20
Hann er hinn aldýrlegi.
Ó þú þjónn hinnar helgu fótskarar! Bréf þitt, dagsett 23. maí 1921, hefur borist og efni þess tekið til athugunar. Þessir tveir aðilar kvarta látlaust og það sama gildir um söguburð þeirra. Þetta veldur ‘Abdu’l‑Bahá hryggð og hann hefur gert rækilegar ráðstafanir til þess að þú getir snúið aftur til hins helga húss og frelsað þannig vinina frá djúpri angist og örvæntingu og fyllt hjörtu þeirra gleði! Nú hefur ágreiningur risið og hann mun án efa leiða til þess að við missum húsið aftur úr okkar höndum.
Í stuttu máli, ó þú þjónn hinnar helgu fótskarar! ‘Abdu’l‑Bahá hefur krýnt höfuð þitt djásnfagurri kórónu, sem er umsjón með hinu helga húsi. Gildi þess er ekki enn komið í ljós að fullu en áður en langt um líður mun það öðlast mikla þýðingu. Þessi kóróna mun nægja þér og hundrað kynslóðum eftir þína daga. Hafðu því engin afskipti af öðrum málum.
Leitastu við í fyllstu ró og æðruleysi að helga þig þjónustu við húsið helga og samneyttu pílagrímunum af mikilli gæsku og ást til þess að þeir gleðjist og fái á þér velþóknun. Ekkert tekur fram slíkri þjónustu við hið helga hús og þú gætir ekki óskað þér neins meira. Í stuttu máli, leitastu við af hjarta og sál að þóknast öllum vinunum og fullnægja óskum þeirra.
Þú hefur verið vitni að hegðun og framferði ‘Abdu’l‑Bahá. Fylgdu þessu fordæmi. Haga þér samkvæmt áminningum Hinnar blessuðu fegurðar – megi lífi mínu verða fórnað ástvinum Hans. Hann sem heimurinn lék svo rangt samneytti öllum mönnum af fyllstu hógværð og auðmýkt. Allan þann tíma sem Hann dvaldi í Bagdað olli Hann ekki einu hjarta hryggð. Allir íbúar þeirrar borgar voru Honum þakklátir og skuldbundnir.
Þannig verðum við, sem erum þjónar fótskarar Hans, að feta í blessuð fótspor Hans. Þetta er sannarlega leiðin til árangurs. Þetta er sannarlega orsök farsældar. Færðu bræðrum þínum og ættingjum heilshugar kveðjur mínar. Yfir þér hvíli Dýrð allra dýrða.