Allsherjarhús réttvísinnar
Riḍván 153
Til fylgjenda Bahá’u’lláh í Evrópu
Heittelskuðu vinir
Fyrir 43 árum þegar bahá’íar í Evrópu voru samankomnir á ráðstefnunni í Stokkhólmi, sem Verndarinn elskaði kallaði saman til að hleypa af stokkunum hinni voldugu tíu ára herferð í álfunni, voru aðeins þrjú andleg þjóðarráð í álfunni – á Bretlandseyjum, í Þýskalandi/Austurríki og Ítalíu/Sviss – ásamt svæðissamfélögum, sem þróuðust hægt í öðrum löndum Vestur-Evrópu. Í austri, handan pólitískra múra, voru litlar leifar samfélaga sem byggð höfðu verið upp á fyrri árum. Í nágrannalandinu Tyrklandi var lítið þjóðarsamfélag, sem barðist í bökkum. Þegar evrópskir átrúendur þeirra tíma hugleiddu með lotningu þau voldugu verkefni sem fram undan voru, heyrðu þeir orð Verndarans, sem útskýrði sögulega þýðingu álfunnar, þar sem þeir áttu að þróa stofnanir heimsskipulags Bahá’u’lláh á fósturstigi:
Þessi álfa hefur lykilstöðu á gervallri plánetunni, saga hennar er auðug og viðburðarík, menning hennar fjölþætt; úr jarðvegi hennar spruttu bæði menning Grikklands og Rómaveldis; Bahá’u’lláh bar sjálfur lof á suma þætti í siðmenningu álfunnar; kristindómurinn stofnaði fyrstu heimkynni sín á syðstu mörkum hennar; á austurmörkum hennar laust iðulega saman máttugum fylkingum krossins og hálfmánans; á suðvesturhluta hennar bar íslömsk menning í örri þróun sína fegurstu ávexti; í hjarta hennar skein ljós endurreisnarinnar og bjarmi hennar náði allt til ystu svæða hnattarins….
Þessi heimsálfa ykkar, sem Bahá’u’lláh blessaði sjálfur með fótsporum sínum, sem ‘Abdu’l‑Bahá heimsótti tvisvar á ævi sinni á sögulegum ferðum eftir lausn úr fangelsi; ferðamenn og fræðimenn hennar brugðust fljótt við fyrsta árdagsljóma bábí opinberunarinnar, tvær ríkisstjórnir hennar veittu aðstoð á hetjuöld trúarinnar og þjóðir hennar hafa á síðari árum átt sinn þátt í vörn ofsóttra bahá’ía í Íran – þjóðir þessarar heimsálfu hafa fyllilega sýnt fram á hæfni sína til að hefja upp fána málstaðar Guðs, þegar hjörtu þeirra hafa eitt sinn verið snortin og hugur þeirra vaknar fyrir boðskap Hans.
Á þessum 43 árum hafa evrópsku bahá’í samfélögin sýnt mikinn lífsþrótt. Andlegum þjóðarráðum hefur fjölgað í 34. Þau eru nú hvarvetna í álfunni og hvað Rússland varðar ná þau yfir gífurleg landflæmi allt til Kyrrahafsins. Evrópskir brautryðjendur hafa unnið mikla sigra fyrir trúna í Afríku, á Kyrrahafseyjum, í Karíbahafi og á Grænlandi. Stofnanir ykkar hafa skarað fram úr í ytri samskiptum. Í samfélögum ykkar eru framúrskarandi fræðimenn í málefnum trúarinnar, hljómlistamenn, listamenn, vísindamenn og aðrir sem vilja beita kenningum bahá’í trúarinnar í hagfræði og viðskiptum. Þið hafið sýnt sérstaka viðleitni hvað varðar eflingu kvenna og styrkingu fjölskyldulífsins. Evrópska bahá’í ungmennaráðið er miðdepill og uppspretta hvatningar fyrir ungmenni í öllum hlutum Evrópu, stutt þjóðar- og svæðisbundnum ungmennanefndum, sem vinna í nánu samstarfi við þjóðarráð sín og svæðisráð og njóta stuðnings þeirra. Nú er tími kominn til að byggja á þessum afrekum, beina allri viðleitni að þeim miðlæga tilgangi að flytja andlega sveltandi fólki boðskap Bahá’u’lláh.
Fyrsta verkefni andlegra þjóðarráða ykkar strax eftir Riḍván er að setja fram í samráði við ráðgjafana öll atriði fjögurra ára áætlunarinnar í hverju landi fyrir sig. Þátttaka andlegra svæðisráða og einstakra átrúenda í þróun sinna eigin svæðisáætlana og framkvæmd skýrt mótaðrar stefnu, er höfuðnauðsyn að því er varðar árangursríka framkvæmd háleitra markmiða á þessu stigi í framkvæmd hinnar guðlegu áætlunar ‘Abdu’l‑Bahá.
Evrópa er mjög fjölbreytt meginland og sérhvert þjóðarráð ykkar mun kanna vandlega þau ferli og þær framkvæmdir sem eru nauðsynlegar til að þoka áleiðis málstað Guðs á ykkar svæði næstu fjögur árin. Sérhvert þjóðarráð verður að íhuga núverandi aðstæður samfélags síns, þess landsvæðis þar sem það starfar og möguleika á samstarfi við önnur bahá’í samfélög. Sérstakan gaum þarf að gefa því að fá opinbera viðurkenningu í þeim löndum þar sem stofnanir trúarinnar hafa ekki enn fengið lögskráningu, og að mynda andleg þjóðarráð á vissum sjálfstjórnarsvæðum, t.d. Færeyjum. Það eru samt sem áður ákveðnir þættir í stöðugt víðari sýn, sem verður að íhuga þar sem þau eiga við sérstök lönd, landahópa og álfuna alla.
Í álfunni eru svæði sem hrópa á brautryðjendur og ferðakennara; við beinum huganum til dæmis að starfinu meðal Sama og annarra þjóða norðurheimskautssvæðanna allt til Svalbarða. Við íhugum þýðingu þess að kenna trúna á eyjum Miðjarðarhafsins, Atlantshafs og Norðursjávar; þýðingu sígauna um alla álfuna, sem eru byrjaðir að sýna mikinn næmleika gagnvart ákalli Bahá’u’lláh; þau tækifæri sem evrópska bahá’í samfélagið hefur til að sýna fram á heilnæmt eðli kenninganna í sambandi við minnihlutahópa; sérstök verkefni sem lýst er af Verndaranum elskaða sem hlutskipti vissra samfélaga og ábyrgð þeirra í fjarlægum löndum þar sem tungumál þeirra eru töluð; áhrifin af þróun trúarinnar á Ítalíu þar sem finna má hjarta og virki fremstu, elstu og öflugustu kirkju kristindómsins; þörfina fyrir að auka fjölda bahá’í miðstöðva á gífurlegum landflæmum Úkraínu og í Evrópuhluta Rússlands, og auk þess sérstaka ábyrgð og tækifæri bahá’í samfélags Rússneska sambandsríkisins, sem að miklu leyti tilheyrir Asíu og verður að halda áfram að hagnast af samvinnu við nágrannasamfélögin í Mið-, Suður- og Austur-Asíu sem og í Alaska, Kanada og Bandaríkjunum. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um áeggjunina sem blasir við á þeim árum sem eru fram undan.
Miðlægur tilgangur fjögurra ára áætlunarinnar, þýðingarmikil efling hópinngönguferlisins, hefur sérstaka þýðingu fyrir Evrópu. Þið ættuð ekki að velkjast í neinum vafa – þetta er ferli sem getur þróast í öllum hlutum Evrópu, bæði í austri og vestri. Allir ættu að viðurkenna að hópinnganga er óhjákvæmilegur liður í þróun málstaðarins. Eðli þessa ferlis er útskýrt í samantekt um þetta málefni, og af því er ljóst að hinu langþráða markmiði um viðvarandi hópinngöngu er ekki hægt að ná með óreglulegu, ósamræmdu átaki, hversu mikill sem áhuginn er að baki þeim. Fullvissa, sameiginleg sýn, kerfisbundin, raunsæ en djörf áætlunargerð, viðurkenning á þeirri staðreynd að mistök verða gerð og vilji til að læra af þeim; og umfram allt traust á leiðsögn og lífgefandi staðfestingum Bahá’u’lláh, mun þoka þessu ferli áleiðis.
Áhersla er lögð á stofnun þjálfunarstofnana á ýmsum svæðum í fjögurra ára áætluninni vegna þess að núverandi aðferðir, þótt mikilvægar séu, nægja ekki í sjálfu sér til að mæta áeggjan þessa nýja stigs í vexti málstaðarins. Eðli og uppbygging þjálfunarstofnana verður að laga að aðstæðum í hverju landi og svæði; það er ljóst að form þeirra í Evrópu verður ekki það sama og í sveitahéruðum Indlands. Meginverkefni þeirra verður samt sem áður hið sama. Þær munu fóstra stöðuga viðurkenningu á bahá’í auðkenni meðal þeirra sem taka þátt í þeim: hæfnina til að líta á heiminn og aðstæður hans frá sjónarhorni kenninganna fremur en sjónarhorni þjóðernis eða bakgrunns þeirra sem ekki eru bahá’íar. Þær munu hjálpa til að skapa í sérhverjum þátttakanda djúpa ást á Bahá’u’lláh, góðan skilning á meginkenningum Hans, og vitund um mikilvægi þess að þróa andlegt líf sérhvers einstaklings með bæn, hugleiðslu og lestri heilagra ritninga. Þær munu einnig fjalla um raunhæf málefni eins og það hvernig á að kenna trúna, því of margir eru hikandi við að útbreiða boðskapinn vegna þess að þeim skortir trú á hæfni sinni. Umbreytingin sem slík dýpkun í trúnni kemur til leiðar mun vissulega tendra í hjörtum vinanna löngun til að deila boðskapnum með þeim sem eru í kringum þá, og þetta er fræ alls árangurs í kennslunni. Þeir sem hafa sótt þjálfunarstofnanir munu verða færir um að hjálpa öðrum bahá’íum, nýjum og gömlum, til að auka hæfni sína til kennslu og stórauka þannig mannauð málstaðarins, þar sem sérhver átrúandi er kennari.
Vinirnir í Evrópu verða að auka umfang kennslu trúarinnar, hún verður að vera fjölþætt, sjálfsprottin og einstaklingsbundin annars vegar, og einbeitt, sameinuð og einkennast af gagnkvæmri aðstoð hins vegar. Hún verður bæði að færa innblástur og vera raunsæ og umfram allt undir áhrifum af djúpri og einlægri trú á vald Bahá’u’lláh. Þið ættuð að útvíkka svið kennslustarfs ykkar og láta það ná til alls landsins, þjóðarinnar og fjöldans sem starfar í borgunum; lítt menntaðs fólks jafnt sem menntafólks í háskólabæjum. Þið ættuð meðvitað að nálgast allar stéttir þjóðfélagsins, laga aðferðir ykkar, bókmenntir og fræðslugögn að sérhverjum áheyrendahóp. Bæði hjarta og huga verður að næra; bæði andlegt afl og vitsmunalegur skýrleiki er nauðsynlegur þáttur kennslustarfsins. Þið hafið skarað fram úr í notkun lista til að stuðla að fjölgun yfirlýsinga, útbreiðslu og treystingu trúarinnar, en þetta er lykill að mörgum dyrum og þetta á að örva og þróa. Ekki getur farið hjá því að eining ykkar, áhugi, fullvissa og þolgæði, sem styrkist og fær leiðsögn frá mætti bænarinnar, verði farvegur fyrir guðlegar staðfestingar, sem mun draga að sér leitandi sálir.
Við munum sjálfir biðja þess heitt við hina helgu fótskör að þið, sem hafið unnið svo sögulega sigra í heimalöndum ykkar og um allan heim, munuð í fjögurra ára áætluninni ná stigi jafnvel meiri afreka, sem verður forboði þeirrar óumræðilegu dýrðar, sem áformað er að afhjúpist á tuttugustu og fyrstu öldinni.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]