16. janúar 2001 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Efnisgrein 6
Efnisgrein 7
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Er við ritum ykkur þessi skilaboð er ráðstefna álfuráðgjafanna að nálgast sigursæl lok.
Í átta daga hafa álfuráðgjafar frá öllum heimsálfum átt samráð um næsta stig í hópinngönguferlinu. Fyrstu fimm dagana á meðan þeir funduðu voru 849 meðlimir aðstoðarráða þeirra, frá 172 löndum, að koma til Bahá’í heimsmiðstöðvarinnar, votta virðingu sína við hin helgu grafhýsi og búa sig undir þá stund er þeir tækju allir þátt í röð tilkomumikilla atburða: Göngu upp eftir hinum nýbyggðu stöllum á Karmelfjalli; göngu í kring um grafhýsi Bábsins; göngu eftir bogastígnum og heimsókn í byggingu Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar; helgiathöfn sem markaði flutning kennslumiðstöðvarinnar í framtíðaraðsetur sitt; og að því loknu í sameiginlegu samráði varðandi ómissandi hlutverk sitt í fimm ára áætluninni sem bahá’í heimurinn mun takast á hendur frá og með Riḍvánhátíðinni 2001.
Umræður álfuráðgjafanna sjálfra hafa verið þungamiðja þessara stórbrotnu athafna. Samráð þeirra hefur einkennst af bæði alvöru og glaðværð sem hefur fágað umræður þeirra og aukið skilning. Af því andrúmslofti sjálfsöryggis sem þeir hafa rætt saman í er ljóst að stofnun þeirra hefur náð nýju þroskastigi. Enda þótt þeir starfi í meginatriðum sem einstaklingar hafa ráðgjafar allra álfuráðanna orðið sem einn hugur. Með því að tileinka sér og samþætta lærdóm og reynslu þeirrar skipulagningar sem kallað var eftir í fjögurra ára áætluninni hafa þeir að sönnu umbreyst í farvegi sameinaðrar hugsunar. Við gerum okkur ljóst að hið nýja stig í þróun stofnunar þeirra endurspeglar jafnframt hve andlegu ráðin og aðrar stofnanir í heimssamfélaginu hafa þróast með stöðugum og viturlegum ráðleggingum þeirra.
Þegar tók að líða að ráðstefnunni mátti greina tákn um að trúin hefði náð stigi í þróun sinni þar sem nýr sjóndeildarhringur birtist okkur. Við greindum frá slíkum vísbendingum á síðustu Riḍvánhátíð er við skýrðum frá umskiptum í menningu bahá’í samfélagsins eftir því sem þjálfunarstofnanir komust á fót, byggingarnar á Karmelfjalli nálguðust að vera lokið og samstilling innra styrkingarferlis stofnananna og ytra þróunarferlisins í átt að heimseiningu jókst. Gerð var ítarlegri grein fyrir þeim í skilaboðum okkar til ráðstefnu álfuráðanna fyrir nokkrum dögum. En hin undraverðu öfl sem voru að verki á ráðstefnutímanum höfðu í för með sér að þessar vísbendingar kristölluðust í skynjanlegan veruleika. Í anda fagnaðar erum við knúnir til að kunngera ykkur: Trú Bahá’u’lláh gengur hér með inn í fimmta tímaskeið mótunaraldar sinnar.
Viðurkenning þessa áfanga er í samræmi við það mynstur sem Shoghi Effendi kom á til að marka kaflaskil í sögu málstaðarins. Í því sá hann fyrir röð tímaskeiða innan mótunaraldarinnar. Það hlýtur að fylla sérhvern helgaðan fylgjanda Bahá’u’lláh gleði og undrun að stjórnskipulag Hans hafi náð svo mikilvægu stigi á svo örlagaríkri stundu þegar svo margir meðlimir stofnunar álfuráðgjafanna eru saman komnir í stórkostlegri fylkingu við heimsmiðstöð trúar Hans. Þeir munu snúa aftur til fjarlægra heimshorna sem kyndlar logandi af anda þjónustu. Enginn vafi leikur á að þeir munu veita nýjum krafti í starfsemi sína. Viðleitni þeirra mun vissulega breikka leiðina að árangri tólf mánaða áætlunarinnar og þar með að fimm ára verkefni sem hleypt verður af stokkunum á Riḍvánhátíðinni en það verður hið fyrsta í röð áætlana sem fylgt verður allt til hundrað ára ártíðar mótunaraldarinnar.
Álfuráðgjafarnir halda héðan og vænta þess að eiga brátt samráð við andleg þjóðarráð varðandi aðgerðir í löndum þeirra í komandi áætlun. Með hina ötulu aðstoðarráðgjafa sér til fulltingis munu þeir enn fremur koma því til leiðar hið fyrsta að nauðsynleg áætlanagerð hefjist í umdæmum og á svæðum samfélaga í öllum löndum.
Nú þegar dregur að lokum þessara viðburðaríku daga snúum við hjörtum okkar í auðmjúku þakklæti til Hinnar öldnu fegurðar fyrir að veita okkur svo ríkulega blessun. Sjálf jörð Karmels hefur lifnað af undrum náðar Hans er fjallið svarar endurlausnarkallinu sem Hann opinberaði í töflunni sem ber nafn þess. Innileg ósk Hans sem þar er tjáð endurómar í sálum elskenda Hans um gervalla jarðarkringluna: „Ó hve ég þrái að kunngera sérhverjum stað á yfirborði jarðarinnar og færa sérhverri borg fagnaðartíðindin um þessa opinberun….“ Vinirnir sem nú eru samankomnir í dýrð hjarta Karmelfjalls hafa heyrt þau með nýjum eyrum og hafa á ný staðfest heit sín um að bregðast við þessari guðlegu þrá. Megi hetjudáðir þeirra í nafni Bahá dreifa enn víðar ilminum af opinberun Hans, styrkja enn frekar undirstöðu stofnana Hans og örva með ákveðnari hætti starfsemi heimssamfélags Hans og þannig knýja áfram það ferli sem mun leiða til þess að hópur eftir hóp mun halda innreið sína í vígi arkar lausnarinnar.