12
Hann er Guð.
Ó þjáðu vinir ‘Abdu’l‑Bahá! Í ljós hefur komið að varmenni eitt í þessum héruðum hefur veist bæði að ríkum og fátækum, áreitt og skaðað jafnt vini og óvini. Hann hefur farið ránshendi um heimili fjölda manns, látið greipar sópa og skattlagt alla. Hann þyrmdi engri sál og lét ekki eyri úr hendi sleppa. Þetta var sannarlega mikil ógæfa og hörmuleg þrenging, því hún olli bæði vinum og ókunnugum hrapallegu tapi og takmarkalausum þrengingum.
Hefði hann hegðað sér með öðrum hætti hefði honum kannski tekist að sleppa við refsinguna sem fylgir slíkri hegðun. Sá dagur nálgast að hann ratar sjálfur í ógæfu og verður sviptur öllu. Ekkert mun standa eftir af nafni hans og orðstír. Öllum þessum skaða má þó kenna illum fyrirætlunum og misgjörðum úreltra tákna, þetta reiðarslag dundi yfir vegna dóma sem felldir voru á grundvelli ógildra sannana. Þó fylgir enn hópur fáráðlinga slíkum mönnum sem kyssa hendur þeirra og klæðisfalda og brenna í eldi illsku og undirróðurs.
Í stuttu máli ættu ástvinir Guðs ekki að hryggjast eða harma alla þessa erfiðleika, því þegar þeim fellur slík mæða í skaut eru þeir þátttakendur í þjáningum Abhá fegurðarinnar. Þótt sá geislandi Ljósberi hafi verið öllum miskunnsamur, kærleiksríkur og fullur fyrirgefningar, kveiktu hinir fávísu slíka elda að ekkert stóð eftir af velsæmi þeirra og blygðunarkennd. Þess vegna var þessi Miðdepill fegurðar lagður í keðjur og hlekki. Hann þoldi iljastrýkingu og hvers kyns pyndingar dag og nótt. Hann var gerður heimilislaus, varð förumaður á fjöllum og sléttum, dæmdur landrækur, sendur í útlegð og varpað í prísund. Hann var innilokaður í fangelsi í tuttugu og fimm löng ár, kvalinn og auðmýktur. Vinirnir ættu því að þakka Guði fyrir að þeir hafa einnig þurft að þola rán og gripdeildir og gerðir að skotmörkum grimmdar og meinfýsi.
Grimmur skari, tólf þúsund manns, réðst á þorp Hinnar blessuðu fegurðar í Mázindarán. Þeir fóru ránshendi um allt af slíku vægðarleysi að ekkert stóð eftir af eignum eða varningi, þeir lögðu jafnvel hald á alla uppskeru þorpsbúanna. Þeir lögðu eld að hálminum, brenndu olíuna og myrtu fjölda saklausra. Síðan hlekkjuðu þeir bændurna saman, sendu þá til Teheran og vörpuðu þeim í fangelsi. Þeir særðu andlit og skáru skeggið af þeim mikla andans manni Mullá ‘Abdu’l-Fattáḥ og fóru með hann berfættan og í hlekkjum til Teheran. Þrátt fyrir hrumleika hans og háan aldur sýndu verðirnir honum enga miskunn. En jafnvel þótt hann var fótgangandi í hlekkjum og blóðið lagaði úr andliti hans, hóf þessi andi aðskilnaðar upp raust sína í bæn allt til síðasta andardráttar og þakkaði Drottni tákna fyrir að hafa verið gerður að fórnarlambi gripdeilda og lagður í fjötra á vegi Ástvinarins. Með skeggið litað blóði gekk hann alla leiðina og þegar hann kom í fangelsið í Teheran, fól hann Ástvini sínum sál sína og fórnaði sér fyrir Vininn ástríka. Geislandi af gleði lét hann lífið á vegi þess mikla Ljósbera. Hversu vel hefur skáldið ekki komist að orði:Sá geisli af sælu og algleymivar með honum að eilífu,líkt og Aḥmad, hinn dáði,dvelur ætíð með óviðjafnanlegum Drottni.
Í stuttu máli ættu ástvinir Guðs að þakka almiskunnsömum Drottni fyrir hlutdeild sína í þessum þrengingum og fyrir undraverða þolinmæði sína og umburðarlyndi. Fyrir óbrigðula náð Hans mun geislandi morgunn koma á eftir þessari niðdimmu nótt og björt dögun þessum dökku drungaskýjum. Þetta banvæna eitur mun víkja fyrir tærasta hunangi og græðismyrsl borin á þessa blóðugu und. Dýrð dýrða hvíli yfir þér!
Skýringar
„Tákn“ og „sannanir“ vísa til múslímsku klerkanna.