ÁVARP TIL HEIÐURS ‘ABDU’L‑BAHÁ Í TILEFNI ÞESS AÐ ÖLD ER LIÐIN FRÁ UPPSTIGNINGU HANS
Allsherjarhús réttvísinnar
Nú er öld liðin frá því að göfugur andi ‘Abdu’l‑Bahá steig upp til sinna eilífu heimkynna. Hann fæddist í dögun hetjualdar trúarinnar og andlát hans var til marks um að sól síðasta tímaskeiðs hennar hafði gengið til viðar. Sönnun þess að hann var holdtekja einingaraflanna kom skýrast í ljós við útför hans þar sem mikill fjöldi syrgjenda af öllum trúarbrögðum í þessu landi kom saman til að trega sameiginlegan missi. Margir vinanna sem gengu trúnni á hönd meðan hann lifði drukku í sig anda guðdómlegra kenninga með því einu að hafa hann fyrir augunum, og ef við enn í dag viljum haga lífi okkar í samræmi við þennan anda horfum við til fordæmis Meistarans sem með orðum sínum og gerðum endurspeglaði ljósið sem geislaði frá opinberun Bahá’u’lláh.
Fordæmi hans er að öllu leyti samslungið sjálfsmynd bahá’ía. Sérhver bahá’íi getur snúið sér til hans og öðlast þannig betri skilning á því hvernig miðla skal ljósi trúarinnar, og sem fyrirmyndar sem við fylgjum í viðleitni okkar til að vekja andlega næmni þeirra sem verða á vegi okkar. Í öllum þeim fjölmörgu frásögum um sálir sem umbreyttust af samverunni við ‘Abdu’l‑Bahá koma þær ráðleggingar hans skýrt fram að kennarinn verði að „upptendrast“ til þess að orð hans „hafi áhrif“ en vera samt „fullkomlega sjálflaus og lítillátur“ til þess að „hann geti kennt með hljómfegurð herskaranna á hæðum“. Mikinn lærdóm má draga af því hvernig hann kynnti fólki af hvers kyns uppruna guðlegar meginreglur og víkkaði stöðugt hring einingarinnar án nokkurs tillits til ytra útlits, tungumáls, siða eða trúar. Alltumlykjandi ást hans skapaði samfélag sem jafnvel á hans eigin tíma gat réttilega fullyrt að það væri þverskurður þjóðfélagsins. Ást hans endurlífgaði, nærði og veitti innblástur; hún flæmdi á brott alla firringu og bauð alla velkomna að veisluborði Drottins. Sérhver viðleitni til samfélagsuppbyggingar í dag, allt menntastarf og sérhver útrétt hönd til annarra samfélagshópa ber í sér von um að við getum með okkar eigin viðleitni miðlað sömu ást og hann sýndi sérhverri sál. Slík viðleitni er mesti hollustu- og virðingarvotturinn sem honum verður sýndur á þessari aldarártíð og alla daga héðan í frá.
Við þökkum Bahá’u’lláh fyrir að hafa með kenningum sínum látið heiminum í té ekki aðeins þann mælikvarða hreinleika, hollustu og grandvarleika sem sálir mannanna gætu ævinlega þráð að uppfylla, heldur einnig flekklausa fyrirmynd Meistarans um hvernig lifa má lífinu samkvæmt þessum mælikvarða. Þegar hver kreppan á fætur annarri steðjar að mannkyninu nýtur samfélag Hins mesta nafns, sem ekki fær varist slíku umróti, þeirra forréttinda að hafa fordæmi ‘Abdu’l‑Bahá fyrir augunum. Hvorki háski né hindranir komu í veg fyrir að hann sinnti ætlunarverki sínu, hvort sem í hlut áttu þarfir líðandi stundar eða undirbúningur framtíðarverkefna. Hvorki hatur né heimsátök fengu hann til að hvika frá stefnunni sem hann hafði markað. Hann mætti áföllum með æðruleysi, fullvissu og viljaþreki og fagnaði erfiðleikum og mótlæti á vegi Guðs. Hversu vægðarlausar voru ekki árásirnar sem á hann voru gerðar! Hve þung var ekki byrðin sem hann varð að bera! Við minnumst vitnisburðar virtrar systur hans, Hins helgasta laufs, sem sagði: „Í myrkri næturinnar mátti heyra sár andvörp stíga úr djúpi sálar hans, en þegar birti af degi risu undursamlegir tónar bæna hans upp til íbúa ríkisins á hæðum.“
Tíminn sem síðan er liðinn hefur ekki dregið úr lotningu okkar fyrir „hlutverki og skaphöfn hans sem gegnir einstæðu hlutverki, ekki aðeins í trúarkerfi Bahá’u’lláh, heldur í allri trúarbragðasögunni“. Og Shoghi Effendi bætir þessum orðum við um ‘Abdu’l‑Bahá:
Hann er fyrst og fremst – og þannig ber okkur ævinlega að sjá hann – burðarás og þungamiðja hins óviðjafnanlega og alltumlykjandi sáttmála Bahá’u’lláh, upphafnasta handaverk Hans, flekklaus spegill ljóss Hans, fullkomin fyrirmynd kenninga Hans, óskeikull túlkandi orða Hans, líkamning sérhverrar bahá’í hugsjónar, holdtekja sérhverrar bahá’í dyggðar, hin máttugasta grein sem runnin er af þessari fornu rót, armur Guðs laga, verundin „sem öll nöfn snúast um“, driffjöður einingar mannkynsins, fáni hins mesta friðar, máninn sem snýst um miðlægan hnött þessa alhelga trúarkerfis – þetta eru þau nöfn og titlar sem felast í seiðmögnuðu nafni ‘Abdu’l‑Bahá og finna þar sína fegurstu, hæstu og sönnustu tjáningu. Hann er ofar og æðri þessum nöfnum, „leyndardómur Guðs“ en með þeim orðum kaus Bahá’u’lláh sjálfur að lýsa honum, og þótt það heimili okkur alls ekki að hefja hann í stöðu spámanns, gefa þau til kynna hvernig ósamræmanlegar eigindir mannlegs eðlis og ofurmannlegrar fullkomnunar og þekkingar hafa samtvinnast og náð fullkomnu jafnvægi í persónu ‘Abdu’l‑Bahá.
Kæru samverkamenn: Við höfum boðað ykkur hingað ekki aðeins til að heiðra minningu ‘Abdu’l‑Bahá og minnast eldrauna hans og sigra, heldur einnig til að helga okkur öll og samfélög ykkar á nýjan leik þjónustunni við málstaðinn sem hann helgaði líf sitt og tilveru. Til að uppfylla þá heilögu ábyrgð sem Hin blessaða fegurð fól honum fékk hann bahá’í heiminum til varðveislu tvær stofnskrár sem hafa æ síðan leitt þróun hans og viðgang. Með tilstilli annarrar, Taflna Hinnar guðlegu áætlunar, hefur orð Guðs verið kunngert í sérhverju landi, en hin er erfðakrá hans þar sem lagður er grundvöllur að stofnun stjórnskipulagsins. Nú við lok fyrsta árhundraðs mótunaraldar og við upphaf nýrrar heimsáætlanaraðar er hröð framvinda guðlegrar áætlunar Meistarans augljós. Og lífræn þróun stjórnskipulagsins á síðustu hundrað árum birtist í tilvist fjölda stofnana og undirstofnana allt frá alþjóðavettvangi að sviði svæðissamfélagsins, sem veita anda trúarinnar í farveg og leiðbeina og styðja störf bahá’í heimssamfélagsins. Með ‘Abdu’l‑Bahá sem Miðju er sáttmálinn óvinnandi vígi. Við fögnum því hvernig sáttmálinn beinir sérhverjum átrúanda að sameiginlegu verkefni og viðheldur öflugri einingu sem hlúir að stöðugt vaxandi samfélagi hinna trúföstu.
Þegar við hugleiðum persónu Meistarans verðum við furðu lostin yfir alltumlykjandi myndugleika hans samfara endalausri þolinmæði og skilningi, djúpri visku við allar aðstæður, takmarkalausri blíðu og óþrjótandi ást sem sérhver opin sál getur skynjað. En vitundin um að hann leitaði aldrei lofs eða veraldlegrar viðurkenningar temprar alla löngun til að votta þessum óviðjafnanlegu eiginleikum virðingu. Og þess vegna finnum við okkur knúna til þessa vitnisburðar: ‘Abdu’l‑Bahá, ástvinur allra hjartna okkar, allt þitt gafst þú í þjónustu sem var „fullkomin, hrein og raunveruleg, tryggilega staðfest, varanleg, augljós, opinberuð með skýrum hætti og ekki háð neinni túlkun“. Okkar er það eitt að votta þér tryggð og trúnað og heita því að styðja og verja sáttmálann sem þú „kunngerðir, barðist fyrir og staðfestir“, og tjá heilshugar hollustu okkar við ævarandi leiðsögn þína, heitar bænir og hvatningar. Þessi sama heitstrenging birtist í staðföstu og ótrauðu starfi bahá’í heimsins við að uppfylla það ætlunarverk sem honum er falið á þessum tíma. Þegar við sjáum þetta samfélag leitast við að lifa eftir fordæmi þínu minnumst við eftirfarandi orða þinna:
Ó vinir! Lof sé Guði að fáni guðlegrar einingar hefur verið dreginn að húni í hverju landi og söngur Abhá-ríkisins hljómar á alla vegu. Í miðju hjarta heimsins hrópar heilagur engill herskaranna á hæðum „Yá Bahá’u’l-Abhá!“, og mátturinn í orði Guðs blæs sönnu lífi í líkama tilverunnar.
Þess vegna ber ykkur öllum, ó trúföstu vinir, að ganga til liðs við ‘Abdu’l‑Bahá í sjálfsfórn og þjónustu við málstað Guðs og í ánauð við guðlega fótskör Hans. Verði ykkur hjálpað að öðlast þessa æðstu hylli, mun allur heimurinn áður en langt um líður þiggja dýrlegt ljós Drottins og langþráð eining mannkyns opinberast í fyllstu fegurð og þokka mitt í hjarta heimsins. Þetta er kærasta ósk ‘Abdu’l‑Bahá! Þetta er æðsta þrá hinna trúföstu! Yfir ykkur hvíli Dýrð allra dýrða.