26
Hann er Guð.
Ó þú elskað afsprengi hans sem er umlukinn hafi guðlegrar fyrirgefningar! Langt er síðan ég skrifaði síðast. Ástæðan eru öll þau fjölmörgu störf sem ekki gefa mér minnsta ráðrúm og ofan á þau bætast raunir og erfiðleikar. Meðal annars er Abdu’l‑Bahá þessa dagana enn eitt sinn í fangelsi í ‘Akká vegna mikils uppnáms sem illgjarnir menn hafa komið til leiðar og langra bréfa þeirra, fullum skaðlegra ásakana gegn honum, sem þeir hafa sent til Konstantínópel auk annarra vélabragða sem þeir hafa gripið til og ekki er ráðlegt að nefna hér. Þeir sem eru fórnarlömb drambs og hégómadýrðar höfðu vonað að þessi ógæfa myndi aðeins bitna á ‘Abdu’l‑Bahá og gleymdu því að með gjörðum sínum varpa þeir sér sjálfum í afgrunn eilífra vonbrigða og eymdar og munu líka þurfa að þola fangavist.
Þessu atviki svipar í alla staði til þess sem Yaḥyá tók sér fyrir hendur. Hann ímyndaði sér líka að uppreisn hans myndi valda Hinni blessuðu fegurð tjóni og sárindum. Það var af þeim sökum sem hann sendi Siyyid Muḥammad til Konstantínópel og greip til óteljandi vélráða og pretta uns hann loks setti Bahá’u’lláh í alvarlega hættu. En þegar uppreisnareldurinn gaus upp, eyddi hann heimili Yaḥyá sjálfs. Hann var gerður útlægur frá Adríanópel, jafnvel á undan Hinni blessuðu fegurð. „Þeir fyrirgerðu bæði þessum heimi og þeim sem kemur, og vissulega er tjón þeirra augljóst.“
‘Abdu’l‑Bahá fagnar þessum erfiðleikum og þrengingum af takmarkalausri gleði því að eftir uppstigningu Abhá fegurðarinnar finna ástvinir Guðs hamingju í erfiðleikum og umbrotum og gleði í stöðugri þrengingu. Það er að segja, sjálft afgrunnið er þeim hæsti himinn og þjáningabeðurinn konunglegt hásæti. Fjötrar og hlekkir eru æðsta þrá þeirra og fangavist í keðjum og fótajárnum raunverulegt frelsi þeirra og uppspretta óviðjafnanlegrar gleði og unaðar.
Það er augljóst að gleði þessara heimilislausu förumanna er ekki að finna í tónlist, söng eða leik, heldur felst hún í langlundargeði í erfiðleikum, þolinmæði mitt í ógæfunni, aðskilnaði frá öllu sem skapað er, upphafningu orðs Guðs og dreifingu hins heilaga ilms. Vissulega er þetta yfirfljótandi miskunn og augljós hylli. Kveðjur eru þér sendar og hrós. Sendu afrit af þessu bréfi til allra nær og fjær.