2. janúar 2016 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Við beinum þessum orðum til ykkar frá samkomu þar sem álfuráðgjafarnir hafa fimm daga í röð fjallað í einlægni og alvöru um hvað næsta fimm ára áætlun ber í skauti sér. Upplýst samráð þeirra tók mið af þeirri aðdáunarverðu þekkingu á ferli hæfnisuppbyggingar sem er að skapast í þúsundum umdæma um heim allan. Fjöldi þeirra frásagna sem deilt var á meðan á ráðstefnunni stóð bar vitni sköpunarmætti, eljusemi og blómstrandi hæfni samfélags Hins mesta nafns og umfram allt trausti þess á staðfestingum Hins almáttuga. Vaxandi skilningur er meðal fólks í öllum heimshlutum á áhrifamátt læknisdóms Bahá’u’lláh til græðingar á meinsemdum þjóðfélagsins.
Áður en fyrstu öld mótunarskeiðsins lýkur verða tvenns konar tímamót sem spanna afmælisviðburði tengda skjölum sem hafa ómetanlega þýðingu. Hinn fyrri hefst með aldarafmæli opinberunar ‘Abdu’l‑Bahá á Töflum hinnar guðlegu áætlunar í sama mund og vinirnir leggja upp í nýjan áfanga í þróun þeirrar áætlunar. Honum lýkur þegar hundrað ár eru liðin frá uppstigningu ‘Abdu’l‑Bahá og opinberri birtingu erfðaskrár hans. Með þetta í huga og til að búa sig undir umræður og yfirveganir héldu álfuráðgjafarnir með meðlimi Allsherjarhúss réttvísinnar og Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar í fararbroddi til húss Meistarans – staðarins þar sem þrjár töflur hinnar guðlegu áætlunar voru opinberaðar og þar sem erfðaskrá Meistarans var lesin upp nokkrum vikum eftir andlát hans í áheyrn átrúenda frá fjórum heimsálfum. Í því heilaga húsi við upphaf þessarar ráðstefnu voru lesnir kaflar úr þessum tveimur stofnskrám sem, eins og Shoghi Effendi útskýrði, hrundu af stað ferlunum fyrir útbreiðslu trúarinnar og stofnunar stjórnskipulagsins. Þetta var viðeigandi inngangur að fimm daga samráði sem beindist að því að dreifa enn víðar ljósi Bahá’u’lláh og styrkja hæfni stofnana Hans til þess að þær geti orðið farvegir fyrirheitinna blessana Hans til mannkyns.
Ráðstafanir komandi fimm ára áætlunar má finna í þeim boðum sem við beindum til þessarar ráðstefnu á fyrsta degi hennar og sem samtímis var dreift til allra andlegra þjóðarráða. Ráðgjafarnir gerðu sér skýra grein fyrir því gífurlega átaki sem ástvinir Drottins eru beðnir um að takast á hendur en þeir létu líka í ljósi traust sitt á hæfni bahá’í heimsins til að takast á við þessa áskorun. Aldrei áður hefði verið hægt að hugleiða slíkt verkefni í alvöru en í ljósi þess sem tekist hefur í núverandi áætlun opnast víðari svið möguleika en nokkru sinni fyrr. Við erum djúpt snortnir af þeim frásögnum sem byrjuðu að berast fljótlega eftir að boð okkar til ráðstefnunnar voru send út frá vinum sem komu saman fullir ákafa við alls konar aðstæður til að hjálpa hver öðrum að kynnast innihaldi þeirra. Við vonum að lestur og ígrundun boðanna muni breiðast fljótt út í samfélaginu. Á meðan munu stofnanirnar gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja sem heillavænlegasta byrjun áætlunarinnar á Riḍvánhátíðinni.
Á þeim fáu mánuðum sem eftir eru verður haldið áfram að vinna að núverandi áætlun og sérstaklega að gerð nýrra vaxtaráætlana. Öll skref sem tekin eru í þá átt munu auka hæfni heimssamfélagsins til að hefjast handa um átaksverkefni næstu fimm ára. Sérhvert andartak er dýrmætt. Það er einlæg þrá okkar að sjá sérhvern átrúenda velja sér braut helgaðrar þjónustu og háleitra markmiða sem ‘Abdu’l‑Bahá hvatti vinina ítrekað til í Töflum hinnar guðlegu áætlunar. Í bænum okkar munum við biðja höfund þeirrar áætlunar um milligöngu sína frammi fyrir hásæti Föður síns, að hann megi veita ykkur handleiðslu í þjónustu ykkar jafn lengi og sálir þurfa á brauði himins að halda.