28
Hann er Guð.
Ó kæru vinir ‘Abdu’l‑Bahá! Eftir heimsókn sína til hinnar helgu fótskarar og miðpunktsins sem herskararnir á hæðum sveima um í tilbeiðslu kom Jináb-i-Fárúqí til dvalar hjá ‘Abdu’l‑Bahá og var félagi hans í nokkra daga. Hann bað stöðugt til Abhá-ríkisins og ástand hans mótaðist af djúpri tilbeiðslu til herskaranna á hæðum. Hann minntist vina Guðs eins af öðrum og bað tárfellandi og af sárleik hjartans um að sérstakt bréf yrði skrifað til hvers og eins þeirra.
En ‘Abdu’l‑Bahá unnir sér ekki hvíldar eða rósemi eitt andartak, hann hefur alls engan tíma aflögu. Þótt hann notaði sérhvert andartak til samskipta og bréfaskipta við hvern hóp, myndi honum samt ekki takast það. Guði sé lof! Átrúendurnir í austri og vestri bylgjast eins og öldur á hafi og það þarf að minnsta kosti tíu ritarasveitir til að svara bréfum þeirra með fullnægjandi hætti. Af þeim sökum er því miður ekki hægt að fullnægja ósk sérhvers pílagríms. Þess vegna er ég sneyptur og ráðalaus og veit ekki hvernig ég á að orða afsökun mína við Jináb-i-Fárúqí. Ég get ekki gripið til annarra úrræða en að skrifa eitt ítarlegt bréf til allra vinanna sameiginlega svo hægt sé að gera nokkur afrit af þeim og afhenda hverjum og einum þeirra. Ekkert er til ráða annað en það sem er í boði. Til er þekkt orðtak: „Hlutinn ber heildinni vitni og dropinn segir frá tjörninni.“
Og nú á þessum dögum þegar eldur Drottins hefur kveikt í öllum heiminum, þegar ljós dýrðar Hans hefur lýst upp austrið og vestrið, þegar gagntakandi áhrif orða Hans hafa hrifið sérhvern huga og málstaður Guðs risið til slíkrar vegsemdar að enginn háski blasir við og ekkert er að óttast, hafa kröfuhafarnir gripið tækifærið og haldið inn á leikvanginn. Þeir sem hingað til höfðu þagað í gleymdum afkimum sínum, þessar hræddu leðurblökur sem frá prédikunarstólunum í Iṣfahán og Teheran höfðu afneitað trú sinni á Bábinn – megi lífi mínu verða fórnað Honum – hafa nú skundað fram og gert kröfu um forgang. Þeir hafa á laun sannfært nokkrar gálausar sálir um fullyrðingar sínar og dreift fræjum efasemda. Þeir eru nú af mikilli leynd á höttunum eftir hinum og þessum, annað hvort til að sveigja hann af beinu brautinni eða skaða hann á annan hátt.
Vinir jafnt sem ókunnugir vita að á hættutímunum reikaði leiðtogi þessa fólks um landið dulbúinn sem förumunkur og gekk um með beiningaskál og bað um að sér yrði gefin „ölmusa fyrir Guðs skuld“. Eftir atvikið með Ṣádiq og Náṣiri’d-Dín Sháh yfirgaf hann átrúendurna í Núr-héraði, gaf þá fjötrum og sverði á vald og flúði strax í felur í Mázindarán og Gílán. Hann batt borða um höfuð sér, klæddi sig í skikkju förumunks og tók sér nafnið „Darvísh-‘Alí“ og ráfaði um sléttur og fjöll uns Hin blessaða fegurð var send til Íraks. Síðan elti hann Bahá’u’lláh til Bagdað og leitaði skjóls og verndar hjá Honum en var áfram í felum og óttaðist alla.
Í kjölfarið hélt Hin blessaða fegurð til Kúrdistan. Fyrstu átrúendurnir í Írak og Persíu vita vel að Mírzá Yaḥyá ferðaðist í dulargervi um héruðin Súqu’sh-Shuyúkh og Basra undir nafninu Ḥájí ‘Alí. Hann hafði í fórum sínum nokkra arabíska inniskó og fékk þannig nafnið Ḥájí ‘Alí skósalinn. Síðar hélt hann til Najaf, keypti silki og nefndist silkikaupmaður. Hann klæddi sig jafnvel að hætti Araba og hætti að ganga undir persnesku nafni. Í tveggja ára fjarveru Hinnar blessuðu fegurðar stóð ekkert lengur eftir af nafni og frægð málstaðar Guðs.
Í kjölfar píslarvættis Bábsins og í fjarveru Hins þráða gerði hinn óhreinlyndi sig sekan um svo skammarlegt framferði að jafnvel hinn alræmdi Ghayúr í Bagdað hefði fyllst viðurstyggð. Eftir píslarvætti Bábsins gekk hann að eiga konu Hins upphafna, móður hinna trúföstu, sem var öllum bannað samkvæmt skýrum orðum Hans. Og þessi vanvirða nægði honum ekki því þegar honum þótti hún ekki við sitt hæfi gaf hann Siyyid Muḥammad-i-Iṣfahání þessa heiðvirðu konu – systur Mullá Rajab-‘Alí og eiginkonu Bábsins. Svo langt gekk hann í gerðum sínum og tilkalli til máttar, valds og frægðar og sjálfur var hann upptekinn dag og nótt við að fjölga eiginkonum sínum. Jafnvel systur eiginkonu sinnar, Ruqíyyih Khánum, kvaddi hann heim frá Mázindarán og gekk að eiga hana líka og var því „giftur tveimur systrum samtímis“. Hann kvæntist einnig systur Mírzá Naṣru’lláh-i-Tafrishí. Móðir Mírzá Aḥmads var líka ein af löglegum konum hans og enn gekk hann í hjónaband með dóttur Araba nokkurs og braut þar með skýr ákvæði Bayánsins. Þetta voru fjölmörg hjónabönd hans í Bagdað og ekki eru upptalin hjónabönd hans í Teheran og Mázindarán. Ef þið kynnið ykkur málið verður sannleikur þessara orða skýr og augljós: „Hann var ógæfan sjálf, veiðimaðurinn sem fór um trjálundinn okkar.“ Við munum ekki fjalla nánar um þetta efni. Aðalatriðið er einfaldlega það að þessi „fyrirmynd skírlífis“ tók sér það fyrir hendur sem braut í bága við skýran texta sem miskunnsamur Drottinn opinberaði og eyddi dögum sínum og nóttum í þessa hégómlegu eftirsókn.
Góði Guð! Hvernig kom hann trúnni til hjálpar á þessum tíma? Hvernig þjónaði hann málstað Hins upphafna? Getur einhver haldið því fram að Yaḥyá hafi leitt hann til trúarinnar? Var hann á þeim fjörutíu árum sem hann dvaldi á Kýpur fær um að leiðbeina einni einustu sál? Nei, hann gat ekki einu sinni menntað sín eigin börn. Er hægt að hugsa sér meira gagnsleysi? „Þeir ákalla það fyrir utan Guð sem hvorki getur skaðað þá né komið þeim að gagni. Víst átti vondi þegninn sér vondan herra!“
Þegar Hin blessaða fegurð kom aftur frá Kúrdistan var aðeins lítill hópur átrúenda eftir í Persíu og þeir sem voru í Írak voru niðurdregnir og sinnulausir. Hvergi heyrðist hljóð úr horni. Allir átrúendur sem enn voru til staðar voru óttaslegnir og örvæntingarfullir. Þegar Hið mesta nafn kom til Bagdað opnaði Hann dyrnar á gátt og gaf út allsherjar stefnu. Kall Guðs kvað við hátt og snjallt og frægð málstaðar Hans barst til annarra landa. Dag og nótt komu leiðtogar og lærdómsmenn frá öllum þjóðum á fund Hans. Spurningar og svör gengu stöðugt á víxl og allir báru vitni fullnægjandi tilsvörum Hans.
Af þessum sökum greip ótti Náṣiri’d-Dín Sháh, hann fylltist kvíða og óþreyju. Hann beitti öllum úrræðum og skrifaði Sulṭán ‘Abdu’l-‘Azíz bréf eigin hendi þar sem hann bað um að Hinni blessuðu fegurð yrði vísað frá Bagdað. Hann fullyrti að Persíu væri hætta búin, stjórnvöldum væri mjög brugðið og báðar ríkisstjórnir myndu að lokum bíða tjón. Þá gaf ‘Abdu’l-‘Azíz út fyrirmæli um að Hinni blessuðu fegurð skyldi vísað á brott. En þótt Bahá’u’lláh væri útlagi hélt Hann engu að síður með valdi og myndugleika til garðsins Najíb Páshá, þar sem málstaður Guðs naut slíkrar vegsemdar í tólf daga að ríkisstjórinn, Námiq Páshá, allir háttsettir yfirmenn hersins og héraðsins, trúarleiðtogar landsins og fyrirmenn þjóðarinnar komu dag og nótt til að ná fundi Hans. Allt þetta gerðist þótt Hann á ytra borði væri útlagi! Samt sem áður voru gagntakandi áhrif málstaðar Guðs, háleit orð Hans og dreifing hins guðdómlega ilms slík að þessir fáu dagar liðu í mikilli gleði og unaði og Riḍván-hátíðin var stofnuð. Bahá’u’lláh fór síðan á brott í fyllstu tign og um þetta bera allir Írakar vitni.
En þessi „fyrirmynd skírlífis“, klæddur sem förumunkur og í fylgd með vissum Araba, Ẓáhir að nafni, íhugaði á sínum tíma að fara til Indlands og við annað tækifæri til Egyptalands. Að lokum sendi hann boð og sagði: „Ég óttast að vera hér um kyrrt eftir brottför þína og mun því hraða mér til Mósúl og bíða komu þinnar.“ Á þeim tíma gekk orðrómur um að framselja ætti Hina blessuðu fegurð, félaga Hans og fylgjendur, í hendur persneskra yfirvalda í Karkúk, sem er borg milli Mósúl og Bagdað, nálægt landamærum Persíu. Af þeim sökum sagðist hann ætla að koma til okkar í Mósúl, vegna þess að hann taldi að öll þessi ráðagerð yrði að veruleika áður en við kæmum til þeirrar borgar.
Þegar við komum til Mósúl var tjaldi slegið upp á bakka Tígris, og þangað flykktust fyrirmenn borgarinnar, embættismenn og aðrir í hópum í blessaða návist Hans. Eitt kvöldið kom fyrrnefndur arabi, Ẓáhir, og sagði að viðkomandi einstaklingur væri á gistihúsi fyrir utan borgina og vildi hitta einhvern. Mírzá Músá, frændi minn, fór um miðja nótt til að hitta hann. Mírzá Yaḥyá spurðist fyrir um sína eigin fjölskyldu og fékk að vita að hún væri í hóp félaganna og ætti sitt eigið tjald og að hann gæti slegist í hóp með þeim ef hann vildi. Hann sagði: „Ég tel það alls ekki ráðlegt, en vagnlest fer á sama tíma og þið og ég verð í þeim hópi.“ Þannig kom hann til Díyár-Bakr, með svartan borða um höfuð sér og ölmususkálina í hendinni, og samneytti aðeins Aröbunum og Tyrkjunum í vagnlestinni. Í Díyár-Bakr sendi hann boð og sagði: „Á næturna verð ég með fjölskyldu minni og fer aftur í vagnlestina á morgnana.“ Þetta varð einnig að ráði hans. Þar sem Ḥájí Siyyid Muḥammad var honum kunnugur frá fyrri tímum og þekkti hann í sjón, fór hann og heimsótti Yaḥyá og kvaðst vera persneskur förumunkur og kunningi hans. En þar sem hinir vinirnir höfðu ekki séð Mírzá Yaḥyá áður þekktu þeir hann ekki í fyrstu.
Þessu hélt fram uns ágreiningur reis milli hans og Siyyid Muḥammad. Þá kom „fyrirmynd skírlífis“ á fund átrúenda sem enn eru hjá okkur og kvartaði undan Siyyid Muḥammad. Þegar Siyyid Muḥammad kom í nærveru Bahá’u’lláh sagði hann: „Ég er ósammála honum í ákveðnu máli. Hann segir að spegill endurvarpi alltaf ljósi en ég segi að fallið geti á spegilinn og hann endurvarpi ljósi meðan hann snýr að sólu, en myrkvist á sömu stundu og hann snýr frá henni.“ Hin blessaða fegurð ávítaði Siyyid og sagði: „Hvers vegna þráttar þú og þjarkar og veldur ágreiningi í félagsskap vinanna?“
Síðan kom vagnlest Bahá’u’lláh í miklum tíguleika og reisn til aðseturs hins konunglega hásætis og um Hann lék dýrlegur ljómi. Hið mesta nafn átti ekki fundi með neinum ráðherrum eða fulltrúum og virti þá ekki viðlits.
Skýringar
Morðtilræði Ṣádiq-i-Tabrízí við Persakeisara.
Maður sem var alræmdur fyrir siðleysi og skeytti engu um heiður og tryggð, nefndur í tyrkneskum heimildum Ottómana.
Vísun til Fáṭimih, síðari eiginkonu Bábsins.
Vísun til banns í Kóraninum 4:23 gegn því að kvænast tveimur systrum samtímis.
Ljóð eftir Naẓírí Nishápúrí.
Mírzá Yaḥyá var einn þeirra sem Bábinn gaf titilinn „Spegill“.