17
Hann er Guð.
Ó þjónustumær Bahá! Bréf þitt hefur borist og efni þess ber vitni einlægni þinni í þjónustunni við Abhá-ríkið. Þú starfar vissulega af hjarta og sál og ég hef velþóknun á þér.
Ég lét þýða bókina sem þú skrifaðir um Qurratu’l-‘Ayn á arabísku. Þýðingin er einstaklega snjöll og ég hef lesið hana vandlega. Ef nauðsyn krefur get ég sent þér afrit á arabísku.
Að því er varðar atburðinn í Badasht er frásögnin rétt þótt hún sé ekki tæmandi. Betra væri að lýsa honum þannig að Qurratu’l-‘Ayn hafi verið í einum garði og Quddús í öðrum, meðan Hin blessaða fegurð hafði aðsetur í tjaldi sem var slegið upp á árbakka milli garðanna tveggja. Hin blessaða fegurð hafði áður sagt við Quddús og Qurratu’l-‘Ayn að málstaðinn ætti að kunngera til fullnustu. Daginn eftir veiktist Hann. Quddús gekk inn og sat í návist Hinnar blessuðu fegurðar og allir átrúendurnir voru samankomnir í tjaldinu. Skyndilega kom Qurratu’l-‘Ayn frá sínum garði. Hún hrópaði hátt og snjallt, gekk inn í tjaldið og tók sér sæti. „Lesið súru atburðarins sem koma skal,“ sagði Hin blessaða fegurð og súran var lesin í návist Hans. Þá brast á mikill glundroði: Sumir flúðu, aðrir grétu og kveinuðu hástöfum og enn aðrir komust í mikið uppnám og geðshræringu. Mullá Ismá‘íl skar sig á háls og samkoman í Badasht tvístraðist.
Í stuttu máli hefur þú vissulega sýnt mikla elju við ritun þessarar bókar. Ég bið Guð þess að andi viðleitni þinnar, þjónustu og fórnar aukist dag frá degi, staðfesta þín og stöðugleiki í málstaðnum styrkist svo að þú verðir sem tindrandi stjarna sem skín frá sjónarhring eilífðar.
Sendu vinunum í Persíu nokkur eintök af þessari bók í pósti, en aðeins eitt bindi í einu, því að ef þú sendir nokkur eintök í senn munu stjórnvöld gera þau upptæk.…
Skýringar
Tilvísun í leikritið Hetjur Guðs sem Laura Dreyfus Barney skrifaði og gaf út árið 1910.