31
Hann er Guð.
Ó þið tvær þjónustumeyjar Bahá! Hinnar öldnu fegurðar, Hins mesta nafns – megi lífi mínu, sálu og innstu verund verða fórnað heilögu dusti Hans – beið þraut og þjáning við hvert fótmál. Eitt sinn var Hann fangi í klóm vægðarlausrar grimmdar og öðru sinni varð Hann fyrir skeytum harms og sorgar. Eitt sinn var Hann förumaður á Badasht-sléttu og öðru sinni leið hann beiska kvöl í Níyálá. Eitt sinn var Hann í hlekkjum, sárt leikinn og þjáður í Ámul, í annað sinn var Hann meðal fyrirlitlegustu og grimmustu óvina sinna. Á daginn mætti Honum sorg og raunir í Karbilá, á nóttinni var Hann umlukinn erfiðleikum í herbúðum mótlætis. Einn daginn var Hann færður í hlekkjum, berhöfðaður og berfættur, alla leið frá Shimírán til Teheran. Þar var Hann sem fangi í fjóra mánuði með níðþunga járnkeðju um hálsinn og sætti stöðugri ógn sverðs og örvaskota. Við eitt tækifæri var Hann gerður útlægur til Íraks og annað sinn fór Hann um eyðimörk Kúrdistans, þar sem fuglar himinsins og dýr merkurinnar voru einu félagar Hans. Óvinir Hans í Bagdað réðust að Honum á alla vegu í mörg ár og hvaðanæva steðjaði að Honum áþján og erfiðleikar. Hver dagur bar með sér nýtt mótlæti og hvert kvöld þungbæra kvöl. Hann hvíldist ekki eitt andartak og fann ekki augnabliks frið. Hann var síðan sendur í útlegð til borgarinnar miklu og þar var Hann skotmark grófra lastmæla. Háttsettir menn risu upp allir sem einn til að ófrægja Hann og leiðtogar þjóðanna voru staðráðnir í að ráða Hann af dögum. Síðan vísuðu þeir Honum í útlegð til lands leyndardómsins þar sem þeir gerðu Hann að fórnarlambi skelfilegs mótlætis og hörmulegra þrenginga.
Sá sem frá barnsaldri ólst upp í ástríku skauti Hans, sá sem Hann hafði ævinlega sýnt blíðu og alúð, reis á þessum tíma gegn Honum fullur heiftar og réðst á Hann eins og glefsandi úlfahjörð. Mírzá Yaḥyá reyndi meira að segja að úthella heilögu blóði Hinnar öldnu fegurðar og stakk blessaðan líkama Bahá’u’lláh eins og eiturnaðra. Mírzá Yaḥyá byrjaði þá að stynja og kvarta, upphóf kvein hins kúgaða, kvaðst vera saklaust fórnarlamb og fullyrti að hann hefði verið beittur grófum órétti. Hann grét og stundi, andvarpaði og barmaði sér. Og eins og bræðurnir afbrýðisömu varpaði hann Jósef Egyptalands tilverunnar í djúpa gryfju. Hann kveinaði síðan hástöfum, grét með ekkasogum og varð birtingarmynd ritningarorðsins: „Þeir komu að nóttu til föður síns grátandi.“ Og síðan sótti hann í félagsskap hinna fráhverfu og gerðist trúnaðarvinur fjandmannanna. Hann sakaði Hina óviðjafnanlegu fegurð um illræði og undirróður og dreifði bæklingum með fölsuðum texta meðal óvildarmannanna. Allt þetta gerði hann til þess að slökkva ljós herskaranna á hæðum, fela himneskar kenningar gleymskunni á vald, breyta morgunbjarma guðlegrar einingar í nætursorta og fá sól sannleikans til að hníga til viðar, fella úr gildi heilög orð leiðsagnar og eyða veisluborði sáttmálans eilífa.
Í kjölfarið kom því innilokun í fangelsinu mesta og miskunnarlaust mótlæti. Hinn rangtleikni veraldanna varð fórnarlamb ranglætismanna og þoldi hverja stund nýjar raunir og þrengingar. Allar dyr voru lokaðar og allar leiðir bannaðar. Skeytum harðstjórnar rigndi stöðugt yfir Hann frá hverju landi og herskarar jarðar brugðu sverði ranglætis gegn geislandi og íðilfagurri verund Hans. Í stuttu máli sætti Hann á hverju andartaki grimmd duttlungafulls fjandmanns og ný áþján féll í hlut Hans á hverri stund, uns ásjóna Hans hjúpaðist loks augum heimsins og skein frá festingu hins staðlausa. Og frá sjónarhring þess ríkis sér Hann nú hvernig hersveitir þessa lægri heims hafa ráðist gegn einmana þjóni Hans og hvernig flóðbylgja þrenginga hefur kaffært þennan yfirgefna bandingja Hans. Ég sver við upphafið eðli Hans að augu herskaranna á hæðum flóa í tárum og kveinstafir íbúa Abhá-ríkisins hafa bifað veruleika himins og jarðar. Því að raunir þessa þjóns eru þrotlausar, eins og þið vitið og eruð vitni að.
Verið ekki hryggar í hjarta vegna þessarar ógæfu og harmið ekki þrenginguna sem vofir yfir. Beinið hjörtum ykkar að miskunn og ástríki Abhá fegurðarinnar – megi lífi mínu, sál og innstu verund verða fórnað ástvinum Hans. Fagnið yfir gleðitíðindum Hans og margvíslegri hylli. Úthaf gjafa Hans er takmarkalaust, og ljúfur ilmurinn af hylli Hans berst víða vegu. Augu mildrar miskunnar Hans vaka yfir öllu og yfirfljótanleg náð Hans veitist öllum, sérstaklega ykkur sem eruð afkomendur konungs píslarvottanna og fórnarlömb kúgunar á vegi Hins alvalda! Augu einstakrar ástúðar Hans beinist að ykkur og ljós sérstakrar hylli Hans skín á ykkur. Þakkið því Ástvininum fyrir að hafa hlotið slíkar gjafir og þegið slíka miskunn. Dýrð Guðs hvíli yfir ykkur, ó ættingjar konungs píslarvottanna.