23
Hann er hinn aldýrlegi.
Ó þú sem hefur smakkað sætleika hvers kyns þrenginga á vegi Guðs og risið upp í anda þínum, verund og innsta eðliskjarna til að þjóna málstað Hans og upphefja orð Hans! Yfir þér hvíli dýrð Guðs, hins aldýrlega.
Fyrir fáeinum dögum kom Áqá Siyyid Muḥammad-Riḍá, íbúi í Mázindarán, ásamt Mullá Ramaḍán – yfir þeim hvíli dýrð Guðs, hins aldýrlega – og annar maður í heimsókn til helgidómsins blessaða. Síðan þá höfum við átt saman fundi á degi og nóttu.
Dag einn meðan á dvölinni í Írak stóð, sagði Hin aldna fegurð – megi anda mínum, tilveru og innsta eðli verða fórnað fyrir jörðina sem göfgast hefur af fótsporum ástvina Hans – „Þar sem Fárs er heimaland Hins upphafna – Frumpunktsins – og tengist þeirri heilögu Veru, er það innileg ósk Mín að ást Guðs fari logandi eldi um þetta land. Skömmu síðar náði móðurbróðir Bábsins, hinn háttvirti Afnán, fundi Hans og lagði fram nokkrar spurningar. Þannig bar til að bréfið til móðurbróðurins, sem bar heitið „Kitáb-i-Íqán“, var opinberað. Fárs-hérað logaði þá af ást Guðs, ljós þekkingar rann upp og skein frá þeim sjónarhring. Margar sálir gengu inn í skuggann af orði Guðs og sumar þeirra, fullar heilögum fagnaði vegna örlætis Hans, hröðuðu sér inn á vettvang fórnarinnar og vörpuðu frá sér lífi sínu og hjarta.
Nú er ljóst af þessum orðum Bahá’u’lláh hver ómótstæðilegur vilji Hans og ósk er fyrir héraðið Mázindarán. Ég sver við heilaga verund Hans! Herskararnir á hæðum og íbúar Abhá-ríkisins bíða með eftirvæntingu þess tíma þegar haf ástar Guðs ólgar og svellur á því blessaða svæði sem tengist Hinni öldnu fegurð – megi lífi mínu verða fórnað ástvinum Hans – og logi þess elds sem brann í þyrnirunnanum læsir sig í hvert tré, hvort sem það er grænt eða visnað, sálir stígi fram sem lýsa upp himinhvolfið eins og skínandi stjörnur og í ljós komi verur sem upphefja orð Guðs eins og skýr tákn og fánar sem hafnir eru á loft.
Þess vegna verður þú að hugleiða svo ómetanlegan ávinning og grípa til allra ráða sem í þínu valdi standa til að birta óafturkallanlegt áform Guðs, beita þér að nýju og veita málstað Hans undursamlega þjónustu. Dýrð Guðs hvíli yfir þér.