Nokkrum spurningum svarað
‘Abdu’l‑Bahá
Tekið saman og þýtt úr persnesku af Laura Clifford Barney
Nýleg endurskoðun nefndar við Bahá’í heimsmiðstöðina
Útbreiðsla trúar Bahá’u’lláh til Vesturlanda á síðasta áratug nítjándu aldar gaf fljótt tilefni til gagnkvæmrar hreyfingar til austurs. Innan fárra ára komu fyrstu hópar vestrænna pílagríma til fangelsisins í ‘Akká þar sem jarðnesku lífi og boðunarferli Höfundar trúarinnar hafði lokið og þar sem ‘Abdu’l‑Bahá, Miðja sáttmála Hans, bjó áfram. Ein af eftirtektarverðustu persónunum meðal þessara snemmbúnu pílagríma var Laura Clifford Barney, dóttir virtrar fjölskyldu fræðimanna og listamanna frá Washington, D. C. May Bolles Maxwell kynnti henni trúna í París um 1900 og skömmu síðar hélt hún í sína fyrstu heimsókn af mörgum til ‘Akká.
Þetta voru háskalegustu og átakamestu árin í lífi ‘Abdu’l‑Bahá þegar tyrknesk stjórnvöld héldu honum föngnum innan múra fangelsisborgarinnar. Hann var undir stöðugu eftirliti og stóð frammi fyrir stöðugri ógn um að verða sendur aftur í útlegð eða tekinn af lífi. Við svo þjakandi og uggvænlegar aðstæður var varasamt að taka á móti hvers konar gestum, hvað þá að hýsa virta vestræna gesti. Samt var ‘Abdu’l‑Bahá staðráðinn í að hlúa að fræjum trúarinnar sem höfðu skotið frjóöngum. Mitt á þessu dimma tímabili, á árunum 1904–1906, gat Clifford Barney komið í nokkrar heimsóknir sem stóðu stundum vikum eða mánuðum saman og naut þeirra forréttinda að vera honum oft samvista og spyrja spurninga um margvísleg efni. Mörg samtalanna fóru fram við hádegisverðarborðið. Ráðstafanir voru gerðar til þess að einn af tengdasonum ‘Abdu’l‑Bahá, eða einn af þremur riturum hans á þessum tíma, skrifuðu svör hans niður á persnesku. Valdir voru kaflar úr því efni sem þannig varð til og ‘Abdu’l‑Bahá leiðrétti þá tvisvar eigin hendi og endurskoðaði stundum verulega auk þess sem hann fór vandlega yfir endanlegt orðalag.
Þegar þessu ferli endurskoðunar og efnisvals lauk komu út þrjár frumútgáfur af bókinni Nokkrum spurningum svarað frá helstu útgáfufyrirtækjum ársins 1908, ein með upprunalega persneska textanum frá E. J. Brill í Hollandi, önnur með enskum texta Clifford Barney frá Kegan Paul, Trench, Trübner & Co. í London og sú þriðja var frönsk þýðing Hippolyte Dreyfus (sem síðar kvæntist Clifford Barney) frá Ernest Leroux í París.
Lausleg skoðun efnisyfirlits sýnir breidd viðfangsefnisins. Fyrsti hlutinn fjallar um áhrifin sem stofnendur nokkurra heimstrúarbragða hafa haft í gegnum mannkynssöguna og auk þess eru nokkrir kaflar helgaðir útskýringum á ákveðnum spádómum Biblíunnar. Í öðrum hluti er að finna nýjar túlkanir á meginþáttum kristinnar kenningar, svo sem skírn, þrenningu, altarissakramenti og upprisu Krists. Þriðji hlutinn tekur til meðferðar mátt og áhrifavald opinberenda Guðs – einstæða stöðu þeirra í heiminum, uppsprettu þekkingar þeirra og áhrifa, og hringrásina í birtingu þeirra á sjónarsviði sögunnar. Fjórði hluti fjallar um uppruna, krafta og aðstæður mannsins, þar með talda þróun mannsins á jörðinni, ódauðleika sálarinnar, eðli hugans og tengsl sálar og líkama. Í fimmta hlutanum er fjallað um ýmis viðfangsefni, allt frá raunhæfum viðfangsefnum eins og verkalýðsmálum og refsingu afbrotamanna að torræðari málefnum eins og endurholdgun og hugmyndum súfa um einingu tilverunnar.
Jafn umfangsmikil og viðfangsefnin kunna að virðast sem fjallað er um í þessari bók er henni ekki ætlað að vera tæmandi útskýring á sjálfstæðu hugmyndakerfi eins og fram kemur í heiti hennar. Fjölmargar grundvallarkenningar bahá’í trúarinnar eru því ekki nefndar sérstaklega. Auk þess var á þeim mánuðum og árum sem þessi svör voru gefin stundum fjallað um sama efni frá mismunandi sjónarhornum í öðrum samræðum með þeim afleiðingum að hugtökin sem nauðsynleg eru til skilnings á tilteknum viðfangsefnum geta dreifst á mismunandi kafla, eða innihald síðari kafla legið til grundvallar skilningi á hinum fyrri. Loks skal einnig tekið fram að þótt ‘Abdu’l‑Bahá hafi farið yfir textann og leiðrétt hann, reyndi hann ekki að breyta grunnformi svaranna eða endurskipuleggja og samræma efnistökin. Til þess að áhugasamur lesandinn fái heildstæða mynd af útskýringum ‘Abdu’l‑Bahá á tilteknu efni ætti hann að íhuga hvern kafla innan samhengis allrar bókarinnar og bókinna sjálfa innan stærra samhengis allra kenninga bahá’í trúarinnar.
Áhugavert dæmi í þessu tilviki er umfjöllunin um þróun tegundanna sem er tekin sérstaklega til meðferðar í fjórða hluta og skilja verður í ljósi nokkurra bahá’í kenninga, sérstaklega meginreglunnar um samræmi vísinda og trúarbragða. Trúarskoðanir eiga ekki að stangast á við vísindi og skynsemi. Lestur á sumum efnisgreinum í 46.–51. kafla kann að leiða til þess að einhverjir átrúendir komist að persónulegum niðurstöðum sem ganga þvert á niðurstöður nútíma vísinda. Allsherjarhús réttvísinnar hefur samt útskýrt að bahá’íar leitist við að samræma skilning sinn á fullyrðingum ‘Abdu’l‑Bahá staðfestum vísindalegum sjónarmiðum og þess vegna er ekki nauðsynlegt að draga þá ályktun af þessum efnisgreinum að þær lýsi hugmyndum sem vísindin hafa hafnað, til dæmis einhvers konar „hliðstæðri“ þróun sem gerir ráð fyrir sérstakri líffræðilegri þróun mannsins samhliða þróun dýraríkisins frá upphafi lífs á jörðinni.
Nákvæm yfirferð á orðum ‘Abdu’l‑Bahá í þessari bók og í öðrum heimildum bendir til þess að hugsun hans hafi ekki snúist um líffræðilegu þróunarkenninguna heldur heimspekilega, félagslega og andlega þýðingu þessarar nýju kenningar. Notkun hans á hugtakinu „tegund“ kallar til dæmis fram hugmyndina um eilífar eða varanlegar frummyndir en hugtakið er ekki skilgreint með þeim hætti í líffræði samtímans. Hann tekur mið af veruleika handan þessa efnislega heims. Þótt ‘Abdu’l‑Bahá staðfesti á öðrum stað þá líkamlegu eiginleika sem menn eiga sameiginlega með dýrinu og eru upprunnir í dýraríkinu leggur hann í þessum viðræðum áherslu á aðra hæfni, þ.e.a.s. skynvitundina, þá huglægu meðvitund sem aðgreinir manninn frá dýrinu og hvorki er að finna í dýraríkinu eða í náttúrunni sjálfri. Þessi einstæða hæfni, tjáning mannsandans, er ekki afurð þróunarferlis heldur er hún til staðar sem möguleiki í sköpunarverkinu. ‘Abdu’l‑Bahá útskýrir þetta þannig: „…þar sem maðurinn varð til fyrir tíu eða hundrað þúsund árum af sama jarðneska efni, í sama mælikvarða og magni, sams konar samsetningu og sömu samskiptum við aðrar verur er niðurstaðan sú að maðurinn var þá nákvæmlega sá sami og hann er nú.“ Hann segir síðan: „Og ef það gerist að liðnum þúsund milljónum árum að samsettir þættir mannsins koma saman í sömu hlutföllum, sameinaðir með sama hætti og í sömu samskiptum við aðrar verur, verður nákvæmlega sami maður til.“ Grundvallarrök hans beinast því ekki að vísindalegum niðurstöðum heldur að fullyrðingum efnishyggjumanna sem byggja á þessum niðurstöðum. Bahá’íar samþykkja kenningar þróunarvísindanna en ekki þá ályktun um að mannkynið sé aðeins tilviljunarkennd grein af meiði dýraríkisins – með öllum þeim samfélagslegum afleiðingum sem því eru samfara.
Á þeim árum sem liðin eru síðan upphaflega útgáfa þessarar bókar kom út hefur komið æ betur í ljós að þýðingin myndi njóta góðs af vandaðri og nákvæmri endurskoðun. Clifford Barney var, eins og hún segir sjálf, nemandi í persnesku en hver sem færni hennar í málinu var gat hún ekki náð fullum tökum á blæbrigðum þess og að sjálfsögðu ekki heldur nýtt sér þann einstæða skilning sem Shoghi Effendi hafði á helgitextunum og sem síðar varpaði ljósi á staðfestar þýðingar hans. Auk þess hafa aðeins fáeinar nauðsynlegar leiðréttingar verið gerðar á mörgum endurprentunum ensku þýðingarinnar og er hún að mestu óbreytt frá textanum í fyrstu útgáfunni.
Öld er liðin frá ferðalögum ‘Abdu’l‑Bahá til Vesturheims og af því tilefni er viðeigandi að kynna endurbætta þýðingu á þessum „ómetanlegu útskýringum“ í heiðursskyni við ódauðlegt framlag Laura Clifford Barney sem frumkvöðul og fyrsta þýðanda þessarar bókar. Meginmarkmið þessarar endurþýðingar hefur verið að kynna betur efni og stíl frumritsins, einkum með því að fanga með skýrari hætti blæbrigðin í útskýringum ‘Abdu’l‑Bahá og nálgast þannig betur orðalag þessa upphafna samræðuforms, og með því að þýða af fullri samkvæmni heimspekilegu hugtökin sem notuð eru í öllum textanum. Þótt þessi útgáfa sé ekki bundin af frumþýðingunni reynir hún engu að síður að halda svipfegurð hennar og beinskeyttu orðfæri.
Frá því bókin Nokkrum spurningum svarað var gefin út hefur hún verið traust heimild um djúpa innsýn ‘Abdu’l‑Bahá og hún er ómissandi í hverju bahá’í bókasafni. Shoghi Effendi sagði að bókin útskýrði grundvallarviðhorf málstaðarins á einföldu og skýru máli og hann leit svo á að innihald hennar væri nauðsynlegt til skilnings á mikilvægi og þýðingu bahá’í opinberunarinnar. Hann skrifaði að í Nokkrum spurningum svarað væri að finna „lausn á öllum þeim ráðgátum sem vakna í huga mannsins í leit hans að sannri þekkingu. Því oftar sem þessi bók er lesin af gaumgæfni og þolinmæði, þeim mun fleiri sannindi afhjúpar hún og þeim mun fullkomnari verður skilningurinn á innri sannleika hennar og þýðingu.“ Vonast er til að þessi nýja þýðing komi kynslóðum framtíðar að gagni þegar þær nálgast þessa óþrjótandi námu „þekkingar á andlegum, siðferðilegum og þjóðfélagslegum vandamálum.“
Formáli höfundar að fyrstu útgáfu
„Ég hef gefið þér mínar þreyttar stundir,“ mælti ‘Abdu’l‑Bahá þegar hann reis upp frá borði eftir að hafa svarað einni af spurningum mínum. Þetta gerðist dag hvern og á því varð ekki lát. Milli vinnustunda drógu ný verkefni úr þreytu hans og stundum gat hann talað lengi, en oft var hann kallaður burt eftir fáein andartök, jafnvel þótt efnið krefðist meiri tíma og síðan gátu liðið dagar og jafnvel vikur áður en hann féll tækifæri til að leiðbeina mér. En ég gat vel beðið þolinmóð, því að ég hafði alltaf frammi fyrir mér dýrmætari lexíu – lærdóminn um persónulegt líf hans.
Í nokkrum heimsóknum mínum til ‘Akká voru þessi svör rituð niður á persnesku meðan ‘Abdu’l‑Bahá talaði, ekki með birtingu fyrir augum heldur einfaldlega til að ég gæti notað þau í námi síðar meir. Í fyrstu þurfti að laga þau að munnlegri þýðingu túlksins og síðar að takmörkuðum orðaforða mínum, þegar ég hafði fengið smávegis þekkingu á persnesku. Þetta skýrir endurtekningu orða og orðasambanda, því enginn hefur meira vald á snjöllu og beinskeyttu orðfæri en ‘Abdu’l‑Bahá. Í þessum kennslustundum er hann kennarinn sem lagar sig að nemandanum, en ekki ræðumaðurinn eða skáldið.
Í þessari bók eru aðeins settir fram ákveðnir þættir bahá’í trúarinnar, sem höfða til allra manna með boðskapi sínum og gefa hverjum fyrirspyrjanda þau svör sem henta sérstökum þroska hans og þörfum.
Í mínu tilviki voru kenningarnar gerðar einfaldar og tillit tekið til takmarkaðrar þekkingar minnar og þær eru því engan veginn fullkomnar eða tæmandi eins og efnisyfirlitið gæti gefið til kynna en yfirlitinu var aðeins bætt við til að kynna viðfangsefnin sem fjallað var um. Ég tel þó að það sem hefur verið mér svo mikils virði geti komið öðrum að gagni, því að þrátt fyrir skoðanaágreining eru allir menn sameinaðir í leit sinni að veruleikanum og ég hef því beðið ‘Abdu’l‑Bahá um leyfi til að birta þessi svör.
Þau voru upphaflega ekki í neinni sérstakri röð en hafa nú verið flokkuð gróflega til hægðarauka fyrir lesandann. Persneska textanum hefur verið fylgt vandlega, stundum á kostnað enskunnar, og nokkrar breytingar gerðar á þýðingunni, en aðeins þar sem bókstafleg þýðing virtist of flókin og óljós. Innskotin orð sem þurfti til að gera merkinguna skýrari hafa ekki verið auðkennd á neinn hátt til að forðast of mikla truflun á hugsun og hugmyndum með tæknilegum innskotum eða skýringartáknum. Einnig hafa mörg persnesk og arabísk nöfn verið skrifuð á einfaldasta hátt án þess að fylgt væri af nákvæmni vísindalega umritunarkerfinu sem gæti truflað hinn almenna lesanda.
Laura Clifford Barney
1. hluti
Um áhrif spámannanna á þróun mannkyns
– 1 –
Náttúran lýtur einu allsherjarlögmáli
Náttúran er það ástand eða veruleiki sem hið ytra er uppspretta lífs og dauða, með öðrum orðum samsetning og sundrun allra hluta.
Þessi náttúra lýtur traustu skipulagi, órjúfanlegum lögmálum, fullkominni reglu og formi sem hún hverfur aldrei frá. Svo augljós er þessi sannleikur að horfir þú augum skilnings og skynsemi sérð þú að allir hlutir, allt frá hinni smæstu öreind til voldugustu himinhnatta eins og sólarinnar eða annarra stjarna á festingunni, lúta fullkominni reglufestu hvað varðar skipan, samsetningu, ytra form og hreyfingu og einu allsherjarlögmáli sem aldrei verður rofið.
En skoðir þú náttúruna sjálfa sérð þú að hún er hvorki gædd vitsmunum né vilja. Sem dæmi má nefna að eðli elds er að loga – hann logar án vitundar eða vilja. Eðli vatns er að streyma – það streymir án vilja og vitundar. Eðli sólar er að skína, hún sendir geisla sína án vitundar eða vilja. Eðli gufu er að stíga upp, það gerir hún án vilja eða vitundar. Því er ljóst að eðlileg hreyfing allra hluta er framknúin og ekkert hreyfist af eigin vilja nema dýrin og þá einkum maðurinn.
Maðurinn getur veitt náttúrunni viðnám og staðið í gegn henni vegna þess að hann uppgötvar eðli hlutanna og nær þannig stjórn á náttúrunni sjálfri. Að sönnu eiga öll hugvitssöm mannanna verk rót sína að rekja til þessarar uppgötvunargáfu. Sem dæmi má nefna uppfinningu ritsímans sem tengir austrið og vestrið. Því er augljóst að maðurinn ríkir yfir náttúrunni.
Er þá hægt að eigna náttúrunni sjálfri skipulagið, reglufestuna og lögmálin sem þú sérð í tilverunni þótt ljóst sé að hún er hvorki gædd vitund né vilja? Því er auðsætt að náttúran sem hvorki hefur vitund né vilja er í höndum almáttugs Drottins sem ríkir yfir heimi hennar og lætur hana leiða í ljós hvaðeina sem Honum þóknast.
Sumir segja að mannleg tilvera sé náttúruleg afurð og maðurinn hafi birst í veröldinni af hennar völdum. Ef það er rétt er maðurinn aðeins grein á meiði náttúrunnar. En er hugsanlegt að greinin hafi vilja, vitund og ákveðna fullkomna eiginleika sem ekki er að finna í meiðinum?
Því er ljóst að náttúran er í innsta eðli sínu í voldugum höndum Guðs og það er Hinn eilífi og alvaldi sem setur náttúrunni fullkomin lögmál og skipan og ríkir yfir henni.
– 2 –
Sannanir og röksemdir fyrir tilvist Guðs
Meðal augljósra röksemda og sannana fyrir tilvist Guðs er sú staðreynd að maðurinn hefur ekki skapað sig sjálfur og að skaparinn er annar en hann. Ljóst er og óumdeilanlegt að skapari mannsins er annar en maðurinn sjálfur því að vanmáttug vera getur ekki skapað aðra veru og virkur skapari verður að búa yfir öllum fullkomnum eiginleikum við sköpun handverks síns.
Getur handverkið verið fullkomið og skapari þess ófullkominn? Getur málverk verið meistaraverk og listmálarinn vanhæfur í þeirri list sem hann skapar? Nei. Málverkið er ekki listmálarinn, að öðrum kosti hefði það málað sig sjálft. Hversu fullkomið sem málverkið kann að vera er það meingallað í samanburði við listmálarann.
Þessi stundlegi heimur er þannig uppspretta ófullkomleika en Guð er höfundur hins fullkomna. Ófullkomleiki þessa stundlega heims er til vitnis um fullkomnun Guðs. Þegar þú til dæmis íhugar manninn sérð þú að hann er vanmegna og þessi vanmáttur hins skapaða er vitnisburður um mátt Hans sem er eilífur og alvaldur. Því ef ekki væri til máttur væri ekki hægt að hugsa sér vanmátt. Vanmáttur hins skapaða ber því mætti Guðs vitni. Án máttar væri enginn vanmáttur. Því er þessi vanmáttur til vitnis um að til er máttur í veröldinni.
Í þessum stundlega heimi er fátækt og þá hlýtur einnig að vera þar ríkidæmi. Í þessari stundlegu veröld er vanþekking, þá hlýtur líka að vera þar þekking. Ef ekki væri þekking væri engin vanþekking því vanþekking er skortur á þekkingu, og ef ekki væri tilvist væri ekkert tilvistarleysi.
Víst er að öll þessi stundlega veröld lýtur lögum og reglu sem hún getur ekki gengið í berhögg við. Maðurinn þarf af nauðsyn að beygja sig undir dauða, svefn og annað ástand – það er að segja, á vissum sviðum stjórnast líf hans af nauðsyn og sú stjórnun felur í sér tilvist Hans sem öllu stýrir. Þar sem stundlegi heimurinn er háður knýjandi nauðsyn, og sú nauðsyn er ein af grundvallarkröfum hans, hlýtur Hann að vera til sem í eðli sínu er óháður öllu sem er. Á sama hátt sýnir tilvist sjúks manns að til er heilbrigður maður því án hins síðarnefnda væri ekki hægt að gera ráð fyrir tilvist hins fyrrnefnda.
Því er augljóst að til er eilífur og almáttugur skapari sem býr yfir allri fullkomnun því annars væri Hann eins og hið skapaða. Eins er því farið með tilveruna alla – hið smæsta í sköpuninni ber því vitni að til er skapari. Til dæmis ber þessi brauðhleifur höfundi sínum vitni.
Miskunnsami Guð! Hin minnsta breyting á ytra formi hins smæsta í tilverunni sannar tilvist skapara. Hvernig gæti þá þessi takmarkalausi alheimur hafa skapað sjálfan sig og orðið til með samruna og víxlverkun frumefna? Hve fullkomlega fjarstæðukennd er ekki slík hugmynd!
Þetta eru fræðilegar röksemdir fyrir veikburða sálir en ef innri augun opnast birtast skýrar sannanir í hundrað þúsunda tali. Sá sem skynjar andann sem dvelur innra með honum þarf engra sannana við, en þeir sem sviptir eru náð andans hafa þörf fyrir ytri rök.
– 3 –
Þörfin fyrir fræðara
Þegar við beinum sjónum að tilverunni sjáum við að öll ríki hennar, steina-, jurta- og dýraríkið og ríki mannsins, þurfa á fræðara að halda.
Ef jörðin er ekki ræktuð þrífst þar illgresi en ef fenginn er jarðyrkjumaður til að rækta hana fæst uppskera sem færir lifandi verum næringu. Ljóst er því að jörðin þarfnast ræktunar bóndans. Lítum á trén. Ræktarlaus bera þau ekki ávexti og án ávaxta koma þau ekki að gagni. En í umsjá garðyrkjumanns verða þau frjósöm og með ræktun, þverun og græðingu gefur tréð af sér ljúffenga ávexti í stað hinna beisku sem það bar áður. Þetta eru skynsamleg rök sem mennirnir þarfnast á þessum degi.
Lítum einnig á dýrin: Með tamningu er dýrið gert húsvant, en maður sem ekki fær uppfræðslu verður eins og dýrið. Reyndar er það svo að sé maðurinn gefinn náttúrunni á vald verður hann jafnvel lægri en dýrið, en uppfræðsla gerir hann engli líkastan. Því flest dýr eta ekki sína tegund, en menn í Súdan, mitt í Afríku, drepa og eta hver annan.
Gæt að því að það er menntun sem gerir mönnum kleift að leggja undir sig austrið og vestrið. Hún er uppspretta alls framúrskarandi handverks, stuðlar að þessum miklu listgreinum og vísindum og er aflvaki nýrra uppgötvana og framkvæmda. Væri það ekki fyrir fræðara hefðu ekki fundist leiðir til að auka hagræði, efla menningu og mannlegar dyggðir. Sé maður skilinn eftir einn í óbyggðum þar sem hann finnur engan af sinni eigin tegund verður hann án efa eins og dýr. Ljóst er því að þörf er á fræðara.
En menntun er af þrennum toga: efnisleg, mannleg og andleg. Efnisleg menntun miðar að vexti og þroska líkamans, tryggir honum fæðu, líkamlega velferð og vellíðan. Uppfræðslu af þessu tagi eiga menn og dýr sameiginlega.
Mannleg menntun felst í siðmenntun og framförum – það er að segja, góðri stjórn, félagslegu skipulagi, mannlegri velferð, verslun, viðskiptum og iðnaði, listum og vísindum, einstæðum uppgötvunum og voldugum framkvæmdum, öllum þeim meginþáttum sem skilja manninn frá dýrinu.
Guðleg uppfræðsla heyrir ríki Guðs og felst í öflun guðlegra dyggða. Þetta er sönn uppfræðsla því fyrir hennar tilstilli verður maðurinn miðpunktur guðdómlegra blessana og líkamning þessara heilögu orða: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss.“ Þetta er hið endanlega markmið í veröld mannsins.
Nú þörfnumst við fræðara sem veitir í senn efnislega, mannlega og andlega uppfræðslu til þess að áhrif hans geti náð til allra sviða tilverunnar. Segði nú einhver: „Skilningi mínum og skynsemi er einskis vant og ég hef enga þörf fyrir slíkan fræðara“ þá afneitaði sá hinn sami augljósri staðreynd. Það væri líkt og barnið segði: „Ég þarf ekki á fræðslu að halda og ætla að leita hins besta í tilverunni með mína eigin skynsemi og vitsmuni að leiðarljósi.“ Eða hinn blindi segði: „Ég þarf ekki á sjón að halda því að margir eru blindir en komast samt af.“
Augljóst er því að maðurinn þarfnast fræðara. Þessi fræðari verður óneitanlega að fullkominn á allan hátt og skara fram úr öllum mönnum. Væri hann eins og aðrir gæti hann aldrei veitt þeim uppfræðslu og þá einkum vegna þess að hann verður að vera allt í senn: efnislegur, mannlegur og andlegur fræðari. Það er að segja, hann verður að skipuleggja og stjórna efnislegum málum þeirra og leggja grunn að félagslegri skipan til þess að þeir geti aðstoðað hvern annan við öflun lífsviðurværis og til að efnislegum aðstæðum þeirra verði á allan hátt vel fyrir komið.
Að sama skapi verður hann að leggja grunn að mannlegri menntun – það er að segja, hann verður að uppfræða hugi manna og hugsun til þess að þeir geti tekið miklum framförum, vísindi eflist og þekking aukist, uppgötva megi veruleika hlutanna, ráðgátur alheimsins og eiginleika alls sem til er í því augnamiði að lærdómur, uppgötvanir og miklar framkvæmdir eflist dag frá degi og vitrænar ályktanir verði dregnar af hinu skynjanlega og þeim miðlað með atbeina þess.
Fræðarinn verður einnig að miðla andlegri menntun til þess að hugir manna geti skilið hina frumspekilegu veröld, numið anda heilags anda, komist í tengsl við herskarana á hæðum og mannlegur veruleiki verði birtingarmynd guðdómlegra blessana þannig að öll nöfn og eigindir Guðs endurspeglist í verund mannsins og merking hinna helgu orða: „Vér viljum gjöra manninn eftir Vorri mynd, líkan Oss“ verði að veruleika.
Ljóst er þó að mannlegur máttur einn saman getur ekki komið svo voldugu verki til leiðar og að niðurstöður mannlegrar hugsunar einar saman geta ekki tryggt slíkar gjafir. Hvernig getur einn einstaklingur lagt grunninn að svo háleitu verki hjálparlaust? Af þeim sökum er þörf á guðlegum og andlegum krafti til að honum verði kleift að koma þessu í framkvæmd. Sjá! Ein helguð sál endurlífgar veröld mannkynsins, umbreytir ásýnd heimsins, þroskar hugann, endurlífgar sálirnar, færir nýtt líf, leggur nýjan grunn, kemur skipan á heiminn, safnar þjóðum og trúarbrögðum saman undir einu merki, frelsar manninn frá skorti og niðurlægingu og hvetur hann til að þroska með sér meðfæddar og áunnar dyggðir og fullkomna eiginleika. Vissulega getur ekkert komið slíku til leiðar nema máttur Guðs! Þetta mál verður að skoða af sanngirni og hér gefst vissulega tækifæri til að líta hlutina sanngjörnum augum.
Málstað sem allar ríkisstjórnir og þjóðir jarðar geta hvorki boðað né breitt út þrátt fyrir völd sín og hersveitir, hann getur ein heilög sál kunngert án nokkurrar aðstoðar! Fær mannlegur máttur einn saman áorkað slíku? Nei, sem Guð lifir! Svo dæmi sé nefnt reisti Kristur einn síns liðs merki friðar og vináttu. Það er afrek sem sameinuð öfl allra voldugra ríkisstjórna heims geta ekki unnið. Huga að því hversu fjölmargar ríkisstjórnir og þjóðir – svo sem Ítalía, Frakkland, Þýskaland, Rússland, England og önnur lönd – hafa safnast undir einum og sama tjaldhimni! Kristur kom vináttu þessara ólíku þjóða og samfélaga til leiðar. Nokkrir sem trúðu á Krist voru reyndar svo nátengdir Honum að þeir fórnuðu lífi sínu og eigum hver fyrir annan. Slík var raunin allt fram til daga Konstantínusar, sem hóf merki Krists á loft. Eftir nokkurn tíma og af ýmsum ástæðum kom til deilna þeirra á milli. Það sem við er átt er að Kristur sameinaði þessar þjóðir, en að löngum tíma liðnum reis ágreiningur aftur meðal þjóða og stjórnvalda.
Það sem máli skiptir er að Kristi tókst það sem öllum konungum jarðar var um megn að framkvæma. Hann sameinaði ólíkar þjóðir og breytti fornum siðum. Leið þér í huga þann mikla mun sem var á Rómverjum, Grikkjum, Sýrlendingum, Egyptum, Fönikíumönnum, Ísraelítum og öðrum þjóðum Evrópu. Kristur upprætti þennan mun og varð höfundur samhljóms og samstillingar meðal þessara þjóða. Þótt stjórnvöld hafi löngu síðar rofið þessa einingu hafði Kristur að sönnu lokið verki sínu.
Það sem átt er við er að allsherjarfræðarinn verður að vera í senn efnislegur, mannlegur og andlegur fræðari, hátt hafinn yfir heim náttúrunnar og gæddur öðrum mætti til þess að Hann geti gegnt stöðu guðlegs fræðara. Hefði hann ekki slíkan himneskan mátt, væri hann ekki fær um að uppfræða mennina, því sjálfur væri Hann ófullkominn. Hvernig gæti hann þá stuðlað að fullkomnun? Væri hann fávís, hvernig ætti Hann að færa öðrum visku? Væri hann ranglátur, hvernig gæti hann gert aðra réttsýna? Væri Hann væri jarðneskur, hvernig gæti hann gert aðra himneska?
Íhugum nú af sanngirni hvort þessir opinberendur Guðs sem hafa birst höfðu allar þessa eigindir til að bera eða ekki. Hefðu þeir verið gjörsneyddir þessum fullkomnu eiginleikum væru þeir ekki sannir fræðarar.
Þess vegna verðum við með skynsamlegum rökum að sanna skynsömum hugum spámannlega stöðu Móse, Krists og annarra guðlegra opinberenda. Og rökin og sönnunargögnin sem við færum hér fram byggja á skynsemi en ekki á hefðbundnum rökum.
Þannig hefur verið staðfest með skynsamlegum rökum að heimur tilvistar hefur fyllstu þörf fyrir fræðara og að mennta og uppfræða verður með himneskum mætti. Enginn vafi leikur á því að þessi himneski máttur er guðleg opinberun og að heiminn verður að uppfræða með þessum mætti sem er ofar öllu sem stendur í mannlegu valdi.
– 4 –
Abraham
Meðal þeirra sem bjuggu yfir þessum guðdómlega mætti og nutu hjálpar hans var Abraham. Sönnunin er þessi: Abraham fæddist í Mesópótamíu af fjölskyldu sem ekkert þekkti til einingar Guðs. Hann komst í andstöðu við sína eigin þjóð, stjórnvöld og jafnvel ættingja sína. Hann hafnaði öllum hjáguðum þeirra og stóð einn og óstuddur gegn öflugri þjóð. Slíkt andóf og mótspyrna var hvorki einföld né létt á metunum. Það er því líkast að einhver snerist gegn Kristi meðal kristinna þjóða sem trúa staðfastlega á Biblíuna, eða einhver – Guð forði því! – lastmælti Kristi í sjálfum páfagarði, snerist gegn öllum fylgjendum Hans og færi þannig fram af ofstopa og ófyrirleitni.
Þessi þjóð trúði ekki á einn Guð heldur marga guði og eignaði þeim kraftaverk. Þess vegna reis hún upp sem einn maður gegn Abraham. Enginn studdi Hann nema frændi Hans, Lot, og einn eða tveir aðrir sem voru lítils megnugir. Loks varð heiftug andstaða óvina hans til þess að Hann yfirgaf heimaland sitt, beittur mikilli rangsleitni. Í raun og veru var Hann gerður útlægur í þeirri von að Hann myndi hverfa með öllu og ekkert spyrðist til Hans framar. Abraham kom síðan til þessara héraða, það er að segja landsins helga.
Það sem ég bendi á er að óvinir hans ímynduðu sér að útlegðin myndi leiða til dauða Hans og tortímingar. Og að sönnu er þeim tortíming vís sem gerður er útlægur frá heimalandi sínu, sviptur öllum réttindum og mætir hvarvetna kúgun – jafnvel þótt hann sé konungborinn. En Abraham hvikaði hvergi. Hann sýndi framúrskarandi staðfestu og Guð breytti útlegð Hans í ævarandi heiður uns Hann að lokum lagði grunn að einingu Guðs, því að á þeim tíma dýrkaði allur þorri mannkyns skurðgoð.
Útlegðin leiddi til þess að afkomendur Abrahams tóku framförum og þeim var gefið landið helga. Útlegðin leiddi til þess að kenningar Abrahams bárust víða. Hún leiddi til þess að Jakob fæddist af sæði Abrahams og síðar Jósef sem varð stjórnandi í Egyptalandi. Útlegðin leiddi til þess að Móse fæddist af sama sæði. Hún leiddi til þess að Kristur, Mannssonurinn, var af ættlegg Abrahams. Útlegðin leiddi til þess að ambáttin Hagar fæddi Ísmael, ættföður Múhameðs. Hún leiddi til þess að Bábinn var af kynkvísl Abrahams. Hún leiddi til þess að spámenn Ísraels voru af ætt Abrahams – og þannig verður það um alla framtíð. Þessi útlegð varð til þess að öll Evrópa og mestur hluti Asíu játuðust Guði Ísraels. Sjá, hvílíkur máttur það var sem gerði útlaga kleift að stofna slíka fjölskyldu, leggja grunn að slíkri þjóð og kunngera slíkar kenningar. Getur einhver fullyrt að þetta hafi allt verið einskær tilviljun? Sýnum sanngirni: Var þessi Maður fræðari eða ekki?
Okkur sæmir að hugleiða að hafi brottför Abrahams frá Úr til Aleppo í Sýrlandi borið slíkan ávöxt, hver verða þá áhrifin af útlegð Bahá’u’lláh frá Teheran til Bagdað og þaðan til Konstantínópel, til Rúmelíu og loks til landsins helga!
Sjá þá hvílíkur afburða fræðari Abraham var!
– 5 –
Móse
Móse var lengi fjárhirðir í eyðimörkinni. Í augum fólksins virtist Hann vera maður sem hafði alist upp í skauti kúgunar, fengið á sig orð sem morðingi og unnið sem sauðahirðir. Lýður Faraós og stjórn Hans hataði Hann og svívirti. Þessi Maður leysti mikla þjóð úr fjötrum, fékk hana til að yfirgefa Egyptaland og setjast að í landinu helga.
Dýpsta niðurlæging varð hlutskipti þessarar þjóðar en hún var hafin í dýrðlegar hæðir. Hún sat í fjötrum en var frelsuð. Hún var fáfróðust allra þjóða en varð hin lærðasta. Í krafti þess sem Móses kom til leiðar tók hún slíkum framförum að einsdæmi var meðal allra þjóða og orðstír hennar barst til allra landa og komst í slík hámæli að þegar íbúar nágrannalandanna vildu hrósa einhverjum sögðu þeir: „Vissulega hlýtur hann að vera Ísraelsmaður!“ Móse setti lög og fyrirmæli sem færðu Ísraelsmönnum nýtt líf og leiddu til þess að siðmenning þeirra náði hæsta stigi sem þekktist á þeim tíma.
Slíkar voru framfarir þeirra að grískir heimspekingar komu til að leita þekkingar hjá lærdómsmönnum Ísraels. Meðal þeirra var Sókrates, sem kom til Sýrlands og aflaði sér þekkingar hjá Ísraelsmönnum á boðskapnum um einingu Guðs og ódauðleika andans. Hann sneri síðan aftur til Grikklands og kunngerði þessar kenningar, en íbúar þess lands risu gegn honum, sökuðu hann um guðleysi, drógu hann fyrir dóm og byrluðu honum eitur sem dró hann til dauða.
Hvernig gat málhaltur maður sem var alinn upp í húsi Faraós og var þekktur meðal manna sem morðingi, óttasleginn flóttamaður og fjárhirðir, fært heiminum svo voldugan málstað að vitrustu heimspekingum jarðar hefði reynst ókleift að miðla þótt ekki væri nema broti af þeim málstað? Þetta er augljóslega framúrskarandi afrek.
Maður sem stamar getur vart haldið uppi venjulegum samræðum, hvað þá heldur komið því til leiðar sem Hann gerði! Nei, hefði Hann ekki notið aðstoðar guðdómlegs máttar, hefði Hann aldrei komið svo voldugu verkefni í framkvæmd. Þetta eru röksemdir sem enginn getur andmælt. Hugsuðir efnishyggjunnar, grísku heimspekingarnir og stórmenni Rómaveldis sem urðu kunnir um víða veröld höfðu þekkingu á aðeins einni lærdómsgrein. Þannig nutu Galen og Hippókrates hylli fyrir kunnáttu sína í læknisfræði, Aristóteles í rökfræði og rökhugsun, og Platón í siðfræði og guðlegri heimspeki. Hvernig getur fjárhirðir lagt grunninn að öllum þessum lærdómsgreinum? Enginn vafi er á því að Hann naut aðstoðar framúrskarandi máttar.
Hugleiddu þær raunir og þrengingar sem eru hlutskipti mannanna barna. Móse vó egypskan mann til að koma í veg fyrir illræði, varð þekktur meðal manna sem morðingi – ekki síst þar sem fórnarlambið tilheyrði ráðandi þjóð – og neyddist til að flýja en var síðan hafinn upp sem boðberi Guðs. Sjá hvernig Hann, þrátt fyrir slæmt orðspor, naut fulltingis einstæðs máttar við að leggja grunn að svo voldugum stofnunum og máttugum verkum!
– 6 –
Kristur
Síðan kom Kristur fram á sjónarsviðið og sagði: „Ég er fæddur af heilögum anda.“ Í dag veitist kristnum mönnum auðvelt að viðurkenna sannleika orða Hans en á þeim tíma var það miklum erfiðleikum bundið. Samkvæmt texta fagnaðarerindisins sögðu farísear: „Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Við þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt að hann sé stiginn niður af himni?“
Í stuttu máli: Þessi Maður sem var lítils metinn af öllum hófst engu að síður handa af undraverðum mætti og nam úr gildi trúarkerfi sem staðið hafði í fimmtán hundruð ár og það þótt minnsta frávik frá lögum þess gætu sett hinn brotlega í alvarlega hættu og leitt til dauða hans og tortímingar. Á tímum Krists hafði almennu siðferði og hegðun Ísraelsmanna hrakað og siðir þeirra spillst. Ástand þeirra einkenndist af djúpri niðurlægingu, eymd og ánauð. Eitt sinn urðu þeir fangar Kaldea og Persa og öðru sinni kúguðu Assýríumenn þjóðina. Einn daginn voru þeir þegnar og undirsátar Grikkja og næsta dag kúgaðir og auðmýktir af Rómverjum.
Þessi æskumaður, Kristur, felldi úr gildi fornt lögmál Móse og hófst handa um að bæta siðferði landsmanna. Enn á ný lagði Hann grunn að eilífum heiðri Ísraelsmanna – nei, Hann endurreisti giftu alls mannkyns – og kenningar Hans og boðskapur bárust um allan heim og voru ekki aðeins ætlaðar Ísraelsmönnum heldur urðu undirstaðan að hamingju alls mannlegs samfélags.
Þeir sem fyrstir lögðu á ráðin um að tortíma Honum voru Ísraelsmenn – Hans eigin þjóð og ættmenn. Og hið ytra virtist þeim hafa tekist að yfirbuga Hann og niðurlægja uns þeir loks krýndu Hann þyrnikórónu og festu Hann á kross. En í sárustu þrengingu sinni sagði Hann: „Þessi sól mun rísa og þetta ljós skína geislandi, náð Mín mun umlykja heiminn og glundroði bresta á í liði óvina Minna.“ Og orð Hans rættust og öllum konungum jarðar reyndist um megn að standa í gegn Honum. Nei, gunnfánar þeirra féllu í rykið allir sem einn, en gunnfáni Hins rangtleikna var hafinn í hæstu hæðir.
Getur slíkt gerst samkvæmt reglum mannlegrar skynsemi? Nei, sem Guð lifir! Því er augljóst að þessi dýrðlega Mannvera var sannur fræðari í heimi mannkyns og naut fulltingis guðdómlegs máttar.
– 7 –
Múhameð
Þjóðir Evrópu og Ameríku hafa heyrt vissar sögusagnir um Múhameð spámann og lagt trúnað á þær jafnvel þótt þeir sem sögðu frá – þar á meðal margir kristnir kennimenn – væru ýmist fáfróðir eða illviljaðir. Fjöldi óupplýstra múslíma sögðu einnig tilhæfulausar sögur af Múhameð sem í hugum þeirra voru til marks um dýrð Hans. Sumar þessara óupplýstu sálna töldu að Honum bæri lof og heiður vegna þess að Hann ætti margar eiginkonur og sögðu það til merkis um undursamlegan mátt Hans því að í fávisku sinni héldu þeir að fjölkvæni væri kraftaverki líkast. Frásagnir evrópskra sagnfræðinga byggja að mestu á frásögum þessa óupplýsta fólks.
Til dæmis sagði fávís einstaklingur kristnum presti eitt sinn að raunverulegur mikilleiki fælist í framúrskarandi hreysti og blóðsúthellingum og að fylgjendur Múhameðs hafi á einum degi hálshöggvið hundrað menn á vígvellinum! Af þessari frásögn dró presturinn þá ályktun að manndráp sönnuðu gildi íslams sem er ekki annað en fáfengilegur hugarburður. Þvert á móti voru herleiðangrar Múhameðs alltaf farnir í varnarskyni. Skýr sönnun þess er að í þrettán ár þoldu bæði félagar hans og Hann sjálfur miskunnarlausar ofsóknir og látlausar hatursherferðir í Mekka. Sumir félagar hans voru drepnir og eigum þeirra rænt en aðrir yfirgáfu heimaland sitt og flúðu til annarra landa. Sjálfur sætti Múhameð hatrömmustu ofsóknum og þegar óvinir hans ákváðu að ráða Hann af dögum neyddist Hann að flýja Mekka um miðja nótt og halda til Medínu. Jafnvel þá létu óvinir hans sig ekki, heldur veittu múslímunum eftirför alla leið til Medínu og Abyssiníu.
Villimennska og gripdeildir einkenndu þessar ættkvíslir Araba og í samanburði við þá voru villtir og grimmir frumbyggjar Ameríku göfugir og upplýstir, því þeir grófu ekki börn sín lifandi eins og þessir arabar gerðu við nýfæddar dætur sínar, sögðu það heiðursverk og hreyktu sér af því. Margir karlmannanna ógnuðu konum sínum og sögðu: „Ef þér fæðist dóttir drep ég þig.“ Jafnvel enn í dag óttast Arabar þá tilhugsun að þeim fæðist dætur.
Auk þess gat einn maður tekið sér þúsund eiginkonur og flestir eiginmenn áttu fleira en tíu konur á heimilum sínum. Þegar til átaka kom milli þessara ættbálka, tóku sigurvegararnir konur og börn hernámi, litu á þau sem þræla, keyptu þau og seldu.
Ef karlmaður dó og skildi eftir sig tíu konur skunduðu synir þessara kvenna til mæðra hvers annars og jafnskjótt og einn þeirra hafði kastað skikkju sinni yfir höfuð einnar stjúpmóður sinnar og lýst hana lögmæta eign sína varð sú ólánsama kona fangi og ambátt stjúpsonarins og hann gat gert við hana það sem honum sýndist. Hann gat myrt hana, varpað henni í gryfju, barið hana, formælt og kvalið dag eftir dag uns hún að lokum dó. Samkvæmt lögum og venjum Araba var honum frjálst að gera við hana það sem honum þóknaðist. Augljóst er að óvild og afbrýði, hatur og fjandskapur hefur ríkt milli eiginkvenna manns og barna þeirra og ekki þarf að orðlengja það. Leið hugann að lífi og ásigkomulagi þessara rangtleiknu kvenna!
Þessir arabísku ættbálkar bjuggu einnig við gagnkvæmar gripdeildir og þjófnað, áttu í stöðugum erjum og hernaði, drápu hvern annan, fóru ránshendi um eigur hvers annars, tóku konur og börn og seldu ókunnugum. Hversu oft eyddu ekki synir og dætur höfðingjanna deginum í munaði og makindum en þegar nóttin skall á blasti við þeim fullkomin niðurlæging, vesöld og ánauð. Í gær voru þeir höfðingjar, í dag fangar, í gær voru þær hefðarfrúr sem nutu heiðurs og virðingar, í dag eru þær ambáttir.
Það var til slíkra ættbálka sem Múhameð var sendur. Í þrettán ár þoldi Hann allar hugsanlegar þrengingar af þeirra völdum uns Hann að lokum flúði borgina og hélt til Medínu. Og samt gáfust þeir ekki upp heldur söfnuðu liði og gerðu árás með það fyrir augum að lífláta hvern einasta mann, konu og barn sem fylgdu Honum að málum. Það var við þessar aðstæður og gegn slíku fólki sem Múhameð neyddist til að vopnbúast. Þetta er einfaldur sannleikur – þetta er ekki sagt af blindri og ofstækisfullri fylgispekt heldur viljum við skoða þessi mál af sanngirni og skýra frá þeim. Þú ættir einnig að íhuga eftirfarandi af sanngirni: Ef Kristur hefði sjálfur búið við svipaðar kringumstæður, meðal löglausra og villimannlegra ættbálka, ef Hann og lærisveinar Hans hefðu í þrettán ár þolað slíka grimmd og harðræði af þeirra hendi og neyðst vegna slíkrar kúgunar að yfirgefa heimaland sitt og halda út í óbyggðir, og þessir löglausu ættbálkar hefðu haldið áfram að elta þá með það fyrir augum að vega fylgjendur hans, ræna eigum þeirra, konum og börnum – hvernig hefði Kristur brugðist við? Hefði kúgunin beinst að Honum einum hefði Hann fyrirgefið þeim og slík fyrirgefning hefði verið fyllilega ásættanleg og lofsverð, en hefði Hann orðið vitni að grimmum og blóðþyrstum morðingjum staðráðnum í að drepa, ræna og kvelja fjölda varnarlausra sálna og taka konur og börn til fanga, hefði Hann vissulega verndað hina fótumtroðnu og stöðvað kúgarana.
Hver er þá ástæðan fyrir ákærunum gegn Múhameð? Að Hann gaf sjálfan sig, fylgjendur sína, konur þeirra og börn ekki á vald þessara löglausu ættbálka? Auk þess var mesta náðargjöfin sem þessum ættbálkum veittist sú að þeim var haldið í skefjum og frelsaðir frá grimmd sinni og blóðþorsta. Þeim var líkt farið og manni sem heldur á eiturbikar og ætlar að drekka. Ástríkur vinur myndi vissulega brjóta bikarinn og halda aftur af honum. Ef Kristur hefði lifað við svipaðar kringumstæður hefði Hann án efa frelsað menn, konur og börn úr klóm slíkra úlfa með alltsigrandi valdi sínu.
Múhameð barðist aldrei gegn kristnum mönnum, þvert á móti kom Hann fram við þá af tillitssemi og gaf þeim fullkomið frelsi. Í Najrán var kristið samfélag undir vernd Hans og umsjá. Múhameð sagði: „Misbjóði þeim einhver og brjóti á réttindum þeirra á hann Mig að óvini og Ég ákæri hann frammi fyrir Guði.“ Í fyrirmælum Hans kemur skýrt fram að líf, eignir og heiður Gyðinga og kristinna manna séu undir verndarvæng Guðs, að múslími megi ekki hindra kristna eiginkonu sína í að sækja kirkju né hylja hana blæju, og deyi hún verði hann að fela presti að annast útförina. Vilji kristnir menn byggja kirkju verða múslímar að styðja þá. Og kæmi til stríðsátaka milli íslams og óvina trúarinnar voru kristnir menn undanþegnir herskyldu nema þeir kysu sjálfir að koma múslímum til hjálpar í ljósi þeirrar verndar sem þeir nutu. Sem uppbót fyrir þessa undanþágu áttu þeir að greiða lítils háttar fjárhæð árlega. Í stuttu máli, til eru sjö langar opinberar tilskipanir um þessi efni og afrit af sumum þeirra er enn að finna í Jerúsalem. Þetta er sannleikurinn en ekki mín eigin orð. Tilskipun annars kalífans er enn í vörslu patríarkans í Jerúsalem og málið er hafið yfir allan vafa. Engu að síður kom til árekstra og öfund vaknaði milli múslíma og kristinna manna þar sem báðir gerðust brotlegir.
Þetta er sannleikurinn. Annað sem múslímar, kristnir menn og aðrar hafa sagt er tilbúningur og stafar af ofstæki, fáfræði eða svörnum fjandskap. Múslímar fullyrða til að mynda að Múhameð hafi klofið mánann og hann hafi hrapað á fjallið í Mekka. Þeir ímynda sér að tunglið sé lítill hnöttur sem Múhameð hafi klofið í tvennt og varpað öðrum hluta hans á eitt fjall og hinum á annað! Þessar sögur eru sprottnar af hreinu ofstæki. Þannig er því einnig farið með frásagnir kristinna presta – ásakanir þeirra eru alltaf ýktar og oft tilhæfulausar.
Til að gera langt mál stutt kom Múhameð fram í Ḥijáz eyðimörkinni á Arabíuskaga, sem var gróðurlaus auðn, hrjóstrug eyðimörk. Sums staðar, svo sem í Mekka og Medínu, var hitinn gríðarlegur. Íbúarnar voru hirðingjar með siðferði og hegðun eyðimerkurbúa, fullkomlega þekkingarsnauðir og óupplýstir. Sjálfur var Múhameð ólæs og Kóraninn var upphaflega skrifaður á herðablöð sauðkinda eða pálmalauf. Af þessu má ráða hvers konar ástand ríkti meðal ættbálkanna sem Múhameð var sendur til!
Hann áminnti þá þannig í fyrstu: „Hvers vegna hafnið þið Gamla testamentinu og guðspjöllunum og hvers vegna neitið þið að trúa á Krist og Móse?“ Þessum orðum tóku þeir illa og spurðu: „Hvað er þá að segja um feður okkar og forfeður, sem ekki trúðu á Gamla testamentið og fagnaðarerindið?“ Hann svaraði: „Þeir fóru villur vegar og það er skylda ykkar að hafna þeim sem ekki trúa Gamla testamentinu og fagnaðarerindinu þótt þeir séu forfeður ykkar.“
Það var í slíku landi og innan um svo villtar ættkvíslir sem ólæs maður kom með bók þar sem sagt var á snjallan og fullkominn hátt frá eigindum og fullkomnun Guðs, boðberum Hans og spámönnum, fyrirmælum trúarbragða Hans og ákveðnum sviðum fræða og menntunar.
Sem dæmi um þetta má nefna eftirfarandi atriði sem þér eru kunn. Áður en nafnfrægur stjörnufræðingur síðari tíma gerði uppgötvanir sínar, það er að segja frá fyrstu öldnum til fimmtándu aldar hins kristna tímabils, voru allir stærðfræðingar heims samdóma um að jörðin væri miðja heimsins og sólin snerist í kringum hana. Þessi nútíma stjörnufræðingur setti fram nýja kenningu og sýndi fram á að jörðin snerist í kringum sólina. Fram til þess tíma héldu allir stærðfræðingar og heimspekingar heimsins fast við heimsmynd Ptólemeosar og hver sem andmælti því var talinn fávís. Það er rétt að Pýþagóras og Platón töldu síðar á ævi sinni að árleg hreyfing sólar um stjörnumerki dýrahringsins væri sólinni óviðkomandi og stafaði af hreyfingu jarðar í kringum hana, en þessi kenning gleymdist algjörlega og almennt samþykktu allir stærðfræðingar kenningu Ptólemeosar. En í Kóraninum er að finna nokkrar staðhæfingar sem stönguðust á við heimsmynd Ptólemeosar. Þar segir á einum stað: „Sólin hreyfist á sínum fasta stað.“ Þar er vísað til þess að sólin er fastastjarna sem snýst um möndul sinn. Sömuleiðis segir á öðrum stað: „Og hver hreyfist á sinni eigin himnesku braut“, og þar er vísað til hreyfingar sólar, mána, jarðar og annarra himinhnatta. Þegar Kóraninn barst til annarra landa hæddust allir stærðfræðingar að þessu og eignuðu það fáfræði. Jafnvel klerkum múslíma fannst þessi orð brjóta í bága við kenningu Ptólemeosar og urðu að skilgreina þau á myndrænan hátt því litið var á kerfi Ptólemeosar sem óumdeilanlega staðreynd en orð Kóransins voru í mótsögn við hana.
Það var ekki fyrr en á sextándu öld kristins tímatals, næstum níu hundruð árum eftir Múhameð, sem frægur stærðfræðingur setti fram nýja tilgátu, sjónaukinn var fundinn upp og mikilvægar uppgötvanir gerðar sem sönnuðu snúning jarðar um möndul sinn og að sólin væri fastastjarna. Þá kom í ljós að skýr texti Kóransins var í fullu samræmi við raunveruleikann og að kerfi Ptólemeosar var hrein ímyndun.
Í sem stystu máli: Í þrettán aldir ólst fjöldi Austurlandabúa upp í skugga íslams. Á miðöldum þegar Evrópa var sokkin í djúp villimennsku, sköruðu Arabar fram úr öðrum þjóðum jarðar í vísindum og handverki, stærðfræði, siðmenningu, stjórnarháttum og öðrum listum. Fræðari og frumkvöðull ættkvíslanna á Arabíuskaganum og stofnandi siðmenningar mannlegrar fullkomnunar meðal þessara stríðandi ættbálka var ólæs maður, Múhameð. Var þessi rómaði Maður allsherjarfræðari eða ekki? Verum sanngjörn.
– 8 –
Bábinn
Hvað varðar Bábinn – megi sál minni verða fórnað Honum! – hófst Hann handa á tuttugasta og fimmta aldursári sínu um að kunngera boðskap sinn. Meðal shía-múslíma er almennt viðurkennt að Hann hafi aldrei stundað skólanám né notið fræðslu nokkurs kennara. Um þetta vitna íbúar Shíráz, hver og einn. Engu að síður birtist hann skyndilega frammi fyrir þjóð sinni, gæddur fullkominni þekkingu, og þótt hann væri aðeins kaupmaður stóðu allir guðsmenn Persa ráðalausir frammi fyrir Honum. Vart er hægt að gera sér í hugarlund verkefnið sem Hann tók sér fyrir hendur því að Persar eru þekktir um allan heim fyrir ofstæki í trúarefnum. Þessi geislandi Maður hófst handa af slíkum krafti að undirstöður trúarlaga, hefða, siða og siðferðis Persíu bifuðust. Hann setti ný lög og stofnsetti ný trúarbrögð. Þótt helstu menn ríkisins, meirihluti landsmanna og allir trúarleiðtogarnir vildu tortíma Honum, stóð Hann gegn þeim einn síns liðs og skapaði umrót í öllu landinu. Hversu fjölmargir voru ekki þeir guðsmenn, leiðtogar og íbúar landsins sem í fullkominni gleði og fögnuði fórnuðu lífi sínu á vegi Hans og hröðuðu sér á vettvang píslarvættis!
Ríkisstjórnin, þjóðin, prestarnir og háttvirtir leiðtogar reyndu að slökkva ljós Hans en án árangurs. Að lokum reis máni Hans, stjarna hans skein, grundvöllur trúar Hans var tryggður og ljósið flæddi um sjónarhring Hans. Hann uppfræddi mikinn fjölda á vegi Guðs og hafði undraverð áhrif á hugsanir, hefðir, siðferði og hegðun Persa. Hann boðaði öllum fylgjendum sínum fagnaðarerindið um birtingu sólar Bahá og bjó þá undir trú og fullvissu.
Opinberun svo stórkostlegra tákna og voldugra framkvæmda, áhrifin sem Hann hafði á hugsanir og huga fólksins, hvernig ungur kaupmaður lagði grunn að framförum og tryggði forsendur árangurs og hagsældar er mesta sönnun þess að Hann var allsherjarfræðari – og þá staðreynd myndi enginn sanngjarn maður hika við að viðurkenna.
– 9 –
Bahá’u’lláh
Þegar Bahá’u’lláh kom fram á sjónarsviðið grúfði myrkur fáfræði og ofstækis yfir persnesku þjóðinni. Þú hefur eflaust kynnt þér evrópskar frásagnir um siðferði, hegðun og hugsanagang Persa á síðustu öldum og þær þarf ekki að endurtaka. Nóg er að segja að Persar voru sokknir í slíkt hyldýpi eymdar og niðurlægingar að erlendir ferðamenn hörmuðu allir hlutskipti lands sem fyrr á öldum hafði náð hátindi glæstrar siðmenningar og síðan orðið slíkri hnignun að bráð.
Á þessum tíma kom Bahá’u’lláh fram á sjónarsviðið. Faðir hans var ráðherra við hirð keisarans en tilheyrði ekki stétt klerka og fræðimanna. Það er á allra vitorði í Persíu að Bahá’u’lláh gekk aldrei í skóla og tengdist hvorki lærdómsmönnum né klerkum. Fyrri hluta ævinnar lifði Hann við allsnægtir og hamingju. Félagar hans voru af aðalsættum en tilheyrðu ekki stéttum lærdómsmanna.
Strax og Bábinn opinberaði málstað sinn sagði Bahá’u’lláh: „Þetta mikilmenni er Drottinn hinna réttlátu og það er skylda allra að sýna Honum hollustu.“ Hann hófst handa um að efla málstað Bábsins, setti fram afgerandi sannanir og færði óyggjandi rök að sannleiksgildi orða Hans. Þótt persneska klerkastéttin hefði gert stjórnvöldum skylt að beita vægðarlausri andstöðu og gefið út tilskipanir um fjöldamorð, ofsóknir og tortímingu allra fylgjenda Bábsins, og þótt um allt land væri byrjað að vega þá, brenna og ræna og jafnvel áreita konur þeirra og börn – þrátt fyrir allt þetta hélt Bahá’u’lláh áfram af mikilli einurð og yfirvegun að hefja boðskap Bábsins til vegs. Hann fór aldrei huldu höfði en umgekkst óvini sína opinskátt og hispurslaust, vann að því að setja fram rök og sannanir og varð víðfrægur fyrir boðun sína á orði Guðs. Ítrekað þoldi hann mótlæti og þrengingar og líf Hans var í stöðugri hættu.
Hann var settur í fjötra og vistaður í neðanjarðar dýflissu. Miklum eignum sem Hann fékk í arf var rænt og Hann var fjórum sinnum fluttur í útlegð frá einu landi til annars og loks til hins mesta fangelsis.
Þrátt fyrir þetta var boðskapur Guðs kunngerður staðfastlega og orðstír málstaðar Hans barst til annarra landa. Slík var þekking Hans, lærdómur og fullkomin viska að furðu vakti um alla Persíu. Allir fræðimennirnir – vinir jafnt sem fjandmenn – sem náðu fundum Hans í Teheran, Bagdað, Konstantínópel, Adríanópel og ‘Akká fengu sannfærandi og fullnægjandi svör við öllum sínum spurningum. Allir viðurkenndu fúslega að í dyggð og fullkominni visku ætti Hann engan sinn líka í heiminum.
Í Bagdað gerðist það oft að klerkar múslíma, gyðinga og kristinna manna ásamt lærðum Evrópumönnum komu í blessaða návist Hans. Þeir lögðu fyrir Hann ýmsar spurningar og hver sem trú þeirra var fengu þeir allir svo glögg og sannfærandi svör að þeir fóru fullsáttir af fundi Hans. Jafnvel persneskir klerkar í Karbilá og Najaf völdu fræðimann að nafni Mullá Ḥasan ‘Amú og sendu hann sem fulltrúa sinn á fund Bahá’u’lláh. Hann kom í blessaða nærveru Hans og spurði fjölda spurninga fyrir þeirra hönd, sem Bahá’u’lláh svaraði. Hann sagði þá: „Klerkarnir viðurkenna fyllilega þekkingu þína og afrek og allir viðurkenna að þú átt þér engan jafningja á öllum sviðum lærdóms. Einnig er augljóst að þú hefur aldrei stundað nám eða numið þennan lærdóm af öðrum. En klerkarnir segja að það nægi ekki og þeir geti ekki viðurkennt sannleika orða þinna á grundvelli þekkingar Þinnar og afreka einna saman. Þeir biðja þig því að gera kraftaverk til að hjörtu þeirra megi fá fullvissu.“
Bahá’u’lláh svaraði: „Þótt þeir hafi engan rétt til að biðja um slíkt, því það er Guðs að reyna skepnur sínar en ekki þeirra að reyna Guð, samþykkjum Vér samt beiðni þeirra í þessu tilviki. En málstaður Guðs er ekki leiksvið þar sem haldin er ný sýning á klukkutíma fresti og nýjar kröfur gerðar hvern dag. Annars yrði málstaður Guðs að leikfangi barna.“
„Lát klerkana koma sér einróma saman um eitt kraftaverk og staðfesta skriflega að þegar það hefur verið unnið velkist þeir ekki lengur í vafa heldur viðurkenni allir sem einn sannleiksgildi þessa málstaðar. Lát þá innsigla skjalið og færa Mér. Mælikvarðann á sannleikann sem þeir skulu staðfesta er þessi: Hafi verkið verið unnið hverfur þeim allur efi, ef ekki verðum Vér ákærðir fyrir svikráð.“
Þessi lærdómsmaður stóð upp og svaraði: „Meira þarf ekki að segja.“ Hann kyssti hné Bahá’u’lláh, jafnvel þótt hann væri ekki átrúandi, og fór. Síðan kallaði hann klerkana saman og flutti þeim skilaboð Bahá’u’lláh. Þeir tóku ráð saman og sögðu: „Þessi maður er töframaður, ef til vill hefur hann í frammi einhverjar sjónhverfingar og þá eigum við engra kosta völ.“ Þess vegna þorðu þeir ekki að svara.
Mullá Ḥasan ‘Amú skýrði hins vegar frá þessum staðreyndum á mörgum samkomum. Hann fór frá Karbilá til Kirmánsháh og Teheran þar sem hann sagði frá þessum atburðum og talaði um ótta og aðgerðaleysi klerkanna.
Það sem við bendum á að allir andstæðingar Bahá’u’lláh í Austurlöndum viðurkenndu mikilleika Hans, heiður, þekkingu og lærdóm og þrátt fyrir fjandskap sinn vísuðu þeir til hans sem „hins nafnkunna Bahá’u’lláh“.
Í stuttu máli reis þessi volduga sól skyndilega yfir sjóndeildarhring Persíu og allir landsmenn, hvort sem þeir voru ráðherrar, klerkar eða almennir borgarar, risu gegn Honum af miklum fjandskap og héldu því fram að Hann stefndi að því að afnema og ógilda trúarbrögð þeirra, lögin, þjóðina sjálfa og keisaraveldið, líkt og sagt var um Krist. Samt stóð Bahá’u’lláh einn og óstuddur gegn þeim öllum án þess að hika eða láta sér bregða hið minnsta.
Loks sögðu þeir: „Meðan þessi maður er í Persíu verður þar hvorki friður né ró. Hann verður að senda í útlegð til þess að aftur komist á kyrrð í Persíu.“ Þeir létu Bahá’u’lláh sæta alvarlegum þrengingum til að flæma Hann frá Persíu og þeir ímynduðu sér að þá myndi ljósið á lampa málstaðarins slokkna. En þessi ofsóknir höfðu gagnstæð áhrif: Málstaðurinn efldist og logi hans varð bjartari. Fram til þess tíma hafði hann aðeins logað í Persíu en nú barst hann til annarra landa. Síðar sögðu þeir: „Írak er of nálægt okkur hér í Persíu, við verðum að senda hann til fjarlægari landa.“ Þannig hélt persneska stjórnin áfram uns Bahá’u’lláh var sendur í útlegð til Konstantínópel. Enn sáu þeir ekkert minnsta hik á Honum. Þeir sögðu: „Konstantínópel er í þjóðbraut margra landa og þar er fjöldi Persa.“ Þess vegna gengu þeir enn lengra og sendu Hann í útlegð til Adríanópel. En loginn brann enn skærar og orðstír málstaðarins óx. Að lokum sögðu Persar: „Hvergi á þessum stöðum sætti Hann niðurlægingu og því verður að senda Hann þar sem Hann verður auðmýktur og þolir prófraunir og ofsóknir og þar sem ættingja hans og fylgjenda bíða hörmulegar raunir.“ Því völdu þeir fangelsisborgina ‘Akká þar sem vistaðir voru uppreisnarmenn, morðingjar, þjófar og stigamenn. Slíkan félagsskap kusu þeir Honum. En Guð birti mátt sinn því þetta fangelsi varð til þess að trú Hans efldist og orð Hans var vegsamað. Mikilleiki Bahá’u’lláh varð augljós því í þessu fangelsi og undir svo niðurlægjandi kringumstæðum tókst Honum að gjörbreyta ástandinu í Persíu, sigrast á óvinum sínum og sanna ómótstæðilegan mátt málstaðar síns. Heilagar kenningar Hans bárust víða og málstaður Hans fékk tryggan grundvöll.
Í sérhverju héraði Persíu hófust hatursfullir óvinir Hans handa, hremmdu og drápu, börðu og brenndu, lögðu í rúst þúsundir heimila og gripu til hvers kyns ofbeldisaðgerða til að ráða niðurlögum málstaðar Hans. Þrátt fyrir allt þetta kunngerði Hann málstaðinn og kenningar sínar innan þessa fangelsis morðingja, þjófa og stigamanna. Hann vakti marga af hatrömmustu óvinum sínum til meðvitundar og gerði þá að staðföstum fylgjendum. Slík voru áhrif af verkum Hans að persneska stjórnin vaknaði sjálf af svefni og iðraðist þess sem illviljaðir klerkar höfðu komið til vegar.
Þegar Bahá’u’lláh kom í þetta fangelsi í landinu helga, áttuðu glöggar sálir sig á þeirri staðreynd að spádómar sem Guð hafði kunngert spámönnum sínum tveimur til þremur þúsund árum áður höfðu ræst og fyrirheit Hans verið uppfyllt, því að Hann hafði opinberað það ákveðnum spámönnum og landinu helga að Drottinn allsherjar myndi birtast þar. Öll þessi fyrirheit voru uppfyllt og ef ekki hefði verið fyrir andstöðu óvina hans og útlegð, er vart hægt að ímynda sér að Bahá’u’lláh hefði farið frá Persíu og slegið upp tjaldbúð sinni í þessu helga landi. Óvinir Hans héldu að þetta fangelsi myndi ganga af málstað Hans dauðum, en fangavistin varð í staðinn hin mesta staðfesting, efldi málstaðinn og festi hann í sessi. Kall Guðs náði til austurs og vesturs og geislarnir frá sól sannleikans upplýstu sérhvert land. Lof sé Guði! Þótt Hann væri fangi, var tjaldi Hans slegið upp á Karmelfjalli og þar gekk Hann um í mikilli tign. Og hver og einn sem kom inn í návist hans, hvort heldur vinur eða ókunnugur, hrópaði: „Þetta er ekki fangi heldur konungur!“
Strax eftir komu Hans í fangelsið sendi Hann bréf til Napóleons fyrir atbeina franska sendiherrans, en efni þess var þetta: „Spyr hvaða glæpi Vér höfum framið til að verðskulda vist í þessu fangelsi.“ Napóleon svaraði engu. Síðan var gefin út annar pistill sem er að finna í Súriy-i-Haykal og þar segir efnislega: „Ó Napóleon! Þar sem þú hefur ekki svarað og gætt að kalli Mínu mun ríkið hverfa úr höndum þér og hverfa í duftið.“ Þessi pistill var sendur til Napóleons með pósti í umsjá César Catafago og með fullri vitneskju félaga Hans í útlegðinni. Texti þessa pistils barst fljótt um Persíu, því Kitáb-i-Haykal var á þeim tíma send til allra staða í landinu. Þetta gerðist árið 1869 og þar sem Súriy-i-Haykal hafði verið dreift um Persíu og Indland höfðu allir átrúendurnir þennan pistil í höndum sér og biðu niðurstöðu hans. Ekki löngu síðar, árið 1870, kom til styrjaldar milli Þýskalands og Frakklands, og þótt enginn hafi á þeim tíma gert ráð fyrir sigri Þýskalands, beið Napóleon mikinn ósigur, gafst upp fyrir óvinum sínum og sá dýrð sína breytast í dýpstu niðurlægingu.
Töflur voru einnig sendar öðrum konungum, þar á meðal til hans hátignar Náṣiri’d-Dín Sháh. Þar segir: „Kveð Mig á fund þinn, kalla saman klerkana og bið þá um sannanir og vitnisburð til þess að greina megi sannleika frá villu.“ Hans hátign sendi pistil Bahá’u’lláh til klerkanna og fól þeim þetta verkefni, en enginn þeirra dirfðist að taka það að sér. Hann bað síðan sjö þekktustu fræðimennina að svara pistlinum. Eftir nokkra hríð sendu þeir hann aftur og sögðu: „Þessi maður er andstæðingur trúarinnar og óvinur konungs.“ Hans hátign, keisarinn af Persíu, varð gramur og sagði: „Þetta er spurning um sönnun og vitnisburð, sannleika og villu. Hvað kemur hún fjandskap gegn stjórnvöldum við? Við höfum sýnt þessum kennimönnum mikla virðingu en samt geta þeir ekki einu sinni svarað þessum pistli og það er aumkunarvert.“
Í stuttu máli hefur allt komið fram sem var skráð í töflurnar til konunganna. Það þarf einungis að bera saman innihald þeirra við atburðina sem hafa átt sér stað eftir 1870 til að sjá að allar spár hafa ræst nema fáeinar sem bíða framtíðar.
Einnig eignuðu erlendar þjóðir og trúlausir einstaklingar Bahá’u’lláh undraverk. Sumir töldu að Hann væri dýrlingur og skrifuðu jafnvel um það frásagnir, þar á meðal Siyyid Dávúdí, súnníti og kennimaður frá Bagdað, sem samdi stutta ritgerð þar sem hann sagði í einhverju sambandi frá framúrskarandi verkum Bahá’u’lláh. Fólk í Austurlöndum sem ekki trúir á Bahá’u’lláh sem opinberanda Guðs lítur enn í dag á Hann sem dýrling og eignar Honum kraftaverk.
Í stuttu máli: sérhver sál sem náði fundum Bahá’u’lláh, hvort sem hún var vinur eða fjandmaður, viðurkenndi tign Hans og mikilleika. Þótt þessar sálir tækju ekki trú Hans vitnuðu þær undantekningarlaust um mikilleika Hans. Kæmi einhver í návist Hans hafði það strax slík áhrif að hann fékk í flestum tilvikum ekki mælt orð frá vörum. Hversu oft gerðist það ekki að beiskur fjandmaður ákvað innra með sér að segja hitt eða þetta eða færa fram hin eða þessi rök, en þegar hann kom í návist Bahá’u’lláh varð hann furðu lostinn, ráðþrota og kom ekki upp orði!
Bahá’u’lláh lærði aldrei arabísku, hafði hvorki kennara né leiðbeinanda né sótti nokkurn skóla. Engu að síður vakti mælska Hans og færni í arabísku ásamt arabískum töflum Hans furðu hinna mælskustu og færustu arabísku bókmenntamanna og allir viðurkenndu að í þessum efnum ætti Hann sér engan jafningja.
Ef við grandskoðum texta Gamla testamentisins komumst við að raun um að enginn opinberandi Guðs sagði nokkru sinni við þá sem afneituðu þeim: „Ég mun vinna hvert það kraftaverk sem þið kjósið og gangast undir hvaða próf sem þið leggið fyrir mig.“ En í bréfi sínu til keisarans sagði Bahá’u’lláh skýrt: „Kalla saman kennimennina og boða Mig á fund þeirra svo hægt verði að staðfesta sannanir og vitnisburð.“
Í fimmtíu ár stóð Bahá’u’lláh gegn óvinum sína líkt og foldgnátt fjall. Þeir reyndu allir að tortíma honum, Þeir réðust allir gegn Honum. Þeir ráðgerðu þúsund sinnum að tortíma Honum og krossfesta og í öll þessi fimmtíu ár var Hann í bráðri hættu.
Persíu er enn í dag djúpt sokkin í eymd og niðurlægingu en sérhver vitur maður, hvort sem er innan eða utan persnesku landamæranna og þekkir raunverulegt ástand hennar, viðurkennir að framfarir hennar, velferð og siðmenning eru að öllu leyti háðar útbreiðslu kenninga og meginreglna þessa dýrðlega boðbera Guðs.
Á blessaðri ævi sinni kenndi Kristur í raun aðeins ellefu sálum, en hinn mesti þeirra, Pétur, afneitaði Honum engu að síður þrisvar þegar á hann reyndi. Þrátt fyrir þetta, sjá hvernig málstaður Krists hefur síðan borist um alla jörð! Á okkar dögum hefur Bahá’u’lláh uppfrætt þúsundir sálna sem hrópa til hæsta himins undir ógnandi sverðseggjum: „Ó Þú dýrð allra dýrða!“ og ásýndir þeirra skína eins og gull í deiglu prófrauna. Álykta af þessu hvað gerast mun í framtíðinni!
Nú verðum við að vera sanngjörn og viðurkenna hvílíkur mannkynsfræðari þessi undursamlegi Maður var, hversu dásamleg táknin eru sem Hann hefur birt og hvílíkur máttur og vald hefur birst í heiminum af Hans völdum.
– 10 –
Gildar sannanir og hefðbundin rök í helgiritunum
Í dag skulum við ræða aðeins um sannanir hér við borðið. Hefðir þú komið á þennan blessaða stað á dögum opinberanda þessa skínandi ljóss, náð fundi Hans og séð geislandi ásýnd Hans, hefðir þú skilið að orð Hans og fegurð þurftu engra frekari sannana við. Hversu margar voru ekki þær sálir sem urðu strax staðfastir átrúendur þegar þær náðu fundi Hans og þurftu enga aðra sönnun! Jafnvel hatursmenn og afneitarar báru mikilleika Bahá’u’lláh vitni eftir að þeir hittu Hann og sögðu: „Þetta er vissulega göfugur maður og það er leitt að hann skuli gera slíkt tilkall! Því allt annað sem frá honum kemur er ásættanlegt.“
En nú þegar Sól sannleikans er gengin til viðar þurfa allir á sönnunum að halda og því höfum við verið önnum kafnir við að leggja fram gildar sannanir. Við skulum nefna aðra óumdeilda sönnun sem ein og sér ætti að nægja hverri sanngjarnri sál. Hún er sú að þessi tigni Maður setti fram málstað sinn í hinu mesta fangelsi og þar skein ljós Hans, frægð Hans barst um allan heim og dýrðleg orð Hans náðu bæði til austurs og vesturs. Aldrei hefur neitt þessu líkt gerst allt fram til þessa dags, ef málið er skoðað með sanngirni. En til eru sálir sem ekki dæma af sanngirni, jafnvel þótt þær heyrðu allar heimsins sannanir! Ríkisstjórnir og voldugar þjóðir gátu ekki staðið í gegn Honum en Hann, einn og óstuddur, rangtleikinn og fangelsaður, afrekaði allt sem Hann ætlaði sér.
Ég ætla ekki minnast á kraftaverk Bahá’u’lláh, því að áheyrandinn gæti sagt að þau séu aðeins munnmæli og vafi léki á sannleiksgildi þeirra. Hið sama má segja um guðspjöllin þar sem frásagnir af kraftaverkum Krists koma til okkar frá postulunum en ekki öðrum áhorfendum og Gyðingar hafna þeim. Ef ég engu að síður nefndi yfirnáttúrulega afrek Bahá’u’lláh eru þau fjölmörg og ótvírætt viðurkennd í Austurlöndum, jafnvel af nokkrum sem ekki eru átrúendur. En þessar frásagnir geta ekki verið afgerandi sönnun og vitnisburður fyrir alla því áheyrandinn gæti sagt að þær séu ekki sannar og fylgjendur annarra trúarsamfélaga segja einnig frá kraftaverkum leiðtoga sinna. Hindúar segja til dæmis frá vissum kraftaverkum Brahma. Hvernig getum við vitað að eitt sé rangt og annað rétt? Ef þetta eru sögusagnir þá eru hinar það líka og sé einu víða borið vitni, þá gildir það sama um annað. Slíkar frásagnir eru því ekki næg sönnun. Auðvitað getur kraftaverk verið sönnun fyrir sjónarvottinn, en jafnvel þá getur hann ekki verið viss um hvort það sem hann sá var raunverulegt kraftaverk eða töfrabrögð. Reyndar hafa merkilegar sjónhverfingar einnig verið raktar til ákveðinna töframanna.
Það sem við eigum við er í stuttu máli að Bahá’u’lláh gerði marga undursamlega hluti, en við segjum ekki frá þeim því þeir hafa ekkert sönnunargildi fyrir allt mannkyn og þeir voru ekki heldur afgerandi sönnun fyrir þá sem urðu vitni að þeim og gætu eignað þá töfrabrögðum.
Auk þess eiga flest kraftaverk sem eignuð eru spámönnunum sér innri merkingu. Til dæmis stendur skrifað í guðspjöllunum að við píslarvætti Krists hafi myrkur skollið á, jörðin bifast, musteristjaldið rifnað í tvennt og hinir dauðu risið úr gröfum sínum. Hafi slíkt borið fyrir sjónir manna hefði það sætt miklum tíðindum. Slíkir atburðir hefði án efa verið skráðir í annála samtímans og fyllt hjörtu manna skelfingu. Í það minnsta hefðu hermennirnir tekið Krist niður af krossinum eða flúið. En þar sem þessir atburðir eru ekki skráðir í heimildir er augljóst að leggja ber í þá innri merkingu en ekki bókstaflega. Tilgangur okkar er ekki að afneita heldur eingöngu að segja að ekki sé hægt að líta á þessar frásagnir sem afgerandi sönnun heldur hafi þær innri merkingu – annað ekki.
Þess vegna ætlum við hér í dag að vísa til skýringa á hefðbundnum rökum úr helgiritunum, því allt sem við höfum talað um hingað til hafa verið gild rök.
Þar sem hér er leitað sannleikans og þekkingar á veruleikanum – sem er staða hins þyrsta sem þráir vatn lífsins og fisksins sem með sporðaköstum nær til sjávar, staðan þar sem veikburða sál leitar hins sanna læknis og fær guðlega lækningu, þar sem týnd úlfaldalest finnur sanna leið og stefnulaust skip í hafvillum nær strönd hjálpræðis – verður leitandinn að hafa ákveðna eiginleika til að bera. Í fyrsta lagi verður hann að vera sanngjarn og aðskilinn öllu nema Guð. Hjarta hans verður að beinast alfarið að hinum hæsta sjónarhring og leysast úr ánauð hégómlegra og eigingjarnra ástríðna, því þetta eru hindranir á leiðinni. Auk þess verður hann að þola allar þrengingar, vera holdtekja hreinlífis og helgunar og afneita ást eða hatri á öllum þjóðum heims, svo að ást hans á einu hindri hann ekki í að rannsaka annað eða hatur hans á einhverju komi í veg fyrir að hann skynji sannleiksgildi þess. Þetta er staða leitar, og leitandinn verður að búa yfir þessum eiginleikum og eigindum – það er að segja, hann getur með engu móti öðlast þekkingu á Sól sannleikans fyrr en hann nær þessari stöðu.
Snúum okkur aftur að viðfangsefninu. Allir þjóðir heims bíða tveggja opinberenda sem eiga að koma á sama tíma. Þessu hefur þeim verið heitið. Í Gamla testamentinu er Gyðingum heitið að Drottinn allsherjar og Messías muni koma. Í Guðspjallinu er sagt fyrir um endurkomu Krists og Elía. Í trú Múhameðs er fyrirheit gefið um Mahdi og Messías. Hið sama gildir um Saraþústramenn og aðra, en að ræða þetta frekar myndi draga umræðu okkar á langinn. Það sem við eigum við er að öllum hefur verið heitið því að tveir opinberendur komi hver á fætur öðrum. Því hefur verið spáð að jörðin verði ný með komu þessarar tvenndarbirtingar og öll tilveran endurnýjuð, þessi jarðneski heimur klæðist skikkju nýs lífs, réttlæti og réttsýni muni umlykja jörðina, hatur og fjandskapur hverfi, öllu sem veldur sundurlyndi meðal þjóða, kynþátta og fólks verði eytt og það sem tryggir einingu, sátt og samstöðu eflist. Hinn gálausi muni vakna af svefni sínum, blindir sjá, daufir heyra, dumbir tala, sjúkir læknast, dauðir rís til lífs og stríð víkja fyrir friði. Fjandskapur breytist í ást, orsökum deilna og sundurlyndis verði útrýmt, mannkynið öðlist raunverulega hamingju, þessi heimur endurspegli ríki himinsins og jörðin hið neðra verði hásæti ríkisins hið efra. Allar þjóðir verði ein þjóð, öll trúarbrögð ein trú, allt mannkyn ein fjölskylda og ein ættkvísl, öll svæði jarðarinnar verða eitt, fordómar á grundvelli kynþáttar, þjóðernis, persónu, tungumáls og stjórnmáls þurrkist út með öllu og allir öðlist eilíft líf í skugga Drottins herskaranna.
Nú verður að sanna komu þessara tveggja opinberenda með vísan til helgiritanna og með því að draga ályktanir af orðum spámannanna. Ætlun okkar er núna að færa rök á grundvelli helgiritanna því að gild rök sem staðfestu sannleika þessara tveggja opinberenda voru kynnt hér við borðið fyrir nokkrum dögum.
Í Daníelsbók er tíminn sem leið milli endurreisnar Jerúsalem og píslarvættis Krists sagður sjötíu vikur, því það er með píslarvætti Krists sem fórninni lýkur og altarinu er eytt. Þessi spádómur vísar því til komu Krists.
Þessar sjötíu vikur hefjast með endurreisn og endurbyggingu Jerúsalem en um hana voru fjórar tilskipanir gefnar af þremur konungum. Hinn fyrsti var Kýrus árið 536 f.Kr. eins og skrifað stendur í fyrsta kafla Esrabókar. Önnur tilskipun varðandi endurbyggingu Jerúsalem var gefin út af Daríusi Persakonungi árið 519 f.Kr. og er skráð í sjötta kafla Esrabókar. Hin þriðja var gefin út af Artaxerxes á sjöunda ríkisári hans, það er að segja 457 f.Kr., og skráð í sjöunda kafla Esrabókar. Fjórða tilskipunin var gefin út af Artaxerxes árið 444 f.Kr. og er skráð í annan kafla Nehemía.
Það sem Daníel vísar til er þriðja tilskipunin sem gefin var út 457 f.Kr. Í sjötíu vikum eru 490 dagar. Samkvæmt Biblíunni er hver dagur eitt ár, því að í Gamla testamentinu segir: „Dagur Drottins er eitt ár.“ Þess vegna eru 490 dagar 490 ár. Þriðja tilskipun Artaxerxes var gefin út 457 árum fyrir fæðingu Krists. Kristur var þrjátíu og þriggja ára þegar Hann var krossfestur og steig upp til himins. Þrjátíu og þrír að viðbættum 457 eru 490, sem er sá tími sem Daníel kunngerði fyrir komu Krists.
En í Daníel 9:25 er sagt frá þessu með öðrum hætti, það er að segja nefndar eru sjö vikur og sextíu og tvær vikur, sem stangast á við fyrstu staðhæfingu hans. Margir vissu ekki hvernig sætta mætti þessar tvennar staðhæfingar. Hvernig er hægt að vísa til sjötíu vikna á einum stað og til sextíu og tveggja vikna og sjö vikna á öðrum stað? Þessar tvær staðhæfingar eru ósamhljóða.
Í rauninni vísar Daníel til tveggja ólíkra dagsetninga. Önnur hefst með tilskipun Artaxerxes, sem bauð Esra að endurreisa Jerúsalem, og samsvarar sjötíu vikum sem lauk með uppstigningu Krists þegar sláturfórn og matfórn lauk með píslarvætti Hans. Hin hefst eftir að endurbyggingu Jerúsalem lauk, sem eru sextíu og tvær vikur fram að uppstigningu Krists. Endurreisn Jerúsalem tók sjö vikur, sem jafngildir fjörutíu og níu árum. Sé sjö vikum bætt við sextíu og tvær vikur gera það sextíu og níu vikur og í síðustu vikunni steig Kristur upp. Þetta eru sjötíu vikur og ekki um neina mótsögn að ræða.
Nú þegar koma Krists hefur verið sönnuð með spádómum Daníels skulum við fastsetja komu Bahá’u’lláh og Bábsins. Enn sem komið er höfum við aðeins sett fram gild rök og skulum nú snúa okkur að þeim hefðbundnu.
Í Daníel 8:13 er sagt: „Þá heyrði ég á mál heilagrar veru og önnur heilög vera spurði viðmælanda sinn: „Hve lengi mun svo verða sem sýnin boðar að hin daglega fórn verði afnumin vegna misgjörða, helgidómurinn yfirgefinn og herskarinn fótum troðinn?“ Hann svaraði mér: „Tvö þúsund og þrjú hundruð kvöld og morgna. Þá verður helgidómurinn hreinn á ný,““ uns þar segir: „því að sýnin varðar síðustu tíma.“ Það er að segja hversu lengi mun þessi ógæfa, eyðilegging og niðurlæging standa? Eða hvenær mun morgunn opinberunar renna upp? Þá sagði hann: „Tvö þúsund og þrjú hundruð kvöld og morgna. Þá verður helgidómurinn hreinn á ný.“ Í stuttu máli er staðreyndin sú að hann fastsetur 2.300 ára tímabil því samkvæmt texta Gamla testamentisins er hver dagur eitt ár. Þess vegna eru 456 ár frá því að Artaxerxes gaf út tilskipun um endurbyggingu Jerúsalem fram að fæðingu Krists, og frá fæðingu Krists fram að komu Bábsins eru 1844 ár, og sé 456 árum er bætt við þessa tölu gerir það 2.300 ár. Það er að segja, uppfylling á sýn Daníels átti sér stað árið 1844 sem er árið þegar Bábinn kom fram. Skoðaðu texta Daníelsbókar og sjáðu með hversu skýrt hann fastsetur árið sem Hann kom! Spádómurinn um opinberandann gæti ekki verið skýrari.
Í Matteusarguðspjalli 24:3 segir Kristur ótvírætt að það sem Daníel hafi átt við með þessum spádómi sé dagsetning komunnar en þar segir: „Þá er Jesús sat á Olíufjallinu gengu lærisveinarnir til hans og spurðu hann einslega: „Seg þú okkur, hvenær verður þetta? Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?““ Meðal þess sem Hann sagði í svari sínu var eftirfarandi: „Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðileggingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað“ – lesandinn athugi það. Þannig vísaði Hann þeim á áttunda kafla Daníelsbókar og gaf í skyn að sá sem hana læsi gæti áttað sig á hvenær sá tími kæmi. Hugleiddu hversu skýrt koma Bábsins var sögð fyrir í Gamla testamentinu og fagnaðarerindinu!
Við skulum nú staðfesta dagsetningu fyrir komu Bahá’u’lláh á grundvelli orða Gamla testamentisins. Þessi dagsetning er reiknuð út í tunglárum frá opinberun ætlunarverks Múhameðs og flutnings Hans frá Mekku. Því að í trú Múhameðs er tunglárið notað og öll fyrirmæli varðandi trúarathafnir voru sett með hliðsjón af þessu tímatali.
Í Daníel 12:6 segir: „Annar þeirra sagði við línklædda manninn sem stóð yfir fljótinu: „Hve langt mun þar til þessum furðuverkum linnir?“ Þá heyrði ég að línklæddi maðurinn, sem stóð yfir fljótinu, sór við Hinn eilífa, fórnaði hægri og vinstri hendi til himins og sagði: „Ein tíð, tvær tíðir og hálf tíð; þegar máttur hinnar heilögu þjóðar er brotinn á bak aftur mun allt þetta ganga eftir.““
Þar sem ég hef þegar útskýrt hvaða merkingu „dagur“, hefur þarf engra frekari skýringa við, en leyfðu mér þó að segja í stuttu máli að hver dagur Föðurins jafngildir einu ári og í hverju ári eru tólf mánuðir. Þannig eru þrjú og hálft ár fjörutíu og tveir mánuðir og fjörutíu og tveir mánuðir eru 1260 dagar, og hver dagur í Biblíunni jafngildir einu ári. Og það var einmitt 1260 árum frá brottför Múhameðs samkvæmt tímatali múslíma sem Bábinn, boðberi Bahá’u’lláh, kunngerði ætlunarverk sitt.
Síðan segir í ritningarversum 11 og 12: „Frá því að daglega fórnin verður afnumin og viðurstyggð eyðingarinnar upp reist munu líða eitt þúsund tvö hundruð og níutíu dagar. Sæll er sá sem þolgóður þreyr uns eitt þúsund þrjú hundruð þrjátíu og fimm dagar eru liðnir.“
Upphaf þessa tímatals tunglársins er frá þeim degi sem Múhameð kunngerði köllun sína í landinu Ḥijáz og það var þremur árum eftir að Hann opinberaði ætlunarverk sitt, því að í upphafi fór köllun Hans leynt og enginn vissi um hana nema Khadíjih og Ibn-i-Nawfal, uns hún var kunngerð opinberlega þremur árum síðar. Og Bahá’u’lláh kunngerði opinberun sína 1290 árum eftir að Múhameð opinberaði köllun sína.
– 11 –
Skýring á ellefta kafla Opinberunar Jóhannesar
Í Opinberunarbókinni 11:1–2 segir: „Mér var fenginn reyrleggur, líkur staf, og sagt: „Rís upp, mæl musteri Guðs og altarið og tel þau sem tilbiðja þar. En forgarðinum fyrir utan musterið skalt þú sleppa og mæl hann ekki því að hann er ætlaður heiðingjunum og þeir munu fótum troða borgina helgu í fjörutíu og tvo mánuði.““
Með þessum reyrlegg er átt við hinn fullkomna mann, og ástæðan fyrir því að honum er líkt við reyrlegg er að þegar hann er slitinn upp og hreinsaður innan, er hægt að fá hann til að gefa frá sér undursamlega tóna. Þessir tónar koma auk þess ekki frá sjálfum reyrleggnum heldur þeim sem í hann blæs. Á sama hátt hefur heilagt hjarta Hinnar blessuðu verundar hreinsast og frelsast frá öllu nema Guði, er andsnúið og undanþegið allri sérdrægni og sjálfshyggju og hefur nána þekkingu á hinum guðdómlega anda. Orð Hans koma ekki frá Honum sjálfum heldur þeim sem á Hann spilar og frá guðlegri opinberun. Þess vegna er Honum líkt við reyrlegg, og sá reyrleggur er eins og stafur, það er að segja stoð hins veikburða og stytta hverrar dauðlegrar sálar. Hann er stafur hins sanna hirðis og með honum verndar Hann hjörð sína og leiðir hana inn á haglendi Guðsríkis.
Síðan segir að engillinn hafi ávarpað hann og sagt: „Rís upp, mæl musteri Guðs og altarið og tel þá sem tilbiðja þar.“ Það er að segja, hann á að mæla og vega og ganga þannig úr skugga um magn og gæði. Því sagði engillinn: Mæl þú og met hið allra helgasta og altarið og þá sem tilbiðja þar – það er að segja, rannsaka raunverulegt ástand þeirra, gakk úr skugga um stöðu þeirra, afrek, framferði og fullkomna eiginleika, og kynn þér leyndardóma þeirra heilögu sálna sem dvelja í stöðu hreinleika og heilagleika í hinu allra helgasta.
„En forgarðinum fyrir utan musterið skalt þú sleppa og mæl hann ekki því að hann er ætlaður heiðingjunum.“ Strax í byrjun sjöundu aldar kristins tímatals var Jerúsalem hernumin. Hið allra helgasta – það er að segja byggingin sem Salómon reisti – var varðveitt hið ytra, en forgarðurinn fyrir utan musterið var tekinn og seldur í hendur heiðingjunum.
„Og þeir munu fótum troða borgina helgu í fjörutíu og tvo mánuði“ – það er að segja, heiðingjarnir munu leggja Jerúsalem undir sig í fjörutíu og tvo mánuði sem eru 1260 dagar eða 1260 ár – því hver dagur jafngildir einu ári – sem er tími trúarkerfis Kóransins. Því að samkvæmt texta Biblíunnar er hver dagur eitt ár, eins og segir í Esekíel 4:6: „Þá skaltu bera sekt Júdamanna í fjörutíu daga. Ég hef talið þér einn dag fyrir hvert ár.“
Þetta er spádómur um tíma íslamska trúarkerfisins þegar Jerúsalem var fótumtroðin, sem þýðir að hún var vanheiðruð en hið allra helgasta var varðveitt með sæmd og heiðri. Þetta ástand stóð allt fram til ársins 1260. Þessi 1260 ár eru spádómur um komu Bábsins, „hliðsins“ sem opnaðist að Bahá’u’lláh og það gerðist árið 1260 e.H. Þar sem þessum 1260 árum er lokið og tíminn fullnaður er borgin helga, Jerúsalem, farin að eflast og dafna á ný. Allir sem sáu Jerúsalem fyrir sextíu árum og líta hana aftur í dag viðurkenna hversu mjög hún hefur náð að vaxa og endurheimta heiður sinn.
Þetta er hinn ytri skilningur á þessum ritningargreinum í Opinberun Jóhannesar, en þær eiga sér líka innri túlkun og táknræna merkingu og hún er þessi. Trú Guðs er tvíþætt: Annar þátturinn er undirstaðan og tilheyrir hinu andlega ríki – það er að segja, hún lýtur að andlegum dyggðum og guðlegum eiginleikum. Á þessum þætti verður aldrei breyting eða umskipti. Hann er hið allra helgasta sem er innsti veigur trúarbragða Adams, Nóa, Abrahams, Móse, Krists, Múhameðs, Bábsins og Bahá’u’lláh. Þessi innsti kjarni helst óbreyttur í öllum trúarkerfum og verður aldrei felldur úr gildi, því sannleikur hans er andlegur en ekki efnislegur. Hann er trú, þekking, fullvissa, réttlæti, guðrækni, göfgi, traustverðleiki, ást á Guði og kærleiksverk. Hann er miskunn við fátæka, aðstoð við kúgaða, örlæti sem sýnt er hinum þurfandi og uppörvun hinna föllnu. Hann er hreinlífi, aðskilnaður, auðmýkt, umburðarlyndi, þolinmæði og staðfesta. Þetta eru guðlegir eiginleikar. Þessi boðorð verða aldrei felld úr gildi heldur munu standa um alla eilífð. Þessar mannlegu dyggðir eru endurnýjaðar í sérhverju trúarkerfi, því að í lok hvers þeirra hverfur andi hins guðlega lögmáls frá þeim en hann felst í mannlegum dyggðum, og aðeins formið og umbúðirnar verða eftir.
Undir lok trúarkerfis Móse, sem fór saman við komu Krists, hvarf þessi sanna trú Guðs meðal gyðinga og eftir stóð form án anda. Hið allra helgasta var ekki lengur til en forgarður musterisins – tákn hins ytra forms trúarinnar – féll heiðingjunum í hendur. Á sama hátt er innsti veigur kristinnar trúar, sem felst í æðstu manndyggðum, ekki lengur fyrir hendi en ytra form hennar er áfram í höndum presta og munka. Á sama hátt er grundvöllur trúar Múhameðs brostinn en ytra form hennar er áfram í höndum múslímskra klerka.
Þær stoðir trúar Guðs sem eru andlegar og felast í mannlegum dyggðum eru þó aldrei háðar ógildingu heldur eru þær eilífar og ævarandi og endurnýjast í hverju spámannlegu trúarkerfi.
Annar þáttur trúar Guðs lýtur að efnisheiminum og snýr að hlutum eins og föstu, bæn, tilbeiðslu, hjónabandi, skilnaði, lausn úr ánauð, lagaúrskurðum, viðskiptum og viðurlögum, refsingu fyrir morð, líkamsárásum, þjófnaði og meiðslum. Þessi þáttur er breytingum háður í öllum spámannlegum trúarkerfum – því stefnumál, viðskipti, refsingar og önnur lagafyrirmæli hljóta að breytast í samræmi við þarfir og kröfur hvers tíma.
Í stuttu máli táknar hugtakið „hið allra helgasta“ andlega lögmálið sem aldrei breytist eða fellur út gildi, og það sem átt er við með „hinni helgu borg“ eru efnisleg lög sem vissulega má ógilda. Það voru þessi efnislegu lög – hin helga borg – sem voru fótumtroðin í 1260 ár.
„Ég mun láta votta mína tvo flytja spádómsorð í eitt þúsund tvö hundruð og sextíu daga, klædda hærusekkjum.“ Með þessum tveimur vitnum er átt við Múhameð boðbera Guðs og ‘Alí, son Abú Ṭálib. Í Kóraninum segir að Guð hafi talað til Múhameðs og sagt: „Vér gerðum þig að vitni, kallara og þeim sem flytur varnaðarorð.“ Þetta merkir: Vér gerðum Þig að þeim sem ber vitni, miðlar gleðitíðindum um það sem koma skal og varar við reiði Guðs. „Vitni“ táknar þann sem gefur vitnisburð og staðfestingu. Fylgja átti boðum þessara tveggja vitna í 1260 daga – og hver dagur er eitt ár. Múhameð var stofninn og ‘Alí greinin sem af honum óx líkt og Móses og Jósúa. Sagt er að þeir væru „klæddir hærusekk“, sem þýðir að klæði þeirra virtust gömul en ekki ný. Með öðrum orðum, þeir virtust upphaflega ekki hafa neina þýðingu í augum annarra þjóða og málstaður þeirra ekki vera nýr. Því að andlegar meginreglur trúarbragða Múhameðs samsvara meginreglum Krists í guðspjöllunum og efnisleg boðorð Hans samsvara að mestu boðorðum Gamla testamentisins Þetta er það sem gömlu klæðin tákna.
„Þetta eru olíuviðirnir tveir og ljósastikurnar tvær sem standa frammi fyrir Drottni jarðarinnar.“ Þessum tveimur sálum hefur verið líkt við ólífutré því að ólífuolía var ljósmeti allra lampa á þeim tíma. Með öðrum orðum, þessar tvær sálir munu birta ljós guðlegrar visku, sem upplýsir heiminn, og fyrir þeirra tilstuðlan mun ljós Guðs skína í fullum ljóma. Þess vegna er þeim líkt við ljósastikur. Ljósastikan er staðurinn þaðan sem ljósið berst. Þannig skein einnig ljós leiðsagnar frá þessum geislandi ásýndum.
Þeir standa „frammi fyrir Drottni“ – það er að segja þeir hafa risið upp til þjónustu við Hann og til að uppfræða skepnur Hans. Sem dæmi má nefna að þeir kenndu villtum eyðimerkurbúum Arabíuskagans og uppfræddu þá svo að þeir náðu hátindi siðmenningar þeirra tíma og orðstír þeirra barst um allan heim.
„Og ef einhver vill granda þeim gengur eldur út úr munni þeirra og eyðir óvinum þeirra.“ Þetta þýðir að engin sál fær staðist mátt þeirra. Það er að segja, ef einhver leitaðist við að grafa undan kenningum þeirra eða lögum myndi lögmálið sem framgekk af munni þeirra sigra hann, hvort heldur til skamms tíma eða að fullu og öllu. Með öðrum orðum, þeir myndu gefa út tilskipun sem tortímdi öllum fjandmönnum sem reyndu að skaða þá eða rísa gegn þeim. Og svo bar við að allir andstæðingar þeirra voru ofurliði bornir, þeim var dreift og tortímt, og hið ytra voru þessi tvö vitni studd mætti Guðs.
„Þeir hafa vald til að loka himninum til þess að eigi rigni meðan þeir flytja boðskap sinn.“ Þetta þýðir að vald þeirra var fullkomið á þeim tíma. Með öðrum orðum, lög og kenningar Múhameðs ásamt ítarlegum skýringum eru himnesk miskunn. Ef þeir vildu veita þessa miskunn stóð það í þeirra valdi, en ef þeir vildu það ekki myndi ekki „rigna“ – og með regni er átt við úthellingu náðar.
„Þeir hafa einnig vald til að breyta vötnunum í blóð.“ Þetta þýðir að spámannshlutverki Múhameðs svipaði til þess sem Móse gegndi og máttur ‘Alí svipaði til Jósúa. Það er að segja, hefðu þeir viljað stóð í þeirra valdi að breyta Nílarfljóti í blóð fyrir Egypta og þá sem afneituðu – eða breyta með öðrum orðum uppsprettu lífs í dauða vegna fáfræði þeirra og drambs. Vegna andstöðu þeirra, afneitunar og hroka varð veldi, auður og máttur Faraós og þjóðar hans, sem voru lífsuppspretta þessarar þjóðar, orsökin að dauða þeirra, eyðingu, niðurlægingu og eymd. Þess vegna hafa þessi tvö vitni vald til að tortíma þjóðum.
„Og slá jörðina með hvers kyns plágu svo oft sem þeir vilja.“ Þetta þýðir að þeim yrði veittur máttur og upphafning hið ytra til að þeir gætu agað ójafnaðarmennina, holdtekjur kúgunar og harðstjórnar. Því að Guð hafði fengið þessum tveimur vitnum ytri mátt og innra vald, og í krafti þess endurreistu þeir og uppfræddu þessa spilltu, blóðþyrstu og ranglátu arabísku eyðumerkurbúa sem voru eins og glefsandi úlfar og óargadýr.
„Og er þeir hafa lokið vitnisburði sínum…“ – það er að segja, þegar þeir hafa lokið verki sínu, flutt boðskap Guðs, kynnt trú Hans og boðað himneskar kenningar Hans til þess að tákn um líf andans gætu birst í sálum manna, ljós mannlegra dyggða skinið og þessir eyðimerkurættbálkar tekið miklum framförum.
„…mun dýrið, sem upp stígur úr undirdjúpinu, heyja stríð við þá og mun sigra þá og deyða þá.“ Með þessu dýri er átt við Umayyad-ættbálkinn sem reis upp og réðist gegn þessum vitnum úr afgrunni villu og vélabragða. Og svo bar reyndar við að Umayyad-ættin gerði atlögu gegn trú Múhameðs og sannleika ‘Alí sem fólst í ást á Guði.
„Dýrið háði stríð gegn þessum tveimur vitnum.“ Með þessu er átt við andlegt stríð sem þýðir að dýrið sýndi fullkomna andstöðu við kenningar, hegðun og eðlisfar þessara tveggja vitna að því marki að dyggðir og mannkostir sem höfðu verið ræktaðir meðal fólksins og þjóðanna í krafti valds þeirra og máttar hurfu með öllu og í staðinn tóku dýrslegir eiginleikar og holdlegar ástríður völdin. Þess vegna átti þetta dýr að heyja stríð gegn þeim og komast til valda, sem þýðir að myrkur villunnar sem fylgdi dýrinu myndi ríkja um allan heim og ráða niðurlögum þessara tveggja vitna – það er að segja, kæfa andlegt líf fólksins, eyða guðlegum lögum þess og kenningum, fótumtroða trú Guðs og skilja ekkert eftir nema dauðan og sálarlausan líkama.
„Og lík þeirra munu liggja á strætum borgarinnar miklu þar sem Drottinn þeirra var krossfestur. Hún heitir á andlegan hátt Sódóma og Egyptaland.“ Með „líkum þeirra“ er átt við trú Guðs og með „stræti“ er átt við almannafæri. „Sódóma og Egyptaland, þar sem Drottinn þeirra var krossfestur“ vísar til Sýrlands og þó sérstaklega Jerúsalem, því að Umayyadar náði þessu landi á vald sitt og það var hér sem trú Guðs og guðlegar kenningar Hans hurfu fyrst og eftir stóð sálarlaus líkami. „Lík þeirra“ vísa til trúar Guðs sem var áfram eins og dauður og sálarlaus líkami.
„Menn af öllum lýðum og kynkvíslum, tungum og þjóðum sjá lík þeirra þrjá og hálfan dag og leyfa ekki að þau verði lögð í gröf.“ Eins og hefur verið útskýrt með orðum heilagrar ritningar tákna þrír og hálfur dagur þrjú og hálft ár, sem eru fjörutíu og tveir mánuðir og í fjörutíu og tveimur mánuðum eru 1260 dagar. Samkvæmt skýrum texta Biblíunnar jafngildir hver dagur einu ári og því þýðir þetta að í þau 1260 ár sem trúarkerfi Kóransins stóð, myndu þjóðir, lýðir og ættkvíslir hafa lík þeirra fyrir augunum. Það er að segja, trú Guðs blasti við sjónum þeirra en þeir störfuðu ekki í samræmi við hana. Samt myndu þeir ekki leyfa að þessir líkamar – trú Guðs – yrðu lagðir til hvíldar. Það er að segja, þeir héldu fast við ytri ímynd hennar og létu hana ekki hverfa með öllu né leyfðu að líkinu yrði eytt að öllu leyti og því tortímt. Frekar myndu þeir hverfa frá veruleika hennar en varðveita hið ytra nafn hennar og minningu.
Hér er átt við þær ættkvíslir, fólk og þjóðir sem safnast höfðu saman í skugga Kóransins. Þetta eru þeir sem ekki myndu leyfa að málstað og trú Guðs yrði einnig grandað hið ytra. Þannig stunduðu þeir einhverja bænagjörð og föstu, en sjálfur grundvöllur trúar Guðs, sem er göfug skaphöfn, grandvör breytni og þekking á guðlegum leyndardómum, var horfinn, ljós mannlegra dyggða sem kviknar af ást og þekkingu á Guði, hafði slokknað, myrkur kúgunar og harðstjórnar, holdlegra ástríðna og djöfullegra eiginleika ríktu, og líkami trúar Guðs lá eins og liðið lík fyrir allra sjónum.
Í 1260 daga, hver dagur eitt ár – það er að segja á tíma íslamska trúarkerfisins – fyrirgerðu fylgjendur þessara tveggja Persóna öllu sem þeir höfðu lagt til grundvallar trú Guðs. Mannlegar dyggðir – sem eru gjafir Guðs og voru andi þessarar trúar – voru þurrkaðar út í slíkum mæli að sannsögli, réttlæti, ást, samlyndi, hreinleiki, heilagleiki, andleg lausn og allir himneskir eiginleikar hurfu frá þeim og það sem eftir stóð af trúnni voru einungis bænir og fasta. Þetta ástand stóð í 1260 ár sem er tímalengd trúarkerfis Múhameðs. Það var líkt og þessar tvær Persónur hefðu dáið og sálarlausir líkamar þeirra verið skildir eftir.
„Og íbúar jarðarinnar gleðjast yfir þeim og fagna og senda hver öðrum gjafir því að þessir tveir spámenn kvöldu þá sem á jörðunni búa.“ Með „þeim sem búa á jörðinni“ er átt við að aðrar þjóðir og lýði, svo sem í Evrópu og fjarlægum Asíulöndum, sem urðu þess áskynja að eðli íslam hefur gjörbreyst – að horfið var frá trú Guðs, ekkert stóð eftir af dyggð, velsæmi og heiðri og eðlisfar hafði breyst til hins verra – fögnuðu því að siðir múslíma höfðu spillst og aðrir þjóðir gætu því sigrast á þeim. Og þetta gerðist raunar með augljósum hætti. Gef gaum að niðurlægingu og skipbroti þessa fólks sem eitt sinn fór með óskorað vald!
Hinar þjóðirnar „munu senda hver annarri gjafir“ en það þýðir að þær myndu hjálpa hver annarri, því „þessir tveir spámenn kvöldu þá sem á jörðunni búa“, það er að segja, þeir lögðu undir sig aðrar þjóðir og lýði og undirokuðu þá.
„Eftir dagana þrjá og hálfan fór lífsandi frá Guði í þá og þeir risu á fætur. Mikill ótti kom yfir alla sem sáu þá.“ Þrír og hálfur dagur eru 1260 ár eins og við höfum áður útskýrt. Lífið hafði fjarað úr trú og kenningum Múhameðs og útskýringum ‘Alí – þessum tveimur andvana líkömum – og eftir stóð aðeins innantómt form. Það er að segja, andlegt eðli trúar Guðs var horfið fyrir hinu efnislega, dyggðir höfðu breyst í lesti, ást Guðs í hatur, ljósið var orðið að myrkri, guðlegir eiginleikar höfðu breyst í sataníska, réttlæti í kúgun, miskunn í illvilja, einlægni í hræsni, leiðsögn í villu, hreinlífi í fýsnir. Allar þessar guðlegu kenningar, himnesku dyggðir og fullkomnu andlegu gjafir voru eftir þrjá og hálfan dag (sem samkvæmt orðum heilagrar ritningar eru 1260 ár) endurnýjaðar með komu Bábsins og hollustu Quddúsar.
Þannig barst andvari heilagleikans á ný, ljós sannleikans skein, vorið kom með fersku lífi og morgunn leiðsagnar rann upp. Þessir tveir líkamar lifnuðu við á ný og þessar tvær heilögu persónur – annar stofnandi og hinn kyndilberi – voru reistar upp eins og tvær ljósastikur því að þeir lýstu upp allan heiminn með ljósi sannleikans.
„Og þeir heyrðu rödd mikla af himni sem sagði við þá: „Stígið upp hingað.“ Og þeir stigu upp til himins í skýi.“ Merkingin er sú að frá hinum ósýnilega himni heyrðu þeir raust Guðs sem sagði: Ykkur hefur tekist allt sem kallað var eftir varðandi uppfræðslu fólksins og orð fagnaðarerindisins um það sem koma skal. Þið hafið flutt fólkinu boðskap Minn, kunngert sannleikann og uppfyllt allar skyldur ykkar. Nú verðið þið, eins og Kristur, að fórna lífi ykkar á vegi Ástvinarins og líða píslarvætti. Og þess vegna gekk Sól veruleikans og máni leiðsagnar til viðar eins og sól Krists hafði gert, hvarf undir sjónarhring hinnar æðstu fórnar og steig upp til himins.
„Og óvinir þeirra sáu þá.“ Það er að segja, eftir píslarvætti þeirra áttuðu margir óvinir þeirra sig á því á háleitri stöðu þeirra og dyggðum og báru vitni mikilleika þeirra og fullkomnun.
„Á þeirri stundu varð landskjálfti mikill og tíundi hluti borgarinnar hrundi. Í landskjálftanum fórust sjö þúsundir manna en þeir sem eftir voru urðu ótta slegnir.“ Þessi jarðskjálfti varð í Shíráz eftir píslarvætti Bábsins. Ringulreið varð í borginni og margir dóu. Í kjölfarið varð einnig mikið umrót vegna sjúkdóma, kóleru, skorts, hungursneyðar og annarra þrenginga – og slíkt umrót hafði aldrei þekkst áður.
„En þeir sem eftir voru urðu ótta slegnir og fólu sig á vald Guðs á himni.“ Þegar jarðskjálftinn átti sér stað í Fárs kveinuðu þeir og mæddust sem eftir lifðu og voru með hugann allan við að lofa Guð og biðja til Hans. Slíkur var ótti þeirra og hugaræsing að á næturnar var hvorki hvíld né ró að fá.
„Annað veiið er liðið hjá. Brátt kemur þriðja veiið.“ Fyrsta veiið var koma postula Guðs, Múhameðs, sonar ‘Abdu’lláh, friður sé með Honum. Annað veiið var Bábinn, dýrð og vegsemd hvíli yfir Honum. Þriðja veiið er hinn mikli dagur komu Drottins herskaranna og opinberunar Hinnar fyrirheitnu fegurðar. Skýringu á þessu er að finna í þrítugasta kafla Esekíels þar sem sagt er: „Mannssonur, spá þú og seg: Svo segir Drottinn Guð: Grátið og kveinið yfir þessum degi. Því að dagurinn er í nánd, dagur Drottins er í nánd.“ Það er því augljóst að dagur kveinstafanna er dagur Drottins, því að á þeim degi kveina hinir gálausu, syndararnir og hinir fávísu. Þess vegna er sagt: „Annað veiið er liðið; og sjá, þriðja veiið kemur fljótt.“ Þriðja veiið er dagur opinberunar Bahá’u’lláh, dagur Guðs og hann rann upp skömmu eftir að Bábinn birtist.
„Sjöundi engillinn básúnaði. Þá heyrðust raddir miklar á himni er sögðu: „Drottinn og Kristur hans hafa fengið valdið yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda.““ Með þessum engli er átt við sálir manna sem hafa klæðst himneskum eiginleikum, engilhreinu eðli og hneigðum. Raddir heyrast sem kunngera birtingu hins guðdómlega opinberanda og þær berast víða. Kunngert verður að þessi dagur sé dagur komu Drottins allsherjar og þetta trúarkerfi sé miskunnarríkt trúarkerfi guðlegrar forsjónar. Því hefur verið heitið og það er skráð á allar helgar bækur og ritningar að á þessum degi Guðs verði grundvöllur lagður að guðlegum og andlegum yfirráðum Hans, heimurinn verði nýr, ferskum anda blásið í líkama sköpunarverksins, hið guðdómlega vor fari í hönd, regn falli úr skýjum miskunnar, sól sannleikans skíni, lífgefandi andvari berist yfir allt sem er. Heimur mannkynsins klæðist nýjum klæðum, ásýnd jarðar verði eins og æðsta paradís, mannkynið fái uppfræðslu, endir verði bundinn á stríð, deilur, átök og ósamlyndi, en sannleikur, réttlæti, friður og guðrækni muni ná yfirhöndinni, ást, samstaða og eining umvefja heiminn og Guð muni ríkja að eilífu – það er að segja að grundvöllur verði lagður að andlegum og eilífum yfirráðum. Slíkur er dagur Guðs. Því að allir þeir dagar sem komið hafa og farið voru dagar Abrahams, Móse, Krists eða hinna spámannanna. En þessi dagur er dagur Guðs því á honum mun sól sannleikans skína í fullum ljóma.
„Og öldungarnir tuttugu og fjórir, þeir er sitja frammi fyrir Guði í hásætum sínum, féllu fram á ásjónur sínar, tilbáðu Guð og sögðu: Vér þökkum þér, Drottinn Guð, þú alvaldi, þú sem ert og þú sem varst, að þú hefur tekið valdið þitt hið mikla og gerst konungur.“ Í sérhverju trúarkerfi hafa verið tólf útvaldir: Á tímum Jósefs voru það tólf bræður og á tímum Móse tólf leiðtogar eða höfðingjar ættkvíslanna. Á tímum Krists voru tólf postular og á tímum Múhameðs tólf ímamar. En í þessari dýrlegu opinberun eru tuttugu og fjórar slíkar sálir, helmingi fleiri en í öðrum trúarkerfum því að mikilleiki hennar og tign krefst þess. Þessar helgu sálir eru í návist Guðs og sitja á hásætum sínum sem þýðir að þær ríkja að eilífu.
Þótt þessar tuttugu og fjórar dýrlegu sálir séu í hásæti eilífs fullveldis, falla þær samt fram í tilbeiðslu og eru auðmjúkar og undirgefnar frammi fyrir allsherjar opinberanda Guðs og þær segja: „Vér þökkum þér, Drottinn Guð, þú alvaldi, þú sem ert og þú sem varst, að þú hefur tekið valdið þitt hið mikla og gerst konungur.“ Það er að segja, Þú munt kunngera allar kenningar Þínar, safna öllum jarðarbúum saman í skugga Þínum og leiða saman alla menn í eina tjaldbúð. Og þótt fullveldi hafi ávallt tilheyrt Guði og Hann hafi alltaf verið og muni að eilífu vera æðsti yfirbjóðandinn, þá er hér vísað til fullveldis opinberandans sjálfs sem mun kunngera þau lög og þær kenningar sem eru lífsandi heimsins og færa honum eilíft líf. Þessi allsherjar opinberandi sigrar heiminn með andlegum krafti, ekki með stríði og deilum. Hann færir heiminum frið og sátt, ekki sverð og spjót. Hann kemur á þessu guðlega fullveldi með ósvikinni ást, ekki hernaðarmætti. Hann eflir þessar guðlegu kenningar með góðvild og vináttu, ekki með ofbeldi og vopnum. Jafnvel þótt þessar þjóðir og kynkvíslir séu í ljósi ólíkra aðstæðna, fjölbreyttra siða og eðlisfars og margvíslegra trúarbragða og kynþátta, eins og úlfurinn og lambið, pardusdýrið og kiðlingurinn, brjóstmylkingurinn og höggormurinn mun Hann veita þeim slíka uppfræðslu að þær taka höndum saman, eiga samneyti og sýna hver öðrum trúnað. Kynþáttahatur, trúarfordómar og þjóðernisbarátta þurrkast út að fullu og fullkomin vinátta og sátt allra manna mun ríkja í skugga Hins blessaða trés.
„Þjóðirnar reiddust“ því að kenningar Þínar gengu gegn eigingjörnum óskum annarra þjóða „og reiði þín kom“ sem þýðir að allir biðu hörmulegt tjón því þeir fóru ekki að ráðum Þínum, áminningum og kenningum, og þær voru sviptar eilífri miskunn og fóru á mis við ljósið frá sól sannleikans.
„Og tíminn til að dæma hina dauðu“ merkir að sá tími er kominn að hina dauðu – það er að segja að þá sem sviptir eru anda ástar Guðs og því lífi sem er heilagt og eilíft – skuli dæma af réttvísi, sem merkir að hver og einn verður reistur upp samkvæmt verðleikum sínum og hæfni og í ljós kemur allur sannleikurinn um niðurlægingu þeirra í þessari veröld og hvernig þeir að sönnu teljast til hinna dauðu.
„Og gefa launin þjónum þínum, spámönnunum og hinum heilögu og þeim sem óttast nafn þitt, smáum og stórum.“ Það er að segja, hinum réttlátu veitir Þú takmarkalausa náð Þína, lætur ljós þeirra skína eins og stjörnur himins yfir sjónarhring aldinnar dýrðar og hjálpar þeim að sýna slíka háttsemi og lundarfar að allur heimurinn upplýsist og verði farvegur leiðsagnar og uppspretta eilífs lífs í ríki Guðs.
„Og til að eyða þeim sem jörðina eyða.“ Það er að segja, Þú munt gera hina gálausu fullkomlega afskipta, því ljóstrað verður upp um blindu þeirra sem ekki sjá og sýn þeirra sem hafa augu að sjá verður öllum ljós. Upp kemst um fáfræði og flónsku hinna villuráfandi og þekking og viska þeirra sem njóta réttrar leiðsagnar verður augljós. Þannig verður þeim eytt sem jörðina eyða.
„Og musteri Guðs opnaðist, það sem á himni er.“ Þetta þýðir að hin guðdómlega Jerúsalem hefur birst og hið allra helgasta komið í ljós. Meðal þeirra sem hafa sanna þekkingu vísar hið allra helgasta til kjarna trúarbragða Guðs og sannra kenninga Hans sem staðið hafa óbreyttar í öllum spámannlegum trúarkerfum, eins og áður var útskýrt, en Jerúsalem umlykur veruleika trúar Guðs, sem er hið allra helgasta, svo og öll lagafyrirmæli, gagnkvæm samskipti, helgiathafnir og efnisleg fyrirmæli sem mynda borgina. Þess vegna er hún kölluð hin himneska Jerúsalem. Í stuttu máli, ljós Guðs skín í fullum ljóma í trúarkerfi Sólar sannleikans og þannig verður kjarni hinna guðlegu kenninga að veruleika í heiminum, myrkur fáfræði og flónsku verður flæmt á brott, heimurinn verður annar heimur, andleg upplýsing umvefur allt sem er og þess vegna mun hið allra helgasta koma í ljós.
„Og musteri Guðs opnaðist, það sem á himni er.“ Þetta þýðir líka að með útbreiðslu guðlegra kenninga, afhjúpun þessara himnesku leyndardóma og upprás sólar sannleikans opnast hlið framfara og framþróunar á gátt og tákn himneskra gjafa og blessana opinberast.
„Og sáttmálsörk hans birtist í musteri hans.“ Þetta merkir að bók sáttmála Hans mun birtast í Jerúsalem, tafla erfðaskrárinnar verða rituð og merking sáttmálans og erfðaskrárinnar verður ljós. Kall Guðs mun hljóma í vestri og austri og jörðin fyllast orðstír málstaðar Guðs. Sáttmálsbrjótarnir verða auðmýktir og niðurlægðir og hinum trúföstu hlotnast heiður og dýrð, því að þeir halda fast við bók sáttmálans og eru staðfastir og óhaggandi á vegi erfðaskrárinnar.
„Og eldingar komu og dunur og þrumur og landskjálfti og hagl mikið.“ Þetta merkir að eftir að bók sáttmálans hefur verið opinberuð brestur á mikill stormur, elding heiftarreiði Guðs leiftrar, þrumur sáttmálsbrota dynja, skjálfti efasemda skekur jörðina, kvalafullt haglél dynur á sáttmálsbrjótunum og þeir sem segjast trúa verða látnir þola raunir og þrengingar.
– 12 –
Athugasemd við ellefta kafla Jesaja
Í Jesaja 11:1–9 segir: „Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans. Andi Drottins mun hvíla yfir honum: andi speki og skilnings, andi visku og máttar, andi þekkingar og guðsótta. Guðsóttinn verður styrkur hans. Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns, deyða hinn guðlausa með anda vara sinna. Réttlæti verður belti um lendar hans, trúfesti lindinn um mjaðmir hans. Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.“
Þessi „sproti af stofni Ísaí“ gæti virst eiga við um Krist, því að Jósef var afkomandi Ísaí, föður Davíðs. En þar sem Kristur var getinn af guðdómlegum anda kallaði Hann sig son Guðs. Að öðrum kosti hefðu þessi orð átt við Hann. Ef atburðirnir sem sagðir eru hafa gerst á dögum sprotans eru túlkaðir í óeiginlegri merkingu gerðust þeir aðeins að hluta til, en séu þeir túlkaðir bókstaflega gátu þeir ekki með nokkru móti gerst á dögum Krists.
Við gætum til dæmis sagt að pardusdýrið og smásveinninn, ljónið og kálfurinn, brjóstmylkingurinn og höggormurinn, tákni hinar ýmsu þjóðir, óvinveitta lýði og stríðandi ættir jarðar sem voru í fjandskap sínum og andróðri eins og úlfurinn og lambið en veittist andi einingar og vináttu með fulltingi hins messíanska anda, vöknuðu til lífsins og tengdust hver annarri náið. En skilyrðið sem vísað er til með orðunum „Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið“ var ekki uppfyllt í kristindómi. Því að enn í dag eru ýmsar óvinveittar og stríðandi þjóðir í heiminum. Fáar þeirra viðurkenna Guð Ísraels og flestar eru sviptar þekkingu á Guði. Almennur friður komst heldur ekki á með Kristi, það er að segja friður og velferð varð ekki að veruleika meðal óvinveittra og stríðandi þjóða, ekki var skorið úr deilum og átökum og ekki tókst að koma á einlægum sáttum og samkomulagi. Því fram til þessa dagur hefur mikill fjandskapur, hatur og átök ríkt milli kristinna þjóða.
En þessi ritningarorð eiga öll við um Bahá’u’lláh. Auk þess mun jörðin verða önnur jörð í þessu undursamlega trúarkerfi og heimur mannkynsins prýðast skarti fullkomins friðar og rósemi. Stríð, deilur og blóðsúthellingar víkja fyrir friði, eindrægni og sáttum. Meðal þjóða, lýða, ættkvísla og stjórnvalda mun ríkja ást og vinátta og lagður verður traustur grundvöllur að samvinnu og nánum tengslum. Að lokum verður stríð bannað með öllu og þegar lög hinnar helgustu bókar taka gildi verður skorið úr deilum og átökum af fullkominni réttvísi fyrir alþjóðadómstóli stjórnvalda og þjóða heims og allir erfiðleikar sem upp kunna að koma verða leystir. Heimsálfurnar fimm verða sem ein álfa, og fjölbreyttar þjóðir hennar sem ein þjóð, jörðin verður eitt ættland og mannkynið ein þjóð. Svo náin verða gagnkvæm tengsl landa og eining þjóða og ættkvísla að mannkynið verður sem ein fjölskylda og ein ættkvísl. Ljós himneskrar ástar mun skína og niðamyrkur haturs og fjandskapar hverfur með öllu. Allsherjarfriður reisir laufskála sinn í hjarta sköpunarinnar og blessað tré lífsins vex og dafnar og teygir limu sína yfir austrið og vestrið. Sterkir og veikir, ríkir og fátækir, stríðandi ættkvíslir og óvinveittar þjóðir – sem eru eins og úlfur og lamb, pardusdýr og smásveinn, ljón og kálfur – munu sýna hvert öðru fyllstu ást og lifa í einingu, réttlæti og jöfnuði. Jörðin fyllist þekkingu og lærdómi, skilningi á veruleika og leyndardómum sköpunarinnar og þekkingu á Guði.
Íhuga nú hversu mjög þekking og lærdómur hafa eflst á þessari dýrðlegu öld, sem er öld Bahá’u’lláh, hvernig hulunni hefur verið svipt af leyndardómum sköpunarverksins, íhuga þær voldugu framkvæmdir sem ráðist hefur verið í og hvernig þeim fjölgar dag frá degi! Brátt mun efnisleg þekking og lærdómur, auk andlegrar þekkingar, aukast svo mjög og slík furðuverk líta dagsins ljós að sérhvert auga verður agndofa og öll merking orða Jesaja verður ljós: „Því að jörðin skal fyllast þekkingu Drottins.“
Gef einnig gaum að því að á þeim skamma tíma sem liðinn er frá komu Bahá’u’lláh hefur fólk af öllum þjóðum og kynþáttum komið saman í skugga þessa málstaðar. Kristnir menn, gyðingar, Saraþústrasinnar, hindúar, búddistar og Persar hafa sameinast í fullkominni ást og vináttu líkt og þeir hefðu í þúsund ár tilheyrt sömu ætt og sömu fjölskyldu – reyndar eins og væru þeir faðir og sonur, móðir og dóttir, systir og bróðir. Þetta er ein af merkingum orðanna um vináttu úlfsins og lambsins, pardusdýrsins og barnsins, ljónsins og kálfsins.
Einn þeirra miklu atburða sem eiga sér stað á degi opinberunar þessa óviðjafnanlega Sprota er að fáni Guðs verður hafinn upp meðal allra þjóða. Með þessu er átt við að allar þjóðir og kynkvíslir muni safnast saman í skugga þessa guðdómlega fána, sem er enginn annar en hinn drottinlegi Sproti sjálfur, og verða sem ein þjóð. Fjandskap og ágreiningi á grundvelli trúar- og sértrúarhópa, milli kynþátta og þjóða, verður eytt. Allir menn munu játa eina sameiginlega trú, sameinast sem einn kynstofn og verða ein þjóð. Allir munu búa í einu sameiginlegu föðurlandi sem er jörðin sjálf. Allsherjarfriður og samstaða fær staðfestu meðal allra þjóða. Þessi óviðjafnanlegi Sproti mun safna saman öllum Ísrael, það er að segja í trúarkerfi Hans koma Ísraelsmenn til landsins helga og gyðingum sem dreifst hafa til allra heimshorna verður safnað saman.
Höfum í huga að þessir atburðir gerðust ekki í trúarkerfi Krists, því þjóðirnar sameinuðust ekki undir þessum eina fána – þessum guðdómlega Sprota – en í þessu trúarkerfi Drottins allsherjar munu allar þjóðir og kynkvíslir koma saman í skugga Hans. Sömuleiðis komu Ísraelsmenn, sem dreifst höfðu um allan heim, ekki til landsins helga í trúarkerfi Krists, en í upphafi trúarkerfis Bahá’u’lláh fór þetta guðlega fyrirheit, sem skýrt er kveðið á um í öllum bókum spámannanna, að rætast. Gæt að því að gyðingar koma nú landsins helga frá öllum heimshornum, setjast að í þorpum og kaupa jarðnæði þar sem þeir setjast að og þeim fjölgar svo dag frá degi að öll Palestína er að verða heimkynni þeirra.
– 13 –
Athugasemd við tólfta kafla Opinberunar Jóhannesar
Við höfum áður skýrt frá því að það sem oftast er átt við í heilögum ritum með hinni helgu borg eða guðlegu Jerúsalem er trú Guðs sem stundum hefur verið líkt við brúði eða kölluð „Jerúsalem“, eða lýst sem nýjum himni og nýrri jörð. Í 21. kafla Opinberunarbókarinnar segir: „Og ég sá nýjan himin og nýja jörð því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið var ekki framar til. Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði er skartar fyrir manni sínum. Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.““
Gef gaum að því hvernig „hinn fyrri himinn“ og „hin fyrri jörð“ vísa með augljósum hætti til ytri þátta fyrri trúarbragða. Því að sagt er: „hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið var ekki framar til.“ Það er að segja, jörðin er vettvangur lokadómsins, og á þeim vettvangi verður hafið ekki framar til, sem þýðir að lög og kenningar Guðs hafa breiðst um alla jörð, allt mannkynið hefur játast málstað Hans og eingöngu hinir trúföstu byggja jörðina. Þannig verður hafið ekki framar því að maðurinn býr á fastalandinu en ekki á hafinu – það er að segja í þessu trúarkerfi ná áhrif þeirrar trúar til allra landa þar sem maðurinn hefur stigið fæti sínum og jörðin er traust undir fótum hans og hann hrasar ekki.
Sömuleiðis er trú Guðs lýst sem borginni helgu eða hinni nýju Jerúsalem. Ljóst er að nýja Jerúsalem sem stígur niður af himni er ekki borg af grjóti og kalki, tígulsteinum og steypu, heldur er það trú Guðs sem stígur niður af himni og er lýst sem nýrri trú. Því augljóst er að sú Jerúsalem sem er byggð af steinum og steypu stígur ekki niður af himni og verður ekki endurnýjuð, heldur er það trú Guðs sem gengur í endurnýjun.
Einnig er trú Guðs líkt við skartklædda brúði sem birtist með fullum þokka og prýði eins og segir í 21. kafla Opinberunar Jóhannesar: „Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði er skartar fyrir manni sínum.“ Og í 12. kafla segir: „Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum.“ Þessi kona er brúðurin, trú Guðs sem steig niður af himni yfir Múhameð. Sólin sem hún var klædd og tunglið sem var undir fótum hennar eru ríkisstjórnirnar tvær, sem voru í skugga þeirrar trúar, Persar og Ottómanar, því tákn Persíu er sólin og tákn Ottómanveldisins er hálfmáninn. Þannig vísa sól og tungl til tveggja ríkisstjórna í skugga trúar Guðs. Síðan segir: „á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum.“ Þessar tólf stjörnur eru þeir tólf ímamar sem kunngerðu trúarbrögð Múhameðs, fræðarar þjóðarinnar sem skinu sem stjörnur á himni leiðsagnar.
Síðan segir: „Hún var þunguð og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum.“ Þetta merkir að þessi trúarbrögð munu þola miklar raunir og erfiðleika þar til fullkomið afkvæmi fæðist – það er að segja þangað til opinberandinn fyrirheitni birtist, afsprengið fullkomna, uppvaxið í skauti þessarar trúar sem er eins og móðir þess. Með þessu afkvæmi er átt við Bábinn, Frumpunktinn sem í sannleika fæddist af trúarbrögðum Múhameðs. Með öðrum orðum, þessi heilagi veruleiki, sem var barnið og afkvæmi trúarbragða Guðs – móður þess – og sem var Hinn fyrirheitni, fæddist í himnesku ríki þeirrar trúar en var hrifinn upp til Guðs til að forða uppgangi drekans. Eftir 1260 daga var drekanum tortímt og afkvæmi trúar Guðs, Hinn fyrirheitni, birtist.
„Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn. Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina.“ Þessi dreki merkir Umayyad kalífana sem hrifsuðu til sín stjórntauma trúar Múhameðs, og höfuðin sjö og ennidjásnin sjö tákna sjö ríki og konungsveldi sem þeir náðu undir sína stjórn: Rómaveldið í Sýrlandi, Persaveldi, Arabíu og Egyptaland, veldi Afríku – það er að segja Túnis, Marokkó og Alsír, Andalúsíu-veldið sem nú er Spánn og veldi tyrknesku ættbálkanna í Transoxaníu. Umayyad kalífarnir sölsuðu undir sig völdin í öllum þessum ríkjum. Hornin tíu eru nöfn Umayyad-leiðtoganna, því til að komast hjá endurtekningu eru þar nefndir tíu konungar eða tíu nöfn höfðingja og stjórnenda. Sá fyrsti var Abú Sufyán og sá síðasti Marván. Nokkur nöfn þeirra eru endurtekin, þar á meðal tveir Mu‘áviyihar, þrír Yazídar, tveir Valídar og tveir Marvánar. Þessi nöfn eru alls tíu séu þau talin aðeins einu sinni. Þessir Umayyad leiðtogar – sá fyrsti var Abú Sufyán, fyrrum höfðingi í Mekka og stofnandi ættbálksins, en sá síðasti var Marván – tortímdu þriðjungi þeirra heilögu sálna sem voru afkomendur Múhameðs í beinan ættlegg og skinu sem stjörnur himins.
„Drekinn stóð frammi fyrir konunni, sem komin var að því að fæða, til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt.“ Þessi kona er trú Guðs eins og áður var sagt. Drekinn sem stendur frammi fyrir henni er reiðubúinn að gleypa barnið um leið og það fæðist. Þetta barn var hinn fyrirheitni opinberandi sem er afkvæmi trúar Múhameðs. Umayyadarnir vildu óðir og uppvægir ná til Hins fyrirheitna sem átti að fæðast af ætt Múhameðs og tortíma Honum því að þeir óttuðust mjög komu Hans. Og hvar sem þeim tókst að finna einhvern afkomanda Múhameðs sem naut virðingar fólksins, drápu þeir hann.
„Hún fæddi son, sveinbarn sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota.“ Þessi dýrðlegi sonur er hinn fyrirheitni opinberandi sem fæddur er af trú Guðs og alinn upp í skauti guðlegra kenninga. Járnsprotinn er tákn máttar og valds – hann er ekki sverð – og merkir að hann verður hirðir allar þjóða jarðar í krafti guðdómlegs valds og máttar. Og með þessum syni er átt við Bábinn.
„Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans.“ Þetta er spádómur um Bábinn, sem steig upp til ríkis Guðs og til hásætis fullveldis Hans. Gæt að því hversu vel þetta fer saman við það sem síðan gerðist.
„En konan flúði út á eyðimörkina“; það er að segja trú Guðs hélt út í auðnina sem er eyðimörkin mikla, Ḥijáz og Arabíuskaginn.
„…þar sem Guð hefur búið henni stað“; það er að segja Arabíuskaginn varð heimili, aðsetur og miðpunktur trúarbragða Guðs.
„og þar sem séð verður fyrir þörfum hennar í eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu daga.“ Samkvæmt hugtakanotkun Biblíunnar þýða þessir 1260 dagar 1260 ár, eins og áður var sagt. Í 1260 ár fóstraðist trú Guðs í hinni miklu eyðimörk Arabíuskagans uns Hinn fyrirheitni birtist. Eftir þessi 1260 ár voru þessi trúarbrögð numin úr gildi því að tréð hafði borið ávöxt sinn.
Gæt að því hve samhljóða þessir spádómar eru! Opinberunarbókin fastsetur komu Hins fyrirheitna eftir fjörutíu og tvo mánuði. Spámaðurinn Daníel tilgreinir þrjár og hálfar tíðir sem einnig eru fjörutíu og tveir mánuðir eða 1260 dagar. Í öðrum kafla í Opinberun Jóhannesar er beinlínis talað um 1260 daga og það er gefið skýrt til kynna í Biblíunni að hver dagur merki eitt ár. Ekkert gæti verið skýrara en samkvæmnin milli þessara spádóma. Bábinn birtist árið 1260 e.H. samkvæmt tímatalinu sem allir múslímar fylgdu. Engir spádómar Biblíunnar um nokkurn opinberanda eru jafn skýrir og þessir. Ef sýna á sanngirni er samkvæmni tímabilanna sem þessar dýrðlegu sálir tilgreina óyggjandi sönnun og ekki er með neinu móti hægt að túlka þetta á neinn annan hátt. Sælir eru réttlátir, þeir sem leita sannleikans.
Þegar réttlæti skortir véfengja mennirnir, draga í efa og afneita hinu augljósa. Þeir hegða sér eins og farísearnir á tímum Krists, sem í þrákelkni sinni afneituðu túlkunum og orðum Hans og postula Hans og leyndu sannleikanum fyrir fáfróðum fjöldanum. Þeir sögðu: „Þessir spádómar eiga ekki við um Jesú heldur Hinn fyrirheitna sem birtast mun áður en langt um líður samkvæmt skilyrðunum sem sett eru í Gamla testamentinu“ – þar á meðal að Hann yrði konungur, settist í hásæti Davíðs, framfylgdi lögum Gamla testamentisins, legði grunn að æðstu skipan réttlætis og kæmi því til leiðar að úlfurinn og lambið drykkju saman úr sömu lind. Og þannig komu þeir í veg fyrir að fólkinu tækist að bera kennsl á Krist.
– 14 –
Efnisleg og andleg hringrás
Hringrás tímans er breytileg í þessum heimi og aðstæður misjafnar. Árstíðir koma og fara, einstaklingar þroskast, þeim fer aftur og þeir taka framförum. Eitt sinn kemur vor og öðru sinni haust, eitt sinn sumar og öðru sinni vetur.
Vorinu fylgja ský hlaðin regni, ilmþrunginn andvari, lífgefandi vindblær og undurmilt veður. Regnið fellur, sólin skín, vindarnir blása, heimurinn endurnýjast og andi lífsins opinberast jafnt í plöntum, dýrum og mönnum. Aðstæður jarðneskra lífvera breytast. Allt klæðist nýjum búningi. Bylgjandi grasbreiður hylja dökka jörð, fjöll og sléttlendi klæðast smaragðsgrænni skikkju, trén bera lauf og blómstur, blóm og ilmandi jurtir spretta í görðum, heimurinn verður annar heimur og öll sköpunin fær nýtt líf. Jörðin, sem var eins og sálarlaus líkami, fær nýjan anda og birtist í fegurð og yndisþokka. Þannig kallar vorið fram nýtt líf og ber með sér nýjan anda.
Síðan kemur sumarið, hitinn eykst og allt þroskast og dafnar. Lífskrafturinn nær fyllingu sinni í ríki jurtanna. Ávextir og jarðargróður ná fullum þroska, uppskerutíminn fer í hönd, fræið hefur orðið að knippi og safnað er til vetrarmánuðanna.
Síðan kemur kalt og þrálátt haustveður með hvössum stormum, ófrjóir vindar næða og í hönd fer tími skorts og þurrðar. Allt visnar, ljúfur blær verður að kaldri nepju, andvari vorsins verður að hráslagalegum gjóstri, trén sem eitt sinn voru græn og gróskumikil, fella laufin, blóm og jurtir blikna af sorg og fagrir garðar dökkna af dusti.
Síðan kemur veturinn þegar naprir vindar næða og ofviðri skella á. Það snjóar og blæs, heglir og rignir, þrumar og leiftrar, deyfð og drungi taka völdin. Plöntur hníga til moldar og dýrin vanmegnast.
Þegar þessum áfanga er náð snýr vorið aftur með nýtt líf og ný hringrás hefst. Vortímanum fylgir þokki og lífsorka og í fyllingu mikilleika síns og tignar reisir hann tjaldbúð sína á fjöllum og sléttum. Enn einu sinni vaknar musteri hins skapaða til lífs og öll sköpunin endurnýjast. Lifandi líkamar vaxa og þroskast, akrar og sléttur verða grænar og gróðursælar, trén blómstra og vorið frá í fyrra snýr aftur í fyllingu tignar og dýrðar. Tilvist hlutanna hlýtur ætíð að ráðast af þessari stöðugu hringrás og endurkomu. Slík er hringrásin og umbyltingin í hinum efnislega heimi.
Þannig er því einnig varið með andlegu hringrásina sem tengist opinberendum Guðs. Það er að segja, koma hinna heilögu opinberenda er andlegt vor. Það er guðdómlegt ljós og himnesk náð, það er andvari lífsins og dögun sólar sannleikans. Andar vakna til lífsins og hjörtun endurnærast, sálirnar fágast, öll tilveran bærir á sér og veruleiki mannsins fagnar og vex í náð og fullkomnun. Framfarir verða á öllum sviðum lífsins, sálirnar vakna og hinir dauðu rísa upp – því þetta er dagur upprisunnar, árstíð umbrota og gerjunar, stund gleði og fagnaðar, tími sælu og taumleysis.
Þessu vori sem hrífur sálina fylgir frjómagn sumarsins. Orð Guðs er boðað, lög Hans kunngerð og allt nær fyllingu. Hið himneska veisluborð svignar, andvari heilagleikans ber ilm sinn í austur og vestur, kenningar Guðs sigra alla jörðina, sálir hljóta uppfræðslu, lofsverður árangur næst, mannkynið tekur alhliða framförum, guðdómleg hylli umvefur alla hluti og sól sannleikans skín yfir sjónarhring hins himneska ríkis í krafti og miklum styrk.
Þegar sú sól er í hádegisstað byrjar hún að lækka á lofti og þessu andlega sumri fylgir haust. Vöxtur og þroski hægja á sér og stöðvast, mildur andblær verður að hvössum stormi og árstími skorts og harðréttis dregur úr lífsorku, fegurð garða, akra og laufskrúðs bliknar. Það er að segja, andlegt aðdráttarafl hverfur, guðlegum eiginleikum hnignar, útgeislun hjartnanna myrkvast, andlegleiki sálarinnar daprast, dyggðir verða að löstum og heilagleiki og hreinleiki fara forgörðum. Lögmál Guðs verður nafnið eitt og ekkert stendur eftir af guðlegum kenningum annað en ytra formið. Undirstöður trúar Guðs liðast í sundur og í staðinn koma siðvenjur og hefðir, sundurlyndi vex og staðfesta breytist í ráðleysi. Andinn deyr, hjörtun visna og sálirnar örmagnast.
Veturinn kemur – það er að segja, kuldi fáfræði og óvitundar umlykur heiminn og myrkur vegvilltra og eigingjarnra ástríðna grúfir yfir. Sinnuleysi og andstaða koma í kjölfarið með deyfð og lítilmennsku, niðurlægingu og dýrslegum eiginleikum, kulda og steinrunnum doða, líkt og um vetur þegar jörðin nýtur ekki geisla sólarinnar og verður að hrjóstrugri auðn. Þegar ríki huga og hugsana hefur náð þessu stigi er ekkert fram undan annað en ævarandi dauði og tilvistarleysi.
Að liðnum vetri kemur andlegi vorið aftur og ný hringrás afhjúpar ljóma sinn. Andlegur blær liður yfir, geislandi morgunn rís, ský Hins miskunnsama fella regn sitt, sól sannleikans skín og veröldin fær nýtt líf og klæðist undursamlegri skikkju. Öll tákn og hylli fyrri vortíma birtast aftur, jafnvel enn máttugri á þessari nýju árstíð.
Þessi andlega hringrás sólar sannleikans líkist gangi hinnar efnislegu sólar og er í stöðugri hreyfingu og endurnýjun. Líkja má sól sannleikans við efnislegu sólina sem gengur í gegnum mörg stjörnumerki. Einn daginn rís hún í Krabbamerkinu og öðru sinni í merki Vogarinnar; einn daginn varpar hún geislum sínum frá merki Vatnsberans og öðru sinni frá Hrútsmerkinu. Þó er þetta ein og sama sólin, einn og sami veruleikinn. Þeir sem búa yfir sannri þekkingu unna sólinni og láta sig engu varða hvar hún rís. Þeir sem gæddir eru innsæi leita sannleikans, ekki útskýrenda hans og birtingarmynda. Þannig lúta þeir sólinni í tilbeiðslu hvar sem hún kann að rísa og leita sannleikans frá öllum helguðum sálum sem gætu afhjúpað hann. Slíkir menn uppgötva óhjákvæmilega sannleikann og hyljast ekki ljósinu frá sólinni sem skín á festingu Guðs. Þannig mun sá sem ann geislunum og leitar ljóssins alltaf snúa sér í sólarátt, hvort sem geislar hennar berast frá merki Hrútsins eða veita náð sína og hylli frá merki Krabbans eða skína frá Tvíburamerkinu.
En hinir fávísu hrífast af stjörnumerkjum dýrahringsins og unna dögunarstöðum þeirra en ekki sólinni sjálfri. Þegar hún var í Krabbamerkinu sneru þeir sér þangað, en þegar hún gekk inn í Vogarmerkið héldu þeir áfram fast við Krabbamerkið, festu á því sjónir, ríghéldu í þetta tákn og sviptu sig þannig geislum sólarinnar þegar hún hafði gengið inn í annað merki. Þannig varpaði sól sannleikans eitt sinn geislum sínum frá merki Abrahams, síðar gekk hún inn í merki Móse og lýsti upp sjónhringinn og enn síðar skein hún í fullum styrk og ljóma frá merki Krists. Þeir sem voru að leita að sannleikanum dýrkuðu hann hvar sem þeir sáu hann, en þeir sem tengdust Abraham voru sviptir ljósi sólarinnar þegar hún varpaði geislum sínum á Sínaí og lýsti upp veruleika Móse. Og þeir sem héldu fast við Móse huldust sól sannleikans þegar hún birtist í himneskri dýrð sinni og ljóma í merki Krists, og svo framvegis.
Þess vegna verður að leita sannleikans, hrífast og heillast af sérhverri helgaðri sál þar sem sannleikurinn býr og laðast fullkomlega að náðarúthellingu Guðs. Líkt og náttfiðrildið verður maðurinn að elska ljósið hvaðan sem það kann að skína, og unna rósinni líkt og næturgalinn í hvaða garði sem hún kann að vaxa.
Rísi sólin í vestri er hún sama sólin og raunar er hún alltaf sama sólin hvar sem hún kann að rísa. Ekki má líta svo á að birting hennar sé bundin við einn stað og telja að aðrir staðir fari varhluta af henni. Ekki má láta það villa fyrir sér að hún rís í austri og telja að hún hljóti að ganga til viðar og hverfa í vestri. Leita verður margvíslegrar náðar Guðs, guðdómlegrar birtu Hans og heillast af hverjum þeim veruleika þar sem hana er bersýnilega að finna. Gæt að því að ef Gyðingar hefðu ekki þráblínt á sjónarhring Móse heldur fest sjónir á sól sannleikans hefðu þeir án efa séð þá sól skína í fyllingu guðdómlegrar dýrðar yfir sönnum sjónarhring Krists. En því miður, enn og aftur! Þeir héldu fast við nafn Móse og sviptu sig þeirri æðstu hylli og himneskum ljóma.
– 15 –
Sönn hamingja
Heiður og vegsemd alls sem til er í þessum heimi ræðst af ákveðnum orsökum og aðstæðum.
Vænleiki, fegurð og fullkomnun jarðar felst í því að regnskúrir vorsins þekja hana grænum gróðri, plöntur spretta, blóm og jurtir vaxa, blómstrandi tré bera ferska og safaríka ávexti, garðar prýðast litskrúði, akrar og engi taka að gróa, sléttur og fjöll klæðast smaragðsgrænni skikkju, þorp og borgir búast skarti. Þetta er farsæld og hamingja steinaríkisins.
Mesta upphafning og fullkomnun jurtaríkisins felst í hávöxnu tré við ferskan árstraum, mildur andvari berst yfir greinar þess og sólin veitir því yl sinn, garðyrkjumaðurinn fer um það græðandi höndum, það dafnar dag frá degi og ber ávexti. En raunveruleg farsæld þess og gleði felst í þróun þess yfir í ríki dýra og manna þar sem það leysir af hólmi næringarefnin sem dýr og menn hafa neytt.
Vegsemd dýraríkisins eru fullkomin líkamsbygging, líffæri og þróttur og uppfylling allra þarfa þess og krafna. Þetta er hámark dýrðar þess, heiðurs og upphafningar. Mesta farsæld og hamingja dýrsins býr í grænum og grónum völlum, fersku streymandi vatni og í skógi fullum af lífi. Veitist allt þetta er ekki hægt að ímynda sér meiri farsæld og hamingju dýrinu til handa. Ef fugl gerir sér til að mynda hreiður á hárri trjágrein í blómlegum skógi og hefur sér til fæðslu allt það fræ og vatn sem hann þarfnast væri hamingja hans fullkomin.
En raunveruleg hamingja dýrsins felst í því að hverfa frá dýraríkinu yfir í ríki mannsins líkt og örverurnar sem fara inn í mannslíkamann með lofti og vatni, samlagast honum og endurnýja það sem eyðst hefur í líkamanum. Þetta er æðsti heiður og hamingja dýraríkisins og ekki er hægt að hugsa sér meiri vegsemd því til handa.
Þess vegna er augljóst að slík efnisleg vellíðan, þægindi og nægtir eru hæsta stig farsældar og hamingju fyrir steinefni, plöntur og dýr. Og vissulega getur enginn auður, velmegun, þægindi eða vellíðan í okkar efnislega heimi jafnast á við ríkidæmi fuglsins sem hefur að dvalarstað öll víðerni engja og fjalla. Öll frækorn og uppskera eru auður hans og næring, öll lönd, þorp, engjar, hagar, skógar og óbyggðir eru í hans eigu. Hver er þá ríkari – þessi fugl eða auðugastur allra manna? Því hversu mörgum frækornum sem fuglinn safnar í sarpinn eða gefur frá sér, þrýtur ekki auð hans og ríkidæmi.
Þá er ljóst að heiður og upphafning mannsins getur ekki eingöngu falist í efnislegum unaðssemdum eða jarðneskum ávinningi. Þessi efnislega farsæld og hamingja er að öllu leyti afleidd, en vegsemd mannsins felst fyrst og fremst í þeim dyggðum og ávinningi sem prýða mannlegan veruleika. Þær felast í guðdómlegum blessunum, himneskri hylli, hjartanlegum kenndum, ást og þekkingu á Guði, menntun fólksins, skynvitum hugans og uppgötvunum vísindanna. Þær felast í réttlæti og jöfnuði, sannleika og velvilja, innra hugrekki og meðfæddri mannúð, vernd á réttindum annarra og hollustu við heilagar skyldur sáttmála og samninga. Þær felast í grandvarri breytni við allar aðstæður, ást á sannleikanum undir öllum kringumstæðum, sjálfsafneitun í þágu allra manna, góðvild og samkennd með öllum þjóðum, hlýðni við kenningar Guðs, þjónustu við ríki himinsins, leiðsögn til handa öllu mannkyni og uppfræðslu allra kynþátta og þjóða. Þetta er hamingja og farsæld mannheims! Þetta er upphafning mannsins í hinu jarðneska ríki! Þetta er eilíft líf og himneskur heiður!
Þessar gjafir birtast þó ekki í veruleika mannsins nema fyrir himneskt vald og með atbeina guðlegra kenninga, því að þær eru aðeins á færi yfirskilvitlegs valds og máttar. Einhver vottur þessarar fullkomnunar kann að birtast í heimi náttúrunnar en hann er jafn hverfull og skammlífur og sólargeisli á vegg.
Þar sem vorkunnlátur Drottinn hefur krýnt höfuð mannsins svo skínandi kórónu verðum við að sjá til þess að leiftrandi gersemar hennar lýsi upp allan heiminn.
2. hluti
Nokkur kristin málefni
– 16 –
Tjáning huglægs veruleika með atbeina hins hlutstæða
Það sem skiptir meginmáli í skilningi á eðli annarra spurninga sem við höfum fjallað um eða munum ræða er að mannleg þekking er tvíþætt.
Önnur er sú hlutstæða og áþreifanlega þekking sem aflað er með skynfærunum, það er að segja sjón, heyrn, lykt, bragði og snertingu. Svo dæmi sé nefnt skynja augun sólina, eyrun heyra hljóð, við finnum ilm, tungan skynjar bragð af sætri, súrri, beiskri eða saltri fæðu og snertiskynið nemur hita og kulda. Þetta er hinn hlutstæði veruleiki.
Önnur tegund mannlegrar þekkingar er huglægs og skiljanlegs eðlis. Hún felst í þeim veruleika sem hugurinn skilur, á sér hvorki ytra form né stað og skynfærin nema ekki. Hugaraflið er til dæmis ekki skynræns eðlis, ei heldur mannlegar eigindir og eiginleikar sem eru óhlutstæður veruleiki. Ástin er huglægur veruleiki, ekki hlutstæður. Því að eyrað heyrir ekki þennan veruleika, augað sér hann ekki, lyktin nemur hann ekki, tungan finnur ekki bragð af honum, snertingin skynjar hann ekki. Jafnvel ljósvakinn sem í náttúruheimspeki er sagður vera hiti, ljós, raf- og segulafl, er hlutstæður veruleiki en ekki huglægur. Sömuleiðis er náttúran sjálf huglægs og skiljanlegs eðlis en ekki hlutstæðs, mannsandinn er huglægur veruleiki en ekki hlutstæður.
En þegar ætlunin er að tjá skiljanlegan veruleika, eiga menn einskis annars úrkosti en að steypa hann í mót hins hlutstæða því hið ytra er ekkert umfram það sem skynfærin skynja. Því er það svo að vilji maðurinn tjá huglægan veruleika, stig hans og aðstæður, verður að lýsa honum með orðfæri hins hlutstæða því hið ytra er ekkert að finna nema þá áþreifanlegu hluti sem skilningarvitin skynja. Til dæmis er sorg og hamingja huglægs eðlis og þegar maðurinn vill láta í ljós þennan huglæga veruleika segir hann: „Hjarta mitt fylltist sorg“ eða „Hjarta mitt varð uppnumið“ þótt hjarta mannsins fyllist ekki af öðru en blóði og takist ekki á loft. Öllu fremur er þetta andlegt eða huglægt ástand og til þess að tjá það þarf hlutstæð orð sem tjá áþreifanlegan veruleika. Annað dæmi er þegar maðurinn segir að hinn eða þessi hafi tekið miklum framförum þótt hann sé kyrr á sama stað eða hafi háa stöðu þótt hann gangi á jörðinni eins og allir aðrir. Þessi framför og upphafning eru andlegt ástand og huglægur veruleiki, en til þess að tjá hann verður að nota hlutstæð orð, þar sem hið ytra er er ekkert að finna umfram hinn áþreifanlega veruleika.
Svo annað dæmi sé nefnt er þekkingu lýst á myndrænan hátt sem ljósi og fáfræði sem myrkri. En gef gaum að þessu: Er þekking hlutstætt ljós eða fáfræði hlutstætt myrkur? Vissulega ekki. Þetta lýsir aðeins huglægu ástandi, en þegar við viljum koma að því orðum köllum við þekkingu ljós og fáfræði myrkur og segjum: „Það var myrkur í hjarta mínu en nú hefur birt yfir.“ Ljós þekkingar og myrkur fáfræði eru huglægur veruleiki, ekki hlutstæður og þegar við leitumst við að tjá þetta hið ytra verðum við að ljá því hlutstætt form.
Því er augljóst að dúfan sem steig yfir Krist, var ekki dúfa í bókstaflegum skilningi, heldur andlegt ástand sem lýst er með hlutstæðri mynd til skilningsauka. Til dæmis segir í Gamla testamentinu að Guð hafi birst sem eldstólpi. Það sem við er átt er ekki hlutstæður veruleiki heldur huglægur og skiljanlegur sem settur er fram með þessari líkingu.
Kristur segir: „Faðirinn er í syninum og sonurinn í föðurnum.“ Var Kristur inni í Guði eða Guð inni í Kristi? Nei, Drottinn minn! Þetta er huglægt ástand sem tjáð er með hlutstæðri mynd.
Við komum að skýringunni á orðum Bahá’u’lláh þegar Hann segir: „Ó konungur! Ég var aðeins maður eins og aðrir, sofandi á beði mínum, þegar sjá, andvari Hins aldýrlega leið yfir Mig og kenndi Mér þekkingu á öllu sem verið hefur. Þetta er ekki frá mér sjálfum, heldur Þeim sem er almáttugur og alvitur.“ Þetta er staða guðlegrar opinberunar, huglægur veruleiki en ekki hlutstæður. Hann er helgaður yfir fortíð, nútíð og framtíð. Hann er samanburður og hliðstæða – myndlíking en ekki bókstaflegur sannleikur. Þetta er ekki ástandið sem hugur mannsins skilur þegar sagt er að einhver hafi sofnað og síðan vaknað aftur heldur táknar það að farið er úr einu ástandi í annað. Til dæmis er svefninn ástand hvíldar og vaka er ástand hreyfingar. Að sofa er ástand þagnar og að vaka er ástand orða og máls. Svefn er ástand leyndar og vaka er ástand birtingar.
Á persnesku og arabísku er til dæmis sagt að jörðin hafi lagst í dvala, síðan kom vorið og hún vaknaði til lífs, eða að jörðin hafi verið dáin, síðan voraði og hún fékk aftur líf. Þessi orð eru samanburður, hliðstæður, líkingar og myndrænar túlkanir í ríki innri merkingar.
Í stuttu máli hafa opinberendur Guðs verið og munu alltaf vera geislandi veruleiki og engar breytingar eða umskipti eiga sér stað í eðli þeirra. Í mesta lagi lifa þeir í kyrrð og þögn fyrir opinberunina eins og sá sem sefur, en eftir hana eru þeir mælskir og geislandi eins og sá sem vakir.
– 17 –
Fæðing Krists
Spurning: Hvernig fæddist Kristur af heilögum anda?
Svar: Heimspekingar efnishyggjunnar og þeir sem trúa á guðlegan veruleika eru ósammála um þessa spurningu. Hinir síðarnefndu telja að Kristur hafi fæðst af heilögum anda, en hinir fyrrnefndu telja slíka hugmynd óverjandi og Hann hljóti að hafa átt mannlegan föður.
Í Kóraninum segir: „Og Vér sendum til hennar anda Vorn og hann birtist henni sem fullkominn maður“ sem táknar að heilagur andi tók á sig mannsmynd, líkt og mynd sem birtist í spegli, og ræddi við Maríu.
Heimsspekingar efnishyggjunnar telja að pörun verði að eiga sér stað og þeir fullyrða að lifandi líkami geti ekki orðið til úr líflausum eða orðið að veruleika án sameiningar karls og konu. Þeir telja að þetta eigi ekki aðeins við um mennina heldur öll dýr og plöntur. Því pörun kynja á sér stað hjá öllum dýrum og plöntum. Þeir halda því jafnvel fram að Kóraninn staðfesti þessa pörun alls sem skapað er: „Dýrð sé Honum sem allt hefur skapað, karlkyns og kvenkyns, allt sem á jörðu vex, mannkynið sjálft og allt sem þeir ekki þekkja.“ Það er að segja að allt er að finna í pörum, menn, dýr og plöntur. „Og af öllu höfum Vér skapað tvennt“ – það er að segja Vér höfum skapað allt í pörum.
Þeir segja í stuttu máli að ekki sé hægt að hugsa sér mann sem ekki á sér mannlegan föður. Guðlegu heimspekingarnar svara hins vegar: „Slíkt er ekki útilokað þótt menn hafi ekki áður orðið þess áskynja og munur er á því sem ekki er mögulegt og því sem menn hafa ekki orðið áskynja. Svo dæmi sé nefnt hafði enginn orðið þess áskynja að samskipti í einni svipan væru möguleg milli austurs og vesturs áður en ritsíminn var fundinn upp en þetta var ekki ómögulegt. Sömuleiðis voru ljósmyndin og hljóðritinn óþekkt fyrirbæri en ekkert hafði útilokað þau.“
Efnisheimspekingar halda fast við trú sína og guðlegu heimspekingarnir svara: „Er þessi jarðneski hnöttur eilífur eða á hann sér uppruna?“ Efnisspekingarnir svara því til að vísindalegar niðurstöður staðfesti að hann eigi sér uppruna og hafi í upphafi verið logandi hnöttur sem smám saman tempraðist, á honum hafi myndast skorpa og á henni hafi orðið til plöntur, dýr og loks maður.
Guðlegu heimspekingarnir segja: „Fullyrðingar ykkar bera skýrt með sér að tegund mannsins á jörðinni á sér uppruna og er ekki eilíf. Fyrsti maðurinn átti sér þá hvorki föður né móður, því tegund mannsins á sér uppruna í tíma. Hvort er þá meira vandamál: að maðurinn skuli hafa orðið til, að vísu smám saman, þótt hann ætti sér hvorki föður né móður, eða að hann skuli hafa orðið til án föður? Þar eð þið viðurkennið að fyrsti maðurinn hafi hvorki átt föður né móður, hvort sem það gerðist smám saman eða á skömmum tíma, getur enginn vafi leikið á því að það er einnig mögulegt og rökrétt að til verði maður sem ekki á sér föður. Þess vegna er einfaldlega ekki hægt að hafna því og segja það útilokað, og það bæri vott um ósanngirni. Ef þú til dæmis segðir að eitt sinn hafi verið kveikt á þessum lampa án kveiks eða olíu og segðir síðan að útilokað sé að kveikja á honum án kveiks bæri það vott um skort á sanngirni.“ Kristur átti sér móður, en samkvæmt heimspekingum efnishyggjunnar átti fyrsti maðurinn sér hvorki föður né móður.
– 18 –
Mikilleiki Krists
Spurning: Hver er dyggð og ávinningur þess að eiga sér ekki föður?
Svar: Mikilmenn er mikilmenni, hvort sem hann er getinn af mannlegum föður eða ekki. Væri það dyggð að eiga sér ekki föður myndi Adam skara fram úr öllum spámönnum og boðberum Guðs, því hann átti hvorki föður né móður. Það sem stuðlar að dýrð og mikilleika er ljós og úthelling guðdómlegrar fullkomnunar. Sólin er fædd af efni og formi sem líkja má við föður og móður, og er samt hrein fullkomnun, myrkrið á sér hvorki efni né form, hvorki föður né móður og er samt einskær ófullkomleiki. Efnið í efnislegu lífi Adams var duft, en jarðneskt efni Abrahams var hreint sæði og ljóst er að hreint og göfugt sæði er æðra jörð og steini.
Enn fremur segir í Jóhannesarguðspjalli 1:12–13: „En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.“ Það kemur skýrt fram í þessari ritningargrein Jóhannesar að jafnvel tilvist postulanna byggir fremur á andlegum veruleika en efnislegum krafti. Heiður og mikilleiki Krists felst ekki í því að Hann eigi sér ekki föður, heldur í guðlegri fullkomnun Hans, náðarúthellingu og ljóma. Ef mikilleiki Krists stafaði af því að Hann ætti sér ekki föður væri Adam Honum fremri, því að hann átti hvorki föður né móður.
Í Gamla testamentinu segir „Þá mótaði Drottinn Guð manninn af moldu jarðar og blés lífsanda í nasir hans. Þannig varð maðurinn lifandi vera.“ Athuga að sagt er að Adam hafi orðið til úr anda lífsins. Að auki sanna orð Jóhannesar um postulana að þeir hafi einnig átt sér himneskan föður. Þess vegna er augljóst að heilagur veruleiki – sönn tilvist – sérhvers mikilmennis kemur frá Guði og á tilveru sína að þakka anda heilags anda.
Það sem átt er við er þetta: Ef mesta afrek mannsins væri að vera án föður myndi Adam bera af öllum því hann átti sér hvorki föður né móður. Er betra fyrir manninn að verða til úr lifandi efni eða dufti? Vissulega er betra að verða til úr lifandi efni. En Kristur fæddist af heilögum anda.
Í stuttu máli er heiður og dýrð þessara helgu sálna, opinberenda Guðs, tilkomin vegna himneskrar fullkomnunar þeirra, náðarúthellingar og ljóma, og engu öðru.
– 19 –
Sönn skírn
Í Matteusarguðspjalli 3:13–15 segir: „Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“ Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.“
Spurning: Hvaða þörf hafði Kristur fyrir skírn í ljósi meðfæddrar fullkomnunar Hans og hvaða viska fólst í henni?
Svar: Kjarni skírnarinnar er hreinsun með iðrun. Jóhannes hvatti og áminnti mennina, fékk þá til að iðrast og skírði þá síðan. Þá er augljóst að þessi hreinsun er tákn iðrunar og yfirbótar á sama hátt og sagt væri: „Ó Guð! Líkt og líkami minn hefur verið hreinsaður af efnislegri saurgun, hreinsa þannig anda minn af saurgun hins náttúrlega heims, sem er óverðug guðdómlegri fótskör Þinni.“ Iðrun felst í því að horfið er frá uppreisn til undirgefni. Hún felst í því að maður sem hefur verið fjarlægur Guði og sviptur Honum iðrast og hreinsar sig. Þessi hreinsun er því tákn sem merkir: „Ó Guð! Göfga og hreinsa hjarta mitt og helga það af öllu nema ást Þinni.“
Kristur vildi að á þeim tíma semdu allir sig að þeim sið sem Jóhannes hafði tekið upp lét því sjálfur skírast til þess að sálirnar mættu vakna og uppfylla lögin sem sett voru í fyrri trúarbrögðum. Jafnvel þótt Jóhannes hefði tekið upp þennan sið táknaði hann í raun hreinsun með yfirbót sem öll guðleg trúarbrögð hafa ástundað.
Kristur var ekki í þörf fyrir skírn en lét skírast vegna þess að á þeim tíma var slík gerð lofsverð og ásættanleg frammi fyrir Guð og fyrirboði fagnaðarerindisins. Hins vegar sagði Hann síðar að sönn skírn væri ekki framkvæmd með efnislegu vatni heldur með anda og vatni og annars staðar með anda og eldi. Það sem hér er átt við með „vatni“ er ekki efnislegt vatn, því að annars staðar er beinlínis tekið fram að skíra verði með anda og eldi, og ljóst er af hinu síðarnefnda að ekki er átt við efnislegan eld og vatn, þar sem skírn með eldi er útilokuð.
Með „anda“ er því átt við guðdómlega náð og með „vatni“ þekkingu og líf, og „eldur“ táknar ást Guðs. Því að efnislegt vatn hreinsar ekki hjarta mannsins heldur líkama hans. Himneskt vatn og andi, sem eru þekking og líf, hreinsa öllu fremur hjarta mannsins. Með öðrum orðum, hjartað sem fær úthellingu náðar heilags anda og helgast verður göfugt og hreint. Merkingin er sú að veruleiki mannsins hreinsist og helgist af saurgun náttúrunnar, sem eru auvirðilegir eiginleikar eins og reiði, girnd, veraldarhyggja, stolt, dramb, hræsni, svik, sjálfselska og svo framvegis.
Maðurinn getur ekki losnað undan atlögum hégómlegra og eigingjarnra ástríðna nema fyrir miskunnsama staðfestingu heilags anda. Því er sagt að skíra verði með anda, með vatni og með eldi – það er að segja, með anda guðlegrar náðar, vatni þekkingar og lífs og eldi ástar Guðs. Það er með þessum anda, þessu vatni og þessum eldi sem maðurinn verður að láta skírast til þess að hann geti notið eilífrar náðar. Hvað gagn væri annars af því að láta skírast með efnislegu vatni? Nei, þessi skírn með vatni var tákn iðrunar og bæn um fyrirgefningu syndanna.
En í trúarkerfi Bahá’u’lláh er þessa tákns ekki lengur krafist, því að veruleiki skírnar sem er framkvæmd með anda og ást Guðs hefur verið staðfestur og uppfylling hans er ljós.
– 20 –
Skírn og breytt lög Guðs
Spurning: Er hreinsun með skírn gagnleg og nauðsynleg eða er hún gagnslaus og óþörf? Ef hún er gagnleg, hvers vegna var hún þá numin úr gildi? Og ef hún var gagnslaus, hvers vegna skírði Jóhannes?
Svar: Breytingar á aðstæðum, byltingar og umskipti í aldanna rás eru meðal nauðsynlegra skilyrða þessa stundlega heims og ekki er hægt að aðgreina nauðsynlegar kröfur frá veruleika hlutanna. Þannig verður hiti ekki aðskilinn frá eldinum, vætan frá vatninu eða geislarnir frá sólinni, því þetta eru nauðsynlegar kröfur. Og þar sem breyting og umbylting eru meðal skilyrða alls hins stundlega og hverfula breytast boð Guðs einnig í samræmi við breytta tíma. Svo dæmi sé nefnt voru lög Móse nauðsynleg og í fullu samræmi við þær aðstæður sem ríktu á Hans tímum. Á dögum Krists höfðu þessar aðstæður hins vegar breyst þannig að Móselögin hentuðu ekki og hæfðu illa þörfum mannkyns og því voru þau numin úr gildi. Þannig braut Kristur lögmál hvíldardagsins og bannaði hjónaskilnað. Að Honum gengnum leyfðu fjórir lærisveinar hans, þar á meðal Pétur og Páll, neyslu þeirra dýra sem bönnuð var í Gamla testamentinu að undanskildu kjöti af köfnuðum dýrum, blóði og dýrum sem fórnuð voru skurðgoðum. Þeir bönnuðu líka saurlifnað. Þannig héldu þeir þessum fjórum boðorðum í gildi. Síðar leyfði Páll neyslu kjöts af köfnuðum dýrum, dýrum sem fórnað var skurðgoðum og blóðs, en staðfesti banni við saurlifnaði. Í Rómverjabréfinu 14:14 skrifar hann: „Það veit ég með fullri vissu í trúnni á Drottin Jesú að ekkert er vanheilagt í sjálfu sér nema þá þeim sem heldur eitthvað vanheilagt, honum er það vanheilagt.“ Enn fremur er ritað í Títusarbréfi 1:15: „Allir hlutir eru hreinum hreinir en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.“
Þessar breytingar, umskipti og ógilding urðu vegna þess að tímar Krists voru ekki sambærilegir við tíma Móse. Aðstæður og þarfir höfðu breyst fullkomlega og fyrri boð voru því felld niður.
Hægt er að líkja heiminum við mannslíkama og spámönnum og boðberum Guðs við hæfa lækna. Maðurinn er ekki alltaf í sama ásigkomulagi. Mismunandi kvillar koma fram og hver um sig kallar á sérstaka lækningu. Hæfur læknir meðhöndlar ekki alla kvilla á sama hátt heldur notar mismunandi aðferðir og úrræði í samræmi við þessar ýmsu meinsemdir og aðstæður. Einhver gæti þjáðst af kvilla sem stafar af of háum hita. Hæfur læknir notar því kælandi lyf. Þegar ástand þessa manns breytist á öðrum tíma og í stað hitans kemur mikill kuldi, leggur læknirinn af nauðsyn til hliðar kælandi lyf og ávísar yljandi lyfjum. Ástand sjúklingsins krefst þessarar meðferðar og er augljós vitnisburður um hæfni læknisins.
Íhuga til dæmis hvort hægt væri að framfylgja lögum Gamla testamentisins á okkar dögum? Nei, sem Guð lifir! Það væri ógjörningur og af þeim sökum nam Guð lögmál Gamla testamentisins úr gildi á dögum Krists. Gef einnig gaum að því að á dögum Jóhannesar skírara þjónaði hreinsun með skírn þeim tilgangi að vekja og áminna mennina og fá þá til að iðrast allra synda og bíða komu Krists. En í Asíu í dag dýfa kaþólikkar og mótmælendur ungbörnum í blöndu vatns og ólífuolíu með þeim afleiðingum að sum veikjast af þessari raun, skjálfa og berjast um í skírninni. Á öðrum stöðum ýrir presturinn skírnarvatni á ennið. En í hvorugu tilviki upplifa þessi börn andlegar tilfinningar. Hvaða gagn er þá að þessu? Aðrir velta því fyrir sér hvers vegna þessu ungbarni sé dýft í vatn, þar sem það vekur hvorki andlega vitund né trú, né heldur vakningu, heldur er einungis gamall siður sem mennirnir fylgja. Á tímum Jóhannesar skírara var þetta ekki svo. Jóhannes vildi fyrst áminna fólkið, leiða það til iðrunar og yfirbóta á syndum sínum og hvetja það til að búa sig undir komu Krists. Þá gat hver og einn sem fékk hreinsun með skírn iðrast synda sinna af mikilli auðmýkt og undirgefni, hreinsað líkama sinn af ytri óhreinindum og með innilegri löngun beðið dag og nótt eftir komu Krists og inngöngu í ríki Hans.
Ætlun okkar er í stuttu máli sú að útskýra að umskipti og breytingar á ástandi og aðstæðum tímanna valda ógildingu trúarlaga, því sá tími kemur að fyrri boð hæfa ekki lengur ríkjandi aðstæðum. Íhuga muninn á brýnum málefnum nútímans og málefnum miðalda! Er hugsanlegt að hægt sé að framfylgja boðum fyrri alda á okkar tímum? Það er augljóst að slíkt væri með öllu útilokað. Eftir margar aldir mun það sem þörf er á um þessar mundir, ekki lengur henta þörfum tímanna og ekki verður komist hjá breytingum og umskiptum.
Í Evrópu er stöðugt verið að breyta lögum og reglum. Hversu fjölmörg eru ekki þau lagafyrirmæli sem eitt sinn giltu í evrópskum löndum en hafa síðan verið numin úr gildi! Þessar breytingar eru tilkomnar vegna breytts hugarfars, siða og aðstæðna og án þeirra myndi líðan og velferð manna raskast.
Í Gamla testamentinu er til dæmis kveðið á um líflátsdóm yfir þeim sem brýtur hvíldardaginn. Tíu slík líflátsákvæði er að finna í Gamla testamentinu. Væri hægt að framfylgja þessum boðum á okkar tímum? Það er augljóslega útilokað. Því hefur þeim verið breytt og þessi breyting á lögunum er í sjálfu sér næg sönnun fyrir fullkominni visku Guðs.
Þetta efni krefst mikillar yfirvegunar og ástæðan er skýr og augljós. Heill þeim sem hugleiða!
– 21 –
Brauðið og vínið
Spurning: Kristur sagði: „Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.“ Hvað merkja þessi orð?
Svar: Með þessu brauði er átt við himneska fæðu fullkominna guðlegra eiginleika. Með öðrum orðum, sá sem neytir þessarar fæðu – það er að segja sá sem öðlast úthellingu náðar Guðs, uppljómast af ljósi Hans og fær sinn skerf af fullkomnun Krists – öðlast eilíft líf. Það sem átt er við með blóði er einnig lífsandinn, sem er guðleg fullkomnun, himnesk prýði og eilíf náð. Því blóðrásin færir öllum líkamshlutum líf.
Í Jóhannesi 6:26 segir: „Þér leitið mín ekki af því að þér sáuð tákn, heldur af því að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir.“ Það er augljóst að brauðin, sem mettuðu lærisveinana, voru himnesk náð, því að í versi 33 í sama kafla segir: „Brauð Guðs er sá sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf.“ Það er augljóst að líkami Krists kom ekki niður af himni heldur úr móðurlífi Maríu. Það sem steig niður af himni Guðs var andi Krists. Gyðingar, sem héldu að Kristur væri að tala um líkama sinn, mótmæltu, eins og segir í versi 42 í sama kafla: „Og menn sögðu: Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Við þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt að hann sé stiginn niður af himni.“
Gef gaum að því hversu augljóst það er að orð Krists um himneska brauðið áttu við anda Hans, margvíslega náð, fullkomnun Hans og kenningar, því í versi 63 í áðurnefndum kafla segir: „Það er andinn sem lífgar, maðurinn án hans megnar ekkert.“
Því er augljóst að andi Krists var himnesk hylli sem steig niður frá himni og hver sem fær úthellingu þessa anda – það er að segja játast himneskum kenningum – öðlast eilíft líf. Þannig segir í versi 35: „Og Jesús sagði við þá: „Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir.““
Athuga að merking orðanna „kemur til mín“ er fæða og „á mig trúir“ er drykkur. Það er því fullljóst að himnesk næring er guðleg hylli, andlegt ljós, himneskar kenningar og alltumlykjandi sannleiki Krists, og eta þýðir að nálgast Hann og drekka þýðir að trúa á Hann. Því að líkami Krists var bæði jarðneskur og himneskur. Jarðneski líkaminn var krossfestur en hinn himneski lifir, er eilífur og uppspretta eilífs lífs. Efnislegi líkaminn var mannlegt eðli Hans og himneski líkaminn var guðdómlegt eðli Hans. Miskunnsami Guð! Sumir ímynda sér að náðarmeðölin, brauðið og vínið, séu veruleiki Krists, að guðdómurinn og heilagur andi hafi tekið sér bólfestu í þeim, þótt staðreyndin sé sú að eftir að náðarmeðalanna er neytt leysast þau upp og umbreytast á fáeinum mínútum . Hvernig geta menn ratað í slíkar villur? Ég bið fyrirgefningar Guðs á svo alvarlegri blekkingu!
Tilgangur þessara orða er sá að með opinberun Krists dreifðust hinar helgu kenningar, sem eru eilíf náð, ljós leiðsagnar skein og andi lífsins veittist mannlegum veruleika. Sá sem fékk rétta leiðsögn fann líf og sá sem fór villur vegar hlaut eilífan dauða. Þetta brauð sem kom niður af himni var himneskur líkami Krists og hinir andlegu þættir hans, sem lærisveinarnir átu og öðluðust þar með eilíft líf.
Lærisveinarnir höfðu þegið margan málsverð úr hendi Krists, hvers vegna var síðasta kvöldmáltíðin sérstök? Því er augljóst að með himnesku brauði er ekki átt við þetta efnislega brauð heldur guðlega fæðu andlegs líkama Krists, það er að segja guðdómlega náð og himneska fullkomnun sem lærisveinar Hans tóku þátt í og sem mettaði þá.
Íhuga einnig að þegar Kristur blessaði brauðið og gaf það lærisveinum sínum sagði Hann: „Þetta er líkami minn.“ Hann var sýnilegur og til staðar með þeim í eigin persónu og líkama og umbreyttist ekki í brauð og vín. Hefði Hann breyst í brauðið og vínið, hefði Hann ekki getað verið með þeim í eigin líkama og persónu.
Því er ljóst að brauðið og vínið voru tákn sem þýddu: Náð Mín og fullkomnun hafa veist ykkur, og þar sem þið hafði neytt af þessari margvíslegu náð, hafið þið öðlast eilíft líf og fengið ykkar skerf af himneskri fæðu.
– 22 –
Kraftaverk Krists
Spurning: Kristi hafa verið eignuð ákveðin kraftaverk. Ætti að taka þessar frásagnir bókstaflega eða hafa þær aðra merkingu? Því að vandaðar rannsóknir hafa staðfest að innsta eðli hvers hlutar breytist ekki, að allar skapaðar verundir eru háðar allsherjarlögmáli og skipulagi sem ekki verður raskað og þess vegna sé með öllu útilokað að hægt sé að brjóta þetta allsherjarlögmál.
Svar: Opinberendur Guðs eru höfundar kraftaverka og undursamlegra tákna. Allt sem virðist erfitt eða ómögulegt er þeim mögulegt og heimilað. Því þeir vinna einstæð afrek með einstæðum mætti og þeir hafa áhrif á heim náttúrunnar með krafti sem er náttúrunni ofar. Frá þeim öllum hafa undraverðir hlutir birst.
En í hinum helgu ritum eru notuð sérstök hugtök og í augum opinberenda Guðs hafa þessi undur og kraftaverk enga þýðingu og þeir vilja ekki einu sinni að þau séu nefnd á nafn. Jafnvel þótt litið væri á þessi kraftaverk sem skýrustu sannanir, væru þau aðeins sönnun þeim sem sjálfir voru vitni að þeim, en ekki öðrum sem voru víðsfjarri.
Ef leitanda sem ekki var trúaður hefði til dæmis verið sagt frá kraftaverkum Móse og Krists hefði hann hafnað þeim og sagt: „Kraftaverk hafa löngum verið eignuð ákveðnum skurðgoðum samkvæmt vitnisburði fjölmargra og þau skráð á bækur. Þannig hafa brahmanar tekið saman heila bók um kraftaverk Brahma.“ Leitandinn myndi síðan spyrja: „Hvernig getum við vitað að gyðingar og kristnir menn mæli sannleikann og að brahmanar fari með ósannindi? Hvorutveggja eru arfsagnir, hvorutveggja hefur víða verið staðfest og skráð á bók. Hægt er að líta á hverja og eina þeirra sem rétta eða ranga og hið sama gildir um allar aðrar frásagnir. Sé önnur sönn hljóta báðar að vera sannar, sé önnur staðfest hlýtur það að gilda um báðar.“ Þess vegna geta kraftaverk ekki verið óyggjandi sönnun, því jafnvel þótt þau séu fullgild sönnun fyrir þá sem voru viðstaddir sannfæra þau ekki þá sem voru fjarstaddir.
En á degi opinberanda Guðs munu allir sem gæddir eru innsæi telja að allt sem Honum tengist gangi kraftaverki næst. Því að allt er það auðkennt og ofar öllu öðru og þessi auðkenning er í sjálfu sér fullkomið kraftaverk. Íhuga hvernig Kristur einn og óstuddur, án aðstoðar eða verndara, án liðssveita eða herja og í mikilli auðmýkt, hóf á loft merki Guðs frammi fyrir öllum þjóðum heims; hvernig Hann stóð í gegn þeim og hvernig Hann að lokum vann sigur á þeim öllum, jafnvel þótt Hann að ytri sýn væri krossfestur. Þetta er fullkomið kraftaverk sem á engan hátt verður dregið í efa. Sannleikur Krists þarf að sönnu ekki frekari vitnisburðar við.
Þessi ytri kraftaverk hafa enga þýðingu fyrir fylgjendur sannleikans. Væri blindum manni til dæmis gefin sýn missir hann hana að lokum aftur því að hann mun deyja og engin not hafa af skynfærum sínum og skilningarvitum. Því hefur það enga varanlega þýðingu að gefa blindum sýn því hún glatast að endingu. Og sé hinn látni vakinn til lífs, hvað gagnar það honum því hann mun aftur deyja? Mikilvægast er að veita sanna innsýn og eilíft líf, það er að segja andlegt og guðlegt líf, því að þetta efnislega líf varir ekki og tilvist þess jafngildir tilvistarleysi. Líkt og Kristur sagði þegar Hann svaraði einum lærisveina sinna: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu.“ Því það „sem af manni fæðist er manns barn en það sem fæðist af anda Guðs er Guðs barn.“
Gæt að því að Kristur taldi þá dauða sem virtust þó vera á lífi hið ytra, því hið sanna líf er eilíft líf og sönn tilvist er andleg tilvist. Sé í helgum ritum talað um upprisu dauðra er merkingin sú að þeir öðlist eilíft líf. Segi þar að blindir fái sýn merkja orðin sanna innsýn, segi þau að daufir fái heyrn, merkir það andlega heyrn. Þetta staðfestir sjálfur texti fagnaðarerindisins þar sem Kristur segir að þeim svipi til þeirra sem Jesaja átti við þegar hann sagði: Þeir hafa augu og sjá ekki, þeir hafa eyru og heyra ekki, og ég lækna þá.
Það sem við höfum í huga er ekki að opinberendur Guðs geti ekki unnið kraftaverk, því vissulega hafa Þeir vald til þess. En það sem er mikilvægt og hefur þýðingu í augum Þeirra er innri sjón, andleg heyrn og eilíft líf. Því er það svo að hvenær sem skrifað stendur í helgum ritum að einhver sé blindur og fái sjón er merkingin sú að innri augu hans voru blind og hann fékk andlega sýn, eða að hann var fávís og fékk þekkingu, eða gálaus og varð upplýstur, eða jarðneskur og varð himneskur.
Þar sem þessi innri sjón, heyrn, líf og lækning eru eilíf, hafa þau sanna þýðingu. Hvaða aðra þýðingu og gildi hefur líf og máttur dauðlegs líkama? Eins og fánýtur hégómi líður hann skjótt undir lok. Sé til dæmis kveikt á lampa slokknar á honum aftur en sólin skín ætíð í fullum ljóma og það hefur raunverulega þýðingu.
– 23 –
Upprisa Krists
Spurning: Hver er merkingin með upprisu Krists eftir þrjá daga?
Svar: Upprisa opinberenda Guðs er ekki líkamlegs eðlis. Allt sem þeim viðkemur – öll staða þeirra og ástand, allt sem þeir taks sér fyrir hendur, setja á stofn, kenna, túlka, sýna fram á og mæla fyrir um – er dulræns og andlegs eðlis og heyrir ekki til hinu efnislega ríki.
Þannig er því einnig varið með komu Krists frá himnum. Á nokkrum stöðum í guðspjöllunum kemur skýrt fram að Mannssonurinn hafi stigið niður frá himnum, Hann sé á himnum eða muni stíga upp til himins. Þannig segir í Jóhannesarguðspjalli 6:38: „Ég er stiginn niður af himni,“ og í Jóhannesarguðspjalli 6:42 stendur skrifað: „Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Við þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt að hann sé stiginn niður af himni?“ Og í Jóhannesarguðspjalli 3:13 segir: „Enginn hefur stigið upp til himins nema sá er steig niður frá himni, mannssonurinn.“
Haf í huga að sagt er, að Mannssonurinn sé á himnum jafnvel þótt Kristur á þeim tíma hafi verið á jörðu. Íhuga einnig að sagt er skýrum stöfum að Kristur hafi komið frá himnum þótt móðir Hans, María, hafi borið Hann í heim. Því er ljóst að fullyrðingin um að Mannssonurinn hafi komið frá himnum er táknræns og andlegs eðlis fremur en bókstaflegs og að sá atburður hefur andlega merkingu fremur en efnislega. Merkingin er sú að þótt hið ytra hafi líkami Krists fæðst af Maríu kom Hann samt frá himni, aðsetri sólar sannleikans sem skín í ríki himinsins. Að Hann hafi verið í gröfinni í þrjá daga hefur einnig táknræna andlega merkingu fremur en bókstaflega. Á sama hátt er upprisa Hans úr skauti jarðar táknræns eðlis og lýsir andlegu ástandi fremur en efnislegu. Og upprisa Hans til himins er einnig andlegs eðlis en ekki efnislegs.
Auk þess hafa vísindin staðfest að hinn efnislegi himinn er takmarkalaus og þar er ekkert að finna nema aragrúa stjarna og pláneta.
Upprisu Krists útskýrum við því þannig: Eftir píslarvætti Krists voru postularnir ráðvilltir og fullir örvæntingar. Veruleiki Krists, sem felst í kenningum Hans, gjöfum Hans og hylli, fullkomnum eiginleikum og andlegu valdi, var hulinn sjónum manna í tvo eða þrjá daga eftir krossfestinguna og engin sjáanleg ummerki voru um þann veruleika – það var í sannleika eins og hann hefði glatast með öllu. Því að þeir sem í sannleika trúðu voru fáir og jafnvel þessir fáu voru skelfdir og ráðalausir. Málstaður Krists var þannig eins og lífvana líkami. Eftir þrjá daga urðu postularnir staðfastir í trú sinni. Þeir hófust handa um að hjálpa málstað Krists. Þeir ákváðu að breiða út himneskan boðskap Hans, fara að boðum Drottins síns og reyna að þjóna Honum. Þá birtist veruleiki Krists í fullum ljóma, náð Hans skein sem sólin, trú Hans fékk nýtt líf og kenningar Hans og áminningar komu í ljós. Með öðrum orðum, málstaður Krists sem var eins og andvana líkami lifnaði að nýju og fylltist miskunn heilags anda.
Þetta er merkingin með upprisu Krists og þetta var sönn upprisa. En þar sem klerkarnir skildu ekki merkingu guðspjallanna og gerðu sér enga grein fyrir þessum leyndardómi hefur því verið haldið fram að trúarbrögðin séu í andstöðu við vísindin, meðal annars vegna þess að upprisa Krists í efnislegum líkama til hins efnislega himins brýtur í bága við lögmál náttúrunnar. En þegar sannleiki þessa máls er útskýrður er hann á engan hátt í andstöðu við vísindin heldur staðfesta hann bæði vísindi og skynsemi.
– 24 –
Niðurstigning heilags anda yfir postulana
Spurning: Skráð stendur í guðspjöllunum að heilagur andi hafi stigið niður yfir postulana. Með hvaða hætti gerðist það og hver er merking þessarar niðurstigningar?
Svar: Niðurstigning heilags anda verður ekki með sama hætti og þegar loft fer inn í líkamann. Hún er myndlíking og hliðstæða fremur en bókstafleg ímynd eða frásögn. Það sem átt er við er niðurstigning sólar í spegil, það er að segja þegar ljósið frá sólinni speglast í honum.
Eftir dauða Krists voru postularnir ráðalausir og þá greindi á í hugsun og skoðunum, en síðar urðu þeir staðfastir og sameinaðir. Á hvítasunnudag komu þeir saman, leystu sig frá öllu veraldlegu, höfnuðu eigin óskum, afsöluðu sér öllum jarðneskum þægindum og hamingju, fórnuðu sál sinni og líkama Ástvini sínum, fóru að heiman, skildu að baki allar eigur og áhyggjur og gleymdu jafnvel sinni eigin tilveru. Þá veittist þeim guðleg aðstoð og kraftur heilags anda opinberaðist. Andi Krists sigraði og ást Guðs tók völdin. Á þeim degi fengu þeir guðdómlega staðfestingu og fóru hver í sína áttina til að kenna málstað Guðs og flytja öðrum sannanir og vitnisburð.
Þannig þýðir niðurstigning heilags anda að postularnir heilluðust af hinum messíanska anda, urðu staðfastir og stöðuglyndir, fengu nýtt líf með fulltingi ástar Guðs og sáu Krist sem ævarandi hjálpara sinn og verndara. Þeir voru dropar og urðu að úthöfum, þeir voru vanmegna sem mý en svifu sem ernir vængjum þöndum. Þeir voru einskær vanmáttur en öðluðust styrk. Þeir voru líkt og speglar sem snúa í sólarátt og víst er að geisladýrð sólarinnar birtist í þeim.
– 25 –
Heilagur andi
Spurning: Hvað er átt við með „heilögum anda“?
Svar: Með „heilögum anda“ er átt við úthellingu náðar Guðs og geislana sem skína frá opinberanda Hans. Þannig var Kristur miðdepill geislanna sem skinu frá sól sannleikans. Og frá þessari voldugu miðju – veruleika Krists – ljómaði náð Guðs yfir hina speglana sem birtu veruleika postulanna.
Niðurstigning heilags anda yfir postulana þýðir að þessi dýrðlega og guðdómlega náð varpar ljósi á veruleika þeirra. Því að öðru leyti er framför og afturför, niðurstigning og eðlislæg ívist einkenni á hinu holdlega en ekki hins andlega – það er að segja, framför og ívist eiga aðeins við um hið skilvitlega en ekki hið vitræna, og vitrænn veruleiki svo sem skynsemi, ást, þekking, ímyndunarafl og hugsun merkir ekki inngöngu, útgöngu eða ívist heldur gefur til kynna vensl.
Til dæmis fæst þekking með fulltingi hugans og er vitræns eðlis, en fráleitt er að tala um að hún komi inn í hugann eða fari út úr honum. Fremur er um að ræða venslaöflun líkt og myndir sem birtast í spegli.
Ljóst er og staðfest að skiljanlegur veruleiki hvorki gengur inn né á sér ívist í líkamanum og því er á engan hátt mögulegt fyrir heilagan anda að stíga upp eða niður, ganga inn eða út, blandast eða eiga sér ívist. Í mesta lagi birtist hann líkt og sól í spegli.
Á ákveðnum stöðum í helgiritunum þar sem vísað er til heilags anda er auk þess átt við ákveðinn einstakling líkt og iðulega er sagt í ræðu og riti að einn eða annar sé andinn holdi klæddur eða persónugervingur miskunnar og gjafmildi. Í þessu tilfelli er áherslan á ljósið en ekki á lampann sjálfan.
Til dæmis segir í Jóhannesi 16:12 þegar vísað er til hins fyrirheitna sem koma á eftir Krist: „Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á.“
Íhuga nú vel orðin „Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir“ því þau gefa skýrt til kynna að andi sannleikans íklæðist holdi í Manni sem hefur sál, eyru að heyra og tungu að mæla. Einnig er Kristur kallaður „andi Guðs“, á sama hátt og þegar við tölum um ljós en eigum þó við hvorutveggja í senn, ljósið og lampann.
– 26 –
Endurkoma Krists og dómsdagur
Skráð stendur í helgiritunum að Kristur muni snúa aftur og að skilyrðin fyrir endurkomu Hans séu uppfylling ákveðinna tákna. Þegar Hann snýr aftur munu þessi tákn koma fram. Meðal þeirra eru þessi: „Sólin mun sortna og tunglið hætta að gefa birtu sína. Stjörnurnar munu hrapa af himni.“ Á þeim tíma munu „allar kynkvíslir jarðar kveina“ og „tákn Mannssonarins birtast á himni“. „Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.“ Bahá’u’lláh hefur túlkað þessi ritningarorð ítarlega í Kitáb-i-Íqán, og ekki þarf að endurtaka þau hér. Lestu orð Hans og þú munt skilja merkingu þeirra.
Nú vil ég segja nokkur orð um þetta efni og þau eru þessi. Kristur kom einnig í fyrsta sinn frá himni, eins og beinlínis kemur fram í fagnaðarerindinu. Jafnvel Kristur sjálfur segir að Mannsonurinn hafi komið frá himni og Hann sé á himnum og enginn hafi stigið upp til himins nema sá er steig niður frá himni. Þannig viðurkenna allir að Kristur kom frá himni, þótt Hann að ytri sýn hafi fæðst af móðurlífi Maríu.
Rétt eins og Hann virtist í fyrstu hafa komið af móðurlífi en í raun og veru frá himni, þannig kemur Hann aftur af móðurlífi þótt Hann í raun komi frá himni. Skilyrðin sem skráð eru í fagnaðarerindinu fyrir endurkomu Krists eru vissulega þau sömu og tilgreind voru fyrir fyrstu komu Hans, eins og áður var rakið.
Bók Jesaja kunngerir að Messías muni sigra austrið og vestrið, að allar þjóðir jarðarinnar safnist saman í skugga Hans, að ríki Hans verði stofnað, að Hann komi frá óþekktum stað, að syndararnir verði dæmdir, og réttlætið beri slíkan sigur að úlfurinn og lambið, hlébarðinn og kiðið, brjóstmylkingurinn og höggormurinn komi saman á einu vori, á einum akri og í einum heimkynnum. Fyrsta koman var einnig háð þessum skilyrðum þótt ekkert þeirra hafi verið uppfyllt að ytri sýn. Þannig formæltu Gyðingar Kristi og – Guð forði því! – kölluðu Hann Masíkh (skrímsli) og litu á Hann sem tortímanda voldugrar byggingar Guðs, brotlegan við hvíldardaginn og lögmálið og dauðasekan. Hvert og eitt þessara skilyrða átti sér innri merkingu, en gyðingar skildu hana ekki og voru því sviptir þekkingu á Honum.
Síðari koma Krists fylgir svipuðu mynstri. Öll tákn og skilyrði sem bent hefur verið á eiga sér innri merkingu og þau má ekki taka bókstaflega. Því að öðrum kosti er meðal annars sagt að stjörnurnar muni hrapa á jörðina. Samt eru stjörnurnar óteljandi og nútíma stærðfræðingar hafa staðfest og sannað að sólin sé um það bil ein og hálf milljón sinnum stærri en jörðin og hver fastastjarna sé þúsund sinnum stærri en sólin. Ef þessar stjörnur hröpuðu á yfirborð jarðar, hvar kæmust þar fyrir? Það væri líkt og þúsund milljónir fjalla á borð við Himalaja féllu á mustarðskorn. Slíkt er samkvæmt skynsemi og vísindalegri þekkingu (og reyndar samkvæmt almennri skynsemi) fullkomlega ómögulegt. Og enn furðulegra eru þessi orð Krists: Ef til vill kem Ég þegar þér sofið því að koma Mannssonarins er eins og koma þjófs á nóttu. Kannski er þjófurinn í húsinu og eigandinn veit það ekki.
Því er augljóst að þessi tákn eiga sér innri merkingu og þau ætti ekki að taka bókstaflega. Þessar merkingar hafa verið útskýrðar að fullu í Kitáb-i-Íqán. Lestu þá bók.
– 27 –
Þrenningin
Spurning: Hvað merkir heilög þrenning og þrjár persónur hennar?
Svar: Veruleiki guðdómsins er heilagur og hafinn yfir skilning alls sem skapað er. Enginn dauðlegur hugur getur með nokkru móti skilið hann eða skynjað og hann er ofar öllum mannlegum skilningi. Þessi veruleiki er einn og óskiptur því sundurgreining og margfelldni eru meðal einkenna hins skapaða og þar af leiðandi hins stundlega, en ekki tilviljanir sem orka á hina nauðsynlegu Verund.
Veruleiki guðdómsins er helgaður yfir einleika, og hversu þá miklu fremur margfelldni. Að sá guðdómlegi veruleiki stígi niður í stig og stöður bæri merki um skort sem gengur þvert á fullkomnun og er með öllu útilokað. Hann hefur ætíð verið og mun ætíð verða upphafinn í hæstu hæðum heilagleika og hreinleika. Allt sem nefnt er varðandi opinberun Guðs lýtur að birtunni frá ljósi Hans en ekki niðurstigningu í stig tilverunnar.
Guð er alfullkominn en sköpunin er alger ófullkomnun. Að Guð stigi niður í stig tilverunnar væri mesti ófullkomleikinn. Opinberun Hans, dögun og ljómi eru öllu fremur eins og birting sólar í hreinum, björtum og fáðum spegli.
Allir skapaðir hlutir eru geislandi tákn Guðs. Sem dæmi má nefna að sólin skín á alla jarðneska hluti en þó þjónar ljósið sem fellur á sléttur, fjöll, tré og ávexti aðeins þeim tilgangi að gera þá sýnilega, tryggja vöxt þeirra og viðgang og koma því til leiðar að þeir uppfylli tilganginn með tilvist sinni. Hinn fullkomni maður er samt eins og fáður spegill þar sem sól sannleikans birtist í fyllingu eiginleika sinna og fullkomnunar. Þannig var veruleiki Krists bjartur og fáður spegill í fullkomnum hreinleika og flekkleysi. Sól sannleikans, eðli guðdómsins, birtist í þeim spegli með ljós sínum og yl, en hún steig ekki niður frá hæðum heilagleika og himni helgunar til að taka sér bólfestu í honum. Nei, hún dvelur áfram í æðstu upphafningu en hefur opinberast í speglinum í allri fegurð sinni og fullkomnun.
Ef við segðum að við höfum séð sólina í tveimur speglum – Krist í öðrum og heilagan anda í hinum – eða með öðrum orðum, að við höfum séð þrjár sólir – eina á himni og tvær á jörðinni – væri það sannleikur. Og ef við segðum að sólin væri ein, að hún sé fullkomin einstakleiki og eigi sér engan jafningja eða félaga, væri það líka sannleikur.
Tilgangurinn með orðum okkar er sá að veruleiki Krists var hreinn og fáður spegill þar sem sól sannleikans – það er hið guðdómlega eðli – birtist og skein í takmarkalausri fullkomnun sinni og óþrotlegum eiginleikum. Það er ekki svo að sólin, sem er eðli guðdómsins, hafi nokkru sinni verið skilin sundur eða margfölduð – því hún er ætíð ein – heldur birtist hún í speglinum. Þess vegna sagði Kristur: „Faðirinn er í syninum“ sem þýðir að sú sól er opinberuð og sýnileg í þessum spegli.
Heilagur andi er úthelling náðar Guðs sem opinberaðist í veruleika Krists. Opinberun er staðan sem hjarta Krists hefur og heilagur andi er staða anda Hans. Það er því augljóst og staðfest að eðli guðdómsins er fullkomin eining og á sér engan jafningja eða líkingu.
Þetta er hin sanna merking hinna þriggja persóna þrenningarinnar. Að öðrum kosti myndi grundvöllur trúarbragða Guðs hvíla á rökleysu sem enginn hugur gæti nokkru sinni skilið og hvernig er hægt að krefjast þess að hugurinn trúi því sem hann ekki fær skilið? Mannleg skynsemi fengi engan botn í slíkt, hversu miklu síður væri hægt að færa það í skiljanlegan búning. Það er og verður einskær hugarburður.
Það er þetta sem þrjár persónur heilagrar þrenningar merkja og um leið staðfesting á einingu Guðs.
– 28 –
Fortilvera Krists
Spurning: Hver er merking orðanna í Jóhannesarguðspjalli: „Faðir, ger mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð sem ég hafði hjá þér áður en heimur var til.“
Svar: Fortilvera er af tvennum toga. Önnur er nauðsynleg fortilvera sem ekki á sér orsök en hvílir í sjálfri sér. Til að mynda skín sólin af sjálfri sér og þarf ekki á birtu annarra stjarna að halda. Þetta er kallað eðlislægt ljós. En máninn fær birtu sína frá sólinni og getur ekki skinið án hennar. Því er sólin orsök ljóssins en birta mánans afleiðing. Sólin er forsendan, hið forna og upprunalega, en máninn á sér orsök og undanfara.
Hin er tímanleg fortilvera sem á sér ekkert upphaf. Yfirskilvitlegt orð Guðs er helgað ofar tíma. Fyrir Guði er fortíð, nútíð og framtíð eitt og hið sama. Gærdagurinn, dagurinn í dag og morgundagurinn eru ekki til í sólinni.
Heiður og auðkenni eiga sér einnig forgangsröð, það er að segja, það sem er auðkenndast kemur á undan hinu auðkennda. Þannig kemur veruleiki Krists, sem er orð Guðs, án efa á undan öllu sem skapað er að því er varðar eðli, eiginleika og auðkenni. Áður en orð Guðs birtist í mannlegri mynd dvaldi það í fullkomnum heilagleika og dýrð, í fullkominni fegurð og prýði, á hæðum tignar sinnar. Þegar þetta orð skein fyrir sakir visku Hins hæsta frá hátindi dýrðar á hinn jarðneska heim, réðist holdið gegn því. Þannig féll það í hendur Gyðinga, varð fangi hinna fávísu og ranglátu og loks fest á kross. Þess vegna kallaði Hann til Guðs og sagði: Leys Mig úr fjötrum hins jarðneska ríkis og frelsa Mig frá þessu búri, til þess að Ég geti stigið upp til hæða hátignar og mikilleika og endurheimt heilagleikann og dýrðina sem Ég naut áður en Ég tók mér bólfestu í veröld holdsins, megi fagna í ríki eilífðar og taka flugið til sannra híbýla Minna í staðlausu ríki Hins ósýnilega.
Eins og fram hefur komið var mikilleiki Krists og dýrð Hans staðfest eftir uppstigningu Hans bæði í ríki hjartnanna og á gervallri jörðinni, jafnvel í sjálfu rykinu. Meðan Hann dvaldi í þessari efnislegu veröld var Hann fyrirlitinn og svívirtur af vanmáttugustu þjóð jarðar, gyðingum, sem töldu hæfa að krýna blessað höfuð Hans þyrnikórónu. En eftir uppstigningu Hans lutu allir konungar, prýddir djásnfögrum kórónum, þessari þyrnikórónu í auðmýkt og undirgefni.
Sjá dýrðina sem orði Guðs hlotnaðist jafnvel í þessum heimi!
– 29 –
Synd og friðþæging
Spurning: Í fyrra Korintubréfi 15:22 segir: „Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist.“ Hver er merking þessara orða?
Svar: Vita skalt þú að eðli mannsins er tvíþætt: efnislegt og andlegt. Efnislega eðlið er arfur Adams en andlega eðlið er arfur Guðsorðs, sem er andi Krists. Efnislega eðlið er arfleifð Adams, en andlega eðlið fæddist fyrir náð heilags anda. Efnislega eðlið er uppspretta alls ófullkomleika og andlega eðlið uppspretta allrar fullkomnunar.
Kristur fórnaði sér til þess að mannkynið mætti leysast úr fjötrum efnislega eðlisins og ófullkomleika þess og öðlast dyggðir andlega eðlisins. Þetta andlega eðli sem hefur orðið til fyrir náð guðdómlegs veruleika, er hámark allrar fullkomnunar og framgengur af anda heilags anda. Það er guðdómleg fullkomnun, það er ljós, andlegleiki, leiðsögn, upphafning, göfgi, réttlæti, ást, örlæti, gæska gagnvart öllum og kærleiksverk. Það er líf á líf ofan. Þetta andlega eðli er ljósið dýrlega sem skín frá sól sannleikans.
Kristur er miðdepill heilags anda. Hann er fæddur af heilögum anda og alinn upp af heilögum anda. Hann stígur niður frá heilögum anda – það er að segja, veruleiki hans er ekki af ætt Adams heldur fæddist Hann af heilögum anda. Merkingin í fyrra Korintubréfi 15:22 þar sem segir: „Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist“ er því þessi: Adam er almennt nefndur „faðir mannsins“, það er að segja Hann er ástæðan fyrir efnislegu lífi mannkynsins og gegnir efnislegu föðurhlutverki. Hann er lifandi en þó ekki lífgefandi sál, en Kristur er orsök andlega lífsins sem manninum er gefið og gegnir þar andlegu föðurhlutverki. Adam er lifandi sál, Kristur er lífgefandi andi.
Í þessum efnislega heimi er maðurinn á valdi eðlishvata sinna og syndin er óhjákvæmileg afleiðing þeirra því þessar hvatir lúta ekki lögmálum réttlætis og réttvísi. Líkami mannsins er fangi náttúrunnar og starfar samkvæmt fyrirmælum hennar. Af því leiðir að syndir – svo sem reiði, öfund, þrasgirni, græðgi, ágirnd, fáfræði, ofstæki, spilling, dramb og grimmd – hljóta að eiga sér tilvist í efnisheiminum. Allir þessir dýrslegu eiginleikar eru í eðli mannsins. Maður sem hefur verið sviptur andlegri menntun er eins og dýrið og líkist þeim íbúum Afríku sem í athöfnum sínum, hegðun og siðferði láta stjórnast af eðlishvötum og hegða sér samkvæmt boðum náttúrunnar að því marki að þeir rífa hvern annan í sig. Því er augljóst að efnislegur heimur mannsins er syndugur heimur og á þessu sviði verður maðurinn ekki aðgreindur dýrinu.
Öll synd er sprottin af valdboðum náttúrunnar. Þessi boð náttúrunnar, sem eru meðal kennimerkja líkamlegrar tilveru, eru ekki syndir meðal dýranna heldur syndir meðal manna. Dýrið er uppspretta ófullkominna eiginleika eins og reiði, ágirndar, öfundar, græðgi, grimmdar og drambs. Allir þessir ámælisverðu eiginleikar eru í eðli dýrsins en þeir eru ekki syndir hvað dýrið varðar heldur syndsamlegir í manninum.
Adam er ástæðan fyrir efnislegu lífi mannsins, en veruleiki Krists, það er að segja orð Guðs, er orsök andlega lífsins. Orð Guðs er lífgefandi andi sem þýðir að allur ófullkomleiki sem býr í efnislegu lífi mannsins breytist með uppfræðslu og leiðsögn í mannlega fullkomnun. Þess vegna var Kristur lífgefandi andi og orsök andlega lífsins meðal alls mannkyns.
Adam var orsök efnislega lífsins og þar sem efnisheimur mannsins er ríki ófullkomleikans, og ófullkomleiki jafngildir dauða, líkti Páll hinu fyrra við hið síðara.
En flestir kristnir menn trúa því að Adam hafi syndgað og brotið af sér með því að eta af forboðna trénu, að afkomendur Hans hafi um alla framtíð erft hörmulegar afleiðingar þessa brots og Adam hafi þannig orðið orsök að dauða mannsins. Þessi skýring er óskynsamleg og augljóslega röng, því hún felur í sér að allir menn, jafnvel spámenn og boðberar Guðs, séu syndugir án þess að hafa gert neitt af sér og ástæðan sé sú ein að þeir eru afkomendur Adams og muni líða vítiskvalir fram að fórnardegi Krists. Þetta væri fjarri réttlæti Guðs. Ef Adam var syndari, hver var þá synd Abrahams? Hver var sök Ísaks og Jósefs? Hvert var afbrot Móse?
En Kristur, sem var orð Guðs, fórnaði sér. Þetta hefur tvær merkingar – ytri merkingu og sanna merkingu. Ytri merkingin er þessi: Þar sem Kristur vildi grundvalla málstað til að uppfræða mannkynið, endurlífga mannanna börn og upplýsa allt mannkyn og þar sem boðun svo voldugs málstaðar myndi vekja andstöðu allra þjóða jarðar og þola andstöðu allra þjóða og ríkisstjórna – hlyti það að lykta með því að blóði Hans yrði úthellt og Hann krossfestur. Þess vegna gerðist það að á sömu stundu og Hann opinberaði ætlunarverk sitt fórnaði Hann lífi sínu og bauð krossinn velkominn sem veldisstól sinn, leit á sérhvert sár sem smyrsl og sérhvert eitur sem ljúffengt hunang og reis upp til að uppfræða og leiða fólkið. Það er að segja, Hann fórnaði lífi sínu til þess að geta fært mönnunum anda lífsins og leið líkamlegan dauða til þess að geta endurlífgað aðra í anda.
Önnur merking fórnarinnar er hins vegar þessi: Kristi má líkja við fræ sem fórnar formi sínu til þess að tréð sem af því vex geti þroskast. Þótt form fræsins hafi glatast birtist veruleiki þess í fullkominni tign og fegurð í ytri mynd trésins.
Staða Krists var staða alfullkomnunar. Þessi guðlega fullkomnun skein eins og sólin á allar trúaðar sálir og úthelling þess ljóss birtist í fullum ljóma í veruleika þeirra. Þess vegna segir Hann: „Ég er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki.“ Það er að segja, sá sem fær þessa guðlegu næringu öðlast eilíft líf. Sá sem neytti af þessari náð og fékk skerf af þessari fullkomnun öðlaðist eilíft líf og sá sem leitaði upplýsingar frá aldinni náð Hans frelsaðist frá myrkri villu og upplýstist ljósi leiðsagnar.
Formi fræsins var fórnað fyrir tréð en fullkomnun þess birtist og opinberaðist í krafti þessarar fórnar. Því að tréð, greinar þess, lauf og blómstur duldust í fræinu, en þegar formi fræsins var fórnað, opinberaðist öll fullkomnun þess í laufum, blómum og ávöxtum.
– 30 –
Adam og Eva
Spurning: Hver er sannleikurinn í sögunni af Adam og forboðna trénu?
Svar: Í Gamla testamentinu segir að Guð hafi sett Adam í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans. Guð bauð honum og sagði: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta að vild. En af skilningstré góðs og ills máttu ekki eta. Jafnskjótt og þú etur af því muntu deyja.“ Þá er sagt að Guð hafi látið djúpan svefn falla á Adam, tekið eitt af rifjum hans og skapað konu til að vera honum meðhjálp. Enn fremur segir að höggormurinn hafi freistað konunnar að eta af ávexti trésins og sagt: „En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“ Eva át af ávexti trésins og gaf Adam sem einnig át. Þá luktust augu þeirra upp og þeim varð ljóst að þau voru nakin og huldu blygðun sína með laufum. Guð ávítaði þau og sagði við Adam: „Hefur þú etið af trénu sem ég bannaði þér að eta af?“ Adam svaraði: „Eva freistaði mín.“ Guð ávítaði þá Evu sem sagði: „Höggormurinn tældi mig og ég át.“ Fyrir þetta var höggormurinn bölvaður og fjandskapur settur milli höggormsins og Evu og milli afkomenda þeirra. Og Guð sagði: „Nú er maðurinn orðinn sem einn af oss fyrst hann ber skyn á gott og illt. Bara að hann rétti nú ekki út hönd sína, taki einnig af lífsins tré og eti og lifi eilíflega.“ Guð gætti því vegarins að lífsins tré.
Ef við skiljum þessa frásögn bókstaflega og samkvæmt orðanna hljóðan væri hún í hæsta máta undarleg og mannshugurinn hefði ærna ástæðu til að neita að samþykkja hana, staðfesta eða gera sér hana í hugarlund. Því svo flókið fyrirkomulag og nákvæmni í smáatriðum, slíkar fullyrðingar og áminningar, myndu sæta furðu og vantrú kæmu þær frá vitibornum manni, hvað þá sjálfum guðdóminum sem hefur skapað þennan takmarkalausa alheim í fullkominni mynd og komið því til leiðar að meðal ótölulegra verunda hennar ríkir fyllsta skipan, skynsemi og fullkomnun.
Staldra verður við um stund og íhuga: Ef ytri merking þessarar frásagnar væri rakin til spekings myndu allir vitrir menn vissulega hafna henni á þeim forsendum að útilokað væri að slíka tilhögun og fyrirkomulag mætti rekja til spakviturrar persónu. Frásögnin um að Adam og Eva hafi neytt af trénu og verið vísað úr paradís felur því í sér tákn og guðdómlega leyndardóma sem hafa altæka merkingu og lúta undursamlegum túlkunum, en aðeins þeir sem þekkja náið til hinna guðlegu leyndardóma og þeir sem algóður Drottinn hefur velþóknun á kunna skil á sannri þýðingu þessara tákna.
Þessi ritningarorð Gamla testamentisins hafa því margs konar merkingu. Við munum útskýra eina þeirra og segjum þá að með „Adam“ sé átt við anda Adams og með „Evu“ sé átt við hans eigið sjálf. Því að í vissum greinum helgiritanna þar sem konur eru nefndar er átt við sjálf mannsins. Með „tré góðs og ills“ er átt við hinn efnislega heim, því að himneskt ríki andans er hrein gæska og fullkomið ljós, en í heimi efnisins er ljós og myrkur, gott og illt, og hvers kyns andstæður og mótsagnir.
Höggormurinn táknar bindingu við þennan heim efnisins. Þessi binding andans við efnisheiminn leiddi til þess að anda Adams og sjálfi Hans var vísað frá ríki frelsis til veraldar ánauðar og olli því að Hann sneri frá ríki guðdómlegrar einingar til mannlegrar tilvistar. Þegar sjálf og andi Adams komu inn í efnisheiminn hvarf hann frá paradís frelsisins og steig niður í ríki ánauðar. Hann hafði dvalið í hæðum heilagleika og fullkominnar gæsku og haldið síðan inn í veröld góðs og ills.
Með „lífsins tré“ er átt við æðsta stig tilverunnar, það er að segja stöðu Guðs orðs og allsherjar opinberanda Hans. Þeirrar stöðu var að sönnu vel gætt uns hún birtist í fullum ljóma í æðstu opinberum allsherjar opinberanda Hans. Því að staða Adams, að því er varðar birtingu og opinberun guðdómlegrar fullkomnunar, var staða fósturvísisins, staða Krists var staða viðgangs og þroska, og dögun Hins æðsta ljósgjafa var staða fullkomnunar eðlis og eiginleika. Þess vegna vísar lífsins tré í alhæstu paradís til miðpunkts fullkomins heilagleika og hreinleika, það er að segja allsherjar opinberanda Guðs. Því frá dögum Adams og fram á daga Krists var lítt fjallað um eilíft líf og alltumlykjandi fullkomnun ríkisins á hæðum. Þetta lífsins tré vísar til veruleika Krists. Það var gróðursett í trúarkerfi Hans og prýtt eilífum ávöxtum.
Gæt að því hversu vel þessi túlkun samræmist veruleikanum. Því að þegar andi og sjálf Adams bundust hinum efnislega heimi, hélt hann frá ríki frelsis til ríkis ánauðar. Þetta ástand hélst með öllum síðari kynslóðum og þessa bindingu anda og sjálfs við efnisheiminn – sem er synd – tóku afkomendur Hans í arf. Þessi binding er höggormurinn sem alltaf verður mitt á meðal afkomenda Adams og fjandskapast við anda þeirra, því að binding við heiminn er ástæðan fyrir andlegri ánauð. Þessi ánauð er sú synd sem barst frá Adam til afkomenda hans, því hún hefur komið í veg fyrir að mennirnir viðurkenni andlegu eiginleikana sem búa í eðli þeirra og nái upphafinni stöðu.
Þegar heilagur andblær Krists og helguð ljós Hins æðsta ljósgjafa dreifðust víða vegu, var mannlegur veruleiki – það er að segja þær sálir sem sneru sér að orði Guðs og fengu hlutdeild í margvíslegri náð Hans – leystar úr þessum böndum og frá þessari synd, veitt eilíft líf, frelsaðar úr fjötrum ánauðar og gengu inn í ríki frelsisins. Þær voru hreinsaðir af jarðneskum löstum og gæddar himneskum dyggðum. Þetta er merking orða Krists þegar Hann segir: Ég gaf blóð Mitt til þess að heimurinn mætti lifa. Það er að segja: Ég kaus að bera allar þessar prófraunir, þrengingar og ógæfu, og leið jafnvel hið mesta píslarvætti, til að ná þessu lokamarki og tryggja aflausn syndanna – það er að segja að leysa andana frá efnisheiminum og laða þá að ríki Guðs – til þess að upp megi rísa sálir sem verða eðliseigindir leiðsagnar og birta fullkomna eiginleika ríkisins á hæðum.
Gæt að því að ef þessi orð væru tekin bókstaflega, eins og fylgjendur bókarinnar ímynduðu sér, væri slíkt hreint ranglæti og fullkomin forákvörðun. Ef Adam syndgaði þegar Hann nálgaðist forboðna tréð, hver var þá synd Abrahams, vinar Guðs, og yfirsjón Móse sem ræddi við Guð? Hvert var afbrot Nóa spámanns og hins sannorða Jósefs? Hver var sök spámanna Guðs og hvar mistókst Jóhannesi skírari? Hefði guðlegt réttlæti látið það viðgangast að þessir heilögu opinberendur þoldu vítiskvalir vegna syndar Adams þangað til Kristur kæmi og bjargaði þeim með fórn sinn frá hinum neðsta eldi? Slík hugmynd gengur þvert á allar reglur og réttvísi og enginn skynsamur maður getur nokkru sinni samþykkt hana.
Merkingin er öllu fremur sú sem áður var nefnd: Adam er andi Adams og Eva sjálf Hans, tréð er efnisheimurinn og höggormurinn er binding við hann. Þessi binding, sem er synd, hefur gengið í arf til afkomenda Adams. Með heilögum anda sínum leysti Kristur sálirnar úr þessum fjötrum og frelsaði þær frá þessari synd.
Þessi synd Adams miðast auk þess við stöðu Hans. Þótt þessi veraldlega binding skilaði miklum árangri, er hún engu síður talin synd í samanburði við bindingu við andlega ríkið og staðfestir sannleika orðanna „Góðar gerðir hinna réttlátu eru syndir hinna nánustu.“ Aftur má líka þessu við kraft líkamans sem er ófullkominn miðað við kraft andans – og raunar hreinn vanmáttur í samanburði við hann. Sömuleiðis er litið á efnislega lífið sem dauða samanborið við eilífa tilveru og líf í ríki Guðs. Þannig líkti Kristur þessu efnislega lífi við dauðann og sagði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu.“ Þótt þessar sálir lifðu efnislegu lífi var líf þeirra dauðanum líkast í augum Hans.
Þetta er aðeins ein þeirra merkinga sem felst í frásögn Biblíunnar af Adam. Íhuga hana svo þú megir uppgötva aðrar.
– 31 –
Guðlast gegn heilögum anda
Spurning: „Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.“
Svar: Heilagur veruleiki opinberenda Guðs hefur tvenns konar andlega stöðu: Önnur er staða guðlegrar opinberunar, sem líkja má við kringlu sólar, og hin er staða geislunar og opinberunar sem líkja má við himneskt ljós og fullkomnun – heilagan anda. Því að heilagur andi er margvísleg náð og fullkomnun Guðs, og þessir fullkomnu eiginleikar Guðs eru eins og geislar sólarinnar og ylur hennar. Sólin er sól í krafti geislanna sem frá henni berast, án þeirra væri hún ekki sól. Ef fullkomnun Guðs hefði ekki opinberast í Jesú væri hann ekki Kristur. Hann er opinberandi Guðs einmitt vegna þess að guðleg fullkomnun opinberast í Honum. Spámenn Guðs eru opinberendur og fullkomnir eiginleikar Guðs – það er heilagur andi – opinberast í þeim.
Ef sál heldur sig fjarri opinberandanum er enn hægt að vekja hana til vitundar, því henni kann að hafa mistekist að bera kennsl á Hann og viðurkenna Hann sem holdtekju guðdómlegrar fullkomnunar. En ef sálin hefur andstyggð á sjálfri fullkomnun Guðs, sem er heilagur andi, er hún eins og leðurblakan sem hatar ljósið.
Þetta hatur á sjálfu ljósinu verður hvorki bætt né fyrirgefið, það er að segja, slík sál getur á engan hátt nálgast Guð. Þessi lampi hér er lampi vegna ljóssins sem frá honum skín, án ljóssins væri hann ekki lampi. Sál sem hefur andstyggð á ljósi lampans er á vissan hátt blind. Hún fær ekki skynjað ljósið og þessi blinda veldur eilífum skorti.
Það er augljóst að sálir njóta náðar frá úthellingu heilags anda sem birtist í opinberendum Guðs en ekki sjálfri persónu opinberandans. Af því leiðir að ef sálin lætur hjá líða að fá hlutdeild í úthellingu heilags anda, sviptir hún sig náð Guðs og þessi svipting jafngildir því í sjálfu sér að henni sé meinað um fyrirgefningu Guðs.
Þess vegna hafa margar sálir staðið í gegn opinberendum Guðs og ekki gert sér grein fyrir því að þeir voru opinberendur en urðu vinir þeirra þegar þær báru kennsl á þá. Fjandskapur þeirra við opinberanda Guðs olli því ekki eilífum skorti því þeir voru óvinir ljósastikunnar og vissu ekki að hún var aðsetur geisladýrðar Guðs. Þeir voru ekki óvinir ljóssins og þegar þeir skildu að ljósastikan var aðsetur ljóssins urðu þeir sannir vinir.
Það sem við eigum við er að fjarlægð frá ljósastikunni veldur ekki eilífum skorti, því enn getur maðurinn vaknað og fengið rétta leiðsögn, en fjandskapur gegn ljósinu sjálfu veldur eilífum skorti og við honum eru engin úrræði.
– 32 –
„Margir eru kallaðir en fáir útvaldir“
Spurning: Kristur segir í guðspjallinu: „Margir eru kallaðir en fáir útvaldir“ og í Kóraninum segir: „Hann útvelur hvern þann fyrir miskunn sína sem Honum þóknast.“ Hver er viskan í þessu?
Svar: Vita skalt þú að skipulag og fullkomnun alheimsins krefst þess að sköpunin taki á sig ótöluleg form og myndir. Hið skapaða getur ekki orðið að veruleika á einu stigi eða í einni stöðu, með einum hætti, gerð eða tegund: Mismunur á stigum, aðgreining í formi og fjölbreytni margs konar gerða og tegunda er óhjákvæmilegur. Nauðsynlegt er að til séu steinefni, plöntur, dýr og menn, því veröld tilvistar verður ekki skipulögð, prýdd og fullkomnuð á fullnægjandi hátt með manninum einum. Sömuleiðis myndu dýr, plöntur eða steinefnin ein saman ekki gefa heiminum svo dásamlegt yfirbragð, traust fyrirkomulag og fíngerða prýði. Mismunur verður að vera á stigi og stöðu, tegundum og gerðum, til að tilveran birtist í sem mestri fullkomnun.
Ef þetta tré bæri til dæmis aðeins ávexti kæmi fullkomnun jurtaríkisins ekki í ljós, því lauf, blóm og ávextir eru nauðsynlegir til að tréð geti birst í fyllstu fegurð og fullkomnun.
Gef einnig gaum að líkama mannsins sem af nauðsyn hlýtur að vera samsettur úr mismunandi efnisþáttum, limum og líffærum. Fegurð og fullkomnun líkamans krefst þess að hann hafi eyru, augu, heila og jafnvel hár og fingurneglur. Ef maðurinn væri augun ein, eyru eða heili jafngilti það ófullkomleika. Vöntun á höfuðhári, bráhárum, tönnum, nöglum felur í sér ófullkomnun, því þótt í samanburði við augun séu aðrir líkamshlutar lífvana og líkust plöntum og steinefnum, er vöntun á þeim í líkama mannsins samt mjög óviðfelldin.
Skapaðar verundir eru á mismunandi stigum en sumar þeirra taka eðlilega öðrum fram. Tilteknum verundum eins og manninum er valið hæsta stigið en öðrum, þar á meðal plöntum, lægra stig og enn öðrum, svo sem steindum, er valið lægsta stigið. Allt er þetta í samræmi við vilja og áform Guðs. Af því leiðir að maðurinn skipar hæsta stigið sakir náðar Guðs og að munur á mönnum hvað varðar andleg afrek og fullkomna himneska eiginleika lýtur einnig ákvörðun Hins almiskunnsama. Því að trú, sem er eilíft líf, er tákn um náð en ekki afleiðing réttlætis. Eldur ástarinnar í þessum heimi vatns og leirs brennur í krafti aðdráttarafls en ekki vegna mannlegrar viðleitni þótt með henni geti maðurinn vissulega aflað sér þekkingar, lærdóms og annarra fullkominn eiginleika. Það er ljós hinnar guðdómlegu fegurðar sem verður að örva andann og snerta hann með aðdráttarafli sínu. Því er sagt: „Margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“
Efnislegum verundum verður ekki álasað, dæmdar eða gerðar ábyrgar fyrir stigum sínum og stöðum. Þannig eru steindir, jurtir og dýr fullgild á sínu eigin stigi og aðeins ámælisverð sé þeim áfátt á því stigi, en stigið sjálft er fullkomið.
Nú er tvenns konar munur á mönnum. Annar er stigsmunur og hann er ekki ámælisverður. Hinn varðar trú og visku og skortur á þessu er ámælisverður því ef sálin er svipt þessum gjöfum og ást Guðs hefur ekki hrifið hana hlýtur hún að hafa orðið fórnarlamb sinna eigin girnda og ástríðna. Hversu lofsvert og ásættanlegt sem það kann að vera á stigi mannsins hefur sálin samt svipt sig fullkomnum eiginleikum þess stigs. Hún hefur orðið uppspretta skorts og vöntunar og sætir ábyrgð af þeim sökum.
– 33 –
Endurkoma spámannanna
Spurning: Vilt þú útskýra málefni endurkomunnar?
Svar: Bahá’u’lláh hefur sett fram langa og ítarlega útskýringu á þessu máli í Kitáb-i-Íqán. Lestu þá bók og sannleikurinn mun liggja í augum uppi. En þar sem þú hefur varpað fram þessari spurningu skal gefin stutt skýring.
Við hefjum málið með því að vitna til texta fagnaðarerindisins. Skráð stendur þar að þegar Jóhannes Sakaríasson kom fram og boðaði fólkinu að Guðsríki væri í nánd, spurðu þeir hann: „Hver ert þú? Ert þú hinn fyrirheitni Messías?“ Hann svaraði: „Ekki er ég hann.“ Þeir spurðu hann: „Ert þú Elía?“ Hann svaraði: „Ég er það ekki.“ Þessi orð staðfesta skýrt og greinilega að Jóhannes Sakaríason var ekki hinn fyrirheitni Elía.
En daginn sem Kristur ummyndaðist á Taborfjalli sagði Hann skýrum orðum að Jóhannes sonur Sakaríasar væri hinn fyrirheitni Elía. Í Markúsi 9:11 segir: „Og þeir spurðu hann: „Hví segja fræðimennirnir að Elía eigi fyrst að koma?“ Jesús svaraði þeim: „Víst kemur Elía fyrst og færir allt í lag. En hvernig er ritað um Mannssoninn? Á hann ekki margt að líða og verða smáður? En ég segi ykkur: Elía er kominn og þeir gerðu honum allt sem þeir vildu, eins og ritað er um hann.““ Og í Matteusi 17:13 segir: „Þá skildu lærisveinarnir að Jesús hafði talað við þá um Jóhannes skírara.“
Nú spurðu þeir Jóhannes skírara: „Ert þú Elía?“ og hann svaraði: „Ég er það ekki,“ en í guðspjallinu segir að Jóhannes hafi verið hinn fyrirheitni Elía og Kristur staðfesti það skýrum orðum. Ef Jóhannes var Elía, hvers vegna sagðist hann ekki vera það og ef hann var ekki Elía, hví sagði Kristur að hann væri það?
Ástæðan er sú að við lítum hér ekki á persónu einstaklingsins heldur fullkomna eiginleika hans og veruleika – það er að segja Jóhannes skírari hafði til að bera sömu fullkomnu eiginleika og Elía. Þannig var Jóhannes skírari hinn fyrirheitni Elía. Það sem hér er íhugað er ekki eðlið heldur eiginleikarnir.
Til dæmis óx blóm í fyrra og í ár hefur einnig vaxið blóm. Þegar ég segi að blómið frá í fyrra hafi snúið aftur, á ég ekki við að nákvæmlega sama blómið sé komið aftur. En þar sem þetta blóm er búið sömu eiginleikum og blómið frá í fyrra – hefur sama ilm, fínleika, lit og form – er sagt að blóm síðasta árs sé komið aftur og að þetta sé þetta sama blómið. Þegar vorið kemur tölum við einnig um endurkomu fyrri vortíma því að þessu vori fylgir allt sem einkenndi hið fyrra. Þetta er ástæðan fyrir því að Kristur sagði: „Þér munuð verða vitni að öllu sem gerðist á dögum fyrri spámanna.“
Tökum annað dæmi. Fræi síðasta árs var sáð, greinar og lauf birtust, blóm og ávextir uxu og loks myndaðist nýtt fræ. Þegar þetta seinna fræ er gróðursett, verður það að tré og aftur munu lauf, blóm, greinar og ávextir vaxa og fyrra tréð birtast aftur. Þar sem upphafið var fræ og endirinn er líka fræ, segjum við að fræið hafi komið aftur. Þegar við lítum á efnið í trénu er það annað, en þegar við lítum á blómin, laufin og ávextina, þá finnum við sama ilm, bragð og fínleika. Þess vegna hafa fullkomnir eiginleikar trésins snúið aftur.
Ef við lítum með sama hætti á einstaklinginn er hann annar, en ef við hugleiðum eigindir hans og fullkomnun hefur hann snúið aftur. Þegar Kristur sagði: „Þetta er Elía,“ þá var merking orða Hans þessi: Þessi maður er opinberandi náðar, fullkomnunar, eiginleika og dyggða Elía. Og þegar Jóhannes skírari segir: „Ég er ekki Elía,“ á hann við að hann sé ekki sama persóna og Elía. Kristur hafði í huga eiginleika þeirra, fullkomnun, eigindir og dyggðir og Jóhannes vísaði til síns eigin efnis og einstaklingseinkenna. Þessu má líkja við þennan lampa: Hann var hér í gærkvöldi, í kvöld lýsir hann á ný og annað kvöld mun hann einnig lýsa. Þegar við segjum að lampinn í kvöld sé sá sami og í gærkvöldi og að hann hafi snúið aftur, er átt við ljósið en ekki olíuna, kveikinn eða efnið í lampanum.
Ítarleg grein hefur verið gerð fyrir þessu máli í Kitáb-i-Íqán.
– 34 –
Pétur og páfadómur
Spurning: Í Matteusarguðspjalli segir Kristur við Pétur: „Þú ert Pétur og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína.“ Hvað merkja þessi orð?
Svar: Þessi orð Krists eru staðfesting á svari Péturs þegar Kristur spurði: „Hver trúið þér að ég sé?“ og Pétur svaraði: „Þú ert sonur hins lifanda Guðs.“ Þá sagði Kristur við hann: „Þú ert Pétur“ – en arameíska orðið „Kefas“ þýðir „klettur“ – „og á þessum kletti mun ég reisa kirkju mína.“ Því aðrir höfðu svarað Kristi og sagt að Hann væri Elía, eða Jóhannes skírari, eða Jeremía eða einn af spámönnunum.
Ætlun Krists var að staðfesta orð Péturs með myndlíkingu og vísbendingu. Og þar sem nafn hins síðarnefnda þýddi „klettur“, sagði Hann: „Þú ert Pétur og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína.“ Það er að segja, trú þín á að Kristur sé sonur hins lifanda Guðs verður grundvöllur trúar Guðs og á þessari trú skal grunnur lagður að kirkju Guðs – sem er lögmál Guðs.
Vafi leikur á að grafhýsi Péturs sé í Róm. Það er umdeilt, sumir segja að það sé í Antíokkíu.
Leggjum auk þess mat á verk ákveðinna páfa með hliðsjón af trú Krists. Kristur, hungraður og öreiga, lifði á jurtum í óbyggðum og vildi ekki að neitt hjarta hryggðist. Páfinn ferðast í gullslegnum vagni og eyðir dögum sínum með miklum tignarbrag, upptekinn af hóglífi og ánægjuefnum sem fá ríkidæmi og stórlæti allra konunga jarðar til að blikna.
Kristur gerði ekki á hluta neins en vissir páfar létu taka margar saklausar sálir af lífi. Kynntu þér söguna. Hversu miklu blóði úthelltu ekki páfarnir til þess að tryggja sig í sessi um stundarsakir! Hversu margar þúsundir þjóna mannkyns, þar á meðal lærdómsmenn sem höfðu uppgötvað leyndardóma alheimsins, pyntuðu þeir, fangelsuðu og drápu, allt vegna skoðanaágreinings! Af hvílíku offorsi réðust þeir ekki gegn sannleikanum!
Gæt að áminningum Krists og kanna siði og framferði páfanna. Ber stjórnsýsla þeirra einhvern svip af áminningum Krists? Okkur mislíkar ásakanir, en saga Vatíkansins vekur sannarlega mikla furðu. Það sem við höfum í huga er að fyrirmæli Krists eru eitt og gerðir páfadóms allt annað. Ekkert er líkt með þessu tvennu. Íhuga hversu margir mótmælendur hafa verið drepnir að boði páfastóls, ranglætið og grimmdina sem menn áttu yfir höfði sér, pyntingarnar og refsingarnar sem beitt var! Finna menn ljúfan ilm Krists af þessum gerðum? Nei, sem Guð er réttlátur! Þessir menn hlýddu ekki Kristi, en heilög Barbara, sem er á myndinni hér fyrir framan okkur, hlýddi Honum, gekk vegu Hans og gætti boða Hans.
Meðal páfanna voru vissulega nokkrar blessaðar sálir sem fetuðu í fótspor Krists, sérstaklega á fyrstu öldum kristindómsins þegar jarðnesk úrræði skorti og miklar þrengingar voru sendar af himnum. En þegar tæki stundlegs fullveldis voru tryggð og veraldlegur heiður og velmegun var í höfn, gleymdi páfastóll Kristi með öllu og varð upptekinn af jarðnesku valdi og vegsemd með þeim efnislegu þægindum og munaði sem því fylgdi. Hann lét lífláta fólk, var á móti eflingu lærdóms, ofsótti vísindamenn, myrkvaði ljós þekkingar og gaf fyrirmæli um að vega og ræna. Þúsundir vísindamanna, lærdómsmanna og saklausra sálna týndu lífinu í fangelsum Rómaveldis. Þegar slík verk eru framin hvernig er hægt að fallast á það tilkall páfa um að hann sé staðgengill Krists?
Páfagarður hefur stöðugt verið á móti eflingu þekkingar og það svo mjög að í Evrópu er trúin talin fjandsamleg vísindastarfi og vísindin eru sögð grafa undan trúarbrögðunum. En trú Guðs stuðlar að sannleika, iðkun vísinda og lærdóms, þekkingu og siðmenningu mannkyns, rannsóknir á leyndardómum tilverunnar og upplýsingu alls heimsins. Hvernig getur hún þá verið andsnúin þekkingu? Guð forði því! Þvert á móti er þekking mesta dyggð mannsins og göfugasti eiginleiki hans í augum Guðs. Að vera andsnúinn þekkingu er fullkomin fáfræði og sá sem hefur andstyggð á þekkingu og lærdómi er ekki mannvera heldur hugsunarlaust dýr. Því þekking er ljós, líf, hamingja, fullkomnun og fegurð og færir sálina nær fótskör Guðs. Hún er heiður og dýrð í ríki mannsins og mesta gjöf Guðs. Þekking er leiðsögn og fáfræði er holdi klædd villa.
Sælir eru þeir sem verja dögum sínum í leit að þekkingu, í afhjúpun á leyndardómum alheimsins og vandaða rannsókn á sannleikanum! Og vei þeim sem láta sér nægja fáfræði, gera sér að góðu hugsunarlausa eftirlíkingu, hafa fallið í afgrunn fáfræði og óvitundar og sóað þannig lífi sínu til einskis.
– 35 –
Frjáls vilji og forákvörðun
Spurning: Þegar Guð fær þekkingu á verki sem einhver ætlar að vinna og skráð er í „varðveitta töflu“ örlaganna, er hægt að forðast það?
Svar: Þekking á atburði veldur því ekki að hann gerist. Þekking Guðs nær í eðli sínu til veruleika allra hluta og atburða, bæði áður og eftir að þeir gerast, en hún er ekki orsök þeirra. Þetta er tákn um fullkomnun Guðs.
Spádómarnir um komu Hins fyrirheitna sem Guð opinberaði spámönnum Gamla testamentisins urðu þess ekki valdandi að Kristur kom í þennan heim. En duldir leyndardómar hins ókomna voru opinberaðir spámönnunum sem þannig fengu vitneskju um framtíðaratburði og kunngerðu þá síðan. Þessi þekking og upplýsing á henni var ekki orsök atburðanna. Í kvöld vita til dæmis allir að eftir sjö klukkutíma kemur sólin upp en þessi almenna vitneskja veldur ekki sólarupprásinni.
Sömuleiðis er þekking Guðs í þessum stundlega heimi ekki orsök þess forms sem hlutir og atburðir taka á sig. Sú þekking er öllu fremur hafin yfir aðgreiningu fortíðar, nútíðar og framtíðar og er sama eðlis og uppfylling allra hluta og atburða án þess að orsaka þá.
Á sama hátt er skráning og frásögn af atburðum í helgiritunum ekki orsök þessara atburða. Spámönnum Guðs var kunngert með guðdómlegri opinberun að ákveðnir atburðir myndu eiga sér stað. Þannig fengu þeir til dæmis að vita með guðlegri opinberun að Kristur myndi líða píslarvætti og þeir skýrðu síðan frá því. Olli þessi þekking þeirra og vitneskja píslarvætti Krists? Nei. Þessi þekking er til merkis um fullkomnun þeirra en ekki ástæðan fyrir píslarvætti Hans.
Með stjarnfræðilegum útreikningum komast stærðfræðingar að raun um að sól- eða tunglmyrkvi verður á tilteknum tíma. Þessi forsögn er vissulega ekki ástæða myrkvans. Hér er auðvitað aðeins um hliðstæðu að ræða en ekki nákvæma mynd.
3. hluti
Um krafta og stöður opinberenda Guðs
– 36 –
Fimm tegundir anda
Vita skalt þú að almennt eru til fimm tegundir anda. Fyrstur er andi jurtaríkisins sem er mátturinn sem sprettur af gerð og samsetningu efnisþátta samkvæmt visku og ráðsályktun Hins hæsta, og af gagnkvæmri skipan þeirra, tengslum og áhrifum á aðrar skapaðar verundir. Þegar þessir hlutar og efnisþættir eru aðskildir hverfur vaxtarmátturinn. Svo dæmi sé nefnt stafar raforka af samsetningu ákveðinna þátta og þegar þessir þættir eru aðskildir hverfur þessi orka og eyðist. Þannig er því einnig farið anda jurtaríkisins.
Síðan er það andi dýraríkisins sem einnig á rætur í samsetningu efnislegra þátta í eina heild. En þessi efnisgerð er fullkomnari og þegar samsett gerð hennar fullnast með ákvörðun almáttugs Drottins verður andi dýrsins til og hann felst í krafti skynfæranna. Sá kraftur nemur skynrænan veruleika – allt sem hægt er að sjá, heyra, bragða, lykta eða snerta. Við sundrun og upplausn þessara samsettu þátta hverfur þessi andi einnig af náttúrulegum orsökum. Þessu má líkja við lampann hér fyrir framan þig: Þegar olía, kveikur og logi koma saman kviknar ljós, en þegar olían gengur til þurrðar, kveikurinn eyðist og samsettu þættirnir eru aðskildir, slokknar ljósið einnig.
Hvað varðar anda mannsins má líkja honum við gler og geisla sólarinnar. Það er að segja, mannslíkaminn og samsettir efnisþættir hans eru fullkomnasta fyrirkomulagið, traustasta tilhögunin, göfugasta samsetningin og fullkomnast alls í tilverunni. Hann vex og þroskast með anda dýraríkisins. Þessum fullkomna líkama má líkja við spegil og anda hans við sólina: Brotni glerið eða spegillinn eyðist heldur sólin áfram að skína og ekkert lát verður á náðarúthellingu hennar.
Þessi andi er uppgötvandi máttur sem umlykur allt sem skapað er. Öll dásamleg tákn, allt handverk, iðnir og uppgötvanir, öll voldug verkefni og mikilvægir sögulegu atburðir sem þú þekkir, hefur þessi andi uppgötvað og fært af ósýnilegu sviði inn á hið sýnilega með andlegum mætti sínum. Hann dvelur á jörðu en gerir uppgötvanir á himni og leiðir hið óþekkta af þekktum og sýnilegum veruleika. Maðurinn er til dæmis staddur hér í þessari heimsálfu en í krafti skynsemi sinnar uppgötvar hann, eins og Kólumbus, aðra og áður óþekkta heimsálfu – Ameríku. Líkaminn er seinfær en hann flýgur í loftinu í farartækjum sem hann hefur sjálfur smíðað. Hann hreyfir sig hægt en ferðast hratt um Austur- og Vesturlönd í farartækjum sem hann hefur hannað. Þessi máttur umlykur í stuttu máli allt sem til er.
En á mannsandanum eru tvær hliðar, önnur guðleg og hin satanísk – það er að segja, hann getur bæði orðið fullkomnastur alls í tilverunni og ófullkomnastur alls. Ef hann tileinkar sér dyggðir, er hann göfugastur allra verunda, en ef hann temur sér lesti verður hann viðurstyggilegastur alls.
Fjórða stig andans er himneskur andi, sem er andi trúarinnar og úthelling náðar Hins almiskunnsama. Þessi andi útgengur af heilögum anda og með þeim mætti sem Guð gefur honum verður hann orsök eilífs lífs. Þetta er sá máttur sem gerir jarðneska sál himneska og ófullkominn mann fullkominn. Hann hreinsar hið óhreina, losar um tungu hinna þöglu, leysir úr ánauð ástríðu og löngunar og veitir fáfróðum þekkingu.
Fimmta stig andans er heilagur andi, sem er tengiliður Guðs og sköpunar Hans. Hann er eins og spegill sem snýr að sólu. Líkt og flekklaus spegill þiggur geisla sólarinnar og endurspeglar ríkidæmi hennar, þannig miðlar heilagur andi því heilaga ljósi sem hann flytur helguðum sálum frá sól sannleikans. Þessi andi er prýddur öllum fullkomnum eiginleikum Guðs. Hvar sem hann birtist vaknar heimurinn til nýs lífs, ný hringrás hefst og líkami mannkyns klæðist nýjum og ferskum búningi. Þessu má líkja við vorið. Vorkoman gerir heiminn nýjan. Með komu þess lifnar dökkur svörðurinn, iðjagrænn gróður vex á ökrum og völlum, blóm og ilmandi kryddjurtir af öllu tagi spretta, trén lifna á ný, undursamlegir ávextir vaxa og ný hringrás fer í hönd.
Hið sama gerist með opinberun heilags anda. Hvenær sem hann birtist hleypir hann nýju lífi í veröld mannsins og færir mannlegum veruleika nýjan anda. Hann klæðir alla tilveruna glæstum búningi, dreifir myrkri fáfræðinnar og fær ljós fullkominna eiginleika mannsins til að skína. Það var með slíkum mætti sem Kristur endurnýjaði þessa hringrás – og þá fór guðdómlegur vortími í hönd, fullur af lífi og þokka í ríki mannkyns, og veitti upplýstum sálum andvara þrunginn lífgefandi ilmi.
Á sama hátt var opinberun Bahá’u’lláh nýtt vor sem birtist með ljúfasta ilmi heilagleikans, herskörum eilífs lífs og mætti frá ríki himinsins. Hann stofnaði hásæti Guðs í miðju hjarta heimsins og með mætti heilags anda endurlífgaði Hann sálirnar og hratt af stað nýrri hringrás.
– 37 –
Samband Guðs við opinberendur sína
Spurning: Hver er veruleiki Guðdómsins og tengsl Hans við uppsprettu drottinlegs ljóma og staðina þar sem sól Hins almiskunnsama rennur upp?
Svar: Vita skalt þú að eðli og veruleiki Guðdómsins er helgaður yfir alla tjáningu og heilagleiki Hans er algjör og fullkominn, það er að segja Hann er helgaður og hafinn yfir alla lofgjörð. Allar eiginleikar sem eignaðir eru hæstu stigum tilverunnar eru hrein ímyndun hvað þessa stöðu snertir. Á Hinum ósýnilega og ótilkvæmilega fæst aldrei þekking og fullkomnu eðli Hans verður aldrei lýst með orðum. Því að hið guðdómlega eðli er alltumlykjandi veruleiki og öll sköpunin er umlukin þeim veruleika. Alltumlykjandi veruleiki hlýtur vissulega að vera ofar umluktum veruleika og því getur hinn síðarnefndi með engu móti fengið vitneskju um hinn fyrrnefnda eða skilið hann. Hversu mjög sem mannshugurinn þroskast og jafnvel þótt hann nái hæsta stigi mannlegs skilnings felast hinstu mörk þess skilnings í sýn á táknum og eigindum Guðs í sköpunarverkinu en ekki á ríki Guðdómsins. Því að eðli og eiginleikar hins aldýrðlega Drottins eru varðveittir í ótilkvæmilegum hæðum heilagleika og hugur manna og skilningur munu aldrei finna leið að þeirri stöðu. „Leiðin er lokuð og allri leit hafnað.“
Augljóst er að allt sem maðurinn skilur er afleiðing af tilvist hans og að maðurinn er tákn Hins almiskunnsama. Hvernig getur afleiðing táknsins umlukið skapara þess? Það er að segja, hvernig getur skilningur manna, sem er ávöxturinn af tilvist þeirra, gert sér grein fyrir Guði? Veruleiki Guðdómsins er því ofar öllum skilningi og hulinn öllum mönnum og að stíga upp til þeirrar stöðu er á engan hátt mögulegt.
Við sjáum að sérhvert lægra stig fær ekki skilið veruleika þess sem er því ofar. Hversu mjög sem steinninn, jörðin og tréð þróast fá þau aldrei skilið veruleika mannsins, sjón hans, heyrn eða önnur skilningarvitum, jafnvel þótt hvorutveggja sé af hinu skapaða. Hvernig getur þá maðurinn, sköpuð vera, skilið veruleika heilags eðlis skaparans? Enginn mannlegur skilningur getur nálgast þessa stöðu, engin orð komið sannleika hennar á framfæri og engin vísbending nálgast leyndardóm hennar. Hvað er rykkorn andspænis veröld heilagleikans og hvaða tengsl geta nokkru sinni orðið milli takmarkaðs huga mannsins og víðernis hins takmarkalausa ríkis? Hugann þrýtur afl til að skilja Hann og sálir verða ráðþrota þegar þær reyna að lýsa veruleika Hans. „Enginn fær Hann augum litið, en sjónir Hans spanna allt sem er. Óræðir eru vegir Hans og Hann skynjar allt sem er!“
Þannig verða öll orð og skýringar vanmegna í þessu sambandi, sérhver lýsing er óverðug, sérhver hugmynd staðleysa og sérhver tilraun til að íhuga dýpt hennar er tilgangslaus. Þetta innsta eðli alls eðlis, þessi sannleikur alls sannleika, þessi leyndardómur allra leyndardóma, á sér samt ljóma, dýrð, opinberun og birtingu í ríki tilverunnar. Dögun þessa ljóma, dagsbrúnir þessarar opinberunar og uppsprettur þessara opinberenda eru þeir útskýrendur heilagleikans, sá allsherjarveruleiki og þær guðlegu Verur sem eru sannir speglar hins helga eðlis Guðdómsins. Öll fullkomnun, hylli og geisladýrð hins eina sanna Guðs er sýnileg í veruleika heilagra opinberenda Hans á sama hátt og ljós sólarinnar endurspeglast í allri sinni fullkomnun og örlæti í fáðum og flekklausum spegli. Og ef sagt er að speglarnir opinberi sólina og dögunarstað dagstjörnu heimsins, er ekki ætlunin að gefa í skyn að sólin hafi stigið niður úr hæðum helgi sinnar eða líkamnast í speglinum eða að sá takmarkalausi veruleiki hafi lokast inni á þessu sýnilega sviði. Guð forði því! Þetta er trú manngervissinna. Nei, allar þessar lýsingar, öll þessi lofgjörð og vegsömun vísa til þessara heilögu opinberenda, það er að segja sérhver lýsing, lof, nafn eða eigind Guðs vísar til þeirra. En engin sál hefur nokkru sinni gert sér grein fyrir eðlisveruleika Guðdómsins eða getað gefið vísbendingu um hann, lýst honum eða vegsamað. Þannig vísar allt sem mannlegur veruleiki þekkir, uppgötvar og skilur af nöfnum, eigindum og fullkomnun Guðs til þessara heilögu opinberenda og takmarkast við þá eina: „Leiðin er lokuð og allri leit hafnað.“
Samt gefum við veruleika Guðdómsins ákveðin nöfn, eignum honum eiginleika og vegsömum Hann fyrir sjón Hans, heyrn, mátt, líf og þekkingu. Við staðfestum þessi nöfn og eiginleika ekki til að viðurkenna fullkomnun Guðs, heldur til að neita því að Hann sé á einhvern hátt ófullkominn.
Þegar við horfum á þennan stundlega heim sjáum við að fáfræði er ófullkomnun og þekking er fullkomnun og því segjum við að heilagt eðli Guðdómsins búi yfir alvisku. Veikleiki er ófullkomnun og máttur er fullkomnun og því segjum við að þessi heilagleiki og guðlegi veruleiki sé alvitur. Það er ekki svo að við getum skilið þekkingu Hans, sjón, heyrn, mátt eða líf eins og allt þetta er í sjálfu sér. Það er vissulega ofar skilningi okkar, því eðlislæg nöfn og eigindir Guðs eru samtvinnuð eðli Hans sem er helgað ofar öllum skilningi. Ef eðlislægar eigindir Hans væru aðrar en eðlið sjálft, væri til fjöldi fortilvera og aðgreining milli eðlis Hans og eiginda hefði einnig verið staðfest og ætti sér fortilveru. En slíkt myndi fela í sér óendanlega keðju fortilvera, sem er augljóslega rangt.
Af þessu leiðir að öll þessi nöfn, eiginleikar, lofgjörð og vegsömun eiga við um opinberendur Guðs og að allt sem við getum túlkað eða hugsað umfram þetta er hrein blekking, því að við getum aldrei fundið leiðina til Hins ósýnilega og ótilkvæmilega. Því er sagt: „Allt sem þið í hégóma ykkar teljið ykkur hafa greint og tjáð með margslungnasta orðfæri ykkar er aðeins sköpun eins og þið sjálfir og snýr aftur til ykkar.“
Það er augljóst að ef við reynum að gera okkur hugmynd um veruleika Guðdómsins, er sú hugmynd umlukin okkar eigin huga – og vissulega er sá sem umlykur meiri en hið umlukta! Af þessu leiðir að sérhver veruleiki sem við gætum eignað Guðdóminum, að frátöldum heilögum opinberendum Hans, er blekking ein því að engin leið er til að nálgast þann guðlega veruleika sem er fullkomlega utan seilingar hugans. Og allt sem við gætum hugsað í þá veru er hrein ímyndun.
Íhuga síðan hvernig lýðir heimsins hringsóla um sína eigin fánýtu ímyndanir og tilbiðja skurðgoð sinna eigin hugmynda og ímyndana án þess að gera sér grein fyrir því. Þeir líta á þessar hégómlegu ímyndanir sem þann Veruleika sem er helgaður ofar öllum skilningi og hafinn yfir allar vísbendingar. Þeir telja sig vera talsmenn guðlegrar einingar og allra aðra dýrka skurðgoð. Þó eiga jafnvel skurðgoðin sér efnislega tilveru, en skurðgoðin sem mennirnir gera sér með hugmyndum sínum og ímyndunum eru hrein blekking og eiga sér ekki einu sinni tilvist duftsins. „Gætið að, ó þér sem hafið innsæi!“
Vita skalt þú að eigindir fullkomnunar, úthelling guðlegrar náðar og ljós guðlegrar opinberunar skín í öllum opinberendum Guðs, en að alltumlykjandi orð Guðs – Kristur – og Hans mesta nafn – Bahá’u’lláh – hafa birst með opinberun sem er öllu ofar. Því að þeir hafa ekki aðeins til að bera alla fullkomna eiginleika fyrri opinberenda, heldur sýna þeir einnig slíka fullkomnun að allir aðrir gerast fylgjendur þeirra. Þannig voru allir spámenn Ísraels viðtakendur guðlegrar opinberunar og það var Kristur líka, en hvílíkur munur er ekki á opinberun Hans sem var orð Guðs og á innblásnum spádómum Jesaja, Jeremía eða Elía!
Gæt að því ljós er bylgjuhreyfing í ljósvakanum sem örvar taugar augans og myndar sjónina. Þótt bylgjuhreyfing ljósvakans sé til bæði í lampanum og í sólinni, hversu mikill munur er þó ekki á á ljósi sólarinnar og lampans!
Mannsandinn hefur ákveðin tákn og birtingarmyndir á stigi fósturvísisins og enn aðra prýði og tjáningarform á stigum bernsku, unglingsára og fullþroska. Andinn er einn en skortir samt mátt sjónar og heyrnar á fósturstiginu, en á stigum unglingsára og fullþroska birtist hann í fyllstu prýði og ljóma. Á sama hátt birtist fræið í upphafi vaxtar síns aðeins sem lauf, sem er birtingarmynd jurtaríkisins en á stigi ávaxtarins verður þessi sami andi, það er að segja máttur vaxtarins, augljós í fyllingu sinni og fullkomnun – hversu mikill er samt ekki munurinn á laufblaði og ávexti! Því af ávextinum birtast hundrað þúsund lauf þótt þau vaxi öll og þroskist með sama anda jurtaríkisins. Staldra því við og hugleið muninn á dyggðum og fullkomnun Krists og geisladýrð Bahá’u’lláh annars vegar og dyggða spámanna Ísraels hins vegar, svo sem þeirra Esekíels eða Samúels,. Allir fengu þeir guðlega opinberun en á milli þeirra er ómælanleg fjarlægð.
– 38 –
Þrjár stöður opinberenda Guðs
Vita skalt þú að þótt opinberendur Guðs búi yfir takmarkalausum dyggðum og fullkomnun, gegna þeir aðeins þremur stöðum. Hin fyrsta er efnisleg staða, önnur er mannleg staða, sem er hin skynigædda sál, og hin þriðja er staða guðlegs opinberanda og himneskrar dýrðar.
Hin efnislegu staða á sér uppruna í tíma því hún er samsett úr efnisþáttum og allt sem er samsett hlýtur að lokum að leysast upp. Það er reyndar útilokað að sundrun komi ekki í kjölfar samsetningar.
Önnur er staða skynigæddrar sálar, sem er veruleiki mannsins. Hún á sér líka upphaf og opinberendur Guðs eiga hana sameiginlega með öllum mönnum.
Hin þriðja er staða guðlegs opinberanda og himneskrar dýrðar sem er orð Guðs, náðin eilífa og heilagur andi. Þessi staða á sér hvorki upphaf né endi því hið fyrsta og hið síðasta lýtur að þessum jarðneska heimi en ekki heimi Guðs. Fyrir Guði er upphaf og endir eitt og hið sama. Á sama hátt eru dagar, vikur, mánuðir og ár – gærdagurinn og dagurinn í dag – reiknaðir á grundvelli snúnings jarðar en slíkt þekkist ekki á sólinni. Þar er hvorki gærdagur, dagurinn í dag eða morgundagurinn, hvorki mánuðir né ár – allt er jafnt. Sömuleiðis er orð Guðs helgað yfir allar slíkar aðstæður og hafið yfir öll lögmál, hömlur eða takmarkanir sem kunna að vera í þessum jarðneska heimi.
Vita skalt þú að þótt mannlegar sálir hafi verið til á jörðinni frá ómunatíð á mannssálin sér engu að síður uppruna. Og þar sem hún er tákn Guðs er hún eilíf þegar hún hefur eitt sinn orðið til. Mannsandinn á sér upphaf en engan endi, hann varir að eilífu. Sömuleiðis eiga ýmsar tegundir sem finnast á jörðinni sér uppruna í tíma, því allir viðurkenna að eitt sinn voru þessar tegundir ekki á jörðinni og raunar var jörðin sjálf eitt sinn ekki til. En veröld tilvistar er ævarandi, því hún er ekki bundin við þennan jarðneska heim.
Það sem við bendum á er að þótt mannssálin eigi sér uppruna er hún engu að síður eilíf og ódauðleg. Því að jarðneski heimurinn er heimur ófullkomleika hvað manninn varðar og heimur mannsins er heimur fullkomnunar hvað jörðina varðar. Þegar ófullkomnar verundir ná stigi fullkomnunar verða þær eilífar. Þetta er aðeins dæmi, leitastu við að skilja hinn sanna tilgang.
Nú hefur veruleiki opinberandans sem er orð Guðs og ástand fullkominnar guðlegrar opinberunar hvorki upphaf né endi, en útgeislun Hans er breytileg eins og útgeislun sólarinnar. Svo dæmi sé nefnt reis hún yfir sjónarhring Krists í fyllstu prýði og ljóma, og þetta er eilíft og ævarandi. Íhuga alla þá konunga sem sigruðu heiminn, alla þá vitru ráðherrar og valdhafa sem hafa komið og farið. Hver og einn hverfur í gleymskunnar djúp en andvari Krists berst enn, ljós Hans skín enn, enn þá berst ákall Hans, fáni Hans blaktir enn við hún, hersveitir Hans berjast enn, ljúf rödd Hans hljómar enn, úr skýjum Hans streymir enn lífgefandi vatn, eldingar Hans leiftra enn, dýrð Hans er enn þá skær og óumdeilanleg, ljós Hans geislar enn og hið sama gildir um hverja sál sem dvelur í skugga Hans og þiggur af ljósi Hans.
Því er augljóst að opinberendur Guðs hafa þrenns konar stöðu: líkamlega stöðu, stöðu skynigæddrar sálar og stöðu guðlegrar opinberunar og himneskrar prýði. Líkamlega staðan mun óhjákvæmilega líða undir lok. Þrátt fyrir að hin skynigædda sál eigi sér upphaf á hún engan endi og hefur eilíft líf. En sá heilagi veruleiki sem Kristur lýsti með orðunum: „faðirinn er í syninum“ hefur hvorki upphaf né endi. „Upphafið“ vísar aðeins til opinberunar Hans á sinni eigin stöðu. Þannig líkir Hann þögn sinni við svefn. Maður sem þegir líkist þeim sem sefur en þegar hann talar er sem hann hafi vaknað. Og samt er sá sem sefur og sá sem vakir einn og sami maðurinn: Engar breytingar hafa átt sér stað á stöðu Hans, upphafningu, dýrð, innri veruleika eða meðfæddu eðli. Ástandi þagnar hefur aðeins verið líkt við svefn og opinberun við vöku. Hvort sem maður sefur eða vakir er hann sami maðurinn. Svefn er einfaldlega ákveðið ástand og vaka er annað. Og þess vegna er tími þagnar borinn saman við svefn og tími opinberunar og leiðsagnar við vöku.
Í guðspjallinu segir: „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði.“ Af þessu leiðir að Kristur varð ekki Messías og öðlaðist fullkomna eiginleika þegar Hann var skírður og heilagur andi steig niður yfir Hann í líki dúfu. Orð Guðs hefur öllu fremur alltaf verið til og mun ætíð dvelja í hæstu hæðum heilagleika.
– 39 –
Mannleg og guðdómleg staða opinberendanna
Við ræddum áður um þrenns konar stöðu opinberenda Guðs, í fyrsta lagi efnislegan veruleika þeirra, sem lýtur að líkamanum, í öðru lagi einstaklingsbundinn veruleika, sem er hin skynigædda sál, og í þriðja lagi stöðu guðlegs opinberanda sem felst í guðlegri fullkomnun og er uppspretta lífs fyrir heiminn, menntun allra sálna, leiðsögn fólksins og uppljómun allrar sköpunarinnar.
Líkamlega staðan er mannleg í eðli sínu og hennar bíður upplausn, því hún er samsett af efnislegum þáttum og hið efnislega hlýtur að sundrast og verða upplausn að bráð.
En einstaklingsbundinn veruleiki opinberanda Hins miskunnsama er heilagur veruleiki og af þeim sökum skarar Hann í eðli sínu og eiginleikum fram úr öllu sem skapað er. Hann er eins og sólin sem í krafti eðlisgerðar sinnar hlýtur að skína og verður ekki borin saman við neina reikistjörnu. Eigindum sólarinnar er til dæmis ekki hægt að líkja við eigindir tunglsins. Vegna innri gerðar sinnar hlýtur sólin að geisla ljósi en tunglið þiggur ljós hennar og endurvarpar því en gefur það ekki frá sér. Þannig er einnig farið mannlegum veruleika sem eins og tunglið fær ljós sitt frá sólinni en sá heilagi veruleiki skín í sér sjálfum og af sér sjálfum.
Þriðja staðan er staða guðlegrar náðar, afhjúpun fegurðar Hins aldna og útstreymi ljóssins frá ævarandi og almáttugum Drottni. Einstaklingsbundinn veruleiki hinna heilögu opinberenda verður ekki frekar aðgreindur guðlegri náð og opinberun en efnismassi sólarinnar frá ljósi hennar. Þannig felst uppstigning hinna heilögu opinberenda einfaldlega í því að þeir yfirgefa jarðneska líkama sína. Lítum til dæmis á lampann sem varpar ljósi sínu á þetta borð. Hverfi borðið er það ekki lengur upplýst en það hefur engin áhrif á ljósið sem lampinn gefur frá sér. Fortilvera þeirrar náðar sem streymir frá hinum heilögu opinberendum er eins og ljósið, einstaklingsbundinn veruleiki þeirra eins og lampaglasið og mannleg musteri þeirra eins og borðið. Hverfi það heldur lampinn áfram að loga. Opinberendur Guðs eru eins og margir ólíkir speglar, því þeir hafa hver sín sérstöku einstaklingseinkenni, en það sem endurspeglast í þessum speglum er ein og sama sólin. Því er augljóst að veruleiki Krists er annar en Móse.
Frá upphafi er þessi heilagi Veruleiki án efa meðvitaður um leyndarmál tilverunnar og frá barnæsku birtast í Honum augljós tákn tignar og mikilleika. Hvernig gæti Hann þrátt fyrir slíka hylli og fullkomnun ekki verið meðvitaður um sína eigin stöðu?
Við nefndum þrjár stöður opinberenda Guðs: líkamlega tilvist, einstaklingsbundinn veruleika og fullkomna guðdómlega opinberun sem líkja má við sólina, yl hennar og ljós. Aðrir einstaklingar eiga sér einnig líkamlega stöðu og hafa skynigædda sál – anda og huga. Þannig svipar orðum Hans: „Ég var sofandi þegar andblær Guðs leið yfir Mig og vakti Mig af svefni Mínum“ til orða Krists: „Holdið er veikt en andinn reiðubúinn“, eða „ég er þjáður“, eða „ég er rósamur“, eða „mér er órótt“. Allt þetta vísar til líkamlegrar stöðu og hefur engin áhrif á einstaklingsbundinn veruleika eða opinberun hins guðdómlega veruleika. Gæt til dæmis að öllum þeim fjölda breytinga sem geta orðið á líkama mannsins og andinn hefur enga hugmynd um. Það er jafnvel hugsanlegt að vissir líkamshlutar lamist en það hefur engin áhrif á eðli hugans. Klæði mannsins geta slitnað á ýmsa vegu en það veldur engu tjóni á þeim sem í þeim gengur. Þannig eiga þessi orð Bahá’u’lláh við um líkama Hans „Ég var sofandi þegar andblær leið yfir og vakti Mig af svefni.“
Í heimi Guðs er engin fortíð, nútíð eða framtíð. Allt er eitt. Þegar Kristur sagði: „Í upphafi var Orðið,“ átti Hann við að orðið hafi verið, sé og muni verða, því að heimur Guðs er tímalaus. Tíminn ríkir yfir hinu skapaða en ekki yfir Guði. Í bæninni þar sem Kristur segir: „Helgist þitt nafn“ er merkingin sú að nafn Þitt var helgað í fortíð, nútíð og framtíð. Morgunn, hádegi og kvöld eru til á jörðinni, en í sólinni er hvorki morgunn, hádegi né kvöld.
– 40 –
Þekking opinberenda Guðs
Spurning: Hvaða takmarkanir eru settar opinberendum Guðs og þá einkum þekkingu þeirra?
Svar: Þekking er af tvennu tagi: tilvistarþekking og formleg þekking, það er að segja þekking sem byggir á innsæi og þekking á hugtökum.
Sú þekking sem fólk hefur almennt á hlutunum felst í öflun hugmynda og rannsóknum. Viðfangs þekkingar er annaðhvort aflað með rökvísi eða rannsókn og þannig myndast formgerð í spegli hjartans. Umfang þessarar þekkingar er afar takmarkað því að hún er háð aðfenginni reynslu.
Önnur tegund þekkingar, sem er tilvistar- eða innsæisþekking, er hins vegar þekking mannsins og vitund um sitt eigið sjálf.
Til dæmis er hugur og andi mannsins meðvitaður um ástand sitt og ásigkomulag, líkama og líkamlegar kenndir og jafnframt um andlega krafta sína, skynjanir og aðstæður. Þetta er tilvistarþekking þar sem maðurinn gerir sér grein fyrir eigin ástandi. Hann skynjar það og skilur því andinn umlykur líkamann og er upplýstur um skynjanir hans og krafta. Þessi þekking sprettur ekki af viðleitni eða áunninni reynslu. Hún er tilvistarlegs eðlis, hún er hrein náðargjöf.
Þar sem heilagur veruleiki allsherjar opinberenda Guðs, umlykur allt sem skapað er, bæði eðli þess og eiginleika, og þar sem Þeir eru hafnir yfir og uppgötva allan veruleika og eru meðvitaðir um allt sem er, er þekking þeirra guðlegs eðlis en ekki áunnin – það er að segja hún er himnesk náð og guðdómleg uppgötvun.
Nefnum dæmi þessu til skýringar. Maðurinn er göfugastur allra jarðneskra vera. Í honum býr veruleiki dýra-, jurta- og steinaríkisins, það er að segja í honum eru öll þessi ríki náttúrunnar. Og þar sem hann býr yfir öllum þessum stigum og stöðum þekkir hann leyndardóma þeirra og ráðgátur. Þetta er aðeins dæmi en ekki nákvæm hliðstæða.
Í stuttu máli eru allsherjar opinberendur Guðs meðvitaðar um sannleikann að baki leyndardómum alls sem skapað er og því stofnuðu þeir trúarbrögð sem samræmast og taka mið af ríkjandi aðstæðum mannkynsins. Því að trúarbrögð felast í þeim nauðsynlegu venslum sem leidd eru af veruleika hlutanna. Ef opinberandi Guðs – hinn guðlegi löggjafi – væri ekki upplýstur um veruleika hlutanna, ef Hann skildi ekki þau nauðsynlegu tengsl sem eiga sér rætur í þessum veruleika, gæti Hann vissulega ekki stofnað trúarbrögð sem svara þörfum og aðstæðum tímans. Spámenn Guðs, allsherjar opinberendur Hans, eru líkt og hæfir læknar, jarðnesk tilvera er eins og mannslíkaminn og guðdómleg trúarbrögð eru umönnun hans og græðing. Læknirinn verður að hafa fullkomna þekkingu á öllum líffærum og líkamshlutum, ástandi sjúklingsins og ásigkomulagi, til að geta ávísað réttu lyfi. Reyndar er það greining sjúkdómsins sem sker úr um læknismeðferðina, því fyrst greinir hann meinsemdina og síðan meðhöndlar hann undirliggjandi orsök hennar. Ef ekki fæst rétt greining á meinsemdinni hvernig er hægt ákvarða meðferð eða ávísa græðilyfi? Læknirinn verður því að hafa ítarlega þekkingu á líkamsgerð, limum, líffærum og ástandi sjúklingsins og sömuleiðis góða þekkingu á öllum sjúkdómum og öllum lyfjum til þess að geta mælt fyrir um rétta græðingu.
Trúin felst því í þeim nauðsynlegu venslum sem eiga sér rætur í veruleika hlutanna. Allsherjar opinberendur Guðs eru meðvitaðir um leyndardóma sköpunarinnar og fullkomlega upplýstir um þessi nauðsynlegu vensl og á þeim reisa þeir trúarbrögð Guðs.
– 41 –
Allsherjar hringrás
Spurning: Minnst hefur verið á alherjar hringrásir sem eiga sér stað í heimi tilverunnar. Vilt þú útskýra sannleikann í þessu máli.
Svar: Sérhver skínandi hnöttur í þessum takmarkalausa alheimi hefur snúningstíma sem er tíminn frá því hann lýkur hringferð á braut sinni og ný hringferð hefst. Jörðin lýkur til dæmis hverri hringferð á 365 dögum, fimm klukkustundum, fjörutíu og átta mínútum og broti úr mínútu. Síðan hefst ný hringferð á sömu braut. Á sama hátt fer allur alheimurinn, hvort heldur er í ríki náttúrunnar eða ríki mannsins, í gegnum hringrás mikilla viðburða og tíðinda.
Þegar hringrás lýkur hefst ný hringrás og sú fyrri hverfur svo fullkomlega úr minni með þeir einstæðu atburðum sem þar áttu sér stað að hún skilur ekki eftir sig nein ummerki eða menjar. Eins og þú veist eru engar heimildir varðveittar um það sem gerðist fyrir tuttugu þúsund árum jafnvel þótt við höfum áður sannað með rökum að líf á þessari jörð eigi sér mjög langan aldur – ekki eitt eða tvö hundrað þúsund ár, eða eina eða tvær milljónir ára. Jörðin er ævaforn og allar heimildir eða ummerki fyrri tíma hafa þurrkast út með öllu.
Sams konar hringrás á sér stað hvað varðar sérhvern opinberanda Guðs og í þeirri hringrás eru trúarbrögð Hans og lög í fullu gildi. Þegar hringrás Hans lýkur með komu nýs opinberanda hefst ný hringrás. Þannig tekur hver hringrásin við af annarri uns allsherjar hringrás lýkur í þessum jarðneska heimi og örlagaríkir atburðir eiga sér stað sem þurrka fullkomlega út öll ummerki og allan vott um fortíðina. Og þá hefst ný allsherjar hringrás í heiminum, því ríki tilverunnar á sér ekkert upphaf. Við höfum áður sett fram rök og sannanir varðandi þetta efni en þarflaust er að endurtaka.
Við segjum í stuttu máli að allsherjar hringrás í heimi tilverunnar merki langan tíma og ótölulegan fjölda alda- og tímaskeiða. Í slíkri hringrás birtast opinberendur með dýrð sinni í ríki hins sýnilega uns mikill allsherjar opinberandi gerir heiminn að miðpunkti ljóma síns. Birting Hans veldur því að heimurinn kemst á fullþroskastig og tímaskeið Hans er mjög langt. Síðar koma fram aðrir opinberendur í skugga Hans og Þeir endurnýja í samræmi við þarfir tímans ákveðin lög sem varða efnisleg málefni og spurningar, en eru áfram í skugga Hans. Við erum í hringrás sem hófst með Adam og æðsti opinberandi hennar er Bahá’u’lláh.
– 42 –
Vald og fullkomnun opinberenda Guðs
Spurning: Hversu langt nær vald og fullkomnun þessara boðbera sannleikans, opinberenda Guðs, og hvaða takmörk eru áhrifum þeirra sett?
Svar: Íhuga þessa jarðnesku tilvist, það er að segja þessa efnislegu sköpun. Myrkur grúfir yfir sólkerfinu. Innan þess er sólin miðpunktur alls ljóss og allar pláneturnar snúast um hana og þiggja ljósið að gjöf frá henni. Sólin er uppspretta lífs og ljóss og veldur því að allt sem er innan sólkerfisins vex og þroskast. Hætti sólin að miðla gjöfum sínum gæti ekkert líf þrifist, svartnætti ríkti og allt liði undir lok. Því er augljóst að sólin er miðja alls ljóss og uppspretta alls lífs í sólkerfinu.
Á sama hátt eru heilagir opinberendur Guðs sólir sannleikans, uppsprettur dulinna leyndardóma og úthelling guðlegrar ástar. Þeir varpa ljósi sínu á huga og hjörtu og veita heimi andans eilífa náð. Þeir færa andlegt líf og skína af ljósi innri sannleika og merkinga. Upplýsing í ríki hugans kemur frá þessum miðpunktum ljóssins og útskýrendum leyndardóma. Ef ekki væri fyrir náð opinberunar og fyrirmæli þessara helguðu Verunda myndi svartnætti grúfa yfir huga og sálum manna. Ef ekki væri fyrir sannar og heilnæmar kenningar þessara útskýrenda leyndardóma myndi veröld mannsins verða vettvangur dýrslegra eiginleika, öll tilveran svipul blekking og hið sanna líf myndi glatast. Þess vegna segir í guðspjallinu: „Í upphafi var orðið.“ Það er að segja, það var uppspretta alls lífs.
Leið þér nú í huga gagntakandi áhrif sólarinnar á allar jarðneskar verur og þau sýnilegu áhrif sem nálægð hennar og fjarlægð hefur, þegar hún rís eða sest. Eitt sinn er haust, annað sinn vor. Eitt sinn er sumar og annað sinn vetur. Á jafndægri kemur lífgefandi vor í allri sinni dýrð og á sólstöðum ná ávextirnir fullum þroska, gróður jarðar gefur uppskeru og allt á jörðu nær fyllingu vaxtar og viðgangs.
Á sama hátt hefst andlegt vor og nýtt líf verður til þegar heilagur opinberandi Guðs, sem er sólin í heimi hins skapaða, varpar ljósi sínum á veröld hjarta, huga og anda. Kraftar hins óviðjafnanlega vortíma koma í ljós og dásamlegar gjafir birtast. Þannig sérð þú að með komu sérhvers opinberanda Guðs urðu stórkostlegar framfarir í ríki mannsandans. Íhuga til dæmis framfarirnar sem hafa orðið á þessari guðdómlegu öld í hugarheimi mannsins – og þó er þetta aðeins fyrsti árbjarminn! Áður en langt um líður munt þú sjá hvernig þessar nýju gjafir og ljós himneskra kenninga flæðir um þennan dimma heim og breyta þessum táradal í æðstu paradís.
Langan tíma myndi taka að útskýra áhrif og náðargjafir sérhvers opinberanda Guðs. Íhuga þetta sjálf til þess að sannleikurinn megi verða þér ljós.
– 43 –
Tvenns konar boðberar
Spurning: Hvernig má almennt skipta spámönnum Guðs í flokka?
Svar: Boðberar Guðs skiptast almennt í tvo flokka. Sumir eru sjálfstæðir boðberar sem eiga sér fylgjendur en aðrir eru ekki sjálfstæðir og sjálfir fylgjendur
Opinberendurnir, sjálfstæðir boðberar Guðs, eru hver um sig höfundar guðlegra trúarbragða og stofnendur nýs trúarkerfis. Með komu þeirra tekur heimurinn á sig nýja mynd, ný trúarbrögð eru stofnuð og ný bók opinberuð. Þessir opinberendur njóta ríkulegrar náðar hins guðdómlega veruleika án milliliðar. Útgeislun þeirra er nauðsynleg útgeislun eins og skin sólar. Sólin lýsir af sjálfri sér og ljós hennar er eðlislæg nauðsyn og kemur ekki frá annarri stjörnu. Þeir eru eins og sólin en ekki eins og máninn. Þessar dagsbrúnir guðlegrar einingar eru frumuppsprettur guðlegrar náðar og endurspegla eðli guðlegs veruleika.
Aðrir boðberar eru fylgjendur, því staða þeirra er stundlegs eðlis fremur en sjálfstæðs. Þeir öðlast guðlega náð frá hinum sjálfstæðu opinberendum og leita ljóss leiðsagnar frá veruleika allsherjar opinberunar. Þeir eru eins og tunglið sem ekki geislar eigin ljósi heldur þiggur ljós sitt frá sólinni
Meðal allsherjar opinberenda Guðs sem komið hafa sjálfstætt fram eru Abraham, Móse, Kristur, Múhameð, Bábinn og Bahá’u’lláh. Meðal spámannanna sem fylgja þeim eru Salómon, Davíð, Jesaja, Jeremía og Esekíel. Því að opinberendurnir eru stofnendur, það er að segja þeir stofna ný trúarbrögð, endurskapa sálirnar, endurreisa siðferði samfélagsins og boða nýtt líf og nýjan siðgæðismælikvarða. Fyrir atbeina þeirra birtist nýtt trúarkerfi og ný trú er boðuð. Komu þeirra má líkja við vorið þegar allt á jörðu klæðist nýjum búningi og fær nýtt líf.
Annar hópur spámanna, sem eru fylgjendur, boða trú Guðs, breiða hana út og kunngera orð Hans. Þeir búa ekki yfir valdi eða myndugleika af sjálfum sér heldur fá hann frá opinberendum Guðs.
Spurning: Hvaða flokki tilheyra Búddha og Konfúsíus?
Svar: Búddha var einnig stofnandi nýrra trúarbragða og Konfúsíus endurnýjaði hefðbundin gildi og siðferði, en upprunalegum boðum þeirra og kenningum hefur verið gjörbreytt og fylgjendur þeirra hafa horfið frá upprunalegu mynstri trúar og tilbeiðslu. Höfundur búddhismans var dýrmæt Vera sem lagði grunn að einingu Guðs, en síðar gleymdust upphafleg fyrirmæli Hans og í staðinn voru teknar upp frumstæðar venjur og helgisiðir sem að lokum leiddi til dýrkunar á myndum og líkneskjum.
Gæt að því til dæmis að Kristur áminnti mennina oftsinnis um að hlýða tíu boðorðum Gamla testamentisins og krafðist þess að eftir þeim yrði farið í einu og öllu. Eitt þessara tíu boða bannar dýrkun mynda og líkneskja. En í dag eru fjölmargar myndir og líkneski í kirkjum vissra kristinna trúfélaga. Því er ljóst að upprunalegra boða í trú Guðs er ekki gætt meðal manna heldur hefur þeim smám saman breytt og jafnvel aflögð með öllu og þess vegna kemur nýr opinberandi fram á sjónarsviðið sem stofnar ný trúarbrögð. En ef engin breyting hefði orðið á fyrri trúarbrögðum væri engin þörf á endurnýjun
Í upphafi var þetta tré fullt lífsorku og svignaði undan blómum og ávöxtum, en því hnignaði smám saman, varð gamalt og feyskið og missti að lokum allan lífskraft. Þess vegna mun hinn sanni garðyrkjumaður, opinberandi Guðs, planta á ný viðkvæmum sprota af sama stofni til þess að hann megi vaxa og dafna dag frá degi, teygja út greinar sínar og veita forsælu í þessum himneska garði og bera sinn mikilsmetna ávöxt. Þannig er einnig farið trúarbrögðum Guðs. Með tímanum breytast upphafleg fyrirmæli þeirra, undirliggjandi sannleikur þeirra hverfur að fullu, andi þeirra líður undir lok, mannakenningar spretta upp og þau verða sálarlaus líkami. Af þeim sökum eru þau endurnýjuð.
Það sem við er átt er að fylgjendur Búddha og Konfúsíusar dýrka myndir og líkneski og vitneskjan um einingu Guðs er þeim horfin en í staðinn trúa þeir á ímyndaða guði líkt Grikkir gerðu til forna. En slík voru ekki upphafleg fyrirmæli þeirra, þau voru vissulega allt önnur.
Gæt að því enn og aftur hvernig upphafleg fyrirmæli kristindómsins hafa gleymst og hversu margar nýstárlegar kenningar hafa sprottið upp. Til dæmis bannaði Kristur ofbeldi og hefnd og bauð í staðinn að illvild og meiðslum skyldi mætt með góðvild og ást. Íhuga þær mörgu blóðugu styrjaldir sem kristnar þjóðir hafa háð hver við aðra og alla þá kúgun, grimmd, gripdeildir og blóðþorsta sem af þeim hefur leitt! Reyndar voru margar þessara styrjalda háðar að fyrirmælum páfa. Því er ljóst að með tímanum gjörbreytast trúarbrögðin og þess vegna eru þau endurnýjuð.
– 44 –
Aðfinnslur Guðs sem beint er að boðberunum
Spurning: Í helgiritunum er ákveðnum aðfinnslum beint að boðberum Guðs. Til hverra er þeim beint og hvern eiga þær endanlega við?
Svar: Öll orð Guðs sem eru í formi áminninga er í raun beint til fylgjenda boðbera Guðs, þótt á ytra borði beinist þau að boðberunum. Viskan að baki þessu er hrein miskunnsemi sem varnar því að mennirnir örvænti, fyllist ótta eða kikni undan slíkum ávítunum og aðfinnslum. Hið ytra er þessum orðum því beint til boðbera og spámanna Guðs, en hið innra eru þau ætluð fylgjendum þeirra, ekki boðberanum sjálfum.
Voldugur konungur er auk þess fulltrúi allra sem landið byggja, það er að segja allt sem hann segir eru orð allra landsmanna, og sérhver sáttmáli sem hann kann að gera er sáttmáli allra, því að vilji hans er vilji og áform allra þegnanna í ríki hans. Sömuleiðis er sérhver boðberi fulltrúi allra sem Honum fylgja. Þess vegna á sáttmálinn sem Guð gerir við Hann og orðin sem beint er til Hans við um allan lýð Hans.
Aðfinnslur og áminningar Guðs geta íþyngt hjörtum manna og valdið sárindum og því krefst fullkomin viska Guðs þess að þeim sé beint til boðbera Hans. Til dæmis kemur fram í Gamla testamentinu að Ísraelsmenn gerðu uppreisn gegn Móse og sögðu: „Við getum ekki barist við Amalekíta, því þeir eru voldugir, grimmir og hugrakkir.“ Þá ávítaði Guð Móse og Aron, þótt Móses hafi sýnt fulla hlýðni og engan uppreisnarhug. Vissulega hlýtur svo dýrðleg Vera, sem er farvegur náðar Guðs og berst fyrir lögum Hans að hlýða skipun Guðs.
Þessar heilögu sálir eru eins og lauf á tré sem bærast fyrir andvaranum en ekki af eigin rammleik, því þau heillast af anda ástar Guðs og hafa snúið baki við sínum eigin vilja. Orð þeirra eru orð Guðs, boð þeirra eru boð Guðs, bann þeirra er bann frá Guði. Þeir eru eins og þetta lampaglas sem lýsir af loganum sem brennur í lampanum. Þótt ljósið virðist koma frá glasinu, kemur það í raun frá loganum. Á sama hátt eiga hreyfing og kyrrð boðbera Guðs, sem eru opinberendur Hans, sér upptök í opinberun Guðs en ekki mannlegum duttlungum. Væri ekki svo hvernig gæti boðberinn starfað sem dyggur fulltrúi og útvalinn sendiboði Guðs? Hvernig gæti Hann kunngert boð og bönn Guðs? Þennan skilning verður að leggja í alla annmarka sem eignaðir eru opinberendum Guðs í helgiritunum.
Lof sér Guði að þú hefur komið hingað og hitt þjóna Guðs! Hefur þú fundið frá þeim eitthvað annað en ilm velþóknunar Drottins? Vissulega ekki! Þú hefur séð með eigin augum hvernig þeir leggja sig fram dag og nótt við það eitt að upphefja orð Guðs, hlúa að menntun sálna, endurnýja giftu mannkyns, tryggja andlegar framfarir, stuðla að allsherjarfriði, sýna öllum þjóðum og lýðum góðvild og gæsku, fórna sér í þágu almannaheilla, snúa baki við efnislegum hagsmunum og stuðla að dyggðum í þessari mannlegu veröld.
Snúum aftur að viðfangsefni okkar. Í Gamla testamentinu segir í Jesaja 48:12: „Hlýð á mig, Jakob, og Ísrael sem ég hef kallað: Ég er hann, ég er hinn fyrsti og ég er einnig hinn síðasti.“ Það er augljóst að ekki er átt við Jakob, sem var kallaður Ísrael, heldur alla Ísraelsmenn. Í Jesaja 43:1 segir einnig: „En nú segir Drottinn svo, sá sem skóp þig, Jakob, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.“
Enn fremur segir í fjórðu Mósebók 20:23–4: „Þá talaði Drottinn til Móse og Arons á Hórfjalli við landamæri Edóms og sagði: „Aron skal nú safnast til forfeðra sinna því að hann skal ekki koma inn í landið sem ég hef gefið Ísraelsmönnum því að þið risuð gegn skipun minni við Meríbavatn.““ Og í 20:13: „Þetta var Meríbavatn þar sem Ísraelsmenn ásökuðu Drottin og hann birti þeim heilagleika sinn.“
Athuga að það voru Ísraelsmenn sem höfðu gert uppreisn, en aðfinnslunum var hið ytra beint til Arons og Móse, eins og segir í 5. Mósebók 3:26: „En Drottinn hafði reiðst mér ykkar vegna og hann bænheyrði mig ekki. Drottinn sagði við mig: „Nóg um það. Nefndu þetta aldrei framar við mig.““
Nú var þessum aðfinnslum og ávítum í raun beint til Ísraelsmanna, sem höfðu gert uppreisn gegn boðum Guðs og voru því látnir dvelja lengi í hrjóstrugri eyðimörk handan Jórdanar fram að tíma Jósúa. Þessum aðfinnslum virtist beint til Móse og Arons, en í raun var þeim beint til Ísraelsmanna.
Í Kóraninum er þessum orðum einnig beint til Múhameðs: „Við höfum veitt þér augljósan sigur til þess að Guð fyrirgefi þér syndir þínar í fortíð og framtíð.“ Nú virtist þessum orðum beint til Múhameðs en í raun áttu þau við alla fylgjendur Hans og í þessu felst fullkomin viska Guðs, eins og við sögðum áður, til þess að hjörtun yrðu ekki óttaslegin, ráðþrota og fylltust örvæntingu.
Hversu oft hafa ekki boðberar Guðs og allsherjar opinberendur Hans játað syndir sínar og vankanta í bænum sínum! Þetta gera þeir aðeins til leiðsagnar öðrum sálum, til að hvetja þær og örva til að sýna auðmýkt og undirgefni frammi fyrir Guði og viðurkenna syndir sínar og vankanta. Því að þessar heilögu sálir eru helgaðar yfir alla synd og leystar frá öllum ágöllum. Til dæmis segir í guðspjallinu að maður hafi komið til Krists og kallaði hann „góðan meistara“. Kristur svaraði: „Hví kallar þú mig góðan? Aðeins einn er góður og það er Guð.“ Þetta merkti ekki – Guð forði því – að Kristur væri syndari, heldur vildi Hann kenna manninum auðmýkt, lítillæti og hógværð. Þessar blessuðu sálir eru ljós og ljósið getur ekki samsamast myrkrinu. Þær eru eilíft líf og ekki er hægt að villast á því sem lifir og því sem deyr. Þær eru leiðsögn holdi klæddar og leiðsögn getur ekki farið saman við villu. Þær eru sjálft innsta eðli hlýðninnar og hlýðni tekur ekki höndum saman við uppreisn.
Í stuttu máli er merkingin sú að aðfinnslurnar sem skráðar eru í helgiritunum eru ætlaðar mönnunum, þótt þeim hafi hið ytra verið beint til opinberenda Guðs. Ef þú lest Biblíuna verður þér þetta ljóst.
– 45 –
Hinn æðsti óskeikulleiki
Í hinum heilaga texta segir: „Hann sem er dagsbrún málstaðar Guðs á sér engan jafningja í hinum æðsta óskeikulleika. Hann er sá sem í ríki sköpunar opinberar orðin „Hann gerir það sem Honum þóknast“. Þessa sérstöðu hefur Guð áskilið sínu eigin sjálfi og ekki ætlað neinum hlutdeild í svo háleitri og yfirskilvitlegri stöðu.“
Vita skalt þú að óskeikulleiki er af tvennum toga: eðlislægur óskeikulleiki og óskeikulleiki sem eigind. Hið sama gildir um öll önnur nöfn og eigindir. Til er til dæmis þekking á eðli hlutarins og þekking á eigindum hans. Eðlislægur óskeikulleiki einskorðast við allsherjar opinberenda Guðs, því óskeikulleiki er eðli verundar þeirra og verður ekki aðskilinn þeim. Geislarnir tilheyra eðli sólarinnar og verða ekki aðskildir henni. Þekking er eðlislæg nauðsyn Guðs og óaðskiljanleg Honum, máttur er eðlislæg nauðsyn guðlegs veruleika og sömuleiðis óaðskiljanleg Honum. Ef hægt væri að aðskilja mátt og þekkingu frá Guði væri Hann ekki Guð. Ef hægt væri að aðskilja geislana frá sólinni væri hún ekki sól. Ef einhver ímyndaði sér að hinn æðsti óskeikulleiki væri aðskilinn allsherjar opinberanda Guðs, væri Hann ekki allsherjar opinberandi og skorti eðlislæga fullkomnun.
En óskeikulleiki sem eigind eða eiginleiki er ekki eðlislæg nauðsyn, heldur er hann geisli þess óskeikulleika sem skín frá sól sannleikans á ákveðin hjörtu og veitir þeim hlutdeild í sér. Þótt þessar sálir séu ekki óskeikular í eðli sínu, lúta þær forsjá, vernd og óskeikulli leiðsögn Guðs – það er að segja, Guð verndar þær frá villu. Þannig hafa verið til margar helgaðar sálir sem ekki voru sjálfar uppsprettur hins æðsta óskeikulleika en voru engu að síður verndaðar frá villu með guðlegri forsjá og varðveislu. Því þær voru farvegur náðar milli Guðs og manna, og ef Guð varðveitti þær ekki fyrir yfirsjónum hefðu þær einnig afvegaleitt hina trúuðu og þannig grafið undan stoðum trúar Guðs og það væri óverðugt og ósæmandi upphöfnum veruleika Hans.
Í stuttu máli einskorðast eðlislægur óskeikulleiki við allsherjar opinberendur Guðs en óskeikulleiki sem eigind er veittur heilögum sálum. Ef Allsherjarhús réttvísinnar, svo dæmi sé nefnt, er stofnað á nauðsynlegum forsendum – það er að segja ef það er kosið af öllu samfélaginu – nýtur þetta Hús réttvísinnar verndar og óbrigðullar leiðsagnar Guðs. Taki þetta Hús réttvísinnar ákvörðun, annaðhvort samhljóða eða með meirihluta atkvæða, um mál sem ekki er sérstaklega kveðið á um í Bókinni, er sú ákvörðun vernduð gegn villu. Nú eru meðlimir Allsherjarhúss réttvísinnar ekki óskeikulir sem einstaklingar, en stjórn Húss réttvísinnar nýtur verndar og óskeikullar leiðsagnar Guðs. Þetta nefnist veittur óskeikulleiki.
Í stuttu máli segir Bahá’u’lláh að „Hann sem er dagsbrún málstaðar Guðs“ sé opinberandi „Hans sem gerir það sem Honum þóknast“, að þessi staða einskorðist við þá heilögu Verund og aðrir eigi enga hlutdeild í þessari eðlislægu fullkomnun. Það er að segja, þar sem eðlislægur óskeikulleiki allsherjar opinberanda Guðs hefur verið staðfestur, er allt sem frá þeim kemur sannleikur og í samræmi við veruleikann. Þeir eru ekki í skugga fyrri trúarbragða. Allt sem þeir segja eru orð Guðs og allar gerðir þeirra eru réttlátar, og engum átrúanda er gefinn réttur til andmæla heldur verður að sýna algjöra undirgefni hvað þetta snertir, því að opinberandi Guðs starfar af fullkominni visku og mannshuganum kann að vera ókleift að skilja dulda visku að baki ákveðnum málefnum. Þess vegna samræmast orð og gerðir allsherjar opinberanda Guðs veruleikanum og innsta eðli viskunnar.
Takist vissum sálum tekst ekki að skilja leyndardóma ákveðinna boða eða verka Hins sanna, ættu þær ekki að mótmæla því að allsherjar opinberandi Guðs „gerir það sem Honum þóknast“. Hversu oft hefur það ekki gerst að vitur og mikilhæf persóna hafi tekið sér eitthvað fyrir hendur og þeir sem ekki áttuðu sig á viskunni sem lá þar að baki mótmæltu og spurðu hvers vegna hann hafi sagt eða gert slíkt. Þessi mótbárur stafa af vanþekkingu því viska hins vitra er frjáls og helguð frá villu.
Á sama hátt gerir hæfur læknir „það sem honum þóknast“ í meðferð sjúklingsins og hann hefur engan andmælarétt. Hvaðeina sem læknirinn segir eða gerir er heilnæmt og rétt og allir verða að líta á hann sem líkamningu „Hans sem gerir það sem Honum þóknast og ákvarðar það sem Honum líst“. Læknirinn mun án efa mæla fyrir um úrræði sem brjóta í bága við vinsælar hugmyndir, en er þeim sem hafa enga þekkingu á vísindum og læknisfræði heimilt að andmæla? Nei, sem Guð lifir! Þvert á móti verða allir að sætta sig við og fara eftir því sem hæfur læknir mælir fyrir um. Þannig gerir hæfur læknir „það sem honum þóknast“ og sjúklingarnir eiga engan hlut í þeirri stöðu. Fyrst verður að ganga úr skugga um hæfni læknisins og þegar það er gert, „gerir hann það sem honum þóknast“.
Sömuleiðis gerir hershöfðingi sem engan á sinn líka í stríðslistinni „það sem honum líst“ í öllu sem hann segir eða skipar fyrir um, og það sama gildir um skipstjórann sem hefur tök á siglingalistinni og Hinn sanna fræðara sem hefur til að bera alla mannlega fullkomnun. Þeir gera það sem þeir vilja í öllu því sem þeir segja og mæla fyrir um.
Að öllu samanlögðu er merking orðanna „Hann gerir það sem Honum þóknast“ sú að ef opinberandi Guðs gefur fyrirmæli, framfylgir lögum eða tekur sér það fyrir hendur sem fylgjendur Hans fá ekki skilið, ættu þeir ekki að efast eitt andartak um orð Hans eða verk. Allar sálir eru í skugga allsherjar opinberandans, verða að lúta valdi trúarbragða Guðs og eiga ekki að víkja um hársbreidd frá því. Öllu fremur verða þeir að laga allar athafnir sínar og gerðir að trúarbrögðum Guðs og ef þeir víkja frá þeim verða þeir áminntir og dregnir til ábyrgðar frammi fyrir Guði. Víst er að þeir eiga enga hlutdeild í stöðunni „Hann gerir það sem Honum þóknast“, því hún einskorðast við allsherjar opinberanda Guðs.
Þannig var Kristur – megi sál minni verða fórnað Honum! – líkamning orðanna „Hann gerir það sem Honum þóknast“, en lærisveinar Hans áttu ekki hlutdeild í þeirri stöðu, því þeir voru í skugga Hans og fengu ekki leyfi til víkja frá vilja Hans og fyrirmælum.
4. hluti
Um uppruna, krafta og ástand mannsins
– 46 –
Þróun mannsins og raunverulegt eðli hans
Við komum nú að spurningunni um breytingar á tegundum og þróun líffæra, það er að segja hvort maðurinn eigi sér uppruna í dýraríkinu.
Þessi hugmynd hefur fest sig í sessi meðal ákveðinna evrópskra heimspekinga og það er orðið afar erfitt að koma mönnum í skilning um að hún er röng, en í framtíðinni kemur það skýrt í ljós og evrópskir heimspekingar munu sjálfir viðurkenna það. Því í rauninni er um augljósa ranghugmynd að ræða. Þegar sköpunin er rannsökuð af skarpskyggni og menn skilja flókið eðli hennar og ganga úr skugga um ástand, skipulag og fullkomnun þessarar tilveru sannfærast þeir um að „ekkert í sköpunarverkinu er undursamlegra en það sem þegar er til“. Því að allt sem til er, hvort sem er á jörðu eða á himni, jafnvel þessi takmarkalausi himingeimur og allt sem í honum er, hefur verið skapað, sett saman, skipulagt og fullgert og enga ófullkomnun er þar að finna. Svo einsætt er þetta að þótt allar verundir yrðu að hreinum vitsmunum og íhuguðu málið um alla eilífð væri óhugsandi að þær gætu gert sér neitt betra í hugarlund en það sem þegar er til.
Hafi sköpunina fyrr á tímum skort slíka fegurð og fullkomnun, hafi hún staðið á lægra stigi, þá hefði tilveran verið ófullkomin í eðli sínu og ófullgerð sem slík. Þetta mál krefst fyllstu athygli og íhugunar. Ímynda þér til dæmis að allur heimurinn – þetta tilverusvið – líkist líkama mannsins. Ef samsetning, fyrirkomulag, fylling, fegurð og fullkomnun mannslíkamans væri með einhverjum öðrum hætti en raun ber vitni yrði niðurstaðan hrein ófullkomnun.
Ef við því ímyndum okkur tíma þegar maðurinn tilheyrði dýraríkinu, það er að segja þegar hann var aðeins dýr, hefði tilveran verið ófullkomin. Það táknaði að maðurinn hefði ekki verið til og að þessa kórónu tilverunnar, sem er eins og hugur og heili í líkama heimsins, vantaði og veröldin væri þannig með öllu ófullkomin. Þetta er í sjálfu sér næg sönnun þess að hafi maðurinn á einhverjum tíma tilheyrt dýraríkinu hefði heimurinn verið ófullkominn, því maðurinn er höfuðið á líkama þessa heims og líkami án höfuðs er tvímælalaust ófullkominn. Við lítum á manninn sem höfuðið vegna þess að meðal allra skapaðra hluta umlykur hann alla fullkomna eiginleika tilverunnar.
Það sem við eigum við með „manninum“ er hinn fullkomni maður, fremstur allra í heimi, summan af allri andlegri og efnislegri fullkomnun og eins og sólin meðal alls sem skapað er. Hugsa þér tíma þegar sólin var ekki til sem slík, með öðrum orðum þegar sólin var eins og hver annar himinhnöttur. Á slíkum tíma hefði það tvímælalaust raskað tengslum alls sem skapað er. Hvernig er hægt að ímynda sér slíkt? Þessi rök ein og sér nægja ef tilveran er litin glöggum augum.
Nefnum aðra óræðari sönnun. Sá ótölulegi fjöldi verunda sem eru í heimi tilverunnar – hvort sem það eru menn, dýr, plöntur eða steinefni – hlýtur að vera samsettur úr efnislegum þáttum. Enginn vafi er á því að guðleg sköpun er að baki þeirri fullkomnun sem sjá má í sérhverri verund, frumþáttum þeirra, réttri samsetningu, hlutföllum, samskipan og áhrifum alls annars sem skapað er. Því að allar verur eru hlekkir í einni keðju og gagnkvæm aðstoð, hjálp og samskipti eru meðal eðlislægra eiginleika þeirra og koma því til vegar að þær myndast, þroskast og vaxa. Staðfest er með fjölmörgum sönnunum og rökum að sérhver hlutur hefur áhrif á alla aðra, hvort sem gerist sjálfstætt eða með keðju orsaka. Að öllu samanlögðu stafar fullkomnun hvers hlutar – það er að segja fullkomleikinn sem þú sérð núna í manninum og öðrum verum hvað varðar einstaka þætti þeirra, limi og krafta – af samsettum þáttum þeirra, magni og mælikvarða, aðferð samsetningar, gagnvirkni og áhrifum. Þegar allt þetta kemur saman verður maðurinn til.
Þar sem fullkomleiki mannsins á sér allur rætur í samsettum þáttum, mælikvarða þeirra, samskipan, gagnkvæmri verkun og gagnvirkni annarra vera – og þar sem maðurinn varð síðan til fyrir tíu eða hundrað þúsund árum af sama jarðneska efni, í sama mælikvarða og magni, sams konar samsetningu og sömu samskiptum við aðrar verur er niðurstaðan sú að maðurinn var þá nákvæmlega sá sami og hann er nú. Þetta er augljós sannleikur og ekki hægt að draga hann í efa. Og ef það gerist að liðnum þúsund milljónum ára að samsettir þættir mannsins koma saman í sömu hlutföllum, sameinaðir á sama hátt og í sömu samskiptum við aðrar verur, verður nákvæmlega sami maður til. Ef það gerist til dæmis eftir eitt hundrað þúsund ár að saman koma olía, logi, kveikur, lampi og eldfæri – í stuttu máli, ef allt sem nú þarf til verður sameinað þá – verður útkoman nákvæmlega sami lampinn.
Þetta mál er augljóst og þessi rök eru óyggjandi. En það sem evrópskir heimspekingar hafa sett fram eru vangaveltur og niðurstaðan ófullnægjandi.
– 47 –
Uppruni alheimsins og þróun mannsins
Vita skalt þú að ein torræðasta spurning guðlegra fræða er að þessi tilvist – það er að segja þessi endalausi alheimur – á sér ekkert upphaf.
Við höfum þegar útskýrt að nöfn og eiginleikar Guðdómsins krefjast þess að til sé sköpun. Þótt ítarleg skýring hafi verið gefin á þessu máli, skal stuttlega drepið á það hér. Það er ekki hægt að ímynda sér drottnara án undirsáta né konung án þegna. Enginn getur kallast kennari án nemenda eða skapari án sköpunar og forsjármaður án skjólstæðinga er óhugsandi – því öll guðdómleg nöfn og eiginleikar kalla á tilvist hins skapaða. Ef við ímyndum okkur tíma þegar sköpunin var ekki til jafngilti það afneitun á guðdómi Guðs.
Að þessu frátöldu getur fullkomin eivera ekki orðið tilvera. Án alheims væri engin tilvera. Eðli einleikans, hin guðdómleg verund, er eilíf og ævarandi – á sér hvorki upphaf né endi – og af því leiðir að heimur tilvistar, alheimurinn endalausi, á sér ekkert upphaf. Að vísu gæti einhver hluti sköpunarinnar – einn himinhnattanna – orðið til eða eyðst, en áfram væri til mergð annarra hnatta og engin röskun eða eyðing yrði á heimi tilvistar. Þvert á móti er hann eilífur og óbreytanlegur. Þar sem sérhver himinhnöttur á sér upphaf, hlýtur hann óhjákvæmilega að eiga sér endi, því að hver samsetning, hvort sem hún er altæk eða sértæk, hlýtur af nauðsyn að sundrast. Í mesta lagi sundrast sumt fljótt og annað seint, en það er útilokað að eitthvað sem er samsett leysist ekki upp að lokum.
Við verðum því að vita hvað sérhvert þessara miklu fyrirbæra var í upphafi. Enginn vafi er á því að upphafið var eitt, tvenns konar upphaf er útilokað. Því að upphaf allra talna er einn en ekki tveir; talan tveir hefur í sjálfu sér þörf fyrir upphaf. Því er augljóst að upprunalega var efnið eitt og að þetta eina efni birtist á mismunandi hátt í hverju frumefni. Þannig birtust ýmis form, hvert og eitt þeirra tók á sig sjálfstæða mynd og varð að ákveðnum efnisþætti. En þessi auðkenni urðu ekki að veruleika fyrr en að löngum tíma liðnum. Síðan voru þessi frumefni samþætt, skipulögð og sameinuð í óendanlegum formum. Með öðrum orðum, af samsetningu þessara frumefna birtust óteljandi verundir.
Þessi samsetning og fyrirkomulag spratt af einu náttúrulegu skipulagi fyrir sakir visku Guðs og eilífan mátt Hans. Þar sem þessi samsetning gerðist samkvæmt náttúrureglu, fullkomlega heilsteypt, í krafti fullkominnar visku og allsherjarlögmáls, er ljóst að hún er guðleg sköpun en ekki tilviljanakennd samsetning og ásigkomulag. Þetta er ástæðan fyrir því að af hverri náttúrulegri samsetningu varð til lífvera, en tilviljanakennd samsetning skapar enga lífvera. Ef til dæmis maðurinn með alla sína skynsemi og vitsmuni sameinaði ákveðna efnisþætti, yrði ekki til lifandi vera því það væri ekki í samræmi við náttúrulegri skipan. Þetta er svarið við þeirri óbeinu spurningunni sem gæti vaknað, sem sé að þar sem þessar verur verða til með samsetningu og samskipan þessara þátta, gætum við þá ekki líka sameinað sömu þætti og þannig búið til lífveru? Þessi hugmynd er röng því upprunalega samsetningin gerist samkvæmt guðlegri skipan, og er verk Guðs í samræmi við náttúrulegt skipulag og það er af þeim sökum sem lífvera verður til. En af mannlegri samskipan og samsetningu verður ekkert vegna þess að maðurinn getur ekki skapað líf.
Í stuttu máli höfum við sagt að af samsetningu frumþátta, samskipan þeirra, fyrirkomulagi og hlutföllum, og af samskiptum þeirra við aðrar verur hafa orðið til óteljandi form og veruleikar og aragrúi verunda. En það er ljóst að þessi jarðneski hnöttur varð ekki til allt í einu í núverandi mynd sinni, heldur þróaðist þessi allsherjar tilvist smám saman í gegnum mismunandi stig uns hún birtist í núverandi fullkomnun. Hægt er að bera allsherjar tilvist saman við sértæka tilveru, því báðar lúta einni náttúrureglu, einu alheimslögmáli og einni guðlegri skipan. Til dæmis muntu finna að smæstu öreindum svipar í almennri uppbyggingu sinni til stærstu fyrirbæra alheimsins og það er ljóst að þau hafa komi frá einni rannsóknarstofu máttarins samkvæmt einni náttúrulegri skipan og einu allsherjar lögmáli og þess vegna er hægt að bera þau saman.
Til dæmis vex fósturvísir mannsins og þroskast smám saman í móðurlífi og tekur á sig ýmsar myndir og ýmiss konar ásigkomulag uns hann nær þroska í fyllstu fegurð og birtist með mestum þokka í fullkominni mynd. Á sama hátt var fræ þessa blóms sem þú sérð fyrir framan þig í upphafi lítið og þýðingarlaust korn, en það óx og þroskaðist í jörðu og tók á sig mismunandi form uns það birtist á núverandi stigi lifandi og þokkafullt. Það er sömuleiðis ljóst að þessi jarðneski hnöttur varð til, stækkaði og þróaðist í alheimi, tók á sig ýmsar myndir og ásigkomulag uns hann náði smám saman núverandi fullkomnun, prýddist óteljandi verundum og birtist í svo fullkominni mynd.
Því er augljóst að upphaflega efnið, sem er líkt og fósturvísir, tók í fyrstu á sig mynd samsettra efnisþátta og sú samsetning þróaðist smám saman í gegnum óteljandi aldir og tímaskeið úr einu ásigkomulagi og formi til annars uns hún með fulltingi guðdómlegrar visku birtist í slíkri fullkomnun, reglu, fyrirkomulagi og fegurð.
Snúum aftur að viðfangsefni okkar. Frá því maðurinn varð til í skauti þessa jarðneska heims þroskaðist hann eins og fósturvísir í móðurlífi og tók á sig ýmsar myndir uns hann birtist í þessari fegurð og fullkomnun, með þessum krafti og líkamsgerð. Víst er að upphaflega bjó hann ekki yfir slíkri fegurð, þokka og fágun og að hann hefur aðeins smám saman fengið á sig slíka mynd, fegurð og þokka. Enginn vafi er á því að líkt og fósturvísir í móðurlífi birtist fósturvísir mannkynsins ekki strax í þessari mynd og verður líkamning orðanna: „Heilagur sé Drottinn, ágætastur allra skapara!“ Hann gekk öllu fremur smám saman í gegnum ýmis stig og aðstæður og tók á sig mismunandi form uns hann náði þessu útliti og fegurð, þessari fullkomnun, fágun og þokka. Það er því ljóst að vöxtur og þroski mannsins á þessari jörð til núverandi fullkomnunar hefur eins og vöxtur og þroski fósturvísis í móðurkviði gengið stig af stigi frá einu ástandi til annars, frá einu formi og sköpulagi til annars því það er í samræmi við kröfur þeirrar allsherjarreglu sem hið guðdómlega lögmál gerir.
Það er að segja, fósturvísir mannsins tekur á sig margs konar myndir og fer í gegnum mörg stig uns hann nær því formi sem birtir veruleika orðanna: „Heilagur sé Drottinn, ágætastur allra skapara!“ og sýnir merki um fullan þroska. Á svipaðan hátt hlýtur langur tími að hafa liðið frá upphafi mannlegrar tilvistar á þessari jörð þangað maðurinn tók á sig núverandi sköpulag, form og ástand og hann hlýtur að hafa farið í gegnum mörg stig áður en hann náði sinni núverandi mynd. En frá upphafi tilveru sinnar hefur maðurinn verið sérstök tegund. Þessari þróun svipar til þroska fósturvísis í móðurlífi. Í fyrstu er útlit hans undarlegt, síðan fer þessi líkami frá einu formi og sköpulagi til annars uns hann birtist í fullri fegurð og fullkomnun. En jafnvel þegar hann er í móðurkviði í undarlegri mynd sem er mjög frábrugðin núverandi útliti hans, er hann fósturvísir sérstakrar tegundar en ekki dýr. Eðliseigind tegundarinnar og meðfæddur veruleiki er ekki háður neinni umbreytingu.
Þótt staðfesta mætti tilvist úreltra líffæra afsannaði það ekki sjálfstæði og frumleika tegundarinnar. Í mesta lagi myndi það sanna að form, útlit og líffæri mannsins hafa þróast með tímanum. En maðurinn hefur alltaf verið sérstök tegund. Hann hefur verið maður, ekki dýr. Íhuga: Ef fósturvísir mannsins í móðurlífi fer frá einni mynd til annarrar sem á engan hátt líkist hinni fyrri, er það sönnun þess að eðli tegundarinnar hafi tekið breytingum? Að það hafi fyrst verið dýr og að líffæri þess hafi þróast og vaxið uns það varð maður? Nei, sem Guð lifir! Hversu fánýt og staðlaus er ekki slík hugmynd! Því frumleiki tegundar mannsins er skýr og sjálfstætt eðli hans augljóst.
– 48 –
Munurinn á manni og dýri
Við höfum áður rætt einu sinni eða tvisvar um sálina en þessi samtöl voru ekki skrifuð niður.
Vita skalt þú að mannfólkið skiptist í tvo hópa. Annar afneitar sálinni og segir að maðurinn sé eins konar dýr. Hvers vegna? Vegna þess að við sjáum að menn og dýr eiga það sameiginlegt að búa yfir kröftum og skynfærum. Stöku og einföldu þættirnir sem fylla rýmið umhverfis okkur eru samsettir á óteljandi vegu og hver um sig er orsök ólíkrar verundar. Meðal þeirra eru skynigæddar verur sem búa yfir ákveðnum kröftum og skilningi. Því fullkomnari sem samsetningin er þeim mun göfugri er veran. Samsetning frumþáttanna í líkama mannsins er fullkomnari en í nokkurri annarri lífveru. Þessir þættir hans hafa sameinast í fullkomnu jafnvægi og þess vegna er hann göfugri og fullkomnari. Þeir segja að maðurinn búi ekki yfir sérstökum kröftum og anda sem hin dýrin skortir. Dýr hafi líka skynjun og skilningarvit, en kraftar mannsins séu einfaldlega meiri að vissu leyti (þótt hvað ytri skynfærin varðar, svo sem heyrn, sjón, bragð, lykt og snertingu og jafnvel innri krafta eins og minni, sé dýrið betra úr garði gert en maðurinn). Þeir segja að dýrið búi yfir vitsmunum og skilningi. Það eina sem þeir viðurkenna er að maðurinn búi yfir meiri vitsmunum.
Þannig hljóða fullyrðingar nútíma heimspekinga. Þetta eru orð þeirra, kröfur og hugarfóstur. Eftir umfangsmiklar rannsóknir og vopnaðir öflugum rökum segja þeir manninn af ætt dýrsins, að hann hafi eitt sinn verið dýr en tegundin smám saman breyst og þróast uns hún náði stigi mannsins.
En hinir guðdómlegu heimspekingar segja: Nei, því fer fjarri. Þótt maðurinn búi yfir sömu ytri kröftum og skilningarvitum og dýrið, býr hann yfir einstæðum mætti sem dýrið hefur ekki. Öll vísindi, listir, uppfinningar, handverk og uppgötvanir á veruleikanum eiga sér upptök í þessum einstæða mætti. Þessi máttur umlykur alla skapaða hluti, skilur eðli þeirra, ljóstrar upp huldum leyndardómum þeirra og lætur þá lúta stjórn sinni. Hann skilur jafnvel hluti sem eiga sér enga ytri tilvist, það er að segja skynjanlegan en ósýnilegan veruleika eins og huga, anda, mannlega eiginleika og eigindir, ást og sorg – allt þetta er skynjanlegur veruleiki. Eitt sinn voru líka öll vísindi og handverk, öll voldug verkefni og ógrynni uppgötvana mannsins, hulinn leyndardómur og það er þessi alltumlykjandi mannlegi máttur sem hefur uppgötvað þá, svipt af þeim hulunni og dregið þá fram í dagsljósið. Ritsíminn, ljósmyndin, hljóðritinn – allar þessar miklu uppfinningar og iðngreinar voru á sínum tíma huldar leynd en mannlegur veruleiki uppgötvaði þær og færði af sviði hins ósýnilega til hins sýnilega. Sú var jafnvel tíðin að þessi járnbútur fyrir framan þig, og raunar sérhver málmsteind, var hulin leynd. Veruleiki mannsins uppgötvaði málmsteindina og fullvann málminn í þetta form. Hið sama á við um allan aragrúa mannlegra uppgötvana og uppfinninga. Þetta er óhrekjanleg staðreynd og þýðingarlaust að afneita henni.
Ef við fullyrtum að allt eigi þetta rætur að rekja til krafta hins dýrslega eðlis og skilningarvita líkamans blasir við að dýrin búa yfir slíkum kröftum í ríkari mæli en mennirnir. Til dæmis er sjón dýranna mun skarpari en mannsins, heyrn þeirra er næmari og hið sama gildir um lyktarskyn þeirra og smekk. Í stuttu máli sagt bera dýrin oft af manninum hvað sameiginlega líkamskrafta varðar. Tökum minnið sem dæmi. Ef þú flytur dúfu héðan til fjarlægs lands og sleppir henni man hún leiðina og snýr aftur heim. Ef þú ferð með hund héðan til miðrar Asíu og sleppir honum snýr hann heim aftur án þess að villast nokkru sinni á leiðinni. Hið sama gildir um aðra krafta og skilningarvit, svo sem heyrn, sjón, lykt, bragð og snertingu. Því er ljóst að réði maðurinn ekki yfir öðrum kröftum en dýrið væri það honum fremra á sviði mikilvægra uppgötvana og skilnings á raunveruleikanum. Af þessu leiðir að maðurinn hefur fengið gjafir og fullkomnun sem dýrið hefur ekki.
Auk þess skynjar dýrið áþreifanlega hluti en ekki huglægan veruleika. Dýrið sér til dæmis það sem er innan sjónsviðs þess en skilur hvorki né skynjar það sem er handan þess. Þannig fær dýrið ekki skilið að jörðin er hnattlaga. En maðurinn leiðir hið óþekkta af hinu þekkta og uppgötvað dulinn veruleika. Af boglínu sjóndeildarhringsins leiðir hann til dæmis að jörðin sé hnöttur. Pólstjarnan er til að mynda í 33 gráða hæð frá ‘Akká, það er að segja 33 gráður yfir sjóndeildarhring miðað við snúningsás jarðar. Þegar farið er í átt að norðurpólnum hækkar pólstjarnan um eina gráðu fyrir hverja gráðu vegalengdar sem farin er, það er að segja pólhæð hennar nær 34 gráðum, síðan 40, 50, 60 og 70 gráðum. Þegar komið er á norðurpólinn nær hún 90 gráðum og er í hvirfilpunkti.
Nú er Pólstjarnan skynrænn veruleiki og hreyfing hennar líka. Það er að segja, sú staðreynd að því nær sem dregur pólnum þeim mun hærra rís pólstjarnan. Og út frá þessum tveimur þekktu veruleikum uppgötvast óþekktur veruleiki, nefnilega að boglína jarðar þýðir að himinninn yfir sjóndeildarhringnum breytist frá einni breiddargráðu til hinnar næstu. Maðurinn skilur þessi tengsl og rökstyður það sem áður var óþekkt, það er að segja boglínu jarðar. En þessi skilningur er dýrinu ekki mögulegur. Það er dýrinu sömuleiðis ógerlegt að skilja að sólin er miðja sólkerfisins og jörðin snýst um hana. Dýrið er fangi skynfæranna sem setja því mörk. Það getur ekki skilið neitt sem er utan seilingar skynfæranna, jafnvel þótt það sé manninum fremra hvað varðar ytri kraft og skynjun. Því er ljóst að maðurinn er gæddur mætti uppgötvunar sem aðgreinir hann frá dýrinu og þessi kraftur er andi mannsins.
Lof sé Guði! Maðurinn leitar stöðugt hærri hæða og háleitari markmiða. Hann leitast alltaf við að skilja veröld sem er önnur og meiri en hans eigin og komast á nýtt og hærra stig. Þessi ást á veruleika sem er honum ofar er eitt af aðalsmerkjum hans. Mig furðar á því að ákveðnir heimspekingar í Evrópu og Ameríku samþykki afturhvarf til dýraríkisins þótt öll tilveran hljóti ávallt að stefna að upphafnari sviðum. Og þó er það svo að ef þú kallaðir einhvern þeirra dýr yrði hann sármóðgaður.
Þvílíkur munur á heimi mannsins og heimi dýrsins! Þvílíkur munur á upphafningu mannsins og lægingu dýrsins, fullkomnum eiginleikum mannsins og þekkingarleysi dýrsins, ljósi mannsins og myrkri dýrsins, dýrð mannsins og eymd dýrsins ! Tíu ára gamalt arabískt barn getur með rödd sinni stjórnað lest tvö eða þrjú hundruð úlfalda í eyðimörkinni. Vanmáttugur Indverji gerir voldugan fíl sér undirgefinn og þvingar hann til algjörrar hlýðni. Allir hlutir eru manninum undirgefnir. Hann stendur í gegn sjálfri náttúrunni og sigrar hana.
Allar aðrar verur eru bandingjar náttúrunnar og losna ekki undan ofurvaldi hennar, maðurinn einn sigrast á náttúrunni. Náttúran dregur allt að miðju jarðar, en með vélbúnaði hefur maðurinn sig yfir hana og svífur í loftinu, náttúran hindrar hafsiglingar en maðurinn smíðar skip og fer um víðáttu úthafsins, og svo framvegis – viðfangsefnið tekur engan endi. Til dæmis fer maðurinn yfir fjöll og sléttur í farartækjum og safnar á einum stað fréttum af atburðum í austri og vestri. Þannig stendur maðurinn í gegn náttúrunni. Hafið í allri sinni stærð og víðáttu getur ekki vikið hársbreidd frá lögmáli náttúrunnar, sólin í allri sinni tign og mikilleik fær ekki vikið um þumlung frá lögmáli náttúrunnar og getur aldrei skilið aðstæður, eiginleika, hreyfingar og eðli mannsins. Hver er sá kraftur sem býr í smæð mannsins sem umlykur allt þetta? Hvaða sigrandi máttur er það sem leggur undir sig alla hluti?
Enn eitt atriði. Heimspekingar nútímans segja: „Hvergi sjáum við anda í manninum og þótt við rannsökum líkama hans hátt og lágt sjáum við hvergi votta fyrir andlegum mætti. Hvernig getum við ímyndað okkur mátt sem ekki verður skynjaður?“ Hinir guðdómlegu heimspekingar svara: „Andi dýrsins er ekki heldur skynjanlegur og hann verður ekki skilinn með þeim efnislegu aðferðum sem við beitum. Hvernig getum við gengið úr skugga um tilvist hans? Enginn vafi leikur á því að þið ályktið af áhrifum hans að dýrið hafi mátt sem plöntuna skortir og það er máttur skynfæranna – sjónar, heyrnar og svo framvegis. Af þessu dragið þið þá ályktun að andi dýrsins sé til. Á grundvelli fyrrnefndra tákna og raka ályktið þið einnig að til sé mannsandi. Í dýrinu er máttur sem ekki finnst í plöntunni og þá segið þið að þessi skynkraftur sé eitt af einkennum andans sem er að finna í dýrinu. Þið sjáið einnig tákn, krafta og fullkomnun í manninum sem dýrið hefur ekki. Ályktið þá af þessu að hann hafi til að bera krafta sem dýrið hefur ekki.“
Ef við höfnum öllu sem skynfærin fá ekki skynjað neyðumst við til að afneita veruleika sem án nokkurs vafa er til. Ljósvakinn er til að mynda ekki skynjanlegur þótt hægt sé að sanna tilvist hans og veruleika. Þyngdaraflið er ekki skynjanlegt þótt tilvist þess verði ekki afneitað. Hvernig staðfestum við þessa tilvist? Af ummerkjum þeirra. Til dæmis stafar þetta ljós af bylgjuhreyfingum í ljósvakanum og af þessum bylgjuhreyfingum drögum við þá ályktun að hann sé til.
– 49 –
Þróun og tilvist mannsins
Spurning: Hvað segir þú um þróunarkenninguna sem ákveðnir evrópskir heimspekingar aðhyllast?
Svar: Við ræddum þetta mál um daginn en skulum víkja að því aftur. Í stuttu máli er þetta spurning um hvort tegundirnar eru upprunalegar eða ekki, það er að segja, hvort eðli mannsins sem tegundar hafi verið óbreytt frá upphafi eða hvort það hafi síðan komið frá dýrunum.
Vissir evrópskir heimspekingar telja að tegundir þróist og geti jafnvel breyst í aðrar tegundir. Meðal þeirra sannana sem þeir færa fyrir þessari fullyrðingu er að með nákvæmum jarðfræðirannsóknum og könnunum hafi okkur orðið ljóst að plöntur hafi komið á undan dýrum og dýrin á undan manninum. Þeir telja einnig að bæði jurta- og dýraríkið hafi tekið breytingum því í vissum jarðlögum hafa fundist plöntur sem til voru áður en hurfu síðan, sem þýðir að þær hafi þróast, orðið harðgerðari og breytt um form og útlit og þannig hafi tegundirnar breyst. Sömuleiðis finnast í jarðlögum vissar dýrategundir sem hafa tekið breytingum. Ein þeirra er snákurinn sem hefur úrelta útlimi, það er að segja menjar um að hann hafi eitt sinn haft fætur sem hurfu með tímanum og aðeins skilið eftir sig leifar. Á svipaðan hátt er í hryggjasúlu mannsins að finna ummerki um að hann hafi eitt sinn haft rófu eins og önnur dýr og þeir fullyrða að leifar hennar séu að finna. Á vissum tíma kom þessi limur að gagni en gagnsemi hans minnkaði með þróun mannsins og því hvarf hann smám saman. Á sama hátt urðu snákar að skriðdýrum þegar þeir lifðu neðanjarðar og þurftu því ekki lengur fætur sem hurfu og skildu eftir sig leifar. Helsta sönnun þeirra er sú að þessir úreltu limir séu vitnisburður fyrri útlima sem hafi horfið smám saman vegna þess að þeir voru ekki notaðir og komu ekki að neinu gagni. Þannig hafa nauðsynlegir útlimir haldist en óþarfir horfið smám saman vegna breytinga á tegundinni og skilið eftir sig leifar.
Fyrsta svarið við þessum röksemdum er að hafi dýrin komið á undan manninum sannar það ekki að eðli tegundar mannsins hafi breyst eða að maðurinn tilheyri dýraríkinu. Mögulegt er að maðurinn hafi einfaldlega orðið til á eftir dýrinu meðan viðurkennt er að þessar mismunandi lífverur hafi birst með tímanum. Þannig sjáum við að í jurtaríkinu birtast ávextirnir á trjánum ekki allir í einu, þvert á móti birtast sumir fyrr á árstímanum og aðrir síðar. Þessi forgangur er ekki sönnun þess að ávöxtur sem vex síðar á einu tré sé kominn af ávexti sem vex fyrr á öðru tré.
Í öðru lagi gæti mikil viska legið að baki þessum minni háttar leifum og úreltu limum sem mannshugurinn hefur hingað til ekki getað skilið. Hversu margt er ekki að finna í þessum heimi sem byggir á visku sem engum hefur tekist að skilja allt fram á þennan dag! Þannig er sagt í lífeðlisfræði – vísindum um líffæratengsl líkamans – að undirliggjandi viska og orsakir mismunandi litarefna í hárum dýra og manna, roða á vörum eða margbreytilegra lita fugla, séu enn óþekktar og verði það áfram. En í ljós hefur komið að svartur litur augasteinsins stafar af því að hann tekur í sig geisla sólarinnar, því væri hann í öðrum lit – segjum hvítur – tæki hann ekki í sig þessa geisla. Meðan viskan að baki þeim hlutum sem við höfum nefnt er óþekkt, má vel ímynda sér að ástæðan og viskan að baki úreltum limum, hvort sem er á dýrum eða mönnum, sé einnig óþekkt. Slík undirliggjandi viska er auðvitað til staðar, jafnvel þótt hún kunni að vera óþekkt.
Í þriðja lagi er það svo að þótt við gerum ráð fyrir að ákveðin dýr, eða jafnvel maðurinn, hafi einu sinni haft útlimi sem nú eru horfnir, nægir það ekki sem sönnun á breytingu tegundarinnar. Frá því fósturvísirinn verður til og þangað til hann nær fullum þroska tekur hann á sig mismunandi form og útlit. Útlit hans, gerð, eiginleikar og litir breytast, það er að segja, hann breytir stöðugt um form og útlit. Samt er það svo að allt frá myndun fósturvísisins tilheyrir hann tegund mannsins, það er að segja, hann er fósturvísir manns en ekki dýrs. Í fyrstu er þessi staðreynd ekki augljós en liggur þó síðar í augum uppi.
Við skulum til dæmis gera ráð fyrir því að maðurinn hafi eitt sinn líkst dýrinu og síðan hafi hann þróast og breyst. Viðurkenning á þessu sannar ekki umbreytingu tegunda heldur má líkja henni við þær breytingar og umskipti sem verða á fósturvísinum áður en hann nær fullum þroska eins og fyrr var getið. Til að skýra þetta nánar skulum við gera ráð fyrir að maðurinn hafi eitt sinn gengið á fjórum fótum eða haft rófu. Þessu svipar til breytinga sem verða á fóstrinu í móðurkviði. Jafnvel þótt fóstrið þróist á alla mögulega vegu áður en það nær fullum þroska, tilheyrir það frá upphafi sérstakri tegund. Hið sama gildir í jurtaríkinu, þar sem við sjáum að upprunalega og auðkennda tegundin breytist ekki þótt form hennar, litur og massi breytist og þróist.
Þetta má orða svo í stuttu máli: Líkt og maðurinn þroskast, þróast og breytist stöðugt hvað varðar form og útlit í móðurkviði og er um leið frá upphafi mannlegur fósturvísir, þannig hefur eðli tegundar mannsins líka verið auðkennt frá upphafi en form hans breyst smám saman. Af þessu leiðir að þessi útlitsbreyting, þróun líffæra, vöxtur og þroski, útiloka ekki upprunaleik tegundarinnar. Jafnvel þótt við samþykkjum þróun og þroska hefur hann engu að síður frá upphafi haft til að bera fullkomna gerð og getu til að öðlast bæði efnislega og andlega fullkomnun og verða líkamning orðanna: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss.“ Hann hefur í mesta lagi orðið þokkafyllri, fágaðri og tignarlegri og í krafti siðmenningarinnar hefur hann lagt villt og frumstætt líf að baki, rétt eins og villtir ávextir verða betri og ljúffengari með ræktun garðyrkjumannsins, og öðlast sífellt meiri fágun og lífskraft.
Garðyrkjumennirnir í heimi mannkyns eru opinberendur Guðs.
– 50 –
Andlegar sannanir fyrir upprunaleik mannsins
Rökin sem við fram til þessa höfum fært fyrir upprunaleika tegundar mannsins eru skynsemisrök. Við ætlum núna að færa að þess andleg rök og þau eru í rauninni grundvallarrökin. Því að við höfum staðfest tilvist Guðs með skynsemisrökum og einnig var staðfest með skynsamlegum rökum að maðurinn hefur verið maður frá upphafi og að eðli hans sem tegundar hefur verið til frá eilífð. Við leggjum nú fram andlegar sannanir fyrir því að mannleg tilvist – það er mannkynið – sé nauðsynleg tilvist og að án mannsins myndi fullkomnun Guðdómsins ekki birtast. En þetta eru andleg rök, ekki skynsemisrök.
Við höfum þráfaldlega staðfest með sönnunum og rökum að maðurinn sé göfugastur allra vera og summa allrar fullkomnunar. Reyndar býr opinberun hins guðdómlega ljóss í öllu sem skapað er, það er að segja táknin um guðdómleika Guðs birtast í veruleika allra hluta. Rétt eins og jörðin endurvarpar geislum sólarinnar – sem þýðir að ljós, hiti og áhrif sólarinnar birtast í öllum frumeindum jarðar – þannig kunngerir sérhver frumeind í þessum óendanlega alheimi eina af fullkomnum eigindum Guðs. Ekkert fer varhluta af þessu: Sérhver þeirra er annaðhvort tákn miskunnar Guðs eða máttar Hans, mikilleika, réttlætis, óþrotlegrar forsjónar, veglyndis, sjónar og heyrnar, þekkingar og náðar, og svo framvegis.
Það sem við eigum við er að í sérhverri verund tilverunnar býr opinberun hins guðdómlega ljóss af nauðsyn; það er að segja fullkomnar eigindir Guðs opinberast í henni. Þetta guðdómlega ljós er eins og sólin sem skín á eyðimörkina, hafið, trén, ávextina, blómin – á alla jarðneska hluti. Heimur jarðneskrar tilveru, og raunar allir skapaðir hlutir, kunngera aðeins eitt af nöfnum Guðs, en veruleiki mannsins er alltumlykjandi og altækur veruleiki sem er aðsetur opinberunar allrar guðlegrar fullkomnunar. Það þýðir að tákn sérhvers nafns, eigindar og fullkomnunar sem við eignum Guði er að finna í manninum. Ef sú væri ekki raunin gæti hann hvorki skilið þessar fullkomnu eigindir né gert sér þær í hugarlund. Við segjum til dæmis að Guð sé alsjáandi. Augað er tákn sjónar Hans og ef maðurinn hefði ekki þetta skynfæri, hvernig gætum við ímyndað okkur sjón Guðs? Því að sá sem fæðist blindur getur ekki gert sér grein fyrir sjóninni og sá sem fæðist heyrnarlaus getur ímyndað sér heyrnina né heldur hinn dauði lífið.
Þannig birtist guðdómleiki Guðs, sem er heild allrar fullkomnunar, í veruleika mannsins – það er að segja, hið guðlega eðli býr yfir allri fullkomnun og frá þessari stöðu varpar það geisla dýrðar sinnar yfir mannlegan veruleika. Með öðrum orðum, sól sannleikans birtir sig í þessum spegli. Maðurinn er þannig fullkominn spegill sem snýr að sól sannleikans og endurspeglar hana. Ljós allra fullkominna guðlegra eiginda birtist í veruleika mannsins og það er af þeim sökum sem hann er staðgengill og postuli Guðs. Væri maðurinn ekki til bæri alheimurinn engan árangur, því að markmið tilverunnar er opinberun guðlegrar fullkomnunar. Við getum því ekki sagt að til hafi verið tími þegar maðurinn var ekki. Í mesta lagi getum við sagt að einhvern tíma hafi jörðin ekki verið til og að í upphafi hafi maðurinn ekki verið á henni.
En frá því upphafi sem á sér ekkert upphaf og til þess endis sem á sér engan endi hefur fullkominn opinberandi Guðs alltaf verið til. Sá sem við tölum um hér er ekki hvaða maður sem er heldur er vísað til hins fullkomna manns. Því að göfugasti hluti trésins og sjálft markmið þess er ávöxturinn. Ávaxtalaust tré kemur engum að gagni. Þess vegna er ekki hægt að ímynda sér að heimur tilvistar, hvort sem er í ríkjunum hið efra eða neðra, hafi eitt sinn verið byggður kúm og ösnum, köttum og músum, en farið varhluta af návist mannsins. Hve fölsk og innantóm er ekki slík hugmynd!
Orð Guðs er jafn skýrt og sólin. Þetta eru andleg rök, en í byrjun er ekki hægt að kynna þau heimspekingum efnishyggjunnar. Öllu fremur verðum við fyrst að kynna skynsemisrökin og síðar hin andlegu.
– 51 –
Birting andans og hugans í manninum
Spurning: Birtist hugur og andi í tegund mannsins strax í upphafi þróunar og vaxtar hennar á jörðinni eða var sú þróun hægfara? Og hafi svo verið, gerðist það á skömmum tíma eða löngum?
Svar: Upphaflegri mótun mannsins á jörðinni má líkja við myndun fósturvísis í móðurlífi. Fósturvísirinn vex smám saman og þroskast uns barnið fæðist í þennan heim. Síðan heldur það áfram að vaxa uns það nær fullum þroska. Þótt ummerki um anda og huga mannsins sé að finna strax í frumbernsku eru þau ófullkomin og veikburða. En þegar maðurinn nær fullum þroska, birtast hugur hans og andi í mestri fullkomnun.
Í upphafi mótunar sinnar í skauti jarðar var maðurinn eins og fósturvísir. Hann þróaðist síðan stig af stigi, óx og dafnaði uns hann náði því þroskastigi að hugur og andi birtust í mestri fullkomnun. Frá upphafi mótunar sinnar hafði maðurinn vitund og anda en hvorutveggja var dulið og kom aðeins síðar í ljós. Í heimi móðurlífsins býr fósturvísirinn líka yfir anda og vitund en hvorutveggja dylst og birtist aðeins síðar. Hið sama gildir um fræið því innra með því dylst tréð. Þegar fræið vex og þroskast sprettur af því fullvaxið tré. Á sama hátt vaxa og þróast allar verur stig af stigi. Þetta er hið algilda og guðdómlega lögmál og skipulag náttúrunnar. Fræið verður ekki skyndilega að tré, fósturvísirinn verður ekki strax að manni og steinefnið ekki að steini á einu andartaki. Nei, allt vex og þroskast stig af stigi uns það nær fullkomnun.
Allar verundir, hvort sem þær eru almennar eða einstakar, voru skapaðar fullkomnar frá upphafi. Það eina sem hægt er að segja er að fullkomnun þeirra birtist aðeins stig af stigi. Lögmál Guðs er eitt, þróun tilverunnar ein og guðlegt skipulag eitt. Allar verundir, stórar og smáar, lúta einu lögmáli og einni skipan. Sérhvert fræ ber frá upphafi í sér alla fullkomnun plöntunnar. Til dæmis var öll fullkomnun plöntunnar til í þessu fræi frá upphafi en hún var dulin og birtist aðeins smám saman. Þannig vex sprotinn fyrst af fræinu, síðan greinar, lauf og blóm og loks ávöxturinn. En frá upphafi var allt þetta til sem möguleiki í fræinu þótt það væri ekki sýnilegt. Sömuleiðis ber fósturvísirinn í sér frá upphafi alla fullkomna eiginleika, svo sem anda, vitund, sjón, lykt og smekk – í stuttu máli alla krafta mannsins – en þeir eru duldir og koma aðeins í ljós smám saman.
Á sama hátt var þessi jarðneski hnöttur skapaður í upphafi með öllu sínu efni og samstæðum þáttum, en þetta kom aðeins smám saman í ljós: fyrst steindir, síðan plöntur, því næst dýr og loks maðurinn. En frá upphafi duldust þessir flokkar og tegundir í ríki jarðar og birtust síðan stig af stigi. Því að æðsta lögmál Guðs og allsherjarregla náttúrunnar nær til allra verunda og gerir þær sér undirgefnar. Þegar þú íhugar þessa allsherjarreglu skilur þú að engin verund er fullkomin strax í upphafi heldur vex hún og þroskast smám saman uns hún nær því stigi.
– 52 –
Birting andans í líkama mannsins
Spurning: Hver er viskan að baki birtingu andans í líkama mannsins?
Svar: Viskan með birtingu andans í líkamanum er þessi: Mannsandinn er guðdómleg trúnaðargjöf sem verður að þróast í gegnum öll stig tilverunnar því þessi þróun er leiðin sem hann þarf að fara til að ávinna sér fullkomna eiginleika. Þegar hann til dæmis ferðast með skipulegum hætti um mörg ólík lönd og landssvæði getur hann vissulega aflað sér fullkominna eiginleika, því að hann mun af eigin raun kynnast ýmsum stöðum, sögusviðum og atburðum, læra um málefni og aðstæður annarra þjóða, kynnast landafræði þeirra, listum og furðuverkum, öðlast þekkingu á siðum, hegðun og lundarfari íbúanna, verða vitni að siðmenningu og samtímaþróun, upplýsast um stjórnarhætti, hæfni og móttækileika í hverju landi. Það sama gerist þegar mannsandinn fer í gegnum áfanga tilverunnar og nær hverju stigi og stöðu – jafnvel hinum líkamlegu – þá ávinnur hann sér vissulega fullkomna eiginleika.
Auk þess er nauðsynlegt að tákn um fullkomna eiginleika andans birtist í þessum heimi til þess að ríki sköpunarinnar geti ávallt borið ávexti og að þessi stundlegi heimur fái líf og birti guðlega hylli. Þannig verða geislar sólarinnar til dæmis að skína á jörðina og hiti hennar að ylja öllum jarðneskum verum. Ef geislar og hiti sólarinnar bærust ekki til jarðar væri hún auðnin ein og engin þróun ætti sér stað. Ef fullkomnir andlegir eiginleikar birtast ekki í þessum heimi yrði hann einnig dimmur og dýrslegur. Það er vegna birtingar andans í efnislegum líkama sem þessi heimur upplýsist. Á sama hátt og andi mannsins er ástæðan fyrir lífi líkamans er allur heimurinn eins og líkami og maðurinn er andi hans. Væri maðurinn ekki til, fullkomnun andans birtist ekki og ljós hugans skini ekki í þessum heimi væri hann eins og andvana líkami.
Að öðru leyti er þessi heimur eins og tré og maðurinn ávöxtur þess – án ávaxtarins væri tréð gagnslaust.
Auk þess virka limir mannlegs líkama, efnisþættir hans og samsetning eins og segull á andann. Andinn hlýtur að birtast í honum. Það sama gerist þegar spegill er fáður. Þá hlýtur hann að laða að sér geisla sólarinnar, upplýsast og endurspegla glæstar myndir. Það er að segja, þegar þessir efnisþættir sameinast í samræmi við náttúrulegt skipulag og í mestri fullkomnun, verða þeir aðdráttarafl andans og andinn birtist þar í allri sinni fullkomnun.
Frá þessu sjónarhorni er ekki spurt: „Hvers vegna er nauðsynlegt að geislar sólarinnar falli á spegilinn?“ Því tengslin milli veruleika allra hluta, hvort sem þeir eru andlegir eða efnislegir, hljóta að verða til þess að þegar spegill er fáður og honum snúið í átt til sólar birtir hann geisla hennar. Á sama hátt gerist það þegar þessir þættir sameinast í samræmi við göfugustu skipan og fyrirkomulag að mannsandinn birtist þar og opinberar sig. Slík er ákvörðun Hins aldýrlega, hins alvitra.
– 53 –
Samband Guðs við sköpun sína
Spurning: Hvers eðlis er sambandið milli Guðs og sköpunar Hans, milli Hins algilda og ótilkvæmilega og allra annarra verunda?
Svar: Samband Guðs við sköpun sína er samband höfundar við verk sitt, sólarinnar við dimma hnetti alheimsins, smiðsins við handverk sitt. Í eðli sínu er sólin ekki aðeins helguð yfir alla himinhnetti sem fá frá henni birtu sína, heldur er ljós hennar einnig í eðli sínu helgað frá jörðinni og óháð henni. Þótt jörðin þiggi vöxt sinn og næringu af sólinni og njóti ljóss hennar, er sólin og geislar hennar engu að síður helgaðir yfir hana. Og ef engin væri sólin, væri hvorki jörð né jarðneskt líf.
Sköpunarferli Guðs er framrás með útstreymi. Það er að segja, sköpunin streymir frá Guði en hún birtir Hann ekki. Sambandið er útstreymi en ekki opinberun. Ljós sólarinnar streymir frá sólinni, ljósið opinberar hana ekki. Birting með útstreymi er eins og birting sólargeislanna. Helguðu eðli sólar sannleikans verður ekki skipt í sundur og það stígur ekki niður í sköpunina. Á sama hátt skiptir sólin sér ekki eða stígur niður til jarðar heldur streyma frá henni geislar – úthelling náðar hennar – og lýsa upp hina dimmu himinhnetti.
En birting með opinberun er eins og opinberun greina, laufs, blóma og ávaxta frá fræinu, því að fræið sjálft verður að greinum og ávöxtum og veruleiki þess stígur niður í þá. Þessi birting með opinberun væri hrein ófullkomnun og algerlega óhugsandi hvað varðar Hinn hæsta, því að hún myndi krefjast þess að óskilyrt fortilvera tæki á sig eiginleika hins skapaða, fullkomið sjálfstæði yrði sárasta fátækt og eðli tilverunnar hreint tilvistarleysi. Slíkt er með engu móti mögulegt.
Af þessu leiðir að allt hefur streymt frá Guði, það er að segja allar skapaðar verundir hafa orðið að veruleika fyrir atbeina Guðs, og fyrir Hann hefur þessi stundlegi heimur orðið til. Það fyrsta sem streymir frá Guði er sá allsherjar veruleiki sem heimspekingar til forna nefndu „frumspekina“ og sem fylgjendur Bahá kalla „frumviljann“. Virkni þessa útstreymis í heimi Guðs takmarkast hvorki við tíma eða stað og á sér hvorki upphaf né endi, því fyrir Guði eru upphaf og endir eitt og hið sama. Fortilvera Guðs er bæði eðlislæg og tímanleg fortilvera og uppruni hins stundlega heims er eðlislægur en ekki tímanlegur eins og við höfum útskýrt áður hér við borðið.
Þótt frumviskan eigi sér ekki upphaf þýðir það ekki að hún eigi hlutdeild í fortilveru Guðs, því í samanburði við tilvist Guðs er þessi allsherjarveruleiki alls ekkert – og ekki einu sinni hægt að segja að hann sé til, hvað þá að hann eigi hlutdeild í fortilveru Guðs. Skýring á þessu máli var gefin áður.
Hvað varðar hið skapaða felst líf þess í samsetningu og dauði þess í upplausn. En efni og þættir alheimsins gjöreyðast ekki. Nei, sú eyðing er eingöngu umbreyting. Svo dæmi sé nefnt verður líkami mannsins að dufti þegar hann deyr en það eyðist ekki fullkomlega heldur er áfram steinefni, en umbreyting hefur átt sér stað og hið samsetta hefur sundrast. Hið sama gildir um eyðingu allra annarra verunda, því tilveran verður ekki fullkomið tilvistarleysi og fullkomin eivera getur ekki öðlast tilvist.
– 54 –
Andi mannsins kemur frá Guði
Spurning: Í Gamla testamentinu segir að Guð hafi blásið lífsanda í líkama mannsins. Með hvaða hætti kemur andi mannsins frá Guði?
Svar: Vita skalt þú að tilkoma er af tvennum toga: koma og birting með útstreymi og koma og birting með opinberun. Tilkoma með útstreymi samsvarar komu handverks frá höfundi sínum. Til dæmis kemur ritað mál frá þeim sem ritar. Líkt og ritað mál kemur frá þeim sem ritar og mælt mál frá þeim sem talar, þannig kemur einnig andi mannsins frá Guði. En mannsandinn opinberar Hann ekki, ekkert hefur aðgreinst guðdómlegum veruleika og gengið inn í líkama mannsins. Nei, mannsandinn er tilkominn með útstreymi, rétt eins og mælt mál kemur frá þeim sem talar, og opinberast í líkama mannsins.
Tilkoma með opinberun er opinberun á veruleika hlutar í öðru formi á sama hátt og þetta tré eða þetta blóm sprettur af fræinu, því það er fræið sjálft sem hefur opinberast í formi greina, laufa og blóma. Þetta nefnist tilkoma með opinberun.
Mannsandinn kemur frá Guði með útstreymi á sama hátt og mælt mál kemur frá þeim sem talar og ritað orð frá þeim sem ritar. Það er að segja, sá sem talar verður ekki að orðunum sem hann mælir né sá sem ritar að skrift sinni – sambandið er öllu heldur tilkoma með útstreymi. Því að sá sem talar heldur allri hæfni sinni og kröftum þegar orðin streyma frá honum á sama hátt og verkið streymir frá þeim sem vinnur það. Hinn sanni málflytjandi, hið guðlega eðli, er alltaf í sama ástandi og á honum verður engin breyting né umskipti, hvorki upphaf né endir. Tilkoma mannsandans frá Guði er því tilkoma með útstreymi. Þegar sagt er í Gamla testamentinu að Guð hafi blásið anda sínum í manninn jafngildir þessi andi orðunum sem koma frá Hinum sanna málflytjanda og birtast í veruleika mannsins.
Ef við ættum að skilja tilkomu með opinberun sem „birtingu“ fremur en „sundurgreiningu í hluta“, höfum við áður sagt að það sé með þessum hætti sem heilagur andi og orðið kemur frá Guði, eins og segir í Jóhannesarguðspjalli: „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði.“ Af því leiðir að heilagur andi og orðið eru birting Guðs og felast í þeirri guðlegu fullkomnun sem birtist í skínandi veruleika Krists. Og þessi fullkomnun var hjá Guði líkt og sólin sem birtir fyllingu ljóma síns í spegli. Því með „Orðinu“ er ekki átt við líkama Krists heldur þá guðlegu fullkomnun sem opinberaðist í Honum. Kristur var þannig eins og flekklaus spegill sem sneri að sól sannleikans og fullkomnun þeirrar sólar – það er að segja ljós hennar og hiti – opinberaðist með skýrum hætti í þeim spegli. Ef við lítum í spegilinn sjáum við sólina og við segjum að þetta sé sólin. Orðið og heilagur andi, sem felast í fullkomnun Guðs, eru því hin guðlega birting. Þetta er merking orða guðspjallsins þar sem segir: „Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.“ Því að fullkomnir eiginleikar Guðs verða ekki aðgreindir frá innsta eðli Hans. Fullkomnir eiginleikar Krists eru nefndir orðið vegna þess að allar skapaðar verundir eru líkt og stakir bókstafir og stakir bókstafir miðla ekki fullri merkingu, en fullkomnun Krists samsvarar heilu orði og af því má ráða fulla merkingu. Þar sem veruleiki Krists var opinberun guðlegrar fullkomnunar, samsvarar sá veruleiki heilu orði. Hvers vegna? Vegna þess að það fól í sér fullkomna merkingu og því hefur það verið kallað orðið.
Og vita mátt þú að tilkoma orðsins og heilags anda frá Guði, sem er tilkoma með opinberun og birtingu, má ekki að skilja þannig að veruleiki guðdómsins hafi aðgreinst eða margfaldast eða stigið niður frá hæðum hreinleika síns og heilagleika. Guð forði því! Væri tærum og flekklausum spegli snúið að sólu myndi ljós og hiti, form og líking sólarinnar opinberast í slíkum ljóma að ef áhorfandi segði: „Þetta er sólin“ væri það sannleikur. En spegill er spegill og sólin er sól. Sólin er ein og söm jafnvel þótt hún birtist í mörgum speglum. Hér er ekkert rými fyrir eðlislægni, útgöngu, samblöndun eða niðurstigningu, því útganga, afturför, samblöndun eða niðurstigning eru meðal einkenna og þarfa líkamanna, ekki andanna – hversu miklu síður hins heilaga og helgaða veruleika guðdómsins. Dýrlegur er Guð ofar öllu sem ekki sæmir heilagleika Hans og helgun, og upphafinn er Hann í hæstu hæðum tignar sinnar!
Sól sannleikans hefur, eins og við höfum áður sagt, ávallt verið hin sama og á henni verður hvorki breyting né umskipti. Hún á sér hvorki upphaf né endi. En hinn heilagi veruleiki orðs Guðs er eins og tær, flekklaus og skínandi spegill sem endurvarpar ljósi og hita, formi og ímynd sólar sannleikans – það er að segja alla fullkomnun hennar. Þess vegna segir Kristur í guðspjallinu: „Faðirinn er í syninum“ sem þýðir að sól sannleikans skín í fullum ljóma í þeim spegli. Dýrlegur sé Hann sem hefur varpað ljóma sínum yfir þennan veruleika sem er heilagur ofar öllu sem skapað er!
– 55 –
Andi, sál og hugur
Spurning: Hver er munurinn á huga, anda og sál?
Svar: Áður var útskýrt að andinn skiptist almennt í fimm flokka: anda jurtaríkisins, dýraríkisins, mannsandans, anda trúarinnar og heilagan anda.
Andi jurtaríkisins er sá vaxtarmáttur sem verður í fræinu fyrir áhrif annarra skapaðra hluta.
Andi dýraríkisins er sá alltumlykjandi skynræni máttur sem verður að veruleika með samsetningu frumþáttanna. Með upplausn þeirra glatast þessi andi og hverfur. Því má líkja við þennan lampa: Þegar olía, kveikur og logi koma saman kviknar ljós en með upplausn þeirra – þ.e. aðgreiningu hinna samsettu hluta – slokknar einnig á lampanum.
Mannsandinn sem aðgreinir manninn frá dýrinu er hin skynigædda sál og þessi tvö hugtök – mannsandi og skynigædd sál – tákna eitt og hið sama. Þessi andi, sem á fræðimáli heimspekinga nefnist skynigædd sál, nær til alls sem skapað er, uppgötvar raunveruleika þess og verður meðvitaður, að svo miklu leyti sem mannleg geta leyfir, um eiginleika og áhrif, einkenni og aðstæður jarðneskra hluta. En mannsandinn getur ekki kynnst guðdómlegum leyndardómum og himneskum veruleika nema hann njóti aðstoðar anda trúarinnar. Hann er eins og spegill sem enn þarf á ljósi að halda þótt hann sé bjartur og fáður en getur ekki uppgötvað guðlega leyndardóma fyrr en sólargeisli fellur á hann.
Hvað hugann varðar er hann kraftur mannsandans. Andinn er eins og lampinn og hugurinn eins og ljósið sem frá honum skín. Andinn er eins og tréð og hugurinn ávöxtur þess. Hugurinn er fullkomnun andans og nauðsynleg eigind hans, líkt og sólargeislarnir eru eðliseigind sólarinnar sjálfrar.
Þessi skýring, þótt stutt sé, er fullnægjandi. Íhuga hana og ef Guð leyfir munt þú átta þig á smáatriðunum.
– 56 –
Ytri og innri kraftar mannsins
Skynreynsla mannsins byggir á fimm efnislegum kröftum sem gera manninum kleift að greina efnislegan veruleika. Þeir eru sjónskynið sem nemur skynjanleg form, heyrnarskynið sem nemur hljóðið, þefskynið sem nemur lykt, bragðskynið sem skynjar bragð og snertiskynið sem nær til alls líkamans og nemur áþreifanlegan veruleika. Þessir fimm skynfæri nema hinn ytri veruleika.
Maðurinn býr einnig yfir andlegum kröftum. Hugaraflið skapar huglæga ímynd hlutanna, hugsunin ígrundar veruleika þeirra, skilningur greinir og skilur þennan veruleika og minnisgáfan varðveitir allt sem maðurinn hefur ímyndað sér, hugsað og skilið. Milliliður þessara fimm ytri og innri krafta er miðlæg skynvitund sem miðlar andlegu kröftunum því sem skynfærin nema. Hún nefnist miðlægt skynafl því hún er sameiginleg ytri og innri kröftunum.
Til dæmis greinir sjónin, sem er ein hinna ytri krafta þetta blóm og sendir skynhrifin til miðlægu vitundarinnar sem sendir þau síðan ímyndunaraflinu sem miðlar þeim hugsuninni. Hugsunin ígrundar þau og þegar hún hefur skilið veruleika þeirra, miðlar hún þeim skilningsaflinu sem skilar ímynd þessa skynræna hlutar til minnisins sem varðveitir það í hirslu sinni.
Ytri kaftarnir eru fimm: sjón, heyrn, bragð, lykt og snerting. Innri öflin eru líka fimm: miðlæg skynvitund og kraftar ímyndunar, hugsunar, skilnings og minnis.
– 57 –
Munurinn á eðlisgerð manna
Spurning: Hver er ástæðan fyrir margs konar eðlisgerð manna og hvað veldur þessum muni og breytileika manna á milli?
Svar: Eðlisgerð er manninum ásköpuð, hún er einnig fengin að erfðum og loks áunnin með menntun.
Hvað varðar áskapaða eðlisgerð er það svo að þótt guðleg sköpun sé algóð er stigsmunur á eðlisfari manna – öll stigin eru góð en sum betri en önnur. Allir menn hafa til að bera vitsmuni og hæfni, en það er munur á vitsmunum, hæfni og getu frá einum til annars. Þetta er augljóst.
Sé til dæmis litið á nokkur börn sem koma frá sama stað og sömu fjölskyldu, sækja öll sama skóla hjá sama kennara, neyta sömu fæðu við sömu ytri aðstæður, klæðast á sama hátt og læra sömu lexíur, þá er víst að sum þeirra ná hæfni í listum og vísindum, sum ná meðalárangi og önnur slökum. Því er ljóst að í hinu meðfædda eðli er munur og breytileiki hvað varðar hæfni og getu en spurningin er ekki um gott eða slæmt heldur einungis stigsmun – hæsta stig, miðstig og lægsta stigið. Þannig eru til menn, dýr, plöntur og steinar – en tilvist þessara fjögurra tegunda er mismunandi eðlis. Hvílíkur munur er ekki á tilveru manns og dýrs! Samt er allt þetta til og ber vitni um stigsmuninn í tilverunni.
Munurinn á eðlisfari sem er fengið að erfðum stafar af styrk eða veikleika eðlisgerðar mannsins –það er að segja ef báðir foreldrar hafa veika eðlisgerð verða börnin veikgerð, séu þeir sterkir verða börnin tápmikil. Á sama hátt hefur ættboginn mikil áhrif, því hið góða sæði er eins og sá afburðastofn sem einnig er til meðal jurta og dýra. Þú sérð til dæmis að börn sem fæðast af veikburða og heilsuveilum foreldrum fá eins og líkum lætur veikburða líkamsgerð og taugakerfi, skortir þolinmæði, úthald, einbeitni og þolgæði og verða hvatvís því börnin erfa veikleika foreldra sinna.
Að þessu frátöldu hefur ákveðnum fjölskyldum og ættbogum veist sérstök blessun. Þannig veittist afkomendum Abrahams sú sérstaka blessun að allir spámenn Ísraels eru af þeirra ætt. Þetta er blessun sem Guð veitti þessum ættboga. Af þessari ætt er Móse, bæði í föður- og móðurætt, Kristur í móðurætt, Múhameð, Bábinn og allir spámenn og helgir menn Ísraels. Bahá’u’lláh er einnig kominn af Abraham í beinan ættlegg, því að Abraham átti aðra syni en Ísmael og Ísak sem á þeim tíma fluttu til héraða Persíu og Afganistan, og Hin blessaða fegurð er meðal afkomenda þeirra.
Þess vegna er augljóst að eðlisgerð gengur líka í ættir og það í þeim mæli að ef eðlisgerð manns var önnur en forfeðra hans taldist hann ekki til þeirrar ættar í anda jafnvel þótt hann væri líkamlegur afkomandi. Þannig er því varið með Kanaan sem ekki er talinn meðal afkomenda Nóa.
Varðandi eðlismun vegna menntunar er hann vissulega mikill því menntun hefur stórkostleg áhrif. Menntun gerir hina fáfróðu lærða, hina huglausu djarfa, kræklótt grein verður bein, beiskur ávöxtur í fjöllum og skógum verður sætur og safaríkur og fimmblaðablómið ber hundrað krónublöð. Með menntun verða villtar þjóðir siðaðar og jafnvel dýrin taka upp mennska hætti. Á menntun verður að leggja langmesta áherslu, því líkt og sjúkdómar eru líkamlega bráðsmitandi þannig er eðlisgerð manna bráðsmitandi í ríki hjartna og anda. Mismunur sem á rætur að rekja til menntunar er gríðarlegur og hefur mikil áhrif.
Nú gæti einhver sagt að þar sem geta og hæfni sálna er mismunandi, hlýtur slíkur munur á getu óhjákvæmilega að leiða til mismunandi eðlisfars. En svo er ekki, því geta er af tvennum toga: meðfædd og áunnin. Meðfædd geta, sem er sköpun Guðs, er að öllu leyti góð – í meðfæddu eðli er ekkert illt. Áunnin hæfni getur hins vegar orðið orsök hins illa. Til dæmis hefur Guð skapað alla menn með þeim hætti og gætt þá slíkri getu og hneigðum að þeir hafa gagn af sykri og hunangi en bíða tjón eða bana af eitri. Þetta er meðfædd geta og hneigð sem Guð hefur gefið öllum jafnt. En maðurinn getur byrjað að taka inn eitur smám saman með því að innbyrða lítið magn á hverjum degi og auka það hægt og sígandi uns hann kemst á það stig að honum væri dauðinn vís ef hann innbyrti ekki nokkur grömm af ópíum á hverjum degi og meðfædd hæfni hans biði þannig fullkomið skipbrot. Íhuga hvernig hægt er að breyta meðfæddri getu og eðlisfari svo gjörsamlega með breyttum venjum og þjálfun að hvorutveggja spillist fullkomlega. Það er ekki vegna meðfæddrar getu og eðlisfars sem hinum illu er álasað heldur vegna þess sem þeir hafa áunnið sér.
Í meðfædda eðlinu er ekkert illt – allt er gott. Þetta á jafnvel við um vissa eðliseigindir sem virðast ámælisverðar og sumum áskapaðar en eru í rauninni ekki aðfinnsluverðar. Í brjóstabarninu sjáum við til dæmis strax merki um græðgi, reiði og geðvonsku, og þess vegna mætti halda því fram að gott og illt sé áskapað mannlegum veruleika, og að þetta sé andstætt því góða og göfuga sem er áskapað meðfæddu eðli. Svarið er að græðgi, sem er að heimta sífellt meira, er lofsverður eiginleiki að því tilskildu að hún sé sýnd við réttar aðstæður. Sýni þannig maðurinn græðgi við öflun þekkingar og iðkun vísinda eða þegar hann sýnir samúð, göfuglyndi og réttlæti, þá er það afar lofsvert. Og ef hann beindi reiði sinni og heift að blóðþyrstum harðstjórum sem eru eins og grimm dýr, væri það líka mjög lofsvert. En sýni hann þessa eiginleika við aðrar aðstæður er það ámælisvert.
Af þessu leiðir að í tilverunni og sköpunarverkinu er alls ekkert illt, en þegar meðfæddir eiginleikar mannsins eru notaðir með ólögmætum hætti verða þeir ámælisverðir. Gefi auðugur og gjafmildur maður fátækum manni ölmusu til að kaupa sér nauðsynjar og hinn síðarnefndi eyði þeirri upphæð á rangan hátt er það ámælisvert. Sama gildir um alla meðfædda eiginleika mannsins sem eru auðmagn mannlífsins. Sé þeim beitt með óviðeigandi hætti eru þeir ámælisverðir. Því er ljóst að í meðfæddu eðli mannsins er allt gott.
Íhuga þá staðreynd að verstur og ógeðfelldastur allra eiginleika og rót alls ills er lygin og að ekki er hægt að ímynda sér neitt verra eða ámælisverðara í allri tilverunni. Hún spillir allri mannlegri fullkomnun og veldur óteljandi löstum. Ekki er til neinn verri eiginleiki og hún er rót alls ills. Þrátt fyrir þetta getur læknir hughreyst sjúkling með þessum orðum: „Guði sé lof, þér líður betur og þú átt þér batavon.“ Þótt þessi orð séu ef til vill ekki sannleikanum samkvæm geta þau stundum sefað sjúklinginn og orðið til þess að hann verði heill af meinum sínum. Og slíkt er ekki ámælisvert.
Þessari spurningu hefur nú verið svarað með skýrum hætti.
– 58 –
Umfang og takmörk mannlegs skilnings
Spurning: Hversu langt nær skilningur manna og hvaða mörk eru honum sett?
Svar: Vit að skilningur er breytilegur. Lægsta stig hans er í ríki dýranna, það er að segja í þeirri náttúrulegri skynjun sem á sér stað í krafti ytri skynfæranna. Þá skynjun eiga dýr og menn sameiginlega, en þó er víst að sum dýr standa manninum framar hvað þetta varðar. Í ríki mannsins er skilningur þó mismikill og breytist í samræmi við þau ýmsu stig sem maðurinn stendur á.
Hin skynigædda sál er efsta stig skilnings í heimi náttúrunnar. Þennan skilningskraft eiga allir menn sameiginlegan, hvort sem þeir eru gálausir eða gjörhugulir, villuráfandi eða trúfastir. Í sköpun Guðs umvefur skynigædd sál mannsins allt sem skapað er og stendur því ofar. Hún umlykur allt í krafti göfgi sinnar og auðkenna. Með afli hinnar skyngæddu sálar getur maðurinn uppgötvað veruleika hlutanna, skilið eiginleika þeirra og afhjúpað leyndardóma tilverunnar. Öll vísindi, lærdómsgreinar, listir, uppfinningar, stofnanir, verkefni og uppgötvanir eiga rætur sínar að rekja til skilnings skynigæddrar sálar. Eitt sinn voru þetta vandlega duldir leyndardómar, óþekktur veruleiki hulinn djúpri launung, en skynigædda sálin uppgötvaði þá smám saman og flutti þá af sviði hins óséða inn á svið hins sýnilega. Þetta er æðsta skilningsaflið í heimi náttúrunnar og ystu mörkin sem hún nær í viðleitni sinni til að skilja veruleika, tákn og eiginleika hins stundlega.
En allsherjarviska Guðs sem er ofar náttúrunni, er úthelling náðar Hins eilífa. Hún umlykur allan veruleika og fær sinn hlut í ljósi og leyndardómum Guðs. Hún er alvitur máttur sem ekki styðst við rannsókn og skynjun. Andlegi mátturinn sem tengist heimi náttúrunnar er máttur rannsóknar og það er með rannsókn sem hann uppgötvar veruleika og eiginleika hlutanna. En sá himneski vitræni máttur sem er handan og ofar náttúrunni, umlykur, þekkir og skilur allt, veit guðlega leyndardóma, kann skil á sannleika og innri merkingum og uppgötvar dulin sannindi hins himneska ríkis. Þetta guðdómlega vitsmunalega afl takmarkast við heilaga opinberendur og dagbrúnir spámannlegra vitranna. Geisli af þessu ljósi fellur á speglana í hjörtum hinna réttlátu til þess að þeir geti einnig með atfylgi hinna helgu opinberenda eignast hlut í þessum mætti.
Hinir heilögu opinberendur gegna þrenns konar stöðu: líkamlegri, stöðu skynigæddrar sálar og stöðu fullkominnar guðlegrar opinberunar og himnesks ljóss. Líkamar þeirra skynja hlutina í samræmi við getu efnisheimsins og því hafa þeir við ákveðin tækifæri lýst líkamlegum vanmætti sínum. Til dæmis: „Ég var maður eins og aðrir menn, sofandi á beði mínum, þegar sjá! andblær Hins aldýrlega lék um mig og kenndi mér þekkingu á öllu sem hefur verið.“ Eða þegar Kristur var skírður á þrítugasta aldursári sínu og heilagur andi steig niður yfir Hann en hafði ekki opinberast í Honum áður. Allt vísar þetta til líkamlegrar stöðu opinberendanna, en himnesk staða þeirra umlykur allt sem er. Hún er meðvituð um alla leyndardóma, upplýst um öll tákn og ríkir ofar öllu sem er. Og þetta á við um tímann bæði fyrir og eftir að þeir fá vísbendingu um ætlunarverk sitt. Þess vegna sagði Kristur: „Ég er alfa og ómega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn“ – það er að segja: Á Mér hefur aldrei orðið né mun nokkru sinni verða nein breyting eða umskipti.
– 59 –
Skilningur mannsins á Guði
Spurning: Að hve miklu leyti getur maðurinn skilið Guð?
Svar: Þetta mál krefst góðs tíma og erfitt er að útskýra það hér undir borðum. Engu að síður verður gefin stutt skýring.
Vit að til er tvenns konar þekking: þekking á eðli hlutar og þekking á eiginleikum hans. Eðli sérhvers hlutar þekkist aðeins af eiginleikum hans – að öðru leyti er það eðli óþekkt og enginn skilningur fæst á því.
Þar sem þekking okkar á hlutunum, jafnvel hinum sköpuðu og takmörkuðu, takmarkast við eiginleika þeirra en ekki eðli, hvernig er þá hægt að skilja eðli hins takmarkalausa veruleika Guðdómsins? Því aldrei er hægt að þekkja innsta eðli hlutanna, aðeins eiginleika þeirra. Til dæmis er innri veruleiki sólarinnar óþekktur, en skilningur fæst á eiginleikum hennar sem eru hiti og ljós. Innra eðli mannsins er óþekkt og verður ekki skilið en þekking á því fæst á eiginleikum þess og auðkennum. Þannig þekkist allt á eiginleikum þess en ekki eðli. Jafnvel þótt mannshugurinn umljúki alla hluti og allt hið ytra sé að sínu leyti umlukið honum, er eðli þeirra samt óþekkt og verður aðeins greint af eiginleikum þeirra. Hvernig er þá hægt að þekkja eðli hins aldna og eilífa Drottins sem er helgaður ofar öllum skilningi og ímyndun? Það er að segja, þar sem aðeins er hægt að þekkja hið skapaða af eiginleikum þess en ekki eðli, hlýtur guðlegur veruleiki einnig að vera óþekktur í eðli sínu og þekkjast aðeins af eiginleikum hans.
Hvernig gæti líka veruleiki sem á sér upphaf umlukið eilífan veruleika? Því að skilningur er afleiðing umlykingar – hið síðara verður að eiga sér stað til þess að hið fyrra geti orðið – og hið guðlega eðli er alltumlykjandi og verður aldrei umlukið.
Að auki er stigsmunur í sköpunarverkinu hindrun í vegi þekkingar. Svo dæmi sé nefnt tilheyrir þessi steind steinaríkinu og hversu langt sem hún nær á þróunarbrautinni fær hún aldrei skilið vaxtarmáttinn. Hversu langt sem jurtir og tré ná á þeirri braut fá þau ekki skilið sjónina eða önnur skynfæri. Dýrið getur ekki gert sér grein fyrir stigi mannsins, það er að segja andlegum kröftum hans. Þannig tálmar stigsmunur þekkingu – lægra stigið getur ekki skilið hið æðra. Hvernig getur þá veruleiki sem á sér upphaf skilið eilífan veruleika?
Þekking á Guði táknar því skilning og þekkingu á eiginleikum Hans en ekki á veruleika Hans. Og jafnvel þessi þekking á eiginleikum Hans nær ekki lengra en mannlegur máttur og hæfni leyfa og er að öllu leyti ófullnægjandi. Heimspeki felst í því að skilja, að svo miklu leyti sem í mannlegu valdi stendur, veruleika hlutanna eins og þeir eru í sjálfum sér. Veruleiki sem á sér upphaf getur aðeins skilið eiginleika fortilverunnar innan þeirra marka sem mannlegri getu eru sett. Hið ósýnilega ríki Guðdómsins er helgað og hafið yfir skilning allra verunda og allt sem hægt er að gera sér í hugarlund takmarkast við mannlegan skilning. Mannleg skilningsgeta umlykur ekki veruleika hins guðlega eðlis. Maðurinn getur aðeins vonast til að skilja eiginleika Guðdómsins en ljós Hans er opinberað og skín í heiminum og í sálum mannanna.
Þegar við skoðum heiminn og sálir mannanna birtast skýr og ótvíræð tákn um fullkomnun Guðdómsins því veruleiki allra hluta ber vitni um tilvist allsherjarveruleika. Veruleiki Guðdómsins er líkt og sólin sem frá hæðum heilagleika síns stafar geislum sínum yfir öll lönd og sérhver sál fær hlutdeild í geislum hennar. Væri ekki fyrir þetta ljós og þessa útgeislun fengi ekkert þrifist. Allt sem skapað er vitnar um þetta ljós, þiggur geisla þess og fær af þeim sinn skerf, en öll fullkomin dýrð, hylli og eigindir Guðdómsins skína frá veruleika Hins fullkomna manns, það er að segja þeim einstæða einstaklingi sem er allsherjar opinberandi Guðs. Því að aðrar verur hafa hver og ein aðeins fengið hluta af því ljósi, en allsherjar opinberandi Guðs er spegillinn sem snýr að þessari sól og hún birtist þar í allri sinni fullkomnun, eigindum, táknum og áhrifum.
Þekking á veruleika Guðdómsins er á engan hátt möguleg, en þekkingin á opinberendum Guðs er þekking á Guði, því í þeim birtast hylli, dýrð og eigindir Guðs. Þannig öðlast sá þekkingu á Guði sem fær þekkingu á opinberendum Hans, en sá sem er gálaus um þá fer varhluta af þeirri þekkingu. Því hefur verið staðfest með augljósum hætti að hinir heilögu opinberendur eru miðdeplar himneskrar hylli, tákna og fullkomnunar. Sælir eru þeir sem þiggja ljós guðlegrar hylli frá þessum skínandi dagsbrúnum!
Við ölum þá von í brjósti að ástvinir Guðs laði til sín þessa hylli frá sjálfri uppsprettu hennar, hefjist handa af svo geislandi krafti og hafi slík áhrif að þeir verði sjálfir augljós tákn sólar sannleikans.
– 60 –
Ódauðleiki andans (1)
Við höfum fært sönnur á tilvist mannsandans og verðum nú að sanna ódauðleika hans.
Himneskar bækur nefna ódauðleika andans sem er sjálfur grundvöllur guðlegra trúarbragða. Því að umbun og refsing eru sögð vera tvenns konar – annars vegar tilvistarleg umbun og refsing og hins vegar endanleg umbun og refsing. Tilvistarlega paradís og helvíti er að finna í öllum veröldum Guðs, hvort sem er í þessum heimi eða í himneskum ríkjum andans og þetta endurgjald felst í eilífa lífinu. Þess vegna sagði Kristur: Hegðið ykkur þannig að þið öðlist eilíft líf, fæðist af vatni og anda og fáið þannig inngöngu í ríki Guðs.
Tilvistarleg umbun felst í dyggðum og fullkomnun eiginleikum sem prýða mannlegan veruleika. Til dæmis var maðurinn umlukinn myrkri og verður geislandi, hann var fáfróður og verður upplýstur, hann var gálaus og verður meðvitaður, hann svaf og var vakinn, hann var andvana og er reistur til lífs, hann var blindur og byrjar að sjá, hann var daufur og fær heyrn, hann var jarðneskur og verður himneskur, hann var efnislegur og verður andlegur. Með slíku endurgjaldi endurfæðist hann í anda, verður ný sköpun og birtingarmynd orða guðspjallsins þar sem sagt er að postularnir „urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þeir af Guði fæddir.“ – það er að segja, þeir voru frelsaðir frá eiginleikum dýrsins sem búa í mannlegu eðli og öðluðust guðlega eiginleika sem er úthelling guðlegrar náðar. Þetta er hin sanna merking endurfæðingar. Fyrir slíkar sálir er engin kvöl sárari en að hyljast Guði og engin verri refsing en sjálfselska, illir eiginleikar, varmennska og taumlausar holdlegar ástríður. Þegar þessar sálir frelsast frá svartnætti slíkra lasta fyrir ljós trúarinnar, þegar þær upplýsast geislum frá sól sannleikans og prýðast öllum mannlegum dyggðum, telja þær þetta mestu umbunina og líta á það sem sanna paradís. Á sama hátt líta þær svo á að andleg refsing – það er að segja tilvistarleg kvöl og refsing – felist í þrælkun við heim náttúrunnar, að hyljast Guði, í vanþekkingu og vitundarleysi, að gefa sig á vald ágjörnum ástríðum og dýrslegum löstum, einkennast illum eiginleikum, svo sem lygi, ofríki og ranglæti, í fastheldni við það sem er af veröldinni, í djöfullegum hugarburði – allt þetta telja þeir sárustu kvöl og refsingu sem til er.
Sú endanlega umbun sem felst í eilífa lífinu er skráð skýrum stöfum í öllum himneskum ritum. Hún felst í guðlegum eiginleikum, eilífri hylli og ævarandi gleði. Hin endanlega umbun eru gjafir og fullkomnar eigindir sem maðurinn öðlast í andlegu ríkjunum eftir uppstigningu sína frá þessum heimi, en tilvistarleg umbun er sú sanna og geislandi fullkomnun sem fæst í þessum heimi og er orsök eilífa lífsins. Því að tilvistarleg umbun er þróun tilverunnar sjálfrar og samsvarar þróun mannsins frá fósturstigi til fulls þroska þegar hann verður líkamning hinna helgu orða: „Heilagur sé Drottinn, ágætastur allra skapara!“ Endanleg umbun felst í andlegum gáfum og hylli, svo sem margvíslegum gjöfum Guðs sem veitast eftir uppstigningu sálarinnar. Hún felst í að öðlast það sem hjartað þráir og endurfundum við Hann í ríki eilífðar. Að sama skapi felast endanleg málagjöld og refsing í því að glata sérstakri hylli og óbrigðulum gjöfum Guðs og sökkva niður á lægstu stig tilverunnar. Og sá sem fer varhluta af þessum gjöfum er talinn til hinna dauðu í augum fylgjenda sannleikans þótt hann haldi áfram að vera til eftir dauðann.
Skynsamleg sönnun fyrir ódauðleika andans er sú, að það sem ekki er til fær engu komið til leiðar. Það er að segja, útilokað er að fullkomið tilvistarleysi geti haft einhver áhrif. Því að fyrst kemur tilvist og síðan áhrifin af henni og það sem kemur á eftir skilyrðist af tilvist þess sem kemur á undan. Sól sem ekki er til stafar engum geislum, á hafi sem á sér enga tilvist rísa engar öldur, úr skýi sem ekki er til fellur ekki regn, tré sem ekki er til ber engan ávöxt, maður sem ekki er til birtir ekkert og hefur engin áhrif. Svo fremi áhrif tilverunnar eru sýnileg sanna þau að til er höfundur þeirra áhrifa.
Leið þér í huga vald og yfirráð Krists sem hafa haldist allt fram á þennan dag. Hvernig fengju svo mikilfengleg yfirráð staðist ef enginn væri yfirbjóðandinn? Hvernig gætu slíkar bylgjur risið á hafi sem ekki er til? Hvernig gæti svo himneskur andvari borist frá garði sem ekki er til? Gef gaum að því að um leið og einhverjir efnisþættir, hvort sem þeir tilheyra steinefni, plöntu eða dýri, sundrast og samsetning þeirra leysist upp, hverfa öll áhrif, virkni og ummerki þeirra. En það gerist ekki með anda mannsins og veruleika hans sem heldur áfram að opinbera tákn sín, beita áhrifum þeirra og viðhalda þeim jafnvel eftir upplausn hinna ýmsu hluta líkamans.
Þessi spurning er afar margslungin. Íhuga hana gaumgæfilega. Við færum fram skynsamlega sönnun til þess að hinir skynsömu geti metið hana af yfirvegun og sanngirni. En ef mannsandinn gleðst og laðast að ríki Guðs, ef innra augað opnast, andlega eyrað leggur við hlustir og andlegar tilfinningar ná yfirhöndinni verður ódauðleiki andans jafn augljós og sólin og himnesk tíðindi og vísbendingar munu umlykja þann anda.
Á morgun ætlum við að færa fram aðrar sannanir.
– 61 –
Ódauðleiki andans (2)
Í gær ræddum við ódauðleika andans. Vita skalt þú að áhrif og skynjun mannsandans, starfsemi hans og skilningur er með tvennum hætti. Að einu leyti starfar andi mannsins með milligöngu líkama og líffæra. Þannig sér hann með auganu, heyrir með eyranu, talar með tungunni. Þetta eru verk andans og athafnir mannlegs veruleika, en þær eiga sér stað fyrir milligöngu þeirra tækja sem líkaminn hefur yfir að ráða. Þannig er það andi mannsins sem sér, en með hjálp augans, andinn sem heyrir, en með aðstoð eyrans, andinn sem talar, en með atbeina tungunnar.
Að öðru leyti starfar mannsandinn og hefur áhrif án milligöngu líkamans og líffæra hans. Í svefni sér hann til dæmis án augna, heyrir án eyrna, talar án tungu, hleypur án fóta – hann beitir í stuttu máli öllum þessum kröftum án þess að líkaminn og líffæri hans komi þar við sögu. Hversu oft gerist það ekki að þegar líkaminn sefur dreymir andi hans draum sem rætist til fulls að tveimur árum liðnum! Hversu oft gerist það líka ekki að andinn leysir vandamál í heimi draumsins sem hann fékk ekki leyst í vöku. Vakandi auga sér aðeins skammt frá sér en í ríki draumsins gæti sá sem er í austri séð vestrið. Vakandi sér hann sér aðeins líðandi stund en í svefni lítur hann framtíðina. Vakandi fer hann með hraðskreiðasta fararæki í mesta lagi 120 km á klukkustund, í svefni fer hann frá austri til vesturs á örskotsstund. Því að andinn ferðast með tvenns konar hætti: andlega án farartækis, eða efnislega – eins og fuglinn fljúgandi eða í farartæki á jörðu niðri.
Sofandi líkami er líkt og andvana, hann sér ekki, heyrir hvorki né finnur til og hefur hvorki vitund né skynjun – kraftar hans eru í dái. Samt lifir ekki aðeins andi hans heldur hefur meiri áhrif, svífur til hærri hæða og hefur dýpri skilning. Að halda því fram að andinn verði eyðingu að bráð þegar líkaminn deyr jafngildir því að ímynda sér að fuglinn í búrinu farist ef búrið brotnar, þótt fuglinn hafi ekkert að óttast þótt búr hans brotni. Þessi mannlegi líkami er eins og búrið og andi hans er eins og fuglinn. Við sjáum að þessi fugl, laus úr búri sínu, svífur frjáls í heimi svefnsins. Væri búrið brotið, myndi fuglinn ekki aðeins halda lífi heldur myndi skynjun hans eflast og gleði hans margfaldast. Í raun og veru færi hann frá kvalastað til undursamlegrar paradísar, því ekki hægt að hugsa sér meiri paradís fyrir þakkláta fugla en að losna úr búrum sínum. Þess vegna hröðuðu píslarvottarnir sér á vettvang fórnarinnar, geislandi af gleði og fögnuði.
Í vöku sér auga mannsins í mesta lagi sem svarar einnar stundar fjarlægð, því með milligöngu líkamans ná áhrif andans ekki lengra, en með auga hugans sér hann Ameríku, skilur landið, er upplýstur um ástand þess og hagar málum samkvæmt því. Væri andinn hið sama og líkaminn, myndi sjón hans ekki ná lengra. Því er augljóst að andinn er annað en líkaminn, að fuglinn er annað en búrið og að kraftur og áhrif andans eflast án milligöngu líkamans. Þótt tækið verði óvirkt heldur notandi þess áfram að vera til. Þótt penninn brotni eða týnist heldur rithöfundurinn lífi og heilsu, ef hús eyðist í eldi lifir eigandinn. Þetta er meðal þeirra skynsamlegu röksemda sem sanna ódauðleika sálarinnar.
Önnur sönnun er þessi: Mannslíkaminn getur veikst eða eflst, orðið sjúkur eða heilbrigður, þreyst eða hvílst, misst hönd eða fót, orðið fyrir efnislegu tjóni, misst sjón, heyrn, mál og líkamsþrótt – í stuttu máli orðið fyrir alvarlegu tjóni. En þrátt fyrir þetta er andinn áfram í sínu upprunalega ástandi, heldur sinni andlegu skynjun og skaðast hvorki né haggast. En þegar meiri háttar veikindi eða ógæfa þjaka líkamann fer hann varhluta af náð andans líkt og spegill sem brotnar eða hylst dusti og getur ekki lengur endurspeglað ljós sólarinnar eða opinberað hylli hennar.
Við höfum þegar útskýrt að andi mannsins dvelur ekki í líkamanum, því hann er frjáls og helgaður frá framför og afturför, sem eru meðal eiginleika efnislegra líkama. Tengsl andans við líkamann eru öllu fremur eins og tengsl sólarinnar við spegilinn. Í stuttu máli er andi mannsins alltaf í sama ástandi. Hann veikist ekki þótt líkaminn veikist og heilsa líkamans gerir andann ekki heilsuhraustan. Hann missir ekki mátt, verður ekki vanhæfur, vesæll né niðurlægður, smækkar hvorki né rýrnar – það er að segja, hann bíður hvorki tjón né skaða af vanmætti líkamans, jafnvel þótt líkaminn tærist upp eða missi hendur, fætur og tungu, eða sjón og heyrn skaðist. Því augljóst og fullsannað að andinn er annað en líkaminn og að ódauðleiki hans er ekki háður honum heldur er hann hæstráðandi í heimi líkamans og máttur hans og áhrif eru jafn skýr og sýnileg og sólarljósið í speglinum. En ef spegillinn brotnar eða hylst dusti fær hann ekki notið geisla sólarinnar.
– 62 –
Takmarkalaus fullkomnun tilverunnar og framfarir sálarinnar í næsta heimi
Vita mátt þú að stig tilverunnar eru endanleg – stig þjónustu, spámennsku og guðdóms – en fullkomnar eigindir Guðs og sköpunarverksins eru takmarkalausar. Ef þú íhugar málið af kostgæfni sérð þú að jafnvel hið ytra er fullkomnun tilverunnar án takmarka, því útilokað er að finna eitthvað sem er svo fullkomið að ekki sé hægt að hugsa sér eitthvað sem tekur því fram. Til dæmis er ekki að finna rúbín í steinaríkinu, rós í jurtaríkinu, eða næturgala í dýraríkinu að ekki sé hægt að hugsa sér eitthvað sömu tegundar sem tekur þessu fram.
Náð Guðs er takmarkalaus og hið sama gildir um fullkomnun mannsins. Gæti einhver veruleiki náð tindi fullkomnunar yrði hann óháður Guði og stundlegur veruleiki fengi þannig stöðu nauðsynlegs veruleika. En öllum sköpuðum verundum eru sett ákveðin mörk sem ekki verða yfirstigin. Þannig getur sá sem er á stigi þjónustu aldrei náð stöðu guðlegs drottinvalds hversu mjög sem hann þróast og fullkomnast. Hið sama gildir um allt sem skapað er. Hversu fullkomin sem steindin verður fær hún aldrei mátt vaxtarins í ríki steinanna. Hversu mjög sem þetta blóm dafnar og þróast, öðlast það aldrei mátt skynjunar meðan það tilheyrir jurtaríkinu. Silfrið fær aldrei sjón eða heyrn, það getur í mesta lagi þróast á sínu eigin sviði og orðið fullkominn málmur, en nær aldrei að vaxa eða skynja og getur aldrei orðið lifandi. Það getur aðeins þróast á sínu eigin stigi.
Pétur getur til dæmis ekki orðið Kristur. Hann getur í mesta lagi þroskast stöðugt á stigi þjónustu því að sérhver veruleiki í tilverunni getur tekið framförum. Líkt og andi mannsins lifir að eilífu eftir að hann varpar af sér þessum efnislega ham getur hann án efa, eins og allt annað í tilverunni, þroskast og tekið framförum. Þess vegna getum við beðið fyrir þroska framliðinna sálna, að þær hljóti fyrirgefningu og þiggi gjafir Guðs, hylli Hans og náð. Því er í bænum Bahá’u’lláh beðið um fyrirgefningu Guðs og miskunn með þeim sem horfnir eru til næsta heims. Líkt og mennirnir hafa þörf fyrir Guð í þessum heimi, þarfnast þeir Hans einnig í hinum komandi. Mennirnir eru alltaf þurfandi og Guð er fullkomlega óháður þeim, bæði í þessum heimi og þeim sem kemur.
Auðlegð næsta heims felst í nálægð við Guð. Því er víst að þeim sem njóta návistar við fótskör Guð er heimilt að miðla málum og að sú milliganga er Guði þóknanleg. En milliganga í næsta heimi ber engan svip af milligöngu í þessum heimi. Það er gjörólíkur veruleiki og verður ekki tjáður með orðum.
Kjósi auðugur maður að ánafna hinum fátæku og þurfandi hluta auðæfa sinna þegar hann deyr gæti hann með slíkri gerð hlotið fyrirgefningu Guðs og hún stuðlar að þroska hans og framförum í ríki Hins almiskunnsama.
Sömuleiðis leggja foreldrar á sig mikið erfiði og fórnir í þágu barna sinna en þegar börnin komast til þroska eru foreldrarnir oft horfnir á vit næsta heims. Afar sjaldan fá móðir og faðir í þessum heimi endurgjald sársaukans og erfiðisins sem þau þoldu vegna barna sinna. Því verða börnin að umbuna þeim fyrir sársaukann og erfiðið með ástríkum framlögum og góðum gerðum í þeirra nafni og biðja þess að sálir þeirra hljóti fyrirgefningu og aflausn. Þú ættir því vegna þeirrar ástar og gæsku sem faðir þinn sýndi þér að gefa hinum fátæku í hans nafni af fyllstu auðmýkt og einlægni, biðja um fyrirgefningu Guðs og leita óþrotlegrar náðar Hans.
Það er jafnvel mögulegt að þeir sem hafa dáið í synd og vantrú umbreytist og hljóti fyrirgefningu Guðs. Það gerist sakir náðar Guðs en ekki réttlætis Hans, því náð felst í því að gefa án verðskuldunar en réttlæti í að gefa það sem er verðskuldað. Við getum beðið fyrir þessum sálum hér í heimi og það getum við einnig í hinum næsta, sem er ríki Guðs. Skapaði Guð ekki alla menn í þeim heimi? Þeir hljóta því einnig að geta þroskast þar og tekið framförum. Og rétt eins og þeir geta leitað uppljómunar hér í heimi með bæn, geta þeir beðið þar um fyrirgefningu og leitað uppljómunar með bæn og sárbeiðni. Líkt og sálir geta þróast í þessum heimi með bænum eða fyrir bænastað heilagra sálna, geta þær þroskast eftir dauðann með sínum eigin bænum, einkum ef þær njóta milligöngu hinna heilögu opinberenda.
– 63 –
Þróun allra verunda innan síns eigin stigs
Vita skalt þú að ekkert í tilverunni stendur kyrrt – allt er á hreyfingu. Allt sem skapað er vex eða smækkar, þróast frá eiveru til tilveru eða hverfur frá tilveru til eiveru. Eitt sinn var þetta blóm, þessi hýasinta, ekki til en síðan óx hún og dafnaði en er núna að visna og verða að engu. Þetta nefnist eðlileg eða náttúruleg hreyfing og hún er sameiginleg öllu sem skapað er og ein af eðlislægum þörfum þess, rétt eins og það er eðlislæg þörf elds að loga.
Ljóst er af þessu að hreyfing, hvort sem henni miðar fram eða aftur, er tilverunni nauðsyn. Þegar mannsandinn heldur áfram eftir dauðann, hlýtur hann annaðhvort að þróast eða honum hnignar, og í næsta heimi er stöðnun sama og hnignun. En mannsandinn fer aldrei yfir þau mörk sem honum eru sett og hann þróast aðeins innan þeirra marka. Hversu mjög sem anda og veruleika Péturs miðar fram nær hann aldrei sama stigi og Kristur, heldur þróast hann innan sinna eigin eðlislægu marka.
Þannig sérð þú að hversu mjög sem þessi steind þróast verður framvindan innan hennar eigin stigs – þessi kristall kemst aldrei á það stig að hann fái sjón. Hversu mjög sem tunglið breytist eða þróast verður það aldrei skínandi sól. Jarðnánd þess og jarðfirð verða alltaf innan settra marka. Og hversu mjög sem postularnir hefðu þróast hefðu þeir aldrei orðið Kristur. Það er rétt að kolamoli getur orðið að demanti en hvorutveggja eru steinefni og frumefni þeirra hin sömu.
– 64 –
Staða mannsins og þróun eftir dauðann
Þegar við skoðum allt sem skapað er glöggum augum sjáum við að það tilheyrir þremur meginflokkum: steinaríkinu, jurtaríkinu og dýraríkinu. Hvert þessara þriggja ríkja hefur sínar eigin tegundir. Maðurinn er æðstur þeirra því hann sameinar fullkomnun þeirra allra – það er að segja, hann hefur efnislegan líkama en býr jafnframt yfir mætti vaxtar og skynjunar. Auk fullkominna eiginleika steina-, jurta- og dýraríkisins býr hann einnig yfir ákveðinni fullkomnun sem hvergi er annars staðar að finna í sköpuninni, það er að segja fullkomnun hugans. Þannig er maðurinn göfugastur alls sem skapað er.
Maðurinn er á lokastigi hins efnislega og byrjunarstigi hins andlega. Það er að segja, hann er á mörkum fullkomnunar og ófullkomnunar. Hann er við ysta jaðar myrkursins og í upphafi ljóssins. Þess vegna er sagt að staða mannsins sé í lok nætur og byrjun dags, sem þýðir að hann umlykur öll stig ófullkomleikans og getur búið yfir öllum stigum fullkomnunar. Í honum eru bæði dýr og engill. Hlutverk fræðarans er að þjálfa mannlegar sálir að því marki að engilbjartar hliðar hans geti sigrað hinar dýrslegu. Ef guðlegir kraftar, sem jafngilda fullkomnun, sigrast á djöfullegu afli mannsins, sem eru alger ófullkomnun, getur hann orðið göfugastur allra skepna, en gerist hið gagnstæða verður hann auvirðilegastur allra verunda. Þess vegna er hann við endimörk ófullkomnunar og upphaf fullkomnunar.
Í engri annarri tegund í tilverunni er hægt að finna slíkan mismun, auðkenni, andstæður og mótsagnir og í manninum. Til dæmis var ljósi Guðdómsins úthellt yfir manninn líkt og gerðist með Krist – sjá hve dýrlegur og göfugur maðurinn er! Á sama tíma dýrkar hann steina, tré og leirklumpa – sjá hve vesall hann er! að hann skuli dýrkar hið lægsta í tilverunni, dauða steina og moldarköggla, fjöll, skóga og tré! Er hægt að ímynda sér meiri vesöld en þá að maðurinn tilbiðji það lægsta í tilverunni?
Þar að auki er þekking mannlegur eiginleiki en það er fáfræðin líka. Sannsögli er mannlegur eiginleiki en lygin einnig. Hið sama gildir um traustverðleika og svik, réttlæti og harðstjórn, og svo framvegis. Í stuttu máli býr í manninum sérhver fullkomnun og dyggð og jafnframt sérhver löstur. Gæt einnig að muninum sem er á meðlimum mannkyns. Kristur var í mannsmynd og Kaífas líka. Móse var maður og Faraó líka; Abel var maður og það var Kain líka. Bahá’u’lláh var maður og líka Yaḥyá. Þess vegna er sagt að maðurinn sé æðsta tákn Guðs – það er að segja, hann er bók sköpunarinnar því að alla leyndardóma alheimsins er að finna í honum. Kæmist hann í skugga Hins sanna fræðara og fengi rétta leiðsögn, yrðir hann fegurstur allra eðalsteina, ljós allra ljósa og andi allra anda. Hann yrði miðdepill guðlegrar blessunar, uppspretta andlegra eiginleika, dagsbrún hins himneska ljóss og þiggjandi guðlegs innblásturs. Væri hann hins vegar sviptur þessari uppfræðslu, yrði hann holdtekja satanískra eiginleika, ímynd dýrslegra lasta og uppspretta allrar kúgunar og svartnættis.
Þetta er viskan sem felst í birtingu spámannanna: að þeir uppfræði mannkynið, að þessi kolamoli verði að demanti og þetta gróðurlausa tré dafni og beri ljúffengustu ávexti. Og eftir að göfugustu stöðu í heimi mannkynsins hefur verið náð, verða frekari framfarir aðeins á stigi fullkomnunar en ekki stöðu, því stigin eru endanleg en guðleg fullkomnun takmarkalaus.
Bæði fyrir og eftir að mannssálin skilst frá þessum jarðneska líkama, tekur hún framförum í fullkomnun en ekki í stöðu. Framgangur alls sem skapað er nær hámarki í hinum fullkomna manni og ekkert er til sem er honum æðra. Maðurinn, sem hefur náð hinni mannlegu stöðu, getur aðeins þróast í fullkomnun en ekki í stöðu, því hann hefur ekki aðgang að neinni stöðu sem er æðri hinum fullkomna manni. Hann getur eingöngu þróast innan mannlegu stöðunnar, því mannleg fullkomnun er takmarkalaus. Hversu lærður sem maðurinn er, svo dæmi sé nefnt, er alltaf hægt að ímynda sér einhvern lærðari.
Og þar sem fullkomnun mannsins er takmarkalaus, getur hann einnig tekið framförum í fullkomnun eftir uppstigninguna úr þessum heimi.
– 65 –
Trú og gerðir
Spurning: Í Kitáb-i-Aqdas segir: „…og sá sem vanrækir hana fer villur vegar, jafnvel þótt hann sé höfundur allra réttlátra gerða.“ Hvað merkja þessi helgu orð?
Svar: Merking þessarar blessuðu orða er að grundvöllur velgengni og hjálpræðis er viðurkenning á Guði og að góðar gerðir, sem eru ávextir trúar, spretta af þessari viðurkenningu.
Þegar þessi viðurkenning er ekki fyrir hendi hylst maðurinn Guði og þá hafa góðar gerðir hans hvorki full eða né æskileg áhrif. Þessi helgu orð þýða ekki að þeir sem hyljast Guði séu allir jafnir, hvort sem þeir gera gott eða fremja illt. Þau þýða aðeins að grundvöllurinn er viðurkenning á Guði og að góðar gerðir spretta af þessari þekkingu. Engu að síður er ljóst að á meðal þeirra sem hyljast Guði er munur á þeim sem láta gott af sér leiða og syndurum og illvirkjum. Því að hin hulda sál sem er góð að eðlisfari og innræti verðskuldar fyrirgefningu Guðs, en syndari sem hylst Guði og er slæmur að eðlisfari og innræti er sviptur gjöfum og hylli Guðs. Í þessu felst munurinn.
Þessi blessuðu orð þýða því að góðar gerðir einar saman án viðurkenningar á Guði geta ekki leitt til eilífrar endurlausnar, ævarandi árangurs og hjálpræðis og inngöngu í ríki Guðs.
– 66 –
Líf skynigæddrar sálar eftir líkamsdauðann
Spurning: Þegar líkaminn deyr og andi hans stígur upp hverjar eru þarfir hinnar skynigæddu sálar? Gerum ráð fyrir að sálir sem fá gjafir heilags anda öðlist sanna tilveru og eilíft líf. En hvað verður um þær skynigæddu sálir sem eru huldar Guði?
Svar: Sumir telja að líkaminn sé inntak alls og lifi af sjálfum sér og andinn sé tilfallandi sem takmarkist við efnislegan líkama. Sannleikurinn er þó sá að líkaminn lifir fyrir tilstilli hinnar skynigæddu sálar. Þegar það sem til fellur, líkaminn sjálfur, eyðist verður andi hans eftir.
Hin skynigædda sál, eða mannsandinn, fer ekki inn í líkamann og er ekki sama eðlis og hann, það er að segja hún dvelur ekki í honum. Því að innganga og eðlislægni eru einkenni líkamans og hin skynigædda sál er yfir slík einkenni hafin. Sálin fór aldrei inn í þennan líkama í upphafi og þarf því ekki að finna sér annan samastað þegar hún yfirgefur hann. Nei, tengsl andans við líkamann eru eins og tengsl ljóssins í þessum lampa við spegilinn. Sé spegillinn hreinn og fáður birtir hann ljósið frá lampanum. En sé spegillinn brotinn eða þakinn ryki endurspeglar hann ekki ljósið.
Í upphafi steig hin skynigædda sál – mannsandinn – hvorki niður í þennan líkama né lifði í gegnum hann. Hún þurfti því ekki á einhverju öðru að halda eftir að efnislegi líkaminn leysist upp. Þvert á móti. Það er skynigædda sálin sem viðheldur líkamanum. Hún er frá upphafi gædd einstaklingseðli og fær það ekki fyrir tilstilli líkamans. Í mesta lagi er hægt að segja að einstaklingseðli og einkenni hinnar skynigæddu sálar styrkist í þessum heimi og að sálin geti annaðhvort þroskast og fullkomnast eða dvalið áfram í afgrunni fáfræðinnar, hulin Guði og svipt sýn á táknum Guðs.
Spurning: Með hvaða hætti getur andi mannsins – skynigædda sálin – þroskast eftir að hún hverfur frá þessum jarðneska heimi?
Svar: Framfarir mannsandans í heimi Guðs eftir að tengsl hans við líkamann rofna verða annaðhvort eingöngu fyrir náð og hylli Drottins, eða með fyrirbæn og milligöngu annarra mannlegra sálna eða mikilsverðum framlögum og góðgerðarstarfi sem unnið er í nafni hennar.
Spurning: Hvað verður um börn sem deyja áður en þau ná fullorðinsaldri eða áður en þau fæðast í þennan heim?
Svar: Þessi börn dvelja í skugga guðlegrar forsjónar og þar sem þau hafa ekki drýgt neina synd og eru óflekkuð af heimi náttúrunnar, verða þau birtingarmyndir guðlegrar hylli og gjafa og augu guðlegrar miskunnar beinast að þeim.
– 67 –
Eilíft líf og innganga í Guðsríki
Þú hefur spurt um eilíft líf og inngöngu í ríki Guðs. Vísað er til Guðsríkis hið ytra til sem „himnaríkis“ en þetta er orð og líking sem ekki byggir á staðreynd eða veruleika. Því að ríki Guðs er ekki efnislegur staður heldur er það helgað ofar stund og stað. Það er andlegt ríki, guðdómleg veröld og fullveldi almáttugs Drottins. Það er hafið yfir líkamlegt ástand, yfir allt sem jarðneskt er og helgað frá fánýtum getgátum manna. Því að líkaminn er staðbundinn en það er andinn ekki. Líkaminn er umlukinn tíma og rúmi en hvorki hugurinn né sálin.
Gæt að því að líkami mannsins dvelur í takmörkuðu rými og spannar sjálfur ekki meira en þrjár álnir í jörðu. En andi og hugur mannsins ferðast um öll lönd og héruð og jafnvel endalausa víðáttu himinsins. Andinn spannar alla tilveruna. Hann gerir uppgötvanir á sviðunum hið efra og í óravíddum alheimsins. Ástæðan er sú að andinn á sér engan stað. Hann er staðlaus veruleiki og fyrir honum er jörð og himinn eitt og hið sama, því hann gerir uppgötvanir á þeim báðum. En líkaminn á sér takmarkað rými og þekkir ekki það sem er fyrir handan.
Lífið er af tvennum toga: líkamlegt og andlegt. Líf líkamans er efnislegt, en líf andans er himnesk tilvera sem felst í náð hins guðdómlega anda og endurlífgast af anda heilags anda. Þótt efnislegt líf eigi sér tilvist er það dauði og eivera í augum heilagra og andlega sinnaðra sálna. Þannig á maðurinn sér tilveru og líka þessi steinmoli, en hvílíkur munur er ekki á tilvist manns og steins! Þótt steinninn eigi sér tilvist er hann ekkert í samanburði við tilveru mannsins.
Það sem átt er við með „eilífa lífinu“ er að þiggja náð heilags anda, líkt og blómið nýtur gjafa og andvara vorsins. Gæt að því að í upphafi var þetta blóm hluti af steinaríkinu en þegar vorið kemur, regnið fellur og sólin skín og vermir, fær það nýtt líf og birtist í krafti og fyllingu lífsins, fagurt og ilmandi. Í samanburði við þetta síðara líf var fyrra líf blómsins dauðanum líkast.
Merking þessara orða er að lífið í ríki Guðs er líf andans. Það er eilíft og helgað ofar stað og stund, líkt og andi mannsins sem er staðlaus. Því þótt þú leitaðir um allan mannslíkamann fyndir þú andanum hvergi stað. Andinn er algerlega staðlaus og óefnislegur, en hann tengist líkamanum eins og sólin þessum spegli. Sólin er ekki í speglinum og á sér ekki samastað innan hans, en hún tengist honum. Á sama hátt er ríki Guðs helgað ofar öllu sem hægt er að sjá með auganu eða skynja með öðrum skilningarvitum, svo sem heyrn, lykt, bragði eða snertingu.
Hvar er þá hægt að finna hugann sem í manninum býr og hafinn er yfir allan vafa? Þótt þú rannsakaðir líkama mannsins með sjón þinni, heyrn eða öðrum skynfærum, finnur þú hann ekki þótt tilvist hans sé ljós og hafin yfir allan vafa. Hugurinn á sér því engan stað þótt hann tengist heilanum. Hið sama á einnig við um ríki Guðs. Ástin á sér þannig engan stað í líkamanum en tengist hjartanu. Og á sama hátt á ríki Guðs sér engan stað en tengist mannlegum veruleika.
Innganga í Guðsríki gerist með ást Guðs, með andlegri lausn, með heilagleika, sannsögli og hreinleika, með staðfestu og trúmennsku og með sjálfsfórn.
Þessar skýringar leiða í ljós að maðurinn er ódauðlegur og eilífur. Þeir sem trúa á Guð, varðveita ást Hans og hafa öðlast fullvissu, njóta þess blessaða lífs sem við köllum eilíft, en þeir sem hyljast Guði eiga sér líf en lifa samt í myrkri og líf þeirra er tilvistarleysi í samanburði við líf átrúendanna.
Þannig er augað lifandi og fingurnöglin líka, en líf hennar er eivera í samanburði við augað. Steinninn og maðurinn eru til, en í samanburði við manninn á steinninn sér enga verund. Því að þegar maðurinn deyr og líkami hans leysist upp og eyðist verður hann eins og steinninn, jörðin og frumefni hennar. Því er ljóst að jafnvel þótt steinninn sé til á hann sér ekki líf í samanburði við manninn.
Hið sama gildir um þær sálir sem hyljast Guði. Þótt þær séu til bæði í þessum heimi og þeim sem kemur eiga þær sér enga tilvist og gleymast í samanburði við helgaða tilvist barna hins guðlega ríkis.
– 68 –
Tvenns konar forlög
Spurning: Eru forlögin sem nefnd eru í helgum ritum óumflýjanleg? Ef svo er, hvaða gagn eða ávinningur er af því að reyna að umflýja þau?
Svar: Forlög eru af tvennum toga: Önnur eru óumflýjanleg en hin eru skilyrt eða yfirvofandi eins og sagt er. Óumflýjanlegum forlögum verður ekki breytt, en skilyrt forlög eru breytingum háð. Þannig eru það óumflýjanleg örlög þessa lampa að eldsneyti hans gengur til þurrðar. Ljóst er að á honum mun að lokum slokkna og ógjörningur er að breyta því, því slík forlög verða ekki umflúin. Sömuleiðis skerðist sá kraftur sem líkama mannsins er áskapaður og það leiðir óhjákvæmilega til upplausnar hans. Hið sama gildir um olíuna á þessum lampa. Þegar hún gengur til þurrðar mun vissulega slokkna á lampanum.
En skilyrtum forlögum má líkja við eftirfarandi: Enn er olía eftir á lampanum en sterk vindhviða slekkur ljós hans. Þessi forlög eru skilyrt. Ráðlegt er að forðast þau, verjast þeim, sýna varkárni og skynsemi. En óumflýjanleg forlög eru eins og eyðing olíunnar á lampanum, þeim verður hvorki breytt né seinkað. Þau hljóta að fullnast og ljósið á lampanum að slokkna.
– 69 –
Áhrif stjarnanna og gagnkvæm tengsl alls sem er
Spurning: Hafa stjörnur himinsins andleg áhrif á sálir manna eða ekki?
Svar: Vissir himinhnettir hafa efnisleg áhrif á jörðina og verundir hennar. Þau áhrif eru augljós og þarfnast engra skýringa. Gef gaum að sólinni sem nærir jörðina og allar verundir hennar með atbeina guðlegrar náðar. Ef ekki væri fyrir ljós og hita sólarinnar myndi allt á jörðu líða undir lok.
Hvað andlegu áhrifin varðar gæti virst undarlegt að þessar stjörnur hafi slík áhrif á veröld mannsins, en ef þú grannskoðar málið kæmi það þér ekki mjög á óvart. Ég á samt ekki við að niðurstöður gömlu stjörnuspekinganna af hreyfingum stjarna og pláneta hafi verið réttar, því þær voru hugarburður einn sem átti upptök meðal presta Egypta, Assýringa og Kaldeumanna, eða öllu fremur í fánýtum getgátum hindúa og hjátrú Grikkja, Rómverja og annarra stjörnudýrkenda. Það sem ég á við er að þessi takmarkalausi alheimur er eins og mannslíkaminn og að allir hlutar hans tengjast hver öðrum á fullkominn hátt. Það er að segja, á sama hátt og gagnkvæm tenging og styrking eru á milli lima og líffæra mannslíkamans, þannig tengjast einstakir hlutar þessa endalausa alheims og hafa andleg og efnisleg áhrif hver á annan. Sjónin hefur til dæmis áhrif á allan líkamann, eyrað heyrir og allir limir líkamans hreyfast. Á þessu leikur enginn vafi, því öll tilveran er einnig eins og lifandi persóna. Þannig hafa tengsl hinna ýmsu hluta alheimsins gagnkvæm áhrif, hvort sem þau eru efnisleg eða andleg.
Fyrir þá sem afneita andlegum áhrifum hins efnislegra nefnum við þetta litla dæmi: Fagrir hljómar, undursamlegir tónar og ómþýðir söngvar hafa áhrif á loftið, því hljóð er bylgjuhreyfing í loftinu sem hljóðhimnan nemur og veldur því að viðkomandi heyrir. Íhuga nú hvernig titringur í lofti, sem telst tilviljun ein, heillar og gleður anda mannsins, snertir hjarta hans, fær hann til að hlæja og gráta og getur jafnvel fengið hann til að leggja líf sitt í hættu. Hugleið þá tengslin á milli anda mannsins og bylgjuhreyfinga í lofti, að hið síðarnefnda geti breytt sálarástandi hans og gagntekið hann svo mjög að hann missi alla ró og þolinmæði. Íhuga hversu undarlegt þetta er, því ekkert kemur frá söngvaranum og fer inn í þann sem hlustar og samt myndast þessi sterku andlegu áhrif. Þetta nánu tengsl milli alls sem skapað er hljóta því að hafa andleg áhrif og afleiðingar.
Þess var áður getið að hinir ýmsu líkamshlutar hafa áhrif hver á annan. Til dæmis sér augað og hjartað verður snortið. Eyrað heyrir og andinn hrífst. Hjartað finnur frið, hugsunin víkkar og allur líkaminn finnur til vellíðunar. Þvílík tengsl og samband! Og ef slík tengsl, svo sterk andleg áhrif, greinast meðal hinna ýmsu líkamshluta mannsins, sem er aðeins ein sérstök verund af mörgum, hljóta bæði andleg og efnisleg tengsl vissulega að eiga sér stað milli óteljandi verunda alheimsins. Og þótt núverandi aðferðir okkar og vísindi geti ekki greint þessi tengsl, er tilvist þeirra engu að síður ljós og óumdeilanleg.
Að öllu samanlögðu eru allar verundir, hvort sem er í alheiminum eða á jörðunni, tengdar hver annarri í samræmi við fullkomna visku Guðs og hafa áhrif hver á aðra. Ef svo væri ekki yrði röskun á alltumlykjandi skipulagi og allsherjar fyrirkomulagi tilverunnar. Og þar sem allt sem skapað er tengist með fullkomnum hætti, er skipulag þeirra og fyrirkomulag fullkomið.
Þetta mál verðskuldar ítarlega rannsókn og krefst mikillar athygli og djúprar ígrundunar.
– 70 –
Frjáls vilji og takmörk hans
Spurning: Er maðurinn frjáls og óheftur í öllum gerðum sínum eða stjórnast þær af nauðung og takmörkunum?
Svar: Þetta er ein mikilvægasta spurningin sem Guðdóminn varðar og hin torræðasta. Ef Guð leyfir munum við útskýra þetta mál ítarlega yfir hádegisverði. Nú skal aðeins stuttlega á það drepið.
Ákveðin mál eru háð frjálsum vilja mannsins, svo sem réttlæti og sanngirni, eða óréttlæti og rangsleitni – með öðrum orðum hvort valið stendur milli góðs eða ills. Það er augljóst að vilji mannsins hefur þar mikla þýðingu. En í vissum efnum stjórnast líf mannsins af nauðung sem hann hefur ekki vald á, svo sem svefni, dauða, veikindum, vanheilsu, ógæfu og efnislegu tjóni. Þetta er hvorki á valdi mannsins né ábyrgð hans, því í þessum efnum er hann þolandi. En hann hefur frelsi til að gera gott eða illt og þar ræður hans eigin vilji.
Hann getur hann til dæmis varið dögum sínum í að vegsama Guðs eða tekið sér eitthvað annað fyrir hendur ef hann kýs. Hann getur kveikt á kerti hjarta síns með loga ástar Guðs og orðið velunnari heimsins eða óvinur alls mannkyns og elskað það sem er af veröldinni. Hann getur valið milli réttlætis og ranglætis. Allar þessar athafnir lúta hans eigin stjórn og því ber hann ábyrgð á þeim.
En þá vaknar önnur spurning. Fullkomið hjálparleysi og örbirgð einkennir ástand mannsins. Allur máttur og vald tilheyrir Guði einum og upphafning mannsins eða niðurlæging er háð vilja og áformi Hins hæsta. Því segir í guðspjallinu að maðurinn sé eins og leirkerið sem spyr leirkerasmiðinn: „Hví gerðir þú mig svo?“ Nú hefur smíðisgripurinn ekki rétt til að álasa smiðnum og segja: „Hvers vegna gerðir þú mig ekki að viðhafnarkeri sem gengur manna á milli?“ Merking þessara orða er sú að sálirnar hafa misjafna stöðu. Það sem lægst er sett í tilverunni eins og steinefnið hefur engan rétt til að mótmæla og sega: „Ó Guð, hví neitaðir Þú mér um fullkomna eiginleika plöntunnar?“ Sömuleiðis hefur plantan engan rétt til að mótmæla því að hafa verið svipt eiginleikum dýrsins og ríki þess. Og á sama hátt sæmir dýrinu ekki að kvarta yfir skorti á mannlegri fullkomnun. Nei, allt er þetta fullkomið á sínu eigin sviði og verður að leita fullkominna eiginleika þess stigs. Eins og við höfum áður sagt hefur það sem skipar lægri sess hvorki rétt né hæfni til að sækjast eftir stöðu og fullkomnun þess sem er því ofar og verður að taka framförum á sínu eigin sviði.
Auk þess skilyrðist kyrrð mannsins eða hreyfing af aðstoð Guðs. Berist honum ekki sú aðstoð getur hann hvorki gert gott né illt. En þegar maðurinn fær tilvist með aðstoð allsráðandi Drottins getur hann bæði gert gott og illt. Og yrði sú aðstoð ekki veitt væri hann hjálparvana með öllu. Þess vegna nefna helgiritin hjálp Guðs og fulltingi. Þessu ástandi má líkja við skip sem siglir fyrir vindi eða gufuafli. Ef þessa afls nyti ekki við gæti skipið ekki siglt. Engu að síður knýr gufuaflið skipið í þá átt sem því er stýrt. Sé stýrt í austurátt siglir skipið í austur og sé stýrt til vesturs siglir það í vesturátt. Skipið veldur ekki þessari hreyfingu sjálft heldur vindurinn eða gufuaflið.
Á sama hátt eru allar gerðir mannsins háðar afli guðlegs fulltingis, en valið milli góðs og ills er á hans eigin valdi. Þessu má líkja við konung sem skipar einstakling í stöðu landsstjóra, veitir honum fullar heimildir og gerir honum grein fyrir lögum um rétt og rangt. Geri landsstjórinn sig sekan um ranglæti, jafnvel þótt hann hafi konunglegt umboð, myndi konungurinn ekki láta það óátalið. Og sýndi landsstjórinn réttlæti, hefur hann sömuleiðis til þess konunglegt umboð og konungurinn léti sér það vel líka.
Það sem átt er við er að valið milli góðs og ills stendur í valdi mannsins, en hann er undir öllum kringumstæðum háður lífsstyrkjandi fulltingi guðlegrar forsjónar. Vald Guðs er að sönnu mikið og öllu er haldið föngnu í greipum máttar Hans. Þjónninn getur ekkert gert af vilja sínum einum saman, Guð er almáttugur og alvoldugur og veitir allri sköpuninni fulltingi sitt.
Þessari spurningu hefur verið svarað með skýrum hætti.
– 71 –
Andleg reynsla
Spurning: Sumir trúa því að þeir verði fyrir andlegri reynslu og eigi samræður við anda. Hvernig er þessu varið?
Svar: Andleg reynsla er af tvennum toga: Önnur sem vísað er til almennt meðal manna er einskær ímyndun, en hin felst í sönnum andlegum vitrunum á borð við opinberanir Jesaja, Jeremía og Jóhannesar.
Hugarafl mannsins getur af sér hugmyndir sem eru af tvennu tagi. Annars vegar eru traustar og sannar hugmyndir sem verða að veruleika með krafti viljans, þar á meðal rétt skipan hlutanna, skynsamlegar skoðanir, vísindauppgötvanir og tæknilegar uppfinningar. Hins vegar eru falshugmyndir og tilhæfulausar ímyndanir, sem eiga sér enga stoð í veruleikanum og skila engu. Þær rísa og hníga eins og öldur á hafi blekkinga og hverfa eins og fánýtir draumar.
Að sama skapi er andleg reynsla og upplifun tvenns konar. Önnur felst í sýnum spámannanna og andlegum upplifunum þeirra sem Guð hefur útvalið. Spámannlegar vitranir eru ekki draumar heldur raunsannar andlegar upplýsingar. Þegar þeir segja: „Ég sá einhvern í slíkri mynd og sagði þessi orð, og hann svaraði mér þannig“, þá á þessi vitrun sér stað í vöku en ekki í svefni. Hún er andleg uppgötvun sem birtist í formi sýnar.
Hin tegund andlegrar upplifunar er einskær blekking, en þessar blekkingar taka á sig svo áþreifanlega mynd í huganum að margt óbrotið og einfalt fólk ímyndar sér að þær séu raunverulegar. Augljós sönnun þess er að engin áþreifanleg niðurstaða verður nokkru sinni af þessum meintu andlegu vitrunum. Nei, þær eru aðeins sögusagnir og skáldskapur.
Vit því með vissu að mannlegur veruleiki umlykur veruleika allra hluta og uppgötvar raunverulegt eðli þeirra, eiginleika og leyndardóma. Til dæmis hefur veruleiki mannsins uppgötvað allt sem lýtur að handverki, uppfinningum, vísindum og lærdómsgreinum. Áður var allt þetta hulinn leyndardómur, en veruleiki mannsins ljóstraði honum upp smám saman og flutti af sviði hins ósýnilega til hins sýnilega. Því er augljóst að veruleiki mannsins umlykur alla hluta. Hann er til að mynda í Evrópu og uppgötvar Ameríku, hann er á jörðu og gerir uppgötvanir á himnum. Hann afhjúpar leyndardóma allra hluta og skilur veruleika allra verunda. Þessar sönnu uppljóstranir á sviði hins raunverulega svipar til sýna og vitrana – sem felast í andlegum skilningi, himneskum innblæstri og nánu samneyti mannlegra anda – og því segir viðtakandinn að hann hafi séð þetta, sagt það eða heyrt.
Því er ljóst að andinn hefur öfluga skynjun sem ekki er miðlað af skilningarvitunum fimm, svo sem augum og eyrum. Og hvað varðar andlegan skilning og innri upplýsingu ríkir eining milli andlegra sálna sem er ofar öllu hugarflugi og samanburði, og þær eiga samneyti sem er ofar stund og stað. Þannig segir til dæmis í guðspjallinu að Móse og Elía hafi komið til Krists á Taborfjalli, og þá er ljóst að ekki er verið að lýsa efnislegu samneyti heldur andlegu ástandi sem hefur verið lýst sem líkamlegum samfundi.
Önnur tegund samtals og samneytis við anda er fánýt ímyndun og hrein blekking þótt virðast kunni raunveruleg. Hugur og hugsun mannsins uppgötvar stundum viss sannindi og þessi hugsun og uppgötvun skilar ákveðnum árangri og ávinningi. Slíkar hugsanir byggja á traustum grunni. En margt sem upp í hugann kemur er eins og öldur á hafi blekkingar, ber engan ávöxt og skilar engu. Í heimi svefnsins dreymir manninn líka draum sem rætist að fullu, en í annað sinn dreymir hann eitthvað sem alls engu skilar.
Það sem við bendum á er að þetta ástand sem við köllum samtal eða samneyti við anda er af tvennum toga: annað er hrein blekking en hitt, sem felst í því sem sagt er frá í Biblíunni, svo sem vitrunum Jesaja og Jóhannesar og samneyti Krists, Móse og Elía, er raunverulegt. Það síðastnefnda hefur dásamleg áhrif á huga og hugsanir og laðar að sér hjörtun með öflugum hætti.
– 72 –
Lækning án lyfja
Spurning: Sumir lækna sjúka með andlegum aðferðum – það er að segja án lyfja. Hvernig er þessu háttað?
Svar: Ítarlegar skýringar á þessu hafa áður verið gefnar. Ef þú hefur ekki skilið þær til fulls skulum við endurtaka þær. Vita skalt þú að til er ferns konar meðferð og lækning án lyfja. Tvær eru efnislegar og tvær andlegar.
Varðandi efnislegu meðferðirnar tvær á önnur rætur að rekja til þeirrar staðreyndar að í raun eru bæði heilsa og veikindi smitandi. Sjúkdómur er bráðsmitandi en heilsa smitar afar hægt. Ef tveir líkamar komast í snertingu er víst að örverur berast á milli þeirra. Á sama hátt og sjúkdómur smitar hratt út frá sér, getur góð heilsa heilbrigðs einstaklings einnig linað væg einkenni veiks einstaklings. Það sem við eigum við er að sjúkdómssmit berast hratt en heilsa hins heilbrigða smitar mjög hægt og hefur takmörkuð áhrif og það er aðeins í minni háttar veikindum sem þessi vægu áhrif eru merkjanleg. Í slíkum tilvikum sigrast styrkur heilbrigðs líkama á vægum veikindum hins sjúka og kemur því til vegar að hann nær heilsu. Þetta er ein tegund lækninga.
Önnur tegund lækninga er með krafti líkamlegs segulkrafts þar sem segulafl eins líkama hefur áhrif á annan líkama og kemur því til leiðar að hann læknast. Þessi kraftur hefur einnig lítil áhrif. Þannig gæti einhver lagt hönd sína á höfuð eða kvið sjúklings og náð góðum árangri. Hvers vegna? Vegna þess að áhrif segulaflsins og hughrifin á sál sjúklingsins geta læknað sjúkdóminn. En þessi áhrif eru líka mjög væg.
Tvær aðrar tegundir eru andlegar, það er að segja lækningin felst í andlegum krafti. Önnur virkar þegar heilbrigð manneskja beinir allri athygli sinni að veikum einstaklingi og sá síðarnefndi væntir þess og er svo sannfærður um að hann læknist fyrir andlegan kraft hins fyrrnefnda að sterk tengsl myndast milli hjartna þeirra beggja. Ef heilbrigði einstaklingurinn gerir allt sem í hans valdi stendur til að lækna hinn sjúka, og hinn síðarnefndi hefur fulla trú á því að hann nái heilsu, getur myndast spenna í taugum hins sjúka vegna þessara áhrifa einnar sálar á aðra og komið græðingu til vegar. Þannig getur það til dæmis gert þegar veikur einstaklingur fær skyndilega þær gleðifréttir að innsta ósk hans og þrá hafi orðið að veruleika að geðshræringin græði sjúkdóminn að fullu. Á sama hátt getur skelfilegur atburður sem gerist skyndilega komið heilbrigðum manni í slíkt uppnám að hann veikist strax. Orsök veikindanna er ekki neitt efnislegt, því viðkomandi hefur ekki neytt neins eða komist í snertingu við eitt eða neitt, geðshræringin ein og sér veldur veikindunum. Sömuleiðis getur uppfylling heitrar þrár vakið slíka gleði að geðshræringin valdi því að viðkomandi endurheimti heilsuna.
Í stuttu máli verður fullkomin tenging á milli hins andlega læknis og sjúklingsins – það er að segja þegar læknirinn einbeitir allri athygli sinni að sjúklingnum og sjúklingurinn einbeitir sömuleiðis allri sinni athygli að andlega lækninum og væntir sér lækningar veldur geðshræringin því að heilsan endurheimtist. En þetta ber aðeins árangur að vissu marki og ekki í öllum tilvikum. Verði til dæmis einhver alvarlega veikur eða slasast á líkama, munu þessar leiðir hvorki lækna sjúkdóminn né róa hinn sjúka og græða meiðslin – það er að segja þessar aðferðir hafa ekki áhrif á alvarlega sjúkdóma nema líkamsgerð sjúklingsins leyfi það, því þróttmikil líkamsgerð kemur oft í veg fyrir veikindi. Þetta er þriðja tegund lækninga.
En fjórða tegund lækningar verður með mætti heilags anda. Hún er hvorki háð líkamlegri snertingu né sjón og jafnvel ekki nærveru. Hún er ekki háð neinu ástandi. Hvort sem sjúkdómurinn er vægur eða alvarlegur, hvort sem tengsl verða milli líkama eða ekki, hvort sem samband kemst á milli sjúklings og læknis eða ekki, hvort sem sjúklingur er til staðar eða ekki, á þessi græðing sér stað fyrir mátt heilags anda.
– 73 –
Lækning með efnislegum aðferðum
Í gær ræddum við hér við borðið spurningu þína um andleg lyf og lækningu og hvernig hægt er að lækna sjúkdóma með andlegum mætti.
Við skulum núna ræða lækningar með efnislegum aðferðum. Læknavísindin eru enn á byrjunarstigi og hafa ekki enn náð þroska. En þegar þau komast á það stig fer meðferðin fram með efnum sem ekki vekja andúð vegna bragðs og lyktar, það er að segja með matvælum, ávöxtum og plöntum sem ilma og bragðast vel. Því ástæðan fyrir líkamlegum veikindum er annaðhvort efnislegs eðlis eða vegna áreitis og álags á taugar.
Hvað varðar efnislega áhrifsvalda sem eru meginorsök veikinda stafar virkni þeirra af því sem hér segir: Mannslíkaminn er samsettur úr fjölmörgum þáttum sem eru í ákveðnu jafnvægi. Meðan þetta jafnvægi helst er maðurinn ónæmur fyrir sjúkdómum, en raskist þetta grundvallarjafnvægi heilbrigðrar líkamsgerðar veikist hann.
Ef til dæmis einn hluta líkamans skortir efni eða of mikið er af því í öðrum, raskast jafnvægi og veikindi koma í kjölfarið. Jafnvægið getur til dæmis krafist þess að einn hluti sé þúsund grömm og annar fimm grömm. Fari hið fyrra niður í sjö hundruð grömm og hið síðarnefnda aukist þannig að jafnvægi raskist veikist viðkomandi og ef jafnvægi er komið á með lyfjum og meðferð batnar honum. Ef sykurþátturinn er of mikill bilar heilsan og þegar læknirinn bannar sætt og mjölvaríkt fæði lækkar sykurhlutinn, jafnvægi kemst á aftur og veikindin hverfa.
Nú er hægt að koma á jafnvægi milli þessa líkamsþátta með einni af tveimur aðferðum, annaðhvort lyfjum eða matvælum. Þegar líkaminn hefur náð jafnvægi batnar hinum veika. Alla efnisþætti mannslíkamans er einnig að finna í plöntum og ef einhvern þessara efnisþátta skortir og viðkomandi neytir matvæla sem eru auðug af þeim næst jafnvægi á ný og viðkomandi læknast. Svo framarlega sem stefnt er að jafnvægi milli hinna ýmsu hluta líkamans er það framkvæmanlegt með lyfjum sem og ýmsum matvælum.
Flesta sjúkdóma sem hrjá manninn er einnig að finna í dýrum en dýrið meðhöndlar þá ekki með lyfjum. Læknir dýrsins í fjöllum og óbyggðum er smekkur þess og lyktarskyn. Veikt dýr finnur lykt af plöntum sem vaxa í óbyggðum, étur þær sem lykta og bragðast vel og læknast. Ástæðan er þessi: Þegar til dæmis sykurþáttinn í líkama þess skortir fær það löngun í sætuefni og étur því sætar plöntur, því náttúran hvetur til þess og leiðbeinir dýrinu. Þegar dýrið étur eitthvað sem lyktar og bragðast vel eykst sykurþátturinn og það fær heilsuna á ný.
Því er augljóst að hægt er að lækna sjúkdóma með ávöxtum og öðrum matvælum. En þar sem læknisfræðin er ófullkomin hefur fullur skilningur ekki fengist á þessari staðreynd. Þegar þessi vísindi verða fullkomin mun meðferðin felast í ilmsætum ávöxtum og plöntum sem og öðrum matvælum og með heitu og köldu vatn og böðum á ýmsu hitastigi.
Þetta er aðeins stutt útskýring. Ef Guð leyfir og tilefni gefst skýrum við þetta nánar síðar.
– 74 –
Um gott og illt
Það er vissulega erfiðleikum bundið að útskýra hið sanna í þessu máli. Allt í sköpuninni er af tvennum toga: efnislegt og andlegt, skynjanlegt og skiljanlegt. Það er að segja, skynfærin skynja sumt en aðeins hugurinn skilur annað.
Ytri skynfærin fimm nema skynrænan veruleiki og því eru hlutir sem augað sér nefndir skynjanlegir. Skiljanlegur veruleiki á sér enga ytri tilvist en hugur mannsins skilur hann. Til dæmis er hugurinn sjálfur skiljanlegur veruleiki en á sér enga ytri tilvist. Á sama hátt eru allar mannlegar dyggðir og eiginleikar skiljanlegir en verða ekki skynjaðir, það er að segja, þeir eru veruleiki sem hugurinn nemur en skynfærin ekki.
Í stuttu máli er skiljanlegur veruleiki, eins og lofsverðir eiginleikar og fullkomnir eiginleikar mannsins, eingöngu af hinu góða og eiga sér jákvæða tilvist. Hið illa er einfaldlega fullkomin skortur á þessum eiginleikum. Þannig er vanþekking skortur á þekkingu, villa er skortur á leiðsögn, gleymska er skortur á minnisgáfu, fáviska skortur á skilningi. Allt þetta er ekkert í sjálfu sér og á sér enga jákvæða tilvist.
Skynjanlegur veruleiki er einnig eingöngu af hinu góða og hið illa er fjarvist hans. Það er að segja, blinda er skortur á sjón, heyrnarleysi skortur á heyrn, fátækt skortur á fjármunum, veikindi skortur á heilsu, dauði skortur á lífi og veikleiki skortur á styrk.
Nú vaknar efinn: Sporðdrekar og snákar eru eitraðir – er það gott eða slæmt því þeir eiga sér jákvæða tilvist? Já, það er rétt að sporðdrekar og höggormar eru af hinu illa en aðeins hvað okkur varðar en ekki þá sjálfa, því að eitrið er vopn þeirra og stungan vörn þeirra. En þar sem eiturefnið samrýmist ekki efnisgerð líkamans – það er að segja, þetta tvennt er í andstöðu hvort við annað – er eitrið af hinu illa, eða öllu fremur eru þessir efnisþættir af hinu illa gagnvart hvor öðrum en í sjálfu sér eru þeir báðir af hinu góða.
Í stuttu máli getur eitt verið illt með tilliti til annars en ekki innan marka sinnar eigin verundar. Af þessu leiðir að ekkert illt er til. Allt sem Guð hefur skapað er gott. Hið illa felst eingöngu í tilvistarleysi. Til dæmis er dauðinn fjarvist lífs. Þegar lífskraft mannsins þrýtur deyr hann. Myrkur er fjarvist ljóss, þegar ljósið hverfur ríkir myrkrið. Ljósið á sér jákvæða tilvist en myrkrið á sér enga tilvist, það er aðeins fjarvera ljóss. Sömuleiðis á ríkidæmi sér jákvæða tilvist og fátækt er aðeins fjarvist þess.
Því er augljóst að hið illa á sér enga tilvist. Hið góða á sér jákvæða tilvist og hið illa er aðeins fjarvist hins góða.
– 75 –
Tvenns konar kvöl
Vita skalt þú að til er tvenns konar kvöl, önnur dulin og hin áþreifanleg. Til dæmis er fáfræði kvöl í sjálfu sér, en hún leynir á sér. Gáleysi gagnvart Guði er kvöl í sjálfu sér og hið sama gildir um fals, misgjörðir og svik. Reyndar er allur mannlegur ófullkomleiki kvalræði en sú kvöl leynir á sér. Maður sem gæddur er samvisku mun vissulega kjósa að láta lífið fremur en að syndga, og að tungan sé skorin úr honum fremur en hann ljúgi og fari með rógburð.
Hin tegund kvalræðis er áþreifanleg og felst í líkamlegri refsingu á borð við fangelsi, barsmíðar, brottvísun og útlegð. En fyrir fylgjendur Guðs jafnast ekkert af þessu við þá kvöl sem felst í því að hyljast Honum.
– 76 –
Réttlæti og miskunn Guðs
Vita skalt þú að réttlæti felst í því að hver og einn fái það sem honum ber. Þegar verkamaður vinnur frá morgni til kvölds, svo dæmi sé nefnt, krefst réttlætið þess að hann fái greidd laun sín. Veglyndi felst hins vegar í honum sé umbunað jafnvel þótt hann hafi ekki unnið og ekkert lagt af mörkum. Þegar þú gefur fátækum manni ölmusugjöf án þess að hann hafi gert neitt til að verðskulda það af þinni hálfu, sýnir þú honum veglyndi. Þannig bað Kristur að þeim sem báru ábyrgð á dauða Hans yrði fyrirgefið. Þetta er hylli og veglyndi.
Nú veltur spurningin um ágæti eða auvirðileik hlutanna annaðhvort á skynsemi eða trúarlögum. Sumir telja að lög trúarinnar svari þessari spurningu. Þannig er því farið með gyðinga sem telja að öll boðorð Gamla testamentisins séu bindandi og að þau varði trúarlöggjöf frekar en skynsemisástæður. Af þessum ástæðum segja þeir að eitt af boðum Gamla testamentisins sé að ekki megi neyta saman smjörs og kjötmetis, því slíkt sé „trefah“ (og hebreska orðið „trefah“ þýðir óhreinn en „kosher“ þýðir hreinn). Þetta segja þeir að sé spurning um lög trúarinnar en ekki skynsemisástæður.
En trúarheimspekingarnir telja að ágæti eða auvirðileiki hlutanna snúist bæði um skynsemi og trúarlöggjöf. Þannig byggist bann við morði, þjófnaði, sviksemi, lygi, hræsni og ranglæti á skynsamlegum rökum. Sérhver skynsamur hugur skilur að allar þessar gerðir eru auvirðilegar og ámælisverðar. Ef maður er stunginn með þyrni, æpir hann af sársauka. Hversu augljóst verður honum þá ekki að morð er ámælisverð og viðurstyggileg gerð samkvæmt skynsamlegum rökum. Og fremji hann slíkan glæp yrði hann dreginn til ábyrgðar hvað sem líður þekkingu hans á trúarlögum, því að skynsemin sjálf skilur hve ámælisverður þessi verknaður er í eðli sínu. Þegar slíkur maður fremur svo lítilmótlegan verknað verður hann vissulega dreginn til ábyrgðar.
En hafi fyrirmæli spámannsins ekki borist til einhvers svæðis og fólkið fylgi þar af leiðandi ekki hinum guðlegu kenningum, er það ekki gert ábyrgt samkvæmt lögum trúarinnar. Kristur sagði, svo dæmi sé nefnt, að grimmd eigi að mæta með góðvild. Sé einhverjum ekki kunnugt um þessi fyrirmæli og hegði sér í samræmi við hneigðir náttúrunnar, það er að segja gjaldi hann högg með höggi, er hann ekki dreginn til ábyrgðar samkvæmt lögum trúarinnar, því hann hefur ekki fengið vitneskju um þessi guðlegu fyrirmæli. Þótt sá hinn sami verðskuldi ekki guðlega hylli og gjafir, mun Guð engu að síður sýna honum miskunn og fyrirgefa honum.
Nú er hefnd ámælisverð jafnvel af skynsemisástæðum því að hún kemur þeim sem hefnir sín ekki að neinu gagni. Ljósti maður annan og fórnarlambið kýs að hefna sín með því að ljósta aftur, hver er ávinningurinn? Er hann smyrsl á sárið eða hverfur sársaukinn? Nei, Guð forði því! Í sannleika sagt eru þessir tveir verknaðir einn og hinn sami, hvorutveggja eru meiðsli, eini munurinn er sá að annar kom á undan hinum. Þess vegna er það lofsvert ef fórnarlambið fyrirgefur, eða gerir það sem er enn þá betra: hagar sér með gagnstæðum hætti.
Þjóðfélagið refsar árásarmanninum en hefnir sín ekki á honum. Markmið refsingarinnar er öllu fremur að koma í veg fyrir, letja og girða fyrir misgerðir og yfirgang og koma í veg fyrir að aðrir beiti ofríki með sama hætti. En kjósi fórnarlambið að fyrirgefa og sýna þess í stað mildi og miskunnsemi er sú gerð þóknanlegust allra gerða í augum Guðs.
– 77 –
Refsing afbrotamanna
Spurning: Á að refsa afbrotamanni eða á að fyrirgefa honum og líta fram hjá glæpnum?
Svar: Til eru tvenns konar refsiaðgerðir: annars vegar hefnd og hins vegar hegning og endurgjald. Einstaklingur hefur engan rétt til að hefna sín, en þjóðfélagið hefur rétt til að hegna afbrotamanninum. Slíkri hegningu er ætlað að letja aðra og koma í veg fyrir að þeir fremji svipaða glæpi. Hún miðar að vernda réttindi mannsins og felur ekki í sér hefnd, því hefnd er sú innri fullnæging sem felst í að gjalda líkt með líku. Slíkt er óheimilt því enginn hefur rétt til að hefna sín. En væru afbrotamenn látnir afskiptalausir með öllu myndi skipan heimsins raskast. Hegning er því ein af grundvallarkröfum þjóðfélagsins, en sá sem var særður og beittur rangindum hefur engan rétt til að hefna sín. Þvert á móti ætti hann að sýna veglyndi og fyrirgefa því það kemur heimi mannsins að gagni.
Þjóðfélagið verður hins vegar að refsa kúgaranum, morðingjanum og árásarmanninum í því augnamiði að letja aðra og hindra þá í að fremja svipaða glæpi. En það sem er brýnast af öllu er að mennta allan þorra mannkyns til þess fyrst og fremst að koma í veg fyrir glæpi, því hægt er að mennta og uppfræða fólk að því marki að það forðast afbrot og lítur raunar á glæpinn sjálfan sem þyngstu refsinguna og sárustu kvölina. Þannig yrði í fyrsta lagi komið í veg fyrir alla glæpi og þá yrði engin þörf á refsingum.
Við verðum þó að ræða það sem er framkvæmanlegt í þessum heimi. Til eru að sönnu fjöldi háleitra hugsjóna og viðhorfa sem ekki er hægt að hrinda í framkvæmd. Þess vegna verðum við að einskorða okkur við það sem er raunhæft.
Geri til dæmis einhver á hlut annars, ræðst á hann og særir og hinn síðarnefndi svarar í sömu mynt er um hefnd að ræða og hún er ámælisverð. Ef Pétur drepur son Páls hefur Páll engan rétt til að drepa son Péturs. Geri hann slíkt væri það hefndaraðgerð og fullkomlega ámælisverð sem slík. Öllu fremur verður hann að bregðast þveröfugt við, fyrirgefa og jafnvel verða árásarmanninum að einhverju liði, ef þess er kostur. Þetta er vissulega það sem sæmir manninum, því hvaða ávinningi skilar hefndin? Þetta tvennt er vissulega eitt og hið sama: Ef annað er ámælisvert, þá er hitt það líka. Eini munurinn er sá að annað kom á undan hinu.
En þjóðfélagið hefur rétt til að vernda og varðveita. Það elur ekki á neinni gremju eða fjandskap í garð morðingjans heldur kýs að fangelsa hann eða hegna honum með það eitt fyrir augum að vernda aðra. Tilgangurinn er ekki hefnd heldur hegning til verndar þjóðfélagsheildinni. Því ef aðstandendur fórnarlamba og samfélagið fyrirgæfi misgerðarmönnum og launuðu illt með góðu, myndu þeir aldrei láta af árásum sínum og morð væru framin á hverju andartaki – nei, blóðþyrstir einstaklingar myndu haga sér eins og úlfar og tortíma hjörð Guðs. Þjóðfélaginu gengur engin illvild til þegar það hegnir, það starfar án fordóma og reynir ekki að svala einhvers konar hefndarþorsta. Tilgangur refsingar er að vernda aðra og koma í veg fyrir að svo andstyggilegir verknaðir verði framdir í framtíðinni.
Þegar Kristur sagði: „Nei, slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina.“ Tilgangurinn var sá að uppfræða fólkið en ekki að gefa í skyn að hjálpa ætti úlfi sem réðist á sauðahjörð og vildi slíta í sig alla sauðina. Nei, hefði Kristur vitað að úlfur væri kominn í hjörðina og vildi tortíma sauðunum, hefði Hann vissulega komið í veg fyrir það.
Líkt og fyrirgefning er ein af eigindum guðlegrar náðar þannig er réttlætið einn af eiginleikum Drottins. Tjaldhiminn tilverunnar hvílir á stoðum réttlætis en ekki fyrirgefningar og líf mannkynsins er háð réttvísi, ekki fyrirgefningu. Ef framfylgja ætti héðan í frá lögum um sakaruppgjöf í öllum löndum myndi skipulag heimsins riðlast og undirstöður mannlífsins bresta. Ef ríkin í Evrópu hefðu ekki staðið gegn Atla, illræmdum konungi Húna, hefði hann ekki skilið neina sál eftir á lífi.
Sumir menn eru eins og blóðþyrstir úlfar. Ef þeir ættu ekki von á refsingu myndu þeir drepa aðra ánægjunnar einnar vegna. Einn af harðstjórum Persíu drap kennara sinn sér til skemmtunar. Mutavakkil, abbasíd-kalífinn frægi, kallaði stundum ráðherra, fulltrúa og trúnaðarmenn á sinn fund, tæmdi trog full af sporðdrekum mitt á meðal þeirra, bannaði þeim að hreyfa sig og rak upp skellihlátur hvenær sem einhver þeirra var stunginn.
Að öllu samanlögðu byggir eðlileg þjóðfélagsstarfsemi á réttlæti en ekki fyrirgefningu. Það sem Kristur átti við með fyrirgefningu og veglyndi er ekki að ráðist þjóð gegn ykkur, brenni heimili ykkar, ræni eigum ykkar, brjóti gegn konum, börnum og ættingjum og fótumtroði sæmd ykkar og heiður ættu þið að láta undan ofríkisöflunum og leyfa þeim að komast upp með hvers kyns ranglæti og kúgun. Orð Krists eiga öllu fremur við samskipti tveggja einstaklinga og merkingin er sú að sé ráðist á mann á þolandinn að fyrirgefa. En þjóðfélagið verður að standa vörð um mannréttindi. Ráðist til dæmis einhver á mig, meiði, kúgi og særi myndi ég ekki standa í gegn honum heldur fyrirgefa honum. En ráðist einhver á Siyyid Manshádí sem hér er staddur, myndi ég auðvitað koma í veg fyrir það. Þótt árásarmaðurinn teldi afskiptaleysi bera vott um velvild væri það hrein kúgun gagnvart Manshádí. Kæmi grimmur Arabi inn í herbergið á þessu andartaki, sveiflaði sverði, tilbúinn að ráðast á þig, særa eða drepa, myndi ég auðvitað koma í veg fyrir það. Ef ég gæfi þig honum á vald væri það kúgun, ekki réttlæti. En ef hann skaðaði mig sjálfan myndi ég fyrirgefa honum.
Eitt að lokum. Þjóðfélagið er önnum kafið dag og nótt við að setja hegningarlög og finna leiðir til að refsa. Það byggir fangelsi, verður sér úti um keðjur og fjötra, mælir fyrir um útlegðarstaði, kvalir og þrengingar og reynir þannig að endurhæfa glæpamanninn, en í rauninni grefur þetta aðeins undan siðferði hans og persónuleika. Þjóðfélagið ætti þess í stað að leggja sig fram dag og nótt við að gera allt sem í þess valdi stendur til að tryggja rétta uppfræðslu sálnanna, stuðla að daglegum framförum, auka þekkingu þeirra á vísindum og lærdómsgreinum, innræta þeim lofsverðar dyggðir og hegðun til þess að þær snúi baki við ofbeldi og glæpir hverfi að fullu og öllu úr sögunni. Um þessar mundir eru gagnstæð viðhorf ríkjandi. Þjóðfélagið leitast stöðugt við að styrkja refsilöggjöfina, herða refsingar, finna leiðir til að taka menn af lífi eða senda þá í fangelsi og útlegð, og bíður þess síðan að glæpir verði framdir. Þetta veldur mestum skaða.
En ef allur þorri manna fær menntun þannig að þekking og lærdómur aukist dag frá degi, skilningur vex og dýpkar, skynjun verður næmari, siðferði og hegðun batnar – í stuttu máli, ef framfarir yrðu á öllum þessum sviðum myndi tíðni glæpa minnka.
Reynslan hefur sýnt að glæpir eru sjaldgæfari meðal siðaðra þjóða – það er að segja meðal þeirra sem hafa öðlast sanna menningu. Og sönn siðmenning er guðleg siðmenning, siðmenning þeirra sem sameina efnislegar og andlegar dyggðir. Fáfræði er undirrót afbrota og því mun glæpum fækka með aukinni þekking og uppfræðslu. Gef gaum að löglausum ættbálkum í Afríku: Hve oft eiga þeir ekki í mannvígum og neyta jafnvel holds og blóðs hvers annars! Af hverju tíðkast ekki slík villimennska í Sviss? Ástæðan er greinilega menntun og dyggð.
Þess vegna verður þjóðfélagið fyrst og fremst að leitast við að koma í veg fyrir glæpi í stað þess að leita leiða til að refsa af hörku og beita hirtingum.
– 78 –
Verkföll
Þú hefur spurt um verkföll. Miklir erfiðleikar hafa skapast af þessum málum og svo mun verða áfram. Uppruni þeirra er tvíþættur: annars vegar óhófleg græðgi og hrottaskapur verksmiðjueigenda og hins vegar ástæðulausar kröfur, græðgi og þverúð verkamanna. Því verður leitast við að fjalla um hvorutveggja.
Undirrót erfiðleikanna er náttúrulögmálið sem er að baki menningu nútímans og leiðir til þess að hinir fáu sanka að sér gífurlegum auði langt umfram þarfir sínar meðan allur fjöldinn stendur áfram nakinn, allslaus og hjálparvana. Þetta gengur þvert á réttlæti, mannúð og sanngirni, er hámark misréttis og í andstöðu við vilja og velþóknun Hins almiskunnsama.
Þetta misræmi á sér aðeins stað meðal manna. Meðal annarra skepna, það er að segja meðal dýranna, ríkir ákveðið réttlæti og jafnrétti. Jafnræði ríkir innan hjarðarinnar sem hirðirinn gætir, í hópi dádýra í óbyggðum eða meðal fugla í fjalllendi, á sléttum og í aldingörðum. Dýr af öllum tegundum njóta jafnræðis, á þeim er ekki ýkja mikill munur hvað varðar öflun lífsviðurværis og þau lifa þannig í fullkomnum friði og gleði.
Allt öðru máli gegnir um mennina þar sem mesta ofríki og óréttlæti er að finna. Þú sérð annars vegar einstakling sem hefur hrúgað saman auðæfum, gert heilt land sér undirgefið, aflað sér ógrynni fjár og tryggt sér stöðugan ávinning og gróða. Á hinn bóginn sérð þú hundruð þúsundir hjálparvana sálna sem eru veikar, magnvana og eiga jafnvel ekki málungi matar. Hér er hvorki að finna jafnrétti né góðvild. Afleiðingarnar eru þær að svo alvarleg atlaga hefur verið gerð að almennum friði, hamingju og velferð mannkynsins að líf gríðarlegs fjölda fólks ber engan ávöxt því að allur auður, orka, verslun og iðnaður safnast á hendur fárra einstaklinga á meðan allir aðrir kikna undir byrðum þrotlausra erfiðleika og mótlætis, njóta einskis ávinnings og engra gæða, eru sviptir þægindum og friði. Því verður að setja lög og reglur sem munu draga úr gengdarlausri auðsöfnun hinna fáu og koma til móts við grunnþarfir fjölmargra milljóna fátæks fólks til þess að ná megi einhverju jafnvægi og hófstillingu.
Algjör jöfnuður er þó líka útilokaður, því fullkominn jöfnuður hvað varðar auð, völd, viðskipti, landbúnað og iðnað myndi leiða til óreiðu og upplausnar, raska lífskjörum, vekja almenna óánægju og grafa undan skipulegri framkvæmd samfélagsmála. Því að jöfnuði sem ekki verður réttlættur fylgir einnig hætta. Æskilegra er þá að eitthvert jafnvægi og hófstilling náist og með því er átt við setningu laga og reglna sem kæmu í veg fyrir óréttmæta samþjöppun auðs í höndum hinna fáu og fullnægðu nauðsynlegum þörfum hinna mörgu. Til dæmis uppskera verksmiðjueigendur mikinn fjárhagslegan ávinning dag hvern, en launin sem fátækum verkamönnum eru greidd nægja ekki einu sinni fyrir daglegum þörfum þeirra. Þetta er með öllu óréttmætt og vissulega getur enginn réttlátur maður sætt sig við það. Þess vegna ætti að setja lög og reglur sem bæði heimila verkamönnunum dagleg laun og hlutdeild í fjórða eða fimmta hluta af hagnaði verksmiðjunnar í samræmi við efni hennar, eða verkamenn fengju með öðrum hætti réttlátan hlut í hagnaði eigendanna. Því að stjórnun og fjármagn kemur frá þeim síðarnefndu og stritið og starfsaflið frá þeim fyrrnefndu. Annaðhvort væru verkamönnum greidd laun sem fullnægja daglegum þörfum þeirra og þeir fengju hlutdeild í tekjum verksmiðjunnar þegar þeir slasast eða verða óvinnufærir, ellegar væru greidd laun sem gerðu verkafólki kleift að fullnægja daglegum þörfum og leggja eitthvað til hliðar til að mæta veikindum eða óvinnufærni.
Væri málum þannig fyrir komið myndu verksmiðjueigendur ekki geta sankað daglega að sér auði sem kemur þeim að engu gagni – því að óhófleg auðæfi eru þung byrði og valda miklum erfiðleikum og vanda. Stjórnun svo óhóflegs ríkidæmis er afar erfið og dregur úr eðlilegum þrótti. Verkamenn og konur myndu ekki heldur þurfa að þola slíkt strit og harðræði að þau yrðu óvinnufær og fórnarlömb sárustu neyðar allt til æviloka.
Því er ljóst að óhófleg auðsöfnun fárra einstaklinga þrátt fyrir þarfir fjöldans, er ósanngjörn og óréttmæt, en einnig að algjör jöfnuður myndi einnig raska tilveru, velferð, hagræði, friði og skipulegu lífi mannkynsins. Í ljósi alls þessa er besta leiðin að leita hófs, sem felst í því að auðmenn geri sér grein fyrir kostum hófstillingar við öflun arðs og taki fullt tillit til þarfa hinna fátæku og þurfandi, það er að segja að verkafólkið fái ekki aðeins sín daglegu laun heldur einnig hluta af heildarhagnaði verksmiðjunnar.
Hvað varðar gagnkvæm réttindi verksmiðjueigenda og verkafólks verður í stuttu máli að setja lög sem færa þeim fyrrnefndu sanngjarnan arð og þeim síðarnefndu laun sem nægja fyrir nauðsynjum þeirra og framtíðarþörfum, þannig að verði þeir óvinnufærir, eldist eða deyi og skilji eftir sig lítil börn, þurfi þeir eða börn þeirra ekki að búa við sára fátækt heldur fái hóflegan lífeyri af tekjum verksmiðjunnar sjálfrar.
Verkamennirnir ættu fyrir sitt leyti ekki að gera of miklar kröfur, sýna stífni, biðja um meira en þeir eiga skilið eða fara í verkfall. Þeir ættu að hlýða, fylgja reglu og ekki krefjast of hárra launa. Öllu fremur ætti að skjalfesta og tryggja gagnkvæman og sanngjarnan rétt beggja aðila samkvæmt lögum um réttlæti og samkennd og allir aðilar sem brjóta gegn þeim ættu að sæta fordæmingu eftir réttláta yfirheyrslu og lúta endanlegum dómi sem framkvæmdavaldið framfylgir til þess öllum málum verði vel og rétt fyrir komið og úr öllum vandamálum leyst með fullnægjandi hætti.
Afskipti stjórnvalda og dómstóla af vandamálum sem koma upp milli eigenda og launþega eru fullkomlega réttmæt, þar sem ekki er um sérstök mál að ræða í líkingu við venjuleg viðskipti tveggja einstaklinga sem ekki varða almenning og þar sem stjórnvöld eiga engan íhlutunarrétt. Þótt vandi sem skapast milli eigenda og verkafólks virðist einkamál þeirra skaðar hann almannaheill, enda eru viðskipta-, iðnaðar- og landbúnaðarmál og jafnvel almenn viðskipti þjóðarinnar öll nátengd, tjón eins er tap allra. Og þar sem vandamál eigenda og verkafólks eru skaðleg almannahag, hafa stjórnvöld og dómstólar rétt til afskipta.
Jafnvel þegar um er að ræða ágreining sem kemur upp milli tveggja einstaklinga um tiltekin réttindi er þörf á þriðja aðila, það er að segja ríkisstjórninni, til að leysa deiluna. Hvernig er þá hægt að horfa fram hjá verkfallsvandanum sem hefur truflandi áhrif á allt landið – hvort sem hann stafar af hóflausum kröfum verkamanna eða óheyrilegri græðgi verksmiðjueigenda?
Miskunnsami Guð! Hvernig er hægt að horfa upp á samferðamenn sína búa við sult og seyru og lifa samt í makindum á glæstum höfðingjasetrum? Hvernig er mögulegt að horfa upp á aðra í sárustu neyð og hafa samt ánægju af auði sínum? Þess vegna mæla guðleg trúarbrögð svo fyrir að auðmenn láti af hendi árlegan hluta auðæfa til framfærslu fátækra og aðstoðar hinum þurfandi. Þetta er ein af undirstöðum trúar Guðs og fyrirmæli sem eru bindandi fyrir alla. Og þar sem ríkisstjórnin neyðir hvorki né skyldar hinn einstaka í þessu sambandi, heldur kemur fátækum fremur til hjálpar af hvötum síns eigin hjarta, í anda gleði og geislandi velvildar, eru slík verk mjög lofsverð og velþóknanleg.
Þetta er merking þeirra réttlátu verka sem nefnd eru í himneskum bókum og helgiritum.
– 79 –
Veruleiki þessa heims
Sófistar telja að öll tilveran sé tálsýn og reyndar að allar verundir séu fullkomin blekking sem eigi sér enga tilvist – með öðrum orðum að tilvist alls sem skapað er sé tálmynd, líkt og speglun í vatni eða hilling sem sýnir ásýndina eina án þess að nokkur áþreifanlegur veruleiki sé henni að baki.
Þessi hugmynd er röng, því þótt tilvist hlutanna sé blekking í samanburði við tilvist Guðs eru þeir samt veruleiki í þessum stundlega heimi. Sá veruleiki er sannur og honum verður ekki afneitað. Til dæmis á duftið sér enga tilvist í samanburði við manninn – því að líkami mannsins verður að dufti þegar hann deyr – en duftið tilheyrir þó steinaríkinu. Því er ljóst að duftið á sér aðeins sýndartilvist samanburði við manninn en er til innan steinaríkisins.
Á sama hátt er tilvist alls sem skapað blekking ein og fullkomið tilvistarleysi í samanburði við Guð. Þessi tilvist er ásýndin ein líkt og mynd í spegli. En þótt hún sé blekking á hún sér uppruna og veruleika í þeim sem birtist í speglinum. Í stuttu máli er speglunin blekking miðað við þann sem speglast. Því er augljóst að þótt hið skapaða eigi sér enga tilvist samanborið við Guð og líkist þess í stað hillingu eða mynd í spegli á það sér samt tilvist á sínu eigin sviði.
Þetta er ástæðan fyrir því að Kristur vísaði til þeirra sem engu skeyttu um Guð og afneituðu sannleika Hans sem hinna dauðu, jafnvel þótt þeir á ytra borði virtust lifandi, því að þeir voru í sannleika dauðir, blindir og daufdumbir í samanburði við þá sem trúðu. Þetta var það sem Kristur átti við þegar Hann sagði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu.“
– 80 –
Fortilvera og uppruni
Spurning: Hversu margar eru gerðir fortilveru og uppruna?
Svar: Vissir vitringar og heimspekingar telja að til sé tvenns konar fortilvera – eðlislæg og tímanleg – og að sama skapi sé uppruni tvenns konar – eðlislægur og tímanlegur.
Eðlislæg fortilvera er tilvist sem ekki á sér orsök, en eðlislægur uppruni á sér orsök. Tímanleg fortilvera á sér ekkert upphaf, tímanlegur uppruni á sér bæði upphaf og endi. Því að tilvist alls sem skapað er háð fjórum orsökum: áhrifsorsök, efnisorsök, formorsök og tilgangsorsök. Þessi stóll á sér skapara, smiðinn, efni sem er tré, form sem er stóll og tilgang sem er sætið. Þess vegna á stóllinn sér eðlislægan uppruna því tilvist hans skilyrðist af orsök sem er undanfari hans. Þetta nefnum við eðlislægan eða eiginlega uppruna.
Miðað við skaparann á heimurinn sér eðlislægan uppruna. Þar sem líkaminn er háður andanum sem viðheldur honum á hann sér einnig eðlislægan uppruna hvað varðar anda hans. Andinn er hins vegar ekki háður líkamanum og á sér því eðlislæga fortilveru miðað við líkamann. Þótt geislarnir verði aldrei aðskildir sólinni, á sólin sér fortilveru en geislarnir eiga sér upptök því þeir eru háðir sólinni en ekki öfugt. Sólin er náðargjafinn og geislarnir eru sjálf náðin.
Annað íhugunarefni er að tilvist og tilvistarleysi eru hvorutveggja afstæð. Ef sagt er að ákveðinn hlutur hafi orðið til úr engu er ekki átt við fullkomið tilvistarleysi heldur að fyrra ástand hans hafi ekki átt sér neina tilvist miðað við núverandi tilvist hans. Því að algjör eivera getur ekki orðið tilvist því hana skortir sjálfa tilvistargetuna. Maðurinn er til og steinefnin eru líka til en miðað við tilvist mannsins eiga steinefnin sér enga tilvist, því þegar líkaminn deyr verður hann að dufti og steinefnum, og þegar duftið þróast inn í ríki mannsins og þetta dauða efni fær líf verður maðurinn til. Þótt duftið – steinefnin – eigi sér tilvist á sínu eigin sviði er það án tilvistar í samanburði við manninn. Það sem við eigum við er að hvorutveggja er til, en tilvist duftsins og steinefnanna er eivera í samanburði við manninn því þegar maðurinn deyr verður hann að dufti og steinefnum.
Þótt þessi stundlegi heimur eigi sér tilvist er hann tilvistarlaus og alls ekkert í samanburði við tilveru Guðs. Maður og steinefni eru til en hvílíkur munur er ekki á tilvist manns og steins! Í samanburði við annað er hitt ekki til. Sömuleiðis er tilvist sköpunarverksins algjört tilvistarleysi í samanburði við tilveru Guðs. Þótt alheimurinn eigi sér tilvist er hann eivera í samanburði við Guð.
Því er fullljóst að þótt til séu skapaðar verundir eiga þær sér enga tilvist í samanburði við Guð og orð Hans. Þetta er hið fyrsta og hið síðasta í orði Guðs þegar Hann segir: „Ég er alfa og ómega,“ því að Hann er bæði uppspretta náðar og endanlegt markmið hennar. Skaparinn hefur alltaf átt sér sköpun og geislarnir hafa alltaf streymt frá sól sannleikans, því að sól án ljóss væri niðamyrkur. Nöfn og eiginleikar Guðs eru forsenda allrar tilvistar og ekki er hægt að gera sér í hugarlund að lát verði á úthellingu aldinnar náðar Guðs, því það væri andstætt fullkomnum eigindum Hans.
– 81 –
Endurholdgun
Spurning: Hvað má segja um um endurholdgun, hugmynd sem fylgjendur ákveðinna trúarbragða aðhyllast?
Svar: Markmið okkar hér er að greina frá því sem satt er og rétt en ekki að gera lítið úr trú annarra. Við viljum aðeins útskýra staðreyndir málsins og annað ekki. Að öðru leyti drögum við hvorki í efa djúpstæðar trúarskoðanir nokkurs manns né heldur samþykkjum við að slíkt sé gert.
Vita skalt þú að endurholdgunarsinnar skiptast í tvo hópa. Annar trúir ekki á andlega umbun og refsingu í næsta heimi. Þeir telja þess í stað að mönnum sé refsað eða hljóti umbun með endurholdgun og afturhvarfi til þessa heims. Þeir líta svo á að himinn og helvíti takmarkist við þessa efnislegu veröld og þeir trúa ekki á annað líf. Þessi hópur er sjálfur tvískiptur. Annar telur að alvarleg refsing felist í því að maðurinn hverfi stundum aftur til þessa heims í dýrslíki og eftir að hafa þolað þá sáru kvöl hverfi hann frá ríki dýrsins til ríkis mannsins og þetta nefna þeir sálnaflakk. Hinn hópurinn telur að maðurinn fæðist aftur í sömu mannlegu veröld þaðan sem hann kom og þar fái hann umbun eða taki út refsingu fyrir sitt fyrra líf. Þetta nefna þeir endurholdgun. Hvorugur þessara hópa trúir á líf að loknu þessu.
Annar hópur endurholdgunarsinna trúir á líf eftir dauðann og lítur á endurholdgun sem leið til fullkomnunar. Með stöðugri endurfæðingu hér í heimi nái hann loks fullkomnun. Það er að segja, maðurinn er samansettur úr efni og orku. Í upphafi er efnið ófullkomið en með stöðugri endurkomu í þennan heim þróast það og fágast uns það verður eins og fáður spegill og þá fullkomnast orkan sem býr í andanum.
Þetta er stutt yfirlit yfir trú endurholdgunarsinna og sálnaflakkara. Frekari útskýringar yrðu of tímafrekar og þessi samantekt nægir. Þeir geta ekki fært nein skynsamleg rök eða sannanir fyrir trú sinni og hún byggir eingöngu á getgátum og ályktunum en ekki þeim óhrekjandi sönnunum sem verður að krefjast af endurholdgunarsinnum í stað tilgátna, ályktana og hugboða.
En þú hefur beðið mig um sannanir og rök fyrir því að endurholdgun geti ekki átt sér stað og við verðum því að útskýra ástæðurnar. Fyrsta sönnunin er sú að hið ytra er tjáning hins innra. Þetta jarðneska ríki er spegill hins himneska ríkis og efnisheimurinn samsvarar andlega heiminum. Gæt að því að í þessum skynjanlega heimi eru guðleg fyrirbæri ekki endurtekin, því ekkert í sköpuninni er nákvæmlega eins. Tákn guðlegrar einingar eru til staðar og sýnileg í öllum hlutum. Ef allar kornhlöður heimsins væru fylltar korni væri verulegum erfiðleikum bundið að finna tvö korn sem væru nákvæmlega eins og óaðgreinanleg með öllu. Á þeim hlýtur að vera einhver munur. Þar sem sönnun guðlegrar einingar er til í öllu sem skapað er og eining Guðs er sýnileg í öllum veruleika, er endurkoma sama guðlega fyrirbæris á engan hátt möguleg. Þess vegna er endurholdgun, sem er endurtekin birting sama anda með sínum fyrri eigindum og skilyrðum í þessum heimi, óhugsandi. Og þar sem endurkoma sama guðlega fyrirbæris er óhugsandi hvað snertir efnislegar verundir, þá er endurtekning á sömu stöðu, hvort sem er á boga uppstigningar eða niðurstigningar, einnig útilokuð fyrir andlegar verundir, því efnisheimurinn samsvarar andlega heiminum.
Hvað tegundirnar varðar er endurkoma og endurtekning augljós í efnislegum veruleika. Það er að segja, trén sem á árum áður báru lauf, blóm og ávexti, bera á næstu árum sömu lauf, blóm og ávexti. Þetta nefnist endurkoma tegunda. Ef einhver andmælti og segði að laufið, blómið og ávöxturinn hafi visnað og horfið úr jurtaríkinu til steinaríkisins og síðan snúið aftur til hins fyrra ríkis og þannig sé um endurkomu að ræða, þeim hinum sama svörum við og segjum að blómið, laufið og ávextirnir frá í fyrra hafi sundrast í frumþætti sína og dreifst. Það er ekki svo að sömu efnisþættir laufsins og ávaxtarins sem leystust upp í fyrra hafi sameinast á ný og snúið aftur, heldur hefur eðli tegundarinnar snúið aftur í samsetningu nýrra frumþátta. Sömuleiðis leysist mannslíkaminn að fullu upp eftir að efnisþættir hans brotna niður og dreifast. Ef þessi líkami kæmi aftur frá steina- eða dýraríkinu innihéldi hann ekki sömu efnin og hinn fyrri, því frumþættir hans hafa sundrast og dreifst. Síðan sameinuðust aðrir efnisþættir og annar líkami varð til. Og þó það geti gerst að vissir þættir fyrri líkama séu í samsetningu hins síðari hafa þeir ekki varðveist fullkomlega án þess að nokkuð hafi bæst við eða minnkað þannig að þeir hafi runnið saman aftur og af þeim risið annar einstaklingur. Ekki er því hægt að álykta að þessi líkami hafi snúið aftur með öllum sínum efnislegu þáttum og fyrri einstaklingurinn orðið að hinum síðari og endurkoma átt sér stað – að nákvæmlega sami andi hafi, eins og líkaminn, snúið aftur og eðli hans komið aftur í heiminn eftir dauðann.
Og ef við héldum því fram að endurholdgun sé til þess ætluð að fullkomna manninn til þess að efnið öðlist hreinleika og fágun og ljós andans birtist þannig alfullkomið, væri það líka hugarburður. Jafnvel þótt við gefum okkur slíka forsendu getur endurnýjuð tilvist ekki komið til leiðar umbreytingu á eðli þeirrar sömu tilvistar. Því að ófullkomið efni getur ekki orðið fullkomið með endurkomu, af niðamyrkri kviknar ekki ljós, veikleiki verður ekki styrkur og jarðneskt eðli ekki að himneskum veruleika. Hversu oft sem tré heljar kann að snúa aftur, mun það aldrei bera sætan ávöxt, né heldur hið góða tré beiskan. Því er ljóst að endurtekning og afturhvarf til efnisheimsins er ekki leið til fullkomnunar og að þessi forsenda byggir ekki á neinum sönnunum eða vitnisburði, hún er aðeins getgáta. Nei, veruleikinn er sá að fullkomnun er háð miskunn Guðs.
Guðspekingarnir trúa því að maðurinn muni stöðugt snúa aftur á boga uppstigningar uns hann nær hæstu stöðu þar sem efnið verður sem flekklaus spegill, ljós andans skín í fullum ljóma og eðlislægri fullkomnun er náð. En þeir sem vandlega hafa gaumgæft guðdómlegar spurningar vita með vissu að efnislegu veröldunum lýkur í boga niðurstigningar, að staða mannsins er í lok þess boga og við upphaf boga uppstigningar sem er öndvert hinni hæstu miðju og að frá upphafi boga uppstigningar eru þróunarstigin andlegs eðlis. Bogi niðurstigningar nefnist „að leiða í ljós“ og bogi uppstigningar „að færa fram“. Boga niðurstigningar lýkur í efnislegum veruleika og boga uppstigningar í andlegum veruleika. Sirklinum sem dregur hringinn er ekki snúið við því það myndi stangast á við eðlilega hreyfingu og raska guðlegri skipan og samhverfu hringsins.
Þessi efnisheimur er aukinheldur ekki svo mikils virði eða búinn þeim kostum að sá sem hefur verið leystur úr búri hans vilji festast aftur í snöru hans. Nei. Með eilífri náð Guðs er sönn geta og móttækileiki mannlegs veruleika gerður augljós þegar hann fer í gegnum stig tilverunnar en ekki með endurkomu og afturhvarfi. Þegar skelin eitt sinn er opnuð kemur strax í ljós hvort hún geymir skínandi perlu eða einskisvert efni. Þegar plantan eitt sinn er sprottin ber hún annaðhvort blóm eða þyrna. Hún þarf ekki að vaxa aftur. Að þessu frátöldu eru framfarir og hreyfing í beinni línu og samkvæmt náttúrulegri reglu í gegnum veraldirnar orsök tilverunnar en hreyfing sem er andstæð eðlilegri skipan og fyrirkomulagi veldur útslokknun. Endurkoma andans eftir dauðann er ósamrýmanleg eðlilegri hreyfingu og andstæð guðlegri skipan.
Þannig er á engan hátt mögulegt að öðlast tilvist með endurkomu. Það væri líkt og maður sem er laus úr móðurlífi sneri til þess aftur. Íhuga hve tilhæfulausar hugmyndir endurholdgunarsinna og sálnareikismanna eru! Þeir líta á líkamann eins og kerald og andann sem innihald hans, líkt og vatn sem hellt er úr einum bikar í annan. Þetta er að sönnu bernsk hugmynd. Hugsun þeirra er ekki dýpri en svo að þeim er um megn að skilja að andinn er með öllu óháður líkamanum, fer ekki inn í hann eða út úr honum og tengist í mesta lagi líkamanum eins og sólin speglinum. Hefði andinn getað gengið í gegnum öll stig og náð nauðsynlegri fullkomnun með því að snúa stöðugt aftur til efnisheimsins hefði verið betra að Guð framlengdi líf andans í þessum efnisheimi til þess að hann öðlaðist þar dyggðir og fullkomnun og hefði því enga þörf á að bergja bikar dauðans og snúa aftur til jarðlífsins.
Undirrót þessarar hugmyndar er sú ímyndun ákveðinna endurholdgunarsinna að tilveran takmarkist við þennan stundlega heim og afneitun þeirra á öðrum veröldum Guðs, sem í raun eru takmarkalausar. Ef veraldir Guðs næðu hámarki í þessum efnislega heimi væri öll sköpun til einskis og tilveran sjálf einskært barnagaman. Til að ná endanlegu markmiði þessa takmarkalausa alheims myndi göfugur veruleiki mannsins hverfa hingað og þangað í nokkra daga í þessari hverfulu vist og þiggja umbun hennar og refsingar. Að lokum yrðu allir fullkomnir, sköpun Guðs fullnaðist með óendanlegum fjölda verunda hennar og guðdómur Drottins, nöfn Hans og eiginleikar hættu þar með að hafa áhrif á þær andlegu verundir sem nú eru til. „Fjarri sé það dýrð Drottins þíns, hins aldýrðlega, sem skepnur Hans eigna Honum!“
Samkvæmt takmarkaðri hugsun heimspekinga fyrri tíma, svo sem Ptólemeosar og fleiri, einskorðaðist ríki lífsins og tilverunnar við þennan jarðneska heim og þeir ímynduðu sér að þessi óendanlegi alheimur væri innan hinna níu himnesku hvela sem öll eru auð og tóm. Íhuga hversu takmörkuð hugsun þeirra var og rök þeirra fánýt! Endurholdgunarsinnar ímynda sér líka að andlegir heimar einskorðist við þau svið sem mannshugurinn getur skilið. Sumir þeirra, svo sem drúsar og Nuṣayrí-sinnar, ímynda sér jafnvel að öll tilveran takmarkist við þennan efnislega heim. Hve fávísleg er ekki slík hugmynd! Því að í þessum alheimi Guðs, sem birtist í fullkomnustu fegurð, glæsileika og tign eru himinhnettir efnislega alheimsins óendanleg margir. Staldra við og álykta hve takmarkalaus hljóta ekki að vera þau andleg ríki Guðs, sem eru sjálfur grundvöllurinn! „Gefið gaum, ó þér sem hafið skilning!“
Hverfum aftur að upphaflega efninu. Í heilögum bókum og ritum er minnst á „endurkomu“, en hinir fávísu hafa ekki skilið merkingu hennar og ímynda sér að átt sé við endurholdgun. Því að það sem spámenn Guðs áttu við með „endurkomu“ er ekki endurkoma eðlis heldur eiginleika. Hún táknar ekki endurkomu opinberandans sjálfs heldur fullkominna eiginleika Hans og dyggða. Í guðspjallinu segir að Jóhannes, sonur Sakaría, sé Elía. Með þessum orðum er ekki átt við endurkomu skynigæddrar sálar og persónuleika Elía í líkama Jóhannesar, heldur að öll fullkomnun og eiginleikar Elía hafi birst til fulls í honum.
Kveikt var á lampa í þessu herbergi í gærkvöldi. Þegar annar lampi er tendraður í kvöld segjum við að ljósið frá í gær sé komið aftur. Þegar vatnið sem hætti að renna úr lindinni streymir á ný segjum við að sama vatnið sé komið aftur, og við segjum að þessi ljósbirta sé hin sama og í gærkvöldi. Sömuleiðis spruttu blóm og ilmandi kryddjurtir og ljúffengir ávextir í fyrravor og nú í ár segjum við að þessir ljúffengu ávextir, blóm og ilmjurtir sé komnar aftur. Það merkir ekki að efni blómanna frá í vor hafi sameinast og snúið aftur eftir að það leystist upp og sundraðist. Nei, merkingin er sú að sami ferskleiki og ljúffengi, sami ilmur og litafegurð sem einkenndi blómin í fyrra er að finna til fulls í blómum þessa árs. Í stuttu máli er samlíking þess sem er í ár og þess sem var í fyrra það sem skiptir máli. Þetta er „endurkoman“ sem nefnd er í himnesku helgiritum. Bahá’u’lláh útskýrir þetta til fulls í Kitáb-i-Íqán. Lestu þá bók til þess að þú megir skilja sannindi guðlegra leyndardóma. Heill fylgi þér og árnaðaróskir.
– 82 –
Eining tilverunnar
Spurning: Hvers eðlis er „eining tilverunnar“ sem guðspekingar og súfar hafa fjallað um og hvað eiga þeir í raun við með henni? Er þessi skoðun rétt eða röng?
Svar: Vita skalt þú að hugmyndin um einingu tilverunnar er forn og takmarkast ekki við guðspekinga og súfa. Reyndar sögðu nokkrir grískir heimspekingar, þar á meðal Aristóteles: „Hinn ósamsetti veruleiki er allar verundir, en engin ein þeirra.“ „Ósamsettur“ er hér andstæðrar merkingar við „samsettur“ – það er að segja, sá eini veruleiki, sem er helgaður og hafinn yfir samsetningu og sundurgreiningu, og hefur birt sig í óteljandi myndum. Þannig er raunveruleg tilvera allar verundir en hún er ekki nein ein þeirra.
Talsmenn einingar tilverunnar segja að hin raunverulega tilvist sé eins og hafið og að öllu sem skapað er megi líkja við öldur á því hafi. Þessar öldur, sem tákna hið skapaða, eru þau óteljandi form og myndir sem sú raunverulega tilvist tekur á sig. Þess vegna er sá helgaði veruleiki úthaf fortilverunnar og ótölulegar myndir hins skapaða eru öldurnar sem á því rísa.
Einnig bera þeir þetta saman við Hinn eina og óendanleika talna, að því leyti að hinn fyrri hefur birt sig í stigum hins síðara, því allar tölur eru endurtekning á hinu eina. Þannig eru tveir endurtekning á einum og svo framvegis.
Meðal sönnunargagna sem þeir leggja fram eru þessi: Allar skapaðar verundir eru viðföng guðlegrar þekkingar og engin þekking verður til án viðfangs þekkingar, því að þekking snýr að einhverju sem er til, en ekki því sem ekki er til. Hvernig getur fullkomið tilvistarleysi öðlast sérgreiningu og eðlisþróun í spegli þekkingarinnar? Af þessu leiðir að veruleiki alls sem skapað er, er viðfang þekkingar Hins hæsta og á sér skiljanlega tilvist því þessi veruleiki var form guðlegrar þekkingar og á sér fortilveru á sama hátt og guðleg þekking á sér fortilveru. Meðan þekkingin á sér fortilveru hljóta viðföng hennar að eiga sér slíka tilveru. Og sérgreining og eðlisþróun hins skapaða, sem eru viðföng forþekkingar hins guðlega eðlis, jafngilda hinni guðlegri þekkingu. Ástæðan er sú að veruleiki, þekking og viðföng þekkingar hinnar guðlegu Verundar hljóta að raungerast í fullkominni einingu. Að öðrum kosti yrði eðli Guðs aðsetur aragrúa fyrirbæra og fjöldi fortilvera yrði nauðsyn, sem er fráleitt.
Þannig rökstyðja þeir að viðföng þekkingar séu hin sömu og þekkingin sjálf og að þekkingin sé að sínu leyti samsömuð eðlinu, það er að segja að þekkjandinn, þekkingin og viðföng þekkingar séu einn og sami veruleiki. Allar aðrar hugmyndir myndu af nauðsyn leiða til fjölda fortilvera og vítarunu og raunar til óteljandi fortilvera. Og þar sem eðlisþróun og sérgreining hins skapaða í þekkingu Guðs voru samsömuð eðli Hans og með engu móti aðgreindar því, ríkti sönn eining og öll viðföng þekkingar féllu á ósamsettan og óaðgreindan hátt inn í veruleika hins guðlega eðlis. Þeir voru, með öðrum orðum, á ósamsettan og óaðgreindan hátt viðföng þekkingar Hins hæsta og samsömuð eðli Hans. Og með birtingaropinberun Guðs, fengu þessar eðlisþróanir og sérgreiningar, sem höfðu skiljanlega tilvist – það er að segja voru form guðlegrar þekkingar – raunverulega tilvist í hinum ytra heimi og þannig leystist sú raunverulega tilvist upp í ótöluleg form og myndir. Á þessu byggja þeir röksemdir sínar.
Guðspekingar og súfar samanstanda af tveimur hópum. Í öðrum hópnum er allur þorri þeirra sem í anda einskærrar eftirlíkingar trúa á einingu tilverunnar og hafa ekki skilið raunverulegt inntak kenninga sinna víðfrægu leiðtoga. Því allur þorri súfa telur að „tilvist“ tákni þá almennu tilveru sem hugur og vit mannsins skilja, það er að segja, það sem maðurinn getur gert sér ljóst.
Þessi almenna tilvera er þó aðeins tilfallandi einkunn, ein af mörgum, í veruleika hins skapaða en eðli verundanna eru höfuðatriðið. Þessi tilfallandi tilvist, sem er háð hlutunum á sama hátt og eiginleikar hlutanna eru háðir þeim sjálfum, er aðeins ein tilfallandi einkunn af mörgum.
Nú er eðlið eflaust æðra hinu tilfallandi því það kemur fyrst og allt sem fellur til kemur síðar, eðlið er engu háð nema sjálfu sér en hið tilfallandi er háð einhverju öðru – það er að segja, tilvist þess þarf á eðli að halda.
Í þessu tilviki væri Guð afleiðing af hinu skapaða og í þörf fyrir sköpun sína og sköpunin gæti að öllu leyti komist af án Hans.
Til frekari útskýringar segja þeir að hvenær sem einstakir þættir sameinast í samræmi við guðlega allsherjarskipan, verður ákveðin verund til í þessum heimi. Það er að segja þegar ákveðnir þættir sameinast verður plantan til, þegar aðrir þættir sameinast verður dýrið til og þegar enn aðrir þættir sameinast verður til önnur sköpun. Í sérhverju tilviki er tilvistin afleiðing af veruleika þeirra. Hvernig gæti þá slík tilvist, sem er tilfallandi meðal alls annars sem fellur til og krefst eðlis fyrir tilveru sína, átt sér fortilveru og verið skapari alls sem er?
En hinir sannlærðu meðal guðspekinga og súfa hafa komist að þeirri niðurstöðu eftir djúpa íhugun um þetta mál að til sé tvenns konar tilvera. Önnur er þessi almenna tilvera sem hugur mannsins skapar. Sú tilvist á sér uppruna og er tilfallandi meðal alls annars sem til fellur, en raunveruleiki hlutanna er eðli hennar. En það sem átt er við með einingu tilverunnar er ekki þessi almenna tilvera, heldur sú raunverulega tilvist sem er helguð og hafin yfir alla tjáningu, tilvist sem gerir allt að veruleika. Þessi tilvist er ein og fyrir hennar tilstilli hefur allt sem mannlegur hugur skilur orðið til – svo sem efni, orka og þessi almenna tilvera. Þetta er sannleikurinn að baki trú guðspekinganna og súfanna.
Í stuttu máli eru spámennirnir og heimspekingarnir sammála um eitt og það er að allt eigi sér aðeins eina orsök. Munurinn er sá að spámennirnir kenna að þekking Guðs hafi ekki þörf fyrir hið skapaða, en þekking hins skapaða hefur þörf fyrir viðföng þekkingar. Ef þekking Guðs þyrfti á einhverju öðru að halda jafngilti hún þekkingu hins skapaða en ekki Guðs, því að fortilveran er ósamrýmanleg því sem á sér uppruna og hið upprunna er andstætt fortilverunni. Það sem við eignum hinu skapaða og upprunna afneitum við í Guði, því að helgun og upphafning yfir alla ófullkomnun er eitt einkenni á hinni nauðsynlegu Verund.
Í hinu skapaða sjáum við til dæmis fáfræði, í fortilverunni berum við kennsl á þekkingu. Í hinu skapaða sjáum við veikleika, en í fortilverunni mátt. Í hinu skapaða lítum við fátækt en í fortilverunni auðæfi. Þess vegna er hið skapaða rót alls ófullkomleika og fortilveran er summa allrar fullkomnunar. Og þar sem þekking á hinu skapaða þarfnast viðfangs þekkingar hlýtur þekking fortilverunnar að vera óháð tilvist þess viðfangs. Af því leiðir að sérgreining og eðlisþróun hins skapaða, sem eru viðföng guðlegrar þekkingar, tilheyra ekki fortilverunni. Þar að auki eru eiginleikar guðlegrar fullkomnunar ekki það aðgengilegir viðleitni mannshugans að þeir geri okkur kleift að ákvarða hvort guðleg þekking þarfnist viðfanga eða ekki.
Í stuttu máli er það sem fyrr var nefnt helsta sönnun súfa og ef við nefndum allar röksemdir þeirra og svöruðum þeim tæki það langan tíma. En þetta eru mikilvægustu rök þeirra og skýrustu sannanir hinna lærðu meðal súfa og guðspekinga.
Allir viðurkenna þá raunveruleg tilvist sem gerir allt að veruleika, það er að segja veruleika hins guðlega eðlis sem allt hefur skapað. Munurinn er sá að súfar halda því fram að veruleiki allra hluta sé birtingarmynd Hins eina, en spámennirnir segja að þessi veruleiki streymi frá Honum. Og mikill er að sönnu munurinn á opinberun og útstreymi. Birting með opinberun táknar að einn hlutur opinberast í óteljandi myndum. Þegar til dæmis fræið, sem er stakur hlutur gæddur fullkomnun jurtaríkisins, opinberar sig, birtist það í óendanlegum formum greina, laufa, blóma og ávaxta. Þetta er kallað birting með opinberun, en í birtingu með útstreymi dvelur Hinn eini yfirskilvitlegi í hæðum heilagleika síns, en tilvist hins skapaða fæst frá Honum með útstreymi, ekki opinberun. Þetta má bera saman við sólina: Geislarnir streyma frá henni og skína yfir allt sem er, en sólin er upphafin í hæðum heilagleika síns. Hún stígur ekki niður og leysist ekki upp í formi geislanna, hún birtist ekki í samsömun hlutanna með sérgreiningu eða eðlisþróun: Fortilveran verður ekki hið skapaða, fullkomin auður verður ekki fangi í klóm fátæktar, hrein fullkomnun breytist ekki í algjöra ófullkomnun.
Í stuttu máli fjalla súfar aðeins um Guð og sköpun Hans og trúa því að Guð hafi leyst sjálfan sig upp og opinberað sig í óendanlegum formum sköpunar sinnar, líkt og hafið sem birtist í óendanlegu formi bylgjanna sem á því rísa. Þessar sköpuðu og ófullkomnu bylgjur eru hið sama og haf fortilverunnar sem er summa allra guðlegra fullkomnanna. Spámennirnir halda því hins vegar fram að til sé heimur Guðs, heimur ríkis Hans og sköpunarverkið: þrír heimar. Fyrsta útstreymið er úthelling náðar Guðsríkis sem streymt hefur frá Guði og birtist í veruleika allra hluta, líkt og geislarnir sem streyma frá sólinni og er hvarvetna endurvarpað. Og sú náð – geislarnir – birtist í óendanlegum myndum í veruleika allra hluta og er sérgreindur og eðlisþróaður í samræmi við getu þeirra, móttækileika og eðli. En fullyrðingar súfa gera kröfu til þess að fullkomin auðæfi stígi niður í fátækt og armóð, að fortilveran takmarkist við sköpuð form og að innsta eðli valds og máttar endurspeglaðist í vanmætti og sætti eðlislægum takmörkunum hins stundlega heims. Og þetta er augljós villa, því að við sjáum að veruleiki mannsins, hins göfugasta af öllum sköpuðum verundum, getur ekki stigið niður í veruleika dýrsins, að eðli dýrsins sem hefur mátt skynjunar, fer ekki niður á stig plöntunnar og að veruleiki plöntunnar, sem er vaxtarmátturinn, stígur ekki niður í veruleika steinefnisins.
Í stuttu máli, æðri veruleikar stíga hvorki né lægja sig niður á stig lægri veruleika. Hvernig gæti þá allsherjarveruleiki Guðs, sem er ofar öllum orðum og eiginleikum, leyst sig upp, þrátt fyrir fullkominn heilagleika Hans, í form og veruleika hins stundlega heims sem er sjálf uppspretta ófullkomleikans? Þetta er hrein ímyndun og tilhæfulaus getgáta. Þvert á móti er þetta eðli heilagleikans summa allrar guðdómlegrar fullkomnunar og allar verur njóta upplýsingar af útstreymi Hans og ljósi himneskrar fullkomnunar Hans og fegurðar á sama hátt og allar jarðneskar verur njóta miskunnsemda ljóssins sem streymir frá sólinni án þess að hún stígi niður í veruleika þessara jarðnesku verunda.
Eftir kvöldverð, og vegna þess hve áliðið er orðið, gefst ekki tími til frekari útskýringa.
– 83 –
Ferns konar forsendur skilnings
Aðeins eru til ferns konar viðurkenndar forsendur skilnings, það er að segja fjórir mælikvarðar skilnings á veruleika hlutanna.
Fyrsta forsendan eru skynfærin, það er að segja allt sem auga, eyra, smekkur, lykt og snerting skynja er nefnt „skynjanlegt“. Nú um stundir telja allir evrópsku heimspekingarnir að þetta sé fullkomnasti mælikvarðinn. Þeir halda því fram að skynfærin séu helsta forsendan og telja hana ginnhelga. Og samt er mælikvarða skilningarvitanna ábótavant, því mistök verða. Til dæmis er sjónin veigamest allra skynfæra. Sjóninni virðist þó að hilling sé vatn og að endurspeglun sé raunveruleiki. Voldugir himinhnettir sýnast henni smáir, straumsveipir virðast hringir og fyrir henni stendur jörðin kyrr en sólin er á hreyfingu. Henni verða á mörg önnur mistök af svipuðu tagi. Ekki er því beinlínis hægt að treysta á hana.
Önnur forsendan eru vitsmunir sem voru helsti mælikvarði fornra heimspekinga, þessara máttarstoða viskunnar. Þeir drógu ályktanir af hlutunum með afli hugans og reiddu sig á skynsamleg rök. Öll rök þeirra eru byggð á hyggjuviti. Þrátt fyrir þetta greindi þá mjög á og þeim snerist jafnvel hugur um sínar eigin ályktanir. Í tuttugu ár drógu þeir ályktanir af tilvist einhvers með skynsamlegum rökum og síðan afsönnuðu þeir hana og færðu enn á ný fyrir henni skynsamleg rök. Jafnvel Platón færði í fyrstu rök fyrir því að jörðin stæði kyrr og sólin væri á hreyfingu en sannaði síðan aftur með rökum að jörðin væri á hreyfingu og sólin stæði kyrr. Þá varð kenning Ptólemeusar víðkunn og kenning Platóns gleymdist með öllu uns nútíma stjörnufræðingur staðfestu hana. Þannig hafa stærðfræðingarnir verið ósammála sín á milli jafnvel þó þeir hafi allir treyst á skynsamleg rök.
Sömuleiðis færðu þeir eitt sinn rök fyrir ákveðnum staðhæfingum og afsönnuðu þau síðar einnig með rökum. Heimspekingur gat haldið fast við ákveðna skoðun um tíma og lagt fram margvíslegar sannanir og rök henni til stuðnings en síðan skipti hann um skoðun og andmælti fyrri afstöðu sinni með skynsamlegum rökum.
Því er augljóst að mælikvarðar skynseminnar eru ófullkomnir eins og ljóst er af ágreiningi fornra heimspekinga og tilhneigingu þeirra til að skipta um skoðun. Því ef mælikvarði mannlegs vits væri fullkominn, hefðu allir átt að sameinast í hugsun og vera sammála í skoðunum.
Þriðja forsendan eru arfsagnir, það er að segja texti hinna helgu rita, þegar sagt er: „Svo mælti Guð í Gamla testamentinu,“ eða „Svo mælti Guð í guðspjöllunum.“ Þessar forsendur eru ekki heldur fullkomnar, því að skilningur á arfsögnum er huglægs eðlis. Hugurinn sjálfur er skeikull og hvernig getum við þá sagt að hann hafi höndlað algildan sannleika og ekki ratað í villur þegar hann reyndi að skilja og draga ályktanir af merkingu arfsagnanna? Því honum verða á mistök og hann getur ekki leitt til fullrar vissu. Þetta eru forsendur trúarleiðtoganna. En skilningur þeirra á texta bókarinnar er huglægur skilningur og ekki endilega sannleikur málsins. Því hugurinn er eins og vog og merking textanna það sem vega skal. Ef vogin er röng, hvernig er hægt að ganga úr skugga um rétta þyngd?
Því skalt þú vita að það sem er í fórum manna og þeir telja satt og rétt er skeikult. Því þegar sanna eða afsanna á eitthvað og skynfærin eru eina sönnunargagnið er slíkur mælikvarði greinilega ófullkominn. Hið sama gildir um röklegar sannanir og einnig um sönnun sem byggir á arfsögnum. Þannig er ljóst að maðurinn býr ekki yfir neinum þeim mælikvarða þekkingar sem hann getur treyst.
En náð heilags anda er sannur mælikvarði sem aldrei skeikar og enginn vafi getur leikið á. Sú náð felst í staðfestingum heilags anda sem manninum veitist og gefur honum fulla vissu.
– 84 –
Góðar gerðir og andlegar forsendur þeirra
Spurning: Þeir sem vinna góð verk, eru velunnarar alls mannkyns, hafa lofsverða skaphöfn, sýna öllu fólki ást og góðvild, annast hina fátæku og vinna að allsherjarfriði. Hvaða þörf hafa þeir fyrir guðlegar kenningar sem þeir telja sig vel geta verið án? Hver er staða þeirra og ástand?
Svar: Vita skalt þú að slíkir lífshættir, orð og verk eru góð og lofsverð og auka dýrð mannheims. En þetta nægir ekki eitt og sér. Þessu má öllu líkja við líkama sem er fagur ásýndar en skortir anda. Nei, það sem leiðir til eilífs lífs, eilífs heiðurs, allsherjar upplýsingar og sannrar velgengni og hjálpræðis er fyrst og fremst þekking á Guði. Það er ljóst að þessi þekking hefur forgang yfir alla aðra þekkingu og er mesta dyggð mannheims. Því að skilningur á veruleika hlutanna veitir efnislegan ávinning í þessum heimi og eflir ytri siðmenningu, en þekkingin á Guði kemur til leiðar andlegum framförum og aðdráttarafli, sannri sýn og innsæi, upphafningu mannkyns, birtingu guðlegrar siðmenningar, bættu siðferði og uppljómun samviskunnar.
Næst kemur ást Guðs. Ljós þeirrar ástar kviknar með þekkingu Guðs í lampa hjartans, geislar þess dreifast, lýsa upp heiminn og færa manninum líf Guðsríkis. Og ást Guðs er í sannleika ávöxtur mannlegrar tilveru, andi eilífs lífs og náðar. Án ástar Guðs myndi myrkur grúfa yfir þessum stundlega heimi. Án ástar Guðs væru hjörtu mannanna lífvana og svipt allri samvisku. Án ástar Guðs myndi allar fullkomnar eigindir mannheims verða að engu. Án ástar Guðs væri engin raunveruleg tengsl milli hjartna mannanna. Án ástar Guðs myndi andlegt samband glatast. Án ástar Guðs myndi ljós einingar mannkyns slokkna. Án ástar Guðs myndu austrið og vestrið ekki fallast í faðma eins og tveir elskendur. Án ástar Guðs myndu deilur og sundrung ekki víkja fyrir vináttu. Án ástar Guðs myndi eining ekki sigrast á firringu. Án ástar Guðs myndu hinir framandi ekki verða nánir vinir. Reyndar er ástin í heimi mannsins geisli frá ást Guðs og endurspeglun náðar Hans og hylli.
Það er augljóst að mannlegur veruleiki er breytilegur frá einum einstaklingi til annars, að skoðanir og skynjun eru með ýmsu móti og að þessi munur í hugsun, skoðunum, skilningi og viðhorfum manna á milli helgast af nauðsyn. Því stigsmunur í sköpunarverkinu er meðal grundvallarkrafna tilverunnar og birtist í ótölulegum myndum. Við þurfum því á allsherjarafli að halda sem er sterkara en hugsanir, skoðanir og viðhorf allra manna og getur eytt þessum greinarmuni og fengið allar sálir til að viðurkenna meginregluna um einingu mannkyns. Og það er augljóst að mesta aflið í heimi mannsins er ást Guðs. Það safnar hinum ýmsu þjóðum saman í tjaldbúð einingar og glæðir innilega ást og vináttu milli fjandsamlegra og stríðandi kynkvísla og þjóða.
Sjá hversu fjölmargir og ólíkar þjóðir, lýðir og kynþætti játuðust orði Krists eftir komu Hans sakir ástar Guðs. Leið hugann að því hvernig leyst var til fulls úr sundrung og ágreiningi árþúsunda, hvernig blekkingum um yfirburði kynþáttar og þjóðar var eytt, hvernig einingu sálna og sjónarmiða var komið í kring og hvernig allir urðu kristnir í anda og sannleika.
Þriðja dyggð mannkynsins er góður ásetningur sem er grundvöllur allra góðra verka. Sumir sannleiksleitendur hafa talið að ásetningur sé æðri verkum, því að góður ásetningur er skínandi ljós, helgað frá allri illsku, ráðabruggi og svikum. Hægt er að vinna verk sem virðist réttlátt en byggir í raun á eiginhagsmunum. Slátrarinn elur til dæmis sauðkind og gætir hennar vel, en að baki þessari velgjörð slátrarans er hagnaðarvon og lokaniðurstaðan af allri umhyggju hans er sú að vesalings kindinni er slátrað. Hversu margar eru ekki þær góðu og réttlátu gerðir sem í raun eiga sér rætur í eiginhagsmunum! En hreinn ásetningur er helgaður yfir slíka annmarka.
Í stuttu máli verða góðverk aðeins fullkomin að fenginni þekkingu á Guði, þegar ást Guðs hefur birst og fyrir hendi er andlegt aðdráttarafl og hreinar hvatir. Og þótt góðar gerðir séu lofsverðar eru þær ófullkomnar nema þær spretti af þekkingu á Guði, ást Hans og einlægum ásetningi. Tilvera mannsins verður til dæmis að fela í sér alla fullkomna eiginleika til þess að verða sjálf fullkomin. Sjónin er dýrmæt og í hávegum höfð, en hún verður að styðjast við heyrnina, heyrnin er í hávegum höfð, en hún verður að styðjast við afl málsins, afl málsins er mikils metið, en það verður að styðjast við skynsemina, og svo framvegis hvað varðar aðra krafta, limi og líffæri mannsins. Þegar öll þessi öfl, skynfæri og líffæri starfa í sameiningu er fullkomnun náð.
Í heiminum í dag mætum við sálum sem í einlægni þrá heill og velferð allra manna og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða fátæka, styðja kúgaða og helga sig allsherjar friði og velferð. En hversu fullkomnar sem þær eru frá þessu sjónarmiði, skortir þær framvegis þekkingu og ást á Guði og eru sem slíkir ófullkomnar.
Í umsögn sinni um ritgerð Platóns um stjórnlistina segir Galen læknir að trúarskoðanir hafi djúpstæð áhrif á sanna menningu, og sönnunin er þessi: Flestir fá ekki skilið samfellda röksemdafærslu og þurfa þess vegna á táknrænum tilvísunum að halda um umbun og refsingu í næsta lífi. Dæmi um þetta er að í dag sjáum við kristna menn sem trúa á umbun og refsingu næsta lífs og vinna góðar og þarfar gerðir eins og sannir heimspekingar myndu gera. Þannig sjáum við öll skýrt og greinilega að þeir óttast ekki dauðann og vegna þess hve heit og innileg ósk þeirra er um réttlæti og sanngirni ber að líta á þá sem sanna heimspekinga.
Gæt vel að því hversu mjög Galen, sem sjálfur var heimspekingur og læknir en ekki kristinn, hefur hrifist af einlægni, sjálfsafneitun, andlegum tilfinningum, hreinum ásetningi og góðum gerðum kristinna manna, að hann hafi sjálfur borið vitni um siðferði og fullkomnun þessa fólks og kallaði það sanna heimspekinga. Slíkar dyggðir og eiginleika er ekki hægt að öðlast með góðum verkum einum saman. Ef dyggð þýddi einungis að einhvers góðs væri aflað og það gefið aftur, hvers vegna berum við ekki lof á þennan lampa sem lýsir upp herbergið, þótt ljós hans sé án efa af hinu góða? Sólin yljar öllu sem er á jörðu og eflir vöxt þeirra og þroska með hita sínum og ljósi – hvað tekur þessu fram? Engu að síður er staðreyndin sú að ef hið góða sprettur ekki af góðum hvötum og af ást og þekkingu á Guði, lætur það okkur ósnortin. En þegar einhver býður öðrum vatn að drekka eru honum færðar þakkir. Hugsunarlaus maður gæti sagt: „Þessi sól sem gefur heiminum ljós af slíku veglyndi verðskuldar vissulega lof og vegsömun. Því að hvers vegna ættum við að þakka manni fyrir svo einfalda gjöf en láta vera að þakka sólinni?“ En ef við horfðum með auga sannleikans, myndum við sjá að sú látlausa gjöf sem maðurinn gefur á sér upptök í innri tilfinningum samviskunnar og er því lofsverð, en ljós og ylur sólarinnar eiga sér ekki slík upptök og verðskulda því ekki lof og þakklæti. Með sama hætti ber að lofa þá sem inna eitthvað gott af höndum en slík verk eru vissulega ófullkomin ef þau eiga sér ekki upptök í þekkingu og ást á Guði.
Að þessu frátöldu munt þú sjá, ef þú íhugar málið af sanngirni, að góðar gerðir vantrúarmanna eiga sér líka upptök sinn í guðdómlegum kenningum. Það er að segja, spámenn fyrri tíma hvöttu mennina til að vinna slík verk, útskýrðu kosti þeirra og jákvæð áhrif. Þessar kenningar breiddust síðan út meðal mannkyns og náðu til vantrúaðra sálna og hneigðu hjörtu þeirra að þessum fullkomnu dyggðum. Og þegar þær sáu að þessar gerðir voru lofsverðar og vöktu gleði og hamingju meðal manna tóku þær upp sömu venjur. Þannig eiga þessar gerðir sér einnig rætur í guðdómlegum kenningum. En til að skilja þetta þarf sanngirni, ekki deilur og ágreining.
Guði sé lof að þú hefur heimsótt Persíu og orðið vitni að þeirri ástúð sem Persar eru farnir að sýna öllu mannkyni í krafti heilags anda Bahá’u’lláh. Fyrr var það svo að ef Persar hittu fyrir fylgjanda annarra trúarbragða, réðust þeir að honum, sýndu honum fyllsta fjandskap, hatur og grimmd og litu jafnvel svo á að hann væri óhreinn. Þeir brenndu Gamla og Nýja testamentið og þvoðu hendur sínar eftir að hafa saurgað þær með því að snerta þessar bækur. En nú lesa flestir og túlka orð þessara tveggja bóka eins og tilefni gefst til á samkomum sínum og fundum og útskýra innri merkingu þeirra og leyndardóma. Þeir sýna óvinum sínum góðvild og meðhöndla blóðþyrsta úlfa af nærgætni, eins og væru þeir dádýr á sléttum ástar Guðs. Þú hefur kynnst framferði þeirra og eðlisfari og heyrt um þá siði sem áður tíðkuðust meðal Persa. Getur slík breyting á siðferði og þessi leiðrétting á málfari og hegðun stafað af öðru en ást Guðs? Nei, sem Guð lifir! Ef við tækjum okkur fyrir hendur að innræta slíkt siðferði og hegðun eingöngu með aðferðum þekkingar og lærdóms, myndu þúsundir ára líða án þess að það næði til fjöldans.
Á þessum degi hefur þetta tekist auðveldlega, þökk sé ást Guðs. Sýnið aðgát, ó þið sem hafið skilningsrík hjörtu!
Inngangur
Sjá til dæmis Selections from the Writings of ‘Abdu’l‑Bahá, 30.2; The Promulgation of Universal Peace: Talks Delivered by ‘Abdu’l‑Bahá during His Visit to the United States and Canada in 1912, þýð. Howard MacNutt (Wilmette, IL: Bahá’í Publishing Trust, 2012), bls. 427; Paris Talks: Addresses Given by ‘Abdu’l‑Bahá in 1911, 2.1 og 28.6.
Shoghi Effendi, God Passes By (Wilmette, IL: Bahá’í Publishing Trust, 1974, 2012 prentun), bls. 410.
Úr bréfi dagsettu 13. mars 1923 ritað fyrir hönd Shoghi Effendi til bahá’ía í Ástralasíu.
Úr bréfi dagsettu 14. nóvember 1940 ritað fyrir hönd Shoghi Effendi til átrúanda.
1. hluti: Um áhrif spámannanna á þróun mannkyns
Sbr. Jóhannesarguðspjall 6:42.
Sbr. Jurjí Zaydán, Umayyads and ‘Abbásids: Being the Fourth Part of Jurjí Zaydán’s History of Islamic Civilization, þýð. D. S. Margoliouth (London: Darf Publishers, 1987), bls. 125–31.
Ómar, fyrsti Umayyad-kalífinn.
‘Abdu’l‑Bahá vísar til Bábsins með titli Hans Ḥaḍrat-i-A‘lá – Hans heilagleiki hinn upphafni – en í þessari bók verður Hann nefndur Bábinn, sem er sá titill sem Hann er þekktur undir á Vesturlöndum.
‘Abdu’l‑Bahá vísar hér til Bahá’u’lláh með titli Hans Jamál-i-Mubárak (Hin blessaða fegurð). Hann er einnig kallaður Jamál-i-Qidám (Hin aldna fegurð) og Qalam-i-A‘lá (penni Hins hæsta) en verður hér nefndur Bahá’u’lláh, sem er sá titill sem Hann er þekktur undir á Vesturlöndum.
Bahá’u’lláh var fyrst gerður útlægur frá Teheran til Bagdað, síðan til Konstantínópel (Istanbúl), síðan til Adríanópel (Edirne) og var loks fangelsaður í ‘Akká, „hinu mesta fangelsi“ 1868. Hann lést í nágrenni þess 1892.
Tvær borgir í Írak þar sem grafhýsi fyrsta og þriðja ímama shía múslíma er að finna og eru mikilvægar miðstöðvar pílagrímsferða.
Fyrsta tafla Bahá’u’lláh til Napóleons III var opinberuð í Adríanópel (Sjá Epistle to the Son of the Wolf, þýð. Shoghi Effendi [Wilmette, IL: Bahá’í Publishing Trust, 1988, 2001 prentun], bls. 45), sem Bahá’u’lláh nefndi „hið fjarlæga fangelsi“.
Sbr. Súriy-i-Haykal (Súra musterisins), ¶138.
Sonur franska konsúlsins í Sýrlandi sem samkvæmt Nabíl-i-A‘ẓam var fylgjandi Bahá’u’lláh; sjá H. M. Balyuzi, Bahá’u’lláh: The King of Glory (Oxford: George Ronald, 1980), bls. 320.
Sbr. Súriy-i-Haykal, ¶221.
„Yá Bahá’u’l-Abhá“, ákall á Hið mesta nafns Guðs (Hinn aldýrlegi eða Hinn dýrlegasti).
Sbr. Kitáb-i-Íqán (Bók fullvissunnar), ¶213.
Sjá kafla 8–9 hér að ofan.
Sbr. fjórðu Mósebók 14:34, Esekíel 4:6.
Eiginkona Múhameðs og frændi hennar Varaqih-ibn-i-Nawfal.
Múhameð hóf ætlunarverk sinn tíu árum fyrir Hijrah (flóttann frá Mekku) og þessi dagsetning samsvarar því árinu 1280 e.H. eða 1863 e.Kr.
Opinberunarbókin 11:16–17.
„Varðandi öldungana tuttugu og fjóra segir Meistarinn í töflu að þeir séu Bábinn, 18 bókstafir Hins lifanda og fimm aðrir sem þekktir verða í framtíðinni.“ (Úr bréfi dagsettu 22. júlí 1943, ritað fyrir hönd Shoghi Effendi til átrúanda.) Í einni af töflum sínum segir ‘Abdu’l‑Bahá að einn af þessum fimm sé Ḥájí Mírzá Muḥammad-Taqí Afnán, Vakílu’d-Dawlih.
Þýðing þessarar greinar fylgir endurskoðun Shoghi Effendi í The World Order of Bahá’u’lláh: Selected Letters (Wilmette, IL: Bahá’í Publishing Trust, 1991, 2012 prentun), bls. 204–5, og The Promised Day Is Come, ¶297. Þess ber að gæta að orðið nahál, sem þýðir „sproti“ og þýtt er þannig í greinum 1–2 hefur á ensku verið þýtt með „grein“. Í báðum tilvikum er vísað til Bahá’u’lláh.
Orðið sa‘ádat sem hér er þýtt sem „hamingja“ merkir einnig velmegun, gleði og velferð.
2. hluti: Nokkur kristin málefni
Sbr. Matteus 3:16–17, Markús 1:10–11, Lúkas 3:22.
Sbr. aðra Mósebók 13:21–2.
Úr töflu Bahá’u’lláh til Náṣiri’d-Dín Sháh í Súriy-i-Haykal, ¶192.
Kóraninn 19:17, sbr. Lúkas 1:26–8.
Sbr. Matteus 3:11, Markús 1:8, Lúkas 3:16, Jóhannes 1:33.
Sbr. Postulasöguna 15:20.
‘Abdu’l‑Bahá vísar hér til hugmynda um hita og kulda sem gegndu mikilvægu hlutverki í hefðbundinni íslamskri læknisfræði.
Matteus 8:22, Jóhannes 3:6.
Sbr. Matteus 13:14–15, Jóhannes 12:39–40.
Sjá Kitáb-i-Íqán, ¶¶27–42 og 66–87.
Masíkh (skrímsli), afbökun á Masíḥ (Messías).
Sbr. Fyrra bréf Páls til Þessalóníkumanna 5:2, annað Pétursbréf 3:10.
Sbr. Fyrsta Mósebók 2:16–17.
Sbr. Fyrsta Mósebók 3:11–15, 22.
Þ.e. gyðingar og kristnir menn.
Sjá til dæmis Kitáb-i-Íqán, ¶¶156–79.
Þ.e. Jóhannes sem einstaklingur.
Nafn Péturs var Símon en Kristur kallaði hann Cephas sem samsvarar gríska orðinu petros eða petra, sem þýðir „klettur“.
3. hluti: Um krafta og stöður opinberenda Guðs
Á öðrum stað nær flokkun ‘Abdu’l‑Bahá einnig til anda steinaríkisins, sjá til dæmis kafla 64, Selections from the Writings of ‘Abdu’l‑Bahá, kafla 30 og The Promulgation of Universal Peace: Talks Delivered by ‘Abdu’l‑Bahá during His Visit to the United States and Canada in 1912, þýð. Howard MacNutt (Wilmette, IL: Bahá’í Publishing Trust, 2012), bls. 95, 264–5, 336, 360 og 377–8.
Úr arfsögn sem eignuð er ímaminum ‘Alí.
Úr arfsögn sem eignuð er ímaminum ‘Alí.
Sbr. Jóhannes 14:11 og 17:21.
‘Abdu’l‑Bahá vísar hér til spurningarinnar um upphaf opinberunar Bahá’u’lláh, sem rædd er nánar í köflum 16 og 39.
Sbr. Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, XLI, og Súriy-i-Haykal, ¶192.
Sbr. aðra Mósebók 20:4–5, fimmtu Mósebók 5:8–9.
Sbr. fjórðu Mósebók 13–14.
Kitáb-i-Aqdas (Hin helgasta bók), ¶47.
4. hluti: Um uppruna, krafta og ástand mannsins
Orðið naw‘, sem hér og framvegis í bókinni er þýtt sem „tegund“, hefur einnig merkinguna „gerð“. ‘Abdu’l‑Bahá notar orðið ekki í nútíma líffræðilegum skilningi heldur í skilningi óbreytanlegrar frummyndar.
Í einni af töflum sínum eignar Bahá’u’lláh Hermesi þessi orð.
Sjá til dæmis kafla 2 og 80.
Kóraninn 23:14 og Hulin orð á persnesku nr. 9.
Eins og fram kemur í næsta kafla notar ‘Abdu’l‑Bahá orðin „birting með útstreymi“ og „framrás með útstreymi“ jöfnum höndum.
Sjá til dæmis Jóhannes 14:10–11 og 17:21.
Sjá fyrstu Mósebók 9:22–7.
Það er að segja, ekki er hægt að gera menn ábyrga fyrir sinni eigin eðlisgerð.
Sbr. Úrval úr ritum Bahá’u’lláh, XLI, og Súriy-i-Haykal, ¶192.
Sbr. Opinberunarbókina 22:13.
‘Abdu’l‑Bahá ávarpar hér Laura Clifford Barney, en faðir hennar lést 1902.
Mírzá Yaḥyá, hálfbróðir og svarinn óvinur Bahá’u’lláh.
„Fyrsta skyldan sem Guð leggur þjónum sínum á herðar er að bera kennsl á Hann sem er dögun opinberunar Hans og uppspretta laga Hans, sem er fulltrúi guðdómsins í konungsríki málstaðar Hans og heimi sköpunarinnar. Sá sem uppfyllir þessa skyldu hefur öðlast allt sem gott er og sá sem vanrækir hana fer villur vegar, jafnvel þótt hann sé höfundur allra réttlátra gerða.“ (Kitáb-i-Aqdas, ¶1.)
Sjá kafla 84 þar sem ítarlegar er rætt um þetta mál.
5. hluti: Ýmis málefni
Bahá’í sem sat við borðið.
Sbr. Aristóteles, Eðlisfræðin 194b16–195a1.
Zaqqúm tréð í Kóraninum 17:60, 37:62–6, 44:43–6 og 56:52–3.
Sjá kafla 33 þar sem ítarlegar er fjallað um þetta mál.
‘Abdu’l‑Bahá útskýrir að hugmyndin sé ævagömul en saga hennar hefst í íslamskri heimspeki með Ibnu’l-‘Arabí (1165–1240). „Ibnu’l-‘Arabí er alger einhyggjumaður eins og nafnið á kenningu hans (vaḥdatu’l-vujúd, eining tilverunnar) gefur glöggt til kynna. Hann heldur því fram að allar verundir eigi sér fortilveru sem hugmyndir í þekkingu Guðs, streymi þaðan og snúi þangað endanlega aftur.“ R. A. Nicholson, „Mysticism“, The Legacy of Islam, ritstj. Sir Thomas Arnold og Alfred Guillaume (Oxford University Press, 1931), bls. 224.
Sbr. Plotínos, Ennead 5.2.1: „Hinn eini er allar verundir og ekki ein einasta þeirra…“ (þýð. Armstrong), og Platón, Parmenides 160b2–3: „Þannig að ef til er Einn, er hinn Eini bæði allar verundir og alls engin þeirra, bæði með vísan til sín sjálfs og til hinna.“ (þýð. Cornford). Í íslamskri heimspekihefð eru viss rit Plótínosar eignaðar Aristótelesi.
Sjá Ibn Abí Uṣaybi‘ih, ‘Uyúnu’l-Anbá’ fí Ṭabaqáti’l-Aṭibbá’ (Kaíró,1882), 1:76–7.