Allsherjarhús réttvísinnar
20. október 1983
Til bahá’ía um allan heim
Kæru bahá’í vinir
Þeir átakanlegu atburðir sem gerst hafa í ættlandi Bahá’u’lláh, og samfara þeim framsókn stofnana stjórnskipulags Hans inn á vettvang heimsmálefna, hafa lagst á eitt við að færa í brennidepil nýja möguleika í þróun bahá’í samfélagsins. Í Riḍvánboðum okkar í ár gátum við þess hvað þetta hlyti að hafa í för með sér, er við fjölluðum um hinn víðari sjóndeildarhring sem opnast okkur. Í ljósi hans má óljóst greina ný viðfangsefni og verkefni sem við verðum bráðlega að takast á við. Þau boða frekari þátttöku okkar í þróun samfélagslegs- og efnahagslegs lífs þjóða.
Frá upphafi sinnar stórfenglegu köllunar brýndi Bahá’u’lláh fyrir þjóðum nauðsyn þess að skipuleggja mannleg málefni á þann veg að skapaður verði heimur sem verði sameinaður í öllum grundvallaratriðum lífs síns. Í ótal helgigreinum og töflum lýsti Hann yfir, oft og iðulega, „framförum heimsins“ og „þróun þjóða“, sem hluta af fyrirmælum Guðs fyrir þennan tíma. Eining mannkynsins, sem er hvort tveggja í senn, virk meginregla og lokatakmark opinberunar Hans, gefur til kynna árangur aflmikils samspils andlegra og hagnýtra þarfa lífs á jörðu. Þessu ómissandi samspili er ljóslega lýst í fyrirmælum Hans varðandi Mashriqu’l-Adhkár, hina andlegu miðju sérhvers bahá’í samfélags, en umhverfis hana munu blómgast undirstofnanir helgaðar framþróun mannsins hvað varðar samfélag, mannúð, menntun og vísindi. Okkur er því fullljóst að þótt hingað til hafi það almennt verið ógerlegt fyrir bahá’í stofnanir að leggja áherslu á þróunarstarf, er hugtak samfélags- og efnahagsþróunar varðveitt í helgiritum trúar okkar. Meistarinn elskaði gaf með lýsandi orðum sínum og verkum fordæmi fyrir því hvernig beita má þessu hugtaki til að endurreisa þjóðfélagið. Sjáið til dæmis hve miklum samfélagslegum og efnahagslegum framförum írönsku átrúendurnir tóku undir ástríkri handleiðslu hans og síðar með óbilandi hvatningu Verndara málstaðarins.
Nú eftir öll þessi ár stöðugs kennslustarfs, hefur samfélag Hins mesta nafns náð því marki að framkvæmd þessarar þróunar verður að fella inn í reglubundin störf þess. Útbreiðsla trúarinnar í löndum þriðja heimsins, þar sem yfirgnæfandi meirihluti átrúenda hennar býr, kallar sérstaklega á aðgerðir. Þau skref sem taka þarf verða óhjákvæmilega að byrja innan bahá’í samfélagsins sjálfs. Vinirnir verða að leitast við að beita andlegum meginreglum, vera ráðvandir og iðka list samráðs til þess að öðlast innblástur og verða þannig sjálfum sér nógir. Að auki mun þessi viðleitni stuðla að varðveislu mannlegs heiðurs, sem Bahá’u’lláh lagði svo ríka áherslu á. Í þessu ferli og því sem af því leiðir munu vinirnir án efa veita þjóðfélaginu í heild af ávöxtum erfiðis síns uns allt mannkynið nær þeim framförum sem Drottinn aldarinnar ætlar því.
Það horfir svo sannarlega til heilla að markvisst sé hugað að þessu mikilvæga sviði í bahá’í starfi. Þess vegna er okkur gleðiefni að tilkynna stofnun Skrifstofu samfélags- og hagþróunar við Heimsmiðstöðina, en hlutverk hennar er að aðstoða Allsherjarhús réttvísinnar við að efla og samræma starfsemi vinanna um allan heim á þessum nýja vettvangi.
Alþjóðlega kennslumiðstöðin og álfuráðin með hennar tilstuðlan, eru í viðbragðsstöðu til að axla þau sérstöku ábyrgðarhlutverk sem þeim eru lögð á herðar, að vera vakandi fyrir möguleikum á aukinni þróun samfélags- og efnahagslegs lífs, bæði innan og utan bahá’í samfélagsins, og að ráðleggja og hvetja ráðin og vinina í viðleitni þeirra.
Við beinum því nú til andlegra þjóðarráða að íhuga hvað þessi vaxandi tilhneiging hefur í för með sér fyrir viðkomandi samfélög og að grípa til ígrundaðra ráðstafana til að nýta hugmyndir og aðgerðir andlegra svæðisráða og einstaklinga við mótun og framkvæmd áætlana innan marka ríkjandi kringumstæðna og tiltækra fjármuna. Framfarir á þróunarsviðinu munu að verulegu leyti byggjast á eðlilegum hræringum meðal fólksins sjálfs og þær framfarir ættu að fá hreyfiafl sitt frá þessum uppsprettum frekar en áætlunum og ráðagerðum að ofan. Aðalverkefni þjóðarráða er því að auka vitund svæðissamfélaga um þarfir og möguleika og að leiða og samræma þá viðleitni sem slík vitund elur af sér. Nú þegar verða vinirnir vitni að því á mörgum sviðum að þau verkefni sem þeir hafa átt frumkvæði að, s.s. að stofna til hjálparkennslu og annars skólanáms, auka læsi, að koma af stað þróunarvinnu í dreifbýli, að setja á fót útvarpsstöðvar sem sinna menntun eða starfrækja verkefni á sviði landbúnaðar og heilbrigðisþjónustu. Þegar þeir færast í fang stærri viðfangsefni munu vafalaust fleiri fletir þróunar koma í ljós.
Þessi áskorun kallar á úrræðasemi, sveigjanleika og samheldni þeirra mörgu samfélaga sem mynda bahá’í heimssamfélagið. Hin ýmsu samfélög munu að sjálfsögðu koma auga á mismunandi leiðir og ólíkar úrlausnir á svipuðum þörfum. Sum geta boðið aðstoð erlendis frá, en önnur þurfa óhjákvæmilega að fá aðstoð til að byrja með. En öll hafa þau, án tillits til kringumstæðna eða úrræða, getu til að bregðast við að einhverju leyti. Þau geta öll tekið þátt í því sameiginlega verkefni að beita á skipulegri hátt meginreglum trúarinnar í því skyni að auka lífsgæði manna. Lykillinn að árangri er eining í anda og framkvæmd.
Við höldum áfram í þeirri fullvissu að heilshugar þátttaka vinanna í þessari starfsemi muni tryggja dýpri treystingu samfélagsins á öllum sviðum. Ekki má þó leyfa að þátttaka okkar í tæknilegum viðfangsefnum sem lúta að þróun komi í staðinn fyrir grundvallaratriði kennslunnar sem framvegis er frumskylda sérhvers fylgjanda Bahá’u’lláh. Frekar ætti að líta á aukið starf okkar á sviði þróunar sem styrkingu kennslustarfsins og sem ríkan vott um trú í verki. Því ef kennslustarfið heldur ekki áfram að aukast, er engin von til þess að þessi aukna vídd treystingarferlisins skili árangri.
Hvatningu til starfa er að lokum beint til vinanna hvers um sig, hvort sem þeir eru fullorðnir eða á æskuskeiði, reyndir eða nýskráðir. Þeir hasli sér völl á vettvangi þjónustu, þar sem hæfileikar þeirra og kunnátta, sérstök þjálfun þeirra, efnisleg úrræði, tími þeirra og orka, og umfram allt hollusta þeirra við bahá’í meginreglur geta komið að notum við að bæta hlutskipti alls mannkynsins.
Megi allir njóta varanlegs innblásturs af eftirfarandi orðum sem Verndarinn elskaði skrifaði eigin hendi árið 1933:
Vandamálin sem átrúendurnir standa frammi fyrir nú á tímum, hvort heldur samfélagsleg, andleg, efnahagsleg eða stjórnarfarsleg, munu smám saman verða leyst, þegar vinunum fjölgar, úrræði þeirra aukast til muna og hæfni þeirra til að þjóna og beita bahá’í meginreglum þroskast. Þeir ættu að vera þolinmóðir, öruggir og ötulir við að nýta sérhvert tækifæri sem býðst innan þeirra marka sem þeim nú eru óhjákvæmilega sett. Megi Hinn almáttki aðstoða þá við að láta æðstu vonir þeirra rætast ...
Með kærum bahá’í kveðjum,
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]