[ÍSLENSKAÐ ÚR LÖGGILTRI ENSKRI ÞÝÐINGU Á PERSNESKA TEXTANUM]
18. desember 2014
Til bahá’ía í Íran
Kæru bahá’í vinir
Við vonum að þið hafið nú haft tækifæri til að íhuga vel skilaboðin sem við sendum bahá’íum heimsins þann 1. ágúst 2014, þar sem lýst er framvindu verkáætlunar um að reisa tilbeiðsluhús – Mashriqu’l-Adhkár – á átta stöðum víðs vegar um heiminn. Sérhver þessara dögunarstaða minningar Hans táknar aukin áhrif trúar Guðs á allt þjóðfélagið. Bahá’íarnir í Íran eru sér vissulega fyllilega meðvitaðir um hugmyndina að baki tilbeiðsluhúsinu. Allt frá því þessi lög voru opinberuð voru vinirnir í vöggu trúarinnar meðvitaðir um þýðingu þess og helguðu sig byggingu musterisins af þeim takmörkuðu efnum sem kringumstæður þeirra leyfðu. Með tímanum helguðu þeir ekki aðeins byggingu tilbeiðsluhússins í ‘Ishqábád alla krafta sína, heldur gerðist það einnig í Íran að bænaiðkun í upphafi dags festi sig í sessi og varð hvatning til þjónustu við mannkynið. Hugsjónin sem að baki bjó var sú að fræið sem þeir voru að gróðursetja myndi með tímanum verða sýnilegur veruleiki sem bæri ávöxt, ekki aðeins með byggingu þessara miðstöðva fyrir tilbeiðslu heldur einnig í mótun hliðarstofnana fyrir þjónustu á sviði mannúðar sem slík tilbeiðsla myndi hvetja til.
Þannig gerðist það undir handleiðslu ‘Abdu’l‑Bahá að mynstur samfélagslegrar tilbeiðslu varð óaðskiljanlegur hluti margra bahá’í samfélaga í Íran sem skapaði einingu og þrá til að þjóna. Á þennan hátt varð sýn Meistarans til þess að skapa tækifæri til að tjá hugmyndina og inntakið að baki tilbeiðsluhúsinu undir ýmsum kringumstæðum í sínu upphaflega frumræna formi. Íhugið orð hans í þessu sambandi:
Hvað tilbeiðsluhúsið varðar þá hefur það hina mestu þýðingu.… Það getur tekið á sig hvaða form sem er, því jafnvel þótt það sé aðeins neðanjarðarbyrgi mun það byrgi verða skjólsæl paradís, upphafinn laufskáli og garður unaðar. Það verður miðstöð þar sem andinn gleðst og hjörtun laðast að Abhá-ríkinu.
Ykkar eigin reynsla hefur vissulega sýnt að hægt er að hugsa sér margvíslega möguleika á því að sýna þetta lögmál í verki og lífræna þróun þess á ákveðnum stöðum.
Í bahá’í ritunum er hugtakið „Mashriqu’l-Adhkár“ notað með ýmsum hætti til að tákna samkomu átrúenda til bænahalds í upphafi dags, sem byggingu þar sem farið er með guðleg ritningarvers, sem heildarstofnun Mashriqu’l-Adhkár og hliðarstofnana þess og sjálfrar byggingarinnar sem einnig er vísað til sem musteris eða tilbeiðsluhúss. Allt þetta má hugsa sér sem hliðar á stigvaxandi gildistöku laganna sem Bahá’u’lláh setti mannkyni í helgustu bók sinni.
Tilbeiðsluhúsið er einstakt fyrirbæri í annálum trúarbragðanna, tákngervingur kenninganna á þessum nýja degi Guðs. Sem sameiginleg þjóðfélagsleg miðstöð sem stuðlar að innilegu kærleiksþeli er tilbeiðsluhúsið allsherjarstaður fyrir vegsömun Guðs, opinn öllum íbúum án tillits til trúarskoðana, bakgrunns, þjóðernis eða kyns – athvarf fyrir dýpstu hugleiðslu á andlegum veruleika og grundvallarspurningum lífsins auk þeirrar ábyrgðar sem einstaklingar og samfélög axla á þjóðfélagslegum umbótum. Það tekur í faðm sinn sem jafningja karla og konur, börn og unglinga. Þessi einstæða og algilda heild er fönguð í sjálfu formi tilbeiðsluhússins, sem er hannað sem níu hliða bygging og veitir tilfinningu fullnustu og fullkomnunar með þeirri tölu.
Þar sem tilbeiðsluhúsið er staður þaðan sem andleg öfl eiga að geisla er það miðpunktur hliðarstofnana sem reistar verða í þágu velferðar alls mannkyns og birtingarmynd sameiginlegs vilja og einlægrar þjónustulundar. Þessar stofnanir – miðstöðvar menntunar og vísindalegs náms og starfs á sviði menningar og mannúðar, eru holdi gæddar hugsjónir félagslegra og andlegra framfara sem verða að veruleika með beitingu þekkingar. Þær sýna hvernig staða mannsins hækkar og siðmenningin blómstrar þegar trú og vísindi ganga hönd í hönd. Eins og líf ykkar sýnir og sannar verður tilbeiðsla sem er svo nauðsynleg innra lífi mannsins og andlegum þroska hans einnig að leiða til gerða sem sýna innri umbreytingu í ytra fari hans. Þetta inntak tilbeiðslunnar, sem er óaðskiljanlegt þjónustu, birtist með fulltingi tilbeiðsluhússins. Shoghi Effendi segir í þessu sambandi:
Aðskilin starfi á sviði samfélagsmála, mannúðar, mennta og vísinda sem hverfast um hliðarstofnanir Mashriqu’l-Adhkár, getur bahá’í tilbeiðsla, hversu heit og áköf sem hún er, aldrei vænst þess að ná öðru og meira en þeim rýra og oft skammvinna árangri sem hugleiðsla meinlætamannsins eða bænagjörð hins óvirka tilbiðjanda geta komið til vegar. Hún getur ekki veitt tilbiðjandanum sjálfum varanlega fullnægju eða gagn, því síður mönnunum almennt, nema því aðeins hún umbreytist og innblási þá kraftmiklu og sjálflausu þjónustu við málstað mannkyns sem eru æðstu forréttindi stofnana tilbeiðsluhúss að efla og hvetja.
Ljósgjafarnir tveir á þessari skínandi öld hafa kennt okkur þetta: Bæn er lífsnauðsynlegt andlegt samtal sálarinnar við skapara sinn, beint og án milliliða. Hún er andlega fæðan sem nærir líf andans. Líkt og morgundöggin færir hún hjartanu ferskleika og fágar það, hreinsar það af löngunum hins kröfuharða sjálfs. Hún er eldur sem brennir burt blæjur og ljós sem leiðir til úthafs endurfunda við almáttugan Guð. Á vængjum hennar rís sálin til himins Guðs og kemst nær hinum guðlega veruleika. Þroski takmarkalausra hæfileika sálarinnar og aðlöðun gjafa Guðs er háð gæðum hennar en það er ekki æskilegt að draga bæn á langinn. Mátturinn sem býr í bæninni kemur í ljós þegar hún mótast af ást á Guði sem er ofar ótta og von um hylli og laus við sýndarmennsku og hindurvitni. Hana verður að biðja af einlægu og hreinu hjarta sem stuðlar að íhugun og hugleiðslu þannig að skynsemin upplýsist af áhrifum hennar. Slík bæn mun sigrast á takmörkunum orða og verða miklu meira en ómur radda. Ljúfir hljómar hennar verða að gleðja og upplyfta hjartað og styrkja hið gagntakandi afl orðsins, umbreyta jarðneskum hneigðum í himneska eiginleika og hvetja til sjálfslausrar þjónustu við mannkynið.
Því er ekki að furða að samfélag ykkar sem frá blautu barnsbeini hafið alist upp við stöðuga bæn um að hafa „hjörtu hrein sem perlur“, getið gengið gegnum lífið og þolað alls konar harðneskju en látið ekki hjörtu ykkar spillast af hatri, biturð eða hefndarhug með þeim afleiðingum að þessi hreina perla glati ljóma sínum. Bænir verður óhjákvæmilega að lifa með tilgangsríku lífi.
Við höfum hvatt bahá’íana til að sjá í viðleitni sinni til samfélagsuppbyggingar sköpun nýs þjóðfélagsmynsturs. Í heild sinni eykur þetta mynstur hæfni til þjónustu, menntunar yngri kynslóða, eflingar ungmenna, andlegrar uppfræðslu barna og hæfnina til að nýta sér áhrif orða Guðs með því að starfa með öðrum á sviði þjónustu og fyrir félagslega og efnahagslega framþróun mannanna í ljósi guðlegra kenninga fyrir þessa tíma. Helgistundin er nauðsynleg fyrir þetta mynstur – hin samfélagslega hlið guðrækilegs lífernis og sjálft inntak Mashriqu’l-Adhkár – dásamlegt tækifæri fyrir samfélag ykkar, ekki aðeins til að vegsama Hinn almáttuga og leita blessunar Hans í lífi ykkar, heldur einnig til að veita samferðamönnum ykkar hlutdeild í andlegri orku bænarinnar, að endurvekja hjá þeim hreinleika tilbeiðslunnar, að kveikja eld trúar á staðfestingu Guðs í hjörtum þeirra og að styrkja með þeim ekki síður en ykkur sjálfum ákafa löngun til að þjóna þjóðinni og mannkyni og sýna uppbyggjandi þolgæði á vegi réttlætis.
Kæru vinir: samkomur helgaðar bæn um gjörvallt land ykkar, í sérhverju hverfi, borg, bæ og þorpi og aukinn aðgangur sem samborgarar ykkar hafa að bahá’í bænum gera samfélagi ykkar kleift að lýsa öllu mannkyni með ljósi einingar og veita trúsystkinum ykkar hlutdeild í starfi ykkar og viðleitni. Gróðursetjið því fræ að framtíðar Mashriqu’l-Adhkár til gagns fyrir alla og tendrið ótal kyndla ljóssins gegn myrkri haturs og ójafnaðar.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]