14. október 2016 – Til vinanna sem komið hafa saman í Santíagó í Síle vegna vígslu móðurmusteris Suður-Ameríku
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Til vinanna sem komið hafa saman
í Santíagó í Síle vegna vígslu
móðurmusteris Suður-Ameríku
Við heilsum ykkur með ómældri gleði vegna þessa einstæða atburðar, á stundu stórkostlegs afreks fyrir bahá’í heiminn þar sem unnið hefur verið af miklu kappi. Það langtímaverkefni að koma upp bahá’í tilbeiðsluhúsum, sem rekja má allt aftur til daga Hinnar blessuðu fegurðar sjálfrar, hefur náð því marki að í dag standa móðurmusteri í hverri heimsálfu. Nú eru þrjú slík musteri á ás sem spannar alla Ameríku og þið hafið öll laðast að suðurenda hans. Líkt og Verndarinn sá fyrir er það höfuðborg Síle sem geymir nú fyrsta Mashriqu’l-Adhkár í Suður-Ameríku. Þessi dögunarstaður minningar Guðs sem að jöfnu er tígulegur og hrífandi, kallar nú alla til sín til að tilbiðja hinn eina skapara þeirra, allsráðandi Drottin, ljósgjafa heimsins.
Hin þungvægu orð í Kitáb-i-Aqdas sem beint var til forseta lýðvelda Ameríku, og lögðu áherslu á skyldu þá sem Bábinn lagði á allar „þjóðir í vestri“ að leggja málstað Hans lið, leggja þessum löndum í norðri og suðri óafmáanlegan heiður og skyldur á herðar. Þessi þýðingarmiklu orð vitnuðu um hin nánu tengsl Suður-Ameríku við trúna. Við minnumst með djúpri aðdáun hetjulegra og fórnfúsra dáða þeirra átrúenda sem fyrstir kynntu nafn Bahá’u’lláh í þessari heimsálfu. Með einbeittum ásetningi þeirra, sem kviknaði af ákalli Meistarans í töflum hans sem leggja grunninn að hinni guðlegu áætlun, og Shoghi Effendi hvatti enn frekar til með stöðugri leiðsögn sinni sem hann gaf um framkvæmd áætlunarinnar, ferðuðust brautryðjendur til þjóða Rómönsku Ameríku og hófu að koma á fót samfélögum sem gætu viðhaldið svæðisráðum og að lokum andlegum þjóðarráðum, samfélögum sem Verndarinn kallaði síðar „samstarfsmenn um aðalframkvæmd áætlunarinnar sem ‘Abdu’l‑Bahá kvað á um“. Árangur stórfelldrar kennsluviðleitni leiddi í ljós hreinan og opinn huga íbúa álfunnar í allri þeirra fjölbreytni, og sýndi augljósan móttækileika þeirra fyrir hinum guðlegu áhrifum. Eitt af mest áberandi einkennum þessa tímabils var sá ákafi sem frumbyggjar sýndu er þeir fögnuðu boðun Bahá’u’lláh og trú Hans, viðurkenndu kraft orða Hans til að frelsa sálina og umbreyta samfélaginu. Að þeim framförum fengnum stóðu vinirnir frammi fyrir þeirri áskorun að læra hvernig takast mætti að viðhalda hratt vaxandi fjölda og treystingu hans. Sá skilningur sem fékkst af áunninni reynslu á þessu svæði hefur komið öllum bahá’í heiminum til góða og kraftur suður-amerískra átrúenda í dag við að breiða út trúna og byggja samfélög á andlegum grunni er stöðug uppspretta innblásturs. Það er því vel við hæfi að á tímum, þegar fólk og þjóðir hins vestræna heims eru í mestri þörf fyrir ljómann sem stafar af kenningum guðlegs opinberanda alls mannkyns, að nú skuli voldugur, andlegur kyndill loga skært við rætur Andesfjalla.
Mashriqu’l-Adhkár er „ein af lífsnauðsynlegustu stofnunum heimsins“. Musteri og tengdar stofnanir hýsa tvo grundvallarþætti sem eru óaðskiljanlegir í bahá’í lífi, það er tilbeiðslu og þjónustu. Sem öflugt tákn og inngróinn þáttur í hinni guðlegu menningu sem opinberun Bahá’u’lláh leiðir allar þjóðir til, verður tilbeiðsluhúsið þungamiðja samfélagsins sem það rís í. ‘Abdu’l‑Bahá sagði: „Hin helga angan Mashriqu’l-Adhkár lífgar sál hinna réttsýnu og lífgefandi andvari þess gæðir hina hjartahreinu lífi“. Vissulega eru áhrif þess slík að þau hvetja heila þjóð til að leitast við að sækja í einlægni að sameiginlegu markmiði. Auglit bahá’í heimsins er á þessari stundu fest á hinu nývígða musteri sínu og við erum þess fullvissir að þessi langþráði sigur muni hvarvetna færa vinunum fögnuð. Þeir munu þó sannlega ekki aðeins gera sig ánægða með að fagna hver með öðrum. Megi þeir, sem hafa fyllst guðlegum innblæstri af þessari mikilfenglegu byggingu, bjóða öðrum að uppgötva hina ævarandi gleði sem fylgir því að lofa Guð og þjóna mannkyni.
Við lútum höfði við fótskör Hinnar öldnu fegurðar, og þökkum fyrir að Hann hefur gert einlægum fylgjendum sínum mögulegt að skapa svo einstakt musteri, gert af gleri, steini og ljósi, þar sem lögð er rækt við aðlöðun að hinu helga. Þakklætið sem við finnum fyrir eykur þrá okkar eftir þeim degi að blessun Mashriqu’l-Adhkár falli öllum borgum og bæjum í skaut, og við horfum fyrst og fremst til þeirra landa þar sem þjóðar- og svæðistilbeiðsluhús eru í burðarliðnum. Megi hin geislandi sýn á hvað samfélag Hins mesta nafns hefur nú afrekað í Santíagó, hvetja hina trúuðu hvarvetna til að efla þjónustu sína, hversu hógvær sem hún er, við að bæta heiminn í fórn við Dýrð Guðs.