29
Hann er Guð.
Ó þú sem ert staðfastur í sáttmálanum! Bréf þitt frá 12. dhi’l-qa‘dih 1337 barst, en hið fyrra er ekki komið. Þú hefur skrifað að vegna árása óvinanna hafir þú og faðir þinn neyðst til að yfirgefa heimili ykkar.
Þannig hefur það ætíð verið: Abraham fór frá heimalandi sínu, en brottför Hans leiddi af sér fagnað. Móse var sendur langt frá heimalandi sínu, en sú útlegð varð til þess að Hann sá eldinn á Sínaí. Jósef var gerður að heimilislausum förumanni í Egyptalandi en hann reis upp úr djúpi afgrunnsins til hins hæsta himins. Jesús var neyddur til að yfirgefa landið helga og fara til Egyptalands, en sá aðskilnaður hafði blessun í för með sér. Múhameð flúði frá Mekku til Medínu en flótti hans leiddi til sigurs. Bábinn var sömuleiðis gerður útlægur frá Shíráz til bakka árinnar Araxes, en blessunarríkar voru sannarlega afleiðingarnar af þeirri útlegð! Hin blessaða fegurð – megi sál minni verða fórnað ástvinum Hans – var sendur í útlegð frá Persíu til Íraks, þaðan til Konstantínópel og síðar til lands leyndardómsins áður en Hann var færður í fangelsið mesta. Allir þessir útlegðardómar urðu til þess að upplýsa austrið og vestrið. Nú hafið þið fengið ykkar reynslu af útlegð, verið þess fullviss að mikill árangur mun af því hljótast. Guði sé lof að Munír er orðinn geislandi bjartur eins og árbjarmi morguns af því að kenna málstaðinn!
Og nú hvað varðar spurningu þína. Vita skalt þú að í öllum sköpuðum hlutum eru sætleiki og beiskja tilfallandi eiginleikar. Það sem með efnasamsetningu sinni höfðar til bragðskynsins gefur sætan smekk og andstæða þess er beiskt bragð í munni. Hvort tveggja eru tilfallandi eiginleikar og stafa ekki af neinum eðlismun.
Staða mannsins er hins vegar tvíþætt: önnur er björt og hin dimm. Önnur snýr að ríki Guðs, hin að heimi náttúrunnar. Önnur hneigist til himneskra dyggða, hin til satanískra eiginleika. Því að maðurinn stendur á mörkum ljóss og myrkurs. Í hringrás tilverunnar er hann á lægsta punktinum sem markar í senn lok á boga niðurstigningar og upphaf á boga uppstigningar. Af þessum sökum er honum frjálst að fara í hvora áttina sem er: að ljósinu eða myrkrinu, að fávísinni eða leiðsögninni – allt samkvæmt þeirri stefnu sem hann tekur. Væri skynsemin ráðandi myndi maðurinn geisla af ljósi og eignast háleita stöðu í ríkjunum á hæðum. Og ef sjálfið og lægra eðlið bera sigur úr býtum er niðurstaðan myrkur og hann fellur í hinn neðsta eld. Því í mönnunum takast á kraftar hins himneska ríkis og kraftar dýrslegs eðlis hans uns annað hvort sigrar. Yfir ykkur hvíli Dýrð allra dýrða.