16
Hann er Guð.
Ó Bashír-i-Iláhí! Bréf þitt var eins og ljóðrænn fjársjóður vegsömunar og lofgjörðar til Hinnar blessuðu fegurðar. Það hefur fært mikinn fögnuð og gleði. Hvert orð í bréfi þínu er tákn um fagnaðarríka tónlist: Eitt orð er sem lýra og lúta, annað er Davíðssálmur. Eitt orð er sem gígja og málmgjöll, annað tær ljóðlist og söngur. Þetta er fullkomin hljómkviða sem veldur því að hlustendur stökkva í gleði og algleymi. Í fjarska leikur þú tónverkið og hér fyllast elskendur Hans alsælu.
Guði sé lof, því bréf þitt ilmaði sem moskus og orð þín voru sæt sem hunang. Það bar vitni um einingu og samlyndi meðal vinanna sem allir eru virkir, fullir eldmóðs og aðdráttarafls, einingar og samhljóms þegar þeir upphefja orð Guðs, dreifa ilmi Hans og kenna málstað Hans, og engan mæðir sorg.
Þær fjórar blaðsíður sem þú færðir ‘Abdu’l-Bahá að gjöf með blessaðri rithönd Bábsins – megi lífi mínu verða fórnað Honum – hafa borist. Og þá hljómuðu veggirnir af söngnum: „Ó blessun, blessun veitist oss!“ meðan ‘Abdu’l‑Bahá hlýddi í afkima á þessi ljúfu sönglög. Vel að verki staðið! Vel að verki staðið fyrir að hafa glatt hjörtu okkar með svo dýrmætri gjöf.
Hvað varðar dvöl þína í Murgh-Mahallih í Shimírán í því skyni að breyta um loftslag þá er þetta sannarlega vitnisburður guðlegrar hylli. Sá staður er ekki aðeins heimkynni fugla, heldur hreiður Hins austræna fönix og híbýli Hins dulspaka fugls á fjallinu helga. Því að á þeim hreina og helgaða stað, tók Hin blessaða fegurð – megi lífi mínu verða fórnað ástvinum Hans – sér bústað í heilt sumar. Þar dvaldi Hann í garði Ḥájí-Báqir sem samanstendur af þremur stöllum með útsýni yfir stöðuvatn. Þetta var á fyrstu dögum málstaðarins þegar það hérað varð hásæti Drottins ríkisins. Stór steinpallur var reistur mitt í því vatni, tjald var á honum miðjum og garðar allt í kring. Um eitt hundrað og fimmtíu vinir komu saman og á nóttunni risu upp lofsöngvar til herskaranna á hæðum. Þetta voru sannarlega undursamlegir tímar. Hin blessaða fegurð minntist oft á þennan stað.
Og þakka nú Guði fyrir að hafa gefið þér slíkan dvalarbústað, þar sem þú hefur verið upptekinn af lofgjörð og minningu um hinn óviðjafnanlega Drottin í félagsskap vina, syngur af hjartans lyst og færir ástvinum Hans sælu og gleði. Yfir þér hvíli dýrð allra dýrða.
Skýringar
Murgh-Mahallih merkir „Heimkynni fuglanna“.