7
Hann er Guð.
Ó þjónn Bahá! Skilmerkileg bréf þín hafa borist og þótt ekki gefist andartaks hlé vegna anna hafa þau öll verið lesin af gaumgæfni. Íhuga bréfaskiptin við þær þúsundir sálna sem þarf að svara og hversu erfitt þetta verkefni er – enginn tími er aflögu. Þess vegna verður svarið stutt og þú munt án efa fyrirgefa það. Ég skrifa þér vegna þess að ég elska þig, annars væri óvinnandi vegur að skrifa eitt einasta orð.
Að kenna málstaðinn á þessum tíma er hornsteinninn að sjálfri undirstöðunni. Sá sem rís upp til að kenna nýtur náðarsamlegrar aðstoðar herskaranna á hæðum. Ekkert annað leiðir til nokkurs árangurs. Í dag skal grunnurinn lagður og þess vegna er þetta ekki dagur skipulagningar, umbóta eða endurreisnar. Fyrst verður að leggja grunninn og aðeins þá er hægt að skipuleggja og hagræða.
Að leggja grunninn felst eingöngu í því að útbreiða trú Guðs, dreifa hinum guðdómlega ilmi og skiljast frá öllu öðru en Honum. Gæt að því hvernig hæfur smiður verður sér fyrst úti um nauðsynlegt byggingarefni. Síðan vinnur hann jarðvinnuna, leggur grunninn og reisir undirstöðurnar. Aðeins síðar sinnir hann samsetningu og skipan, fyrirkomulagi og skreytingu. Ef við einbeittum okkur að skipulagi og fyrirkomulagi á þessum tíma myndi það tefja kennslu málstaðar Guðs og seinka dreifingu hins guðdómlega ilms.
Haf því ekki hugann við neitt nema kynningu og boðun málstaðarins í Shíráz-borg og umhverfi. Ef borgarbúar velja sjálfir að halda samráðsfund – það er að segja, mynda andlegt ráð samkvæmt kosningaferlinu – er það gott og blessað. Hins vegar ættum við ekki að vinna að þessum málum með virkum hætti eins og sakir standa, því þá yrðu sumir ánægðir, aðrir miður sín og enn aðrir kæmust í uppnám. Slíkar ákvarðanir skal láta eftir átrúendum í hverri borg. ‘Abdu’l‑Bahá, og allir sem ganga til liðs við hann og eiga hlutdeild í þjónustu hans við hina helgu fótskör ættu að einbeita sér að því að útbreiða ljúfa angan Guðs. Hefði ‘Abdu’l‑Bahá verið upptekinn af fyrrgreindum málum, hvernig hefði hann getað upplýst austrið og vestrið ljósi leiðsagnar?
Spurningum þínum verður svarað stuttlega. Hin aldna fegurð – megi lífi mínu verða fórnað ástvinum Hans – hitti ekki að ytri sýn Hans heilagleika, hinn upphafna – megi lífi mínu verða fórnað Honum.
Andinn trúfasti, Gabríel, heilagur andi og hinn máttugi vísa allir til eins og sama veruleika.
Kjörnir meðlimir andlegra ráða verða að vera hreinhjartaðir og helgaðir. Hvenær sem andlegt ráð er stofnað í borg þurfa kennarar málstaðarins að hafa samráð við það og starfa samkvæmt því sem það telur ráðlegt og skynsamlegt. Kennarinn ætti ekki að snerta veraldlega hluti, hvort sem um er að ræða framlög eða annað þess háttar. Fólkið á svæðinu hefur leyfi til að kjósa kennara sem fulltrúa í andlega ráðinu.…
Að lokum, Jináb-i-Shukúhí, snú baki við öllu nema Guði og lát heillast af ilmi hins guðdómlega. Yfirgef heimili þitt og þægindi, ver sem förumaður, reika um eyðimörk ástar Guðs og ástunda það eitt að dreifa ljúfum ilmi Hans. Ef þú leitar guðlegrar aðstoðar er þetta leiðin. Ef þú þráir staðfestingu er þetta vegurinn. Ég sver við Hina öldnu fegurð! Allt annað en þetta leiðir að lokum til augljóss taps. Þetta er sannleikur og allt annað er einber villa.