Allsherjarhús réttvísinnar
27. desember 2005
Til ráðstefnu álfuráðanna
Ástkæru vinir
Á meðan átrúendurnir um heim allan hafa á síðustu fjórum og hálfu ári lagt sig fram um að örva hópinngönguferlið, hefur orðið sífellt ljósara að lok yfirstandandi fimm ára áætlunar munu marka þáttaskil í framvindu þess sögulega framtaks sem samfélag Hins æðsta nafns hefur tekist á hendur. Undirstöðuþættir þess samstillta átaks að gegnsýra alla heimshluta með anda opinberunar Bahá’u’lláh mynda núna aðgerðaramma sem er tilbúinn til notkunar.
Í skilaboðum okkar frá 26. desember 1995, þar sem athygli bahá’í heimssamfélagsins var beint að farvegi einbeitts náms um hraðan og varanlegan vöxt trúarinnar, lýstum við með almennum hætti eðli þess starfs sem vinna þyrfti til að geta tekist á við viðfangsefnin sem bíða. Sem fyrsta skref voru bahá’í samfélög hvött til þess að vinna með kerfisbundnari hætti að því að auka mannauð málstaðarins með því að koma upp neti þjálfunarstofnana. Þótt öll þjóðarsamfélög hafi gert ráðstafanir til að byggja upp stofnanir sem hafa burði til að uppfylla þetta mikilvæga hlutverk, var það ekki fyrr en við upphaf fimm ára áætlunarinnar sem skilningur á mikilvægi vel skipulagðra þjálfunaráætlana varð almennur. Innleiðing umdæmishugtaksins gerði vinunum kleift að sjá fyrir sér hraðari vöxt samfélagsins á viðráðanlegum mælikvarða og að skilja hann sem tvíþætta framvindu þar sem fram fer gagnkvæm styrking: Stöðugur straumur einstaklinga gegnum röð þjálfunarnámskeiða og þróun umdæma frá einu þróunarstigi yfir á það næsta. Þessi mynd auðveldaði vinunum að greina þá reynslu sem aflað var og gaf þeim sameiginlegt orðfæri til að tjá niðurstöðurnar. Aldrei fyrr hefur meiri skilningur ríkt á þeim leiðum sem færar eru til þess að byggja upp skipulagða starfsemi sem leggur jafn mikla áherslu á systurferlin tvö: útbreiðslu og treystingu. Raunar hefur reynslan af öflugum vaxtaráætlunum, sem unnar hafa verið á grundvelli þessa skilnings í margs konar umdæmum, verið það svipuð að þess gerist ekki lengur þörf að nota varfærið orðalag. Leiðin fram undan er ljós og á Riḍván árið 2006 munum við hvetja vinina til að brýna stálið og vinna áfram af fullum krafti á þeirri leið sem svo skýrt hefur verið mörkuð.
Jafnhliða því að kynna fyrir ykkur megineinkenni næstu fimm ára áætlunar, sem er umræðuefni ykkar á þessari ráðstefnu, munum við fara yfir nýleg afrek bahá’í heimssamfélagsins og sýna hvernig beita skal á þessu næsta stigi þeirri nálgun, aðferðum og tækjum sem við erum að nota. Þessi greining mun leiða í ljós að heilshugar viðbrögð einstaklinga, samfélaga og stofnana við þeirri leiðsögn sem þeir fengu fyrir fimm árum hefur aukið getu þeirra svo um munar. Frekari efling þessarar getu verður áfram forsenda árangurs í hópinngönguferlinu – meginviðfangsefni bahá’í heimssamfélagsins þau ár sem eftir eru af fyrsta árhundraði mótunaraldarinnar.
Einstaklingurinn
Þess gerist ekki þörf að lýsa hér í smáatriðum afrekum einstakra átrúenda því við höfum þegar gert þeim skil í skilaboðum okkar til allra bahá’ía 17. janúar 2003. Í þeim skilaboðum beindum við athyglinni að auknu frumkvæði og útsjónarsemi ásamt hugrekki og dirfsku sem nú orðið einkenna átrúendurna hvarvetna. Eiginleikar á borð við helgun, kapp, sjálfstraust og þrautseigju bera auknum lífskrafti trúar þeirra glöggt vitni. Við höfum einnig bent á að áþreifanleg birting þessa lífskrafts er þáttur þjálfunarstofnunarinnar í að efla framtak sem liggur til grundvallar þróttmeiri starfsemi um heim allan.
Það sem síðan hefur gerst sýnir enn betur fram á gagnsemi námskeiðahalds sem hefur það markmið að auka þjónustugetu með því að beina athyglinni að hagnýtingu þess andlega innsæis sem afla má með lestri og íhugun á ritningunum. Þátttakendur komast í snertingu við þekkingarsjóð sem hlúir að tengdum venjum, viðhorfum og eiginleikum og fá stuðning við að þjálfa þá hæfileika og getu sem nauðsynleg er til þess að inna af hendi þjónustu. Umræður um hið skapandi orð í alvarlegu og uppörvandi andrúmslofti námshrings efla vitund um skyldur okkar gagnvart málstaðnum og örva skilning á þeirri gleði sem kennsla og starf fyrir trúna veita. Hið andlega samhengi sem tilteknar gerðir eru unnar í gefur þeim gildi. Sjálfstraustið eykst jafnt og þétt þegar átrúendurnir sinna sífellt flóknari og kröfuharðari þjónustu. Samt sem áður er það traust á Guði sem heldur þeim gangandi. Þær eru fjölmargar frásagnirnar af átrúendum sem leggja hikandi á braut kennslunnar og komast að því að staðfestingar berast þeim úr öllum áttum og gefa þeim endurnýjaðan kraft. Þegar þeir sjá möguleikana og tækifærin í nýju ljósi, upplifa þeir milliliðalaust mátt guðlegrar aðstoðar er þeir kappkosta að beita í framkvæmd því sem þeir hafa lært og árangurinn sem þeir ná fer fram úr björtustu vonum. Það er að sjálfsögðu ekkert nýtt að trúarandi sem kviknar í náinni snertingu við orð Guðs hafi slík áhrif á sál mannsins. Það sem er svo hvetjandi er að þjálfunarferlið gefur fjölmörgum kost á að upplifa umbreytingarmátt trúarinnar. Að veita þessum upplýsandi áhrifum til hundraða þúsunda til viðbótar ætti að vera markmið öflugrar viðleitni næstu fimm árin.
Áherslan á hæfnisuppbyggingu kemur í ljós í stöðugt meira frumkvæði einstaklingsins – frumkvæði sem tekur mið af forsendum kerfisbundinna gerða sem þoka hópinngönguferlinu áleiðis að settu marki. Menn leggja sig alla fram og setja sig í auðmjúkar námsstellingar innan ramma áætlunarinnar. Niðurstaðan er sú að starfsemi sem ýtir undir fjölþætta hæfileika þróast með samræmdum hætti og kemur í veg fyrir stöðnun sem leitt getur af endalausum rökræðum um persónulegan smekk hvað varðar aðferðir. Stuðningur við langtímaaðgerðir eykst en þær sýna samhengið í aðgerðum átrúendanna hverju sinni.
Aukið einstaklingsfrumkvæði hefur hvergi birst með eins skýrum hætti og í kennslustarfinu. Það er óumdeilt að virkni einstaklinganna eykst í kennslu hvort heldur um er að ræða opin hús eða námshringi. Með færni og vinnuaðferðum, sem hafa sannað gildi sitt og allir geta tileinkað sér, og tvíefldir í krafti viðbragðanna við verkum þeirra, hafa átrúendurnir stofnað til nánara sambands við fólk af ýmsum þjóðfélagsstigum og rætt hreinskilnislega við það um mikilvæg andleg málefni. Aukin andleg næmni gerir þeim kleift að skynja móttækileikann og þorstann eftir endurlífgandi vatni boðskapar Bahá’u’lláh. Öllum sem þeir umgangast – foreldrum barnanna í hverfinu, skólafélögum, vinnufélögum og kunningjum – leitast þeir við að miðla hluta þess sem Hann hefur í örlæti sínu gefið mannkyni. Aukin reynsla gerir þeim kleift að aðlaga framsetninguna þörfum leitandans og beita til þess beinum kennsluaðferðum þar sem ritningarnar eru notaðar til að koma boðskapnum á framfæri á einfaldan og aðlaðandi hátt.
Einkar eftirtektarverður í þessu samhengi er sá andi frumkvæðis sem þeir átrúendur sýna sem víkka út starfsvið sitt með því að aðstoða aðra sem líka eru að leggja sig fram á þjónustubraut. Er þeir hafa náð því stigi að geta leiðbeint á þjálfunarnámskeiðum, blasir við sú áskorun að fylgja þátttakendum eftir í fyrstu þjónustuviðleitni þeirra uns þeir geta byrjað á sínum eigin námshringum, hjálpað öðrum að gera slíkt hið sama, víkkað þannig áhrifasvið þjálfunarstofnunarinnar og komið áköfum sálum í snertingu við orð Guðs. Miklar vonir eru bundnar við þessa hlið þjálfunarferlisins, sem leiðir til virkar og sjálfbærrar fjölgunar stuðningsmanna. Við vonum að þessir möguleikar verði að veruleika í næstu áætlun. „Hann skyldi ekki láta staðar numið,“ svo vitnað sé til orða Verndarans þegar hann vísar til allra kennara málstaðarins, „fyrr en hann hefur innblásið andlegu barni sínu djúpri þrá sem knýr það til að rísa upp á eigin spýtur og helga krafta sína endurlífgun annarra sálna og verndun þeirra laga og meginreglna, sem hin nýja trú hans setur fram.“
Samfélagið
Sá aukni lífskraftur sem einkennir líf einstaklinganna er jafn augljós í bahá’í samfélagslífi. Að hve miklu leyti þessi lífskraftur birtist ræðst auðvitað af þróunarstigi hvers umdæmis. Umdæmi sem eru komin á þróað vaxtarstig gefa mun betri innsýn í hvaða árangri er hægt að ná en þar sem umdæmi eru skemmra á veg komin og vinirnir eiga enn í vandræðum með að koma áætluninni í framkvæmd. Við hljótum því að líta til þeirra umdæma sem lengra eru komin þegar við gerum úttekt á árangri samfélagsins, sannfærð um að önnur umdæmi muni fara að fordæmi þeirra þegar þau sjálf halda áfram að þróast.
Við höfum oft vikið að þeirri samstillingu vaxtarferlisins sem á rætur sínar að rekja til námshringa, helgistunda og barnakennslu. Stöðug fjölgun grunnþáttanna, sem þjálfunarstofnunin knýr áfram, skapar sjálfbæran farveg fyrir útbreiðslu og treystingu sem er bæði reglubundinn og lífrænn. Þegar leitendur taka þátt í þessari starfsemi og lýsa yfir trú sinni skapast aukinn kraftur í kennsluviðleitni einstaklinga og hópa. Viðleitnin til þess að tryggja að hluti hinna nýju átrúenda taki þátt í þjálfunarnámskeiðum leiðir til fjölgunar þeirra sem geta tekið þátt í starfi trúarinnar. Þegar allt kapp er lagt á að fylgja þessu eftir í umdæminu, skapar þetta starf að lokum hagfelldar aðstæður til að hefja öfluga vaxtaráætlun.
Þegar umdæmi sem standa á slíkum þröskuldi eru skoðuð náið kemur í ljós að samstillingin sem náðst hefur nær til fjölmargra þátta samfélagslífsins. Að nema kenningarnar og að beita þeim verður að gagntakandi venju og andi sameiginlegrar tilbeiðslu sem helgistundirnar skapa fer að gegnsýra sameiginlega viðleitni samfélagsins. Aðlaðandi samþætting lista við ýmsa starfsemi eflir orkuna sem flæðir yfir átrúendurnar og virkjar þá. Kennslustundir sem miða að andlegri uppfræðslu barna og unglinga styrkja rætur trúarinnar meðal íbúana á svæðinu. Jafnvel einföld þjónusta eins og að heimsækja nýjan átrúanda, hvort sem er í þorpi á Kyrrahafseyju eða í stórborg á borð við London, eflir vináttuböndin sem tengja meðlimi samfélagsins. Heimsóknir, sem upprunalega voru hugsaðar sem leið til þess að koma átrúendum í snertingu við grundvallaratriði trúarinnar, hafa leitt af sér fjölþætt dýpkunarstarf, bæði fyrir einstaklinga og hópa, þar sem vinirnir kafa djúpt í ritningarnar og leitast við að uppgötva merkingu þeirra í eigin lífi.
Jafnframt því sem andlegar undirstöður samfélagsins styrkjast með þessum hætti, færast samræðurnar á æðra stig, félagsleg tengsl vinanna öðlast nýtt gildi og samskipti þeirra eflast af vissu um sameiginlegan tilgang. Það ætti því ekki að koma á óvart að þegar Alþjóðlega kennslumiðstöðin gerði athugun í fimmtíu umdæmum sem komin eru langt á veg kom í ljós að gæði nítjándagahátíðanna höfðu aukist. Í öðrum skýrslum kemur fram að framlög í sjóðinn hafa farið vaxandi samhliða aukinni vitund um andlega merkingu hans og skilningi á þörfinni fyrir efnislega burði. Umdæmis- eða matssamkomur eru að verða að vettvangi skoðanaskipta um þarfir og fyrirætlanir, sem síðan skapar sameiginlega sjálfsmynd og eflir sameiginlegan vilja. Þar sem slík þróuð umdæmi hafa náð að blómstra fer áhrifanna að gæta utan marka umdæmisins og svæðisbundin starfsemi svo sem sumar- eða vetrarskólar verða innihaldsríkari.
Hér gildir hið sama og um einstaklinginn, nám einkennir þetta þróunarstig samfélagsins. Þið og aðstoðarráðgjafarnir eruð hvött til þess gera allt sem í ykkar valdi stendur á næstu árum til þess að tryggja að hvert umdæmið á fætur öðru tileinki sér nýja þekkingu samofna ákvarðanatöku.
Eitt helsta viðfangsefni ykkar verður að hjálpa vinunum að skilja betur mikilvægi kerfisbundinna vinnubragða. Vitund um þau hefur þegar aukist umtalsvert vegna þess árangurs sem þau hafa borið. Að miðla sameiginlegri sýn á vöxt sem byggist á raunsæju mati á möguleikum og bolmagni, að þróa leiðir til þess að forma slíka sýn, að móta og framkvæma aðgerðaráætlanir í samræmi við getu, að breyta þar sem það er nauðsynlegt en viðhalda samt samfellu, að byggja á því sem áunnist hefur – þetta eru nokkrar forsendur kerfisbundinna vinnubragða sem öll samfélög þurfa að læra að tileinka sér.
Á sama hátt ætti löngun og vilji til þess að opna tiltekna þætti samfélagslífsins fyrir almenningi að verða hluti af hegðunarmynstri sem laðar að sér sálir og veitir þeim fullvissu. Hér hefur mikill árangur náðst því að vinirnir hafa tileinkað sér nýtt hugarfar og nálgun í samvinnu sinni. Með því að bjóða fjölda fólks velkominn í faðm samfélagsins hafa þeir fengið aukinn skilning á þeim möguleikum sem blunda í fólki og lært að forðast að leggja hindranir byggðar á hleypidómum. Örvandi umhverfi byggist upp þar sem sérhver einstaklingur er hvattur til að þróast á eigin hraða án þrýstings sem byggist á óraunhæfum væntingum. Kjarni slíkrar þróunar er vaxandi vitund um að trúin er algild og alltumlykjandi. Sameiginlegar gerðir mótast sífellt meir af því grundvallaratriði að boðskap Bahá’u’lláh eigi að flytja mannkyni frjálslega og án skilyrða. Sú viðleitni sem sýnd hefur verið til þess að ná til móttækilegra hópa fólks með boðskap trúarinnar er sérstakt ánægjuefni. Meðan miskunnarlaus félagsleg og pólitísk öfl halda áfram að rífa fólk upp með rótum í heimalöndum sínum og sópa þeim yfir heimsálfur, mun skilyrðislaus virðing fyrir fjölbreytilegum uppruna og styrkjandi áhrifum hans fyrir heildina hafa úrslitaáhrif á útbreiðslu og treystingu samfélagsins.
Það sem hugsanlega mun öðru fremur krefjast athygli ykkar og aðstoðarráðgjafanna er að hjálpa samfélaginu að halda einbeitingu. Þessi hæfileiki, sem vaxið hefur jafnt og þétt með hverri áætluninni á fætur annarri, er meðal mikilvægustu verðmæta samfélagsins. Hans hefur verið aflað með erfiði, ögun, helgun og framsýni jafnframt því sem vinirnir og stofnanirnar hafa lært að beina kröftunum að því einu að stuðla að framvindu hópinngönguferlisins. Annars vegar munuð þið gera ykkur grein fyrir nauðsyn þess að vinna gegn tilhneigingu til þess að rugla einbeitni saman við einsleitni og einangrun. Einbeitni felur ekki í sér að vanrækja verði sérstakar þarfir eða áhuga, enn síður að hætta þurfi mikilvægri starfsemi til þess að skapa svigrúm fyrir aðra starfsemi. Bahá’í samfélagslíf er vissulega samsett af fjölmörgum þáttum sem tekið hafa á sig mynd gegnum áratugina, sem þróa þarf og endurbæta. Hins vegar ættuð þið að nota hvert tækifæri til þess að efla viljann til að forgangsraða – vilja til að viðurkenna að ekki er öll starfsemi jafn mikilvæg á tilteknu vaxtarstigi, að sumt verður að taka fram yfir annað, að jafnvel vel meintar tillögur geta leitt af leið, dreift orku og hamlað framþróun. Viðurkenna þarf opinskátt að tíminn sem vinirnir í hverju samfélagi hafa yfir að ráða til að þjóna trúnni er ekki ótakmarkaður. Því er eðlilegt að ætla að þessari takmörkuðu auðlind verði að mestu leyti varið til þess að fylgja áætluninni eftir.
Stofnanirnar
Ekki er mögulegt að viðhalda árangrinum af starfi einstaklinganna eða samfélaganna án þeirrar leiðsagnar, hvatningar og stuðnings sem þriðji þátttakandinn í áætluninni – stofnanirnar – veita. Ánægjulegt er að sjá hversu mjög stofnanirnar hvetja til einstaklingsfrumkvæðis, beina kröftunum að kennslustarfinu, undirstrika gildi kerfisbundinna vinnubragða, örva andlegt líf samfélagsins og stuðla að vingjarnlegu andrúmslofti. Meðan þær aðstoða samfélagið við að einbeita sér að markmiðum áætlunarinnar, læra þær af reynslunni hvað raunverulega felst í því að viðhalda sameiginlegri sýn, koma á fyrirkomulagi sem liðkar fyrir viðleitni þeirra og beina kröftum að þáttum sem settir hafa verið í forgang að vel athuguðu máli. Meðal forgangsverkefnanna er, eins og vænta má, viðfangsefni sem kalla á sérhæfða getu einstaklinga. Meðal þess sem nefna má sérstaklega er starf að ytri samskiptum sem þjóðarráð fylgjast náið með og verkefni á sviði félagslegrar og efnahagslegrar þróunar sem, svo dæmi sé tekið, eru unnin á vegum samtaka sem innblásin eru af bahá’í trúnni. Á sama tíma og stofnanirnar sinna þörfum á borð við þessar er reyndin sú að þær telja sig í auknum mæli geta beint meginþunganum af starfinu sem hinir almennu átrúendur inna af hendi að framkvæmd meginviðfangsefna áætlunarinnar.
Mikil hvatning felst einnig í þeim markvissu skrefum sem andleg þjóðarráð hafa stigið í samráði við ráðgjafana til að bregðast við stjórnunarlegum viðfangsefnum sem komið hafa upp þegar umdæmi hafa vaxið ört. Oft er þessu mætt með því að einn eða fleiri einstaklingar eru útnefndir af þjálfunarstofnuninni til að skipuleggja framboð á námskeiðum í aðalnámskeiðaröðinni og starfsemi sem ætluð er börnum og unglingum. Það er einnig þörf fyrir svæðiskennslunefnd sem útnefnd er af landshlutaráðinu eða þjóðarráðinu sjálfu til að hafa umsjón með öðrum þáttum kerfisbundinnar viðleitni til að auka hraða útbreiðslu og treystingar. Aðstoðarráðgjafar vinna á báðum vígstöðvum til að tryggja að ekkert hindri hina tvíþættu framvindu sem nú einkennir vaxtarferlið. Jafnframt því að slíkum einingum hefur verið komið á í hverju umdæminu á fætur öðru, eigum við enn margt ólært um hlutverk hvers og eins og samspilið milli þeirra. Mikilvægt er að þeim sveigjanleika sem nú er sýndur og sem gerir nýtt fyrirkomulag mögulegt þegar þörf krefur, verði ekki fórnað, svo aðferðin við að samræma starfið endurspegli hverju sinni viðbrögð við þeim þörfum sem vöxturinn kallar á. Við treystum því að þið og þjóðarráðin leiði þetta lærdómsferli.
Þann tíma sem áætlunin hefur staðið höfum við fylgst af sérstökum áhuga með áhrifum þessarar þróunar á andlegu svæðisráðin. Það er einkar ánægjulegt að geta þess að tvíþættur árangur er að nást á þessu sviði. Í þeim umdæmum þar sem flest svæðisráðin hafa verið afar veik, hefur aukinn fjöldi þeirra smám saman tekist á við skyldur sínar jafnframt því að læra að veita leiðsögn um afmarkaða starfsemi innan áætlunarinnar á því svæði sem undir þau heyra. Á sama tíma hafa andleg svæðisráð sem starfað hafa lengi sýnt merki um aukinn styrk þegar þau hafa náð valdi á sýninni um kerfisbundinn vöxt – í mörgum tilfellum eftir aðlögunartíma þegar mörg þeirra áttu í erfiðleikum með að skilja þær nýju aðstæður sem voru að skapast í umdæminu.
Það hefur glatt okkur sérstaklega að sjá að hraði þess vaxtarferlis, sem hefur verið að taka á sig mynd um allan heim, er að aukast bæði í þéttbýli og dreifbýli. Það skref sem tekið var snemma í yfirstandandi áætlun, að skipta borgum í hluta, hefur reynst mikilvægt. Þetta hefur ráðið úrslitum við skipulag varanlegs vaxtar. Þegar samfélög stækka má hins vegar vænta þess að skipta þurfi borgum í enn minni einingar – hugsanlega að lokum í hverfi – þar sem haldin verður nítjándagahátíð. Sýn á hugsanlega stærð samfélaga í framtíðinni er mikilvæg fyrir frekari þróun svæðisráðanna. Til að geta stjórnað málefnum samfélaga sem munu þenjast út og hafa á þúsundum meðlima að skipa, og til að uppfylla þann tilgang að vera „trúnaðarmenn Hins miskunnsama meðal manna“, munu þeir sem þjóna í svæðisráðum ekki komast hjá því að ganga í gegnum kröfuhart lærdómstímabil á komandi árum. Við munum fylgjast náið með þróun andlegra svæðisráða meðan á næstu áætlun stendur og eftir því sem fjöldi bahá’ía og aðrar aðstæður gefa tilefni til heimila tveggja þrepa kosningar í sérstökum tilfellum eftir fyrirmynd sem þróuð var í Teheran á tíma Verndarans.
Öflugar vaxtaráætlanir
Stöðug viðleitni einstaklingsins, samfélagsins og stofnananna við að hraða þjálfunarferlinu í tilteknu umdæmi – sem um leið stuðlar að því að umdæmið færist af einu þróunarstigi yfir á annað með aðferðum sem hafa sannað sig – nær hámarki með því að öflugri vaxtaráætlun er hleypt af stokkunum. Það er raunar svo varðandi núverandi áætlun að mest er hægt að læra af reynslunni sem aflað var í nálægt tvö hundruð umdæmum þar sem unnið var eftir slíkum áætlunum. Það er sannfæring okkar að reynsluna sem fengist hefur í þessum umdæmum megi nú útfæra með kerfisbundnum hætti í öllum heimsálfum og í næstu áætlun sem hefst á Riḍván 2006 munum við beina þeirri ósk til bahá’ía um heim allan að þeir geri slíkar áætlanir í eigi færri en 1.500 umdæmum.
Öflug vaxtaráætlun eins og hún er hugsuð núna gengur beint til verks, hún er einföld og áhrifarík en felur í sér erfiði sem reynir á staðfestu vinanna. Hún samræmist þeirri sýn sem við lýstum fyrir fimm árum og beitir nokkrum aðferðum sem reynst hafa ómissandi fyrir umfangsmikla útbreiðslu og treystingu. Hún felur í sér bylgjur starfsemi, oftast í þrjá mánuði í senn þar sem afmarkaðar lotur útbreiðslu, treystingar, íhugunar og áætlanagerðar taka við hver af annarri.
Útbreiðslulotan, sem oft varir í tvær vikur, er mest krefjandi. Hún hefur það markmið að víkka út þann hóp sem sýnir trúnni áhuga, að finna móttækilegar sálir og að kenna þeim. Þó að þessi lota kunni að fela í sér eitthvert kynningarstarf, er ekki rétt að líta á hana sem tækifæri til að standa fyrir nokkrum kynningarviðburðum eða ráðast í starfsemi sem aðeins felur í sér að koma upplýsingum á framfæri. Reynslan sýnir að því betur sem nálgunin og kennsluaðferðirnar falla að þeirri getu sem þróuð hefur verið á þjálfunarnámskeiðunum, þeim mun ánægjulegri verður útkoman.
Áætlanir sem unnar eru fyrir þessa lotu fela undantekningarlaust í sér vandlega skipulögð kennsluverkefni og herferðir heimsókna og opinna húsa, oft með því að virkja kennsluhópa. Sú mynd sem útbreiðslan, sem kemur í kjölfarið, tekur á sig er hins vegar breytileg frá einu umdæmi til annars. Þar sem almenningur hefur almennt sýnt mikinn móttækileika fyrir trúnni má gera ráð fyrir hröðu innstreymi nýrra átrúenda. Í einu umdæmi þar sem þetta á við, svo dæmi sé tekið, náðist strax á öðrum degi það markmið að skrá fimmtíu sálir inn í trúna á þriggja vikna tímabili og hópurinn tók þá skynsamlegu ákvörðun að hætta útbreiðslulotunni vegna fyrirsjáanlegrar þarfar fyrir treystingu. Eitt af meginmarkmiðum þessarar næstu lotu er að koma hluta hinna nýju átrúenda í þjálfun svo að nægur mannskapur verði tiltækur þegar hafist verður handa um að viðhalda vextinum í næstu vaxtarbylgjum. Hlúð er að þeim sem ekki taka þátt í námshringjum með röð heimsókna. Öllum er boðið á helgistundir, nítjándagahátíð og helgidaga og kynnt einkenni bahá’í samfélagslífs jafnt og þétt. Það er ekki óalgengt að treystingarlotan leiði til frekari skráninga þegar fjölskyldumeðlimir og vinir þeirra sem nýlega yfirlýstu stig viðurkenna trúna.
Í öðrum umdæmum verða skráningar meðan á útbreiðslulotunni stendur hugsanlega ekki svo margar, einkum í fyrstu bylgjunum, og markmiðið verður að fjölga þeim sem vilja taka þátt í grunnþáttunum. Þetta ákvarðar síðan eðli treystingarlotunnar sem snýst einkum um að hlúa að áhuga leitenda og að fylgja þeim í andlegri leit sinni þangað til þeir eru fullvissir í trú sinni. Sé þetta gert af fullum krafti, getur þessi lota leitt af sér umtalsverðan fjölda skráninga. Það skal hins vegar tekið fram, að eftir því sem við lærum meira og reynslan eykst mun hæfnin, ekki einungis til þess að kenna móttækilegum sálum heldur einnig til að finna þá hópa fólks sem eru öðrum fremur móttækilegir, þróast og heildarfjöldi nýrra átrúenda aukast frá einni bylgju til annarrar.
Hvers eðlis sem umdæmið er þá er úrslitaatriði að sýna börnum og unglingum hvarvetna sérstaka athygli. Áhyggjur af siðferðilegri og andlegri uppfræðslu ungs fólks birtast af fullum þunga í samvisku mannkyns og engin tilraun til samfélagsuppbyggingar getur leyft sér að hunsa hana. Gagnsemi kennslustarfs sem beinist að andlegri vakningu meðal unglinga hefur komið einkar vel í ljós í fimm ára áætluninni. Sé þeim fylgt í þrjú ár í gegnum starfsemi sem örvar andlega næmni þeirra og ef þeir eru hvattir til þess að hefjast handa við námskeiðaröð þjálfunarstofnunarinnar við fimmtán ára aldur, reynast þeir vera mikið forðabúr orku og hæfileika sem helga má framþróun andlegrar og efnislegrar siðmenningar. Við erum svo gagnteknir af þeim árangri sem náðst hefur til þessa og þörfin er svo knýjandi, að við munum skora á öll þjóðarráð að líta á myndun unglingahópa sem sprottið hafa af starfsemi á vegum þjálfunarstofnana sem fjórða grunnþáttinn í sjálfu sér og að stuðla að eflingu hans sem víðast.
Lykilatriði í því hvernig öflugar vaxtaráætlanir virka er það stig sem helgað er umhugsun, þar sem markvissar umræður fara fram um lærdóminn sem draga má af starfinu og hann samþættur skipulaginu í næstu starfsbylgju. Meginþáttur þessa stigs er umdæmis- eða matssamkoman, sem er ekki síður tími fagnaðar en alvarlegs samráðs. Vandleg greining á reynslunni, sem fram fer með almennri umræðu fremur en flóknum og ítarlegum fyrirlestrum, stuðlar að því að viðhalda sameiginlegri sýn, skerpa skýrleika í hugsun og efla eldmóðinn. Kjarni slíkrar greiningar er að skoða mikilvægar tölulegar upplýsingar sem gefa vísbendingu um hvaða markmið á að setja fyrir næsta áfanga. Áætlanir eru gerðar með hliðsjón af aukinni getu mannaflans sem tiltækur er við lok bylgjunnar til þess að inna af hendi fjölþætt verkefni annars vegar, og þeirrar þekkingar sem aflað hefur verið um móttækileika almennings og því hvernig kennslan gengur fyrir sig hins vegar. Þegar mannaflinn vex í réttu hlutfalli við fjölgun bahá’ía frá bylgju til bylgju er ekki aðeins hægt að viðhalda vextinum heldur flýta honum.
Svo ná megi því háleita markmiði að hefja 1.500 slíkar öflugar vaxtaráætlanir þarf bahá’í heimssamfélagið að nýta til fullnustu þá reynslu sem fengist hefur og þá getu sem byggð hefur verið upp síðastliðin tíu ár. Eftir að þið farið frá Landinu helga þurfið þið að taka upp náið samráð við andleg þjóðarráð og landshlutaráð og í sameiningu leggja vandlegt mat á aðstæður í hverju þjóðarsamfélagi með það að markmiði að velja umdæmi sem njóta munu sérstakrar athygli og útfæra öflugar vaxtaráætlanir.
Framkvæmd þessara áætlana þarf að hefjast eins fljótt og auðið er eftir Riḍván árið 2006. Reynslan af því að flýta fyrir þróun umdæma af einu stigi yfir á það næsta er nú svo almenn að aðferðirnar og tækin eru vel þekkt. Efla þarf þjálfunarferlið þannig að umtalsverður fjöldi vina fari í gegnum megin námskeiðaröðina. Hér verður full þörf á þjálfunarherferðum sem leggja næga áherslu á æfingaþáttinn. Fjölga þarf grunnþáttunum jafnt og þétt og samskipti við hið ytra samfélag þarf að auka kerfisbundið. Umdæmis- eða matssamkomur þarf að halda reglubundið til að fylgjast með árangri, viðhalda sameiginlegri sýn og virkja kraftinn sem býr í átrúendunum. Og skipulagi sem hefur umsjón með vaxtarferlinu ætti smám saman að koma á eftir því sem aðstæður leyfa. Þrátt fyrir að geta umdæmanna til þess viðhalda vexti verði sem fyrr brýnasta viðfangsefni næstu ára, má ekki vanrækja þróun frekari innviða í landshlutum og á landsvísu til að liðka fyrir flæði upplýsinga og mannafla til og frá vettvangi starfsins.
Jafn mikilvægur er stuðningurinn sem veittur verður umdæmum með innstreymi brautryðjenda. Löngun til að brautryðja á sér djúpar rætur í hjörtum einstakra átrúenda og þeim er eiginlegt að bregðast við guðlegu ákalli. Hver sá sem yfirgefur heimili sitt í þeim tilgangi að kenna málstaðinn bætist í raðir þeirra göfugu sálna sem hafa varpað bjarma á annála bahá’í brautruðnings með afrekum sínum. Það er einlæg von okkar að margir muni finna hjá sér löngun til þess að inna af hendi þessa göfugu þjónustu meðan á næstu áætlun stendur hvort sem er heima fyrir eða á alþjóðlegum vettvangi. Þetta er gjörð sem sjálfkrafa kallar yfir sig ómældar blessanir. Þetta kallar á að stofnanirnar sýni góða dómgreind svo tryggt verði að vinirnir setjist að á lykilstöðum. Þegar finna á skammtíma- eða langtímabrautryðjendum stað ættu þau umdæmi að hafa forgang sem sérstök athygli beinist að hvort sem það er til þess að efla viðleitni til að leggja grunn að örari vexti eða til að renna styrkari stoðum undir bylgjur starfsemi sem þegar eru komnar í gang. Það er ekki óraunhæft að ætla að meðvituð viðleitni til að byggja á styrk muni þegar upp er staðið verða til þess að brautryðjendur streymi frá þessum umdæmum til svæða sem eiga í vændum að verða vettvangur framtíðarsigra.
Kæru vinir: Næstu vikur og mánuði og meðan á áætluninni stendur munuð þið og aðstoðarráðgjafarnir verða stöðug uppspretta hvatningar vinunum er þeir rísa upp til að takast á við þær áskoranir sem við þeim blasa. Við biðjum ykkur um að nota hvert tækifæri til þessa að koma á framfæri við þá trausti okkar á því að þeim takist að yfirstíga þær hindranir sem óhjákvæmilega verða á vegi þeirra. Þeir ættu ekki að vanmeta þá miklu sigra sem þeir hafa unnið á síðasta áratug vegna ævarandi náðar Bahá’u’lláh. Á fyrstu fjórum árunum stuðluðu þeir að aukinni getu stofnana um allan heim til að miðla andlegri uppfræðslu til vaxandi liðsafla átrúenda. Þeir nýttu sér þennan árangur með því að taka virkan þátt í krefjandi námsferli sem opnaði þeim nýjar víddir mikilla en raunhæfra möguleika. Að bahá’í heimssamfélaginu skuli hafa tekist að sexfalda fjölda helgistunda á síðustu fimm árum, að barna- og unglingakennsla hefur meira en þrefaldast á sama tíma, að fjöldi námshringja um heim allan er kominn yfir ellefu þúsund – allt eru þetta mælikvarðar á þann ótrúlega kraft sem átrúendurnir geta sótt í þegar þeir takast á við þær skyldur sem lagðar eru þeim á herðar.
Vinirnir þurfa umfram allt og ávallt að hafa hugfast umfang þeirra andlegu krafta sem eru til reiðu fyrir þá. Þeir tilheyra samfélagi „þar sem heimsumlykjandi, sístyrkjandi starfsemi myndar hið eina ferli sem sameinar í heimi þar sem stofnanir, borgaralegar sem og trúarlegar, eru almennt að liðast í sundur“. Af öllum íbúum jarðarinnar „geta þeir einir greint, gegnum ólgu ofsafengins tíma, hendi Hins guðlega bjargvættar sem markar brautina og ræður örlögum þeirra. Þeir einir gera sér grein fyrir hljóðlátum vexti hins skipulega heimsskipulags þar sem þeir sjálfir eru að byggja uppistöðurnar“. Það eru stofnanir þeirra sem „verða þekktar sem aðalsmerki og dýrð tímabilsins“ sem þeim hefur verið falið að koma á fót. Það „uppbyggingarferli“ sem þeir hafa helgað sig er „eina von örvæntingarfulls þjóðfélags“. Því það er „knúið áfram af endurnærandi áhrifum óbreytanlegs tilgangs Guðs og er að þróast innan ramma stjórnskipulags trúar Hans“. Og minnið þau á að þau eru þær upplýstu sálir sem ‘Abdu’l‑Bahá sá fyrir sér í bæn sinni: „Þeir eru hetjur, ó Drottinn minn, leið þá til orrustu. Þeir eru leiðbeinendur, lát þá mæla rök Þín og sannanir. Þeir eru umhyggjusamir þjónar, lát þá rétta fram bikarinn sem flóir yfir af víni fullvissunnar. Ó Guð minn, ger þá söngmenn sem hefja upp raddir sínar í björtum görðum, ger þá að ljónum sem liggja í hnipri í skógarþykknum, hvali sem stinga sér í regindjúpin.“
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]