32
Ó ástkæru vinir ‘Abdu’l‑Bahá! Ekki fyrr hafði hönd guðlegs máttar reist tjaldbúð eilífrar dýrðar – tjald einingar mannkyns – í miðju hjarta heimsins, en Hann opnaði okkur öllum gáttir æðstu miskunnar sinnar, ávarpaði okkur helgri röddu í Huldum orðum, heiðraði okkur með titlinum „Ó þjónar Mínir“, tengdi okkur sínu eigin sjálfi og leysti okkur frá neyð og ótta. Hann setti fram veisluborð hylli og náðar, bauð öllum að koma og tilreiddi alls kyns himneska fæðu og veitti okkur þannig guðdómlega hylli sína og himneskar gjafir. Hann leysti okkur undan sérhverri þungri byrði og frelsaði okkur frá öllum klyfjum. Hann mælti fyrir um þau lög, tilskipanir og kenningar sem gefa sálinni líf og fá hana til að nálgast Ástvininn besta.
Lög Hans leysa alla menn úr fjötrum, þau miðla frelsi fremur en hömlum, gleði og geislan fremur en nauðung. Lög og fyrirmæli allra fyrri trúarbragða mæltu fyrir um heilagt stríð, boga og örvar, sverð og spjót, hlekki og fjötra, ógn og afhöfðun sérhvers fjandsamlegs kúgara. En í þessu undursamlega trúarkerfi hefur Hin blessaða fegurð frelsað vinina frá þessari þungu byrði. Hann nam úr gildi deilur og átök og hafnaði jafnvel ótilhlýðilegri ágengni og kröfugerð. Hann hvatti okkur í staðinn til að „samneyta fylgjendum allra trúarbragða í anda vináttu og bræðralags“. Hann bauð okkur að vera ástríkir vinir og velunnarar allra þjóða og trúarbragða og skyldaði okkur til að sýna æðstu dyggðir í samskiptum okkar við ættkvíslir jarðarinnar. Hann leit jafnvel á óvini sem vini og hina framandi sem nána félaga og förunauta. Hvílík byrði var ekki allur þessi fjandskapur og óvild, öll þessi úrræði sverðs og spjóta! En þvílíka gleði og fagnað færa ekki ást og góðvild!
Í þakklætisskyni fyrir þessar takmarkalausu gjafir, ber okkur nú að framfylgja ráðum og áminningum Hinnar blessuðu fegurðar og starfa í samræmi við kenningar Hans og fyrirmæli. Við verðum að kappkosta af hjarta og sál að teyga í botn bikar þessa himneska víns svo að orð okkar, gerðir og framkoma mótist af réttlæti hinna réttsýnu. Við verðum að sýna ást og góðvild og sanna með trú okkar og einlægni, að við erum öll þjónar fótskarar Hans, dyggir og staðfastir varðmenn við dyr Hans. Við verðum að sanna að við séum bahá’íar í gerðum en ekki bara orðum.
‘Abdu’l‑Bahá þráir að sameinast vinunum í þjónustu við fótskör Bahá, en hann er sakbitinn, andvarpar, harmar og endurtekur þessi helgu orð dag og nótt:Hvernig get ég borið höfuðið hátt frammi fyrir Vininum,sneyptur yfir að hafa ekkert gert sem sæmir náð Hans?Dýrð allra dýrða hvíli yfir ykkur.