Tafla ‘Abdu’l‑Bahá til dr. Forels
Upprunalegur persneskur texti fyrst gefinn út í Kaíró, 1922. Íslensk þýðing er úr enskri þýðingu sem tekin er úr The Bahá’í World, bindi XV, bls. 37-43.
Auguste Forel fæddist í Sviss 1. september 1848. Hann lagði stund á læknisfræði og árið 1879 var hann gerður að forstöðumanni Burghölzli geðsjúkrahússins í Zurich. Um sama leyti varð hann prófessor í geðlækningum við háskólann þar. Þessum störfum sinnti hann í 20 ár en fimmtugur að aldri dró hann sig út úr stjórnunarstörfum til að helga sig eigin sjúklingum, rannsóknarstörfum ásamt störfum og baráttu fyrir mannúðarmálum. Hann lést árið 1931.
Auguste Forel beitti sér í friðar og bindindismálum, fyrir réttindum kvenna og að umbótum á sviði félagsmála, menntamála og refsilöggjafar. Störf hans öfluðu honum viðurkenningar um allan heim. Honum hefur verið lýst sem „ljóma hins svissneska föðurlands“, „miklum þegn alheimsbræðralags“, „þjóni mannkynsins“ og „sjaldgæfum einstaklingi í ætt mannsins“. Starf hans var mikilfenglegt og umfangsmikið. Eftir hann liggja bækur, vísindagreinar og blaðagreinar 1200 að tölu, hann setti á stofn 20 nýjar stofnanir og gerði ótal uppgötvanir í skordýrafræði og starfsemi og gerð mannsheilans.
Það er ekki fyrr en á 72. aldursári að hann heyrði um bahá’í trúna á heimili tengdasonar síns árið 1920. Í trúnni fann hann allar þær hugsjónir sem hann sjálfur hafði barist fyrir. Þá skrifar hann ‘Abdu’l‑Bahá, syni Höfundar trúarinnar, og tjáir honum að hann dái og styðji bahá’í trúna af heilum hug, en að hugmyndir hans og trúarinnar fari ekki að öllu leyti saman. Í fyrsta lagi trúi hann eins og Sókrates að um tilvist Guðs sé ekkert hægt að vita. „Guð er fyrir mér ekkert annað en kjarni alheimsins sjálfs, líklega takmarkalaus, en manninum algjörlega óþekkjanlegur.“ Í öðru lagi hafi hann eftir margra ára rannsóknarstarf komist að þeirri niðurstöðu að sálin og heilinn séu óaðskiljanleg og því trúi hann ekki að einstaklingurinn lifi eftir dauðann. Hann spyr síðan hvort hann geti, án þess að blekkja sig eða aðra, kallað sig bahá’ía þrátt fyrir þennan mun. Taflan sem hér birtist er svarið sem ‘Abdu’l‑Bahá sendi honum.
Þetta sama ár bætti hann eftirfarandi orðum í erfðaskrá sína: „Það var í Karlsruhe sem ég heyrði fyrst um heimstrú bahá’íanna sem stofnuð var fyrir rúmlega 70 árum í Austurlöndum af Persa að nafni Bahá’u’lláh. Laus við kreddur og presta er hún hin sanna trú félagslegrar velferðar sem sameinar allt fólk okkar litlu jarðkringlu. Ég gerðist bahá’íi. Megi þessi trú lifa og dafna mannkyninu til heilla. Þetta er heitasta ósk mín.“
Þýðandi
Tafla ‘Abdu’l‑Bahá til dr. Forels
Ó virti herra, unnandi sannleikans! Bréf þitt, dagsett 28. júlí 1921, hefur borist okkur í hendur. Efni þess var einkar viðfelldið og gaf til kynna, lof sé Guði, að þú ert enn ungur og leitar sannleikans, að hugsun þín er skörp og uppgötvanir huga þíns ljósar.
Mörgum eintökum af pistlinum, sem ég ritaði dr. Fisher hefur verið dreift víða og allir vita að hann var birtur árið 1910. Auk þess voru allmargir pistlar um sama efni skrifaðir áður en styrjöldin skall á og einnig hefur verið vísað til þessara mála í árbók Háskólans í San Francisco og dagsetning þeirrar tilvísunar er hafin yfir allan efa. Jafnframt hafa víðsýnir heimspekingar lokið miklu lofsorði á þann fyrirlestur sem fluttur var af mælsku í fyrrnefndum háskóla. Afrit af þeim fyrirlestri er sent hér með. Verk þín eru án vafa mjög gagnleg og verði þau gefin út, sendu afrit af þeim öllum.
Með efnishyggjumönnunum – en skoðanir þeirra á guðdóminum hafa verið raktar – er ekki átt við heimspekinga yfirleitt, heldur öllu fremur þann hóp þröngsýnna efnishyggjumanna sem aðhyllast það eitt sem hægt er að skynja, treysta aðeins á skilningarvitin fimm og afmarka svið þekkingar sinnar við það sem þeir nema með skynfærunum. Allt sem hægt er að skynja er þeim raunverulegt, en það sem skynfærin geta ekki þekkt telja þeir óraunverulegt eða vafasamt. Tilvist guðdómsins draga þeir með öllu í efa.
Það er rétt sem þú hefur ritað að hér er ekki átt við heimspekinga almennt heldur þröngsýna efnishyggjumenn. Hvað varðar heimspekinga sem trúa á Guð, eins og Sókrates, Platón og Aristóteles, þá verðskulda þeir virðingu og hrós því þeir hafa innt af hendi merkilega þjónustu við mannkynið. Hið sama gildir um þá hófsömu, viðurkenndu heimspekinga efnishyggjunnar sem hafa innt af hendi þjónustu (við mannkynið).
Vér lítum á þekkingu og visku sem grundvöll mannlegra framfara og hyllum víðsýna heimspekinga. Lestu vandlega árbók Háskólans í San Francisco til þess að sannleikurinn megi verða þér ljós.
Hvað varðar hin huglægu skynvit, þá eru þau í sannleika eigindir sem eru áskapaðar sálinni, á sama hátt og útgeislun ljóssins er eðlislæg eigind sólarinnar. Sólargeislarnir endurnýjast en sjálf er sólin söm og óbreytt. Íhuga hvernig mannlegir vitsmunir eflast og veikjast og hverfa stundum með öllu, þar sem sálin aftur á móti er óbreytileg. Til þess að hugurinn geti opinberað sig verður mannslíkaminn að vera heill, og heilbrigður hugur getur aðeins búið í heilbrigðum líkama en sálin er aftur á móti óháð líkamanum. Það er fyrir atbeina sálaraflsins sem hugurinn skilur, beitir ímyndunarafli og áhrifum en sálin sjálf er frjálst afl. Hugurinn skilur hið afstæða með hjálp hins hlutlæga, en sálin hefur takmarkalausar birtingar sem tilheyra henni sjálfri. Huganum eru reistar skorður, sálin er takmarkalaus. Það er með fulltingi skilningarvita, svo sem sjónar, heyrnar, lyktar, smekks og snertingar, sem hugurinn skilur en sálin er óháð öllum milliliðum. Eins og þú sérð er sálin, hvort sem þú ert vakandi eða sofandi, ætíð virk og á hreyfingu. Vera kann að hún í draumi leysi flókið vandamál sem var óleysanlegt í vöku. Auk þess skilur hugurinn ekki lengur þegar skynfærin hætta að starfa og á fósturstiginu og í frumbernsku er ályktunarhæfni engin, en sálin er aftur á móti ætíð gædd fullum styrk. Í stuttu máli styðja margar sannanir að þótt skynsemin tapist sé sálaraflið áfram til. Andinn hefur aftur á móti ýmis þróunarstig.
Hvað tilvist anda í steinaríkinu varðar er hafið yfir allan vafa að steinefnin búa yfir lífi og anda í samræmi við þarfir þróunarstigs þeirra. Efnishyggjumennirnir hafa einnig uppgötvað þennan hulda leyndardóm og nú halda þeir því fram að allir hlutir séu lífi gæddir, líkt og Hann segir í Kóraninum: „Allt lifir.“
Í jurtaríkinu er að finna vaxtarorku og þessi vaxtarorka er andinn. Í dýraríkinu er að finna snertiskyn, en í heimi mannsins er að finna alltumlykjandi afl. Á öllum undangengnum stigum er afl skynseminnar fjarverandi, en sálin er til og opinberar sjálfa sig. Þreifiskynið fær ekki skilið sálina en rökhæfni hugans sannar aftur á móti tilvist hennar.
Á sama hátt sannar hugurinn tilvist ósýnilegs veruleika sem umlykur allt sem lifir og á sér tilvist og birtingu á öllum stigum, en eðli hans er ofvaxið mannlegum skilningi. Þannig getur steinaríkið hvorki gert sér grein fyrir náttúrunni né fullkomnun jurtaríkisins, jurtaríkið getur ekki gert sér grein fyrir eðli dýraríkisins og dýraríkið skilur ekki eðli mannlegs veruleika sem uppgötvar og umlykur alla hluti.
Dýrið er bandingi náttúrunnar og getur ekki vikið frá reglum hennar og lögum. En í manninum er að finna uppgötvunarafl sem sigrast á heimi náttúrunnar, hlutast til um lögmál hennar og stjórnar þeim. Svo dæmi sé nefnt: öll steinefni, plöntur og dýr eru fangar náttúrunnar. Sólin í allri sinni tign er náttúrunni svo undirgefin, að hún hefur engan eigin vilja og getur ekki vikið hársbreidd frá lögmálum hennar. Á sama hátt geta engar aðrar verur, hvort sem þær tilheyra steina-, jurta- eða dýraríkinu, vikið frá lögmálum náttúrunnar – nei, þær eru allar bandingjar hennar. En þótt líkami mannsins sé fangi náttúrunnar, þá er hugur hans og sál frjáls og stjórnar náttúrunni.
Gef gaum að þessu: Samkvæmt lögmáli náttúrunnar lifir maðurinn, hrærist og hefur tilvist sína á jörðunni, samt geta sál hans og hugur gripið inn í lög náttúrunnar og flogið eins og fuglinn í loftinu, siglt hraðbyri um höfin, kannað djúpin eins og fiskurinn og uppgötvað leyndardóma þeirra. Vissulega er þetta mikill sigur yfir lögmálum náttúrunnar.
Þannig er því einnig varið með raforkuna: þetta hverfula, hamslausa afl, sem klýfur fjöllin lokar maðurinn inni í ljósaperu! Augljóslega eru þetta inngrip í lög náttúrunnar. Á sama hátt uppgötvar maðurinn leyndardóma náttúrunnar sem samkvæmt lögum hennar hljóta að vera duldir. Hann flytur þá af sviði hins ósýnilega yfir á svið hins sýnilega. Einnig þetta er íhlutun í lög náttúrunnar. Á sama hátt uppgötvar hann innri eiginleika hlutanna sem eru leyndir í náttúrunni. Enn fremur varpar hann ljósi á liðna atburði sem horfnir eru úr minni og með rökvísi sinni sér hann atburði framtíðar sem enn eru óþekktir. Auk þess takmarka lög náttúrunnar samskipti og uppgötvanir við litlar vegalengdir, en með innra afli sínu sem afhjúpar veruleika allra hluta tengir maðurinn saman austrið og vestrið. Þetta er líka íhlutun í lögmál náttúrunnar. Sömuleiðis eru allir skuggar hverfulir samkvæmt lögum náttúrunnar, en maðurinn festir þá á plötu og einnig það er íhlutun í lög náttúrunnar. Gef gaum að þessu: Öll vísindi, iðnir, listgreinar, uppfinningar og uppgötvanir voru eitt sinn leyndardómar sem náttúran varðveitti og hljóta að dyljast samkvæmt lögmáli hennar, samt raskar maðurinn þessu lögmáli með uppgötvunarafli sínu og flytur þessa duldu leyndardóma af sviði hins ósýnilega til hins sýnilega. Hér er enn um að ræða inngrip í lög náttúrunnar.
Í stuttu máli: Þetta innra skynvit sem augað fær ekki numið þrífur sverðið úr höndum náttúrunnar og greiðir henni öflugt högg. Engin önnur vera, hversu máttug sem hún er, hefur til að bera slíka hæfni og fullkomnun. Manninum er gefinn skilningur og vilji en náttúrunni ekki. Náttúran er fangin, maðurinn er frjáls. Náttúran er rúin skilningi, maðurinn skilur. Náttúran þekkir ekki hið liðna, maðurinn þekkir það. Náttúran segir ekki fyrir um framtíðina, en með greiningarhæfni sinni sér maðurinn fyrir ókomna atburði. Náttúran hefur enga sjálfsvitund, maðurinn þekkir alla hluti.
Geri einhver ráð fyrir því að maðurinn sé aðeins hluti af heimi náttúrunnar og þessi fullkomna hæfni sem hann hefur til að bera sé aðeins birtingarmynd á heimi náttúrunnar og náttúran sé því höfundur þessarar fullkomnu hæfni og geti því ekki verið svipt henni – þeim hinum sama svörum við og segjum: Hlutinn er háður heildinni; hlutinn getur ekki haft til að bera fullkomnun sem heildin er svipt.
Með náttúrunni er átt við þær eðlislægu eigindir og nauðsynlegu tengsl, sem eiga uppruna sinn í veruleika hlutanna. Og þótt þessi veruleiki hlutanna sé afar fjölbreytilegur er hann samt innbyrðis tengdur. Þessir fjölbreyttu veruleikar hafa þörf fyrir allt-samræmandi tæki sem tengir þá alla saman. Svo dæmi sé nefnt: Þótt líffæri og limir mannslíkamans, einstakir hlutar hans og efni, séu ólík innbyrðis tengist allt hvert öðru með tilhlutan allt-samræmandi tækis sem samhæfir allt og þetta tæki er sál mannsins sem kemur því til vegar að allir hlutar líkamans starfa saman í fullkomnu samræmi og með óskeikulli reglufestu og gerir órofið samhengi lífsins þannig mögulegt. Mannslíkaminn er hins vegar með öllu ómeðvitaður um þetta allt-samræmandi tæki en samt starfar hann með reglubundnum hætti og leysir af hendi verkefni sín samkvæmt vilja þess.
Og nú hvað heimspekingana varðar: Þeir tilheyra tveimur skólum. Hinn vitri Sókrates trúði á einingu Guðs og tilvist sálarinnar eftir dauðann, en þar sem skoðun hans fór í bága við hugmyndir hinna þröngsýnu á dögum hans, létu þeir þennan guðdómlega speking drekka eitur. Allir heimspekingar sem trúa á Guð og menn visku og skilnings sem hafa gáð að þessum takmarkalausa fjölda verunda, hafa skilið að í þessum mikla og endalausa alheimi eiga allir hlutir upphaf sitt í steinaríkinu og að það sem af steinaríkinu rís er jurtaríkið, það sem af jurtaríkinu rís er dýraríkið og það sem af dýraríkinu rís er ríki mannsins. Hátindur þessa takmarkalausa alheims með allri sinni tign og dýrð væri því maðurinn sjálfur sem í þessari veröld stritar og þjáist um hríð af ýmsum meinsemdum og mæðu, leysist að lokum upp og skilur hvorki eftir sig ummerki né ávöxt. En væri því þannig varið leikur enginn efi á því að þessi óendanlegi alheimur myndi með allri sinni fullkomnun engan árangur bera og enda í blekkingu – engir ávextir, engin áhrif og enginn varanleiki. Hann væri firrtur allri merkingu. Þeir voru þess fullvissir að svo væri ekki og að þessi mikla vinnustofa með allri sinni orku, undursamleika og takmarkalausri fullkomnun gæti ekki að lokum orðið að engu. Því er fullvíst að til er annað líf, en eins og jurtaríkið er ómeðvitað um ríki mannsins þekkjum við mennirnir ekki heldur hið mikla líf sem tekur við af lífi okkar hér á jörðu. Að okkur bresti skilning á því lífi sannar þó engan veginn að það sé ekki til. Steinaríkið er sér til að mynda algjörlega ómeðvitað um tilvist hins mannlega heims og getur ekki skilið hann, en fáfræði um einhvern hlut sannar ekki að hann sé ekki til. Fjölmargar og óyggjandi sannanir eru fyrir því að þessum takmarkalausa heimi lýkur ekki með þessu lífi mannsins.
Og nú hvað varðar kjarna guðdómsins: Hann ákvarðast í sannleika ekki af neinu nema sínu eigin eðli og ekki er með neinu móti hægt að skilja hann. Því að hvaðeina sem maðurinn getur gert sér í hugarlund er veruleiki sem háður er takmörkunum og er ekki ótakmarkaður - hann er afmarkaður, ekki alltumlykjandi. Maðurinn getur skilið hann og stjórnað honum. Það er sömuleiðis ljóst að allar mannlegar hugmyndir eru afstæðar, ekki algildar; þær eiga sér huglæga tilvist, ekki efnislega. Sundurgreining stiga í efnisheiminum tálmar einnig skilningi. Hvernig getur þá hið hverfula gert sér í hugarlund veruleika hins algilda? Sundurgreining stiga á sviði hins hverfula tálmar skilningi eins og áður var nefnt. Steinefni, plöntur og dýr eru svipt huglægum skynvitum mannsins sem uppgötva veruleika allra hluta, en maðurinn sjálfur skilur öll stig sem eru honum óæðri. Öll æðri stig skilja hin óæðri og uppgötva veruleika þeirra, en hin óæðri eru sér ómeðvituð um hin æðri og geta ekki skilið þau. Þannig getur maðurinn ekki skilið kjarna guðdómsins en með afli skynsemi sinnar, með rannsókn, innsæi og opinberandi krafti trúar sinnar getur hann trúað á Guð og uppgötvað hylli náðar Hans. Hann verður þess fullviss að þótt hinn guðlegi kjarni sé auganu ósýnilegur og tilvist guðdómsins óáþreifanleg, þá eru óyggjandi andlegar sannanir fyrir tilveru þessa ósýnilega veruleika. Hinn guðlegi kjarni eins og hann er í sjálfum sér er ofar öllum orðum. Eðli ljósvakans er til að mynda óþekkt, en tilvist hans verður ljós af áhrifum hans: hitanum, ljósinu og rafmagninu sem eru bylgjuhreyfingar í honum. Þessar bylgjur sanna því tilvist ljósvakans. Og þegar við íhugum úthellingu guðdómlegrar náðar verðum við fullviss um tilvist Guðs. Vér sjáum til dæmis, að tilvera allra verunda, lifandi og dauðra, er háð samböndum ýmissa frumefna og eivera þeirra stafar af sundrun samsettra frumefna sem veldur því að hin ýmsu sambönd frumefnanna rofna. Og ef samsetning frumefnanna veldur því að verundir verða til og við vitum að þær eru takmarkalausar og þær eru afleiðing, hvernig getur Orsökin þá verið endanleg?
Myndun er af þrennu tagi og aðeins þrennu: tilviljun, nauðsyn og vilja. Samsetning hinna ýmsu frumefna getur ekki verið tilviljun því að sérhver afleiðing á sér orsök. Hún getur ekki stafað af nauðsyn, því þá hlýtur myndunin að vera eðlislægur eiginleiki hinna samsettu hluta og eðlislægan eiginleika einhvers hlutar er með engu móti hægt að firra honum sjálfum, samanber ljósið, sem upplýsir hlutina, hitann, sem veldur útþenslu frumefnanna, og sólargeislana sem eru höfuðeigind sólarinnar. Undir slíkum kringumstæðum yrði sundrun eða upplausn hvaða myndunar sem er útilokuð, því að ekki er hægt að aðskilja áskapaða eigind einhvers hlutar þeim hinum sama hluti. Þriðja myndunin er eftir og hún er sú sem gerist af vilja, það er að segja, hún er ósýnilegt afl sem við nefnum Hinn aldna mátt og kemur samruna og tengingu þessara frumefna til vegar, og sérhver myndun elur af sér ákveðna verund.
Hvað varðar eiginleika og fullkomnun, svo sem vilja, þekkingu, vald og aðrar fornar eigindir, sem við eignum hinum guðdómlega veruleika, þá eru þau tákn sem spegla tilvist verundanna á hinu sýnilega sviði en ekki algjör fullkomnun hins guðlega kjarna sem er ofar öllum skilningi. Þegar við til að mynda íhugum hinar sköpuðu verundir sem hafa til að bera algjöra reglu og fullkomnun, drögum við þá ályktun að Hinn aldni máttur sem tilvist þessara verunda er háð geti ekki verið fávís; því segjum við að Hann sé alvitur. Hann getur ekki verið vanmáttugur, þess vegna hlýtur hann að vera alvoldugur; hann er ekki fátækur, því hlýtur hann að vera eigandi alls; hann er ekki eivera, því hlýtur hann að vera hinn eilífi. Tilgangurinn með þessum orðum er að sýna fram á að með því að nefna eigindir og fullkomnanir þessa allsherjar-veruleika, erum við aðeins að hafna ófullkomnun, en ekki að gefa til kynna fullkomnanir sem hugur mannsins getur skilið. Því segjum við, að eigindir hans séu óþekkjanlegar.
Í samandregnu máli: Þessi allsherjar-veruleiki með öllum sínum eigindum og eiginleikum sem við höfum nefnt er heilagur og hafinn yfir alla hugsun og allan skilning. Þegar við íhugum af víðsýni þennan takmarkalausa alheim, sjáum við að hreyfing án aflvaka og afleiðing án orsakar er útilokuð og að sérhver verund hefur orðið til vegna ýmissa verkana og verður stöðugt fyrir áhrifum. Þessi áhrif stafa jafnframt af enn öðrum áhrifum. Til að mynda vaxa plöntur og blómgast þegar vorregnið fellur, en sjálft skýið myndast vegna ýmissa skilyrða og þessi skilyrði, hvert fyrir sig, eru tilkomin vegna áhrifa af enn öðrum skilyrðum og áhrifavöldum. Jurtir og dýr vaxa til að mynda og dafna undir áhrifum þess sem heimspekingar okkar daga nefna vetni og súrefni – þessi tvö frumefni verka á plöntur og dýr en verða að sínu leyti til vegna annarra orsaka. Hið sama má segja um allt annað sem skapað er, hvort heldur það hefur áhrif á aðra hluti eða verður fyrir áhrifum af þeim. Slíkt ferli áhrifa og verkana heldur áfram, en að staðhæfa að það haldi áfram að eilífu er augljós fjarstæða. Slík keðja orsaka og afleiðinga hlýtur þannig af nauðsyn að leiða til Hans sem er hinn eilífi, hinn almáttugi, sem ekki er háður neinu nema sjálfum sér og er hinsta orsök alls sem er. Þennan allsherjar-veruleika er ekki hægt að skynja, hann er ósýnilegur. Það hlýtur hann að vera af nauðsyn, því hann er alltumlykjandi, ekki takmarkaður og slíkar eigindir skýra aðeins afleiðinguna, ekki orsökina.
Og þegar við íhugum þessi mál, sjáum við að maðurinn er eins og smágert líffæri í ávexti. Þessi ávöxtur hefur þroskast af blóminu, blómið hefur sprottið á trénu, trénu er viðhaldið af æðasafanum og æðasafinn hefur myndast af mold og vatni. Hvernig getur þá þetta smágjörva líffæri skilið eðli garðsins, gert sér garðyrkjumanninn í hugarlund eða áttað sig á verund hans? Það er augljóslega ógjörningur. Ef umrætt líffæri hefði skilning og hugsun myndi það sjá að garðurinn, tréð, blómið og ávöxturinn hefðu með engu móti getað orðið til af sjálfu sér í slíkri reglu og fullkomnun. Þannig mun hin vitra og hugsandi sál skilja með fullri vissu að þessi óendanlegi alheimur í allri sinni tign og fullkominni reglu gæti ekki hafa orðið til af sjálfum sér.
Þannig eru til í heimi tilverunnar öfl sem augað fær ekki numið – af þessu tagi er afl ljósvakans sem áður var minnst á og sem hvorki er hægt að skynja eða sjá. En fyrir áhrif þessa afls, það er að segja af bylgjum þess og sveiflum, birtist ljós, hiti og rafmagn. Þannig er því einnig varið með afl vaxtarins, tilfinninganna, skilningsins, hugsunarinnar, minnisins, hugmyndaflugsins og dómgreindarinnar: augað fær ekki greint þessa innri eiginleika og skynfærin skynja þá ekki, samt eru þeir allir augljósir vegna þess sem þeir koma til leiðar.
Og nú hvað varðar hið takmarkalausa afl sem engin takmörk þekkir; takmörkunin sannar sjálf tilvist hins takmarkalausa, því að hið takmarkaða þekkist aðeins vegna hins ótakmarkaða, líkt og hið veika sannar tilvist hins sterka, fáfræði tilvist þekkingar, fátækt tilvist auðæfa. Án auðs væri engin fátækt, án þekkingar engin fáfræði, án ljóss ekkert myrkur. Myrkrið er sjálft sönnun þess að ljósið er til, því myrkrið er fjarvist ljóss.
Og hvað náttúruna varðar, þá er hún aðeins kjarnlægir eiginleikar og nauðsynleg vensl sem eru ásköpuð veruleika hlutanna. Og þótt þessir takmarkalausu veruleikar séu ólíkir í einkennum sínum eru þeir samt fullkomlega samstilltir og tengdir. Þegar sýn mannsins víkkar og málið er yfirvegað af gaumgæfni verður augljóst að sérhver veruleiki er aðeins eðlislæg forsenda annarra veruleika. Til að tengja saman og samhæfa þessa ólíku og takmarkalausu veruleika er þörf á allt-samræmandi afli, svo að sérhver hluti þessa heims tilvistar geti leyst af hendi sitt eigið verkefni í fullkominni reglu. Gef þú gaum að mannslíkamanum og lát hlutann verða þér vísbending um heildina. Aðgæt hversu hinir ólíku hlutar og limir líkamans eru innbyrðis tengdir og samhæfðir. Sérhver hluti er eðlislæg forsenda allra hinna hlutanna og gegnir sínu eigin hlutverki. Hér er það hugurinn sem er hið allt-samræmandi tæki og sem sameinar með þessum hætti alla hina samstæðu hluta til þess að sérhver þeirra geti innt af hendi sitt sérstaka starf í fullkominni reglu og þannig verða samhæfing og viðbrögð möguleg. Allir hlutarnir eru háðir sérstökum lögum sem eru tilverunni nauðsynleg. Ef þetta allt-samræmandi tæki sem stjórnar öllum þessum hlutum skaðast með einhverjum hætti, er enginn vafi á því að hinir samstæðu hlutar og limir hætta að starfa með eðlilegum hætti; og þótt ekki sé hægt að sjá eða greina þetta allt-samræmandi tæki í musteri mannsins og veruleiki þess sé óþekktur birtir það sig í áhrifum sínum með hinum áþreifanlegasta hætti.
Með þessu hefur verið útskýrt og sönnur færðar á að hinar takmarkalausu verundir í þessum undursamlega alheimi geta aðeins innt af hendi starf sitt með eðlilegum hætti þegar þeim er stjórnað og leiðbeint af þessum allsherjar-veruleika – og markmiðið er að regla megi fá staðfestu í heiminum. Það er til að mynda augljóst og ekki hægt að mæla gegn því að hinir samstæðu hlutar mannslíkamans verka hverjir á aðra og hafa samvinnu sín á milli, en það nægir samt ekki; allt-samræmandi tæki sem stjórnar og leiðbeinir þessum samstæðu hlutum er nauðsynlegt til þess að þeir geti með atbeina gagnkvæmra áhrifa og samstarfs innt af hendi nauðsynleg og sérstök verkefni sín í fullkominni reglu.
Þér er það ljóst, lof sé Guði, að gagnverkanir og samstarf allra verunda, stórra og smárra, er augljóst og fullsannað. Gagnverkanir eru deginum ljósari þegar um stórar verundir er að ræða, en þótt gagnverkanir séu óþekktar þegar um smáar verundir er að ræða, gefur hlutinn vísbendingu um heildina. Allar þessar gagnverkanir eru samhæfðar af þeim alltumlykjandi krafti sem er burðarás þeirra, miðpunktur, uppspretta og hreyfiafl.
Vér höfum til að mynda séð að augljóst samstarf er á milli samstæðra hluta mannslíkamans og að þessir hlutar og limir inna af hendi þjónustu við alla hluta líkamans. Svo dæmi sé tekið: Höndin, fóturinn, augað, eyrað, hugurinn, hugarflugið – allt hjálpar þetta hinum ýmsu hlutum og limum líkamans, en allar þessar gagnverkanir eru samtengdar af ósýnilegum, alltumlykjandi krafti sem kemur því til leiðar að þessar gagnverkanir gerast í fullkominni reglu. Þetta er innra skynvit mannsins, það er að segja, andi hans og hugur, en hvort tveggja er ósýnilegt.
Leið þér enn fremur fyrir sjónir vélar og vinnustofur og gagnverkanir hinna ýmsu samstæðu hluta og deilda og hve nátengdar þær eru hver annarri. Öll þessi tengsl og gagnverkanir eru samt samhæfðar af miðstýriafli sem er hreyfikraftur þeirra, burðarás og uppspretta. Þessi miðlægi kraftur er ýmist gufuaflið eða hæfni hins snilligáfaða huga.
Það er því augljóst mál og sannað að gagnverkanir, samstarf og innbyrðis tengsl meðal verundanna eru háð stjórn og vilja hreyfikrafts sem er uppruni, hreyfiafl og burðarás allra innbyrðis verkana í alheiminum.
Þannig köllum við alla þá skipan og tilhögun tilviljanakennda sem ekki er háð fullkominni reglu, en allt sem háð er reglu og skipulagi, hefur fullkomin innbyrðis tengsl og sérhvern hlut á réttum stað og er höfuðforsenda hinna samstæðu hluta, köllum við samsetningu sem háð er vilja og þekkingu. Enginn vafi leikur á því að þessar ótakmörkuðu verundir og sambönd allra þessara fjölbreytilegu þátta sem skipað er í óteljandi form, hljóta að hafa runnið frá Veruleika, sem ekki getur með neinu móti verið rúinn vilja eða skilningi. Þetta er huganum auðsætt og sannað og enginn getur neitað því. Samt er því ekki haldið fram, að skilningur hafi fengist á þessum allsherjar-veruleika eða eigindum hans. Við höldum því fram samt sem áður að þessar takmarkalausu verundir, þessi nauðsynlegu vensl, þessi fullkomna tilhögun, hljóti af nauðsyn að hafa komið frá uppsprettu sem ekki er rúin vilja og skilningi, og að þessi takmarkalausa samsetning sem mótuð er í óendanleg form hljóti að eiga upptök sín í alltumlykjandi visku. Á móti þessu getur enginn mælt nema hinir einþykku og þverúðarfullu sem afneita skýrum og augljósum vitnisburði og orð þessa blessaða helgiorðs eiga við: „Þeir eru heyrnarlausir, þeir eru mállausir, þeir eru blindir og snúa ekki aftur.“
Og nú hvað varðar þá spurningu hvort eiginleikar hugans og mannssálarinnar séu hinir sömu. Þessir eiginleikar eru aðeins meðfæddir eiginleikar sálarinnar, svo sem ímyndunaraflið, hugsunin og skilningurinn; kraftar sem eru kjarnlæg forsenda hins mannlega veruleika líkt og sólargeislinn er eigind sem er ásköpuð sólinni. Musteri mannsins er eins og spegill, sál hans eins og sólin og eigindir hugans eins og geislarnir sem koma frá þessari uppsprettu ljóssins. Vera má að geislinn hætti að falla á spegilinn, en með engu móti er hægt að skilja hann frá sólinni.
Í stuttu máli: Heimur mannsins er yfirnáttúrlegur samanborið við jurtaríkið þótt í veruleikanum sé hann það ekki. Frá sjónarmiði plöntunnar er veruleiki mannsins, sjón hans og heyrn, yfirnáttúrleg, og plöntunni er ógjörningur að skilja þennan veruleika og eðli hinna huglægu krafta mannsins. Á sama hátt er manninum ógjörningur að skilja hinn guðlega kjarna eða eðli þess volduga heims sem kemur á eftir þessum heimi. Náðargjafir þessa guðlega kjarna eru þó gefnar öllum verum og manninum ber miklu fremur skylda til að íhuga í hjarta sínu útgeislun hinna guðdómlegu miskunnsemda, þar á meðal sálina, en sjálfan hinn guðdómlega eðliskjarna. Þetta eru ystu mörk mannlegs skilnings. Eins og fyrr var nefnt eru þeir eiginleikar og þær fullkomnanir, sem við eignum hinum guðlega kjarna, afleiddar af tilvist verundanna og könnun á þeim, en ekki af því að við höfum skilið kjarna eða fullkomnun Guðs. Þegar við segjum að hinn guðlegi kjarni hafi skilning og sé frjáls eigum við ekki við að við höfum uppgötvað hinn guðlega vilja eða áform, heldur öllu fremur að við höfum öðlast þekkingu á þeim vegna þeirrar guðlegu náðar sem birtist og er augljós í veruleika hlutanna.
Og nú hvað varðar félagslegar meginreglur vorar, það er að segja, kenningar hans heilagleika Bahá’u’lláh, sem dreift var víða fyrir 50 árum: Þær spanna vissulega allar aðrar kenningar. Það er ljóst og auðsætt að án þessara kenninga mun mannkynið fara á mis við þroska og framþróun. Sérhvert samfélag í heiminum finnur í þessum guðlegu kenningum tjáningu æðstu óska sinna. Þessar kenningar eru eins og tréð sem ber bestu ávexti allra trjáa. Heimspekingar finna til að mynda í þessum himnesku kenningum fullkomnustu lausn á félagslegum vandamálum og jafnframt sanna og göfuga skýringu á málum sem heyra undir heimspekilegar ráðgátur. Á sama hátt sjá trúaðir menn veruleika trúarbragðanna skýrt opinberaðan í þessum himnesku kenningum og staðfesta með afdráttarlausum rökum, að þær eru hið sanna og ósvikna lyf við sjúkdómum og meinsemdum mannkynsins. Ef þessum æðstu kenningum yrði dreift myndi mannkynið frelsast frá öllum hættum, frá öllum ólæknandi meinsemdum og sjúkleika. Á sama hátt eru efnahagsreglur bahá’ía líkamning mestu eftirsóknar launþegastéttanna og hagfræðinga af ýmsum skólum.
Í stuttu máli: Allar deildir og flokkar fá óskir sínar uppfylltar í kenningum Bahá’u’lláh. Þegar þessar kenningar verða kunngerðar í kirkjum, moskum og á öðrum tilbeiðslustöðum, hvort sem um er að ræða fylgjendur Búddha eða Konfúsíusar, innan stjórnmála eða meðal efnishyggjumanna, munu allir bera því vitni að þessar kenningar færa mannkyni nýtt líf og eru skjótvirkt græðilyf fyrir allar meinsemdir samfélagslífsins. Enginn getur fundið nokkuð að þessum kenningum, nei – þegar þær hafa verið kunngerðar munu þær verða dásamaðar og hylltar og allir fallast á algjöra nauðsyn þeirra og segja: „Vissulega er þetta sannleikur og þegar sannleikanum sleppir tekur aðeins villa við.“
Að lokum: Þessi fáu orð eru rituð og verða öllum skýr og afdráttarlaus vitnisburður um sannleikann. Hugleið þau í hjarta þínu. Vilji sérhvers þjóðhöfðingja kemur til framkvæmda meðan hann ríkir, vilji sérhvers heimspekings finnur tjáningu í fáeinum lærisveinum í hans eigin lífi, en afl heilags anda skín geislandi í veruleika boðbera Guðs og eflir vilja þeirra að því marki að hann hefur áhrif á mikla þjóð í þúsundir ára, endurnýjar mannssálina og endurlífgar mannkynið. Íhuga hve voldugur þessi kraftur er. Hann er fullnægjandi og óviðjafnanlegur, staðfesting á sannleiksgildi ætlunarverks spámanna Guðs og skýr vitnisburður um vald guðlegs innblásturs.
Yfir þér hvíli dýrð allra dýrða.
Haifa, 21. sept. 1921
Tafla til dr. Auguste Forels
Samkvæmt sögulegum heimildum er hugsanlegt að „dr. Fisher“ vísi til dr. Josephine Fallscheer.
‘Abdu’l‑Bahá vísar hér til ræðu sem hann hélt árið 1912 við Stanford-háskólann í Palo Alto, Kaliforníu. Fyrirlesturinn var gefinn út í bæjarblaðinu og er einnig að finna í bókinni Boðun heimsfriðar [The Promulgation of Universal Peace], safni fyrirlestra hans í Ameríku.
Í þeim fyrirlestri fjallar ‘Abdu’l‑Bahá um muninn á efnishyggjuheimspeki Vesturlanda nútímans og heimspekilegri rökræðuhefð Grikkja og Persa. Hann leggur áherslu á muninn á kenningum um eðli náttúrunnar og uppruna mannsins.