starfseminni í grasrót bahá’í heimssamfélagsins, og einnig haft gagn af viturlegum ráðum andlegra svæðis- og þjóðarráða. Við gleðjumst yfir því að sjá þessa fjölbreyttu og samræmdu trúartjáningu hjá dyggum fylgjendum Hinnar blessuðu fegurðar þegar brugðist er við hremmingum ráðþrota og sárþjáðs heims.
Menntastarf og þjálfunarstofnunin
Mikilvægi menntunar samkvæmt skilningi bahá’ía á andlegri og félagslegri umbreytingu verður vart ofmetin. „Íhuga,“ segir Bahá’u’lláh, „opinberunina á ljósi nafns Guðs, fræðarans. Sjá, hvernig vitnisburður slíkrar opinberunar birtist í öllu sem er og hvernig framfarir allra manna eru háðar henni.“ Mikilvægi menntunar í starfi samfélagsuppbyggingar er ótvírætt og á sviði samfélagsaðgerða er menntun áfram auðkennandi framlag bahá’ía í flestum heimshlutum. Þjálfunarstofnunin skarar auðvitað fram úr meðal innviða og stofnana sem bahá’í heimurinn hefur skapað til að efla menntun. Reyndar er net þjóðar- og landshlutaþjálfunarstofnana sem starfa af slíkri hæfni og kunnáttu um allan heim meðal þess besta sem sprottið hefur af fyrri röð heimsáætlana. Að byggja upp þjónustuhæfni innan samfélaga með því að gera sífellt fleiri einstaklingum kleift að njóta góðs af þjálfunarferlinu verður áfram megineinkenni áætlananna í núverandi áætlanaröð. Hæfnin til þróunar samfélagsins sem þegar hefur komið í ljós hjá einstaklingum sem skipta hundruðum þúsunda og geta þjónað sem leiðbeinendur, hvetjarar eða barnakennarar, er auðlind sem hefur sögulega þýðingu.
Þegar við fyrst kynntum hugmyndina um þjálfunarstofnun var það í samhengi við þörfina á þróun mannauðs til að takast á við verkefni útbreiðslu og treystingar. Á þessum tímamótum þegar ný röð áætlana er hafin bjóðum við ykkur víðara sjónarsvið. Þátttaka í þjálfunarnámskeiðum undirbýr vini Guðs í sívaxandi mæli undir stöðugt meiri þátttöku í lífi ytra samfélagsins. Hún færir þeim þekkingu, innsýn og færni sem gerir þeim kleift að leggja ekki aðeins af mörkum til þróunar sinna eigin samfélaga heldur til framfara þjóðfélagsins. Í stuttu máli er þjálfunarstofnunin öflug leið til að leysa úr læðingi þjóðfélagsuppbyggjandi kraft trúarinnar. Þótt það verkefni að þróa námsefni sem styður þetta markmið sé langtímaverkefni, miðar núverandi námsefni þegar að því að byggja upp hæfni til margs konar frumkvæðis. Þar að auki býður efnið upp á hnökralausa samfellda menntareynslu frá fimm ára aldri til unglingsaldurs og fram á fullorðinsár, og þjónar sem bein hliðstæða við mynstur starfseminnar sem þróast í grasrótinni. Í þessu sambandi hefur það glatt okkur að sjá þá miklu innsýn sem vinirnir í ýmsum heimshlutum og í margvíslegu félagslegu og menningarlegu samhengi eru að öðlast á þáttum í samfélagsþróun. Ef þessi innsýn og sú sem síðar mun skapast á að gagnast bahá’í samfélögum víðar, þarf að útvíkka kerfin sem leggja drög að kennsluefni og bæta það. Með þetta í huga munum við innan skamms setja þessari vinnu leiðbeinandi stefnu á næstu árum.
Hvað varðar aukna getu þjálfunarstofnana til að halda uppi öllum þremur stigum menntaferlisins, gleður það okkur að sjá að athygli er í auknum mæli lögð á að auka gæði sjálfrar námsreynslunnar og útvíkka jafnframt kerfið sem miðlar henni. Afar mikilvægt er að gera öllum sem leggja af mörkum í starfi þjálfunarstofnunarinnar kleift að bæta skilning sinn á námsefninu: markmiðum þess, uppbyggingu, kennslufræðilegum meginreglum, aðferðafræði, meginhugtökum og gagnkvæmum tengslum. Margar stjórnir þjálfunarstofnana hafa í þessu sambandi notið stuðnings samstarfshópanna sem lýst var í skilaboðum okkar til ráðstefnu ykkar árið 2015. Sums staðar hafa einstök teymi einnig byrjað að einbeita sér ýmist að barnakennsluhópum, unglingahópum eða námshringjum, bera kennsl á þætti sem stuðla að skilvirkni þeirra og finna leiðir til að aðstoða vini á hverju þjónustusviði til að auka enn frekar sína eigin hæfni. Aðstoðarráðgjafar á svæðinu og aðstoðarmenn þeirra eru oft fyrstir til að sjá til þess að lærdómurinn sem aflað er nái til fleiri vina í nærliggjandi umdæmum og innan öflugra starfsmiðstöðva. Einstaklingar með mikla reynslu af kynningu á starfsemi þjálfunarstofnunarinnar þjóna sem reynslugjafar og hafa reynst mikilvægir þegar aðstoða þarf þjálfunarstofnanir á fyrri stigum í þróun þeirra. Engu að síður eru það yfirleitt ráðgjafarnir sem sjá til þess að hver og ein þjálfunarstofnun kynnist þeirri margvíslegu innsýn sem skapast hefur hjá systurstofnunum þeirra í nágrannalöndum og landshlutum. Ráðgjafarnir hafa séð til þess að þjálfunarstofnunum sé skipt í mismunandi stóra hópa til að kleift sé að miðla víðar þeim lærdómi sem reyndustu stofnanirnar aflað sér. Þetta er í auknum mæli gert með formlegum málstofum. Allt þetta fyrirkomulag þarf að efla í næstu áætlun. Á stöðum þar sem starfrækt er setur til að miðla lærdómi um verkefnið fyrir andlega eflingu unglinga hefur samstarf lærdómssetursins við tengdar þjálfunarstofnanir strax borið mikinn árangur og slíkt samstarf ætti að auka að miklum mun. Sókn þeirra að sameiginlegu markmiði og löngun þeirra allra að sjá umdæmi þróast skapar kjöraðstæður fyrir anda samvinnu og gagnkvæmrar aðstoðar. Þekkingin sem nú er fengin á þáttum sem stuðla að skilvirkni þjálfunarferlisins er mikil og við væntum þess að Alþjóðlega kennslumiðstöðin komi skipulagi á þann lærdóm sem fengist hefur og geri ykkur hann aðgengilegan.
Það sem við höfum lýst hér að ofan er menntakerfi í stöðugri þróun og endurnýjun. Þetta gerir þá kröfu að margir einstaklingar stuðli að frekari þróun þess og einnig að þjálfunarstofnanir, og bahá’í stofnanir almennt, skipuleggi fram í tímann og tryggi að einstaklingar sem hafa þróað með sér umtalsverða getu til að styðja við menntastarf samfélagsins geti haldið áfram að þjóna og þeim sé kleift þegar kringumstæður þeirra breytast að taka áfram þátt í starfi þjálfunarstofnunarinnar eftir öðrum leiðum sem hafa þýðingu. Þakklátir fyrir þann árangur sem þjálfunarferlið hefur borið munu allir fylgjendur Bahá’u’lláh þrá að leggja af mörkum til framgangs þess á einhvern hátt – ekki síst bahá’í ungmenni. Þjálfunarstofnanir vita vel að það er heilög skylda þeirra að leysa krafta ungs fólks úr læðingi. Við förum nú þess á leit við bahá’í ungmenni að þau líti á framtíðarþróun þjálfunarstofnunarinnar í sama ljósi. Við væntum þess að sjá breiða fylkingu ungs fólks skipa sér í framvarðarsveit níu ára samfélagsstarfs að eflingu þjálfunarstofnunarinnar og setja mælikvarðann. Unga fólkið ætti að grípa hvert tækifæri sem gefst – í skólum sínum og háskólum, og í rými sem skapast í starfi, innan fjölskyldna og í félagslegum samskiptum – til að hvetja sífellt fleiri sálir til að njóta gagns af starfsemi þjálfunarstofnunarinnar. Sum ungmenni munu geta helgað sig þjónustu í einhvern tíma – jafnvel í nokkur ár – til að uppfræða sérstaklega þau sem yngri eru og fyrir mörg þeirra verður stuðningur við starfsemi þjálfunarstofnunarinnar varanleg vídd í lífinu þegar þau afla sér menntunar og lífsviðurværis með atvinnu í þessum heimi, en engum ætti þetta að vera annað og minna en dýrmæt skuldbinding.
Víða um heim hefur þátttaka einstaklinga og fjölskyldna í þjálfunarferlinu verið eðlileg afleiðing af aukinni vitund um mikilvægi menntunar í öllum myndum. Vinir sem þjóna í barnakennslu hafa mikinn áhuga á alhliða menntaþroska barnanna, en vinum sem þjóna sem leiðbeinendur og hvetjarar er eðlilega umhugað um að þeir sem nálgast fullorðinsárin – jafnt stúlkur sem drengir – fái aðgang að og hafi gagn af námi af ýmsu tagi sem takmarkast ekki við þau námskeið sem þjálfunarstofnunin sjálf býður upp á. Þeir geta til dæmis hvatt ungt fólk til að fara í starfsnám eða háskóla. Það hefur vakið athygli okkar hvernig þátttaka í þjálfunarferlinu í mörgum samfélögum hefur smám saman endurmótað þennan þátt í menningu meðal íbúa. Þegar vitundin eykst um þessi mál þurfa stofnanir trúarinnar að axla ábyrgð á því að tryggja að hægt sé að uppfylla þær göfugu vonir sem vakna í kjölfarið hjá unga fólkinu – vonir um menntun og þjálfun sem gerir þeim kleift að veita þjóðfélagi sínu mikilvæga þjónustu. Langtímaþróun samfélags og loks þjóðar frá kynslóð til kynslóðar, veltur að miklu leyti á þeirri viðleitni sem lögð er í rækt og umhyggju þeirra sem axla munu ábyrgð á sameiginlegum félagslegum framförum.
Þessi könnun á mikilvægi menntunar í samfélagi sem byggir á bahá’í meginreglum væri ófullkomin án nánari athugunar. Shoghi Effendi hefur lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að leitast „stöðugt“ við að fá „betri skilning á þýðingu mikilfenglegrar opinberunar Bahá’u’lláh“. Þjálfunarstofnunin á sér enga hliðstæðu sem tæki til opna með kerfisbundnum hætti augu ótalfaldra sálna fyrir lífgefandi vatni opinberunarinnar og óþrotlegri merkingu orðs Guðs. En viðleitni vinanna til að auka skilning sinn á trúnni og kenningum hennar takmarkast auðvitað ekki við þátttöku í þjálfunarferlinu. Sterk vísbending um skilvirkni þjálfunarstofnunar er þorstinn sem hún vekur hjá þeim einstaklingum og hópum sem kanna námsefni hennar með það fyrir augum að halda áfram að rannsaka málstað Bahá’u’lláh, hvort sem er í formlegu rými stofnananna eða í óformlegra umhverfi. Fyrir utan rannsóknina á opinberuninni sjálfri skipta þær vísbendingar sem kenningarnar gefa um ótal svið mannlegrar viðleitni miklu máli. Athyglisvert dæmi um eitt menntasvið þar sem ungir átrúendur kynnast betur bahá’í sjónarmiðum á málefnum sem hafa þýðingu fyrir framfarir mannkyns er þátttaka í málstofum í boði stofnunar sem nefnist Rannsóknarstofnun um hagsæld mannkyns [Institute for Studies in Global Prosperity]. Í ljósi víðáttumikils úthafs opinberunarinnar verður ljóst að könnun á djúpum þess er ævilangt starf sérhverrar sálar sem fetar þjónustubrautina.
Þegar framlag trúarinnar til framfara þjóðfélagsins í ýmsum heimshlutum verður sýnilegra, verður bahá’í samfélagið í auknum mæli krafið skýringa á þeim meginreglum sem það boðar og sönnunar á notagildi þeirra í lausn vandamálanna sem mannkynið stendur frammi fyrir. Því betur sem vitsmunalíf samfélags blómgast og dafnar, þeim mun betur verður það í stakk búið til að bregðast við þessum kröfum. Það verður á valdi fylgjenda Bahá’u’lláh að sýna þá vitsmunalegu nákvæmni og skýru hugsun í heimi hugmyndanna sem hæfir skuldbindingu þeirra við andlegar og efnislegar framfarir í heimi athafna.
Að auka hæfni til stjórnsýslu á öllum stigum
Í bréfi sem skrifað var fyrir hönd Verndarans fyrir áttatíu árum lýsti hann bahá’í stjórnskipuninni sem „fyrstu mynd þess sem í framtíðinni verður félagsleg tilvist og löggjöf samfélagslífsins“. Á þessum degi við upphaf annars árhundraðs mótunaraldar hefur form bahá’í stjórnskipulagsins þróast umtalsvert og áframhaldandi þróun þess er frumskilyrði þess að þjóðfélagsuppbyggjandi kraftur trúarinnar leysist úr læðingi.
Stjórnun trúarinnar í grasrótinni er að sjálfsögðu nátengd þróun andlegra svæðisráða. Shoghi Effendi lýsir þessum fyrstu húsum réttvísinnar sem „máttarstoðum bahá’í samfélagsins og endanlegum grundvelli stjórnskipulags þess“ og hann leggur mikla áherslu á mikilvægi mótunar þeirra. Árið 1995 kölluðum við eftir að tekin yrði upp aftur sú venja að öll svæðisráð, þar með talin hin nýstofnuðu, verði kosin á fyrsta degi Riḍván fremur en einhverjum öðrum árstíma. Þessi þróun tengdist þeirri staðreynd að þótt átrúendur utan svæðis gætu aðstoðað við kosningaferlið, hvílir meginábyrgðin á kosningu allra ráða og áframhaldandi starfsemi þeirra á bahá’íum sem þar búa og mikið veltur á því að þeir séu tilbúnir að taka að sér störf innan stjórnskipulagsins. Í ljós hefur komið á undanförnum árum að tilfinning um bahá’í samsemd getur smám saman styrkst á landsvæði þegar starfsmynstur sem byggir á kenningunum festir rætur meðal einstaklinga og fjölskyldna sem þar búa. Þannig hefur samfélag oft náð ákveðnu hæfnisstigi í tengslum við starf að samfélagsuppbyggingu þegar hægt verður að mynda svæðisráð. Þegar að því kemur – og það ætti ekki að dragast úr hömlu – verður að gera tilraunir til auka skilning á þeim formlegu hliðum samfélagslífsins sem tengjast bahá’í stjórnskipan. Svæðisráðið sem verður til í slíku umhverfi er gerir sér að öllum líkindum grein fyrir þeirri ábyrgð sinni að hvetja og styrkja það starf sem stuðlar að lifandi og öflugu samfélagi. Hins vegar verður það einnig að öðlast hæfni til að rækja margvíslegar aðrar skyldur og sá stuðningur sem aðstoðarráðgjafar ykkar og aðstoðarmenn þeirra veita því skiptir meginmáli. Í skilaboðum okkar til ráðstefnu ykkar árið 2010 lýstum við þróunarbraut slíks svæðisráðs og vísuðum til ýmissa þátta í starfsemi þess sem huga þyrfti að, þar á meðal hæfni þess til að stjórna og þróa svæðissjóð, styðja með tímanum frumkvæði um samfélagsaðgerðir og hafa samskipti við stofnanir sveitarfélaga og borgaralegs samfélags. Ávinningurinn sem samfélag hefur af þjónustu slíks svæðisráðs þarfnast ekki frekari útskýringa.
Við förum þess á leit við ykkur að gefa náinn gaum að stofnun svæðisráða og treystingu starfsemi þeirra í samskiptum ykkar við andleg þjóðarráð og bahá’í landshlutaráð, sérstaklega á svæðum þar sem minni áhersla hefur verið lögð á þennan vaxtarþátt. Við gerum ráð fyrir að þetta stuðli að hraðri fjölgun svæðisráða sem stofnuð eru ár frá ári. Í sumum löndum þarf samráð ykkar að fela í sér athugun á því hvort núverandi fyrirkomulag á landsbyggðinni sem lýtur að skilgreiningu marka hvers byggðarlags sé fullnægjandi.
Trúverðug innsýn hefur fengist á því að eftir því sem staða og forusta svæðisráðs í samfélagi nýtur meiri viðurkenningar öðlast átrúendurnir dýpri skilning og gera sér skýrari grein fyrir heilagleika kosningaferlisins og þeirri skyldu sinni að taka þátt í kosningum í andrúmslofti sem er fullkomlega laust við áróður og veraldleg viðhorf til valda. Þegar vitund eykst í samfélagi um þær andlegu meginreglur sem eru að baki bahá’í kosningum mótast ný hugmynd um hvað það táknar þegar einhver er kvaddur til starfa í stofnun og skilningur eykst á gagnkvæmum tengslum og samskiptum einstaklingsins, samfélagsins, svæðisráðsins og undirstofnana þess. Þar sem markvisst hefur verið unnið að því að hvetja til umræðna í samfélagi um myndun svæðisráðsins og tilgang þess og viðhalda þeirri umræðu ár eftir ár, eflist styrkleiki hins kjörna ráðs og kraftur samfélagslífsins með gagnkvæmum hætti.
Þessi gagnkvæmu áhrif hafa verið sérstaklega áberandi undanfarin tvö ár á stöðum þar sem við höfum samþykkt að tekið sé upp tveggja þrepa kosningaferli fyrir andlegt svæðisráð, en þetta er nálgun sem á upptök í fyrirmælum sem ‘Abdu’l‑Bahá gaf andlega ráðinu í Teheran. Nú þegar er byrjað að kjósa tuttugu og tvö svæðisráð í átta löndum samkvæmt þessari aðferð. Henni svipar að mörgu leyti til kosninga andlegs þjóðarráðs og felur í sér að byggðarlagi er skipt í einingar. Frá hverri einingu eru kosnir einn eða fleiri fulltrúar og síðan kjósa fulltrúarnir meðlimi svæðisráðsins. Þegar bahá’íum í byggðarlagi fjölgar og hæfni samfélagsins til að takast á við margbreytileika eykst, styrkjast að sama skapi rökin fyrir innleiðingu tveggja þrepa kosningaferlis. Af þessum sökum gerum við ráð fyrir að heimila þessa aðferð í komandi áætlun í kosningu svæðisráða á mun fleiri stöðum, bæði í þéttbýli og dreifbýli þar sem slík skref eru tímabær í ljósi aðstæðna.
Andlegt svæðisráð sýnir ætíð mikinn áhuga á að læra hvernig best má efla starf að samfélagsuppbyggingu í lögsögu sinni og hefur sem slíkt reglubundið samráð við vinina sem hafa umsjón með starfseminni í umdæminu. Það fylgist náið með þróun hvers kyns öflugra starfsmiðstöðva á svæðinu, sérstaklega með stuðningi við teymi átrúenda sem þar hafa myndast og örva vaxtarferlið. Almennt er það svo að því meira skipulag sem efling starfseminnar útheimtir á tilteknu svæði eða hluta þess – til dæmis þegar skipuleggja á heimsóknir á heimili, styðja fjölskyldur sem halda helgistundir eða hvetja þær til að mynda samstarfshópa – þeim mun öflugra hlutverki getur svæðisráðið gegnt í þessum efnum. Á svæðum þar sem fjölda manns er boðin þátttaka í bahá’í starfsemi og þar sem starf svæðisráðsins verður margbrotnara og margvíslegar skyldur þess aukast, kemst ráðið stundum að raun um að ritari þess þurfi á skrifstofu og starfsfólki að halda og að lokum verður þörfin brýnni fyrir viðeigandi bahá’í svæðismiðstöð.
Þegar svæðisráðin byrja að taka á sig meiri ábyrgð og leggja meiri rækt við þróun samfélagsins verða stofnanir á landshluta- og landsvísu að sýna þeim markvissari stuðning. Okkur hefur þótt ánægjulegt að sjá að brugðist er við þessari þörf á skipulegan hátt, til dæmis með því að þjóðarráð eða landshlutaráð boða til reglulegra funda með riturum og öðrum embættismönnum svæðisráða til samráðs um þróun sérstakra aðgerðaleiða.
Þar sem landshlutaráð hefur þróað aukna hæfni á sviði stjórnskipunar, þar á meðal hæfni til að veita mörgum umdæmum í senn viðeigandi stuðning, hefur það stuðlað að hraðari framförum í öllum landshlutanum. Í skilaboðum okkar til ráðstefnu ykkar árið 2015 var bent á að í smærri löndum þar sem ekki er þörf á landshlutaráðum þurfi að koma upp formlegu skipulagi á landsvísu sem gegni því hlutverki að aðstoða við þróun umdæma. Í löndum þar sem þetta hefur ekki gerst enn förum við þess á leit að þið eigið samráð við þjóðarráð um skrefin sem hægt er að taka til að koma á slíku fyrirkomulagi, það er að skipa landsvaxtarnefnd með þremur, fimm eða sjö meðlimum. Þjóðarráðið þarf að gefa þessari stofnun nauðsynlegt svigrúm til að hlynna að framförum umdæma og draga viðeigandi ályktanir af þeim lærdómi sem fengist hefur um landshlutaráðin að þessu leyti. Ábyrgð þess getur falist í að skipa umdæmiskennslunefndir og hvetja þær í áætlunum sínum, annast dreifingu brautryðjenda á heimavelli, styðja við kennsluverkefni og dreifa grunnritum. Nefndin mun njóta góðs af nánu samstarfi við þjálfunarstofnunina, sem sjálf er undirstofnun þjóðarráðsins, og aðstoðarráðgjafana sem þjóna landinu, auk þess sem hún getur haft beint samband við viðkomandi ráðgjafa. Þótt þjóðarráðið muni að sjálfsögðu vilja fylgjast með starfi nefndarinnar og veita henni leiðsögn, stuðning og hvatningu, ætti stofnun nefndar sem alfarið sinnir því verkefni að stuðla að vexti að gera þjóðarráðinu kleift að veita öðrum mikilvægum málum meiri athygli. Í löndum þar sem landshlutaráð hafa ekki verið sett á fót en yrðu mögulega stofnuð síðar ætti einnig að skipa landsvaxtarnefnd á þessum tíma.
Þegar sú andlega orka eykst sem einlægt starf að áætluninni leysir úr læðingi mun hún mæta mótstöðu andófsaflanna sem hindra mannkynið í að ná fullum þroska. Andspænis slíkum öflum þarf að vernda og efla lífsþrótt margs konar aðgerðaleiða sem fylgt er á svæðisstigi. Þessi mikilvæga ábyrgð hefur sérstaka þýðingu fyrir meðlimi aðstoðarráðanna tveggja, en fjölmörg og krefjandi skyldustörf þeirra halda þeim í nánum tengslum við aðstæður í grasrótinni og vakandi fyrir öllu sem gæti haft áhrif á anda samfélagsins. Þeir verða að hjálpa vinunum, þvert á ólíka menningu og félagslegt umhverfi, að takast á við margs konar áskoranir: hjálpa áður óvinveittum hópum að finna einingu með sókn að sameiginlegu markmiði, læra að leggja til hliðar siði og viðhorf sem gengið hafa í arf og tilheyra unglingsárum mannkyns og að sigrast á hvers kyns fordómum, verjast allri tilhneigingu til að skoða málin af tortryggni eða einblína á vankanta og temja sér frekar kappsamt og uppbyggilegt viðhorf, sýna jafnrétti kvenna og karla í verki, varpa af sér tregðu og sinnuleysi með því að sýna einstaklingsfrumkvæði, taka stuðning við áætlanir um sameiginlegar aðgerðir fram yfir persónulegar hneigðir og langanir, virkja mátt nútímatækni án þess að láta undan hugsanlegum lamandi áhrifum hennar, meta mikils unaðinn af kennslu trúarinnar og gleðina yfir þjónustu við mannkynið ofar veraldlegum hagsmunum, hafna ópíum neysluhyggjunnar, hverfa frá hugmyndafræði efnishyggjunnar og þeirri sýn á heiminn sem hún boðar á herskáan hátt og beina sjónum að björtu leiðarljósi laga Guðs og meginreglna Hans. Þetta og margt annað felur í sér þunga ábyrgð sem átrúendurnir verða að axla þegar þeir marka sér leið gegnum ár og daga sem verða án efa róstusamir í lífi mannkyns. Aðstoðarráðgjafar ykkar sem gengið hafa fram með lofsverðum hætti til að efla hópinngönguferlið verða að vera vandanum vaxnir andspænis öllum slíkum áskorunum, hvenær og hvar sem þær rísa. Megi þeir í krafti síns góða fordæmis og glöggra ráða hjálpa vinunum að vaxa í trú, fullvissu og skuldbindingu við líf á þjónustubraut og fylgja þeim á vegferð sinni þegar þeir byggja upp samfélög sem eru athvarf friðar, staðir þar sem mannkynið, hrjáð og helsært af átökum, getur fundið skjól.
Í síðustu röð áætlana kom í ljós að hæfni samfélagsins til að einbeita sér að brýnustu þörfum trúarinnar er einn mikilvægasti styrkur þess. Hins vegar þarf þessi einbeiting að hafa rými fyrir margar aðgerðaleiðir, sem allar verða að ná fram að ganga án þess að keppa hver við aðra. Þetta kallar á víða sýn og blæbrigðaríkan skilning á samstilltum kröfum, aukinn sveigjanleika og aukið samstarf stofnana. Við vitum fullvel að auðlindir trúarinnar eru takmarkaðar og margar kröfur eru gerðar á tímann sem einstaklingar hafa til umráða. En þegar áætlunin þróast á tilteknum stað og fylking þeirra stækkar sem eru tilbúnir til að þjóna, munu fjölbreyttir þættir auðugs og lifandi bahá’í samfélagslífs þróast samstíga og þjóðfélagsuppbyggjandi kraftur trúarinnar taka völdin.
Sögulegt ætlunarverk
Við vonumst til að hafa á þessum síðum gert ykkur ljóst að núverandi hæfni bahá’í samfélagsins ásamt þeim aga sem það hefur tamið sér með því að hlíta samræmdum aðgerðaramma hefur búið það undir strangt og umfangsmikið álag á allar auðlindir þess, andlegar og efnislegar. Áætlunin sem mun hefjast innan skamms – fyrsta stóra skrefið í heilögu og djarflegu tuttugu og fimm ára átaki, kynslóðaskiptu að umfangi og þýðingu – gerir kröfur til allra átrúenda, samfélaga og stofnana sem minnir á þær kröfur sem Verndarinn gerði til bahá’í heimsins í upphafi tíu ára herferðarinnar. Ef vinunum tekst fyrir náð almáttugs Guðs að ná þeim hæðum hetjudáða sem þeir eru kvaddir til að klífa, mun sagan vissulega heiðra gerðir þeirra með ekki síður lofsamlegum umsögnum en þeim sem hún heiðrar þau dýrlegu afrek sem prýða annála fyrsta árhundraðs mótunaraldarinnar.
Við treystum því fastlega að þið og andlegu þjóðarráðin tryggið að í allri viðleitni sem gerð er til að kynna vinunum eðli þessa sameiginlega verkefnis verði sjónarsvið sögunnar haft skýrt fyrir augum. Þrátt fyrir alla sína efnislegu yfirburði hefur siðmenning nútímans verið léttvæg fundin og dómur kveðinn upp af Hinum æðsta penna: „Vitið þér eigi að Vér höfum vafið því saman sem var í eigu fólksins og afhjúpað þess í stað nýja skipan?“ Stofnun guðlegrar siðmenningar er með orðum Verndarans „meginverkefni bahá’í trúarinnar“. Hana á að reisa á þeim grundvallareiginleikum sem heimurinn hefur svo brýna þörf fyrir: einingu, traustverðleika, gagnkvæmum stuðningi, samvinnu, samkennd, óeigingirni, sannleiksást, ábyrgðartilfinningu, lærdómsþorsta og hjartanlegri ást sem umvefur allt.
Hversu heitt þráum við ekki að sjá mannkynið upplýst af ást á Drottni sínum, hversu heitt þráum við ekki að heyra lofgjörð Hans og vegsömun á hverri tungu. Með vitneskju um þessa brennandi ósk okkar skiljið þið tilfinningarnar sem bærast innra með okkur þegar við leggjum höfuð okkar á hina helgustu fótskör og biðjum Bahá’u’lláh að gera ykkur og alla sem elska trú Hans að sífellt fullkomnari farvegi fyrir óumræðilega náð Hans.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]