30
Hann er hinn aldýrlegi.
Ó meyri sproti á trénu blessaða! Fjölmörg bréf þín hafa borist og andleg merking þeirra bragðaðist sálinni sem hunang. Allt lof sé aldýrlegum Drottni sem með ilmþrungnum andblæ frá Abhá-ríki sínu hefur endurlífgað og nært þessa gróskumiklu grein, meyran sprotann, og hjálpað þér náðarsamlega til að sýna viðleitni á vegi velþóknunar Hans.
Ó þú sem laðast að ilminum guðdómlega! Skínandi fegurð Hins almáttka, geislandi sól hins dýrlega ríkis, hefur risið yfir sjónarhring heimsins og varpað ljósi heilagleika yfir austrið og vestrið. Þótt sú helga Verund hefði til að bera ódauðlega dýrð og heilagleika, þoldi Hann margvíslegar raunir og þrengingar og lét sér lynda öll áföll og hörmungar. Sérhver bikar bar honum banvænt eitur og Hann bergði beiskt eitur úr hverjum kaleik. Á Hann voru lagðir fjötrar og járnhlekkir. Í dýflissunni voru félagar Hans glæpamenn, illvirkjar og níðingar. Hann varð fórnarlamb hefnda og kvalræðis. Hann var sendur frá heimalandi sínu og færður í útlegð til Íraks og þaðan til Adríanópel. Hann þoldi afneitun og fyrirlitningu og þjáðist í höndum allra kúgara. Hann var gerður að skotmarki haturs og illsku og varð fyrir árásum fjandskapar og óréttlætis. Hann var sendur í fangelsið mesta og sætti þrúgandi helsi þess. Á öllum tímum hékk yfir höfði Hans, sem var fangi og útlagi, ógn sverðs og spjóta.
Eini tilgangur Hans með því að samþykkja að slíkar þrautir og þrengingar yrðu lagðar á blessað sjálf Hans var að kenna elskendunum vegu ástarinnar og uppfræða löngunarfullar sálir um list þjónustunnar, leiða hina löngunarfullu á rétta braut og kalla á vinina með orðum eins og þessum: „Ef þið gerið kröfu til trúar og fullvissu, ef þið hrífist af fegurð Hins miskunnsama og hafið falið hjörtu ykkar í hendur undursamlegrar dýrðar Hans, ef þið hrífist af ásjónu Hans og lokkunum sem hrynja um höfuð Hans, drekkið þá bikarinn í botn eins og væri hann kaleikur ódauðleikans og fagnið broddi dauðans sem ódáinsveig lífsins. Hafnið allri hvíld og huggun og hverfið frá saurgun þessa heims. Lítið á þyrni eyðimerkurinnar sem silkimjúkan beð og logandi eld sem blómstrandi rósagarð. Drekkið saltan lög beiskra kvala eins og væri hann ferskt og svalandi vatn, lítið á örvaroddinn sem uppsprettu lífsins og þráið sverðið og spjótið eins og guðaveig friðar og öryggis. Látið vín þrenginga svífa á ykkur og finnið gleði og yndi í sætleik þjáningarinnar.
Í ljósi þessara erfiðleika og þrenginga Hinnar blessuðu fegurðar – megi líf mitt verða lausnargjald fyrir jörðina sem göfgast af fótsporum ástvina Hans – getum við þráð meiri gjöf en þrengingu á vegi Hans? Getum við leitað annarra smyrsla en þeirra sára sem við þolum Hans vegna eða einhverrar lækningar annarrar en sársaukans sjálfs? Getum við óskað einhvers athvarfs annars en óttablandinna stunda eða annars afdreps en tilefnis til auðmýkingar? Getum við hraðað okkur að einhverjum vettvangi öðrum en vettvangi fórnarinnar eða þráð huggun fyrir sálir okkar aðra en eggjárn ofríkis? Nei, ég sver við Hann sem hefur vald yfir öllu sem er!
Ó Drottinn minn! Hjálpaðu mér að vera trúfastur og staðfastur í málstað Þínum meðal allra þjóða. Hjálpaðu mér að tæma bikarinn, að sökkva mér í haf erfiðleika og þrenginga, drekka kaleik þrengingar í botn og styrk mig og örva með ljúfum andvara trúfesti á vegi Þínum, Þú sem hefur í greip Þinni ríki jarðar og himins! Þú ert sannarlega hinn almáttugi, hinn upphafni.
Lesið þetta bréf á samkomum vinanna.