40
Hann er hinn aldýrlegi.
Ó Guð, Guð minn! Þú heyrir andvörp mín og beiska kveinstafi, grát minn og harmþrungna rödd í djúpi þessara dimmu nótta. Þú sérð niðurlægingu mína og undirgefni, þolinmæði mína og auðsveipni, fátækt mína og mikla neyð, angist mína, örvæntingu og sorg alla daga.
Ég þakka Þér, ó Drottinn, fyrir þessa þrengingu, sem ég tel mestu gjöf Þína og hylli Þína, því að ég þoli hana á vegi ástar Þinnar – ástar sem logar í sál og hjarta. Þetta er ósk mín og von, ó Guð minn. Þetta er græðismyrsl angistar minnar, ó Ástvinur minn, kælandi gustur á þessar skrælnuðu varir, ó græðari minn, Þú sem firrir sorg minni, ó Þú sem ert vinur minn.
Ég lyfti biðjandi höndum í bæn til Þín, grátbæni Þig kvölds og morgna, leita athvarfs við upphöfnustu fótskör Þína, sárbæni um milligöngu og forbón Frumpunktsins, Hans sem er orð einingar Þinnar, Hans sem óvinirnir felldu með kúlnahríð og sundruðu brjósti Hans á vegi Þínum, og ég særi þig við þá helgu Fegurð, sem þú gerðir að félaga guðdómlegrar ásýndar Þinnar þegar skínandi sól Þín reis yfir sjónarhringinn æðsta, að færa þessum þjóni Þínum kaleik sjálfsleysis með höndum hylli Þinnar, að lyfta blæjunni svo hann geti stigið upp til háleitrar fótskarar Þinnar í aldýrlegu ríki Þínu. Frelsa mig því frá árásum hinna illgjörnu, frá skeytum rógburðar og haturs sem rignir yfir mig, frá stöðugum örvaskotum fjandmanna og spjótum lastmæla frá leiðtogum fólksins. Þú ert Guð hylli og gjafa, hinn samúðarfulli, hinn almiskunnsami.
Ó þú vinur ‘Abdu’l‑Bahá! Þótt sól sannleikans sé horfin undir sjónhring þessa neðri heims, þá er náðin og hyllin Hans, því að Hann skín í ofurbjörtum ljóma frá huldu ríki sálnanna, ofar sjónbaug hins ósýnilega ríkis.
Eftir uppstigningu Hans væntu allar ríkisstjórnir og þjóðir heims þess að geislandi sól Hans myndi setjast og skýlandi skuggi Hans hverfa sjónum. Þeir biðu þess að blaktandi fáni Hans yrði dreginn niður og ljósið sem skín frá ásýnd Hans dapraðist og hyrfi með öllu. Öll náð og hylli er Hans því í stað þess skein lampi orða Hans og árbjarmi kærleiksríkrar forsjónar Hans ljómaði. Sínaí einingar Hans var hafin upp og tindur einleika Hans reis til enn hærri hæða. Fánar drottinvalds Hans voru dregnir að hún og ummerki máttar Hans urðu skýr og augljós hverri skilningsríkri sál. Trumbusláttur guðdómleika Hans barst einnig um allan heim og klukka Drottins glumdi sigursæl frá austri og vestri boðskapinn „Yá Bahá’u’l-Abhá!“ Eitt sinn tendraði hún bál sitt í Ameríku, í annað sinn varpaði hún ljóma yfir Afríku, yfir Tyrki og Tadsíka. Eitt sinn glumdi hún meðal Slafa, í annað sinn stóð Kúmanía í björtu báli. Frægð hennar hefur nú borist um allan heim, og allar þjóðir og kynkvíslir jarðar leita hennar.
Og samt hrópa sumir hinna skilningslausu að skollin sé á niðdimm nótt og allt sé í svartamyrkri, að málstaður Guðs hafi verið numinn úr gildi og lögmál hans ógilt, að annar hafi gert tilkall til nýrrar opinberunar og hrópað „Sannlega er ég Guð“ og hafið sig yfir Hina öldnu fegurð. Tilgangur þeirra er að nota þessar röngu og fávíslegu staðhæfingar til að leyna eigin brotum og hylja tjaldbúð sáttmála ævarandi Drottins þeim brotgjarna vef sem þeir hafa spunnið. Þeir eru sokknir í djúp fánýts hugarburðar en játa samt með vörunum hina einu sönnu trú á Guð. Þeir brjóta sáttmálann en mæla samt nafnið á Sól heimsins. Þeir eru staddir í náttmyrkri efasemda og samt hrópa þeir: „Hvar er ljósið sem skín hvaðanæva frá ósýnilegu ríki Hins aldýrlega?
Ákveðnar einlægar sálir, eins og Mírzá Abu’l-Faḍl – yfir honum hvíli dýrð Guðs, hins aldýrlega – eru uppteknar dag og nótt við að sýna fram á sannleika þessa blessaða málstaðar með óyggjandi sönnunum og glöggum vitnisburði, skýra frá staðreyndum og fjarlægja blæjurnar, útbreiða trú Guðs og dreifa guðdómlegum ilmi. Á meðan reyna aðrir einstaklingar, eins og fuglar næturinnar, að sá fræjum efasemda og eru fjarlægir og fyrirlitnir. Sjá muninn á háttalagi þeirra! Við viljum dreifa moskusilmi um allan heim meðan aðrir leitast við að fylla skilningarvit allra manna ódaun sundurlyndis.
Stundum saka þeir meira að segja þennan þjón um að gera tilkall til guðdóms og fullyrða að sú sé ástæðan fyrir fjandskap þeirra, en ‘Abdu’l‑Bahá myndi aldrei skipta á þjónustu við hina helgu fótskör fyrir fullveldi heimanna beggja. Reyndar er rykið á þeirri helgu fótskör djásn hans og prýði. En rógberinn hefur í skjali sem enn er til, skrifað með hans eigin hendi og ber innsigli hans, lýst því yfir að hann sé sól sannleikans og geri tilkall til meiri opinberunar en Hin blessaða fegurð. Þessi eru orð hans: „Sem Drottinn er réttlátur! Stærri sól Guðs hefur birst og fyrir henni er sérhver sól minni en hið minnsta af öllu.“ Og hann gengur enn lengra og segir: „Þessi vers voru mér opinberuð meðan ég enn var barn.“ Hin blessaða fegurð hafnaði þessari fullyrðingu hans og það var á þeim tíma sem Hann opinberaði töflu þar sem Hann sagði: „Hverfi hann eitt andartak frá athvarfi…“ og svo framvegis.
Reyndar er í mínum eigin ritum að finna málsgrein þar sem segir að sól sannleikans hafi risið skínandi úr merki dýrahringsins Hrútnum og skíni nú í Ljónsmerkinu. Þessi þjónn er enn til staðar! Eins og þú segir verða þeir að beina spurningum sínum til mín í stað þess að gefa yfirlýsingar samkvæmt sínum eigin fánýtu ímyndunum og persónulegu hneigðum. Þegar ég ritaði þessi orð hafði ég enga aðra í huga en Bábinn og Bahá’u’lláh, og tilgangurinn var sá að útskýra opinberanir þeirra. Opinberun Bábsins má líkja við sólina, staða hennar samsvarar fyrsta tákni dýrahringsins – Hrútinum – sem sólin er í á vorjafndægri. Staða opinberunar Bahá’u’lláh er aftur á móti táknuð með Ljóninu, hæstu stöðu sólarinnar á miðsumri. Með þessu er átt við að þetta heilaga trúarkerfi sé upplýst ljósinu frá sól sannleikans sem skín í sinni upphöfnustu stöðu og í fullum ljóma, hita og dýrð.
Hvað varðar orðin „megi öll augu upplýsast“, eru þau frá hinum virta píslarvotti Varqá – megi líf mínu verða fórnað honum. Það sem þú hefur skrifað er rétt.
Og enn fremur varðandi staðhæfinguna „Sá sem kallar mennina í Mínu nafni, hann er sannlega af Mér“ þá eru þetta blessuð orð Abhá fegurðarinnar – megi líf mínu verða fórnað ástvinum Hans – en ekki mín. Hversu hrapallega hefur sá rangt fyrir sér sem lýsir slíku yfir, dreifir því víða og endurtekur það. „Vissulega er leitandinn magnvana og það sem hann leitar að!
Guð gefi að fyrir himneskan mátt ríkisins, kraft sáttmálans og himneskan innblástur, megir þú standa gegn dylgjum þeirra sem sá efasemdum, því hvískur þeirra slekkur algerlega eld Drottins í hjörtunum. Tendra loga og lát eld ástar Guðs brenna! Dýrð Guðs hvíli yfir þér.
Skýringar
Vísun til aðdróttana Mírzá Muḥammad-‘Alí gegn ‘Abdu’l‑Bahá.
Vitnað er til töflu sem beint var til Siyyid Mihdíy-i-Dahají í erfðaskrá ‘Abdu’l‑Bahá. Textinn hljóðar svo: „Hverfi hann eitt andartak frá athvarfi málstaðarins verður hann vissulega gerður að engu“.