35
Hann er hinn aldýrlegi.
Ó þið sönnu vinir! Bréfin sem þið skrifuðuð, blaðsíðurnar sem þið rituðuð, hafa öll borist til landsins helga. Þau hafa öll verið lesin gaumgæfilega og mjög gleðilegt efni þeirra komist til skila.
Guði sé lof að fyrir náð og velþóknun Hinnar öldnu fegurðar – megi lífi mínu verða fórnað ástvinum Hans – hafa þeir þjónar safnast saman undir merki sáttmálans sem veita heiminum ilman með mildum andblæ sem berst frá görðum hjartna þeirra og láta ljósið sem skín af ásjónum þeirra streyma yfir ríki dýrðarinnar. Þeir eru birtingarmyndir margvíslegrar hylli hins ævarandi Drottins og talsmenn tákna og ummerkja hinnar miklu boðunar. Þeir eru dögunarstaðir stjarna leiðsagnar og uppsprettur leyndardóma ástríkrar góðvildar, ljúfur ilmur sem berst frá rósagörðum guðlegrar einingar og angan frá sléttum einingar, óhaggandi fjöll sáttmálans og erfðaskrárinnar og uppsprettur logntærra vatna gleði og fullvissu, frjósöm tré paradísar trúarinnar og fuglar heilagleikans sem svífa yfir völlum skilnings, skínandi lampar í söfnuði guðlegra leyndardóma og holdtekjur hreinleika á samfundum réttlátra. Þeir hljóta náðarsamlega aðstoð hersveita Abhá-ríkisins og þeim veitist aðstoð engla herskaranna á hæðum.
Ó þið ástvinir Abhá fegurðarinnar! Ó þið vinir hins alvalda Drottins! Takið til máls og þakkið fyrir þessa æðstu gjöf og færið hinum óviðjafnanlega Drottni lof fyrir að hafa valist til þessarar náðar og hylli og talist til þeirra sem stigið hafa til hæða þjónustu. Gyrðið lendar viðleitni og gangið inn í hóp englanna í paradís einingar. Þannig getið þið á ströndum hins mesta hafs veitt fiskana sem þrá útsævi guðlegrar þekkingar og á sviði einingar fangað gasellurnar sem leita á sléttur veruleikans svo að þið fáið safnað saman öllum þjóðum í forsæluna af orði einingarinnar með óbrigðulli hjálp og hylli Drottins. Megi því ilmur Guðs breiðast um austrið og vestrið og aðdráttarafl Hins almiskunnsama hreyfa við veröldinni. Megi því leyndardómar þessarar heilögu hringrásar birtast, tákn trúarkerfis Hins mesta nafns opinberast, garður heimsins verða frjósamur og aldingarður sköpunarinnar bera dýrindis ávexti. Megi því kvikna á kerti guðlegrar einingar, hverfular takmarkanir eyðast í loganum frá eldi Drottins, ljós leiðsagnar skína og myrkur fáfræði og blindu hverfa að fullu og öllu.
Þegar Kristur tók flugið til ríkjanna takmarkalausu, skildi Hann eftir sig ellefu lærisveina. Þegar þeir hófust handa um að mikla orð Guðs með sjáandi auga og heyrandi eyra, mælskri tungu og óhagganlegum ásetningi, efldust þeir svo mjög að hver og einn varð eins og tré sem „er rótfast, greinar þess ná til himins og bera ávöxt á öllum árstíðum“. Símon Kefas, sem var skínandi máni meðal þessara stjarna leiðsagnar var hið ytra ekki annað en fiskimaður á Galíleuvatni. En í krafti þess að hann reis upp af krafti og einbeitni til að útbreiða tákn Guðs og safna saman hinum réttlátu skein ljós þjónustu hans svo skært yfir sjónarhring tilverunnar að sjálf sólin og tunglið urðu ráðvillt og hringsnerust eins og næturfiðrildi um þann albjarta kyndil.
Eftir uppstigningu sína skildi Hin aldna fegurð – megi lífi mínu verða fórnað fyrir mesta nafn Hans – eftir um fimmtíu þúsund átrúendur í þessum hraðfleyga heimi. Hann uppfræddi þá, alla sem einn, með ljúfum ilmi heilagleikans, opnaði dyr margvíslegrar náðar frammi fyrir ásjónum þeirra, nærði þá í faðmi ástríkrar góðvildar og kenndi þeim lexíur andans í skóla innsæis. Væri það ekki hörmulegt ef við sætum niðurdregin eða týndum okkur í ráðaleysi með því að velja leið huggunar og hvíldar og leita frelsis frá öllum áhyggjum? Þetta er ekki tryggð eða trúfesti! Þetta er ekki einlægni! Þetta er ekki leið leiðsagnar!
Áður en langt um líður er líf okkar á enda og fuglar merkurinnar munu syngja útfararsálminn. Áður en langt um líður slokknar á ljósi heilsunnar, myrkur dauðans sigrar og bjartur morgunn næsta lífs rennur upp. Við skulum því kappkosta af einlægni að komast til ríkisins himneska með geislandi ásýndum og verða í ríki dýrðarinnar tekin í hóp þeirra sem hafa verið tryggir og staðfastir. Hugleiðið hvílíkan eld leiðsagnar ellefu sálir kveiktu á tindum heimsins þegar þær máttu þola alls kyns hörmungar og raunir og hófust handa af öllu hjarta! Ef við nú rísum upp eins og okkur ber, vopnuð öruggum staðfestingum Abhá-ríkisins, hvílík dýrð kæmi ekki í ljós og hverjar yrðu ekki afleiðingarnar! Ég sver við fegurð Hins vegsamaða, við merki Hans sem rís í skýlandi athvarfi Hans, að slíkur eldur myndi blossa upp í hjarta heimsins að jafnvel steinar og leir jarðarinnar myndu fuðra upp.
Ó vinir, sýnið mikla viðleitni! Ó ástvinir, rísið upp og hreyfið ykkur! Verið ekki uppteknir af sögum og frásögnum þeirra sem tvístíga í sáttmálanum, því þær eru aðeins ráðvilltir draumar, innantómt og barnalegt hjal. Talið um þá sem eru staðfastir og fetið veg hinna óhagganlegu!Sinnið skyldum langþráðrar ástar,og segið sögu liðinna sæludaga.