Töflur hinnar guðlegu áætlunar
‘Abdu’l‑Bahá
1
Tafla til bahá’ía í norðausturríkjunum
Þessi tafla var opinberuð 26. mars 1916 í herbergi ‘Abdu’l‑Bahá í húsinu í Bahjí. Henni var beint til bahá’ía í níu norðausturríkjum Bandaríkjanna: Maine, Massachusetts, New Hampshire, Rhode Island, Connecticut, Vermont, Pennsylvaníu, New Jersey og New York.
Ó þið himnesku kallarar:
Þetta er naw-rúz árstíminn. Ég hugsa stöðugt til þessara góðu vina! Ég bið þess að ykkur megi öllum hlotnast staðfesting og aðstoð frá fótskör einingar svo að allir þessir fundir og samkomur megi upptendrast eins og kerti í öllum lýðveldum Ameríku, kveikja ljós ástar Guðs í hjörtunum svo geislar hinna guðlegu kenninga megi skrýða og upplýsa fylki Ameríku líkt og ómælisvíðáttan með stjörnum hinnar æðstu leiðsagnar.
Norðausturríkin á ströndum Atlantshafsins – Maine, New Hampshire, Massachusetts, Rhode Island, Connecticut, Vermont, Pennsylvanía, New Jersey og New York – í sumum þessara fylkja eru átrúendur, en í nokkrum borgum þeirra er að finna fólk sem ljós ríkisins hefur enn ekki náð að upplýsa og ekki hefur fengið vitneskju um hinar himnesku kenningar. Hraðið ykkur því, hvenær sem þið getið, til þessara borga og skínið líkt og stjörnur af ljósi hinnar æðstu leiðsagnar. Guð segir svo í hinum dýrlega Kóran: „Jarðvegurinn var dökkur og skrælnaður. Þá létum Vér regnið falla á hann og hann grænkaði strax, þaktist gróðri, og hvers kyns jurtir blómstruðu fagurlega.“ Hann segir með öðrum orðum að jörðin sé dökk en þegar vorskúrir falla lifni jarðvegurinn og marglit blóm spretti. Þetta táknar að sálir mannkyns sem tilheyra heimi náttúrunnar eru dökkar eins og jarðvegurinn. En þegar himnesk úthelling stígur niður yfir þær og geislandi ljósið birtist lifna hjörtun við að nýju, þau frelsast frá myrkri náttúrunnar og blóm himneskra leyndardóma vaxa og dafna. Þess vegna verður maðurinn að koma því til leiðar að heimur mannkyns upplýsist, hann verður að kynna og útbreiða hinar heilögu kenningar sem helgiritin hafa opinberað með guðlegum innblæstri. Í hinu blessaða guðspjalli segir: Ferðist til austurs og vesturs og upplýsið mennina með ljósi hinnar æðstu leiðsagnar til þess að þeir megi eignast hlutdeild í eilífa lífinu. Lof sé Guði að norðausturríkin hafa hina mestu hæfni til að bera. Vegna þess að jörðin er frjósöm fellur regn guðlegrar úthellingar yfir hana. Nú verðið þið að gerast himneskir bændur og sá hreinu sæði í jarðveginn sem undir það er búinn. Uppskera alls annars sæðis er takmörkuð en sæði guðlegra kenninga ber uppskeru takmarkalausrar hylli og blessunar. Á komandi öldum og aldaskeiðum verða margir uppskerutímar. Leiðið hugann að starfi fyrri kynslóða. Á dögum Jesú Krists voru fáar trúaðar og staðfastar sálir en svo ríkulegar voru hinar himnesku blessanir að á allmörgum árum kom ótölulegur fjöldi sálna saman í skugga guðspjallsins. Guð hefur sagt í Kóraninum: „Af einu korni verða sjö bundin og í sérhverju bundini hundrað korn.“ Með öðrum orðum, eitt korn verður að sjö hundruð, og ef Guði þóknast mun hann einnig tvöfalda það. Oft hefur það gerst að ein blessuð sál hefur orðið til þess að heilli þjóð hefur hlotnast leiðsögn. Nú ættum við ekki að leiða hugann að getu okkar og hæfni, nei, á þessum dögum verðum við öllu heldur að festa sjónir á hylli og gjöfum Guðs, Hans sem gert hefur dropann að úthafi og öreindina að sól.
Með ykkur séu heill og árnaðaróskir!
2
Tafla til bahá’ía í suðurríkjunum
Þessi tafla var opinberuð 27. mars 1916 í garðinum næst grafhýsi Bahá’u’lláh. Henni var beint til bahá’ía í sextán suðurríkjum Bandaríkjanna: Delaware, Maryland, Virginíu, Vestur-Virginíu, Norður-Karólínu, Suður-Karólínu, Georgíu, Flórída, Alabama, Mississippi, Tennessee, Kentucky, Louisiana, Arkansas, Oklahoma og Texas.
Ó þið kallarar Guðsríkis:
Fyrir nokkrum dögum var pistill ritaður til þessara himnesku átrúenda en þar sem naw-rúz hátíðisdagarnir standa nú yfir komið þið upp í hugann og ég sendi ykkur kveðju mína í tilefni þessarar dýrlegu hátíðar. Allir dagar njóta blessunar en þessi hátíð er þjóðhátíð Persíu. Persar hafa haldið hana í nokkur þúsund ár. Í rauninni er það þannig að hver sá dagur sem maðurinn ver til þess að minnast Guðs, dreifa ilman Guðs og kalla mennina til Guðsríkis, sá dagur er honum hátíð. Lof sé Guði að þið eruð upptekin af þjónustu við Guðsríki og takið ykkur fyrir hendur að útbreiða trú Guðs nótt sem nýtan dag. Þess vegna eru allir ykkar dagar hátíðisdagar. Enginn vafi er á því að gjafir Guðs og hjálp Hans munu stíga niður yfir ykkur.
Í suðurríkjum Bandaríkjanna eru vinirnir fáir, það er að segja í Delaware, Maryland, Virginíu, Vestur-Virginíu, Norður-Karólínu, Suður-Karólínu, Georgíu, Flórída, Alabama, Mississippi, Tennessee, Kentucky, Louisiana, Arkansas, Oklahoma og Texas. Þess vegna verðið þið annaðhvort að fara sjálf eða senda nokkrar blessaðar sálir til þessara fylkja til þess að þeim megi takast að leiða mennina til himnaríkis. Þegar einn hinna helgu opinberenda ávarpaði trúaða sál sagði Hann að ef einhver yrði til þess að upplýsa eina sál væri það honum betra en takmarkalaust ríkidæmi. „Ó ‘Alí! Ef Guð leiðbeinir einni sál fyrir þinn atbeina er það betra fyrir þig en öll auðæfi!“ Enn segir Hann „Leið oss á hinn beina veg!“ Það er að segja, sýn okkur hina réttu leið. Einnig stendur ritað í guðspjallinu: Farið um allan heim og boðið fagnaðarerindið um birtingu Guðsríkis.
Í stuttu máli vona ég að þið munið í þessum efnum leggja ykkur öll fram og sýna mesta veglyndi. Fullvíst er að þið munuð hljóta hjálp og staðfestingu. Sá sem færir fagnaðartíðindin um birtingu veruleikans og þýðingu Guðsríkis er eins og bóndi sem sáir hreinu sæði í frjóan jarðveg. Regn örlætis mun streyma yfir það úr vorskýjunum og án efa mun vegur bóndans vaxa í augum þorpshöfðingjans og margar uppskerur fást.
Gefið því gaum, þið vinir Guðs! Metið mikils gildi þessa tíma og verið önnum kafin við að sá þessum fræjum til þess að ykkur megi hlotnast himnesk blessun og drottinlegar gjafir. Með ykkur sé Bahá’u’l-Abhá!
3
Tafla til bahá’ía í miðríkjunum
Þessi tafla var opinberuð 29. mars 1916 fyrir utan húsið í Bahjí. Henni var beint til bahá’ía í tólf miðríkjum Bandaríkjanna: Michigan, Wisconsin, Illinois, Indiana, Ohio, Minnesóta, Iowa, Missouri, Norður-Dakóta, Suður-Dakóta, Nebraska og Kansas.
Ó þið himnesku sálir, ó þið andlegu ráð, ó þið háleitu samfundir:
Tafir hafa orðið á bréfaskiptum í nokkurn tíma vegna erfiðleika við sendingu og móttöku bréfa. En nú bjóðast mörg tækifæri og þess vegna skrifa ég ykkur þennan stutta pistil til þess að hjarta mitt megi fyllast fögnuði og ilman af því að minnast vinanna. Þessi förumaður biður og sárbænir stöðugt við fótskör hans heilagleika Hins eina um aðstoð, hylli og himneska staðfestingu fyrir átrúendurna. Þið eruð ætíð í huga mínum. Þið hafið ekki gleymst og munuð aldrei gleymast. Ég vona að fyrir náð hans heilagleika Hins almáttka að trú ykkar, fullvissa, staðfesta og stöðugleiki megi aukast dag frá degi og þið verðið farvegir fyrir dreifingu hins helga ilms.
Þótt í Illinois, Wisconsin, Ohio, Michigan og Minnesóta séu – lof sé Guði – átrúendur sem samneyta hver öðrum í fullkominni staðfestu og stöðugleika – nótt sem nýtan dag hafa þeir engin önnur áform en að dreifa ilman Guðs og enga von aðra en að útbreiða hinar himnesku kenningar. Þeir loga eins og kerti af ljósi ástar Guðs og syngja eins og þakklátir fuglar í rósagarði þekkingar á Guði, styrkja anda sinn og miðla fögnuði – en samt eru fáir átrúendur í Indiana, Iowa, Missouri, Norður-Dakóta, Suður-Dakóta, Nebraska og Kansas. Fram að þessu hefur kall Guðsríkis og yfirlýsing um einingu mannkyns ekki verið kunngerð í þessum ríkjum skipulega og af eldmóði. Blessaðar sálir og andlega frjálsir kennarar hafa ekki ferðast ítrekað um þessi ríki og af þeim sökum eru þau enn í ástandi gáleysis. Viðleitni vina Guðs verður einnig að koma því til leiðar að sálir í þessum ríkjum upptendrist af eldi ástar Guðs og laðist að ríki Hans til þess að hluti þeirra megi einnig upplýsast og sálarlífgandi andvari berist að vitum íbúanna frá rósagarði Guðsríkis. Sendið því ef unnt er kennara sem skilist hafa frá öllu nema Guði, helgaða og hreinlífa. Ef þessir kennarar eru fullkomlega helgaðir mun mikill árangur nást á skömmum tíma. Synir og dætur ríkisins eru eins og sannir bændur. Hvar sem þeir fara um fylki eða land sýna þeir sjálfsfórn og sá himnesku sæði. Þetta sæði gefur af sér mikla uppskeru. Um þetta er fjallað í guðspjöllunum dýrlegu: Þegar hreinu sæði er sáð í góðan jarðveg ber það margfaldan ávöxt og færir blessun. Ég vona að þið megið fá hjálp og staðfestingu og látið aldrei deigan síga þegar þið útbreiðið hinar himnesku kenningar. Megi viðleitni ykkar, átak og veglyndi, eflast dag frá degi.
Með ykkur séu heill og árnaðaróskir!
4
Tafla til bahá’ía í vesturríkjunum
Þessi tafla var opinberuð 1. apríl 1916 í herbergi ‘Abdu’l‑Bahá í Bahjí. Henni var beint til bahá’ía í ellefu vesturríkjum Bandaríkjanna: Nýju Mexíkó, Kólóradó, Arizóna, Nevada, Kaliforníu, Wyoming, Utah, Montana, Idaho, Oregon og Washington.
Hann er Guð! Ó þið synir og dætur ríkisins:
Nótt sem nýtan dag sinni ég ekki öðru en að minnast vinanna, biðja fyrir þeim frá innstu hjartarótum, biðja um staðfestingu þeirra frá ríki Guðs og sárbæna um bein áhrif anda heilags anda. Ég vona sakir hylli hans hátignar Drottins gjafa, að vinirnir megi á þessum tíma verða leynd orsök þess að hjörtu mannanna upplýsist, þeir blási anda lífsins í anda mannsins – og að lofsverður árangur þeirra stuðli að dýrð og upphafningu mannkyns um alla eilífð. Þótt í sumum vesturríkjanna, eins og Kaliforníu, Oregon, Washington og Kólóradó, hafi ilman heilagleikans verið dreift, allmargar sálir fengið skerf úr uppsprettu eilífs lífs, notið himneskrar blessunar, drukkið af yfirflóandi vínbikar ástar Guðs og hlustað á söng hinna himnesku herskara – hefur ekki verið kveikt á lömpum ástar Guðs í Nýju Mexíkó, Wyoming, Montana, Idaho, Utah, Arizóna og Nevada á réttan og viðeigandi hátt og ákall Guðsríkis ekki borist. Ef slíks er kostur sýnið viðleitni til þess að þetta megi gerast. Ferðist annaðhvort sjálf um þessi ríki eða veljið aðra og sendið þá til þess að þeir megi kenna sálunum. Því eins og stendur eru þessi ríki eins og andvana líkamar; þeir verða að blása í þá anda lífsins og veita þeim himneskan anda. Eins og stjörnur verða þeir að skína yfir þeim sjónarhring til þess að geislarnir frá sól veruleika megi einnig upplýsa þessi ríki.
Guð segir í hinum mikla Kóran: „Vissulega er Guð hjálpari þeirra sem hafa trúað. Hann mun leiða þá frá myrkrinu til ljóssins.“ Þetta merkir: Guð elskar átrúendurna og því mun Hann bjarga þeim frá myrkrinu og færa þá inn í heim ljóssins.
Einnig er skráð í hinu blessaða guðspjalli: Ferðist um allan heim og kallið fólkið til ríkis Guðs. Nú er tími til þess kominn fyrir ykkur að rísa upp og inna af hendi þessa veigamestu þjónustu og leiðbeina ótölulegum fjölda fólks. Með þessari ofurmannlegu þjónustu geta geislar friðar og sátta þannig náð að upplýsa og varpa ljóma yfir öll landsvæði og veröld mannkyns finna frið og ró.
Þegar ég var í Ameríku hóf ég upp rödd mína á sérhverri samkomu og hvatti fólkið til að útbreiða hugsjón allsherjarfriðar. Ég sagði skýrt að meginland Evrópu væri orðið eins og vopnabúr sem kviknað gæti í af einum neista og að á komandi árum, eða innan tveggja ára, myndi allt sem skráð er í opinberunarbók Jóhannesar og Daníelsbók koma fram og rætast. Þetta birtist að öllum líkindum í San Francisco Bulletin, 12. október 1912. Þið getið vísað til þess svo að sannleikurinn megi koma skýrt í ljós. Þið getið því gert ykkur fullkomlega ljóst að þetta er rétti tíminn til að dreifa ilminum.
Veglyndi mannsins verður að vera af himneskum toga – það verður með öðrum orðum að njóta fulltingis guðlegrar staðfestingar til þess að hann geti orðið þess valdandi að heimur mannsins upplýsist.
Með ykkur séu heill og árnaðaróskir!
5
Tafla til bahá’ía í Kanada og á Grænlandi
Þessi tafla var opinberuð 5. apríl 1916, í garðinum við grafhýsi Bahá’u’lláh. Henni var beint til bahá’ía í Kanada – Nýfundnalandi, Prince Edward eyju, Nova Scotia, Nýju Brúnsvík, Quebec, Saskatchewan, Manitóba, Ontario, Alberta, Bresku Kólumbíu, Yukon, Mackenzie, Keewatin, Ungava, Franklín-eyjum – og á Grænlandi.
Hann er Guð! Ó þið dætur og synir ríkisins:
Þótt ilman Guðs, lof sé Honum, hafi verið dreift í flestum fylkjum og borgum Bandaríkjanna og mikill fjöldi sálna beini ásýnd sinni að ríki Guðs og stefni til þess, hefur fáni einingar ekki enn verið hafinn á loft í sumum fylkjum né hafa leyndardómar helgra bóka eins og Biblíunnar, guðspjallanna og Kóransins verið afhjúpaðir. Með samræmdri viðleitni allra vinanna verður gunnfáni einingar að blakta við hún í þessum fylkjum og kynna verður hinar guðlegu kenningar til þess að þessi fylki fái einnig sinn skerf af himneskum gjöfum og hlutdeild í hinni mestu leiðsögn. Í fylkjum Kanada, eins og Nýfundnalandi, Prince Edward eyju, Nova Scotia, Nýju Brúnsvík, Quebec, Ontario, Manitóba, Saskatchewan, Alberta, Bresku Kólumbíu, Ungava, Keewatin, Mackenzie, Yukon og á Franklín-eyjum við heimskautsbaug – verða átrúendur Guðs einnig að sýna fórnarlund og loga eins og kerti leiðsagnar í fylkjum Kanada. Sýni þeir slíkt veglyndi er fullvíst að þeir munu hljóta allar guðlegar staðfestingar, himneskir herskarar munu stöðuglega styrkja þá og mesti sigur vinnast. Ef Guð lofar mun kall ríkisins berast inúítum til eyrna, þeirra sem byggja Franklín-eyjar við norðurströnd Kanada sem og Grænland. Ef eldur Guðs ástar kviknar á Grænlandi mun allur ís landsins bráðna og hið kalda veðurfar sem þar ríkir verða temprað – það er að segja, ef hjörtun verða snortin af hita ástar Guðs verður þetta landsvæði himneskur rósagarður og guðdómleg paradís og sálirnar munu líkt og frjósöm tré prýðast ferskleika og fegurð. Viðleitni, almestrar viðleitni, er krafist. Ef þið leggið ykkur fram þannig að ilman Guðs berist meðal inúíta verða áhrifin afar mikil og víðtæk. Guð segir í hinum mikla Kóran: Sá dagur mun koma að ljós einingar upplýsi veröldina. „Jörðin mun skína af ljósi Drottins hennar.“ Með öðrum orðum, jörðin mun upplýsast af ljósi Guðs. Þetta ljós er ljós einingar. „Enginn er Guð nema Guð.“ Meginlandið og eyjar inúíta tilheyra einnig þessari jörð. Þeir verða líka að fá sinn skerf af gjöfum hinnar almestu leiðsagnar.
Með ykkur séu heill og árnaðaróskir!
6
Tafla til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada
Þessi tafla var opinberuð 8. apríl 1916 í garðinum fyrir utan grafhýsi Bahá’u’lláh. Henni var beint til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada.
Hann er Guð! Ó blessuðu sálir:
Ég þrái eilífan árangur og hagsæld ykkur til handa og bið um fullkomna staðfestingu hvers og eins í veröld Guðs. Von mín er sú að sérhvert ykkar megi skína eins og morgunstjarnan yfir sjónarhring heimsins og verða blessað tré í þessum garði Guðs og bera eilífa ávexti og ávinning.
Þess vegna vísa ég ykkur á það sem stuðlar að himneskri staðfestingu ykkar og upplýsingu í ríki Guðs!
Það er þetta: Alaska er víðáttumikið land. Þótt ein af þjónustumeyjum Hins miskunnsama hafi hraðað sér til þessa lands, þjóni sem bókavörður í almenningsbókasafninu og láti ekki undir höfuð leggjast að kenna málstaðinn í samræmi við getu sína, hefur ákall Guðsríkis ekki enn borist mönnum til eyrna á þessu mikla landsvæði.
Hans heilagleiki Kristur segir: Farið til austurs og vesturs um allan heiminn og kallið fólkið til Guðsríkis. Af þessu leiðir að miskunn Guðs verður að umvefja allt mannkyn. Haldið því ekki að leyfilegt sé að láta þetta landsvæði fara varhluta af andblænum sem bærist á morgni leiðsagnar. Reynið því að svo miklu leyti sem í ykkar valdi stendur að senda þangað ræðumenn sem eru vel máli farnir, aðskildir öllu nema Guði, sem laðast að ilman Guðs og eru helgaðir og óflekkaðir af öllum ástríðum og freistingum. Næringu og lífsviðurværi verða þeir að sækja í kenningar Guðs. Fyrst og fremst verða þeir sjálfir að lifa samkvæmt þessum meginreglum og síðan leiðbeina öðrum. Má vera að með leyfi Guðs muni ljós hinnar almestu leiðsagnar upplýsa þetta land og andvarinn frá rósagarði ástar Guðs berast að vitum íbúanna í Alaska. Ef ykkur verður hjálpað til að veita slíka þjónustu, verið þess fullviss að höfuð ykkar munu krýnast djásnum eilífra yfirráða og þið verðið þjónar sem njóta hylli og viðurkenningar við fótskör einingar.
Lýðveldið Mexíkó er einnig mjög mikilvægt. Meirihluti íbúanna í því landi eru trúfastir kaþólikkar. Þeir gera sér alls enga grein fyrir veruleika Biblíunnar, guðspjallanna og hinna nýju guðlegu kenninga. Þeir vita ekki að grundvöllur trúarbragða Guðs er einn og að hinir helgu opinberendur eru eins og sól sannleikans sem rís frá mismunandi dögunarstöðum. Þessar sálir eru sokknar í úthaf hjátrúar og kreddu. Ef andvari lífsins bærist þeim þótt ekki væri nema eina örskotsstund hlytist af því mikill árangur. En betra væri þeim sem vilja fara til Mexíkó til að kenna að hafa þekkingu á spænskri tungu.
Hið sama gildir um sex Mið-Ameríku lýðveldin suður af Mexíkó – Gvatemala, Hondúras, Salvador, Níkaragva, Kosta Ríku, Panama og sjöunda landið Belís eða Bresku Hondúras. Kennararnir sem fara til þessara landa verða einnig að hafa vald á spænskri tungu.
Gerið ykkur ljóst hversu mikilvægir frumbyggjar Ameríku eru. Því að þessum sálum má líkja við hina fornu íbúa Arabíuskagans sem voru eins og villimenn áður en Múhameð kom til skjalanna með ætlunarverk sitt. Þegar ljós Múhameðs skein á meðal þeirra urðu þeir svo geislandi bjartir að þeir lýstu upp heiminn. Sama gildir um þessa frumbyggja Ameríku – ef þeir hljóta menntun og leiðsögn getur enginn vafi leikið á því að þeir verða svo upplýstir að birta mun yfir öllum heimi.
Öll framangreind lönd eru mikilvæg en þó einkum Panama-lýðveldið þar sem Panamaskurðurinn tengir Atlantshaf og Kyrrahaf. Hann er miðdepill ferða og siglinga frá Ameríku til annarra meginlanda heims og verður afar mikilvægur í framtíðinni.
Sömuleiðis eyjar Vestur-Indíu svo sem Kúba, Haítí, Púertó Ríkó, Jamaíka, Litlu-Antillaeyjar, Bahamaeyjar, jafnvel hin litla Watling-eyja – allar eru þær mjög mikilvægar en þó einkum þessi tvö þeldökku lýðveldi, Haítí og Santó Dómingó, í klasa Stóru-Antillaeyja. Hið sama gildir um Bermúda-eyjaklasann í Atlantshafi.
Þetta á einnig við um lýðveldin á meginlandi Suður-Ameríku – Kólumbíu, Ekvador, Perú, Brasilíu, Bresku Guyana, Hollensku Guyana, Frönsku Guyana, Bólivíu, Síle, Argentínu, Úrúgvæ, Paragvæ, Venesúelu; einnig eyjarnar norður, austur og vestur af Suður-Ameríku, svo sem Falklandseyjar, Galapagoseyjar, Juan Fernández, Tóbagó og Trínidad. Einnig borgina Bahia á austurströnd Brasilíu. Þar sem hún hefur gengið undir þessu nafni í nokkurn tíma verða áhrif hennar afar mikil.
Í stuttu máli, ó átrúendur Guðs! Eflið viðleitni ykkar og spennið bogann hærra. Hans heilagleiki Kristur sagði: Sælir eru fátækir því þeirra er himnaríki. Með öðrum orðum: Sælir eru hinir snauðu sem skilja hvorki eftir sig nöfn né spor, því þeir eru leiðtogar mannkyns. Einnig segir í Kóraninum: „Og Vér kusum að auðsýna hylli hinum fótumtroðnu í landinu, gera þá að andlegum leiðtogum meðal manna og leiða þá til arfs eftir Oss.“ Með öðrum orðum, við viljum veita hylli hinum vanmáttugu sálum og gera þær að erfingjum boðberanna og spámannanna.
Nú er tími til þess kominn fyrir ykkur að leysast úr öllum böndum sem binda ykkur þessum heimi sem tortímist, snúa algjörlega baki við þessari efnislegu veröld, verða að englum himins og ferðast til þessara landa. Ég sver við Hann sem er hinn eini sanni Guð að sérhvert ykkar verður sem Israfil lífsins og blæs anda lífsins í sálir annarra.
Með ykkur séu heill og árnaðaróskir!
Bæn
Ó Þú óviðjafnanlegi Guð! Ó Þú Drottinn ríkisins! Þessar sálir eru Þinn himneski her. Hjálpa þeim og ger þær sigursælar með sveitum hinna hæstu herskara, svo sérhver þeirra megi verða sem hersveit og sigra þessi lönd með kærleika Guðs og uppljómun guðdómlegra kenninga.
Ó Guð! Ver stoð þeirra, hjálp og trúnaðarvinur í óbyggðum, til fjalla, inn til dala, í skógum, á sléttum og til sjós, svo þær fái hrópað af krafti ríkisins og innblæstri heilags anda.
Vissulega ert Þú hinn voldugi og máttugi, hinn alvaldi, og Þú ert hinn vísi, heyrandinn og sjáandinn.
7
Tafla til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada
Þessi tafla var opinberuð 11. apríl 1916 í herbergi ‘Abdu’l‑Bahá í húsinu í Bahjí. Henni var beint til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada.
Hann er Guð! Ó þið raunverulegir bahá’íar Ameríku:
Lof sé hans hátign Hinum elskaða að þið hafið verið staðföst í boðun guðlegra kenninga á þessu mikla meginlandi, látið ákall Guðsríkis hljóma á því svæði og kunngert fagnaðartíðindin um opinberun Drottins herskaranna og hans hátignar Hins fyrirheitna. Þökk sé Drottni að ykkur hefur hlotnast hjálp og staðfesting í þessu áformi. Þetta gerist eingöngu með staðfestingu Drottins herskaranna og anda heilags anda. Árangurinn af starfi ykkar er enn ekki kominn í ljós til fulls og þýðing þess er ekki ráðin. Áður en langt um líður munuð þið sjá með eigin augum hve skært sérhvert ykkar stafar ljósi guðlegrar leiðsagnar líkt og tindrandi stjarna á festingu heimalandsins, færandi þjóð ykkar dýrð eilífs lífs.
Hugleiðið þetta! Staða postulanna á tímum Krists og staðfestingin sem þeir fengu var ekki þekkt. Enginn leit svo á að þeir hefðu einhverja þýðingu – nei, öllu heldur sættu þeir spotti og ofsóknum. Síðar varð augljóst hvílíkum kórónum, alsettum skínandi gimsteinum leiðsagnar, postularnir, María Magdalena og María móðir Jóhannesar höfðu verið krýnd.
Umfang þeirra afreka sem þið vinnið í framtíðinni er enn á huldu. Ég vona heitt og innilega að í nálægri framtíð muni öll jörðin bifast vegna afreka ykkar. Vonin sem ‘Abdu’l‑Bahá elur í brjósti hvað ykkur varðar er að sigrarnir sem þið unnuð í Ameríku megi krýna starf ykkar og viðleitni í öðrum heimshlutum til þess að orðstír málstaðar Guðs megi fyrir ykkar tilstuðlan ná til austurs og vesturs og tilkoma ríkis Drottins herskaranna verði kunngerð á öllum fimm meginlöndum jarðar.
Á þeirri stund sem amerísku átrúendurnir flytja þennan guðlega boðskap frá ströndum Ameríku og breiða hann út í Evrópu, Afríku, Ástralasíu og allt til eyja Kyrrahafsins mun þetta samfélag fá tryggilega staðfestu í hásæti eilífra yfirráða. Þá munu allar þjóðir heims sjá að þetta samfélag er andlega upplýst og nýtur guðlegrar handleiðslu. Þá mun öll jörðin enduróma af lofsöng um dýrð þess og mikilleika. Kennari sem talar tungumál þeirra, hafnar efnisgæðum, heilagur, helgaður og fullur ástar Guðs, verður að beina augliti sínu að hinum þremur miklu eyjaklösum Kyrrahafsins og ferðast til þeirra allra – Pólýnesíu, Míkrónesíu og Melanesíu, og eyjanna sem þeim tilheyra, svo sem Nýju-Gíneu, Borneó, Jövu, Súmötru, Filippseyja, Salómonseyja, Fídjieyja, Nýju-Suðureyja, Loyalty-eyja, Nýju-Kaledóníu, Bismarck-eyjaklasans, Seram, Selebes, Vináttueyja, Samóa, Félagseyja, Karólínueyja, Lága eyjaklasans, Markgreifafrúreyja, Hawaii-eyja, Gilbertseyja, Mólúkkaeyja, Marshall-eyja, Tímor og hinna eyjanna. Með hjörtun barmafull af ást Guðs, tungur sem minnast Guðs, augu sem beinast að Guðsríki, verða þeir að flytja öllum mönnum fagnaðartíðindin um opinberun Drottins herskaranna. Vitið með vissu að hvaða samkomu sem þið sækið ganga bylgjur heilags anda yfir hana og himnesk náð Hinnar blessuðu fegurðar umvefur þann mannfund.
Hugsið til þess að ungfrú Agnes Alexander, dóttir ríkisins, elskuð þjónustumær Hinnar blessuðu fullkomnunar, ferðaðist ein til Hawaii, til Honolulu, og nú er hún að vinna andlega sigra í Japan! Hugleiðið þær staðfestingar sem þessi dóttir fékk á Hawaii. Hún varð til þess að fjöldi fólks naut leiðsagnar.
Á sama hátt ferðaðist ungfrú Knobloch ein síns liðs til Þýskalands. Hve ríkuleg staðfesting féll henni ekki í skaut! Vitið því með vissu að hver sá sem rís upp á þessum degi til að dreifa hinni guðdómlegu ilman, herskarar Guðsríkis munu staðfesta hann og gjafir og hylli Hinnar blessuðu fullkomnunar umlykja hann á alla vegu.
Ó að ég mætti ferðast, jafnvel fótgangandi og örsnauður, til þessara svæða og hefja upp kallið „Yá Bahá’u’l-Abhá“ í borgum, þorpum, eyðimörkum, á fjöllum og úthöfum og útbreiða þannig hinar guðlegu kenningar! Þetta get ég því miður ekki. Það er mér mikið harmsefni! Megi ykkur með leyfi Guðs takast það.
Með viðleitni ungfrú Alexander á Hawaii-eyjum hefur fjöldi sálna náð til hafsstranda trúarinnar! Íhugið hvílíka hamingju, hvílíkan fögnuð það vekur! Ég lýsi því yfir við nafn Drottins herskaranna að þótt þessi virta dóttir hefði lagt grunn að heimsveldi, kæmist það ekki í samjöfnuð við þetta! Því að þessi yfirráð eru eilíf yfirráð og þessi dýrð er eilíf dýrð.
Og ef nokkrir kennarar færu til hinna eyjanna og annarra svæða eins og Ástralíu, Nýja Sjálands, Tasmaníu, og jafnframt til Japans, Asíuhluta Rússlands, Kóreu, Frönsku Indókína, Síam, Krúnunýlendunnar, Indlands, Seylon og Afganistan, myndi það bera afar mikinn árangur. Hve ákjósanlegt væri það ekki að setja saman, ef unnt er, starfsnefnd skipaða körlum og konum til að ferðast um Kína og Japan í því skyni að styrkja þessi bönd ástarinnar og stofna með þessum ferðum til einingar í heimi mannkyns, kalla mennina til Guðsríkis og útbreiða kenningarnar.
Ef mögulegt reynist ættu þau að ferðast til meginlands Afríku, Kanaríeyja, Grænhöfðaeyja, Madeiru, Réunion-eyja, Sankti Helenu, Zanzibar, Máritíus, o.s.frv., og kalla fólkið í þessum löndum til ríkis Guðs og hefja upp ákallið „Yá Bahá’u’l-Abhá!“ Þau verða einnig að hefja á loft fána einingar mannkyns á eyjunni Madagaskar.
Bækur og bæklinga verður annaðhvort að þýða eða semja á tungumálum þessara landa og eyja og dreifa hvarvetna.
Sagt er að demantsnáma hafi fundist í Suður Afríku. Þótt þessi náma sé afar verðmæt inniheldur hún þegar allt kemur til alls aðeins steina. Guð gefi að hægt verði að uppgötva námu mannkynsins og finna þar skínandi perlur ríkisins.
Í stuttu máli, þessi heimseyðandi styrjöld hefur valdið slíku fári hjartnanna að engin orð fá því lýst. Í öllum löndum heims hefur þrá manna eftir allsherjarfriði tekið hug þeirra allan. Ekki er til sú sál sem ekki þráir frið og samlyndi. Dásamleg næmni er að koma í ljós. Orsökin er fullkomin viska Guðs og markmiðið er að hæfni skapist, fáni einingar í heimi mannkyns verði hafinn á loft og grundvallaratriði allsherjarfriðar og guðlegra meginreglna kunngerð í austri og vestri.
Sýnið því viðleitni, ó þið sem trúið á Guð! Leggið ykkur öll fram og þegar þessari styrjöld lýkur kennið og dreifið hinum guðlegu kenningum á Bretlandseyjum, í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki-Ungverjalandi, Rússlandi, Ítalíu, Spáni, Belgíu, Sviss, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Hollandi, Portúgal, Rúmeníu, Serbíu, Svartfjallalandi, Búlgaríu, Grikklandi, Andorru, Liechtenstein, Lúxemborg, Mónakó, San Marínó, Balear-eyjum, Korsíku, Sardiníu, Sikiley, Krít, Möltu, Íslandi, Færeyjum, Hjaltlandi, Suðureyjum og Orkneyjum.
Í öllum þessum löndum skínið eins og morgunstjörnur yfir sjónarhring leiðsagnar. Fram að þessu hafið þið verið óþreytandi í starfi ykkar. Aukið nú þessa viðleitni þúsundfalt. Bjóðið fólki í þessum löndum, höfuðborgum, eyjum, ráðstefnum og kirkjum til inngöngu í Abhá-ríkið. Starfssvið ykkar verður að stækka. Því stærra sem það er þeim mun augljósari verður vitnisburðurinn um guðlega aðstoð.
Þið hafið séð að þótt ‘Abdu’l‑Bahá væri afar lasburða og þróttlítill, örmagna og gæti sig vart hreyft – þrátt fyrir það ferðaðist hann til margra landa í Evrópu og Ameríku, og var önnum kafinn í kirkjum, á fundum og ráðstefnum við að kynna hinar guðlegu kenningar og kalla fólkið til fundar við opinberun Abhá-ríkisins. Þið hafið líka veitt því eftirtekt hvernig staðfestingar Hinnar blessuðu fullkomnunar umvöfðu alla. Hvaða ávinningur er af efnislegum þægindum, rósemi, munaði og fastheldni við þennan heim efnisins? Það er augljóst að sá sem sækist eftir þessum hlutum mun að endingu bíða tjón og fyllast eftirsjá.
Af því leiðir að maðurinn verður að vísa þessum hugrenningum fullkomlega á bug. Hann verður að þrá eilíft líf, óska mannkyni velfarnaðar á braut framfara og fullkomnunar, þrá himneska framþróun, heilagan anda, útbreiðslu á orði Guðs, leiðsögn þeim til handa sem byggja þessa jörð; hann verður að þrá allsherjarfrið og einingu í heimi mannkyns! Þetta er verkefnið! Að öðrum kosti verður hann líkt og dýrin og fuglarnir að sinna þörfum þessa efnisheims, en efnisleg fullnægja er æðsta þrá dýraríkisins og maðurinn verður þá að eigra um jörðina eins og fjórfætlingarnir.
Leiðið hugann að því að hversu mjög sem maðurinn auðgast af gæðum þessa heims verður hann aldrei jafn sjálfstæður og kýrin. Því að hinar holdmiklu kýr reika frjálsar á víðum sléttum sneisafullum fæðu. Allar gresjur og engi eru þeim búnar til beitar, allar uppsprettur og ár eru þeim til drykkjar! Hversu mjög sem þær úða í sig grængresinu verða tún og engi ekki uppiskroppa með fæðu! Það er augljóst að þær hafa fengið þessar efnislegu gjafir án þess að hafa hið minnsta fyrir þeim.
Enn fullkomnara er þó líf fuglsins. Fugl sem situr á háum svignandi greinum á fjallstindi hefur byggt sér hreiður sem er fegurra en konungshallir! Loftið er tært og hreint, vatnið kalt og kristaltært, útsýnið fagurt og heillandi. Í þessu dýrlega umhverfi eyðir hann dögum sínum sem senn eru á enda. Öll uppskera sléttunnar er honum heimil og allt þetta ríkidæmi hefur honum hlotnast án minnstu fyrirhafnar. Af þessu leiðir að hversu mjög sem manninum fleygir fram í þessum heimi mun hann aldrei ná stöðu þessa fugls! Því er augljóst að hversu mjög sem maðurinn mæðist og stritar allt til dauða í málefnum þessa heims eignast hann aldrei nægtir, frelsi og sjálfstæði lítils fugls. Þetta sýnir og sannar þá staðreynd að maðurinn er ekki gerður fyrir líf þessa hverfula heims – nei, hann er öllu fremur skapaður til að honum hlotnist takmarkalaus fullkomnun á öllum sviðum, ávinni sér dýrð í heimi mannkynsins, nálgist hina guðlegu fótskör og sitji á hásæti eilífra yfirráða!
Með ykkur sé Bahá’u’l-Abhá!
Hver sá sem fer í kennsluferð til einhvers staðar fari með þessa bæn dag og nótt meðan á ferðum hans stendur í framandi löndum:
Ó Guð, Guð minn! Þú sérð mig laðast að dýrðarríki Þínu, upptendraðan af eldi ástar Þinnar til mannkyns, kallara ríkis Þíns í þessum stóru og víðáttumiklu löndum, lausan frá öllu nema Þér, reiða mig á Þig, hverfa frá hvíld og þægindum fjarri heimalandi mínu, förumann hér um slóðir, aðkomumann fallinn í duftið, auðmjúkan frammi fyrir upphafinni fótskör Þinni, undirgefinn himnaríki Þinnar allsráðandi dýrðar, biðjandi til Þín um miðja nótt og snemma að morgni, sárbænandi og ákallandi Þig árla dags og að kvöldi, að hjálpa mér af náð Þinni að þjóna málstað Þínum, útbreiða kenningar Þínar og upphefja orð Þitt hvarvetna í austri og í vestri.
Ó Drottinn! Styrk Þú bak mitt, ger mér fært að þjóna Þér af fremsta megni og lát mig ekki einan, umkomulausan eða hjálparvana á þessum slóðum.
Ó Drottinn! Veit mér samneyti við Þig í einsemd minni og ver Þú félagi minn í þessum framandi löndum.
Vissulega staðfestir Þú hvern þann er Þú vilt í hverju sem Þér líst, og vissulega ert Þú hinn alvoldugi og almáttugi.
8
Tafla til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada
Þessi tafla var opinberuð 19. apríl 1916 í herbergi ‘Abdu’l‑Bahá í Bahjí; 20. apríl í aðsetri pílagríma í húsinu í Bahjí; 22. apríl í garðinum fyrir utan grafhýsi Bahá’u’lláh. Henni var beint til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada.
Hann er Guð! Ó þið postular Bahá’u’lláh! Megi lífi mínu verða fórnað ykkur!
Blessuð persóna Hins fyrirheitna er í hinni helgu bók túlkuð sem Drottinn herskaranna – hinna himnesku hersveita. Með himneskum hersveitum er átt við þær sálir sem eru fullkomlega frjálsar úr viðjum hins mannlega heims, hafa umbreyst í himneska anda og orðið guðdómlegir englar. Slíkar sálir eru geislar frá sól veruleikans sem munu upplýsa öll meginlönd. Sérhver þeirra heldur í hendi sér lúðri og blæs anda lífsins yfir öll svæði. Þær hafa frelsast frá mannlegum eiginleikum og ágöllum hins náttúrulega heims, auðkennast eigindum Guðs og laðast að ilmi Hins miskunnsama. Líkt og postular Krists sem fylltust Honum hafa þessar sálir einnig fyllst Hans heilagleika Bahá’u’lláh; það er að segja ást Bahá’u’lláh hefur altekið svo sérhvert líffæri þeirra, limi og líkamshluta, að engra áhrifa verður lengur vart af hneigðum hins mannlega heims.
Þessar sálir eru her Guðs og sigurvegarar austurs og vesturs. Skyldi ein þeirra beina augum sínum í einhverja átt og kalla fólkið til ríkis Guðs munu öll hin fullkomnu öfl og drottinlegu staðfestingar skunda henni til styrks og aðstoðar. Hún mun sjá allar dyr standa opnar og öll hin sterku virki og óvinnandi kastala lagða í rúst. Ein síns liðs ræðst hún gegn herjum heimsins, sigrast á hægri og vinstri örmum herskara allra landa, brýst gegnum víglínur liðsveita allra þjóða og ræðst að sjálfum meginherafla jarðar. Þetta er merkingin með herskörum Guðs.
Sérhver sál þeirra sem trúa á Bahá’u’lláh og nær þessari stöðu verður þekkt sem postuli Bahá’u’lláh. Reynið því af hjarta og sál að öðlast þessa háleitu og upphöfnu stöðu, fá staðfestu í hásæti eilífrar dýrðar og krýnast skínandi djásni ríkisins svo geislandi gimsteinar þess megi geisla yfir aldir og aldaskeið.
Ó þið góðu vinir! Hefjið ykkur upp á vængjum veglyndis og svífið hátt til hátinda himins svo að blessuð hjörtu ykkar megi upplýsast stöðugt, dag frá degi, af geislum sólar veruleikans, það er að segja Hans heilagleika Bahá’u’lláh; að hverja stund megi andinn öðlast nýtt líf og myrkrinu í heimi náttúrunnar verða algjörlega vísað á brott; þannig megið þið verða holdtekja ljóssins og persónugerður andi, algjörlega óvitandi um auvirðileg málefni þessa heims, í snertingu við málefni hinnar himnesku veraldar.
Sjáið hliðin sem Bahá’u’lláh hefur opnað ykkur! Íhugið hversu háleit og göfug staða er ykkur ætluð, hve einstæð hyllin sem hefur fallið ykkur í skaut. Ef við ölvumst af þessum bikar verða yfirráð jarðarinnar minna virði en glingur barna er að okkar mati. Ef þeir settu á leikvanginn kórónu heimsstjórnar og byðu sérhverju okkar að taka hana myndi ekkert okkar lúta svo lágt að þiggja hana.
En til þess að öðlast þessa æðstu stöðu verður að uppfylla ákveðin skilyrði:
Fyrsta skilyrðið er staðfesta í sáttmála Guðs. Því að vald sáttmálans mun varðveita málstað Guðs frá efasemdum hinna villuráfandi. Hann er rammgert virki málstaðar Guðs og traustur máttarstólpi trúar Hans. Á þessum degi getur ekkert tryggt einingu bahá’í heimsins nema sáttmáli Guðs; án hans mun ágreiningur magnast og steðja að bahá’í heiminum eins og ofviðri. Það er augljóst að burðarás einingar mannkyns er vald sáttmálans og ekkert annað. Hefði sáttmálinn ekki verið gerður, hefði hann ekki verið birtur af Hinum æðsta penna og hefði bók sáttmálans ekki upplýst veröldina eins og geislar frá sól veruleikans hefðu öfl málstaðar Guðs tvístrast og eyðst og vissar sálir sem voru fangar sinna eigin ástríðna og langana hefðu tekið exi í sínar hendur og höggvið að rótum þessa blessaða trés. Sérhver persóna hefði otað fram sínum eigin óskum og hver og einn haldið á lofti eigin skoðunum! Þrátt fyrir þennan volduga sáttmála hafa nokkrar gálausar sálir skeiðað á fákum sínum inn á vígvöllinn og talið sig ef til vill geta veikt undirstöður málstaðar Guðs; en lof sé Guði, allir urðu þeir fórnarlömb tjóns og eftirsjár og áður en langt um líður mun djúp örvænting grípa þá. Þess vegna verða átrúendurnir strax í upphafi að standa traustum fótum í sáttmálanum svo að staðfestingar Bahá’u’lláh megi umlykja þá á alla vegu, sveitir hinna himnesku herskara verði stoð þeirra og stytta og hvatningar og ráð ‘Abdu’l‑Bahá verði líkt og myndir greyptar varanlega og óafmáanlega á töflur allra hjartna.
Annað skilyrði: Vinátta og ást meðal átrúendanna. Hinir guðlegu vinir verða að laðast að og hrífast hver af öðrum, fúsir til að fórna lífi sínu hver fyrir annan. Mæti ein sál öðrum átrúanda ætti það að vera líkt og þyrstur maður með skrælnaðar varir kæmi að uppsprettu með vatni lífsins eða ástvinur hitti sinn sanna elskaða. Því einn mesti vísdómur Guðs með birtingu hinna helgu opinberenda er þessi: Að sálirnar geti kynnst og borið kennsl hver á aðra og orðið nánar, ást Guðs geri þær allar að öldum eins sjávar, blómum í einum rósagarði og stjörnum eins himins. Þetta er viskan með birtingu hinna helgu opinberenda! Þegar þessi almesta gjöf birtist í hjörtum átrúendanna mun heimur náttúrunnar breytast og myrkur jarðneskrar tilveru hörfa fyrir himneskri upplýsingu. Þá mun öll veröldin verða paradís Abhá og sérhver átrúandi blessað tré sem ber undursamlega ávexti.
Ó vinir mínir! Vinátta, vinátta! Ást, ást! Eining, eining! – til þess að afl bahá’í málstaðarins megi birtast og koma ljós í heimi tilverunnar. Hugsanir mínar beinast að ykkur og hjartað slær hraðar í brjósti mér þegar ykkar er getið. Ef þið aðeins vissuð hve sál mín brennur af ást til ykkar myndi slík hamingja fylla hjörtu ykkar að þið yrðuð hugfangin hvert af öðru.
Þriðja skilyrðið: Kennarar verða að ferðast stöðugt til allra svæða á meginlandinu, nei, öllu heldur til allra heimshluta en þeir verða að ferðast eins og ‘Abdu’l‑Bahá, sem fór um borgir Ameríku. Hann var helgaður og frjáls af öllu sem bindur, fullkomlega aðskilinn öllum hlutum. Líkt og Hans heilagleiki Kristur segir: Hristið dustið af fótum ykkar.
Þið hafið séð að í Ameríku vildu margar sálir af innstu hjartans ósk gefa einhverjar gjafir en samkvæmt boðum og hvatningum Hinnar blessuðu fullkomnunar tók þessi þjónn aldrei við neinu þótt kjör okkar væru á stundum afar þröng. Vilji einhver sál hins vegar sakir Guðs af fúsum vilja og af einlægri þrá sinni bjóða framlag (til að mæta útgjöldum kennarans) má kennarinn taka við lítilli upphæð til að gleðja gefandann en hann verður að gera sér að góðu eins lítið og honum framast er unnt.
Markmiðið er þetta: Hvatir kennarans verða að vera hreinar, hjarta hans sjálfstætt, andi hans hugfanginn, hugsun hans rósöm, veglyndi hans göfugt og í ást Guðs verði hann sem skínandi kyndill. Sé honum svo farið mun helgaður andi hans jafnvel snerta steininn, að öðrum kosti verður alls enginn árangur. Meðan sálin er ekki fullkomnuð, hvernig á hún að geta afmáð ágalla annarra? Ef hún er ekki frjáls af öllu nema Guði, hvernig á hún að kenna öðrum slíkt frelsi?
Í stuttu máli, ó þið sem trúið á Guð! Sýnið viðleitni svo þið megið ná valdi á öllum aðferðum til þess að útbreiða trú Guðs og dreifa angan Guðs.
Meðal annars þarf að halda kennslufundi til þess að hinar blessuðu sálir og hinir öldnu meðal átrúendanna megi safna saman æskumönnum ástar Guðs í skólum uppfræðslu og kenna þeim allar hinar himnesku sannanir og óhrekjanlegu röksemdir, skýra og útlista sögu málstaðarins og túlka jafnframt spádóma og sannanir sem skráðar eru og varðveittar í hinum guðlegu bókum og pistlum varðandi opinberun Hins fyrirheitna til þess að ungmennin geti fengið fullkomna þekkingu á öllum þessum þáttum.
Einnig þarf að skipuleggja nefnd til að þýða töflurnar hvenær sem það er hægt. Vitrar sálir sem hafa náð valdi á og numið til fulls persnesku, arabísku og önnur erlend mál eða kunna eitt hinna erlendu mála verða að byrja að þýða töflur og bækur sem innihalda sannanir þessarar opinberunar, gefa þær bækur út og dreifa þeim um allar álfur jarðar.
Auk þess verður að ritstýra og gefa út tímaritið Star of the West mjög reglulega en innihaldið verður að snúast um útbreiðslu málstaðar Guðs svo að bæði vestrið og austrið geti fengið upplýsingar um hina mikilvægustu atburði.
Í stuttu máli ætti á öllum fundum, hvort sem þeir eru almennir eða lokaðir, ekki að ræða neitt nema það sem fyrir liggur og allar greinar eiga að snúast um málstað Guðs. Léttúðarfullt tal má ekki heyrast og deilur eru algjörlega bannaðar.
Kennararnir sem ferðast til hinna ýmsu svæða, verða að kunna tungumál landsins sem þeir fara til. Sá sem til að mynda hefur tök á japönsku getur farið til Japans, eða sá sem kann kínversku til Kína, og svo framvegis.
Í stuttu máli: þegar þessari heimsstyrjöld lýkur hefur fólkið öðlast einstaka hæfni til að hlusta á hinar himnesku kenningar því að viskan sem felst í þessu stríði er sú að allir fái sönnun fyrir því að eldur stríðsins er heimseyðandi en geislar friðar upplýsa veröldina. Annað er dauði, hitt er líf; annað er eyðing, hitt er ódauðleiki; annað er almesta ógæfan, hitt er mesta hyllin; annað er myrkur, hitt er ljós; annað er eilíf auðmýking og hitt ævarandi dýrð; annað grefur undan mannlegum undirstöðum, hitt rennir stoðum undir hagsæld mannkynsins.
Af þessu leiðir að margar sálir geta risið upp og farið að fyrrnefndum skilyrðum og hraðað sér til allra heimshluta, sérstaklega frá Ameríku til Evrópu, Afríku, Asíu og Ástralíu og ferðast um Japan og Kína. Einnig geta kennarar og átrúendur ferðast frá Þýskalandi til meginlanda Ameríku, Afríku, Japans og Kína; þeir geta í stuttu máli ferðast um öll meginlönd og eyjar heimsins. Þannig mun á skömmum tíma nást undraverður árangur, fáni allsherjarfriðar mun blakta á hátindi heimsins og ljós einingar mannkyns upplýsa alheiminn.
Í stuttu máli, ó þið sem trúið á Guð! Í hinni guðlegu bók stendur skrifað: Ef tvær sálir rífast og deila um guðleg málefni, karpa og eru ósammála, þá hafa báðar rangt fyrir sér. Viska þessara óvéfengjanlegu laga Guðs er þessi: Að milli tveggja sálna sem trúa á Guð rísi engar deilur eða sundurþykki; að þeir tali saman af takmarkalausri vináttu og ást. Birtist hinn minnsti vottur ágreinings verða báðir aðilar að láta málið niður falla og biðja Túlkandann um að skýra raunveruleika málsins. Þetta eru óhrekjandi fyrirmæli!
Með ykkur sé Bahá’u’l-Abhá!
Bæn
Ó Guð, Guð minn! Þú sérð hvernig öll svæði hjúpast svartamyrkri, hvernig öll lönd brenna í báli sundurlyndis og eldur stríðs og blóðsúthellinga logar í austri og vestri. Blóðið rennur, líkin þekja jörðina og afhöggvin höfuð falla í dust vígvallarins.
Ó Drottinn! Sýn meðaumkun þessum fáfróðu og lít þá augum fyrirgefningar og afláts. Slökk þennan loga svo að þessi dimmu ský sem myrkva sjónarhringinn hverfi, sól raunveruleikans stafi geislum sátta og samlyndis, þetta niðamyrkur dreifist og geislandi ljós friðar úthelli ljóma sínum yfir öll lönd.
Ó Drottinn! Drag fólkið upp úr afgrunni haturs og óvináttu og frelsa það frá þessu svartamyrkri. Sameina hjörtu þeirra, lát birta fyrir augum þeirra með ljósi friðar og sátta. Frelsa það úr djúpi stríðs og blóðsúthellinga og frelsa það frá myrkri villunnar. Tak huluna frá augum þeirra og lýs upp hjörtu þeirra með ljósi leiðsagnar. Sýn þeim milda miskunn Þína og samúð og ger ekki við þá samkvæmt réttlæti Þínu og reiði sem fær limi hinna voldugu til að skjálfa.
Ó Drottinn! Styrjaldir hafa staðið lengi. Böl og áhyggjur hafa ágerst og sérhvert blómlegt hérað er lagt í auðn.
Ó Drottinn! Hjörtun daprast og sálir eru angistarfullar. Haf miskunn með þessum vesalings sálum og gef þær ekki á vald öfgum sinna eigin ástríðna.
Ó Drottinn! Birt Þú í löndum Þínum auðmjúkar og undirgefnar sálir, andlit þeirra upplýst af geislum leiðsagnar, aðskildar þessum heimi, sálir sem vegsama nafn Þitt, færa Þér lof og dreifa angan heilagleika Þíns meðal mannkyns.
Ó Drottinn! Styrk bak þeirra, gyrð lendar þeirra og heilla hjörtun með máttugustu táknum ástar Þinnar.
Ó Drottinn! Vissulega eru þær veikar og Þú ert hinn máttugi og voldugi; þær eru getulausar og Þú ert hjálparinn, hinn miskunnsami.
Ó Drottinn! Haf uppreisnar ólgar og þessa storma lægir ekki nema fyrir takmarkalausa náð Þína sem hefur umvafið öll svæði.
Ó Drottinn! Vissulega eru mennirnir staddir í afgrunni ástríðna og ekkert getur bjargað þeim nema takmarkalaus hylli Þín og gjafir.
Ó Drottinn! Dreif sorta þessara spilltu ástríðna og upplýs hjörtun með lampa ástar Þinnar sem áður en langt um líður mun upplýsa öll lönd. Staðfest enn fremur ástvini Þína, þá sem hafa yfirgefið heimalönd sín, fjölskyldur og börn vegna ástar á fegurð Þinni, ferðast til framandi landa til að dreifa angan Þinni og útbreiða kenningar Þínar. Ver félagi þeirra í einsemd þeirra, hjálpari þeirra í framandi landi, dreif sorgum þeirra og hugga þá í ógæfu. Ver endurnærandi svaladrykkur hinum þyrstu, græðilyf meinsemda þeirra og smyrsl á brennandi ákefð hjartnanna.
Vissulega ert Þú hinn örlátasti, Drottinn mikillar náðar og vissulega ert Þú hinn samúðarfulli og miskunnsami.
9
Tafla til bahá’ía í norðausturríkjunum
Þessi tafla var opinberuð 2. febrúar 1917 í herbergi Ismá’íl Áqá í húsi ‘Abdu’l‑Bahá í Haifa. Henni var beint til bahá’ía í níu norðausturríkjum Bandaríkjanna: Maine, Massachusetts, New Hampshire, Rhode Island, Connecticut, Vermont, Pennsylvaníu, New Jersey og New York.
Hann er Guð! Ó þið raunverulegu vinir:
Að mati hins eina sanna Guðs eru öll lönd aðeins eitt land og allar borgir og byggðir standa jafnfætis. Engin þeirra er öðrum fremri. Allar eru þær akur Guðs þar sem sálir mannanna eiga sér bústað. Með trú og fullvissu og þeim forgangi sem ein hefur yfir aðra, færir íbúinn dvalarstaðnum heiður, sum lönd skera sig úr og ná yfirburða stöðu. Svo dæmi sé tekið: þótt sum lönd Evrópu og Ameríku skari fram úr öðrum hvað varðar heilnæmt loftslag, hollustu vatns og töfrandi fegurð fjalla, akra og slétta varð Palestína samt dýrlegust allra þjóða vegna þess að allir hinir helgu og guðlegu opinberendur frá tímum Abrahams fram að birtingu innsiglis spámannanna (Múhameðs) hafa átt þar heima, flutt þangað eða ferðast þar um. Sömuleiðis hefur Mekku og Medínu hlotnast takmarkalaus dýrð því að þar skein ljós opinberunar. Af þessari ástæðu hafa Palestína og Hijaz auðkennt sig frá öðrum landsvæðum.
Meginland Ameríku er í augum hins eina sanna Guðs landið þar sem ljós Hans mun opinberast og leyndardómar trúar Hans afhjúpast, þar sem hinir réttlátu munu dvelja og hinir frjálsu koma saman. Þess vegna nýtur sérhvert svæði þess blessunar en vegna þess að þessi níu ríki hafa notið hylli hvað varðar trú og fullvissu hafa þau sakir þessa forgangs öðlast andleg forréttindi. Þau verða að gera sér grein fyrir gildi þessarar hylli. Vegna þess að þau hafa notið slíkrar hylli og til vitnis um þakklæti sitt fyrir þessa almestu gjöf verða þau að hefjast handa um að dreifa hinni himnesku ilman til þess að blessað vers Kóransins rætist: „Guð er ljós himins og jarðar. Ljósi Hans má líkja við veggskjól sem lykur um lampa; lampinn er í glasi; glasið er sem skínandi stjarna, kveikt af blessuðu olíutré sem hvorki er af austri né vestri. Olía þess lýsir nánast af sjálfri sér þótt hana snerti enginn eldur. Ljós á ljós ofan; Guð leiðir til ljóss síns þá sem Honum þóknast.“
Hann segir: Heimur náttúrunnar er heimur myrkurs vegna þess að hann er uppspretta þúsund grimmdarverka; nei, öllu fremur er hann myrkur á myrkur ofan. Upplýsing á heimi náttúrunnar er háð ljómanum frá sól veruleikans. Náð leiðsagnar er eins og kerti sem logar í ljóshjálmi þekkingar og visku í spegli mannshjartans. Olía þessa ljómandi lampa er af ávöxtum hins blessaða trés, svo hrein að hún logar án ljóss. Þegar saman fer styrkur ljóssins, gegnsæi glersins og hreinleiki spegilsins er árangurinn ljós á ljós ofan.
Í stuttu máli: í þessum níu blessuðu ríkjum ferðaðist ‘Abdu’l‑Bahá frá einum stað til annars, útskýrði visku hinna himnesku bóka og dreifði ilminum. Í flestum þessara ríkja lagði hann grunn að hinni guðdómlegu skipan og opnaði dyr kennslunnar. Í þessum ríkjum sáði hann hreinu sæði og gróðursetti blessuð tré.
Nú verða þeir sem trúa á Guð og þjónustumeyjar Hins miskunnsama að veita vatni á þessa akra og helga sig af kappi ræktun þessara himnesku gróðurlenda svo að fræin megi vaxa og dafna, farsæld og blessun af því hljótast og uppskeran verða mikil og ríkuleg.
Guðsríki má líkja við bónda sem eignast hreina og óspillta jörð. Þar er sáð himnesku fræi, regn fellur úr skýjum guðlegrar forsjónar og sól veruleikans stafar geislum sínum.
Nú birtist öll þessi hylli til fulls í þessum níu ríkjum. Hinn guðlegi garðyrkjumaður gekk um þá helgu grund og dreifði í þann akur hreinu sæði drottinlegra kenninga, regn gjafa Guðs féll, sól veruleikans vermdi og af hinum miskunnsömu staðfestingum stafaði mikill ljómi. Von mín er sú að allar þessar blessuðu sálir verði einstæðir og óviðjafnanlegir ræktendur og austur og vestur Ameríka verði sem unaðssæl paradís svo að þið öll megið heyra hróp hinna himnesku herskara: „Blessun veitist ykkur og blessun enn og aftur!“
Með ykkur séu heill og árnaðaróskir!
Kennararnir og vinirnir eiga að fara með þessa bæn daglega:
Ó Þú góði Drottinn! Lof sé Þér að Þú hefur sýnt okkur þjóðbraut leiðsagnar, opnað dyr ríkisins og birt Þig í sól veruleikans. Blindum hefur Þú gefið sjón og daufum heyrn, Þú hefur vakið dauða og auðgað snauða. Villtum hefur Þú sagt til vegar. Þú hefur leitt þá sem höfðu skrælnaðar varir að lind leiðsagnar. Þú hefur leyft hinum þyrsta fiski að ná til úthafs veruleikans og boðið förufuglunum til rósagarðs náðarinnar.
Ó Þú almáttugi! Við erum þjónar Þínir og Þínir vesölu, við erum fjarlæg og þráum návist Þína, okkur sárþyrstir í vatn uppsprettu Þinnar, við erum sjúk og þráum lækningu Þína. Við göngum á vegi Þínum og eigum ekkert markmið og enga von nema þá að dreifa ilmi Þínum, svo að allar sálir hrópi: Ó Guð, „leið okkur á hinn beina veg!“ Megi augu þeirra opnast og líta ljósið og megi þeim verða forðað frá myrkri vanþekkingar. Megi þeir safnast kringum lampa leiðsagnar Þinnar. Megi hver sá sem óskammtað er fá sinn skerf. Megi hinir afskiptu verða trúnaðarmenn leynidóma Þinna.
Ó almáttugur! Lít til okkar af miskunn. Veit okkur himneska staðfestingu. Gef okkur andblæ heilags anda svo okkur megi verða hjálpað við að þjóna Þér og við getum stafað ljósi leiðsagnar yfir þessi lönd eins og skærar stjörnur.
Vissulega ert Þú hinn voldugi og máttugi, hinn vísi og sjáandi.
10
Tafla til bahá’ía í suðurríkjunum
Þessi tafla var opinberuð 3. febrúar 1917 í herbergi Ismá’íl Áqá í Haifa. Henni var beint til bahá’ía í sextán suðurríkjum Bandaríkjanna: Delaware, Maryland, Virginíu, Vestur-Virginíu, Norður-Karólínu, Suður-Karólínu, Georgíu, Flórída, Alabama, Mississippi, Tennessee, Kentucky, Louisiana, Arkansas, Oklahoma og Texas.
Ó þið blessuðu, virtu sálir:
Heimspekingarnir til forna, hugsuðir miðalda og vísindamenn þessarar aldar og hinna fyrri fallast allir á þá staðreynd að bestu og hagfelldustu búsetusvæði manna séu tempruðu beltin því þar ná hugsun og vitsmunir mestum þroska og þar birtast hæfni og færni siðmenningar í fullum blóma. Þegar þið lesið söguna gagnrýnum augum verður ljóst að flestir hinna víðkunnu manna hafa fæðst, alist upp og unnið verk sín í tempruðu beltunum en afar, afar fáir hafa komið fram í þurru og köldu beltunum.
Þessi sextán suðurríki Bandaríkjanna eru í tempraða beltinu og á þessum landssvæðum hefur fullkomnun í heimi náttúrunnar komið í ljós. Því að öfgalaust veðurfar, fegurð landslagsins og landfræðileg staða hafa mikil áhrif í heimi hugsunar og vitundar. Þessi staðreynd kemur vel í ljós með skoðun og reynslu.
Jafnvel eðli hinna helgu guðlegu opinberenda hefur verið í mesta jafnvægi, líkamsheilsa þeirra fullkomin, þeir hafa búið yfir líkamlegu þreki og kraftar þeirra verið í fullkomnu samræmi, ytri tilfinning tengdist innri skynjun og starfaði með einstöku afli og samstillingu.
Sakir þess að þessi sextán ríki eru tengd öðrum ríkjum og loftslag þeirra mjög hagfellt, munu hinar guðlegu kenningar án efa birtast með meiri ljóma, andi heilags anda hafa mun meiri áhrif, stærri bylgjur svella á hafi ástar Guðs, andblærinn frá rósagarði guðlegrar ástar berast með meiri hraða og ilmur heilagleikans dreifast hraðar.
Lof sé Guði að hin guðlega úthelling er takmarkalaus, söngur hinna drottinlegu meginreglna hljómar af miklum krafti, hinn almesti himinhnöttur skín í mestum ljóma, herskararnir á hæðum leggja til atlögu með ósigrandi mætti, tungur eru beittari en sverð, hjörtun skína bjartar en rafljósið, veglyndi vinanna tekur fram öllu veglyndi fyrri og síðari kynslóða, sálirnar laðast að hinu guðlega og eldur ástar Guðs er tendraður.
Á þessari tíð og þessu tímaskeiði verðum við að nota þetta mesta tækifæri sem okkur gefst. Við megum ekki sitja aðgerðarlaus eitt andartak, við verðum að segja skilið við næði, hvíld, rósemi, gæði, eigur, líf og fastheldni við efnislega hluti. Við verðum að leggja allt í sölurnar fyrir Hinn hæsta, eiganda tilverunnar, til þess að kraftar ríkisins megi umvefja allt og geisladýrð þessa nýja tímaskeiðs upplýsa veraldir huga og hugsjóna.
Í um tuttugu og þrjú ár hefur ilman Guðs verið dreift í Ameríku en ekki hefur komist nægileg hreyfing á málin og ekki vottar fyrir miklum undirtektum og hraðari vexti. Nú er það von mín að með himnesku afli, ilmi Hins miskunnsama, vitundarvakningu, himneskri úthellingu, herskörum himins og ólgandi uppsprettu guðlegrar ástar, megi átrúendur Guðs rísa upp og á skömmum tíma komi í ljós hin almestu gæði, sól veruleikans skíni svo glatt að myrkrið í heimi náttúrunnar hverfi algjörlega; frá sérhverjum afkima berist dásamlegur söngur, fuglar morgunsins heilli og endurlífgi heim mannsins með söng sínum, hið harða og ósveigjanlega mýkist og sálir fullar harðneskju breiði út vængi sína og fljúgi til himins með fulltingi hitans af ást Guðs.
Fyrir næstum tvö þúsund árum grúfði niðamyrkur yfir Armeníu. Ein blessuð sál úr hópi lærisveina Krists hraðaði sér til þess lands og áður en langt um leið upplýstist það fyrir atbeina hans. Þannig hefur komið í ljós hvernig afl ríkisins virkar!
Verið því fullviss um staðfestingar Hins miskunnsama og aðstoð Hins hæsta; helgið ykkur og hreinsið af þessum heimi og íbúum hans; einsetjið ykkur að starfa til góðs fyrir alla; skerið á böndin sem binda ykkur þessum heimi og verið létt og fíngerð eins og kjarni andans. Verjið síðan tíma ykkar með eindregnum ásetningi, hreinu hjarta, fagnandi anda og mælskri tungu til að breiða út hinar himnesku meginreglur svo að eining í heimi mannkyns megi reisa tjaldbúð sína á hátindi Ameríku og allar þjóðir jarðar fylgi hinni himnesku stefnu. Það er fullvíst að hin himneska stefna er réttlæti og gæska í garð alls mannkyns. Því að allar þjóðir heimsins eru sauðir Guðs og Guð er góði hirðirinn. Hann hefur skapað þessa sauði, verndað þá, nært og þjálfað. Er einhver gæska þessari meiri? Hvert andartak verðum við að þakka hundraðþúsundfalt fyrir að hafa frelsast, lof sé Guði, frá öllum fákænum fordómum, sýna öllum skepnum Guðs gæsku og ala þá von eina í brjósti að þjóna öllum og uppfræða eins og velviljaður faðir.
Með ykkur öllum séu heill og árnaðaróskir!
Sérhver sál sem ferðast um þessar borgir, bæi og þorp í þessum ríkjum og er upptekin við að dreifa ilmi Guðs ætti að fara með þessa bæn á hverjum morgni:
Ó Guð minn! Ó Guð minn! Þú sérð mig í vesöld og veikleika festa hugann við hið mesta verkefni, staðráðinn í að upphefja orð Þitt meðal fjöldans og útbreiða kenningar Þínar meðal þjóða Þinna. Hvernig getur mér tekist það nema Þú hjálpir mér með andblæ heilags anda, leiðir mig til sigurs með herskörum dýrðarríkis Þíns og ausir yfir mig staðfestingum Þínum, sem einar fá gert mýflugu að erni, vatnsdropa að ám og úthöfum og frumeind að ljósi og sólum? Ó Drottinn minn! Aðstoða mig með Þínum sigursæla og áhrifamikla mætti, svo ég megi segja frá vegsemd Þinni og eigindum meðal allra manna, og sál mín yfirfyllist af víni ástar Þinnar og þekkingar.
Þú ert hinn alvaldi og þess megnugur að gera allt sem Þér þóknast.
11
Tafla til bahá’ía í miðríkjunum
Þessi tafla var opinberuð 8. febrúar 1917 í herbergi Bahá’u’lláh í húsi Abbúds í ‘Akká. Henni var beint til bahá’ía í tólf miðríkjum Bandaríkjanna: Michigan, Wisconsin, Illinois, Indíana, Ohio, Minnesota, Iowa, Missouri, Norður-Dakóta, Suður-Dakóta, Nebraska og Kansas.
Hann er Guð! Ó þið gömlu átrúendur og nánu vinir:
Guð segir í hinum mikla Kóran: „Hann auðsýnir miskunn hverjum sem Hann kýs.“
Þessi tólf miðríki Bandaríkjanna eru eins og hjarta Ameríku, og hjartað tengist öllum líffærum og líkamshlutum. Ef hjartað styrkist styrkjast öll líffæri líkamans en ef hjartað er veikt þrýtur allan líkamann mátt.
Lof sé Guði að Chicago og nágrenni hafa haft sterkt hjarta frá því byrjað var að dreifa ilman Guðs. Þess vegna hefur borgin fyrir guðlega hylli og forsjón fengið staðfestu í ákveðnum málefnum sem hafa mikla þýðingu.
Fyrst: Ákall ríkisins barst í upphafi frá Chicago. Þetta eru að sönnu mikil forréttindi því að á komandi öldum og aldaskeiðum verður þetta ásinn sem heiður Chicago mun snúast um.
Annað: Á þeim blessaða stað risu upp nokkrar stöðugar og staðfastar sálir til að útbreiða orð Guðs og jafnvel allt fram til þessarar stundar eru þær önnum kafnar við útbreiðslu kenninga Guðs eftir að hafa hreinsað og helgað hjörtu sín frá allri hugsun. Þess vegna syngja hinir hæstu herskarar þeim ævinlega lof.
Þriðja: Á ferðum sínum um Ameríku fór ‘Abdu’l‑Bahá nokkrum sinnum um Chicago og samneytti vinum Guðs. Hann dvaldi um nokkurt skeið í þeirri borg. Dag og nótt var hann upptekinn af því að minnast Hins sanna og kalla fólkið til ríkis Guðs.
Fjórða: Fram til þessa hafa áhrifin af öllu sem átti upptök sín í Chicago breiðst til allra átta og svæða á sama hátt og allt sem birtist í og opinberast frá hjartanu virkar á öll líffæri og limi líkamans.
Fimmta: Fyrsta Mashriqu’l-Adhkár í Ameríku var stofnað í Chicago og þessi heiður og virðing hafa ómetanlegt gildi. Af þessu Mashriqu’l-Adhkár munu án efa rísa þúsundir Mashriqu’l-Adhkár.
Einnig (var í Chicago stofnað til) almenna árlega landsþingsins, lagður grunnur að Star of the West, félagi fyrir útgáfu bóka og taflna og dreifingu þeirra um alla Ameríku. Núna er á döfinni undirbúningur undir hátíðahald vegna hins gullna 100 ára afmælis ríkis Guðs. Ég vona að þessi fagnaður og þessi sýning megi verða haldin í mestri fullkomnun til þess að ákallið til heims einingarinnar „Enginn er Guð nema einn Guð og allir boðberar Hans frá upphafi til innsiglis spámannanna (Múhameðs) voru sendir af hálfu Hins sanna!“ megi verða hafið upp, fáni einingar mannkyns hafinn á loft, söngur allsherjarfriðar ná eyrum austurs og vesturs, allir vegir hreinsist og verði beinir, öll hjörtu laðist að ríki Guðs, tjaldbúð einingar verði reist á hátindi Ameríku, söngur ástar Guðs örvi og gleðji allar þjóðir og kynkvíslir, yfirborð jarðar verði eilíf paradís, hin dimmu ský hverfi og sól sannleikans skíni í mestum ljóma.
Ó vinir Guðs! Reynið af hjarta og sál að stuðla að samneyti, einingu og samlyndi milli hjartnanna, svo að öll markmið sameinist í eitt markmið, allir söngvar verði einn söngur og kraftur heilags anda verði svo sigursæll að hann vinni bug á öllum öflum í heimi náttúrunnar. Leggið ykkur öll fram; ætlunarverk ykkar er ómælanlega dýrlegt. Krýni auðna verk ykkar mun Ameríka vissulega verða miðstöð þaðan sem berast bylgjur andlegs valds og hásæti ríkis Guðs verður tryggilega staðfest í fyllingu tignar sinnar og dýrðar.
Þessi skynheimur er hröðum breytingum háður. Hann breytist og ummyndast frá einni sekúndu til annarrar. Sérhver grundvöllur mun að lokum bresta, allur heiður og dýrð líða undir lok og verða að engu, en ríki Guðs er eilíft og himnesk yfirráð og tign standa stöðug um aldur og ævi. Þess vegna er gólfmotta í ríki Guðs betri en hásæti í stjórn heimsins að mati hins vitra.
Augu mín og eyru beinast stöðugt að miðríkjunum, ef ske kynni að söngur bærist mér að eyrum frá blessuðum sálum – sálum sem eru dögunarstaður ástar Guðs, stjörnur á sjónarhring helgunar og heilagleika – sálum sem munu upplýsa þennan dimma alheim og endurlífga þessa andvana veröld. Gleði ‘Abdu’l‑Bahá er undir þessu komin! Ég vona að þið megið fá þar staðfestu.
Af þessu leiðir að þær sálir sem eru fullkomlega helgaðar, hreinsaðar af göllum hins náttúrulega heims, helgaðar frá böndum sem binda þær þessari jörð, endurlífgaðar af anda eilífs lífs – með geislandi hjörtu, himneskan anda, aðlöðun meðvitundar, himneskt veglyndi, með mælska tungu og glöggar skýringar – slíkar sálir verða að hafa hraðann á og ferðast um öll miðríkin. Í hverri borg og byggð verða þær að helga sig útbreiðslu guðlegra hvatninga og ráðlegginga, leiða sálirnar og kynna einingu í heimi mannkyns. Þær verða að leika sönglag alþjóðlegra sátta af slíkum krafti að hinir daufu fái heyrn, hinir andvana lifni við og sérhver skeytingarlaus sál finni til fagnaðarleiðslu. Fullvíst er að svo mun verða.
Látið þá sem útbreiða ilman Guðs fara með þessa bæn á hverjum morgni:
Ó Drottinn, Guð minn! Lof og þökk sé Þér að Þú hefur leitt mig að þjóðbraut ríkisins, leyft mér að ganga þennan langa og beina veg, upplýst auga mitt með birtunni af ljósi Þínu, seitt eyra mitt með söngljóðum fugla heilagleika úr dularheimum og fangað hjarta mitt með ást Þinni meðal hinna réttlátu.
Ó Drottinn! Staðfest mig af heilögum anda svo ég geti hrópað í Þínu nafni meðal þjóðanna og flutt fagnaðarerindið um birtingu ríkis Þíns meðal manna.
Ó Drottinn! Ég er veikburða, styrk mig með afli Þínu og getu. Mér er varnað máls, leyf mér að tjá minningu Þína og lof. Ég er lítilsverður, heiðra mig með inngöngu í ríki Þitt. Ég er fjarlægur, gef að ég nálgist fótskör miskunnsemi Þinnar. Ó Drottinn! Ger mig skæran lampa, skínandi stjörnu og blessað tré, sem prýðist ávöxtum og skýlir öllum þessum sviðum í forsælu greina sinna. Vissulega ert Þú hinn máttugi og voldugi, hinn óháði.
12
Tafla til bahá’ía í vesturríkjunum
Þessi tafla var opinberuð 15. febrúar 1917 í herbergi Bahá’u’lláh í húsi Abbúds í ‘Akká. Henni var beint til bahá’ía í 11 vesturríkjum Bandaríkjanna: Nýju Mexíkó, Kólóradó, Arizóna, Nevada, Kaliforníu, Wyoming, Utah, Montana, Idaho, Oregon og Washington.
Hann er Guð! Ó þið vinir og þjónustumeyjar Hins miskunnsama, hin útvöldu í ríki Guðs:
Blessuðu ríki Kaliforníu svipar mjög til Landsins helga, það er að segja Palestínu. Loftslagið er afar temprað, sléttan víðáttumikil og þar má sjá ávexti Palestínu vaxa ferska og ljúffenga. Þegar ‘Abdu’l‑Bahá ferðaðist um þetta ríki fannst honum hann vera kominn til Palestínu því fullkomin samsvörun var á allan hátt milli þessa tveggja landsvæða. Jafnvel strendur Kyrrahafsins eru stundum eins og strendur Landsins helga – jurtalíf Landsins helga má jafnvel sjá á þessum ströndum – og rannsókn á því hefur valdið mikilli undrun og heilabrotum.
Sömuleiðis ber fyrir augu í Kaliforníu og öðrum vesturríkjum dásamlega sjón úr heimi náttúrunnar sem fyllir mannshugann furðu. Mikilfengleg fjöll, djúp gljúfur, miklir og tignarlegir fossar og risavaxin tré eru á alla vegu og jarðvegurinn er afar ríkur og frjósamur. Þessu blessaða ríki svipar til Landsins helga og þessi héruð og það land er á margan hátt eins og unaðssæl paradís, að mörgu leyti líkt Palestínu. Og eins og samsvörun er að finna í náttúrunni þannig verður einnig að ná fram himneskri samsvörun.
Ljós guðlegra ummerkja blasa við augum í Palestínu. Flestir spámenn Ísraels hófu upp ákall Guðsríkis á þessari helgu jörð. Er þeir höfðu útbreitt hinar andlegu kenningar, bar ilm að vitum hinna andlega sinnuðu, það birti fyrir augum hinna upplýstu sálna, eyrun heilluðust af þessum söng, hjörtun fengu eilíft líf af þessum sálarendurnýjandi andvara frá ríki Guðs og uppljómuðust af dýrð sólar veruleikans. Síðan breiddist ljósið frá þessu svæði til Evrópu, Ameríku, Asíu, Afríku og Ástralíu.
Nú verða Kalifornía og hin vesturríkin að öðlast fullkomna samsvörun við Landið helga og frá þessu ríki og því svæði verður andi heilags anda að berast um alla Ameríku og Evrópu til þess að ákall Guðsríkis megi hrífa og gleðja öll eyru, hinar guðlegu meginreglur færa nýtt líf, hinir ýmsu flokkar verða sem einn, sundurleitar hugmyndir hverfa og snúast um eina einstæða miðju, austur og vestur Ameríka fallast í faðma, söngur einingar mannkyns veita mannanna börnum nýtt líf og tjaldbúð allsherjarfriðar verða reist á hátindi Ameríku; þannig geta Evrópa og Afríka vaknað til lífs fyrir anda heilags anda, þessi heimur verða annar heimur; þessi ríkisheild öðlast nýjan fögnuð, og líkt og í Kaliforníu og öðrum vesturríkjum þar sem dásamlegar sýnir í heimi náttúrunnar ber fyrir augu geti mikilfengleg tákn Guðsríkis einnig afhjúpast svo að samsvörun verði milli líkama og anda, hinn ytri heimur verði tákn hins innri og spegill jarðar verði spegill Guðsríkis sem endurspeglar hinar fullkomnu dyggðir himinsins.
Á ferðum mínum í þessum heimshluta bar margt dásamlegt fyrir augu og ég fékk yfirsýn yfir fagra náttúru, aldingarða og fljót, þjóðgarða og almenna mannfundi, eyðimerkur, sléttur, engi og gresjur. Kornið og ávextirnir á því svæði vöktu mikla athygli mína og eru jafnvel enn í huga mínum.
Sérstaka ánægju mína vöktu fundirnir í San Francisco og Oakland, samkomurnar í Los Angeles, og átrúendurnir sem komu frá borgum annarra ríkja. Ætíð þegar ég sé þá fyrir hugskotssjónum mínum fyllist ég takmarkalausri gleði.
Þess vegna vona ég að hinar guðlegu kenningar breiðist eins og geislar sólarinnar um öll vesturríkin og hið blessaða vers Kóransins „Yndisleg er sú borg og Drottinn er sá sem fyrirgefur!“ megi verða að veruleika. Einnig vona ég að þýðing annars vers í Kóraninum „Hafa þeir ekki farið um landið?“ og versins „Sjáið náðarverk Guðs!“ megi opinberast í fullum ljóma.
Lof sé Guði að sakir guðlegrar hylli og forsjónar er þjónustuvettvangurinn á því svæði gríðarstór, vitsmunir og framfarir mannanna miklar, stuðlað er að vísindum og listum, hjörtun eins og speglar í fullkomnum hreinleika og tærleika, og aðlöðun vina Guðs fullkomin. Þess vegna er vonast til að kennslufundir verði skipulagðir og þeim komið á fót og vitrir kennarar verði sendir til borganna og jafnvel í byggðirnar til að útbreiða ilman Guðs.
Kennarar málstaðarins verða að vera himneskir, tignir og geislandi. Þeir verða að vera líkamning andans, persónugervingar vitsmuna og rísa til þjónustu af almestri einurð, staðfestu og sjálfsfórn. Á ferðum sínum mega þeir ekki vera með hugann við mat og klæði. Þeir verða að einbeita hugsunum sínum að úthellingu Guðsríkis og biðja um staðfestingu heilags anda. Með himnesku afli, aðlöðun vitundar, guðdómlegum gleðifréttum og himneskum heilagleika verða þeir að láta ilm hinnar hæstu paradísar berast að vitum manna.
Eftirfarandi bæn eiga þeir að lesa á hverjum degi:
Ó Guð! Ó Guð! Þetta er vængbrotinn fugl og flugi hans miðar lítt. Aðstoða hann svo hann geti flogið upp á hátind velmegunar og frelsunar, þreytt flug sitt í fögnuði og sælu um allan hinn endalausa geim, hafið upp söng sinn í Þínu æðsta nafni í hverju héraði, glatt eyrun með þessu kalli og uppljómað augun með táknum leiðsagnar!
Ó Drottinn! Ég er einsamall, einstæðingur og umkomulaus. Hvergi á ég mér stuðning vísan nema hjá Þér, enga hjálp nema Þig, enginn sér mér farborða nema Þú. Staðfest mig í þjónustu Þinni, aðstoða mig með sveitum engla Þinna, ger mig sigursælan við eflingu orðs Þíns og lát mig tjá visku Þína frammi fyrir skepnum Þínum. Vissulega ert Þú hjálp lítilmagnans og vörn smælingjans og vissulega ert Þú hinn voldugi og máttugi, hinn óhefti!
13
Tafla til bahá’ía í Kanada og á Grænlandi
Þessi tafla var opinberuð 21. febrúar 1917 í herbergi Bahá’u’lláh í húsi Abbúds í ‘Akká. Henni var beint til bahá’ía í Kanada – Nýfundnalandi, Prince Edward eyju, Nova Scotia, Nýju Brúnsvík, Quebec, Saskatchewan, Manitóba, Ontario, Alberta, Bresku Kólumbíu, Yukon, Mackenzie, Keewatin, Ungava, Franklín-eyjum – og á Grænlandi.
Hann er Guð! Ó þið góðu vinir og þjónustumeyjar Hins miskunnsama:
Í hinum mikla Kóran segir Guð: „Enga ósamkvæmni munt þú sjá í sköpun Guðs.“ Hann segir með öðrum orðum: Frá hinu fullkomna sjónarmiði er ekkert misræmi í sköpun Guðs því allt er skapað af Honum. Af þessari forsendu er dregin sú ályktun að enginn greinarmunur sé gerður á löndum. En Kanada á sér glæsta framtíð og atburðirnir sem landinu tengjast eru ómælanlega dýrlegir. Augu forsjónarinnar munu beinast að því og það verður birtingarmynd hylli Hins aldýrlega.
Á ferðum sínum og viðdvöl í þessu þjóðlandi fylltist ‘Abdu’l‑Bahá miklum fögnuði. Áður en ég hélt af stað vöruðu margar sálir mig við að fara til Montreal og sögðu að meirihluti íbúanna væru kaþólskir og forhertir í ofstæki sínu, þeir væru sokknir í haf eftirlíkinga og ekki færir um að hlýða ákalli Guðsríkis, blæja hjátrúar byrgði þeim svo sýn að þeir hefðu misst getuna til að bera kennsl á tákn og ummerki hinnar æðstu leiðsagnar, trúarkreddur hefðu heltekið hjörtu þeirra og ekki skilið eftir sig nein ummerki raunveruleika. Þeir fullyrtu að ef sól veruleikans skini í fullum ljóma í þessu landi hefðu dimm og þykk ský hjátrúar myrkvað svo sjónarhringinn að það yrði öldungis ógjörlegt að greina geisla hennar.
En þessar sögur breyttu engu um ákvörðun ‘Abdu’l‑Bahá. Hann treysti Guði og beindi augum sínum að Montreal. Þegar hann kom inn í borgina stóðu honum allar dyr opnar, hann skynjaði mikinn næmleika hjartnanna og fullkominn mátt Guðsríkis sem fjarlægir alla tálma og hindranir. Í kirkjum og á mannfundum í þessu landi kallaði hann fólkið til ríkis Guðs af almestri gleði og sáði fræjum sem verða vökvuð með hendi guðlegs valds. Þessi fræ munu án efa vaxa, verða græn og gróskumikil og margar ríkulegar uppskerur fást. Við útbreiðslu hinna guðlegu meginreglna fyrirhitti hann engan andstæðing eða mótstöðumann. Átrúendurnir sem hann hitti í þeirri borg voru mjög andlega sinnaðir og heillaðir af ilmi Guðs. Hann sá að sakir viðleitni þjónustumeyjar Guðs, frú Maxwell, komu margir synir og dætur ríkisins í þessu landi saman. Þau blönduðu saman geði og það jók gleði hans og fögnuð dag frá degi. Dvölin stóð aðeins í nokkra daga en árangurinn í framtíðinni er ómetanlegur. Þegar bóndi eignast óplægða jörð mun hann á skömmum tíma rækta stóran akur. Þess vegna vona ég að í framtíðinni verði Montreal svo heilluð og gagntekin, að söngvar ríkisins berist um allan heim frá því landi og andi heilags anda breiðist út frá þeirri miðju til austur- og vesturhluta Ameríku.
Ó þið átrúendur Guðs! Leiðið ekki hugann að því hve fá þið eruð og látið ekki vantrúaða veröld og manngrúa hennar þjaka ykkur. Fimm hveitikornum veitist himnesk blessun, en þúsundir tonna af illgresi bera engan ávöxt. Eitt frjósamt tré stuðlar að lífi samfélagsins en í þúsundum villiskóga er enga ávexti að finna. Sléttan er þakin steinvölum en dýrmætir steinar eru fágætir. Ein perla er betri en þúsund sandauðnir, sérstaklega þessi ómetanlega perla sem veist hefur blessun Guðs. Áður en langt um líður mun hún gefa af sér þúsundir annarra perla. Þegar þessi perla samneytir steinvölunum og verður þeim náin munu þær einnig breytast í perlur.
Ég endurtek að framtíð Kanada, bæði efnisleg og andleg, er afar björt. Siðmenning og frelsi munu fara vaxandi dag frá degi. Ský Guðsríkis munu vökva þau fræ leiðsagnar sem þar hefur verið sáð. Hvílist því ekki, leitið ekki næðis, festið ykkur ekki við munað þessa hverfula heims, leysið af ykkur öll bönd og reynið af sál og hjarta að fá fulla staðfestu í ríki Guðs. Safnið himneskum fjársjóðum. Látið hvern dag færa aukna upplýsingu. Nálgist stöðugt fótskör einingar. Verið birtendur andlegrar hylli og dagsbrúnir óþrjótandi ljóss! Sendið kennara ef unnt er til annarra svæða í Kanada; sendið einnig kennara til Grænlands og heimkynna inúítanna.
Hvað kennarana varðar verða þeir að afklæðast fullkomlega gömlum flíkum og klæðast nýjum. Samkvæmt orðum Krists verða þeir að endurfæðast – það er að segja, þar sem þeir í fyrstu fæddust af móðurlífi verða þeir nú að fæðast af kviði hins náttúrulega heims. Líkt og þeir áður voru sér fullkomlega óvitandi um reynsluna í kviði móðurinnar verða þeir einnig að gleyma að öllu leyti ágöllum hins náttúrulega heims. Þeir verða að skírast vatni lífsins, eldi ástar Guðs og anda heilags anda. Þeir verða að gera sér lítið að góðu í mat en taka stóran skerf af hinu himneska borði. Þeir verða að losna undan freistingu og ágirnd og fyllast andanum. Með áhrifum síns hreina anda verða þeir að breyta steininum í skínandi rúbín og skelinni í perlu. Eins og vorský þrungin vatni verða þeir að breyta svörtum jarðvegi í rósagarð og ávaxtalund. Þeir verða að gefa blindum sýn, heyrn daufum, upptendra hina útkulnuðu og vekja dauða til lífs.
Með ykkur séu heill og árnaðaróskir!
Lof sé Þér ó Guð minn! Þetta eru þjónar Þínir sem laðast að ilmi miskunnar Þinnar, upptendrast af eldinum sem logar í tré einstæðis Þíns. Þeim birtir fyrir augum er þeir líta ljómann af ljósinu sem skín á Sínaí einingar Þinnar.
Ó Drottinn! Leys tungur þeirra til að þeir minnist Þín meðal fólks Þíns, leyf þeim að færa Þér lofgjörð af náð Þinni og ástríki, aðstoða þá með skörum engla Þinna, styrk lendar þeirra í þjónustu við Þig og ger þá að táknum leiðsagnar Þinnar meðal skepna Þinna.
Vissulega ert Þú hinn alvoldugi, hinn upphafnasti, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn almiskunnsami.
Þeir sem dreifa ilmi Guðs ættu að fara með þessa bæn á hverjum morgni:
Ó Guð, Guð minn! Þú sérð mig veikburða sárbiðja um himneskan styrk, fátækan þurfa himneska fjársjóði Þína, þyrstan þrá uppsprettu eilífs lífs, þjáðan þrá fyrirheitna græðingu Þína sem Þú hefur af takmarkalausri náð Þinni ákvarðað útvöldum þjónum Þínum í ríki Þínu á hæðum.
Ó Drottinn! Ég hef engan hjálpara nema Þig, ekkert athvarf nema Þig, enga hjálparhellu nema Þig. Aðstoða mig með englum Þínum að dreifa heilögum ilmi Þínum og útbreiða kenningar Þínar meðal hinna fremstu af fólki Þínu.
Ó Drottinn minn! Leyf mér að skiljast frá öllu nema Þér, að halda fast við kyrtil veglyndis Þíns, að helga mig algjörlega trú Þinni, að vera stöðugur og staðfastur í ást Þinni og gæta þess sem Þú hefur fyrirskipað í bók Þinni.
Vissulega ert Þú hinn voldugi, hinn máttugi, hinn alvaldi.
14
Tafla til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada
Þessi tafla var opinberuð 8. mars 1917 í sumarhúsinu (herbergi Ismá’íl Áqá) í húsi ‘Abdu’l‑Bahá í Haifa. Henni var beint til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada.
Hann er Guð! Ó þið himnesku sálir, synir og dætur ríkisins:
Guð segir í Kóraninum: „Haldið öll fast í taug Guðs og látið eigi sundrast.“
Í þessum svipula heimi eru margar aflmiðjur sem stuðla að samskiptum og einingu mannanna barna. Föðurlandsást er til dæmis slík aflmiðja; þjóðernishyggja er aflmiðja; sameiginlegir hagsmunir eru aflmiðjur; pólitískt bandalag er aflmiðja; eining hugsjóna er aflmiðja og hagsæld mannheims er háð skipulagningu og útfærslu sameiginlegra aflmiðja. Engu að síður eru öll ofangreind samtök og stofnanir í rauninni umbúðir en ekki innihald, tilviljanakenndar en ekki eilífar – tímabundnar en ekki varanlegar. Miklar byltingar og umrót sópa þessum aflmiðjum burt. En aflmiðja Guðsríkis sem er líkamning stofnana og guðlegra kenninga er hin eilífa aflmiðja. Hún kemur á fót tengslum milli austurs og vesturs, leggur drög að einingu mannheims og eyðir því sem veldur ágreiningi. Hún sigrast á og felur í sér allar aðrar aflmiðjur. Eins og sólargeisli hrekur hún á braut myrkrið sem grúfir yfir öllum svæðum, veitir fullkomið líf og veldur guðlegri uppljómun. Hún gerir kraftaverk með anda heilags anda; austur og vestur fallast í faðma, norðrið og suðrið verða nánir vinir og félagar, skoðanaágreiningur og deilur hverfa úr sögunni, fjandsamlegum markmiðum er vikið til hliðar, lögmálið um baráttuna fyrir tilverunni fellur úr gildi og tjaldhiminn einingar mannkyns er reistur á hátindi jarðar með alla kynþætti í skugga sínum. Hin raunverulega aflmiðja felur þar af leiðandi í sér allar hinar guðlegu kenningar sem fela í sér öll stig og umlykja öll tengsl heimsins og nauðsynleg lög mannkynsins.
Íhugið! Íbúar í austri og vestri voru fullkomlega framandi hverjir öðrum. Hversu mjög hafa ekki gagnkvæm kynni þeirra og sameining aukist! Hversu langt eru ekki íbúar Persíu frá fjarlægustu löndum Ameríku! Og gefið nú gaum að áhrifum himnesks máttar því að núna jafngildir þúsund mílna fjarlægð einu skrefi! Hvernig ýmsar þjóðir sem hafa engin samskipti og bera engan svip hver af annarri hafa á okkar tímum treyst einingu sína og samstöðu með tilstyrk þessa himneska máttar og valds! Mátturinn tilheyrir að sönnu Guði fyrr á tímum og í framtíðinni! Og vissulega hefur Guð vald yfir öllu sem er!
Íhugið blóm í garði. Þau eru ólík hvað varðar tegund, lit, form og sköpulag en sakir þess að þau hafa verið nærð af vatni einnar uppsprettu, endurlífguð af sama andvara, glæddar af geislum sólarinnar, eykur þessi mismunur töfra þeirra og fegurð. Hve lítt myndi það ekki gleðja augað ef öll blóm og plöntur, lauf og blómstur, ávextir, greinar og tré í þeim garði hefðu sama lit og sköpulag! Munurinn á litbrigðum, formi og lögun prýðir garðinn og eykur áhrif hans. Á sama hátt gerist það þegar ýmis blæbrigði hugsunar, lundernis og lyndiseinkunnar komast undir afl og áhrif eins miðlægs stjórnanda, að fegurð og dýrð mannlegrar fullkomnunar birtist. Ekkert nema himneskur kraftur orðs Guðs sem hafinn er yfir og stjórnar veruleika allra hluta getur samræmt sundurleitar hugsanir, kenndir, hugmyndir og sannfæringar mannanna barna.
Í öllum lýðveldum Ameríku verða átrúendur Guðs að verða þess valdandi með fulltingi guðlegs máttar að himneskar kenningar breiðist út og stofnað verði til einingar mannkyns. Sérhver þessara mikilvægu sálna verður að hefjast handa og blása anda lífsins í öll lönd Ameríku, veita fólkinu nýjan anda, skíra það eldi ástar Guðs, vatni lífsins og anda heilags anda svo að endurfæðing megi verða að veruleika. Því í guðspjöllunum stendur skrifað: „Það sem af manni fæðist er manns barn en það sem fæðist af anda Guðs er Guðs barn.“
Ó þið átrúendur Guðs í Bandaríkjunum og Kanada! Veljið því málsmetandi persónur – þær geta einnig snúið baki við hvíld og rósemi heimsins af sjálfsdáðum – sem rísa upp og ferðast um Alaska, lýðveldið Mexíkó og suður af Mexíkó í lýðveldum Mið-Ameríku, svo sem Gvatemala, Hondúras, Salvador, Níkaragva, Kosta Ríku, Panama og Belís; og í hinum miklu lýðveldum Suður-Ameríku svo sem Argentínu, Úrúgvæ, Paragvæ, Brasilíu, Frönsku Guyana, Hollensku Guyana, Bresku Guyana, Venesúelu, Ekvador, Perú, Bólivíu og Síle; einnig á eyjum Vestur-Indíu, svo sem Kúbu, Haítí, Púertó Ríkó, Jamaíku og Santó Domingó, og Litlu-Antillaeyjum, Bahamaeyjum og Bermúdaeyjum; einnig á eyjum austur, vestur og norður af Suður-Ameríku eins og Trínidad, Falklandseyjum, Galapagoseyjum, Juan Fernández og Tóbagó. Heimsækið sérstaklega borgina Bahia á austurströnd Brasilíu. Þar sem þessi borg var fyrr á árum nefnd þessu nafni, BAHIA, leikur enginn vafi á að það hefur gerst fyrir innblástur heilags anda.
Af þessu leiðir að þeir sem trúa á Guð verða að sýna almesta viðleitni, hefja upp söng himinsins á þessum landsvæðum, útbreiða himneskar kenningar og láta anda eilífs lífs berast yfir alla til þess að þessi lýðveldi upplýsist svo af geisladýrð sólar veruleikans að þau verðskuldi hrós og heiður allra annarra landa. Sömuleiðis verðið þið að veita Panama-lýðveldinu mikla athygli því þar mætast vestur og austur í Panamaskurðinum. Landið liggur einnig milli tveggja voldugra úthafa og verður mjög mikilvægt í framtíðinni. Þegar kenningarnar hafa skotið þar rótum munu þær sameina austur og vestur, norður og suður.
Þess vegna verða hvatirnar að vera hreinar, viðleitnin göfug og upphafin til þess að hjörtun geti tengst í heimi mannsins. Þetta dýrlega áform verður ekki að veruleika nema með útbreiðslu guðlegra kenninga sem eru grundvöllur hinna helgu trúarbragða.
Leiðið hugann að því hvernig trúarbrögð Guðs hafa þjónað heimi mannsins! Hvernig trúarbrögð Mósebóka stuðluðu að dýrð, heiðri og framförum þjóðar Ísraels! Hvernig andi heilags anda sem dvaldi í Hans heilagleika Kristi skapaði tengsl og kom á einingu sundurleitra samfélaga og stríðandi fjölskyldna! Hvernig heilagur máttur Hans heilagleika Múhameðs varð til þess að sameina og samræma þrætugjarna ættbálka og ólíka fjölskylduhópa Arabíuskagans – með slíkum árangri að þúsund ættflokkar voru bræddir saman í eina heild; deilur og ósamlyndi heyrðu sögunni til; allir reyndu í sameiningu og með samkomulagi að þróa málstað menningar og siðmennta. Þeir frelsuðust þannig frá dýpstu niðurlægingu og svifu til hæða eilífrar dýrðar! Er hægt að finna öflugri aflmiðju en þessa í skynheimi okkar? Í samanburði við þessa guðlegu aflmiðju eru aflmiðjur þjóðernis, föðurlandsástar, stjórnmála, menningar og vitsmuna eins og barnaglingur!
Reynið að vinna að því að sameiginleg aflmiðja hinna helgu trúarbragða – sem allir spámennirnir voru birtir til að innræta og felur í sér ekkert annað en anda guðlegra kenninga – fái framgang hvarvetna í Ameríku til þess að sérhvert ykkar megi skína frá sjónarhring veruleikans eins og morgunstjarnan, guðleg upplýsing sigrist á myrkri náttúrunnar og heimur mannkyns upplýsist. Þetta er mesta og mikilvægasta starfið! Ef þið fáið staðfestu í því verður þessi heimur að öðrum heimi, yfirborð jarðar verður unaðssæl paradís og eilífum stofnunum komið á fót.
Látið hvern þann sem ferðast til hinna ýmsu staða til að kenna lesa á fjöllum, í eyðimörkum, á landi og sjó þessa bæn:
Ó Guð! Ó Guð! Þú sérð veikleika minn, smæð og auðmýkt frammi fyrir skepnum Þínum, samt hef ég reitt mig á Þig og hafist handa um að efla kenningar Þínar meðal staðfastra þjóna Þinna í trausti á vald Þitt og mátt!
Ó Drottinn! Ég er vængbrotinn fugl og þrái að svífa í Þínum takmarkalausa geimi. Hvernig er mér það fært nema með handleiðslu Þinni og náð, staðfestingu og aðstoð?
Ó Drottinn! Haf vorkunn með veikleika mínum og styrk mig með valdi Þínu. Ó Drottinn! Aumka Þig yfir getuleysi mitt og hjálpa mér af mætti Þínum og mikilleika.
Ó Drottinn! Ef andblær heilags anda staðfestir hina veikustu af skepnum Þínum, myndi hún öðlast allt sem hún sæktist eftir og eignast allt sem hún þráir. Vissulega hefur Þú aðstoðað þjóna Þína í fortíðinni. Og þótt þeir væru aumastir alls sem Þú hefur skapað, lægstir meðal þjóna Þinna og lítilsverðastir allra á jörðinni, sköruðu þeir vegna blessunar Þinnar og máttar fram úr hinum dýrlegustu og göfugustu meðal mannkyns. Þeir voru áður sem mölur en urðu konunglegir fálkar, áður eins og lækjarsytrur en urðu hafsjóir vegna veitinga Þinna og miskunnar. Með Þinni æðstu hylli urðu þeir stjörnur tindrandi við sjónarrönd leiðsagnar, fuglar sem sungu í rósagarði ódauðleikans, ljón öskrandi í skógum þekkingar og visku og stórhveli er syntu í úthöfum lífsins.
Vissulega ert Þú hinn mildi, hinn voldugi og máttugi, og miskunnsamastur þeirra sem sýna miskunn.
1: Tafla til bahá’ía í norðausturríkjunum
Sbr. Markúsarguðspjall 16:15.
2: Tafla til bahá’ía í suðurríkjunum
Sbr. Markúsarguðspjall 16:15.
3: Tafla til bahá’ía í miðríkjunum
Sbr. Matteusarguðspjall 13:23.
4: Tafla til bahá’ía í vesturríkjunum
Sbr. Markúsarguðspjall 16:15.
5: Tafla til bahá’ía í Kanada og á Grænlandi
6: Tafla til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada
Sbr. Markúsarguðspjall 16:15.
Sbr. Matteusarguðspjall 5:3.
8: Tafla til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada
Sbr. Matteusarguðspjall 10:14.
9: Tafla til bahá’ía í norðausturríkjunum
11: Tafla til bahá’ía í miðríkjunum
12: Tafla til bahá’ía í vesturríkjunum
Kóraninn 30:9, 40:82, 47:10.
13: Tafla til bahá’ía í Kanada og á Grænlandi
14: Tafla til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada