14
Hann er Guð.
Ó þú afkomandi þessara tveggja virtu og burtkölluðu sálna! Bréf þitt barst og færði djúpa gleði því nú hafa, lof sé Drottni, fréttir loks borist frá Núr-héraði og bréf er komið frá sál sem er afkomandi gamalla vina og ástkærra samlanda.
Guði sé lof! Birtan af ljósi Hans upplýsir austrið og ljúfur ilmur af ást Guðs berst um vestrið. Tyrkir og Persar, Afríkubúar og Ameríkumenn, Evrópubúar og Asíubúar hafa allir lifnað og endurlífgast af gagntakandi áhrifum málstaðar Guðs. Samt grúfir myrkur og sinnuleysi yfir heimalandi Hinnar blessuðu fegurðar þótt það beri nafnið Núr. Ókunnugir hafa gerst vinir en þeir sem áður voru vinir gerðust fráhverfir. Balál Eþíópi, Ṣuhayb hinn býsanski, ‘Addás Assýringur og Salmán hinn persneski voru allir innvígðir í leyndardómana. Og samt var Abú-Lahab, siyyid af Quraysh-ættinni, og frændur og ættingjar hins dáfagra Múhameðs sviptir birtunni frá ljósi Hans.
Í guðspjallinu segir að enginn af spámönnunum hafi verið heiðraður í heimalandi sínu. Þetta er að sönnu raunin. Kristur sagði einnig að margir muni koma úr austri og vestri og fái inngöngu í himnaríki á meðan börn Guðsríkis yfirgefi það. Og nú hefur orðstír málstaðar Guðs og tíðindin um komu Bahá’u’lláh vakið og bifað undirstöðum allra landsvæða en íbúar Núr-héraðs eru áfram afskiptir og utangátta. Gætið vel að þessu, ó þið sem hafið innsæi!
Þegar Hin blessaða fegurð kom frá Mázindarán til Teheran fór Hann um Núr-hérað og fyllti Ták og Dárkulá alsælu og eldmóði. Fjölmargir gerðust trúfastir fylgjendur Hans og þeim fjölgaði dag frá degi.… Í stuttu máli laðaðist mikill fjöldi að heilögum ilmi Guðs.
Ári síðar hélt Yaḥyá hinn óhreinlyndi til Núr. Á örskömmum tíma vakti hann þar uppnám og glundroða og þegar hann loks sá að hann var í vanda staddur og hætta steðjaði líklega að honum á því svæði yfirgaf hann vinina trúföstu og hélt á brott. Dulbúinn sem farandmunkur hélt hann til Gílán, Mázindarán og Kirmánsháh og gaf allar þessar hjálparvana sálir fjöldamorðingjum á vald. Hann snerist á hæli, flúði og fór í felur. Hann leiddi vinina í gildru og flestir þeirra liðu píslarvætti. Ástandið sem hann skapaði á þeim slóðum og hegðun hans varð til þess að eldur ástar Guðs kulnaði þar út og slokknaði með öllu. Hann hvatti jafnvel nokkra til að ráðast á Mírzá Khudávirdí sáluga. Ég man að þegar ég var barn í Núr sá ég Mírzá Khudávirdí kjökra hátt og segja: „Í fimmtíu ár hef ég þjónað þessari fjölskyldu – var það rétt af Mírzá Yaḥyá að hvetja Gul-Bábá til að berja mig opinberlega, móðga mig og vísa mér á brott?“ Í stuttu máli dapraðist ljósið í Núr vegna illverka hans og Míyánrúd sökk í deyfð og sinnuleysi.
Dag einn á fundi í Dárkulá, talaði Hin blessaða fegurð af slíkri mælsku og færði fram svo öflugar sannanir og vitnisburði að þegar Hann bjóst til farar flýttu fjórir fræðimannanna sér að ná í skóna Hans og færa Honum. Tveir þeirra voru Mullá ‘Abbás og Mullá Abu’l-Qásim, tengdasynir Mírzá Muḥammad-Taqíy-i-Mujtahid. Þannig var ástandið áður fyrr og síðan hefur þetta gerst.
Skýringar
Mírzá Yaḥyá. Vísun til og andstæða við „Yaḥyá hinn hreinlynda“, íslamska heitið á Jóhannesi skírara (sjá Kóraninn 3:39).