20. október 2008 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Dagurinn í dag, fæðingarhátíð Bábsins, markar miðpunktinn í því fimm ára verkefni sem bahá’í heimurinn starfar að fram að Riḍvánhátíðinni 2011. Við drúpum höfði í auðmjúku þakklæti til Bahá’u’lláh fyrir þær gjafir og staðfestingar sem Hann hefur veitt þeim sem vinna svo ötult og fórnfúst starf fremst á kennsluvettvanginum. Frá því að tíunda alþjóðlega bahá’í heimsþinginu lauk fyrir nokkrum mánuðum hefur vitundin um áhrif skipulagsins sem mótar starfsemi fimm ára áætlunarinnar aukist með því innsæi sem fulltrúarnir hafa miðlað vítt og breitt um bahá’í samfélagið. Tugir umdæma um allan heim eru að búa sig undir kerfisbundna útbreiðslu og við væntum þess við að sjá bylgju öflugra vaxtaráætlana rísa á þeim mánuðum sem í hönd fara fyrir Riḍván á næsta ári.
Áskorunin sem blasir við vinunum í þessum umdæmum, og öllum öðrum, er sem fyrr tvíþætt. Meðan þeir læra að bera kennsl á móttækilega hópa í samfélaginu og deila boðskap trúarinnar með móttækilegum sálum – en slíka löngun er ekki erfitt að uppfylla – reyna þeir að gera sér grein fyrir í verki hvernig samþætta má ýmsa þætti heilbrigðs vaxtarmynsturs, sérstaklega þróun mannauðs, í eina heild. Það er mjög uppörvandi að sjá að um leið og vinirnir í umdæmi byrja að mæta þessari tvíþættu áskorun ná þeir tafarlausum árangri; markmiðið um að hleypa af stokkunum öflugri vaxtaráætlun er strax í sjónmáli.
Það kemur ekki á óvart að áframhaldandi styrking samfélagsins helst í hendur við frekari hnignun gamla heimsskipulagsins. Reyndar verða vinirnir að gæta þess vel að þróun á hæfni í samfélaginu haldist í hendur við aukinn móttækileika vonsvikins mannkyns. Jafnvel á þeim stutta tíma sem liðinn er síðan við sögðum þessi varnaðarorð í Riḍvánboðunum, getum við séð hvernig efnahagskerfi sem eitt sinn þóttu ósigrandi hafa riðað til falls og leiðtogar heimsins sýnt hversu vanmegnugir þeir eru að finna varanlegar lausnir. Þessa vangetu viðurkenna þeir sjálfir í auknum mæli. Traust og trúnaður hefur beðið hnekki og öryggistilfinning er horfin, sama til hvaða úrræða er gripið. Vissulega hefur slík þróun valdið því að átrúendur í öllum löndum íhuga hörmulegt ástand ríkjandi skipulags og hún styrkir fullvissu þeirra um að efnisleg og andleg siðmenning verði að þróast hönd í hönd.
Það er með þetta í huga sem við beinum hjörtum okkar oft til Bahá’u’llah og biðjum Hann um að styrkja fylgjendur sína með óbrigðulli náð sinni. Á slíkum stundum sárbænum við Hann að upplýsa sálir þeirra ljósi þekkingar og trúar. Þeir ættu ekki að vanmeta kraftinn sem býr í því skipulagi sem þeir eru að koma á fót með því að útbreiða trú Hans, né misskilja raunverulegt áform þess hnattræna verkefnis sem þeir hafa tekist á hendur. Þeir ættu ekki að víkja af lærdómsbrautinni sem þeir eru byrjaðir að feta né heldur láta hverfula eftirsókn ráðþrota samfélags rugla sig í ríminu. Þeir ættu ekki að láta bregðast að meta að verðleikum gildi þeirrar menningar sem nú er að skjóta rótum í samfélaginu, menningar sem stuðlar að kerfisbundnu námi í hinu skapandi orði í litlum hópum til að byggja upp hæfni til þjónustu. Þeir ættu aldrei að gleyma því brýna verkefni að sinna þörfum barna heimsins og bjóða þeim kennslu sem þróar andlega hæfileika þeirra og leggur grundvöll að göfugri og heiðarlegri persónugerð. Þeir ættu að gera sér fulla grein fyrir því hversu þýðingarmikið það er að hjálpa ungu fólki að mynda sterk siðferðileg skapgerðareinkenni á fyrstu unglingsárum sínum og styrkja þau til að leggja sitt af mörkum til velferðar samfélaga sinna. Og þeir ættu að gleðjast yfir því að hafa lært með samfelldu og kerfisbundnu starfi hvernig á að mynda þess konar vaxtarhrynjanda sem beinir athyglinni á eðlilegan hátt að meginþáttum útbreiðslu, treystingar, íhugunar og skipulagningar. Megi þeir hver og einn verða gæddir stöðugleika og trúmennsku og fá hugrekki til að færa hverjar þær fórnir sem nauðsynlegar eru til að tryggja fullkominn árangur áætlunarinnar. Megi þeir með heiðvirðu framferði sínu, einlægri ást til meðbræðra sinna og ákafri löngun til að þjóna þjóðum heimsins sýna fram á yfirlýst sannindi Bahá’u’lláh um einingu mannkynsins. Megi þeir vinna ötullega að því að stofna til vináttubanda sem virða að vettugi ríkjandi félagslegar hömlur og hindranir og sýna látlausa viðleitni til að tengja saman hjörtun í ást Guðs. Það er einlæg von okkar að þeir megi skilja djúpstæða þýðingu þess hlutverks sem þeir gegna. Það er innilegasta bæn okkar við hina heilögu fótskör að þeir hiki ekki við að framkvæma metnaðarfull markmið sín, hversu alvarlegar sem þær kreppur verða sem nú umlykja heiminn.
Til þess að gefa vinunum tækifæri til að koma saman, bæði til að fagna þeim áföngum sem þegar hafa náðst í áætluninni og íhuga brýn nauðsynjamál hennar, boðum við til svæðisbundinna ráðstefna, fjörutíu og einnar talsins, sem haldnar verða í eftirfarandi borgum á tímabilinu nóvember-mars: Abidjan, Akkra, Almaty, Antofagasta, Atlanta, Auckland, Baku, Bangalore, Bangui, Battambang, Bologna, Bukavu, Chicago, Dallas, Frankfurt, Guadalajara, Istanbúl, Jóhannesarborg, Kiev, Kolkata, Kuala Lumpur, Kuching, Lae, London, Los Angeles, Lubumbashi, Lusaka, Madrid, Managua, Manilla, Nakuru, Nýju Delhi, Portland, Quito, Sao Paulo, Stamford, Sydney, Toronto, Ulaanbaatar, Vancouver, Yaounde. Tveir meðlimir Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar verða fulltrúar okkar á sérhverri þessara ráðstefna. Andleg þjóðarráð í gestgjafalöndunum munu geta veitt frekari upplýsingar varðandi þátttöku. Við hvetjum átrúendurna, bæði þá sem taka fullan þátt í framkvæmd áætlunarinnar og þá sem vegna kringumstæðna hafa fram til þessa ekki getað uppfyllt óskir sínar um slíka þátttöku, að nýta sér þetta tækifæri og sækja ráðstefnurnar sem haldnar verða á svæðum þeirra.