33
Hann er Guð.
Ó þú afkvæmi ástkærs vinar! Bréf þitt barst mér í Alexandríu. Langt var síðan fréttir höfðu borist og því vakti það mikla gleði.
Í fjörutíu og þrjú ár var ‘Abdu’l‑Bahá fangi í borginni ‘Akká, en á þeim tíma hagaði hann málum þannig að jafnvel ókunnugir viðurkenndu að þau samræmdust alltaf velþóknun hins óviðjafnanlega Drottins. Ást hans, alúð, umhyggja og tillitssemi við hverja sál var slík að allir menn undruðust og sérhver sýndi fyllstu virðingu og veglæti.
Í fyrstu var tilskipun þjóðhöfðingjans rangláta mjög óvægin. Hann hneppti Bahá’u’lláh í svo stranga fangavist að jafnvel mér var meinaður aðgangur að heilagri návist Hans. Nei, Hin aldna fegurð skyldi lokuð inni ein og yfirgefin og vöktuð strengilega dag og nótt. Hins vegar var háttsemi ‘Abdu’l‑Bahá með þeim hætti að tjaldbúð Hinnar blessuðu fegurðar var að lokum slegin upp með valdi og tign á Karmelfjalli og blessuð verund Hans tók sér búsetu fyrir utan borgina ‘Akká og lifði við fyllstu yfirráð, mátt og heiður í eina höfðingjasetrinu á því svæði, sem stóð eitt og fullkomlega aðskilið öllum öðrum.
Landstjórinn í ‘Akká var stöðugt á hælum mér í fimm ár og baðst leyfis til að koma í heilaga návist Hans, en Hin blessaða fegurð vildi ekki veita slíkt leyfi. Dag einn lagði þessi þjónn af stað til að ná fundi Bahá’u’lláh og hélt fótgangandi frá ‘Akká í átt að setrinu. Allir embættismennirnir og jafnvel landstjórinn sjálfur fylgdu mér gangandi. Landstjórinn, Abáẓih Páshá, var þrekinn og holdugur maður. Svitinn streymdi af honum á göngunni og þannig komum við að setrinu. Hin blessaða fegurð – megi lífi mínu verða fórnað ástvinum Hans – spurði ekki einu sinni eftir þeim.
Sú var tíðin að annar landstjóri reis gegn okkur í fjandskap og tók afstöðu með ríkisstjórninni. Þessi landstjóri fékk einhvern til að senda konungshirðinni leyniskjal sem innihélt undarlegar ásakanir á hendur okkur. Hún sendi skjalið síðan til baka og kallaði á rannsókn. Landstjórinn og sendinefndin skrifuðu í kjölfarið harðorða skýrslu og sýndu okkur mikinn fjandskap og hatur. Þessi þjónn vísaði hins vegar landstjóranum og sendinefndinni á brott. Slík voru áhrif okkar eins og vinir og ókunnugir vita.
Nú hafa svokallaðir vinir okkar komið málum fyrir á þann veg að við hljótum að sýna jafnvel lágt settum embættismanni umburðarlyndi. Smjaður þeirra hefur gengið í slíkar öfgar að við höfum orðið að eyða öllum okkar tíma á nóttu og degi til að vinna gegn rógburði þeirra. Þessir vinir leita sífellt allra leiða sem í þeirra valdi stendur til að rægja og lastyrða ‘Abdu’l‑Bahá í því skyni að fá hann hugsanlega rekinn frá borginni ‘Akká og þeir gætu þá fundið þar mikinn leikvang þar sem þeir gætu hleypt fákum sínum.
Ég hef hins vegar af sjálfsdáðum farið til þessa lands og látið þeim leikvanginn eftir, svo að ljóst megi verða að jafnvel í fjarveru minni geta þeir ekki og munu aldrei geta tekið sér neitt fyrir hendur hversu lítilfjörlegt sem það er nema að smjaðra fyrir hinum eða þessum. Þótt næturgalinn hverfi úr rósagarðinum myndi hrafninum og krákunni ekki takast að heilla nokkurn mann.
Í stuttu máli erum við um þessar mundir að þjóna hinni helgu fótskör í þessu landi, og von okkar er sú að þessi ferð beri árangur og að við getum sótt fram og beitt okkur á þjónustuvettvanginum. Biðjið þess tárfellandi til ríkis heilagleika Hans, að í þjónustunni við fótskör Bahá megi þessi þjónn losna við lastyrði og smán, jafnvel þótt í litlum mæli sé. Ef til vill getur hann með Guðs leyfi og fyrir náð Hans fengið aðstoð og höndlað daggardropa úr úthafi þjónustunnar því fram að þessu hefur ekkert tekist og hann er fullur eftirsjár. Ef Guði þóknast gæti aðstoð og staðfesting Abhá-ríkisins borist á næstu dögum og sú blíða von gæti ræst þótt ekki væri nema að einhverju litlu leyti.
Guði sé lof að þú, sonur þess sem nýtur velþóknunar við fótskör Drottins, laðast að Abhá-ríkinu. Ef viðskipti þín leiða þig til þessara héraða gætum við kannski hist ótruflaðir í þessu mikla landi.
Þú skrifaðir um samkomur vinanna sem haldnar eru á hverjum sunnudegi í þeim tilgangi að lesa heilagt orð og fara með bænir. Þetta færði hjarta mínu mikla gleði.
Berðu Abhá kveðju mína auðmjúkri og þóknanlegri þjónustumey Guðs, móður þinni og bræðrum. Sendu einnig hjartanlegar kveðjur til Jináb-i-‘Abdu’l-Mihdí – yfir honum hvíli dýrð Guðs, hins aldýrlega. Færðu honum mínar hlýjustu kveðjur og segðu honum fyrir mína hönd: „Háreystin og uppnámið sem þessi læðupoki vakti hefur minni þýðingu en suð í flugu. Þú ert vel kunnugur ástæðunni fyrir skömminni og niðurlægingunni sem hann hefur valið sér. Þeir sem fóru á undan honum á umliðnum öldum eru lærdómur fyrir hann. En því er ver, því ver! Hvernig blæjur kúgunar hafa hulið augu þeirra! Áður en langt um líður komast þeir að raun um að þeir hafa beðið hrapallegt tjón. Vissulega er þetta sannleikur og allt annað en hann er aðeins hörmuleg villa.“
Þessi persóna sá hvernig nafntogaðir leiðtogar fyrri tíma féllu í glötun vegna fráhvarfs þeirra, og hve fullkomið tjón þeir biðu. Þrátt fyrir þetta lét hann sér ekki segjast en hélt áfram að vinna þessi fánýtu verk. Eftir tilkomu Andans komu einstaklingar eins og Aríus fram á sjónarsviðið og hafði milljón fylgjendur. Þetta fólk hvarf síðar sporlaust og skildi engin ummerki eftir sig. Dýrð Guðs hvíli yfir þér.
Skýringar
Vísun í arabískt ljóð: „Við getum lært af þeim sem lifðu á umliðnum öldum.“