8. nóvember 2019 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Sá árangur sem þið hafið náð – ekki aðeins á nýliðnum vikum heldur á merkilegu tveggja ára framfaratímabili sem nú hefur náð áhrifamiklu hámarki – knýr okkur til að ávarpa ykkur, sýnilegan herskara hreyfingar sem hefur sannað að hún er ósigrandi. Fagnaðurinn í tengslum við 200 ára fæðingarhátíð Bábsins var ekki aðeins minnisstæður atburður heldur ávöxtur átta vaxtarbylgna sem einkenndust af helgaðri viðleitni þar sem saman fór framkvæmd í einingu og andi djarflegs frumkvæðis. Það gladdi okkur að sjá vinina svo fullvissaða í viðbrögðum sínum við ákallinu til þjónustu. Svæðissamfélög, hverfi og byggðarlög urðu vettvangur aukinnar starfsemi af öllu tagi þegar þekkingin á því sem samfélagið gat afrekað – og kom í ljós á síðustu tveggja alda fæðingarhátíð – leysti úr læðingi gífurlega orku og athafnasemi, studda skynsamlegu ferli undirbúnings og íhugunar. Hápunktarnir voru margir og þá ber að viðurkenna. Hátíðahöld innan fjölskyldna og meðal fjölskyldna voru áberandi þáttur auk þess sem fundir sem ungmenni skipulögðu fyrir jafnaldra sína voru líka til merkis um styrkleika. Tækifæri sem gáfust til fjörlegra frásagna af lífi Bábsins og fyrstu fylgjenda Hans voru kappsamlega notuð. Fagnaðurinn fékk aukið vægi í samræðum um þarfir þjóðfélagsins, iðulega að frumkvæði foreldra ungra barna. Tveggja alda fæðingarhátíðin varð tilefni fagurra og tilfinningaríkra listaverka, skapandi vitnisburðir um ást og hollustu, en of margir og fjölbreyttir til að þeim verði gerði skil hér. Og það vakti sérstaka eftirtekt hvernig sérhver leið sem farin var í þessu verkefni varð með eðlilegum hætti boðleið til þátttöku í starfsemi þjálfunarstofnunarinnar. Hæfnin sem sýnd var til að fá sem breiðastan hóp fólks til að taka þátt í starfsemi samfélagsins varð okkur mikil uppörvun. Þetta sýnir vissulega hve stundir, sem eru heilagar í sögu mannsins og minnst er á helgidögum, eru gæddar feiknalegu afli til að örva sálir manna og þjappa þeim saman í sameiginlegri reynslu. Hve mikil eru ekki fyrirheitin um þróun á sviði menningar sem felast í slíku hátíðarhaldi á fjölmörgum stöðum um allan heim á komandi árum!
Sú staðreynd verður ekki dregin í efa að í heiminum í heild er að finna ríkulegan móttækileika. Framfarir ráðast af því hvernig hæfni er þróuð til að færa enn frekar út ferli samfélagsuppbyggingar. Þess vegna beinast öll augu að komandi mánuðum. Í næstu sex vaxtarbylgjum verður að viðhalda ástinni á Ljósgjöfunum tveimur sem Guð hefur sent og hollustunni við velferð mannkynsins sem fram til þessa hefur innblásið göfugt starf ykkar. Við hvetjum alla sem unnu að því að ná þessum árangri að hafa hraðan á og koma saman aftur til að íhuga og eiga samráð, og til þess að ganga úr skugga um hvernig best sé við hverjar aðstæður að beita öllu því sem reynslan hefur kennt ykkur; hvernig stækkandi kjarni vina getur þróað öflugra starfsmynstur; hvernig börnin geta komist á næsta stig og unglingarnir tekið fyrir næsta lesefni og þroskað enn betur siðferðilega og andlega eiginleika sína; hvernig námshringir geta örvað hæfileikana og færnina sem svo brýn þörf er fyrir; hvernig breikka má þjónustubrautina þannig að hún fái rúmað mikinn fjölda; hvernig sýna má í verki raunverulega von um þjóðfélagsumbætur; og hvernig gera má öllum börnum Guðs kleift að njóta innblásturs frá nýrri opinberun Hans og bjóða móttækilegum sálum að samkenna sig málstað Abhá-fegurðarinnar. Á þeim tíma sérstakrar getu og styrks sem fer í hönd, nú þegar heimurinn virðist hjálparvana andspænis yfirþyrmandi háska og sálirnar hafa lotið í lægra haldi fyrir ótta og örvæntingu, hefur Bahá’u’lláh gefið okkur enn eina svipmynd af því sem samfélagið sem ber nafn Hans getur komið til leiðar af hugrekki – og jafnvel hetjuskap – í ætlunarverkinu sem Guð hefur áformað því. Við munum biðja einlæglega í hinum helgu grafhýsum fyrir óbrigðulum staðfestingum Hans, að þær umlyki sérhvert barn og sérhvert ungmenni, hverja konu og karl, allar fjölskyldur og öll þau samfélög sem varðveita ást Hans í hjarta sínu.