22
Ó Drottinn, Guð minn! Þú sérð hvernig sonur Maḥmúds hefur titrað af ótta og örvæntingu í höndum grimmra óvina. Að honum þrengdi í ómælisvíðáttu heimsins því margvísleg ógæfa féll honum í hlut og mótlætið varð stöðugt alvarlegra. Yfir hann þyrmdi svo mjög í myrkri harðstjórnar og óréttlætis, grimmdar og ranglætis, að hann fékk að lokum ekki staðist atlögur erfiðleika og þrenginga og yfirgaf heimili sitt og flutti til landsins helga.
Ó Guð! Persía er orðin vettvangur allsherjar ógæfu og kúgunar. Fjandskapur hinna stríðandi hópa hefur kveikt elda ranglætis og uppreisnar um allt land. Engan er að finna sem ekki er særður á brjósti eftir örvaskotin eða meiddur á hjarta af spjótalögum. Engan er að finna sem ekki er hulinn dusti svívirðu og niðurlægingar sakir vaxandi ágreinings og illdeilna og vegna þess sem hendur hinna illu samsærismanna hafa gert. Sumir snúa sér að því sem rétt er, aðrir snúast á hæli, enn aðrir baka sér niðurlægingu og makleg málagjöld. Mennirnir eru sjálfum sér sundurþykkir og samansafn þeirra sem voru hjúpaðir blæjum dreifðist því þeir hlýddu ekki skýrum fyrirmælum Hans, daufheyrðust við ráðgjöf og vörpuðu sér í hafdjúp efasemda.
Ó Drottinn! Þrengingar hafa orðið hlutskipti allra þjóða. Enginn bægir þeim á brott nema Þú og enginn fyrirgefur syndir okkar nema Þú sjálfur. Ég bið Þig að vernda ástvini Þína og skýla Þínum útvöldu fyrir moldviðrinu sem þyrlað hefur verið upp í öllu landinu. Ég bið Þig sérstaklega að vernda þennan dygga þjón Þinn, Ja‘far, sem hefur beðið heitt til Þín og sárbænt Þig tárfellandi frammi fyrir augliti Þínu. Hann er bjargarlaus og hefur sett allt traust sitt og fullvissu á Þig. Ó Drottinn! Leys hann undan meinsemdum sínum og lát hann ekki drukkna í afgrunni þrauta eða ómælisdjúpi þrenginga. Veit honum margvíslega hylli Þína, afhjúpa fyrir honum hulda leynidóma Þína og varðveit hann fyrir öllum þrengingum og sorgum í virki óbrigðullar verndar Þinnar. Ó Guð! Opna fyrir honum hlið gleði og hamingju á þessari dásamlegu öld svo að sannleikur málstaðar Þíns megi streyma frá honum til hverrar ákafrar og þakklátrar sálar. Ó Drottinn! Gef að eini ásetningur hans og markmið verði að dreifa ljúfum ilmi Þínum meðal alls mannkyns og láta ljós Þitt skína um allan heim. Ó Þú miskunnsami Drottinn minn! Þú ert í sannleika Guð örlætis, almáttugur, aldýrlegur, sá sem ætíð fyrirgefur.
Ó kæri vinur minn! Bréf þitt með sorgarandvörpum þínum var lesið og olli mikilli hryggð. Þú hefur sannarlega lent í miklum erfiðleikum og þolað þungbærar raunir. En þetta mikla hörmungarár er hlutskipti allrar Persíu – nei, alls heimsins. Staðfesting skáldsins ber þetta með sér: „Enga þyrna er að finna sem ekki er roðnir blóði píslarvottanna.“
‘Abdu’l‑Bahá hefur einnig verið félagi þinn og þjáningabróðir í þessum efnum. Í París færði sérhver göfug sál hjarta okkar gleði, en miklir erfiðleikar steðjuðu að vegna árása þröngsýnna einstaklinga. Í London gerðu nokkrir prestar slíka atlögu að okkur að þeim verður ekki lýst. Ef þú lest Churchman veistu hvað gerst hefur. En ‘Abdu’l‑Bahá skeytir engu um raunir, erfiðleika eða mótlæti. Nei, öllu heldur telur hann mótlætið stundum vera náðargjöf. Í fjörutíu ár var fangaborgin ‘Akká honum himnesk paradís og hann leit á fyrstu ár fangavistarinnar, sem voru hin verstu, sem rósagarð.
Þú verður líka að vera félagi minn og yfirgefa ekki leikvanginn þrátt fyrir þjáningar og ógæfu. Þú átt ekki aðeins að láta af kvörtunum heldur sýna þakklæti. Dag einn í Bagdað mælti Hin blessaða fegurð – megi sál minni verða fórnað þjónum Hans – þessi helgu orð til mín:Talaðu annað hvort ekki meira um ástina eða láttu þér nægja það sem mælt hefur verið fyrir um.Þannig er boð Mitt og ákvörðun, lögmál Mitt og leið Mín.Á því andartaki skildi ‘Abdu’l‑Bahá til hvers var ætlast af honum.
Og nú vona ég að með takmarkalausri hylli Hans fari aftur í hönd blíðir dagar og ljúfir. Vertu ekki hryggur, mæð hvorki né mögla. „Lát af kveinstöfum og gæt hjarðarinnar.“ Ósk mín þér til handa er sú að fyrir hylli Hinnar blessuðu fegurðar megir þú finna ró í hjarta og sál. Yfir þér hvíli Dýrð allra dýrða.
Skýringar
Mírzá Ja‘far, sonur Maḥmúd-i-Sharí‘atmadár-i-Láhíjí.
Sbr. ljóð eftir Naẓírí Nishápúrí.
English Churchman, lúterskt dagblað, hafði birt greinar gegn trúnni, m.a. eina eftir séra Peter Z. Easton þann 20. september 1911.
Sbr. Qaṣídiy-i-Varqá’íyyih, kvæði sem Bahá’u’lláh opinberaði í Kúrdistan.