27
Hann er hinn aldýrlegi.
Ó þið elskuðu vinir ‘Abdu’l‑Bahá! Það er fari að birta af degi og ég er kominn aftur til Haifa frá helgidómi Bábsins – megi sál minni verða fórnað dusti Hans. Ég eyddi síðustu nótt í upphöfnum helgidómi Hans og fyrir blessun þessa heilaga grafhýsis fylltist ég takmarkalausum eldmóði og gleði alla nóttina. Ljúfur ilmur heilagleikans sem barst frá skínandi grafhýsi Hans altók svo sál mína og hjarta að hugsanir mínar beindust að ykkur andlegum vinum mínum og ég byrjaði að skrifa þetta bréf. Þrátt fyrir óteljandi áhyggjur og margvísleg umskipti, hef ég lagt allt til hliðar og kalla fram í huga minn svip og skaphöfn þeirra sem ég elska af hjarta og sál. Markið af þessu hversu heitt ég ann ykkur!
Borg ykkar var lengi heiðruð með fótsporum Hinnar blessuðu fegurðar. Töflur voru stöðugt opinberaðar þar og þeir sem náðu fundi Hans hlýddu á blessuð orð Hans. Þar á meðal var þekktur Persi sem umgekkst Hann. Þessi maður var náinn og heimullegur félagi sendiherrans, sem leitaði ráða hans á ýmsum málum. Hin blessaða fegurð sýndi þessum manni umburðarlyndi og lokaði augunum fyrir hegðun hans. Og hann ímyndaði sér að Bahá’u’lláh væri ekki meðvitaður um duldar hvatir sínar og játaði Honum hollustu.
Að lokum dag einn ávarpaði Hin blessaða fegurð hann þessum orðum: „Ég hef skilaboð til hans tignar, sendiherrans. Færðu honum þau og segðu: „Þú hefur gert það sem í þínu valdi stendur til að úthella blóði Voru og ímyndar þér að þú getir rifið upp með rótum þetta heilaga tré. En það er víðs fjarri öllum sanni! Þetta blessaða tré er rótfast og óhagganlegt, engin öxi fær fellt það jafnvel þótt allir konungar jarðar gengu að því verki af ítrasta mætti. Þótt Ég sé yfirgefinn og einn Míns liðs stend Ég samt einn gegn öllum heiminum, þjóðum hans og stjórnvöldum. Áður en langt um líður hverfa þessi dimmu ský og sól sannleikans mun skína í allri sinni dýrð. Já, vissulega getið þið líflátið Mig og það væri mesta gjöf Guðs, því það er með blóði sem þetta blessaða tré vex og dafnar. Þið höfðuð ímyndað ykkur að ef Hinn upphafni – megi sálum allra á jörðu verða fórnað Honum – liði píslarvætti myndi þessari guðdómlegu byggingu verða kollvarpað. Þess vegna gerðuð þið heilagt brjóst Hans að skotmarki þúsund kúlna. En þá sáuð þið að málstaður Guðs efldist og ljós hans skein í enn meiri ljóma og hefur nú náð til Konstantínópel!
Teljið þið ykkur trú um að ef þið skerið Bahá á háls og úthellið blóði þessa fólks muni brennandi eldur Drottins slokkna? Guð forði því! Nei, orð Guðs yrði öllu heldur enn sigursælla og sól sannleikans opinberaðist í enn meiri ljóma. Brátt fer í hönd sá dagur að dómur tjóns og vonbrigða verður felldur yfir ykkur öllum. Gerðu hvaðeina sem í þínu valdi stendur. Ó Áqá Mírzá! Allt þetta óréttlæti, þessi fjandskapur, óvild og grimmilega kúgun er að okkar mati ekkert annað en suð í mýflugu. Þess vegna skeytum við engu um grimmd ykkar og harðýðgi. „Og þeir sem sýna rangsleitni munu brátt fá að vita hvað bíður þeirra.“ Vér virtum hvorki þig né stjórn Tyrkjaveldis viðlits þegar Vér komum til Konstantínópel. Þessi staðreynd ein ætti að vekja þig til umhugsunar um þann sannleika að Vér setjum traust okkar á Guð, mátt Hans og yfirráð, og ekkert annað. Allir konungar eru aðeins þý Hans og þú og allir þínir líkar eruð týndir í hafdjúpum tjóns og glötunar. Með tímanum munuð þið sjá það. Persíu verður steypt í glötun og stjórn landsins og þjóðin öll verða fyrir beisku mótlæti. Við höfum hins vegar varpað ljósi yfir það land og óskað þjóðinni eilífrar dýrðar. Þótt nú á dögum sé Persía lítilvæg í augum þjóða heimsins mun sá dagur koma að þessi voldugi málstaður færir þjóðinni mikinn heiður og virðingu alls heimsins.““ Í stuttu máli hélt Hin blessaða fegurð áfram að mæla svo alvöruþrungin orð. Sá maður fór á brott og kom aldrei aftur.
Lof sé Guði að ilmþrunginn andvari hefur borist yfir Konstantínópel og mun fylla það land moskusangan. Vinirnir verða að haga sér af mikilli festu, stöðugleika og visku og vera fullvissaðir. Mín einlæga von er að hver og einn þeirra verði sem skínandi ljós og að hinar guðlegu kenningar, sem upplýsa allt mannkyn og eru orsök friðar og rósemi heimsins, verði boðaðar af mikilli visku. Hafið ólgar og óðum fellur að. Ég sárbæni Hann tárfellandi að kvöldi og í dögun og bið um óþrotlega hjálp Hans og aðstoð handa ástvinum Drottins. Yfir þér hvíli Dýrð allra dýrða.
Skýringar
Tilvísun til Konstantínópel.