31. desember 2005 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Nú þegar ráðstefnu álfuráðgjafa í Landinu helga er að ljúka, langar okkur að deila með ykkur tilfinningum gleði, sigra og fullvissu sem hafa einkennt þessa daga einbeittrar umræðu um núverandi fimm ára áætlun og alþjóðaátakið sem tekur við að henni lokinni.
Hönd málstaðar Guðs, ‘Alí-Muḥammad Varqá, hóf ráðstefnuna með vekjandi ákalli um einbeittar aðgerðir og gæddi þar með ráðstefnuna anda óhvikullar staðfestu. Fjölmargar sögur voru sagðar af hvetjandi starfi vinanna og af þörfum þjóða heimsins og opnum viðbrögðum þeirra. Frásagnirnar báru vitni um að trú Bahá’u’lláh blómstrar í ríkari mæli en fyrr um allan heim. Áleitnum spurningum sem bahá’í samfélagið hefur fengist við í hálfa öld, um hvernig eigi að viðhalda vaxtarferlinu og halda jafnvægi milli útbreiðslu og treystingu, var svarað með reynslusögum frá ólíkum umdæmum í öllum heimsálfum. Sagt var frá erfiðleikum sem voru yfirunnir, nýrri reynslu sem ávannst og nýjum skapandi aðferðum sem uppgötvuðust og það var greinilegt af öllum þessum sögum að her ljóssins er reiðubúinn að sækja fram til víðari sjóndeildarhrings.
Það er enginn vafi á því að áætlunin sem senn er á enda, hefur verið mikið gæfuspor í sögu trúarinnar. Við lítum til næstu fimmtán ára, lokaára fyrstu hundrað ára mótunaraldarinnar, og væntum þess að mikið muni ávinnast. Ef horft er frá þessum sjónarhóli, getur bahá’í heimurinn strax séð hversu stóran og ómetanlegan hlut Alþjóðlega kennslumiðstöðin á í þeirri atburðarás sem hrundið hefur verið af stað þessi síðustu ár og getur jafnframt greint hve ríkulega möguleika hið helgaða starf sem kennslumiðstöðin hefur lagt á sig, hefur fyrir framtíðina.
Í boðskap okkar frá 27. desember til ráðstefnunnar, en hann hefur þegar verið sendur til andlegra þjóðarráða, er í stuttu máli sagt frá því sem lærst hefur um vöxt til þessa og forgangsverkefni næstu áætlunar kynnt. Nauðsynlegt er að allir átrúendur og stofnanir gaumgæfi þessi skilaboð enda er það forsenda þess að það samráð sem fara mun fram á öllum stigum samfélagsins þegar ráðgjafarnir snúa heim aftur, verði árangursríkt.